Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

15/2004 Akrar

Með

Ár 2004, miðvikudaginn 31. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 24, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 15/2004, kæra eiganda jarðarinnar Akrar I, Borgarbyggð, á samþykkt umhverfis- og skipulagsnefndar Borgarbyggðar hinn 24. júní 2003 um að heimila byggingu sumarhúss á lóð í landi Akra I. 

Í málinu er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 25. febrúar 2004, er barst nefndinni með símbréfi hinn 25. sama mánaðar og með pósti hinn 1. mars 2004, kærir Þórður Þórðarson hdl., f.h. M, eiganda jarðarinnar Akra I, Borgarbyggð, samþykkt umhverfis- og skipulagsnefndar Borgarbyggðar frá 24. júní 2003 um að heimila byggingu sumarhúss á lóð í landi Akra I.

Ákvörðun umhverfis- og skipulagsnefndar var staðfest á fundi bæjarstjórnar Borgarbyggðar hinn 26. júní 2003. 

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að úrskurðarnefndin kveði upp úrskurð til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda við byggingu sumarhússins.

Málavextir:  Á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar Borgarbyggðar hinn 24. júní 2003 var tekin fyrir beiðni um að byggja sumarhús á lóð í landi Akra I.  Samkvæmt teikningum er fylgdu erindinu skyldi sumarhúsið vera 76,9 m².  Umhverfis- og skipulagsnefnd samþykkti beiðnina og á fundi bæjarstjórnar Borgarbyggðar var afgreiðsla nefndarinnar staðfest.  Byggingarleyfið var gefið út hinn 27. júní 2003. 

Hinn 21. júlí 2003 var grafið fyrir undirstöðum sumarhússins og hinn 31. júlí sama ár sendi kærandi máls þessa, ásamt öðrum eigendum jarðarinnar, byggingarleyfishafanum símskeyti þar sem þess var krafist að hann fjarlægði tafarlaust þau mannvirki sem reist hefðu verið.  Þá var þess og krafist að byggingarleyfishafinn lagfærði hugsanleg landspjöll sem hlotist hefðu af framkvæmdunum. 

Með bréfi, dags. 30. september 2003, óskaði lögmaður kæranda eftir því við bæjarráð Borgarbyggðar að fyrrgreind ákvörðun yrði endurskoðuð.  Með bréfi lögmanns Borgarbyggðar, dags. 27. október 2003, var erindinu hafnað, með þeim rökstuðningi að fyrir lægi þinglýstur leigusamningur, dags. 31. ágúst 2002, um það land sem leyfið tæki til.  Þá hefðu og bændur á jörðinni Ökrum I gert með sér samkomulag um skipti á túni og ræktarlandi jarðarinnar hinn 26. júní 1955. 

Á fundi bæjarráðs Borgarbyggðar hinn 19. febrúar 2004 var bókað að ofangreindu erindi lögmanns kæranda hefði verið hafnað á fundi ráðsins hinn 23. október 2003, en láðst hafi að bóka um það.  Á fundinum hinn 19. febrúar 2004 var ákvörðunin færð til bókar og lögmanni Borgarbyggðar falið að tilkynna ákvörðunina með formlegum hætti. 

Kærandi er ósáttur við framangreinda afgreiðslu umhverfis- og skipulagsnefndar Borgarbyggðar og hefur kært hana til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Lögmaður kæranda heldur því fram að bréf lögmanns Borgarbyggðar, dags. 27. október 2003, um synjun á beiðni hans um endurupptöku málsins, hafi borist honum í símbréfi hinn 26. janúar 2004.  Á því sé byggt að fyrrgreint bréf lögmanns Borgarbyggðar hafi ekkert gildi í málinu þar sem ekki hafi legið fyrir heimild til hans um að svara erindi kæranda. 

Kærandi heldur því og fram að land Akra I sé í óskiptri sameign og því sé einum eigenda landsins óheimilt að ráðstafa því á nokkurn hátt án samþykkis annarra eigenda landsins.  Kærandi sé einn eigenda Akra I og hafi ekki verið óskað eftir samþykki hans fyrir gerð leigusamningsins, sem sé grundvöllur hins kærða byggingarleyfis.  Greindur leigusamningur sé því ógildur og geti ekki orðið grundvöllur byggingarleyfis.

Kærandi hafnar þeirri röksemd bæjarstjórnar Borgarbyggðar að umræddur leigusamningur hvíli á samningi landeigenda um skiptingu lands frá 26. júní 1955 og að leiguréttur verði byggður á þeim samningi. 

Kærandi gerir einnig athugasemd við það að ekki liggi fyrir deiliskipulag á svæði því sem byggingarleyfið nái til.  Grenndarkynning hefði því þurft að eiga sér stað áður en byggingarleyfið hafi verið veitt, samkvæmt 3. mgr. 23. gr., sbr. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Greint hús blasi við kæranda og skyggi á útsýni hans. 

Sjónarmið byggingarleyfishafa:  Byggingarleyfishafi krefst þess að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem krafan sé of seint fram komin, sbr. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 621/1997.  Miða beri upphaf kærufrests við veitingu byggingarleyfisins en ekki ákvörðun sveitarstjórnar um að hafna endurupptöku málsins. 

Byggingarleyfishafi bendir á að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi hafi hafist strax eftir útgáfu þess.  Um það hafi kæranda verið kunnugt enda hafi hann sent byggingarleyfishafa skeyti hinn 31. júlí 2003 og krafist þess að framkvæmdir yrðu stöðvaðar.  Byggingarleyfishafi hafi hafnað því með skeyti, dags. 6. ágúst 2003. 

Sjónarmið Borgarbyggðar:  Borgarbyggð hefur ekki sett fram sérstakar athugasemdir í málinu en byggingarfulltrúi Borgarbyggðar sendi úrskurðarnefndinni, með símbréfi hinn 25. mars sl., byggingarsögu sumarhússins.  Þar greinir frá því að hinn 21. júlí 2003 hafi verið grafið fyrir undirstöðum og hinn 30. desember sama ár hafi byggingin verið fokheld. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um útgáfu byggingarleyfis vegna sumarhúss á lóð í landi Akra I, Borgarbyggð.  Fyrir liggur að hinn 21. júlí 2003 var grafið fyrir undirstöðum sumarhússins og að hinn 30. desember sama ár var það fokhelt.  Kæran barst úrskurðarnefndinni hinn 25. febrúar 2004.

Kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar vegna ákvarðana byggingarnefnda og sveitarstjórna er einungis einn mánuður, samkvæmt 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, frá því að kæranda mátti vera kunnugt um hina kærðu framkvæmd. 

Eins og áður segir hófust framkvæmdir við hið umdeilda sumarhús í júlí 2003 og þá þegar var kæranda í lófa lagið að leita frekari upplýsinga um verkið.  Allt að einu setti kærandi ekki fram kæru í málinu fyrr en um sjö mánuðum seinna og tveimur mánuðum eftir að húsið var fokhelt.  Verður við það að miða að kærufrestur hafi í allra síðasta lagi byrjað að líða hinn 31. júlí 2003, eða þann dag er kærandi krafði byggingarleyfishafa um stöðvun framkvæmda.  Var kærufestur því liðinn hinn 30. september 2003 er kærandi óskaði endurupptöku málsins og gat sú beiðni því ekki rofið kærufrest í málinu sbr. 3. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með hliðsjón af framansögðu barst kæra í máli þessu að liðnum kærufresti og ber því samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

________________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________            _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                       Ingibjörg Ingvadóttir

32/2003 Klettás

Með

Ár 2004, föstudaginn 19. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 32/2003, kæra eigenda Klettáss 12, Garðabæ á ákvörðun byggingarnefndar Garðabæjar frá 11. apríl 2003 þess efnis að byggingarfulltrúi sendi kærendum bréf þar sem boðuð yrði byggingarstöðvun og sá hluti palls á lóð kærenda sem ekki samrýmdist byggingarlögum og skilmálum skyldi fjarlægður innan sex vikna frá samþykktinni. 

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, er barst nefndinni hinn 19. maí 2003, kæra J og S, Klettási 12, Garðabæ, ákvörðun byggingarnefndar Garðabæjar frá 11. apríl 2003 þess efnis að byggingarfulltrúi sendi kærendum bréf þar sem boðuð yrði byggingarstöðvun og sá hluti palls á lóð kærenda sem ekki samrýmdist byggingarlögum og skilmálum skyldi fjarlægður innan sex vikna frá samþykktinni. 

Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar hinn 15. maí 2003.

Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir:  Kærendur hugðust reisa sólpall á lóð sinni að Klettási 12, Garðabæ og af því tilefni leitaði annar kærenda til byggingarfulltrúa og innti hann eftir því hvort leggja þyrfti fram teikningar af pallinum.  Byggingarfulltrúi tjáði honum að ekki væri nauðsynlegt að teikna pallinn upp en þar sem hann myndi liggja að lóðarmörkum þyrfti að leita samþykkis eigenda aðliggjandi lóðar.  Kærandinn hafði samband við nágranna sinn sem samþykkti pallinn með fyrirvara um samþykki sambýliskonu sinnar.  Þegar framkvæmdir voru vel á veg komnar hafði hann á ný samband við nágranna sinn sem þá samþykkti pallinn, en hafði á orði að ganga þyrfti frá samkomulaginu skriflega.  Með vísan til þessara samskipta áleit kærandi að fyrrnefndur fyrirvari nágrannans væri ekki lengur til staðar.  Eftir að pallurinn hafi verið full smíðaður og steyptur niður hafi nágranninn tekið aftur samþykki sitt þar sem að fyrirvaranum hafi aldrei verið fullnægt. 

Með bréfi til byggingarnefndar Garðabæjar, dags. 24. mars 2003, beindi nágranni kærenda þeim tilmælum til nefndarinnar að þeim yrði tilkynnt að reistur hafi verið sólpallur á lóð þeirra án þess að tilskilið leyfi þar að lútandi hafi legið fyrir. 

Á fundi byggingarnefndar hinn 11. apríl 2003 var bréf nágranna kærenda lagt fram og eftirfarandi fært til bókar af því tilefni:  „Byggingarfulltrúa falið að senda lóðarhafa að Klettási 12 bréf þar sem boðuð er byggingarstöðvun og sá hluti pallsins sem ekki samrýmist byggingarlögum og skilmálum skuli fjarlægður innan 6 vikna frá samþykkt þessari.”  Í kjölfarið sendi byggingarfulltrúi bréf til annars kærenda þar sem m.a. segir:  „Á fundi byggingarnefndar 11.04.2003 var lagt fram bréf, dagsett 24.03.2003, frá lóðarhafa Hraunási 5, Garðabæ um trépall sem búið er að reisa á lóðinni Klettási 12, Garðabæ, að sameiginlegum baklóðarmörkum við lóðina Hraunás 5, Garðabæ.  Byggingarfulltrúi upplýsti á fundinum að sami aðili hafi mætt á skrifstofu byggingarfulltrúa sl. haust og komið kvörtun á framfæri um sama efni en dregið hana til baka síðar vegna samkomulagsumleitana milli lóðarhafa í málinu.”  Síðan segir áfram í sama bréfi:  „Lóðarhæðir á lóðarmörkum á umræddum trépalli eru ekki í samræmi við samþykktan aðaluppdrátt og 2. ml. 18.8. gr. byggingarreglugerðar og eins og fyrr segir hefur ekki náðst samkomulag eigenda framangreindra lóða eins og 67.1 gr. byggingarreglugerðar heimilar. Byggingarfulltrúa var falið að senda yður sem lóðarhafa Klettás 12, Garðabæ bréf þar sem mælt er fyrir um stöðvun framkvæmda með vísan til 2. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Með vísan til framanritaðs skulu byggingarframkvæmdir við timburpall stöðvaðar tafarlaust og sá hluti pallsins fjarlægður sem ekki samrýmist lögum og skilmálum innan 6 vikna frá dagsetningu þessa bréfs.”

Annar kærenda mótmælti bréfi byggingarfulltrúa með símskeyti, dags. 22. apríl 2003, og af því tilefni sendi byggingarfulltrúi kærendum bréf, dag.28. sama mánaðar þar sem segir m.a.:  „Þegar undirritaður hafði samband við yður síðastliðið haust, vegna kvartana yfir framkvæmdum við umræddan trépall, var yður gerð grein fyrir kvörtun eigenda Hraunáss 5, Garðabæ, vegna framkvæmdanna jafnframt sem yður var gert ljóst hvers vegna framkvæmdir þessar brytu í bága við byggingarreglugerð og skipulagsskilmála og afleiðingar þess.  Yður mátti því vera ljóst frá því á síðastliðnu hausti að framkvæmdir við umræddan trépall brytu í bága við byggingarreglugerð og skipulagsskilmála. Undirrituðum var síðan tjáð af lóðarhafa Hraunáss 5, að samkomulagsumleitanir væru í gangi vegna frágangs trépalls og girðingar við lóðarmörk milli lóðarhafa Klettáss 12 og Hraunáss 5 hér í bæ.  Að sögn lóðarhafa Hraunáss 5 taldi hann verulegar líkur á að samkomulag næðist og því var umrædd kvörtun af hans hendi, í trausti þess að samkomulag næðist, dregin til baka.”

Áfram segir svo í bréfi byggingarfulltrúa:  „Varðandi athugasemdir yðar um að ekki hafi verið gætt ákvæðis 13. gr. stjórnsýslulaga um andmælarétt þá liggur ljóst fyrir að yður var sl. haust gerð grein fyrir að verulegar líkur væru á að framkvæmdir við téðan pall væru í ósamræmi við byggingarreglugerð og skilmála.  Þá þegar kom afstaða yðar í ljós þar sem þér sögðuð að þér væruð ekki tilbúinn að rífa umræddan pall þar sem þér hefðuð eytt tíma og fjármunum í byggingu hans.  Þá mátti yður vera ljóst af áðurnefndum samtölum okkar og frá því að upp úr samningaviðræðum yðar og aðliggjandi lóðarhafa slitnaði og þar sem umræddar framkvæmdir augljóslega brjóta í bága við byggingarreglugerð að ekki yrði hægt að veita byggingarleyfi vegna trépallsins og að gripið yrði til lögákveðinna aðgerða til að knýja fram úrbætur.” 

Kærendur máls þessa eru ósáttir við framgöngu byggingaryfirvalda í Garðabæ og hafa kært meðferð málsins til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála eins og að framan er rakið. 

Málsrök kærenda:  Kærendur krefjast þess að ákvörðun byggingarnefndar Garðabæjar þess efnis að þeim verði gert að rífa umræddan timburpall verði felld úr gildi, þar sem ekki hafi verið farið að ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við ákvörðunina.  Við afgreiðslu málsins hjá byggingarnefnd hafi aðeins verið tekið tilliti til sjónarmiða nágranna kærenda og í engu hlustað á sjónarmið þeirra þrátt fyrir að þess hafi verið krafist. 

Kærendur halda því fram að skipulagsskilmálar lóðarinnar nr. 12 við Klettás séu skýrir varðandi heimild þeirra til að reisa umræddan timburpall og skjólvegg og vegna framkvæmdarinnar sé kærendum einnig heimilt að hækka lóðina.  Ekki megi mismuna lóðarhöfum sem eins sé ástatt fyrir vegna jafnræðisreglu og því geti byggingaryfirvöld ekki gert strangari kröfur til kærenda en annarra lóðarhafa í hverfinu. 

Þá krefjast kærendur þess einnig að byggingarnefndarmenn víki sæti þar sem fyrir liggi að þeim sé fyrirmunað að taka hlutlausa ákvörðun í málinu. 

Málsrök Garðabæjar:  Af hálfu Garðabæjar er þess krafist að staðfest verði ákvörðun byggingarfulltrúa um stöðvun framkvæmda við byggingu timburpalls á lóð hússins nr. 12 við Klettás og að hluti pallsins verði fjarlægður innan sex vikna frá úrskurði úrskurðarnefndarinnar.

Því er haldið fram af hálfu Garðabæjar að umræddur timburpallur á lóð kærenda sé ekki í samræmi við skipulag, sbr. 2. ml. 18.8 gr. byggingarreglugerðar, en þar kemur fram að á aðaluppdrætti húsa skuli gera grein fyrir hæðarlegu lóðar eins og hún er og eins og ætlast er til að hún verði gagnvart götu og lóðum sem að henni liggja.  Með byggingu timburpallsins á lóðarmörkum með miklu hærri hæðarsetningu en tilgreint er á aðaluppdrætti sé augljóslega verið að brjóta gegn skipulagi og því hafi byggingarfulltrúa réttilega borið skylda til að stöðva framkvæmdir við byggingu pallins.  Þá sé ljóst að af hálfu kærenda hafi ekki verið sótt um byggingarleyfi, en slíkt sé skylt samkvæmt lögum þegar ráðist sé í framkvæmdir á lóð sem feli í sér breytingar á aðaluppdrætti. 

Í málsrökum sínum bendir Garðabær á 2. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga þar sem fram komi að ef framkvæmd sé hafin án þess að tilskilið leyfi sé fyrir hendi og framkvæmd fari gegn skipulagi beri byggingarfulltrúa skylda til að stöðva framkvæmdir tafarlaust.  Við slíkar aðstæður skapist ekki svigrúm til að veita þolendum málsins sérstaka fresti til andmæla eða greinargerða.  Það útiloki þó ekki að þolendur geti komið sjónarmiðum sínum á framfæri við byggingarfulltrúa og hann þá eftir aðstæðum fellt byggingarstöðvun úr gildi, hafi hún byggst á röngum forsendum eða misskilningi.  Slíkar aðstæður hafi ekki verið fyrir hendi í tilviki kærenda þar sem svo augljóst sé að framkvæmdin hafi verið hafin án tilskilinna leyfa og brjóti sannanlega gegn gildandi skipulagi og byggingarreglugerð. 

Garðabær heldur því fram að annar kærenda hafi verið í sambandi við byggingarfulltrúa um téðar framkvæmdir og við það tækifæri hafi hann komið sjónarmiðum sínum á framfæri, jafnhliða því sem byggingarfulltrúi hafi gert honum grein fyrir annmörkum málsins. 

Þá bendir Garðabær á að aldrei hafi legið fyrir samþykki nágranna fyrir framkvæmdinni og kærendur hafi átt að gera sér grein fyrir því að slíkt samkomulag væri nauðsynlegt vegna hennar. 

Hvað varði athugasemdir kærenda um annmarka á málsmeðferð, svo sem meint vanhæfi, sé augljóst að þær geti ekki átt við með vísan til vanhæfisreglna sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998.

Að lokum bendir Garðabær á að af málsgögnum komi fram að ákvörðun byggingarfulltrúa um stöðvun framkvæmda hafi verið borin undir byggingarnefnd á fundi hinn 11. apríl 2003 og í bréfi byggingarfulltrúa, dags. 15. sama mánaðar, sé vísað til staðfestingar byggingarnefndar á ákvörðun byggingarfulltrúa um stöðvun framkvæmda.  Þrátt fyrir þessa tilhögun málsins sé um að ræða ákvörðun byggingarfulltrúa um stöðvun framkvæmda samkvæmt 2. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga.

Niðurstaða:  Hin kærða ákvörðun fól í sér að kærendum var gert skylt að stöðva framkvæmdir við gerð sólpalls á lóðinni nr. 12 við Klettás í Garðabæ ásamt því að fjarlægja hluta pallsins. 

Byggingarnefnd fjallaði um mál kærenda á fundi hinn 11. apríl 2003 og samþykkti að fela byggingarfulltrúa að senda kærendum máls þessa bréf, þar sem boðuð yrði byggingarstöðvun ásamt því að sá hluti sólpallsins sem ekki samrýmdist byggingarlögum og skilmálum skyldi fjarlægður innan sex vikna frá samþykkt nefndarinnar.  Í kjölfarið ritaði byggingarfulltrúi bréf til kærenda þar sem greint er frá bókun nefndarinnar.  Verður því ekki fallist á þá fullyrðingu Garðabæjar að um sé að ræða ákvörðun byggingarfulltrúa samkvæmt 2. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga heldur ákvörðun nefndarinnar sem tekin var í tilefni af kvörtun nágranna kærenda.  Af málsgögnum verður hvorki séð að kærendum hafi verið kynnt þessi tiltekna kvörtun nágranna til byggingarnefndar né að þeim hafi gefist kostur á að tjá sig um ætlan nefndarinnar í kjölfar kvörtunarinnar.  Af bókun nefndarinnar og öðrum gögnum málsins má ráða að smíði hins umdeilda sólpalls var að mestu lokið þegar kærendum var tilkynnt ákvörðun byggingaryfirvalda um stöðvun framkvæmda og niðurrif.  Ljóst er að hin kærða ákvörðun er töluvert íþyngjandi fyrir kærendur og með vísan til þess er það mat úrskurðarnefndarinnar að byggingarnefnd Garðabæjar hafi ekki verið heimilt að taka slíka ákvörðun án þess að gætt væri ákvæðis 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um andmælarétt kæranda, sérstaklega þegar fyrir liggur að hæglega var unnt að koma því við í ljósi atvika málsins. 

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna anna hjá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun byggingarnefndar Garðabæjar frá 11. apríl 2003 varðandi sólpall að Klettási 12 er felld úr gildi.

 

______________________
Ásgeir Magnússon

 

______________________          _____________________
Þorsteinn Þorsteinsson                   Ingibjörg Ingvadóttir

 

59/2003 Litli-Botn

Með

Ár 2004, föstudaginn 19. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 59/2003; kæra P, á þeirri ákvörðun hreppsnefndar Hvalfjarðarstrandarhrepps frá 12. febrúar 2003 að synja erindi kæranda um að fella úr gildi útgáfu byggingarleyfis fyrir stækkun sumarhúss að Litla-Botni í Hvalfirði, sem staðfest var 26. júní 2002, og synjun byggingarfulltrúa á kröfu um að stöðva byggingarframkvæmdir frá 30. september s.á.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 25. september 2003, sem nefndinni barst hinn 29. sama mánaðar, kærir Guðmundur H. Pétursson hdl., f.h. P, Egilsgötu 16, Borgarnesi, synjun hreppsnefndar Hvalfjarðarstrandarhrepps frá 12. febrúar 2003 á erindi kæranda um að fella úr gildi útgáfu byggingarleyfis fyrir stækkun sumarhúss að Litla-Botni í Hvalfirði, sem staðfest var 26. júní 2002, og synjun byggingarfulltrúa á kröfu um að stöðva byggingarframkvæmdir frá 30. september s.á.

Eru þær kröfur gerðar að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála felli úr gildi annars vegar útgáfu framangreinds byggingarleyfis og hins vegar synjun byggingarfulltrúa að stöðva byggingarframkvæmdirnar.

Málavextir og málatilbúnaður kæranda:  Að sögn kæranda er jörðin Litli-Botn í Hvalfjarðarstrandarhreppi í óskiptri sameign 9 einstaklinga í tilteknum hlutföllum.  Ágreiningur er m.a. uppi í máli þessu um ráðstöfun eins eigendanna á lóð úr landi jarðarinnar fyrir sumarbústað þann sem hinar kærðu ákvarðanir varða.  Er því haldið fram af hálfu kæranda að þurft hafi samþykki sameigendanna fyrir ráðstöfun umræddrar lóðar og meðan það hafi ekki legið fyrir hafi byggingarnefnd og hreppsnefnd verið óheimilt að veita hið umdeilda byggingarleyfi.  Af  sömu ástæðum hafi byggingarfulltrúa verið skylt að stöðva framkvæmdir samkvæmt hinu umdeilda leyfi, enda hafi þær verið ólögmætar.  Að auki hafi skort á að hinar kærðu ákvarðanir væru rökstuddar með fullnægjandi hætti.

Kærandi krafðist þess að hreppsnefnd felldi hið umdeilda byggingarleyfi, og aðrar ákvarðanir er tengdust framangreindri ráðstöfun, úr gildi eftir að Héraðsdómur Vesturlands hafði, með úrskurði hinn 23. október 2002, fallist á kröfu kæranda um að leggja fyrir þinglýsingarstjóra að afmá lóðarleigusamning um umrædda lóð úr þinglýsingarbókum.  Hafnaði hreppsnefnd því erindi á fundi sínum hinn 11. febrúar 2003.

Kærandi vildi ekki una niðurstöðu sveitarstjórnar í málinu og vísaði hann því til félagsmálaráðuneytisins með stjórnsýslukæru, dags. 3. apríl 2003, á grundvelli 103. gr. sveitarstjórnarlaga.  Kærunni var vísað frá með bréfi ráðuneytisins, dags. 23. apríl 2003.  Var í bréfinu á það bent að hinar umdeildu ákvarðanir sættu að hluta kæru til landbúnaðarráðuneytisins og að hluta til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála.  Væri kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því kæranda væri kunnugt um ákvörðun þá er hann kærði, sbr. 2. gr. reglug. nr. 621/1997.  Þar sem kærufrestur væri liðinn teldi ráðuneytið hins vegar ekki rétt að framsenda  erindið til áðurgreindra stjórnvalda.

Við þetta vildi kærandi ekki una þar eð hann taldi frávísun málsins byggjast á röngum forsendum og óskaði eftir því með bréfi, dags. 22. maí 2003, að ráðuneytið endurskoðaði fyrri ákvörðun sína.  Því hafnaði ráðuneytið með bréfi, dags. 4. júní 2003.  

Með bréfi, dags. 27. júní 2003, óskaði lögmaður kæranda álits umboðsmanns Alþingis á meðferð hreppsnefndar Hvalfjarðarstrandarhrepps og félagsmálaráðuneytisins á málinu.  Í áliti umboðsmanns, dags. 3. júlí 2003, kemur fram að ekki sé ástæða til að gera athugasemdir við þá niðurstöðu félagsmálaráðuneytisins að vísa máli kæranda frá, enda hafi þau úrlausnarefni sem stjórnsýslukæran hafi tekið til verið falin öðrum stjórnvöldum að lögum.  Ekki séu lagaskilyrði til að taka kvörtunina til frekari meðferðar enda hafi umræddar ákvarðanir hreppsnefndar Hvalfjarðarstrandarhrepps hvorki sætt umfjöllun landbúnaðarráðuneytisisns né úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. 

Að fengnu áliti umboðsmanns Alþingis vísaði kærandi málinu til landbúnaðarráðuneytisins með bréfi, dags 31. júlí 2003.  Þeirri kæru vísaði ráðuneytið frá með bréfi, dags. 22. ágúst 2003, með þeim rökum að kærufrestur í málinu væri löngu liðinn, sbr. 17. gr. jarðalaga nr. 65/1976 og 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Svo sem að framan greinir vísaði lögmaður kæranda málinu loks til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála með bréfi, dags. 25. september 2003.  Kemur fram í erindinu að kæranda sé kunnugt um að kærufrestur skv. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 621/1997, sbr. 8. gr. laga nr. 73/1997, sé einn mánuður.  Þess beri hins vegar að geta að í ákvörðun sveitarfélagsins frá 12. febrúar 2003 hafi hvorki verið að finna leiðbeiningar um kæruheimild, kærufresti né hvert kærunni skyldi beint, eins og stjórnsýslulög kveði skýrt á um, sbr. 2. tl. 2. mgr. 20. gr. l. nr. 37/1993.  Þessi upplýsingaskortur hafi haft í för með sér keðjuverkandi áhrif og hafi málinu verið vísað frá einni ríkisstofnun til annarrar.  Í því ljósi telji kærandi að beita eigi 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga um kærufrestinn.  Telji kærandi reyndar að reglugerðarákvæðið sem kveði á um lengd kærufrestsins hafi ekki lagastoð þar sem ekkert sé minnst á lengd kærufrests í skipulags- og byggingarlögum.  Beri því að taka kæruna til efnislegrar úrlausnar.

Andmæli hreppsnefndar Hvalfjarðarstrandarhrepps:  Úrskurðarnefndin leitaði afstöðu hreppsnefndar Hvalfjarðarstrandarhrepps til kæruefnis máls þessa.  Í svari oddvita f.h. hreppsnefndar, sem úrskurðarnefndinni barst 2. desember 2003, kemur fram að hreppsnefndin vísi til fyrri afgreiðslu í málinu sem fram komi í málsgögnum.  Einnig sé staðfest að afstaða hreppsnefndar sé óbreytt.

Niðurstaða:  Eins og mál þetta liggur nú fyrir hefur úrskurðanefndin ákveðið að taka sérstaklega til úrlausnar hvort vísa eigi málinu frá nefndinni með vísan til ákvæðis 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Að framan er því lýst að kærandi leitaði eftir því við hreppsnefnd Hvalfjarðarstrandarhrepps að felld yrði úr gildi útgáfa byggingarleyfis fyrir stækkun sumarhúss að Litla-Botni í Hvalfirði, sem staðfest var 26. júní 2002, og synjun byggingarfulltrúa á kröfu um að stöðva byggingarframkvæmdir frá 30. september s.á.   Erindi þessu hafnaði hreppsnefnd á fundi sínum hinn 11. febrúar 2003 og er það sú ákvörðun sem kærð er í máli þessu.  Eins og kröfugerð kæranda er háttað verður jafnframt að skilja málatilbúnað hans á þann veg að einnig sé krafist ógildingar á útgáfu umrædds byggingarleyfis og á synjun byggingarfulltrúa á kröfu um stöðvun framkvæmda frá 30. september 2002. 

Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að hún hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að hún verði tekin til meðferðar.  Er á því byggt af hálfu kæranda að afsakanlegt sé að kæran hafi borist of seint og að auki skorti lagastoð fyrir ákvæði 2. gr. reglugerðar nr. 621/1997 um eins mánaðar kærufrest.  Verði því að miða við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um þriggja mánaða kærufrest, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er kærufrestur á ákvörðunum byggingarnefnda og sveitarstjórna samkvæmt lögunum einn mánuður.  Felst í ákvæði þessu fullnægjandi lagastoð fyrir framangreindu reglugerðarákvæði og er staðhæfingum kæranda um hið gagnstæða hafnað.  Verður við það að miða að kærufrestur í máli þessu sé einn mánuður en fallast má á að miða beri upphaf kærufrestsins við það tímamark þegar ætla verður að kæranda hafi verið orðið kunnugt um kærustjórnvald og kærufrest, enda skorti á að upplýsingar þar að lútandi kæmu fram í tilkynningum hreppsnefndar Hvalfjarðarstrandarhrepps um ákvarðanir hennar í málinu.

Í bréfi félagsmálaráðuneytisins til lögmanns kæranda, dags. 23. apríl 2003, er skilmerkilega gerð grein fyrir kæruheimildum í máli þessu, kærustjórnvöldum og kærufresti hvað úrskurðarnefndina varðar.  Verður við það að miða að kæranda hafi allt frá móttöku nefnds bréfs verið kunnugt um kæruheimildir sínar og annað er máli skipti varðandi þær og því beri að miða upphaf kærufrestsins við það tímamark.  Kærandi vísaði málin fyrst til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála með bréfi, dags. 23. september 2003, eða um fimm mánuðum eftir að honum hafði verið gerð grein fyrir því sem máli skipti um málskotsréttinn.  Var kærufrestur þá löngu liðinn og verður ekki fallist á að afsakanlegt sé að kæran hafi borist svo seint sem raunin varð.  Gildir einu þótt kærandi hafi leitað álits umboðsmanns Alþingis, enda lá það fyrir hinn 3. júlí 2003 og var kærufrestur því einnig liðinn þótt upphaf hans yrði miðað við það tímamark þegar álitið kom fram.  Loks verður það ekki talið hafa áhrif á upphaf kærufrests til úrskurðarnefndarinnar þótt kærandi hafi, að fengnu áliti umboðsmanns, beint kæru til landbúnaðarráðuneytisins, enda varðaði sú kæra afmarkaðan þátt, sem ekki átti undir úrskurðarnefndina og var kæranda í lófa lagið að kæra samhliða til nefndarinnar þau úrlausnarefni sem undir hana gátu átt.  Réttlætti bið eftir niðurstöðu landbúnaðarráðuneytisins því ekki þann drátt sem varð á kæru til úrskurðarnefndarinnar.

Þegar allt framanritað er virt er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að lögboðinn kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæra í málinu barst nefndinni og að ekki hafi verið fyrir hendi þau atvik er leiða eigi til þess að beitt verði undantekningarheimildum 1. eða 2. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og beri því, skv. meginreglu ákvæðisins, að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

_____________________________
Ásgeir Magnússon

 

___________________________          _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                              Ingibjörg Ingvadóttir

52/2002 Ásgarður

Með

Ár 2004, fimmtudaginn 11. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 52/2002; kæra eiganda íbúðar að Ásgarði 22 í Reykjavík á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um að samþykkja byggingarleyfi fyrir eignarhluta í fasteigninni Ásgarði 22-24, er fól í sér breytingu á verslunarhúsnæði í þrjár íbúðir og útlitsbreytingu á ytra byrði hússins.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 23. september 2002, er barst nefndinni hinn 24. sama mánaðar, kærir A, eigandi íbúðar að Ásgarði 22-24, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 27. ágúst 2002 að samþykkja byggingarleyfi fyrir breytingu verslunarhúsnæðis á fyrstu hæð fasteignarinnar í þrjár íbúðir og útlitsbreytingu á ytra byrði hússins.  Ákvörðunin var staðfest á fundi borgarstjórnar hinn 5. september 2002.  Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Málavextir:  Í maímánuði árið 2001 voru haldnir tveir húsfundir í húsfélaginu Ásgarði 22-24, þar sem til umræðu var fyrirhuguð breyting byggingarleyfishafa á eignarhluta hans á annarri hæð hússins úr verslunarrými í þrjár íbúðir og breyting á ytra byrði hússins af þeim sökum.  Var kærandi mótfallinn fyrirhuguðum framkvæmdum.  Í kjölfar húsfundanna var sótt um leyfi til byggingarfulltrúa fyrir framkvæmdunum en kærandi leitaði álits kærunefndar fjöleignarhúsa hinn 11. maí 2001 um það hvort umdeildar breytingar væru háðar samþykki allra meðeigenda fjöleignarhússins.  Álit kærunefndarinnar, dags. 17. september 2001, var á þann veg að fyrir skiptingu eignarhlutans í þrjár íbúðir og útlitsbreytingu hússins þyrfti samþykki allra eigenda fjöleignarhússins.

Hinn 27. ágúst 2002 var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa umsókn byggingarleyfishafa frá maímánuði 2001 um umdeildar breytingar og var umsóknin samþykkt með svofelldri bókun:  „Umsókn eiganda verslunarhúsnæðis í húsinu við Ásgarð 22-24 um að gera þar þrjár íbúðir hefur verið til umfjöllunar hjá embætti byggingarfulltrúa síðan 28. maí 2001 eða í 15 mánuði.  Tveir eigendur í húsinu hafa mótmælt umsókninni.  Þeir hafa ekki sýnt fram á með haldbærum rökum að hagsmunir þeirra skerðist við að íbúðir verði samþykktar í verslunarhúsnæði.  Þá er útlitsbreyting á norðurhlið í samræmi við þá breytingu sem gerð var með samþykkt á íbúð nr. 0205.  Ætla má að breyting úr atvinnuhúsnæði í íbúðarhúsnæði sé öllum eigendum til hagsbóta þar sem atvinnuhúsnæði getur fylgt meiri umferð, hávaði og lyktarmengun.  Eigendur verslunarhúsnæðisins hafa ekki getað nýtt það sem slíkt um 2 ára skeið en borið af því allan kostnað, hagsmunir þeirra eru því ríkir.  Með skírskotun til ofanritaðs samþykkir byggingarfulltrúi umsóknina.“

Kæranda var tilkynnt um málalyktir með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 28. ágúst 2002, og skaut hann síðan veitingu byggingarleyfisins til úrskurðarnefndarinnar eins og fyrr greinir.  Er krafa kæranda um ógildingu byggingarleyfisins byggð á þeirri málsástæðu að umdeildar framkvæmdir hafi ekki hlotið samþykki allra eigenda fjölbýlishússins svo sem lögskylt sé og fram komi í fyrrnefndu áliti kærunefndar fjöleignarhúsa, sem legið hafi fyrir við afgreiðslu byggingarleyfisins.

Með kaupsamningi, dags. 13. desember 2002, seldi kærandi eignarhlut sinn í húsinu Ásgarði 22-24 og fór afhending hins selda og útgáfa afsals til kaupanda fram sama dag samkvæmt ákvæðum þess samnings.  Kaupandi eignarhluta kæranda hefur ekki látið kærumál þetta til sín taka.

Niðurstaða:  Kærandi byggir málskot sitt vegna hins umdeilda byggingarleyfis á atvikum er tengjast réttarstöðu hans sem eiganda að eignarhluta í fjölbýlishúsinu að Ásgarði 22-24.  Fyrir liggur kaupsamningur þar sem kærandi afsalar eignarhluta sínum í umræddu húsi til þriðja aðila og urðu eigendaskiptin hinn 13. desember 2002.  Frá þeim tíma hefur kærandi ekki hagsmuna að gæta vegna nýtingar séreignar eða breytingar á sameign fjölbýlishússins og á þar ekki lengur íhlutunarrétt í þeim efnum samkvæmt fjöleignarhúsalögum nr. 26/1994.

Vegna þessara ástæðna á kærandi nú ekki lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um ágreiningsefni máls þessa og verður málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

______________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________        _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                            Ingibjörg Ingvadóttir

62/2002 Bleikjukvísl

Með

Ár 2004, fimmtudaginn 11. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 63/2002, kæra eigenda húseignarinnar að Birtingakvísl 15, Reykjavík á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkurborgar frá 4. júlí 2002 um útgáfu byggingarleyfis til byggingar leikskóla á lóðinni nr. 10 við Bleikjukvísl, Reykjavík.

Í málinu er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 28. nóvember 2002, er barst nefndinni hinn 29. sama mánaðar, kæra Á og E, eigendur húseignarinnar að Birtingakvísl 15, Reykjavík, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkurborgar frá 4. júlí 2002 að gefa út byggingarleyfi vegna byggingar leikskóla á lóðinni nr. 10 við Bleikjukvísl, Reykjavík. 

Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og í bréfi lögmanns kærenda, dags. 27. febrúar 2002, er þess krafist að framkvæmdir við bygginguna verði stöðvaðar.

Samþykkt skipulags- og byggingarnefndar var staðfest í borgarráði hinn 16. júlí 2002.

Málavextir:  Húseignin að Birtingakvísl 15, Reykjavík stendur neðst í götu og austan og sunnan hennar er lóðin að Bleikjukvísl 10.  Á milli þeirra er göngustígur.

Samkvæmt aðalskipulagi var svæðið skilgreint sem útivistarsvæði til sérstakra nota.  Samkvæmt deiliskipulagi frá árinu 1982 var gert ráð fyrir dagvistarstarfsemi á lóðinni en með deiliskipulagi samþykktu í skipulagsnefnd hinn 5. júní 1989 og borgarráði 6. sama mánaðar var samþykkt deiliskipulag lóðarinnar sem fól í sér að á lóðinni skyldi vera gæsluvöllur, 60m² hús, leiktæki og náttúrulegt holt.  Starfrækslu gæsluvallarins var hætt fyrir nokkrum árum og húsið sem stóð á lóðinni flutt í burtu. 

Í júlí árið 2001 sótti núverandi lóðarhafi um að fá lóðinni nr. 10 við Bleikjukvísl úthlutað fyrir leikskóla.  Honum var úthlutað lóðinni og sótti hann um byggingarleyfi fyrir leikskóla.  Byggingarleyfisumsóknin var tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 30. janúar 2002 og var frestað, en samþykkt að auglýsa óverulega breytingu á aðalskipulagi þar sem lóðinni skyldi breytt úr grænu svæði í stofnanasvæði.  Þá var hönnuði bent á að hafa samband við skipulagsfulltrúa vegna breytinga á deiliskipulagi.  Tillaga að breyttu aðalskipulagi var auglýst til kynningar frá 19. febrúar 2002 með athugasemdafresti til 20. mars s.á.  Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 8. febrúar 2002 var samþykkt að grenndarkynna tillögu að breyttu deiliskipulagi lóðarinnar Bleikjukvísl 10 fyrir húseigendum að Bleikjukvísl 1, 2, 6, 8, 12, 14, 16, 18, 24 og 26, Birtingakvísl 11-19 (oddatölur), frá 19. febrúar 2002 til og með 19. mars sama ár. 

Að lokinni auglýsingu og grenndarkynningu voru tillögurnar lagðar fyrir skipulags- og byggingarnefnd á fundi hinn 24. apríl 2002.  Nefndin samþykkti breytingu á aðal- og deiliskipulagi lóðarinnar og staðfesti borgarráð afgreiðsluna á fundi hinn 30. apríl 2002.  Kærendur skutu ákvörðunum þessum til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála sem með úrskurði uppkveðnum í dag hefur vísað frá kæru vegna aðalskipulags en fellt úr gildi hið kærða deiliskipulag lóðarinnar .

Hinn 4. júlí 2002 var gefið út byggingarleyfi vegna leikskólabyggingarinnar, en hún er 461,7 m² að stærð.  Leikfangageymsla er stendur á lóðinni er 7 m².  Húsið er finnskt timbureiningahús, klætt að utan með lóðréttri timburklæðningu í ljósgráum lit. 

Framangreinda ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar hafa kærendur skotið til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála eins og að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Kærendur halda því fram að kæran þeirra hafi borist úrskurðarnefndinni innan kærufrests en byggingarleyfi það sem um sé deilt í málinu hafi verið gefið út 4. júlí 2002.  Það hafi verið kært til nefndarinnar með bréfi, dags. 28. nóvember s.á. sem borist hafi nefndinni hinn 29. sama mánaðar.  Kærendur telja framkvæmdir samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi ólögmætar og gera þeir athugasemd við að ósamræmi sé milli hins nýsamþykkta deiliskipulags og byggingarleyfisins.  Í kærunni segir að kærendum hafi orðið kunnugt um byggingarleyfið um miðjan nóvember er þeim hafi borist í hendur teikningar af leikskólanum og kæran hafi því borist innan kærufrests.  Vísa kærendur til þess að þeir séu ólöglærðir, enda segi í kærunni að þeir hafi talið að ekki mætti gefa út byggingarleyfi á meðan ekki hafi verið úrskurðað í eldri kæru þeirra vegna aðal- og deiliskipulags lóðarinnar.  Þeim hafi því ekki verið kunnugt um að fyrir lægi kæranleg stjórnsýsluákvörðun og framkvæmdir á lóðinni breyti þar engu um.  Með vísan til fyrri samskipta kærenda við borgaryfirvöld sé því haldið fram að þeir hafi mátt ætla að þeim yrði tilkynnt sérstaklega um veitingu byggingarleyfisins.  Kærufrestur teljist almennt ekki byrja að líða þótt óstaðfestar upplýsingar berist aðila á skotspónum og því verði að telja að kæran hafi borist innan kærufrests samkvæmt 2. gr. reglugerðar nr. 621/1997. 

Verði ekki fallist á ofangreinda röksemdafærslu vísa kærendur til 6. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga þar sem segi að málsmeðferð fyrir úrskurðarnefndinni fari eftir stjórnsýslulögum nr. 73/1993 sem geri lágmarkskröfur til málsmeðferðar.  Ákvæði reglugerðar nr. 621/1997 um úrskurðarnefndina víki fyrir settum lögum.  Því sé haldið fram að ef í skipulags- og byggingarlögum eða reglugerð um úrskurðarnefndina felist ákvæði um málsmeðferð sem geri vægari kröfur til málsmeðferðar, þ.e. veiti aðila minna réttaröryggi en samkvæmt stjórnsýslulögum, verði að telja að stjórnsýslulögin gildi. 

Þá er því einnig haldið fram með vísan til 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að ekki skuli vísa kæru kærenda frá þar sem að afsakanlegt sé að hún hafi ekki borist fyrr.  Einnig sé vísað til þess að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar vegna hinna skýru og alvarlegu ágalla á byggingarleyfinu og vegna þess að byggingarleyfið varði mikilvæga hagsmuni fjölda fólks sem búsett sé í nágrenni við bygginguna. 

Kærendur byggja á því að aðal- og deiliskipulag sem liggi til grundvallar hinu kærða byggingarleyfi séu ógild og þar með sé byggingarleyfið einnig ógilt, sbr. 1. og 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga. 

Verði fallist á að aðal- og deiliskipulag lóðarinnar séu gild halda kærendur því fram að slíkir efnislegir annmarkar séu á hinu útgefna byggingarleyfi að ógildingu þess varði.  Samþykktar teikningar og framkvæmdaáform, sem séu hluti af hinu kærða byggingarleyfi, séu ekki í samræmi við deiliskipulag svæðisins.  Í deiliskipulagsskilmálum segi að aðkoma akandi að lóðinni sé um Bleikjukvísl og utan lóðar séu 12 bílastæði við enda götunnar.  Kærendur halda því fram að þetta sé hið bindandi ákvæði deiliskipulagsins sem beri að hlíta, sbr. 11. mgr. 2. gr. og 4. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga og gr. 1.3 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.  Þó svo að í greinargerðinni með deiliskipulaginu segi að aðkoma og bílastæði verði frá Streng og að þar verði gerð átta ný bílastæði feli slíkt ekki í sér bindandi ákvæði deiliskipulagsins, heldur einungis lýsingu forsendna þess og skýringu við það, sbr. 4. mgr. 23. leiki gr. skipulags- og byggingarlaga og gr. 1.3 í skipulagsreglugerð.  Því sé óheimilt samkvæmt skilmálum deiliskipulagsins að hafa bílastæði og aðkomu lóðarinnar annars vegar frá Bleikjukvísl og hins vegar frá Streng eins og fram komi í byggingarleyfinu.  Auk þess komi fram í byggingarleyfinu að aðkoma að leikskólanum verði ekki frá Bleikjukvísl og Streng heldur annars vegar frá Bleikjukvísl og þaðan eftir göngustíg að vestanverðu og hins vegar frá Streng að sunnanverðu og eftir göngustíg að vestan.  Deiliskipulagið heimili ekki að aðkoma sé um göngustíga heldur einungis frá Bleikjukvísl og hugsanlega Streng verði ekki fallist á sjónarmið kærenda um að það sé óheimilt samkvæmt deiliskipulaginu.  Byggingarleyfið sé því í ósamræmi við deiliskipulagið og beri af þeim sökum að ógilda það.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er því haldið fram að krafan sé of seint fram komin.

Þá heldur Reykjavíkurborg því fram að aðkomur að leikskólanum, samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi, séu í fullu samræmi við deiliskipulagið.  Kveðið sé á um aðkomu bíla frá Bleikjukvísl og Streng og ekkert banni það að gengið sé inn á lóðina frá göngustígnum milli lóðanna.  Þá hafi hliðið inn á lóðina verið fært að Streng og hafi verið sótt um þá breytingu.  Engu breyti um gildi byggingarleyfisins þótt lóðarhafar hafi vikið frá því enda muni byggingaryfirvöld bregðast við þeim framkvæmdum í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga. 

Málsrök byggingarleyfishafa:  Í bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. mars 2002, lýsa byggingarleyfishafar sjónarmiðum sínum varðandi framkomna kæru.  Þeir benda á að framkvæmdum við leikskólann sé að mestu lokið og að börn hafi þegar hafið skólagöngu í leikskólanum.  Byggingarleyfishafar telji sig hafa farið að leikreglum enda þótt um misskilning af þeirra hálfu hafi verið um að ræða þegar þau hafi farið út fyrir lóðarmörk.

Niðurstaða:  Eins og mál þetta liggur fyrir kemur fyrst til skoðunar hvort kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæra í málinu barst úrskurðarnefndinni hinn 29. nóvember 2002, en hið umdeilda byggingarleyfi var gefið út hinn 4. júlí s.á.  Um kærufrest í málinu gildir ákvæði 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, en samkvæmt ákvæðinu er kærufrestur einn mánuður frá því aðila er kunnugt um afgreiðslu sveitarstjórnar á samþykkt, sem hann hyggst kæra til úrskurðarnefndarinnar. 

Í máli því sem hér er til úrlausnar liggur fyrir að í september árið 2002 var kærendum kunnugt um að framkvæmdir við bygginguna væru hafnar, enda segir í bréfi þeirra til úrskurðarnefndar, dags. 30. september 2002, að vinna við sökkla leikskólabyggingarinnar sé vel á veg komin.  Kærendum var ekki formlega kynnt leyfi skipulags- og byggingarnefndar fyrir byggingunni en á móti verður til þess að líta að þeir búa örskammt frá byggingarstað.  Það er álit úrskurðarnefndar að ætlast verði til þess að þeir sem kæra vilji framkvæmdir, sem þeir telja andstæðar hagsmunum sínum, leiti sér upplýsinga um heimildir fyrir þeim.  Kærendur kærðu ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar hinn 29. nóvember 2002 og var þá vinna við gerð sökkla vel á veg komin.  Með vísan til þessa verður að telja að kærufrestur vegna útgáfu byggingarleyfisins sé einn mánuður frá því að kærendum hafi mátt vera ljóst að framkvæmdir væru hafnar við bygginguna og hafi því byrjað að líða í síðasta lagi 30. september 2002 er kærendur rituðu úrskurðarnefndinni áðurnefnt bréf.  Því verður að telja að kærufrestur hafi verið liðinn er kæran barst úrskurðarnefndinni.

Samkvæmt framansögðu ber, með vísan til 4. mgr. 39. gr. laga nr. 73/1997, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna anna hjá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kröfum kærenda um ógildingu leyfis fyrir byggingu leikskóla við Bleikjukvísl 10 í Reykjavík, samkvæmt ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 4. júlí 2002, er vísað frá úrskurðarnefndinni.

_____________________
Ásgeir Magnússon

_______________________   ____________________
Þorsteinn Þorsteinsson              Ingibjörg Ingvadóttir

27/2002 Bleikjukvísl

Með

Ár 2004, fimmtudaginn 11. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 24, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 27/2002, kæra eigenda húseignarinnar að Birtingakvísl 15, Reykjavík á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 24. apríl 2002 um breytingu á aðal- og deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 10 við Bleikjukvísl.

Í málinu er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 11. júní 2002, er barst nefndinni hinn 12. sama mánaðar, kæra Á og E, eigendur húseignarinnar að Birtingakvísl 15, Reykjavík, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 24. apríl 2002 að breyta aðal- og deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 10 við Bleikjukvísl, Reykjavík. 

Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Samþykkt skipulags- og byggingarnefndar var staðfest í borgarráði hinn 30. apríl 2002.

Málavextir:  Húseignin að Birtingakvísl 15, Reykjavík stendur innst í götu og austan og sunnan hennar er lóðin að Bleikjukvísl 10.  Á milli þeirra er göngustígur. 

Samkvæmt aðalskipulagi var svæðið skilgreint sem útivistarsvæði til sérstakra nota.  Deiliskipulag frá árinu 1982 gerði ráð fyrir dagvistarstarfsemi en með samþykkt skipulagsnefndar hinn 5. júní 1989 og samþykkt borgarráðs hinn 6. sama mánaðar var samþykkt deiliskipulag lóðarinnar sem kvað á um að lóðin skyldi nýtt undir gæsluvöll.  Á lóðinni skyldi standa um 60 m² hús og leiktæki en stór hluti lóðarinnar skyldi vera óraskaður.  Rekstri gæsluvallarins var hætt fyrir nokkrum árum og var þá húsið sem stóð á lóðinni flutt burtu. 

Í júlí árið 2001 sótti núverandi lóðarhafi um að fá lóðinni nr. 10 við Bleikjukvísl úthlutað fyrir leikskóla.  Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 30. sama mánaðar var bókað að það samrýmdist skipulagi að byggja leikskóla á lóðinni og var beiðninni vísað til skrifstofustjóra borgarverkfræðings.  Í kjölfarið var honum úthlutað lóðinni og sótti hann um byggingarleyfi fyrir leikskóla.  Byggingarleyfisumsóknin var tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 30. janúar 2002. Ákvörðun í málinu var þá frestað en samþykkt að auglýsa óverulega breytingu á aðalskipulagi þar sem lóðinni skyldi breytt úr grænu svæði í stofnanasvæði.  Jafnframt var bókað að hönnuður hússins skyldi hafa samband við skipulagsfulltrúa vegna breytinga á deiliskipulagi.  Á fundi borgarráðs hinn 5. febrúar s.á. var staðfest afgreiðsla skipulags- og byggingarnefndar og í kjölfarið var þess óskað við Skipulagsstofnun að hún mælti með því við umhverfisráðuneytið að heimilað yrði að auglýsa óverulega breytingu á aðalskipulagi vegna lóðarinnar.  Skipulagsstofnun lagði ofangreint til við umhverfisráðuneytið sem féllst á beiðnina.  Tillaga að breyttu aðalskipulagi var auglýst til kynningar frá 19. febrúar 2002 með athugasemdafresti til 20. mars s.á.  Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 8. febúar 2002 var samþykkt að grenndarkynna tillögu að breyttu deiliskipulagi vegna lóðarinnar Bleikjukvísl 10 fyrir húseigendum að Bleikjukvísl 1, 2, 6, 8, 12, 14, 16, 18, 24 og 26, Birtingakvísl 11-19 (oddatölur), frá 19. febrúar 2002 til og með 19. mars sama ár. 

Tilkynning um grenndarkynningu á tillögu að breyttu deiliskipulagi var send til hagsmunaaðila með bréfi, dags. 18. febrúar 2002.  Þar var sérstaklega vakin athygli á að samhliða grenndarkynningunni væri auglýst tillaga að breyttu aðalskipulagi og var auglýsing um breytinguna látin fylgja.  Í tilkynningunni var vísað í uppdrátt er fylgdi henni, þar sem kom fram að tillögunni væri ætlað að breyta samþykktu deiliskipulagi frá árinu 1982 þar sem gert var ráð fyrir dagvistun á lóðinni. 

Að lokinni auglýsingu um tillögu að breyttu aðalskipulagi og grenndarkynningu voru tillögurnar lagðar fram á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 24. apríl 2002.  Þá voru einnig á sama fundi lagðar fram athugasemdir sem borist höfðu við kynningu þeirra, en athugasemdir bárust m.a. frá kærendum.  Nefndin samþykkti tillögurnar þó með þeirri breytingu að bílastæði leikskólans skyldi einnig komið fyrir sunnan leikskólans með aðkomu frá Streng.  Borgarráð staðfesti afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar á fundi hinn 30. apríl 2002 og var þeim er settu fram athugasemdir kynnt afgreiðsla nefndarinnar með bréfi, dags. 13. maí 2002.  Auglýsingar um gildistöku aðal- og deiliskipulagsbreytinganna birtust í B-deild Stjórnartíðinda hinn 28. júní 2002. 

Eftir framangreinda atburðarás áttu sér stað viðræður kærenda og byggingaryfirvalda um sættir málsins og óskuðu kærendur eftir því að Reykjavíkurborg keypti húseign þeirra.  Því var hafnað með vísan til þess að ekki lægi fyrir í málinu bótaábyrgð borgarinnar og tókust ekki sættir með aðilum.

Kærendur hafa skotið ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála eins og að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Kærendur krefjast þess að breyting sú sem skipulags- og byggingarnefnd samþykkti á aðalskipulagi vegna lóðarinnar nr. 10 við Bleikjukvísl verði felld úr gildi með vísan til þess að málsmeðferð og efnislegur grundvöllur ákvörðunarinnar séu haldin slíkum ágöllum að ógildingu hennar varði.  Í bréfi Borgarskipulags til Skipulagsstofnunar, dags. 4. janúar 2002, sé þess getið að breyting aðalskipulagsins sé gerð til þess að samræmi sé á milli gildandi deiliskipulags og aðalskipulags svæðisins og þess getið að svo virðist sem lóðin hafi í aðalskipulagi verið skilgreind sem grænt svæði fyrir misgáning og því sé aðeins um leiðréttingu að ræða á gildandi aðalskipulagi.  Þá benda kærendur á að hið sama komi einnig fram í greinargerð með aðalskipulaginu og auglýsingu þess. 

Kærendur halda því fram að ákvörðun um breytingu á aðalskipulagi, sem reist sé á ofangreindu, byggist á ómálefnalegum sjónarmiðum og sé því ólögmæt að efni til og ógildanleg.  Með skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 hafi verið lögfest stigskipting skipulagsáætlana þannig að skipulagsáætlanir af æðra stigi gangi framar skipulagsáætlunum af lægra stigi og sé ósamræmi þarna á milli víki hinar lægra settu.  Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. og 9. gr. laganna skuli aðalskipulag fela í sér stefnu sveitarstjórnar um landnotkun, þróun byggðar o.fl., en nánari útfærsla þess komi fram í deiliskipulagi, sbr. 3. mgr. 2. gr. sömu laga.  Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. skuli deiliskipulag grundvallast á aðalskipulagi en ekki öfugt og sé ósamræmi þarna á milli víki deiliskipulagið og þar með sé það ógilt.  Aðalskipulag og tillaga um breytingu á því geti ekki byggst á því að verið sé að færa aðalskipulag til samræmis við deiliskipulag.

Kærendur halda því fram að kynning aðalskipulagstillögu sem beri að með ofangreindum hætti sé til þess fallin að valda misskilningi hjá almenningi.  Misskilningurinn geti leitt til andvaraleysis um hinn mikilvæga rétt til að koma að athugasemdum um aðalskipulagstillögu sem síðan verður forsenda deiliskipulags á svæðinu og þar með bundið skilmála þess.  Við slíka málsmeðferð sé sköpuð rík hætta á því að hagsmunaaðilar missi af möguleikanum á að koma að grundvallarsjónarmiðum sínum um skipulagið sem varði einmitt aðalskipulagið en ekki nánari útfærslur í deiliskipulagi.  Slík málsmeðferð brjóti gegn markmiðum 1. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 þar sem segi að markmið laganna sé að tryggja vandaða málsmeðferð og réttaröryggi, sbr. gr. 3.2 skipulagsreglugerðar nr. 400/1998.  Málsmeðferð í máli þessu sé haldin verulegum ágöllum og til þess fallin að valda ruglingi hjá hagsmunaaðilum og því hljóti aðalskipulagið að teljast ógilt. 

Kærendur krefjast þess að breyting sú sem skipulags- og byggingarnefnd samþykkti á deiliskipulagi lóðarinnar nr. 10 við Bleikjukvísl verði felld úr gildi.  Kærendur benda á að eldra deiliskipulag lóðarinnar, sem samþykkt var árið 1982, hafi gert ráð fyrir dagvistun á lóðinni en við endurskoðun Aðalskipulags Reykjavíkurborgar 1990-2010 hafi landnotkun lóðarinnar verið breytt úr íbúðarsvæði í útivistarsvæði til sérstakra nota og síðan þá haldist óbreytt.  Ósamræmi hafi því verið milli aðalskipulags og deiliskipulags lóðarinnar og því teljist eldra deiliskipulagið ógilt, sbr. 1. mgr. 23. gr. og 7. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Málsmeðferð sú sem viðhöfð hafi verið í málinu hafi því verið röng.  Ekki hafi verið um löglega breytingu deiliskipulags að ræða, skv. 2. mgr. 26. gr laganna þar sem ekkert gilt deiliskipulag hafi tekið til lóðarinnar.  Vegna þessa hafi deiliskipulagið átt að fara eftir 25. gr. laganna og þegar af þeirri ástæðu verði hin kærða deiliskipulagsbreyting að teljast ógild. 

Þessu til viðbótar benda kærendur á að deiliskipulagið verði allt að einu að teljast ógilt með vísan til þess að grenndarkynning deiliskipulagstillögunnar hafi farið fram samhliða auglýsingu aðalskipulagstillögunnar.  Í 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sé heimild til að auglýsa tillögu að deiliskipulagi samhliða auglýsingu um samsvarandi tillögu að breyttu aðalskipulagi.  Þessi heimild eigi aðeins við um þá málsmeðferð sem viðhöfð sé þegar deiliskipulagstillaga sé auglýst skv. 25. gr. eða 1. mgr. 26. gr. laganna.  Þegar beitt sé undanþáguheimild 2. mgr. 26. gr. laganna eigi heimild 2. mgr. 23. gr. ekki við og því sé óheimilt að grenndarkynna tillögu að óverulegri breytingu á deiliskipulagi skv. 2. mgr. 26. gr. samhliða auglýsingu á tillögu að breyttu aðalskipulagi.  Þessi málsmeðferð fullnægi ekki efniskröfum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og því sé ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar ógildanleg.  Heimild 2. mgr. 23. gr. laganna sé undanþáguheimild sem beri að túlka þröngt eða eftir orðanna hljóðan en ekki rýmkandi skýringu þannig að hún nái einnig til málsmeðferðar skv. 2. mgr. 26. gr. laganna. 

Kærendur vísa einnig til þess að málsmeðferð skv. 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sé undanþágumeðferð sem geri minni kröfur til málsmeðferðar en 25. gr. og 1. mgr. 26. gr. s.l.

Kærendur benda á að í lögskýringargögnum komi skýrt fram að hugtakið „óverulegar breytingar“ á deiliskipulagi, sem sé forsenda beitingar 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, beri að túlka þröngt.  Breyting deiliskipulags geti ekki talist óveruleg þegar sjálfu aðalskipulaginu, grundvelli deiliskipulagsins, sé breytt samhliða og alls ekki þegar aðalskipulagsbreytingin sé breyting á landnotkun úr útivistarsvæði í stofnanasvæði, sem sé grundvallarbreyting efnislega þótt hún varði aðeins lítið svæði.

Kærendur halda því og fram að óheimilt sé að auglýsa gildistöku deiliskipulags í Stjórnartíðindum fyrr en eftir að gildistaka samsvarandi aðalskipulagsbreytingar hafi verið auglýst þar og vísa til lögskýringargagna með lögum nr. 170/2000.  Þetta sé til að uppfylla hina ríku kröfu skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 um að deiliskipulag verði að byggja á gildu aðalskipulagi.  Í máli kærenda hafi þannig háttað til að auglýsing um hina kærðu deiliskipulagsbreytingu hafi verið birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 28. júní 2002 og hafi þar með tekið gildi, sbr. gr. 6.4 í skipulagsreglugerð.  Sama dag hafi auglýsing um hina kærðu aðalskipulagsbreytingu verið birt þar og á sama hátt þar með öðlast gildi.  Þessi birtingarháttur valdi því að gildistaka aðalskipulagsbreytingarinnar og deiliskipulagsbreytingarinnar sé nákvæmlega samtímis, sbr. 7. gr. laga nr. 64/1943, um birtingu laga og stjórnvaldserinda, og uppfylli ekki kröfu skipulags- og byggingarlaga um að deiliskipulag byggi á gildu aðalskipulagi.  Þetta sjónarmið komi einnig fram í bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 10. júní 2002, þar sem segi að stofnunin geri ekki athugasemdir við að deiliskipulagbreytingin verði auglýst í B-deild Stjórnartíðinda þegar breyting á aðalskipulagi fyrir sama svæði hafi tekið gildi.  Öll málsmeðferð á ákvörðunarstigi í máli þessu sé algerlega samtímis, bæði hvað varðar aðalskipulagið og deiliskipulagið.  Málsmeðferð standist ekki kröfur skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 um að ákvarðanir um deiliskipulag byggi á gildu aðalskipulagi og því teljist deiliskipulagsbreytingin ógild.

Kærendur byggja einnig á því að við málsmeðferð deiliskipulagsbreytingarinnar hafi ekki verið gætt ákvæðis 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 þess efnis að sveitarstjórn sendi Skipulagsstofnun hið breytta skipulag, sbr. 3. mgr. 25. gr. laganna, ásamt yfirlýsingu um að hún taki að sér að bæta það tjón er einstakir aðilar kunni að verða fyrir við breytinguna.  Samkvæmt 3. mgr. 25. gr. laganna beri að senda Skipulagsstofnun þær athugasemdir sem gerðar hafi verið við deiliskipulagstillöguna en ekki sé vísað til þeirra í meðsendum gögnum frá skipulags- og byggingarsviði Reykjavíkurborgar, sbr. bréf, dags. 31. maí 2002.  Þá sé hvergi að finna yfirlýsingu um bótaábyrgð, hvorki á deiliskipulagsuppdrættinum né í áðurnefndu bréfi, dags. 31. maí 2002.

Kærendur krefjast einnig ógildingar deiliskipulagsins sökum þess að breytingin, sem gerð hafi verið á deiliskipulagstillögunni eftir grenndarkynninguna, varðandi aðkomu viðskiptavina leikskólans frá Streng í stað Bleikjukvíslar, sé grundvallarbreyting og hana hafi þurft að grenndarkynna sérstaklega, sbr. 2. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Lóðin standi við Bleikjukvísl og eðli málsins samkvæmt hljóti aðkoman að vera frá þeirri götu sem lóðin standi við.  Auk þess standist þessi breyting ekki efnislega þar sem að við gerð hennar hafi ekki verið fylgt ákvæðum skipulagsreglugerðar gr. 3.1.1 nr. 400/1998 þar sem kveðið sé á um að við skipulagsgerð skuli ávallt taka sérstakt tillit til þarfa barna, fatlaðra og aldraðra við ákvarðanir um landnotkun og tilhögun mannvirkja svo sem vega, stíga, bílastæða o.fl.  Þá hafi heldur ekki verið tekið tillit til umferðaröryggissjónarmiða því mörg börn eigi leið um Streng á sama tíma og mesta umferðin sé í kringum leikskólann.  Bílastæðin sem breytingin geri ráð fyrir séu hornrétt á akstursstefnu við Streng, sem sé mikil umferðargata.  Slík bílastæði séu talin óæskileg vegna umferðaröryggissjónarmiða og vísa kærendur í þessu sambandi til bréfs Borgarverkfræðings í Reykjavík, dags. 21. ágúst 1996, þar sem lagst hafi verið gegn þess háttar bílastæðum við Stakkahlíð.  Með því að kynna ekki breytinguna sérstaklega og kanna nánar en gert var, hvaða áhrif hún hefði á umferðaröryggi og þarfir barna í hverfinu, hafi skipulags- og byggingarnefnd brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1997.  Þessi breyting sé ekki bindandi þar sem hún sé sett fram í skipulagsgreinargerð en ekki skipulagsskilmálum.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Reykjavíkurborg bendir á að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála hafi ekki úrskurðarvald um gildi hinnar kærðu aðalskipulagsbreytingar.

Varðandi deiliskipulagsbreytinguna þá heldur Reykjavíkurborg því fram að um óverulega breytingu hafi verið að ræða frá gildandi deiliskipulagi svæðisins.  Því hafi verið heimilt að fara með tillöguna samkvæmt 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, enda hafi samhliða verið auglýst breyting á aðalskipulagi og athygli athugasemdaraðila sérstaklega vakin á því.  Telja verði að heimilt sé, á grundvelli 2. mgr. 23. gr. laganna, að grenndarkynna breytingu samhliða auglýsingu á óverulegri breytingu á aðalskipulagi, sbr. tilgang og markmið þess sem að hafi verið stefnt með lagagreininni.  Reykjavíkurborg bendir á að fyrst hið meira sé heimilt hljóti hið minna að vera það einnig, enda liggi sömu rök til grundvallar hvoru tveggja.  Ákvæði 2. mgr. 26. gr. og 2. mgr. 21. gr. skipulags- og byggingarlaga verði að skýra í samræmi við ákvæði 2. mgr. 23. gr. laganna.  Í ljósi þessa sé ekkert óeðlilegt við að málsmeðferð tillagnanna hafi farið fram samhliða enda samrýmist það beinlínis tilgangi og markmiðum ákvæða 2. mgr. 23. gr. laganna. 

Reykjavíkurborg fellst á það með kærendum að láðst hafi að lýsa því yfir á uppdrætti eða í bréfi til Skipulagsstofunar að borgarsjóður bæti það tjón sem einstakir aðilar kunni að verða fyrir við breytinguna.  Slíkri yfirlýsingu hafi verið bætt inn á uppdráttinn enda um augljósa villu að ræða.

Hvað varði athugasemdir kærenda um bílastæðin við Streng þá sé því mótmælt að Reykjavíkurborg hafi ekki verið heimilt að gera þessa breytingu á hinni kynntu tillögu við meðferð málsins, enda hafi þess verið krafist af flestum athugasemdaraðilum málsins, þ.m.t. kærendum.  Sérfræðingar Reykjavíkurborgar hafi metið það svo að umferðaröryggi við Streng væri fullnægjandi með tilliti til aðstæðna.  Ekki hafi verið ástæða til þess að fjalla um bílastæðin í skilmálum enda séu þau sýnd á uppdrættinum.  Fráleitt sé að halda því fram að ákvörðun um þau sé ekki bindandi. 

Andsvör kærenda við málsrökum Reykjavíkurborgar:  Kærendur hafna þeirri fullyrðingu Reykjavíkurborgar að úrskurðarnefndina skorti lagaheimild til að leggja mat á breytinguna á aðalskipulaginu.  Á því sé byggt að það sé of þröng afmörkun á valdsviði nefndarinnar og í andstöðu við tilgang 1. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 um réttaröryggi, að nefndin geti ekki lagt mat á málsmeðferð og ákvarðanir á sveitarstjórnarstigi þótt þær séu síðan afgreiddar embættisafgreiðslu af umhverfisráðuneytinu.  Auk þess sé á því byggt að það sé of þröng afmörkun á valdsviði úrskurðarnefndarinnar að hún geti ekki endurskoðað staðfestingu umhverfisráðherra á aðalskipulagi þar sem við afgreiðslu aðalskipulags í ráðuneyti sé ekki gætt þeirrar vönduðu málsmeðferðar sem kærumeðferð geri ráð fyrir.

Málsrök lóðarhafa:  Í bréfi, dags. 10. desember 2002, lýsa lóðarhafar því að aðkoma viðskiptavina leikskólans er komi akandi sé aðallega frá Streng og þeir sem komi gangandi fari sömu leið, en einnig sé göngustígur við Bleikjukvísl notaður. 

Lóðarhafar greina einnig frá því að þeir hafi óskað eftir því við byggingarfulltrúa að hlið inn á leikskólalóðina verði fært.  Þá sé á lóðarmörkum gert ráð fyrir trjágróðri.

Vettvangsganga:  Úrskurðarnefndin hefur skoðað aðstæður á vettvangi og kom þá í ljós að bílastæði eru við Streng og hlið inn á leikskólalóðina snýr að Streng.  Samkvæmt upplýsingum frá byggingaryfirvöldum hefur verið sótt um leyfi fyrir þeirri staðsetningu en sú umsókn hefur ekki verið tekin til afgreiðslu. 

Niðurstaða:  Kærendur í máli þessu krefjast ógildingar á samþykkt skipulags- og byggingarnefndar um breytingu á aðalskipulagi borgarinnar vegna lóðarinnar nr. 10 við Bleikjukvísl og samhljóða deiliskipulags vegna sömu lóðar.  Hefur úrskurðarnefndin áður skorið úr um hliðstæð álitaefni, sbr. m.a. með úrskurði í máli nr. 22/2003, uppkveðnum hinn 20. nóvember 2003.  Með vísan til þess er það niðurstaða nefndarinnar að aðalskipulagsuppdráttur vegna lóðarinnar nr. 10 við Bleikjukvísl sæti ekki endurskoðun úrskurðarnefndarinnar, þar sem hann er staðfestur af ráðherra sem æðsta handhafa stjórnsýsluvalds.  Samkvæmt framansögðu verður kröfu kærenda um ógildingu samþykktar skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur um breytt aðalskipulag lóðarinnar vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Kærendur halda því fram að borgaryfirvöldum hafi verið óheimilt að grenndarkynna tillögu að breyttu deiliskipulagi lóðarinnar og auglýsa breytingu á aðalskipulagi hennar á sama tíma.  Hvað þetta atriði varðar verður að líta til tilurðar heimildar sveitarfélaga þess efnis að auglýsa samhliða tillögu að aðalskipulagi og tillögu deiliskipulags, sbr. 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Heimild þessi var sett með lögum um breytingu á skipulags- og byggingarlögum nr. 170/2000 og var tilefnið úrskurður úrskurðarnefndarinnar þess efnis að sveitarfélögum væri skylt að ganga frá aðalskipulagsbreytingu að fullu áður en deiliskipulagstillaga væri kynnt.  Í greinargerð með frumvarpi því sem síðar varð að lögum nr. 170/2000 kemur fram að heimildin sé sett í lög svo unnt sé að auglýsa deiliskipulagstillögur, samkvæmt 25. og 26. gr. laganna, samtímis auglýsingu samkvæmt 21. gr. á tillögu að samsvarandi breytingu á aðalskipulagi.  Í lagatexta og lögskýringargögnum er einvörðungu getið um tillögu að breyttu deiliskipulagi sem sé auglýst en í engu getið um tillögu að breyttu deiliskipulagi sem sé grenndarkynnt.  Skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997 og skipulagsreglugerð nr. 400/1998 hafa að geyma ítarleg ákvæði um kynningu skipulagstillagna og samráð við skipulagsgerð.  Þessum ákvæðum er m.a. ætlað að tryggja vandaða málsmeðferð og réttaröryggi.  Heimild sveitarstjórna til að auglýsa tillögu að deiliskipulagi samhliða auglýsingu tillögu að samsvarandi breytingu á aðalskipulagi er undantekning frá þeirri meginreglu að deiliskipulag skuli gert á grundvelli aðalskipulags og hana verður í ljósi framanritaðs að skýra þröngri lögskýringu.  Með vísan til þessa verður ekki talið að sveitarstjórnum sé heimilt að grenndarkynna tillögu að breyttu deiliskipulagi samtímis og auglýst er tillaga að samsvarandi breytingu á aðalskipulagi.

Kærendur halda því fram að deiliskipulagið verði að ógilda með vísan til þess að gildistaka þess og aðalskipulagsbreyting vegna lóðarinnar hafi verið auglýst samtímis.  Fyrir liggur í máli þessu að um er að ræða tvær ákvarðanir sem teknar eru samtímis í skipulags- og byggingarnefnd borgarinnar.  Aðalskipulagsbreytingin hlaut staðfestingu umhverfisráðherra og að henni fenginni birtust báðar samþykktirnar sama daginn í B-deild Stjórnatíðinda. 

Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga skal gera deiliskipulag á grundvelli aðalskipulags og verður við túlkun lagaákvæðis þessa að miða við að um sé að ræða aðalskipulag sem þá þegar hafi öðlast gildi.  Að öðrum kosti grundvallast deiliskipulagið ekki á gildu aðalskipulagi.  Túlkun þessi á sér stoð í greinargerð lagafrumvarps þess er varð að lögum nr. 170/2000, en þar segir að óheimilt verði að auglýsa gildistöku deiliskipulags í Stjórnartíðindum fyrr en auglýst hafi verið gildistaka samsvarandi breytingar á aðalskipulagi.  Verður að telja að heimild 2. mgr. 23. gr. laganna sé undanþáguheimild sem skýra verði þröngt og því uppfylli samtímabirting gildistöku aðal- og deilskipulagsákvarðana ekki skilyrði lagagreinarinnar. 

Í málavaxtalýsingu hér að framan kemur fram að við undirbúning hinar umdeildu deiliskipulagsákvörðunar var kynnt að breytingunni væri ætlað að breyta deiliskipulagi sem tók gildi árið 1982.  Undir rekstri málsins kom í ljós skipulagsuppdráttur frá árinu 1989 af lóð þeirri sem um er deilt í málinu.  Uppdráttur þessi var samþykktur í skipulagsnefnd borgarinnar hinn 5. júní 1989 og í borgarráði hinn 6. sama mánaðar.  Samkvæmt eldra deiliskipulaginu er lóðin ætluð undir dagvistun og er gert ráð fyrir um 420 m² stóru húsi til starfseminnar en samkvæmt yngra deiliskipulaginu er gert ráð fyrir gæsluvelli ásamt 60 m² húsi.  Þá er og á yngri deiliskipulagsuppdrættinum sýnt náttúrulegt holt sem sagt er að ekki megi raska.  Af framangreindu má ráða að verulegur mismunur hafi verið á milli þess deiliskipulags sem í gildi var þegar grenndarkynningin átti sér stað og þess deiliskipulags sem kynningargögn báru með sér að verið væri að breyta.  Þessi ranga kynning gat m.a. haft þær afleiðingar að þeim sem hagmuna áttu að gæta væri ekki gert kleift að koma á framfæri athugasemdum sínum við grenndarkynninguna, byggðum á réttum forsendum.  Telst þessi ágalli á meðferð málsins verulegur.

Með vísan til alls framanritaðs er það niðurstaða úrskurðarnefndar að ógilda beri ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar frá 24. apríl 2002 um deiliskipulag lóðarinnar nr. 10 við Bleikjukvísl.  

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kröfum kærenda um að felld verði úr gildi breyting á aðalskipulagi Reykjavíkurborgar, sem samþykkt var í skipulags- og byggingarnefnd hinn 24. apríl 2002 og staðfest af umhverfisráðherra hinn 12. júní 2002, er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkurborgar frá. 24. apríl 2002 um að samþykkja deiliskipulag vegna lóðarinnar að Bleikjukvísl 10 í Reykjavík er felld úr gildi. 

_____________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________       _____________________________
         Þorsteinn Þorsteinsson                            Ingibjörg Ingvadóttir                        

12/2004 Viðarrimi

Með

Ár 2004, fimmtudaginn 11. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl. formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingar¬verkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 12/2004, kæra eigenda húseignarinnar að Viðarrima 47 í Reykjavík á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 20. janúar 2004 um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 49 við Viðarrima og á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. febrúar 2004 um að veita leyfi til að byggja 87,5 m² einlyfta viðbyggingu úr forsteyptum einingum við norður- og austurhlið einbýlishússins að Viðarrima 49.
 

Í málinu er nú til bráðabirgða kveðinn upp svofelldur

úrskurður
um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 20. febrúar 2004, sem barst nefndinni 23. s.m., kæra H og G, eigendur fasteignarinnar að Viðarrima 47 í Reykjavík, ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 20. janúar 2004 um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 49 við Viðarrima og ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. febrúar 2004 um að veita leyfi til að byggja 87,5 m² einlyfta viðbyggingu úr forsteyptum einingum við norður- og austurhlið einbýlishússins að Viðarrima 49.  Hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúa var staðfest af borgarstjórn Reykjavíkur þann 19. febrúar 2004.

Kærendur krefjast þess að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og að úrskurðarnefndin kveði þegar upp úrskurð til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda við byggingu viðbyggingarinnar.

Úrskurðarnefndin hefur leitað afstöðu byggingarleyfishafa og byggingaryfirvalda í Reykjavík til kærunnar og framkominnar kröfu um stöðvun framkvæmda.  Hafa nefndinni borist andmæli byggingarleyfishafa og greinargerð Reykjavíkurborgar um kæruefnið og er málið nú tekið til úrskurðar um þá kröfu kæranda að framkvæmdir verði stöðvaðar.

Málavextir:  Málavöxtum verður hér aðeins lýst stuttlega að því marki er þurfa þykir við úrlausn um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda. 

Fasteignirnar að Viðarrima 47 og 49 eru á svæði sem byggst hefur upp á grundvelli deiliskipulags sem samþykkt var í borgarráði hinn 4. júní 1991.  Samkvæmt skipulagsskilmálum er gert ráð fyrir fjölbreytni í gerð húsa á svæðinu.  Byggingarreitir setja staðsetningu húsa á lóðum rúmar skorður en nýtingarhlutfall er ekki tilgreint í umræddu skipulagi.  Á lóðum á því svæði við Viðarrima sem hér skiptir máli er gert ráð fyrir einbýlishúsum á einni hæð.  Á þessu svæði ganga stuttar botngötur norður úr Viðarrima og standa fjögur hús við hverja þeirra, en sunnan götunnar er einföld húsaröð.  Húsin á lóðunum nr. 43-53 við Viðarrima (stök númer) voru reist á árunum 1992 til 1994 og er nýtingarhlutfall þeirra lóða á bilinu 0,2 – 0,27.  Er gerð þessara húsa nokkuð breytileg.

Fyrir liggur að við byggingu hússins að Viðarrima 49 hefur norðvesturhorn bílgeymslu verið byggt nokkuð út fyrir byggingarreit á um 3,5 metra bili miðað við framhlið hússins, en ekki er til þess vitað að fram hafi komið athugasemdir af því tilefni á byggingartíma þess.

Á árinu 2002 óskuðu eigendur Viðarrima 49 eftir leyfi til að byggja 87,5 m² einlyfta, steinsteypta viðbyggingu við hús sitt til norðurs, innan þess byggingarreits sem markaður er á lóðinni í gildandi skipulagi svæðisins.  Var það mat byggingarfulltrúa að umrædd viðbygging samræmdist skilyrðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og féllst hann því á að veita umbeðið leyfi á afgreiðslufundi hinn 19. júní 2002.

Framkvæmdir samkvæmt framangreindu leyfi hófust ekki fyrr en tæpu ári eftir útgáfu leyfisins.  Fór úttekt á botni grunns fyrir viðbygginguna fram hinn 16. júní 2003, en með bréfi, dags. 23. sama mánaðar, kærðu kærendur í máli þessu útgáfu umrædds leyfis.  Kváðu kærendur sér hafa verið ókunnugt um tilvist leyfisins fyrr en eftir að framkvæmdir hefðu hafist, enda hefði þeim engin tilkynning borist um útgáfu þess.  Kröfðust þau ógildingar leyfisins, en jafnframt að framkvæmdir við bygginguna yrðu stöðvaðar meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Með úrskurði uppkveðnum hinn 10. júlí 2003 hafnaði úrskurðarnefndin kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða, enda taldi hún að eins og málið lægi þá fyrir yrði hvorki ráðið af málsgögnum að viðbyggingin færi í bága við skipulag eða byggingarreglur né að hún gengi svo gegn hagsmunum kærenda að leitt gæti til ógildingar byggingarleyfisins.

Með bréfi til skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkurborgar, dags. 17. september 2003, kröfðust kærendur þess að framkvæmdir við bygginguna yrðu stöðvaðar þar sem þau töldu að viðbyggingin næði út fyrir byggingarreit, en á þessum tíma var lokið frágangi sökkuls undir útveggi viðbyggingarinnar.  Lét byggingarfulltrúi þegar kanna staðsetningu hennar og kom í ljós við mælingu að hlutar hennar náðu út fyrir byggingarreitinn.  Stöðvaði byggingarfulltrúi framkvæmdir við viðbygginguna þegar er niðurstaða mælingarinnar lá fyrir.

Í framhaldi af stöðvun framkvæmdanna gerðu byggingaryfirvöld frekari úttekt á málinu og leituðu skýringa á því misræmi sem komið hafði fram milli aðaluppdrátta og raunmælingar á staðsetningu viðbyggingarinnar.  Í kjölfar þessarar athugunar óskuðu byggingarleyfishafar eftir því að deiliskipulagi yrði breytt þannig að þegar hönnuð og samþykkt viðbygging yrði innan byggingarreits.  Kom fram í erindi þeirra að forsteyptar einingar sem nota ætti í viðbygginguna hefðu þegar verið steyptar.  Erindi þetta var tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar þann 29. október 2003.  Samþykkti nefndin að grenndarkynnt yrði tillaga að breytingu á deiliskipulagi í samræmi við erindið.

Í kjölfar þessa var unnin tillaga að breytingu deiliskipulagsins sem skipulagsfulltrúi samþykkti að grenndarkynna á fundi sínum þann 28. nóvember 2003. Tillagan var til kynningar frá 2. desember 2003 með athugasemdafresti til 29. desember s.á.  Athugasemdabréf barst frá eigendum þeirra húsa sem kynningin hafði tekið til og lögðust þeir gegn tillögunni.  Tillagan ásamt athugasemdum og umsögn skipulagsfulltrúa um þær, dags. 12. janúar 2004, var lögð fyrir skipulags- og byggingarnefnd þann 14. janúar 2004.  Samþykkti nefndin tillöguna og staðfesti borgarráð þá afgreiðslu á fundi sínum þann 20. janúar 2004.  Var þeim sem gert höfðu athugasemdir tilkynnt um afgreiðslu málsins með bréfi, dags. 21. janúar 2004.  Tillagan var loks send Skipulagsstofnun til lögboðinnar meðferðar.  Gerði stofnunin ekki athugasemdir við að auglýsing um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar yrði birt í B-deild Stjórnartíðinda, en tók fram að deiliskipulag umrædds svæðis væri ekki til í vörslu stofnunarinnar og benti að auki á ákvæði 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar var birt í B-deild Stjórnartíðinda þann 6. febrúar 2004.  Á afgreiðslufundi hinn 10. febrúar 2004 samþykkti byggingarfulltrúi að veita leyfi til þess að breyta byggingaraðferð áður samþykktrar steinsteyptrar viðbyggingar í forsteyptar einingar.

Kærendur vildu ekki una ákvörðunum byggingaryfirvalda og skutu málinu til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 20. febrúar 2004, svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Kærendur benda á að húsið að Viðarrima 49 hafi að hluta verið byggt utan byggingarreits á sínum tíma.  Þar við bætist að hin umdeilda viðbygging hafi einnig reynst vera að hluta utan byggingarreits þegar unnt hafi verið að mæla staðsetningu hennar.  Úr þessum annmörkum hafi byggingaryfirvöld ætlað að bæta með hinni umdeildu skipulagsbreytingu en það hafi þeim ekki verið heimilt þar sem sú ákvörðun stríði gegn 56. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Auk þess hafi ekki verið færð fram haldbær rök fyrir því að skipulagsbreytingin hafi verið réttlætanleg.  Þá hafi verið rangt staðið að framkvæmdum við hina umdeildu viðbyggingu og þær ekki verið í samræmi við byggingarleyfi. 

Kærendur telja sem fyrr að með fyrirhugaðri viðbyggingu og þeim sólpalli sem nú þegar sé á lóðinni verði lóðin ofnýtt.  Búið sé þá að nýta nánast allan byggingarreit hússins og mjög lítið verði eftir af láréttum lóðarfleti.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að hinar kærðu ákvarðanir verið staðfestar og í þessum þætti málsins að hafnað verði kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.  Hafna verði því að 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 eigi við í máli þessu eins og skýra verði ákvæðið með hliðsjón af lögskýringargögnum og tilgangi þess.

Í máli þessu hafi Reykjavíkurborg, að beiðni lóðarhafa, breytt deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 49 við Viðarrima.  Hafi það verið talið í lagi m.t.t. þess að ljóst sé að breytingin hafi lítil sem engin áhrif á grenndarhagsmuni nágranna, þ.m.t. kærenda.  Reykjavíkurborg hafi verið þetta heimilt, enda gert ráð fyrir því í skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 að sveitarstjórnir hafi heimildir til þess að breyta gildandi skipulagsáætlunum, sbr. t.d. 21. og 26. gr. laganna.  Eigendur fasteigna í þéttbýli geti ávallt vænst þess að breytingar verði gerðar á skipulagi sem haft geti í för með sér einhverja skerðingu eða breytingu á hagsmunum þeirra.  Verði þeir almennt að sæta því að með slíkum breytingum geti hagsmunir þeirra í einhverju verið skertir.  Telji aðilar sig hins vegar hafa orðið fyrir tjóni umfram það sem almennt gerist eða þeir hafi mátt búast við eigi þeir bótarétt skv. ákvæðum 33. gr. laganna.  Umfjöllun um bætur falli hins vegar utan valdsviðs úrskurðarnefndarinnar.  Ljóst sé einnig að sú breyting á deiliskipulaginu, að lengja byggingarreitinn um 0,52 m til vesturs (sic), hafi óveruleg áhrif á grenndarhagsmuni kærenda og geti því ekki leitt til ógildingar breytingarinnar.

Í ljósi framangreinds og þess að málsmeðferð hinnar kærðu breytingar hafi verið í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga ítreki Reykjavíkurborg kröfur sínar um staðfestingu hinna kærðu ákvarðana og kröfu um að ekki verði fallist á stöðvun framkvæmda.
 
Andmæli byggingarleyfishafa:
  Af hálfu byggingarleyfishafa er kröfum og sjónarmiðum kærenda mótmælt.  Framkvæmdir þeirra styðjist við gilt byggingarleyfi.  Ákvæði í 56. gr. laga nr. 73/1997 eigi ekki við í þessu tilfelli þar sem það ákvæði eigi við um ólöglegar framkvæmdir, en ekkert ólöglegt hafi verið framkvæmt við hina umdeildu viðbyggingu.  Þá hafi kærendur engin rök fyrir kröfum sínum.  Þeir hafi áður reynt að fá framkvæmdir stöðvaðar en ekki hafi þá verið talin ástæða til að fallast á þá kröfu.  Ekkert hafi breyst í þá veru að önnur niðurstaða ætti að verða nú um þá kröfu.

Byggingarleyfishöfum sé ekki kunnugt um hvaða deiliskipulag kærendur séu að skoða, en vesturgafl húss þeirra standi einungis tvo metra frá lóðarmörkum.  Hús nr. 53 eigi byggingarreit aðeins metra frá lóðarmörkum til austurs, og svo sé um fleiri hús í götunni.

Byggingarleyfishafar taka ennfremur fram að réttindum að Viðarrima 49 hafi verið þinglýst fyrr en að Viðarrima 47, og hafi eldri þinglýsingin forgang.  Því hafi lóðarmörk sem komið hafi fyrr til þinglýsingar forgang fyrir þeim yngri.  Þá hafi hlaðinn grjótgarður sem skilji að lóðir Viðarrima 49 og Viðarrima 47, verið gerður eftir lóðarmörkum samkvæmt teikningum af Viðarrima 49, og hafi hann gilt sem lóðarmörk.  Samkvæmt þeim rökum eigi lóðarmörk samkvæmt teikningum af Viðarrima 49 að gilda.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari röksemdir fyrir sjónarmiðum sínum í málinu.  Hefur úrskurðarnefndin haft þær allar til hliðsjónar við úrlausn þessa þáttar málsins.

Vettvangskönnun:  Úrskurðarnefndin hefur áður kynnt sér aðstæður á vettvangi við meðferð fyrra kærumáls en ekki þóttu efni til nýrrar vettvangsskoðunar að svo stöddu.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið er í máli þessu deilt um lögmæti ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 20. janúar 2004 um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 49 við Viðarrima og ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. febrúar 2004 um að veita leyfi til að byggja 87,5 m² einlyfta viðbyggingu úr forsteyptum einingum við norður- og austurhlið einbýlishússins að Viðarrima 49.  Er m.a. til úrlausnar hvort borgaryfirvöldum hafi verið heimilt að breyta skipulagi umrædds svæðis í því skyni að laga það að framkvæmdum sem í ljós var komið að samræmdust ekki skipulagi.

Í 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er kveðið á um að óheimilt sé að breyta skipulagi svæðis þar sem framkvæmt hafi verið í ósamræmi við skipulag fyrr en hin ólöglega bygging, eða byggingarhluti, hafi verið fjarlægð.  Sá Skipulagsstofnun ástæðu til að vekja athygli borgaryfirvalda á ákvæðum 56. gr. við lögboðna afgreiðslu stofnunarinnar á hinni umdeildu skipulagsákvörðun.

Úrskurðarnefndin telur með hliðsjón af greindu ákvæði og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins að svo mikill vafi leiki á um lögmæti hinna kærðu ákvarðana að rétt sé að fallast á kröfu kærenda um að framkvæmdir við hina umdeildu viðbyggingu verði stöðvaðar meðan mál þetta er til meðferðar fyrir nefndinni.

Úrskurðarorð:

Framkvæmdir, sem hafnar eru við viðbyggingu að Viðarrima 49 í Reykjavík, skulu stöðvaðar meðan kærumál þetta er til meðferðar fyrir nefndinni.

_______________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________      _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                         Ingibjörg Ingvadóttir                   

48/2003 Hafnarbraut

Með

Ár 2004, föstudaginn 5. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 48/2003, kæra eigenda fasteignarinnar að Bjarkarbraut 9, Dalvík, á ákvörðun umhverfisráðs Dalvíkurbyggðar frá 7. maí 2003 um að veita byggingarleyfi fyrir bílskúr og viðbyggingu á lóðinni nr. 18 við Hafnarbraut, Dalvík.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 20. ágúst 2003, sem barst nefndinni hinn 22. sama mánaðar, kærir Hákon Stefánsson hdl., f.h. S og I, Bjarkarbraut 9, Dalvík, þá ákvörðun umhverfisráðs Dalvíkurbyggðar frá 7. maí 2003 að veita byggingarleyfi fyrir bílskúr og viðbyggingu á lóðinni nr. 18 við Hafnarbraut, Dalvík.  Bæjarstjórn Dalvíkurbyggðar staðfesti ákvörðun umhverfisráðs hinn 13. maí 2003.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og umdeildar byggingarframkvæmdir fjarlægðar.

Málavextir:  Lóðin að Hafnarbraut 18 er 880 m² að stærð og á lóðinni stendur 165,3 fermetra einbýlishús úr timbri.  Fasteign kærenda að Bjarkarbraut 9 liggur skáhallt frá norðvesturhorni lóðarinnar að Hafnarbraut 18 og mun vera um 5 metra bil milli lóðamarka umræddra lóða.  Ekki er í gildi deiliskipulag fyrir umrætt svæði.

Í febrúar 2003 var gerð fyrirspurn til byggingarfulltrúa sveitarfélagsins um hvort heimilaðar yrðu byggingarframkvæmdir á lóðinni er fælust í að reisa 36,14 fermetra bílskúr og viðtengt 37,5 fermetra íbúðarrými auk 37,5 fermetra kjallararýmis eða samtals 111,14 fermetra.  Var umsækjanda tjáð að umsóknina þyrfti væntanlega að grenndarkynna en bent á að komast mætti hjá formlegri grenndarkynningu ef fyrir lægju yfirlýsingar nágranna um að þeir gerðu ekki athugasemdir við fyrirhugðar framkvæmdir.

Fyrirspurnin var tekin fyrir á fundi umhverfisráðs Dalvíkurbyggðar hinn 2. apríl 2003 þar sem lágu frammi teikningar af fyrirhugaðri byggingu, dags. 14. mars 2003, ásamt yfirlýsingu eigenda Bjarkarbrautar 11 og Hafnarbrautar 16 um að þeir gerðu ekki athugasemdir við hana.  Bókað var á fundinum að umhverfisráð gerði ekki athugasemdir við fyrirhugaðar framkvæmdir og samþykkti bæjarstjórn þá afgreiðslu nefndarinnar hinn 15. sama mánaðar.  Í kjölfar þess mun byggingarfulltrúi hafa heimilað framkvæmdir við gröft á lóðinni til undirbúnings byggingarframkvæmdum og þær þá þegar hafist.

Með bréfi, dags. 2. maí 2003, gerði lögmaður kærenda fyrirspurn til umhverfisráðs bæjarins í tilefni af framkvæmdunum og mun formaður umhverfisráðs hafa átt fund með öðrum kærenda vegna framkvæmdanna hinn 7. maí 2003, eða sama dag og umhverfisráð samþykkti umdeilt byggingarleyfi.  Bæjarstjórn staðfesti þá afgreiðslu hinn 13. maí 2003.  Lögmaður kærenda ítrekaði fyrirspurn sína frá 2. maí 2003 með tölvupósti, dags. 5. júní 2003, sem formaður umhverfisráðs svaraði með sama hætti hinn 6. júní það ár.  Í svarinu kom fram að álitið hafi verið að málið væri úr sögunni af hálfu kærenda og fyrrgreind fyrirspurn hafi því ekki verið tekin fyrir.  Jafnframt var lofað svari af hálfu bæjaryfirvalda við fyrirspurn lögmanns kærenda.  Kærandi ítrekaði enn fyrirspurn sína vegna framkvæmdanna með bréfi, dags. 25. júní 2003, og var erindi hans svarað með bréfi, dags. 27. júní s.á.  Kærendur skutu síðan málinu til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 20. ágúst 2003, svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Kærendur kveðast hafa haft samband við bæjaryfirvöld er framkvæmdir hófust á lóðinni að Hafnarbraut 18, Dalvík og leitað skýringa bæjarins á þeim framkvæmdum.  Bréf hafi verið sent af því tilefni hinn 2. maí 2003 og aftur hinn 25. júní s.á. þar sem svör hefðu ekki borist.  Upplýsingar um umdeildar framkvæmdir hafi fyrst borist með bréfi hinn 27. júní 2003, sem þó hafi ekki haft að geyma fullnægjandi svör við erindi kærenda.  Í bréfinu hafi komið fram að byggingarleyfi hafi verið veitt fyrir umdeildum framkvæmdum að fengnu samþykki eigenda fasteignanna að Bjarkarbraut 11 og Hafnarbraut 16 en ekki hafi þótt ástæða til að kynna kærendum fyrirhugaða framkvæmd þar sem lóðirnar liggi ekki saman og að aðkoma að lóðunum sé úr gangstæðri átt.  Telja kærendur að sömu rök eigi við um lóðina að Bjarkarbraut 11. 

Kærendur geti ekki fallist á svör bæjaryfirvalda og ófullnægjandi útskýringar á umræddum byggingarframkvæmdum og telja að ekki hafi verið gætt ákvæða skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 við útgáfu byggingarleyfisins.  Grenndarkynning hafi ekki farið fram svo sem lögskylt hafi verið skv. 7. mgr. 43. gr. laganna og komi samþykki tveggja nágranna ekki í hennar stað.  Kærendur eigi hagsmuna að gæta í málinu og nægi að benda á að umdeild framkvæmd skerði útsýni frá húsi þeirra.  Þrátt fyrir skort á fullnægjandi gögnum um aðra þætti leyfisveitingarinnar telji kærendur að nýtingarhlutfall lóðarinnar að Hafnarbraut 18 fari yfir leyfileg mörk með veitingu hins umdeilda byggingarleyfis og við útgáfu þess hafi ekki legið fyrir nauðsynleg gögn.  Bent sé á að framkvæmdir hafi byrjað áður en byggingarleyfi hafi verið gefið út og það látið afskiptalaust af byggingaryfirvöldum.

Af greindum ástæðum beri að fella hið kærða byggingarleyfi úr gildi og jafnframt beri að fjarlægja hina ólöglegu byggingu skv. VI. kafla skipulags- og byggingarlaga.

Kærendur skírskota til þess að kærufrestur hafi ekki verið liðinn er kæra hafi borist úrskurðarnefndinni.  Svarbréf bæjaryfirvalda við fyrirspurn lögmanns kærenda vegna byggingarleyfisins virðist að vísu hafa borist á starfsstöð hans hinn 7. júlí 2003 en vegna fjarveru í feðraorlofi hafi honum ekki borist svarið fyrr en hinn 18. ágúst 2003.  Beri því að miða upphaf kærufrests við þann dag, þegar kærendum varð fyrst kunnugt um hina umdeildu ákvörðun umhverfisráðs Dalvíkurbyggðar, en kærendum hafi ekki enn verið tilkynnt um afgreiðslu bæjarstjórnar á hinu kærða byggingarleyfi.

Málsrök Dalvíkurbyggðar:  Lögmaður bæjaryfirvalda gerir aðallega þá kröfu, fyrir hönd bæjarins, að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni sem of seint fram kominni með vísan til 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 621/1997 um úrskurðarnefndina, en ella að kröfu um ógildingu umdeilds byggingarleyfis og kröfu um niðurrif framkvæmda verði hafnað.

Með minnispunktum byggingarfulltrúa Dalvíkurbyggðar, dags. 14. október 2003, og tölvupóstssamskiptum formanns umhverfisráðs og lögmanns kærenda í maí og júní 2003 sé í ljós leitt að kærendur fengu upplýsingar um afgreiðslu umhverfisráðs á byggingarleyfisumsókninni hinn 8. maí 2003, eða daginn eftir að hún var samþykkt í ráðinu.  Í síðasta lagi hafi kærendum verið kunnugt um afgreiðslu erindisins við móttöku bréfs Dalvíkurbæjar til lögmanns kærenda, dags. 27. júní 2003.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. reglugerðar um úrskurðarnefndina sé kærufrestur á veitingu byggingarleyfa 30 dagar frá því kæranda var kunnugt um þá samþykkt sem hann hyggst kæra.  Kærubréfið til úrskurðarnefndarinnar sé dagsett 20. ágúst 2003, eða að loknum kærufresti, hvort heldur sem miðað sé við 8. maí eða 27. júní 2003.  Ekki sé byggjandi á staðhæfingu lögmanns kæranda, sem fram komi í niðurlagi kærubréfsins, þess efnis að hann hafi fyrst fengið vitneskju um efni þess hinn 18. ágúst 2003.  Beri því að vísa kærunni frá úrskurðarnefndinni.

Um efnishlið máls vísa bæjaryfirvöld til þess að kærendur hafi ekki fært fram fullnægjandi rök fyrir ógildingar- og niðurrifskröfu sinni.  Samkvæmt fyrrgreindum minnispunktum byggingarfulltrúa hafi umsækjanda byggingarleyfisins verið gerð grein fyrir því í febrúar 2003 að hinar fyrirhuguðu byggingarframkvæmdir þyrfti trúlega að grenndarkynna og tæki það sinn tíma, en unnt væri að flýta afgreiðslu málsins ef samþykki nágranna lægi fyrr og gæti umhverfisráð litið svo á að slíkt samþykki væri ígildi grenndarkynningar.  Hafi umsækjanda og verið bent að það að umhverfisráð liti oftast þannig á að næstu nágrannar væru þeir sem ættu lóðir saman.

Í 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga sé heimilað að stytta tímabil grenndarkynningar ef þeir sem hagsmuna eiga að gæta hafa lýst skriflega yfir því með áritun á uppdrátt að þeir geri ekki athugasemdir við fyrirhugaða framkvæmd.  Með ákvæðinu sé því lögfest heimild til að afla skriflegra yfirlýsinga þeirra nágranna, sem hagsmuna eigi að gæta, um að þeir geri ekki athugasemdir við fyrirhugaðar framkvæmdir.  Heimildin verði ekki skilin á annan veg en þann að slíkar yfirlýsingar séu ígildi grenndarkynningar, sem raunar sé ekki skilgreind í lögunum sérstaklega, svo sem gert sé við flest hugtök skipulags- og byggingarlaga í 2. grein laganna.

Samkvæmt þessum skilningi hafi farið fram lögboðin kynning á hinum fyrirhuguðu byggingarframkvæmdum.  Um það megi deila hvort kynningin hafi verið nægilega víðtæk, þ.e. hvort hún hafi tekið til allra þeirra, sem hagsmuna áttu að gæta í skilningi ákvæðisins.  Við mat á því sé óhjákvæmilegt að líta til viðhorfa umhverfisráðs og bæjarstjórnar í þeim efnum og ennfremur þeirrar staðreyndar, að engir húseigendur aðrir en kærendur á umræddum byggingarreit (Hafnarbraut 2-14 og Bjarkarbraut 1-9) hafi gert athugasemdir eða haft í frammi mótmæli við umræddri byggingu á lóðinni Hafnarbraut 18.

Staðhæfing kærenda um of hátt nýtingarhlutfall á umræddri lóð eigi ekki við rök að styðjast.  Leyfilegt nýtingarhlutfall lóðar skv. gildandi aðalskipulagi sé 0,35.  Nýtingarhlutfall lóðarinnar að Hafnarbraut 18 eftir veitingu hins umdeilda byggingarleyfis sé 0,314.

Ekki sé fallist á að ófullnægjandi gögn hafi búið að baki veitingu byggingarleyfisins.  Eins og áður hafi verið frá greint haf umhverfisráð talið að fullnægjandi grenndarkynning fyrir hagsmunaaðilum hafi átt sér stað áður en byggingarleyfi hafi verið veitt og vegna ummæla kærenda þess efnis að framkvæmdir hafi byrjað áður en byggingarleyfi hafi verið gefið út sé rétt að taka fram að gröftur á lóð hafi verið heimilaður fyrir útgáfu leyfisins með stoð í 2. mgr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga, í framhaldi af samþykkt bæjarstjórnar þann 15. apríl 2003.  Sé slíkt leyfi algengur framgangsmáti slíkra mála.

Að lokum sé vakin athygli á því að aðild að kröfugerð um niðurrif skv. VI. kafla skipulags- og byggingarlaga sé einvörðungu í höndum skipulags- og/eða byggingarfulltrúa viðkomandi bæjarfélags.  Hér sé um að ræða þvingunarúrræði sem byggingaryfirvöldum sé heimilt að beita með þeim skilyrðum að sýnt sé með óyggjandi hætti fram á að viðkomandi framkvæmd brjóti í bága við gildandi skipulag eða hún hafin eða framkvæmd án leyfis viðkomandi byggingaryfirvalda.  Eigi kærendur enga aðild að slíkri kröfu.

Niðurstaða:  Samkvæmt því sem fram er komið í málinu hófust framkvæmdir á lóðinni nr. 18 við Hafnarbraut á Dalvík í aprílmánuði 2003 og sendu kærendur af því tilefni bréf, dags. 2. maí það ár, til umhverfisráðs bæjarins með fyrirspurnum af því tilefni.  Fundur mun hafa verið haldinn af hálfu formanns umhverfisráðs með öðrum kærenda hinn 7. maí 2003 vegna málsins og endanlegt svar við fyrirspurnum lögmanns kærenda gefið í bréfi, dags. 27. júní s.á., er að sögn hans barst hinn 7. júlí.  Efni þess bréfs hafi ekki komist til vitundar hans fyrr en hinn 18. ágúst s.á.

Kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar vegna ákvarðana byggingarnefnda og sveitarstjórna er einn mánuður frá því að þeim, er telur rétti sínum hallað með þeirri ákvörðun, er kunnugt um hana.  Kærendur og lögmaður þeirra höfðu samskipti við bæjaryfirvöld vegna umdeildra framkvæmda frá maíbyrjun 2003 eða skömmu eftir að þær hófust og var fyrirspurnum kærenda um málsmeðferð og forsendur umdeilds byggingarleyfis svarað með bréfi, dags. 27. júní s.á., eins og áður greinir.  Af þessum málsatvikum verður ráðið að kærendum hlaut að hafa verið ljós veiting hins umdeilda byggingarleyfis skömmu eftir að framkvæmdir hófust og í öllu falli í kjölfar svarbréfs bæjaryfirvalda við fyrirspurnum lögmanns þeirra er barst starfsstöð hans hinn 7. júlí 2003.  Enda þótt innihald bréfsins hafi eigi komist til vitundar kærenda fyrr en nokkru seinna þykir hér verða að miða við að kærufrestur hafi byrjað að líða á fyrrgreindum móttökudegi bréfsins, sbr. meginreglu 2. málsl. 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt því sem rakið hefur verið barst kæra í máli þessu að liðnum kærufresti og ber því skv. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga að vísa henni frá úrskurðarnefndinni.  Ekki þykja þær ástæður vera fyrir hendi í máli þessu að tilefni sé til að víkja frá kærufresti skv. 1. og 2. tl. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________            _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Ingibjörg Ingvadóttir

61/2002 Trönuhraun

Með

Ár 2004, föstudaginn 5. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 61/2002, kæra framkvæmdastjóra Billjardstofu Hafnarfjarðar á ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 10. september 2002 um að synja umsókn hans um undanþágu frá kröfu um aðgengi fatlaðra að Trönuhrauni 10, Hafnarfirði. 

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. október 2002, er barst nefndinni hinn 18. sama mánaðar, kærir S, framkvæmdastjóri Billjardstofu Hafnarfjarðar, þá ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar hinn 10. september 2002 að synja umsókn hans um undanþágu frá kröfu um aðgengi fatlaðra að Trönuhrauni 10, Hafnarfirði. 

Ákvörðun skipulags- og byggingarráðs var staðfest á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar hinn 17. september 2002. 

Málsatvik:  Á fundi skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar hinn 10. september 2002 var tekið fyrir erindi kæranda þar sem hann óskaði eftir undanþágu vegna aðgengi fatlaðra að Billjardstofu Hafnarfjarðar, Trönuhrauni 10, annari hæð.  Skipulags- og byggingarráð afgreiddi erindið með eftirfarandi hætti:  „Ákvæði byggingarreglugerðar eru lágmarksákvæði og er skipulags- og byggingarráði ekki heimilt að víkja frá þeim.  Að framansögðu getur skipulags- og byggingarráð ekki orðið við erindinu.  “

Undanfari umsóknar kæranda um undanþágu frá ákvæði byggingarreglugerðar um aðgengis fatlaðra að billjardstofunni var að hann óskaði eftir vínveitingaleyfi en var synjað vegna skorts á aðgengi fatlaðra að staðnum sem staðsettur er á annari hæð hússins. 

Kærandi vildi ekki una málalokum þessum og skaut málinu til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála eins og áður segir. 

Málsástæður kæranda:  Kærandi bendir á að fatlaðir einstaklingar, sem ekki séu í hjólastól, hafi sótt staðinn en þeir einstaklingar sem vegna fötlunar sinnar þurfi að vera í hljóastól eigi erfitt með að spila snóker vegna stærðar borðsins sem spilað sé við. 

Kærandi bendir og á þá staðreynd að hús það sem hér um ræðir sé komið til ára sinna og við byggingu þess hafi ekki verið gert ráð fyrir aðgengi fatlaðra í hjólastólum og ekki sé fyrir hendi sá möguleiki að setja lyftu í húsnæðið. 

Niðurstaða:  Úrskurðarnefndin kallaði eftir afstöðu Hafnarfjarðarbæjar til kærunnar með bréfi, dags. 7. nóvember 2002.  Byggingarfulltrúi upplýsti úrskurðarnefndina ítrekað um að til stæði að endurskoða fyrri afstöðu byggingaryfirvalda í málinu.  Það var þó ekki fyrr en hinn 9. september 2003 sem skipulags- og byggingarráð tók umsókn kæranda frá 27. ágúst 2002 fyrir að nýju og samþykkti að verða við henni með tilvísun í gr. 12.8 byggingarreglugerðar nr. 441/1998. 

Í síðastgreindri ákvörðun fólst að skipulags- og byggingarráð dró til baka hina kærðu ákvörðun og tók nýja í hennar stað þar sem fallist var á umsókn kæranda.

Í ljósi breyttra aðstæðna á kærandi ekki lögvarða hagsmun af því að fá skorið úr um lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar og verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna anna hjá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

_____________________
Ásgeir Magnússon

_______________________       _____________________
   Þorsteinn Þorsteinsson               Ingibjörg Ingvadóttir

14/2003 Ásland

Með

Ár 2004, fimmtudaginn 19. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 24, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 14/2003, kæra eiganda byggingarlóðar að Áslandi 24 í Mosfellsbæ á ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 18. desember 2002 um að breyta lóðinni að Áslandi nr. 22 úr einbýlishúsalóð í parhúsalóð.

Í málinu er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 4. mars 2003, er barst nefndinni hinn 7. sama mánaðar, kærir I ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 18. desember 2002 um að breyta lóðinni að Áslandi nr. 22 úr einbýlishúsalóð í parhúsalóð.

Skilja verður málatilbúnað kæranda á þann veg að hann krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 8. apríl 2003, sem barst nefndinni 16. sama mánaðar, áréttar kærandi að kæra hans hafi einnig átt að taka til byggingarleyfis fyrir húsi á lóðinni og að hann geri kröfu til að engar framkvæmdir fari fram á lóðinni Áslandi 22 meðan úrskurðarnefndin fjalli um kæruna.

Málavextir:   Hinn 8. október 2002 sótti eigandi lóðarinnar að Áslandi 22 í Mosfellsbæ um leyfi skipulags- og bygginganefndar Mosfellsbæjar til að byggja parhús á lóðinni.  Umrædd lóð er í íbúðarhverfi þar sem í gildi eru skipulags- og byggingarskilmálar frá maí 1982 sem gera ráð fyrir að á svæðinu rísi einbýlishús.  Þó er kveðið á um það í skilmálum að tvær íbúðir megi vera í húsum þar sem aðstæður leyfi.  Skipulags- og byggingarnefnd ákvað á fundi sínum sama dag að láta fara fram grenndarkynningu á erindinu, enda fólst í því að vikið yrði frá skipulagsskilmálum um húsgerð.  Grenndarkynning stóð yfir frá 15. október til 18. nóvember 2002.  Bárust athugasemdir frá tveimur aðilum, þar af önnur frá kæranda í máli þessu með símbréfi, dags. 18. nóvember 2002.  Taldi hann fyrirhugað hús m.a. ekki samræmast kröfum um húsgerð á svæðinu, skipting lóðar og fyrirkomulag húss væri í andstöðu við skipulagsskilmála, nýtingarhlutfall væri of hátt og húsið færi út fyrir byggingarreit.  Athugasemdum þessum var svarað en af málsgögnum verður jafnframt ráðið að nýtingarhlutfall hafi verið lækkað vegna athugasemda kæranda.  Málið var tekið til umfjöllunar á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 3. desember 2002 og afstaða nefndarinnar til framkominna athugasemda færð til bókar.  Lagði nefndin til við bæjarstjórn að samþykkt yrði að breyta lóðinni úr einbýlishúsalóð í parhúsalóð „..í samræmi við 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga.“  Tillögu þessa samþykkti bæjarstjórn Mosfellsbæjar á fundi sínum hinn 18. desember 2002 og er það sú samþykkt sem upphaflega var vísað  til úrskurðarnefndarinnar svo sem áður er rakið.

Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 19. desember 2002, var kæranda greint frá afstöðu skipulags- og byggingarnefndar til framkominna athugasemda og ákvörðun bæjarstjórnar í málinu.  Var honum, í niðurlagi bréfsins, gerð grein fyrir því að ákvörðuninni væri hægt að skjóta til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála og að kærufrestur væri einn mánuður.

Hinn 24. desember 2002 gaf byggingarfulltrúinn í Mosfellsbæ út byggingarleyfi fyrir umræddu parhúsi.  Var bókun byggingarfulltrúa um afgreiðslu málsins lögð fram í skipulags- og byggingarnefnd hinn 21. janúar 2003 og staðfest í bæjarstjórn 29. sama mánaðar.  Var kæranda tilkynnt um þessa afgreiðslu með bréfi, dags. 4. febrúar 2003, og bent á að ákvörðunina mætti kæra til úrskurðarnefndarinnar innan eins mánaðar.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 4. mars 2003, sem barst hinn 7. sama mánaðar, kærði kærandi „…samþykki skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar að breyta lóðinni Ásland 22 úr einbýlishússlóð í parhússlóð, sem samþykkt var af bæjarstjórn 18. 12. 2002.“

Hinn 16. apríl 2003 barst úrskurðarnefndinni bréf kæranda, dags. 8. apríl 2003, þar sem hann áréttar að kæra hans frá 4. mars 2003 hafi einnig átt að taka til byggingarleyfisins og að gerð væri krafa til þess að engar framkvæmdir færu fram meðan úrskurðarnefndin fjallaði um kæruna.  Kveðst kærandi í bréfi þessu ekki hafa fengið bréf byggingarfulltrúa frá 19. desember 2002 fyrr en 13. janúar 2003 og að áður en hann hafi sent kæru sína hafi honum borist bréf byggingarfulltrúa, dags. 4. febrúar 2003.  Hafi hann skilið það svo að kærufrestur hefði verið lengdur til 4. mars 2003.

Málsrök kæranda:  Málsrök kæranda koma einkum fram í athugasemdabréfi hans dags. 18. nóvember 2002.  Kveðst hann hafa keypt lóð sína að Áslandi 24 beinlínis sem lóð undir einbýlishús í einbýlishúsahverfi samkvæmt samþykktum skipulags- og byggingarskilmálum.  Þótt tvær íbúðir geti verið í einbýlishúsi undir sömu eign sé það ekkert sambærilegt við parhús með skiptingu lóðar, gjörólíkt að útliti og svip, tilheyrandi umferð og umgengni, kaupum og sölum.  Þá sé nýtingarhlutfall of hátt og húsið fari út fyrir byggingarreit.  Óréttmætt sé að vísa til þess að parhús hafi verið leyft að Áslandi 20, enda séu aðstæður þar aðrar, en sú lóð sé innst í botnlanga og nýtingarhlutfall allt annað.
Í niðurlagi athugasemdabréfs kæranda segir m.a:  „Vægt til orða tekið á þetta hús ekkert heima á þessum stað.  Þessir menn eiga ekki að vera að kássast upp á fólk í þessu hverfi, það er nóg til af stöðum fyrir þessa húsagerð.“

Málsrök bæjaryfirvalda í Mosfellsbæ:  Úrskurðarnefndinni hafa borist gögn málsins frá byggingarfulltrúanum í Mosfellsbæ.  Telur hann að rétt hafi verið staðið að undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar og að tillit hafi verið tekið til athugasemda kæranda.  Honum hafi verið tilkynnt um ákvarðanir í málinu með venjubundnum hætti.

Málsrök byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er á það bent að grenndarkynning hafi farið fram eins og lög standi til og hafi íbúar við götuna ekki mómælt fyrirhugaðri byggingu.  Einu efnislegu mótmælin hafi komið frá kæranda, sem búi úti á landi.  Við byggingu hússins séu ákvæði um hæðarkóta og nýtingarhlutfall virt og séu athugasemdir kæranda um þau atriði ekki á rökum reistar.

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari röksemdir fyrir kröfum sínum og sjónarmiðum í málinu.  Verða þær ekki raktar hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þær allar til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða:  Samkvæmt 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 getur hver sá er telur rétti sínum hallað með ákvörðun byggingarnefndar eða sveitarstjórnar skotið málinu til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála innan mánaðar frá því honum varð kunnugt um hina kærðu ákvörðun.  Liggur fyrir að kæranda hafði borist bréf byggingarfulltrúa, dags. 19. desember 2002, eigi síðar en hinn 13. janúar 2003.  Var kærufrestur vegna þeirrar ákvörðunar sem honum var kynnt í umræddu bréfi því til 13. febrúar 2003.

Með kæru sinni til úrskurðarnefndarinnar hinn 4. mars 2003 kærði kærandi framangreinda ákvörðun og gerði í kærunni með skýrum hætti grein fyrir því um hvaða ákvörðun væri að ræða.  Var kærufrestur vegna hennar þá liðinn og mátti kæranda vera það ljóst, enda var í framangreindu bréfi byggingarfulltrúa gerð grein fyrir kæruheimild, kærufresti og kærustjórnvaldi.

Með bréfi sem úrskurðarnefndinni barst hinn 16. apríl 2003 kom kærandi því fyrst á framfæri að fyrir honum hafi vakað að kæra hans tæki einnig til ákvörðunar byggingarfulltrúa um útgáfu byggingarleyfis sem kæranda hafði verið tilkynnt um með bréfi, dags. 4. febrúar 2003.  Kveðst kærandi hafa skilið málið svo að með síðastnefndu bréfi hefði kærufrestur verið framlengur til 4. mars 2003.

Úrskurðarnefndin fellst ekki á framangreind sjónarmið kæranda.  Með bréfi byggingarfulltrúa hinn 4. febrúar 2003 var kæranda kynnt ný ákvörðun sem ekki verður séð að hann hafi kært fyrr en með bréfi sínu hinn 8. apríl 2003, sem úrskurðarnefndinni barst hinn 16. sama mánaðar.  Var kærufrestur vegna þeirrar ákvörðunar því liðinn.

Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti.  Víkja má frá þeirri reglu ef afsakanlegt verður talið að kæra hafi ekki borist fyrr eða ef veigamiklar ástæður mæla með því að hún verði tekin til meðferðar.  Verður hvorki talið að kærandi hafi sýnt fram á að afsakanlegt sé að kæra hans barst svo seint sem raun ber vitni né að veigamiklar ástæður mæli með því að hún verði tekin til meðferðar.  Væri það og andstætt hagsmunum byggingarleyfishafa, enda mátti hann með réttu ætlast til að hagsmunaaðilar tækju ákvörðun um það innan lögboðins frest hvort þeir ætluðu að neyta kæruréttar.

Með hliðsjón af framansögðu ber að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni og koma efnisatriði þess því ekki til úrlausnar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils málafjölda og anna hjá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

________________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________        _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                   Ingibjörg Ingvadóttir