Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

66/2023 Hvanná

Með

Árið 2023, þriðjudaginn 17. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Geir Oddsson auðlindafræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 66/2023, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 12. apríl 2023 um að vatnsmiðlun í Hvanná í Dalabyggð skuli ekki háð mati á umhverfis­áhrifum.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. maí 2023, er barst nefndinni sama dag, kæra samtökin Náttúrugrið þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 12. apríl 2023 um að vatnsmiðlun í Hvanná í Dalabyggð, skuli ekki sæta mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana Þess er krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 30. júní 2023.

Málavextir: Hinn 7. febrúar 2022 barst Skipulagsstofnun tilkynning frá eigendum jarðanna Ljárskóga og Glerárskóga um áform um vatnsmiðlun í Hvanná á Laxárdalsheiði í Dalabyggð, samkvæmt 19. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, sbr. og lið 10.12 í 1. viðauka við lögin.

Í greinargerð sem fylgdi tilkynningunni kom fram að Fáskrúð væri ein vinsælasta þriggja stanga laxveiðiá landsins, en hún hefði orðið mjög vatnslítil í júlí og ágúst síðustu ár. Áin sé dragá sem einkennist af miklum rennslissveiflum sem fylgi tíðarfari að miklu leyti. Fáskrúð verði til þegar Kaldakvísl og Hvanná sameinist. Hugmyndir séu um að miðla rennsli Hvannár til Fáskrúðar þannig að vatnafar í ánni verði hagstæðara fyrir lífríkið, sérstaklega með tilliti til laxfisks, en laxveiði sé ekki stunduð í fyrrnefndu ánni. Hvanná eigi upptök sín við suðaustan­verðar rætur Rjúpnafells og renni í Fáskrúð við Hvanneyrar í um 200 m hæð yfir sjávarmáli. Fyrirhugað væri að byggja stíflu í Hvanná rösk­um kílómetra ofan ármóta Hvannár og Köldu­kvíslar. Á stíflusvæðinu renni Hvanná af Hvanneyrum, sem séu að því er virðist forn lónbotn, inn í afmarkaðan farveg hvar áin hafi grafið í haft sem afmarki eyrarnar til suðvesturs. Gert væri ráð fyrir að lón, um 0,58 km2 og 1,85 miljón m3, myndist á forn­um lónbotni þar sem Hvanná og Stiklukvísl sameinist, á Hvanneyrum.

Tilgangur framkvæmdarinnar væri að eiga forðabúr til að miðla vatni í Fáskrúð yfir hásumarið, en með því yrðu bætt skilyrði til framleiðslu laxaseiða í ánni sem og veiðiskilyrði. Gert væri ráð fyrir að lónið í Hvanná stæði fullt nema þegar nauðsynlegt væri að miðla vatni til Fáskrúðar vegna þurrka. Ráðgert væri að byggja stífluna miðað við hæsta rekstrar­vatnsborð 215 m yfir sjávarmáli með möguleika á breytingu upp í 216 m hæð. Stíflan verði að hafa þéttikjarna sem verði einum metra hærri og tveggja metra stoðfyllingu þar ofan á til að tryggja að kjarninn frjósi ekki. Stíflukrónan verði því 218 m yfir sjávarmáli og hátt í 10 m yfir núverandi árbotni. Stíflan verði um 76 m að lengd og um 5.000 m3 að rúmtaki. Sækja verði hluta af efni í stífluna utan framkvæmdarsvæðis, en í landi Ljár­skóga sé storkubergsnáma sem hægt verði að nýta í stoðfyllingu. Vegslóði sem liggi upp að leitarhúsi, litlum kofa við bakka Hvanneyra, nýtist við framkvæmdir, en þörf verði á minni háttar vegabótum og vegstyrkingu.

Fram kom í greinargerðinni að samkvæmt Aðalskipulagi Dala­byggðar 2004–2016 væri fyrirhugað framkvæmdarsvæði skilgreint sem landbúnaðarsvæði. Svæðið væri utan verndarsvæða og frið­lýstra svæða, en það væri „skilgreint sem mikilvægt fuglasvæði á votlendi samkvæmt korti Náttúru­fræðistofnunar Íslands.“ Þá lægi fyrir tillaga sömu stofnunar að B-hluta náttúru­minjaskrár um vernd Laxárdalsheiðar sem mikilvægs búsvæðis fyrir álft og himbrima. Lítt raskað votlendi, stærra en 20.000 m2, væri að finna báðum megin við Fáskrúð samkvæmt korti Náttúru­fræðistofnunar um sérstaka vernd vistkerfa og jarðminja. Þá lægi bæði reiðleið og gönguleið meðfram Fáskrúð sem næði upp á stíflustæði norðan ár. Gönguleiðin lægi svo áfram upp með Stiklukvísl. Bygging stíflu í Hvanná og myndun lítils miðlunarlóns hefði heilt á litið óveruleg umhverfisáhrif, en miðlun vatns úr ánni hefði jákvæð áhrif á seiðabúskap í Fáskrúð þar sem vatnsstaða verði ekki jafn lág og án miðlunar og lax muni eiga auðveldara með að ganga upp ána og hrygna. Þá kom og fram að framkvæmdin væri háð leyfi Dalabyggðar til framkvæmda skv. 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, leyfi Fiskistofu til framkvæmda skv. 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax og silungsveiði og að ef óhjákvæmilegt muni reynast að hrófla við fornleifum þyrfti leyfi frá Minjastofnun Íslands skv. 21. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012.

Við meðferð málsins leitaði Skipulagsstofnun umsagna Dalabyggðar, Fiskistofu, Haf­rannsókna­stofnunar, Minjastofnunar Íslands, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Orkustofnunar, Umhverfis­stofnunar og Veðurstofu Íslands og bárust stofnuninni umsagnir þessara aðila í febrúar og mars 2022.

Í umsögn Orkustofnunar kom fram að í tilkynningu framkvæmdaraðila væru engar upplýsingar um lífríki Hvannár, né hvort áin væri veiðivatn, skv. skilgreiningu laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði. Einungis væri tiltekið að lax veiddist ekki í ánni. Væri því ekki ljóst af framlögðum gögnum hvort leyfi til mannvirkjagerðar í ánni féllu undir valdsvið Orkustofnunar, sbr. 7. og 68. gr. vatnalaga nr. 15/1923, ellegar Fiskistofu, sbr. 33. gr. laga nr. 61/2006. Taldi Orkustofnun þó skylt að sækja um leyfi til stofnunarinnar fyrir gerð miðlunarlónsins, sbr. 68. gr. laga nr. 15/1923 og skyldu fullnægjandi gögn um undirlag, gerð og frágang stíflunnar fylgja umsókn. Engin afstaða var tekin til þess í umsögninni hvort framkvæmdin skyldi háð mati á umhverfisáhrifum. Í umsögn Veðurstofunnar kom fram að ekki væru gerðar athugasemdir við tilkynninguna.

Í umsögnum Minjastofnunar og Dalabyggðar kom hins vegar fram það álit að fyrirhuguð framkvæmd skyldi ekki háð mati á umhverfis­áhrifum. Í umsögn Dalabyggðar sagði að ljóst væri að hið fyrirhugaða lón hefði takmörkuð umhverfisáhrif þar sem það myndi þekja fornan lónbotn í dæld. Æskilegt væri þó að ákvæði um mótvægisaðgerðir og vöktun yrðu skilgreind betur í umsókn um framkvæmdaleyfi. Í umsögn Minjastofnunar sagði að í skýrslu framkvæmdaraðila kæmi fram að fornleifafræðingur yrði fenginn til að kanna framkvæmdar­svæðið áður en framkvæmdir hæfust. Svæðið væri nokkuð langt frá byggð og því minni líkur á að þar væri fornleifar að finna en á svæðum þar sem vitað væri að bústaðir manna hefðu verið. Þá var minnt á að ef fyrirhugaðar lagfæringar á vegslóða eða efnistaka til stíflugerðar yllu jarðraski á svæðum sem ekki hefði áður verið raskað þyrfti að fá fornleifafræðing til að taka þau svæði út. Í umsögn Umhverfisstofnunar var álitið að umhverfisáhrif framkvæmdarinnar væru ljós og ekki væri lík­legt að hún myndi hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér, en mikilvægt væri að fram færi úttekt á gróðri í lónstæðinu áður en ráðist yrði í framkvæmdir og kannað hvort unnt væri að ráðast í mótvægisaðgerðir til að draga úr raski á gróðri með hátt verndargildi.

Í umsögn Hafrannsóknastofnunar kom fram að óljóst væri hvort hin fyrirhugaða framkvæmd skilaði í raun tilætluðum áhrifum á fiskistofna, en ljóst væri að um veruleg, a.m.k. staðbundin, umhverfisáhrif yrði að ræða. Taldi stofnunin æskilegt að frekari gögn lægju fyrir áður en hægt væri að leggja raunhæft mat á framkvæmdina og væntanlegan árangur hennar. Frekari úttekt mætti gera án umhverfismats eða sem hluta af umhverfismati. Æskilegt væri að fyrir ána lægju fyrir rennslismælingar eða rennslislíkön yfir lengri tíma, lögun botns í þeim hluta farvegar Fá­skrúðar sem fóstri laxaseiði m.t.t. hversu mikil áhrif vatnsmiðlun geti haft á virk búsvæði og þar með afkomu seiða í ánni, ásamt frekari úttekt á mögulegum áhrifum af fyrirhuguðu lón­stæði, rofi á bökkum og útskolun efna. Mögulegt væri að aðrir þættir gætu ráðið meiru um afkomu fiskistofna og veiði í Fáskrúð en vatnsrennsli. Lauslegur samanburður á veiði við nær­liggjandi ár, Laxá í Dölum og Fáskrúð sýndi ekki stórvægilegan mun í sveiflum í veiði milli ánna. Sama ætti við um Langá á Mýrum þar sem vatnsmiðlun hefði verið til fjölda ára úr Langa­vatni.

Í umsögn Fiskistofu var líkt og í umsögn Orkustofnunar tiltekið að ekkert kæmi fram í tilkynningu framkvæmdaraðila um lífríki í Hvanná. Þá var tekið fram að af skýrslu Hafrannsóknastofnunar frá árinu 2017 mætti ráða að fyrirhugað uppistöðulón væri á ófiskgengu svæði, en þar kynnu þó að vera staðbundnir stofnar bleikju og urriða. Í sömu skýrslu hefði verið fjallað um möguleika á því að nýta ófisk­gengan hluta árinnar til seiðaframleiðslu og hvatt til þess að búsvæði árinnar, jafnt á fisk­- sem ófiskgengum ársvæðum yrðu metin svo að spá mætti fyrir um áhrif nýtingar ófisk­gengra svæða á stærð laxastofnsins. Áformin kynnu að spilla öðrum möguleikum vegna veiðihagsmuna á vatna­svæðinu. Því væri eðlilegt að metin væru hugsanleg áhrif framkvæmdarinnar á lífríki og hún yrði háð umhverfismati. Var jafnframt vakin á því athygli að framkvæmdin kynni að vera háð leyfi Orkustofnunar, sbr. 75. gr. laga nr. 15/1923.

Náttúrufræði­stofnun Íslands áleit að framkvæmdin skyldi sæta mati á umhverfisáhrifum. Um væri að ræða fram­kvæmd sem skaðaði verndargildi náttúru­­minja á mikilvægu fugla­svæði, skerti ómetan­leg óbyggð víðerni og væri ekki nauðsyn­leg vegna almannahagsmuna. Fyrirhugað lónstæði væri innan svæðis á B-hluta náttúruminjaskrár sem stofnunin hefði gert tillögu um árið 2018 vegna alþjóðlega mikilvægs varpsvæðis álftar og himbrima. Þá væru um 210 km2 sem féllu undir hugtakið óbyggt víðerni á Laxárdalsheiði og var um það vísað almennt til skilgreiningar á því hugtaki í lögum nr. 60/2013. Fyrirhuguð framkvæmd myndi skerða þessi víðerni þannig að þau kæmu varla til með að uppfylla lengur skilyrði náttúruverndarlaga um 25 km2 lágmarksstærð. Stíflan og miðlunarlónið myndu sjást víða að á tiltölulega flatri heiðinni. Þá nyti votlendi við ármót Hvannár og Stiklukvíslar verndar skv. 61. gr. laga nr. 60/2013. Sömu verndar nytu fossar í Fáskrúð, Katlafossar og Skrúður, en vatnsmiðlun ofan við fossana gæti haft áhrif á þá. Þá kom m.a. fram að gera þyrfti betur grein fyrir samhengi áformanna við önnur áform um framkvæmdir í nágrenninu sem rýrðu verndar­gildi víðerna og búsvæða fugla á Lax­árdals­heiði, einkum áform um vindorkugarða við Hróð­nýjar­staði og í Sólheimum.

Framkvæmdaraðili lét í té svör við helstu athugasemdum umsagnaraðila með bréfi, dags. 13. desember 2022. Þar kom fram að vegna þeirra hefði hann látið vinna tvær sjálfstæðar úttektir. Önnur þeirra varðaði náttúrufar. Þar var bent á að í lónstæðinu væru vistgerðir með mjög hátt verndargildi, þ.e. vistgerðir í mýrlendi sem væru þó aðeins lítill hluti votlendis á Lax­árdals­heiðinni. Á hinn bóginn hefðu þar ekki fundist válistaplöntur eða friðlýstar tegundir. Fram kom að líta mætti á lónið sem ákveðna mótvægisaðgerð, en fuglar gætu nýtt það eins og fjölmörg stöðuvötn og tjarnir á heiðinni. Þá hefðu urriði og hugsanlega einnig hornsíli aðgang að víðáttumiklu svæði, lækjum, smáám og vötnum, og gætu því fært sig á önnur hrygningar- og búsvæði.

Hin úttektin sem framkvæmdaraðili lét vinna varðaði áhrif framkvæmda á fiskistofna á svæðinu. Þar kom m.a. fram að þegar straumvatni væri breytt í lón breyttist lífvist verulega, t.d. vegna þess að straumur verði nær enginn og dýpi aukist. Það hafi þær vistfræðilegu afleiðingar fyrir fiska að hrygningarstaðir í farvegi leggist af og búsvæði raskist. Þess var þó getið að neikvæð áhrif væru mest fyrir lax en í sumum tilvikum gætu urriði og bleikja nýtt sér lónið til uppeldis. Þá var í fyrrgreindum svörum framkvæmdaraðila einnig fjallað um athugasemdir Hafrannsóknastofnunar og m.a. greint frá því að áhrif lágrennslis að vetri og sumri hefðu verið rannsökuð í ám í Noregi sem hafi m.a. sýnt neikvæð áhrif lágrennslis að vetri á afkomu seiða og framleiðslu gönguseiða og að úttektin hefði sýnt fram á jákvæðar niðurstöður fyrirhugaðrar miðlunar. Athugasemd Fiski­stofu um að fyrirhuguð áform kynnu að spilla öðrum möguleikum vegna veiðihagsmuna á vatnasvæðinu var svarað með vísun til sömu úttektar. Í úttektinni kæmi fram að tilkoma miðlunar­lóns í Hvanná myndi hafa jákvæð áhrif á seiðabúskap í Fáskrúð og gera laxi auð­veldara með að ganga upp ána á hrygningarstöðvar.

Ábendingu Náttúrufræðistofnunar um fuglalíf var þar svarað með þeim hætti að úttekt hefði verið unnin á fuglalífi á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði og að hvorki hefðu fundist álftir né himbrimi á svæðum sem yrðu fyrir raski. Hefði niðurstaðan verið sú að fugla­líf myndi ólíklega bera skarðan hlut frá borði og gæti stöðugra rennsli í Fáskrúð og Hvanná jafnvel haft góð áhrif á tegundir eins og straumönd og gulönd. Hvað varðaði víðerni var bent á að í kafla 4.2 í mats­tilkynningunni hefði komið fram að þegar lægi vegslóði upp að leitarhúsi, litlum kofa við bakka Hvanneyra, og að samkvæmt skilgreiningu náttúruverndarlaga hefðu víðerni á svæðinu því þegar orðið fyrir skerðingu vegna mannvirkis sem þar væri.

Vegna þessara nýju upplýsinga frá framkvæmdaraðila fór Skipulagsstofnun þess á leit við Fiski­stofu, Hafrannsóknastofnun, Minja­stofnun, Náttúrufræðistofnun, Orku­stofnun og Umhverfisstofnun að gefnar væru umsagnir um þær nýju upplýsingar sem framkvæmdaraðili hefði lagt fram. Bárust framhalds­um­sagnir stofnananna til Skipulagsstofnunar í janúar 2023.

Orkustofnun og Umhverfisstofnun töldu í umsögnum sínum af þessu tilefni að uppfærð gögn og skýringar kölluðu ekki á efnislegar við­­bætur við fyrri umsagnir. Orkustofnun minnti þó á að miðlun vatns skv. 68. gr. laga nr. 15/1923 væri háð leyfi stofnunarinnar þótt leyfi til til framkvæmda skv. 33. gr. laga nr. 61/2006 væri á verksviði Fiskistofu. Í seinni umsögn Haf­rannsóknastofnunar sagði að nýju gögnin breyttu ekki þeirri afstöðu stofnunarinnar að umhverfisáhrif framkvæmdarinnar, þ.e. að undanskildum rennslis­­líkönum og áformum um rennslisstýringar, lægju að mestu fyrir og að formlegt umhverfis­mat myndi ekki bæta þar miklu við eða skýra áhrifin. Fiski­stofa áleit á hinn bóginn í síðari umsögn sinni að ný gögn og svör framkvæmdaraðila breyttu ekki því mati að fram­kvæmdin hefði veruleg áhrif á lífríki ánna og skyldi því háð umhverfismati.

Í seinni umsögn Náttúru­fræði­stofnunar kom m.a. fram að flestum athugasemdum stofnunar­innar hefði verið svarað og ágæt svör væru um vatnsrennsli, áhrif miðlunarinnar á fossa og áhættu á jarðvegsfoki. Þá væri ítarlega útskýrt hver áætluð efnisþörf fyrir mismunandi fram­kvæmdar­liði væri. Leitarhúsið og vegslóðinn væru vissulega mannvirki sem skertu víðernis­upplifun að einhverju leyti, þá einkum umferð á vegslóðanum. Leitarhúsið væri á gráu svæði og mætti deila um það hvort núverandi skilgreining náttúruverndarlaga á víðerni „heimili ekki svo lítil og lát­laus mannvirki.“ Um minni háttar áhrif væri að ræða af þessum mannvirkjum sem auðvelt væri að gera afturkræf. Þá var tekið fram að ekki væri sýnt á korti hvar framkvæmdar­aðili hefði gert athuganir á fuglum. Ekki virtist sem gengið hefði verið eftir sniðum á skipulagðan hátt heldur „litið eftir fuglum“. Þá skyti skökku við að í svörum umsagnaraðila við umsögn Náttúrufræðistofnunar hefði komið fram að samkvæmt úttektinni hafi hvorki fundist álft né himbrimi. Í úttektinni hefði þó komið skýrt fram að sést hefði álfta­par innan lónstæðis í fyrri athugunarferðinni, en ekki í þeirri síðari þannig að óvíst væri hvort parið hefði orpið á svæðinu. Óháð þessu væri svæðið sannarlega hluti af því mikilvæga fugla­svæði sem skilgreint hafi verið á Laxárdalsheiði.

Náttúrufræðistofnun benti jafnframt á að gagnlegt hefði verið ef umfjöllun um gróðurfar hefði verið sýnd með merkingum á kortum og metið, t.d. umfang þeirra vistgerða sem myndu raskast við stíflugerðina, einkum þeirra með hátt verndargildi. Augljóst væri að myndarlegt votlendi raskaðist þar sem það væri innan lónstæðis og ætti framkvæmdaraðili að skilgreina mótvægisaðgerðir til að vega upp tap á votlendi. Gerði Náttúrufræðistofnun frekari ábendingar, m.a. um að rétt væri að gera grein fyrir hvort og hvernig búsvæði neðan stíflu myndu endurnýja sig. Möl og grjót væru mikilvægir þættir í hrygningarsvæðum í ám, en stíflur gætu hindrað eðlilega endurnýjun slíkra svæða. Þá hafi laxastofnar hverrar ár aðlagast náttúrulegu rennslis­munstri sem þar væri að finna og erfitt að spá fyrir um afleiðingar breytinga á því.

Þá áleit stofnunin að áhrif framkvæmdarinnar á gróðurfar og fuglalíf væru kannski ekki viðamikil, en um óafturkræft rask bú­svæða væri engu að síður að ræða og taka þyrfti betra tillit til sammögnunaráhrifa vegna annarra áætlaðra framkvæmda í ljósi þess að svæðið væri innan mikilvægs fuglasvæðis. Þá yrði sú litla skerðing sem í dag væri á óbyggðu víðerni aukin tölu­vert við framkvæmdina. Tilgangur framkvæmdarinnar væri að styrkja forsendur fyrir lax­veiði með því að breyta náttúrulegu vatnafari og því mjög mikilvægt að til staðar væru sannfærandi gögn um að framkvæmdin leiddi af sér jákvæð áhrif fyrir fiskistofna. Þau viðbótargögn sem lögð hefðu verið fram væru að mati Náttúrufræðistofnunar ekki fullnægjandi og ekki hefði öllum ábendingum Hafrannsóknastofnunar verið svarað. Í ljósi fagþekkingar þeirrar stofnunar skipti umsögn hennar sérstaklega miklu máli. Þá var bent á að æskilegt væri að fram­kvæmdar­aðili setti fram áætlun um vöktun áður en framkvæmd hæfist og sinnti vöktun eftir að fram­kvæmd lyki. Næðist ekki árangur af framkvæmdinni ætti að vera til áætlun um niðurrif á stíflunni og hvernig svæðinu yrði komið til fyrra horfs.

Í kjölfar þess að framangreindar framhaldsumsagnir bárust Skipulagsstofnun veitti stofnunin fram­kvæmdaraðila tækifæri til að bregðast við þeim, sem hann gerði með bréfi, dags. 7. mars 2023. Þá lagði fram­kvæmdaraðili fram minnisblað annars höfunda fyrrgreindrar náttúrufars­úttektar, þar sem brugðist var við athugasemdum Náttúrufræðistofnunar um tilhögun fugla­talningar, lýsingu gróðurfars og áhrif á vot­lendi.

Framkvæmdaraðili áleit að langt væri gengið að ætla honum að meta samlegðaráhrif framkvæmdaráforma sinna með vind­orku­görðum í nágrenninu. Sér í lagi þar sem um væri að ræða mjög lítinn hluta alls votlendis á Lax­árdals­heiði auk þess sem fuglar gætu nýtt sér lónið með öðru votlendi þar. Niður­stöður fuglarannsóknar hefðu verið að áhrifin gætu jafnvel verið góð á vissar tegundir á meðan vindorkugarðar væru að glíma við áflugshættu auk rasks á jörðu. Vegna athugasemda um söfnun sets í lóninu kom fram að miðlun í Hvanná yrði nýtt til fullnustu ár hvert, þ.e. lónið yrði tæmt árlega. Þannig yrði ekki um að ræða óvirka lónrýmd sem safnað gæti aur árum saman. Þá væru dæmi um að vélar væru notaðar til að losa um aur þegar virkjanalón væru tæmd og væri aurnum þá skolað út um botn­rás. Í tilfelli Hvannár mætti allt eins moka aurnum upp úr lóninu af sama tilefni, ef þörf krefði.

Framkvæmdaraðila kvaðst ekki ljóst við hvaða heimildir Náttúrufræðistofnun hefði stuðst við þá fullyrðingu að laxastofnar hverrar ár hefðu aðlagast því náttúrulega rennslismunstri sem þar væri að finna. Það mætti varla kalla það náttúrulegt rennslismynstur að veiðiá færi niður í svipaða vatnsstöðu og sést hefði í Fáskrúð í tíma og ótíma, einkum hin síðari ár. Það gæti ekki talist eðlilegt að lax komist ekki inn í heimaá sína vegna vatnsleysis, sé jafnvel drepinn í ósnum af selum og seiði drepist í pollum við ána. Rennslismælingar í nágrannaám bentu til að lágmarksrennsli hefði farið minnkandi síðustu áratugi. Með þessari miðlun sé leitast við að vega upp á móti þeim breytingum. Orsakir breyttra rennslissveiflna séu mögulega loftslags­breytingar á heimsvísu og verði ekki lagfærðar í fljótu bragði. Við þeim sé hins vegar hægt að bregðast staðbundið og tímabundið með miðlunarlóni.

Markmið framkvæmdanna væri að fiskistofninn byggi við óbreyttar aðstæður frá því sem áður hefði verið og jafnvel betri. Vegna umfjöllunar um seiðabúskap hafi verið viðurkennt að aðstæður sem þessar væru lítt rannsakaðar. Með því að koma í veg fyrir að botn árinnar þornaði upp væri þó tryggður ákveðinn stöðugleiki í frumframleiðslu og því einnig í framleiðslu á ófrumbjarga hryggleysingjum sem seiði lifi á. Vegna takmarkaðra rannsókna myndi framkvæmdaraðili sjá til þess að lífríkið verði vaktað fyrir og eftir framkvæmdina. Varðandi áætlun um að rífa stíflu og koma svæðinu til fyrra horfs, þá yrði stíflan fjarlægð, steypt mannvirki og loka rifin og fjarlægð og fyllt í yfirfallsrás við hlið stíflu með jarðvegi úr stíflunni og að lokum sáð í sárin. Samanlagt áleit framkvæmdaraðili að mat á umhverfisáhrifum myndi litlu bæta við þær niðurstöður sem þegar lægju fyrir.

Hinn 12. apríl 2023 lá fyrir hin kærða ákvörðun Skipulagsstofnunar um að framkvæmdin skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Í ákvörðuninni kom fram að áhrif framkvæmdar bæri að skoða í ljósi eðlis og stað­­­setningar hennar svo sem með tilliti til umfangs, eðlis, styrks og fjöl­breyti­leika áhrifa, hverjar líkur væru á áhrifum, tímalengdar, tíðni og afturkræfni áhrifa og möguleika á að draga úr áhrifum, sbr. 3. tölulið 2. viðauka laga nr. 111/2021. Var það niðurstaða stofnunarinnar að á grundvelli fyrirliggjandi gagna væri fyrirhuguð framkvæmd ekki líkleg til að hafa umtalsverð um­hverfis­­­áhrif, sbr. viðmið í 2. viðauka laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Þá kom fram að hin fyrirhugaða framkvæmd væri ekki í samræmi við Aðalskipulag Dalabyggðar 2020-2030, sem þá var í staðfestingarferli hjá Skipulagsstofnun, en það hefur síðan verið birt í B-deild Stjórnartíðinda. Framkvæmdin væri háð framkvæmdaleyfi Dalabyggðar, skv. lögum nr. 123/2010, en ekki væri unnt að gefa út slíkt leyfi nema framkvæmdin væri í samræmi við gildandi skipulag. Framkvæmdin væri jafnframt háð leyfi Orkustofnunar vegna vatnsmiðlunar á grundvelli laga nr. 15/1923 og leyfi Fiskistofu á grundvelli laga nr. 61/2006. Þá var tekið fram að kærufrestur til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála væri til 22. maí 2023.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er vísað til ákvæða stjórnsýslulaga nr. 37/1993, einkum 10. gr. þeirra, laga nr. 111/2021 um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda og áætlana, þá sérstaklega 19. gr. þeirra og 2. viðauka við lögin. Einnig er vísað til markmiðsákvæðis um vernd óbyggðra víðerna í 3. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd og meginreglna II kafla laganna, einkum 8. gr. um vísindalegan grundvöll ákvarðana og varúðar­reglunnar í 9. gr. laganna. Jafnframt sé vísað til 61. gr. laga nr. 60/2013 um sérstaka vernd votlendis. Með fram­kvæmd­­inni yrði mikið votlendi skert, fyrir því hafi engar röksemdir verið færðar, en forðast skuli að skerða votlendi nema brýnir hagsmunir krefjist. Þá er vísað til laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði.

Kærandi gerir athugasemd við að skort hafi á að tekin væri afstaða til óbyggðra víðerna í hinni kærðu ákvörðun. Í samræmi við grunnrök laga nr. 111/2021, sbr. einnig 4. mgr. 4. gr. til­skipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2011/92/ESB um mat á áhrifum sem tilteknar framkvæmdir á vegum hins opinbera eða einkaaðila kunna að hafa á umhverfið, skuli framkvæmdaraðili leggja fram þær upplýsingar sem taldar séu upp í 2. viðauka laganna. Skipulagsstofnun beri við ákvörðun um matsskyldu að líta til álagsþols náttúrunnar, einkum m.a. lands­­lags­­heilda, ósnortinna víðerna, hálendissvæða og jökla, sbr. e-lið 2. tölulið 2. viðauka við lögin. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið beri að túlka íslensk lög til samræmis við samninginn og gerðir hans og ekki leiki neinn vafi á því að íslensk stjórnvöld séu bundin af skuldbindingum fyrr­greindrar tilskipunar. Með gildis­töku laga nr. 60/2013 hafi vernd óbyggðra víðerna verið styrkt með tveimur nýjum laga­ákvæðum. Í 3. gr. þeirra sé nú kveðið á um sérstök verndar­mark­mið laganna og sé í e-lið greinar­innar kveðið á um að stefnt skuli að því að standa vörð um óbyggð víðerni landsins og hafi óbyggð víðerni verið felld í sérstakan friðlýsingarflokk, sbr. 46. gr. laganna. Reglugerðar­heimild sé í 73 gr. a. laga nr. 60/2013 og sé í ákvæði til bráðabirgða við lögin kveðið á um kortlagningu óbyggðra víðerna, sem fram skuli fara með hliðsjón af 46. gr. laganna og eftir alþjóðlega viðurkenndri aðferðarfræði, eins og vikið sé að í athugasemdum með frumvarpi til breytinga á lögunum að þessu leyti nr. 6/2021.

Með vísan til rökstuðnings úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 122/2022 um að Náttúrufræðistofnun Íslands hafi í því máli talið verndargildi eldhrauns takmarkað sé úrskurðar­­nefndin knúin til þess að gæta samræmis og jafnræðis í úrlausnum sínum og komast að þeirri niðurstöðu í máli þessu að hin umdeilda framkvæmd skuli sæta umhverfismati. Í um­sögnum Fiskistofu, sem gefnar hefðu verið með ársmillibili og að fengnum viðbótar­rannsóknum á vegum framkvæmdaraðila, hafi með afdráttarlausum, rökstuddum og ítrekuðum hætti komið fram að framkvæmdin skyldi fara í umhverfismat. Þá sé vísað til tveggja umsagna Náttúru­fræði­stofnunar að því er varði t.d. óbyggð víðerni og votlendi. Mikið skorti á að af­leið­ingar á vistgerðir, votlendi auk samlegðaráhrifa hafi verið tekin til greina í hinni kærðu ákvörðun. Skipulagsstofnun hafi ekki uppfyllt skyldur sínar samkvæmt stjórnsýslulögum, lögum um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda og áætlana og náttúruverndarlögum við ákvörðun sína að þessu leyti, þegar hún hafi ekki litið til umsagna Fiskistofu og Náttúrufræðistofnunar um að umhverfismat skyldi fara fram.

Náttúrufræðistofnun hafi með ítarlegum hætti vikið að óbyggðum víðernum í umsögnum sínum og hafi Skipulagsstofnun ekki getað tekið lög­mæta ákvörðun nema fjalla um þann þátt umsagnanna. Hvorki sé í mats­skyldufyrirspurn, umsögnum né hinni kærðu ákvörðun vísað til vísindalegra gagna um grunn­ástand eða skerðingu sem yrði á óbyggðum víðernum. Sú forsenda framkvæmdar­­aðila í matsskyldufyrirspurn að framkvæmdin muni aðeins hafa áhrif á jarðminjar, ásýnd, lífríki og samfélag sé röng, enda komi fram í umsögn Náttúrufræði­stofnunar að mikil skerðing verði á óbyggðum víðernum. Réttlæting framkvæmdar­aðila um að slóði á svæðinu hafi þegar skert hin óbyggðu víðerni sé ekki málefnaleg. Slóðar skerði ekki víðerni á viðlíka hátt og 8 m háar stíflur og stórt miðlunarlón. Óbyggð víðerni skerðist óháð því hvort fáir séu á ferli og sé það ekki tilvist fólks sem skerði þau heldur ummerki mannsins. Umræddan slóða sé ekki að finna á skrá sem Dalabyggð hafi verið skylt að taka upp í vegaskrá samkvæmt 32. gr. laga nr. 60/2013. Slóðinn hafi því „ekkert lögmæti í skilningi laga“ og verði ekki notaður sem réttlæting fyrir frekari skerðingu óbyggðra víðerna.

Sú málsmeðferð Skipulagsstofnunar að leita í tvígang umsagna umsagnar­aðila og um leið veita framkvæmdaraðila rétt til andmæla og til að leggja fram gögn eigi sér ekki laga­stoð. Jafnframt hafi verið gengið framhjá þátttökurétti almennings sem tryggður sé í Árósa­samningnum, Evróputilskipunum og lögum nr. 111/2021 og komi ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010 um það hvernig staðið skuli að útgáfu leyfis ekki í stað þess réttar.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Af hálfu Skipulagsstofnunar er tekið fram að vegna nýrra gagna sem bárust í málinu hafi á sínum tíma, með hliðsjón af rannsóknarreglu 10. gr. og and­mælareglu 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, verið álitið rétt að leita umsagna að nýju. Skipulagsstofnun hafi við töku hinnar umdeildu ákvörðunar lagt heild­stætt mat á öll gögn málsins, þ. á m. umsagnir. Umsögn Umhverfisstofnunar sé ekki á þá leið að framkvæmdin þurfi að undirgangast umhverfismat og í síðari umsögn Haf­rannsókna­­stofnunar segi að umhverfisáhrif fram­kvæmdarinnar, að undan­skildum rennslis­líkönum og áformum um rennslisstýringar, liggi að mestu fyrir. Formlegt umhverfismat myndi ekki bæta þar miklu við eða skýra áhrifin. Skipulagsstofnun sé ósammála þeirri afstöðu Fiskistofu að framkvæmdin eigi að undirgangast umhverfismat.

Í hinni kærðu ákvörðun hafi komið fram að framkvæmdin hefði í för með sér skerðingu á tæplega 15 ha af votlendi og að neikvæðustu áhrif framkvæmdanna fælust í áhrifum á votlendisvistgerðir, en að með tilliti til umfangs teljist þau ekki umtalsverð. Í umsögn Náttúrufræðistofnunar hafi verið vikið að áformum um vindorkugarða í nágrenninu og taki Skipulagsstofnun undir með framkvæmdaraðila að langt sé gengið að ætla honum að meta samlegðaráhrif með vindorkugörðunum, sér í lagi þar sem um sé að ræða mjög lítinn hluta alls votlendis á Laxárdalsheiði. Einnig verði að hafa í huga að ekki sé um að ræða tengdar framkvæmdir sem hafi auk þess gjörólík umhverfisáhrif.

Víðerni séu eitt þeirra atriða sem lögbundið sé að Skipulagsstofnun horfi til við ákvörðun um mats­skyldu samkvæmt 2. viðauka laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, sbr. e-lið í lið iv. í 2. tölulið viðaukans. Í báðum umsögnum Náttúrufræðistofnunar hafi með ítarlegum hætti verið vikið að óbyggðum víðernum, en Umhverfisstofnun hafi ekki fjallað um þau með sama hætti. Umhverfisstofnun hafi eftirlit með því að náttúru landsins sé ekki spillt með athöfnum, framkvæmdum eða rekstri, sbr. a-lið 2. mgr. 75. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd og skv. 1. mgr. 77. gr. laganna skuli stofnunin fylgjast með ástandi svæða í óbyggðum. Í ljósi svara framkvæmdaraðila og efnis umsagna Náttúru­fræðistofnunar hefði verið rétt af hálfu Skipulagsstofnunar að víkja að óbyggðum víðernum. Hafa verði í huga að til þess að framkvæmd sé sett í umhverfismat þurfi áhrif hennar að vera umtalsverð.

Skipulagsstofnunin fái ekki séð hvernig jarðvegsstífla og miðlunar­lón þau sem um ræði í málinu geti falið í sér það mikla skerðingu á óbyggðu víðerni að um umtalsverð umhverfisáhrif geti verið að ræða. Ekki hafi verið færð viðhlítandi rök fyrir þeirri niðurstöðu í umsögn Náttúru­fræðistofnunar. Jarðvegsstíflan fylli í lægð á milli klappar­holta en við hlið hennar standi gangnamannakofi sem gnæfi yfir umhverfi sitt. Að kofanum liggi vegslóði sem muni nýtast við framkvæmdirnar. Ný mannvirki séu því eingöngu jarðvegs­stífla með steyptri botnrás og yfirfall um klapparholt við hlið stíflunnar. Ný mannvirki muni því hafa óveruleg áhrif á víð­ernisupplifun þeirra sem fari um svæðið. Víðerni á svæðinu hafi þegar orðið fyrir skerðingu vegna mannvirkis sem þar sé. Þá liggi þegar vegslóði upp að leitarhúsi, við bakka Hvanneyrarár og ekki skipti máli þótt slóðinn sé ekki í vegaskrá samkvæmt 32. gr. laga nr. 60/2013.

Athugasemdir landeiganda: Af hálfu annars landeigenda er vísað til þess að ákvörðunartaka Skipulags­stofnunar hvíli á góðum grundvelli og vandaðri málsmeðferð í samræmi við 20. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Fyrirhuguð framkvæmd varði lón sem verði innan við 20% af því umfangi sem löggjafinn hafi kveðið á um að kalli ætíð á umhverfismat skv. gr. 10.11 í 1. viðauka við lög nr. 111/2021, en slík viðmið séu sett með varúðarreglu í huga. Skipulagsstofnun beri að taka matsskylduákvörðun hvað sem líði stöðu kortlagningar víðerna, enda skuli stofnunin meta hvort fram­kvæmd sé líkleg til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif. Þýðing náttúruverndarlaga og verndarmarkmiða þeirra komi fremur til um­fjöllunar við skipulagsgerð og ákvarðanatöku um framkvæmdaleyfisumsóknir, sbr. t.d. 61. og 68. gr. laganna.

Í hinni kærðu ákvörðun sé fjallað um mögulega matsskyldu vegna staðsetningar framkvæmdar. Sérstaklega sé fjallað um stöðu þess svæðis sem falli undir sértækustu verndarhagsmunina samkvæmt náttúruverndarlögum, þ.e. flokkun mikilvægs svæðis fyrir himbrima og álft. Það standist ekki skoðun að það leiði til ógildingar þótt ekki hafi sérstaklega verið minnst á stöðu svæðisins sem óbyggðra víðerna en framkvæmdaraðili hafi vísað til svæðisins sem víðerna við meðferð málsins.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi telur gagnrýnivert að Skipulagsstofnun geti verið ósammála faglegu mati Náttúrufræðistofnunar Íslands um nauðsyn þess að umhverfis­mat fari fram vegna mikillar og fyrirsjáanlegrar skerðingar á votlendi og óbyggðum víðernum. Þá virðist sem ákvæði laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála hafi ekki komið skoðunar.

Fyrirmæli laga um skyldu Skipulagsstofnunar til að líta til staðsetningar og þá einkum m.t.t. verndarsvæða sem falli undir 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd og víðerna, sem verndarmarkmið 3. gr. laganna nái til, verði ekki sniðgengin. Ekki hafi farið fram nein fagleg vinna á vettvangi Umhverfisstofnunar við kortlagningu á óbyggðum víðernum samkvæmt lögum nr. 60/2013. Náttúrufræðistofnun hafi útbúið svonefnt tilgátukort um óbyggð víðerni samkvæmt gildandi lagaákvæðum, þótt það hafi ekki bindandi lagalegt gildi og sé það að finna á kortasjá stofnunarinnar. Í rannsóknarvinnu sem kærandi hafi látið fara fram hafi komið í ljós að verði af framkvæmdinni mundi víðerni skerðast umtalsvert.

Með þessu vísaði kærandi til eigin samantektar um álit erlends sérfræðings og kemur þar fram að sá hafi sérhæft sig í kortlagningu óbyggðra víðerna samkvæmt m.a. viðmiðum Alþjóðanáttúruverndarráðsins, IUCN. Fram kemur að sérfræðingurinn hafi útbúið kort og grófreiknað skerðingu víðerna á Laxárdalsheiði fyrir og eftir ráðgerðar framkvæmdir. Með samantektinni fylgdu uppdrættir í grófri upplausn og yfirlitstafla. Af þeim gögnum má ráða að „kjarna“ víðernasvæði á Laxárdalsheiði muni samkvæmt þessu skerðast um 37,3% og „jaðar- og hjúpsvæði“ ásamt „ekki villtum“ svæðum stækka á móti.

Kærandi hefur gert ítarlegri grein fyrir máli sínu sem verður ekki rakið nánar hér, en úrskurðarnefndin hefur haft þá málafærslu til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er kærð ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 12. apríl 2023 um að vatns­miðlun í Hvanná á Laxárdalsheiði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum, þar sem framkvæmdin væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Kæruheimild er í a-lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

 Það er skilyrði kæruaðildar að málum fyrir nefndinni að kærandi eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Er það í samræmi við þá meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eiga einstaklingsbundna og verulega hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Á hinn bóginn teljast umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök eiga lögvarinna hagsmuna að gæta fyrir nefndinni að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, sbr. nánar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Kærandi nýtur aðildar að máli þessu á þeim grundvelli, en af gögnum sem nefndin hefur kynnt sér uppfyllir hann skilyrði 4. mgr. 4. gr. sömu laga sem umhverfisverndar- eða útivistar- og hags­muna­samtök.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. Hin kærða ákvörðun Skipulags­stofnunar lá fyrir 12. apríl 2023 og var frétt um hana birt á vefsíðu Skipulagsstofnunar þann sama dag. Var hún jafnframt auglýst í Morgun­blaðinu hinn 19. s.m. Mátti kæranda vera kunnugt um hina kærðu matsskylduákvörðun frá fyrstu opinberu birtingu hennar en kæra í málinu barst hinn 22. maí 2023, en þá var kærufrestur til nefndarinnar liðinn, samkvæmt framansögðu.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um áhrif þess að kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnis­með­ferðar. Tiltekið er í athugasemdum með 28. gr. í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum að við mat á því hvort skilyrði séu til að taka mál til meðferðar að loknum kærufresti þurfi að líta til þess hvort aðilar að málinu séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni. Sé svo sé rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kærufresti í algjörum undantekningar­til­vikum. Fram kemur í athugasemdum með 2. mgr. 4. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar sé styttri en almennur kærufrestur stjórn­sýslu­laga. Brýnt sé að ágreiningur um form eða efni ákvörðunar verði staðreyndur sem fyrst og áréttað í því samhengi að eftir því sem framkvæmdir séu komnar lengra áður en ágreiningur um þær verði ljós skapist meiri hætta á óafturkræfu tjóni af bæði umhverfislegum og fjárhags­legum toga.

Ljóst er að úrlausn kærumáls þessa varðar ekki aðeins hagsmuni kæranda, skv. 2. málslið 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, heldur einnig framkvæmdaraðila. Ekki verður þó litið framhjá því að þær leiðbeiningar sem Skipulagsstofnun veitti við birtingar hinnar kærðu ákvörðunar, þ.e. um að kærufrestur væri til 22. maí 2022, voru ekki í samræmi við ákvæði laga nr. 130/2011. Með hliðsjón af því að kæra barst innan þess kærufrests sem Skipulagsstofnun tilgreindi í hinni kærðu ákvörðun og að fyrirhugaðar fram­kvæmdir eru enn á undirbúningsstigi, verður að telja afsakanlegt að kæra hafi ekki borist fyrr. Verður kæra á mats­skyldu­ákvörðun Skipulags­stofnunar því tekin til efnismeðferðar.

Hinn 7. febrúar 2022 voru áform framkvæmdaraðila um vatnsmiðlun í Hvanná á Laxárdalsheiði tilkynnt Skipulagsstofnun til ákvörðunar um matsskyldu skv. 2. mgr. 19. gr. laga nr. 111/2021 sem framkvæmd í flokki B, sbr. lið 10.12 í 1. viðauka við lögin. Falla þar undir stíflur og önnur mannvirki eða breytingar á árfarvegi til að hemja og/eða miðla vatni þar sem framkvæmdarsvæði er a.m.k. 1 ha utan þess sem tilgreint sé í tölulið 10.11, en samkvæmt lið 10.11 eru í flokki A stíflur og önnur mannvirki eða breytingar á árfarvegi til að hemja og/eða miðla vatni þar sem 3 km2 lands eða meira fara undir vatn eða rúm­tak vatns er meira en 10 miljónir m3.

Lög nr. 111/2021 gera ráð fyrir því að framkvæmdaraðili afli og leggi fram á viðhlítandi hátt upplýsingar um framkvæmd og líkleg umtalsverð umhverfisáhrif hennar, sbr. 2. mgr. 19. gr. laganna. Þá er í 9. gr. reglugerðar nr. 1381/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana nánar kveðið á um efni tilkynningar framkvæmdar í flokki B. Hlutverk Skipulagsstofnunar er svo að taka ákvörðun um hvort framkvæmdin skuli háð umhverfis­mati samkvæmt lögunum. Mat stofnunarinnar hlýtur eðli máls samkvæmt að lúta að því að sannreyna gildi gagna og gæði þeirra. Í þeim tilgangi skal stofnunin leita álits umsagnaraðila, áður en ákvörðun um matsskyldu er tekin, sbr. 1. mgr. 20. gr. laganna, en til þeirra teljast opinberar stofnanir, stjórnvöld eða aðrir lögaðilar sem sinna lögbundnum verkefnum sem varða framkvæmdir og/eða áætlanir sem falla undir lögin eða umhverfisáhrif þeirra. Þá ber Skipulagsstofnun jafnframt að gæta þess að full­nægjandi gögn hafi verið lögð fram og hvílir á stofnuninni sú skylda að upplýsa málið að því marki að hún geti komist að efnislega réttri niðurstöðu.

Í tilkynningu framkvæmdaraðila var fyrirhugaðri framkvæmd lýst og kom m.a. fram að lónið yrði um 0,58 km2 að flatarmáli og um 1,85 miljón m3 að rúmmáli. Þá voru sýndar myndir af svæðinu, bæði ljósmyndir og uppdrættir, þar sem staðsetning fyrirhugaðrar stíflu var sýnd. Þó verður ekki séð að lagður hafi verið fram hnitsettur uppdráttur sem sýndi staðsetningu fyrirhugaðrar framkvæmdar, mörk framkvæmdasvæðis og mannvirki sem fyrir séu á svæðinu, líkt og mælt er fyrir um í b-lið 1. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 1381/2021, sbr. g-lið 2. mgr. 33. gr. laga nr. 111/2021. Úr því var þó að nokkru bætt í úttekt sem framkvæmdaraðili lét vinna um áhrif fyrirhugaðrar stíflu á fiskistofna Hvannár en þar eru í töflu sýnd hnit fyrirhugaðrar framkvæmdar, þ.e. stíflu og lóns. Staðhættir eru sýndir í tilkynningu og er ljóst að leitarhús það sem fyrir er á svæðinu mun verða við bakka hins ráðgerða lóns, en mun ekki fara undir það samkvæmt upplýsingum frá framkvæmdaraðila. Telja verður að ástæða hefði verið til að gera betur grein fyrir staðsetningu hins fyrirhugaða lóns gagnvart leitarhúsinu.

Við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar leitaði Skipulagsstofnun nánar tiltekinna umsagna skv. 1. mgr. 20. gr. laga nr. 111/2021, þar sem leitað var álits umsagnaraðila á tilkynningu framkvæmdaraðila og hvort hún skyldi lúta mati á umhverfisáhrifum. Kærandi hefur gert bendingu um að í lögum sé ekki mælt fyrir um heimild Skipulagsstofnunar til að afla umsagna umsagnaraðila tvisvar sinnum svo sem var raunin í máli þessu sem að framan er rakið. Stjórnvaldi ber, að eigin frumkvæði, að sjá til þess að nauðsynlegar og réttar upp­lýsingar liggi fyrir þannig að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í máli, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður því ekki gerð sérstök athugasemd við þessa málsmeðferð. Í 1. gr. laga nr. 111/2021 er gerð grein fyrir markmiðum laganna og er eitt þeirra að almenningur hafi aðkomu að umhverfismati framkvæmda og áætlana. Um leið gera lögin fyrst og fremst ráð fyrir að samráð við almenning fari fram við málsmeðferð matsskyldra framkvæmda eða áætlana, áður en leyfi er veitt fyrir þeim. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir slíku samráði við matsskylduákvörðun, enda fer samráð þá fram á síðari stigum verði framkvæmd álitin matsskyld.

Samkvæmt 18. gr. laga nr. 111/2021 ræðst matsskylda framkvæmda sem tilgreindar eru í flokki B í 1. viðauka við lögin af því hvort framkvæmd geti haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar. Í 2. viðauka við lögin eru þeir þættir sem líta ber til við það mat taldir upp í þremur töluliðum, þ.e. eðli framkvæmdar, staðsetningu og eiginleika hugsanlegra áhrifa hennar. Undir hverjum tölulið eru svo fjöldi annarra liða. Eðli máls samkvæmt fer það eftir þeirri framkvæmd sem ákvörðunin snýst um hverjir þeirra liða vega þyngra en aðrir við mat Skipulagsstofnunar á því hvort umhverfis­áhrif framkvæmdar teljist umtalsverð, en það að framkvæmd falli undir einhverja þeirra leiðir þó ekki sjálfkrafa til matsskyldu.

Í niðurstöðukafla hinnar kærðu ákvörðunar er fjallað heildstætt um eiginleika hugsanlegra áhrifa framkvæmdarinnar með hliðsjón af þeim viðmiðum sem tilgreind eru í 2. viðauka laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Dregur stofnunin þar um leið saman niðurstöður sínar varðandi eðli og staðsetningu framkvæmdarinnar. Um áhrif framkvæmdarinnar kemur fram að þau beri að skoða í ljósi eðlis og staðsetningar hennar, svo sem með tilliti til umfangs, eðlis, styrks og fjölbreytileika áhrifa, hverjar líkur séu á áhrifum, tímalengdar, tíðni og afturkræfni áhrifa og möguleika á að draga úr áhrifum. Fram kemur að bygging stíflu og miðlun úr lóni raski náttúrulegu rennsli auk þess að hafa áhrif á setflutninga. Það séu líkur á að tæming á lóni leiði til gruggs og tímabundinna breytinga á styrk súrefnis í vatni neðan stíflu með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á lífríki. Þar sem gera megi ráð fyrir að lónið verði tæmt flest sumur er talið líklegt að áhrif slíkra atburða verði takmörkuð. Í lónstæðinu sjálfu megi síðan gera ráð fyrir neikvæðum áhrifum á vatnalíf sem aðlagað sé lífi í straumvatni. Því megi gera ráð fyrir tapi á búsvæðum urriða og hornsíla á þeim kafla Hvannár sem fari undir lón.

Hvað staðsetningu framkvæmdarinnar varðar, þ.e. hversu viðkvæmt framkvæmdasvæðið er með tilliti til landnotkunar, magns, aðgengileika og gæða náttúruauðlinda, verndarsvæða og álagsþols náttúrunnar er vísað til þess að fyrirhuguð mannvirki og lón eru innan svæðis sem skilgreint hefur verið sem mikilvægt fuglasvæði vegna alþjóðlegs mikilvægis fyrir himbrima og álft. Þar sé mikið af vötnum og öðru votlendi en vegna mikilvægis fyrir fugla hafi svæðið verið tilnefnt á B-hluta náttúruminjaskrár. Ekki séu þó álitnar forsendur fyrir varpi himbrima í lónstæðinu, en mögulegt sé að álft verpi í votlendi sem fer undir lón. Vettvangsathuganir hafi staðfest álftir á svæðinu en ekki sé ljóst hvort fuglinn verpi í lónstæðinu. Hafi framkvæmdin í för með sér skerðingu á tæplega 15 ha af votlendi. Að mati Skipulagsstofnunar verði áhrif á fugla minni háttar. Rakið er einnig að setmyndun verði óhjákvæmilega af lóninu og fok lausra jarðefna, en það ráðist af þeim tíma sem lónið muni standa lágt, en gera megi ráð fyrir að slíkt ástand standi skammt yfir. Þá tekur Skipulagsstofnun í niðurstöðukaflanum undir það sem fram komi í umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands um að framkvæmdaraðila verði gert skylt að setja fram áætlun um vöktun á árangri af framkvæmd og áætlun um að koma svæðinu til fyrra horfs reynist árangur ekki viðunandi. Jafnframt er ljóst af málsgögnum að það votlendi sem kann að skerðast verði af framkvæmdum er undir viðmiðunarmörkum a-liðs 1. mgr. 61. gr. laga nr. 60/2013 um stærð votlenda sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt ákvæðinu.

Svo sem að framan er rakið hafa verið færð fram sjónarmið í máli þessu um að Skipulagsstofnun hafi í hinni kærðu ákvörðun ekki tekið nægilega afstöðu til áhrifa ráðgerðra framkvæmda á óbyggð víðerni. Hugtakið „óbyggð víðerni“ er skilgreint í 19. tölulið 5. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd þannig að til þeirra teljast svæði í óbyggðum sem sé að jafnaði a.m.k. 25 km2 að stærð eða þannig að hægt sé að njóta þar einveru og náttúru án truflunar af mannvirkjum eða umferð vélknúinna farartækja og að jafnaði í a.m.k. 5 km fjarlægð frá mannvirkjum og öðrum tæknilegum ummerkjum, svo sem raflínum, orkuverum, miðlunar­lónum og uppbyggðum vegum. Gert er ráð fyrir því í 46. gr. laganna að friðlýsa megi slík svæði sem óbyggð víðerni. Þá er í 2. mgr. 73. gr. a. í lögunum gert ráð fyrir því að slík svæði verði kortlögð fyrir tilstilli stjórnvalda, en þeirri vinnu mun ekki vera lokið. Í 2. viðauka við lög nr. 111/2021 er mælt fyrir um að meta skuli áhrif af staðsetningu framkvæmda á „ósnortin“ en ekki „óbyggð“ víðerni. Af almennum málskilningi mætti ætla að meiningarmunur geti falist í þessu. Við nánari athugun virðist hugtakið „ósnert víðerni“ arfleifð frá eldri lögum um náttúruvernd nr. 44/1999, þar sem það kom fyrir, en var þá skilgreint með mjög líkum hætti og hugtakið „óbyggð víðerni“ í gildandi lögum sama efnis. Verða því ekki dregnar verulegar ályktanir um þennan mun á orðalagi.

Til nánari skýringar má vísa til skýrslu þriggja sérfræðinga sem unnin var fyrir Skipulagsstofnun og Áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða árið 2017, en þar kemur fram sá skilningur að friðlýsingarflokkurinn „óbyggð víðerni“ í lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd svari til flokks Ib í flokkunarkerfi IUCN, Alþjóðanáttúruverndarsambandsins (e. wilderness). Fram kemur í skýrslunni að þótt verndun víðerna hafi verið samofin hugmyndafræði náttúruverndar nánast frá upphafi sé flokkurinn sjálfur ekki ýkja gamall því hann hafi fyrst verið tekinn upp í flokkunarkerfi IUCN árið 1994. IUCN hafi árið 2016, gefið út fyrstu leiðbeiningar sínar sem lúti sérstaklega að stjórnun verndarsvæða í þessum friðlýsingarflokki. Með verndun slíkra svæða sé ekki verið að loka þeim algerlega fyrir umgengni manna, heldur leitast við að fyrirbyggja nýtingu eða umbreytingu sem rýri víðernisgæði og gangi þannig gegn forsendum og markmiðum verndunar. Í skýrslunni er bent á að grunnorðið sem löggjafinn hafi ákveðið á sínum tíma að nota, þ.e. víðerni, rími ekki alls kostar við þetta þar sem víðerni sé skilið sem „mikil víðátta, rýmd“ eða „vídd“ meðan hið alþjóðlega hugtak felist í varðveislu hins villta (e. wild) í náttúrunni. (Þorvarður Árnason, David Ostman og Adam Hoffritz: „Kortlagning víðerna á miðhálendi Íslands: Tillögur að nýrri aðferðafræði.“ Háskóli Íslands – Rannsóknasetur á Hornafirði. 2017).

Umfjöllun Náttúrufræðistofnunar um skerðingu óbyggðra víðerna vegna framkvæmdanna gaf Skipulagsstofnun sérstakt tilefni til þess að fjalla um staðsetningu þeirra með tilliti til þess. Það var ekki gert beinum orðum, en hjá því verður þó ekki litið að stofnunin fjallar um staðsetningu framkvæmdanna með tilliti til ásýndaráhrifa eða upplifunar. Þar er rakið að vegslóði liggi upp að leitarhúsi, litlum kofa við bakka Hvanneyra sem sé að öllu jöfnu ekki notaður lengur. Helst megi gera ráð fyrir að fólk á göngu eða við veiðar verði fyrir sjónrænum áhrifum vegna stíflu og lóns en utan leitar­kofa sem standi við svæðið séu þar engin mannvirki. Þá kemur fram að ásýndaráhrif verði í lágmarki þar sem um jarðvegsstíflu sé að ræða sem verði þannig úr garði gerð að hún falli sem best að landinu. Í umsögn Skipulagsstofnunar til nefndarinnar er nánar bent á að ekki verði séð hvernig jarðvegsstífla og miðlunarlón sem um ræði í málinu geti falið í sér það mikla skerðingu á óbyggðu víðerni að um umtalsverð umhverfisáhrif geti verið að ræða, en um það hafi ekki verið færð viðhlítandi rök í umsögn Náttúrufræðistofnunar. Muni mannvirkin hafa óveruleg áhrif á víðernisupplifun þeirra sem fari um svæðið. Með hliðsjón af þessum skýringum telur úrskurðarnefndin að þessi annmarki sé ekki svo verulegur að varðað geti ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Verði af hinni ráðgerðu framkvæmd er hún háð tilteknum leyfum, þ. á m. leyfi til vatnsmiðlunar samkvæmt vatnalögum nr. 15/1923 og framkvæmdaleyfi sveitarfélags. Hafa þar til bærar stofnanir því ekki tekið ákvarðanir um hvort framkvæmdin uppfylli öll skilyrði til útgáfu þessara leyfa. Vegna athugasemdar kæranda um lög nr. 36/2011 um stjórn vatnamála má þannig benda á að lýsing framkvæmdarinnar ber með sér að 3. mgr. 28. gr. þeirra laga geti haft þýðingu við leyfisveitingu, en þar segir að við afgreiðslu umsóknar um leyfi til nýtingar vatns og við aðra leyfisveitingu til framkvæmda á grundvelli vatnalaga, laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu og um leyfi á grundvelli skipulagslaga og laga um mannvirki, skuli tryggja að leyfi sé í samræmi við þá stefnumörkun um vatnsvernd sem fram komi í vatnaáætlun.

Að virtu öllu framangreindu er það mat úrskurðarnefndarinnar að Skipulagsstofnun hafi við ákvörðunar­töku sína litið með viðhlítandi hætti til viðeigandi viðmiða 2. viðauka laga nr. 111/2021. Verður og ekki annað ráðið en að fyrir stofnuninni hafi legið nauðsynlegar upplýsingar um framkvæmdina og forsendur hennar sem hún gat reist ákvörðun sína á. Viðurkennt var m.a. að áhrif á fuglalíf væru nokkur og að hætta væri á aurmyndun og uppblæstri frá lóni. Auk þess væru líkur á að tæming á lóni leiddi til gruggs og tímabundinna breytinga á styrk súrefnis í vatni neðan stíflu. Þá muni fram­kvæmdin breyta ásýnd svæðisins og þar á meðal víðernisupplifun. Loks tók Skipulags­stofnun undir það í niðurstöðum sínum, sem fram kom í umsögn Náttúrufræðistofnunar að framkvæmdaraðila verði gert skylt að setja fram áætlun um vöktun á árangri af framkvæmd og áætlun um að koma svæðinu til fyrra horfs reynist árangur ekki viðunandi. Þrátt fyrir þetta væri ekki slíkum áhrifum til að dreifa að framkvæmdin yrði álitin hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif með tilliti til eðlis, umfangs og staðsetningar hennar. Verður því áliti ekki hrundið af úrskurðarnefndinni í máli þessu.

Að öllu framangreindu virtu verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 12. apríl 2023 um að vatnsmiðlun í Hvanná í Dalabyggð skuli ekki háð mati á umhverfis­áhrifum.

112/2023 Skerðingsstaðir

Með

Árið 2023, mánudaginn 16. október, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 112/2023, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar frá 9. mars 2023 um að samþykkja deiliskipulag Skerðingsstaða í Grundarfjarðarbæ.

 Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. september 2023, er barst nefndinni sama dag, kæra landeigendur Mýrarhúsa í Grundarfjarðarbæ, þá ákvörðun bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar frá 9. mars 2023 að samþykkja deiliskipulag Skerðingsstaða í Grundarfjarðarbæ. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Grundarfjarðarbæ 28. september 2023.

Málsatvik og rök: Á fundi bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar 10. mars 2022 var samþykkt að auglýsa deiliskipulagstillögu fyrir Skerðingsstaði í Grundarfjarðarbæ. Tillagan var auglýst frá 20. júlí s.á. með athugasemdafresti til 14. september s.á. og bárust athugasemdir á kynningartíma, m.a. frá kæranda. Tillagan var samþykkt á fundi sveitarstjórnar 9. mars 2022 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 24. ágúst 2022. Í deiliskipulaginu er gert ráð fyrir hóteli í landi Skerðingsstaða.

Kærendur vísa m.a. til þess að fyrirhugaðar framkvæmdir samkvæmt umræddu deiliskipulagi muni hafa í för með sér verulega aukna hljóð-, ljós- og loftmengun vegna aukinnar umferðar ökutækja á svæðinu og hótelstarfseminnar sjálfrar. Ekki sé hægt að ætla annað en að hávaða- og ljósmengun vegna fyrirhugaðs hótels muni berast yfir á land kærenda og rýra verðmæti fasteignar kærenda. Þá muni fyrirhuguð hótelbygging hafa í för með sér umtalsverða sjónmengun. Deiliskipulagið fari í bága við stefnu og meginmarkmið Aðalskipulags Grundarfjarðarbæjar 2019-2039 og meginreglur laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Einnig séu ágallar á umhverfismati framkvæmdarinnar og rannsókn á áhrifum á nærumhverfið ófullnægjandi. Þá sé ekki gerð grein fyrir fyrirkomulagi fráveitu og umhverfisáhrifum vegna hennar. Jafnframt hafi ekki verið aflað leyfis Minjastofnunar í samræmi við ákvæði 21. og 22. gr. laga nr. 80/2012 um menningarminjar né heldur verið kannað hvort þörf sé á leyfi Fiskistofu til framkvæmdanna samkvæmt 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiðar.

Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi margsinnis komist að þeirri niðurstöðu að almennt sé ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varði gildi deiliskipulagsákvarðana. Meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar, sbr. 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Heimildarákvæði 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga og 3. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðrar ákvörðunar séu undantekning frá meginreglunni sem skýra beri þröngt. Því verði ríkar ástæður eða veigamikil rök að liggja til grundvallar ákvörðun um frestun réttaráhrifa. Í framkominni kæru séu ekki færð sérstök sjónarmið eða málsástæður fyrir því að fallast eigi á kröfu um frestun réttaráhrifa og því verði ekki séð á hvaða grundvelli víkja eigi frá þessari framkvæmd.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda séu þær hafnar eða yfirvofandi, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa.

Mál þetta snýst um gildi deiliskipulagsákvörðunar. Gildistaka deiliskipulags felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, s.s. veiting byggingar- eða framkvæmdaleyfis, sbr. 11. og 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna greindra leyfisveitinga er eftir atvikum unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 130/2011 enda framkvæmdir fyrst þá eftir atvikum yfirvofandi í skilningi 2. mgr. ákvæðisins. Að jafnaði er því ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestun réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana. Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og eðlis deiliskipulags­ákvarðana verður ekki séð að tilefni sé til að fallast á kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa hins kærða deiliskipulags.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa á grundvelli hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar.

90/2023 Þóroddsstaðir

Með

Árið 2023, mánudaginn 16. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Geir Oddsson auðlindafræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 90/2023, kæra á ákvörðun Sveitarfélagsins Ölfuss frá 29. júní 2023 um að deiliskipulag verði útbúið, lagt fram og samþykkt í tengslum við stofnun nýrrar lóðar og sameiningu hennar við aðra lóð.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

 Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. júlí 2023, er barst nefndinni sama dag kærir eigandi jarðarinnar Þóroddsstaðir 2 lóð 1, lnr. 222137 þá ákvörðun Sveitarfélagsins Ölfuss frá 29. júní 2023 að samþykkja umsókn kæranda um stofnun lóðar og sameiningu hennar við aðra lóð með þeim fyrirvara að lagt verði fram deiliskipulag fyrir breytingunni sem samræmist aðalskipulagi sveitarfélagsins. Þurfi deiliskipulagið að sýna fyrirkomulag uppbyggingar á sameinaðri lóð sem lagt yrði fyrir skipulags- og umhverfisnefnd sveitarfélagsins, samþykkt þar og tekið gildi. Þess er krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Ölfusi 18. ágúst 2023.

Málavextir: Kærandi í máli þessu gerði samkomulag við eiganda jarðarinnar Þóroddstaða 2, lnr. 171825, í Sveitarfélaginu Ölfusi um kaup á landskika úr jörðinni. Í samkomulaginu fólst að kaupandi bæri kostnað af stofnun sjálfstæðrar fasteignar á skikanum. Umsókn kæranda um stofnun fasteignar á þessum grundvelli var tekin fyrir á fundi skipulags- og umhverfisnefndar Ölfuss 7. júní 2023. Í fundargerð nefndarinnar segir að landeigandi óski eftir að stofna lóð og sameina hana annarri. Hugmyndin væri að gera deiliskipulag fyrir íbúðarlóðir á sameinaðri lóð í framtíðinni. Lóðin sem sótt sé um að stofna sé merkt 2C á uppdrætti og yrði síðar sameinuð Þóroddsstöðum 2, lóð 1. Var umsóknin samþykkt á fundi nefndarinnar með fyrirvara um að stofna mætti lóðina eftir að deiliskipulag sem samræmist aðalskipulagi sveitarfélagsins og sýni fyrirkomulag uppbygginga á sameinaðri lóð hafi verið lagt fyrir nefndina, samþykkt þar og tekið gildi. Var ákvörðunin staðfest á fundi bæjarstjórnar Ölfuss 29. júní s.á.

Málsrök kæranda: Kærandi kveðst ekki sætta sig við skilyrði um að deiliskipuleggja þurfi stofnun landskikans með tilheyrandi kostnaði. Samkvæmt aðalskipulagi séu bæði jörðin og landskikinn á landbúnaðarsvæði og ekki standi til að framkvæma eða breyta neinu á landskikanum. Það eina sem kæmi til með að breytast væri landamerki. Engar forsendur í lögum styðji það að deiliskipuleggja þurfi stofnun landskika. Sé því óskiljanlegt hvaða tilgangi það þjóni að krefjast deiliskipulags þar sem síðar standi til að sameina núverandi land kaupandans við landskikann.

Með hinni kærðu ákvörðun hafi meðalhófsregla 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verið sniðgengin. Samkvæmt fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar, dags. 7. júní 2023, hafi verið búið að snúa málinu á þann veg að fyrirhugað væri að skipuleggja íbúðabyggð á svæðinu. Sá misskilningur hafi verið leiðréttur, en skipulagsyfirvöld hafi ekki talið það breyta forsendum ákvörðunarinnar.

 Málsrök Sveitarfélagsins Ölfuss: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til 1. mgr. 6. gr. jarðalaga nr. 81/2004 eins og þeim var breytt með lögum nr. 53/2021. Þar segi að skipting lands á landbúnaðarsvæðum, sbr. 48. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, skuli samrýmast skipulagsáætlun. Samkvæmt 48. gr. skipulagslaga sé óheimilt að skipta jörðum, löndum, lóðum eða breyta landamerkjum og lóðamörkum nema samþykki sveitarstjórnar komi til.

Skilningur sveitarfélagsins sé að með skipulagsáætlun í 6. gr. jarðalaga sé átt við deiliskipulag. Því fari sveitarfélagið fram á að við skiptingu lands eða sameiningu lands sé lagt fram deiliskipulag sem sýni fyrirhugaðar breytingar. Sé slíkt mikilvægt til þess að unnt sé að meta áhrif stofnunar lóða eða samruna, m.a. á notkun lands sem landbúnaðarlands, sem og aðkomu að nýjum lóðum. Kærandi hafi beint fyrirspurn til Skipulagsstofnunar varðandi málið sem svarað hafi verið með tölvupósti 22. júní 2023. Í svarinu vísi lögfræðingur stofnunarinnar til 6. gr. jarðalaga og segi að samkvæmt ákvæðinu þurfi skipting lands að vera í samræmi við skipulagsáætlun. Sé ekki fyrir hendi deiliskipulag á því svæði sem landskikinn tilheyri þurfi að gera deiliskipulag.

Með vísan til framangreinds telji sveitarfélagið sig hafa við meðferð málsins farið eftir þeim skilyrðum sem sett séu samkvæmt skipulagslögum og jarðalögum með því að kalla eftir því að landeigandi leggi fram deiliskipulag svæðisins eins og það verði eftir stofnun nýrrar fasteignar. Þessu verklagi hafi verið fylgt eftir frá því breyting var gerð á jarðalögum. Ekki sé um mismunun að ræða heldur sé sveitarfélagið að vinna eftir lögum.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Ítrekað er að ekki standi til að framkvæma nokkuð á landinu sem um sé að ræða. Fram komi í 6. gr. jarðalaga að skipting lands skuli samrýmast skipulagsáætlun. Samkvæmt lögunum skiptist skipulag í aðalskipulag, deiliskipulag og svæðisskipulag. Í gildandi aðalskipulagi fyrir svæðið sé það flokkað sem landbúnaðarsvæði og ekkert í framangreindum lögum kveði á um skyldu til að deiliskipuleggja það.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar sveitarstjórnar sveitarfélagsins Ölfuss að deiliskipulag verði útbúið, lagt fram og samþykkt í tengslum við stofnun nýrrar lóðar og sameiningu hennar við aðra lóð.

Samkvæmt 48. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er óheimilt að skipta jörðum, löndum eða lóðum eða breyta landamerkjum og lóðamörkum nema samþykki sveitarstjórnar komi til. Í máli þessu er afstaða sveitarstjórnar til landskipta byggð á 6. gr. jarðalaga, en þar eru sérstök skilyrði sett fyrir landskiptum á landbúnaðarsvæðum. Nánar tiltekið segir þar að skipting lands á landbúnaðarsvæðum, sbr. 48. gr. skipulagslaga, skuli samrýmast skipulagsáætlun, en samkvæmt Aðalskipulagi Ölfuss 2020–2036 er jörðin Þóroddsstaðir 2 á skilgreindu landbúnaðarsvæði. Þá er í svörum sveitarfélagsins vísað til stjórnsýsluframkvæmdar sem skilja verður svo að ávalt sé krafist deiliskipulags við stofnun og eða sameiningu lóða á landbúnaðarsvæðum í sveitarfélaginu.

Af hálfu sveitarstjórnar hefur við meðferð þessa máls verið lýst þeirri áherslu að mikilvægt sé að við skiptingu lands eða sameiningu sé lagt fram deiliskipulag sem sýni breytingar svo að unnt sé að meta áhrif stofnunar eða samruna m.a. á notkun lands sem landbúnaðarlands sem og aðkomu að nýjum lóðum o.fl. Rök sveitarfélagsins eru að þessu leyti í samræmi við þær áherslur sem greinir í skýringum með lögum nr. 85/2020 og 53/2021 sem vörðuðu fyrirmæli þau sem nú eru 6. gr. jarðalaga nr. 81/2004. Varða þær áherslur mikilvægi þess að skipulagsákvörðun liggi fyrir samhliða eða áður en beiðni um landskipti eða sameiningu jarða er afgreidd þannig að komið sé í veg fyrir að möguleikar til að stýra landnýtingu og þróun byggðar með skipulagi skerðist, sem geti gerst ef landareignir og lóðir eru festar í sessi áður en skipulag er unnið. Í skýringum með lögunum nr. 85/2020 var tilgangi þessara breytinga m.a. lýst þannig að stefnt væri að því að jarðalög yrðu landbúnaðarpólitískt verkfæri í höndum sveitarstjórna þannig að markmiðum þeirra yrði fylgt eftir við töku ákvarðana um landnotkun.

Við töku hinnar kærðu ákvörðunar studdist sveitarfélagið Ölfuss við álit Skipulagsstofnunar varðandi túlkun á 1. mgr. 6. gr. jarðalaga. Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér álitið. Að áliti nefndarinnar var það afdráttarlausara en efni stóðu til í ljósi þess að skipulagsáætlanir sveitarfélaga skiptast í þrjá flokka skv. 19. tl. 2. gr. skipulagslaga, þ.e. svæðisskipulag, aðalskipulag og deiliskipulag. Af þessu tilefni má einnig vísa til 2. mgr. 6. gr. jarðalaga þar sem segir að við beiðni um skiptingu eða sameiningu lands á landbúnaðarsvæðum sé sveitarstjórn heimilt að krefjast þess að umsækjandi geri grein fyrir áhrifum hennar á búrekstrarskilyrði. Ekki er tekið fram í greininni að krafa um slíkan rökstuðning sé háð gerð deiliskipulags. Þá er í sömu málsgrein sett fram það markmið að ákvörðun sveitarstjórnar um hvort fallist verði á landskipti skuli reist á heildstæðu mati á áhrifum þeirra samkvæmt skipulagsáætlun. Með vísan til þessara fyrirmæla hefði verið rétt af sveitarfélaginu að meta nánar hvað fælist í áformum kæranda með hliðsjón af aðalskipulagi sveitarfélagsins og valdheimildum 6. gr. jarðalaga í stað þess að gera það að ófrávíkjanlegu skilyrði við afgreiðslu umræddrar umsóknar kæranda að fyrir lægi samþykkt deiliskipulag fyrir hina sameinuðu lóð.

Að því virtu og með vísan til framanrakins verður að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Úrskurðarorð: 

Felld er úr gildi ákvörðun Sveitarfélagsins Ölfuss frá 29. júní 2023 um að samþykkja umsókn um stofnun lóðar og sameiningu hennar við aðra lóð með þeim fyrirvara að lagt verði fram deiliskipulag fyrir breytingunni sem samræmist aðalskipulagi sveitarfélagsins.

108/2023 Njálsgata

Með

Árið 2023, þriðjudaginn 3. október, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 108/2023, kæra á afgreiðslu skrifstofu stjórnsýslu og gæða á umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar varðandi not kæranda af hluta lóðar sinnar fyrir bílastæði.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. september 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Njálsgötu 54, Reykjavík, þá ákvörðun Reykjavíkurborgar sem fram komi í tölvupósti frá sveitarfélaginu 22. ágúst 2023 um að synja honum um að nýta bílastæði á lóð Njálsgötu 54. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til kröfu um frestun réttaráhrifa. Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 25. september 2023.

Málsatvik og rök: Á lóðinni Njálsgötu 54 stendur einbýlishús sem verið hefur í eigu kæranda í á þriðja áratug. Í greinargerð á uppdrætti gildandi deiliskipulags fyrir umrætt svæði frá árinu 2013 kemur fram að ekki sé gert ráð fyrir bílastæðum innan lóða.

Fyrir hönd byggingarfulltrúans í Reykjavík var kæranda 13. júlí 2023 sent bréf með yfirskriftinni „Efni: Njálsgata 54 – Óleyfisframkvæmd“. Kom þar fram að ábending hefði borist þess efnis að búið væri að útbúa innkeyrslu frá Njálsgötu inn á lóð nr. 54 við götuna, ásamt því að gulmerkja kant og almenn bílastæði í götu. Kæranda var gert að láta af akstri inn á lóðina og lagningu bifreiða og ennfremur að loka fyrir innakstur. Var kæranda veittur 14 daga frestur til að koma að andmælum sem hann og gerði. Þá kom fram að yrði þessum tilmælum ekki sinnt yrði tekin ákvörðun um framhald málsins með hliðsjón af ákvæðum  laga nr. 160/2010 um mannvirki og gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 sem gæti falið sér að ráðist yrði í úrbætur á kostnað eiganda eða mælt fyrir um dagsektir.

Hinn 22. ágúst 2023 barst kæranda tölvupóstur frá starfsmanni á skrifstofu stjórnsýslu og gæða á umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar þess efnis að ítrekuð væri sú krafa að hann léti af akstri inn á lóðina og var um leið tilkynnt að borgaryfirvöld hygðust fjarlægja gulmerkingar af götunni og gangstéttarkanti. Um leið var leiðbeint um að ákvörðunin væri kæranleg til úrskurðarnefndar- umhverfis og auðlindamála ásamt því að hann gæti kannað hjá skipulagsfulltrúanum í Reykjavík hvort unnt væri að breyta deiliskipulagi og fá bílastæðin með því samþykkt.

Af hálfu kæranda er vísað til þess að hann hafi allt frá árinu 1989 nýtt hluta lóðar sinnar sem bílastæði. Reykjavíkurborg hafi ekki gert við það athugasemdir og starfsmenn borgarinnar gulmerkt kant gangstéttar fyrir framan bílastæðið, sem hann hafi þó í fyrstu merkt að eigin frumkvæði, og með því viðurkennt rétt kæranda til að nýta umræddan lóðarpart með þessum hætti.

Borgaryfirvöld vísa til þess að ekki virðist um það deilt að tvö bílastæði á lóð nr. 54 við Njálsgötu hafi aldrei verið samþykkt af byggingar- eða skipulagsyfirvöldum borgarinnar. Þá sé fyrirkomulag lóðarinnar ekki í samræmi við samþykkta uppdrætti, sbr. gr. 4.3.1. og 4.4.4. í byggingarreglugerð. Ljóst sé að óheimilt sé að leggja bifreiðum inn á einkalóð ef skipulag geri ekki ráð fyrir því. Staðsetning bílastæðanna á lóðinni sé á þann veg að tvö skáhallandi almenningsstæði í götu séu ónothæf.

Niðurstaða: Fjallað er um hlutverk byggingarfulltrúa sveitarfélaga í lögum nr. 160/2010 um mannvirki og felst það m.a. í því að hafa eftirlit með því að mannvirki og notkun þeirra sé í samræmi við útgefin leyfi. Annast þeir eftirlit með mannvirkjagerð sem fellur undir 1. og 2. mgr. 9. gr. laganna, þ.e. byggingarleyfisskyldum framkvæmdum sem ekki heyra undir Húsnæðis og mannvirkja­stofnun, en sveitarstjórn ber ábyrgð á að stjórnsýsla og eftirlit byggingarfulltrúa sé í samræmi við ákvæði laganna, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 160/2010.  Samkvæmt 55. og 56. gr. laganna hafa þeir, og eftir atvikum Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, heimildir til að beita þvingunarúrræðum.

Líkt og fram kemur í málavaxtalýsingu var kæranda með bréfi dags. 13. júlí 2023 gert að láta af akstri inn á lóð sína og tilkynnt um hugsanlega beitingu þvingunarúrræða. Var og vísað til gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 þar sem kveðið er á um aðgerðir til að knýja fram úrbætur og sem er um flest samhljóða 56. gr. laga nr. 160/2010. Áskorun skv. 1. mgr. 56. gr. mannvirkjalaga er liður í undirbúningi mögulegrar ákvörðunar um beitingu þvingunarúrræða skv. 56. gr. en felur ekki í sér lokaákvörðun um beitingu þeirra. Verður sú ákvörðun því ekki ein og sér borin undir úrskurðarnefndina, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Hin kærða afgreiðsla í máli þessu var í formi tölvupósts frá starfsmanni skrifstofu stjórnsýslu og gæða á umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar, sem ekki verður jafnað við afgreiðslu valdbærs stjórnvalds.

Af fyrirliggjandi gögnum verður ekki ráðið að tekin hafi verið ákvörðun af byggingar­fulltrúanum í Reykjavík um hugsanlega beitingu þvingunar­úrræða í sam­ræmi við ákvæði 55. og 56. gr. laga nr. 160/2010. Liggur því ekki fyrir nein kæranleg ákvörðun í málinu sem bindur enda á málið í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

53/2023 Efnistaka í Hörgá

Með

Árið 2023, föstudaginn 29. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor. Geir Oddsson auðlindafræðingur tók þátt í gegnum fjarfundabúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 53/2023, kæra á ákvörðunum sveitarstjórnar Hörgársveitar frá 22. september 2022 um að samþykkja umsókn fyrir 100.000 m3 efnistöku á svæði E-9 í Hörgá, 27. ágúst 2020 um að samþykkja umsókn fyrir 85.000 m3 efnistöku á svæði E-6 í Hörgá og 26. október 2022 um að samþykkja ótiltekna heimild til efnistöku á svæði E-8 í Hörgá.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. apríl 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir Náttúrugrið, þær ákvarðanir sveitarstjórnar Hörgársveitar frá 22. september 2022 að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir 100.000 m3 efnistöku á svæði E-9 í Hörgá, 27. ágúst 2020 um að samþykkja 85.000 m3 efnistöku á svæði E-6 í Hörgá og 26. október 2022 um ótiltekna heimild til efnistöku á svæði E-8 í Hörgá. Er þess krafist að ákvarðanirnar verði felldar úr gildi. Jafnframt var gerð krafa um að framkvæmdir á svæði E-6 í Hörgá yrðu stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni, en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði uppkveðnum 26. maí 2023.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hörgársveit 5., 8. og 11. maí og 5. júní 2023.

Málavextir: Hörgá er u.þ.b. 44 km löng dragá sem rennur eftir Hörgárdal í Hörgársveit til sjávar. Stærð vatnasviðs Hörgár og hliðaráa hennar er áætlað um 700 km2. Kærandi kærði fimm ákvarðanir sveitarstjórnar um að samþykkja umsóknir um framkvæmdaleyfi vegna efnistöku úr Hörgá en með erindi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 8. maí 2023 féll kærandi frá kæru vegna tveggja þeirra ákvarðana. Með kæru í máli þessu er því skotið til nefndarinnar ákvörðunum sveitarstjórnar Hörgársveitar um samþykkja umsóknir um þrjú framkvæmdaleyfi, sem veitt voru þremur ólíkum félögum, til malartöku á grundvelli umhverfismatsskýrslu Hörgár sf. og álits Skipulagsstofnunar frá árinu 2015, en um er að ræða:

  1. Framkvæmdaleyfi G.V. Grafna ehf., dags. 1. október 2022, vegna 100.000 m3 efnistöku á svæði E-9 í Hörgá á tímabilinu 1. október 2022 til 31. desember 2023. Var málið tekið fyrir á fundi sveitarstjórnar Hörgársveitar 22. september 2022 og bókað í fundargerð að sveitarstjórn „samþykkti að framkvæmdaleyfið verði veitt, enda liggi fyrir skriflegt samþykki allra landeigenda áður en framkvæmdaleyfið er gefið út.“
  2. Framkvæmdaleyfi Skútabergs ehf., dags. 1. október 2022, fyrir 85.000 m3 efnistöku úr Hörgá á svæði E-6 samkvæmt aðalskipulagi. Erindið var samþykkt á fundi sveitarstjórnar Hörgársveitar 27. ágúst 2020 með þeim rökstuðningi að veiting framkvæmdaleyfis samræmdist aðalskipulagi. Einnig var bókað í fundargerð að endurnýjað leyfi frá Fiskistofu væri skilyrði. Gilti leyfið fyrir 85.000 m3 efnistöku og að henni skyldi lokið og efnið farið af svæðinu fyrir 1. október 2022. Ekki varð af framkvæmdum og var nýtt framkvæmdaleyfi gefið út, dags. 1. október 2022, án þess að málið væri tekið fyrir að nýju í sveitarstjórn.
  3. Framkvæmdaleyfi Nesbræðra ehf., dags. 4. nóvember 2022, fyrir 25.000 m3 efnistöku á svæði E-8 í Hörgá. Umsókn um framkvæmdaleyfi var tekin fyrir á fundi sveitar­stjórnar Hörgársveitar 26. október 2022 og samþykkti sveitarstjórn að framkvæmda­leyfi yrði veitt þegar skriflegt samþykki allra landeigenda sem ættu hlutdeild í svæði E8 lægi fyrir.

 Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að hinar kærðu ákvarðanir hafi ekki verið auglýstar í Lögbirtingablaði í samræmi við 4. mgr. 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og því sé kærufrestur ekki liðinn.

Hin kærðu framkvæmdaleyfi hafi verið gefin út án þess að lögbundið mat hafi farið fram á því hvort framkvæmdir væru til þess fallnar að umhverfismarkmið laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála næðust ekki, m.a. varðandi vatnshlotin Hörgá 1 102-1801-R, Fossá 102-1705-R, Hörgá 2 102-1702-R, Öxnadalsá 1 102-1793-R og Eyjafjörð 102-277-G. Samkvæmt vatnavefsjá sé vistfræðilegt ástand allra straumvatnshlotanna „mjög gott“ og umhverfismarkmið laganna séu því „mjög gott vistfræðilegt ástand“. Umhverfismatið frá árinu 2015 hafi leitt í ljós að framkvæmdirnar muni líklega hafa áhrif á eðli og þróun vatnsfalla og geti haft áhrif á lífríki í vatni. Fram komi í umhverfismatinu að Veiðimálastofnun, nú Hafrannsóknarstofnun, hafi talið óraunhæft að meta áhrif framkvæmda á veiði og lífríki á því stigi og því gæti stofnunin ekki mælt með slíkum verkefnum. Í matsskýrslu komi fram það álit stofnunarinnar að „ógerlegt [sé] að áætla fórnarkostnað við heildarframkvæmdina og efnistaka úr vatnsfalli ætti einungis að vera ásættanleg ef mjög miklir efnahags- og samfélagslegir hagsmunir eru í húfi“.

Í skýrslum Hafrannsóknarstofnunar komi fram að veiði á bleikju í Hörgá hafi dregist mikið saman á allra síðustu árum og hafi veiðin verið aðeins 146 fiskar sumarið 2021, en hafi áður verið að meðaltali yfir 900 bleikjur líkt og fram komi í fyrrnefndu umhverfismati. Ekki hafi verið aflað álits stofnunarinnar við veitingu framkvæmdaleyfanna. Með vísan til umhverfismatsins teljist komnar fram nægar líkur á að áhrif framkvæmda á vatnsgæði umræddra yfirborðsvatnshlota samrýmist ekki bindandi umhverfismarkmiðum 11. gr. laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála, svo sem þau verði skýrð með hliðsjón af tilskipun 2000/60/EB og fyrirliggjandi dómafordæmum um 4. gr. hennar. Því hafi sveitarstjórn verið óheimilt að veita hin kærðu framkvæmdaleyfi án undangengis mats á því, og eftir atvikum möguleikum á undanþágu frá bindandi umhverfismarkmiðum vegna knýjandi almannahagsmuna. Varúðarregla, greiðsluregla og reglan um vísindalegan grundvöll ákvarðana í náttúruverndar­lögum nr. 60/2013 styðji þá niðurstöðu.

Hvergi sé að finna vísbendingu í fundargerðum um að sveitarstjórn hafi lagt álit Skipulagsstofnunar til grundvallar ákvörðunum sínum um framkvæmdaleyfi. Þar sé ekki að finna rökstuðning fyrir leyfi svo sem skylt sé skv. 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga og 2. og 3. mgr. 27. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, sbr. áður rannsóknarskyldu, skyldu til að leggja til grundvallar og til greinargerðar eða rökstuðnings í samræmi við áskilnað 13. gr. laga nr. 106/2000. Leiðbeiningar, birtar á vefsvæði Hörgársveitar, hafi ekki lagastoð og komi ekki í stað lögbundinnar málsmeðferðar.

Í áliti Skipulagsstofnunar, dags. 4. júní 2015, hafi verið sett skilyrði um að tekið yrði á efnistöku í Hörgá með heildstæðum hætti í aðalskipulagi Hörgársveitar og það notað til að leggja línurnar um skipulag efnistöku. Sérákvæði um efnistöku í Hörgá og þverám hennar hafi verið sett í Aðalskipulag Hörgársveitar 2012–2024 en nú hafi því verið breytt, sbr. auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 19. febrúar 2021. Breytingarnar hafi verið gerðar að kröfu einstakra landeigenda, en ekki Hörgár sf. Í kjölfar þessara breytinga virðist sem efnistaka í Hörgá hafi farið úr böndum en fjöldaútgáfa framkvæmdaleyfa hafi átt sér stað frá því aðalskipulags­breytingin hafi tekið gildi.

Framkvæmd hins breytta aðalskipulags, um að við veitingu framkvæmda vegna efnistöku­svæða E2, E4, E6, E7, E8, E9, E10 og E11 skuli liggja fyrir umsögn Fiskistofu um sammögnunar­áhrif í stað þess að aðeins skuli liggja fyrir leyfi á einum stað í senn, virðist fara þvert gegn umhverfismatinu. Ógerningur sýnist einnig að framfylgja nýju ákvæði aðalskipulags um að efni skuli ekki hrúgað á bakka Hörgár á þann hátt að við háa vatnsstöðu skolist efni úr þeim aftur út í ánna, í stað þess að færa skuli það á stað fjarri bakkanum þegar í stað og því komi vinnuvélar ekki að ánni á veiðitíma, líkt og upphaflega hafi verið kveðið á um í aðalskipulaginu. Virðist því skilyrði Skipulagsstofnunar í umhverfismatinu fyrir borð borið með breyttu aðalskipulagi.

Ein meginforsenda í umhverfismati hafi verið að sameignarfélag landeigenda stæði að framkvæmdinni og er framkvæmdaraðili þar tilgreindur Hörgá sf. Um þetta hafi verið fjallað í áliti Skipulagsstofnunar. Hin kærðu framkvæmdaleyfi séu gefin út til annarra aðila og því stangist þau á við þessa forsendu. Samkvæmt samþykktum Hörgár sf. sé tilgangur félagsins allt annar en fram komi í umhverfismati. Þá stangist hinar kærðu ákvarðanir á við 2. og 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga þar sem ekki sé getið stærðar efnistökusvæðis, vinnsludýpis og gerðar efnis. Hvorki hafi verið leitað lögbundinnar umsagnar náttúruverndarnefndar né gengið úr skugga um samræmi við skipulag og náttúruverndarlög. Ákvarðanirnar uppfylli m.a. ekki áskilnað reglugerðar nr. 772/2012 um nákvæma tilgreiningu svæðis.

Í umsögn Orkustofnunar um frummatsskýrslu, dags. 16. febrúar 2015, komi fram hugleiðingar stofnunarinnar um þörf leyfisveitinga hennar skv. vatnalögum nr. 15/1923 og laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Þörf hafi verið á þeim leyfisveitingum áður en hægt hefði verið að veita hin kærðu framkvæmdaleyfi. Þannig virðist leyfi skv. 1. mgr. 75. gr. vatnalaga ekki hafa legið fyrir við ákvarðanir um framkvæmdaleyfi og heldur ekki nýtingarleyfi skv. 6. gr. laga nr. 57/1998.

Málsrök Hörgársveitar: Af hálfu sveitarfélagsins er þess krafist að kæru í máli þessu verði vísað frá eða kröfum kæranda hafnað. Kæranda skorti lögvarða hagsmuni til aðildar, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Hann eigi engin tengsl við hinar kærðu ákvarðanir og hafi því ekki lögvarða hagsmuni af kærunni. Í kæru sé hvergi rökstutt að skilyrði 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 séu uppfyllt. Aðild umhverfis-, útivistar- og hagsmunasamtaka skv. 3. og 4. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 sé undantekning frá þeirri almennu reglu stjórnsýsluréttar að aðeins þeir sem eigi einstaklegra, beinna og lögvarinna hagsmuna að gæta geti orðið aðilar að stjórnsýslumáli, sem verði því að túlka þröngt. Þá sé skilyrði 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um ætlað brot á þátttökurétti ekki uppfyllt.

Þá sé kærufrestur hinna kærðu ákvarðana liðinn. Þær hafi ekki verið auglýstar í Lögbirtingablaði en birtar á vefsíðu sveitarfélagsins. Einnig hafi umhverfismatsskýrsla frá apríl 2015 og álit Skipulagsstofnunar frá 4. júní 2015, sbr. ákvörðun Skipulagsstofnunar, dags. 4. september 2014, verið aðgengileg á vefnum síðan árið 2015. Verði því að líta svo á að birting hafi verið fullnægjandi. Auk þess séu framkvæmdir vel sýnilegar frá þjóðvegi og ættu ekki að dyljast þeim sem sýni þeim áhuga. Ákvæði 4. mgr. 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 gildi ekki um hinar kærðu ákvarðanir. Um sé að ræða aðskildar framkvæmdir, sem hver fyrir sig sé kærð í málinu, en engin þeirra sé matsskyld, sbr. gr. 2.01 í 1. viðauka við lög nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, þar sem matsskylda eigi aðeins við um efnistöku yfir 500.000 m3. Því þurfi ekki að birta þær opinberlega. Þó önnur viðmið kunni að hafa verið í tíð eldri laga nr. 106/2000 um umhverfismat framkvæmda þá verði að fjalla um kæru á grundvelli þeirra laga sem í gildi séu þegar kæra sé borin fram.

Öll efnistaka og leyfi séu í samræmi við skipulagslög nr. 123/2010, sbr. reglugerð um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012 og gildandi skipulag. Efnistakan sé í samræmi við umhverfismatsskýrslu frá apríl 2015 um efnistöku í Hörgá. Áhrif efnistöku séu í mörgum atriðum jákvæð að mati Skipulagsstofnunar, sbr. álit dags. 4. júní 2015, og heimili stofnunin fyrir sitt leyti efnistöku úr Hörgá á grundvelli matsskýrslunnar. Ekkert sé komið fram í málinu sem styðji að efnistakan sé ekki í samræmi við skipulag, umhverfismatsskýrslu, lög eða reglur, né að hagsmunum Hörgár, umhverfis hennar eða lífríki sé ógnað á nokkurn hátt. Aðeins hafi verið settar fram órökstuddar fullyrðingar um meint áhrif af flutningi efnis frá bökkum Hörgár sem séu meira í ætt við skoðanir en staðreyndir um atvik. Fullyrðingar um að minnkandi veiði megi að einhverju leyti tengja við efnistöku séu órökstuddar og fái enga stoð í rannsóknum eða athugunum og liggi ekkert fyrir um orsakatengsl. Fjölmargir aðrir þættir hafi áhrif á veiði og fiskafjölda, svo sem hitastig vatns og sjávar, heimilar veiðiaðferðir, fjöldi veiðidaga og ásókn og ástundun veiðimanna. Hörgá og aðrar ár í vatnakerfi hennar, eins og Öxnadalsá, séu nokkuð berskjaldaðar fyrir framburði vegna hlýinda sumarið í gegn og sé verðlagning veiðileyfa í ánni um áratugaskeið einn gleggsti mælikvarðinn á það að ástundun veiðimanna sé ef til vill stærsta breytan í því hver veiði sé í Hörgá, auk almennrar þróunar í veiði, en ekki efnistaka. Þó hin kærðu leyfi séu allt sjálfstæðar og aðskildar framkvæmdir hafi sveitarfélagið alltaf tekið mið af áhrifum á ánna í heild og telji sig hafa farið eftir umhverfismatsskýrslu.

Sameignarfélagið Hörgá sf. hafi staðið að öflun umhverfismatsins á sínum tíma. Landeigendur sem eigi rétt til efnistöku úr Hörgá hafi staðið að félaginu. Síðar hafi landeigendur ákveðið að slíta því samstarfi og sveitarfélagið keypt umhverfismatið, sbr. bókanir af fundum sveitarstjórnar, dags. 9. desember 2015, 17. mars 2016 og 20. apríl 2016, en það muni hafa verið til að draga úr beinu fjárhagstjóni Hörgár sf. af kostnaði við matið, en félagsmenn sjálfir skyldu bera kostnað af matinu væri ekki til fyrir því í sjóði. Kærandi haldi því fram í tölvupósti, dags. 9. maí 2023, að með því hafi grundvöllur umhverfismatsins liðið undir lok. Sveitarfélagið hafi alltaf litið svo á að rétt sé að fara eftir umhverfismatinu og hafi lagt sig fram um að fara eftir því við útgáfu leyfa og eftirlit með framkvæmdum. Þó fyrrnefnt sameignarfélag sé ekki lengur starfandi og í slitaferli þá hljóti að vera eðlilegt og í samræmi við góða stjórnsýslu og í þágu umhverfisins og lífríkis Hörgár að tekið sé mið af umhverfismatinu þrátt fyrir það. Þá sé ekkert sem banni slíkt framsal á vísindalegri skýrslu.

Á þeim tíma sem ráðist hafi verið í umhverfismatið hafi það verið í samstarfi landeigenda og sveitarfélagsins til að tryggja yfirsýn yfir efnistöku og áhrif hennar á vatnakerfi í heild, í stað þess að hver og einn landeigandi fyrir sig ráðstafi námuréttindum sínum án tillits til annarra landeigenda. Við útgáfu leyfanna hafi gildandi lögum verið fylgt og öll lagaskilyrði þeirra verið uppfyllt. Útgáfa leyfanna sé í samræmi við markmið a-d liðar 2. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Farið hafi verið eftir og byggt á matsskýrslu frá 2015 og áliti Skipulagsstofnunar frá 4. júní 2015. Samkvæmt Aðalskipulagi Hörgársveitar 2012–2024 sé Hörgá skipulagt efnistökusvæði en í aðalskipulaginu sé lögð áhersla á nýtingu náma sem náttúran geti viðhaldið.

Fyrirliggjandi gögn, þ.e. matsskýrslan, álit og ákvörðun Skipulagsstofnunar, sem og önnur fyrirliggjandi gögn hafi verið nægjanleg til að sveitarstjórn gæti lagt mat á áhrif efnistöku. Þá séu leyfin í samræmi við lög nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði, sbr. V. kafla þeirra. Ekki verði heldur séð að útgefin leyfi fari gegn þeim markmiðum sem sett séu í vatnaáætlun Umhverfisstofnunar fyrir Ísland 2022–2027, sbr. 5. mgr. 11. gr. laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála. Þá megi benda á umhverfisskýrslu vegna Aðalskipulags Hörgársveitar 2012–2024 en þar sé fjallað um áhrif efnistöku á gæði vatns. Vistfræðilegt ástand allra straumvatnshlotanna í Hörgá þar sem efnistaka fari fram sé mjög gott samkvæmt vatnavefsjá Umhverfisstofnunar. Hljóti það að vera vísbending um að efnistaka úr ánni á umliðum árum hafi ekki haft neikvæð áhrif á lífríki hennar. Ef svo væri mætti ætla að ástand straumvatnshlotanna væri ekki gott. Efnistaka hafi farið fram í Hörgá árum saman og vissulega hafi hún verið nokkuð umfangsmikil en hún sé framkvæmd á ábyrgan hátt og í sátt við vistfræði árinnar. Þá sé enda ljóst að farvegurinn jafni sig fljótt líkt og fram komi í umhverfismati. Miður sé að veiði fari sífellt minnkandi í Hörgá en engin gögn styðji að það sé vegna efnistöku úr ánni. Sífellt minnkandi bleikjuveiði sé í öðrum ám um allt land. Veiði hafi farið minnkandi löngu áður en hinu kærðu framkvæmdaleyfi hafi verið gefin út.

Sveitarstjórn hafi ávallt fært rök fyrir ákvörðunum sínum og fylgt fyrirliggjandi gögnum. Sérstakar leiðbeiningar sem sveitarfélagið fari eftir séu birtar á vefsíðu sveitarfélagsins en þær hafi verið samþykktar í sveitarstjórn 20. apríl 2016 á grundvelli 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og reglugerðar um framkvæmdaleyfi. Er það til vitnis um vandaða stjórnsýsluhætti. Þá sé eftirlit með efnistöku með ágætum og beri framkvæmdaleyfishafa til að mynda að hafa meðferðis á framkvæmdastað afrit framkvæmdaleyfis.

 Athugasemdir leyfishafa framkvæmdaleyfis á svæði E-6: Við meðferð máls þessa bárust úrskurðarnefndinni athugasemdir frá leyfishafa þar sem framkvæmdum á svæði E-6 er lýst. Kom þar fram að búið væri að ýta og moka upp á bilinu 35.000–38.000 m3 af möl úr stórri áreyri sem byggst hafi upp á síðastliðnum árum. Við þessa framkvæmd hafi myndast nýr og breiðari farvegur í sveigum, með misdjúpum og ójöfnum botni í samræmi við leiðbeiningar sem unnar hafi verið af Fiskirannsóknum ehf. fyrir framkvæmdaraðila. Ekkert rennsli hafi verið í eða eftir þessum nýja farvegi við framkvæmdina, enda hafi verið byrjað „neðst“ og unnið upp eftir eyrinni og endað með því að opna inn á Hörgá „efst“. Þá fyrst hafi hún runnið inn á þennan nýja farveg. Við framkvæmdina hafi þess verið gætt að „hræra“ ekki í árfarvegi Hörgár, þ.e. meginrennsli. Ekki hafi verið snert við lænu meðfram Krossastaðatúninu enda mælist mestur þéttleiki seiða í Hörgá á þessu svæði.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að sveitarfélagið hafi ekki gert grein fyrir því hvernig standi á því að skipulagsfulltrúi hafi gefið út leyfisbréf 1. október 2022 fyrir efnistöku á 85.000 m3 til tveggja ára á svæði E6 á grundvelli ákvörðunar sem sveitarstjórn hafi tekið 27. ágúst 2020. Útgáfa leyfisbréfsins sýnist í andstöðu við efni ákvörðunar sveitarstjórnar og hafi tímafrestir til útgáfu leyfis auk þess verið runnir út. Sveitarstjórn hefði því borið að taka nýja ákvörðun í málinu. Þá ítrekar kærandi áðurrakin málsrök. Sveitarfélagið viðurkenni að „hnökrar“ kunni að vera á hinum kærðu ákvörðunum, en álítur þá smávægilega. Þessu sé kærandi ekki sammála. Til að mynda hafi sveitarfélagið enga grein gert fyrir efni ákvörðunar sveitarstjórnar frá 26. október 2022 um heimild til ótiltekinnar efnistöku á svæði E8. Af opinberum gögnum sé útilokað að sjá um hvaða ákvörðun sé að ræða.

Í greinargerð sveitarfélagsins komi fram að sveitarfélagið hafi ekki þurft að ganga úr skugga um líkur á því að vistfræðilegu ástandi myndi hnigna í þeim vatnshlotum sem efnistökuleyfi hafi verið veitt og öðrum vatnshlotum sem geti orðið fyrir áhrifum. Það sé í ósamræmi við lög nr. 36/2011 um stjórn vatnamála og það sem vísað sé til í kafla 4.2 í áliti Skipulagsstofnunar, hvað snerti áhrif á veiði. Fullt tilefni hefði verið til þess fyrir sveitarfélagið að leita til Hafrannsóknarstofnunar áður en gefin yrðu út fleiri leyfi fyrir efnistöku, þá sérstaklega eftir að veitt hafi verið leyfi fyrir efnistöku á fleiri en einum stað í ánni á sama tíma.

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þær ákvarðanir sveitarstjórnar Hörgársveitar frá 22. september 2022 um að samþykkja umsókn fyrir 100.000 m3 efnistöku á svæði E-9 í Hörgá, 27. ágúst 2020 um að samþykkja umsókn fyrir 85.000 m3 efnistöku á svæði E-6 í Hörgá og 26. október 2022 um að samþykkja ótiltekna heimild til efnistöku á svæði E-8 í Hörgá. Kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar er í 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kveðið á um að kærufrestur til nefndarinnar sé almennt einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina eða ætlað brot á þátttökurétti almennings. Sé um að ræða ákvarðanir sem sæta opinberri birtingu telst kærufrestur hins vegar frá birtingu ákvörðunar.

Það er skilyrði kæruaðildar að málum fyrir úrskurðarnefndinni að kærandi eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Er það í samræmi við þá meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eiga einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Til þess er einnig að líta að umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök eiga lögvarinna hagsmuna að gæta fyrir nefndinni að ákveðnum skilyrðum uppfylltum skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Meðal ákvarðana sem slíkum samtökum er heimilt að bera undir nefndina eru ákvarðanir um leyfi vegna framkvæmda samkvæmt lögum nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, sbr. b. lið málsgreinarinnar. Lögin tóku gildi 1. september 2021, en í 1. ákvæði til bráðabirgða við lögin segir að í þeim tilvikum þegar umhverfismatsferli framkvæmdar sem fellur undir þau lög er lokið við gildistöku laganna skuli ákvæði eldri laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, er lúta að leyfisveitingum vegna framkvæmdarinnar gilda og verður því að líta til ákvæða þeirra laga í máli þessu, en ferli umhverfismats vegna heildstæðs mats á efnistöku á 795.000 m3 úr áreyrum og árfarvegi Hörgár, lauk með áliti Skipulagsstofnunar dags. 4. júní 2015.

Þótt hvert leyfi um sig, sem fjallað er um í máli þessu, taki aðeins til hluta þeirrar framkvæmdar sem um var fjallað í ferli umhverfismatsins sem lauk árið 2015, verður að álíta að leyfisveitanda sé skylt hverju sinni að horfa jafnframt til annara framkvæmda, sem þegar hafa átt sér stað og eru fyrirhugaðar, svo framarlega sem þær tengist með augljósum hætti. Teljast hinar kærðu ákvarðanir því allar til leyfa til framkvæmda í skilningi laga nr. 106/2000.

Kærandi nýtur aðildar að máli þessu skv. b. lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, en af gögnum sem nefndin hefur kynnt sér uppfyllir hann skilyrði þeirrar greinar sem umhverfisverndar- eða útivistar- og hagsmunasamtök. Fyrir liggur að hin kærða ákvörðun var ekki birt opinberlega og var í henni ekki fjallað um kæruheimild né kærufrest. Verður af gögnum málsins ályktað að kæranda varð eða mátti fyrst vera kunnugt um útgáfu hins kærða leyfis um miðjan apríl 2023, en samkvæmt því var kærufrestur ekki liðinn þegar kæra í málinu barst nefndinni 19. apríl s.á. Verður kæra í máli þessu því tekin til efnismeðferðar.

Í mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar frá 2015 segir að tilgangur framkvæmdarinnar sé að sporna við landbroti af völdum Hörgár með rennslisstýringu árinnar með það að markmiði að verja landbúnaðarland og mannvirki. Þar er rakið að Landgræðsla ríkisins hafi í gegnum tíðina styrkt eigendur jarða við Hörgá vegna bakkavarna fjárhagslega og með ráðgjöf. Að mati Landgræðslunnar séu bakkavarnir við Hörgá nánast endalaust verkefni vegna síbreytilegrar rennslisstefnu árinnar sökum mikils framburðar í ánni sem valdi landbroti mjög víða. Í skýrslunni var einungis fjallað að ráði um einn valkost, þ.e. efnistöku úr Hörgá, auk núllkosts. Kemur þar fram að aðrir valkostir, þ.e. manngerðar bakkavarnir, séu mögulegir til að verja landbúnaðarland og mannvirki. Grjótvarnir hefðu gefið nokkuð góða raun en þær séu mjög kostnaðarsamar. Verði efni ekki fjarlægt úr farvegum mætti gera ráð fyrir að þörfin fyrir grjótvarnir myndu aukast mikið. Þá geti varnargarðar gert gagn við að beina ánni frá árbökkum en séu þeir ekki grjótvarðir megi gera ráð fyrir að þeir geti skolast burt í stórum flóðum. Einnig var fjallað um þann kost að vinna að endurheimt árinnar með það að markmiði að láta hana „ná að þróast á sinn náttúrulega hátt“. Var það ekki talið samrýmast markmiðum Hörgár sf. og slíkar aðgerðir voru ekki taldar raunhæfar þar sem þær hefðu í för með sér mikið fjárhagslegt og samfélagslegt tjón þar sem land, vegir og mannvirki myndu skemmast eða eyðileggjast.

Í umhverfismatinu kemur fram að efnistakan muni fara fram með þeim hætti að fyrst verði efnistökusvæði afmarkað og sett upp tímabundin höft eða stíflur úr malarefni. Þá verði efni mokað upp úr farvegi eða áreyrum og flutt á haugsetningarsvæði í nægjanlega mikilli fjarlægð frá ánni þannig að ekki verði hætta á að áin sópi haugnum með sér í næsta flóði. Efni verði svo keyrt frá haugsetningarsvæði eftir því sem þörf og aðstæður á markaði kalli á. Fram kemur að þegar sótt hafi verið um framkvæmdaleyfi sé gert ráð fyrir að leita ráðgjafar Veiðimálastofnunar, nú Hafrannsóknarstofnunar, um ákjósanlegustu aðferðir og afmörkun á hverju einstaka framkvæmdasvæði. Kemur einnig fram að árlega sé áætlað að meta stöðu verkefnisins með tilliti til rennslis árinnar og landbrots og vinna áætlanir um efnistöku næsta tímabils. Fyrirhuguð framkvæmd feli í aðalatriðum í sér efnistöku á efnistökusvæðum á tímabilinu 1. október til 30. apríl ár hvert, flutning efnis frá efnistökusvæði á geymslusvæði og flutning efnis frá geymslusvæði á notkunarstað.

Fram kemur í matsskýrslu að árið 2013 hafi sameignarfélagið Hörgá sf. verið stofnað. Í samþykktum þess var tekið fram að félagsmenn væru landeigendur að ánni eða fulltrúar þeirra. Félaginu var ætlað að láta vinna umhverfismat fyrir efnistökuna fyrir hönd landeigenda við Hörgá og þveráa hennar. Skyldi félagið vera framkvæmdaraðili að allri efnistökunni. Ekki væru þó allir landeigendur að Hörgá í félaginu, en það hefði ekki áhrif á efnistöku. Þar sem félagið liti á ána alla og þverár sem eina heild og skipuleggi efnistöku með hagsmuni alls svæðisins að leiðarljósi, væri í umhverfismatinu fjallað um þau efnistökusvæði sem þættu hentug vegna aðstæðna, efnismagns eða efniseiginleika ásamt efnistökusvæðum sem þyki brýnt að taka efni úr til að draga úr landbroti. Í matsskýrslunni var lýst efnistökusvæðum sem tilgreind voru í drögum sem þá lágu fyrir að Aðalskipulagi Hörgársveitar 2012–2024, með auðkenninguna: E-2, E-4, E-6, E-7, E-8, E-9, E-10 og E-11.

Í áliti Skipulagsstofnunar um framkvæmdina dags. 4. júlí 2015 kom fram að tilgangur framkvæmdarinnar væri að sporna við landbroti af völdum Hörgár. Ekki yrði sótt um framkvæmdaleyfi fyrir öllum efnistökusvæðunum á sama tíma og væri árlega áætlað að meta stöðu verkefnisins með tilliti til rennslis árinnar og landbrots og vinna áætlanir um efnistöku næsta tímabils. Áætlað væri að hefja skipulagða efnistöku á þeim svæðum í ánni þar sem mest þörf væri á að skapa pláss fyrir flóðvatn í farveginum með það að markmiði að draga úr bakkarofi og þar með þörf fyrir annars konar og mjög kostnaðarsamar bakkavarnir s.s. grjótvörn. Fjallað var stuttlega um hvert efnistökusvæði um sig í álitinu, m.a. þau efnistökusvæði þar sem með hinum kærðu leyfum var heimiluð efnistaka.

Rakið var í álitinu að efnistaka gæti haft áhrif á eðli og þróun vatnsfalla. Efnistaka í og við ár sé vandasöm og geti haft áhrif á lífríki í vatni. Botngerð ánna geti breyst og búsvæði laxfiska geti þannig raskast og haft neikvæð áhrif á veiði. Að mati sérfræðinga Veiðimálastofnunar sé óraunhæft að meta áhrif verkefnisins á veiði og lífríki á þessu stigi og almennt geti stofnunin ekki mælt með slíkum verkefnum í ám. Hins vegar væri eðlilegt að stofnunin veitti ráðgjöf með heppilegustu útfærslu efnistöku á hverju framkvæmdasvæði fyrir sig, ef efnistaka á viðkomandi framkvæmdasvæði þætti nauðsynleg og framkvæmdaleyfi hefði verið veitt. Áhrif á veiði væru metin óviss en staðbundin og afturkræf. Áhrif framkvæmdanna á veiði yltu alfarið á því hvernig lífríki ánna reiddi af. Ef tækist að koma í veg fyrir að bú- og hrygningarsvæði ánna spilltust þá yrðu áhrif óveruleg en hætta væri á að inngrip í náttúrulegt ferli árinnar hefði neikvæð áhrif en um það væri nokkur óvissa. Í niðurstöðukafla álitsins var gerð bending um að til að lífríki árinnar yrði fyrir sem minnstum skaða væri nauðsynlegt að ráðfæra sig við fiskifræðinga um tilhögun og áfangaskiptingu á hverju efnistökusvæði.

Í álitinu var lögð áhersla á mikilvægi þess að efnistaka yrði unnin skipulega og yfir lengra tímabil, en fram kom að efnistakan mundi vara í 20 ár. Var í því sambandi talið jákvætt að landeigendur að efnistökusvæðinu hefðu sameinast um efnistökuna, sem ætti að bæta skipulag hennar og lágmarka neikvæð umhverfisáhrif. Meðal mótvægisaðgerða sem ráðgert var að fjallað yrði um við útgáfu hvers framkvæmdaleyfis væru hvernig staðið yrði að efnistökunni með því að ekki yrðu grafnar djúpar gryfjur, aðallega yrði fjarlægt efni ofan af áreyrum og árkeilum og að efnistakan færi fram á fáum afmörkuðum svæðum í einu og væru því staðbundin að hluta. Þá kom fram að ekki yrði unnið að efnistöku á tímabilinu 1. maí til 30. september. Í niðurstöðum álitsins var gerð ábending um að nauðsynlegt væri að í aðalskipulagi Hörgársveitar yrði tekið á efnistöku í Hörgá með heildstæðum hætti og það notað til að leggja línurnar um skipulag efnistöku í og við ána.

Mælt er fyrir um í 1. mgr. 14. gr. skipulagslaga og þágildandi 1. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 að óheimilt sé að gefa út leyfi til framkvæmda fyrr en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir eða ákvörðun um að framkvæmd sé ekki matsskyld. Í 2. mgr. beggja lagagreinanna er svo fjallað nánar um hvernig líta skuli til álits Skipulagsstofnunar við leyfisveitingu vegna matsskyldrar framkvæmdar. Áður voru þau lagaákvæði samhljóða um að við slíka leyfisveitingu bæri leyfisveitanda að kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hennar. Með breytingalögum nr. 96/2019 var skipulagslögum og lögum nr. 106/2000 hins vegar breytt og í stað þess að taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar segir nú í greindum lagaákvæðum að leyfisveitanda beri að leggja álitið til grundvallar við ákvörðun um útgáfu leyfis. Jafnframt kváðu breytingalögin á um það nýmæli að leyfisveitandi skuli taka saman greinargerð um afgreiðslu leyfis. Þannig segir í 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga að slíkt skuli gert í samræmi við ákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum en í þágildandi 3. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 er kveðið á um að í slíkri greinargerð skuli gera grein fyrir samræmi milli leyfis og niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar og rökstyðja sérstaklega ef í leyfinu sé vikið frá niðurstöðu álits. Einnig skuli leyfisveitandi taka afstöðu til tengdra leyfisveitinga þegar tilefni sé til ef um það sé fjallað í áliti Skipulagsstofnunar.

Þá er í 18. gr. breytingalaga nr. 96/2019 að finna lagaskilareglu er mælir fyrir um að matsskyldar framkvæmdir skuli hlíta málsmeðferð samkvæmt eldri ákvæðum laga nr. 106/2000 ef tillaga að matsáætlun hefur borist Skipulagsstofnun fyrir gildistöku laga nr. 96/2019, svo sem raunin er hér. Samkvæmt þágildandi 2. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 bar því sveitarstjórn að taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar. Sambærilegt lagaskila­ákvæði er hins vegar ekki að finna í tengslum við áðurgreinda breytingu á skipulagslögum og bar því að leggja álit Skipulagsstofnunar til grundvallar leyfisveitingu samkvæmt orðalagi 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga, sem gilti við samþykkt hinna kærðu framkvæmdaleyfa. Það verður þó ekki séð að breytt orðalag hafi haft í för með sér efnisbreytingu að máli skipti við úrlausn þessa máls, svo fremi að báðum ákvæðum sé fullnægt þannig að rökstudd afstaða sé tekin til álits Skipulagsstofnunar og það jafnframt lagt til grundvallar leyfisveitingu. Þá er einnig ljóst að þrátt fyrir að sveitarstjórn hafi ekki verið skylt samkvæmt þágildandi lögum nr. 106/2000 að taka saman greinargerð um afgreiðslu leyfis þá var henni það skylt samkvæmt gildandi skipulagslögum.

Að framangreindu virtu er skýrt að skv. 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga bar sveitarstjórn Hörgársveitar að kynna sér matsskýrslu um framkvæmdina, leggja álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hennar til grundvallar og taka saman greinargerð um afgreiðslu leyfis í samræmi við ákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum. Jafnframt er ljóst að samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 bar sveitarstjórn að taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar. Telja verður lögbundnar skyldur sveitarstjórnar, vegna framkvæmdar sem hefur sætt mati á umhverfisáhrifum, vera mikilvægan þátt í málsmeðferð leyfisveitingarinnar og til þess fallnar að stuðla að því að fyrrnefnt markmið b-liðar 1. gr. skipulagslaga verði náð, sem og markmið laga um mat á umhverfisáhrifum sem talin eru upp í 1. gr. þeirra laga. Er og ljóst að sveitarstjórn ber að sinna þeim skyldum óháð því hvenær mat á umhverfisáhrifum fór fram eða hvort leyfi hafi áður verið veitt fyrir hluta framkvæmdar.

Við útgáfu leyfis til framkvæmdar sem undirgengist hefur mat á umhverfisáhrifum eru skyldur sveitarstjórnar sem leyfisveitanda ríkar. Ber sveitarstjórn að fylgja þeim málsmeðferðarreglum sem mælt er fyrir um í skipulagslögum og lögum nr. 106/2000 og sjá til þess að skilyrði þeirra laga séu uppfyllt. Enn fremur ber sveitarstjórn að fylgja þeim markmiðum laganna sem tíundið eru í 1. gr. þeirra beggja, þar á meðal að stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða, tryggja vernd landslags, náttúru og menningarverðmæta og koma í veg fyrir umhverfisspjöll og ofnýtingu, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi, sbr. b-lið 1. gr. skipulagslaga. Jafnframt getur sveitarstjórn við leyfisveitinguna verið skylt að líta til efnis- og formreglna annarra laga, s.s. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Þá er sveitarstjórn sem endranær bundin af ákvæðum stjórn­sýslu­laga nr. 37/1993 og óskráðum meginreglum stjórnsýsluréttar.

Í áliti Skipulagsstofnunar um matsskýrslu framkvæmdarinnar var lögð áhersla á hlutverk sveitarfélagsins við stjórnun efnistökunnar í Hörgá, með þeim heimildum sem felast í gerð aðalskipulags, en í álitinu var um leið greint frá og fjallað um áform framkvæmdaraðila um að hann mundi árlega meta stöðu verkefnisins með tilliti til rennslis árinnar og landsbrots og vinna áætlanir um efnistöku næsta tímabils. Fram kom í umhverfismatinu að Hörgá sf. hafi verið ætlað að bera ábyrgð á malarnáminu, sjá um að forgangsraða og sækja um framkvæmdaleyfi hverju sinni. Fyrir liggur að upp úr þessu samstarfi slitnaði og að sveitarfélagið yfirtók sameignarfélagið og keypti umhverfismatið fyrir efnistökuna. Samkvæmt skýringum sveitarfélagsins hefur verið farið eftir umhverfismatinu frá upphafi og tekið mið af því við útgáfu framkvæmdaleyfa vegna efnistöku úr Hörgá. Það sé grundvallargagn þegar komi að efnistökunni og með því að fylgja því og áliti Skipulagsstofnunar sé tryggð yfirsýn um efnistökuna og vatnasvæði Hörgár.

Hinn 20. apríl 2016 samþykkti Hörgársveit leiðbeiningar um efnistöku úr Hörgá. Sveitarfélagið hefur staðfest við úrskurðarnefndina að ekki hafi verið farið eftir þeim leiðbeiningum í öllu, s.s. um auglýsingu um afmarkaða staði efnistöku á viðkomandi kjörtímabili, en það hafi verið álitið óþarft þegar á reyndi í ljósi þess að efnistökusvæðin í Hörgá væru nægilega skilgreind í aðalskipulagi sveitarfélagsins. Engri áætlun virðist því til að dreifa sem feli í sér skipulega efnistöku í Hörgá á grundvelli leiðbeininganna.

Í greinargerð Aðalskipulags Hörgársveitar 2012–2024 er fjallað um efnistöku úr Hörgá og þverám hennar í kafla um efnistöku- og efnislosunarsvæði. Þar segir: „Efnistaka verður skipulögð á afmörkuðum stöðum hverju sinni. Við efnistöku skal setja ströng skilyrði til varnar umhverfisspjöllum s.s. um viðhald vinnuvéla og meðferð olíu og spilliefna til að koma í veg fyrir mengun frá framkvæmdasvæðinu.“ Gerðar voru breytingar á aðalskipulaginu með ákvörðun sveitarstjórnar frá 5. febrúar 2021 og tóku þær gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 19. s.m. Með þeim var fellt brott skilyrði um að efnistaka yrði einungis á einum efnistökustað í einu. Kom fram í greinargerð með breytingunni að erfitt hafi verið að framfylgja því þar sem landeigendur efnistökusvæða teldu jafnræðis ekki gætt væri þeim synjað um framkvæmdaleyfi vegna þess að efnistaka stæði yfir á öðrum stað í ánni, en einnig vegna þess að ekki væri hafið yfir vafa hvernig túlka bæri orðalag ákvæðisins.

Eftir breytingu aðalskipulagsins segir: „Við veitingu framkvæmdaleyfis til efnistöku í Hörgá og þverám hennar (efnistökusvæði E2, E4, E6, E7, E8, E9, E10 og E11) skal liggja fyrir umsögn Fiskistofu um framkvæmdina þar sem tillit er tekið til annarra gildandi framkvæmdaleyfa vegna efnistöku í Hörgá.“ Þá var einnig bætt við ákvæði um að við efnistöku úr Hörgá og þverám hennar skuli þannig gengið frá efnislager á geymslusvæðum á bökkum ánna að ekki skolist efni úr þeim aftur í árnar við háa vatnsstöðu í þeim. Samkvæmt aðalskipulaginu er heimiluð 85.000 m3 efnistaka á svæði E-6, 75.000 m3 efnistaka á svæði E-8 og 400.000 m3 efnistaka á E-9.

Í fundargerðum sveitarstjórnar við töku hinna kærðu ákvarðana, dags. 27. ágúst 2020, 22. september og 26. október 2022, er enga umfjöllun að finna um það mat á umhverfisáhrifum sem fram fór vegna framkvæmdanna. Bera fundargerðirnar því ekki með sér að sveitarstjórn hafi, í samræmi við áðurnefnd ákvæði skipulagslaga og laga nr. 106/2000, kynnt sér matsskýrslu Hörgár sf., tekið afstöðu til þess hvort framkvæmdin sé sú sem lýst sé í matsskýrslu og lagt álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum til grundvallar eða tekið rökstudda afstöðu til þess.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 20. september 2023, hefur Hörgársveit upplýst að við afgreiðslu hinna kærðu framkvæmdaleyfa hafi verið farið yfir umsóknir og fyrirliggjandi gögn og stöðuna á efnistöku úr Hörgá og greinargerðir verið samþykktar af sveitarstjórn. Þetta hafi verið gert bæði munnlega og skriflega. Með bréfinu fylgdu skriflegar greinargerðir frá fundum skipulagsnefndar sveitarfélagsins, sem skipulags- og byggingarfulltrúi sveitarfélagsins tók saman vegna málanna og voru samþykktar, að því greinir í svari Hörgársveitar til nefndarinnar, á greindum fundum sveitarstjórnar. Sveitarfélagið álíti þessar greinargerðir uppfylla kröfur skipulagslaga nr. 123/2010 um rökstuðning, þ. á m. 2. mgr. 14. gr. laganna.

Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér þessar greinargerðir. Í þeim er fjallað um tiltekna umhverfisþætti fyrir hvert efnistökusvæði um sig, eins og þeim er lýst í matsskýrslunni frá 2015. Þar er um leið gerð grein fyrir ákvæðum aðalskipulags um frágang á efnislager á geymslusvæðum á bökkum Hörgár og að við veitingu framkvæmdaleyfis til efnistöku í ánni skuli liggja fyrir umsögn Fiskistofu um framkvæmdina þar sem tillit sé tekið til annarra gildandi framkvæmdaleyfa vegna efnistöku í Hörgá. Í greinargerð vegna eins leyfisins, sem samþykkt var samkvæmt framangreindu á fundi sveitarstjórnar 27. ágúst 2020, og tekur til efnistökusvæðis E6, var sett skilyrði um að fyrir lægi endurnýjað leyfi frá Fiskistofu til framkvæmdanna. Í engri þessara greinargerða var vikið að áliti Skipulagsstofnunar.

Sem áður er rakið var í áliti Skipulagsstofnunar um matsskýrslu framkvæmdarinnar lögð áhersla á hlutverk sveitarfélagsins við stjórnun efnistökunnar í Hörgá, með þeim heimildum sem felast í gerð aðalskipulags. Um leið var í álitinu greint frá og fjallað um áform framkvæmdaraðila um að hann mundi árlega meta stöðu verkefnisins með tilliti til rennslis árinnar og landbrots og vinna áætlanir um efnistöku næsta tímabils. Sú leið sem farin var í aðalskipulagi sveitarfélagsins að leggja í hendur Fiskistofu að gefa umsögn um heildaráhrif efnistöku var hvorki reifuð í matsskýrslu framkvæmdarinnar né heldur áliti Skipulagsstofnunar.

Úrskurðarnefndin hefur ekki leitað viðhorfa Fiskistofu til þessa hlutverks sem stofnuninni er ætlað samkvæmt aðalskipulaginu. Almennt má þó segja að álitsumleitan til stjórnvalds geti haft leiðbeinandi þýðingu fyrir sveitarstjórnir, ef álit er látið í té. Hins vegar leysir það ekki sveitarstjórn undan skyldu þeirri um rökstuðning sem felst í fyrirmælum 14. gr. skipulagslaga. Raunar verður þess utan ekki séð í gögnum málsins að umsagnar Fiskistofu hafi verið aflað með vísan til aðalskipulagsins. Meðal gagna þessa úrskurðarmáls eru á hinn bóginn leyfi sem Fiskistofa gaf með vísan til 33. gr. laga um lax- og silungsveiði, til þeirrar efnistöku sem fjallað var um á fundum sveitarstjórnar Hörgársveitar 22. september 2022 (100.000 m3) og 27. ágúst 2020 (85.000 m3). Í hvorugu þessara leyfa er fjallað um önnur leyfi eða aðra ráðgerða efnistöku í Hörgá eða þverám hennar. Þá var annað þessara leyfa, með úrskurði úrskurðarnefndarinnar, uppkveðnum í dag, í máli nr. 61/2023, fellt úr gildi.

Í ljósi framangreinds verður álitið að umræddar greinargerðir fullnægi ekki þeim áskilnaði sem gerður er í 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga og vék undirbúningar hinna kærðu leyfisveitinga með þessu frá mikilvægum og lögbundnum skilyrðum laga.

Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 15. gr. skipulagslaga er útgáfa framkvæmdaleyfis háð því skilyrði að sveitarstjórn, eða annar aðili sem hún hefur falið það vald, hafi samþykkt veitingu framkvæmdaleyfis. Hefjist framkvæmdir ekki innan 12 mánaða frá samþykki sveitarstjórnar fellur framkvæmdarleyfið úr gildi, sbr. 2. mgr. sama ákvæðis. Í 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 er kveðið á um að í því skyni að stuðla að hagræðingu, skilvirkni og hraðari málsmeðferð geti sveitarstjórn ákveðið í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins að fela fastanefnd fullnaðarafgreiðslu einstakra mála sem ekki varða verulega fjárhag sveitarfélagsins. Samkvæmt 2. málsl. 2. mgr. 6. gr. skipulagslaga er sveitarstjórn heimilt í samþykkt sveitarfélagsins að fela skipulagsnefnd eða öðrum aðilum innan stjórnsýslu sveitarfélagsins heimild til fullnaðarafgreiðslu mála, svo sem deiliskipulagsáætlana og útgáfu framkvæmdaleyfa.

Á fundi sveitarstjórnar 27. ágúst 2020 var samþykkt umsókn um framkvæmdaleyfi, dags. 16. apríl 2019, vegna 85.000 m3 efnistöku á svæði E-6. Í fundargerð segir: „Sveitarstjórn samþykk[ir] erindið enda samræmist veiting framkvæmdaleyfis samþykktu aðalskipulagi. Skilyrði er að fyrir liggi endurnýjað leyfi frá Fiskistofu. Leyfið gildi fyrir 85.000 m3 og efnistöku skal lokið og efnið farið af svæðinu fyrir 1. október 2022.“ Svo sem fyrr segir var framkvæmdarleyfi gefið út en ekki varð af framkvæmdum. Gefið var út nýtt framkvæmdarleyfi 1. október 2022, með vísan til ákvörðunar sveitarstjórnar frá 27. ágúst 2020. Af fundargerðum sveitarstjórnar verður ekki ráðið að hún hafi tekið umrædda umsókn vegna efnistöku á svæði E-6 til afgreiðslu að nýju áður en skipulagsfulltrúi gaf út framkvæmdaleyfi. Í gildi er samþykkt um stjórn Hörgársveitar og fundarsköp sveitarstjórnar nr. 678/2013, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 16. júlí 2013. Er þar fjallað um valdsvið nefnda og framsal sveitarstjórnar til fastanefnda á valdi til fullnaðarafgreiðslu mála, en ekki er vikið að framsali slíks valds til einstakra starfsmanna, s.s. skipulagsfulltrúa, um útgáfu framkvæmdaleyfa. Brast skipulagsfulltrúa því heimild til þess að endurútgefa hið kærða leyfi.

Framangreindu til viðbótar bendir úrskurðarnefndin á að ekki verði séð að við undirbúning og veitingu hinna kærðu leyfa hafi verið tekin afstaða til framkvæmdanna á grundvelli laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála, en samkvæmt þeim er skylt að vernda yfirborðsvatnshlot og tryggja að ástand þeirra versni ekki.

Að öllu framangreindu virtu vék undirbúningur hinna kærðu ákvarðana frá mikilvægum skilyrðum laga og verður því að fella hin kærðu leyfi úr gildi.

 Úrskurðarorð:

Felldar eru úr gildi ákvarðanir sveitarstjórnar Hörgársveitar frá 22. september 2022 um að samþykkja umsókn fyrir 100.000 m3 efnistöku á svæði E-9 í Hörgá, 27. ágúst 2020 um að samþykkja umsókn fyrir 85.000 m3 efnistöku á svæði E-6 í Hörgá og 26. október 2022 um að samþykkja ótiltekna heimild til efnistöku á svæði E-8 í Hörgá.

61/2023 Efnistaka í Hörgá

Með

Árið 2023, föstudaginn 29. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor. Geir Oddsson auðlindafræðingur tók þátt í gegnum fjarfundabúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 61/2023, kæra á ákvörðun Fiskistofu frá 12. september 2022 um að veita leyfi til efnistöku á svæði E-6 í Hörgá í Hörgársveit.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. maí 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir Náttúrugrið, þá ákvörðun Fiskistofu frá 12. september 2022 að veita Hæðargarði ehf. leyfi til efnistöku á svæði E-6 í Hörgá í Hörgársveit. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt var gerð krafa um að réttaráhrifum ákvörðunarinnar yrði frestað á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni, en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði uppkveðnum 26. maí 2023.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Fiskistofu 22. maí 2023.

Málavextir: Hinn 11. apríl 2019 veitti Fiskistofa framkvæmdaraðila leyfi til allt að 85.000 m3 efnistöku úr Hörgá við Krossastaði, þ.e. á svæði E-6 samkvæmt Aðalskipulagi Hörgársveitar 2012–2024, og gilti leyfið til 12. apríl 2020. Framkvæmdarleyfi var hins vegar ekki gefið út og því fór efnistaka ekki fram. Fiskistofa veitti leyfi að nýju 18. nóvember 2020 á grundvelli sömu forsendna og fyrra leyfi byggðist á með gildistíma til 1. október 2022. Hinn 4. júlí 2022 óskaði leyfishafi eftir því að leyfið yrði framlengt þar sem framkvæmdir hefðu ekki hafist vegna tafa. Var leyfi veitt að nýju 12. september 2022 á grundvelli sömu forsendna og fyrri leyfi.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að hin kærða ákvörðun fari í bága við ákvæði laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Samkvæmt 4. mgr. 27. gr. laganna, áður 4. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000, skuli leyfisveitandi tilkynna Skipulagsstofnun um útgáfu leyfis vegna matsskyldra framkvæmda og birta opinberlega með auglýsingu ákvörðun sína og gera leyfi og greinargerð með því aðgengilegt á netinu innan tveggja vikna frá afgreiðslu þess. Þar skuli tilgreina kæruheimild og kærufrest. Þessa hafi ekki verið gætt og hafi kærufrestur því ekki byrjað að líða fyrr en kæranda hafi getað verið kunnugt um hina kærðu ákvörðun, sem hafi verið þegar ummerki við Hörgá á svæði E-6 hafi fyrst komið fram um miðjan apríl 2023, en hann hafi í framhaldi þess lagt fram kæru vegna framkvæmdaleyfis sveitarfélagsins 19. s.m. Kærandi álítur að allar efnis- og formreglur hafi verið brotnar við útgáfu leyfisins við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar. Þar komi m.a. skýrt fram að í engu hafi verið gætt að því sem fiskifræðingur hafi mælt með í byrjun árs 2019 og hafi ekki heldur verið aflað uppfærðra upplýsinga frá þeim fiskifræðingi, þótt tvö og hálft ár hafi verið liðin frá því að greinargerðar hans hafi verið aflað.

Málsrök Fiskistofu: Af hálfu Fiskistofu er upplýst að hin kærða ákvörðun hafi ekki verið birt opinberlega og ekki hafi verið fjallað um kæruheimild né kærufrest í henni. Þá hafi Skipulagsstofnun ekki verið tilkynnt um útgáfu leyfanna. Þá sé það rétt að ekki hafi verið aflað uppfærðra upplýsinga frá sérfræðingi á sviði veiðimála fyrir útgáfu hins kærða leyfis, þar sem efnistaka hafi tekið til sama magns og svæðis og fjallað hafi verið um í fyrri leyfum til sömu framkvæmdar, en engin efnistaka hafi farið fram með heimild í þeim.

Fiskistofa geti krafist þess að framkvæmdaraðili láti gera líffræðilega úttekt á veiðivatni áður en leyfi sé veitt, sbr. 3. mgr. 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði. Sú leið hafi ekki verið farin við undirbúning málsins, en þess í stað kveðið á um það í leyfinu að efnistakan yrði framkvæmd í samráði við fiskifræðing til að meta áhrif framkvæmdarinnar á fiskistofna árinnar. Seiðamælingar yrðu gerðar á völdum stöðum áður en framkvæmdir hæfust og að henni lokinni. Þetta sé í samræmi við álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, dags. 4. júlí 2015. Ákvæði leyfisins um magn efnis og tíma framkvæmda hafi einnig verið í samræmi við álit Skipulagstofnunar.

Framkvæmdaraðila var gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum í málinu en hann hefur ekki tjáð sig um málatilbúnað kæranda.

Niðurstaða: Í máli þessu er kærð ákvörðun Fiskistofu frá 12. september 2022 skv. 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði sem verður borin undir úrskurðarnefndina með heimild í 1. mgr. 36. gr. þeirra laga. Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kveðið á um að kærufrestur til nefndarinnar sé almennt einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina eða ætlað brot á þátttökurétti almennings. Sé um að ræða ákvarðanir sem sæta opinberri birtingu telst kærufrestur hins vegar frá birtingu ákvörðunar.

Það er skilyrði kæruaðildar að málum fyrir úrskurðarnefndinni að kærandi eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Er það í samræmi við þá meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eiga einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Á hinn bóginn teljast  umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtökum eiga lögvarinna hagsmuna að gæta fyrir nefndinni að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, sbr. nánar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Meðal ákvarðana sem slíkum samtökum er heimilt að bera undir nefndina eru ákvarðanir um leyfi vegna framkvæmda samkvæmt lögum nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, sbr. b. lið málsgreinarinnar. Lögin tóku gildi 1. september 2021, en í 1. ákvæði til bráðabirgða við lögin segir að í þeim tilvikum þegar umhverfismatsferli framkvæmdar sem fellur undir þau lög er lokið við gildistöku laganna skuli ákvæði eldri laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, er lúta að leyfisveitingum vegna framkvæmdarinnar gilda. Ferli umhverfismats vegna heildstæðs mats á efnistöku á að 795.000 m3 úr áreyrum og árfarvegi Hörgár, lauk með áliti Skipulagsstofnunar dags. 4. júní 2015. Verður því að líta til ákvæða laga nr. 106/2000 hvað varðar leyfisveitinguna.

Í c-lið 3. gr. laga nr. 106/2000 var hugtakið framkvæmd afmarkað þannig að það næði til hvers konar nýframkvæmdar eða breytingar á eldri framkvæmd og starfsemi sem henni fylgi, sem undir lögin falli. Samkvæmt f-lið greinarinnar töldust leyfi til framkvæmda vera framkvæmdaleyfi og byggingarleyfi samkvæmt skipulagslögum og lögum um mannvirki og önnur leyfi til starfsemi og framkvæmda samkvæmt sérlögum sem um viðkomandi framkvæmd gilda. Í 2. og 3. mgr. 13. gr. laganna var mælt fyrir um undirbúning að útgáfu leyfis á grundvelli matsskýrslu framkvæmdaraðila og álits Skipulagsstofnunar um framkvæmdina. Í 4. mgr. lagagreinarinnar var síðan mælt fyrir um skyldu leyfisveitanda til að birta opinberlega með auglýsingu ákvörðun sína um útgáfu leyfis innan tveggja vikna frá afgreiðslu þess, þar sem tilgreint væri hvar greinargerð um afgreiðslu leyfis væri aðgengileg og tilkynnt væri um kæruheimild og kærufrest þegar það ætti við.

Um framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi var fjallað, sem einn framkvæmdaþátt, í áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum allt að 795.000 m3 efnistöku úr áreyrum og árfarvegi Hörgár í Hörgársveit. Þótt leyfið takið aðeins til hluta þeirrar framkvæmdar verður að álíta að leyfisveitanda sé skylt hverju sinni að horfa jafnframt til annara framkvæmda, sem þegar hafa átt sér stað og eru fyrirhugaðar, svo framarlega sem þær tengist með augljósum hætti. Verður leyfið því álitið leyfi til framkvæmda í skilningi laga nr. 106/2000, sbr. gr. 2.01 í 1. viðauka við lögin.

Kærandi nýtur aðildar að máli þessu skv. b. lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 og af gögnum sem nefndin hefur kynnt sér uppfyllir hann skilyrði þeirrar greinar sem umhverfisverndar- eða útivistar- og hagsmunasamtök. Fyrir liggur að hin kærða ákvörðun var ekki birt opinberlega og var í henni ekki fjallað um kæruheimild né kærufrest. Verður af gögnum málsins ályktað að kæranda varð eða mátti fyrst vera kunnugt um útgáfu hins kærða leyfis um miðjan apríl 2023, en samkvæmt því var kærufrestur ekki liðinn þegar kæra í málinu barst nefndinni 11. maí s.á. Verður kæra í máli þessu því tekin til efnismeðferðar.

Í skýrslu um mat á umhverfisáhrifum efnistöku í Hörgá, dags. í apríl 2015, var rakið að árið 2013 hafi landeigendur við Hörgá stofnað sameignarfélagið Hörgá. Markmið þess væri að minnka líkur á landbroti sem valdi skemmdum á mannvirkjum og löndum í nágrenni árinnar og þveráa hennar og um leið að stuðla að sjálfbærri nýtingu jarðefna með sem minnstum neikvæðum umhverfisáhrifum. Markmiði sínu hygðist sameignarfélagið ná með því að láta vinna, fyrir hönd landeigenda við Hörgá og þveráa hennar, umhverfismat vegna efnistökunnar. Efnistaka væri áætluð á átta svæðum í ánni, en svæðin hefðu verið tilgreind sem efnistökusvæði í drögum að aðalskipulagi Hörgársveitar sem væri í vinnslu. Sameignarfélagið væri því framkvæmdaraðili að allri efnistöku úr Hörgá og þverám hennar.

Í áliti Skipulagsstofnunar um framkvæmdina, dags. 4. júlí 2015, kom fram að tilgangur framkvæmdarinnar væri að sporna við landbroti af völdum Hörgár. Ekki yrði sótt um framkvæmdaleyfi fyrir öllum efnistökusvæðunum á sama tíma og væri áætlað að meta árlega stöðu verkefnisins með tilliti til rennslis árinnar og landbrots og vinna áætlanir um efnistöku næsta tímabils. Áætlað hefði verið að hefja skipulagða efnistöku á þeim svæðum í ánni þar sem mest þörf væri á að skapa pláss fyrir flóðvatn í farveginum með það að markmiði að draga úr bakkarofi og þar með þörf fyrir annars konar og mjög kostnaðarsamar bakkavarnir, s.s. grjótvörn. Fjallað var stuttlega um hvert efnistökusvæði um sig í álitinu og kemur fram um svæði E-6, sem hið kærða leyfi varðar, að það sé í árfarvegi frá Laugalandi að Vöglum, á u.þ.b. 2,2 km svæði. Það sé á malarsvæði og í löndum jarðanna Krossastaða, Laugalands, Auðbrekku og Hólkots. Áætlað sé að taka 85.000 m3 á svæðinu sem sé á jaðri grannsvæðisverndar vatnsbóla. Á þessu svæði hafi á undanförnum árum verið mjög mikið bakkarof og farvegur árinnar breytist reglulega, en þar hafi landeigendur reynt ýmsar leiðir til að draga úr flóðahættu og landbroti.

Í áliti Skipulagsstofnunar var rakið að efnistaka gæti haft áhrif á eðli og þróun vatnsfalla. Efnistaka í og við ár sé vandasöm og geti haft áhrif á lífríki í vatni. Botngerð ánna geti breyst og búsvæði laxfiska geti þannig raskast og haft neikvæð áhrif á veiði. Að mati sérfræðinga Veiðimálastofnunar sé óraunhæft að meta áhrif verkefnisins á veiði og lífríki á þessu stigi og almennt geti stofnunin ekki mælt með slíkum verkefnum í ám. Hins vegar væri eðlilegt að stofnunin veitti ráðgjöf með heppilegustu útfærslu efnistöku á hverju framkvæmdasvæði fyrir sig, ef efnistaka á viðkomandi framkvæmdasvæði þætti nauðsynleg og framkvæmdaleyfi hefði verið veitt. Áhrif á veiði væru metin óviss, en staðbundin og afturkræf. Áhrif framkvæmdanna á veiði yltu alfarið á því hvernig lífríki ánna reiddi af. Ef tækist að koma í veg fyrir að bú- og hrygningarsvæði ánna spilltust þá yrðu áhrif óveruleg. Hætta væri á að inngrip í náttúrulegt ferli árinnar hefði neikvæð áhrif, en um það væri nokkur óvissa. Í niðurstöðukafla álitsins var sagt að til að lífríki árinnar yrði fyrir sem minnstum skaða væri nauðsynlegt að ráðfæra sig við fiskifræðinga um tilhögun og áfangaskiptingu.

Í álitinu var lögð áhersla á mikilvægi þess að efnistaka yrði unnin skipulega og yfir lengra tímabil, en fram kom að hún myndi vara í 20 ár. Var í því sambandi talið jákvætt að landeigendur hefðu sameinast um skipulag efnistökunnar, sem ætti að bæta skipulag hennar og lágmarka neikvæð umhverfisáhrif. Meðal mótvægisaðgerða sem fjallað yrði um við útgáfu hvers framkvæmdaleyfis væri hvernig staðið yrði nánar að efnistökunni á hverjum stað. Þá kom fram að ekki yrði efnistaka á tímabilinu 1. maí til 30. september. Í niðurstöðum álitsins var gerð ábending um að nauðsynlegt væri að í aðalskipulagi Hörgársveitar yrði tekið á efnistöku í Hörgá með heildstæðum hætti til að leggja línurnar um skipulag efnistöku í og við ána.

Hið kærða leyfi, sem er dags. 12. september 2022, er gefið út á grundvelli 33. gr. laga nr. 61/2006. Í þeirri lagagrein er kveðið á um það að sérhver framkvæmd í eða við veiðivatn, allt að 100 metrum frá bakka, sem áhrif geti haft á fiskigengd þess, afkomu fiskstofna, aðstæður til veiði eða lífríki vatnsins að öðru leyti, sé háð leyfi Fiskistofu. Mælt er fyrir um hvaða gögn skuli fylgja umsókn um slíkt leyfi og er þar m.a. nefnd umsögn sérfræðings á sviði veiðimála um hugsanleg áhrif framkvæmdar á lífríki veiðivatns.

Með leyfinu féllst Fiskistofa á að framkvæmdaraðili tæki allt að 85.000 m3 af malarefni á tveimur árum úr efnistökusvæði E6 við Hörgá. Fram kom að efnistakan skyldi fara fram utan veiðitíma árinnar og unnin í samráði við fiskifræðing til þess að meta áhrif framkvæmdarinnar á fiskistofna árinnar. Seiðamælingar yrðu gerðar á völdum stöðum áður en framkvæmdin hæfist og að henni lokinni. Mælingar yrðu gerðar fyrir ofan, neðan og á framkvæmdasvæðinu. Þá fór Fiskistofa fram á að gerð yrði grein fyrir helstu niðurstöðum seiðarannsókna og niðurstöður yrðu síðan teknar saman í skýrslu að lokinni efnistökunni og hún send stofnuninni ekki síðar en 31. desember 2024.

Í hinu kærða leyfi kemur fram að Fiskistofa hafi litið til gagna sem fylgdu upphaflegri umsókn um leyfið og skýrslu um mat á umhverfisáhrifum. Með henni hafi fylgt upplýsingar um framkvæmdina og yfirlitsmynd af fyrirhuguðu framkvæmdasvæði, álit Skipulagsstofnunar vegna mats á umhverfisáhrifum vegna efnistöku úr og við Hörgá, umsókn stjórnar Veiðifélags Hörgár og samþykki landeigenda. Þá lá fyrir umsögn sérfræðings í veiðimálum um hugsanleg áhrif framkvæmdarinnar á lífríki veiðivatns skv. 2. mgr. 33. gr. laga nr. 61/2006. Umsögnin er dags. 18. mars 2019 og var því tveggja ára gömul við útgáfu leyfisins, en á hinn bóginn höfðu engar framkvæmdir átt sér stað á framkvæmdasvæðinu þegar það var veitt. Til þess er einnig að líta að gert er ráð fyrir því í hinu kærða leyfi að fiskifræðingur verði til ráðuneytis um tilhögun framkvæmda. Þá verður ekki gerð athugasemd við það mat Fiskistofu að sá sem lét álitið í té verði talinn sérfræðingur á sviði veiðimála.

Í leyfinu er ítarleg endursögn á umsögn sérfræðingsins og er rakið að engar seiðamælingar séu til af svæðinu, þ.e. úr meginfarvegi Hörgár. Á hinn bóginn væru fyrirliggjandi mælingar um stöðuna talsvert neðar í ánni, með mjög lágum gildum og talsvert ofan við svæðið þar sem gildi séu hærri og fari hækkandi því ofar sem dragi í ánni. Mælingar úr þverám í nágrenni svæðisins, t.d. Krossastaðaá, sýni mikinn þéttleika, raunar þann mesta á öllu vatnasvæði Hörgár. Í ljósi þessa sé freistandi að álykta að efnistökusvæðið sé á mörkum þess að vera gott hrygningar/búsvæði fyrir bleikju. Rétt sé að hafa í huga að í Krossastaðaá sé mikill þéttleiki og gæti sá þéttleiki einnig verið í lænu er liggi samhliða Hörgá í framhaldi af Krossastaðaá. Þá lænu og aðra andspænis þurfi að skoða sérstaklega og bíða með framkvæmdir þar uns seiðamælingar hafi farið fram. Mögulega þurfi að friða þá farvegi algerlega. Samkvæmt veiðitölum (veiðisvæði 3) sé svæðið með lakari veiðisvæðum árinnar og hafi veiðin dalað mjög á svæðinu síðust ár. Á svæðinu hafi áin safnað nokkurri möl, farvegir hækkað og breyst á milli ára, við það hefur hætta á bakkarofi með flóðum á ræktarland aukist. Séu landeigendur uggandi og séu uppi hugmyndir um bakkavarnir með stórgrýti. Afleiðingar slíkra framkvæmda séu oftar en ekki þær að áin grafi sig í djúpan og hraðan stokk meðfram bakkavörn. Slíkir staðir hugnist bleikju ekki.

Fram kemur einnig að framkvæmdin geti haft nokkur áhrif á búsvæði fiska og seiðaframleiðslu vatnssvæðisins. Það sé þó álit sérfræðingsins að með ákveðnu verklagi, mótvægisaðgerðum og eftirfylgni, megi jafnvel gera þessa efnistöku jákvæða fyrir lífríki árinnar. Varast skuli að dýpka ánna mikið en leggja fremur áherslu á að breikka farveg hennar. Áhrifin verði svo metin með seiðamælingu, myndatöku og gögnum úr veiðibókum. Mælt sé auk þess með því að rask á farvegi árinnar fari fram utan veiðitíma, eins og hann sé ákveðinn af veiðifélagi árinnar ár hvert, en sé þó með öllu óheimilt í júlí til september. Efnistakan sjálf geti svo farið fram utan þess tíma, en þá ekki í farvegi árinnar.

Í hinu kærða leyfi kemur fram að aflað hafi verið umsagnar veiðifélags Hörgár og hafi stjórn félagsins ekki gert athugasemd við efnistökuna, en árétti að ekki skuli unnið við hana á veiðitíma í ánni nema með sérstöku samkomulagi við veiðifélagið.

Í leyfinu er á grundvelli umsagnar sérfræðingsins heimiluð allt að 85.000 m3 efnistaka á efnistökusvæðinu á tveimur árum. Kveðið er á um að hún skuli fara fram utan veiðitíma árinnar. Engin bein afstaða er tekin til ábendinga í umsögn sérfræðingsins um tilhögun framkvæmdar hvað snertir æskilegt verklag og mótvægisaðgerðir, en mælt fyrir um að gengið skuli snyrtilega frá svæðinu að framkvæmdum loknum. Kveðið er á um að efnistakan skuli fara fram í samráði við fiskifræðing til þess að meta áhrif framkvæmdarinnar á fiskstofna árinnar. Skuli seiðamælingar gerðar á völdum stöðum áður en framkvæmdin hefjist og að henni lokinni, sem verði fyrir ofan, neðan og á framkvæmdasvæðinu. Skuli Fiskistofu gerð grein fyrir helstu niðurstöðum seiðarannsókna og niðurstöður teknar saman í skýrslu að lokinni efnistökunni sem send verði stofnuninni ekki síðar en 31. desember 2024. Loks er í leyfinu m.a. bent á að framkvæmdir við veiðivötn kunni að vera háðar framkvæmdaleyfi viðkomandi sveitarfélags.

Í 3. mgr. 33. gr. laga nr. 61/2006 er mælt fyrir um það að ef sérstök ástæða þyki til geti Fiskistofa krafist þess að framkvæmdaraðili láti gera líffræðilega úttekt á veiðivatni áður en leyfi til framkvæmdar er veitt. Fiskistofa geti í slíkum tilvikum kveðið nánar á um til hvaða þátta úttektin skuli ná. Í lögskýringargögnum kemur fram að ákvæðið feli í sér almenna skyldu til að standa þannig að framkvæmd við veiðivatn að ávallt liggi fyrir hver áhrif framkvæmdin kunni að hafa á þá þætti sem ráða afkomu fiskstofna vatnsins. Niðurstaða hinnar líffræðilegu úttektar geti leitt til þess að ekki verði fallist á framkvæmdina, þótt sá er hennar óski hafi aflað sér jákvæðra álita annarra umsagnaraðila, að því er segir í frumvarpi er varð að lögum nr. 60/2006 (þskj. 891, 132. löggjþ.). Með þessu er gert ráð fyrir einskonar þröskuldsviðmiðun, þannig að álíti Fiskistofa að umtalsverð áhrif geti orðið af framkvæmd á fiskigengd veiðivatns, afkomu fiskstofna, aðstæður til veiði eða lífríki vatnsins að öðru leyti, geti verið skilyrði til þess, til rannsóknar máls sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, að afla líffræðilegrar úttektar. Skal þá slík úttekt greidd af þeim sem óskar leyfis til framkvæmdanna, sbr. 4. mgr. 33. gr. laganna. Með þessum fyrirmælum er ekki fjallað um hvaða þýðingu það hafi ef fyrir liggur skýrsla um umhverfismat framkvæmdar, en eðlilegt virðist að efni hennar geti haft þýðingu um hvort krafist verði sérstakrar úttektar samkvæmt þessari lagagrein.

Svo sem að framan greinir telst hið kærða leyfi til leyfis til framkvæmda samkvæmt lögum nr. 106/2000. Af því leiðir að Fiskistofu var skylt við undirbúning leyfisins að byggja á 2. og 3. mgr. 13. gr. þeirra laga þar sem kveðið var á um að við útgáfu slíks leyfis skyldi leyfisveitandi kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hennar. Það er ljóst af hinu kærða leyfi að þessa var ekki gætt. Þar kemur að vísu fram að skýrsla um mat á umhverfisáhrifum hafi verið meðal gagna sem litið hafi verið til og fylgt hafi upphaflegri umsókn um framkvæmdina, en í engu er getið álits Skipulagsstofnunar. Þess í stað er í leyfinu aðeins fjallað um álit sérfræðings í veiðimálum og tillaga hans lögð grundvallar niðurstöðu. Með þessu vék undirbúningur hinnar kærðu ákvörðunar frá mikilvægum skilyrðum laga og verður því að fella hið kærða leyfi úr gildi.

Framangreindu til viðbótar bendir úrskurðarnefndin á að ekki verði séð að við undirbúning og veitingu hinna kærðu leyfa hafi verið tekin afstaða til framkvæmdanna á grundvelli laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála, en samkvæmt þeim er skylt að vernda yfirborðsvatnshlot og tryggja að ástand þeirra versni ekki.

 Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun Fiskistofu frá 12. september 2022 um að veita leyfi til efnistöku á svæði E-6 í Hörgá í Hörgársveit.

107/2023 Suðurnesjalína 2

Með

Árið 2023, fimmtudaginn 28. september, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 107/2023, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Voga frá 30. júní 2023 um að veita Landsneti hf. framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2 innan marka sveitarfélagsins.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. september 2023, er barst nefndinni sama dag, kæra Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands, Hraunavinir og Landvernd þá ákvörðun bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Voga frá 30. júní 2023 að veita Landsneti hf. framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2 innan marka sveitarfélagsins. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til þeirrar kröfu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Vogum 19. september 2023.

Málavextir og rök: Á fundi skipulagsnefndar Sveitarfélagsins Voga hinn 29. júní 2023 var tekin fyrir umsókn Landsnets hf. um framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2 innan marka sveitarfélagsins. Lagði nefndin til við sveitarstjórn að fallist yrði á umsókn félagsins samkvæmt leið C með vísan til rökstuðnings og þeirra skilyrða sem fram kæmi í 5. kafla í tillögu að greinargerð sveitarstjórnar. Næsta dag samþykkti bæjarstjórn afgreiðslu skipulagsnefndar og fól skipulagsfulltrúa að gefa út framkvæmdaleyfi.

Kærendur benda á að framkvæmdir séu yfirvofandi en áætlað sé að hefja framkvæmdir á þessu ári samkvæmt drögum að áætlun um framkvæmdaverk 2024–2026, sbr. tillögu að kerfisáætlun Landsnets 2023–2032. Sveitarfélagið hafi ekki rökstutt með fullnægjandi hætti ákvörðun sína um að veita framkvæmdaleyfi þvert á niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar frá 22. apríl 2020. Ekkert deiliskipulag sé til af svæðinu og engin grenndarkynning hafi farið fram. Þá hafi sveitarfélagið ekki gengið úr skugga um að öll fyrirliggjandi leyfi fyrir framkvæmdinni séu á réttum rökum reist. Með vísan til þeirra málsástæðna sé þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan mál þetta sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni, sbr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Leyfishafi bendir á að í tilvísuðum drögum að áætlun um framkvæmdarverk segi að gert sé ráð fyrir að hefja útboð verkþátta og framkvæmdir í kjölfar þess að tilskilin leyfi liggi fyrir. Þótt þau leyfi liggi nú fyrir hafi leyfishafi ekki náð samkomulagi um endurgjald fyrir landnot á allri línuleið Suðurnesjalínu 2 í Sveitarfélaginu Vogum, en framkvæmdir geti ekki hafist fyrr en það liggi fyrir eða eignarnám hafi farið fram, sbr. 21. gr. raforkulaga nr. 65/20023. Ekki liggi fyrir hvenær þessum þætti ljúki. Ef allt gangi að óskum verði hægt að fara í útboð í desember 2023 til febrúar 2024 og framkvæmdir geti þá hafist sumarið 2024. Séu því framkvæmdirnar séu ekki yfirvofandi í skilningi 5. gr. laga nr. 130/2011 og endanlegur úrskurður ætti að liggja fyrir áður en framkvæmdir hefjist.

Sveitarfélagið Vogar bendir á að ekkert framkvæmdaleyfi hafi enn verið gefið út. Engar forsendur séu því til að stöðva framkvæmdir. Stöðvun framkvæmda á grundvelli 5. gr. laga nr. 130/2011 sé þar að auki undantekningarheimild og beri að skýra ákvæðið þröngt. Réttaráhrif stöðvunar séu jafn afdrifarík og sambærileg og áhrif lögbanns, en við beitingu stöðvunarúrræðisins sé hins vegar ekki krafist tryggingar af hálfu þess aðila er fari fram á stöðvun eins og gert sé þegar lögbanni sé beitt. Þrátt fyrir það séu mjög þröngar skorður settar við beitingu lögbanns, sbr. 24. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl.

 Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda eða réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda.

Samkvæmt upplýsingum frá Sveitarfélaginu Vogum hefur ekki verið gefið út framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2. Þá liggur einnig fyrir samkvæmt upplýsingum frá leyfishafa að ekki hefur verið samið um endurgjald fyrir landnot á allri línuleið Suðurnesjalínu 2 í sveitarfélaginu, en skv. 21. gr. raforkulaga nr. 65/2003 má ekki leggja raflínur eða reisa önnur mannvirki á grundvelli leyfa samkvæmt lögunum fyrr en náðst hefur samkomulag um endurgjald fyrir landnot eða nýtingu auðlindar eða eignarnám hafi farið fram og umráðataka samkvæmt því. Jafnframt hefur leyfishafi upplýst nefndina um að stefnt sé að útboði fram­kvæmdanna í desember 2023 til febrúar 2024 og að framkvæmdir geti þá hafist sumarið 2024.

Gera verður ráð fyrir að meðferð málsins hjá úrskurðarnefndinni verði lokið innan lögbundins málsmeðferðartíma, sbr. 6. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, eða í öllu falli áður en framkvæmdir hefjast. Í ljósi framangreinds verður ekki talið að framkvæmdir séu yfirvofandi og því ekki knýjandi þörf til að grípa til svo íþyngjandi úrræðis sem stöðvun framkvæmda er þar til úrskurður gengur í kærumálinu. Verður kröfu kærenda þess efnis því hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða á grundvelli ákvörðunar bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Voga frá 30. júní 2023 um að veita Landsneti hf. framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2 innan marka sveitarfélagsins.

73/2023 Álfhella

Með

Árið 2023, fimmtudaginn 28. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 73/2023, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 10. maí 2023 um að synja byggingarleyfisumsókn fyrir staðsteyptu atvinnu-, lager- og geymsluhúsnæði á tveimur hæðum á lóð nr. 11 við Álfhellu.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. júní 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir Brimrás ehf. þá ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 10. maí 2023 að synja byggingarleyfisumsókn kæranda fyrir staðsteyptu atvinnu-, lager- og geymsluhúsnæði á tveimur hæðum á lóð nr. 11 við Álfhellu. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarkaupstað 30. júní 2023.

Málavextir: Á árinu 2019 sótti kærandi um breytingu á deiliskipulagi Hellnahrauns, 2. áfanga, vegna lóðar nr. 11 við Álfhellu í Hafnarfirði. Í breytingartillögunni var greint frá því að byggingar­reitur færðist til á lóð og að bundin byggingarlína félli niður. Á skipulagsuppdrætti var gert ráð fyrir útitröppum á vesturhlið hússins sem yrði fyrir utan byggingarreit.Að undangenginni málsmeðferð samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010 tók deiliskipulags­breytingin gildi við birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 25. september 2019.

Hinn 23. október 2020 sótti kærandi um leyfi til að byggja staðsteypt atvinnu-, lager- og geymsluhúsnæði á tveimur hæðum á lóðinni Álfhellu 11. Í kjölfarið mun kærandi og byggingar­fulltrúi hafa átt í nokkrum samskiptum og í apríl 2022 mun kærandi hafa lagt fram uppfærðan aðaluppdrátt. Í tölvubréfi byggingarfulltrúa, dags. 23. september 2022, kom fram sú afstaða embættisins að „ekki [væri] hægt að hafa lager með engri lyftu“ og að skrifa þyrfti í byggingarlýsingu að um frávik frá gildandi deiliskipulagi væri að ræða þar sem stigi og lyfta færu út fyrir byggingarreit. Hinn 13. febrúar 2023 lagði kærandi fram uppfærða upp­drætti til byggingarfulltrúa. Kæranda og byggingarfulltrúa munu hafa átt fund 18. s.m. og í kjölfar hans sendi kærandi byggingarfulltrúa bréf, dags. 3. maí s.á., þar sem færð voru rök fyrir því að ekki væri þörf á lyftu í húsnæðinu og þess óskað að byggingarleyfisumsóknin yrði tekin til afgreiðslu. Á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa 10. s.m. var umsókn kæranda synjað þar sem hún væri hvorki í samræmi við byggingarreglugerð né deiliskipulag. Í kjölfarið óskaði kærandi eftir frekari rökstuðningi fyrir ákvörðuninni og var hann veittur 16. maí 2023.

Málsrök kæranda: Kærandi telur hina kærðu ákvörðun byggja á ólögmætum sjónarmiðum og forsendum. Synjunin byggi annars vegar á því að fyrirhugað atvinnuhúsnæði á lóð Álfhellu 11 sé ekki í samræmi við byggingarreglugerð nr. 112/2012, en hins vegar að það sé ekki í samræmi við deiliskipulag.

Fyrra álitaefnið varði það hvort skylt sé að hafa lyftu í húsnæðinu, sbr. 4. tölulið 1. mgr. gr. 6.4.12. í byggingarreglugerð, en ákvæðið kveði á um að minnst ein lyfta skuli vera í öllum byggingum sem séu með tvær eða fleiri hæðir og hýsi opinbera starfsemi, hótel, samkomuhús, veitingastaði eða annað þjónustuhúsnæði, s.s. skrifstofur, þjónusturými iðnarhúsnæðis og verslanir svo og starfsemi sem almenningur hafi aðgang að. Orðalag ákvæðisins beri ekki með sér að skylt sé að hafa lyftur í öllu atvinnuhúsnæði, heldur eingöngu því sem falli undir skilgreininguna í ákvæðinu. Eins og fram komi á framlögðum uppdráttum geri kærandi ráð fyrir að á annarri hæð verði lagerhúsnæði, en þangað eigi aðrir en starfsmenn ekki erindi. Með öðrum orðum sé rýmið á annarri hæð ekki opið almenningi og teljist ekki þjónusturými iðnaðarhúsnæðis. Fái þessi sjónarmið stuðning í svari Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 23. mars 2023, við fyrirspurn kæranda um túlkun á ákvæðinu.

Bent sé á að samkvæmt lögmætisreglu íslensk stjórnsýsluréttar verði íþyngjandi ákvarðanir stjórnvalda að eiga sér stoð í lögum og reglum. Kostnaður við kaup á lyftu og tengdum búnaði og vegna lögbundins eftirlits með slíkum búnaði geti verið mjög stór hluti af byggingar- og rekstrarkostnaði. Byggingarfulltrúa sé ekki heimilt að fella á kæranda verulega íþyngjandi fjárhags­legar byrðar nema til staðar sé ótvíræð heimild í lögum og reglugerðarákvæðum, en sú heimild sé ekki til staðar.

Hvað síðarnefnda álitaefnið varði, þ.e. um ósamræmi við deiliskipulag, þá sé bent á að í sam­þykktu deiliskipulagi komi skýrt fram að stigi á vesturhlið hússins nái út fyrir byggingarreit. Í skilmálum fyrir deiliskipulag Hellnahrauns, 2. áfanga, nánar tiltekið grein 2.3., sé fjallað um byggingarreit og byggingalínur. Þar sé tilgreint að byggingar skuli vera innan byggingareita, einnig svalir, skyggni og léttbyggingar úr gleri. Samkvæmt því orðalagi falli stigar ekki þar undir. Sé stiginn því í samræmi við deiliskipulag lóðarinnar.

Þá sé bent á að byggingafulltrúi hafi gert þá athugasemd í tölvubréfi til kæranda, dags. 23. september 2022, að skrifa þyrfti í byggingarlýsingu að um frávik frá gildandi deiliskipulagi væri að ræða og að stigi og lyfta fari út fyrir byggingarreit. Verði ekki annað séð en að byggingar­fulltrúi hafi þá talið það vera í lagi þótt stigi færi út fyrir byggingarreit.

Málsrök Hafnarfjarðarkaupstaðar: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að á neðri hæð fyrirhugaðs atvinnuhúsnæðis að Álfhellu 11 eigi að vera eitt rými fyrir lager, en á efri hæð hússins eigi að vera sex rými sem einnig eigi að nota fyrir lager. Til að komast á efri hæð sé stigi utanhúss sem liggi vestanmegin við bygginguna, en í byggingarlýsingu komi fram að möguleiki sé á lyftu. Þetta séu allt rými sem hægt sé að selja sem sérstakan eignarhluta. Synjun byggingarfulltrúa hafi annars vegar byggst á því að hluti af byggingunni, þ.e. stigi á vesturhlið hússins, nái út fyrir byggingarreit, en samkvæmt deiliskipulagi skuli byggingin vera innan byggingarreits. Hins vegar hafi synjunin byggst á því að lyfta þyrfti að vera til staðar í húsinu til að uppfylla skilyrði gr. 6.4.12. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Í ákvæðinu komi m.a. fram að minnst ein lyfta skuli vera í byggingum sem hýsi starfsemi sem almenningur hafi aðgang að, en byggingarfulltrúi líti svo á að almenningur sé samheiti fyrir allt fólk, sbr. Íslensk orðabók frá 1963 sem skilgreini almenning sem „allur þorri manna, alþýða“.

Athugasemdir kæranda: Kærandi telji það engu máli skipta fyrir lögmæti ákvörðunar byggingar­fulltrúa Hafnarfjarðar hvort einhvern tíma í framtíðinni verði hugsanlega hægt að selja hluta húsnæðisins. Umsókn kæranda lúti að húsinu eins og það sé skilgreint á byggingar­nefndarteikningum og eins og hann og systurfyrirtæki hyggist nýta það í þeirri starfsemi sem þar eigi að fara fram.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúa Hafnar­fjarðar að synja umsókn kæranda um leyfi til að byggja staðsteypt atvinnu-, lager- og geymslu­húsnæði á tveimur hæðum á lóð nr. 11 við Álfhellu í Hafnarfirði. Var ákvörðunin tekin á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa 10. maí 2023 með vísan til þess að fyrirhugað húsnæði samræmdist hvorki deiliskipulagi svæðisins né byggingarreglugerð nr. 112/2012. Í umbeðnum rökstuðningi sem byggingarfulltrúi veitti 16. maí 2023 var vísað til þess að hluti af fyrirhugaðri byggingu, þ.e. stigi á vesturhlið hússins, myndi ná út fyrir byggingarreit og að það væri ekki í samræmi við það skilyrði deiliskipulags svæðisins að byggingar skyldu vera innan byggingar­reits. Þá vísaði byggingarfulltrúi einnig til þess að þörf væri á lyftu í húsinu til að skilyrði gr. 6.4.12. í byggingarreglugerð væru uppfyllt.

Samkvæmt 1. mgr. gr. 6.2.1. í byggingarreglugerð skal staðsetja byggingu innan byggingar­reits. Í sömu málsgrein er kveðið á um að bygging á lóðarmörkum að gangstétt, við gatnamót eða að almennum gangstíg megi aldrei hindra útsýni yfir götu eða gangstíg þar sem gera má ráð fyrir akandi umferð, né valda hættu fyrir gangandi umferð með útitröppum, útskagandi byggingarhlutum, veggsvölum, opnanlegum gluggum eða hurðum. Er samkvæmt þessu gert ráð fyrir því að útitröppur megi ná út fyrir byggingarreit nema í þeim tilvikum sem reglugerðar­ákvæðið tilgreinir. Þá verður einnig að líta svo á að sveitarstjórn sé heimilt að setja skilyrði í skipulagsáætlun þess efnis að útitröppur skuli staðsetja innan byggingarreits.

Ekki verður séð að fyrirhugaðar útitröppur á vesturhlið Álfhellu 11 muni valda hættu fyrir gangandi umferð þótt þær standi utan byggingarreits, sbr. áðurnefnd gr. 6.2.1. í byggingar­reglugerð. Í gildandi deiliskipulagi Hellnahrauns, 2. áfanga, er í gr. 2.3 fjallað um skilmála fyrir byggingarreiti og byggingarlínur, en þar er ekki tilgreint að útitröppur skuli vera innan byggingar­reits. Þá er á skipulagsuppdrætti lóðarinnar Álfhellu 11 gert ráð fyrir útitröppum á vesturhlið hússins. Með hliðsjón af því verður að telja að byggingarfulltrúa hafi ekki verið rétt að synja byggingarleyfisumsókn kæranda á þeim grundvelli að útitröppur standi utan byggingar­reits, enda stóðu hvorki ákvæði byggingarreglugerðar, skilmálar deiliskipulags né skipulagsuppdráttur því í vegi.

Í gr. 6.4.12. í byggingarreglugerð er fjallað um lyftur og lyftupalla. Fjallar 1. mgr. um megin­reglur sem gilda, en þar segir í 4. tölulið að minnst ein lyfta skuli vera í öllum byggingum sem séu tvær eða fleiri hæðir og hýsi opinbera starfsemi, hótel, samkomuhús, veitingastaði eða annað þjónustuhúsnæði, s.s. skrifstofur, þjónusturými iðnaðarhúsnæði og verslanir svo og starfsemi sem almenningur hefur aðgang að. Í rökstuðningi byggingarfulltrúa fyrir ákvörðun sinni er vísað til þess að almenningur sé samheiti fyrir allt fólk og því þurfi að vera lyfta upp á aðra hæð hússins. Einnig er vísað til þess að á efri hæðinni séu sex rými sem hægt sé að selja sem sérstaka eignarhluta.

Kærandi ráðgerir með byggingaráformum sínum að reisa tveggja hæða atvinnuhúsnæði þar sem á annarri hæðinni verði lager. Ekki verður talið að sú fyrirhugaða starfsemi falli undir að vera þjónusturými iðnaðarhúsnæðis eða starfsemi sem almenningur hafi aðgang að. Var byggingar­fulltrúa því ekki stætt á að synja byggingarleyfisumsókn með vísan til þess að þörf væri á lyftu vegna ákvæðis gr. 6.4.12. í byggingarreglugerð. Breytir engu í þeim efnum þótt sá mögu­leiki sé fyrir hendi að einhverjir eignarhlutar efri hæðarinnar verði seldir og að önnur starfsemi muni síðar eiga sér þar stað, enda er ljóst að sækja þarf um byggingarleyfi fyrir breyttri notkun og mun byggingarfulltrúi við afgreiðslu slíkrar umsóknar þurfa að taka afstöðu til þess hvort skilyrði byggingarreglugerðar um algilda hönnun séu uppfyllt.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið þykir rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar það áfátt að fella ber hana úr gildi.

 Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 10. maí 2023 um að synja byggingar­leyfisumsókn fyrir staðsteyptu atvinnu-, lager- og geymsluhúsnæði á tveimur hæðum á lóð nr. 11 við Álfhellu.

111/2023 Hafnargata

Með

Árið 2023, fimmtudaginn 28. september, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 111/2023, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Fjarðarbyggðar frá 5. september 2023 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir hljóðmön við lóðarmörk Hafnargötu 36, Fáskrúðsfirði.

 Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

 Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. september 2023 er barst nefndinni sama dag, kæra íbúar að Búðavegi 24, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar frá 5. september s.m. að samþykkja byggingarleyfisumsókn Loðnuvinnslunnar hf. fyrir hljóðmön við lóðarmörk Hafnargötu 36, Fáskrúðsfirði. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og vísað til efnislegrar meðferðar hjá byggingarfulltrúa Fjarðarbyggðar. Einnig er farið fram á að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu.

Málsatvik og rök: Á lóð Hafnargötu 36 á Fáskrúðsfirði er rekin fiskvinnslustarfsemi í frystihúsi leyfishafa. Á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar Fjarðarbyggðar 29. ágúst 2023 var samþykkt umsókn leyfishafa um leyfi til að reisa hljóðmön á lóðarmörkum Hafnargötu 36 er hefur þann tilgang að draga úr hljóðmengun frá fiskvinnslunni. Hinn 5. september 2023 gaf byggingarfulltrúi út byggingarleyfi fyrir framkvæmdinni.

Kærendur telja að gera hefði átt deiliskipulag vegna framkvæmdarinnar þar sem skilyrði grenndarkynningar um samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar hafi ekki verið fyrir hendi, sbr. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og gr. 5.9.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Hið kærða leyfi varði heimild til að reisa risastóran hljóðvegg, nokkrum metrum frá heimili þeirra. Um sé að ræða stórkostlega breytingu á byggðamynstri Fáskrúðsfjarðar sem sé fordæmisgefandi fyrir atvinnustarfsemi sem séu nálægt íbúðarhúsnæði. Framkvæmdir séu þegar hafnar og ljóst sé að ekki muni taka langan tíma að byggja hljóðmönina. Sé því óskað eftir því að úrskurðarnefndin stöðvi framkvæmdir strax þar sem að þeim verði nær örugglega lokið áður en úrskurðarnefndin getið tekið efnislega ákvörðun í málinu.

Af hálfu sveitarfélagsins er á því byggt að skilyrði fyrir grenndarkynningu framkvæmdarinnar hafi verið uppfyllt. Það að framkvæmdin taki stuttan tíma geti ekki talist sérstök rök fyrir að stöðva framkvæmdina.

 Leyfishafi bendir á að samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé það meginregla að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar. Frá þeirri reglu sé sú undantekning gerð að kærandi geti krafist þess að nefndin úrskurði um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Óljóst sé á hvaða grunni umrædd stöðvunarkrafa sé byggð að öðru leyti en að framkvæmdir yrðu að öllum líkindum yfirstaðnar þegar úrskurðarnefndin taki efnislega ákvörðun í málinu. Bent sé á að framkvæmdinni sé ætlað að draga úr hávaðamengun að beiðni kærenda, ljúka úrbótarætlun gagnvart heilbrigðiseftirliti og tryggja að fiskvinnslan uppfylli öll skilyrði hljóðvistar í komandi vertíðum.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið sé til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra beri þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda.

 Tekið er fram í athugasemdum um 5. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggist á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Þar kemur einnig fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili sé að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun sé íþyngjandi fyrir hann. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af æðra stjórnvaldi.

 Hið kærða byggingarleyfi heimilar byggingu hljóðmanar á lóðarmörkum Hafnargötu 36 á Fáskrúðsfirði. Að virtum framangreindum lagaákvæðum, þeim sjónarmiðum sem liggja þeim að baki sem og að um er að ræða afturkræfa framkvæmd verður ekki talin knýjandi þörf á að stöðva framkvæmdir á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður kröfu kæranda þess efnis því hafnað.

Rétt þykir þó að taka fram að framkvæmdaraðili ber áhættu af úrslitum kærumálsins kjósi hann að halda áfram framkvæmdum áður en niðurstaða þessa máls liggur fyrir

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða á grundvelli ákvörðunar byggingarfulltrúa Fjarðarbyggðar frá 5. september 2023 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir hljóðmön við lóðarmörk Hafnargötu 36, Fáskrúðsfirði.

83/2023 Kirkjusandur

Með

Árið 2023, fimmtudaginn 28. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 83/2023, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 16. febrúar 2023 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kirkjusands vegna lóðarinnar nr. 2 við Kirkjusand.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. júlí 2023, er barst nefndinni 4. júlí s.á., kærir húsfélagið Kirkjusandi 1, 3 og 5, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 16. febrúar 2023 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kirkjusands vegna lóðarinnar nr. 2 við Kirkjusand. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 10. júlí 2023.

Málavextir: Á Kirkjusandi í Reykjavík er í gildi deiliskipulag Kirkjusands frá 30. nóvember 1990. Deiliskipulagið hefur sætt breytingum og með breytingu er tók gildi 28. júní 2016 var gert ráð fyrir að skrifstofuhúsnæði á Kirkjusandi 2 myndi standa áfram og væri eingöngu gert ráð fyrir atvinnuhúsnæði á lóðinni.

Hinn 29. júní 2022 samþykkti umhverfis- og skipulagsráð að auglýsa tillögu um breytingu á deiliskipulagi Kirkjusands vegna lóðarinnar nr. 2 við Kirkjusand. Í tillögunni fólst breytt landnotkun, þ.e. heimiluð blöndun atvinnu- og íbúðarhúsnæðis, byggingarmagn, breyting á byggingar­reitum og skilmálum lóðar sem merkt er A í deiliskipulaginu. Borgarráð samþykkti tillöguna til auglýsingar á fundi 7. júlí s.á. Deiliskipulagstillagan var auglýst til kynningar með athuga­semda­fresti frá 21. s.m. til og með 19. september s.á. Athugasemdir bárust á kynningar­tíma, þ. á m. frá kæranda. Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 2. febrúar 2023, var tekin afstaða til framkominna athugasemda.

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 8. febrúar 2023 var málið tekið fyrir og var umsögn skipulagsfulltrúa lögð fram. Samþykkti ráðið tillöguna með þeim breytingum sem fram komu í umsögn skipulagsfulltrúa. Borgarráð samþykkti deiliskipulagsbreytinguna á fundi 16. s.m. og var hún send Skipulagsstofnun til lögboðinnar meðferðar. Í bréfi stofnunarinnar, dags. 18. apríl 2023, kom fram að hún gerði ekki athugasemdir við að birt yrði auglýsing um gildistöku deili­skipulags­­breytingarinnar en benti á að tilefni væri til að gera nánari grein fyrir umfangi áætlaðs niðurrifs með tilliti til loftslagsáhrifa. Deiliskipulagsbreytingin tók gildi með birtingu aug­lýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 29. júní 2023.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að enn sé gert ráð fyrir að fjöldi hæða byggingar, sem merkt sé A4 á skipulagsuppdrætti, séu fleiri en fimm. Farið sé fram á að ekki verði leyfð glerbygging á þaki hússins eða annarra húsa á reitnum sem valdi skuggavarpi á nærliggjandi hús norðan Kirkjusands. Einnig séu gerðar athugasemdir við fjölda nýrra íbúða á Kirkjusandi 2, skort á félagslegum innviðum í ljósi mikillar fjölgunar íbúa, aukna bílaumferð, aukna slysahættu auk neikvæðra umhverfisþátta, s.s. hættu á vindsveipum og sólarlausum útivistar­svæðum.

Þá hafi deiliskipulagsbreytingin tekið miklum efnislegum breytingum frá auglýstri tillögu án þess að þær breytingar hafi verið kynntar íbúum svæðisins. Kynnt deiliskipulagsbreyting hafi gert ráð fyrir 225–240 íbúðum á reit Kirkjusands 2 og hafi því byggingarmagni verið mótmælt. Nú sé tala íbúða komi í 432 sem sé aukning um allt að 86%. Sé miðað við 2,5 íbúa á íbúð verði íbúaaukning um 1.100. Þessi breyting sé rökstudd með því að atvinnuhúsnæði á reitnum sé minnkað um 10.400 m2. Skjóti þetta skökku við þar sem mikill skortur sé þegar til staðar í Laugar­nes­hverfi á atvinnuhúsnæði fyrir þjónustu við almenning, s.s. verslunum, veitinga­stöðum og öðrum þjónustufyrirtækjum.

Þörf hefði verið á mati á vindafari í vindgöngum áður en deiliskipulagið hefði verið samþykkt. Slíkt mat hefði getað leitt til breytinga á umfangi og staðsetningu bygginga. Einnig séu niðurstöður umferðarhermunar vafasamar. Gera verði þá kröfu að farið verði yfir þær af þar til bærum sérfræðingum á þessu sviði skipulagsmála.

Viðmiðunartölur um fjölda leikskóla- og grunnskólabarna virðist vera óvenju lágar að mati skipulagsfræðings sem leitað hafi verið álits hjá. Fram hafi komið í umræðu að leik- og grunnskólar geti sem standi ekki tekið við fleiri börnum í hverfinu. Því verði að endurskoða og útskýra fyrir íbúum um væntanlega fjölgun íbúa á svæðinu. Liggja verði fyrir skýrar áætlanir um hvar og hvenær fyrirhugað sé að auka leik- og grunnskólarými fyrir verðandi íbúa. Í umsögn skipulagsfulltrúa sé vísað til minnisblaðs frá skóla- og frístundasviði, en nú sé það plagg marklaust við mat á þörfum fyrir innviði þar sem á þeim tíma hafi í skipulagi aðeins verið gert ráð fyrir 195 íbúðum.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að komið hafi verið til móts við athugasemdir kæranda á auglýsingartíma deiliskipulagstillögunnar um að lækka hús A4, en fjölda hæða hafi verið fækkað úr sjö í sex til þess að minnka skuggavarp. Samkvæmt uppdráttum sé efsti punktur núverandi íbúðarhúss við Kirkjusand 1, 3 og 5 hærri en hámarkshæð húss A4. Að öðru leyti séu byggingarreitir óbreyttir frá kynningu deiliskipulags­tillögunnar. Byggingarmagn sé einnig óbreytt en þurfi að rúmast innan skilgreindra byggingarreita og skilmála.

Stefna og viðmið Aðalskipulags Reykjavíkur 2040 um þéttleika byggðar og byggingarmagn gefi einvörðungu til kynna mögulega hámarksnýtingu svæða. Endanleg ákvörðun um magn bygginga, fjölda íbúða, hæðir húsa og þéttleika á einstökum svæðum sé ávallt tekin við gerð deiliskipulags með tilliti til meginmarkmiða aðalskipulags um sjálfbæra þróun og gæði byggðar. Tillagan samræmist þeim meginmarkmiðum sem sett séu í aðalskipulagi, m.a. varðandi lágmarkshlutfall sólríkra dvalarsvæða, áherslu á grænt og manneskjulegt yfirbragð og náið samspil bygginga og almenningsrýma. Viðmið um lágmarkshlutfall sólríkra dvalarstaða sé í samræmi við kafla 3.6.3 í aðalskipulagi. Samkvæmt skilmálum deiliskipulags­breytingarinnar skuli samanlagt flatarmál dvalar- og leiksvæða á lóðinni samsvara að lágmarki 20% af samanlögðu birtu flatarmáli íbúða á lóðinni og 5% af birtu flatarmáli atvinnuhúsnæðis. Lögð sé áhersla á að þessi svæði séu björt og gerð sé krafa um að svæði sem svari til lágmarks 50% leik- og dvalarsvæða geti notið sólar í fimm klukkustundir á milli klukkan 09:00 og 17:00 þann 1. maí.

Misskilnings gæti hjá kæranda um að íbúðum hafi verið fjölgað verulega eftir að tillagan hafi verið auglýst, en hámarksfjöldi íbúða sé óbreyttur. Við meðferð málsins hafi Skipulagsstofnun gert athugasemd við að heildarfjöldi íbúða á deiliskipulagssvæðinu öllu kæmi ekki fram í tillögunni og því hafi honum verið bætt inn í greinargerð. Um sé að ræða nánari upplýsingar, en ekki efnislega breytingu. Þannig séu tölur kæranda yfir væntanlegan heildarfjölda íbúa um 1000 ekki réttar. Sé miðað við hefðbundnar íbúðir og að meðaltali 2,5 manns í íbúð sé væntanlegur íbúafjöldi nær 560 í samræmi við auglýsta tillögu.

Skipulagsfulltrúi hafi farið fram á að áhrif tillögunnar á umferð yrðu skoðuð áður en afstaða yrði tekin til hennar. Lóðarhafi hafi fengið verkfræðistofu til að gera umferðarhermun sem sýni áhrif aukins byggingarmagns og fjölgunar íbúða á kostnað atvinnuhúsnæðis á umferðarsköpun við reitinn. Samkvæmt minnisblaði verkfræðistofunnar, dags. 14. ágúst 2019, leiði breytt land­notkun jafnvel til minni umferðarsköpunar.

Þá hafi skilmálum um vindgreiningar verið bætt við tillöguna í kjölfar auglýsingar, en nú komi þar fram að lóðarhafi skuli gera vindgreiningu á útisvæðum lóðarinnar og aðlægum göturýmum áður en byggingarleyfi verði gefið út. Séu mótvægisaðgerðir vegna aukins vinds nauðsynlegar skuli þær koma fram á aðaluppdráttum. Hvað varði faglega ábyrgð þá sé það sveitarstjórn sem beri ábyrgð á gerð deiliskipulagsins, en öll vinna við breytinguna hafi verið unnin af þar til bærum hönnuðum og arkitektum.

Skóla- og frístundasvið hafi það hlutverk að gera ráðstafanir í skóla- og leikskólamálum ef þurfa þyki vegna fjölgunar íbúa, en viðmiðunartölur um leikskólabörn séu hjá sviðinu. Í minnisblaði sviðsins, dags. 4. september 2019, komi fram spá um fjölgun barna í skóla, leikskóla og frístund miðað við aukinn fjölda íbúða á Kirkjusandi. Miðað sé við 0,15 leikskólabörn á hverja íbúð og 0,29 grunnskólabörn, en tekið sé skýrt fram að um spá sé að ræða og að allar tölur séu því aðeins viðmið. Kirkjusandur sé ekki eini uppbyggingar­reiturinn í skólahverfinu og því megi búast við fjölgun leik- og grunnskólabarna á næstu árum. Samkvæmt minnis­blaðinu hafi leik- og grunnskólar ekki getað tekið við auknum fjölda barna árið 2019, en á móti komi að fyrirhugað sé að auka byggingarmagn í hverfinu fyrir bæði grunn- og leikskóla. Rétt sé að taka fram að minnisblaðið sé byggt á áætlaðri aukningu um 195 íbúðir á Kirkjusandi Reit A, en ekki 225–240 eins og endanleg deiliskipulagstillaga geri ráð fyrir. Uppfærsla á þessum tölum hafi verið send skóla- og frístundasviði sem sé nú upplýst um stöðuna og hafi vitað af áformum um fjölgun íbúða á Kirkjusandi frá því snemma í skipulags­ferlinu eða árið 2019. Þess megi geta að gert sé ráð fyrir nýjum ungbarnaleikskóla á Reit E sem sé nú í uppbyggingu.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi ítrekar að mikið ósamræmi sé í uppgefnum fjölda íbúða á reitnum og um leið fjölda íbúa. Svo virðist sem eldri tillaga að breytingu á deiliskipu­laginu hafi verið höfð í huga við skrif umsagnar borgaryfirvalda. Í henni sé gengið út frá 224 íbúðum, eða 560 íbúum, en samkvæmt endanlegri deiliskipulagsbreytingu sé gert ráð fyrir um 430 íbúðum á reitnum, eða um 1075 íbúum, án útskýringa.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti breytingar á deiliskipulagi Kirkjusands vegna lóðarinnar nr. 2 við Kirkjusand. Samkvæmt áðurgildandi deiliskipulagi var nýtingarhlutfall lóðarinnar 1,6 ofanjarðar og 4,5 í heild, en með breyttu skipulagi er nýtingarhlutfallið 2,1 ofanjarðar og 4,0 í heild.

Gerð skipulags innan marka sveitarfélags er í höndum sveitarstjórnar skv. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, en í því felst einnig heimild til breytinga á gildandi deiliskipulagi, sbr. 43. gr. laganna. Skal deiliskipulag byggja á stefnu aðalskipulags og rúmast innan heimilda þess, sbr. 3. mgr. 37. gr. og 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga. Við töku skipulags­ákvarðana er sveitarstjórn bundin af meginreglum stjórnsýsluréttar, þ. á m. lögmætisreglunni sem felur m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum markmiðum og sem endranær er sveitarstjórn bundin af öðrum meginreglum stjórnsýsluréttarins. Að gættum framangreindum reglum hafa sveitarstjórnir mat um það hvernig deiliskipulagi og breytingum á því skuli háttað.

Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 er Kirkjusandur á svæði M6b, en þar er gert ráð fyrir skrifstofum og eru íbúðir heimilar, einkum á efri hæðum bygginga. Reiturinn er einn af uppbyggingarreitum fyrir nýja íbúðarbyggð þar sem gera má ráð fyrir 50 íbúðum eða fleiri. Á töflu 3.1 í kafla III. í greinargerð aðalskipulagsins, Landnotkun og önnur ákvæði um uppbyggingu og þróun byggðar, er reiturinn merktur sem „Kirkjusandur-SÍS-reitur“ og kemur þar fram að fjöldi hæða húsa sé fimm til átta. Í kafla 3.6.2, Hæðir húsa, kemur fram að bindandi ákvæði um hæðir húsa á helstu þróunarsvæðum íbúðarbyggðar og blandaðrar byggðar séu sett fram á mynd sex í sama kafla. Samkvæmt myndinni er umrædd lóð á svæði þar sem heimilt er að byggja fimm til átta hæða hús. Þar kemur einnig fram að mögulegt sé að víkja frá viðmiðum, þannig að heimilt sé að bæta við tveimur hæðum við gerð deiliskipulags, sé það sérstaklega rökstutt. Í greinargerð aðalskipulagsins segir enn fremur að stefna og viðmið aðalskipulags um þéttleika byggðar og byggingarmagn gefi „einvörðungu til kynna mögulega hámarksnýtingu svæða“ en að endanleg ákvörðun um magn bygginga, fjölda íbúða, hæðir húsa og þéttleika á einstökum svæðum sé ávallt tekin við gerð deiliskipulags með tilliti til meginmarkmiða aðalskipulags og með sérstöku tilliti til viðmiða og ákvæða sem sett séu fram í köflum 3.6.1–3.6.4. Í viðauka V. við aðalskipulagið er fjallað um breytingar sem gerðar hafi verið miðað við áðurgildandi Aðalskipulag Reykjavíkur 2010–2030 og tekið fram um túlkun hæðaviðmiða og frávika að „frávik verði einkum leyfð við götuhorn og háhýsi (>9 hæðir) verði aðeins leyfð í undan­tekningar­tilvikum á öllum svæðum. Vikmörk -1/+2 eða -1/+1 verði eftirleiðis einvörðungu +2 eða +1, þ.e. engin takmörk á lágmarkshæð, það verði fyrst og fremst til ákvörðunar í deiliskipulagi.“

Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu er heimiluð blöndun íbúðar- og atvinnuhúsnæðis. Í breytingunni felst að byggingarreitir verða fjórir á lóðinni, A1–A4, og breytt stærð, legu og fyrirkomulagi reitanna. Gert er ráð fyrir að byggingarnar verði fjórar til sex hæðir og heimilt sé að gera bílageymslu í kjallara á tveimur hæðum. Samkvæmt deiliskipulaginu er heimilaður fjöldi íbúða 225, en verði nemendaíbúðir á byggingarreit A3 er heimilt að auka heildarfjölda íbúða í 240. Heildarfjölda íbúða var ekki breytt eftir auglýsingu deiliskipulagstillögunnar, en í greinargerð var bætt við upplýsingum um fjölda íbúða á Kirkjusandsreitnum öllum. Samkvæmt áðurgildandi deiliskipulagi var gert ráð fyrir 427 íbúðum, en eftir breytinguna er heimilaður fjöldi íbúða á skipulagssvæðinu 667. Um hæðir húsa kemur m.a. fram að hámarkshæðir þeirra séu gefnar upp á deiliskipulagsuppdrætti, fjöldi hæða sé gefinn upp og ekki sé heimilt að fjölga þeim þótt heildarhæð sé innan uppgefinna hámarks­hæða. Á byggingarreit A3 er gert ráð fyrir fjögurra hæða byggingu, en á öðrum byggingar­reitum er fjöldi hæða fimm til sex. Er fjöldinn samkvæmt deiliskipulagsbreytingunni því í samræmi við áðurgreind ákvæði aðalskipulagsins.

Samkvæmt 5. mgr. 12. gr. skipulagslaga skal við gerð skipulagsáætlana gera grein fyrir áhrifum áætlunar og einstakra stefnumiða hennar á umhverfið, m.a. með samanburði þeirra kosta sem til greina koma, og umhverfismati áætlunarinnar. Fjallað er um umhverfismat deiliskipulags í gr. 5.4.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Þar segir í 1. mgr. að við gerð deiliskipulags skuli meta líkleg áhrif af fyrirhuguðum framkvæmdum og starfsemi á aðliggjandi svæði og einstaka þætti áætlunarinnar sjálfrar svo sem á ásýnd, útsýni, hljóðvist og loftgæði eftir því sem efni skipulagsins gefi tilefni til. Áætla skuli áhrif af t.d. umferð, hávaða og umfangsmiklum mannvirkjum, sbr. 2. mgr. ákvæðisins. Þá er kveðið á um í 3. mgr. að gera skuli grein fyrir matinu og niðurstöðu þess í greinargerð deiliskipulagsins. Sé um breytingu á deiliskipulagi að ræða skal gera grein fyrir áhrifum hennar á umhverfið með nýju umhverfismati ef við eigi, sbr. gr. 5.8.5.2. í reglugerðinni.

Í köflum 3.6.1.–3.6.4. í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 er m.a. vikið að atriðum sem snerta umhverfisgæði sem taka þurfi mið af við endanlegt mat á umfangi uppbyggingar, ákvörðun um hæðir húsa og byggingarform í deiliskipulagi og að við endanlega ákvörðun um byggingarmagn og fjölda íbúða í deiliskipulagi eigi að leggja til grundvallar niðurstöður úr samgöngumati og mati á áhrifum uppbyggingar á umferð á nærliggjandi götum.

Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu gerðu kærandi og fleiri nágrannar athugasemdir við auglýsta tillögu að umdeildri deiliskipulagsbreytingu. Lutu þær m.a. að umfangi fyrirhugaðrar byggðar með tilliti til hæðar og skuggavarps og aukningu umferðar. Einnig voru gerðar athugasemdir við skort á gögnum um vindgreiningu. Í svörum við athugasemdum var tekið fram að tillagan samræmdist meginmarkmiðum aðalskipulags, m.a. varðandi lágmarkshlutfall sólríkra dvalarsvæða, áherslur á grænt og manneskjulegt yfirbragð og náið samspil bygginga og almenningsrýma. Komið hefði verið til móts við athugasemdir um að fækka hæðum en hámarksfjölda hæða á byggingarreit A-4 hefði verið breytt úr sjö í sex. Einnig kom þar fram að tekið væri undir mikilvægi þess að tryggja skjól á dvalarsvæðum og í göturýmum. Því hefði skilmálum um vindgreiningar verið bætt við tillöguna í kjölfar auglýsingar. Jafnframt kom fram í svörum við athugasemdum að lóðarhafi hefði fengið verkfræðistofu til að gera umferðar­hermun sem sýndi áhrif aukins byggingarmagns og fjölgunar íbúða á kostnað atvinnuhúsnæðis á umferðarsköpun við reitinn.

Ljóst er að þær kröfur sem gerðar eru til umhverfismats deiliskipulags eru breytilegar eftir efni þess og umfangi. Við umrædda breytingu fjölgar íbúðum á svæðinu um 225–240 sem er aukning um 52–56%. Verður því að telja að tilefni hafi verið til að meta áhrif breytinganna. Í greinargerð deiliskipulagsins kemur fram að við vinnslu deiliskipulagsbreytingarinnar hafi verið horft sérstaklega til mögulegra umhverfisáhrifa af fyrirhuguðum framkvæmdum. Breyting verði á byggingarmagni, ásýnd og svipmóti byggðarinnar þar sem núverandi hús á lóðinni verði rifið, byggingarmagn lóðarinnar aukið, byggðin brotin meira upp og dvalar­svæðum komið fyrir í stað umfangsmikilla bílastæða. Þá sé hæð byggðarinnar „heilt yfir að mestu óbreytt“ og teljist áhrif á umfang og svipmót hennar því óveruleg. Einnig kemur fram að breyting á hlutfalli íbúðar- og atvinnuhúsnæðis hafi áhrif á umferðarmál á svæðinu og hafi þau verið skoðuð. Umferðarflæði muni breytast, en það hafi ekki teljandi neikvæð áhrif. Breyting á hlutfalli milli íbúðar- og atvinnuhúsnæðis hafi einnig áhrif á skólamál í hverfinu og hafi það verið skoðað við vinnslu deiliskipulagsins. Er dregin sú ályktun að á heildina litið séu áhrif tillögunnar talin óveruleg.

Svo sem greinir að framan vann verkfræðistofa umferðarhermun fyrir lóðarhafa og liggur fyrir í málinu minnisblað stofunnar, dags. 14. ágúst 2019. Þar kemur fram að helstu áherslur hafi verið að meta umferð sem myndi skapast vegna nýrrar uppbyggingar á svæðinu og dreifingu þeirrar umferðar ásamt áhrifum á aðliggjandi gatnakerfi. Til grundvallar lá m.a. fyrir þágildandi deiliskipulag Kirkjusands frá árinu 2016, tillaga að breytingu á deiliskipulagi frá 2019, sem var þó aldrei samþykkt, og umferðartalning frá árinu 2010. Þágildandi deiliskipulag gerði eingöngu ráð fyrir skrifstofum við Kirkjusand 2, en breytingartillaga sem lá til grundvallar umferðarspánni gerði ráð fyrir 195 íbúðum á reitnum. Vegna þessa mun ökutækjum á sólarhring fækka úr 3.200 í 1.800. Þá segir einnig: „Samanborið við gildandi deiliskipulag sýna niðurstöður umferðarhermunar fyrir háannatíma árdegis að umferðarástand verður betra við allar aðkomur Kirkjusandsreits með breyttu deiliskipulagi. Það stafar að mestu leyti af breyttu byggingarmagni atvinnuhúsnæðis sem leiðir til þess að færri (starfsmenn) koma að reitnum á háannatíma árdegis og fleiri fara út af reitnum (íbúar), sem skapar betra jafnvægi. Meðalraðir fyrir vinstri beygju árdegis af Sæbraut á Kirkjusand styttast úr rúmlega 60 m í 10 m.“

Samkvæmt framangreindu lágu fyrir gögn um áhrif breytinganna og mat á vissum þáttum við málsmeðferð deiliskipulagsbreytingarinnar. Jafnframt voru settir skilmálar um vindgreiningu sem liggja þarf fyrir áður en byggingarleyfi verður gefið út. Tilefni hefði verið til að gera nánari grein fyrir þáttum sem nefndir eru í gr. 5.4.1. í skipulagsreglugerð, s.s. hljóðvist, loftgæði og veðurfari og loftslagsáhrifum vegna niðurrifs núverandi byggingar. Verður sá annmarki þó ekki talinn ráða úrslitum um gildi hins kærða deiliskipulags.

Fjallað er um skuggavarp í 1. mgr. b-liðar í gr. 5.3.2.1. í skipulagsreglugerð. Þar kemur fram að við ákvörðun um fjarlægð milli einstakra byggingarreita skuli taka tillit til sólarhæðar og skuggavarps eftir því hver notkun bygginganna sé. Þá er fjallað um skýringarmyndir og önnur fylgiskjöl deiliskipulagstillögu í gr. 5.5.4. og kemur þar fram að ef skýringaruppdrættir fylgi skuli vísa til þeirra í deiliskipulagi og að skýringaruppdrætti, svo sem skuggavarpsteikningar, sé heimilt að nota til að sýna áhrif af og dæmi um útfærslu deiliskipulags.

Skuggavarpsteikningar fylgdu hinni kærðu skipulagsbreytingu sem sýna skuggavarp á vorjafndægri og sumarsólstöðum kl. 10:00, 13:30 og 17:00. Af þeim gögnum verður ráðið að heimilaðar framkvæmdir í hinu kærða deiliskipulagi muni hafa í för með sér einhver grenndaráhrif vegna skuggavarps, en telja verður að skipulagsyfirvöld hafi nokkurt svigrúm við mat á því hvert ásættanlegt skuggavarp sé hverju sinni.

Með vísan til þess sem að framan er rakið þykir hin kærða ákvörðun ekki haldin þeim form- eða efnisannmörkum að leitt geti til ógildingar hennar. Verður kröfu kæranda þar um því hafnað.

Rétt þykir að vekja athygli á að geti fasteignaeigendur sýnt fram á fjártjón vegna deiliskipulags eða breytinga á því geta þeir eftir atvikum átt rétt á bótum, sbr. 51. gr. skipulagslaga. Það álitaefni á hins vegar ekki undir úrskurðarnefndina heldur eftir atvikum undir dómstóla.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 16. febrúar 2023 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kirkjusands vegna lóðarinnar nr. 2 við Kirkjusand.