Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

5/2005 Kirkjuteigur

Ár 2006, fimmtudaginn 9. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ásgeir Magnússon héraðsdómari.

Fyrir var tekið mál nr. 5/2005, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. desember 2004 um að hafna kröfu sameigenda að fasteigninni Kirkjuteigi 25 um að gróðurskáli á nefndri lóð verði fjarlægður.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. janúar 2005, er barst nefndinni hinn 13. sama mánaðar, kærir H, íbúðareigandi að Kirkjuteigi 25, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. desember 2004 að synja kröfu sameigenda lóðarinnar að Kirkjuteigi 25 um niðurrif gróðurskála á lóðinni sem er í eigu eins eiganda fasteignarinnar.

Skilja verður erindi kæranda svo að krafist sé ógildingar á hinni kærðu ákvörðun.

Málavextir:  Á lóðinni að Kirkjuteigi 25 í Reykjavík stendur fjölbýlishús og er lóðin í óskiptri sameign íbúðareigenda.  Í norðausturhorni lóðarinnar stendur gróðurskáli í eigu eins íbúðareiganda.  Ekki liggja fyrir upplýsingar um hvenær skálinn var reistur, en það mun þó hafa gerst fyrir a.m.k. 15 til 20 árum og án þess að samþykkis byggingaryfirvalda hafi verið leitað fyrir byggingunni.

Við kynningu á deiliskipulagstillögu fyrir Teigahverfi í janúar 2002 mótmæltu eigendur íbúða að Kirkjuteigi 25 því, að undanskildum einum íbúa, að í fyrirhuguðu deiliskipulagi hverfisins væri gert ráð fyrir staðfestingu á breyttri hagnýtingu lóðar með því að gera ráð fyrir garðhýsi á sameiginlegri lóð hússins.  Var þess jafnframt krafist að embætti byggingarfulltrúa hlutaðist til um að garðhýsið sem fyrir var yrði rifið.  Í kjölfarið var byggingarreitur fyrir garðhýsið að lóðinni nr. 25 við Kirkjuteig fjarlægt úr deiliskipulagstillögunni auk sambærilegra byggingarreita á öðrum lóðum á skipulagsreitnum.

Með bréfi, dags. 20. maí 2003, var eiganda gróðurskálans á umræddri lóð tilkynnt að frístandandi garðskálar yrðu leyfðir með samþykki allra eigenda svo og lóðarhafa aðliggjandi lóða, en þar sem eigendur íbúða að Kirkjuteigi 25 hefðu margítrekað kröfu um að garðhýsið yrði rifið, væri eigenda þess veittur 30 daga frestur til að tjá sig um kröfuna.  Ítrekun vegna bréfs þessa var send eiganda garðhýsisins 13. nóvember 2003, sem kom sínum sjónarmiðum á framfæri í bréfi, dags. 28. nóvember s.á.  Þar kom m.a. fram að umdeilt garðhýsi hafi verið byggt uppúr 1970, áður en hann keypti íbúð sína og hafi staðið á lóðinni síðan í samræmi við munnlegt samkomulag íbúa.

Krafan um niðurrif gróðurskálans var síðan tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 7. desember 2004 og afgreitt með eftirfarandi bókun:

„Í samræmi við umsögn lögfræði og stjórnsýslu er kröfu meðeigenda á Kirkjuteig 25 um að fjarlægja gróðurskála á lóð hafnað. Leiðbeint er um að meðeigendur geta kært þessa niðurstöðu til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála sbr. 10. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 eða leitað réttar síns fyrir dómstólum.“

Hefur kærandi skotið þessari ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Í kæru er tekinn upp fjöldi ákvæða skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og byggingarreglugerðar nr. 441/1998 um byggingar og skipulag auk ákvæða fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994 um nýtingu sameignar og réttindi og skyldur sameigenda er kærandi telur mæla gegn hinni kærðu ákvörðun.

Sú ástæða er tilgreind fyrir því að gróðurskálinn hafi staðið óáreittur á umræddri lóð af hálfu byggingaryfirvalda að þau hafi ekki haft vitneskju um bygginguna fyrr en kvörtun vegna hennar hafi borist og aðrir eigendur íbúða í húsinu hafi viljað halda friðinn eða dvalist langdvölum erlendis og fyrri eigandi skálans því getað framkvæmt nánast hvað sem var án afskipta annarra eigenda hússins.  Í ljósi þessa sé ekki um tómlæti að ræða í máli þessu.

Áréttar kærandi að um óleyfisframkvæmd sé að ræða sem standi á sameiginlegri lóð í andstöðu við vilja og hagsmuni annarra sameigenda og beri byggingaryfirvöldum að sjá svo um að því ástandi verði aflétt.  Skálinn hindri leiki barna á lóðinni og vart verði hróflað við jarðvegi vegna raflagnar úr bílskúr í skálann sem ekki séu gögn um hvar liggi.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Reykjavíkurborg krefst þess að kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa í máli þessu verði hafnað.

Óumdeilt sé að ekki hafi verið sótt um byggingarleyfi fyrir umþrættu garðhýsi svo sem skylt hafi verið að lögum.  Ekki sé unnt að staðreyna nákvæmlega hvenær garðhýsinu hafi verið komið fyrir á lóðinni en óhætt þyki að miða við að það hafi staðið á lóðinni síðastliðin 15 til 20 ár miðað við gerð þess og útlit.

Í 8. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús segi að öll lóð húss og mannvirki, búnaður og tilfæringar á henni, þar með talið bílastæði, nema þinglýstar heimildir kveði á um að það sé séreign eða það byggist á eðli máls, sé í sameign eiganda hússins og í 36. gr. laganna segi að eiganda sé á eigin spýtur óheimilt að framkvæma nokkrar breytingar á sameign eða helga sér til einkanota tiltekna hluta hennar.  Eigandi geti ekki öðlast sérstakan rétt til sameignar á grundvelli hefðar, hvorki eignarrétt né aukinn afnotarétt.  Einstökum eiganda sé að sama skapi óheimilt upp á sitt eindæmi að taka ákvarðanir eða gera ráðstafanir sem snerti sameign eða sameiginleg málefni.  Höfð yrði hliðsjón af þessum ákvæðum við afgreiðslu umsókna til byggingaryfirvalda um framkvæmdir eða byggingar. 

Umræddu garðhýsi hafi hins vegar verið komið fyrir á lóðinni í tíð þágildandi laga um fjölbýlishús og beri því einnig að hafa hliðsjón af þeim reglum við mat á því hvort unnt sé að grípa til þvingunarúrræða í máli þessu. 

Með vísan til gagna málsins og ofangreindra lagaákvæða sé óumdeilt að garðhýsi það er standi í norðausturhorni lóðarinnar nr. 25 við Kirkjuteig sé svokölluð óleyfisframkvæmd.  Það eitt og sér leiði ekki til þess að byggingarfulltrúa sé heimilt eða skylt að beita viðurlagaákvæðum skipulags- og byggingarlaga.  Fyrir liggi að ítrekað hafi verið kvartað undan garðhýsinu og farið fram á að það yrði fjarlægt. 

Aftur á móti beri einnig á það að líta að garðhýsið hafi staðið á lóðinni í fjölda ára án afskipta byggingaryfirvalda auk þess sem allir núverandi eigendur utan einn hafi keypt sína eignarhluta eftir að garðhýsinu hafi verið komið fyrir á umræddri lóð og ekki hafi verið gerðar athugasemdir vegna tilveru þess fyrr en á árinu 2002.  Í ljósi þessa hafi sameigendur að lóðinni sýnt af sér tómlæti vegna byggingar og stöðu skálans á lóð þeirra.  Hafa verði og í huga að ekki sé vitað til að núverandi eiganda umrædds skála hafi verið kunnugt um skort á leyfi fyrir garðhýsinu er hann festi kaup á eigninni.  Þá hafi ekki verið sýnt fram á neina brýna nauðsyn þess að garðhýsið verði fjarlægt né að það hafi áhrif á hagsmuni meðeiganda á þann hátt að horfi til tjóns þótt þeir þurfi að bíða dóms um réttarstöðu sína. 

Byggingaryfirvöldum í Reykjavík hafi orðið kunnugt um óleyfisbygginguna á árinu 2001 þegar deiliskipulag Teigahverfis var í vinnslu.  Ekki sé hægt að draga þá ályktun af þeirri ákvörðun, að taka nefnda óleyfisbyggingu út af deiliskipulagstillögunni, að fallist hafi verið á niðurrif byggingarinnar enda tekið fram í skipulaginu að frístandandi garðhýsi séu leyfð samkvæmt skipulaginu ef fyrir liggi samþykki lóðarhafa.  Telja verði að tómlæti meðeiganda girði fyrir að byggingarfulltrúi hafi getað knúið fram niðurrif garðskálans eins og málum hafi verið komið. 

Að öllu þessu virtu og með hliðsjón af meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins hafi byggingarfulltrúa ekki verið heimilt í þessu tilviki að beita svo íþyngjandi úrræðum sem farið sé fram á í máli þessu.  Óhjákvæmilegt virðist því að beina deiluaðilum til almennra dómstóla til að leysa úr ágreiningi þeirra varðandi nefnt garðhýsi á lóðinni. 

Niðurstaða:  Með hinni kærðu ákvörðun hafnaði byggingarfulltrúinn í Reykjavík að beita úrræðum 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 til þess að knýja fram niðurrif á gróðurskála á lóðinni að Kirkjuteigi 25 í Reykjavík, sem reistur var án leyfis byggingaryfirvalda og staðið hefur þar um árabil. 

Í 5. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga, sem hér á við, er byggingarnefnd heimilað að knýja fram niðurrif óleyfisbygginga og er ákvörðun um beitingu þess þvingunarúrræðis háð mati hverju sinni.  Mat um beitingu þessa úrræðis hlýtur fyrst og fremst að byggjast á almannahagsmunum og skipulagsrökum en einstaklingum eru tryggð önnur réttarúrræði til þess að verja einkaréttarlega hagsmuni.

Hin umdeilda ákvörðun er einkum studd þeim rökum að fyrir liggi að gróðurskálinn hafi staðið um árabil á lóðinni að Kirkjuteigi 25 án athugasemda sameigenda að lóð. Að auki hafi eigendaskipti orðið að íbúðum umrædds fjölbýlishúss eftir byggingu skálans, þ.á.m. að íbúð þeirri er hann fylgi, og í gildandi skipulagi sé heimilað að hafa slíka skála á lóðum á umræddu svæði.

Með hliðsjón af greindum atvikum og lagasjónarmiðum þykja málefnaleg rök hafa búið að baki þeirri ákvörðun borgaryfirvalda að beita ekki þvingunarúrræði 56. gr. skipulags- og byggingarlaga gagnvart eiganda margnefnds gróðurskála um niðurrif skálans.  Verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og vegna tafa við gagnaöflun.

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. desember 2004, um að synja kröfu um niðurrif gróðurskála á lóðinni að Kirkjuteigi 25, er hafnað.

 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

 
_____________________________                  ____________________________
 Þorsteinn Þorsteinsson                                          Ásgeir Magnússon