Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

30/2004 Grund

Ár 2005, miðvikudaginn 16. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 30/2004, kæra eiganda lóðar í landi Grundar, Mosfellsbæ á ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 21. janúar 2004 að samþykkja deiliskipulag frá Reykjalundarvegi að Húsadal og ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar frá 9. mars 2004 um að hafna erindi kæranda um samþykki fyrir tveimur byggingarreitum á nefndri lóð.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 30. apríl 2004, er barst nefndinni hinn 7. maí s.á. og með bréfi, dags. 7. maí 2004, er barst nefndinni sama dag, kærir L, Grund Mosfellsbæ, þá ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 21. janúar 2004 að samþykkja deiliskipulag frá Reykjalundarvegi að Húsadal og ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar frá 9. mars 2004 að hafna beiðni kæranda um að gert yrði ráð fyrir tveimur nýbyggingarreitum á lóð hans í landi Grundar, Mosfellsbæ í nefndu skipulagi.  Bæjarstjórn Mosfellsbæjar staðfesti greinda ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar hinn 17. mars 2004 og auglýsing um gildistöku hins kærða deiliskipulags birtist í B-deild Stjórnartíðinda hinn 7. apríl 2004.

Kærandi, L, er nú látinn en eftirlifandi maki hans, sem hefur fengið leyfi til setu í óskiptu búi, hefur tekið við rekstri kærumálsins.  Gerir kærandi þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi.

Málavextir:  Kærandi er eigandi að u.þ.b. 5000 fermetra landspildu er liggur að Varmá í Mosfellsbæ og hefur þar staðið sumarhús sem mun hafa verið í eigu hans um áratuga skeið.

Á árinu 2003 var unnið að deiliskipulagsbreytingu fyrir Reykjalund er tók til um 42 hektara svæðis við Varmá frá Reykjalundarvegi að Húsadal í Mosfellsbæ og er spilda kæranda innan þess skipulagssvæðis.  Gerði tillagan ráð fyrir að á umræddu svæði yrði íbúðarbyggð en áður hafði svæðið verið nýtt undir sumarhús og blandaða byggð. Skipulagstillagan gerði ráð fyrir 54 nýjum byggingarlóðum undir heilsárshús.  Við auglýsingu deiliskipulagstillögunnar setti kærandi fram athugasemdir við fyrirhugaða nýtingu á landspildu hans í bréfi, dags. 25. nóvember 2003, og gerði kröfu um að í deiliskipulaginu yrði gert ráð fyrir lóðum undir tvö hús auk lóðar undir hús það sem á landspildunni stendur.

Skipulagstillagan var tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar hinn 13. janúar 2004 þar sem fjallað var um framkomnar athugasemdir og samþykkt að leggja til við bæjarstjórn að samþykkja tillöguna með áorðnum breytingum.  Í tillögunni var ekki gert ráð fyrir öðru húsi á landi kæranda en því sem fyrir var með heimilaðri stækkun úr 50 fermetrum í 110 fermetra.  Var kröfu kæranda um aukna nýtingu á landi hans svarað með svofelldri bókun á fundinum:  „Nefndin getur ekki fallist á framkomið erindi um fjölgun bygginga á landinu.  Fjölgun bygginga á þessum stað mun breyta þeirri ásýnd sem Varmáin og næsta nágrenni hefur sem gróðurvin í þéttbýli og samræmist ekki stefnumörkun í aðalskipulagi og umhverfisskipulagi sem samþykkt var fyrir Varmársvæðið.  Til þess að fjölga byggingum á landinu þarf að fella mikið af þeim skógi sem fyrir er, sem mun hafa neikvæð áhrif á ásýnd svæðisins.  Einn byggingarreiturinn sem þið óskið eftir er alveg á árbakkanum, sem er óásættanlegt.  Landhalli gerir aðkomu inn á landið erfiða og og húsin munu að mati nefndarinnar fara illa í landi vegna landhalla.”   Bæjarstjórn samþykkti afgreiðslu þessa á fundi sínum hinn 21. janúar 2004 og var deiliskipulagstillagan send Skipulagsstofnun til umfjöllunar og síðan auglýsing um gildistöku hennar birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 7. apríl 2004.

Í kjölfar tilkynningar Mosfellsbæjar til kæranda um fyrrgreinda afgreiðslu bæjarstjórnar sendi hann bæjarverkfræðingi Mosfellsbæjar bréf, dags. 26. febrúar 2004, þar sem farið var fram á endurskoðun bæjaryfirvalda á umræddri deiliskipulagsákvörðun og að heimilaðar yrðu lóðir undir tvö ný hús á landi hans.  Erindið var tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 9. mars 2004 og því hafnað með skírskotun til fyrri afstöðu um það efni við meðferð deiliskipulagstillögunnar fyrir greint svæði.  Bæjarstjórn staðfesti afstöðu nefndarinnar á fundi sínum hinn 17. mars sama ár.

Kærandi undi ekki þessum málalyktum og skaut téðri deiliskipulagsbreytingu og synjun á endurskoðun hennar til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi bendir á að hann hafi átt umrædda landspildu og búið þar í yfir hálfa öld.  Með hinu kærða skipulagi hafi landnotkun svæðisins verið breytt að mestu í íbúðarsvæði og í fyrstu drögum að skipulaginu hafi verið gert ráð fyrir tveimur nýjum byggingarreitum á landi kæranda sem síðar hafi verið teknir út af lokauppdrætti án skýringa eða raka.  Flestir ef ekki allir landeigendur á svæðinu hafi hins vegar fengið heimildir til nýtingar sinna landa með eðlilegum hætti.  Í svari Mosfellsbæjar við óskum kæranda um nýtingu landsins felist engin efnisleg rök fyrir því hvers vegna honum sé óheimilt að nýta land sitt til jafns við aðra á svæðinu og bendir hann á að aðkeyrsla að landi hans og bílastæði séu þegar til staðar.

Engin hagsmunarök séu tilgreind né sýnileg fyrir afstöðu bæjaryfirvalda til athugasemda og erinda kæranda sem eigi verulegra fjárhagslegra hagsmuna að gæta að fá að nýta eign sína með eðlilegum hætti á við aðra á svæðinu.  Hinar kærðu ákvarðanir fari því í bága við meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga og feli jafnframt í sér brot á jafnræðisreglu 11. gr. sömu laga og beri því að fella þær úr gildi.

Málsrök Mosfellsbæjar:  Bæjaryfirvöld gera þær kröfur að synjun skipulags- og byggingarnefndar frá 7. mars 2004 á umsókn kæranda um tvær byggingarlóðir í landi Grundar verði staðfest og kæru vegna staðfestingar umdeilds deiliskipulags verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella að kröfu kæranda þar að lútandi verði hafnað.

Samkvæmt skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 fari skipulagsnefndir með skipulagsmál undir yfirstjórn sveitarstjórna og annist þær gerð aðal- og deiliskipulags vegna alls lands innan sveitarfélags sem skuli vera í innbyrðis samræmi.  Umrætt deiliskipulag, er taki m.a. til lands kæranda, hafi verið samþykkt á fundi bæjarstjórnar hinn 21. janúar 2004 og hafi þau helstu markmið skv. gr. 1.1 í skipulagsskilmálum að mynda heildstætt skipulag fyrir Varmá með grænu yfirbragði, að þétta og styrkja núverandi byggð og viðhalda núverandi einkennum, að bæta umhverfi Varmár og aðgengi að henni, að bæta umferðarkerfi og tengingar við núverandi götur og tekið sé tillit til núverandi umhverfisskipulags.  Jafnframt sé því ætlað að efla þau náttúrulegu landgæði sem séu á svæðinu, sbr. gr. 1.3 í nefndum skilmálum.  Þessum markmiðum sé m.a. náð með því að gera 50 metra breitt belti beggja vegna Varmár að hverfisverndarsvæði þar sem nýbyggingar séu bannaðar nema þeirra sé sérstaklega getið í deiliskipulagi, en það heimili 54 nýjar lóðir á skipulagssvæðinu. 

Hvað varði umsókn kæranda frá 26. febrúar 2004 um tvær byggingarlóðir sé það mat Mosfellsbæjar að ekki hafi verið heimilt að verða við þeirri beiðni kæranda þar sem slíkt hafi ekki átt stoð í nýsamþykktu deiliskipulagi en ástæða þess að svo hafi ekki verið sé sú að fjölgun bygginga á umræddum stað breytti ásýnd hans sem gróðurvinjar í þéttbýli og færi gegn stefnu aðal- og umhverfisskipulags.  Ef fallist yrði á ósk kæranda um nýjar byggingarlóðir yrði að fella mikið af þeim skógi er fyrir væri á svæðinu er hefði neikvæð áhrif á ásýnd svæðisins og væru lóðirnar auk þess innan 50 metra fyrrgreinds hverfisverndarsvæðis.

Umdeild synjun hafi ekki falið í sér brot á meðalhófsreglu eða jafnræðisreglu stjórnsýslulaga.  Þeir sem sækja kunni um fjölgun byggingarlóða á skipulagsvæðinu frá því sem ráð sé fyrir gert í skipulaginu muni hljóta sömu afgreiðslu sem kærandi.  Beinlínis hafi verið óheimilt að verða við óskum kæranda um nýjar byggingarlóðir þar sem bæjaryfirvöld hafi brostið vald til slíkrar afgreiðslu.  Jafnframt hefði sú niðurstaða getað leitt til málskots af hálfu eigenda nágrannalóða vegna brota á deiliskipulagi.

Málsmeðferð og afgreiðsla Mosfellsbæjar á beiðni kæranda frá 26. febrúar 2004 hafi verið í samræmi við gildandi skipulagsáætlanir, skipulags- og byggingarlög og stjórnsýslulög og beri því að hafna ógildingarkröfu kæranda. 

Vísa beri kæru, dags. 7. maí 2004, vegna staðfestingar umrædds deiliskipulags frá sökum vanreifunar.  Kæran sé stuttorð og vísi í kæru, dags. 30. apríl 2004, á afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar á beiðni kæranda um tvær nýjar byggingarlóðir á landi hans.  Ekki sé hægt að átta sig á því um hvað kæran snúist og í hverju hún sé frábrugðin kærunni frá  30. apríl 2004.  Hún sé órökstudd og því ekki unnt að verjast henni.  Sé kæran af þeim sökum ekki tæk til málsmeðferðar fyrir úrskurðarnefndinni með hliðsjón af 3. gr. reglugerðar nr. 621/1997.

Verði kæran engu að síður tekin til efnismeðferðar vísa bæjaryfirvöld til röksemda þeirra sem raktar séu í umfjöllun um málskot kæranda frá 30. apríl 2004 og snerti téð deiliskipulag.  Bent er á að málsmeðferð skipulagsins hafi verið í fullu samræmi við lög enda hafi ekki öðru verið haldið fram af hálfu kæranda.  Sé því ekki efni til að ógilda deiliskipulagsákvörðunina.

Vettvangsganga:  Úrskurðarnefndin fór hinn 22. október 2004 á vettvang og kynnti sér staðhætti á umræddu svæði. 

Niðurstaða:  Með bréfum kæranda til úrskurðarnefndarinnar, dags, 30. apríl og 7. maí 2004, er skotið til nefndarinnar samþykkt umdeilds deiliskipulags og höfnun á beiðni kæranda um að í deiliskipulaginu yrði gert ráð fyrir tveimur byggingarreitum til viðbótar þeim sem fyrir var á eignarlandi hans. Telja verður að í því erindi hafi falist beiðni um endurupptöku skipulagsákvörðunarinnar en heimild fyrir slíkri beiðni er í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Fyrir liggur að ástæðan fyrir kæru á nefndum ákvörðunum er sú að kærandi telur deiliskipulagið skerða óhæfilega nýtingarmöguleika á eignarlandi hans á skipulagssvæðinu.  Verður samkvæmt þessu ekki fallist á kröfu bæjaryfirvalda Mosfellsbæjar um frávísun á kæru vegna samþykktar umrædds deiliskipulags vegna vanreifunar enda hlýtur frávísun máls á stjórnsýslustigi af þeim sökum að heyra til algerrar undantekningar með hliðsjón af leiðbeiningarskyldu og rannsóknarreglu 7. og 10. gr. stjórnsýslulaga. 

Umrætt skipulagssvæði liggur beggja vegna Varmár og er með hinu kærða deiliskipulagi að meginstefnu til gert að íbúðarsvæði.  Í greinargerð deiliskipulagsins kemur fram að nýtingarhlutfall á svæðinu hafi verið um eða innan við 0,1 en með skipulaginu  séu heimilaðar 54 nýjar byggingarlóðir á skipulagssvæðinu.  Ekki verður af skipulagsuppdrættinum ráðið hvernig mörkum einstakra eignarlanda á svæðinu er háttað en unnt er að finna út nýtingarhlutfall einstakra lóða með samanburði á lóðarstærð, þar sem hún er tilgreind á uppdrætti, og heimiluðu byggingarmagni á þeim lóðum samkvæmt töflu þar um í deiliskipulagsgreinargerð.  Þannig er nýtingarhlutfall tveggja lóða við húsagötu A nr. 4 og 6 í næsta nágrenni við land kæranda 0,08 og 0,1 og nýtingarhlutfall lóðanna nr. 6 og 10 við húsagötu B 0,26 og 0,19, en greindar lóðir liggja allar nærri bökkum Varmár.  Land kæranda, sem merkt er nr. 10 við húsagötu A, mun vera um 5000 fermetrar en heimilað byggingarmagn er 110 fermetrar og er nýtingarhlutfallið því 0,02.  Blasir við að heimiluð nýting lands kæranda er miklum mun minni en á ýmsum öðrum lóðum á skipulagssvæðinu.

Ekki verður séð að fleiri byggingar á landi kæranda breyti ásýnd skipulagssvæðisins umfram ýmsar aðrar heimilaðar nýbyggingar á svæðinu og ekki hefur verið sýnt fram á með hvaða hætti væri brotið gegn aðalskipulagi Mosfellsbæjar þótt heimilað yrði aukið byggingarmagn á landi kæranda.  Þá verður ekki fallist á þau rök fyrir synjun á frekari nýtingu landsins að trjágróður í eigu kæranda þyrfti að víkja af þeim sökum.  Í hinu kærða deiliskipulagi eru ekki ráðagerðir um að bæjaryfirvöld hyggist taka hluta af landi kæranda til almannanota.  Landhalli er að sönnu nokkur í landi kæranda sem takmarkar nýtingarmöguleika þess, en hvorki sú staðreynd né álitamál varðandi aðkomu inn á svæðið getur, að mati úrskurðarnefndarinnar, réttlætt svo takmarkaðar heimildir til nýtingar landsins sem raun ber vitni þegar litið er til nýtingarrétta á ýmsum öðrum lóðir á svæðinu.

Sveitarstjórnir hafa skipulagsvald á sínu landsvæði samkvæmt 2. mgr. 3. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, en við beitingu þess valds verður að gæta að ýmsum meginreglum stjórnsýsluréttarins, svo sem meðalhófs- og jafnræðisreglu.  Þá verður að hafa í huga markmið skipulags- og byggingarlaga sem tíunduð eru í 1. gr. laganna, en í 4. mgr. þess ákvæðis er tekið fram að tryggja skuli réttaröryggi í meðferð skipulags- og byggingarmála þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi.

Með vísan til þess sem rakið hefur verið þykja ekki framkomin haldbær rök fyrir því að takmarka nýtingarmöguleika á landi kæranda svo verulega sem raun ber vitni.  Hefur ekki verið sýnt fram á almannaþörf eða aðrar máefnalegar ástæður fyrir slíkri takmörkun og ekki þykir í ljós leitt að þau skipulagsmarkmið, sem sett eru fram í greinargerð hins umdeilda skipulags væru fyrir borð borin þótt komið yrði til móts við óskir kæranda um aukna nýtingu á landi hans.

Verður því fallist á kröfu kæranda um ógildingu hins kærða deiliskipulags en þar sem rökin að baki þeirri niðurstöðu lúta einungis að nýtingu á landspildu kæranda verður látið við það sitja með hliðsjón af meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga að fella skipulagsákvörðunina úr gildi að því er varðar land kæranda.

Að þessari niðurstöðu fenginni er ekki tilefni til að taka afstöðu til lögmætis þeirrar ákvörðunar bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 17. mars 2004 að synja beiðni kæranda um endurskoðun hins kærða deiliskipulags.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna þess fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 21. janúar 2004, að samþykkja deiliskipulag frá Reykjalundarvegi að Húsadal er fellt úr gildi að því er tekur til lóðarspildu kæranda í landi Grundar, Mosfellsbæ.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________               _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                         Ingibjörg Ingvadóttir