Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

69/2004 Kirkjubraut

Ár 2005, föstudaginn 18. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 69/2004, kæra eigenda fasteignanna að Kirkjubraut 22 og Sunnubraut 7, Akranesi vegna jarðvegsframkvæmda á lóðinni nr. 12-18 við Kirkjubraut á Akranesi. 

Í málinu er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 13. desember 2004, er barst nefndinni sama dag, kæra H og V, Lyngheiði 18, Kópavogi, eigendur fasteignanna að Kirkjubraut 22 og Sunnubraut 7, Akranesi  leyfi fyrir jarðvegsframkvæmdum á lóðinni nr. 12-18 við Kirkjubraut á Akranesi. 

Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi ásamt því að úrskurðarnefndin kveði upp úrskurð til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda.

Málsatvik:  Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 20. október 2004, er barst nefndinni hinn 22. sama mánaðar, kærðu sömu aðilar deiliskipulagsbreytingu er tók til svonefnds Akratorgsreits, þar sem m.a. var gert ráð fyrir sameiningu lóðanna nr. 12 til 18 (sléttar tölur) við Kirkjubraut og lóðarinnar nr. 3 við Sunnubraut og heimiluð bygging fjöleignarhúss á hinni sameinuðu lóð.

Kveða kærendur að hafnar séu framkvæmdir við grunn væntanlegs húss að Kirkjubraut 12 til 18 undir yfirskini jarðvegsrannsókna með vitund skipulags- og umhverfisnefndar bæjarins svo sem ráða megi af bókun nefndarinnar á fundi hinn 6. desember 2004.  Þar komi fram að nefndin geri ekki athugasemd við að Kirkjubraut sé gerð að einstefnugötu á meðan á uppgreftri og fyllingu í grunn að Kirkjubraut 12 til 18 standi, en krafa sé gerð um að verktakinn hreinsi götuna reglulega og takmarki áhrif framkvæmdanna sem mest með  tilliti til jólaverslunar sem standi yfir á svæðinu.

Með bréfi, dags. 20. janúar 2005, skutu kærendur til úrskurðarnefndarinnar ákvörðun byggingarfulltrúans á Akranesi frá 13. desember 2004 um að veita leyfi til byggingar fjöleignarhúss með 20 íbúðum og 7 verslunarrýmum ásamt niðurgrafinni bílageymslu á lóðinni nr. 12 við Kirkjubraut, Akranesi.

Hafa greindar kærur vegna breytingar á deiliskipulagi svæðisins og vegna fyrrgreinds byggingarleyfis verið teknar til úrskurðar á fundi úrskurðarnefndarinnar í dag.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um lögmæti uppgraftrar vegna jarðvegsrannsókna á lóðinni nr. 12-18 við Kirkjubraut á Akranesi. 

Til þess að deiluefni af umræddum toga verði borið undir úrskurðarnefndina verður að liggja fyrir stjórnvaldsákvörðun er heimili umþrættar framkvæmdir, svo sem veiting byggingar- eða framkvæmdaleyfis, sbr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í máli þessu verður ekki séð að framkvæmd sú sem kærð er í málinu hafi verið heimiluð með lögformlegri ákvörðun af hálfu skipulags- eða byggingaryfirvalda Akranesbæjar.  Af þeim sökum liggur ekki fyrir kæranleg ákvörðun á stjórnsýslustigi og ber því að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

__________________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________             _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                       Ingibjörg Ingvadóttir