Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

122/2022 Kópaskerslína

Með

Árið 2023, föstudaginn 5. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 122/2022, kæra á ákvörðunum Skipulagsstofnunar frá 21. september 2022 um að lagning 66 kV jarðstrengs frá virkjun við Þeistareyki að Kópaskerslínu 1 skuli ekki háð umhverfismati og frá 11. október 2022 um að styrking Kópaskerslínu 1 skuli ekki sæta umhverfismati.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. október 2022, er barst nefndinni sama dag, kæra samtökin Náttúrugrið, ákvarðanir Skipulagsstofnunar frá 21. september 2022 um að lagning 66 kV jarðstrengs frá virkjun við Þeistareyki að Kópaskerslínu 1 skuli ekki háð umhverfismati og frá 11. október 2022 um að styrking Kópaskerslínu 1 skuli ekki háð umhverfismati.

Þess er krafist að ákvarðanir þessar verði felldar úr gildi og lagt verði fyrir Skipulagsstofnun að taka nýja ákvörðun í málunum. Til vara er þess krafist að ákvörðun um lagningu jarðstrengs frá virkjun við Þeistareyki verði felld úr gildi að hluta til, hvað varði nútímahraun.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 21. nóvember 2022.

Málavextir: Kópaskerslína 1 er loftlína sem liggur milli Laxárvirkjunar og Kópaskers. Línan er um 83 km löng og liggur m.a. um Reykjaheiði, Þeistareykjahraun, Kelduhverfi og Öxarfjörð.

Hinn 9. maí 2022 barst Skipulagsstofnun til ákvörðunar um matsskyldu tilkynning fram­kvæmdaraðila, Landsnets hf., um framkvæmdir á Kópaskerslínu 1 skv. 19. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, sbr. lið 13.02 í 1. viðauka við lögin. Í greinar­gerð sem fylgdi tilkynningunni kom fram að nokkrar bilanir hefðu orðið á línunni frá því hún hefði verið tekin í rekstur, þar af þrjár umfangsmiklar. Markmið framkvæmdarinnar væri að auka afhendingaröryggi á svæðinu. Samkvæmt greinargerð framkvæmdaraðila felst fyrir­­huguð framkvæmd í að styrkja Kópaskerslínu 1 á tveimur stöðum annars vegar með lagningu 2,5 km jarðstrengs í stað loftlínu og hins vegar endurnýjun loftlína á 5,5 km löngum kafla.

Við meðferð málsins leitaði Skipulagsstofnun umsagna Norðurþings, Minjastofnunar Íslands, Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Umhverfisstofnunar og Skógræktarinnar. Töldu þessir aðilar ekki þörf á umhverfismati vegna framkvæmdarinnar. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdarinnar lá fyrir 11. október 2022. Var niðurstaða stofnunarinnar sú að á grundvelli fyrirliggjandi gagna væri fyrirhuguð fram­kvæmd ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. þau viðmið sem tilgreind væru í 2. viðauka laga nr. 111/2021. Skyldi hún því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Hinn 2. ágúst 2022 barst Skipulagsstofnun til ákvörðunar um matsskyldu tilkynning fram­kvæmdaraðila um lagningu 66 kV jarðstrengs frá Þeistareykjum norður að Kópaskerslínu 1 skv. 19. gr. laga nr. 111/2021, sbr. liði 10.16 og 13.02 í 1. viðauka við lögin. Í greinargerð framkvæmdaraðila sem fylgdi tilkynningu kom m.a. fram að talsverðar rekstrartruflanir hefðu orðið á Kópaskerslínu 1 frá tengivirkinu á Þeistareykjum að mastri 172. Framkvæmdin fælist í því að leggja nýjan háspenntan 7,8 km langan jarðstreng og taka á móti niður loftlínuna. Nauðsynlegt sé að styrkja línuna þar sem hún sé hvað útsettust fyrir óveðrum til að viðhalda afhendingaröryggi á svæðinu. Með því að koma hluta línunnar í jörð sé hún vernduð gegn veðurálagi.

Við meðferð málsins leitaði Skipulagsstofnun umsagna Norðurþings, Þingeyjasveitar, Minja­stofnunar Íslands, Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra og Náttúrufræðistofnunar Ísland um það hvort framkvæmdin skyldi háð mati á umhverfisáhrifum. Töldu þessir aðilar ekki þörf á umhverfismati vegna framkvæmdarinnar. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu fram­kvæmdarinnar lá fyrir 21. september 2022. Var niðurstaða stofnunarinnar sú að á grundvelli fyrirliggjandi gagna væri fyrirhuguð framkvæmd ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. þau viðmið sem tilgreind væru í 2. viðauka laga nr. 111/2021. Skyldi hún því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Málsrök kæranda: Kærandi byggir á því að hin kærða ákvörðun sé háð verulegum annmörkum og hana skuli því ógilda. Varða málsrök kæranda aðallega ákvörðun Skipulags­stofnunar dags. 21. september 2022 um lagningu jarðstrengs frá virkjun við Þeistareyki að Kópaskerslínu. Það svæði sem strengurinn verði lagður um og er í kæru nefnt Skildingahraun njóti sérstakrar verndar samkvæmt lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd. Íslenskar orku­rannsóknir (ISOR) meti hraunið merkilegt í jarðsögulegu samhengi. Hraunið og hár aldur þess segi sögu jökulhörfunar snemma á síðjökultíma af hálendi Þeistareykjasvæðisins og setji í samhengi við jökulhörfun nærliggjandi svæða. Hrauninu verði raskað varanlega með því að leggja tæplega átta kílómetra langan jarðstreng frá Þeistareykjavirkjun að Kópaskerslínu 1.

Í greinargerð framkvæmdaraðila, sem fylgt hafi tilkynningu til Skipulagsstofnunar, komi ekki fram berum orðum að til standi að raska hrauninu, en af hinni kærðu ákvörðun megi sjá að nútímahrauni í skilningi 61. gr. náttúruverndarlaga verði raskað með framkvæmdinni. Lög mæli fyrir um að forðast skuli að raska slíkum fyrirbærum, en allt rask á nútímahrauni sé eðli máls samkvæmt varanlegt og óafturkræft. Í greinargerð framkvæmdaraðila sé ekki fjallað um áhrif á jarðminjar eða verndargildi þeirra, lög eða neitt sem tengist náttúruvernd, heldur eingöngu hvar sé hentugt fyrir framkvæmdaraðila að leggja strenginn í vegkanti gamals vegar. Einungis komi fram að strengleiðin sé öll í hrauni sem runnið hafi á síðjökultíma og það njóti sjálfkrafa verndar. Þá virðist eina tilvísun til hraunsins tengjast hverfisvernd í deiliskipulagi fyrir Þeistareykjasvæðið.

Í umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands, sem aflað var við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar, sé fullyrt að hraunið hafi að einhverju leyti glatað verndargildi sínu vegna jarðvegs og gróðurhulu. Þá kemur fram að ráðgerð strengleið sneiði fram hjá rishólum og sprungum í hrauninu „að mestu“ og með því sé rask á hrauninu lítið. Á Íslandi séu fjöldi nútímahrauna vel gróin, en allt að einu sérstæð og mikilvæg án þess að hafa glatað verndargildi sínu og því sé þetta byggt á misskilningi. Ekki hafi verið sýnt fram á með vísindalegum hætti að Skildingahraun hafi glatað verndargildi sínu eða að hraun geri það almennt séu þau undir gróðurhulu. Samkvæmt a- og b-lið 3. gr. náttúruverndarlaga séu verndarmarkmið fyrir jarðminjar annars vegar að varðveita skipulag heildarmynd af jarðfræðilegum ferlum og fyrirbærum sem gefi samfellt yfirlit um jarðsögu landsins og hins vegar að vernda jarðmyndanir sem séu sérstakar eða einstakar á lands- eða heimsvísu. Ástæða sérstakrar verndar eldhrauna, markmið um verndun jarðminja, varúðarregla 9. gr. náttúruverndarlaga og orðalag 61. gr. sömu laga styðji ekki þá ályktun að rask á hrauninu teljist ekki mikið vegna þess að lítið sjáist í hraunmyndanir.

Samkvæmt 4. mgr. 61. gr. náttúruverndarlaga beri að forðast að raska hrauninu nema brýna nauðsyn beri til. Ekki liggi fyrir í máli þessu hvort skilyrðið um brýna nauðsyn sé uppfyllt, enda hafi aðrir kostir ekki verið kannaðir við meðferð málsins. Svo ákvæði 61. gr. náttúruverndarlaga nái tilgangi sínum verði slíkt mat að fara fram. Í greinargerð fram­kvæmdaraðila hafi ekki verið gerð grein fyrir valkostum um aðgerðir við lagningu strengsins eða legu hans. Þá verði ekki séð að Skipulagsstofnun hafi rannsakað hvort aðrir valkostir séu fyrir hendi. Þannig hafi ekki verið fjallað um þann kost að leggja jarðstrenginn í sjálft vegstæðið og koma þar með í veg fyrir rask á hrauninu, en ekkert hafi komið fram við meðferð málsins sem útiloki þann kost. Skipulagsstofnun hafi brotið rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslu­laga nr. 37/1993 þar sem umfjöllun um sérstaka vernd nútímahrauna sé „í skötulíki“ og aðrir valkostir hafi ekki verið kannaðir. Með hliðsjón af 2. viðauka laga nr. 111/2021, skyldu til að bera saman valkosti í umhverfismati, sbr. c-lið 1. mgr. 22. gr. laganna, sem og varúðarreglu náttúruverndarlaga sé það ótæk niðurstaða að fyrirhuguð framkvæmd skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum að því er varði áhrif mögulegra framkvæmdakosta á hraunið.

Í 2. mgr. 19. gr. laga nr. 111/2021 sé mælt fyrir um að framkvæmdaraðili skuli, þar sem við eigi, taka tillit til fyrirliggjandi niðurstaðna um umhverfisáhrif framkvæmdar, til þess að unnt sé að ákvarða hvort tiltekin framkvæmd skuli sæta umhverfismati. Í greinargerð fram­kvæmdaraðila komi fram að fyrirhuguð framkvæmd sé „hluti af styrkingu Kópaskerslínu 1 og valkostur 2 sem lýst er í kafla 3.6.8. í áætlun um framkvæmdaverk 2022–2024 í kerfisáætlun Landsnets 2021–2030.“ Einhvers konar mat á áhrifum jarðstrengsins hafi legið fyrir í kerfisáætluninni, en annarra valkosta sem fjallað hafi verið um í umhverfismati áætlunarinnar hafi ekki verið getið í greinargerð framkvæmdaraðila til Skipulagsstofnunar. Í kerfisáætluninni er jarðstrengurinn sagður ekki raska svæðum undir sérstakri vernd 61. gr. náttúruverndarlaga og að hann verði lagður að mestu í núverandi línustæði. Hvorutveggja sé rangt, sé tekið mið af gögnum í máli þessu, enda raski jarðstrengur varanlega nútímahrauni svo til alla leið hans og hann sé ekki að neinu leyti meðfram núverandi línustæði. Þar af leiðandi sé verulegur annmarki á hinni kærðu ákvörðun að þessu leyti, en hvorki hafi verið skoðuð fyrirliggjandi gögn frá framkvæmdaraðila né hafi verið aflað gagna um áhrif jarðstrengsins og valkosta hans á jarðminjar sem njóti sérstakrar lagaverndar.

Í hinni kærðu ákvörðun komi fram að sökum stærðar sé ekki hægt að plægja strenginn í jörð heldur þurfi að grafa um 80 cm breiðan og 120 cm djúpan skurð. Þetta skipti höfuðmáli og Skipulagsstofnun hafi borið að taka sérstaklega til athugunar hvort unnt væri að koma svo djúpum skurði fyrir í vegstæðið, fyrst ótækt hafi verið að plægja hann niður, og komast hjá raski á hrauninu. Í kerfisáætlun framkvæmdaraðila sé fjallað um aðra valkosti. Jarðstrengurinn, sem hin kærða ákvörðun lúti að, sé hluti af einum þeirra valkosta sem settir hafi verið fram í umhverfismati áætlunarinnar. Samkvæmt matinu skerði hinir kostirnir eldhraunið annað hvort ekki eða minna, auk þess sem sá kostur sem um ræði í máli þessu hafi verið metinn dýrastur. Samþykkt Orkustofnunar á kerfisáætlun feli í sér leyfi stofnunarinnar til framkvæmdar samkvæmt aðalvalkosti kerfisáætlunarinnar, sbr. 2. mgr. 9. gr. raforkulaga nr. 65/2003. Ekki liggi fyrir leyfi Orkustofnunar fyrir framkvæmdum sem tilkynntar hefðu verið til Skipulags­stofnunar, þar sem framkvæmdirnar séu ekki aðalvalkostur samkvæmt umhverfismati kerfisáætlunar.

Þau atriði sem líta beri til við ákvörðun um hvort framkvæmd sé háð umhverfismati séu tilgreind í 2. viðauka við lög nr. 111/2021. Þá séu einnig bein fyrirmæli um þetta í viðauka II.A við tilskipun 2011/92/ESB. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið beri að túlka íslensk lög til samræmis við EES-samninginn og gerðir hans. Í samræmi við grunnrök 2. viðauka við lög nr. 111/2021, sbr. 19. gr. laganna, sbr. einnig 4. mgr. 4. gr. tilskipunar 2011/92/ESB, sé framkvæmdaraðila skylt að veita nauðsynlegar upplýsingar til þess að Skipulagsstofnun geti metið þessi atriði við töku slíkrar ákvörðunar. Í máli þessu hafi framkvæmdaraðili ekki lagt fram upplýsingar um mótvægisaðgerðir, sbr. 3. mgr. 19. gr. laga nr. 111/2021, eins og þeim sé lýst í kerfisáætlun framkvæmdaraðila, þar sem umræddur jarðstrengur hafi ekki verið sá valkostur sem komið hafi best út í umhverfismatinu.

Þá hafi ekki verið lögð fram lýsing á allri framkvæmdinni skv. a-lið 1. tölul. viðauka II.A við tilskipun 2011/92/ESB. Í greinargerð framkvæmdaraðila komi fram að fyrirhuguð framkvæmd sé viðbót við aðra framkvæmd, án þess þó að gerð sé grein fyrir því hvaða framkvæmd um ræði. Einnig segi að jarðstrengurinn sé hluti af styrkingu Kópaskerslínu, þ.e. framkvæmdinni sem ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 11. október 2022 fjalli um. Þar sem sú framkvæmd hafi ekki farið fram geti jarðstrengurinn ekki talist vera breyting eða viðbót á þeirri framkvæmd í skilningi töluliðar 13.02 í viðauka 1 við lög nr. 111/2021. Í fyrrnefndri kerfisáætlun séu framkvæmdir þær, sem hinar kærðu ákvarðanir lúti að, taldar sem ein og sama framkvæmdin. Af því leiði að ekki hafi legið fyrir skýrar upplýsingar um samlegðaráhrif með öðrum framkvæmdum skv. tölulið 1.ii í 2. viðauka við lög nr. 111/2021. Skipulagsstofnun hafi ekki tekið afstöðu til þess hvort um sé að ræða nýja framkvæmd eða viðbót við eldri framkvæmd. Hinar kærðu ákvarðanir fjalli um tvo hluta sömu framkvæmdar og því hafi borið að fjalla um hana sem slíka.

Framkvæmdaraðili hafi hvorki uppfyllt upplýsingaskyldu sína né gert fullnægjandi grein fyrir möguleikum til að takmarka áhrif framkvæmdarinnar á hraunið, þ.e. með því að leggja jarð­strenginn í vegstæðið sjálft eða þá koma í veg fyrir röskun hraunsins með því að velja hina valkostina sem fjallað sé um í kerfisáætlun. Samkvæmt 5. mgr. 4. gr. tilskipunar 2011/92/ESB verði matsskylduákvörðun m.a. að byggja, þar sem við eigi, á niðurstöðum annars mats en umhverfismats framkvæmdar. Skipulagsstofnun hafi því verið skylt að taka tilhlýðilegt tillit til þess umhverfismats sem unnið hefði verið vegna kerfisáætlunar framkvæmdaraðila, en það hafi stofnunin ekki gert. Þá hafi stofnuninni einnig borið að vísa til viðeigandi viðmiða í viðauka 2 með lögum nr. 111/2021, sbr. einnig b-lið 5. mgr. 4. gr. áðurnefndrar tilskipunar, og greina frá þeim mótvægisaðgerðum sem framkvæmdar­aðili kunni að hafa lagt til. Ekki verði séð að stofnunin hafi vísað til viðmiðanna með tilhlýðilegum hætti og sé það verulegur ann­marki á málsmeðferð.

Þá hafi almenningur ekki notið réttar til að gera athugasemdir við meðferð málsins. Með því að komast að niðurstöðu sinni í hinni kærðu ákvörðun og án þess að fjalla efnislega um sjálfan grundvöll ákvarðana á svæðum sem njóti verndar samkvæmt náttúruverndarlögum hafi Skipulagsstofnun í raun svipt almenning þátttökurétti sem honum hafi verið tryggður í Árósasamningnum og EES-samningnum. Fái hin kærða ákvörðun að standa hafi ekki farið fram neitt mat á áhrifum framkvæmdarinnar á hið verndaða hraun. Kærandi telur að fyrirhugaðar framkvæmdir séu leyfisskyldar samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010, sbr. 4. mgr. 61. gr. náttúruverndarlaga. Ákvæði laganna um hvernig leyfisveitandi skuli standa að útgáfu framkvæmdarleyfis komi ekki í stað þess þátttökuréttar sem almenningur eigi varðandi allar framkvæmdir sem líklegar séu til að hafa umtalsverð áhrif á umhverfið samkvæmt Árósa­samningnum, Evróputilskipunum og lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Fyrirmæli í 2. og 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga komi ekki í stað raunverulegs mats á áhrifum á svæði sem njóti verndar, með tilheyrandi þátttökurétti almennings.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Af hálfu Skipulagsstofnunar er tekið fram að umfjöllun um jarðmyndanir hefði mátt vera ítarlegri í hinni kærðu ákvörðun en því er um leið hafnað að litið hafi verið hjá verndargildi þeirra. Í niðurstöðukafla ákvörðunarinnar komi fram að fram­kvæmdarsvæðið sé allt í hrauni sem njóti sérstakrar verndar en hafi þó að einhverju leyti glatað verndargildi sínu vegna jarðvegs og gróðurhulu. Með tilliti til sjónarmiða, sem þar séu rakin, megi ætla að rask á hrauni verði takmarkað og áhrif á jarðminjar verði ekki mikil.

Staðsetning framkvæmdar innan svæðis sem falli undir 61. gr. náttúruverndarlaga leiði ekki sjálfkrafa til þess að hún skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Í athugasemdum við 57. gr. frum­varps þess er varð að 61. gr. náttúruverndarlaga sé tekið fram að eldhraun sem sé að öllu leyti sandorpið eða hulið jarðvegi og gróðri og ekki sé lengur hægt að greina hvort um hraun sé að ræða hafi að öllu jöfnu tapað þeim einkennum sem myndi verndargildi þess sem jarðmyndunar eða hraunvistgerðar og njóti það því ekki sérstakrar verndar samkvæmt lagagreininni.

Við töku matsskylduákvörðunar falli það ekki í verkahring Skipulagsstofnunar að meta hvort skilyrðið um „brýna nauðsyn“ samkvæmt 3. mgr. 61. gr. náttúruverndarlaga sé uppfyllt. Sam­kvæmt 2. tl. í 2. viðauka við lög nr. 111/2021 beri stofnuninni að athuga hversu viðkvæm þau svæði séu sem líklegt sé að framkvæmd hafi áhrif á, einkum með tilliti til verndarsvæða. Eigi það við um svæði sem falli undir ákvæði 61. gr. náttúruverndarlaga. Í þessu sambandi megi nefna úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 22 og 27/2020.

Hin kærða ákvörðun sé lokaþáttur í tilkynningarskylduferli en ekki í umhverfismatsferli. Í fyrrnefnda ferlinu geri lög nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana og IV. kafli reglugerðar nr. 1381/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana ekki ráð fyrir að fram fari valkostagreining og samanburður á áhrifum valkosta á umhverfið. Því hafi Skipulags­stofnun ekki getað óskað eftir því að framkvæmdaraðili myndi skoða annan valkost en þann sem tilkynning hafi lotið að.

Í 2. viðauka við lög nr. 111/2021 sé ekki vikið að því að stofnunin eigi að líta til umhverfismats kerfisáætlunar við ákvörðun um matsskyldu. Aðeins sé vikið að skipulagsáætlunum, sbr. i- og f-liði í 2. tölul. viðaukans. Þá sé ákvæði 2. mgr. 19. gr. laga nr. 111/2021 ekki fortakslaust. Verði komist að þeirri niðurstöðu í máli þessu að framkvæmdaraðila hafi borið að taka tillit til umhverfismats kerfisáætlunar leggi Skipulagsstofnun áherslu á að valkostur 2, sem hin kærða ákvörðun lúti að, hafi ekki umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér. Umhverfismat umræddrar kerfisáætlunar leiði það í ljós. Að því virtu sé ekki um að ræða verulegan annmarka á ákvörðuninni. Þá hafi Skipulagsstofnun lagt mat á þá þætti sem tilgreindir séu í 2. viðauka við lög nr. 111/2021 og átt hafi við í málinu, sbr. umfjöllun í niðurstöðu kafla hinnar kærðu ákvörðunar. Það fari ávallt eftir eðli viðkomandi framkvæmdar hvaða þættir vegi þyngra en aðrir eða hafi meiri þýðingu fyrir úrlausn máls.

Þá falli enn fremur ekki undir verksvið Skipulagsstofnunar samkvæmt lögum nr. 111/2021 að taka afstöðu til þess hvort tilkynnt framkvæmd á borð við þá sem um ræðir í máli þessu sé í samræmi við samþykkta framkvæmdaáætlun framkvæmdaraðila. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laganna beri framkvæmdaraðili ábyrgð á tilkynningu framkvæmdar til Skipulags­stofnunar til ákvörðunar um hvort hún skuli háð umhverfismati. Framkvæmdaraðili hefði haft samband við stofnunina 7. september 2022 og bent á að eftir að málsmeðferð hófst vegna styrkingar á Kópaskerslínu 1 hefði þurft að ráðast í nánari greiningu á kerfinu á svæðinu. Sú greining hefði leitt til þess að nauðsynlegt hefði verið að bæta við tengingu frá Þeistareykjum að Kópaskers­línunni. Óskað hefði verið eftir, þrátt fyrir nálægð og kerfislega tengingu framkvæmdanna, að teknar yrðu aðskildar ákvarðanir um matsskyldu þeirra. Hefði framkvæmdaraðili einnig vakið athygli stofnunarinnar á því að í tilkynningu hefði ranglega verið vísað til texta í kerfisáætlun sem ekki ætti við og sent réttan texta. Þar komi m.a. fram að í kjölfar landshlutagreiningar og nýrra markmiða hafi endurnýjunarverkefni Landsnets verið endurskilgreint og feli nú í sér að auki tengingu frá Þeistareykjum að Kópaskerslínu 1 og því viðbót frá því sem kynnt hafi verið í síðustu útgáfu kerfisáætlunar Landsnets og hafi Orkustofnun verið upplýst um málið.

Vikið sé að mótvægisaðgerðum í greinargerð framkvæmdaraðila, en þar komi fram að í hönnunarferli hefði strengleiðin verið höfð í vegkanti alla leið til að lágmarka rask við framkvæmdir. Svarðlag ofan af skurði verði geymt þar sem unnt verði og endurnýtt við uppgræðslu að framkvæmdum loknum. Fyrri reynsla sýni að besta raun gefi að geyma svarðlagið í sem skemmstan tíma. Því verði verkinu áfangaskipt og svarðlag sem verði tekið upp sé lagt strax niður á fyrri áfanga. Auk þess sé vísað til kafla 3.6.8. í kerfisáætlun framkvæmdaraðila í greinargerðinni. Framkvæmdaraðili hafi lagt fram lýsingu á eiginleikum allrar framkvæmdarinnar í skilningi viðauka II.A tilskipunar nr. 2011/92/ESB. Þótt hinar kærðu ákvarðanir, þ.e. jarðstrengur frá Þeistareykjum að Kópaskerslínu 1 annars vegar og styrking Kópaskerslínu 1 hins vegar, tengist, sé ekki um sömu framkvæmdina að ræða og ekki unnt að líta svo á að styrking línunnar sé hluti af jarðstrengnum.

Í niðurstöðukafla hinnar kærðu ákvörðunar komi fram að áhrif framkvæmdarinnar verði fyrst og fremst af völdum rasks á gróðri en með þeim mótvægisaðgerðum sem framkvæmdaraðili lýsi í greinargerð sinni verði áhrif á gróður takmörkuð. Einnig að ætla megi að rask á hrauni verði takmarkað og að áhrif á jarðminjar verði ekki mikil. Strengurinn muni liggja meðfram gamla vegslóðanum að Þeistareykjum. Mótvægisaðgerðir séu skilgreindar í 8. tl. 3. gr. laga nr. 111/2021 sem aðgerðir til að koma í veg fyrir, draga úr eða bæta fyrir neikvæð umhverfisáhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar eða áætlunar.

Lög nr. 111/2021 geri ekki ráð fyrir því að almenningur eigi rétt á að tjá sig áður en Skipulags­stofnun taki matsskylduákvörðun. Í 1. mgr. 20. gr. laganna sé kveðið á um að stofnunin skuli leita umsagnar umsagnaraðila eftir því sem við eigi hverju sinni en skv. 11. tölul. 3. gr. sömu laga teljist þeir vera opinberar stofnanir, stjórnvöld eða aðrir lögaðilar sem sinni lögbundnum verkefnum sem varði framkvæmdir sem falli undir lögin eða umhverfisáhrif þeirra.

Því sé hafnað að lagagrundvöllurinn sé ekki skýr. Í greinargerð framkvæmdaraðila og hinni kærðu ákvörðun sé vísað til tölul. 10.16 í 1. viðauka við lög nr. 111/2021. Varðandi tilvísun í tölul. 13.02 bendi stofnunin á að háspennulínur frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka við Húsavík hafi sætt umhverfismati á sínum tíma. Hægt sé að líta svo á að tilkynning um jarðstrenginn frá Þeistareykjum sé breyting eða viðbót við þær framkvæmdir sem fjallað hafi verið um í því umhverfismati.

 Athugasemdir framkvæmdaraðila: Framkvæmdaraðili álítur að í kæru sé ekki vísað til neinna brota á formreglum sem geti leitt til svo íþyngjandi ákvörðunar að fella hinar kærðu ákvarðanir úr gildi en engin lagarök eða lögmæt sjónarmið hvíli að baki kröfu kæranda um að ákvarðanirnar verði felldar úr gildi.

Í 2. kafla greinargerðar framkvæmdaraðila til Skipulagsstofnunar um lagningu jarðstrengs frá Þeistareykjum að Kópaskerslínu 1 hafi orðið þau mistök að gera ekki betur grein fyrir tilurð þess að ákveðið hefði verið að leggja umræddan streng. Um það leyti sem málsmeðferð Skipulagsstofnunar hafi farið fram vegna framkvæmdar um styrkingu Kópaskerslínu 1 hafi framkvæmdaraðili unnið að frekari greiningu á raforkukerfi Landsnets á umræddu svæði, umfram þá sem unnin hafi verið við gerð kerfisáætlunar. Niðurstaðan hafi verið sú að ráðast þyrfti í kerfislegar styrkingar svo óhætt yrði að uppfylla loforð um að fjarlægja Laxárlínu 1 og ná betri svæðisbundinni tengingu. Sú styrking sem hafi þótt best hafi falist í að bæta við tengingu frá Þeistareykjum að Kópaskerslínu 1. Þar sem málsmeðferð vegna styrkingar á Kópaskerslínu 1 hafi verið langt komin hefði verið ákveðið að tilkynna fyrirhugaða nýja strenglögn sérstaklega í stað þess að blanda framkvæmdunum saman.

Það hafi láðst að upplýsa um að öðlast þyrfti sérstakt leyfi Orkustofnunar á grundvelli 2. mgr. 9. gr. raforkulaga nr. 65/2003 þar sem framkvæmdin væri ekki í samræmi við aðalvalkost í framkvæmdaáætlun 2022–2024 í kerfisáætlun Landsnets 2021–2030. Skipulagsstofnun hafi rekist á þetta ósamræmi og óskað skýringa. Framkvæmdaraðili hafi orðið við þeirri beiðni í tölvupósti 7. september 2022 þar sem færð voru fram rök um framkvæmdina og hafi Orkustofnun verið upplýst um málið.

Framkvæmdaraðila séu ljós þau ákvæði náttúruverndarlaga um að forðast beri að raska jarðminjum, líkt og eldhrauni, nema brýna nauðsyn beri til. Aftur á móti sé ljóst að það svæði sem verið sé að styrkja sé að mjög stórum hluta á eldhrauni og því verði vart komist hjá einhverri röskun á þeim, sama hvaða aðferð verði fyrir valinu, þ.e. loftlína eða jarðstrengur. Á myndum með tilkynningu framkvæmdaraðila til Skipulagsstofnunar megi sjá að framkvæmdir spilli frekar gróðri en eldhrauni. Þá megi sjá rishóla beggja vegna vegslóðar en þeir liggi fjarri fyrirhuguðu framkvæmdasvæði. Strenglögnin frá Þeistareykjum muni liggja við veg og veg­slóða og því sé framkvæmdasvæðið þegar raskað að hluta. Gróflega sé áætlað rask á um 0,6 ha lands og sé það gróið hraun með nokkuð þykkum jarðvegi að hluta. Bent er á umsögn Náttúrufræði­stofnunar Íslands, sem aflað var við meðferð málsins, þar sem talið hafi verið að ekki yrði mikið rask á jarðminjum. Skipulagsstofnun hafi því haft fullnægjandi gögn og upp­lýsingar til að taka upplýsta ákvörðun í málinu. Hvað varði jarðstrengslögnina í núverandi loft­línu Kópaskerslínu 1, næst Kópaskeri, þá muni hún liggja í röskuðu landi meðfram vatnslögn sem sé þar fyrir.

Tilgangur framkvæmdarinnar sé m.a. að undirbúa styrkingu kerfisins svo hægt sé að taka niður Laxárlínu 1, tæplega 60 km loftlínu, sem lofað hefði verið að yrði gert í kjölfar þess að Hólasandslína 3 kæmist í rekstur. Auk þess sé framkvæmdin hluti af því að auka rekstraröryggi fyrir svæðisbundna kerfið á svæðinu, en núverandi staða hafi leitt til tjóns og rekstrartruflana. Framkvæmdin sé því mjög brýn, sérstaklega fyrir íbúa og samfélagið á þessu svæði og því verði að skoða mikilvægi þess þáttar í samhengi við þá skerðingu sem verði á eldhrauninu.

Tilkynning hafi verið unnin skv. 9. gr. reglugerðar nr. 1381/2021 um umhverfismat fram­kvæmda og áætlana sem greini frá þeim upplýsingum sem koma eigi fram í tilkynningu. Ekki sé þar gerð krafa um að fjallað sé um valkosti líkt og farið sé fram á vegna matsskyldra fram­kvæmda. Benda megi þó á að við undirbúning framkvæmdarinnar hafi verið ræddir aðrir möguleikar, t.d. að leggja strenginn í sjálfan vegslóðann. Ein meginástæða þess að ákveðið hafi verið að gera það ekki hafi verið að þar sem slóðin sé víða þröng yrði væntanlega að fara með tæki og efni á afmörkuðum köflum út fyrir hana á framkvæmdatíma. Því hafi þótt betri kostur að nýta vegslóðann á framkvæmdatíma og halda raski eingöngu í skurðstæði í kanti slóðans. Þá sé ljóst að loftlína á þessum kafla, með tilheyrandi mastra­plönum og aðkomuslóðum, komi ekki til greina enda myndi hún ekki raska eldhrauninu minna og að auki næði sjónrænt áhrifasvæði yfir mun stærra svæði Skildingahrauns.

Ákvörðun Skipulagsstofnunar sé nauðsynlegur hluti leyfisferlis framkvæmdarinnar, sbr. 25. gr. laga nr. 111/2021, og forsenda þess. Þannig geti það ekki verið ógildingarástæða ákvörðunar Skipulagsstofnunar að lögbundin leyfi séu ekki til staðar, þ.m.t. leyfi Orkustofnunar. Því sé ekki annmarki á hinni kærðu ákvörðun að ekki hafi verið skoðuð gögn frá framkvæmdaraðila sem liggi til grundvallar, eins og kerfisáætlun, og ekki aflað gagna um áhrif jarðstrengs og valkosta hans á jarðminjar sem njóti sérstakrar lagaverndar.

Í báðum hinum kærðu ákvörðunum sé gerð grein fyrir lagagrundvelli þeirra, leitað hafi verið umsagna og gögn tiltekin, þ.m.t. viðbótargögn. Lögbundið mat hafi farið fram og engar athugasemdir hafi verið gerðar við upplýsingar eða framlögð gögn. Því sé ekki unnt að fallast á að ekki hafi verið vísað til nauðsynlegra upplýsinga eða að rannsóknarregla 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi verið brotin. Þá hafi Skipulagsstofnun vísað til viðmiðana í 2. viðauka við lög nr. 111/2021 með tilhlýðilegum hætti, en í hinni kærðu ákvörðun sé sérstaklega vísað til 1.-3. töluliðar viðaukans.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi ítrekar að Skipulagsstofnun sé bundin af ákvæðum 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd og meginreglum þeirra laga við töku ákvarðana sinna. Samanburður valkosta sé ekki hluti málsmeðferðar skv. 19. gr. og 20. gr. laga nr. 111/2021. Hins vegar sé staðreynd að í „fyrirliggjandi niðurst[öðum] um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar“ í skilningi 2. mgr. 19. gr. laganna hafi fyrirhuguð framkvæmd ekki verið talinn hagfelldasti valkosturinn. Framkvæmdaraðili hafi ekki gert grein fyrir því við meðferð málsins. Útilokað sé að túlka gildandi lög þannig að Skipulagsstofnun hafi ekki verið skylt að rannsaka niðurstöðu umhverfismats kerfisáætlunar framkvæmdaraðila áður en hún hafi komist að niðurstöðu. Því hafi ekki verið farið að lögum við meðferð málsins þar sem ekkert tillit hafi verið tekið til umhverfismats kerfisáætlunarinnar. Þar sem tilkynningin hafi ekki verið í samræmi við kerfisáætlun framkvæmdaraðila hafi Skipulagsstofnun borið að rannsaka hvers vegna ekki hafi verið tekið tillit til niðurstaðna umhverfismats áætlunarinnar. Í gögnum málsins séu samskipti þar sem stofnunin hafi óskað alls kyns upplýsinga hjá framkvæmdaraðila við meðferð málsins. Því standist ekki sú fullyrðing að Skipulagsstofnun sé ekki rétt og skylt að óska eftir ýmiss konar upplýsingum, enda gildi rannsóknarreglan hér sem endranær.

Samkvæmt Evróputilskipun 2011/92/ESB, svo sem henni hafi verið breytt með tilskipun nr. 2014/52/ESB, sé skýrt að í rökstuðningi með matsskylduákvörðun þurfi að taka tillit til „fyrirliggjandi niðurstaðna um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar“ þar sem slíkt liggi fyrir. Í 20. gr. laga nr. 111/2011 séu ekki ákvæði um hvaða kröfur séu gerðar til rökstuðnings með ákvörðun Skipulagsstofnunar um að umhverfismat þurfi ekki að fara fram. Beri þá að beita skýringu sem uppfylli ákvæði Evróputilskipunar nr. 2011/92/ESB, sbr. tilskipun nr. 2014/52/ESB. Skv. 5. mgr. 4. gr. tilskipunar nr. 2011/92/ESB sé gerð sú afdráttarlausa krafa að stjórnvaldið taki „tillit til fyrirliggjandi niðurstaðna um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar“ í framangreindum skilningi. Hafna verði sjónarmiðum Skipulagsstofnunar um að vikið sé einungis að skipulagsáætlunum í 2. viðauka með lögum nr. 111/2021 en ekki að kerfisáætlun og því hafi hún ekki þurft að taka tillit til fyrirliggjandi niðurstaðna um umhverfisáhrif fram­kvæmdarinnar. Þvert á móti séu það einmitt niðurstöður kerfisáætlunar sem Skipulagsstofnun eigi að fjalla um í rökstuðningi og slík áætlun lúti umhverfismati samkvæmt lögum.

Þá varpi forsaga lagaákvæða um vernd eldhrauna ljósi á mögulegar lögskýringar á núgildandi ákvæðum. Lagaskilningur Skipulags­stofnunar og Náttúrufræðistofnunar kunni að hafa litast af lagaskilningi sem hefði talist fullgildur áður fyrr en ekki í dag. Þegar vernd eldhrauna hafi fyrst komið í lög með gildistöku náttúruverndarlaga nr. 44/1999 hafi verið litið á eldhraun sem „landslagsgerð“ en það sé ekki gert lengur. Tveimur árum eftir gildistöku laganna hafi Alþingi samþykkt breytingu á lögunum og orðinu skipt út fyrir orðin „jarðmyndanir og vistkerfi“. Samkvæmt athugasemdum með ákvæðinu í frumvarpi sem varð að breytingalögum nr. 140/2001 hafi ekki þótt rétt að skilgreina þessi náttúrufyrirbæri sem landslagsgerðir þar sem landslag hefði verið skilgreint sem form og útlit náttúrunnar og tæki þannig til útlits og ásýndar lands, þ.m.t. lögunar þess, áferðar og lita. Um væri að ræða jarðmyndanir og vistkerfi en heiti hugtaka hefðu þróast. Því hafi greininni verið breytt til samræmis við þessa þróun. Ákvæði 61. gr. núgildandi náttúruverndarlaga hafi einnig verið breytt m.a. vegna þess að ákvæðið hafi talist veikt og hefði t.a.m. ekki haft áhrif á ákvarðanir Skipulagsstofnunar um það hvort fram­kvæmdir væru matsskyldar. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögunum hafi markmiðið m.a. verið að stuðla að því að betur yrði vandað til málsmeðferðar stjórnvalda þegar teknar væru ákvarðanir sem snerti náttúrufyrirbæri sem falli undir ákvæðið. Auk breytinga á greininni sjálfri hafi verið lagðar til breytingar á skipulagslögum og lögum um mat á umhverfis­áhrifum í þeim tilgangi að auka áhrif greinarinnar og styrkja þá vernd sem hún kveði á um. Ekki hefði einungis verið skerpt á ákvæðinu um sérstaka vernd, heldur hefði einnig verið bætt ákvæði í 3. viðauka þágildandi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda beinlínis í þeim tilgangi „að auka áhrif greinarinnar og styrkja þá vernd sem hún kveði á um“. Í þessu máli reyni á samhljóða ákvæði í 2. viðauka með núgildandi lögum nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Skýra eigi 61. gr. náttúruverndarlaga eftir orðanna hljóðan en vernd nútímahrauna takmarkist samkvæmt ákvæðinu ekki við yfirborð hraunanna.

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Hefur úrskurðarnefndin kynnt sér þau sjónarmið, en ekki þykir efni til að rekja þau nánar hér.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvarðanir Skipulagsstofnunar þess efnis að fyrirhugaðar fram­­kvæmdir vegna lagningar jarðstrengs frá virkjun við Þeistareyki að Kópaskerslínu 1 og styrking Kópaskerslínu 1 skuli ekki háðar mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, þar sem þær séu ekki líklegar til að til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif.

Kærandi í máli þessu eru umhverfisverndarsamtök sem byggja kæruaðild sína á 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í 3. mgr. 4. gr. laganna kemur fram að umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök með minnst 30 félaga teljast eiga lögvarinna hagsmuna að gæta vegna tilgreindra ákvarðana enda samrýmist tilgangi samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að. Meðal þeirra ákvarðana sem framangreind samtök geta kært eru ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmda samkvæmt lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Samkvæmt 4. mgr. 4. gr. tilvitnaðra laga teljast umhverfisverndarsamtök samtök sem hafa umhverfisvernd að meginmarkmiði. Samtökin skulu vera opin fyrir almennri aðild, gefa út ársskýrslur um starfsemi sína og hafa endurskoðað bókhald.

Félagsmenn kæranda eru fleiri en 30 en um aðild að félaginu segir í samþykktum þess að allir sem lýsi sig samþykka tilgangi félagsins á aðalfundi þess geti orðið félagsmenn. Samkvæmt samþykktum félagsins er tilgangur þess „að standa vörð um líffræðilega og jarðfræðilega fjölbreytni í náttúru Íslands.“ Einnig hefur kærandi gefið út ársskýrslu fyrir 2021–2023. Telur úrskurðarnefndin samkvæmt þessu að um umhverfisverndarsamtök sé að ræða í skilningi 4. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 og verður mál þetta því tekið til efnismeðferðar.

—–

Fyrirhugaðar framkvæmdir voru tilkynntar til Skipulagsstofnunar til ákvörðunar um mats­skyldu samkvæmt 2. mgr. 19. gr. laga nr. 111/2021 sem framkvæmdir í flokki B, sbr. liði 10.16 og 13.02 í 1. viðauka við lögin. Skulu tilkynningaskyldar framkvæmdir sem tilgreindar eru í flokki B háðar umhverfismati þegar þær eru taldar líklegar til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar skv. 2. viðauka við lögin. Í tilkynningu skal framkvæmdaraðili leggja fram upplýsingar um framkvæmdina og líkleg umtalsverð umhverfisáhrif hennar. Skal hann, þar sem við á, taka tillit til fyrirliggjandi niðurstaðna um umhverfismat framkvæmdarinnar og leggja fram, þar sem við á, upplýsingar um fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir, sbr. 2. mgr. 19. gr. laganna.

Í 20. gr. laga nr. 111/2021 er mælt fyrir um að Skipulagsstofnun skuli innan sjö vikna frá því að fullnægjandi gögn berast um framkvæmdina taka ákvörðun um hvort framkvæmdin skuli háð umhverfismati samkvæmt lögunum. Áður skal stofnunin leita umsagnar umsagnaraðila eftir því sem við á hverju sinni og sé niðurstaða Skipulagsstofnunar sú að tilkynningarskyld framkvæmd sé ekki háð umhverfismati getur stofnunin gert ábendingar um tilhögun fram­kvæmdarinnar. Þá verður að líta svo á að Skipulagsstofnun beri að rökstyðja niðurstöðu sína með hliðsjón af þeim viðmiðum sem talin eru upp í 2. viðauka laganna, en vægi hvers þáttar er, eðli málsins samkvæmt, breytilegt eftir því hvaða framkvæmd um ræðir hverju sinni.

Málsrök kæranda varða að mestu aðra hinna kærðu ákvarðana, þ.e. að lagning jarðstrengs frá virkjun við Þeistareyki að Kópaskerslínu 1 skuli ekki háð umhverfismati. Það er um leið sá þáttur sem gerð er krafa um til vara að verði felldur úr gildi. Með hliðsjón af því varðar umfjöllun hér á eftir aðeins þá ákvörðun uns kemur að umfjöllun um möguleg samlegðaráhrif hinna kærðu ákvarðana.

—–

Við meðferð hinnar kærðu ákvörðunar um lagningu jarðstrengs frá virkjun við Þeistareyki að Kópaskerslínu 1 aflaði Skipulagsstofnun álits umsagnaraðila á grundvelli 1. mgr. 20. gr. laga nr. 111/2021, sbr. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Svo sem fyrr segir töldu umsagnaraðilar að í tilkynningu framkvæmdaraðila væri nægjanlega gerð grein fyrir fyrir­huguðum framkvæmdum og mótvægisaðgerðum. Framkvæmdirnar væru ekki líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif og myndi fullt umhverfismat ekki bæta við fyrirliggjandi upplýsingar. Hin kærða ákvörðun lýsir fyrirhugaðri framkvæmd og mótvægisaðgerðum, fjallar um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar eins og þeim var lýst í framlögðum gögnum framkvæmdaraðila og áliti umsagnaraðila og víkur að þeim leyfum sem framkvæmdin er háð.

Í niðurstöðukafla sínum vísar Skipulagsstofnun til þess að við mat á því hvort tilkynningarskyld framkvæmd skuli háð umhverfismati skuli taka mið af eðli framkvæmdar, svo sem stærð og umfangi framkvæmdar og mengun, sbr. 1. tölul. 2. viðauka laga nr. 111/2021. Einnig skuli taka mið af staðsetningu framkvæmdar og hversu viðkvæm þau svæði séu sem líklegt sé að framkvæmd hafi áhrif á, svo sem með tilliti til verndarákvæða, einkum svæða sem njóta verndar samkvæmt náttúruverndarlögum. Einnig beri að líta til álagsþols náttúrunnar, svo sem með tilliti til votlendissvæða og sérstæðra jarðmyndana, sbr. 2. tölul. 2. viðauka fyrrnefndra laga. Þá beri að taka mið af eiginleikum hugsanlegra áhrifa framkvæmdar, meðal annars með tilliti til umfangs, eðlis og fjölbreytileika áhrifa, hverjar líkur séu á áhrifum, afturkræfni áhrifanna og möguleika á að draga úr áhrifum, sbr. 3. tölul. 2. viðauka laganna.

Hinni kærðu ákvörðun Skipulagsstofnunar er skipt í nokkra kafla og eru þar m.a. reifuð fram-komin sjónarmið umsagnaraðila og framkvæmdaraðila um umhverfisáhrif framkvæmdar­innar á gróður, jarðmyndanir og verndarsvæði. Niðurstaða stofnunarinnar er í 6. kafla og vísar hún í rökstuðningi sínum sérstaklega til fyrrgreindra viðmiða um eðli framkvæmdar skv. 1.-3. tölul. 2. viðauka laga nr. 111/2021. Er á því byggt að fyrirhuguð framkvæmd sé ekki umfangsmikil og fari fram á svæði sem er að einhverju leyti nú þegar raskað vegna vegarslóða. Strengurinn verði niðurgrafinn og muni því ekki sjást þegar gróðurrask á yfirborði hefur gróið með tímanum. Framkvæmdasvæðið sé allt í hrauni sem njóti sérstakrar verndar sem hafi þó að einhverju leyti glatað verndargildi sínu vegna jarðvegs og gróðurhulu. Áhrif á jarðminjar verði því ekki mikil. Lítill hluti leiðarinnar fari um fjarsvæði vatnsverndar, en vatnsbólið sjálft sé í nokkurri fjarlægð og framkvæmdaraðili hyggst vera í samráði við Heilbrigðiseftirlit Norður­lands eystra vegna vinnu innan svæðisins. Áhrif framkvæmdarinnar verði fyrst og fremst af völdum rasks á gróðri en með þeim mótvægisaðgerðum sem framkvæmdaraðili hefur kynnt verði áhrif á gróður takmörkuð. Að mati Skipulagsstofnunar kalli þeir þættir sem falla undir eðli, staðsetningu og eiginleika hugsanlegra áhrifa framkvæmdarinnar ekki á að framkvæmdin undirgangist mat á umhverfisáhrifum.

—–

Í 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd er fjallað um sérstaka vernd tiltekinna vistkerfa og jarðminja. Nær verndin m.a. til eldhrauna, gervigíga og hraunhella sem myndast hafa eftir að jökull hvarf af landinu á síðjökultíma, sbr. 2. mgr. ákvæðins, en í 3. mgr. er tiltekið að m.a. beri að forðast að raska jarðminjum sem taldar séu upp í 2. mgr. nema brýna nauðsyn beri til. Við lagningu jarðstrengsins verður raskað í einhverju jarðminjum sem falla undir lagagreinina, en streng­leiðin er öll á hrauni sem nýtur verndar. Um verndargildi hraunsins má vísa til umsagnar Náttúrufræðistofnunar Íslands, en þar kemur fram að á hrauninu sé jarðvegs- og gróðurhula svo lítið sjáist í hraunmyndanir. Þá sneiði strengleiðin að mestu fram hjá rishólum og sprungum í hrauninu og telur stofnunin því að ekki verði mikið rask á jarðminjum. Í hinni kærðu ákvörðun er af hálfu Skipulagsstofnunar vísað til þess að fyrirhuguð framkvæmd sé ekki umfangsmikil og fari fram á svæði sem er að einhverju leyti nú þegar raskað vegna vegarslóða. Auk þess liggur fyrir að svæðið sem slóðinn liggur um er að mestu hulið jarðvegi og gróðri, þannig að verndargildi hraunsins er minna en ella væri. Verður ekki gerð athugasemd við umfjöllun Skipu­­lags­­stofnunar að þessu leyti þótt hún hefði e.t.v. mátt vera ítarlegri um staðhætti.

Af hálfu kæranda er bent á að ekki sé gerð grein fyrir valkostum um útfærslu við lagningu strengsins eða legu hans í tilkynningu framkvæmdaraðila. Slíkra upplýsinga er að jafnaði ekki krafist þegar tekin er ákvörðun um matsskyldu framkvæmdar og er ekki gerð krafa í 2. mgr. 19. gr. laga nr. 111/2021 um að slíkir valkostir séu reifaðar. Þar er á hinn bóginn mælt fyrir um að taka skuli tillit til fyrirliggjandi niðurstaðna um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar og leggja fram, þar sem við á, upplýsingar um fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir. Mat á valkostum fer jafnan fram á síðari stigum verði niðurstaðan sú að um matsskylda framkvæmd sé að ræða.

Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að samþykki Orkustofnunar liggi fyrir í Kerfisáætlun Landsnets 2021–2030, en fyrir liggur að þegar tilkynning um framkvæmdina barst Skipulags­stofnun var ekki gert ráð fyrir henni í framkvæmdaáætlun 2022–2024 í fyrrnefndri kerfisáætlun Landsnets. Skipulagsstofnun óskaði nánari skýringa um þetta, eins og rakið er í umsögn stofnunarinnar til úrskurðarnefndarinnar, og var upplýst um að upphaflega hafi staðið til að styrkja Kópaskerslínu 1 á tveimur stöðum og að sú framkvæmd sem tilkynnt hefði verið til Skipulagsstofnunar 9. maí 2022 væri aðalvalkostur kerfisáætlunar. Eftir frekari greiningu hafi verið ákveðið að bæta við tengingu frá Þeistareykjum að Kópaskerslínu 1 og hefði Orkustofnun verið upplýst um það. Í tilkynningu til Skipulagsstofnunar um lagningu jarðstrengsins hafi ranglega verið vísað til þess að framkvæmdin væri valkostur 2 sem fjallað væri um í kerfisáætlun. Við meðferð málsins hefur þetta verið upplýst nánar. Þá hefur ekkert komið fram í málinu sem gefur til kynna að áform um legu jarðstrengsins að Þeistareykjum séu ekki reist á málefnalegum sjónarmiðum. Hvað snertir möguleika á að leggja jarðstrenginn í vegarstæði gamla vegarslóðans að Þeistareykjum má benda á að fram kemur í umsögn Landsnets til úrskurðarnefndarinnar að hætta hefði verið á auknu jarðraski við það.

Af hálfu kæranda hefur verið gagnrýnt að hinar kærðu ákvarðanir fjalli um tvo hluta sömu framkvæmdar og því hafi borið að fjalla um þær í einu lagi. Þannig sé fjallað um fram­kvæmdirnar í áðurnefndri kerfisáætlun. Af því leiði að ekki hafi legið fyrir skýrar upplýsingar um samlegðaráhrif með öðrum framkvæmdum, sbr. tölulið ii. í 1. lið 2. viðauka við lög nr. 111/2021. Hinar kærðu framkvæmdir eru þrátt fyrir þetta að verulegu leyti landfræðilega aðgreindar. Báðar fela þó í sér framkvæmdir á Reykjaheiði og Þeistareykjahrauni, annars vegar endurnýjun loftlínu og hins vegar lagningu jarðstrengs. Hvorug framkvæmdin er mikil að umfangi og gætir ekki samlegðaráhrifa vegna þeirra. Að áliti úrskurðarnefndarinnar hefði verið eðlilegt að tilkynna þessar framkvæmdir sam­eigin­lega og hefði Skipulagsstofnun getað krafist þess við málsmeðferð. Þar sem ekki verður þó álitið að framkvæmdirnar séu líklegar til þess að hafa veruleg umhverfisáhrif þótt þær væru metnar sameiginlega verður þetta látið óátalið.

Að virtum gögnum málsins, kynntrar tilhögunar framkvæmdarinnar og mótvægisaðgerða er það álit úrskurðarnefndarinnar að Skipulagsstofnun hafi við undirbúning hinna kærðu ákvarðana tekið viðhlítandi tillit til þeirra viðmiða sem eru í 2. viðauka við lög nr. 111/2021. Er enda ekki um að ræða framkvæmd sem telja verður að líkleg sé til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfis­áhrif með tilliti til eðlis, umfangs og staðsetningar hennar. Verður og ekki annað ráðið en að fyrir Skipulagsstofnun hafi legið nauðsynlegar upplýsingar um fram-kvæmdina og forsendur hennar sem stofnunin gat reist ákvarðanir sínar á.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið eru hinar kærðu ákvarðanir ekki haldnar þeim form- eða efnisannmörkum er ógildingu geta valdið og verður kröfum kæranda, bæði aðal- og varakröfu, þar um því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvarðana Skipulagsstofnunar frá 21. september 2022 um að lagning 66 kV jarðstrengs frá virkjun við Þeistareyki að Kópaskerslínu 1 skuli ekki háð umhverfismati og frá 11. október 2022 um að styrking Kópaskerslínu 1 skuli ekki sæta umhverfismati.

26/2023 Laufásvegur

Með

Árið 2023, föstudaginn 5. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 26/2023, kæra á ákvörðunum byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. mars 2023 um að samþykkja byggingarleyfisumsóknir til að innrétta búsetuúrræði í annars vegar matshlutum 02 og 03 í húsi á lóð nr. 19 við Laufásveg og hins vegar í íbúðar- og skrifstofuhúsi á lóð nr. 21–23 við sömu götu.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 23. febrúar 2023, kærir eigandi, Laufásvegi 22, þær ákvarðanir byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. mars 2023 að samþykkja byggingarleyfisumsóknir til að innrétta búsetu-úrræði í annars vegar matshlutum 02 og 03 í húsi á lóð nr. 19 við Laufásveg og hins vegar í íbúðar- og skrifstofuhúsi á lóð nr. 21–23 við sömu götu. Verður að skilja málatilbúnað kæranda sem svo að þess sé krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi.

Með tveimur kærum til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er bárust nefndinni 26. febrúar 2023, kæra eigendur, Laufásvegi 19, sömu ákvarðanir með kröfu um ógildingu þeirra. Verða þau mál, sem eru nr. 30 og 31/2023, sameinuð kærumáli þessu þar sem um sömu ákvarðanir er að ræða og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi.

Í kærum íbúa að Laufásvegi 19 var þess jafnframt krafist að framkvæmdir yrðu stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þeim kröfum var hafnað með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 31. mars 2023.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 31. mars 2023.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 6. desember 2022 tók byggingarfulltrúi fyrir umsókn Mannverks ehf. um leyfi til að innrétta búsetuúrræði í matshlutum 02 og 03 í húsi á lóð nr. 19 við Laufásveg. Þá tók byggingarfulltrúi á sama fundi fyrir umsókn sama félags um leyfi til að innrétta búsetuúrræði í íbúðar- og skrifstofuhúsi á lóð nr. 21–23 við Laufásveg. Vísaði byggingarfulltrúi báðum málum til skipulagsfulltrúa til ákvörðunar um grenndar-kynningu. Skipulagsfulltrúi samþykkti á fundi sínum 15. s.m. að grenndarkynna umsóknirnar fyrir hagsmunaaðilum að Laufásvegi 14, 17, 18, 18a, 19, 20, 22 og 25, Skálholtsstíg 6 og Þingholtsstræti 30 og 34. Umsóknirnar voru grenndarkynntar sameiginlega 29. desember 2022 með athugasemdafresti til 30. janúar 2023. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 22. febrúar s.á. var grenndarkynningin samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa frá 16. s.m. og a-liðar 1. gr. í viðauka 1.1. við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgar-stjórnar. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 14. mars s.á. voru byggingar­leyfisumsóknirnar samþykktar.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að íbúar hafi við grenndarkynningu byggingarleyfis­umsóknanna fært ítarleg rök fyrir því að fyrirhuguð búsetuúrræði væru ekki í samræmi við Aðalskipulag Reykjavíkur 2040 þar sem skammtímagisting sé einungis heimil við aðalgötu, en Laufásvegur sé íbúðargata en ekki aðalgata. Í minnisblaði skipulagsfulltrúa, dags. 16. febrúar 2023, sé því beinlínis haldið fram að í grenndarkynntri byggingarlýsingu hafi e.t.v. verið „villandi“ að tala um „búsetu­úrræði“. Trúlega sé um að ræða tilraun til að sneiða hjá skýrum ákvæðum aðalskipulagsins um að búsetuúrræði, þar sem krafist sé gæslu allan sólarhringsins og/eða umfang starfsemi sé umtals­vert, sé háð gerð deiliskipulags. Fyrir liggi að gæsla verði til staðar allan sólarhringinn fyrir búsetuúrræðið og að umfang starfseminnar verði umtalsvert, en gert sé ráð fyrir 80 íbúum í 40 svefnrýmum í samtals þremur íbúðum.

Tvær af íbúðunum séu mjög fjarri því að geta boðið upp á aðstöðu sem dugi þeim fjölda sem þar eigi að dvelja á hverjum tíma og margir íbúa muni þurfa að fara langan veg milli íbúða til að nýta aðstöðu. Vakin sé athygli á ákvæðum byggingarreglugerðar nr. 112/2012 um kröfu til rýma íbúða. Þá sé bent á að í kynningarbréfi til íbúa komi fram að fyrirhugaður rekstur verði tímabundinn til tveggja ára, en þrátt fyrir það sé ekki kveðið á um tímalengd rekstursins í samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs eða byggingarlýsingu. Gera verði kröfu um að slíkt ákvæði sé hluti lögmætrar samþykktar.

Bent sé á að baklóð Laufásvegar 19 hafi verið seld til sendiráðs Bandaríkjanna árið 1996 án vitundar íbúðareigenda á lóðinni, en þeir hafi borgað opinber gjöld af lóðinni og fasteigninni alla tíð síðan. Við hafi tekið aldarfjórðungslöng deila við borgaryfirvöld og sendiráðið. Þegar sendiráðið hafi flutt af Laufásveginum árið 2020 hafi því verið sent bréf þar sem bent hafi verið á að við söluna á húsnæðinu ætti að koma fram að eignarhlutdeildin að baklóðinni væri umdeild, auk þess sem fasteignasalan sem séð hafi um söluna hafi fengið afrit af bréfinu. Leyfishafa eigi því að vera fullkunnugt um að ýmsum spurningum sé enn ósvarað um eigna­stöðu baklóðarinnar. Íbúðareigendur Laufásvegar 19 hafi hvorki samþykkt framkvæmdirnar við bílskúrana né gefið leyfi fyrir búsetu þar. Séu framkvæmdirnar því ólögmætar.

Ef af framkvæmdunum verði þá muni íbúafjöldi að Laufásvegi 19, 21 og 23 verða alltof mikill. Gríðarlegt ónæði muni fylgja auknum fjölda íbúa auk þess sem það muni skerða möguleika kærenda á að selja íbúðir sínar.

Málsrök Reykjavíkurborg: Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að hin kærðu byggingaráform feli í sér breytta notkun, þ.e. atvinnuhúsnæði hafi verið breytt í íbúðarhúsnæði, en ekkert deiliskipulag sé í gildi á svæðinu. Um sé að ræða íbúðarhúsnæði sem verði tímabundinn dvalarstaður umsækjenda á meðan þeir bíði úrlausnar á umsóknum sínum hjá íslenskum stjórn­völdum um alþjóðlega vernd hér á landi. Byggingarleyfisumsóknin hafi verið grenndarkynnt skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og hafi málsmeðferðin verið í samræmi við máls­meðferðarreglur þeirra laga og stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Laufásvegur 19 og 21­­–23 séu á svæði íbúðarbyggðar (ÍB) samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040. Umrædd áform samræmist meginmarkmiðum aðalskipulagsins í húsnæðis­málum og landnotkun svæðisins og þeim sérákvæðum sem gildi um landnotkunarflokkinn. Í markmiðum um íbúðarbyggð komi fram að leitast „verði við að tryggja fjölbreytt framboð húsagerða og búsetukosta fyrir alla félagshópa.“ Enn fremur segi að tryggt „verði að hvers konar búsetuúrræði, fyrir alla félagshópa, rúmist innan íbúðarbyggðar, miðsvæða þar sem gert er ráð fyrir íbúðarhúsnæði eða í annarri blandaðri byggð.“ Með íbúðarhúsnæði sé átt við „[í]búðir sbr. kröfur byggingarreglugerðar, námsmannaíbúðir, aukaíbúðir sbr. skilgreiningar hverfisskipulags, stúdíóíbúðir, þjónustuíbúðir, íbúðarherbergi sem leigð eru tímabundið og íbúar deila eldhúsi með öðrum, auk hvers kyns búsetuúrræða fyrir hópa með sérstakar húsnæðis og þjónustuþarfir og eru með lögheimili í viðkomandi húsnæði.“ Í skilgreiningunni segi enn fremur að innan íbúðarbyggðar megi „gera ráð fyrir fjölbreyttri atvinnustarfsemi, enda sé um að ræða þrifalega starfsemi sem ekki veldur ónæði, og almennri opinberri þjónustu (þ.m.t. búsetukjarnar).“ Skilgreining íbúðarbyggðar í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 sé þannig í grunninn víð og heimili húsnæðislausnir og úrræði fyrir félagshópa, auk þess sem almenn samfélagsþjónusta sé heimil og önnur þrifaleg atvinnustarfsemi.

Húsið að Laufásvegi 19 sé byggt árið 1933 og í því séu nú sex íbúðir. Lóð hússins, sem sé eignarlóð, hafi áður verið hluti af lóðinni nr. 17–19 við Laufásveg, sem þá hafi verið samtals 1.222 m2 að stærð. Að beiðni lóðarhafa hafi byggingarnefnd samþykkt skiptingu lóðarinnar 9. mars 1995 þannig að lóð nr. 19 hafi orðið 795 m2. Þegar fyrstu íbúðirnar hafi verið seldar í íbúðarhúsi nr. 19 við Laufásveg hafi þær verið seldar án þess að þeim hafi fylgt hlutdeild í lóð, nema þeim hluta sem sé undir húsinu sjálfu. Þannig hafi t.d. með afsali útgefnu 1959 verið seld íbúð á 2. hæð og hafi sérstaklega verið tekið fram að undanskilin væri „[óbyggð] baklóð, lóð, sem [bílskúrar] standa á svo og lóð undir innkeyrsluplani.“ Sama orðalag sé að finna í síðari afsölum.

Bílskúrar á baklóðinni hafi verið samtals níu og hafi þeir verið samþykktir í byggingarnefnd 30. maí 1963 og byggðir á árunum 1963 og 1964. Bílskúrarnir séu í dag auðkenndir með fasteignanúmerinu F2006769, en byggingarfulltrúinn í Reykjavík og skráningardeild fasteigna hafi staðfest það með yfirlýsingu árið 1995. Með leigusamningum, fyrst frá 23. nóvember 1981, hafi sendiráð Bandaríkjanna fengið baklóðina að Laufásvegi 19 og bílskúrana á leigu. Með kaupsamningi, dags. 30. desember 1994, hafi eigendur bílskúranna selt sendiráði Banda­ríkjanna baklóðina. Hinn 8. júní 1995 hafi níu bílskúrum og eignalóðarréttindum við Laufásveg 19 verið afsalað til utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna. Umrædd skjöl séu þinglýst og megi finna í bókum þinglýsingarfulltrúa.

Í afsalinu komi fram að hin óbyggða baklóð og bílskúrar séu séreign, þ.e.a.s. ekki sameign með öðrum eigendum Laufásvegar 19. Samkvæmt afsali, dags. 13. maí 2022, sé Laufásvegur 21 ehf. núverandi eigandi bílskúranna á baklóðinni ásamt lóðarhluta. Hinum opinberu gögnum hafi ekki verið hnekkt. Ekki þurfi samþykki íbúðareigenda í Laufásvegi 19 til að breyta bíl­skúrum á baklóð í íbúðarhúsnæði.

Telji kærendur að þeir verði fyrir tjóni vegna umræddra breytinga sé bent á að hægt sé að hafa uppi bótakröfu, sbr. 51. gr. skipulagslaga. Hvað varði ónæði bendi borgaryfirvöld á að alltaf megi búast við fleira fólki á ferli þegar skrifstofuhúsnæði sé breytt í íbúðir. Aftur á móti verði ekki séð að mikill umgangur verði um baklóðina að Laufásvegi 19 þar sem mjög takmarkaður umgangur verði um lóðina í ljósi þess að inn- og útgangur sé í aðalbyggingu á lóð nr. 21–23 við Laufásveg. Það séu einungis flóttaleiðir sem snúi að baklóðinni.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærandi að Laufásvegi 22 bendir á að í umsögn Reykjavíkurborgar hafi engin tilraun verið gerð til að skilgreina hvers kyns starfsemi veitt væri heimild fyrir eða hvernig hún samrýmist Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040. Í aðalskipulaginu segi m.a. að búsetuúrræði þar sem krafist sé gæslu allan sólarhringinn og/eða umfang starfsemi sé umtalsverð geti einnig verið heimil, en sé háð því að gerð sé grein fyrir þeim í deiliskipulagi. Orðalagið „[geti] einnig verið heimil“ staðfesti að um sé að ræða undantekningu en ekki reglu en orðalagið „en eru háð því að gerð sé grein fyrir þeim í deiliskipulagi“ feli í sér afdráttarlaust skilyrði. Borgaryfirvöld hafi ekki hrakið að annað hvort sé um að ræða búsetuúrræði með umtalsverðu umfangi eða að krafist sé gæslu allan sólarhringinn, en annað hvort skilyrðið nægi til að skylt sé að gera deiliskipulag. Rekstur á búsetuúrræði fyrir allt að 85 manns, þar sem öll aðstaða sé meira og minna sameiginleg öllum, jafnist að umfangi á við afar stórt gistiheimili eða miðstærð af hóteli.

Reykjavíkurborg vísi til ákvæða um heimila atvinnustarfsemi á íbúðarsvæðum í gildandi aðal­skipulagi. Vakin sé athygli á að þar sé áherslan öll á smárekstur sem hafi lítil áhrif á nær­umhverfið auk þess sem rekstur gistiþjónustu sé óheimil óháð umfangi. Þá sé vakin athygli á drögum ríkisstjórnar að frumvarpi um tímabundnar undanþágur vegna búsetuúrræða fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd, þar sem stjórnvöld hafi hug á því að skapa lagalegar forsendur fyrir því að hægt sé að víkja frá ákvæðum gildandi skipulags viðkomandi sveitar­félaga og þá að hámarki til 18 mánaða. Frumvarpið hafi hvorki verið lagt fram né orðið að lögum og því séu engar forsendur til að víkja frá afdráttarlausum ákvæðum aðalskipulags og það til tveggja ára. Skortur á skýrri afmörkun tímalengdar, þrátt fyrir ákvæði í grenndar­kynningu, sé einnig á meðal þeirra atriða sem ekki hafi verið vikið að í umsögn borgaryfirvalda.

Á uppdráttum sjáist hversu fjarri innra skipulag sé öllum þekktum fordæmum um búsetuúrræði, stúdentaíbúðir eða önnur búsetuform sem þekkist á skilgreindum íbúðarsvæðum. Í athuga­semdum eins kæranda við grenndarkynningu hafi verið óskað eftir því að umhverfis- og skipulags­svið rýndi vandlega hvernig fyrirhugaðar íbúðir samrýmdust skilyrðum samkvæmt byggingar­reglugerð, t.a.m. gr. 6.7.1. þar sem segi að öll rými íbúða skuli vera nægjanlega stór þannig að þar rúmist innréttingar af þeim gerðum sem henti stærð íbúða.

Þá sé að lokum bent á að þegar bornar væru saman endanlegar samþykktar teikningar við grenndarkynningu megi sjá að hætt sé að tala um „íbúðir“ og hugtakið „úrræði“ notað í staðinn. Með því séu öll líkindi við hefðbundnar námsmannaíbúðir eða venjulega búsetu við íbúagötur endanlega fyrir bí. Líkleg skýring á þessari breyttu hugtakanotkun sé að sjö herbergja einingin „úrræði 3“ með einu salerni og einni sturtu, bakvið sömu dyr, sé nú án eldhúss og geti því ekki talist „íbúð“ í skilningi byggingarreglugerðar þar sem hún standist ekki kröfur í grein 6.7.1. Sú fullyrðing á forsíðu teikninga að tekið sé mið af kröfum byggingarreglugerðar fyrir íbúðar­húsnæði sé því efnislega röng.

—–

Leyfishafa var tilkynnt um framkomnar kærur og honum gefinn kostur á því að koma á framfæri athugasemdum við þær, en hann hefur ekki látið málið til sín taka.

Niðurstaða: Í máli þessu er kærð ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 22. febrúar 2023 um að samþykkja byggingarleyfisumsóknir til að innrétta búsetu­úrræði í annars vegar matshlutum 02 og 03 í húsi á lóð nr. 19 við Laufásveg og hins vegar í íbúðar- og skrifstofuhúsi á lóð nr. 21–23 við sömu götu. Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki veitir byggingarfulltrúi byggingarleyfi og skv. 11. gr. sömu laga samþykkir hann byggingaráform. Verður því litið svo á að kærð sé sú ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. mars 2023 að samþykkja téðar umsóknir.

Byggingarleyfisumsóknir þessar voru grenndarkynntar íbúum nærliggjandi húsa, en ekki liggur fyrir deiliskipulag fyrir svæðið. Fram kom í grenndarkynningunni að óskað væri eftir tíma-bundinni breytingu á notkun húsnæðisins. Með breyttri notkun yrði húsnæðinu, sem er í heild rúmir 1.600 m2, skipt í þrjár íbúðir og opnað tímabundið á milli. Tekið væri mið af kröfum byggingarreglugerðar fyrir íbúðarhúsnæði. Af gögnum málsins má ráða að húsnæðið sé ætlað sem tímabundinn dvalar­staður umsækjenda um alþjóðlega vernd hér á landi.

—–

Af hálfu kærenda hefur verið bent á að við útgáfu samþykktra teikninga hafi fallið brott eldhús í einni íbúðinni, sem merkt er „úrræði 3“, en þar séu annars sjö herbergi, eitt salerni og ein sturta. Með þessu geti úrræðið ekki talist íbúð í skilningi byggingarreglugerðar nr. 112/2012, sbr. grein 6.7.1. Í þeirri grein er kveðið á um að hvert deilihúsnæði, svo sem hér um ræðir, skuli hafa að lágmarki eitt íbúðarherbergi, eldunaraðstöðu og baðherbergi. Öll slík rými innan íbúðar skuli tengd innbyrðis og ekki skuli þurfa að fara um sameign á milli rýmanna. Auk þess skuli öll rými íbúða vera nægjanlega stór þannig að þar rúmist innréttingar af þeim gerðum sem henta stærð íbúða og er heimilt að krefjast rökstuðnings hönnuðar um að svo sé miðað við áætlaðan fjölda íbúa. Deilihúsnæði er skilgreint í 24. tölul. gr. 1.2.1. í byggingarreglugerð sem íbúðarhúsnæði með sameiginlegt eldhús eða alrými. Á samþykktum uppdráttum kemur fram að húsið verði nýtt sem þrjár íbúðir. Við skoðun teikninganna er ljóst að ekki er eldhús í rými því sem nefnist „úrræði 3“ sem upphaflega var bílgeymsla á lóð hússins á Laufásvegi 19. Mögulegt virðist hins vegar að íbúar þar geti haft aðgang að öðrum eldhúsum í húsinu. Þetta bendir til þess að annmarki sé á samþykktum teikningum, en ekki er tilefni til að fjalla nánar um það hvort svo sé í úrskurði þessum.

—–

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr skipulagslaga nr. 123/2010 gildir sú meginregla að gera skal deili­skipulag fyrir svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Finna má undantekningu frá þeirri meginreglu í 1. mgr. 44. gr. laganna þar sem segir að þegar sótt er um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag og deiliskipulag liggur ekki fyrir geti sveitarstjórn eða sá aðili sem heimild hefur til fullnaðarafgreiðslu mála, sbr. 6. gr., ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin er í samræmi við land­notkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Skal skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndar­kynningu. Í máli þessu er m.a. tekist á um það hvort útgefin byggingarleyfi samrýmist aðal­skipulagi Reykjavíkur sem og hvort heimilt hafi verið að veita þau að undangenginni grenndar­kynningu eða hvort þurft hefði að gera deiliskipulag fyrir umrætt svæði. Samkvæmt 11. gr. laga nr. 160/2010 verða byggingaráform aðeins samþykkt ef fyrirhuguð mannvirkjagerð er í samræmi við skipulagsáætlanir viðkomandi svæðis.

Með hinum kærðu ákvörðunum er notkun húseignarinnar að Laufásvegi 21–23 breytt úr atvinnu­húsnæði í íbúðarhúsnæði. Húsið er á svæði íbúðarbyggðar (ÍB) samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040. Í aðalskipulaginu segir að leitast skuli við að tryggja fjölbreytt framboð húsagerða og búsetukosta fyrir alla félagshópa og er í dæmaskyni með íbúðum m.a. vísað til íbúðarherbergja sem leigð eru tímabundið og íbúar deila eldhúsi með öðrum auk hvers kyns búsetuúrræða fyrir hópa með sérstakar húsnæðis- og þjónustuþarfir og eru með lögheimili í viðkomandi húsnæði. Verður með hliðsjón af þessari víðu skilgreiningu ekki álitið að land­notkun samkvæmt aðalskipulagi girði fyrir útgáfu byggingarleyfis til íbúða í húsinu af þeirri gerð og í þeim tilgangi sem hér um ræðir.

Í kafla 3.4.1 í aðalskipulaginu eru sérákvæði um sérstök búsetuúrræði og kemur þar fram að slík úrræði geti verið heimil innan íbúðarbyggðar. Þá segir einnig að innan íbúðarbyggðar sé staðsetning búsetuúrræða almennt háð gerð deiliskipulags. Það gildi þó ekki ef um sé að ræða búsetukjarna fyrir fatlað fólk í húsnæði sem sé til staðar, þar sem ekki sé þörf á sérstakri öryggisgæslu og þjónusta kalli ekki á mikinn starfsmannafjölda (2–12 starfsmenn á vakt). Eru sérstök búsetuúrræði skilgreind í aðalskipulaginu sem „húsnæðislausnir fyrir félagshópa með sérstakar húsnæðis- og/eða þjónustuþarfir, til lengri eða skemmri dvalar.“ Fram kemur að slík úrræði nái til fjölbreyttra hópa og húsnæðislausnir geti falist í því að ráðist verði í nýbyggingu eða endurbætur á húsnæði sem þegar sé til staðar. Enn fremur segir í kafla um íbúðarbyggð að búsetuúrræði þar sem krafist sé „gæslu allan sólarhringinn og/eða umfang starfsemi er umtalsvert“ geti einnig verið heimil, en háð því að gerð sé grein fyrir þeim í deiliskipulagi.

Fram kom á grenndarkynntum uppdráttum að leigutaki myndi meta þörf á sólarhringsvakt. Við meðferð málsins kom fram í svörum starfsmanns skipulagsfulltrúa að samkvæmt upplýsingum frá Framkvæmdasýslunni – Ríkiseignum og Vinnumálastofnun yrðu 40 herbergi í húsinu, fyrir 75–85 umsækjendur um alþjóðlega vernd. Öryggisgæsla yrði í húsinu allan sólarhringinn og ávallt yrði öryggisvörður til staðar. Einnig yrði sett upp myndavélakerfi sem myndi „dekka“ sameiginleg rými í húsinu. Á samþykktum uppdráttum kemur fram að Vinnumálastofnun verði með starfs­mann á staðnum allan sólarhringinn sem verði íbúum til taks ef eitthvað komi upp á inni í húsnæðinu. Sá starfsmaður verði einnig tengiliður íbúa við aðra starfsmenn stofnunar-innar og aðra hlutaðeigandi aðila utan húsnæðisins. Í svörum fulltrúa Reykjavíkurborgar við meðferð hinna kærðu ákvarðana kom síðar fram að með „sólarhringsvakt“ í byggingarlýsingu sé einungis átt við að húsvörður verði á staðnum og ekki sé um öryggisgæslu að ræða. Þá sé óeðlilegt að horfa á starfsemina sem búsetuúrræði en henni svipi meira til námsmannaíbúða.

Af málsgögnum hinna kærðu ákvarðana, m.a. samþykktum teikningum, virðist ljóst að gert sé ráð fyrir því að í húsunum að Laufásvegi 19 og 21–23 verði búsetuúrræði fyrir viðkvæman félagshóp. Umfang starfseminnar er verulegt með hliðsjón af staðsetningu hennar í íbúðargötu. Auk þess virðist ljóst að gert sé ráð fyrir einhverri tegund af gæslu eða eftirliti og þjónustu sem krefjist stöðugrar viðveru. Þar sem fyrirmæli aðalskipulags kveða á um að slík búsetuúrræði innan íbúðarbyggðar séu háð því að gerð sé grein fyrir þeim í deiliskipulagi verður að telja að ekki hafi verið heimilt að láta nægja að grenndarkynna byggingarleyfisumsóknirnar samkvæmt 1. mgr. 44. gr. skipu­lagslaga. Var undirbúningur hinna kærðu ákvarðana því haldinn verulegum annmörkum og ekki hjá því komist að fella þær úr gildi.

 Úrskurðarorð:

Felldar eru úr gildi ákvarðanir byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. mars 2023 um að samþykkja byggingarleyfisumsóknir til að innrétta búsetuúrræði í annars vegar matshlutum 02 og 03 í húsi á lóð nr. 19 við Laufásveg og hins vegar í íbúðar- og skrifstofuhúsi á lóð nr. 21–23 við sömu götu.

150/2022 Kerhraun

Með

Árið 2023, föstudaginn 28. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 150/2022, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 5. október 2022 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar Kerhrauns C88.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. desember 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi lóðarinnar Kerhrauns C89 í Grímsnes- og Grafningshreppi þá ákvörðun sveitarstjórnar frá 5. október 2022 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar Kerhrauns C88. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Gerði kærandi jafnframt kröfu um að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar yrði frestað á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni og að framkvæmdir yrðu stöðvaðar. Þeim kröfum var hafnað með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 9. janúar 2023.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Grímsnes- og Grafningshreppi 5. janúar 2023.

Málavextir: Með umsókn, dags. 28. júní 2022, var sótt um breytingu á deiliskipulagi frístunda­byggðar í Kerhrauni vegna lóðarinnar Kerhrauns C88. Umsóknin fól í sér að bílastæði yrðu flutt frá norðurmörkum að austurmörkum lóðarinnar. Auk þess átti byggingarreitur að stækka þannig að hann yrði samsíða austurmörkum lóðarinnar í 10 m fjarlægð frá þeim. Fyrir hafði byggingar­reitur verið 10 m frá lóðarmörkum nyrst en 19,6 m syðst. Skipulagsnefnd Umhverfis- og tæknisviðs uppsveita bs. lagði til að umsóknin yrði grenndarkynnt og sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps samþykkti þá tillögu á fundi sínum 17. ágúst 2022 og fór grenndarkynningin fram frá 23. ágúst til 22. september s.á. Kærandi sendi inn athugasemdir á kynningartíma og voru þær teknar fyrir á fundi skipulagsnefndar 27. september s.á. Á fundinum var lagt til að tekið yrði tillit til athugasemda kæranda hvað varðaði breytta aðkomu að lóðinni en að sá hluti breytingartillögunnar, er varðaði staðsetningu byggingarreits, yrði samþykktur. Sveitarstjórn samþykkti tillögu skipulagsnefndar á fundi sínum 5. október s.á. og birtist aug-lýsing um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda 23. nóvember s.á.

Sveitarstjórn samþykkti jafnframt nýtt deiliskipulag Kerhrauns, svæði A, B og C, á fundi sínum 21. september 2022. Birtist auglýsing um gildistöku þess skipulags í B-deild Stjórnartíðinda 12. desember s.á., þar sem fram kom að um væri að ræða endurskoðað deiliskipulag sem tæki til Kerhrauns, svæða A, B og C. Með gildistöku þess féll eldra deiliskipulag úr gildi.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er bent á að tilfærsla byggingarreits á lóðinni Kerhrauni C88 skerði hagsmuni hans. Lóðarhafi ætli að byggja sumarhús sitt um 10 m nær lóð kæranda en áður hafi verið heimilt. Á tiltölulega litlum lóðum skipti hver metri máli hvað varði nálægð húsa og grenndaráhrif og 10 m skipti verulegu máli. Muni breytingin hafa umtalsverð áhrif á nýtingu og rýmistilfinningu kæranda á sinni lóð. Í ljósi upprunalegs deiliskipulags eigi kærandi ekki að þurfa að þola þau áhrif.

Kæranda sé ekki kunnugt um hvort byggingarfulltrúi hafi af vanrækslu útsett hús á lóðinni nr. C88 þar sem grunnur þess hafi verið grafinn fyrir útgáfu byggingarleyfis eða hvort eigandi þeirrar lóðar hafi virt að vettugi fyrirmæli byggingarfulltrúa eða grafið grunninn án vitneskju hans. Nauðsynlegt sé að þetta verði upplýst við meðferð málsins hjá úrskurðarnefndinni. Hafi byggingarfulltrúi gert mistök við útsetningu hússins og staðsett það langt fyrir utan upphaflega byggingarreitinn sé ekki við hæfi að samþykkja slík mistök með því að annað stjórnvald sveitar­félagsins samþykki deiliskipulagstillögu sem feli í sér að blessun sé lögð yfir slík mistök. Hið sama eigi við ef lóðarhafinn hafi ekki farið eftir fyrirmælum byggingarfulltrúa um staðsetningu hússins. Í hvorugu tilvikinu eigi hagsmunir kæranda af staðsetningu byggingarreits að víkja fyrir ólögmætum aðgerðum lóðarhafa.

Skipulagsyfirvöld hafi ákveðið að grenndarkynna deiliskipulagstillöguna samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 í stað þess að auglýsa hana samkvæmt 40. gr. laganna. Tillagan hafi víðtækara gildi en eingöngu fyrir sig og lóðarhafa. Hið breytta deiliskipulag, þ.e. stækkun og tilfærsla byggingarreitsins á lóðinni nr. C88, feli í sér fordæmi fyrir aðra lóðarhafa á svæðinu og vafalaust séu margir sem vilji ekki fá byggingarreiti á aðliggjandi lóðum nær húsum sínum en upphaflega deiliskipulagið segði til um. Nauðsynlegt sé því að deiliskipulagstillagan verði kynnt samkvæmt meginreglu 1. mgr. 43. gr., sbr. 40. gr. skipulagslaga.

Málsrök Grímsnes- og Grafningshrepps: Bent er á að ekki séu fyrir hendi annmarkar á ákvörðun sveitarfélagsins eða málsmeðferð þess sem leitt geti til ógildingar á ákvörðuninni. Öll málsmeðferð hafi verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Um hafi verið að ræða óverulega breytingu á gildandi deiliskipulagi og því hafi 2. mgr. 43. gr. laga nr. 123/2010 átt við. Því hafi verið rétt að grenndarkynna breytinguna í samræmi við ákvæði 44. gr. laganna svo sem gert hafi verið. Meint fordæmisgildi ákvörðunar hafi engin áhrif á þessa niðurstöðu.

Við meðferð málsins hafi verið tekið tillit til athugasemda kæranda. Synjað hafi verið um að breyta aðkomu lóðarinnar en fallist á stækkun byggingarreits. Staðsetning byggingarreits sé í samræmi við fyrirmæli gr. 5.3.2.12 í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 um fjarlægð frá lóðar­mörkum. Hafi sveitarstjórn talið að hagsmunir kæranda myndu ekki skerðast hvað varði land­notkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn umfram heimildir þágildandi skipulags þrátt fyrir greinda breytingu á byggingarreitnum, auk þess sem sú breyting sé í samræmi við fyrirmæli skipulagsreglugerðar.

Sveitarstjórnir fari með skipulagsvaldið og beri ábyrgð á og annist gerð deiliskipulags skv. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga. Í því felist víðtækt vald sveitarfélaga og tæki sveitarstjórnar til að hafa áhrif á og þróa byggð og umhverfi með bindandi hætti. Við breytingu umrædds deiliskipulags hafi öllum málsmeðferðarreglum verið fylgt, þ. á m. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga, meðalhófsreglu 12. gr. og málshraðareglu 9. gr. sömu laga. Ekki hafi verið sýnt fram á annað, en rétt sé að nefna að ógilding deiliskipulagsbreytingar verði ekki einvörðungu á því byggð að kærandi telji gengið á hagsmuni sína. Væri gengið með afar óvarlegum hætti á eignarrétt lóðarhafaef nýting hans á lóð sinni yrði takmörkuð með svo víð­tækum hætti. Telji kærandi sig hafa orðið fyrir tjóni standi honum réttarúrræði til boða á grund­velli 51. og 51. gr. a. skipulagslaga en hann geti ekki krafist ógildingar á deiliskipulaginu.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi ítrekar fyrri athugasemdir sínar og bendir á að ekki hafi verið tilviljun að byggingarreitur lóðarinnar hafi verið töluvert fjær lóðarmörkum en 10 m. Lóð kæranda komi í spíss þar sem hún liggi að lóð nr. C88. Hús sem standi svo nærri lóð nr. C89, sem hið breytta skipulag heimili, eyðileggi nýtingarmöguleika hans á spíssinum og nærliggjandi svæði lóðarinnar. Kærandi hafi ekki gert ráð fyrir þessari röskun á rétti hans sem lóðarhafa. Skipulagsyfirvöld sveitarfélaga geti ekki beitt skipulagsvaldi sínu að vild án þess að taka tillit til aðstæðna og afstöðu þeirra sem verði fyrir áhrifum af deiliskipulagsbreytingu. Breytingin raski verulega nýtingarmöguleikum þess hluta lóðarinnar sem liggi næst lóð nr. C88, sérstaklega vegna spíss-lögunar lóðarinnar. Verið sé að leggja blessun yfir óleyfisframkvæmd eiganda lóðar nr. C88 sem virðist hafa grafið húsgrunn 10 m nær lóð kæranda en heimilt hafi verið eða grafið húsgrunninn vegna mistaka byggingarfulltrúa sveitarfélagsins. Því sé hafnað að í skipulagsvaldi sveitarfélags felist vald til þess að leiðrétta mistök eða vanrækslu við útgáfu byggingarleyfis og/eða í byggingarframkvæmdum á kostnað nágranna.

———-

Umsækjanda um hina kærðu deiliskipulagsbreytingu var gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum í málinu en hann hefur ekki tjáð sig um kærumál þetta.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um breytingu á deiliskipulagi Kerhrauns vegna lóðarinnar nr. C88. Hin umdeilda deiliskipulagsbreyting var samþykkt í sveitarstjórn Grímsnes- og Grafnings­hrepps 5. október 2022 og tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 23. nóvember s.á. Sveitarstjórn samþykkti einnig nýtt deiliskipulag fyrir svæðið á fundi sínum 21. september s.á. og tók það gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 12. desember s.á. Í auglýsingu hins nýja deiliskipulags kemur fram að eldra skipulag falli úr gildi við gildistöku hins nýja deiliskipulags. Var hin kærða deiliskipulagsbreyting því þegar fallin úr gildi þegar kæra barst úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 27. desember 2022. Hefur kærandi því ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti hinnar kærðu deiliskipulags-breytingar, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda-mála, og verður kröfu hans hvað það varðar því vísað frá nefndinni.

Í hinu nýja deiliskipulagi Kerhrauns, svæða A, B og C, er skipulag lóðarinnar Kerhrauns C88 með sama hætti og í hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu. Ekki verður séð að kæranda hafi verið leiðbeint um að sú deili­­skipulagsbreyting sem hann kærði hafi verið fallin úr gildi og að nýtt skipulag, sem hvað lóðina Kerhraun C88 varðar, væri efnislega eins og sú breyting sem kærð var. Þykir ekki rétt að kærandi verði af kærurétti vegna þessa. Verður því litið svo á að kært sé deiliskipulag Kerhrauns, svæða A, B og C, hvað varðar lóðina Kerhraun C88.

Í auglýsingu vegna deiliskipulags Kerhrauns, svæða A, B og C, í B-deild Stjórnartíðinda kemur fram að tilgangur skipulagsgerðarinnar sé að uppfæra eldra skipulag í samræmi við núgildandi lög og skilgreina helstu bygginga- og framkvæmdaskilmála innan svæðisins með skýrum hætti. Deiliskipulagið taki til þeirra breytinga sem gerðar hefðu verið á upprunalegu deiliskipulagi svæðisins.

Í deiliskipulagi Kerhrauns kemur fram í kafla 1.3 að þar sem um sé að ræða uppfærslu á eldra deiliskipulagi hafi ekki verið tekin saman lýsing um skipulagsverkefnið. Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal sveitarstjórn, þegar vinna við deiliskipulagstillögu hefst, taka saman lýsingu á skipulagsverkefni þar sem fram komi áherslur sveitarstjórnar við deiliskipulagsgerðina og upplýsingar um forsendur og fyrirliggjandi stefnu og fyrirhugað skipulagsferli, svo sem um kynningu og samráð við skipulagsgerðina gagnvart íbúum og öðrum hagsmunaaðilum. Samkvæmt 3. mgr. 40. gr. laganna er sveitarstjórn heimilt að falla frá gerð slíkrar lýsingar ef allar meginforsendur deiliskipulagsins liggja fyrir í aðalskipulagi. Þá kemur fram í 1. mgr. 43. gr. að ekki sé skylt að taka saman lýsingu skv. 1. mgr. 40. gr. vegna breytinga á deiliskipulagi.

Í Aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps 2008-2020, sem var í gildi þegar deiliskipulag Kerhrauns, svæða A, B og C, tók gildi er hin umdeilda lóð Kerhraun C88 á skipulögðu frístundasvæði F24a. Í undirkaflanum „Stefnumörkun 2008-2020“ í 2. kafla aðalskipulagsins um svæði fyrir frístundabyggð eru allítarleg ákvæði um stærðir lóða, nýtingarhlutfall þeirra, fjarlægðir húsa frá lóðamörkum o.fl. Eins og máli þessu er háttað verður því að telja að megin­forsendur deiliskipulagsins liggi fyrir í aðalskipulagi, sér í lagi í ljósi þess að hið nýja deili­skipulag hafði ekki nýmæli að geyma, heldur var tilgangur þess að uppfæra eldra skipulag með þeim breytingum sem á því höfðu verið gerðar, þ. á m. með umdeildri skipulagsbreytingu sem var felld óbreytt inn í deiliskipulagið.

Í áðurnefndum kafla aðalskipulagsins „Stefnumörkun 2008-2020“ kemur fram að við deiliskipulagningu sumarhúsasvæða skuli taka mið af því að fjarlægð húss frá lóðamörkum skuli vera minnst 10 m eða í samræmi við gildandi lög og reglugerðir. Í 3. málsl. gr. 5.3.2.12.  skipulagsreglugerðar nr. 90/2013, sem fjallar um frístundabyggð, kemur fram að ekki skuli byggja nær lóðamörkum en 10 m. Er byggingarreitur lóðarinnar Kerhrauns C88 í samræmi við framangreint.

Með vísan til þess sem að framan er rakið liggja ekki fyrir þeir ágallar á deiliskipulagi Ker-hrauns, svæða A, B og C, hvað varðar lóðina Kerhraun C88, sem raskað geta gildi þess og verður kröfu um ógildingu deiliskipulagsins því hafnað.

 Úrskurðarorð:

 Kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 5. október 2022 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar Kerhrauns C88 er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 21. september 2022 um að samþykkja deiliskipulag Kerhrauns, svæða A, B og C, hvað varðar lóðina Kerhraun C88 er hafnað.

134/2022 Vistarvegur

Með

Árið 2023, föstudaginn 28. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson, varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 134/2022, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþings eystra frá 31. október 2022 um að eigandi sumarhúss að Vistarvegi 12 færi það til á lóð þannig að það sé innan byggingarreits og í 5 m fjarlægð frá mörkum lóðar-innar Vistarvegi 10, fyrir 28. febrúar 2023 að viðlögðum dagsektum að upphæð 25.000 krónum.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. nóvember 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi fasteignarinnar að Vistarvegi 12, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþings eystra frá 31. október 2022 að hann færi sumarhús sitt til á lóð þannig að það sé innan byggingarreits og í 5 m fjarlægð frá mörkum við lóðina Vistarveg 10 að viðlögðum dagsektum að upphæð 25.000 krónum frá 28. febrúar 2023. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Rangárþingi eystra 28. desember 2022.

Málavextir: Árið 1944 gáfu eigendur jarðanna Austurbæjar og Vesturbæjar Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu samtals 69% af jörðinni Ytri-Skógum. Gáfu forfeður kæranda sem áttu Vesturbæ allan sinn hluta af jörðinni sem var 40%. Austurbær gaf 29% af sínum hluta og seldi sýslunum 31%. Gjöfin var skilyrt um að þar yrði byggður héraðsskóli og rekið þar skólabú sem sæi fyrir aðföngum fyrir skólann. Samhliða gjöfinni lá fyrir samkomulag um að gefendur myndu reisa tvö sumarhús til eigin nota á landi sem tæki til 5 ha sem hvorki mætti selja né leigja og myndu þau ekki erfast. Sumarhúsin sem reist voru eru Vistarvegur 10, sem er sumarhús Austurbæjar, og Vistarvegur 12, sem er sumarhús Vesturbæjar. Sýslunefndir Rangárþings og Vestur-Skaftafellssýslu afléttu kvöðinni um að sumarhúsin erfðust ekki árið 1993. Frá þeim tíma hefur kærandi verið skráður eigandi að Vistarvegi 12 hjá Fasteignamati ríkisins og var lóðin skráð 2.500 m² skv. Fasteignamati. Deilur hafa staðið yfir frá árinu 2007 um hver sé raunveruleg stærð lóðarinnar Vistarvegi 12. Sveitarfélagið telur lóðina nú vera 1.070 m² og skráð sem slík en lóðareigandi kveðst aldrei hafa gefið eftir hluta lóðarinnar og telur hana vera 2.500 m².

Hinn 29. mars 2019 var samþykktur aðaluppdráttur fyrir byggingu sumarhúss að Vistarvegi 12. Samkvæmt uppdrættinum var byggingin staðsett innan skilgreinds byggingarreits og 5,0 m frá aðliggjandi lóðarmörkum. Í júní 2021 framkvæmdi EFLA verkfræðistofa mælingar á lóðamörkum Vistarvegar 10 og 12 sem byggðust á þinglýstum og hnitsettum lóðamörkum. Samkvæmt mælingunum var sumarhúsið, sem reist hafði verið að Vistarvegi 12, u.þ.b. 3,4 m út fyrir byggingarreit í austurátt og þannig einungis 1,6 m frá lóðamörkum. Sveitarfélagið telur að mælingarnar sýni að ljóst sé að sumarhúsið að Vistarvegi 12 hafi verið reist í ósamræmi við samþykktan aðaluppdrátt, byggingarleyfi og ákvæði byggingarreglugerðar um bil milli bygginga. Kærandi telur að mælingar EFLU eigi ekki við rök að styðjast þar sem miðlína á milli lóðanna hafi raskast og hafi hann því ekki farið út fyrir byggingarreit sinn.

 Málsrök kæranda: Bent er á að frá árunum 1964-1968, hafi land gefenda, þar sem umrædd sumarhús standa, verið skorið niður í 5.000 m², eða 10% af upprunalegri stærð. Hafi það verið gert í mikilli óþökk þálifandi gefenda. Hafi lóðin að Vistarvegi 12 því verið skráð 2.500 m² síðan stærðin var fyrst skráð í tölvukerfi Fasteignaskrár árið 1994. Þá sé lóðin einnig skráð sem 2.500 m² í byggingarlýsingu sem samþykkt var 29. mars 2019.

Árið 2007 kveðst kærandi sér hafa borist athugasemdir frá Fasteignamatinu um að ekki væri samræmi í skráningu fasteignamatsins og skráningu landsins. Í framhaldinu hafi hann sent bréf, dags. 5. júní s.á., til beggja héraðsnefndanna þar sem vakin hafi verið athygli á framangreindum athugasemdum.

Kæranda og eiganda sumarhússins að Vistarvegi 10 hafi borist bréf, dags. 10. febrúar 2007, frá Héraðsnefnd Vestur- Skaftafellssýslu. Í bréfinu hafi komið fram að nefndin samþykki fyrir sitt leyti að gerður verði lóðarleigusamningur við þau og verði lóðirnar 0,5 ha að stærð umhverfis núverandi hús. Í kjölfarið hafi þau sent bréf til Héraðsnefndar Rangárvallasýslu og vísað til fyrrnefndrar afstöðu Héraðsnefndar Vestur-Skaftafellssýslu. Hafi erindinu verið svarað 6. júní 2008 á þann veg að samþykkt yrði að þau fengju afmarkaðan reit umhverfis húsin. Þá hafi komið fram á fundi skipulagsnefndar Rangárþings 21. maí 2010 að héraðsnefndir Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu hafi lagt fram teikningu sem sýni afmörkun umræddra lóða að Ytri-Skógum. Komi þar fram að um sé að ræða lóðir sem hafi verið til í Fasteignaskrá Íslands en ekki áður fengið afmörkun. Lóð 3 (Vistarvegur 10), landnr. 172778, sé skráð 2.500 m² en verði skráð sem lóð 2.2 og verði 1.410 m². Lóð 4 (Vistarvegur 12), landnr. 172776, sé 2.500 m² en verði skráð sem lóð 2.1 og verði 1.032 m². Hafi skipulagsnefnd samþykkt þá afmörkun og hafi með þessu átt að minnka lóðirnar verulega miðað við það sem samið hafi verið um.

Hafi kærandi og eigandi að Vistarvegi 10 sent bréf, dags. 2. febrúar 2011, til beggja héraðs-nefndanna þar sem bent hafi verið á að ítrekað hefði verið samþykkt að hvor lóð væri 2.500 m² og óskað eftir að unnið yrði að lausn málsins í samráði við þau. Hafi ekkert svar borist við því bréfi og hafi beiðnin verið ítrekuð með bréfi, dags. 4. mars s.á. Daginn eftir kveðst kærandi hafa fengið upplýsingar um ákvörðun skipulagsnefndar árinu áður um að minnka lóðirnar með framangreindum breytingum. Þá hafi hann síðar fengið þær upplýsingar að lóðareigandi Vistar-vegar 10 hafi verið í sambandi við sveitarfélagið um að fá stærri lóð en kærandi og hafi það verið samþykkt. Hafi síðan hinn 12. s.m. borist bréf frá oddvita héraðsnefndar Rangæinga. Hafi þar verið upplýst að formönnum og varaformönnum beggja héraðsnefnda hafi verið falið að leiða málið til lykta fyrir 15. maí s.á. og að kallað yrði til fundar. Hafi sér þó aldrei borist slíkt fundarboð.

Haldin hafi verið sameiginlegur fundur beggja héraðsnefnda 16. maí 2012 þar sem fram hafi komið að unnið væri að deiliskipulagi þar sem m.a. sé gert ráð fyrir umræddum lóðum. Á fundinum hafi komið fram að Fannbergi ehf. væri falið að ganga frá lóðarleigusamningum við eigenda Vistarvegar 10 og 12 þegar deiliskipulagið hafi verið samþykkt. Aldrei hafi þó heyrst frá umræddum aðila. Hafi kærandi í framhaldinu gert athugasemdir við deiliskipulagstillöguna 31. júlí 2012 ásamt því að hafa ítrekað skrifað bréf um að leysa þurfi málið. Hinn 5. desember 2016 hafi hann fengið í hendur teikningu þar sem sýnd sé möguleg stækkun á umræddum tveimur lóðum í samræmi við það sem gert hafi verið ráð fyrir í upphafi. Þeirri tillögu hafi hins vegar verið hafnað á sameiginlegum fundi nefndanna 28. júní 2017.

Kveðst kærandi aldrei hafa afsalað sér rétti til 2.500 m² lóðar og því staðið í viðræðum, bréfaskriftum og fundahöldum frá árinu 2007 við að fá rétt sinn staðfestan. Hafi honum marg-sinnis verið lofað því en þegar á hafi reynt hafi raunin verið önnur. Hins vegar hafi hann neyðst til þess að skrifa undir lóðarleigusamninginn svo honum væri kleift að tryggja húsið, en það hafi ekki verið hægt fyrr en búið væri að skrifa undir hann.

Því sé hafnað að farið hafi verið 3,4 m út fyrir byggingarreit. Teikning af húsinu hafi verið samþykkt 29. mars 2019 af byggingarfulltrúa og hafi húsið verið byggt innan byggingarreits „eins og hægt var “ og sé ekki 3,4 m lengra en samþykkt hafi verið. Húsið sem stóð þar áður hafið verið 60-80 cm frá girðingunni vestan megin við húsið. Þegar nýja húsið hafi verið byggt þótti nauðsynlegt að staðsetja það aðeins lengra frá girðingunni. Hafi það m.a. verið vegna öryggissjónarmiða svo hægt væri að komast með fram húsinu og vegna landrofs sem hafi myndast og komi til með að aukast. Hafi lækurinn brotið niður bakkann. Staurinn sé á landrofi og hangi í lausu lofti og sé landið að „naga sig“ nær húsinu. Húsið sem reist hafi verið sé því um 150 cm frá girðingunni og hafi því í mesta lagi verið fært sig 90 cm austur vegna þessa.

Kærandi telur að þær mælingar EFLU, sem ákvörðun byggingarfulltrúa byggja á, eigi ekki við rök að styðjast. Annað hvort séu forsendur mælinganna rangar, þ.e. að miðlínan hafi verið mæld 5 m frá húsinu að Vistarvegi 10, en kærandi telji að eigandi þess húss hafi farið út fyrir byggingarreitinn eða það hafi aldrei verið 10 m á milli byggingarreita.

Þar sem eigendur Vistarvegar 10 hafi byggt húsið sitt út fyrir byggingarreit, hafi bilið milli þess húss og byggingarreits kæranda ekki verið 10 m þegar hann byggði húsið. Sökum þessa hafi miðlínan færst inn á lóð kæranda í stað þess að hún sé tekin milli byggingarreita lóðanna tveggja eins og hún eigi að vera. Þessar skýringar eigi sér m.a. stoð í samþykktri teikningu frá 5. maí 2010. Þar sjáist að jafnlangt bil sé frá byggingarreitum beggja lóða að lóðarmörkum. Hafi því annað hvort ekki verið 10 m á milli byggingarreita eða Vistarvegur 10 farið út fyrir byggingarreitinn í vestur og því hafi miðlínan færst til. Í byggingarlýsingu Vistarvegar 10 komi fram að bústaðurinn verði lengdur um 100 cm til vesturs. Þessu til stuðnings vísar kærandi til þess að húsið sem hann reisti sé hvorki 3,4 m lengra en samkvæmt samþykktum teikningum né hafi það verið fært um 3,4 m austar á byggingarreitnum.

Eigendur Vistarvegar 10 og 12 hafi ávallt átt sama rétt til lóðarstærða en talið hafi verið að 2.500 m² tilheyrðu hvorum eiganda. Sveitarfélagið hafi hins vegar ákveðið að mismuna eigendum og hafa lóð kæranda töluvert minni. Hafi byggingarfulltrúi skrifað undir lóðar-leigusamninginn, staðsett byggingarreitina á lóðunum og samþykkt teikningar sem geri ráð fyrir 10 m milli byggingarreita. Sé tilefni til að vekja athygli á því að við þá vinnu hafi ekki verið hugað að því að byggingarreitur kæranda nái út að lóðarmörkum í vestur að svæði sem erfitt sé að staðsetja byggingu á í stað þess að færa byggingarreit Vistarvegar 10 lengri austur. Töluvert svæði sé austan við húsið að Vistarvegi 10 svo það væri hægt að byggja þar en svigrúmið sé ekkert við Vistarveg 12. Sé þetta sérstaklega athyglisvert sökum þess að sveitar-félagið hafi ákveðið að hafa lóðina Vistarveg 10 mun stærri sjáist að miðað við miðlínu á mæliblaði EFLU sé nú rotþró fyrir Vistarveg 12 komin inn á lóðina Vistarveg 10, sem aldrei hafi verið. Þurfi skipulags- og byggingarfulltrúi að upplýsa af hverju svo sé og af hverju embættið hafi samþykkt húsið að Vistarvegi 12 ef það kæmist ekki fyrir á byggingarreitnum.

Sé kæranda hulin ráðgáta hvernig sér eigi að vera fært að færa húsið lengra til vesturs á lóðinni enda sé ljóst að bilið að gaddavírsgirðingunni og þverhnípis við hana sé um 150 cm. Sé því lágmarkskrafa að skipulags- og byggingarfulltrúi upplýsi hvernig það sé framkvæmanlegt áður en krafa sé gerð um slíka íþyngjandi aðgerð að viðlögðum dagsektum, enda húsið samþykkt af byggingarfulltrúa og ekkert svæði fyrir hendi til að færa það vestar. Samkvæmt framangreindu sé því álitið að skilyrðum 2. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010, sbr. 2. mgr. 56. gr., sé ekki fullnægt enda ekki um ólöglegt mannvirki að ræða eða brjóti staðsetning hússins gegn kröfum greinar 9.7.5 byggingarreglugerðar nr. 112/2012.

 Málsrök Rangárþings eystra: Vísað er til þess að eins og fram komi í gögnum málsins hafi 29. mars 2019 verið samþykktur og stimplaður aðaluppdráttur fyrir sumarhús að Vistarvegi 12. Samkvæmt uppdrættinum hafi húsið verið staðsett innan skilgreinds byggingarreits og 5,0 m frá lóðarmörkum aðliggjandi lóðar. Samkvæmt lóðablöðum fyrir Vistarveg 12 og 10 skyldi bil frá byggingarreit hvorrar lóðar að lóðarmörkum vera 5,0 m og þ.a.l. bil á milli byggingarreita alls 10,0 m. Hafi sú tilhögun byggst á ákvæðum byggingarreglugerðar nr. 112/2012, n.t.t. ákvæða gr. 9.7.5. um bil á milli bygginga. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins sé meginreglan að bil milli bygginga sé nægilega mikið til að ekki sé hætta á að eldur nái að breiðast út á milli þeirra. Í ákvæðinu sé kveðið á um viðmiðunarreglur og í töflu 9.09 komi fram lágmarks-fjarlægðir á milli bygginga. Ysta klæðning húsanna á lóðunum að vistarvegi 10 og 12 sé í flokki 2. Samkvæmt framangreindum ákvæðum byggingarreglugerðarinnar skuli bil á milli þeirra vera 10 m til að uppfylla lágmarkskröfur um fjarlægð milli bygginga. Á grundvelli þess hafi byggingaráform kæranda verið samþykkt.

Í júní 2021 hafi EFLA verkfræðistofa framkvæmt mælingar á lóðamörkum milli lóðanna Vistarvegar 10 og 12, sem byggst hafi á þinglýstum og hnitsettum lóðamörkum. Hafi mælingarnar sýnt að sumarhúsið að Vistarvegi 12 væri 3,4 m út fyrir byggingarreit í austurátt og þannig einungis 1,6 m frá lóðamörkum. Hafi með því verið ljóst að byggingin væri í ósamræmi við samþykktan aðaluppdrátt, byggingarleyfi og ákvæði byggingarreglugerðar um bil milli bygginga. Á þeim grundvelli og að gættum reglna stjórnsýslulaga, þ. á m. um andmælarétt málsaðila, hafi sveitarfélagið tekið þá ákvörðun sem deilt sé um.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Ítrekuð eru fram komin sjónarmið. Auk þess bendir kærandi á að byggingarfulltrúi Rangárþings eystra hafi gert úttekt á húsinu 12. ágúst 2019 og í kjölfarið gefið út fokheldisvottorð. Hafi byggingarfulltrúi vart gefið út slíkt vottorð ef um ólöglegt mannvirki eða byggingarhluta væri að ræða eins og hann haldi nú fram.

Verði ekki fallist á kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunarinnar er gerð krafa um að frestur til að færa húsið verði lengdur þar sem mjög erfitt eða jafnvel ómögulegt sé að færa húsið á þessum árstíma. Óskað er eftir að veittur verði frestur til 1. september 2023.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþings eystra um að eigandi sumarhúss að Vistarvegi 12 færi það til á lóð þannig að það sé innan byggingarreits og í 5 m fjarlægð frá mörkum lóðanna Vistarvegar 10 og 12 að viðlögðum dagsektum. Ástæðu umræddrar kröfu byggingarfulltrúa má rekja til mælinga verkfræðistofunnar EFLU frá 8. júní 2021. Niðurstöður mælinganna sýndu að bilið á milli húsanna að Vistarvegi 10 og 12 mætti ekki kröfum ákvæðis gr. 9.7.5 í byggingarreglugerð nr. 112/2012 um bil á milli bygginga.

Hlutverk byggingarfulltrúa hvers sveitarfélags er að hafa eftirlit með því að mannvirki og notkun þeirra sé í samræmi við útgefin leyfi og beita eftir atvikum þvingunarúrræðum, sbr. 55. og 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Er nánar kveðið á um það í 2. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga að sé byggingarframkvæmd hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag geti byggingarfulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt. Þá er fjallað um aðgerðir til að knýja fram úrbætur í 56. gr. laganna. Er þar m.a. tekið fram í 1. mgr. ákvæðisins að sé ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar ábótavant að mati byggingarfulltrúa eða frágangur ekki samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum eða byggingarlýsingu skuli gera eiganda eða umráðamanni eignarinnar aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt er. Sé það ekki gert er heimilt að beita dagsektum eða láta vinna verk á kostnað þess sem vanrækt hefur að vinna verkið, sbr. 2. og 3. mgr. nefnds lagaákvæðis.

Beiting nefndra þvingunarúrræða er verulega íþyngjandi ákvörðun sem er háð mati stjórnvalds hverju sinni. Tekið er fram í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Umræddum ákvæðum verður fyrst og fremst beitt sé það mat viðkomandi stjórnvalds að gengið sé gegn almannahagsmunum þeim er búa að baki mannvirkjalögum og skipulagslögum, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Þótt beiting sé háð mati stjórnvalds þarf ákvörðun að vera studd efnislegum rökum. Þá ber stjórnvaldi einnig að fylgja meginreglum stjórnsýsluréttarins, m.a. um meðalhóf og rannsókn máls.

Árið 2019 fékkst samþykkt leyfi til byggingar 128 m² sumarhúss á lóðinni Vistarvegi 12, í stað  eldra húss sem var um 40 m². Ekki er að sjá annað af gögnum máls en að húsið sem reist var á lóðinni sé í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti frá árinu 2019. Eftir að leyfishafi hafði lokið við byggingu hússins kom í ljós að bilið á milli sumarhúsanna að Vistarvegi 10 og 12 væri einungis 6,53 m þar sem það er minnst og gengur því gegn fjarlægðarkröfum í gr. 9.7.5 í byggingarreglugerð með tilliti til brunavarna. Liggja þar af leiðandi efnisleg sjónarmið að baki ákvörðun sveitarfélagsins um að auka þurfi bilið á milli umræddra húsa.

Til hins ber þó að líta að ef framfylgja ætti ákvörðun byggingarfulltrúa í máli þessu yrði að færa hús kæranda um 3,4 m til vesturs, en af gögnum málsins verður ráðið að húsið yrði þá komið út fyrir byggingarreit og jafnvel út fyrir mörk lóðar kæranda. Auk þess verður ekki séð að litið hafi verið til annarra úrræða sem kynnu að ganga skemur en hin kærða ákvörðun og gætu uppfyllt brunaöryggiskröfur gr. 9.7.5 í byggingarreglugerð, svo sem með því að klæða aðlægar hliðar húsa með viðeigandi klæðningu. Þá liggur fyrir í málinu ágreiningur um atriði sem áhrif gætu haft á mat um beitingu umræddra þvingunarúrræða svo sem um stærðir lóða, lóðamörk og þar af leiðandi forsendur að baki þeirri mælingu sem framkvæmd var af verkfræðistofu og sveitarstjórn studdist við ákvörðun sína.

Með vísan til þess sem að framan greinir þykja þeir ágallar hafa verið á undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar, m.a. með tilliti til rannsóknar máls og meðalhófs, sbr. 10. og 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að fella beri hana úr gildi.

Úrskurðarorð:

 Felld er úr gildi ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþings eystra frá 31. október 2022 um að eigandi sumarhússins að Vistarvegi 12 færi það til á lóð þannig að það sé innan byggingarreits og í 5 m fjarlægð frá mörkum lóðarinnar Vistarvegi 10, fyrir 28. febrúar 2023 að viðlögðum dagsektum að upphæð 25.000 krónum.

 

 

46/2023 Mjódalsvegur, heitavatnsgeymir

Með

Árið 2023, fimmtudaginn 27. apríl, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 46/2023, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjarvík frá 21. febrúar 2023 um að samþykkja leyfi til að reisa hitaveitugeymi, matshluta nr. 07, á lóð nr. 16 við Mjódalsveg, Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, 10. apríl 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir lóðarhafi Mjódalsvegar 6, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 21. febrúar s.á. að samþykkja leyfi til að reisa hitaveitugeymi, matshluta nr. 7, á lóð nr. 16 við Mjódalsveg. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Málsatvik og rök: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 21. febrúar 2023 tók byggingarfulltrúi fyrir umsókn um leyfi til að reisa hitaveitugeymi, matshluta 7, á lóð nr. 16 við Mjódalsveg. Var umsóknin samþykkt og staðfesti borgarráð afgreiðslu byggingarfulltrúa á fundi sínum 2. mars s.á. með samþykkt á b-hluta fundargerðar skipulags- og samgönguráðs frá 1. s.m. Byggingarleyfi var gefið út 29. mars s.á.

Kærandi telur að hinn fyrirhugaði hitaveitugeymir sé ekki í samræmi við skilyrði og heimildir í deiliskipulagi. Samkvæmt skilmálum gildandi deiliskipulags hafi borið að gera öryggismön umhverfis miðlunargeymana og ganga frá henni, eða hlutum hennar, samhliða uppbyggingu á lóðinni. Ekki hafi enn verið byrjað á öryggismöninni sem samkvæmt skilmálum deiliskipulagsins hefði átt að vera tilbúin árið 2008, samhliða byggingu dæluhúss. Byggingarfulltrúa hafi borið að vísa umsókn um byggingarleyfi til skipulagsfulltrúa til umsagnar og vegna bindandi skilmála í deiliskipulagi hafi borið að skilyrða umsókn um byggingarleyfi við það að fyrir lægi samþykkt framkvæmdarleyfi vegna skilyrða um öryggismön. Þá eigi lög nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda- og áætlana við um leyfi til framkvæmda eins og hér um ræði.

Reykjavíkurborg bendir á að fyrir umrætt svæði sé í gildi deiliskipulag, Hómsheiði-jarðvegslosun, sem samþykkt hafi verið í borgarráði 4. nóvember 2010 og birt í b-deild stjórnartíðinda 14. desember s.á. Byggingarleyfið sé í samræmi við gildandi deiliskipulag og undirbúningur sé hafinn við að afla framkvæmdaleyfis vegna öryggismanarinnar. Afgreiðsla byggingarfulltrúa byggi á lögum nr. 160/2010 um mannvirki og hafi hann engar heimildir til að gera kröfu um eða samþykkja framkvæmdaleyfisskyldar framkvæmdir. Gæta verði meðalhófs, en ógilding byggingarleyfisins eða stöðvun framkvæmda myndi valda byggingarleyfishafa ómældu óþarfa tjóni.

Leyfishafi vísar til þess að útgefið byggingarleyfi sé í samræmi við aðal- og deiliskipulag og hafi málsmeðferðin verið í fullu samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Markmið þess að fjölga hitaveitugeymum á Reynisvatnsheiði sé  að auka afhendingaröryggi á heitu vatni til íbúa höfuðborgarsvæðisins og jafna út sveiflur í rekstri. Mikilvægt sé að geymirinn rísi fyrir haustið 2023 til að draga ekki úr afhendingaröryggi næsta vetur. Farið hafi verið í útboð og samið við verktaka um byggingu geymisins. Því geti hlotist af því fjárhagslegt tjón að þurfa að hætta við eða seinka framkvæmdum. Ekki verði séð að knýjandi nauðsyn sé, með tilliti til hagsmuna kæranda, að fallast á kröfu um stöðvun framkvæmda.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið sé til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og séu heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra beri þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda.

Tekið er fram í athugasemdum með 5. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggist á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Þar kemur einnig fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili sé að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun sé íþyngjandi fyrir hann, valdi honum t.d. tjóni. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af æðra stjórnvaldi.

Hið kærða byggingarleyfi felur í sér heimild til að reisa hitaveitugeymi á lóð nr. 16 við Mjódalsveg, en á umræddri lóð standa fyrir þrír sambærilegir hitaveitugeymar. Þegar litið er til framangreindra lagaákvæða með tilliti til hagsmuna kæranda, og að um er að ræða afturkvæmar framkvæmdir, verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu um stöðvun framkvæmda á meðan málið er til meðferðar hjá nefndinni. Verður kröfu kæranda þess efnis því hafnað.

Rétt er að taka fram að framkvæmdaraðili ber áhættu af úrslitum kærumálsins kjósi hann að hefja framkvæmdir áður en niðurstaða þessa máls liggur fyrir.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða að Mjódalsvegi 16.

81/2022 Leynir

Með

Árið 2023, miðvikudaginn 19. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21 í Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Sæmundsson jarðfræðingur.

 Fyrir var tekið mál nr. 81/2022, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 24. júní 2022 um að fyrirhuguð uppbygging verslunar- og þjónustusvæðis í landi Leynis 2 og 3, Rangárþingi ytra, skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

 Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. júlí 2022, er barst nefndinni sama dag, kæra nánar tilgreindir aðilar, sem flestir munu vera eigendur fasteigna, en í sumum tilvikum ábúendur í næsta nágrenni jarðanna Leynis 2 og 3, Rangárþingi ytra, þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 24. júní 2022 að fyrirhuguð uppbygging verslunar- og þjónustusvæðis í landi Leynis 2 og 3 skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Með tölvupósti til úrskurðarnefndarinnar 2. ágúst s.á. var þess óskað að tiltekinn aðili yrði talinn meðal kærenda, en beiðnin barst að kærufresti liðnum og verður því ekki tekin til greina.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 2. september 2022.

 Málavextir: Hinn 15. maí 2020 lá fyrir ákvörðun Skipulags­stofnunar um að fyrirhuguð uppbygging verslunar- og þjónustusvæðis í landi Leynis 2 og 3 í ofanverðri Landsveit skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Kærðu eigendur og/eða ábúendur fasteigna í næsta nágrenni þá ákvörðun til úrskurðar­nefndar umhverfis- og auðlindamála og kröfðust þess að hún yrði felld úr gildi. Byggðu kærendur málatilbúnað sinn m.a. á því að áformuð framkvæmd gæti haft í för með sér umtalsverð umhverfis­áhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar í skilningi 1. mgr. 6. gr. þágildandi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, einkum með tilliti til hugsanlegrar vatnsmengunar og hættu fyrir heilbrigði manna.

Með úrskurði nefndarinnar, sem kveðinn var upp 18. desember 2020 í máli nr. 53/2020, var greind ákvörðun Skipulagsstofnunar felld úr gildi. Að teknu tilliti til þeirra viðmiða sem fram kæmu í 2. viðauka við lög nr. 106/2000 og þeirra hagsmuna sem í húfi væru taldi úrskurðarnefndin að rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar hefði verið svo áfátt að vafi léki á því hvort fullnægjandi upplýsingar hefðu legið fyrir við töku henni. Hefði stofnunin m.a. ekki heimfært áætlanir framkvæmdaraðila um fyrirkomulag fráveitu upp á staðhætti, en gert hafði verið ráð fyrir náttúrulegri jarðvegshreinsun, en reyndist það ekki mögulegt yrði notað hefðbundið hreinsivirki.

Hinn 20. janúar 2021 barst Skipulagsstofnun „uppfærð greinargerð, [framkvæmdaraðila] vegna fyrirspurnar um matsskyldu framkvæmda við Leyni í Landsveit.“ Sem fyrr var þar lýst áformum um uppbyggingu verslunar- og þjónustusvæðis á svæðinu er fæli m.a. í sér stækkun tjaldsvæðis og að reist yrði allt að 200 m² þjónustuhús í stað þess 8 m² húss sem fyrir væri. Jafnframt að reist yrði allt að 800 m² bygging við nýja aðkomu syðst á svæðinu. Þar yrði veitingastaður, verslun, móttaka fyrir gesti og starfsmannaaðstaða. Að auki yrðu byggð allt að 45 gestahús á einni hæð, 30 þeirra yrðu allt að 60 m² að stærð og 15 allt að 20 m². Við hvert gestahús yrði kúluhús, að hámarki 30 m². Samtals yrði gisting fyrir 180 gesti í gestahúsum. Heildarbyggingarmagn á svæðinu yrði 4.935 m². Bílastæði yrðu fyrir 85 bifreiðar og 11 rútur, en almennt væri gert ráð fyrir því að gestir legðu við móttökuhúsið eða væri ekið að sínum íverustað.

Fram kom í hinni uppfærðu greinargerð að þar sem allt benti til þess að á svæðinu væru þykk jarðlög þætti kostur ef hægt væri að nýta þau til hreinsunar skólps, en hægt yrði að hafa hreinsikerfi á nokkrum stöðum innan framkvæmdasvæðisins. Ef nánari könnun á aðstæðum sýndi að ekki væru nægileg þykk jarðlög til staðar yrði keypt tilbúin hreinsistöð og notast við eina miðlæga stöð, þ.e. hefðbundin skólphreinsivirki. Að henni yrði þá leitt allt skólp frá svæðinu. Það myndi kalla á lagnakerfi og viðamikla dælingu og lagt væri því til að hin aðferðin yrði notuð.

Í greinargerð þessari var tilgreint að framkvæmdasvæðið tæki til um 15 ha lands sem hefði að stærstum hluta verið ræktað og nýtt til landbúnaðar, en nyrst á svæðinu hefði verið rekið tjaldsvæði. Á landi Leynis 2 væru þrjú mannvirki, en ekki væri byggt á landi Leynis 3. Nokkur byggð væri í næsta nágrenni. Svæðið væri flatlent og norðan þess rynni Klofalækur. Það væri innan virks brotabeltis, Suðurlandsbrotabeltisins og á Þjórsárhrauni sem nyti sérstakrar verndar í samræmi við 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Jafnframt væri það á fjarsvæði vatnsverndar, en grunnvatn í Landsveit væri fremur viðkvæmt fyrir mengun. Stafaði það af því hversu lek hraunin væru, hversu hátt grunnvatnsborðið stæði í þeim og hversu greiður grunnvatnsstraumurinn væri. Hins vegar yrði mikil þynning á allri mengun vegna lektarinnar. Taldi framkvæmdaraðili að uppbyggingin hefði ekki í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif þegar litið væri til 2. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum.

Með bréfi Skipulagsstofnunar til framkvæmdaraðila, dags. 11. febrúar 2021, var farið fram á frekari upplýsingar og skýringar, t.a.m. varðandi, vatnsból, fráveitumál og þykkt og gerð jarðlaga á framkvæmdasvæðinu. Í kjölfarið vann verkfræðistofan EFLA jarðvegskönnun fyrir framkvæmdaraðila og 15. desember s.á. barst Skipulagsstofnun  minnisblað, dags. 22. nóvember 2021, vegna könnunarinnar ásamt „uppfærð[ri]“ greinargerð. Með tölvubréfi Skipulagsstofnunar til framkvæmdaraðila 17. janúar 2022 var frekari upplýsinga óskað og bárust þær í mars s.á., ásamt minnisblaði Íslenskra orkurannsókna, ÍSOR, dags. 7. september 2020, en það hafði verið unnið fyrir Rangárþing ytra við gerð deiliskipulags fyrir svæðið. Í því kom fram að vatnsbólum og vatnsbólasvæðum sveitarfélagsins í Tvíbytnulæk nálægt Lækjarbotnum og í Kerauga stafaði ekki hætta af mengun frá Leyni eða af fyrirhugaðri uppbyggingu þar. Hvað varðaði einkavatnsból í frístundabyggðinni niður með Klofalæk væri staðan nú þegar sú að huga þyrfti að vatnsveitu og sameiginlegu vatnsbóli ofan byggðarinnar. Með auknum umsvifum í Leyni yrði það enn brýnna.

Hinn 11. mars 2022 óskaði Skipulagsstofnun umsagna frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands, Minjastofnun Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands, Rangárþingi ytra og Umhverfisstofnun, sem töldu að framkvæmdin skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Jafnframt var leitað umsagnar hjá lögmanni kærenda f.h. landeigenda í fyrrgreindu máli nr. 53/2020. Í þeirri umsögn var því haldið fram að tilgreindur straumhraði grunnvatns og niðurstaða í minnisblaði ÍSOR frá 7. september 2020 væri ekki í samræmi við aðrar nýlegar og nákvæmari rannsóknir. Viðbrögð framkvæmdaraðila við framkomnum umsögnum, ásamt frekari upplýsingum, bárust Skipulagsstofnun 6. maí 2022 og 31. s.m., þ. á m. skýringar ÍSOR á meintu misræmi, en í minnisblaði, dags. 31. maí s.á., var því hafnað að slíku misræmi væri til að dreifa.  Ásamt því sem hér er rakið átti Skipulagsstofnun í nokkrum tölvupóstsamskiptum við framkvæmdaraðila og lögmenn kærenda við meðferð málsins.

Hinn 24. júní 2022 lá fyrir ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdarinnar, þ.e. að á grundvelli fyrirliggjandi gagna væri fyrirhuguð framkvæmd ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. þau viðmið sem tilgreind væru í 2. viðauka við lög nr. 106/2000, og skyldi því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Fælust helstu neikvæðu áhrifin í breyttri ásýnd svæðis og mögulegu ónæði vegna starfseminnar, en umfang áhrifa væri þó líklegt til að vera takmarkað. Taldi stofnunin að ólíklegt væri að framkvæmdin kæmi til með að hafa í för með sér óafturkræf umhverfisáhrif sem ekki væri hægt að fyrirbyggja með vandaðri verktilhögun og vöktun viðtaka eða bæta úr með mótvægisaðgerðum.

Samhliða málsmeðferð samkvæmt lögum nr. 106/2000 var unnið að breytingum á skipulagsáætlunum á svæðinu vegna fyrrgreindra áforma. Breyting á Aðalskipulagi Rangár­þings ytra 2016–2028 var birt í B-deild Stjórnartíðinda 11. janúar 2021. Í henni felst m.a. að gerð er breyting á landnotkun 15 ha svæðis og henni breytt úr landbúnaðarlandi í verslunar- og þjónustusvæði þar sem gert er ráð fyrir uppbyggingu fyrir ferðaþjónustu. Einnig er gert ráð fyrir nýju vatnsbóli, sem yrði vatnsból fyrir Leyni og e.t.v. fleiri jarðir í nágrenninu. Deiliskipulag fyrir Leyni 2 og 3 tók gildi 28. s.m. Sætti það kæru til úrskurðarnefndarinnar sem með úrskurði í máli nr. 21/2021, uppkveðnum 30. ágúst 2021, hafnaði kröfu um ógildingu á ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings ytra frá 12. nóvember 2020 um samþykkt þess.

Málsrök kærenda: Kærendur byggja á því að hin kærða ákvörðun sé haldin verulegum annmörkum og hana skuli því ógilda.

Telja verði að framkvæmdaraðili hafi í raun tilkynnt Skipulagsstofnun um hina fyrirhuguðu framkvæmd til ákvörðunar um matsskyldu hennar í mars 2022, en ekki í janúar 2021. Því hafi borið við meðferð málsins að fylgja ákvæðum laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, en ekki ákvæðum eldri laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. 3. tl. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 111/2021.

Í tölvupósti Skipulagsstofnunar til lögmanns kærenda 16. febrúar 2021 hafi komið fram að stofnuninni hefðu borist drög að uppfærðri greinargerð frá framkvæmdaraðila sem gerðar hefðu verið nokkrar athugasemdir við og að málið væri því „hjá framkvæmdaraðila“. Sérstaklega hafi verið tekið fram að erindið hefði ekki verið formlega móttekið og lagt til að stofnunin myndi upplýsa kærendur þegar tekið yrði formlega við því og það sent út til umsagnar. Hafi lögmenn kærenda ítrekað óskað upplýsinga um stöðu mála og þau svör hafi borist 11. janúar 2022 að tilkynning hefði borist frá framkvæmdaraðila en hún væri óyfirfarin og gæti tekið breytingum. Í mars s.á. hafi stofnunin sent tölvupóst til umsagnaraðila þar sem fram hefði komið að 9. mars 2022 hefði verið móttekið erindi þar sem tilkynnt væri um hina fyrirhuguðu framkvæmd.

Í lögum nr. 106/2000 sé ekki gert ráð fyrir að framkvæmdaraðili geti lagt fram ókláraða og ófullnægjandi tilkynningu og lagt fram fullnægjandi gögn síðar. Þvert á móti kveði lögin á um hraða og samfellda málsmeðferð eftir að tilkynning berst. Séu annmarkar á tilkynningu gefist framkvæmdaraðila tækifæri til að bæta úr þeim síðar í kjölfar umsagna sem Skipulagsstofnun beri að leita eftir. Hafi stofnuninni því borið að hefja málsmeðferð strax í kjölfar ætlaðrar tilkynningar framkvæmdaraðila í janúar 2021. Ef talið verði að framkvæmdaraðili hafi tilkynnt um framkvæmdina í einhverju formi í janúar 2021 verði að leggja til grundvallar að slíkir meinbugir hafi verið á þeirri tilkynningu að ófært hafi verið að hefja formlega málsmeðferð á grundvelli henni, sbr. dóm Hæstaréttar frá 1. október 2009 í máli nr. 696/2008.

Markmið laga nr. 106/2000 og laga nr. 111/2021 sé m.a. að tryggja heilnæmt umhverfi og umhverfisvernd. Það markmið náist ekki nema ákvarðanir um matsskyldu framkvæmda byggist á réttum lagagrundvelli enda taki umhverfissjónarmið örum breytingum í takt við þróun í vísindum og rannsóknum. Þá hafi lög nr. 111/2021 falið í sér veigamiklar breytingar á umhverfismati framkvæmda, t.a.m. með því að skilgreining á „umtalsverðum umhverfis­áhrifum“ hafi verið felld brott. Í athugasemdum með frumvarpi til laganna hafi komið fram að skilgreiningin hefði valdið vandkvæðum í framkvæmd enda bæri að greina „öll umtalsverð áhrif“, ekki aðeins veruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki væri hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum.

Kærandi telji óháð þessu að fyrirhuguð uppbygging sé líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif í skilningi 1. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000, einkum með tilliti til hugsanlegrar grunnvatns­mengunar og hættu fyrir heilbrigði manna. Þá hafi Skipulagsstofnun ekki búið yfir fullnægjandi eða réttum upplýsingum til að leggja forsvaranlegt mat á líkleg umhverfisáhrif og umfang þeirra og nauðsyn hafi staðið til að rannsaka ýmis atriði betur.

Í ákvörðun Skipulagsstofnunar sé á því byggt að aðalvatnsbólum sveitarfélagsins í Tvíbytnulæk nálægt Lækjarbotnum og í Kerauka stafi ekki hætta af fyrirhugaðri uppbyggingu og byggist sú niðurstaða á minnisblöðum ÍSOR frá 7. september 2020 og 31. maí 2022. Telja verði að þessi niðurstaða sé röng og að töluverður vafi sé fyrir hendi að þessu leyti og þar með hvort forsendur framkvæmdaraðila og Skipulagsstofnunar standist. Vafaatriðin séu svo veigamikil að réttast væri að fyrirhuguð framkvæmd verði látin sæta mati á umhverfisáhrifum, en í öllu falli að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi vegna skorts á fullnægjandi upplýsingum, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt Aðalskipulagi Rangárþings ytra 2016–2028 séu jarðirnar Leynir 2 og 3 á fjarsvæði vatnsverndar og grunnvatn á svæðinu viðkvæmt fyrir mengun. Í aðalskipulaginu komi t.a.m. fram að stefnt sé að því að framtíðarvatnsból fyrir sveitarfélagið verði við m.a. Kerauga við Tjörvastaði og að ráðast eigi í stærri samveitu þar sem horft yrði til þess að virkja við Kerauga/Lækjarbotna.

Framkvæmdasvæðið falli undir verndarsvæði í skilningi d-liðar vii. liðar 2. tl. 2. viðauka við lög nr. 106/2000. Fyrirhuguð uppbygging að Leyni 2 og 3 sé stórtæk og gríðarlegt magn af frárennsli muni falla til við áformaða starfsemi. Í greinargerð framkvæmdaraðila sé miðað við að rúmmál fráveituvatns verði 0,45 l/s við eðlilega nýtingu gistihúsa og fjöldi persónueininga á svæðinu við fulla nýtingu 280. Dagleg losun verði því 38.880 lítrar og 14,2 milljón lítrar af skólpi og grávatni á ársgrundvelli, en ekki sé ljóst hvort í tölunum sé tekið tillit til losunar frá heitum pottum eða frárennsli frá meginbyggingu svæðisins.

Grunnvatnsmengun myndi hafa í för með sér áhrif á aðalvatnsból sveitarfélagsins og á einkavatnsból í næsta nágrenni og neðar í byggðinni. Hún sé til þess fallin að hafa alvarleg áhrif á fjölda fólks, líkur á áhrifum séu miklar og þau gætu verið langvarandi og hugsanlega óafturkræf. Ekki séu miklir möguleikar á að draga úr áhrifum hennar miðað við fyrirhuguð áform. Setja verði möguleikann á grunnvatnsmengun í samhengi við áform framkvæmdaraðila um að hreinsa og geyma gríðarlegt magn af skólpi í jarðvegi svæðisins. Framkvæmdasvæðið hvíli á 2–5 m djúpum jarðvegi ofan á leku hrauni á brotabelti. Sama hversu vel staðið yrði að hreinsun frárennslis með jarðvegshreinsun yrði alltaf hætta á grunnvatnsmengun ef jarðhræringar ættu sér stað. Ríkt tilefni hefði verið til að rannsaka þetta nánar og réttast hefði verið að kortleggja jarðskjálftasprungur á svæðinu og kanna áhrif slíkra sprungna.

Ítarlegar rannsóknir hafi farið fram á grunnvatnsstraumum í Landsveit á árunum 2016–2017, annars vegar rannsókn ÍSOR í tengslum við alifuglabú á Jarlsstöðum og hins vegar vatnafarslegar rannsóknir sem gerðar hafi verið undir stjórn J.K. Í þeim hafi komið fram að aðrennslistími grunnvatns frá Minnivallalæk að aðalvatnsbólunum væri mjög skammur, eða 65–70 dagar að Kerauganu og 77 dagar að Tvíbytnudælustöðinni við Lækjar­botna.

Á fundi vatnsveitu Rangárþings ytra og Ásahrepps í mars 2017 hafi verið lagt fram minnisblað þar sem tekið hafi verið fram að niðurstöður ferilefnarannsóknar gæfu tilefni til að skilgreina fjarsvæði að lindum Minnivallalækjar og norður fyrir Landveg. Þá hafi verið lagt til að stefna ekki lengur að nýtingu Keraugans sem framtíðarvatnsbóls sveitarfélagsins vegna hættunnar á grunnvatnsmengun. Ráða megi að rannsóknaraðilar hafi talið að svæðið væri komið að þolmörkum á árinu 2017. Ákveðið hafi verið að endurskilgreina grann- og fjarsvæði vatnsbólanna í Aðalskipulagi Rangárþings ytra 2016–2028. Í umhverfisskýrslu aðalskipulagsins hafi komið fram að Kerauga væri á mörkum þess að standast kröfur sem framtíðarvatnsból og að sveitarstjórn vildi breyta og stækka vatnsverndarsvæði fyrir Kerauga og Tvíbytnulæk til að tryggja betur vatnsgæði þar til framtíðar. Samkvæmt framangreindu megi telja ljóst að fjarsvæði vatnsverndar hafi verið afmarkað til þess að vernda vatnsból sveitarfélagsins og að án slíkrar verndar væri hætta á grunnvatnsmengun.

Framkvæmdaraðili byggi á því að aðalvatnsbólunum stafi ekki hætta af fyrirhugaðri uppbyggingu á grundvelli minnisblaðs ÍSOR frá 7. september 2020. Í því sé m.a. tekið fram að áætlaður rennslishraði grunnvatns á svæðinu sé 10 m/dag eða með öryggisstuðli sem áætlaður er fjórir 40 m/dag. Í umsögn kærenda til Skipulagsstofnunar hafi verið vísað til þess að þessi rennslishraði væri ekki í samræmi við fyrrgreindar rannsóknir. ÍSOR hafi veitt skýringar á ætluðu ósamræmi með minnisblaði, dags. 31. maí 2022, en það sé engan veginn afgerandi um að Kerauganu stafi ekki hætta af fyrirhugaðri uppbyggingu. Í minnisblaðinu komi m.a. fram að rennslishraðinn sé áætlaður meðalhraði í stóru þversniði. Ástæðan fyrir mun meiri rennslishraða að Kerauga sé sú að þar renni vatnið fram í helli. Erfitt sé að skilja tilvitnað orðalag með öðrum hætti en að rennslishraðinn í átt að Kerauganu sé mun meiri en þeir 40 m/dag sem einnig séu nefndir. Í minnisblaðinu sé einnig áréttað að í samræmi við fyrri niðurstöðu hafi verið lagt til að leggja til hliðar áform um framtíðarvatnsból í Kerauga. Þá sé óútskýrt hvers vegna ÍSOR miði við „áætlaðan meðalhraða í stóru þversniði“ þegar fyrir liggi rannsóknir á raunverulegum rennslishraða vatns frá svæðinu. Í skýrslu ÍSOR frá árinu 2021 komi fram að í rannsókn Á.H. frá 2016 sé áætlað að meðalrennslishraði grunnvatns í gegnum hraunið sé sem næst 32 m/dag. Með sama öryggisstuðli og ÍSOR leggi til grundvallar í minnisblaði sínu ætti að áætla rennslishraðann sem 128 m/dag.

Til viðbótar byggist niðurstaða ÍSOR á að grunnvatn hreinsi sig á 50 dögum. Í lið. 3.5. í 3. gr. samþykktar nr. 326/2022 um verndarsvæði vatnsbóla innan lögsagnarumdæma sveitarfélaganna á svæði Heilbrigðiseftirlits Suðurlands bs. sé grannsvæði skilgreint sem svæði sem taki við af brunnsvæði á aðrennslissvæði vatnsbóls og liggi eftir aðrennslissvæði að reiknuðum útmörkum 400 daga aðrennslistíma grunnvatns að vatnsbóli miðað við 50 m þykkan vatnsleiðara. Miðað við 400 daga aðrennslistíma ætti Leynir 2 og 3 að vera staðsett á grannsvæði aðalvatnsbóla, en veigamiklar takmarkanir séu settar á uppbyggingu á grannsvæðum skv. 13. og 14. gr. samþykktarinnar. Þá virðist óumdeilt að fyrirhuguð uppbygging geti haft áhrif á einkavatnsból í nágrenni uppbyggingarsvæðisins, en fjarlægðin þar á milli sé í flestum tilvikum svo lítil að áhrifa af grunnvatnsmengun myndi líklega gæta mjög fljótlega eftir að hún ætti sér stað. Rennslisstefna grunnvatns á svæðinu sé með þeim hætti að hún myndi hafa bein áhrif á einkavatnsbólin. Virðist sú staða með öllu óháð mótvægisaðgerðum eða útfærslu fráveitumála og þeirri niðurstöðu að vatnsbólum sveitarfélagsins stafi ekki hætta af fyrirhugaðri uppbyggingu.

Upplýsingar um útfærslu fráveitumála hafi ekki verið fullnægjandi til að Skipulagsstofnun hafi getað tekið upplýsta ákvörðun. Gera verði þá kröfu að fyrirkomulag mótvægisaðgerða liggi fyrir í nokkuð fullmótaðri mynd, í þessu tilviki hönnun fráveitukerfis, áður en lagt sé endanlegt mat á hvort rétt sé að veita undanþágu frá því að mat á umhverfisáhrifum fari fram. Undirliggjandi hagsmunir séu svo miklir að vankantar á hönnun fráveitukerfis myndi hafa í för með sér stórslys fyrir sveitarfélagið og íbúa þess. Þá séu skólphreinsivirkin ein og sér tilkynningarskyld til Skipulagsstofnunar samkvæmt lið 11.05 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Ætti sú staðreynd að leiða til stóraukinna krafna um að áform um fráveitumál séu skýr. Þrátt fyrir að þau séu skýrari en á fyrri stigum sé ýmislegt óljóst. Hvorki liggi fyrir hver verði endanlegur fjöldi hreinsivirkja né hönnun þeirra eða raunlekt í jarðvegi. Gangi ekki að vísa til þess að hægt sé að útfæra þessi mál á síðari stigum í samráði við eftirlitsaðila.

 Gera megi ráð fyrir að rúmlega 10 milljón lítrum af grávatni verði árlega veitt beint út í jarðveg svæðisins sé miðað við efstu mörk. Óljóst sé hvaða áhrif slík losun myndi hafa á grunnvatn svæðisins og ekki verði séð að þetta atriði hafi verið rannsakað á neinn hátt við töku hinnar kærðu ákvörðunar. Einnig sé hætta á grunnvatnsmengun vegna stóraukinnar umferðar um svæðið. Verði ekki séð að framkvæmdaraðili hafi gert ráðstafanir vegna hugsanlegrar olíumengunar frá umferð og á fyrirhuguðu bílastæði. Um raunverulega hættu sé að ræða sem hvergi sé minnst á í ákvörðun Skipulagsstofnunar eða tilkynningu framkvæmdaraðila. Nauðsynlegt hefði verið að tilgreina og rannsaka mótvægisaðgerðir í tengslum við hugsanlega olíumengun. Í öðrum sambærilegum málum hafi slíkar forsendur varðandi bílastæði legið fyrir áður en ákvörðun hafi verið tekin um matsskyldu. Olíumengun þynnist ekki með tímanum og geti haft alvarleg áhrif á vatnsból.

 Þá skorti loks á að í ákvörðun Skipulagsstofnunar sé gerð grein fyrir samlegðaráhrifum að því er varði hugsanlega hættu á grunnvatnsmengun á svæðinu, enda liggi fyrir að áformuð sé stórfelld uppbygging og aukning á starfsemi á mjög afmörkuðu svæði sem allt falli innan fjarsvæðis vatnsverndar, sbr. m.a. v. lið 3. tl. 2. viðauka við lög nr. 106/2000.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Af hálfu Skipulagsstofnunar kemur fram að það hafi verið mistök starfsmanns að staðhæfa í tölvupósti 16. febrúar 2021 að erindi framkvæmdaraðila hefði ekki verið formlega móttekið af hálfu stofnunarinnar. Ráðgjafar framkvæmdaraðila hafi sent uppfærða greinargerð eða tilkynningu í tölvupósti til stofnunarinnar, dags. 20. janúar s.á., sem ekki hafi verið fullnægjandi. Lögð sé áhersla á að málsmeðferð vegna matsskylduákvarðana hefjist með því að stofnunin fari yfir tilkynningu og séu annmarkar á henni eða hún ófullnægjandi séu gerðar athugasemdir. Skipulagsstofnun hafi gert athugasemdir við tilkynninguna með bréfi, dags. 11. febrúar 2021, líkt og henni hafi borið skylda til skv. 7. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Tilkynningin frá 9. mars 2022 hafi loks verið álitin fullnægjandi. Þá verði ekki séð að dómur Hæstaréttar frá 1. október 2009 í máli nr. 696/2008 hafi fordæmisgildi en málsatvik séu ekki öldungis sambærileg atvikum í máli þessu.

Óháð þessu séu ákvæði í 2. viðauka við lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, með áorðnum breytingum, sambærileg ákvæðum 2. viðauka laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Með það í huga eigi það ekki að leiða til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar verði það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að ákvörðunin hafi byggst á röngum lagagrundvelli. Í a-lið 1. gr. laga nr. 111/2021 segi að markmið laganna sé sjálfbær þróun, heilnæmt umhverfi og umhverfisvernd sem vinna skuli að með umhverfismati framkvæmda og áætlana sem líklegar séu til að hafa „umtalsverð umhverfisáhrif“. Í 1. mgr. 19. gr. sömu laga sé vísað til umtalsverðra umhverfisáhrifa. Þrátt fyrir að felld hafi verið brott sérstök skilgreining á hugtakinu þýði það ekki að hætt sé að miða við umtalsverð umhverfisáhrif. Hvort áhrif séu slík byggist á heildstæðu mati eftir aðstæðum hverju sinni, eins og tekið sé fram í lögskýringargögnum að baki lögunum.

Með vísan til álits ÍSOR í minnisblöðum frá 7. september 2020 og 31. maí 2022 hafni Skipulagsstofnun því að töluverður vafi sé um hvort aðalvatnsbólum sveitarfélagsins stafi hætta af fyrirhugaðri framkvæmd. Stofnunin hafi ekki forsendur til að vefengja það faglega mat sem þar birtist. Fjarlægðin milli Leynis 2 og 3 og vatnsbóla sveitarfélagsins sé yfir 8 km. Enginn grundvöllur sé því fyrir hendi til að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi vegna skorts á fullnægjandi upplýsingum af þessum ástæðum, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Varðandi samþykkt nr. 326/2022 um verndarsvæði vatnsbóla innan lögsagnarumdæma sveitarfélaganna á svæði Heilbrigðiseftirlits Suðurlands bs. sé lögð áhersla á að framkvæmdasvæðið sé á fjarsvæði vatnsverndar. Því sé ekki hægt að byggja á lið 3.5 í 3. gr. sem fjalli um grannsvæði og segja að Leynir 2 og 3 „ætti“ að vera staðsett á grannsvæði aðalvatnsbóla sveitarfélagsins.

Að virtri skilgreiningu á umtalsverðum umhverfisáhrifum í p-lið 3. gr. laga nr. 106/2000 og gögnum málsins metnum í heild sinni sé ekki fyrir hendi traustur grundvöllur fyrir þeirri ályktun að það verði grunnvatnsmengun á uppbyggingarsvæðinu sem muni hafa bein áhrif á einkavatnsból. Í hinni kærðu ákvörðun komi fram að setja þurfi skilyrði í starfsleyfi um reglubundið eftirlit með virkni hreinsivirkja og losun mengunarefna. Mikilvægt sé að í starfsleyfi séu tilgreind skilyrði sem kveði á um aðgerðir sem ráðast skuli í skili hreinsun frárennslis ekki þeim árangri sem vænst sé. Jafnframt sé í ákvörðun Skipulagsstofnunar tekið undir með Umhverfisstofnun að við „hönnun hreinsivirkis þurfi að rannsaka raunlekt í jarðvegi á svæðinu“ og meta út frá því flatarmál siturbeða. Þá sé ekki tekið undir að réttast hefði verið að kortleggja jarðskjálftasprungur á svæðinu, en í tilkynningu framkvæmdaraðila komi m.a. fram að sprungur og sprungukerfi hafi verið kortlögð og sé víða að finna í Landsveit.

Fyrirhugað sé að skólphreinsun verði byggð upp í tveimur þrepum, annars vegar hreinsivirki og hins vegar jarðvegshreinsun. Ekki sé því aðeins um að ræða jarðvegshreinsun. Almennt sé ekki gerð krafa um að framkvæmdir séu fullhannaðar þegar málsmeðferð á grundvelli 6. gr. laga nr. 106/2000 fari fram. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi almennt ekki í úrskurðarframkvæmd sinni gert athugasemdir við að framkvæmdir séu ekki fullhannaðar þegar þær séu tilkynntar til stofnunarinnar. Leiði rannsóknarregla 10. gr. stjórnsýslulaga ekki til þess að það þurfi að liggja fyrir upplýsingar um alla þætti sem viðkomi framkvæmd eða umhverfi hennar. Fyrst og fremst þurfi framkvæmdaáformin að vera nægilega skýr og upplýsingar um staðhætti fullnægjandi til að hægt sé að taka ákvörðun um hvort framkvæmd sé líkleg til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif.

Lýst áform um framkvæmdir séu skýrari en við meðferð kærumáls nr. 53/2020. Í tilkynningu segi að áætlað sé að setja upp þrjú til fjögur hreinsivirki, en endanlegur fjöldi liggi ekki fyrir. Að mati Skipulagsstofnunar sé þetta nægilega skýr lýsing á umfangi framkvæmdar. Upplýsingar úr rannsókn á raunlekt í jarðvegi á framkvæmdasvæðinu hafi ekki þurft að liggja fyrir áður en ákvörðun um matsskyldu hafi verið tekin, en slíkar upplýsingar séu ekki nægilega áreiðanlegar á meðan framkvæmdin sé ekki fullhönnuð. Í tilkynningu framkvæmdaraðila segi að „eftir því sem við verður komið“ verði grávatn veitt í sérlögnum út í jarðveg í samráði við heilbrigðiseftirlit. Fram komi í athugasemdum framkvæmdaraðila frá 28. apríl 2022 að fyrirhugað sé að veita grávatni fram hjá hreinsistöðvum, enda um mikið rúmmál vatns að ræða sem innihaldi takmarkaða mengun. Þykk jarðvegslög séu á svæðinu sem nýta megi til hreinsunar vatns áður en því sé veitt í neðri jarðlög.

Í ákvörðun Skipulagsstofnunar sé tekið fram að gera verði ráð fyrir nokkru ónæði af framkvæmdinni, en talið sé að áhrif aukinnar umferðar vegna framkvæmdarinnar verði lítil eða óveruleg m.t.t. staðsetningar við núverandi veg. Sú tilhögun sem framkvæmdaraðili boði varðandi flutning gesta innan svæðisins sé til þess fallin að draga enn úr mögulegum áhrifum. Hafnað sé þeirri staðhæfingu kærenda að fyrirséð sé stórfelld mengun frá olíu og öðrum efnum. Ekki hafi verið nauðsynlegt að fyrir lægju upplýsingar um atriði sem lúti að hönnun bílastæða og afgreiðsluplana en þær þurfi að liggja fyrir áður en sótt sé um framkvæmdaleyfi. Framkvæmdasvæðið sé á fjarsvæði vatnsverndar, en ekki á brunn- eða grannsvæði, en munur sé á þessum svæðum með tilliti til verndunar, sbr. 13. gr. reglugerðar nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns, með áorðnum breytingum. Þá sé bent á að í hinni kærðu ákvörðun sé vikið að samlegðaráhrifum en þar undir falli fiskeldisstöðin í landi Fellsmúla, sumarhús á svæðinu og önnur mannvirki.

Athugasemdir framkvæmdaraðila: Framkvæmdaraðili tekur fram að unnar hafi verið rannsóknir fyrir svæðið og hafi niðurstaða jarðvegskönnunar staðfest að jarðvegur á svæðinu væri þannig að frárennslisvatn gæti síast mjög vel og komið yrði alveg í veg fyrir mengun. Jafnframt hafi ÍSOR lýst því yfir að ekki hlytist mengun af fyrirhugaðri starfsemi og að vatnsból nágranna gæti verið mengað af rotþróum þeirra. Muni fyrirhuguð framkvæmd sæta margþættu eftirliti, en um sé að ræða umhverfisvænt verkefni sem geti skilað hagnaði bæði fyrir ríkið og byggðarlagið.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur vísa til kæru og ítreka þær kröfur og röksemdir sem þar komi fram. Ákvæði 3. tl. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana taki ekki af skarið um það hvort tilkynning framkvæmdaraðila þurfi að vera fullnægjandi, en hún þurfi að vera þannig úr garði gerð að málsmeðferð geti hafist á grundvelli hennar. Í máli þessu hafi engin málsmeðferð hafist í kjölfar tilkynningar 20. janúar 2021 og styðji gögn máls það enn frekar. Forsvarsmaður framkvæmdaraðila hafi tekið fram í tölvupósti til Skipulagstofnunar 3. mars 2021 að verið væri að framkvæma rannsóknir og að frekari tíma þurfi til að undirbúa betri skýrslur. Skipulagsstofnun hafi veitt leiðbeiningar um hvað þyrfti að koma fram í tilkynningu eða greinargerð. Í kjölfarið hafi framkvæmdaraðili ráðist í frekari vinnu við tengslum við framkvæmdina og látið framkvæma jarðvegskönnun á haustmánuðum 2021. Framkvæmdaraðili hafi síðan tilkynnt um framkvæmdina 15. desember 2021 líkt og fram komi í tölvupósti Skipulagsstofnunar til hans 17. janúar 2022.

———-

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Hefur úrskurðarnefndin kynnt sér þau sjónarmið, en ekki þykir efni til að rekja þau nánar hér.

 Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 24. júní 2022 að fyrirhuguð uppbygging verslunar- og þjónustusvæðis í landi Leynis 2 og 3, Rangárþingi ytra, skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Áform þessi gera ráð fyrir starfrækslu tjaldsvæðis, veitingarekstrar og gistiaðstöðu. Heildarbyggingarmagn á svæðinu er 4.935 m². Við nýja aðkomu er ráðgerð allt að 800 m² bygging syðst á svæðinu. Þar að auki verði byggð allt að 45 gistihús á einni hæð og við hvert þeirra kúluhús. Gert er ráð fyrir 240 gestum, þar af 180 í gistihúsum. Bílastæði verði fyrir 85 bifreiðar og 11 fyrir rútur. Framkvæmdasvæðið er um 15 ha og á fjarsvæði vatnsverndar samkvæmt Aðalskipulagi Rangárþings ytra 2016–2028. Það er einnig á Þjórsárhrauni.

—–

Um mat á áhrifum framkvæmda á umhverfið gilda lög nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Lög þessi tóku gildi 1. september 2021 og féllu þá úr gildi lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Í 3. tl. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 111/2021 er mælt fyrir um að þegar framkvæmdir, sem verið hafi tilkynningarskyldar samkvæmt eldri lögum, hafi verið tilkynntar til Skipulagsstofnunar eða sveitarfélags til ákvörðunar um matsskyldu skv. 6. gr. sömu laga, við gildistöku laganna, sé heimilt að ljúka þeirri málsmeðferð samkvæmt því sem gildi í eldri lögum.

Samkvæmt 6. gr. laga nr. 106/2000 skyldi framkvæmdaraðili í tilkynningu um framkvæmd sem tilgreind væri í flokki B og C í 1. viðauka við lögin leggja fram upplýsingar um framkvæmdina og líkleg umtalsverð áhrif hennar á umhverfið. Þar sem við ætti skyldi taka tillit til fyrirliggjandi niðurstaðna um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar og leggja fram, þar sem við ætti, upplýsingar um fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir. Í 11. gr. þágildandi reglugerðar nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum voru talin upp þau gögn sem fylgja skyldu tilkynningu framkvæmdar í flokki B og C, eftir því sem við ætti, að teknu tilliti til eðlis og umfangs framkvæmdar. Þá var kveðið á um það í 6. gr. laganna að innan fjögurra vikna frá því að fullnægjandi gögn um framkvæmd í flokki B í 1. viðauka  bærust skyldi Skipulagsstofnun taka ákvörðun um hvort framkvæmdin væri háð mati samkvæmt lögunum.

Hinn 20. janúar 2021 sendi framkvæmdaraðili Skipulagsstofnun „uppfærð[a] greinargerð, vegna fyrirspurnar um matsskyldu framkvæmda við Leyni í Landsveit“, ásamt frekari gögnum.  Vísað var til tilkynningarskyldu skv. lið 12.05 í flokki B í 1. viðauka við þágildandi lög nr. 106/2000 sem m.a. varðar orlofsþorp, hótel og tengdar framkvæmdir utan þéttbýlis. Í greinargerðinni var fjallað um fyrirhugaða framkvæmd, umhverfisáhrif hennar og mótvægisaðgerðir. Brást Skipulagsstofnun við tilkynningunni með fyrirspurn, dags. 11. febrúar 2021, sem varðaði m.a. þykkt og gerð jarðlaga á svæðinu, samlegðaráhrif, útfærslu fráveitu og jarðvegshreinsun frárennslis. Urðu frekari samskipti í framhaldi þessa, svo sem rakið er í málavaxtalýsingu, uns hin kærða ákvörðun lá fyrir 24. júní 2022.

Með þessu leitaði Skipulagsstofnun skýringa og frekari gagna hjá framkvæmdaraðila vegna tilkynntrar framkvæmdar, svo hún gæti talist fullnægjandi, og verður að telja þau samskipti til meðferðar máls, enda liður í því að tryggja rannsókn þess sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður með vísan til þessa og orðalags 3. tl. bráðabirgðaákvæðis við lög nr. 111/2021, að hafna því að ekki hafi staðið heimild til þess að fara með tilkynningu um matsskyldu framkvæmdar í máli þessu samkvæmt eldri lögum nr. 106/2000.

—–

Í 6. gr. laga nr. 106/2000 var mælt fyrir um framkvæmdir sem kynnu að vera háðar mati á umhverfisáhrifum. Framkvæmdir sem tilgreindar voru í flokki B í 1. viðauka við lögin skyldu háðar mati á umhverfisáhrifum þegar þær gátu haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar. Í p-lið 3. gr. laganna voru umhverfisáhrif skilgreind sem umtalsverð ef um var að ræða „veruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki er hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum.“

Við ákvörðun um matsskyldu framkvæmdar var skylt að fara eftir viðmiðum í 2. viðauka við lögin og rökstyðja niðurstöðu með hliðsjón af þeim. Viðmiðin voru í þremur töluliðum og vörðuðu eðli framkvæmdar, staðsetningu og gerð og eiginleika hugsanlegra áhrifa hennar, en undir hverjum tölulið var svo talinn upp fjöldi annarra liða. Ákvörðun skyldi byggð á þeim upplýsingum sem framkvæmdaraðili hefði lagt fram, sbr. 2. mgr.  6. gr. laga nr. 106/2000, og ef við ætti, öðrum gögnum um umhverfisáhrif fram­kvæmdarinnar. Væri talið að framkvæmd væri ekki matsskyld var heimilt að setja fram ábendingar um tilhögun framkvæmdarinnar. Skylt var við meðferð máls að leita umsagna leyfisveitenda, framkvæmdaraðila og annarra eftir eðli máls hverju sinni. Það fer eftir þeirri framkvæmd sem ákvörðunin snýst um hvaða liðir vega þyngra en aðrir við mat Skipulagsstofnunar á því hvort umhverfisáhrif framkvæmdar geti talist umtalsverð. Það að framkvæmd falli undir einhvern liðanna leiðir ekki sjálfkrafa til matsskyldu, en kann eftir atvikum að gefa tilefni til að kanna sérstaklega samspil allra þeirra liða sem upp eru taldir í 2. viðauka.

Í máli nr. 53/2020 var það mat úrskurðarnefndarinnar að Skipulagsstofnun hefði við undirbúning ákvörðunar um matsskyldu áformaðra framkvæmda að Leyni 2 og 3 að mestu litið til viðeigandi viðmiða 2. viðauka laga nr. 106/2000 að teknu tilliti til framkominna umsagna. Var þó talið að rökstuðningi hefði verið áfátt þegar haft væri í huga að grunnvatn sem mengaðist vegna ófullnægjandi fráveitu spillist um fyrirsjáanlega framtíð. Áform um útfærslu fráveitu hefðu verið óljós og sæist þess ekki stað í hinni kærðu ákvörðun að Skipulagsstofnun hefði heimfært áætlanir framkvæmdaraðila upp á staðhætti. Jafnframt hefði í engu verið vikið að undirlagi jarðvegs á svæðinu, en framkvæmdasvæðið hvíldi á 2–5 m djúpum jarðvegi ofan á leku hrauni á brotabelti þar sem kortlagðar hefðu verið jarðskjálftasprungur. Þá væri í ákvörðuninni hvorki vikið að grunnvatnsstraumum né mögulegum samlegðaráhrifum framkvæmda á svæðinu. Auk þess lægi fyrirhugað framkvæmdasvæði á Þjórsárhrauni, eldhrauni sem myndast hefði eftir að jökull hvarf af landinu á síðjökultíma, en slík hraun nytu sérstakrar verndar skv. 2. mgr. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd og hefði verið rétt að fjalla um verndargildi þess í ákvörðuninni.

—–

Við meðferð hinnar kærðu ákvörðunar aflaði Skipulagsstofnun umsagna umsagnaraðila á grundvelli 3. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000, sbr. og 10. gr. stjórnsýslulaga. Þrátt fyrir að skylda Skipulagsstofnunar til að leita umsagna sé lögbundin er stofnunin ekki bundin af þeim umsögnum sem henni berast heldur ber henni að taka sjálfstæða ákvörðun um matsskyldu framkvæmdar á grundvelli fyrirliggjandi gagna og upplýsinga. Getur stofnunin því komist að öndverðri niðurstöðu en þeirri sem umsagnaraðili eða -aðilar telja rétta, en við slíkar aðstæður verður þó að gera ríkari kröfur til rannsóknar málsins og rökstuðnings niðurstöðunnar. Hlutverk Skipulagsstofnunar er að leggja mat á framlögð gögn, afla frekari gagna og komast að niðurstöðu samkvæmt lögunum um matsskyldu framkvæmdar, svo sem hér hagar til. Það mat lýtur eðli máls samkvæmt að því að sannreyna gildi gagna og gæði þeirra.

Fram kemur í umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands, dags. 28. mars 2022, að framkvæmdasvæðið sé á jarðskjálftabelti Suðurlands þar sem öflugir skjálftar geti átt sér stað og þar sem framkvæmdasvæðið sé á fjarsvæði vatnsverndar þurfi að huga sérstaklega vel að frágangi vatnslausna. Umhverfisstofnun gerir í umsögn sinni, dags. 31. mars 2022, ekki athugasemd við umfjöllun um grunnvatn og fráveitur og telur umhverfisáhrif óveruleg ef staðið verði að fráveitumálum líkt og lýst sé í tilkynningarskýrslu. Rangárþing ytra áréttar í umsögn sinni, dags. 14. mars 2022, fyrri umsögn sína frá árinu 2020 þar sem m.a. var álitið að umhverfisáhrif hefðu verði lágmörkuð með fullnægjandi mótvægisaðgerðum og vöktun.

Í umsögn Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, dags. 23. mars 2022, er tekið fram að þar sem Leynir 2 og 3 séu á fjarsvæði vatnsverndar þurfi að fara að þeim skilyrðum sem sett séu í reglugerð nr. nr. 533/2001 um breytingu á reglugerð nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns með síðari breytingum. Jafnframt þurfi frágangur fráveitu að uppfylla kröfur reglugerðar nr. 798/1999 um fráveitur og skólp. Að teknu tilliti til þess gerir eftirlitið engar athugasemdir og telur að tilkynningin geri nægjanlega grein fyrir eðli, umfangi og umhverfi framkvæmdarinnar, sem og mótvægisaðgerðum og vöktun. Varanleg umhverfisáhrif framkvæmdarinnar, önnur en sjónræn og staðbundin í næsta nágrenni hennar, séu hverfandi/óveruleg og mögulegt að milda þau.

Hvað snertir verndargildi Þjórsárhrauns má vísa til umsagnar Náttúrufræðistofnunar Íslands. Þar er tekið fram að Þjórsárhraun hafi hátt vísindagildi. Það sé víða hulið jarðvegi og gróðri, eða yngri hraunum, sem dragi staðbundið úr verndargildi þess. Á framkvæmdasvæðinu  séu ræktuð tún og ummerki hraunsins á yfirborði sjáist ekki. Var mat Umhverfisstofnunar í umsögn hennar að hraunið á framkvæmdasvæðinu hefði tapað verndargildi sínu og að áhrif framkvæmdarinnar á hraunið yrði óveruleg.

—–

Við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar hafði öðlast gildi samþykkt nr. 326/2022 um verndarsvæði vatnsbóla innan lögsagnarumdæma sveitarfélaganna á svæði Heilbrigðiseftirlits Suðurlands bs. Var samþykktin birt í Stjórnartíðindum 18. mars 2022, en það er hlutverk heilbrigðisnefnda að ákvarða vatnsverndarsvæði, sbr. 9. gr. reglugerðar nr. 536/2001 um neysluvatn og g-liðar 3. mgr. gr. 6.3. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Samþykktin hefur að geyma fyrirmæli um afmörkun vatnsverndar og segir þar í lið 3.5. í 3. gr. að grannsvæði vatnsverndar liggi eftir aðrennslissvæði að reiknuðum útmörkum 400 daga aðrennslistíma grunnvatns að vatnsbóli miðað við 50 m þykkan vatnsleiðara. Við ákvörðun grannsvæðismarka sé tekið tillit til viðkvæmni svæða vegna sprungna, dýpis á grunnvatn, yfirborðsgerðar, lektar og misleitni.

Samkvæmt Aðalskipulagi Rangárþings ytra 2016–2028 er framkvæmdasvæðið á fjarsvæði vatnsverndar við Tvíbytnulæk og Kerauga. Áætlaður rennslistími grunnvatns frá ystu mörkum grannsvæðisins í norðri og vestri, svo sem það er afmarkað í aðalskipulaginu, er af ÍSOR talin 70–80 dagar, að því fram kemur í greinargerð með breytingu á aðalskipulagi Rangárþings ytra, sem birt var í Stjórnartíðindum 18. ágúst 2022. Þar segir enn fremur að vatn eigi mjög greiða leið frá yfirborði og niður í grunnvatnið í hrauninu innan grannsvæðisins. Jarðvegur sé víða mjög þunnur og mengandi efni eigi því greiða leið niður í grunnvatnið. Þó megi gera ráð fyrir umtalsverðri þynningu frá jöðrum svæðisins að vatnsbólum við Tvíbytnulæk. Það mögulega misræmi sem með þessu virðist vera milli afmörkunar grannsvæðis vatnsverndar í aðalskipulagi og í samþykkt nr. 326/2022 er óútskýrt.

—–

Í hinni kærðu ákvörðun Skipulagsstofnunar segir um eðli og staðsetningu framkvæmdar að framkvæmdasvæðið sé skilgreint á fjarsvæði vatnsverndar og að áform séu um hreinsun frárennslis með verksmiðjuframleiddum hreinsivirkjum og siturbeðum. Grávatni verði veitt í sérlögnum út í jarðveg og ofanvatni af húsþökum og hörðu yfirborði verði beint í jarðveginn. Skólpmengunarálag við fulla nýtingu verði 280 persónueiningar. Tekið er undir með Umhverfisstofnun að við hönnun hreinsivirkis þurfi að rannsaka raunlekt í jarðvegi og meta út frá því flatarmál siturbeða.

Varðandi áhrif á grunnvatn, vísar Skipulagsstofnun til minnisblaða ÍSOR, dags. 7. september 2020 og 31. maí 2022. Í þeim komi fram að við Leyni 2 og 3 séu jarðlög lek og grunnvatnið viðkvæmt fyrir öllum umsvifum, hvort sem um sé að ræða framkvæmdir og byggð, umferð eða landbúnaðarnotkun. Mengun berist síðan með grunnvatnsstraumi til ákveðinnar áttar, þynnist og dvíni með tíma og fjarlægð frá upprunastað. Hvað varði saur- eða gerlamengun þá séu þau mörk sett við skilgreiningu vatnsverndar að aðrennslistími grunnvatnsins að vatnsbóli þurfi að vera það langur að viðkomandi sýklar lifi hann ekki af. ÍSOR hafi miðað við 50 daga aðrennslistíma að vatnsbóli í sinni ráðgjöf og við 40 m straumhraða grunnvatns á dag og telji ÍSOR því að grunnvatnið hreinsi sig í nánast öllum tilfellum á 2.000 m, þ.e. í 2.000 m fjarlægð forstreymis frá hugsanlegum mengunarstað. Yfir 8 km skilji að framkvæmdasvæðið og umrædd vatnsból sveitarfélaga og muni þeim því ekki stafa hætta af áformuðum framkvæmdum.

Úrskurðarnefndin hefur farið yfir og gerir ekki athugasemd við þetta mat á þynningarmörkum saur- eða gerlamengunar frá ráðgerðri starfsemi að Leyni 2 og 3, sem byggir á skýrslu sérfræðings ÍSOR. Það skal þó athugað að umfjöllunin er bundin við sýklamengun en nær ekki til olíu- eða efnamengunar sem kann að verða af starfseminni. Meðal viðmiða 2. viðauka laga nr. 106/2000 er hætta fyrir heilbrigði manna, t.d. vegna vatns- eða loftmengunar og jafnframt hversu viðkvæm svæði eru fyrir mengun. Er þá til þess að líta sem áður segir að grunnvatn er viðkvæmt fyrir öllum umsvifum, en engar ferilefnaprófanir hafa verið gerðar á grunnvatnsstreymi frá framkvæmdasvæðinu.

Reglugerð nr. 536/2001 um neysluvatn hefur að markmiði að vernda heilsu manna með því að tryggja að neysluvatn sé heilnæmt og hreint og skal uppfylla kröfur í viðauka I með reglugerðinni, sem varða örverufræðilega þætti sem og efna- og eðlisfræðilega þætti. Heilbrigðisnefndir hafa eftirlit með reglugerðinni, en óskylt er þó að hafa reglubundið eftirlit eða framkvæma heildarúttekt hjá vatnsveitum sem þjóna færri en 50 manns eða 20 heimilum/sumarbústöðum, nema þær þjóni matvælafyrirtækjum, sbr. 3. mgr. 12. gr. reglugerðarinnar. Ákvæði samþykktar nr. 326/2022 um brunn- og grannsvæði vatnstöku gilda með líkum hætti ekki um einkavatnsból og vatnsból fyrir staðbundna starfsemi, nema þau séu starfsleyfisskyld samkvæmt reglugerð um neysluvatn. Fram kemur í minnisblaði ÍSOR, dags. 7. september 2020, að allmikil sumarhúsabyggð sé á hrauninu niður með Klofalæk og þar suður af, þ.e. í grennd við framkvæmdasvæðið. Í borholuskrá Orkustofnunar megi telja um 20 kaldavatnsholur á svæðinu og séu margar þeirra nýttar til neysluvatnsöflunar.

Í hinni kærðu ákvörðun er takmörkuð umfjöllun um áhrif áformaðra framkvæmda á einkavatnsból þar sem mengunaráhrifa gæti gætt vegna streymis grunnvatns. Fram kemur einungis að þegar þurfi að huga að vatnsveitu og sameiginlegu vatnsbóli ofan byggðarinnar. Með auknum umsvifum í Leyni verði þetta brýnna en áður. Þessi ummæli eru endursögn úr minnisblaði ÍSOR, sem vísað er til í ákvörðuninni. Ekki verður séð að Skipulagsstofnun hafi af þessu tilefni við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar gengið á eftir nánari upplýsingum um eða lagt sjálfstætt mat á hver líkleg áhrif framkvæmdanna yrðu á einkavatnsbólin. Í umsögn Skipulagsstofnunar til úrskurðarnefndarinnar, dags. 2. september 2022, segir á hinn bóginn að ekki sé traustur grundvöllur til að álykta að það verði grunnvatnsmengun frá framkvæmdasvæðinu sem muni hafa bein áhrif á einkavatnsból. Með mengun sé þá átt við veruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki sé hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum, sbr. p-lið 3. gr. laga nr. 106/2000. Er um leið vísað til þess, sem segir í hinni kærðu ákvörðun, að setja þurfi skilyrði í starfsleyfi um reglubundið eftirlit með virkni hreinsivirkja og losun mengunarefna. Mikilvægt sé að í starfsleyfi séu tilgreind skilyrði sem kveði á um aðgerðir sem ráðast skuli í, skili hreinsun frárennslis ekki þeim árangri sem vænst sé. Slík skilyrði geti til dæmis varðað hreinsun næringarefna frá hreinsivirki eða takmörkun á umsvifum.

Í hinni kærðu ákvörðun bendir Skipulagsstofnun jafnframt á að samlegðaráhrif vegna næringarefna í frárennsli frá starfseminni að Leyni 2 og 3, s.s. köfnunarefni, á lífríki Minnivallalækjar með annarri starfsemi og sumarhúsabyggð á svæðinu, séu ekki þekkt þar sem ekki sé vitað um hver heildarlosun köfnunarefnis sé í viðtakann Minnivallalæk. Framkvæmdaraðili hyggist hreinsa frárennsli frá starfsemi sinni og telji Skipulagsstofnun að með tilliti til samlegðaráhrifa eigi að vera hægt að koma í veg fyrir aukið álag miðað við núverandi aðstæður á Minnivallalæk og lífríki hans með vöktun á virkni hreinsivirkja og losun mengunarefna frá starfseminni.

Í ákvörðuninni er tekið fram að ásýnd svæðisins muni breytast og starfseminni muni fylgja visst ónæði, en framkvæmdasvæðið sé ekki viðkvæmt fyrir þeirri uppbyggingu sem fyrirhuguð sé. Svæðið sé við fjölfarinn þjóðveg á Suðurlandi og verði áhrif aukinnar umferðar vegna framkvæmdarinnar lítil eða óveruleg m.t.t. staðsetningar við núverandi veg og sú tilhögun sem boðuð sé varðandi flutning gesta innan svæðisins sé til þess fallin að draga enn úr mögulegum áhrifum. Þá sé staðbundið verndargildi Þjórsárhrauns takmarkað og áhrif framkvæmda á hraunið verði óveruleg.

Loks telur Skipulagsstofnun að helstu neikvæðu áhrif framkvæmdarinnar felist í breyttri ásýnd svæðisins og mögulegs ónæðis vegna starfseminnar. Umfang áhrifa sé þó líklegt til að vera takmarkað og muni fyrst og fremst gæta í næsta nágrenni fyrirhugaðs framkvæmdasvæðis. Það sé ólíklegt að framkvæmdin hafi í för með sér óafturkræf umhverfisáhrif sem ekki sé hægt að fyrirbyggja með vandaðri verktilhögun og vöktun viðtaka eða bæta úr með mótvægisaðgerðum.

Að áliti úrskurðarnefndarinnar verður, þrátt fyrir þær upplýsingar sem koma fram í hinni kærðu ákvörðun um eftirlit með losun fráveitu og vöktun hreinsivirkja, ekki hjá því litið að fyrirkomulagi fráveitu er lýst sem rotþróm með siturbeði sem í reglugerð um fráveitur og skólp er skilgreind sem tveggja þrepa hreinsivirki. Það hefur óhjákvæmilega í för með sér umtalsverða losun í jarðveg og grunnvatn. Miðað við umfang framkvæmda og þess umhverfisálags sem þegar gætir á áhrifasvæði framkvæmdanna, að teknu tilliti til þeirra viðmiða sem fram koma í 2. viðauka laga nr. 106/2000 og þeirra hagsmuna sem í húfi eru, verður að telja að rökstuðningi hinnar kærðu matsskylduákvörðunar skv. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 hafi verið svo áfátt að vafi leiki á því hvort að fullnægjandi upplýsingar hafi legið fyrir Skipulagsstofnun við undirbúning ákvörðunar, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Verður þá að hafa í huga að grunnvatn sem mengast vegna ófullnægjandi fráveitu spillist. Þá er ekki að sjá að tekið hafi verið mið af meginreglum laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála við meðferð hinnar kærðu ákvörðunar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 24. júní 2022 um að fyrirhuguð uppbygging verslunar- og þjónustusvæðis í landi Leynis 2 og 3, Rangárþingi ytra, skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

131/2022 Kvistaland

Með

Árið 2023, miðvikudaginn 19. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 131/2022, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 13. október 2022 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Fossvogshverfis vegna lóðarinnar nr. 26 við Kvistaland.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

Úrskurður:

 Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. nóvember 2022, er barst nefndinni 18. s.m., kæra eigendur, Kvistalandi 22 og eigendur, Kvistalandi 24, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 13. október 2022 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir Kvistaland 26. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

 

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 10. og 24. janúar 2023.

Málavextir: Forsaga máls þessa er sú að árið 2021 voru kynntar bráðabirgðabyggingar á lóðinni Kvistalandi 26. Voru þær kynntar íbúum með þeim hætti að byggingarnar væru víkjandi þegar endurbótum á leikskólabyggingu á lóðinni væri lokið. Var þá í gildi deiliskipulag Kvistalands sem samþykkt var af borgarráði 29. ágúst 2019 þar sem mænishæð upprunalegs húss að Kvistalandi 26 var í kóta 27,54. Tillaga að deiliskipulagsbreytingu vegna lóðarinnar var grenndarkynnt frá 27. maí 2022 til og með 27. júní s.á. og bárust athugasemdir við tillöguna, þ. á m. frá kærendum. Á fundi borgarráðs 13. október 2022 var tillagan samþykkt með nokkrum breytingum í tilefni af framkomnum athugasemdum. Tók skipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 8. nóvember 2022. Í breytingunni er m.a. gert ráð fyrir að bráðabirgðabyggingarnar standi, leikskólabygging á lóðinni verði stækkuð og mænishæð hækkuð úr kóta 27,54 í 29,00 ásamt því að lögun byggingarreits breyttist og stækkaði.

 Málsrök kærenda: Kærendur telja að Reykjavíkurborg hafi vegið að rétti þeirra til þess að hafa áhrif á umhverfi sitt. Hafi það verið gert með þeim hætti að kynna fyrir íbúum bráðabirgðabyggingu sem sé 1,46 m hærri en núverandi byggingar. Þegar byggingarnar hafi verið kynntar íbúum hafi legið að baki loforð um að þær væru aðeins til bráðabirgða og yrðu fjarlægðar eftir notkun. Þá hafi byggingarnar verið reistar utan gildandi skipulags, en þegar ákveðið hafi verið að halda byggingunum á svæðinu hafi það verið leyst með þeim hætti að breyta deiliskipulaginu til þess að laga það að byggingunum. Með nýja deiliskipulaginu sé mænishæð bygginga við Kvistaland 26 hækkuð um 1,46 m sem auki verulega á skuggamyndun. Bent sé á að umdeild skipulagsbreyting sé skilgreind sem „breyting á deiliskipulagi Fossvogs-hverfis–einbýlishús“. Ljóst sé að Reykjavíkurborg telji umrædda lóð falla undir skilgreininguna á einbýlishúsi og ætti því að vera bundin þeirri mænishæð sem gildir um önnur einbýlishús á svæðinu.

 Þá eru gerðar athugasemdir við að Reykjavíkurborg hafi reist steyptan vegg á lóðamörkum með timburgrindverki ofan á. Velta kærendur fyrir sér hvort heimilt sé að reisa slíkan vegg á lóðamörkum. Að lokum gera kærendur athugasemdir við stjórnsýslu málsins á þá leið að athugasemdum þeirra vegna grenndarkynningar hafi hvorki verið getið í gerðarbók umhverfis- og skipulagsráðs né heldur svar þeirra við svörum skipulagsfulltrúa við athugasemdum þeirra.

 Málsrök Reykjavíkurborgar: Áréttað er að sú breyting sem um ræði fjalli um heildar-uppbyggingu á umræddri lóð leikskólans sem samþykkt hafi verið í borgarráði 29. ágúst 2019. Einnig var breyting vegna tímabundinnar kennslustofu fyrir Kvistaland 26, sem samþykkt hafði verið hinn 26. nóvember 2021, innlimuð í umþrætt skipulag. Deiliskipulagstillagan hafi sætt þeirri kynningu og umfjöllun sem kveðið sé á um í skipulagslögum nr. 123/2010. Í samræmi við það hafi umhverfis- og skipulagsráð samþykkt umsögn skipulagsfulltrúa um framkomnar athugasemdir við tillögu þá sem um ræði á fundi sínum 5. október 2022 og vísað málinu til borgarráðs sem samþykkti tillöguna á fundi sínum 13. s.m. Hafi sú afgreiðsla verið í samræmi við lög og venjubundna málsmeðferð.

Kærendur hafi sent athugasemdir við grenndarkynninguna með bréfi, dags. 20. júní 2022, sem hafi verið innan athugasemdafrests sem gefin hafi verið upp. Eftir að frestinum lauk hafi allar ábendingar og athugasemdir verið teknar saman og hafi skipulagsfulltrúi lagt fram svör við þeim á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 5. október 2022. Eftir að svör skipulagsfulltrúa hafi verið lögð fram á umræddum fundi hafi kærendur sent bréf til skipulagsfulltrúa dags. 26. október 2022 þar sem fleiri athugasemdum hafi verið komið á framfæri. Þær athugasemdir hafi ekki verið teknar inn í málið þar sem athugasemdafresti var lokið og málið komið í lokameðferð á skipulagsstigi. Sé það ekki skylda sveitarfélaga að taka inn athugasemdir sem berist löngu eftir að frestur sé liðinn sbr. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga. Er því vísað á bug að stjórnsýsla við málsmeðferðina hafi ekki verið í fullu samræmi við ákvæði skipulagslaga og stjórnsýslulaga.

Heildarhækkun á mæniskóta sé 1,46 m og sé hún óháð gólfkóta. Hækkun á gólfkóta um 10 cm sé komin til vegna endurbóta sem nauðsynlegar séu á núverandi gólfi leikskólans. Sé litið til skýringarmynda á uppdrætti sem sýni skuggavarp eftir breytingar sjáist að aukið skuggavarp sé næst lóðamörkum við leikskólann sem komi ekki til með að hafa áhrif á íverusvæði við einbýlishús að Kvistalandi 22 og 24.

Sá veggur sem reistur hafi verið á lóðamörkum leikskólans og borgarlandsins sé vegna mikils landhalla á lóðamörkunum sem valdi fallhættu fyrir þau börn sem noti rampann til að komast í kennslustofur. Þá sé timbrið aðeins tímabundin lausn en samkvæmt umsókn um byggingar-leyfi verði timbrinu skipt út og sett létt stálgrind í staðinn. Núverandi veggur hafi verið reistur þegar tímabundnu kennslustofurnar voru settar upp. Áætlað sé að framkvæmdir fari af stað á þessu ári og verði þá grindverkinu skipt út.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Ítrekuð eru framkomin sjónarmið og á það bent að þær athugasemdir sem kærendur sendu skipulagsfulltrúa 26. október 2022 hafi verið svar við bréfi sem þeim hafi borist 13. september s.á. Var þar um að ræða svör við þeim athugasemdum sem kærendur gerðu við deiliskipulagstillöguna. Hafi því bréfið frá 26. október verið sent til að andmæla þeirri niðurstöðu.

Niðurstaða: Upphaflegt heildarskipulag fyrir Fossvogshverfi var samþykkt í borgarráði 6. febrúar 1968. Í skipulaginu er gert ráð fyrir leikskólabyggingu á lóðinni Kvistalandi 26 og var hún reist árið 1971 og stækkuð árið 1995. Breytingin á deiliskipulagi lóðarinnar sem samþykkt var í borgarráði 13. október 2022 er breyting á deiliskipulagi vegna heildaruppbyggingar á lóð leikskólans sem samþykkt var í borgarráði 29. ágúst 2019. Leikur ekki vafi á því að gert hefur verið ráð fyrir leikskólabyggingu á lóðinni frá upphafi.

Gerð skipulags innan marka sveitarfélags er í höndum sveitarstjórnar skv. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, en í því felst einnig heimild til breytinga á gildandi deiliskipulagi, sbr. 43. gr. laganna. Skal deiliskipulag byggja á stefnu aðalskipulags og rúmast innan heimilda þess, sbr. 3. mgr. 37. gr. og 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga. Við töku skipulags-ákvarðana er sveitarstjórn bundin af meginreglum stjórnsýsluréttar, þ. á m. lögmætisreglunni sem felur m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum markmiðum og sem endranær er hún bundin af ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Að gættum framangreindum reglum hafa sveitarstjórnir mat um það hvernig deiliskipulagi og breytingum á því skuli háttað.

Í hinni umþrættu deiliskipulagsbreytingu felst m.a. breyting á lóðamörkum fyrrnefndrar lóðar til suðurs, lögun byggingarreits fyrir leikskólabygginguna breytist og stækkar, mænishæð skólahússins er aukin, en allar byggingar eru áfram ein hæð. Að auki var innlimuð í deili-skipulagsbreytinguna eldri breyting vegna tímabundinnar kennslustofu sem samþykkt hafði verið í borgarráði hinn 26. nóvember 2021. Verða breytingar þessar sem einungis taka til einnar lóðar taldar það óverulegar að fara hafi mátt með þær samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga og grenndarkynna breytingartillöguna. Eru greindar breytingar jafnframt þess eðlis að þeim fylgja óveruleg grenndaráhrif gagnvart fasteignum kærenda, svo sem vegna skuggavarps.

Var breytingartillagan grenndarkynnt í samræmi við 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga með lög-boðnum fjögurra vikna athugasemdafresti og komu kærendur að athugasemdum sínum við tillöguna innan þess frests. Að lokinni grenndarkynningu var skipulagstillagan tekin fyrir á fundi skipulags- og samgönguráðs 5. október 2022 þar sem skipulagsfulltrúi lagði fram umsögn, dags. 13. september s.á., þar sem reifaðar voru fram komnar athugasemdir, tillaga að svörum við þeim og tillögur að breytingum á hinni kynntu tillögu með hliðsjón af athugasemdum sem borist höfðu. Á fundinum voru þessar tillögur skipulagsfulltrúa samþykktar, sú niðurstaða skráð í gerðarbók sem síðar var staðfest af borgarráði. Tók skipulagsbreytingin síðan gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda að undangenginni yfirferð Skipulagsstofnunar lögum samkvæmt.

Með vísan til þess sem að framan er rakið liggja ekki fyrir þeir ágallar á hinni kærðu ákvörðun sem raskað geta gildi hennar. Verður ógildingarkröfu kærenda af þeim sökum hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 13. október 2022 um að samþykkja tillögu að breytingu á deiliskipulagi Fossvogshverfis vegna lóðarinnar nr. 26 við Kvistaland.

126/2022 Skólabraut

Með

Árið 2023, miðvikudaginn 19. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 126/2022, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar frá 17. ágúst 2022 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir Valhúsahæð og aðliggjandi útivistarsvæði vegna lóðarinnar nr. 10 við Skólabraut.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. nóvember 2022, er barst nefndinni sama dag, kæra eigandi, Skólabraut 8, Þórey Einarsdóttir og Gunnar Páll Ólafsson, Skólabraut 12, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarnes­bæjar frá 17. ágúst 2022 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir Valhúsahæð og að­liggjandi útivistarsvæði vegna lóðarinnar nr. 10 við Skólabraut. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Seltjarnarnesbæ 30. janúar 2023.

Málavextir: Á lóðinni Skólabraut 10 á Seltjarnarnesi er þriggja hæða hús sem byggt var árið 1950. Frá árinu 1964 hefur vistheimili verið þar starfrækt. Á svæðinu er í gildi deiliskipulag fyrir Val­húsa­hæð og aðliggjandi útivistarsvæði frá árinu 2017. Hinn 7. apríl 2022 samþykkti skipulags- og umferðarnefnd Seltjarnarnesbæjar að auglýsa tillögu um breytingu á deiliskipu­laginu vegna Skólabrautar 10 í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í tillögunni fólst að fjölga íbúðum á lóðinni úr einni í níu og breyta bílastæðaskilmálum fyrir lóðina. Bæjarstjórn staðfesti afgreiðsluna á fundi sínum 27. apríl s.á. Deiliskipulagstillagan var auglýst með athugasemdafresti frá 12. maí 2022 til og með 23. júní s.á. Engar athugasemdir bárust á kynningartíma. Á fundi skipulags- og umferðarnefndar 12. júlí 2022 var deiliskipu­lags­breytingin samþykkt. Bæjarstjórn staðfesti þá afgreiðslu 17. ágúst s.á. Breytingin tók gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 10. október 2022.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að fyrirhugaðar séu verulegar breytingar á Skólabraut 10, en auk fjölgunar íbúða verði komið fyrir lyftuhúsi og garði lóðarinnar breytt í bílastæði. Kynningu á deiliskipulagsbreytingunni hafi verið afar ábótavant. Samkvæmt upplýsingum frá bæjaryfirvöldum hafi tillagan verið auglýst í Morgunblaðinu, Fréttablaðinu og á heimasíðu bæjaryfirvalda. Því hefði ekki verið þörf á sérstakri grenndarkynningu eða frekari tilraunum til að upplýsa íbúa. Eftirgrennslan kærenda hafi leitt í ljós að enginn íbúa Skólabrautar og Kirkju­brautar eða aðrir hlutaðeigandi hagsmunaaðilar hafi orðið var við auglýsingu um fyrirhugaðar breytingar, enda hefði hún birst aðeins einu sinni í hvoru blaðinu.

Í deiliskipulagsbreytingunni sé gerð undantekning frá þeirri meginreglu að gera ráð fyrir tveimur bílastæðum fyrir hverja lóð. Níu bílastæði verði á lóð hússins, eitt fyrir hverja íbúð. Um leið megi gera ráð fyrir að öðrum bílum, sem annað hvort tilheyri íbúum eða gestum þeirra, verði lagt í götuna en þar séu ekki mörg bílastæði. Samkvæmt upplýsingum á vefsíðu bæjar­yfirvalda komi fram að um ríflega 40% fjölgun íbúða í götunni sé að ræða. Fjölgun bílastæða sé því ekki í neinu samræmi við fjölgun íbúða.

Við Skólabraut standi Mýrarhúsaskóli, Valhúsaskóli og Tónlistarskóli Seltjarnarness. Á hverjum degi fari um götuna tugir barna. Þá séu íbúðir fyrir eldri borgara einnig við götuna. Sú aukna bílumferð sem eigi eftir að fylgja umræddum breytingum hafi neikvæð áhrif á umferðar­öryggi skólabarna og eldri borgara. Engin tilraun virðist hafa verið gerð til að kynna fyrir­hugaðar breytingar á húsinu og afleiðingar þeirra á umferðaröryggi fyrir þeim sem málið varði, þ.e. íbúum hverfisins, skólastjórnendum og foreldrafélaginu og gefa þeim kost á að bregðast við. Engin svör hafi borist frá bæjaryfirvöldum um hvort gerð hefði verið viðunandi greining á áhrifum af fjölgun íbúða og aukningu á bílaumferð í „fjölförnustu og viðkvæmustu“ götu bæjarins. Samkvæmt erindisbréfi skipulags- og umferðarnefndar sé það á ábyrgð nefndarinnar að leitast við að ná því grundvallarmarkmiði að tryggja að ákvarðanir hennar og vinna séu fyrst og fremst í þágu allra íbúa sveitarfélagsins og setja ávallt almannahagsmuni ofar sér­hagsmunum.

Þá hafi ekki verið farið eftir leiðbeiningum Skipulagsstofnunar þar sem fram komi með afgerandi hætti að sveitarstjórn skuli vekja sérstaka athygli þeirra sem ætla megi að deiliskipu­lagsbreyting varði, t.d. með dreifibréfi eða kynningarfundi. Fordæmi séu fyrir því að halda slíka fundi.

Málsrök Seltjarnarnesbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að nokkuð umfangsmikil starfsemi hafi verið á Skólabraut 10, þ.e. vistheimili þar sem hafi búið allt að 18 einstaklingar auk starfsmanna og gesta. Síðustu samþykktu aðaluppdrættir hússins geri eingöngu ráð fyrir einu bílastæði á lóðinni. Húsið sé skráð 500,7 m2 að stærð. Raunveruleg bílastæðaþörf hússins hafi því verið nokkuð meiri en eitt bílastæði. Til að tryggja að breytt notkun hússins og fjölgun íbúða leiði ekki af sér verulega breytingu á notkun almennra bílastæða í götunni geri deili­skipulagsbreytingin ráð fyrir því að hverri íbúð fylgi eitt bílastæði innan lóðar. Ekki sé gert ráð fyrir að fleiri en einn bíll fylgi hverri íbúð að jafnaði þar sem um litlar íbúðir sé að ræða. Því muni breytingin ekki koma til með að auka álag á almenn bílastæði í götunni. Þá hafi fjölgun íbúða í húsinu ekki þær afleiðingar að umferðaröryggi minnki við götuna þar sem umtalsverð starfsemi hafi verið í húsinu fyrir. Hafi því ekki verið talin þörf á sérstakri umferðargreiningu vegna breytingarinnar.

Auglýsingar um kynningu tillögunnar hafi verið birtar í Morgunblaðinu, Fréttablaðinu og Lögbirtingarblaðinu 12. maí 2022 líkt og lög geri ráð fyrir. Að auki hafi kynning tillögunnar verið auglýst á vefsíðu sveitarfélagsins. Auglýsing tillögunnar hafi því verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010 og skipulagsreglugerðar nr. 90/2013. Ábendingar kærenda um að auka mætti við kynningu í tilvikum sem þessum, s.s. með sérstökum tilkynningum til þeirra sem eigi mestra hagsmuna að gæta, verði hafðar í huga við kynningu mála í framtíðinni. Sá háttur sem hafður hafi verið í því tilviki sem hér um ræði, þ.e. auglýsing skipulagstillögu, sé hugsaður til að ná til sem flestra sem mögulega eigi lögvarða hagsmuni af slíkri breytingu. Sveitarfélaginu þyki miður að kynningin hafi farið fram hjá hagsmunaaðilum.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur benda á að árið 1995 hafi vistmenn á Skólabraut 10 verið 12 talsins og farið fækkandi síðan. Nú búi fimm vistmenn í húsinu. Síðustu 15 árin hafi aðeins einn vistmaður verið á bíl. Áður hafi tveir til þrír starfsmenn verið á vakt að staðaldri, en nú séu þeir einn til tveir. Þá séu gestakomur ekki margar. Því hafi bílastæðaþörfin ekki verið ýkja mikil. Á lóðinni sé innkeyrsla sem sé u.þ.b. 31 metri á lengd og fjórir metrar á breidd. Vel hafi verið hægt að koma bílum fyrir á lóðinni. Að staðaldri hafi eitt bílastæði verið notað í götunni af þeim eina vistmanni sem sé á bíl, en starfsfólk og gestir hafi notað bílastæðin á lóðinni. Ekki sé hægt að telja starfsemi í húsinu umfangsmikla. Engin greining hafi farið fram á bílastæðaþörf vegna deiliskipulagsbreytingarinnar. Það séu því aðeins getgátur bæjar­yfirvalda að ekki sé gert ráð fyrir að fleiri en einn bíll muni fylgja hverri íbúð að jafnaði og að breytingin komi ekki til með að auka álag á almenn bílastæði í götunni. Þá hafi engin umferðar­greining verið gerð og því sé að sama skapi ekki hægt að fullyrða um að umferðaröryggi skerðist ekki. Mikill umferðarþungi sé á götunni og skólayfir­völd brýni ítrekað fyrir foreldrum að haga akstri þannig að umferð teppist sem minnst og öryggi barna sé ekki ógnað.

Auglýsing um deiliskipulagsbreytinguna hefði birst aðeins einn dag, m.a. í fjölmiðlum þar sem krafist sé áskriftar. Engar athugasemdir hafi borist vegna auglýsingarinnar þar sem enginn hafi orðið hennar var en þess megi geta að allir þeir sem kærendur hefðu talað við séu á móti þessari deiliskipulagsbreytingu. Þegar bæjarbúar hafi komist að umræddri breytingu fyrir tilviljun hafi verið óskað eftir því við bæjaryfirvöld að staldra við og íhuga málið í samráði við bæjarbúa. Bæjar­­­yfirvöld hafi hins vegar ekki orðið við þeirri ósk. Ljóst sé að bæjaryfirvöld taki hagsmuni fjár­festa, sem séu eigendur Skólabrautar 10, og hafi óskað eftir umræddri deiliskipulags­breytingu, umfram hagsmuni íbúa, skólabarna og næstu nágranna sem þurfi að búa við verulega skertar aðstæður ef af breytingum verði.

Kærendur ítreki að sveitarfélagið hafi ekki farið eftir leiðbeiningum Skipulagsstofnunar um breytingar á deiliskipulagi en í þeim komi m.a. fram að verulega breytingu deiliskipulags skuli auglýsa í Lögbirtingablaði og með áberandi hætti, t.d. í dagblaði sem er sé dreift á landsvísu. Auk lögboðinnar kynningar sé mælt með því að sveitarstjórn veki sérstaka athygli þeirra sem ætla megi að breytingin varði, t.d. með dreifibréfi eða kynningarfundum. Setja megi spurningarmerki við auglýsingarnar sem birtar hefðu verið í smáauglýsingum Atvinnublaðs Morgunblaðsins og smáauglýsingum Fréttablaðsins en ekki sé hægt að telja að þær hafi birst með áberandi hætti. Engin kynning hafi farið fram en bæjaryfirvöld sendi annað slagið upplýsingar til bæjarbúa með skilaboðum í síma, tölvupósti og dreifibréfum sem borin séu í hús varðandi ýmislegt, t.d. hátíðahöld, og því ættu bæjaryfirvöld að geta gert slíkt hið sama þegar mikið liggi við.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 17. ágúst 2022 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Valhúsahæðar og aðliggjandi útivistar-svæðis vegna lóðarinnar nr. 10 við Skólabraut.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 bera sveitarstjórnir ábyrgð á og annast gerð deiliskipulagsáætlana. Við ákvarðanir um deiliskipulag ber m.a. að haga málsmeðferð þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn, þó svo að hagur heildarinnar verði hafður að leiðarljósi, sbr. 1. mgr. 1. gr. skipulagslaga. Í skipulags­valdi sveitarfélaga felst víðtæk heimild til breytinga á þegar gerðum deiliskipulagsáætlunum, sbr. 1. mgr. 43. gr. laganna. Þessu valdi eru settar skorður með kröfu um samræmi við aðal­skipulagsáætlanir, sbr. 7. mgr. 12. gr. laganna og er sveitarstjórn jafnframt bundin af megin­reglum stjórnsýsluréttar, þ. á m. lögmætisreglunni sem felur m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum markmiðum og sem endranær er hún bundin af ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga skal fara með breytingu á deiliskipulagi eins og um nýtt deiliskipulag sé að ræða með því fráviki að ekki er skylt að taka saman lýsingu skv. 1. mgr. 40. gr. laganna. Sú undantekning er gerð í 2. mgr. 43. gr. sömu laga að telji sveitarstjórn að gera þurfi breytingar á gildandi deiliskipulagi, sem séu það óverulegar að ekki sé talin ástæða til meðferðar skv. 1. mgr. ákvæðisins, skuli fara fram grenndarkynning.

Tillagan að umræddri deiliskipulagsbreytingu var auglýst til kynningar í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga frá 12. maí til 23. júní 2022. Að loknum auglýsingartíma samþykkti skipulags- og umferðarnefnd deiliskipulagsbreytinguna og var hún send til Skipulagsstofnunar, sbr. 2. málsl. 3. mgr. 41. gr. laganna, sem taldi ekki ástæðu til að taka málið til athugunar, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 42. gr. laganna. Var málsmeðferð deiliskipulagsbreytingarinnar því í samræmi við ákvæði skipulagslaga. Ekki kemur fram í ákvæðum laganna að grenndarkynna þurfi breytingu á deiliskipulagi þegar hún er auglýst með almennum hætti.

­­Í Aðalskipulagi Seltjarnarnesbæjar 2015-2033 kemur fram að byggð á Seltjarnarnesi sé almennt fremur lágreist og einkennist af einnar til tveggja hæða sérbýli, sérhæðum í þriggja til fjögurra hæða húsum og tiltölulega fáum fjölbýlishúsum. Um íbúðarsvæði segir að eldri hverfi Seltjarnarness séu að stærstum hluta fullmótuð og fullbyggð. Í skilmálum um íbúðarbyggð kemur fram að ekki sé gert ráð fyrir neinum breytingum á yfirbragði og byggðamynstri þeirra íbúðarsvæða sem þegar séu byggð, svo sem meginlínum í hæð húsa og þéttleika byggðar. Allar breytingar er varði viðhald húsa og lóða skuli unnar með það að leiðarljósi að bæta umhverfi og yfirbragð byggðar. Samkvæmt aðalskipulaginu er lóðin Skólabraut 10 á íbúðarsvæði ÍB-1 og byggðin fastmótuð. Þar séu hæðir, einbýlis- og raðhús. Nýtingarhlutfall lóða á íbúðar­svæðum sé allt að 0,6.

Fjallað er um lóðir íbúðarhúsa við Skólabraut í sérstökum kafla í skilmálum deiliskipulags fyrir Valhúsahæð og aðliggjandi útivistarsvæði. Með hinni kærðu ákvörðun var skilmálum þessum breytt þannig að íbúðum fjölgaði úr 19 í 27. Þá var skilmálum um bílastæði breytt vegna Skólabrautar 10 og gert ráð fyrir einu bílastæði fyrir hverja íbúð innan lóðar í stað tveggja. Samkvæmt greinargerð á deiliskipulagsuppdrætti verða gerðar breytingar á innra fyrirkomulagi og ásýnd hússins, en allar breytingar taki mið af núverandi burðarkerfi þess og þar með verði grunnflötur byggingarinnar ekki stækkaður. Þá verði gerðar svalir fyrir íbúðir á 2. hæð á norður- og suðurhlið og nýtt stigahús byggt með lyftu og inngangi á austurhlið. Einnig verði gerðar breytingar á þakformi 3. hæðar sem verði einhalla sem lækki til norðurs. Á þaki 2. hæðar verði þaksvalir. Samkvæmt framansögðu fer hin kærða deiliskipulagsbreyting ekki í bága við gildandi aðalskipulag og stefnu þess, sbr. 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga.

Samkvæmt 5. mgr. 12. gr. skipulagslaga skal við gerð skipulagsáætlana gera grein fyrir áhrifum áætlunar og einstakra stefnumiða hennar á umhverfið, m.a. með samanburði þeirra kosta sem til greina koma, og umhverfismati áætlunarinnar. Fjallað er um umhverfismat deiliskipulags í gr. 5.4.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Þar segir í 1. mgr. að við gerð deiliskipulags skuli meta líkleg áhrif af fyrirhuguðum framkvæmdum og starfsemi á aðliggjandi svæði og einstaka þætti áætlunarinnar sjálfrar svo sem á ásýnd, útsýni, hljóðvist og loftgæði eftir því sem efni skipulagsins gefi tilefni til. Áætla skal áhrif af t.d. umferð, hávaða og umfangsmiklum mann­virkjum, sbr. 2. mgr. ákvæðisins. Þá er kveðið á um í 3. mgr. að gera skuli grein fyrir matinu og niðurstöðu þess í greinargerð deiliskipulagsins. Sé um breytingu á deiliskipulagi að ræða skal gera grein fyrir áhrifum hennar á umhverfið með nýju umhverfismati ef við eigi, sbr. gr. 5.8.5.2. í reglugerðinni.

Ljóst er að andlag umhverfismats deiliskipulags er breytilegt eftir efni og umfangi skipulagsins. Við umrædda breytingu fjölgar íbúðum í götunni um átta sem er aukning um 40%. Verður að telja að tilefni hafi verið til að gera grein fyrir áhrifum breytingarinnar á umferð í greinargerð deiliskipulagsins. Ekki verður séð að slíkt mat hafi farið fram við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar. Í málsrökum sveitar­félagsins er vísað til þess að umtalsverð starfsemi hefði verið fyrir í húsinu og því ekki talið að fjölgun íbúða hefði þær afleiðingar að umferðaröryggi myndi skerðast. Aðaluppdrættir hússins gerðu ráð fyrir einu bílastæði á lóðinni og hafi sveitarfélagið talið að raunveruleg bílastæðaþörf hefði verið nokkuð meiri. Til að tryggja að breytt notkun hússins og fjölgun íbúða myndi ekki leiða af sér breytingu á notkun almennra bílastæða í götunni gerði deiliskipulagsbreytingin ráð fyrir því að hverri íbúð fylgdi eitt bílastæði innan lóðarinnar. Ekki sé gert ráð fyrir að fleiri en einn bíll fylgi hverri íbúð að jafnaði þar sem um litlar íbúðir sé að ræða. Taka verður undir sjónarmið sveitarfélagsins um að áhrif breytingar-innar á umferðaröryggi séu óveruleg.

Þrátt fyrir framangreindan ágalla á málsmeðferð deiliskipulagsbreytingarinnar verður hann ekki talinn þess eðlis að ógildingu varði.

Með hliðsjón af öllu framangreindu verður ekki talið að þeir form- eða efnisannmarkar liggi fyrir sem leiða eigi til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar. Verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar frá 17. ágúst 2022 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir Valhúsahæð og aðliggjandi útivistarsvæði vegna lóðarinnar nr. 10 við Skólabraut.

16/2023 Hlíðarhvammur

Með

Árið 2023, mánudaginn 17. apríl, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

 Mál nr. 16/2023, kæra vegna stjórnsýslu Kópavogsbæjar og viðbrögð byggingarfulltrúa bæjarins við óleyfisframkvæmd húsráðenda að Hlíðarhvammi 7.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. janúar 2023, er barst nefndinni sama dag kærir A stjórnsýslu Kópavogsbæjar og viðbrögð byggingarfulltrúa bæjarins við óleyfisframkvæmd húsráðenda að Hlíðarhvammi 7.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 9. febrúar 2023.

Málsatvik og rök: Í kæru eru rakin samskipti kæranda við stjórnvöld Kópavogsbæjar frá árinu 2013 til og með 12. ágúst 2022. Samskiptin má rekja til deilna vegna tveggja bílastæða sem gerð voru inn á lóð Hlíðarhvamms 7 árið 2009. Við þá framkvæmd fækkaði almennum bílastæðum í götunni. Kærandi telur að um „óleyfisframkvæmd“ hafi verið að ræða og hefur bent bæjaryfirvöldum á að með henni hafi ekki létt á bílastæðavanda í götunni og hafi bílastæðin auk þess sjaldan verið notuð sem geymsla fyrir farartæki.

Fyrir liggur bréf byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar til kæranda dags. 5. ágúst 2022, þar sem vísað er til mæliblaðs frá 2013, sem sýni fram á að gert hafi verið ráð fyrir bílastæðum á umræddum stað og því sé ekki um óleyfisframkvæmd að ræða. Hefur bréfið með þessu fyrst og fremst að geyma ábendingu um efni mæliblaðs.

Af hálfu Kópavogsbæjar hefur því verið hafnað við að eigendur að Hlíðarhvammi 7 hafi í heimildarleysi útbúið bílastæði á lóð sinni og nýtt þannig þann hluta götunnar sem liggi samsíða innkeyrslunni. Hafi bílastæðin á lóð nr. 7 verið útbúin árið 2009 og sagað hafi verið úr gangstéttarkanti og það verk unnið af starfsfólki Kópavogsbæjar, á kostnað lóðarhafa. Þá er bent á að ekki liggi fyrir ákvörðun í málinu sem sætt geti kæru.

Hlíðarhvammur sé ódeiliskipulagt svæði og bílastæðin sem kvartað sé undan standi inni á lóð, íbúa að Hlíðarhvammi 7. Samkvæmt útgefnu mæliblaði sé gert ráð fyrir tveimur bílastæðum á lóðinni. Mæliblaðið sé gefið út 4. júlí 2013 og skoðist sem hluti lóðarleigusamnings sem endurnýjaður hafi verið í júlí 2020.

—–

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verða þó ákvarðanir sem ekki binda enda á mál ekki kærðar til æðra stjórnvalds.

Af gögnum málsins má ráða að kæranda hefur verið kunnugt um gerð hinna umdeildu bílastæða frá árinu 2009. Þegar samskipti aðila eru rakin sést að síðast barst svar til kæranda frá byggingarfulltrúa 5. ágúst 2022. Kæra þessi barst úrskurðarnefndinni 24. janúar 2023.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að.

Að framangreindu virtu verður ekki séð að í málinu liggi fyrir ákvörðun sem bindi enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga. Einnig er litið til þess að rúmir fimm mánuðir liðu frá því að svar bars frá byggingarfulltrúa þar til kæra barst nefndinni. Verður málinu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

149/2022 Naustabryggja

Með

Árið 2023, fimmtudaginn 13. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson vara­formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 149/2022, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur­borgar frá 30. nóvember 2022 um að breyta deiliskipulagi Bryggjuhverfis við Grafarvog vegna bílastæða hreyfihamlaðra.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 27. desember 2022, kærir Lóðafélag Naustabryggju 21–29 og 41–57 þá ákvörðun umhverfis- og skipulags­ráðs Reykjavíkurborgar frá 30. nóvember 2022 að breyta deiliskipulagi Bryggjuhverfis við Grafarvog vegna bílastæða hreyfihamlaðra. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 2. febrúar 2023.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu, en frá árinu 2017 hefur húsfélag Naustabryggju 31–33 og Reykjavíkurborg átt í nokkrum samskiptum vegna bílastæða fyrir hreyfihamlaða fyrir hús nr. 31–33 við Naustabryggju. Hinn 24. nóvember 2019 fór félagið fram á að skilyrðum byggingarreglugerðar nr. 112/2012 vegna aðgengis fyrir hreyfihamlaða yrði fylgt og a.m.k. þremur bílastæðum fyrir hreyfihamlaða yrði komið fyrir innan 25 m fjarlægðar frá aðal-inngangi stigaganga í húsi á lóð Naustabryggju 31–33. Með bréfi byggingarfulltrúa til hús-félagsins, dags. 22. janúar 2020, var bent á að fyrirkomulag bílastæða væri í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar. Myndi embættið því ekki aðhafast frekar vegna málsins. Var sú afgreiðsla byggingarfulltrúa borin undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sem felldi hana úr gildi með úrskurði, uppkveðnum 28. ágúst 2020 í máli nr. 15/2020. Vísaði nefndin m.a. til þess að ákvæði gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð um fjarlægð bílastæða fyrir hreyfihamlaða frá aðalinngangi væri ekki uppfyllt. Engu gæti breytt í því efni þótt fyrirkomulag bílastæða væri í samræmi við deiliskipulag og samþykkta aðaluppdrætti, enda gæti deiliskipulag ekki vikið til hliðar ákvæðum byggingarreglugerðar og samkvæmt 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki skyldu samþykktir aðaluppdrættir vera í samræmi við ákvæði framangreindrar reglugerðar.

Í kjölfar úrskurðarins var embætti byggingarfulltrúa í samskiptum við kæranda máls nr. 15/2020 og lagði til að gert yrði bílastæði fyrir hreyfihamlaða á borgarlandi við norðausturhorn hússins nr. 31–33 við Naustabryggju, en þeirri tillögu var hafnað af hálfu húsfélagsins þar sem bílastæðið fullnægði ekki kröfum byggingarreglugerðar. Með tölvupósti byggingarfulltrúa 5. mars 2021 kom fram að honum þætti ljóst að krafa kæranda fæli í sér að gerð yrðu bílastæði á aðliggjandi lóð, Nausta­bryggju 35–57, og hún minnkuð sem því næmi. Ekki væri mögulegt að verða við þeirri kröfu án samþykkis viðkomandi lóðarhafa og embættið myndi því ekki aðhafast frekar í málinu. Var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndarinnar sem felldi hana úr gildi með úrskurði, uppkveðnum 14. september 2021, í máli nr. 39/2021. Með hliðsjón af þeim úrræðum skipulagslaga sem stæðu Reykjavíkurborg til boða, þ. á m. að breyta deiliskipulagi, heimila skiptingu lóða og ráðast í eignarnám, féllst úrskurðarnefndin ekki á með borgaryfirvöldum að ómöguleiki væri fyrir hendi.

 Á fundi skipulagsfulltrúa 11. febrúar 2022 var tekin fyrir tillaga umhverfis- og skipulagssviðs að breytingu á deiliskipulagi Bryggjuhverfis við Grafarvog vegna lóðarinnar Tangabryggju 6–8, 10, 12 og 12A og Naustabryggju 17–19 og 31–33 og aðliggjandi borgarlands. Í tillögunni fólst að skilgreind yrðu tvö bílastæði fyrir hreyfihamlaða, eitt á borgarlandi og annað innan umræddrar lóðar. Samþykkti skipulagsfulltrúi að grenndarkynna tillöguna sem óverulega breytingu á deiliskipulagi fyrir hagsmunaaðilum að Tangabryggju 6–8, 10, 12 og 12A og Naustabryggju 17–19, 21, 29, 31–33, 55 og 57. Tillagan var auglýst til kynningar 7. mars 2022 og var athugasemdafrestur veittur til 4. apríl s.á. Á kynningartíma bárust sjö athugasemdir, þ. á m. ein frá kæranda í máli þessu. Tillagan var lögð fram á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 23. nóvember 2022 ásamt umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 18. s.m. Var tillagan samþykkt með vísan til nefndrar umsagnar og a-liðar 1. gr. í viðauka 1.1. við samþykkt um stjórn Reykjavíkur­borgar og fundarsköp borgarstjórnar. Deiliskipulagsbreytingin tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 21. desember 2022.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að tillaga að hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu hafi ekki verið grenndarkynnt fyrir honum þó svo að aðkoma að öðru því bílastæða sem hér um ræði sé eingöngu um aðkomulóð sem sé einkalóð kæranda. Þá hafi málið aðeins verið kynnt fyrir hluta þeirra fasteignaeigenda sem um ræði, en eigendur fasteigna í Naustabryggju 41–53 hafi ekki verið gert viðvart um fyrirhugaða deiliskipulagsbreytingu þrátt fyrir að eiga aðild að kæranda og þar með eignaraðild að áðurnefndri aðkomulóð. Eðli málsins samkvæmt verði umrætt bílastæði ekki nýtt fyrir aðra en fasteignaeigendur Naustabryggju 21–29 og 41–57.

Bílastæðið sé staðsett á gangstíg sem sé mikilvæg tenging milli hverfisins og sjávar. Áhersla sé lögð á að umræddum gangstíg verði haldið sem slíkum. Einnig sé bent á að aðkoma að sorptunnum hússins nr. 21 við Naustabryggju sé um umræddan gangstíg og því skipti máli að hann sé vel greiðfær. Enn fremur sé því mótmælt að fyrir nokkru hafi verið sett upp skilti fyrir umrætt bílastæði og það merkt með málningu áður en tillagan hafi verið borin upp við hlutaðeigandi og þar með áður en hin kærða ákvörðun hafi verið tekin.

Kærandi hafi sjálfur komið fyrir bílastæðum fyrir hreyfihamlaða inni á sinni einkalóð og öðrum húsfélögum hverfisins ætti sömuleiðis að vera slíkt í lófa lagið. Þá sé samkvæmt deiliskipulagi gert ráð fyrir bílastæðum fyrir hreyfihamlaða í bifreiðakjallara undir húsunum nr. 31–33 við Naustabryggju en þeim húsum fylgi sömuleiðis bílastæði ofanjarðar.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld vísa til þess að tillagan hafi ekki verið grenndarkynnt fyrir kæranda þar sem hún var ekki talin hafa áhrif á hagsmuni hans. Kærandi hafi engu að síður komið að athugasemdum við tillöguna og geti hann þar af leiðandi ekki borið fyrir sig að hafa ekki haft tækifæri til að tjá sig um hana.

Aðkoma að því bílastæði sem sé á borgarlandi sé í gegnum aðkomulóð og sé hún m.a. í þágu kæranda, en lóðin sé einnig aðkomulóð fyrir Naustabryggju 21–29 og 55–57. Gert sé ráð fyrir að hreyfihamlaðir geti almennt nýtt stæðið, enda verði það ekki sérmerkt neinni lóð til afnota. Ekki sé hægt að líta svo á að það sé á hendi lítils hluta handhafa aðkomulóðarinnar að koma í veg fyrir að aðrir aki um lóðina eða að leita þurfi samþykkis allra eigenda fyrir slíkri umferð. Umferð vegna stæðisins verði mjög óveruleg og hafi staðsetning þess og notkun ekki áhrif á hagsmuni kæranda svo nokkru varði. Ekki sé heldur fallist á að staðsetning þess skerði tengingu milli hverfisins og sjávar þar sem sú gönguleið sé órofin og hindrunarlaus.

 Athugasemdir húsfélags Naustabryggju 31–33: Húsfélag Naustabryggju 31–33 bendir á að uppsetning bílastæðis á borgarlandi hafi verið leið Reykjavíkurborgar til að uppfylla skilyrði í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Stæðið sé í dag nýtt oftar en ekki af sama ökumanni og hafi reiturinn verið nýttur reglulega til þess að leggja áður en stæðið hafi verði merkt fyrir hreyfi­hamlaða. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi tvívegis úrskurðað húsfélaginu í vil varðandi þá skyldu Reykjavíkurborgar að uppfylla skilyrði byggingarreglugerðar um bílastæði hreyfihamlaðra.

Síðastliðin sex ár hafi íbúar Naustabryggju 31–33 reynt að benda Reykjavíkurborg á hand­vömm við útgáfu byggingarleyfis sem hafi gert það að verkum að húsið hafi verið byggt við einkalóð kæranda. Húsfélagið hafni því að borgaryfirvöld uppfylli fyrrgreinda skyldu sína með því að koma fyrir bílastæðum fyrir hreyfihamlaða annars staðar en á lóð Naustabryggju 17, Naustabryggju 31–33 og Tangabryggju 6–12. Fallist úrskurðarnefndin á sjónarmið kæranda sé staðan sú að Naustabryggju 31–33 sé í raun eyland í þessu hverfi. Síðastliðin sex ár hafi íbúum verið óheimilt að nota lóðina fyrir framan húsið til að sinna viðhaldi sem krefjist notkunar vinnupalla og annarra vinnuvéla sem eðli málsins samkvæmt þurfi athafnasvæði og aðkomu. Þá uppfylli bílastæði á lóð milli Tangabryggju 12 og Naustabryggju 31–33 eftir sem áður ekki skilyrði um fjarlægð frá aðalinngangi Naustabryggju 31.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi ítrekar málsrök úr kæru og bendir á að uppsetning bílastæðis fyrir hreyfihamlaða á borgarlandi felist beinlínis í sér ólögmæta eignaupptöku þar sem aðkoma að því stæði sé í gegnum einkalóð hans. Bílastæðið sé á miðjum gangstíg og ef bifreið sé lagt í það geti verið erfitt eða jafnvel ómögulegt að aka barnavagni eftir stígnum. Þá bendi lausleg athugun til að víðast hvar sé lengra frá bílastæði fyrir hreyfihamlaða að útidyrum en fjarlægð frá því bílastæði sem verði milli Naustabryggju 31–33 og Tangabryggju 12 og aðalinngangi Naustabryggju 31.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um breytingu á deiliskipulagi Bryggjuhverfis við Grafarvog vegna bílastæða hreyfihamlaðra fyrir Naustabryggju 31–33. Í breytingunni felst að á skipulags-uppdrætti eru skilgreind tvö bílastæði fyrir hreyfihamlaða, annars vegar á borgarlandi og hins vegar innan lóðarinnar Tangabryggju 6–8, 10, 12 og 12A og Naustabryggju 17–19 og 31–33.

Hin kærða deiliskipulagsbreyting var grenndarkynnt sem óveruleg breyting á deiliskipulagi, sbr. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Hefur kærandi fundið að því hvernig staðið var að grenndarkynningunni þar sem tillagan hafi ekki verið kynnt fyrir honum þrátt fyrir að aðkoma að bílastæði á borgarlandi sé í gegnum einkalóð hans. Með hliðsjón af þeim aðstæðum verður að fallast á með kæranda að Reykjavíkurborg hefði borið að grenndarkynna fyrir honum deiliskipulagstillöguna. Aftur á móti verður ekki séð að kærandi hafi orðið fyrir réttarspjöllum vegna þessa þar sem hann kom að athugasemdum við kynningu tillögunnar og var þeim svarað í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 18. nóvember 2022. Verður að öðru leyti ekki annað séð en að málsmeðferðin hafi verið í samræmi við skipulagslög.

Skipulag lands innan marka sveitarfélags er í höndum sveitarstjórna skv. 3. mgr. 3. gr. laga nr. 123/2010. Sveitarstjórnir bera ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags skv. 1. mgr. 38. gr. laganna og er skv. 43. gr. heimilt að breyta deiliskipulagi. Sveitarstjórn hefur mat um það hvernig deiliskipulagi eða breytingu á því skuli háttað svo fremi það mat byggi á málefnalegum og lögmætum sjónarmiðum.

Eins og rakið er í málavöxtum var undanfari hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar úrskurðir úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 15/2020 og 39/2021, en í málunum voru felldar úr gildi ákvarðanir byggingarfulltrúans í Reykjavík um að hafna kröfum húsfélags Naustabryggju 31–33 um að tryggt yrði aðgengi að húsinu fyrir hreyfihamlaða í samræmi við ákvæði byggingar­reglugerðar nr. 112/2012. Í umsögn skipulagsfulltrúa frá 18. nóvember 2022 segir að með deili-skipulags­breytingunni sé verið að svara fyrrgreindum niðurstöðum úrskurðarnefndarinnar um að tryggja skuli án tafar aðgengi fyrir hreyfihamlaða að aðalinngangi Naustabryggju 31–33. Lágu því efnis- og skipulagsrök að baki hinni kærðu ákvörðun.

Með vísan til þess sem að framan er rakið liggja ekki fyrir þeir form- eða efniságallar á hinni kærðu ákvörðun sem raskað geta gildi hennar. Verður kröfu um ógildingu ákvörðunarinnar af þeim sökum hafnað.

Rétt þykir að benda á að deiliskipulag getur ekki haft áhrif á bein eða óbein eignarréttindi en sé sýnt fram á að gildistaka skipulagsáætlana  hafi haft í för með sér fjártjón getur sá sem telur sig hafa orðið fyrir því  átt rétt á bótum, sbr. 51. gr. skipulagslaga. Úr slíkum ágreiningi verður hins vegar ekki leyst fyrir úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur­borgar frá 30. nóvember 2022 um að breyta deiliskipulagi Bryggjuhverfis við Grafarvog vegna bílastæða hreyfihamlaðra.