Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

54/2001 Hraunbær

Með

Ár 2003, fimmtudaginn 13. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 54/2001, kæra eiganda verslunarhúsnæðis að Hraunbæ 102, Reykjavík, á samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 23. október 2001 um breytingu á deiliskipulagsreit á móts við Hraunbæ 102-120 er fólst í breytingu á notkun lóðar, á þann veg að í stað heilsugæslustöðvar yrði heimiluð bygging húss undir verslunar- og þjónustustarfsemi.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 23. nóvember 2001, er barst nefndinni hinn 26. sama mánaðar, kærir Reynir Karlsson hrl., fyrir hönd Saxhóls ehf., kt. 420987-1109, Nóatúni 17, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 23. október 2001, að samþykkja breytingu á deiliskipulagsreit á móts við Hraunbæ 102-120, er fólst í breytingu á þann veg að í stað heilsugæslustöðvar yrði heimiluð bygging húss undir verslunar- og þjónustustarfsemi.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða deiliskipulagsbreyting verði felld úr gildi.

Málavextir:  Hinn 8. ágúst 2001 var auglýst tillaga að breytingu á deiliskipulagi reits sem afmarkast af Hraunbæ í suður, Bæjarbraut í vestur og Bæjarhálsi í norður.  Í tillögunni fólst að notkun lóðar merktri C yrði breytt á þann veg að í stað ráðgerðar heilsugæslustöðvar yrði heimilað að reisa þar hús undir verslunar- og þjónustustarfsemi.  Í auglýsingunni kom fram að tillagan væri til kynningar til 5. september 2001 en frestur veittur til 12. september 2001 til að koma að athugasemdum og ábendingum í tilefni af fyrirhugaðri deiliskipulagsbreytingu.  Athugasemdir voru gerðar við skipulagstillöguna, m.a. af hálfu kæranda, en tillagan var samþykkt óbreytt í skipulags- og byggingarnefnd hinn 3. október 2001 og sú ákvörðun staðfest í borgarráði hinn 23. október 2001.  Kæranda voru tilkynnt málalok með bréfi, dags. 24. október 2001, og fylgdu því bréfi svör Borgarskipulags við framkomnum athugasemdum, dags. sama dag.

Málsrök kæranda:  Kærandi byggir ógildingarkröfu sína á því að við meðferð skipulagstillögunnar hafi ekki verið farið að lögum.  Við auglýsingu og kynningu tillögunnar hafi aðeins verið gefinn 5 vikna frestur til að koma að athugasemdum.  Samkvæmt 1. mgr. 25. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 18. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 hafi hins vegar borið að veita 6 vikna frest til athugasemda frá birtingu auglýsingar um tillöguna.  Samkvæmt orðanna hljóðan sé sá frestur lágmarksfrestur sem sé settur til þess að vernda hagsmuni borgaranna og verði ekki vikist undan því að virða þann frest.  Þá sé á það bent að í umræddu tilviki hafi fresturinn byrjað að líða hinn 8. ágúst 2001 þegar fjöldi fólks hafi verið í sumarfríi og því þeim mun mikilvægara að víkja ekki frá hinum lögboðna fresti.  Færa megi að því rök, að vegna styttri frests hafi aðilar, sem hagsmuna eigi að gæta í málinu, ekki náð að koma að athugasemdum við deiliskipulagstillöguna.  Kærandi hefði viljað undirbúa athugasemdir sínar og mótmæli betur, en ekki hafi unnist tími til þess vegna hins stutta frests.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Rétt sé hjá kæranda að kynningartími hinnar umdeildu tillögu hafi verið of stuttur.  Hafi deiliskipulagstillagan því verið auglýst að nýju hinn 19. desember 2001 með athugasemdafresti til 30. janúar 2002.  Engar athugasemdir við tillöguna hafi þá borist og hafi hún hlotið samþykki borgarráðs hinn 19. febrúar 2002 og hafi hin kærða samþykkt þar með fallið úr gildi.  Skipulagsstofnun hafi ekki gert athugasemdir við að gildistaka deiliskipulagstillögunnar yrði auglýst í B-deild Stjórnartíðinda og svo hafi verið gert hinn 17. maí 2002.  Af þessum ástæðum beri að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Niðurstaða:  Fyrir liggur, að vegna ágalla við málsmeðferð hinnar kærðu deiliskipulagstillögu, var hún auglýst og kynnt að nýju með lögboðnum fresti til að koma á framfæri athugasemdum við tillöguna.  Með staðfestingu borgarráðs hinn 19. febrúar 2002 á skipulagstillögunni féll úr gildi hin kærða samþykkt og hefur kærandi því ekki lögvarða hagsmuni af því að fá úrskurð um gildi þeirrar stjórnvaldsákvörðunar.  Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

______________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________               _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                          Ingibjörg Ingvadóttir

52/2003 Garðastræti

Með

Ár 2003, fimmtudaginn 13. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 52/2003, kæra eigenda fasteignarinnar að Garðastræti 39, Reykjavík, á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 26. ágúst 2003 um að veita byggingarleyfi fyrir tennisvelli á lóðinni nr. 41 við Garðastræti.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 8. september 2003, er barst nefndinni hinn 9. sama mánaðar, kærir Bergur Guðnason hdl., f.h. eigenda fasteignarinnar að Garðastræti 39, Reykjavík, þeirra Ö, Á, K og C þá ákvörðun byggingarfullrúans í Reykjavík frá 26. ágúst 2003 að veita byggingarleyfi fyrir tennisvelli á lóðinni nr. 41 við Garðastræti.

Hin kærða ákvörðun var samþykkt í skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkur hinn 27. ágúst 2003 og í borgarstjórn hinn 4. september s.á.

Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi ásamt því að framkvæmdir verði stöðvaðar.

Málavextir:  Eigandi Garðastrætis 41, kínverska sendiráðið, lagði fram fyrirspurn til byggingarfulltrúans í Reykjavík þess efnis hvort þörf væri byggingarleyfis vegna gerðar tennisvallar á lóðinni.  Í bréfi, dags. 26. mars 2003, taldi byggingarfulltrúi svo ekki vera þar sem landhæð yrði nær óbreytt, völlurinn yrði hvorki upphitaður né komið þar fyrir niðurföllum.  Þá yrðu heldur ekki sett upp ljósamöstur eða girðing sem yrði yfir 1,8 m á hæð.  Framkvæmdir hófust en þá fóru kærendur fram á það við embætti byggingarfulltrúa að þær yrðu stöðvaðar og með vísan til umfangs framkvæmdanna varð byggingarfulltrúi við þeirri kröfu.  Í kjölfarið óskaði húseigandinn að Garðarstræti 41 eftir því að gefið yrði út byggingarleyfi vegna framkvæmdanna.  Hinn 26. ágúst 2003 samþykkti byggingarfulltrúi útgáfu byggingarleyfis vegna tennisvallarins og var embættisafgreiðsla hans staðfest á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 27. ágúst sama ár.

Málsrök kærenda:  Kærendur eru verulega ósáttir við framkvæmdir á lóðinni að Garðastræti 41.  Þeir halda því fram að miklu magni af fyllingarefni hafi verið ekið inn á lóðina og hún jöfnuð út til norðurs, þ.e. að lóðarmörkum Garðastrætis 39.  Hafi fyllingarefnið verið sett upp að millivegg lóðarinnar og lóðar kærenda.  Leiði þetta til þess að nú sé horft niður í garðinn hjá kærendum.  Þá hafi byggingarleyfishafinn rifið og hent áratuga gömlum trjágróðri, sem áður hafi prýtt lóðina.

Kærendur halda því fram að ein af höfuðástæðum þess að þeir hafi kært umrædda framkvæmd sé sú, að framkoma byggingarleyfishafa gagnvart þeim hafi einkennst af yfirgangi, væntanlega í skjóli úrlendisréttar, sem leyfishafi telji sig varinn af.  Aftur á móti sé skýrt tekið fram í 41. gr. Vínarsamningsins um stjórnmálasamband frá 18. apríl 1961 að sendimönnunum beri að virða lög og reglur móttökuríkisins, þó þannig að forréttindi þeirra og friðhelgi skerðist ekki.  Kærendur álíta að bygging tennisvallar, sem sé óþekkt með öllu hérlendis inni í grónu og gömlu íbúðahverfi, hafi ekkert með friðhelgi og forréttindi erlendra sendimanna að gera.  Sú framkvæmd hafi heldur ekki nein áhrif á starfsemi sendiráðs Kína hér á landi. 

Kærendur benda á slysahættu sem fylgt geti tennisiðkun því tennisboltar séu mjög harðir viðkomu.  Atvinnumenn nái allt að 200 kílómetra hraða á tennisbolta í upphafshöggum sínum.  Það sé m.a. af þessari ástæðu sem tennisvellir erlendis, sem séu inni í íbúða- eða hótelbyggðum, hafi 5-10 metra hátt net umhverfis sig.  Í því tilfelli sem hér sé til úrlausnar sé gert ráð fyrir því að netið verði 180 sentimetrar sem sé hvergi nægjanlegt til að koma í veg fyrir slysahættu. 

Kærendur halda því fram að tennisleik fylgi umtalsverður hávaði.  Hann stafi af tíðni högga og hörku boltanna, sem notaðir séu í leiknum.  Þó ekki væri nema af þessari ástæðu sé ljóst að nýting íbúðarlóðar inni í friðsælu hverfi til tennisleiks sé fráleit.  Nýting vallarins verði væntanlega að sumri til á þeim tíma, sem nágrannar þeirra nýta sínar lóðir hvað mest. 

Kærendur halda því og fram að framkvæmdin kunni að hafa áhrif þegar þeir hyggist selja eignir sínar en það fari þó eftir því hversu mikil tennisiðkunin verði.  Megintilgangur úrlendisréttarins felist ekki í því að erindrekarnir geti í skjóli hans valdið þegnum móttökuríkisins fjárhagstjóni með því sem falli undir tómstundaiðju þeirra en ekki skyldustörf.

Kröfu sína um tafarlausa stöðvun framkvæmda styðja kærendur þeim rökum að byggingarleyfishafinn hafi svo einbeittan vilja til að ljúka framkvæmdum, að hann hafi ekki látið deigan síga við framkvæmdina þrátt fyrir að honum og arkitektum hans sé fullkunnugt um megna óánægju kærenda.  Nú sé verið að leggja gervigras á lóðina, teikna útlínur vallarins o.s.frv.

Þá telja kærendur að úrskurður úrskurðarnefndarinnar nr. 10/2002, sem fjallað hafi um byggingu tengibyggingar á lóð bandaríska sendiráðsins milli tveggja húseigna í eigu þess, hafi ekkert fordæmisgildi í þessu kærumáli.  Þessi skoðun byggist á því, að það mál hafi haft beina þýðingu fyrir daglega starfsemi sendiráðsins og hafi niðurstaðan (frávísun) verið eðlileg.  Aftur á móti fjalli þessi kæra um alls óskyldan hlut því tómstundaiðja starfsmanna byggingarleyfishafa falli ekki undir Vínarsáttmálann um stjórnmálasamband ríkja.

Málsrök byggingarleyfishafa:  Byggingarleyfishafi krefst frávísunar málsins og bendir á að framkvæmdin sé alfarið innan lóðar Viðskiptaskrifstofu Kína, sem sé hluti sendiráðs Kína.  Samkvæmt 22. gr. Vínarsamningsins um stjórnmálasamband frá 18. apríl 1961, sem Ísland sé aðili að, sbr. 1. gr. laga nr. 16/1971, njóti sendirráðssvæði friðhelgi og sé undanþegið framkvæmdavaldslögsögu móttökuríkis samkvæmt 31. gr. samningsins.  Samkvæmt 41. gr. sama samnings sé það aftur á móti skylda allra þeirra sem njóti forréttinda og friðhelgi að virða lög og reglur móttökuríkisins, en þó þannig að forréttindi og friðhelgi skerðist ekki.  Í samræmi við þær skyldur hafi verið sótt um leyfi til gerðar tennisvallarins, svo lögmæti framkvæmdarinnar yrði ekki dregið í efa. 

Með vísan til reglna úrlendisréttarins hafi úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála, sem handhafi framkvæmdavalds, ekki lögsögu um rétt og skyldur sendiráðs Kína þar sem slíkum ágreiningi verði einungis ráðið til lykta í samræmi við reglur þjóðarréttarins um stjórnmálasamband. 

Verði ekki fallist á frávísun á grundvelli framangreinds krefst byggingarleyfishafi frávísunar þar sem kærendur skorti lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins og eigi þar af leiðandi ekki aðild að málinu, sbr. 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Byggingarleyfishafa hafi verið veitt leyfi til gerðar tennisvallar á lóðinni.  Ekki verði sé að það varði hagsmuni íbúa Garðastrætis nr. 39 þannig að þeir teljist eiga einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta við úrlausn málsins.  Því sé hafnað að kærendur eigi aðildarstöðu og því beri að vísa málinu frá.

Verði kröfur byggingarleyfishafa um frávísun ekki teknar til greina er þess krafist að úrskurðarnefndin hafni kröfum kærenda.  Leitast hafi verið við að fara í einu og öllu eftir kröfum byggingaryfirvalda og tennisvöllurinn verði eingöngu notaður til tennisiðkunar í frístundum en ekki sé um eiginlegan íþróttavöll að ræða.  Því eigi athugasemdir kærenda um slysahættu og hávaðamengun ekki við.

Byggingarleyfishafinn bendir á að í upphafi hönnunarferlis varðandi útfærslu girðingar umhverfis völlinn hafi verið haft samband við nágranna og hafi all margir þeirra samþykkt að hún yrði sett upp á lóðarmörkum.  Þá hafi deildarstjóri Garðyrkjudeildar borgarinnar ekki lagst gegn því að tré á lóðinni yrðu fjarlægð.

Niðurstaða:  Í máli þessu kröfðust kærendur þess að framkvæmdir við gerð umrædds tennisvallar yrðu stöðvaðar.  Með hliðsjón af eðli umræddra framkvæmda og því að þeim var að mestu lokið, svo og með tilliti til líklegrar niðurstöðu málsins, þóttu ekki efni til að taka þá kröfu sérstaklega til meðferðar.  Málið er hins vegar nú tekið í heild til efnislegrar úrlausnar.

Hið umdeilda byggingarleyfi varðar framkvæmdir á lóðinni nr. 41 við Garðarstæti, en eins og að framan hefur verið rakið er Viðskiptaskrifstofa kínverska sendiráðsins þar til húsa.  Samkvæmt 22. gr. Vínarsamningsins um stjórnmálasamband frá 18. apríl 1961, sem Ísland er aðili að, sbr. 1. gr. laga nr. 16/1971, nýtur sendiráðssvæðið friðhelgi, en jafnframt njóta sendierindrekar friðhelgi og eru undanþegnir framkvæmdavaldslögsögu móttökuríkis samkvæmt 31. gr. samningsins.  Samkvæmt 41. gr. er það aftur á móti skylda allra þeirra, sem njóta forréttinda og friðhelgi, að virða lög og reglur móttökuríkisins, en þó þannig að forréttindi þeirra eða friðhelgi skerðist eigi.  Í samræmi við þessa skyldu óskaði sendiráð Kína eftir byggingarleyfi vegna gerðar tennisvallar á lóðinni og var fallist á umsóknina af borgaryfirvöldum.  Er það sú stjórnvaldsákvörðun sem kærð er til úrskurðarnefndarinnar í máli þessu.

Þrátt fyrir að það sé lögbundið hlutverk úrskurðarnefndarinnar að endurskoða ákvarðanir sveitarstjórna um skipulags- og byggingarmál, sem undir hana eru bornar með stjórnsýslukærum, leiðir af 22. og 31. gr. áðurgreinds þjóðréttarsamnings að úrskurðarnefndin hefur ekki, sem handhafi framkvæmdavalds, lögsögu um rétt eða skyldur sendiráðs Kína í máli þessu, heldur verður slíkum ágreiningi einungis ráðið til lykta í samræmi við reglur þjóðaréttarins um stjórnmálasamband.  Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Ingibjörg Ingvadóttir

66/2002 Garðastræti

Með

Ár 2003, fimmtudaginn 13. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 66/2002, kæra íbúa að Garðastræti 43, Reykjavík á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 23. október 2002 um breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar að Garðastræti 41.

Í málinu er nú kveðin upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 29. nóvember 2002, er barst nefndinni sama dag, kæra E, Á, U, D og K, eigendur og leigjendur fasteignarinnar að Garðastræti 43, Reykjavík, ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 23. október 2002 um breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar nr. 41 við Garðastræti . 

Hin kærða ákvörðun var samþykkt í borgarráði hinn 29. október 2002. 

Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir:  Með bréfi, dags. 3. september 2002, óskaði Andrúm arkitektar ehf., f.h. kínverska sendiráðsins á Íslandi, eftir því við skipulags- og byggingaryfirvöld Reykjavíkur að deiliskipulagi lóðarinnar nr. 41 við Garðastræti yrði breytt, þannig að heimilað yrði að byggja bílskúr á lóðinni.

Beiðnin var grenndarkynnt frá 9. september 2002 til 7. október s.á. og gerðu kærendur athugasemdir við framkomna tillögu er lutu að því að húsið væri á svæði þar sem húsum, samkvæmt skipulagi, skyldi raskað sem minnst og þá sérstaklega gagnvart götumynd. 

Tillaga að breyttu deiliskipulagi lóðarinnar var samþykkt á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 23. október 2002.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er því haldið fram að hið samþykkta deiliskipulag sé andstætt lögvörðum hagsmunum þeirra. 

Kærendur halda því fram að húsaröðin við Garðastræti njóti svæðisbundinnar verndar sem takmarki mjög heimildir til breytinga á þeim hluta lóðanna er að götu snúi.  Breytingin á skipulaginu sé óþörf þar sem unnt sé að koma bílskúrnum fyrir á norðurhluta lóðarinnar.  Byggt sé að lóðarmörkum og þrengt að nágrönnum, þar sem örmjó ræma verði eftir að spennistöð Orkuveitu Reykjavíkur, sem standi nærri lóðarmörkum.

Málsrök húseiganda að Garðastræti 41:  Húseigandi krefst frávísunar málsins og bendir á að breyting deiliskipulagsins sé alfarið á svæði sem sé innan lóðar Viðskiptaskrifstofu Kína sem sé hluti sendiráðs Kína.  Samkvæmt 22. gr. Vínarsamningsins um stjórnmálasamband frá 18. apríl 1961, sem Ísland sé aðili að, sbr. 1. gr. laga nr. 16/1971, njóti sendirráðssvæðið friðhelgi og sé undanþegið framkvæmdavaldslögsögu móttökuríkis samkvæmt 31. gr. samningsins.  Samkvæmt 41. gr. sama samnings sé það aftur á móti skylda allra þeirra sem njóti forréttinda og friðhelgi að virða lög og reglur móttökuríkisins en þó þannig að forréttindi og friðhelgi skerðist ekki.  Í samræmi við þær skyldur hafi verið sótt um breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar, sbr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, og í framhaldi af því um leyfi til byggingar umræddrar bílgeymslu.  Með vísan til þessa hafi úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála sem handhafi framkvæmdarvalds ekki lögsögu um rétt og skyldur sendiráðs Kína, þar sem slíkum ágreiningi verði einungis ráðið til lykta í samræmi við reglur þjóðarréttar um stjórnmálasamband. 

Auk framanritaðs er frávísunarkrafan studd þeim rökum að kærendur skorti lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins og eigi þar af leiðandi ekki aðild að því.  Deiliskipulagið feli í sér heimild til að byggja bílgeymslu á lóðinni nr. 41 við Garðastræti.  Ekki verði séð að það varði hagsmuni íbúa Garðastrætis nr. 43 þannig að þeir teljist eiga einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta við úrlausn málsins.  Því sé hafnað að kærendur eigi aðildarstöðu og því beri að vísa málinu frá.

Verði frávísunarkrafan ekki tekin til greina er þess krafist að úrskurðarnefndin hafni kröfum kærenda því þær lúti aðallega að því að breytingin sé óæskileg og í ósamræmi við skipulag, auk þess sem bílaumferð sunnan við húsið valdi óþarfa truflun.  Þessum fullyrðingum sé hafnað sem órökstuddum, enda sé það í samræmi við skipulag hverfisins að heimila byggingu bílgeymslu og veita eiganda lóðarinnar þannig möguleika á þeirri nýtingu hennar sem samræmist nútíma kröfum. 

Niðurstaða:  Hið umdeilda deiliskipulag varðar lóðina að Garðastræti 41, en fasteignin er í eigu kínverska sendiráðsins á Íslandi og er Viðskiptaskrifstofa sendiráðsins þar til húsa.  Samkvæmt 22. gr. Vínarsamningsins um stjórnmálasamband frá 18. apríl 1961, sem Ísland er aðili að, sbr. 1. gr. laga nr. 16/1971, nýtur sendiráðssvæðið friðhelgi, en jafnframt njóta sendierindrekar friðhelgi og eru undanþegnir framkvæmdavaldslögsögu móttökuríkis samkvæmt 31. gr. samningsins.  Samkvæmt 41. gr. er það aftur á móti skylda allra þeirra, sem njóta forréttinda og friðhelgi, að virða lög og reglur móttökuríkisins, en þó þannig að forréttindi þeirra eða friðhelgi skerðist eigi.  Í samræmi við þessa skyldu óskaði sendiráð Kína eftir því að breyting yrði gerð á deiliskipulagi lóðarinnar nr. 41 við Garðastræti og var fallist á það af borgaryfirvöldum.  Er það sú stjórnvaldsákvörðun sem kærð var til úrskurðarnefndarinnar í máli þessu.

Þrátt fyrir að það sé lögbundið hlutverk úrskurðarnefndarinnar að endurskoða ákvarðanir sveitarstjórna um skipulags- og byggingarmál, sem undir hana eru bornar með stjórnsýslukærum, leiðir af 22. og 31. gr. áðurgreinds þjóðréttarsamnings að úrskurðarnefndin hefur ekki, sem handhafi framkvæmdavalds, lögsögu um rétt eða skyldur sendiráðs Kína í máli þessu, heldur verður slíkum ágreiningi einungis ráðið til lykta í samræmi við reglur þjóðaréttarins um stjórnmálasamband.  Máli þessu er því vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í málinu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Ingibjörg Ingvadóttir

 

26/2002 Kirkjuvegur

Með

Ár 2003, fimmtudaginn 13. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags-og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 26/2002, kæra eigenda Kirkjuvegar 15, Hafnarfirði á ákvörðun byggingarnefndar Hafnarfjarðar frá 8. maí 2002 um útgáfu byggingarleyfis að Kirkjuvegi 9, Hafnarfirði.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 11. júní 2002, sem barst nefndinni hinn 12. júní s.á., kæra A og Ó, bæði til heimilis að Kirkjuvegi 15, Hafnarfirði ákvörðun byggingarnefndar Hafnarfjarðar frá 8. maí 2002 um að veita byggingarleyfi fyrir stækkun hússins að Kirkjuvegi 9, Hafnarfirði ásamt leyfi fyrir byggingu geymsluskúrs á lóðinni. 

Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar hinn 14. maí 2002.  

Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Hinn 21. febrúar 2002 óskaði byggingarfulltrúinn í Hafnarfirði eftir umsögn skipulagsdeildar bæjarins um umsókn eiganda hússins að Kirkjuvegi 9 þar í bæ um leyfi til að stækka einbýlishús á lóðinni ásamt því að byggja þar geymsluskúr.  Húsið var áður á einni hæð, en eftir breytingar ein hæð og ris með kvisti og viðbyggingu upp á efri hæð.  Við þetta hækkaði þak hússins um 1,5 metra svo unnt væri að nýta ris hússins til íbúðar og forstofan lengd um 1,1 metra í vestur.  Með breytingunni stækkaði húsið um 72,6 m²; úr 124 m² í 196 m². 

Hverfið sem húsið stendur í er ekki deiliskipulagt og þar eru húsgerðir mjög blandaðar eða allt frá því að vera „…lítil kot á einni hæð yfir í tveggja hæða reisuleg hús“, eins og fram kemur í samantekt/umsögn bæjarskipulags Hafnarfjarðar, dags. 5. mars 2002.   

Skipulags- og umferðarnefnd fjallaði um erindi byggingarfulltrúa á fundi nefndarinnar hinn 12. mars 2002 og var eftirfarandi bókað:  „Skipulags- og umferðarnefnd er jákvæð gagnvart erindinu og felur bæjarskipulagi að láta fara fram grenndarkynningu skv. 7. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997.“   Erindið var grenndarkynnt eigendum aðliggjandi fasteigna en fasteign kærenda liggur ekki að fasteign byggingarleyfishafans og voru því kærendum ekki grenndarkynntar fyrirhugaðar breytingar.  Grenndarkynningin stóð yfir frá 14. mars 2002 til 15. apríl s.á. og bárust engar athugasemdir við hana. 

Byggingarnefnd ákvað á fundi hinn 8. maí 2002 „…að heimila byggingarfulltrúa að afgreiða erindið að uppfylltum atriðum um frágang teikninga.“ 

Um mánaðarmótin maí – júní árið 2002 urðu kærendur, sem eru eigendur fasteignarinnar að Kirkjuvegi 15, varir við að framkvæmdir væru hafnar við fasteignina að Kirkjuvegi 9.  Eigendur þeirrar fasteignar höfðu í upphafi árs 2002 kynnt kærendum fyrirhugaðar breytingar á fasteigninni og voru viðbrögð þeirra neikvæð því þær væru þess eðlis að þær myndu breyta útsýni og rýra verðgildi fasteignar þeirra.

Ákvörðun byggingarnefndar frá 8. maí 2002 hafa kærendur kært til úrskurðarnefndar eins og að framan er rakið.

Málsrök kærenda:  Kærendur krefjast þess að byggingarleyfið verði fellt úr gildi og halda því fram að breytingar á húsinu nr. 9 við Kirkjuveg séu þess eðlis að þeim hafi átt að vera grenndarkynnt áformin.  Fyrir liggi að framkvæmdin breyti útsýni sem þau hafi haft og rýri því verðgildi fasteignar þeirra.  Ef tekið sé mið af sjónarhorni þeirra fyrir og eftir breytingar fasteignarinnar nr. 9 við Kirkjuveg sé augljóst að talsverðir hagsmunir séu í húfi.

Málsrök byggingarleyfishafa:  Byggingarleyfishafanum var gefinn kostur á að koma að andmælum og gera grein fyrir sjónarmiðum sínum í málinu.  Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 16. janúar 2003, rekja eigendur fasteignarinnar að þeir hafi farið með teikningar að breytingunum til allra „…nágrannanna í kring…“ og fengið samþykki þeirra til breytinganna. 

Málsrök byggingarnefndar:  Byggingarnefnd Hafnarfjarðarbæjar var gefinn kostur á að skýra viðhorf sitt til kærunnar.  Í bréfi byggingarfulltrúa, dags.18. september 2002, er greint frá bókun skipulags- og byggingarráðs frá 10. s.m. og segir þar eftirfarandi:  „Skipulags- og byggingarráð vísar til afgreiðslu byggingarnefndar, dags. 8. maí 2002, og skipulags- og umferðarnefndar og stendur við fyrri afgreiðslu málsins.“

Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin hefur óformlega kynnt sér staðhætti við Kirkjuveg vegna undirbúnings úrskurðar þessa.

Niðurstaða:  Hin kærða ákvörðun veitti heimild til talsverðrar stækkunar hússins nr. 9 við Kirkjuveg í Hafnarfirði.  Á svæðum þar sem ekki liggur fyrir deiliskipulag er það meginregla, samkvæmt 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, að gera skuli deiliskipulag þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar.  Í 3. mgr. ákvæðisins er gerð sú undantekning að sveitarstjórn getur heimilað framkvæmdir í þegar byggðum hverfum, sem ekki hafa verið deiliskipulögð, að undangenginni grenndarkynningu skv. 7. mgr. 43. gr. laganna.  Í grenndarkynningu felst að nágrönnum, sem hagsmuna eiga að gæta, er kynnt málið og þeim gefinn kostur á að tjá sig innan ákveðins frests sem skal vera a.m.k. fjórar vikur. 

Eins og fram kemur í málavaxtalýsingu fór fram grenndarkynning vegna breytinga á fasteigninni en kærendunum voru ekki kynntar þær heldur aðeins eigendum aðliggjandi fasteigna, en fasteign kærenda liggur ekki að fasteign byggingarleyfishafans heldur stendur gegnt henni með lóðir á milli.  Kærendum var kunnugt um fyrirhugaðar framkvæmdir áður en til grenndarkynningarinnar var efnt og höfðu þá þegar lýst því yfir að þær myndu hafa neikvæð áhrif á hagsmuni þeirra.

Að mati úrskurðarnefndarinnar snerti byggingarleyfið hagsmuni kærenda þar sem heimilaðar breytingar samkvæmt því hafa áhrif á útsýni frá húsi þeirra.  Því bar skipulags- og umferðarnefnd, samkvæmt 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga, að grenndarkynna kærendum byggingarleyfisumsóknina svo andmæli og sjónarmið þeirra kæmust að í málinu áður en hin kærða ákvörðun var tekin.  Á hinn bóginn verður ekki fallist á að hagsmunaröskun kærenda sé svo veruleg að hún leiði til ógildingar byggingarleyfisins, enda er beinlínis gert ráð fyrir því í lögum að íbúar í þéttbýli verði að þola að nágrannar þeirra nýti lögvarinn rétt sinn til hagnýtingar eigna sinna, þar með talinn rétt til viðbyggingar.  Verði aftur á móti gengið verulega gegn hagsmunum manna með þess háttar ákvörðunum kann slíkt að leiða til bótaréttar við sérstakar aðstæður, en um það álitaefni fjallar úrskurðarnefndin ekki.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun byggingarnefndar Hafnarfjarðar frá 8. maí 2002, sem staðfest var af bæjarstjórn Hafnarfjarðar hinn 14. maí sama ár, um að veita byggingarleyfi fyrir breytingum á húsinu að Kirkjuvegi 9, Hafnarfirði, er staðfest.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Ingibjörg Ingvadóttir

23/2001 Engjateigur

Með

Ár 2003, fimmtudaginn 13. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru allir aðalmenn; Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 23/2001; kæra eigenda eignarhluta 0104, 0106 og 0107 í húsinu nr. 17-19 við Engjateig í Reykjavík á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. apríl 2001 um að veita leyfi til að innrétta snyrtistofu í eignarhluta 0103 í nefndu húsi.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 21. maí 2001, sem barst nefndinni hinn 22. sama mánaðar, kærir Erla Árnadóttir hrl., f.h. S ehf., eiganda eignarhluta 0104, S, eiganda eignarhluta 0106 og K, eiganda eignarhluta 0107 í húsinu nr. 17-19 við Engjateig í Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. apríl 2001, að veita leyfi til að innrétta snyrtistofu í eignarhluta 0103 í húsinu.  Skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkur staðfesti ákvörðun byggingarfulltrúa á fundi sínum hinn 2. maí 2001 og borgarstjórn staðfesti þá afgreiðslu nefndarinnar hinn 17. maí s.á.  Kærendur gera þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málsatvik:  Forsaga máls þessa er sú að hinn 12. janúar 2001 munu kærendur hafa orðið þess varir að vinna var hafin við breytingar inni í eignarhluta 0103 að Engjateigi 17-19, sem nefnt hefur verið Listhúsið, en sá eignarhluti er í eigu Ráðs og reksturs ehf.  Framkvæmdir þessar voru á vegum leigutaka rýmisins, sem fyrirhugaði að innrétta snyrtistofu í húsnæðinu.  Kærendur vöktu athygli byggingarfulltrúans í Reykjavík á framkvæmdunum með bréfi hinn 16. janúar 2001 og með bréfi embættisins sama dag var mælt fyrir um stöðvun framkvæmdanna, þar sem ekki hefði verið sótt um byggingarleyfi fyrir þeim.

Ráð og rekstur ehf. sótti um byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum með umsókn til byggingarfulltrúa hinn 23. janúar 2001.  Fyrirhugaðar breytingar fólust í því að skipta eignarhlutanum niður í smærri rými með milliveggjum frá gólfi og upp í loft, innrétta þar klefa og setja upp milliveggi er mynduðu opið anddyri innan við inngang inn í eignarhlutann á framhlið hússins.  Byggingarleyfisumsókninni var synjað á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 13. febrúar 2001 með þeim rökum að samþykki meðeigenda skv. 4. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga skorti.

Sótt var að nýju um byggingarleyfi þar sem breytingar höfðu verið gerðar á útfærslu innréttinganna frá fyrri umsókn.  Var miðja umrædds rýmis höfð opnari en áður hafði verið áformað og jafnframt var gert ráð fyrir gleri í fyrirhuguðum klefum fyrir ofan 2,2 metra vegghæð.  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 6. mars 2001 var umsóknin, svo breytt, samþykkt með vísan til þess að framkvæmdirnar í séreignarhlutanum væru ekki þess eðlis að þær væru háðar samþykki annarra eigenda fasteignarinnar samkvæmt fjöleignarhúsalögum.  Var einnig litið til þess við ákvörðunina að starfsemin sem reka átti í eignarhlutanum hefði verið í húsinu um árabil.

Kærendur í máli þessu ásamt einum öðrum eiganda séreignarhluta í fasteigninni að Engjateigi 17-19 kærðu þessa ákvörðun byggingarfulltrúa til úrskurðarnefndarinnar sem kvað upp úrskurð í málinu hinn 28. mars 2001, þar sem hið kærða byggingarleyfi var fellt úr gildi með þeim rökum meirihluta nefndarinnar að fyrirhugaðar framkvæmdir væru háðar samþykki einfalds meirihluta eigenda fasteignarinnar skv. 3. mgr. 27. gr. fjöleignarhúsalaga, en slíkt samþykki hafi ekki legið fyrir við veitingu byggingarleyfisins svo sem áskilið sé í 4. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Formaður úrskurðarnefndarinnar skilaði séráliti í málinu sem byggði á því að umdeildar framkvæmdir snertu ekki hagsmuni annarra eigenda fasteignarinnar með þeim hætti að þörf væri samþykkis þeirra, en fella bæri byggingarleyfið úr gildi vegna ákvæðis í þinglýstum eignaskiptasamningi um nýtingu rýmisins til verslunarreksturs en ekki lægi fyrir samningur eigenda um breytta notkun þess.

Í kjölfar úrskurðarins var boðað til húsfundar um breytt skipulag umrædds rýmis og var hann haldinn hinn 9. apríl 2001.  Á fundinum var borin undir atkvæði tillaga að innréttingu rýmisins í samræmi við byggingarleyfið frá 6. mars 2001 með þeirri breytingu að glerveggir yrðu settir upp við anddyri í stað gifsveggja.  Lögmaður kærenda dró í efa að fundurinn væri bær til þess að greiða atkvæði um tillöguna og gerði fyrirvara um gildi tiltekinna umboða húseigenda til lögmanns byggingarleyfishafa.  Þá var uppi ágreiningur um hvaða eigendur ættu atkvæðisrétt við afgreiðslu tillögunnar og hvaða atkvæðahlutfall þyrfti fyrir samþykkt hennar.  Samkvæmt fundargerð húsfundarins voru mættir á fundinn eigendur eða umboðsmenn þeirra með 77,68% atkvæðahlutfall miðað við eignarhluta.  Lyktir urðu þær að 19 aðilar með 64,69% eignarhluta samþykktu tillöguna en 4 eigendur með 11,99% eignarhluta voru á móti.

Ný byggingarleyfisumsókn fyrir eignarhluta 0103 var síðan tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 10. apríl 2001 og fylgdi henni fundargerð húsfundarins frá 9. apríl 2001 og bréf lögmanns kærenda, dags. 10. apríl s.á., þar sem tíunduð voru rök kærenda gegn útgáfu byggingarleyfisins og farið fram á að skipulags- og byggingarnefnd afgreiddi málið.  Byggingarfulltrúi samþykkti umbeðnar innréttingar.  Skipulags- og byggingarnefnd afgreiddi málið, að fengnum athugasemdum kærenda og byggingarleyfishafa, á fundi hinn 2. maí 2001 með svofelldri bókun: 

„Hinn 13. febrúar 2001 synjaði byggingarfulltrúi umsókn frá Ráði og rekstri ehf., um leyfi til innréttingar á snyrtistofu í rými 0103 í húsinu nr. 17-19 við Engjateig.  Þessi  synjun var byggð á því að samþykki meðeiganda vantaði, sbr. 4. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og gr. 12.2 í byggingarreglugerð nr. 441/1998. Þann 6. mars 2001 var lögð fram ný/breytt umsókn.  Með henni fylgdi m.a. afrit af fundargerð húsfundar frá 27. febrúar.  Í fundargerðinni kom ekki fram hreint samþykki meðeigenda.  Þessi umsókn var samþykkt með bókun um að fyrirhuguð breyting á séreignarhluta sætti ekki sérstakri takmörkun samkvæmt lögum nr. 26/1994 um fjöleignarhús.  Þessi samþykkt byggingarfulltrúa var kærð til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála sem felldi hana úr gildi þann 28. mars 2001 með þeim rökstuðningi að samþykki meðeigenda þyrfti að fylgja með umsókn og dygði einfaldur meirihluti þeirra til samþykktar.  Að öðru leiti vísast um málsatvik til úrskurðar úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála.  Ný umsókn var lögð fram á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa þann 10. apríl 2001.  Henni fylgdi meirihlutasamþ. húseigenda frá húsfundi 9. apríl eins og krafist var í úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála.  Jafnframt fylgdi erindinu ósk frá minnihluta eigenda um að erindinu yrði skotið til afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar.  Byggingarfulltrúi samþykkti að veita byggingarleyfi á fundi sínum þann 10. apríl s.l., og kynnti þá niðurstöðu fyrir skipulags- og byggingarnefnd á fundi nefndarinnar þann 11. apríl, en nefndin frestaði afgreiðslu málsins.  Skipulags- og byggingarnefnd hefur kynnt sér gögn málsins og málsaðilum hefur verið gefinn kostur á að leggja fram viðbótargögn vegna þess, sem þeir hafa gert.  Auk þess hafa nokkrir nefndarmenn kynnt sér aðstæður á staðnum.  Með vísan til framlagðra gagna málsins er það mat skipulags- og byggingarnefndar að skilyrðum skipulags- og byggingarlaga og annarra laga hafi verið fullnægt með vísan til niðurstöðu úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála.  Þær upplýsingar sem borist hafa frá einstökum aðilum um breytta afstöðu frá húsfundi breyta ekki niðurstöðu húsfundar sem samþykkti fyrirliggjandi breytingar.  Það er því mat nefndarinnar að öllum skilyrðum til samþykktar málsins hafi verið fullnægt.  Ákvörðun byggingarfulltrúa frá 10. apríl s.l. um að veita byggingarleyfi fyrir umsóttum breytingum er því staðfest.”

Kærendur undu ekki þessari niðurstöðu og skutu henni til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Kærendur styðja kröfu sína um ógildingu hins kærða byggingaleyfis þeim rökum að leyfið samræmist ekki meintu samþykki húsfundar frá 9. apríl 2001, breytingin fari í bága við heimilaða notkun samkvæmt þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu, húsfundurinn hafi ekki verið bær til þess að greiða atkvæði um innréttingu umrædds eignarhluta, ekki liggi fyrir lögmætt samþykki skv. 27. gr. fjöleignarhúsalaga og loks er skírskotað til þess að frá því að eignarhluti 0103 hafi verið tengdur inn á stofnlögn hússins í tilefni af umdeildum breytingum hafi vatnsrennsli til íbúðar eins kærenda minnkað.

Á húsfundinum hinn 9. apríl 2001 hafi verið kynnt tillaga um innréttingar, þar sem gert hafi verið ráð fyrir glerveggjum í stað gifsveggja við anddyri rýmis 0103, og hafi flest umboð lögmanns byggingarleyfishafa verið miðuð við þá útfærslu.  Hins vegar verði ekki séð af bókunum byggingarfulltrúa eða af uppdráttum er kærendur fengu í hendur að umdeilt byggingarleyfi sem samþykkt hafi verið hinn 10. apríl geri ráð fyrir slíkri tilhögun.

Rekstur snyrtistofu í umræddum eignarhluta feli í sér breytta nýtingu eignarhlutans frá því sem þinglýst eignaskiptayfirlýsing fasteignarinnar að Engjateigi 17-19 kveði á um. Breyting úr verslunar- í þjónusturými hafi áhrif á hagsmuni þeirra eignarhluta er liggi að sameignarganginum að baki eignarhluta 0103.  Leyfisskyldri þjónustustarfsemi eins og snyrtistofu fylgi ekki tilviljanakennd umferð viðskiptavina, eins og verslunarrekstri fylgi, heldur aðeins umferð þeirra sem eigi pantaðan tíma og þörf rekstraraðilans fyrir að nota og halda opnum dyrum inn á sameignarganginn minnki af þessum sökum.  Niðurhólfun rýmis, sem fylgi innréttingu snyrtistofu, leiði til þess að gegnumstreymi og gegnumsæi utan af götu inn á sameignarganginn sé ekki lengur fyrir hendi auk þess sem birta minnki á ganginum.  Umdeild breyting kippi því grundvellinum undan rekstri í eignarhlutum inn á ganginum sem eru fjær götunni og rýri verðgildi þeirra.  Í fyrri úrskurði úrskurðarnefndarinnar um sama kæruefni, þar sem byggingarleyfi fyrir umdeildum innréttingum hafi verið fellt úr gildi, hafi í niðurstöðu verið litið til þessara atriða þar sem bent sé á að ákvæði um nýtingu rýma á samþykktum teikningum og í þinglýstri heimild séu bindandi fyrir eigendur hússins, enda geti þessar heimildir verið meðal ákvarðandi þátta við kaup á eignarhlutum í húsinu.  Kærendur ætli að minnihluti úrskurðarnefndarinnar byggi niðurstöðu sína einvörðungu á þessum röksemdum en meirihlutinn byggi auk þess á nauðsyn samþykkis samkvæmt 27. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994.  Umdeilt byggingarleyfi sé ólögmætt þar sem það fari í bága við þinglýsta eignaskiptayfirlýsingu, en breyting hennar krefjist samþykkis allra húseigenda samkvæmt 1. mgr. 18. gr. fjöleignarhúsalaga.

Húsfundur sá sem greiddi atkvæði um umdeildar innréttingar hafi að mati kærenda ekki verið bær til þess að taka þá ákvörðun.  Í fundarboði hafi ekki verið tekið fram að greiða skyldi atkvæði um tillöguna, en sú breyting á dagskrá fundarins hafi verið tilkynnt daginn eftir fundarboðun.  Vísa kærendur jafnframt til þess að leigutaki eignarhluta 0103 hafi safnað fyrir fundinn umboðum eigenda eignarhluta á 2. hæð hússins sem engra hagsmuna áttu að gæta og höfðu ekki verið boðaðir á tvo fyrri húsfundi vegna málsins og þekktu líklega ekki málavexti eða aðstæður á fyrstu hæð þess.  Flest umræddra umboða séu dagsett sama dag og húsfundurinn hafi verið boðaður, þ.e. hinn 4. apríl 2001, eða áður en kærendur hafi átt þess kost að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við þá er þekktu ekki málið.  Kærendur hafi farið fram á við stjórn húsfélagsins að húseigendum yrðu kynntar hugmyndir þeirra að lausn málsins en ekki liggi fyrir skilríki um að sú tillaga hafi verið komið til skila.  Skírskota kærendur og til þess að eftir fundinn hafi fjórir eigendur gefið út yfirlýsingu varðandi umboð sín og þrír af þeim afturkallað þau.  Beri þetta með sér að greindir aðilar hafi ekki verið nægjanlega upplýstir um málsatvik og ætla megi að þeir hafi hvorki veitt umboð sín né goldið umdeildri tillögu atkvæði, hefði kærendum gefist kostur á því að skýra sjónarmið sín.

Á því er einnig byggt að aðeins þeir sem hagsmuna eigi að gæta hafi atkvæðisrétt um umdeilda tillögu skv. 27. gr. fjöleignarhúsalaga.  Í 2. mgr. 27. gr. nefndra laga komi fram að þrátt fyrir 1. mgr. ákvæðisins geti eigandi ekki sett sig upp á móti breytingu ef sýnt sé að hún hafi ekki í för með sér neina röskun á lögmætum hagsmunum hans.  Af þessu leiði að eigendur sem engra hagsmuna eigi að gæta vegna innréttinga eignarhluta 0103 eigi ekki atkvæðisrétt um breytingarnar.  Þegar ákveða skuli hverjir eigi atkvæðisrétt í umdeildu tilviki verði að líta til eignaskiptayfirlýsingar hússins sem kveði á um að hlutdeild í sameignarganginum eigi eignarhlutar 0101-0111 og 0117 á 1. hæð og eignarhlutar 0001-0003 í kjallara.  Jafnframt verði að líta til þess hvaða hagsmuna eigendur eignarhluta að sameignarganginum eigi að gæta umfram aðra eigendur í húsinu.  Augljóst sé að eigendur íbúða á 2. hæð hússins og eignarhluta í kjallara eigi engra hagsmuna að gæta varðandi umdeildar innréttingar.  Kærendur telji að þetta eigi við um alla aðra en eigendur eignarhluta að sameignarganginum á 1. hæð.  Þeir sem hagsmuna eigi að gæta um umdeilda framkvæmd séu því aðeins eigendur eignarhluta 0102-0109.  Sú niðurstaða sé byggð á því að eignarhlutar 0101, 0110, 0111 og 0117 byggi ekki starfsemi sína á umferð þeirra sem eigi leið um göturýmin 0102 og 0103, þar sem þeir eignarhlutar liggi nálægt inngöngudyrum inn í sameign í miðju byggingarinnar.  Þótt svo yrði litið á að eignarhlutar 0110, 0111 og 0117 ættu atkvæðisrétt um umrædda framkvæmd megi ljóst vera að við fyrrgreinda atkvæðagreiðslu á húsfundinum hinn 9. apríl hafi ekki verið meirihluti fyrir umdeildri ákvörðun, hvorki samkvæmt fjölda eigenda né eignarhluta.

Jafnvel þótt talið yrði að atkvæði einfalds meirihluta allra eigenda nægðu til að samþykkja breytingar á rými 0103 sé ljóst, vegna ólögmætra umboða frá eigendum eignarhluta 0109, 0111 og 0211 og yfirlýsinga eigenda eignarhluta 0109, 0114, 0204 og 0210, að ekki hafi fengist samþykki einfalds meirihluta eigenda fyrir breytingunum.  Hlutdeild þessara eignarhluta nemi 16,19% og sé hún dregin frá þeim 64,69%, er samkvæmt fundargerð samþykktu tillöguna, hafi einungis 48,50% fallið tillögunni í vil.  Kærendur mótmæla sérstaklega þeirri ályktun skipulags- og byggingarnefndar við afgreiðslu málsins að breytt afstaða nokkurra eigenda eftir húsfundinn hafi ekki þýðingu um úrslit málsins.  Með tilliti til þess hvernig staðið var að kynningu málins fyrir húseigendum hljóti úrskurðarnefndin að leggja endanlega afstöðu húseigenda til grundvallar.  Í umræddum yfirlýsingum komi fram að hlutaðeigendur hafi ekki kynnt sér málið áður en þeir veittu umboð og telji sig ekki eiga hagsmuna að gæta um málefnið.

Loks benda kærendur á að líklegt sé, að við tengingu vatns- og frárennslislagna samkvæmt samþykktum teikningum byggingarfulltrúa frá 9. mars 2001 í tilefni af umdeildum framkvæmdum, hafi vatnsrennsli minnkað í íbúð eins kærenda sem er eignarhluti 0201.  Meðan ástæða þessa liggi ekki fyrir byggi kærendur á því að framkvæmdir samkvæmt umdeildu byggingarleyfi hafi leitt til tjóns fyrir eiganda umrædds eignarhluta.

Í viðbótargreinargerð til úrskurðarnefndarinnar, dags. 12. september 2001, er vakin athygli á að sett hafi verið upp gluggatjöld í séreignarrými 0103 fyrir neðri hluta glugga, er snúi að götuhlið húss.  Byrgi þau fyrir sýn og birtu inn á umræddan sameignargang gegnum þann litla hluta rýmisins sem ekki sé lokaður af með klefum.  Sé því komið á daginn það sem kærendur hafi haldið fram, að væntanlega sé ómögulegt að reka þar snyrtistofu þannig að birta og gegnumsæi sé fyrir hendi inn á sameignarganginn.  Þá hafi dyr úr rýminu inn á sameignarganginn að mestu verið lokaðar og virðist eingöngu hafa verið notaðar til að fá gegnumstreymi lofts um rýmið en ekki í þeim tilgangi að gera umferð fólks inn á ganginn mögulega.  Eigandi eignarhluta 0107 hafi nú hætt starfsemi og leigt eignarhlutann og starfsemi í eignarhluta 0106 hafi verið hætt og sé hann til sölu.   Ljóst sé af þessu að nefndir kærendur hafi orðið fyrir stórfelldu tjóni vegna breyttrar nýtingar eignarhluta 0103.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Borgaryfirvöld gera þá kröfu að veiting hins kærða byggingarleyfis standi óhögguð.

Í tilefni af þeirri málsástæðu kærenda að hið veitta byggingarleyfi hafi ekki verið í samræmi við meint samþykki húsfundar er tekið fram að samkvæmt gögnum málsins hafi verið boðað til húsfundar með formlegum hætti með fundarboði, dagsettu 4. apríl 2001.  Fundurinn hafi verið haldinn 9. apríl 2001 og hafi farið fram að mestu leyti í samræmi við boðaða dagskrá þar sem tilgreint hafi verið að fjallað skyldi um breytingar á skipulagi hins umþrætta eignarhluta merktum 0103.  Lögmaður kærenda hafi borið upp mótmæli gegn því að húsfundurinn væri bær til að greiða atkvæði um málið, en meirihluti fundarmanna hafnað því og talið fundinn lögmætan.  Umboð þeirra eigenda sem liggi frammi í gögnum málsins hafi ekki verið bundin við ákveðna útfærslu af breytingum.  Teikningar þær sem byggingarfulltrúi hafi samþykkt beri með sér að glerveggur komi í stað gifsveggja sem gert hefði verið ráð fyrir í fyrri tillögu við útidyr, auk þess sem eitt vinnuherbergi hafi verið fjarlægt og 8 mm öryggisgler sett í efri hluta vinnuherbergjanna og milliveggir úr gifsi þannig lækkaðir, í því skyni að auka gegnumflæði birtu og auðvelda aðgengi inn í sameign.  Það hafi verið álit byggingarfulltrúa auk meirihluta eigenda á húsfundi þann 9. apríl 2001 að þær breytingar fullnægðu kröfum um aðgengi og birtuflæði.

Ekki sé fallist á það með kærendum að ákvæði fyrirliggjandi eignaskiptayfirlýsingar um nýtingu rýma girði fyrir breytta notkun eignarhluta í fasteign. Eignaskiptayfirlýsing sé í eðli sínu skráning á núverandi ástandi í fasteigninni og geti því aldrei komið í veg fyrir breytingar að uppfylltum skilyrðum.  Í áliti kærunefndar fjöleignarhúsamála nr. 5/2002 sé komist að þeirri niðurstöðu að eignaskiptayfirlýsing feli aðeins í sér lýsingu á notkun eignar þegar hún sé gerð, en geti ekki talist þinglýst takmörkun á nýtingarmöguleikum eignarhlutans.  Reykjavíkurborg taki undir þessa niðurstöðu kærunefndarinnar og mótmæli því að í slíkri skráningu geti falist takmörkun á notkun húsnæðisins, sbr. ákvæði laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús, einkum 16., 17. og 18. gr., sem fjalli um eignaskiptayfirlýsingar og ákvæði reglugerðar um eignaskiptayfirlýsingar, útreikning hlutfallstalna o.fl. í fjöleignarhúsum nr. 910/2000, einkum 1. gr. og 8. gr.  Í öllum framantöldum greinum komi skýrt fram að eignaskiptayfirlýsing sé að mestu lýsing á ástandi húss við gerð hennar.  Ekki verði ráðið af greindum ákvæðum að breyta þyrfti eignarskiptayfirlýsingu í hvert sinn sem breytt væri um notkun séreignarhluta húss en það væri bæði þungt og mjög dýrt í framkvæmd.  Hvergi komi fram að notkun sú sem sýnd sé á uppdráttum eignaskiptayfirlýsingar sé kvaðabundin með þeim hætti að óheimilt sé að breyta henni en hlutverk og tilgang eignaskiptayfirlýsingar verði og að skýra með hliðsjón af öðrum ákvæðum laga um fjöleignarhús, s.s. 26. og 27. gr.  Óeðlilegt sé að halda því fram að ákvæði laga um breytingar á eignaskiptayfirlýsingu geti komið í veg fyrir að eigendur breyti nýtingu á fasteignum sínum.  Ef svo væri hefðu málsmeðferðarreglur fjöleignarhúsalaga um húsfundi og atkvæðisbærni þeirra engan tilgang.  Löglega boðaður húsfundur geti, í samræmi við ákvæði laga um fjöleignarhús, samþykkt breytta nýtingu.  Á það er bent að í fyrri úrskurði meirihluta úrskurðarnefndarinnar í máli varðandi Engjateig 17-19 sé komist að þeirri niðurstöðu að einfaldur meirihluti eigenda dygði til þess að samþykkja frávik frá skilgreindri notkun úr verslunarrými í þjónustu- /verslunarrými en umræddar breytingar samræmist skilgreindri landnotkun svæðisins.  Kærendum mátti vera ljóst að sá möguleiki væri fyrir hendi að aðrar tegundir verslana yrðu opnaðar í húsnæðinu.  Hefði kærendum verið í lófa lagið að sjá til þess að þinglýst yrði kvöðum á eignina þess efnis að aðeins mætti reka í húsinu ákveðnar tegundir verslana og/eða þjónustu sem félli undir listastarfsemi.  Það gerðu kærendur ekki og hafi þeir því ekki ríkari rétt en almennt gerist í húsum með blandaða notkun og gildi því hin almennu ákvæði laga um fjöleignarhús, sem girði ekki fyrir þá notkun sem samþykkt var og hafi verið í húsinu til margra ára.

Skilyrði 1. mgr. 18. gr. laga um fjöleignarhús, um samþykki allra eigenda fyrir breytingum á eignaskiptayfirlýsingu, eigi ekki við í máli þessu.  Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála hafi nú þegar úrskurðað að leita hefði átt samþykkis einfalds meirihluta eigenda í húsinu samkvæmt 3. mgr. 27. gr. laga um fjöleignarhús, í samræmi við C-lið 1. mgr. 41. gr. laganna.  Misskilnings gæti hjá kærendum um að ákvæði nefndra laga varðandi eignayfirfærslu eða breytingar á hlutfallstölum eigi við hér.  Svo sé augljóslega ekki, m.a. með vísan til rökstuðnings í fyrrnefndum úrskurði úrskurðarnefndarinnar.  Auk þessa sé bent á 16. gr. fjöleignarhúsalaga þar sem fram komi, að ef um sé að ræða breytingu á skráningu og/eða lýsingu á húsi í samræmi við gildandi hlutfallstölur, sé það á ábyrgð stjórnar húsfélagsins að annast um breytta skráningu.  Sérstakt samþykki eigenda þurfi ekki að liggja fyrir vegna slíkra breytinga né heldur þurfi að boða til húsfundar um málið.  Það liggi ljóst fyrir að í húsinu að Engjateigi 17-19 séu fleiri en sex eignarhlutar og að samþykki einfalds meirihluta eigenda hafi legið fyrir vegna umdeildra breytinga.

Kærendur haldi því jafnframt fram að húsfundurinn þann 9. apríl 2001 hafi ekki verið bær til að greiða atkvæði um breytta notkun eignarhluta 0103.  Þessari málsástæðu sé hafnað með vísan til framlagðrar fundagerðar.  Boðað hafi verið til fundarins á lögmætan hátt, dagskrá hafi að öllu leyti verið í samræmi við ákvæði laga um fjöleignarhús og hafi tilskilinn fjöldi eigenda eða umboðsmanna þeirra verið á fundinum til þess að ákvarðanir hans væru fyllilega lögmætar.  Bent sé á að kærendur og lögmaður þeirra hafi verið staddir á fundinum og sjáist bersýnilega af fundargerðinni að sjónarmið þeirra hafi komist að og því öllum fundarmönnum kunnugt um skoðanir þeirra á fundarefninu og tillögur þeirra um aðrar lausnir.  Ekki þyki ástæða til að fjalla sérstaklega um afturkallanir og breytta afstöðu ákveðinna eigenda, en þær hafi ekkert gildi þar sem fyrir lágu gild umboð á fundinum. Þeir eigendur sem skipt hafi um skoðun eftir að atkvæðagreiðslu á húsfundi lauk verði að hlíta ákvæðum laga um fjöleignarhús varðandi endurupptöku mála sinna.  Það væri að æra óstöðugan ef eigendur gætu gengið til atkvæða á húsfundi og skipt síðan um skoðun án frekari málalenginga.  Slíkt sé ekki í samræmi við lög og gengi í berhögg við tilgang og eðli ákvæða áðurnefndra laga um atkvæðagreiðslur á löglega boðuðum húsfundum.

Skírskotað er til þess að í áðurnefndum úrskurði úrskurðarnefndarinnar hafi því verið hafnað að ákvæði 4. mgr. 27. gr. laga nr. 73/1997 eigi við í málinu.  Þyki því ekki ástæða til að fjalla sérstaklega um þessa málsástæðu kærenda að nýju, að öðru leyti en að hafna því að málsatvik samkvæmt Hrd. 1997:2918 eigi við í þessu máli.  Um sé að ræða undantekningareglu sem beri að skýra þröngt.  Einnig megi vísa til álits kærunefndar fjöleignarhúsamála í málinu nr. 5/2002, sem varði húseign að Laugavegi nr. 5, en þar sé ítarlega fjallað um 26. og 27. gr. fjöleignarhúsalaga á sama hátt og í fyrri úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála varðandi Engjateig 17-19.

Loks hafnar Reykjavíkurborg því að þau tæknilegu atriði sem tíunduð séu í kæru komi til skoðunar hjá nefndinni, sérstaklega í ljósi þess að þau séu ekki þess eðlis þó kærendum hefði tekist að sanna þau, að valdið gæti ógildingu umdeilds byggingarleyfis.

Í ljósi framangreinds liggi fyrir að umþrætt byggingarleyfi sé að öllu leyti í samræmi við ákvæði gildandi skipulags auk þess sem samþykki einfalds meirihluta eigenda hafi legið fyrir samkvæmt fundargerð frá löglega boðuðum húsfundi þegar leyfið hafi verið veitt í samræmi við fyrri úrskurð úrskurðarnefndarinnar og sé því engin ástæða til að hrófla við hinu kærða byggingarleyfi.

Andmæli byggingarleyfishafa:  Sjónarmið byggingarleyfishafa í máli þessu þykja nægjanlega rakin í bréfi lögmanns hans til byggingarfulltrúa, dags. 23. apríl 2001, og með hliðsjón af 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þótti úrskurðarnefndinni ekki af þeim sökum ástæða til að kalla eftir frekari andmælum hans.

Byggingarleyfishafi vísar í fyrsta lagi til þess að í úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála frá 28. mars 2001 sé skýrlega komist að þeirri niðurstöðu að leita hefði átt samþykkis einfalds meirihluta eigenda fyrir umdeildum breytingum skv. 3. mgr. 27. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994, en úrskurðarnefndin hafi fellt úr gildi fyrra byggingarleyfi þar sem slíks samþykkis hafi ekki verið aflað.  Við veitingu byggingarleyfis hinn 10. apríl 2001 hafi verið bætt úr þeim annmarka.

Þeirri málsástæðu, að atkvæðagreiðsla á húsfundinum sem haldinn var hinn 9. apríl 2001 hafi verið ólögmæt, sé hafnað.  Það sé ekki á valdsviði byggingaryfirvalda að taka afstöðu til lögmætis húsfundar og til gildis greiddra atkvæða á slíkum fundi.  Sérstaklega sé á það bent að í tengslum við boðun húsfundarins hafi verið dreift ítarlegri dagskrá til allra þeirra er málið varðaði innan þeirra fresta sem áskildir séu í 2. mgr. 60. gr. fjöleignarhúsalaga, með sama hætti og upphaflegt fundarboð þar sem kveðið hafi verið á um að fyrirliggjandi tillaga yrði borin undir atkvæði.  Hafi húsfundurinn því verið bær að afgreiða tillöguna.

Fyrir húsfundinn hafi byggingarleyfishafi aflað umboða nokkurra sameigenda til atkvæðagreiðslu um fyrirliggjandi byggingarleyfisumsókn.  Í 2. mgr. 56. gr. fjöleignarhúsalaga sé sérstaklega tiltekið að sérhver félagsmaður húsfélagsins geti veitt öðrum umboð til þess að mæta á fundi og greiða atkvæði.  Öflun þessara umboða sem veitt hafi verið í samræmi við téð lagaákvæði raski ekki gildi umræddrar atkvæðagreiðslu.  Aðgerðir kærenda eftir húsfundinn sem falist hafi í því að dreifa gögnum til sameigenda með ósk um að veitt umboð yrðu afturkölluð hafi enga þýðingu við afgreiðslu hinnar umdeildu byggingarleyfisumsóknar en þessar aðgerðir hafi ekki verið í tengslum við húsfund í húsfélaginu.

Þá verði ekki fallist á þá túlkun kærenda að samþykki einfalds meirihluta eigenda fjöleignarhússins að Engjateigi 17-19 nægi ekki til þess að heimilt sé að veita umdeilt byggingarleyfi.  Meginreglan um ákvarðanatöku er varði sameign komi fram í 1. mgr. 39. gr. fjöleignarhúsalaga.  Samkvæmt því ákvæði eigi allir hlutaðeigandi eigendur óskoraðan rétt til að taka þátt í öllum ákvörðunum er varða sameignina.  Þessi réttur eigi m.a. við um fyrirkomulag, skipulag, breytingar og hagnýtingu bæði sameignar og séreignar, sbr. 2. mgr. 39. gr. umræddra laga, og samkvæmt 4. mgr. ákvæðisins skuli taka sameiginlegar ákvarðanir á húsfundi.  Húsfélög séu í öllum fjöleignarhúsum skv. 1. mgr. 56. gr. laganna og allir eigendur fjöleignarhúss eigi aðild að húsfélaginu, sbr. 2. mgr. ákvæðisins, og eigi eigendur og umboðsmenn þeirra atkvæðisrétt á húsfundi skv. 1. og 2. mgr. 58. gr. laganna.  Ljóst sé því að allir þeir eignarhlutar sem atkvæði hafi verið greidd fyrir á húsfundinum hinn 9. apríl 2001 hafi átt atkvæðisrétt og umdeild tillaga samþykkt af einföldum meirihluta eigenda.

Fyrir liggi niðurstaða úrskurðarnefndarinnar um að í umdeildu tilviki hafi 3. mgr. 27. gr. fjöleignarhúsalaga átt við en ekki 4. mgr. ákvæðisins.  Álit kærenda á því að þeir einir eigi atkvæðisrétt um málið sem séu innst á bak við séreignarhluta 0103 eigi því ekki við rök að styðjast.  Engin rök séu til þess að takmarka með þeim hætti réttindi sem sameigendum fjöleignarhúsa séu tryggð til þátttöku í ákvörðunum er varði fjöleignarhúsið.

Byggingarleyfishafi áréttar þá túlkun að aðeins atkvæði greidd á umræddum húsfundi komi til skoðunar við mat á vægi atkvæða, en samkvæmt því hafi 79% greiddra atkvæða miðað við eignarhlutfall samþykkt breytingarnar á séreignarhluta 0103 og 84% atkvæða miðað við fjölda eignarhluta.

Loks bendir byggingarleyfishafi á að komið hafi verið verulega til móts við kærendur um tilhögun innréttinga séreignarhluta 0103.  Aðgengi hafi m.a. verið bætt um eignarhlutann, inn á sameignargang og birtuflæði aukið.  Tillaga kærenda um að loka framdyrum séreignarrýmisins hafi komið á óvart og stangist á við þá kröfu kærenda að tryggja umferð fólks um eignarhlutann auk þess sem breytingin hefði aukið kostnað byggingarleyfishafa við innréttingarnar sem hafi verið orðinn ærinn fyrir vegna tafa og breytinga á framkvæmdum.

Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin hefur óformlega kynnt sér staðhætti að Engjateigi 17-19 við undirbúning úrskurðar þessa.

Niðurstaða:  Framkvæmdir þær sem eru tilefni kærumáls þessa hafa áður komið til kasta úrskurðarnefndarinnar er felldi úr gildi byggingarleyfi fyrir innréttingu séreignarhluta 0103 í húsinu að Engjateigi 17-19 hinn 28. mars 2001.  Byggingarleyfi það sem nú er til umfjöllunar felur í sér sömu heimildir til framkvæmda og nýtingar rýmisins og hið fyrra, að öðru leyti en því að anddyri við útidyr séreignarrýmisins verður með veggjum úr gleri í stað gifsveggja.  Ákvörðun um ógildingu hins fyrra byggingarleyfis var byggð á þeirri niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar að framkvæmdirnar væru þess eðlis að þær væru háðar samþykki einfalds meirihluta sameigenda skv. 3. mgr. 27. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994.  Byggja kærendur ógildingakröfu sína á því að lögmætt samþykki meðeigenda samkvæmt fjöleignarhúsalögum fyrir heimiluðum framkvæmdum liggi ekki fyrir og þær raski hagsmunum kærenda óhæfilega.

Hið kærða byggingarleyfi felur annars vegar í sér heimild til tiltekinna innréttinga í umræddum séreignarhluta, er draga úr birtuflæði frá framhlið húss inn á sameignargang og gagnsæi frá því sem áður hafði verið, og hins vegar breytingu á nýtingu rýmisins úr verslun í snyrtistofu.  Umrædd breyting á nýtingu húsnæðisins samræmist landnotkun svæðisins svo sem það er skýrt í skipulagi en á aðaluppdráttum hússins og í þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu þess er gert ráð fyrir að greindur séreignarhluti sé ætlaður undir verslunarrekstur.

Með því að breyta gifsveggjum, er mynda anddyri við inngang í séreignarrýmið frá götuhlið hússins, í gagnsæja veggi hefur verið dregið úr þeim áhrifum sem breytingar á innréttingum rýmisins hafa á birtuflæði og gagnsæi frá því sem verið hefði samkvæmt fyrra byggingarleyfi.  Verður ekki séð að hin umdeilda innrétting hafi nú áhrif á birtuflæði inn á sameignargang hússins eða gagnsæi umfram innréttingar annarra séreignarýma við ganginn, en ekki eru fyrir hendi kvaðir gagnvart eigendum hússins um tiltekna tilhögun innréttinga í séreignarýmum þess.  Verður ekki talið að áhrif umræddra innréttinga séreignarrýmisins séu nú slík á sameignarganginn að þær séu háðar samþykki annarra eigenda hússins, enda verður að líta svo á að öndverð niðurstaða skerði óhæfilega nýtingarrétt einstakra eigenda séreignarrýma, sem þeim er tryggður í 1. mgr. 26. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994. 

Hins vegar felur hið umdeilda byggingarleyfi í sér breytingu á notkun séreignarrýmisins frá því sem upphaflega var gert ráð fyrir á aðaluppdráttum hússins og í þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu þess, dags. 20. desember 1992.  Er um að ræða breytingu á nýtingu rýmisins úr verslun í snyrtistofu, sem fellur undir þjónustustarfsemi.  Sú breyting er ekki til þess fallin að raska verulega hagsmunum kærenda enda um áþekka atvinnustarfsemi að ræða, og eru dæmi um báðar þessar tegundir atvinnustarfsemi í húsinu að Engjateigi 17-19.  Ekki verður fallist á að þýðingu hafi í þessu sambandi þótt mögulegar breytingar verði á viðskiptahóp rekstraraðila séreignarrýmisins við breytinguna enda verða kærendur ekki taldir eiga lögvarinna hagsmuna að gæta í því efni.

Um breytingar á hagnýtingu séreignarhluta í fjöleignarhúsum er fjallað í 27. gr. fjöleignarhúsalaga.  Í 1. mgr. ákvæðisins er krafist samþykkis allra eigenda húss ef breyting hefur í för með sér verulega meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur eða afnotahafa en áður var og gengur og gerist í sambærilegum húsum.  Þó geta þeir sem ekki verða fyrir röskun á lögmætum hagsmunum sínum ekki staðið gegn slíkri breytingu, sbr. 2. mgr. 27. gr.  Verður að ætla að þessi fyrirvari 2. mgr. 27. gr. hafi þann tilgang að koma í veg fyrir að þeir sem engra hagsmuna eigi að gæta geti hindrað breytingu á nýtingu séreignarhluta þótt veruleg sé en ákvæðið feli ekki í sér, svo sem kærendur halda fram, að einungis þeir sem hagsmuna eigi að gæta eigi atkvæðisrétt um breytinguna.  Ef breytt hagnýting séreignar telst ekki veruleg er nægilegt að einfaldur meirihluti eigenda miðað við fjölda og eignarhluta samþykki hana skv. 3. mgr. 27. gr.  Með vísan til þess sem rakið hefur verið telur úrskurðarnefndin breytta hagnýtingu samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi ekki verulega eða til þess fallna að hafa veruleg óþægindi eða truflun í för með sér fyrir kærendur.  Verða því ekki gerðar ríkari kröfur um samþykki fyrir hinni breyttu notkun margnefnds séreignarrýmis en tilskilið er í 3. mgr. 27. gr. fjöleignarhúsalaganna og eru ekki efni til að fallast á að kærendur hafi synjunarvald um breytta notkun rýmisins á grundvelli 4. mgr. 27. gr. nefndra laga, eins og atvikum er háttað í máli þessu. 

Í 1. mgr. 18. gr. fjöleignarhúsalaga er gert ráð fyrir að allir eigendur skuli eiga þess kost að vera með í ráðum um breytingar á eignaskiptayfirlýsingu og í 39. gr. laganna er sett fram sú meginregla að allir hlutaðeigandi eigendur eigi rétt til þátttöku í ákvörðunum er m.a. snerta nýtingu séreignar.  Með hliðsjón af þessum lagaákvæðum verður að telja að allir eigendur fjöleignarhúss eigi rétt til að greiða atkvæði um breytta notkun séreignarrýmis skv. 27. gr. laganna, að teknu tilliti til 2. og 4. mgr. ákvæðisins ef því er að skipta.

Fundargerð húsfundar húsfélagsins að Engjateigi 17-19, sem haldinn var hinn 9. apríl 2001, ber með sér að á fundinum hafi verið gengið til atkvæða um tillögu um innréttingu séreignarhluta 0103 í samræmi við fyrri byggingarleyfisumsókn með þeirri breytingu á veggjum anddyris sem fyrr var lýst.  Í gögnum málsins liggur fyrir byggingarnefndarteikning sem samþykkt hefur verið af byggingarfulltrúa hinn 10. apríl 2001 og varðar umdeildar framkvæmdir.  Á þeirri teikningu er skráð breyting, dagsett sama dag, um að glerveggir verði við anddyri með skírskotun til fyrrgreindrar fundargerðar húsfundarins frá 9. apríl og er innrétting eignarhlutans nú í samræmi við það.  Verður því ekki fallist á að misræmi sé milli tillögu þeirrar sem til umfjöllunar var á nefndum húsfundi og byggingarleyfisins frá 10. apríl 2001.

Fundurinn var boðaður með löglegum fyrirvara og ekki liggur annað fyrir en að dagskrá fundarins hafi borist félagsmönnum húsfélagsins í tæka tíð þar sem fram kom að tillaga að breytingum á skipulagi eignarhluta 0103 yrði til umfjöllunar og atkvæðagreiðslu á fundinum.  Í bréfi lögmanns kærenda, dags. 6. apríl 2001, til stjórnar húsfélagsins kemur fram að kærendum barst dagskrá fundarins hinn 5. apríl 2001 eða innan þess frests sem áskilinn er í 2. mgr. 60. gr. fjöleignarhúsalaga, og ekki hafa komið fram athugasemdir annarra eigenda fasteignarinnar við fundarboðunina. 

Samkvæmt nefndri fundargerð húsfundar húsfélagsins að Engjateigi 17-19 voru mættir á fundinum eða fyrirliggjandi umboð fyrir eigendur er fóru með 77,68% atkvæða miðað við eignarhlutfall.  Þar kemur og fram að allir hafi greitt atkvæði um fyrirliggjandi tillögu um breytingar á séreignarhluta 0103 og hafi lögmaður byggingarleyfishafa f.h. sinna umbjóðenda greitt tillögunni atkvæði ásamt eiganda eignarhluta 0103 og eiganda fjögurra eignarhluta sem staddur var á fundinum, en hann hafði gefið lögmanni byggingarleyfishafa umboð sitt en lögmaður kærenda hafi greitt atkvæði á móti tillögunni f.h. sinna fjögurra umbjóðenda.  Var tillagan talin samþykkt með 19 atkvæðum með 64,69% eignarhlutfall að baki sér en 4 atkvæði hafi verið á móti með 11,99% eignarhlutfall.  Gætir því misræmis milli samtölu greiddra atkvæða og atkvæða á fundinum miðað við eignarhlutfall er nemur einu prósenti. 

Í nefndri fundargerð kemur fram að lögmaður byggingarleyfishafa hafi verið með umboð fyrir eignarhluta 0211, 0108, 0210, 0208, 0202, 0203, 0205, 0003, 0112, 0113, 0115, 0116, 0117, 0204, 0102, 0111, 0001, 0109 og 0114 eða samtals 19 en lögmaður kærenda hafi verið með umboð fyrir fjóra eignarhluta, 0104, 0106, 0107 og 0201. Auk þeirra atkvæða sem umboð voru fyrir kemur fram í fundargerðinni að eigandi eignarhluta 0103 hafi greitt atkvæði með tillögunni.  Verður því ekki annað ráðið en að greidd atkvæði hafi verið 24 með 78,85% eignarhlutfall að baki sér samkvæmt eignaskiptayfirlýsingu hússins.  Voru því 4 atkvæði greidd gegn umræddri tillögu með 11,99% eignarhlutfall en 20 atkvæði með 66,86% eignarhlutfall samþykktu hana. 

Samkvæmt 3. tl. C liðs 41. gr. fjöleignarhúsalaga þarf samþykki einfalds meirihluta eigenda miðað við fjölda og eignarhlutfall fyrir breytingu á séreign samkvæmt 3. mgr. 27. gr. laganna en ekki er gerð krafa um tiltekna fundarsókn til ákvarðanatöku sbr. 1. mgr. 42. gr. laganna.  Telst tillaga um breytingu á hagnýtingu séreignar skv. 3. mgr. 27. gr. því samþykkt með einföldum meirihluta greiddra atkvæða á húsfundi miðað við fjölda og eignarhlutfall.  Hlaut hin umdeilda tillaga samþykki 20/24 eða 83,33% greiddra atkvæða miðað við fjölda og 66,86/78,85 eða 84,79% greiddra atkvæða miðað við eignarhlutfall.  Kærendur hafa dregið í efa gildi umboða fyrir eignarhluta 0109, 0111 og 0211, sem samþykktu umdeilda tillögu, með þeim rökum að umboðin hafi ekki stafað frá þinglýstum eigendum eignarhlutanna.  Atkvæði þessi höfðu 3/24 eða 12,5% vægi á fundinum miðað við fjölda atkvæða og 10,92/78,85 eða 13,85% vægi miðað við eignarhlutfall.  Ljóst er að þessi atkvæði geta ekki breytt niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar þótt ógild væru talin og ekki verður fallist á að afturköllun gildra umboða á fundinum að ákvarðanatöku lokinni hrófli við niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar.

Ekki verður fallist á þá málsástæðu kærenda að minnkun vatnsrennslis í eignarhluta eins kærenda geti valdið ógildingu hins kærða byggingarleyfis.  Ef í ljós verður leitt að heimilaðar framkvæmdir hafi leitt til þessa annmarka er um tæknilegt atriði að ræða sem bætt verður úr með öðrum og vægari hætti en ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Að öllu þessu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að breytt notkun séreignarhluta 0103 í húsinu að Engjateigi 17-19 hafi hlotið tilskilið samþykki eigenda hússins á húsfundi hinn 9. apríl 2001 í samræmi við ákvæði fjöleignarhúsalaga og hafi því skilyrði 4. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 ekki staðið í vegi fyrir veitingu hins kærða byggingarleyfis.  Þá liggja ekki fyrir aðrir annmarkar á hinni kærðu ákvörðun sem leitt gætu til ógildingar hennar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. apríl 2001, að veita leyfi til að innrétta snyrtistofu í eignarhluta 0103 í húsinu nr. 17-19 við Engjateig, er hafnað.

_______________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________               _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                          Ingibjörg Ingvadóttir

7/2003 Hlíðarás

Með

Ár 2003, mánudaginn 10. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 7/2003, kæra eigenda fasteignarinnar nr. 7 við Hlíðarás í Mosfellsbæ á ákvörðun tollstjórans í Reykjavík frá 11. október 2002 að synja erindi kærenda varðandi skipulagsgjald af fasteigninni Hlíðarási 7, Mosfellsbæ.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi, dags. 24. janúar 2003, framsendir fjármálaráðuneytið til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála kæru G f.h. K og K, þar sem kærð er að hluta ákvörðun tollstjórans í Reykjavík frá 11. október 2002 varðandi innheimtu skipulagsgjalds af fasteigninni Hlíðarási 7 í Mosfellsbæ. 

Málavextir:  Með kaupsamningi, dags. 22. febrúar 2001, keyptu kærendur íbúðarhús að Hlíðarási 7 í Mosfellsbæ.  Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum mun húsið hafa verið byggt á árinu 1997, en fyrst virt til brunabóta með skoðunargerð hinn 23. janúar 2001.  Í kjölfar brunabótavirðingar hússins var skipulagsgjald lagt á eignina og reikningur sendur þáverandi eigendum og viðsemjendum kærenda um eignina.  Var gjalddagi reiknings þessa 1. febrúar 2001 og eindagi 1. mars s.á.

Ekki verður séð að upplýst hafi verið um álagningu gjalds þessa við kaup kærenda á eigninni.  Er ekkert að gjaldinu vikið í kaupsamningi og virðist kærendum hafa verið ókunnugt um tilvist þess og það lögveð, sem fyrir því hafði stofnast í eigninni.

Með samhljóða bréfum tollstjórans í Reykjavík, dags. 9. september 2002, var kröfum um greiðslu gjaldsins, ásamt áföllnum dráttarvöxtum, beint að kærendum og var þeim veittur 10 daga frestur til þess að greiða skuldina ef komast ætti hjá frekari innheimtuaðgerðum.  Í tilefni af bréfum þessum ritaði umboðsmaður kærenda ódagsett bréf til tollstjórans í Reykjavík, þar sem á það var bent að embættið væri að krefja ranga aðila um greiðslu gjaldsins, enda væru fyrri eigendur eignarinnar réttir greiðendur þess. 

Erindi þessu svaraði tollstjóri með bréfi, dags. 19. september 2002, þar sem upplýst var að fyrri eigendum hefði verið sendur reikningur fyrir gjaldinu með gjalddaga 1. febrúar 2001 og eindaga 1. mars sama ár og væru þeir með réttu skuldarar samkvæmt umræddum reikningi.  Gjaldið hefði hins vegar ekki verið greitt og þar sem það nyti lögveðs í fasteigninni að Hlíðarási 7 væri nauðsynlegt að beina innheimtunni að kærendum, enda yrði fasteign þeirra seld nauðungarsölu fyrir skuldinni yrði hún ekki greidd.

Umboðsmaður kærenda ritaði tollstjóra bréf að nýju hinn 27. september 2002.  Benti hann á að kærendur hefðu aldrei fengið reikning fyrir gjaldinu eða vitneskju um tilvist þess og væri óviðunandi að þeim væri gert að greiða dráttarvexti af gjaldinu í ljósi forsögu málsins.  Krafðist hann þess f.h. kærenda að þeim yrði sendur reikningur og að dráttarvextir yrðu felldir niður.  Jafnframt að gjaldfrestur yrði veittur meðan málið væri í kærufarvegi.

Erindi þessu hafnaði tollstjóri með bréfi, dags. 11. október 2002.  Var þar áréttað að lögveð væri fyrir gjaldinu í fasteign kærenda.  Var í lok bréfsins á það bent að ef kærendur vildu ekki una ákvörðun tollstjóra í málinu væri unnt að skjóta henni til fjármálaráðuneytisins, sem tæki endanlega ákvörðun um afgreiðslu tollstjórans í Reykjavík, sbr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með bréfi, dags. 15. október 2002, vísaði umboðsmaður kærenda málinu til fjármálaráðuneytisins og krafðist þess að kröfu um dráttarvexti af gjaldinu yrði beint að fyrri eigendum eignarinnar eða að vextirnir yrðu felldir niður.  Af málsgögnum verður ráðið að fjármálaráðuneytið hafi kveðið upp úrskurð í máli kærenda hinn 12. nóvember 2002, en ekki liggur fyrir hvert hafi verið efni þess úrskurðar.  Með bréfi, dags. 24. janúar 2003, tilkynnti fjármálaráðuneytið að það afturkallaði úrskurð sinn í málinu með vísan til 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á þeim grundvelli að ráðuneytið hafi ekki verið bært stjórnvald til að úrskurða í málinu og að málið yrði, með vísan til 7. gr. stjórnsýslulaga, framsent til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála.  Vísaði ráðuneytið til 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og 7. gr. reglugerðar nr. 737/1997 um skipulagsgjald til stuðnings þessari ákvörðun.  Var erindi kærenda samhliða þessu framsent úrskurðarnefndinni með bréfi, dags. 24. janúar 2003, svo sem að framan er rakið.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda var upphaflega á því byggt að kröfu innheimtumanns vegna skipulagsgjalds af eign þeirra að Hlíðarási 7 væri beint að röngum aðila og væru fyrri eigendur réttir skuldarar að gjaldinu. 

Eftir að hafa fengið upplýsingar um að lögveð sé fyrir gjaldinu í fasteigninni mótmæla kærendur því ekki lengur að innheimtu þess sé beint að sér en krefjast þess einungis að lagt verði fyrir innheimtumann að hann snúi sér beint að fyrri eigendum varðandi greiðslu dráttarvaxta af gjaldinu eða felli þá niður, enda sé það, með hliðsjón af atvikum málsins, mannréttindabrot að krefja kærendur um vextina.

Málsrök innheimtumanns ríkissjóðs:  Af hálfu innheimtumanns hefur verið vísað til þess að margnefnt skipulagsgjald njóti lögveðréttar í fasteign kærenda og að krefjast megi nauðungarsölu á eigninni til heimtu gjaldsins að undangenginni greiðsluáskorun, sbr. 9. og 6. gr. nauðungarsölulaga nr. 90/1991.  Krafan um dráttarvexti hefur ekki verið rökstudd sérstaklega svo séð verði.

Niðurstaða:  Samkvæmt 2. mgr. 35. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skal greiða skipulagsgjald af nýbyggingum sem virtar eru til brunabóta.  Telst nýbygging hvert nýreist hús sem virt er til brunabóta, svo og viðbyggingar við eldri hús ef virðingarverð hinnar nýju viðbyggingar nemur a.m.k. 1/5 verðs eldra húss.  Í 3. mgr. sömu greinar segir að skipulagsgjald falli í gjalddaga þegar virðingargjörð hafi farið fram og Fasteignamat ríkisins hafi tilkynnt hana innheimtumanni ríkissjóðs.  Þá segir í nefndu ákvæði að gjaldinu fylgi lögveð í eigninni, en einnig að innheimta megi gjaldið með fjárnámi.

Nánar er kveðið á um álagningu, innheimtu og ráðstöfun gjaldsins í reglugerð nr. 737/1997 um skipulagsgjald.  Er í 7. gr. þeirrar reglugerðar kveðið á um að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála skeri úr ágreiningi sem upp kunni að koma um álagningu og innheimtu gjaldsins.  Verður erindi kærenda tekið til efnisúrlausnar í nefndinni með vísan til þessa ákvæðis. 

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var fasteignin að Hlíðarási 7 virt til brunabóta með skoðunargerð er fram fór hinn 23. janúar 2001.  Í framhaldi af virðingargjörðinni var skipulagsgjald að fjárhæð kr. 24.387,- lagt á eignina og þáverandi eigendum sendur reikningur fyrir gjaldinu með gjalddaga 1. febrúar 2001 og eindaga 1. mars sama ár.  Við álagningu gjaldsins stofnaðist lögveðréttur í fasteigninni til tryggingar gjaldinu.  Samkvæmt 5. tl. 1. mgr. 6. gr. laga um nauðungarsölu nr. 90/1991 er heimilt að krefjast nauðungarsölu til fullnustu lögveðkröfu af því tagi sem hér um ræðir og nær fullnusturétturinn jafnframt til dráttarvaxta og kostnaðar sem hlýst af greiðsludrætti eða vanskilum skuldarinnar, sbr. 2. mgr. 6. gr. sömu laga. Var innheimtumanni rétt, með heimild í 9. gr. þágildandi vaxtalaga nr. 25/1987, að krefja um dráttarvexti af skuldinni þegar greiðsludráttur var orðinn og stóð lögveðið til tryggingar áföllnum og áfallandi vöxtum jafnt sem höfuðstól skuldarinnar.  Þykir ekki unnt að fallast á kröfu kærenda um eftirgjöf eða niðurfellingu  dráttarvaxta af  umræddu skipulagsgjaldi gagnvart þeim, þrátt fyrir að þeim hafi fyrst orðið kunnugt um lögveðkröfuna svo seint sem raun ber vitni, enda nýtur ekki ákvæða í lögum um fyrningu lögveðréttar fyrir skipulagsgjaldi eða um aðrar sérstakar takmarkanir á skyldum veðþola umfram aðalskuldara gjaldsins.

Hvað varðar áfall vaxta eftir þann tíma er kærendum varð kunnugt um lögveðkröfuna verður að telja það á ábyrgð kærenda, enda var þeim unnt að afstýra frekara vaxtaáfalli með því að greiða hina umkröfðu skuld, eftir atvikum með fyrirvara um endurgreiðslu í samræmi við niðurstöðu æðra stjórnvalds um greiðsluskyldu þeirra.

Þrátt fyrir framangreinda niðurstöðu kann að vera að kærendur eigi endurkröfu fyrir gjaldinu á hendur fyrri eigendum.  Álitaefni um rétt kærenda til endurgreiðslu eða skaðabóta eru hins vegar einkaréttarlegs eðlis og ráðast af samningum aðila og reglum og venjum í fasteignakaupum og um ábyrgð fasteignasala.  Fellur það utan valdsviðs úrskurðarnefndarinnar að skera úr um þessi álitaefni.

Samkvæmt því sem að framan er rakið verður kröfu kærenda hafnað og skal álagning og innheimta hinna umdeildu dráttarvaxta standa óröskuð gagnvart þeim.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu eigenda Hlíðaráss 7, Mosfellsbæ um að innheimtu dráttarvaxta vegna skipulagsgjalds af fasteign þeirra verði beint að fyrri eigendum eða að vextirnir verði felldir niður.

____________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                 Ingibjörg Ingvadóttir

12/2002 Sóleyjargata

Með

Ár 2003, mánudaginn 3. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 12/2002, kæra íbúa að Sóleyjargötu 23, Fjólugötu 21 og Fjólugötu 23, Reykjavík á þeirri ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 8. maí 2002 að heimila Kennarasambandi Íslands að breyta einbýlishúsinu að Sóleyjargötu 25 í orlofsíbúðir. 

Í málinu er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 10. maí 2002, er barst nefndinni hinn 13. sama mánaðar, kæra B, Sóleyjargötu 23, K, Fjólugötu 21 og Ö, Fjólugötu 23, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 8. maí 2002 að heimila Kennarasambandi Íslands að breyta einbýlishúsinu að Sóleyjargötu 25 í orlofsíbúðir.  Borgarstjórn staðfesti hina kærðu ákvörðun hinn 16. maí 2002.  Kærendur krefjast þess að ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Húsið að Sóleyjargötu 25, Reykjavík er steinsteypt tveggja hæða hús auk kjallara, með fullri lofthæð, og bílgeymslu sem stendur í enda götureits, sem markast af Sóleyjargötu, Njarðargötu og Fjólugötu.  Aðgengi er að húsinu bæði frá Sóleyjargötu og Fjólugötu.  Bílastæði eru við Fjólugötu og þar er einnig aðkoma að bílgeymslu.  Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016, sem við á í máli þessu, stendur húsið á íbúðarsvæði og hefur svæðið ekki verið deiliskipulagt.  Eigandi hússins, Orlofssjóður Kennarasambands Íslands, sótti síla árs 2001 um leyfi til breytinga á innra skipulagi hússins í þá veru að í stað einbýlishúss yrði veitt heimild til að gera sex orlofsrými í húsinu.  Auk þessa skyldi hluti bílgeymslu fjarlægður og nýr inngangur gerður að húsinu. 

Byggingarleyfisumsóknin var tekin fyrir á afgreiðslufundum byggingarfulltrúa hinn 18. desember 2001, 8. janúar 2002 og hinn 29. sama mánaðar og frestað í öll skiptin en samþykkt að lokum hinn 19. febrúar 2002.  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 26. febrúar 2002 var erindið tekið fyrir að nýju og þá samþykkt að vísa því til skipulagsfulltrúa til ákvörðunar um grenndarkynningu.  Á afgreiðslufundi Borgarskipulags hinn 1. mars sama ár var samþykkt að grenndarkynna byggingarleyfisumsóknina fyrir hagsmunaaðilum og voru því framkvæmdir stöðvaðar af byggingarfulltrúa.  Athugasemdir bárust frá 21 íbúa við Fjólugötu og Sóleyjargötu.  Að grenndarkynningunni lokinni var byggingarleyfisumsóknin tekin til afgreiðslu í skipulags- og byggingarnefnd hinn 8. maí 2002 og samþykkt með því skilyrði að innheimt yrði bílastæðagjald vegna tveggja bílastæða.  Þá skyldi og þinglýsa kvöð um að eignarhald hússins yrði á einni hendi og að óheimilt yrði að hafa þar varanlega búsetu eða skrá þar fólk til lögheimilis nema sótt yrði um breytingu á húsnæðinu til samræmis við ákvæði byggingarreglugerðar um íbúðarhúsnæði.  Fundargerð skipulags- og byggingarnefndar var staðfest í borgarstjórn hinn 16. maí 2002. 

Kærendur voru ósáttir við þessi málalok og skutu ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Kærendur halda því fram að skipulagsyfirvöld hafi látið undir höfuð leggjast að kynna hagsmunaaðilum fyrirhugaðar framkvæmdir sem hafi staðið yfir í átta vikur án tilskilinna leyfa þegar áformaðar breytingar hafi loks verið grenndarkynntar og þá að kröfu nágranna.  Þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar kærenda hafi framkvæmdir staðið yfir í tuttugu vikur án tilskilinna leyfa þegar borgarráð hafi loks samþykkt byggingarleyfið en þá hafi framkvæmdum að mestu verið lokið.  Þá halda kærendur því fram að ekki hafi verið nægjanlegt að grenndarkynna einvörðungu byggingarleyfisumsóknina heldur hafi breytingin verið þess eðlis að deiliskipuleggja hefði þurft svæðið.

Kærendur halda því einnig fram að brotið hafi verið gegn byggingarreglugerð varðandi fyrirkomulag og rýmisstærð orlofsrýmanna.  Hvergi í reglugerðinni sé minnst á „orlofsíbúð“ og því sé engin lagaheimild til fyrir því að gera minni kröfur til þess háttar íbúða en annarra sem búið sé í.  Þá hafi byggingarfulltrúi og Borgarskipulag brugðist hlutverki sínu með því að krefjast ekki leiðréttinga á hönnunargöllum á uppdráttum og á misræmi í umsókn um byggingarleyfi, þrátt fyrir ábendingar kærenda.

Kærendur benda á að breyting hússins að Sóleyjargötu 25 úr einbýlishúsi í fjölbýlishús með sex orlofsrýmum hafi neikvæð áhrif vegna aukinnar bílaumferðar og að möguleikar íbúa götunnar til að leggja bílum sínum þar muniminnka verulega.  Bílastæðin við vesturbrún Fjólugötu, á milli Bragagötu og Njarðargötu, séu fyrir löngu fullnýtt og því þurfi að fjölga bílastæðum verulega ef breytingin eigi að ná fram að ganga.  Þó svo að um sé að ræða „orlofsíbúðir“ þá verði að gera sömu kröfur um bílastæði og almennt tíðkist og sennilega sé ástæða til að gera ríkari bílastæðakröfur til þess háttar íbúða.  Kærendur halda því fram að nú þegar sé komin slæm reynsla á rekstur orlofsrýmanna því vísbendingar séu um að hverju rými fylgi a.m.k. einn bíll og oft sé þar mjög gestkvæmt síðdegis og að kvöldlagi.  Þá sé einnig þjónustuumferð áberandi og umferð vegna skjalageymslu Kennnarasambandsins sé nokkur.  Vegna skorts á bílastæðum sé bifreiðum lagt upp á gangstétt. 

Þá benda kærendur einnig á að með umdeildri byggingarleyfisumsókn hafi ekki fylgt bílastæðabókhald vegna breyttrar landnotkunar og aukinnar bílastæðaþarfar.

Kærendur halda því fram að borgarráð hafi misbeitt valdi sínu gegn hagsmunum íbúa við Fjólugötu og Sóleyjargötu með því að samþykkja að gefa Kennarasambandinu kost á því að kaupa sig frá aukinni bílastæðakröfu.  Næsta bílastæðahús sé í Ráðhúsinu og þangað sé um 8 til 10 mínútna gangur og því feli þessi ráðstöfun ekki í sér lausn á bílastæðavanda íbúa Fjólugötu og Sóleyjargötu. 

Kærendur krefjast þess að borgaryfirvöld sjái til þess að nægilegum fjölda bílastæða verði komið fyrir á lóðinni að Sóleyjargötu 25 en að öðrum kosti verði rekstur orlofsíbúðanna stöðvaður.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Í umsögn Skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkurborgar, dags. 22. apríl 2002, um athugasemdir vegna grenndarkynningar byggingarleyfisumsóknar varðandi Sóleyjargötu 25 er tekið undir það með kærendum að hugtakið „orlofsíbúð“ sé ekki skilgreint í byggingarreglugerð nr. 441/1998.  Aftur á móti sé hugtakið „frístundahús“ skilgreint í 115. gr. reglugerðarinnar sem hús sem sé ætlað til tímabundinnar dvalar og þurfi þess háttar hús ekki að uppfylla skilyrði reglugerðarinnar sem sett séu um íbúðarhús.  Í því tilfelli sem hér um ræði miði breytingar hússins að tímabundinni dvöl fyrir félagsmenn Kennarasambands Íslands en hvorki til varanlegrar né lengri dvalar.  Með vísan til þessa þurfi framkvæmdirnar ekki að uppfylla almenn ákvæði reglugerðarinnar um íbúðarhúsnæði.  Eigi að síður verði að horfa til 105. gr. byggingarreglugerðarinnar sem fjalli um hús til annara nota en íbúðar.  Meginregla hennar sé að við umfjöllun um slík hús skuli almennt miða við þær kröfur sem gerðar séu til íbúðarhúsa eftir því sem við geti átt að mati byggingarnefndar.  Skipulags- og byggingarnefnd borgarinnar hafi því haft heimild til að meta hvað teldist eðlilegt í þessu sambandi m.t.t. notkunar húsnæðisins.  Einnig verði, eftir því sem við geti átt, að líta til ákvæða byggingarreglugerðarinnar um hótel, dvalar- og heimavistir. 

Með tilliti til framangreinds, sbr. skilgreiningu hugtaksins frístundahús, heldur Reykjavíkurborg því fram að „orlofsíbúðir“ þurfi ekki að uppfylla ákvæði reglugerðarinnar um íbúðarhús og eigi það einnig við um þær kröfur sem gerðar séu til fjölda bílastæða.  Reykjavíkurborg telur því að borgin geti metið hvaða bílastæðakröfur gera eigi til hússins.  Afar ólíklegt sé að fleiri en einn bíll fylgi hverri íbúðareiningu og reikna megi með því að hluti gestanna verði ekki á bíl. 

Rétt sé hjá kærendum að ekki hafi verið unnið svokallað bílastæðabókhald vegna umsóknarinnar.  Um slíkt sé hvorki gerð krafa í lögum né byggingarreglugerð og því ekki um formgalla að ræða á umsókn þótt slíkur útreikningur liggi ekki fyrir. 

Andsvör kærenda við málsrökum Reykjavíkurborgar:  Talsmanni kærenda var gefinn kostur á að koma að andsvörum vegna umsagnar Reykjavíkurborgar í málinu og bárust þau úrskurðarnefndinni með bréfi hinn 3. október 2003. 

Kærendur benda á að umsögn skipulags- og byggingarsviðs hafi ekki verið kynnt kærendum vorið 2002 og raunar ekki komið þeim fyrir sjónir fyrr en í september 2003.  Ljóst sé af innihaldi umsagnarinnar að kærendur hefðu getað farið aðrar leiðir og því halda kærendur því fram að grenndarkynningarferlinu hafi ekki lokið með fullnægjandi hætti af hálfu borgaryfirvalda og því sé útgáfa byggingarleyfisins í uppnámi.

Kærendur mótmæla því harðlega að íbúðir þær sem hér um ræðir að Sóleyjargötu 25 geti fallið undir hugtakið „frístundahús“ enda megi af 115. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 ráða að fyrst og fremst sé átt við sumarhús fjarri þéttbýli.  Þess háttar hús séu oft án nokkurrar tengingar við vegakerfið og því séu ekki gerðar sömu kröfur varðandi bílastæði og í þéttbýli.

Kærendur halda því fram að eftir þá sextán mánuði sem rekstur orlofsíbúðanna hafi staðið í húsinu sé ljóst að langflestir leigutakarnir komi til Reykjavíkur á eigin bifreiðum og því sé verulegur skortur á bílastæðum í kringum það.  Íbúar þurfi því oft að leita stæða fyrir bíla sína í nærliggjandi götum.  Vegna þessa halda kærendur því fram að þörf sé á 12 – 16 bílastæðum fyrir húsið.

Málsrök byggingarleyfishafa:  Orlofssjóður Kennarasambands Íslands tekur undir málsrök Reykjavíkurborgar en bendir einnig á að þegar húsið hafi verið keypt hafi fjögur herbergi í kjallara hússins verið í útleigu og því hafi bílastæðaþörf hússins minnkað er Kennarasambandið hafi eignast húsið. 

Niðurstaða:  Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016, sem við á í málinu, er heimilt að reka gistiaðstöðu á íbúðarsvæðum ef reksturinn veldur nágrönnum ekki ónæði m.a. vegna óeðlilega mikillar umferðar.  Hin kærða ákvörðun veitti heimild til þess að húsinu að Sóleyjargötu 25 í Reykjavík yrði breytt úr einbýlishúsi í orlofshús með sex orlofsrýmum ætluðum félagsmönnum Kennarasambands Íslands auk þess að fjarlægja hluta bílgeymslu og gera nýjan inngang að húsinu. 

Á svæðum þar sem ekki liggur fyrir deiliskipulag er það meginregla, samkvæmt 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, að gera skuli deiliskipulag þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar.  Í 3. mgr. ákvæðisins er gerð sú undantekning að sveitarstjórn getur heimilað framkvæmdir í þegar byggðum hverfum, sem ekki hafa verið deiliskipulögð að undangenginni grenndarkynningu skv. 7. mgr. 43. gr. laganna.  Hefur þetta ákvæði verið túlkað svo, til samræmis við 2. mgr. 26. gr. laganna, að aðeins megi heimila með þessum hætti óverulegar framkvæmdir eða breytingar.

Að mati úrskurðarnefndarinnar verður hið umdeilda byggingarleyfi ekki talið hafa verulega breytingu í för með sér.  Var byggingaryfirvöldum því heimilt að veita hið umdeilda byggingarleyfi að undangenginni grenndarkynningu svo sem gert var og bar ekki nauðsyn til að gera deiliskipulag fyrir svæðið vegna veitingar leyfisins.

Í máli þessu liggur fyrir að framkvæmdir samkvæmt hinu upphaflega byggingarleyfi voru hafnar áður en grenndarkynning um erindið átti sér stað.  Aftur á móti voru þær stöðvaðar af borgaryfirvöldum þegar þau ákváðu að grenndarkynna erindi Orlofssjóðs Kennarasambands Íslands og að grenndarkynningunni lokinni var endanleg ákvörðun um útgáfu leyfisins tekin.  Verður að telja að þrátt fyrir þennan annmarka á málsmeðferð borgaryfirvalda við veitingu leyfisins hafi sjónarmið kærenda legið fyrir þegar endanleg ákvörðun um útgáfu þess var tekin enda gerðu þeir athugasemdir við byggingarleyfisumsóknina.  Þá var þeim, í kjölfar ákvörðunar skipulags- og byggingarnefndar, tilkynnt um afgreiðslu erindisins, eins og áskilið er samkvæmt 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Er því ekki unnt að fallast á það með kærendum að framkvæmd grenndarkynningarinnar hafi verið svo áfátt að leiða eigi til þess að byggingarleyfið verði fellt úr gildi. 

Hús það sem hér um ræðir er ætlað sem orlofshús fyrir félagsmenn Kennarasambands Íslands eins og áður er fram komið.  Skilyrði skipulags- og byggingarnefndar fyrir veitingu byggingarleyfisins var að þinglýst yrði kvöð um að eignarhald hússins skyldi vera á einni hendi og að óheimilt væri að hafa þar varanlega búsetu eða skrá þar lögheimili nema sótt yrði um breytingu á húsnæðinu til samræmis við ákvæði byggingarreglugerðar um íbúðarhúsnæði.  Kærendur halda því fram að óheimilt sé að víkja frá kröfum byggingarreglugerðar, t.d. varðandi stærð þessara orlofsrýma, og gera annars konar kröfur til þeirra en almennt séu gerðar samkvæmt reglugerðinni um íbúðir. 

Hvað þetta atriði varðar þá segir í 1. mgr. 105. gr. byggingarreglugerðar að þegar sótt sé um leyfi til að byggja hús til annara nota en íbúðar skuli miða við þær kröfur sem gerðar séu til íbúðarhúsa eftir því sem þær geti átt við að mati byggingarnefndar.  Það er álit úrskurðarnefndarinnar að skipulags- og byggingarnefnd hafi tekið eðlilegt tillit til krafna reglugerðarinnar um íbúðarhús varðandi orlofsýmin, enda liggur fyrir að húsnæðið verði eingöngu nýtt til tímabundinnar dvalar. 

Sóleyjargata nr. 25 er í gamalgrónu hverfi í jaðri miðborgarinnar þar sem hefðbundin íbúðarbyggð blandast ýmiskonar þjónustustarfsemi.  Er þar m.a. opinber stofnun, sendiráð, lögfræðiskrifstofa og arkitektastofur.  Fjólugata er einstefnugata, við hana er frágengin gangstétt og meðfram henni öðrum megin eru bílastæði.  Inni á lóð hússins að Sóleyjargötu 25 eru tvö bílastæði auk bílgeymslu fyrir einn bíl.  Meðfram lóð hússins er unnt að leggja einni til tveimur bifreiðum.  Svæði þetta byggðist á þeim tíma þegar bílaeign landsmanna var miklum mun minni en í dag og miðuðust bílastæðakröfur við þá staðreynd.  Því fer fjarri að allir íbúar svæðisins hafi aðgang að bílastæðum heima við hús sín eins og nú er áskilið í 3. mgr. 64. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, en þar segir að á hverri lóð við íbúðarhús skuli vera bílastæði.  Undantekningu frá þessu er að finna í 10. mgr. sömu greinar en þar segir að heimilt sé að leysa lóðarhafa undan kvöð um bílastæði ef hann greiði bílastæðagjald samkvæmt 28. gr. reglugerðarinnar, en gjaldi þessu skal varið til uppbyggingar almenningsbílastæða í nágrenni viðkomandi lóðar. 

Með hliðsjón af framangreindu verður að telja að ekki hafi verið gengið svo gegn grenndarhagsmunum kærenda að ógilda beri byggingarleyfið og því er ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar staðfest.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 8. maí 2002, sem staðfest var af borgarstjórn hinn 16. sama mánaðar, að veita byggingarleyfi fyrir breytingum á húsinu að Sóleyjargötu 25, Reykjavík, er staðfest.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Ingibjörg Ingvadóttir

46/2002 Birkihvammur

Með

Ár 2003, fimmtudaginn 23. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 46/2002, kæra eigenda íbúðarhússins að Birkihvammi 2, Hafnarfirði á ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðarbæjar frá 30. júlí 2002 um að synja umsókn þeirra um leyfi til stækkunar og breytinga á húsinu.

Í málinu er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 28. ágúst 2002, er barst nefndinni sama dag, kæra G og H eigendur íbúðarhússins að Birkihvammi 2, Hafnarfirði, þá ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðarbæjar frá 30. júlí 2002 að synja umsókn þeirra um leyfi til stækkunar og breytinga á húsinu.

Kærendur krefjast þess að ákvörðun skipulags- og byggingarráðs verði felld úr gildi. 

Samþykkt skipulags- og byggingarráðs var staðfest í bæjarstjórn Hafnarfjarðar hinn 20. ágúst 2002.

Málavextir:  Húsið að Birkihvammi 2 í Hafnarfirði er einbýlishús á tveimur hæðum, byggt árið 1952.  Það er 154 fermetrar að stærð, auk bílskúrs.  Gólfflötur hvorrar hæðar er um 70 fermetrar og er þak hússins svokallað „valmaþak“. 

Árið 1999 lögðu kærendur fram fyrirspurn til skipulags- og umferðarnefndar Hafnarfjarðarbæjar þess efnis hvort leyft yrði að hækka þak hússins til að ná fram betri nýtingu þess og laga það að nútímaþörfum.  Nánar tiltekið óskuðu kærendur eftir leyfi til að lyfta þaki hússins og breyta því úr „valmaþaki“ í svokallað „mansardþak“, byggja stigahús utan um tröppur og tengja við bílskúrinn.  Þegar kærendur lögðu fram áðurnefnda fyrirspurn var svæðið sem um ræðir ekki deiliskipulagt.  Skipulags- og umferðarnefnd lagðist gegn erindi kærenda eins og það lá fyrir.  Eigi að síður lögðu kærendur inn formlega byggingarleyfisumsókn til byggingarnefndar, sem tók jákvætt í erindi þeirra og vísaði því til skipulags- og umferðarnefndar til grenndarkynningar.  Skipulags- og umferðarnefnd lagðist gegn erindinu, taldi þak of umfangsmikið og fól skipulags- og umhverfisdeild að útbúa ramma fyrir stækkun hússins. 

Kærendur vildu ekki una þessum málalokum og óskuðu eftir rökstuðningi nefndarinnar.  Fyrir skipulags- og umferðarnefnd voru lagðir skilmálar/rammi skipulags- og umhverfisdeildar fyrir stækkun hússins og lagði nefndin til að byggingarnefnd hefði skilmálana/rammann til hliðsjónar við afgreiðslu erindisins en stóð að öðru leyti við fyrri bókanir sínar í málinu.  Í kjölfar þessa tók byggingarnefnd málið til afgreiðslu og vísaði því að nýju til skipulags- og umferðarnefndar til grenndarkynningar.  Í tilefni þessa lagði skipulags- og umferðarnefnd til við bæjarstjórn að frestað yrði afgreiðslu málsins þar til deiliskipulag svæðisins lægi fyrir og samþykkti bæjarráð tillöguna. 

Vorið 2000 var nýtt deiliskipulag kynnt fyrir svæðið en samkvæmt því var ekki tekið tillit til óska kærenda um stækkun og breytingu á húsi þeirra.  Kærendur telja sig hafa sett fram athugasemdir vegna þessa en starfsmenn bæjarskipulags kannast ekki við það og eiga kærendur ekki til afrit af athugasemdunum. 

Í júlí árið 2002 ákváðu kærendur enn og aftur að leggja fram umsókn um leyfi til breytinga og stækkunar hússins og var synjað með vísan til þess að beiðnin væri ekki í samræmi við deiliskipulag svæðisins. 

Framangreindri ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðarbæjar skutu kærendur til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála eins og að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er á því byggt að hliðstæðar framkvæmdir og þeir fari fram á hafi verið leyfðar á umræddu svæði eftir að deiliskipulag svæðisins hafi verið samþykkt og beri því að fella hina kærðu ákvörðun skipulags- og byggingarráðs úr gildi.  Að Hringbraut 71 hafi verið veitt byggingarleyfi fyrir nýju húsi sem samrýmist ekki þeim skilmálum sem kærendum hafi verið settir varðandi hús þeirra.  Þá hafi einnig verið veitt byggingarleyfi fyrir breytingum á húsinu nr. 73 við Hringbraut sem séu sambærilegar þeim og kærendur hafi óskað eftir.  Með vísan til þessa hafi skipulagsyfirvöld ekki verið sjálfum sér samkvæm við afgreiðslu þessara þriggja mála þó umræddar eignir séu allar á sama deiliskipulagssvæðinu. 

Þá er það skoðun kærenda að rökstuðningur fyrir áliti skipulags- og byggingarráðs sé ófullnægjandi.  Kærendur telja málið ekki snúast um það hvort umrætt hús líti betur út með þakhækkuninni eða ekki, eða hvort tillaga þeirra virði ekki byggingarstíl hússins þar sem mörg hús í Reykjavík og nokkur í Hafnarfirði sem séu byggð á sama tíma hafi umrætt þakform.  Þess í stað snúist málið um það að skipulags- og byggingaryfirvöldum hefði borið að grenndarkynna umsókn þeirra um byggingarleyfi sem breytingu á deiliskipulagi.  Húsin sem standi í götunni séu byggð á 25 ára tímabili og séu sitt með hverju forminu.  Þá benda kærendur á að húsið að Hringbraut 69 sem sé þriðja hús frá þeirra húsi sé með það þakform sem þau hafi óskað eftir.  Því telji kærendur að þeim sé heimilt að byggja ofan á hús sitt til jafns við og á sama hátt og aðrir húseigendur hafi gert á sama tíma og á sama deiliskipulagssvæði.

Kærendur halda því fram að flatarmálsaukningin vegna stækkunar hússins sé innan eðlilegra marka skipulags- og byggingarlaga og muni nýtingarhlutfall lóðarinnar fara úr 0.2 í 0.29.  Þá sé stór hluti stækkunarinnar til kominn vegna stigahússins en núverandi stigi sé mjög varasamur og því ætti ekki einvörðungu að líta til stækkunarinnar út frá fermetraaukningunni heldur hvernig þeir verði nýttir. 

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar:  Af hálfu Hafnarfjarðarbæjar var ekki skilað sérstakri greinargerð til úrskurðarnefndarinnar vegna máls þessa en aftur á móti voru gögn þess send nefndinni.   Þar á meðal er umsögn skipulagsstjóra, dags. 23. júlí 2002, varðandi byggingarleyfisumsókn kærenda þar sem fram kemur að skipulagsstjóri telji að byggingarleyfisumsóknir fyrir Hringbraut 71 og 73 uppfylli hvorugt ákvæði deiliskipulagsskilmála þess efnis að „…viðhalda byggðarmynstri hverfisins og virða byggingarstíl fyrirliggjandi húsa“  eins og segi í deiliskipulaginu.  Þó svo að í þessum tilfellum hafi verið vikið frá deiliskipulagi þá skapi það ekki fordæmi sem aðrir lóðarhafar geti byggt einhvern rétt á.

Í sömu umsögn segir einnig að meginmarkmið deiliskipulagsins sé að viðhalda byggðamynstri hverfisins, sérstaklega hvað varði hús sem beri keim af „funkisstíl“ og séu fulltrúar tiltekins tímabils í byggingarsögu bæjarins.  Við vinnslu deiliskipulags fyrir svæðið hafi verið lögð mikil vinna í að greina byggðarmynstrið og skilmálar bæði fyrir eldri og nýja byggð unnir út frá því.  Niðurstaða þeirrar vinnu hafi verið sú að þakgerðin sem hér hafi verið sótt um, þ.e.a.s. „mansardþak“, sé einungis á einu húsi á skipulagssvæðinu og því alls ekki ríkjandi yfirbragð byggðarinnar eins og haldið sé fram.   Að mati skipulagsstjóra brjóti tillagan í bága við stefnumörkum deiliskipulagsins og ákvæði í skipulagsskilmálum með vísan til eftirfarandi:  „Tillagan virðir ekki byggingarstíl hússins.  Tillagan viðheldur ekki þeim einkennum sem mikilvægust eru talin vera þ.e.a.s. þakformið.  Þakgerð og umfang þess ber grunngerð hússins ofurliði.  Flatarmálsauknin er mun meiri en heimilt er“.

Niðurstaða:  Í máli þessu er til úrlausnar hvort synjun bæjaryfirvalda í Hafnarfirði á umsókn kærenda um leyfi til breytinga á húsi og viðbygginar að Birkihvammi 2 hafi verið lögmæt.  Við úrlausn málsins verður að leggja til grundvallar að kærendur eigi, sem eignedur umræddrar fasteignar, lögvarinn rétt til hagnýtingar hennar, þar á meðal til að breyta eigninni og byggja við hana.  Þessi réttur sætir þó almennum takmörkunum sem settar eru í lögum og með lögmætum stjórnvaldsákvörðunum. Meðal annars getur sveitarstjórn takmarkað þennan rétt með skipulagsákvörunum samkvæmt heimildum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Í hinu umdeilda tilviki hefur sveitarstórn samþykkt deiliskipulag fyrir umrætt svæði og eiga skilmálar þess við í málinu.  Skilmálar þessir kveða í ríkum mæli á um að ákvarðanir samkvæmt þeim skuli háðar mati byggingaryfirvalda.  Þannig skulu heimildir til viðbygginga og breytinga á húsum samkvæmt skilmálunum m.a. ráðast af því „hvernig breytingin falli að húsinu“ og „hvernig breytingin falli að yfirbragði byggðarinnar“.  Einnig er vísað til þess í skilmálunum að viðbyggingin/breytingin megi ekki í hlutföllum og stærð sinni, útliti eða gerð „bera grunngerð hússins ofurliði“ og að „viðbyggingin/breytingin falli vel að stíl hússins og efnisvali.“   Um flatarmáls- og rúmmálsaukningu segir:  „Flatarmáls og rúmmálsaukning viðbygginga má ekki vera yfir 10% nema sérstakar aðstæður gefi tilefni til þess og að þær uppfylli að öðru leyti skilyrði sem sett eru hér að framan um viðbyggingar.  Miðað er við stærð húss þegar sótt er um og er um heildarbyggingarmagn á lóð að ræða, þó má nýtingarhlutfall á lóð ekki yfirstíga:  0,4 fyrir einbýlishús og 0,6 fyrir fjöleignarhús.“

Það hversu matskenndir umræddir skilmálar eru getur leitt til óvissu um það hvenær skilyrðum þeirra sé fullnægt.  Kemur raunar fram í deiliskipulaginu sjálfu að höfundum þess hafi verið þetta ljóst, en þar segir:  „Þar sem ekki er hægt að gera nákvæma skilmála fyrir breytingar einstakra húsa í eldri byggð skal bera fyrirspurn með ósk um breytingar undir byggingarfulltrúa sem metur í samvinnu við bæjarskipulag, hvort hún uppfylli skilyrðin hér að ofan.“  Virðist þessi óvissa einnig hafa leitt til þess að tvívegis hafi verið veitt byggingarleyfi á umræddu svæði sem að mati skipulagsstjóra hafi reynst vera í andstöðu við umrætt deiliskipulag. 

Úrskurðarnefndin telur að verulega skorti á að skilmálar þeir sem að framan er lýst fullnægi kröfum um skírleika stjórnvaldsákvarðana og að við beitingu þeirra verði að líta til hinna matskenndu þátta sem stefnumótandi fremur en ákvarðandi.  Hafi bæjaryfirvöldum því ekki verið heimilt að synja umsókn kærenda með þeim rökum sem talin eru í umsögn skipulagsstjóra um að tillagan virði ekki byggingarstíl hússins og að hún viðhaldi ekki þeim einkennum sem mikilvægust séu talin vera, þ.e.a.s. þakformið auk þess sem þakgerð og umfang þess beri grunngerð hússins ofurliði.

Auk framangreindra raka var í umsögn skipulagsstjóra vísað til þess að fyrirhugaðar framkvæmdir kærenda leiddu til meiri flatarmáls- og rúmmálsaukningar en skipulagið leyfði.  Var þar vísað til þess að ákvæði í skipulagsskilmálunum að flatarmáls- og rúmmetraaukning viðbygginga megi ekki vera meiri en 10% „…nema sérstakar aðstæður gefi tilefni til“  og þær uppfylli önnur skilyrði skilmálanna.  Nýtingarhlutfall megi þó ekki fara yfir 0,4 á lóðum fyrir einbýlishús.

Tilvitnað ákvæði er frávíkjanlegt.  Hafa kærendur fært fram rök fyrir því að sérstakar aðstæður réttlæt að hluta stækkun húss þeirra til þess að koma fyrir fullnægjandi stiga milli hæða.  Hefur þessum sjónarmiðum ekki verið svarað af háfu bæjaryfirvalda og verður því ekki fallist á að tilvitnað ákvæði hafi átt að standa í vegi fyrir því að fallast mætti á umsókn kærenda, sérstaklega þegar litið er til þess að nýtingarhlutfall lóðar þeirra yrði eftir breytingar hússins samkvæmt hinni umdeildu umsókn 0,29 en mætti samkvæmt deiliskipulaginu vera allt að 0,4.

Með hliðsjón af framansögðu telur úrskurðarnefndin að bæjaryfirvöld í Hafnarfirði hafi ekki fært fram málefnaleg rök fyrir þeirri niðurstöðu að umsókn kærenda hafi ekki samræmst gildandi deiliskipulagi.  Verður hin kærða ákvörðun því felld úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun byggingarnefndar Hafnarfjarðar frá 30. júlí 2002, um að synja umsókn kærenda um samþykki fyrir því að heimila stækkun og breytingu á húsinu nr. 2 við Birkihvamm, er felld úr gildi. 

____________________________
Ásgeir Magnússon

_____________________________      __________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                            Ingibjörg Ingvadóttir 

56/2003 Teigagerði

Með

Ár 2003, fimmtudaginn 9. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 56/2003, kæra húseigenda og íbúa að Teigagerði 1 og 2 og Steinagerði 2 og 4 í Reykjavík á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. september 2003 um að veita leyfi til stækkunar fyrstu hæðar og byggingar nýrrar rishæðar að hluta að Teigagerði 3 í Reykjavík.

Í málinu er nú til bráðabirgða kveðinn upp svofelldur

úrskurður
um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 16. september 2003, sem barst nefndinni 17. s.m., kæra H og J, Teigagerði 1, B, Teigagerði 2, Ó og I, Steinagerði 2 og A, Steinagerði 4 Reykjavík ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. september 2003 um að veita leyfi til stækkunar fyrstu hæðar og byggingar nýrrar rishæðar að hluta að Teigagerði 3 í Reykjavík.  Hin kærða ákvörðun var staðfest af borgarstjórn Reykjavíkur hinn 2. október 2003.

Skilja verður málatilbúnað kærenda svo að þeir krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Þá krefjast þeir þess að úrskurðarnefndin úrskurði til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar.  Í erindi kærenda kemur jafnframt fram að dregin sé til baka, af formlegri ástæðu, fyrri kæra byggingarleyfis þar sem það sé ekki lengur í gildi.

Úrskurðarnefndin hefur aflað gagna og leitað afstöðu byggingarleyfishafa og byggingaryfirvalda í Reykjavík til fyrirliggjandi kröfu um stöðvun framkvæmda og er málið nú tekið til úrskurðar um þá kröfu.

Málavextir:  Seint á árinu 2000 var tekin fyrir af byggingarfulltrúanum í Reykjavík umsókn eigenda Teigagerðis 3 um leyfi til stækkunar og breytinga á húsi sínu.  Erindið var sent í grenndarkynningu og synjað að henni lokinni á fundi skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur hinn 7. mars 2001.  Jafnframt var á fundinum samþykkt að vinna deiliskipulag af reit sem afmarkast af Teigagerði, Breiðagerði, Steinagerði og göngustíg sem liggur meðfram lóðunum nr. 15 við Teigagerði og nr. 18 við Steinagerði.

Tillaga að deiliskipulagi reitsins var auglýst til kynningar og samþykkt í skipulags- og byggingarnefnd þann 18. desember 2002.  Liggur ekki annað fyrir en að tillagan hafi hlotið lögboðna málsmeðferð.  Var deiliskipulag reitsins staðfest í borgarráði Reykjavíkur þann 7. janúar 2003 og öðlaðist gildi við birtingu í B-deild Stjórnartíðinda þann 17. mars 2003.  Engar kærur komu fram í kjölfar auglýsingar skipulagsins.

Umrætt deiliskipulag er sett fram á uppdrætti þar sem sýndir eru möguleikar til stækkunar og/eða hækkunar húsa á einstökum lóðum.  Fáeinar lóðir á svæðinu eru merktar tákni um að þar séu hús nánast í upprunalegu ástandi og að mælst sé til að útlit þeirra og efnisnotkun njóti verndar.  Eru slíkar merkingar m.a. á lóðunum nr. 1 og 3 við Teigagerði.

Auk uppdráttar er skipulagi svæðisins lýst í greinargerð.  Er þar gerð grein fyrir aðdraganda skipulagsgerðarinnar, eldra skipulagi svæðisins og núverandi aðstæðum og niðurstöðum.  Fjallað er um byggingarskilmála fyrir viðbyggingum og breytingum húsa á svæðinu og um nýtingarhlutfall.   Segir að gert sé ráð fyrir að nýtingarhlutfall verði allt að 0,5 á lóðum þar sem um kjallara sé að ræða.  Þar sem ekki sé um kjallara að ræða verði nýtingarhlutfall allt að 0,4 til að forðast mikla hækkun húsa.

Greinargerð skipulagsins fylgir húsakönnun Árbæjarsafns og listi yfir byggingarmagn á lóðum og hvað heimilt sé á hverri lóð.

Eftir gildistöku umrædds deiliskipulags sóttu eigendur Teigagerðis 3 um byggingarleyfi til stækkunar á kjallara og fyrstu hæð hússins auk byggingar á nýrri rishæð úr steinsteypu.  Var umsókn þeirra samþykkt af byggingarfulltrúa þann 13. maí 2003.  Kærendur skutu þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála með bréfi þann 10. júní 2003 og kröfðust þess að framkvæmdir yrðu stöðvaðar meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Ekki kom þó til þess að úrskurðarnefndin tæki þá afstöðu til þeirrar kröfu, þar sem byggingarfulltrúinn í Reykjavík stöðvaði, að eigin frumkvæði, framkvæmdir sem hafnar voru samkvæmt leyfinu.  Var það niðurstaða hans að útreikningur hönnuðar á nýtingarhlutfalli væri rangur og að nýtingarhlutfallið væri hærra en deiliskipulagið gerði ráð fyrir.
 
Skipulags- og byggingarnefnd staðfesti á fundi sínum þann 2. júlí 2003 þessa ákvörðun byggingarfulltrúans um stöðvun framkvæmda á lóðinni.  Einnig var lagt til að umrætt byggingarleyfi yrði afturkallað þar sem nýtingarhlutfall virtist brjóta gegn samþykktu deiliskipulagi.  Var samþykkt að veita byggingarleyfishöfum 10 daga frest til þess að tjá sig um tillögu um afturköllun leyfisins. Engar athugasemdir bárust frá byggingarleyfishöfum vegna þessarar tillögu heldur lögðu þeir fram umsókn um nýtt byggingarleyfi með breytingum sem þeir töldu leiða til þess að byggingaráform þeirra samræmdust deiliskipulagi svæðisins.

Var nýtt byggingarleyfi veitt í samræmi við þessa nýju umsókn á fundi skipulags- og byggingarnefndar þann 9. júlí 2003 en jafnframt var fyrra byggingarleyfi afturkallað.  Ákvörðun þessi var staðfest á fundi borgarráðs þann 15. júlí 2003 og var kærendum tilkynnt um þessi málalok með bréfum, dags. 21. júlí 2003.  Skutu þeir málinu til úrskurðarnefndarinnar með bréfum, dags. 18. ágúst 2003.

Með úrskurði til bráðabirgða, uppkveðnum 2. september 2003, stöðvaði úrskurðarnefndin framkvæmdir við breytingar á húsinu nr. 3 við Teigagerði, sem hafnar voru á grundvelli hins nýja byggingarleyfis, enda taldi nefndin enn leika vafa á um lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar.

Eftir að fyrir lá ákvörðun úrskurðarnefndarinnar um stöðvun umræddra framkvæmda sóttu eigendur Teigagerðis 3 enn á ný um byggingarleyfi sem fól í sér að dregið yrði úr umfangi framkvæmdanna.  Var umsókn þessi samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 10. september 2003 en jafnframt var byggingarleyfið frá 9. júlí 2003 afturkallað.

Með bréfi, dags. 17. september 2003, vísuðu kærendur málinu enn til úrskurðarnefndarinnar og kröfðust ógildingar hins nýja byggingarleyfis.  Jafnframt kröfðust þeir þess að framkvæmdir yrðu stöðvaðar meðan málið væri til meðferðar fyrir nefndinni.

Með vísan til þess að hin kærða ákvörðun hafði ekki hlotið lögboðna staðfestingu borgarstjórnar þegar kæran barst úrskurðarnefndinni hinn 18. september 2003 beindi nefndin þeim tilmælum til byggingarfulltrúans í Reykjavík að hann hlutaðist til um að framkvæmdum yrði ekki fram haldið meðan svo væri ástatt.  Ritaði byggingarfulltrúinn bréf til eigenda Teigagerðis 3, dags. 23. september 2003, þar sem m.a. var áréttað „að framkvæmdir við húsið að Teigagerði 3, í samræmi við samþykkt byggingarfulltrúa frá 8. september 2003, eru háðar staðfestingu borgarstjórnar.“ Samkvæmt fyrirliggjandi úttektum mun þrátt fyrir þetta hafa verið unnið að breytingum á húsinu að Teigagerði 3 eftir 10. september og fram til þess að borgarstjórn staðfesti hina kærðu ákvörðun á fundi sínum hinn 2. október 2003. Mun framkvæmdum við útveggi og þök viðbygginga og ytra byrði hækkunar á þaki þá hafa verið að mestu lokið.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er byggt á sömu sjónarmiðum og í fyrra máli um að hið umdeilda byggingarleyfi samræmist ekki skipulagsskilmálum.  Ekki sé unnt að skilja skilmála deiliskipulagsins á þann veg að einungis þurfi að fylgja hæðarpunktum og stærðarmörkum án tillits til annarra ákvæða skilmálanna.  Grenndaráhrif viðbyggingar og hækkunar hússins verði veruleg og langt umfram það sem þörf krefji, enda séu ekki nýttar heimildir til stækkunar aðalhæðar hússins heldur einblínt á hækkun þess.  Þá sé ekki tekið nægjanlegt tillit til verndunarsjónarmiða við fyrirhugaðar breytingar hússins.  Ný útfærsla samkvæmt hinu nýja byggingarleyfi sé ekki til þess fallin að laga breytingarnar að skilmálum skipulagsins um að gæta skuli verndarsjónarmiða við breytingar hússins.  Þá séu stigin vafasöm skref með því að gera ráð fyrir að hluti kjallara hússins verði fylltur upp til þess eins að skapa grundvöll fyrir hækkun þess.  Eftir breytingar samkvæmt umdeildu byggingarleyfi muni húsið ekki fullnægja kröfum um hreinlætis- og þvottaaðstöðu.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu borgaryfirvalda er þess krafist að kröfum kærenda um stöðvun framkvæmda verði hafnað.  Er vísað til sömu sjónarmiða og í fyrra máli en að auki er nú sérstaklega tekið fram hvað stöðvunarkröfu kærenda varðar að í málinu liggi fyrir að framkvæmdum utanhúss, á grundvelli hins kærða byggingarleyfis, sé nánast lokið. Komi það m.a. fram í bréfi kærenda til úrskurðarnefndarinnar, dags. 7. október 2003, auk þess sem hægt sé að staðreyna það á  vettvangi.  Í ljósi þessa verði ekki séð að kærendur eigi lögvarða hagsmuni af því að framkvæmdir verði stöðvaðar, enda breytist grenndaráhrif þeirra ekki þó haldið verði áfram framkvæmdum innanhúss og lokið við frágang utanhúss. Jafnframt sé ljóst að kjósi byggingarleyfishafar að halda áfram með framkvæmdirnar, áður en efnisúrskurður liggi fyrir, geri þeir það á eigin ábyrgð og áhættu. Í ljósi framangreinds og á grundvelli meginreglu 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, um að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar, telji Reykjavíkurborg einsýnt að hafna beri kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Frekari rök eru færð fram í greinargerð borgaryfirvalda í málinu, dags. 8. sept. 2003, sem ekki þykir ástæða til að rekja við úrlausn þessa þáttar málsins.

Andmæli byggingarleyfishafa:  Af hálfu eigenda Teigagerðis 3 liggur fyrir að þau muni ekki tjá sig frekar en þegar liggi fyrir í bréfum til úrskurðarnefndarinnar vegna málsins.

Niðurstaða:  Eins og að framan greinir ákvað byggingarfulltrúinn í Reykjavík á fundi sínum hinn 10. september 2003 að veita leyfi það sem um er deilt í máli þessu.  Jafnframt var bókað við afgreiðslu erindisins að byggingarleyfi nr. 27591 félli úr gildi. 

Með bréfi,  dags. 11. september 2003, tilkynnti byggingarfulltrúi úrskurðarnefndinni um hið nýja byggingarleyfi og jafnframt að byggingarleyfi nr. 27591 frá 9. júlí s.l. hefði verið fellt úr gildi.  Væri þessi breyting tilkynnt úrskurðarnefndinni þar sem fyrri samþykkt frá 9. júlí 2003 hefði verið kærð til hennar.

Byggingarleyfishafa var tilkynnt um framangreinda afgreiðslu með bréfi, dags. 16. september 2003.  Var í því bréfi tekið fram að samþykkt byggingarfulltrúa væri háð staðfestingu borgarstjórnar og yrði tilkynnt tafarlaust ef hún fengist ekki.

Af málsgögnum verður ráðið að eigendur Teigagerðis 3 hafi á ný hafist handa um framkvæmdir við breytingar á húsi sínu eftir að hafa fengið vitneskju um afgreiðslu byggingarfulltrúa hinn 10. september 2003 og haldið þeim áfram þrátt fyrir fyrirvarann um staðfestingu borgarstjórnar og bréf byggingarfulltrúa frá 23. september þar sem sá fyrirvari er áréttaður.  Verður ekki annað ráðið en að þessar framkvæmdir hafi jafnframt verið með vitund byggingaryfirvalda, enda gerðu starfsmenn byggingarfulltrúa þrjár úttektir á verkþáttum sem unnir voru eftir 10. september og fram til þess tíma er borgarstjórn staðfesti hina kærðu ákvörðun.

Átelja verður að byggingaryfirvöld skuli hafa látið viðgangast að framkvæmdum væri fram haldið við breytingar hússins að Teigagerði 3 á umræddu tímabili, sérstaklega þegar litið er til þess að í gildi var úrskurður úrskurðarnefndarinnar frá 2. september 2003 um stöðvun framkvæmda á lóðinni, en réttaráhrif hans héldu gildi sínu allt til 2. október 2003 er borgarstjórn staðfesti aftuköllun þeirrar ákvörðunar sem úrskurðurinn tók til.  Vanræktu borgaryfirvöld með þessu þá lagaskyldu, sem á þeim hvíldi samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, að framfylgja úrskurði úrskurðarnefndarinnar um stöðvun framkvæmda meðan réttaráhrif hans vöruðu.

Vegna þeirra atvika sem að framan eru rakin hafa eigendur Teigagerðis 3 nú að mestu lokið framkvæmdum við ytra byrði viðbygginga og hækkun á þaki hússins.  Þykir af þeim sökum ekki hafa þýðingu hér eftir að stöðva framkvæmdir meðan mál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni, enda eru framkvæmdir við bygginguna á þeim tíma á ábyrgð og áhættu húseigenda.  Verður kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að framkvæmdir samkvæmt hinu umdeilda byggingarleyfi verði stöðvaðar meðan mál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

 _______________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________          _______________________________
 Þorsteinn Þorsteinsson                                    Ingibjörg Ingvadóttir

56/2001 Grófin

Með

Ár 2003, fimmtudaginn 23. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 56/2001, kæra eins eiganda fasteignanna að Grófinni 8A og 6A, Reykjanesbæ, á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjanesbæjar frá 1. nóvember 2001, að hafna umsókn hans um leyfi til að steypa plötu milli nefndra húsa, setja upp hringstiga og göngudyr.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 7. desember 2001,  er barst nefndinni sama dag, kærir B, fyrir hönd B ehf. kt. 571197-2169, eins eiganda fasteignanna að grófinni 8A og 6A, Reykjanesbæ,  þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjanesbæjar frá 1. nóvember 2001 að hafna byggingarleyfisumsókn kæranda fyrir steyptri plötu milli greindra fasteigna, uppsetningu hringstiga og göngudyra.  Bæjarstjórn Reykjanesbæjar staðfesti ákvörðunina á fundi hinn 6. nóvember 2001.  Kærandi gerir þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir:  Á lóðunum að Grófinni 6 og 8, Reykjanesbæ, eru vinkillaga byggingar sem standa hlið við hlið og skiptast þær í þrjár fasteignir hvor, merktar A, B og C og hafa verið gerðir sérstakir lóðarleigusamningar fyrir hverja fasteign og liggja lóðarmörk fasteignanna að Grófinni 6A og 8A saman.  Húsið að Grófinni 8A er fullbyggt og stendur þrjá metra frá lóðamörkum umræddra fasteigna.  Að Grófinni 6A hefur verið byggður kjallari að lóðarmörkum Grófarinnar 8A og er steypt þakplata kjallarans í yfirborðshæð svæðisins.  Milli fasteignanna er þriggja metra breitt sund, sem hallar til norðurs, en þeim megin er aðkoma að kjallaranum.  Á svæðinu er í gildi deiliskipulag frá árinu 1982 þar sem lóðir eru markaðar en uppdrátturinn hefur ekki að geyma hæðartölur.  Kærandi á 87% fasteignarinnar að Grófinni 8A og 67,3% fasteignarinnar að Grófinni 6A.

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Reykjanesbæjar hinn 16. nóvember 2000 var til afgreiðslu byggingarleyfisumsókn kæranda, sem fól í sér að loka sundinu milli Grófarinnar 6A og 8A með steyptri plötu í sömu hæð og gólfplata Grófarinnar 8A og þakyfirborð Grófarinnar 6A.  Jafnframt var sótt um leyfi fyrir akstursdyrum á þeirri hlið Grófarinnar 8A er lægi að hinni steyptu plötu og út á bílastæði á þakplötu Grófarinnar 6A.  Umsóttar framkvæmdir höfðu verið grenndarkynntar og athugasemdir borist frá eigendum Grófarinnar 6B og 6C.  Andmæli við fyrirhuguðum framkvæmdum beindust fyrst og fremst að því að húsin að Grófinni 6 og 8 yrðu eitt fjöleignarhús með tengingu fasteignanna auk þess sem akstursdyr að Grófinni 8A væru til þess fallinar að auka umferð um lóðir Grófarinnar 6B og 6C.  Var byggingarleyfisumsókninni hafnað með þeim rökum að við framkvæmdirnar yrðu tvö hús gerð að einu en slík breyting væri háð samþykki allra viðkomandi eigenda en ekki lægi fyrir samningur eigenda skv. 2. mgr. 2. gr. fjöleignahúsalaga um frávik frá ákvæðum laganna að þessu leyti.  Bæjarstjórn vísaði málinu aftur til skipulags- og byggingarnefndar hinn 21. nóvember 2000 með þeirri athugasemd að kæranda yrði gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum.

Mun kærandi hafa átt fund með bæjarráði vegna málsins og bæjarráð síðan falið bæjarstjóra að leita lausnar sem kærandi og eigandi Grófarinnar 6B og 6C gætu sætt sig við.  Með bréfi, dags. 21. mars 2001, tilkynnti kærandi bæjarráði að umsókn um akstursdyr á Grófina 8A væri dregin til baka en í þess stað sótt um göngudyr á sama stað, í samræmi við teikningar frá árinu 1987.  Var í bréfinu ítrekuð sú skoðun kæranda að umsóttar framkvæmdir hrófluðu í engu stöðu umræddra fasteigna sem sjálfstæðra fjöleignahúsa og auk þess var skírskotað til þess að allir eigendur Grófarinnar 8A og 6A hefðu samþykkt skriflega fyrirhugaðar framkvæmdir og áréttaður sá skilningur að þær breyttu ekki stöðu húsanna með tilliti til fjöleignarhúsalaga.  Með bréfinu fylgdi greinargerð Guðmundar G. Þórarinssonar verkfræðings frá febrúar 2001, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að umræddar framkvæmdir breyttu ekki réttarstöðu umræddra fasteigna, og fyrrgreindur samningur fasteignaeigenda.  Erindið var afgreitt á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 14. júní 2001 með svofelldri bókun:  „Vegna breyttra forsendna frá áður samþykktum teikningum er erindinu hafnað þar sem ekki er fyrir hendi samþykkt aðkoma að hurðinni.” 

Kærandi sendi inn nýja byggingarleyfisumsókn hinn 13. september 2001 þar sem sótt var um leyfi til að steypa áðurgreinda plötu milli húsanna Grófarinnar 6A og 8A, setja upp hringstiga og setja göngudyr í samræmi við teikningar frá 21. mars 2001.  Umsóttar framkvæmdir voru grenndarkynntar og barst andmælabréf, dags. 25. október 2001, frá lögfræðingi Húseigendafélagsins, f.h. eigenda Grófarinnar 6B og 6C, þar sem lagst var gegn framkvæmdunum með svipuðum rökum og við grenndarkynningu fyrri umsóknar.  Þá lágu fyrir álit verkfræðistofu Njarðvíkur, dags. 26. júlí 2001, og Almennu verkfræðistofunnar, dags. 20. ágúst 2001, um áhrif tengingar umræddra fasteigna með tilliti til fjöleignarhúsalaga.  Umsóknin var síðan tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 1. nóvember 2001 og afgreidd með eftirgreindum hætti:  „Nefndin hafnar öllum atriðum erindisins og vísar í forsendur og greinargerð lögfræðings Húseigendafélagsins.”

Kærandi sendi bæjarráði bréf, dags. 28. nóvember 2001, þar sem komið var á framfæri sjónarmiðum hans og athugasemdum við afgreiðslu málsins og í bréfinu var gerð krafa um endurupptöku þess.  Á fundi bæjarráðs Reykjanesbæjar hinn 13. desember 2001 var erindinu hafnað.

Kærandi sætti sig ekki við synjun byggingarleyfisumsóknarinnar og skaut málinu til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi byggir kröfu sína á því að forsendur bæjaryfirvalda fyrir hinn kærðu ákvörðun, sem tíundaðar séu í athugasemdabréfi, dags. 25. október 2001, vegna grenndarkynningar málsins, eigi ekki við rök að styðjast.

Fyrir liggi, að sú framkvæmd, að steypa plötu yfir sund milli Grófarinnar 6A og 8A, geri ekki fasteignirnar sem standi á lóðunum nr. 6 og 8 að einu fjöleignarhúsi.  Fyrir liggi í málinu álit þriggja verkfræðistofa um það álitaefni sem öll séu á sömu lund, að umdeildar framkvæmdir geri ekki greindar fasteignir að einu fjöleignarhúsi.  Þá hafi kærandi aflað álits kærunefndar fjöleignarhúsamála um álitaefnið, eftir kæru til úrskurðarnefndarinnar, en álitið sé dagsett hinn 10. apríl 2002.  Niðurstaða kærunefndarinnar hafi verið á þá leið að Grófin 6A og 8A verði ekki eitt hús við það að sett verði tengiplata milli þeirra og að ekki þurfi samþykki allra eigenda Grófar 6 fyrir framkvæmdunum.  Snerti framkvæmdin því ekki hagsmuni eigenda fasteignanna að Grófinni 6B og 6C með tilliti til fjöleignarhúsalaga, enda tengist þær fasteignir ekki Grófinni 6A og sé framkvæmdin ekki háð samþykki þeirra.  Bendir kærandi á að fyrir liggi samkomulag eigenda Grófarinnar 8A, 8B, 8C og 6A fyrir framkvæmdunum.  Þá hafi framkvæmdirnar að öðru leyti enga efnislega röskun í för með sér fyrir nágranna.  Fyrirhuguð tengiplata sé öll innan lóðar Grófarinnar 8A, umsóttar göngudyr nýtist sem flóttaleið úr hluta hússins að Grófinni 8A, sem hafi aðrar göngudyr á sama gafli, og gerð hringstiga niður á neðri hluta lóðarinnar geti engu breytt um umferð um svæðið, sem áður hafi verið um sundið sem tengiplötunni sé ætlað að liggja yfir.

Málsrök Reykjanesbæjar:  Bent er á að hin kærða ákvörðun hafi verið tekin að lokinni grenndarkynningu þar sem fram hafi komið andmæli nágranna gegn fyrirhuguðum framkvæmdum.  Hafi mótmælin lotið að því að við fyrirhugaða framkvæmd tengdust fasteignirnar að Grófinni 6 og 8 sem leitt gæti til breyttrar stöðu fasteignanna með hliðsjón af fjöleignarhúsalögum.  Fyrir liggi að nágrannar hafi sett sig á móti umsóttum framkvæmdum og þær séu ekki í samræmi við gildandi skipulag svæðisins.  Hafi bæjaryfirvöldum því ekki verið heimilt, að óbreyttu skipulagi, að veita hið umdeilda byggingarleyfi.

Vettvangsganga:  Farið var á vettvang af hálfu úrskurðarnefndarinnar hinn 3. júlí 2003.  Auk nefndarmanna og starfsmanna nefndarinnar voru viðstaddir fulltrúar frá bæjaryfirvöldum Reykjanesbæjar og kærandi.  Aðstæður voru kannaðar og kom í ljós að bráðabirgðaplata úr timbri hafði verið sett milli fasteignanna að Grófinni 8A og 6A á sama stað og umsótt tengiplata milli fasteignanna.

Niðurstaða:  Hin kærða ákvörðun fól í sér synjun á umsókn kæranda um leyfi til að steypa plötu yfir sund á lóð Grófarinnar 8A að lóðamörkum þeirrar fasteignar og fasteignarinnar að Grófinni 6A, og setja göngudyr á húsið að Grófinni 8A í yfirborðshæð umræddrar plötu og hringstiga niður að neðri hluta lóðar fasteignarinnar, þar sem gengið er inn í kjallara húsanna.  Um rök fyrir hinni kærðu ákvörðun var skírskotað til athugasemdabréfs er barst vegna grenndarkynningar umsóknarinnar frá lögmanni eiganda fasteignanna að Grófinni 6B og 6C.  Í bréfinu er talið óásættanlegt að fallast á tengiplötu milli fasteignanna að Grófinni 8A og 6A en sú tenging fasteignanna raski réttarstöðu eiganda Grófarinnar 6B og 6C með hliðsjón af fjöleignarhúsalögum.  Umsóttur hringstigi sé háður þeirri forsendu að tengiplatan verði steypt milli umræddra fasteigna og yrði hringstiginn því sameign Grófarinnar 8A og 6A og nýjar dyr á útvegg Grófarinnar 8A myndu auka umferð fólks og bíla á svæðinu og m.a. á bílastæði Grófarinnar 6B og 6C.

Það er álit úrskurðarnefndarinnar að umræddar framkvæmdir séu ekki háðar samþykki eftir ákvæðum fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994.  Framkvæmdirnar eru á lóð Grófarinnar 8A þó svo vilji til að umrædd tengiplata nái að þakplötu kjallara Grófarinnar 6A sem byggð er að lóðamörkum fasteignanna.  Engin sameign myndast með fasteignunum við framkvæmdina og verða þær áfram sjálfstæð fjöleignarhús í skilningi 3. gr. fjöleignarhúsalaga, enda er í ákvæðinu gert ráð fyrir að sjálfstæð fjöleignarhús geti verið sambyggð.  Umræddar fasteignir standa á sitt hvorri lóðinni og voru byggðar óháðar hvor annarri sem sjálfstæð hús.  Gerð tengiplötu frá gólfplötu fasteignarinnar að Grófinni 8A að þakplötu kjallarabyggingarinnar að Grófinni 6A hefur aðeins það í för með sér að í stað þriggja metra sunds frá húsi að lóðarmörkum Grófarinnar 8A verður yfirborð lóðarinnar þar í sömu hæð og aðliggjandi lóð og næstu lóðir.

Ekki verður séð að gerð göngudyra á útvegg Grófarinnar 8A og hringstiga niður á neðri hluta lóðar fasteignarinnar, er liggur að kjallarainngangi hennar, sé þess eðlis að raski hagsmunum lóðarhafa næstu lóða.  Fyrir eru á húsinu göngudyr sem liggja að þriggja metra gangstíg meðfram fasteignunum og inni á lóðum Grófarinnar 8A, 8B og 8C.  Nýjar göngudyr veita kæranda engan rétt til nýtingar nágrannalóða umfram það sem fyrir er.

Í gildi er deiliskipulag fyrir umrætt svæði frá árinu 1982, þar sem lóðir eru sýndar og lega húsa og gatna, en í því er ekki að finna hæðartölur lóða eða greinargerð þar sem skipulagsforsendum er gerð skil.  Af skipulaginu verður því ekkert ráðið um hæðarlegu lóðar eða frágang að öðru leyti á umræddum hluta lóðarinnar að Grófinni 8A.  Hins vegar verður að telja að gerð steyptrar plötu, eins og um var sótt og nær að lóðamörkum Grófarinnar 8A og 6A, sé byggingarleyfisskyld framkvæmd sem verði að eiga stoð í gildandi skipulagi þótt um óverulega framkvæmd sé að ræða.

Með hliðsjón af því sem hér hefur verið rakið er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að hin kærða ákvörðun hafi ekki verið studd viðhlítandi rökum og beri af þeirri ástæðu að ógilda hana.  Lagt er fyrir bæjaryfirvöld að taka byggingarleyfisumsókn kæranda að nýju til meðferðar og taka afstöðu til, að lokinni grenndarkynningu skv. 7. mgr. 43. gr., sbr. 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga,  hvort skipulagsleg markmið eða önnur málefnaleg rök standi í vegi fyrir samþykki umsóknarinnar.

Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjanesbæjar frá 1. nóvember 2001, að hafna byggingarleyfisumsókn kæranda fyrir steyptri plötu milli húsanna að Grófinni 8A og 6A , uppsetningu hringstiga og göngudyra, er felld úr gildi.

_______________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________          _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                     Ingibjörg Ingvadóttir