Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

90/2005 Lónsbraut

Ár 2006, fimmtudaginn 9. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingar¬verkfræðingur og Ásgeir Magnússon héraðsdómari.

Fyrir var tekið mál nr. 90/2005, kæra á ákvörðunum skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar 3. nóvember 2004, 8. desember 2004 og 10. ágúst 2005 og ákvörðunum skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 7. mars 2005 og 15. apríl 2005 um að veita byggingarleyfi fyrir endurbyggingu og breytingum á bátaskýlum á lóðunum nr. 52, 54, 60, 64 og 68 við Lónsbraut í Hafnarfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 15. nóvember 2005, er barst nefndinni hinn 16. sama mánaðar, kærir E, eigandi bátaskýlis nr. 58 við Lónsbraut, Hafnarfirði, ákvarðanir skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 3. nóvember 2004, 8. desember 2004 og 10. ágúst 2005 og ákvarðanir skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 7. mars 2005 og 15. apríl 2005 um að veita byggingarleyfi fyrir endurbyggingu og breytingum á bátaskýlum á lóðunum nr. 52, 54, 60, 64 og 68 við Lónsbraut í Hafnarfirði.

Kærandi gerir þá kröfu að hin kærðu byggingarleyfi verði felld úr gildi og hefur jafnframt krafist bráðabirgðaúrskurðar um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinum kærðu byggingarleyfum þar til niðurstaða liggi fyrir í kærumálinu.  Þar sem málsatvik liggja nægjanlega ljós fyrir verður málið nú tekið til endanlegrar úrlausnar.

Málsatvik og rök:  Í gildi er deiliskipulag fyrir suðurhöfn Hafnarfjarðar frá árinu 2000 er tekur til umrædds svæðis.  Í skilmálum deiliskipulagsins kemur m.a. fram að hæðir bátaskýla við Lónsbraut skuli taka mið af hæð nýjustu skýlanna sem standi austast á svæðinu og að heimilt sé að hækka sökkla þeirra skýla sem lægst standa um allt að 1,5 metra vegna sjávarhæðar.

Kærandi styður kröfu sína þeim rökum að búið sé að hækka sökkla umdeildra bygginga verulega og stefni í að mænishæð þeirra verði allt að 2,5 – 3,0 metrum hærri en skýli kæranda og séu þau í engu samræmi við hæðir annarra skýla á svæðinu og gildandi deiliskipulag.  Kærandi hafi átt í vandræðum vegna aur- og vatnsflæðis að skýli sínu, sem hann hefði vænst að úr rættist þegar Lónsbrautin yrði hönnuð og lögð lægra en nú sé með hliðsjón af ákvarðaðri hæð bátaskýlanna í gildandi skipulagi.  Umræddar byggingar skemmi heildarsvip svæðisins vegna hæðar sinnar en auk þess sé þakhalli skýlisins að Lónsbraut 52 í engu samræmi við þakhalla annarra skýla.

Bæjaryfirvöld benda á að eigendur sumra bátaskýla á svæðinu hafi nýtt sér heimild í skipulagsskilmálum um að hækka gólf skýlanna um 1,5 metra og hafi skýlunum þá verið lyft til að gæta samræmis í þakhalla annarra skýla fremur en að taka mið af skýlum austast á svæðinu.  Á gildandi mæliblaði fyrir umrætt svæði sé gólkóti, (GK á mæliblaðinu), greindur á einum stað 3,9 metrar sem gildi fyrir öll skýlin og sé kótinn miðaður við að gólf skýlanna sé yfir stórstreymi.  Breyting á umræddu skipulagi sé í vinnslu þar sem skýrar sé kveðið á um gólfkóta og mænishæð umræddra skýla til þess að taka af allan vafa en ekki sé áformuð gatnagerð á svæðinu að svo komnu.

Niðurstaða:  Hin kærðu byggingarleyfi voru annars vegar afgreidd af embætti skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar og hins vegar af skipulags- og byggingarráði bæjarins á tímabilinu nóvember 2004 til ágúst 2005, en ekki liggur fyrir að umdeildar afgreiðslur hafi verið staðfestar í bæjarstjórn Hafnarfjarðar.

Samkvæmt ákvæðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skal sveitarstjórn afgreiða byggingarleyfisumsóknir, sbr. t.d. 2. mgr. 38. gr., 2. mgr. 39. gr. og 1. mgr. 43. gr. laganna.  Sveitarstjórnum er heimilt skv. 4. mgr. 40. gr. að víkja frá ákvæðum laganna um meðferð umsókna um byggingarleyfi með sérstakri samþykkt sem staðfest skal af ráðherra.

Af bókunum afgreiðslufunda skipulags- og byggingarfulltrúa, þar sem ákvarðanir voru teknar um hin kærðu byggingarleyfi, má ráða að afgreiðslumátinn byggi á heimild í samþykkt bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 4. maí 2004 um embættisafgreiðslur skipulags- og byggingarfulltrúa. 

Í ljós er leitt að umrædd samþykkt hefur ekki hlotið staðfestingu ráðherra og er því ekki viðhlítandi heimild til þess að víkja frá fyrrgreindum ákvæðum skipulags- og byggingarlaga um afgreiðslu sveitarstjórnar á byggingarleyfum.  Þá liggur ekki fyrir samþykkt, staðfest af ráðherra, sem heimilar skipulags- og byggingarráði Hafnarfjarðar lokaafgreiðslu byggingarleyfisumsókna á umræddum tíma.

Af þessum ástæðum hafa hin kærðu byggingarleyfi ekki hlotið lögboðna meðferð samkvæmt skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 þar sem á skortir að bæjarstjórn Hafnarfjarðar hafi staðfest umdeild leyfi og verður því að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni með skírskotun til 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem lokaákvörðun hefur ekki verið tekin um veitingu byggingarleyfanna.

Vegna kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda þykir rétt að taka fram að það er á verksviði byggingaryfirvalda bæjarins að gæta þess að ekki sé ráðist í byggingarleyfisskyldar framkvæmdir eða þeim fram haldið án gilds byggingarleyfis, sbr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_____________________________                  ____________________________  
Þorsteinn Þorsteinsson                                          Ásgeir Magnússon