Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

2/1998 Laugavegur

Ár 1998,  miðvikudaginn 25. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík. Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson hæstaréttarlögmaður, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið málið nr. 2/1998:

Ágreiningur milli húseigenda að Laugavegi 53a og Hverfisgötu 70 í Reykjavík og skipulagsyfirvalda vegna byggingaráforma á lóðinni nr. 53b.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til umhverfisráðuneytisins, dags.15. janúar 1998, kæra eigendur, Laugavegi 53a og eigendur, Hverfisgötu 70, ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur frá 16.12. 1997 um að staðfesta tillögu skipulags- og umferðarnefndar um byggingaráform á lóðinni nr. 53b við Laugaveg, sem samþykkt var á fundi nefndarinnar þann 15.12. 1997.

Þess er krafist að framangreind ákvörðun verði felld úr gildi.

Um kæruheimild er vísað til 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Kröfu sína rökstyðja kærendur m. a. með því að ef byggt yrði á lóðinni samkvæmt tillögunni myndi aukið skuggavarp valda umtalsverðu tjóni á umhverfi þeirra og eignum og aukin umferð vegna fyrirhugaðs göngustígs og bílageymslu valda verulegum óþægindum.

Með nýjum skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997, sem tóku gildi þann 1. janúar 1998, voru byggingarlög nr. 54/1978 felld úr gildi. Samkvæmt 8. gr. hinna nýju laga, sbr. 2. gr. reglugerðar um úrskurðarnefnd nr. 621/1997, fjallar úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarlaga um ágreining um skipulags- og byggingarmál.
Umhverfisráðuneytið framsendi erindi þetta til úrskurðarnefndar þann 22. janúar 1998.

Framlögð gögn:  Fyrir úrskurðarnefnd hafa verið lögð eftirtalin gögn:

Bréf íbúa Hverfisgötu 70 til skipulagsnefndar, dags. 8.12. 1997.
Bréf íbúa Laugavegar 53a til skipulagsnefndar, dags. 9.10. 1997.
Útskrift úr gerðabók skipulags- og umferðarnefndar, frá 27.10 1997.
Bréf íbúa Laugavegar 53a til skipulagsnefndar, dags. 9.11. 1997.
Útskrift úr gerðabók skipulags- og umferðarnefndar, frá 10.11. 1997.
Bréf íbúa Laugavegar 53a til skipulagsnefndar, dags. 23.11. 1997
Greinargerð Guðrúnar Jónsdóttur um Laugaveg 53b, dags. 24.11. 1997.
Bréf íbúa Laugavegar 53a til skipulagsnefndar, dags. 8.12. 1997.
Útskrift úr gerðabók skipulags- og byggingarnefndar, frá 8.12. 1997.
Bréf íbúa Laugavegar 53a til skipulags- og umferðarnefndar, dags. 12.12. 1997 og fylgirit.
Bréf íbúa Hverfisgötu 70 til skipulags- og umferðarnefndar, dags. 13.12. 1997.
Útskrift úr gerðabók skipulags- og umferðarnefndar frá 15.12.1997.
Bréf íbúa Laugavegar 53a til skipulags- og umferðarnefndar, dags. 4.1. 1998.
Bréf íbúa Hverfisgötu 70 til skipulags- og umferðarnefndar, dags. 4.1. 1998.
Tillaga kynnt á vegum borgarskipulags, 17.9. – 9.10. 1997.
Tillaga samþykkt af skipulags- og umferðarnefnd, 15.12. 1997.

Þá hefur úrskurðarnefnd leitað umsagnar og álits málsaðila og Skipulagsstofnunar og hafa m. a. þessar umsagnir og álit borist nefndinni:

Athugsemdir byggingaraðila og lóðareiganda , dags. 19.2.1998.
Umsögn skipulagsstofnunar, dags. 27.2. 1998.
Bréf Ágústs Jónssonar skrifstofustjóra borgarverkfræðings, dags. 27.2. 1998.
Bréf Borgarskipulags Reykjavíkur, dags.12.3. 1998.

Niðurstaða:  Í bókun skipulags- og umferðarnefndar Reykjavíkur frá 15. desember 1997 sem samþykkt var á fundi borgarráðs 16. sama mánaðar segir m.a.:
„Skipulags- og umferðarnefnd samþykkir framlagðar tillögur merktar A9, og A10 með eftirfarandi athugasemdum: Stækkun 3. hæðar framhússins verði ekki meiri en 60 m2 miðað við uppdrátt merktan A7; ekki verði settir kvistir á ris framhúss; gert verði ráð fyrir að lokunarmöguleikum á gönguleið milli Laugavegs og Hverfisgötu. Borgarskipulagi er falið að fara yfir tillögur og athugasemdir sem borist hafa frá nágrönnum, og ræða við bréfritara.“

Ljóst er af orðalagi framangreindrar bókunar að í henni felst ekki endanleg tillaga eða samþykkt á byggingaráformum á lóðinni nr. 53b við Laugaveg, heldur einungis að skipulags- og umferðarnefnd geti sætt sig við framlagðar tillögur ef gerðar verði á þeim tilteknar breytingar í einni tillögu og að leiðbeina byggingaraðila um hvernig æskilegt væri að vinna þá tillögu.

Þar sem endanleg ákvörðun hefur ekki verið tekin um byggingaráform á lóðinni nr. 53b við Laugaveg og með vísun til 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir úrskurðarnefnd rétt að vísa kröfu kærenda frá nefndinni.

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda, um að staðfesting borgarráðs þann 16. desember 1997 á samþykkt skipulags- og umferðarnefndar vegna byggingaráforma við Laugaveg 53b frá 15. sama mánaðar verði felld úr gildi, er vísað frá úrskurðarnefnd.