Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

14/2006 Hraunteigur

Ár 2006, miðvikudaginn 22. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, varaformaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Geirharður Þorsteinsson arkitekt og skipulagshönnuður.

Fyrir var tekið mál nr. 14/2006, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. febrúar 2006 um að veita byggingarleyfi fyrir tveimur tveggja hæða parhúsum með innbyggðum bílgeymslum á lóðunum nr. 4 og 6 við Hraunteig í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 26. febrúar 2006, er barst nefndinni hinn 1. mars sama ár, kæra J og E, íbúar að Hrísateigi 4, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. febrúar 2006 að veita byggingarleyfi fyrir tveimur tveggja hæða parhúsum með innbyggðum bílgeymslum á lóðunum nr. 4 og 6 við Hraunteig í Reykjavík.  Ákvörðunin var staðfest í borgarráði Reykjavíkur hinn 9. febrúar 2006.
Skilja verður erindi kærenda svo að gerð sé krafa um ógildingu hins kærða byggingarleyfis.  Jafnframt var gerð krafa um bráðabirgðaúrskurð um stöðvun framkvæmda skv. hinu kærða leyfi þar til að efnisniðurstaða lægi fyrir í kærumáli kærenda varðandi deiliskipulagsbreytingu þá sem var undanfari byggingarleyfisins.

Gögn og umsögn Reykjavíkurborgar hafa borist úrskurðarnefndinni vegna kæru deiliskipulagsins og byggingarleyfisins og þykir málið nægjanlega upplýst til þess að taka það nú til efnismeðferðar og verður því ekki tekin afstaða til kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda. 

Málavextir:  Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 4. mars 2005 var lögð fram tillaga að deiliskipulagsbreytingu varðandi lóðina nr. 6 við Hrísateig.  Samþykkt var að grenndarkynna tillöguna sem óverulega breytingu á gildandi deiliskipulagi.  Fólst breytingin í því, að í stað tveggja húsa á tveimur lóðum með fjórum íbúðum og bílskúrum á milli, kæmu þrjú parhús á jafnmörgum lóðum, öll með innbyggðum bílskúrum.  Hámarkshæð húsa var óbreytt, eða 8,5 m miðað við götu.

Andmæli bárust frá nokkrum fjölda íbúa á svæðinu við hina kynntu skipulagstillögu og þar á meðal frá kærendum.  Mun tillagan hafa tekið þeim breytingum eftir kynningu hennar að í stað þriggja parhúsa skyldu koma tvö parhús og eitt einbýlishús.

Greind skipulagstillaga var samþykkt á afgreiðslufundi skipulagsráðs 22. júní 2005 og staðfest í borgarráði hinn 30. júní s.á.  Gildistaka skipulagsbreytingarinnar var síðan auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 14. júlí 2005 og skutu kærendur þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar.

Hinn 7. febrúar 2006 samþykkti síðan byggingarfulltrúi byggingarleyfi fyrir tveimur tveggja hæða parhúsum á lóðunum nr. 4 og 6 við Hraunteig á grundvelli breytingar þeirrar sem gerð hafði verið á greindu deiliskipulagi lóðarinnar að Hrísateigi 6 og staðfesti borgarráð þá ákvörðun 9. febrúar sl.  Hafa kærendur skotið þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Kærendur byggja málskot sitt á því að fyrir úrskurðarnefndinni sé óafgreidd kæra á deiliskipulagsbreytingu vegna lóðarinnar að Hrísateig 6 þar sem ráðagerð sé um umþrættar byggingar.  Óeðlilegt sé að borgaryfirvöld gefi út byggingarleyfi með stoð í hinu kærða skipulagi áður en málalyktir fáist um gildi umræddrar skipulagsákvörðunar.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Borgaryfirvöld fara fram á að kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar verði hafnað.

Umrædd ákvörðun sé í fullu samræmi við deiliskipulag svæðisins eftir breytingu þá sem gerð hafi verið á árinu 2005 og sem kærendur hafi skotið til úrskurðarnefndarinnar.  Ætla verði að kæra byggingarleyfisins byggi á sömu rökum og deiliskipulagskæran og hafi Reykjavíkurborg tjáð sig um þau vegna þeirrar kæru.

Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér staðhætti á vettvangi.

Niðurstaða:  Kærendur byggja málskot sitt á því að óeðlilegt sé að veita byggingarleyfi í skjóli skipulags sem kært hafi verið til úrskurðarnefnarinnar og sé enn óafgreitt.

Fyrr í dag féll úrskurður í máli kærenda um deiliskipulagsbreytingu þá er heimilar umdeildar byggingar og varð niðurstaða sú að hafnað var kröfu um ógildingu skipulagsins og eru í þeim úrskurði gerð grein fyrir þeim álitaefnum sem í raun búa að baki kærumáli þessu.

Þar sem engum sjálfstæðum málsástæðum er teflt fram gegn hinni kærðu ákvörðum umfram þær sem stíundaðar voru í skipulagskærunni og ekki er kunnugt um annmarka á málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar verður kröfu kærenda um ógildingu hins kærða byggingarleyfis hafnað.

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda, um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. febrúar 2006 um að veita byggingarleyfi fyrir tveimur tveggja hæða parhúsum með innbyggðum bílgeymslum á lóðunum nr. 4 og 6 við Hraunteig í Reykjavík, er hafnað.

 

 

___________________________
Ásgeir Magnússon

 

 

 

__________________________          ____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                            Geirharður Þorsteinsson