Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

34/2004 Réttindamál

Ár 2005, fimmtudaginn 7. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 32/2004, kæra H, byggingarfræðings, á þeirri ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjanesbæ frá 12. maí 2004 að hafna því að taka til yfirferðar burðarþols- og lagnauppdrætti sem áritaðir eru af kæranda.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, er barst nefndinni hinn 19. maí 2004, kærir H, byggingarfræðingur, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjanesbæ frá 12. maí 2004 að hafna því að taka til yfirferðar burðarþols- og lagnauppdrætti sem áritaðir eru af kæranda.  Verður að skilja málatilbúnað kæranda á þann veg að hann krefjist ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Málavextir:  Kærandi útskrifaðist sem byggingarfræðingur frá BTH í Horsens í Danmörku hinn 10. júní 1988 og hlaut leyfi iðnaðarráðherra til að nota starfsheitið byggingarfræðingur með leyfisbréfi, útgefnu 8. ágúst sama ár.  Hann kveðst hafa starfað við gerð aðal- og séruppdrátta á Teiknistofunni Garðastræti 17 á árunum 1988 til 1990. 

Með bréfi, dags. 14. ágúst 1990, veitti félagsmálaráðherra kæranda löggildingu „...til að gera aðaluppdrætti og séruppdrætti að húsum og öðrum mannvirkjum, sbr. 12. gr. byggingarlaga nr. 54/1978.“  Kveðst kærandi hafa rekið Teiknistofuna Örk í Keflavík frá árinu 1989 og hafi hann fengist við ráðgjöf, skipulag, hönnun og eftirlit.  Stærsti hluti starfseminnar felist í gerð aðaluppdrátta og stöku sinnum hönnun burðarþols og lagna í einbýlishús, raðhús og sumarbústaði.

Hinn 10. maí 2004 lagði kærandi fyrir byggingarfulltrúann í Reykjanesbæ sökkulteikningar einbýlishúss sem kærandi kveðst sjálfur hafa verið að byggja og hafi hann gert og ábyrgst aðaluppdrætti og burðarþols- og lagnauppdrætti.  Byggingarfulltrúi tilkynnti kæranda með bréfi, dags. 12. maí 2004, að hann teldi sér ekki heimilt að taka til yfirferðar burðarþols- og lagnauppdrætti kæranda þar sem gerð slíkra uppdrátta væri ekki á verksviði byggingarfræðinga.  Vísaði byggingarfulltrúi og til bréfs umhverfisráðuneytisins, dags. 15. mars 2002, þar sem svarað er fyrirspurn byggingarfulltrúa um rétt byggingarfræðings til að gera séruppdrætti, en af bréfinu verður ráðið að fyrirspurnin hafi lotið að réttarstöðu kæranda í máli þessu.

Í niðurlagi bréfs byggingarfulltrúa frá 12. maí 2004 er kæranda bent á að ágreiningsmálum á sviði skipulags- og byggingarmála megi skjóta til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála og skaut kærandi málinu til nefndarinnar með ódagsettu bréfi sem barst nefndinni hinn 19. maí 2004 eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að hann hafi fengið löggildingu ráðherra til að gera aðal- og séruppdrætti.  Ekki sé hægt að fallast á þá túlkun byggingarfulltrúa að með séruppdráttum sé átt við deiliuppdrætti tengda aðaluppdráttum, enda vandséð að þeir sem hafi löggildingu til að gera aðaluppdrætti þurfi einnig sérstaka löggildingu til gerðar þeirra deiliuppdrátta, sem séu hluti aðaluppdrátta.

Málsrök byggingarfulltrúa:  Af hálfu byggingarfulltrúa er á það bent að í 12. gr. byggingarlaga nr. 54/1978, sem við eigi í máli þessu, sé kveðið á um að rétt til að gera aðaluppdrætti og séruppdrætti af húsum og öðrum mannvirkjum hafi arkitektar, byggingarfræðingar, tæknifræðingar og verkfræðingar, hver á sínu sviði.  Að mati byggingarfulltrúa séu burðarþols- og lagnauppdrættir ekki á verksviði byggingarfræðinga og sé þeim því ekki heimilt að leggja slíka uppdrætti fyrir.  Þessi skilningur fái m.a. stoð í bréfi umhverfisráðuneytisins frá 15. mars 2002, þar sem fram komi það álit að notkun hugtaksins séruppdrættir í framkvæmd laganna hafi almennt byggt á þeim skilningi að séruppdrættir væru deiliuppdrættir einstakra hluta aðaluppdrátta og að almennt hafi verið tekið fram ef verið væri að veita heimild til að gera burðarþols- og lagnauppdrætti.  Af þessum sökum telji byggingarfulltrúi sér ekki heimilt að taka við til yfirferðar burðarþols- og lagnauppdráttum sem áritaðir séu af kæranda.

Niðurstaða:  Samkvæmt 2. mgr. 40. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 ákveður byggingarfulltrúi í samræmi við byggingarreglugerð hvaða hönnunargögn skuli lögð fram vegna byggingarleyfis.  Gengur hann úr skugga um að þau séu í samræmi við þær reglur er gilda um viðkomandi framkvæmd og áritar uppdrætti um samþykkt á þeim.  Eru nánari ákvæði um þessar starfsskyldur byggingarfulltrúa í 9. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998.

Telja verður að meðal þess sem byggingarfulltrúa beri að gæta við afgreiðslu hönnunargagna sé að þau stafi frá aðilum er hlotið hafi löggildingu til gerðar þeirra.  Verður því að telja að það hafi verið á valdsviði hans að taka afstöðu til þess hvort kærandi hefði tilskilin réttindi og löggildingu til að gera burðarþols- og lagnauppdrætti og að ákvörðun um að hafna viðtöku slíkra uppdrátta frá kæranda hafi verið lokaákvörðun á lægra stjórnsýslustigi, sem sæti kæru til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála.  Verður fyrirliggjandi ágreiningur um hina kærðu ákvörðun því tekinn til efnislegrar úrlausnar.

Eins og að framan er rakið hlaut kærandi löggildingu félagsmálaráðherra hinn 14. ágúst 1990 „…til að gera aðaluppdrætti og séruppdrætti að húsum og öðrum mannvirkjum, sbr. 12. gr. byggingarlaga nr. 54/1978“, eins og segir í löggildingarbréfinu. 

Með umræddu bréfi voru kæranda veitt atvinnuréttindi, sem njóta lögverndar, m.a. á grundvelli 75. gr. stjórnarskár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944.  Tók löggildingin ótvírætt til séruppdrátta, en þar undir féllu burðarþols- og lagnauppdrættir samkvæmt gr. 3.3 í byggingarreglugerð nr. 292/1979 með síðari breytingum, sem í gildi var er kæranda var veitt umrædd löggilding.  Verður ekki fallist á að heimilt hafi verið að skerða atvinnuréttindi kæranda með því að túlka hugtakið séruppdrættir á þann veg að það taki aðeins til deiliuppdrátta aðaluppdrátta eins og byggingarfulltrúi gerði með vísan til álits umhverfisráðuneytisins frá 15. mars 2002, enda er sú túlkun ekki í samræmi við skilgreiningu hugtaksins eins og það birtist í skráðum réttarheimildum á þeim tíma er hér skiptir máli. 

Hins vegar ber að skilja tilvísun löggildingarbréfsins til 12. gr. byggingarlaga nr. 54/1978 á þann veg að þar sé m.a. vísað til þess skilyrðis ákvæðisins að sérfræðingar þeir sem taldir eru í greininni hafi rétt til uppdráttargerðar, hver á sínu sviði.  Leiðir af þessu að viðfangsefni þargreindra starfshópa verða að vera í eðlilegu samræmi við menntunar- og þekkingarsvið þeirra.  Er það og á færi byggingarfulltrúa að meta hvort einstök verkefni séu leyst af hendi með fullnægjandi hætti og eru honum tiltæk ýmis úrræði telji hann svo ekki vera.  Á með þessum hætti að vera tryggt að skortur á fagþekkingu hönnuða leiði ekki til þess að öryggi mannvirkja verði áfátt.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að byggingarfulltrúa hafi ekki verið heimilt að neita að taka við til yfirferðar burðarþols- og lagnauppdráttum árituðum af kæranda.  Verður hin kærða ákvörðun því felld úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna anna hjá úrskurðarnefndinni og tafa við gagnaöflun.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjanesbæ frá 12. maí 2004, um að hafna því að taka til yfirferðar burðarþols- og lagnauppdrætti sem áritaðir eru af kæranda, er felld úr gildi.

___________________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Ingibjörg Ingvadóttir