Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

5/1998 Melabraut

Mál nr. 5/1998.  Melabraut 21, Hafnarfirði.  Framkvæmdir stöðvaðar.

Ár 1998, miðvikudaginn 8. Apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík. Mættir voru Gunnar Jóhann Birgisson, hæstaréttarlögmaður, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 1998/05; 98030005

Ágreiningur milli húseigenda við Móabarð í Hafnarfirði og byggingaryfirvalda um samþykkt umsóknar um leyfi til að byggja 1.404 fermetra iðnaðarhúsnæði á lóðinni nr. 21 við Melabraut.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Kröfur aðila:  Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 09.02.1998, kærir Jónatan Sveinsson hrl., f.h. þinglesinna eigenda fasteignanna nr. 16, 18, og 20B við Móabarð í Hafnarfirði, ákvörðun byggingarnefndar Hafnarfjarðar frá 28.01.1998 um að samþykkja umsókn  Vélaverkstæðis H, Melabraut 23, um leyfi til að byggja 1.404 ferm. Iðnaðarhúsnæði á tveimur hæðum á lóðinni nr. 21 við Melabraut.

Þess er krafist að ákvörðun nefndarinnar um að afgreiða umrædda byggingarleyfis-umsókn skv. „eldri byggingar- og skipulagslögum“ verði úrskurðuð ólögmæt og lagt fyrir byggingarnefndina að taka erindið upp og afgreiða það í samræmi við núgildandi skipulags- og byggingarlög.

Þá er þess krafist að ákvörðun nefndarinnar um að leyfa umsækjenda að byggja 1.404 fermetra iðnaðarhús á tveimur hæðum á lóðinni nr. 21 við Melabraut verði felld úr gildi en í stað þess verði umsækjanda veittur kostur á því að sækja um leyfi til að byggja iðnaðarhús á lóðinni af þeirri stærð sem „deiliskipulag“ fyrir svæðið frá 1987 gerir ráð fyrir, eða sem næst 650 fermetra iðnaðarhús á tveimur hæðum.

Í bréfinu var þess jafnframt krafist, með vísan til 5. mgr. 8. gr. laga nr. 73/1997, að þegar í stað yrði kveðinn upp úrskurður um stöðvun framkvæmda á lóðinni, þar til ágreininig þessum hafi verið ráðið til lykta hjá nefndinni.

Um kæruheimild er vísað til 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Í bréfi Byggingarfulltrúans í Hafnarfirði, dags. 27.02.1997, kemur m.a. fram að nefndin hafi talið að fjalla beri um málið á grundvelli þágildandi byggingarlaga og reglugerða. Í bréfi byggingarfulltrúa er jafnframt áréttað að fyrir nefndinni hafi legið þinglýst kvöð um að lóðirnar Melabraut 21, 23 og 25 yrðu samnýttar og þ.a.l. verði sameiginleg nýting lóðanna 0.38.

Í bréfi lögmanns byggingarleyfishafa, Jóhannesar R. Jóhannssonar, hdl. Dags. 26.02.1998, er aðallega gerð sú krafa að öllum kröfum kærenda verði vísað frá nefndinni, en til vara er þess krafist að öllum kröfum kærenda verði hafnað og að ákvörðun byggingarnefndar verði staðfest.

Málsatvik:  Byggingarnefnd Hafnarfjarðar tók umsókn H f.h. vélaverkstæðis H, Melabraut 23, um leyfi til að byggja iðnaðarhús á tveimur hæðum á lóðinni nr. 21 við Melabraut skv. uppdráttum Sigurðar Þorleifssonar tæknifræðings fyrir á 5 fundum áður en ákveðið var þann 18.02.1998 að samþykkja umsókn hans.

Í fyrsta sinn fjallaði byggingarnefnd um málið þann 05.11.1997. Byggingarnefnd heimilaði þá jarðvegsframkvæmdir en beið með að taka afstöðu til umsóknarinnar að öðru leyti þar til fullnaðarteikningar lægju fyrir.

Í annað sinn fjallaði nefndin um umsóknina þann 19.11.1997. Byggingarnefnd hafnaði þá umsókninni og fól byggingarfulltrúa að koma ábendingum á framfæri við umsækjanda og hönnuð.

Í þrjiðja sinn var málið tekið fyrir hjá nefndinni þann 03.12.1997 skv. uppdráttum, dags. 14.11.1997. Svohljóðandi umsögn skipulagsstjóra Hafnarfjarðar, dags. 02.12.1997 lá fyrir á fundinum: „Tillaga að byggingu iðnaðarhúss að Melabraut 21 brýtur í bága við gildandi skipulag á svæðinu hvað varðar byggingarmagn og hæð og lengd húss auk þess að sýna fyrirkomulag á lóð sem getur ekki skilað því hlutverki sem henni er ætlað. Gildandi skipulagsákvæði setja of þröngar skorður á uppbyggingu þarna, enda er verið að ganga frá endurgerð skipulags um þessar mundir á bæjarskipulagi. Þessi tillaga lýsir hins vegar ofbyggðri lóð, sem mun skila óásjálegum rekstri vegna m.a. of lítils athafnarsvæðis utanhúss. Nýting umfram 0.5 á iðnaðarlóðum orsakar lélegan rekstur og óásjálegan, enda er sannreynt að lóðir með nýtingu framyfir þessa viðmiðun hætta að gegna hlutverki sínu.“ Niðurstaða nefndarinnar á fundinum var sú að Byggingarfulltrúa var falið að kynna umsækjanda umsögn skipulagsstjóra og eftirfarandi sjónarmið byggingarnefndar:
„1) vinna þarf að minnkun efri hæðar er snertir lengd og breydd og um leið hæð hússins.
2) breyta þarf útfærslu bílastæða við Suðurbraut (fyrirkomulag og fjöldi).
3) að framanlögðum breytingum og fyrirliggjandi teikningum mun byggingarnefnd taka afstöðu til þess hvort ástæða sé til grenndarkynningar.
4) umsagnir Brunamálast. ríkisins, Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðasvæðis og Vinnueftirlits ríkisins verða að liggja fyrir áður en til lokaafgreiðslu kemur.“

Umsækjandi brást við sjónarmiðum skipulagsstjóra bæjarins og kröfum byggingarnefndar meðal annars með því að gera samkomulag við lóðarhafa næstu lóða um samnýtingu lóða og breytingu á uppdráttum.

Í fjórða sinn var málið tekið fyrir þann 12.12.1997 og þá skv. uppdráttum, dags.
des ´97. Á þeim fundi var samþykkt að senda umsóknina í grenndarkynningu til húseigenda að Móabarði 16b, 18b, 20b og 22b.

Í fimmta sinn var málið til umfjöllunar hjá nefndinni þann 14.01.1998 skv. uppdráttum dags. des. ´97, en þá var umsóknin komin úr grenndarkynningu. Á fundinum var lagt fram bréf lögmanns kærenda þar sem eins og segir í fundargerðinni „er m.a. vitnað til skipulags- og byggingarlaga er tóku gildi 1. jan. 1998 og dregin í efa lagaleg afskipti byggingarnefndar af málinu.“ Síðan segir í fundargerðinni: „Á það skal bent að erindið kom fyrst fyrir 5. nóv. 1997 og síðan 12. des. 1997 og þá samþykkti byggingarnefnd að senda það í grenndarkynningu. Það eru sjónarmið byggingarnefndar að hin almenna regla sé sú að málið verði afgreitt skv. ákvæðum þeirra byggingar- og skipulagslaga er giltu til ársloka 1997 hvað varðar grenndarkynningu.“

Á fundi byggingarnefndar þann 28.01.1998 var umsóknin samþykkt skv. uppdráttum,  dags. des. ´97. Í rökstuðningi fyrir þeirri ákvörðun er m.a. vísað til álits bæjarlögmanns um að erindið eigi að afgreiða samkvæmt eldri byggingar- og skipulagslögum.

Þessa ákvörðun byggingarnefndar Hafnarfjarðar kærðu síðan kærendur eins og áður segir með bréfi Jónatans Sveinssonar hrl. dags. 09.02.1998.

Með bréfum nefndnarinnar, dags. 12.02.1998, var kærubréf kærenda ásamt fylgiskjölum kynnt byggingarnefnd Hafnarfjarðar og byggingarleyfishafa og þeim gefinn kostur á að koma athugasemdum og rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun. Jafnframt var sama dag óskað eftir umsögn Skipulagsstofnunar skv. e-lið 4. gr. laga nr. 73/1997. Umsögn Skipulagsstofnunar barst nefndinni í bréfi 20.02.1998, athugasemdir byggingarleyfishafa bárust nefndinni með bréfi lögmanns hans dags. 26.02.1998 og umsögn byggingarnefndar með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 27.02.1998. Kærendum var gefinn kostur á að tjá sig um framkonar athugasemdir með bréfi, dags. 27.02.1998, sem þeir gerðu í bréfi frá lögmanni þeirra, dags. 05.03.1998.

Þann 05.03.1998 kvað úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála upp svohljóðandi úrskurð: Frekari framkvæmdir á lóðinni nr. 21 við Melabraut skulu stöðvaðar þar til úrskurðarnefnd í skipulags- og byggingarmálum hefur kveðið upp úrskurð um hvort ákvörðun byggingarnefndar frá 28. janúar 1998 um að leyfa byggingu 1.404 fermetra iðnaðarhúss á lóðinni nr. 21 við Melabraut verði staðfest eða felld úr gildi.

Eftir  að úrskurðarnefnd hafði kveðið upp úrskurð um stöðvun framkvæmda barst bréf frá lögmanni byggingarleyfishafa, dags. 18.03.1998, þar sem þess er krafist að úrskurðarnefndin taki úrskurð sinn um stöðvun framkvæmda þegar í stað til endurskoðunar. Er þeirri kröfu til stuðnings vísað til 1. tl. 24.gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Rökstuðningur málsaðila:  röfur sínar rökstyðja kærendur með því að ákvörðun byggingarnefndar 28.01.1998, um að samþykkja umsóknina hafi verið ólögmæt. Kærendur séu í hópi þeirra sem eiga íbúðarhús í næsta nágrenni við Melabraut 21 og eigi þar með lögvarinn rétt á því að byggingaryfirvöld gangi ekki á hagsmuni þeirra með veitingu byggingarleyfa. Byggingarleyfið brjóti í bága við samþykkt deiliskipulag og að það hafi byggingarnefndarmönnum átt að vera ljóst þar sem um var að ræða leyfi til byggingar á stakri lóð í fullbyggðu hverfi og því lítið svigrúm til að víkja frá gildandi „deiliskipulagi“.

Byggingarnefnd hafi borið sig ranglega að við afgreiðslu umsóknarinnar. Henni hafi borið samkvæmt 1. sbr. 2. og 7. mgr. 43. greinar, sbr. 23. og 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, að vísa málinu til skipulagsnefndar áður en hún tók það til endanlegrar afgreiðslu.

Í bréfi byggingar fulltrúa, dags. 27.02.1998, segir m.a. að byggingarnefnd hafi talið, eftir að hafa ráðfært sig við bæjarlögmann, að þar sem umsóknin hafi fyrst komið til umfjöllunar í byggingarnefnd í nóvember 1997 bæri að afgreiða hana samkvæmt þágildandi byggingarlögum og byggingarreglugerð.

Fyrir fundi byggingarnefndar hafi legið samkomulag lóðarhafa lóðanna nr. 21, 23 og 25 við Melabraut þess efnis að lóðirnar yrðu samnýttar að því er varðar bílastæði og athafnarsvæði og þar af leiðandi yrði sameiginlega nýting lóðanna 0.38.

Með tilliti til jafnræðis samkvæmt stjórnsýslulögum nr. 37/1993 hafi byggingarnefnd látið taka saman á skipulagsuppdrætti af Hvaleyrarholti, dags. í júní 1986, hvar og þá hvernig sambærileg mál hafi í gegnum árin verið samþykkt í þessu iðnaðarhverfi af byggingar- og skipulagsnefnd.

Það kemur fram í bréfi byggingarfulltrúa að kærendur geri ekki athugasemd við hæð húsanna, sem ætla megi að sé eitt af aðalatriðum, sem taka beri tillit til, þegar byggt er í eða við gróin hverfi og að aðkoma að húsum kærenda sér ekki við sömu götu og aðkoma að Melabraut 21.

Í bréfi lögmanns byggingarleyfishafa segir m.a. að lög nr. 73/1997 hafi ekki að geyma ákvæði, sem taki á því, hvort og í hvaða tilvikum þeim skuli beitt um tilvik sem upp hafa komið fyrir gildistöku þeirra. Það sé meginregla samkævmt lögum nr. 73/1997, sem m.a. birtist í 8. gr. laganna, að stjórnsýslulögum nr. 37/1993 skuli beitt þeim til fyllingar. Í 35. Gr. þeirra laga komi fram meginregla um að meðferð mála skuli fara eftir eldri lögum hafi málsmeðferð hafist fyrir tíð gildistöku nýrra laga og að samræmi við þessa meginreglu sé það ríkjandi lagaskilaregla að við breytingu á réttarfarslögum skuli beita eldri lögum um þau dómsmál, sem höfðuð hafa verið í tíð eldri laga, en ólokið er þegar ný lög taki gildi.

Í bréfi lögmannsins er þess krafist að málinu verði vísað frá þar sem krafa kærenda sé óúrskurðarhæf. Byggingarnefnd hafi einungis átt tvo kosti við afgreiðslu erindis byggingarleyfishafans, þ.e. annað hvort að samþykkja umsóknina eða synja henni. Nefndina skorti hinsvegar allt vald til þess að endurhanna bygginguna eins og kröfugerð kærenda virðist byggja á.

Jafnframt er því haldið fram að óumdeilt sé að skipulagsuppdráttur að deiliskipulagi fyrir nefnt svæði hafi ekki hlotið þá meðferð, sem þágildandi skipulagslög nr. 19/1964 kváðu á um varðandi gerð deiliskipulags, samþykki þess að staðfestingu svo og varðandi birtingu, sbr. einkum 17. og 18. gr. nefndra laga, sbr. nú 13. gr. laga nr. 73/1997, sbr. og grein 4.4 í skipulagsreglugerð nr. 318/1985. Það sé því fráleitt að byggingaryfirvöld í Hafnarfirði séu bundin við hið svonefnda deiliskipulag frá 1986 og því komi ekki til skoðunar hvort sú bygging sem reisa á rúmist innan gildandi deiliskipulags.

Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. laga nr. 73/1997 geti sveitarstjórn veitt heimild til framkvæmda í þegar byggðum hverfum, þar sem deiliskipulag liggji ekki fyrir, að undangenginni meðferð fyrir skipulagsnefnd sveitarfélagsins og grenndarkynningu sbr. 7. gr. 43. gr. sömu laga. Ráða megi að fullnægjandi grenndarkynning hafi farið fram þrátt fyrir að eldra réttarástand geri ekki jafnríkar kröfur til slíkrar kynningar o gnúgildandi lög.

Í síðara bréfi lögmanns kærenda, dags. 05.03.1998, er því m.a. mótmælt að ógildingarkrafa kærenda sé óúrskurðarhæf. Þar segir jafnframt um þetta atriði, að til þess að efna ekki til ágreinings um sjálfa kröfugerðina þá sé fellt niður umdeilt viðhengi við ógildingarkröfuna þannig að eftir standi ein og sér krafan um ógildingu byggingarleyfisins. Í bréfi lögmannsins eru jafnframt ítrekaðar meginröksemdir kærenda í málinu.

Niðurstaða:  Athugasemdir verða ekki gerðar við málsmeðferð byggingarnefndar á byggingarleyfisumsókninni. En samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem tóku gildi um sl. áramót, skulu byggingarleyfi vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag. Samhljóða ákvæði var í eldri byggingarlögum nr. 54/1978, sbr. 2. mgr. 9. gr.

Uppdrættir þeir, sem samþykktir voru á fundi byggingarnefndar 28.01.1998 að 1.404 fermetra húsi á tveimur hæðum á lóðinni nr. 21 við Melabraut, sem er 2065 fermetrar að stærð, uppfylla ekki framangreind skilyrði. Nýtingarhlutfall á lóðinni er of hátt eða 60% hærra en segir í greinargerð með staðfestu aðalskipulagi Hafnarfjarðar 1995-2015 frá 23.12.1997, sem ákveður hámarksnýtingu 0.4 á einstökum lóðum. Nýtingarhlutfalli þessu hefur ekki verið breytt. Einhliða samkomulag lóðarhafa lóðanna nr. 21, 23 og 25, um að þinglýsa kvöð á lóðirnar um að samnýta bílastæði, opin svæði og aðkomuleiðir og um að lóðarmörk verði ekki girt eða afmörkuð á annan hátt breytir í engu leyfilegu byggingarmagni á hverri einstakri lóð samkvæmt gildandi aðalskipulagi.

Hvort sem litið er svo á að deiliskipulag af svæðinu sé almennt í gildi eða ekki er ljóst að deiliskipulag, sem sveitarstjórn hefur samþykkt, bindur hendur sveitarstjórnarinnar sjálfrar með sama hætti og aðrar löglegar ákvarðanir, þar til skipulagið er fellt úr gildi eða annað deiliskipulag samþykkt. Samkvæmt samþykktum uppdráttum brýtur fyrirhugað hús einnig í bága við deiliskipulagsuppdrátt iðnaðarsvæðis á Hvaleyrarholti frá júní 1986, að því leyti að það er að grunnmáli 10 metrum lengra og 10 metrum breiðara en gert er ráð fyrir á byggingarreit lóðarinnar. Samkvæmt skjölum málsins var fyrrgreindur deiliskipulagsuppdráttur samþykktur á fundi bæjarstjórnar þann 09.09.1986 og kynntur hagsmunaaðilum og nágrönnum 10. sama mánaðar.

Samantekt um sambærileg mál sem samþykkt hafa verið, sem brjóta að einhverju leyti gegn þessum samþykkta skipulagsuppdrætti, af byggingar- og skipulagsnefnd í þessu iðnaðarhverfi hefur eðli málsins samkvæmt ekki áhrif á úrlausn þessa máls.

Vegna þessarar niðurstöðu, kemur ekki til skoðunar hvort verða eigi við þeirri kröfu byggingarleyfishafa um að úrskurður nefndarinnar frá 05.03.1998 um stöðvun framkvæmda verði endurskoðunar.´

Úrskurðarorð:

Ákvörðun byggingarnefndar Hafnarfjarðar frá 28.01.1998 og bæjarstjórnar þann 03.02.1998 um að samþykkja umsókn H f.h. Vélaverkstæðis H, Melabraut 23, um leyfi til að byggja 1.404 fermetra iðnaðarhús á tveimur hæðum á lóðinni nr. 21 við Melabraut, er felld úr gildi.