Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

56/2004 Rafstöðvarvegur

Með

Ár 2005, fimmtudaginn 9. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur og Sesselja Jónsdóttir lögfræðingur, varamaður.

Fyrir var tekið mál nr. 56/2004, kæra eigenda fasteignarinnar að Rafstöðvarvegi 29, Reykjavík á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 6. september 2004 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi íbúðasvæðis við Rafstöðvarveg, þar sem heimiluð var viðbygging við austurgafl hússins að Rafstöðvarvegi 31.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 11. október 2004, er barst nefndinni hinn 15. sama mánaðar, kæra G og G, eigendur fasteignarinnar að Rafstöðvarvegi 29, Reykjavík þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 6. september 2004 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi íbúðarsvæðis við Rafstöðvarveg er heimilaði viðbyggingu með kjallara við austurgafl parhússins að Rafstöðvarvegi 31 með inndreginni verönd á þaki byggingarinnar.  Gerir kærandi þá kröfu að nefnd deiliskipulagsbreyting verði felld úr gildi.

Málavextir:  Hús kærenda stendur norðaustanvert við húsið að Rafstöðvarvegi 31 og eiga fasteignirnar sameiginleg lóðamörk.  Hinn 11. desember 1995 samþykkti skipulagsnefnd Reykjavíkur uppdrátt af íbúðarsvæði við Rafstöðvarveg þar sem lóðir voru m.a. afmarkaðar og skilmálar settir um íbúðarbyggðina.  Samkvæmt þeim uppdrætti með áorðnum breytingum var heimilað að reisa bílskúra á lóðum nefndra fasteigna.  Uppdráttur þessi og skilmálar voru staðfestir í borgarstjórn Reykjavíkur hinn 6. febrúar 1996. 

Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 4. júní 2004 var tekin fyrir fyrirspurn eigenda fasteignarinnar að Rafstöðvarvegi 31 um hvort leyft yrði að byggja viðbyggingu og bílskúr á lóð þeirra samkvæmt framlögðum uppdrætti sem meðeigendur greindrar fasteignar höfðu samþykkt fyrir sitt leyti.  Var erindið afgreitt með svofelldri bókun:  Ekki gerð athugasemd við erindið. Umsækjandi láti vinna breytingu á deiliskipulagi sem síðan verður grenndarkynnt.

Hinn 6. september 2004 samþykkti skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkur breytingu á gildandi skipulagi svæðisins að undangenginni grenndarkynningu skv. 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 með eftirfarandi bókun:  „Kynnt tillaga samþykkt, með vísan til 4. gr. samþykktar fyrir skipulags- og byggingarnefnd, með þeirri breytingu að dregið verði úr stærð glugga til austurs á aðalhæð viðbyggingar og svalir á þaki verði inndregnar til austur sem nemur 1,5 metra til að takmarka innsýn á lóð nr. 29 við Rafstöðvarveg sbr. umsögn skipulagsfulltrúa.

Fól skipulagsbreytingin í sér að heimilað var að reisa einnar hæðar viðbyggingu með kjallara, 38 fermetra að grunnfleti, við austurgafl hússins að Rafstöðvarvegi 31 með inndreginni verönd á þaki viðbyggingarinnar.  Heimilaði skipulagið að umrædd viðbygging stæði tvo metra frá lóðarmörkum kærenda.  Við grenndarkynningu tillögunnar komu fram mótmæli frá kærendum við fyrirhugaða viðbyggingu og var framkomnum athugasemdum þeirra svarað af hálfu Reykjavíkurborgar.  Var gildistaka skipulagsbreytingarinnar auglýst í B-deild Stjórnartíðinda hinn 30. september 2004 að undangenginni umsögn Skipulagsstofnunar þar sem ekki var gerð athugasemd við birtingu auglýsingar um gildistöku skipulagsbreytingarinnar.  Skutu kærendur umræddri skipulagsákvörðun til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Hinn 15. febrúar 2005 samþykkti byggingarfulltrúinn í Reykjavík byggingarleyfi fyrir greindri viðbyggingu og bílskúr á grundvelli umrædds skipulags og staðfesti borgarstjórn Reykjavíkur leyfið hinn 1. mars 2005.  Annar kærenda í máli þessu kærði veitingu leyfisins til úrskurðarnefndarinnar hinn 20. apríl sl. og krafðist þess að heimilaðar framkvæmdir yrðu stöðvaðar þar til efnisúrlausn lægi fyrir í málinu.  Úrskurðarnefndin kvað upp bráðabirgðaúrskurð um stöðvunarkröfuna hinn 4. maí sl. þar sem henni var hafnað.

Málsrök kærenda:  Kærendur benda á að heimilaðar framkvæmdir samkvæmt hinni kærðu skipulagsbreytingu gangi óhæfilega á grenndarrétt þeirra með útsýnisskerðingu og skertum nýtingarmöguleikum á lóð sem muni rýra verðgildi fasteignar þeirra.

Heimiluð viðbygging færi austurhlið hússins að Rafstöðvarvegi 31 fjóra metra nær lóð kærenda en nú er og aðeins yrðu tveir metrar frá viðbyggingunni að mörkum umræddra lóða.  Fjarlægð milli húsa á lóðunum færi úr 11,5 í 7,5 metra.

Kærendur hafi fyrirhugað að nýta suðvestur hluta lóðar sinnar, sem umdeild viðbygging snúi að, undir heitan pott en ljóst megi vera að tilvist viðbyggingarinnar svo nærri lóðamörkum takmarki notagildi pottsins fyrir kærendur en vænta megi að samtal sem þar ætti sér stað bærist auðveldlega yfir í viðbygginguna.  Verði byggingin reist til viðbótar fyrirhuguðum bílskúr myndist nánast samfelldur steinveggur frá vegi að suðurmörkum lóðar kærenda.

Umræddar framkvæmdir muni samkvæmt framansögðu valda kærendum bæði fjárhagslegu og tilfinningalegu tjóni sem leiða eigi til þess að umdeild skipulagsbreyting nái ekki fram að ganga.

Benda kærendur loks á að kannað verði hvort útlit hússins að Rafstöðvarvegi 31 sé friðað.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu borgaryfirvalda er þess krafist að hin kærða ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar frá 6. september 2004 verði staðfest.

Reykjavíkurborg geti ekki tekið undir málsástæður kærenda varðandi áhrif hinna samþykktu viðbyggingarheimildar sem snúist eingöngu um grenndaráhrif hennar.  Með tilkomu viðbyggingarinnar verði minnsta fjarlægð milli umræddra húsa 7,5 metrar í stað 11,5 metra áður, en hafa verði í huga að húsin standi ekki andspænis hvort öðru.  Leyfð fjarlægð á milli húsa sé ekki í ósamræmi við byggðamynstur svæðisins eða almenna nýtingu lóða.

Ekki verði séð að hagsmunir kærenda af því að koma fyrir heitum potti í framtíðinni á suðvestanverðri lóð þeirra séu meiri en hagsmunir lóðarhafa að Rafstöðvarvegi 31 af því að fá að byggja við hús sitt.  Geti slíkt hagsmunamat því ekki hróflað við gildi umdeildrar skipulagsbreytingar og ekki verði séð að umdeild viðbygging setji nýtingu lóðar kærenda skorður er nokkru nemi.  Bent sé á að upphaflegri skipulagstillögu hafi verið breytt með tilliti til athugasemda kærenda.  Lóðarhöfum hafi verið gert skylt að draga svalir á þaki viðbyggingarinnar inn til austurs um 1,5 metra í því skyni að takmarka innsýn á lóð kærenda auk þess sem stærð glugga á gafli sé takmörkuð við 70×200 sentimetra og hann útfærður á þann veg að innsýn verði ekki bein inn á lóð kærenda.

Tekið skuli fram að mikið útsýni sé frá húsum við Rafstöðvarveg og nefnd viðbygging hefði óverulega útsýnisskerðingu í för með sér eða sem næmi 3–10º frá húsi nr. 29 við Rafstöðvarveg.  Að auki séu lóðirnar vaxnar háum trjám sem þegar skerði útsýni töluvert og muni gróðurinn og fyrirhugaður bílskúr hylja viðbygginguna að mestu séð frá lóð kærenda.

Samkvæmt framangreindndu sé ljóst að samþykkt breyting muni hafa lítil sem engin grenndaráhrif og takmarki ekki nýtingarmöguleika lóðarinnar nr. 29.  Jafnframt megi taka fram að þrátt fyrir að komist væri að þeirri niðurstöðu að breyting á skipulagi hefði í för með sér bótaskylt tjón leiði það eitt og sér ekki til ógildingar en eftir atvikum gæti komið til greiðslu bóta ef tjón yrði sannað samkvæmt 33. gr. skipulags- og byggingarlaga.

Heimilaðar framkvæmdir hafi ekki meiri grenndaráhrif á lóð kærenda en að jafnaði megi búast við þegar gerðar séu breytingar á húsum í þéttbýli, en í skipulags- og byggingarlögum sé gert ráð fyrir að sveitarstjórnir hafi afmarkaðar heimildir til þess að breyta skipulagsáætlunum sbr. t.d. 25. og 26. gr. þeirra laga.  Benda megi á að samþykkt hafi verið viðbygging við hús númer 33 við Rafstöðvarveg árið 1999 og sé sú viðbygging töluvert stærri en sú sem hér sé vélað um.

Andmæli eigenda Rafstöðvarvegar 31:  Eigendur fasteignarinnar að Rafstöðvarvegi 31 hafa komið á framfæri við úrskurðarnefndina sjónarmiðum sínum og gögnum í tilefni af kærumáli þessu og taka þeir undir sjónarmið Reykjavíkurborgar í málinu.  Benda þeir sérstaklega á að ítrekað hafi verið reynt að hafa samráð við kærendur vegna fyrirhugaðra framkvæmda sem skipulagsbreytingin taki til og komið hafi verið til móts við sjónarmið kærenda, svo sem fram komi í umsögn Reykjavíkurborgar.  Telja lóðarhafar að umdeild viðbygging muni í raun minnka innsýn frá húsi þeirra inn á suðvesturlóð kærenda þar sem fjórir gluggar á austurgafli húss þeirra muni hverfa með viðbyggingunni en á henni verði aðeins einn gluggi með engri innsýn inn á lóð kærenda og hafi verönd á þaki byggingarinnar verið færð um 1,5 metra frá þakbrún.  Auk þess verði bílskúr með flötu þaki í stað mænisþaks, sem eldra skipulag gerði ráð fyrir, sem dragi verulega úr útsýnisskerðingu kærenda og minnki skuggavarp.  Svæði það sem undir bygginguna fari hafi verið nýtt af eigendum sem útivistarsvæði og megi með hliðsjón af framansögðu færa fram rök fyrir því að framkvæmdin muni í raun draga úr grenndaráhrifum gagnvart kærendum frá því sem nú er.  Sé því mótmælt að umdeild skipulagsbreyting raski hagsmunum kærenda svo nokkru nemi.

Vettvangsskoðun:  Nefndarmenn og starfsmenn úrskurðarnefndarinnar kynntu sér staðhætti á vettvangi hinn 31. maí sl.  Viðstaddir skoðunina vou fulltrúar Reykjavíkurborgar, annar kærenda og eigendur fasteignarinnar að Rafstöðvarvegi 31.

Niðurstaða:  Fullnaðarákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur um hina kærðu deiliskipulagsbreytingu er í samræmi við 4. gr. samþykktar fyrir nefndina frá 21. mars 2002, sbr. breytingu á þeirri samþykkt frá 22. júlí 2003, en samþykktin er sett á grundvelli samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 638/2001 með síðari breytingum, sem telja verður að eigi stoð í 2. mgr. 44 gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998, svo sem henni var breytt með 1. gr. l. nr. 74/2003.

Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu, er tekur eingöngu til lóðarinnar að Rafstöðvarvegi 31, er heimiluð einnar hæðar viðbygging með kjallara, sem verður í tveggja metra fjarlægð frá lóðarmörkum kærenda í vestur.  Á þaki viðbyggingarinnar er gert ráð fyrir verönd í eins og hálfs metra fjarlægð frá þakbrún er snýr að lóð kærenda.  Er viðbyggingin 38 fermetrar að grunnfleti (4,5×9,5 m) en með heimiluðum kjallara má heildarflatarmál hennar vera 65,5 fermetrar. 

Umdeild viðbygging er ekki stór að grunnflatarmáli og stendur hún lægra en núverandi austurgafl hússins að Rafstöðvarvegi 31 þar sem háreist rishæð rís frá fyrstu hæð hússins.  Við skipulagsgerðina voru þær breytingar gerðar að fyrirhuguð verönd á þaki viðbyggingarinnar var færð um 1,5 metra frá þakbrún er snýr að lóð kærenda þannig að veröndin er 3,5 metra frá lóðamörkum umræddra húsa.  Þá er í skipulaginu kveðið á um að sá eini gluggi sem heimilaður er á gafli viðbyggingarinnar verði þannig úr garði gerður að ekki verði bein innsýn frá honum inn á lóð kærenda.  Við skipulagsbreytinguna eykst nýtingarhlutfall lóðarinnar að Rafstöðvarvegi 31 úr rúmlega 0,37 í um 0,42.  Hús kærenda og húsið að Rafstöðvarvegi 31 standa ekki andspænis hvort öðru og á lóðunum er hávaxinn trjágróður og eru fasteignirnar inn á víðáttumiklu útivistarsvæði Elliðaárdals.

Samkvæmt 75. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 skal lágmarksfjarlægð húss frá lóðarmörkum vera þrír metrar en reglugerðin heimilar í gr. 75.4 að vikið sé frá þeim fjarlægðarmörkum í skipulagi svo sem gert var með hinni umdeildu skipulagsbreytingu þar sem fjarlægð heimilaðrar viðbyggingar frá lóðamörkum er tveir metrar.  Rétt er að taka fram að húsið að Rafstöðvarvegi 31 er ekki friðað samkvæmt húsafriðunarlögum nr. 104/2001 og ekki liggur fyrir að ákvörðun um friðun hússins hafi verið tekin með heimild í þeim lögum.

Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið varðandi staðhætti, umfang viðbyggingar þeirrar sem umdeild skipulagsbreyting heimilar og skilyrði þau um hönnun sem getið er í skipulaginu, verður ekki fallist á að heimiluð bygging raski svo hagsmunum kærenda að leiða eigi til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.  Þar sem ekki liggja fyrir aðrir þeir annmarkar er raskað gætu gildi ákvörðunarinnar er ógildingarkröfu kærenda hafnað.

Úrskurður í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 6. september 2004 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi íbúðarsvæðis við Rafstöðvarveg.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________            _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                       Sesselja Jónsdóttir

34/2005 Rafstöðvarvegur

Með

Ár 2005, fimmtudaginn 9. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur og Sesselja Jónsdóttir lögfræðingur, varamaður.

Fyrir var tekið mál nr. 34/2005, kæra eiganda fasteignarinnar að Rafstöðvarvegi 29, Reykjavík á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. febrúar 2005 um að veita byggingarleyfi fyrir viðbyggingu og bílskúr við austurhlið hússins að Rafstöðvarvegi 31 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 20. apríl 2005, er barst nefndinni sama dag, kærir G, Rafstöðvarvegi 29, Reykjavík þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. febrúar 2005 að samþykkja byggingarleyfi fyrir viðbyggingu með kjallara við austurgafl parhússins að Rafstöðvarvegi 31 með inndreginni verönd á þaki byggingarinnar ásamt byggingu bílskúrs með kjallara.  Var ákvörðunin staðfest í borgarstjórn Reykjavíkur hinn 1. mars 2005.  Gerir kærandi þá kröfu að byggingarleyfið verði fellt úr gildi og var þess jafnframt krafist að heimilaðar framkvæmdir yrðu stöðvaðar þar til efnisúrlausn lægi fyrir í málinu.

Með bráðabirgðaúrskurði nefndarinnar, uppkveðnum hinn 4. maí 2005, var kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda hafnað.

Málsatvik og rök:  Hús kæranda stendur norðaustanvert við hús byggingarleyfishafa og eiga fasteignirnar sameiginleg lóðamörk.  Hinn 11. desember 1995 samþykkti skipulagsnefnd Reykjavíkur uppdrátt af íbúðarsvæði við Rafstöðvarveg þar sem lóðir voru m.a. afmarkaðar og skilmálar settir um íbúðarbyggðina.  Samkvæmt þeim uppdrætti með síðari breytingum var heimilað að reisa bílskúra á lóðum kæranda og byggingarleyfishafa.  Uppdráttur þessi og skilmálar voru staðfestir í borgarstjórn Reykjavíkur hinn 6. febrúar 1996. 

Hinn 6. september 2004 samþykkti skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkur breytingu á fyrrgreindum skipulagsuppdrætti að undangenginni grenndarkynningu skv. 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Fól sú breyting það í sér að heimilað var að reisa einnar hæðar viðbyggingu með kjallara, 38 fermetra að grunnfleti, við austurgafl hússins að Rafstöðvarvegi 31 með inndreginni verönd á þaki viðbyggingarinnar.

Við grenndarkynningu tillögunnar komu fram athugasemdir af hálfu íbúa hússins að Rafstöðvarvegi 29, þ.á.m. kæranda í máli þessu, þar sem kærandi taldi umrædda viðbyggingu ganga óhæfilega á grenndarrétt hans með útsýnisskerðingu og skertum nýtingarmöguleikum á lóð.  Taldi hann að téðar framkvæmdir myndu rýra verðgildi fasteignar hans.  Af hálfu Reykjavíkurborgar og byggingarleyfishafa var á því byggt að umdeild viðbygging hafi lítil sem engin grenndaráhrif gagnvart kæranda en komið hafi verið til móts við framkomnar athugasemdir hans með því að minnka glugga á gafli viðbyggingarinnar og færa fyrirhugaða verönd á þaki hennar um einn og hálfan metra frá þakbrún.  Var gildistaka skipulagsbreytingarinnar auglýst í B-deild Stjórnartíðinda hinn 30. september 2004 að undangenginni umsögn Skipulagsstofnunar þar sem ekki var gerð athugasemd við birtingu auglýsingar um gildistöku skipulagsbreytingarinnar. 

Skaut kærandi umræddri skipulagsákvörðun til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 11. október 2004, og krafðist ógildingar hennar.

Hinn 15. febrúar 2005 veitti byggingarfulltrúi byggingarleyfi fyrir umræddri viðbyggingu, sem heimiluð hafði verið með fyrrgreindri skipulagsbreytingu, ásamt bílskúr og var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndarinnar, eins og fram er komið, með skírskotun til þeirra raka sem færð voru fram gegn skipulagsbreytingunni.

Úrskurðarnefndin hefur fyrr í dag kveðið upp úrskurð í kærumáli nr. 56/2004 vegna deiliskipulagsbreytingarinnar er heimilaði umdeilda viðbyggingu og var kröfu um ógildingu skipulagsbreytingarinnar hrundið.  Í þeim úrskurði eru málsrök kæranda í máli þessu, Reykjavíkurborgar og eigenda Rafstöðvarvegar 31, reifuð nánar og er vísað til þeirrar umfjöllunar hér enda er í máli þessu byggt á sömu málsástæðum og rökum og í kærumálinu vegna nefndrar skipulagsbreytingar.

Niðurstaða:  Hið umþrætta byggingarleyfi heimilar m.a. byggingu um 20 fermetra bílskúrs með kjallara norðaustan við parhúsið að Rafstöðvarvegi 31.  Umrædd bílskúrsbygging á stoð í deiliskipualgi fyrir íbúðarbyggð við Rafstöðvarveg frá því að breyting var gerð á því skipulagi á árinu 1999.  Ekki er gerður ágreiningur um byggingu umrædds bílskúrs og verður því ekki fjallað frekar um þann þátt byggingarleyfisins.

Jafnframt heimilar hin kærða ákvörðun einnar hæðar viðbyggingu með kjallara, sem verður í tveggja metra fjarlægð frá lóðarmörkum kæranda í vestur.  Á þaki viðbyggingarinnar er gert ráð fyrir verönd í eins og hálfs metra fjarlægð frá þakbrún að framanverðu.  Er viðbyggingin 38 fermetrar að grunnfleti en með heimiluðum kjallara er heildarflatarmál hennar 63 fermetrar.  Á sú viðbygging stoð í skipulagsbreytingunni er tók gildi hinn 30. september 2004 og staðfest var með úrskurði nefndarinnar fyrr í dag eins og áður er að vikið.

Engin rök hafa verið færð fram fyrir ógildingu hins kærða byggingarleyfis umfram þau sem teflt var fram gegn fyrrnefndri skipulagsbreytingu.  Þar sem umdeilt byggingarleyfi er í samræmi við gildandi deiliskipulag umrædds svæðis og ekki liggja fyrir form- eða efnisannmarkar er gætu leitt til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar verður kröfu um ógildingu byggingarleyfisins hafnað.

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda, um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. febrúar 2005 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir viðbyggingu og bílskúr að Rafstöðvarvegi 31, er hafnað.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________          _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                     Sesselja Jónsdóttir

39/2005 Norðurbakki

Með

Ár 2005, fimmtudaginn 9. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur og Sesselja Jónsdóttir lögfræðingur, varamaður í nefndinni.

Fyrir var tekið mál nr. 39/2005, kæra eiganda fasteignarinnar að Vesturgötu 4, Hafnarfirði á ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar 18. janúar 2005 um að heimila niðurrif nokkurra mannvirkja við Vesturgötu og Norðurbakka Hafnarfirði.

Í málinu er nú til bráðabirgða kveðinn upp svofelldur

úrskurður
um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 10. maí 2005, er barst nefndinni hinn 13. sama mánaðar, kærir S, eigandi fasteignarinnar að Vesturgötu 4, Hafnarfirði, þá ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 18. janúar 2005 að heimila Norðurbakka ehf. Strandgötu 6, Hafnarfirði, niðurrif á húsunum við Vesturgötu 9-13 (áður Bæjarútgerðin), Vesturgötu 15 (áður Norðurstjarnan), Norðurbakka 4a (vigtarhús og vigtarþró), Norðurbakka 8 (áður vöruskemma og hafnarskemma ásamt vélaverkstæði) og Vesturgötu 19 (áður vöruskemma). 

Krefst kærandi þess að umrætt byggingarleyfi verði fellt úr gildi og framkvæmdir við niðurrif húsanna verði stöðvaðar meðan beðið sé niðurstöðu um gildi hinnar kærðu ákvörðunar.

Úrskurðarnefndin hefur leitað eftir afstöðu bæjaryfirvalda til framkominnar kröfu um stöðvun framkvæmda við niðurrif greindra mannvirkja en athugasemdir eða umsögn af hálfu Hafnarfjarðarbæjar hafa ekki borist en upplýst var, er haft var samband við bæjaryfirvöld vegna stöðvunarkröfunnar, að framkvæmdum við niðurrif hafi þá verið að mestu lokið.  Gögn vegna málsins bárust frá bæjaryfirvöldum hinn 24. maí sl.  Ekki hefur tekist að hafa samband við byggingarleyfishafa.  Verður málið nú tekið til úrskurðar hvað varðar kröfu kæranda um um stöðvun framkvæmda.

Málsatvik og rök:  Svæði það sem umræddar byggingar standa á mun hafa verið hafnarsvæði en í húsi kæranda að Vesturgötu 4 er rekinn veitingastaðurinn A. Hansen.

Hinn 26. janúar 2005 birtist í B-deild Stjórnartíðinda auglýsing um gildistöku á breytingu á Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 1995-2015 sem fólst m.a. í því að meginhluti hafnarsvæðis á Norðurbakka var breytt í íbúðarsvæði.  Þá samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar hinn 8. febrúar 2005 nýtt deiliskipulag fyrir Norðurbakka í Hafnarfirði er fól í sér breytingu á landnotkun úr hafnarsvæði í íbúðarsvæði með þjónustu- og stofnanalóð.  Tók skipulagið gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda hinn 10. maí sl.

Á kynningartíma deiliskipulagsins gerði kærandi athugasemdir við fyrirhugaða íbúðarbyggð á svæðinu og taldi hana fara of nærrri fasteign hans þar sem færi fram veitingastarfsemi sem færi alls ekki saman við fyrirhugaðar íbúðarblokkir í næsta nágrenni.

Með bréfi, dags. 21. mars 2005, skaut kærandi ákvörðun um fyrirhugaðar framkvæmdir til úrskurðarnefndarinnar og krafðist þess að allar framkvæmdir yrðu stöðvaðar og öll byggingarleyfi felld úr gildi.  Voru sömu sjónarmið tíunduð til stuðnings kröfunni og sett höfðu verið fram af kæranda við kynningu deiliskipulagsins en til viðbótar bent á að öll bílastæði við veitingastað kæranda ættu að víkja samkvæmt skipulaginu og taldi hann jafnframt ýmsa ágalla hafa verið á málsmeðferð skipulagstillögunnar.

Upplýst var á þessum tíma að umdeilt deiliskipulag hafði ekki tekið gildi og engin byggingarleyfi fyrir nýjum byggingum höfðu verið veitt af hálfu Hafnarfjarðarbæjar.

Með bréfi, dags. 10. maí sl., kærði síðan kærandi veitt byggingarleyfi fyrir niðurrifi húsa á Norðurbakka og krefst hann ógildingar byggingarleyfisins og að framkvæmdir verði stöðvaðar við niðurrif umræddra mannvirkja svo sem að framan greinir. 

Bendir kærandi á að athugasemdum hans við fyrirhugaðar framkvæmdir hafi ekki verið svarað af Hafnarfjarðarbæ en hann eigi beinna hagsmuna að gæta varðandi framkvæmdirnar.  Byggir kærandi kröfu sína á því að skipulagslegum aðdraganda hinnar kærðu ákvörðunar sé í ýmsu áfátt og brjóti gegn 10., 13., 14. eða 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Telur kærandi að umdeilt niðurrif hafi ekki verið grenndarkynnt en hann hafi gert athugasemdir við þá aðgerð, þar sem lagfæringar og frágangur eftir niðurrifið samræmist ekki kröfum hans né kröfum þeim sem miðbæjarsamtök Hafnarfjarðar hafi sett fram.

Niðurstaða:  Með gildistöku aðalskipulagsbreytingar hinn 26. janúar 2005 mun svæði því, sem umdeilt byggingarleyfi tekur til, hafa verið breytt úr hafnarsvæði í íbúðarsvæði.  Niðurrif atvinnumannvirkja á sér því stoð í gildandi aðalskipulag. 

Er krafa kæranda barst úrskurðarnefndinni munu framkvæmdir við niðurrif umræddra mannvirkja hafa verið nokkuð á veg komnar og hefur í dag verið staðfest af bæjaryfirvöldum í Hafnarfirði að verkinu sé að mestu lokið en unnið er að frágangi og hreinsun svæðisins.

Þar sem verkinu er nú að mestu lokið og framkvæmdin þykir auk þess ekki þess eðlis að varði kæranda miklu eru ekki efni til að verða við kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda.

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda er hafnað.

 

 

____________________________________
Ásgeir Magnússon

 

 

______________________________       _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                  Sesselja Jónsdóttir

 

 

56/2004 Rafstöðvarvegur

Með

Ár 2005, fimmtudaginn 9. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur og Sesselja Jónsdóttir lögfræðingur, varamaður.

Fyrir var tekið mál nr. 56/2004, kæra eigenda fasteignarinnar að Rafstöðvarvegi 29, Reykjavík á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 6. september 2004 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi íbúðasvæðis við Rafstöðvarveg, þar sem heimiluð var viðbygging við austurgafl hússins að Rafstöðvarvegi 31.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 11. október 2004, er barst nefndinni hinn 15. sama mánaðar, kæra G og G, eigendur fasteignarinnar að Rafstöðvarvegi 29, Reykjavík þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 6. september 2004 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi íbúðarsvæðis við Rafstöðvarveg er heimilaði viðbyggingu með kjallara við austurgafl parhússins að Rafstöðvarvegi 31 með inndreginni verönd á þaki byggingarinnar.  Gerir kærandi þá kröfu að nefnd deiliskipulagsbreyting verði felld úr gildi.

Málavextir:  Hús kærenda stendur norðaustanvert við húsið að Rafstöðvarvegi 31 og eiga fasteignirnar sameiginleg lóðamörk.  Hinn 11. desember 1995 samþykkti skipulagsnefnd Reykjavíkur uppdrátt af íbúðarsvæði við Rafstöðvarveg þar sem lóðir voru m.a. afmarkaðar og skilmálar settir um íbúðarbyggðina.  Samkvæmt þeim uppdrætti með áorðnum breytingum var heimilað að reisa bílskúra á lóðum nefndra fasteigna.  Uppdráttur þessi og skilmálar voru staðfestir í borgarstjórn Reykjavíkur hinn 6. febrúar 1996. 

Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 4. júní 2004 var tekin fyrir fyrirspurn eigenda fasteignarinnar að Rafstöðvarvegi 31 um hvort leyft yrði að byggja viðbyggingu og bílskúr á lóð þeirra samkvæmt framlögðum uppdrætti sem meðeigendur greindrar fasteignar höfðu samþykkt fyrir sitt leyti.  Var erindið afgreitt með svofelldri bókun:  Ekki gerð athugasemd við erindið. Umsækjandi láti vinna breytingu á deiliskipulagi sem síðan verður grenndarkynnt.

Hinn 6. september 2004 samþykkti skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkur breytingu á gildandi skipulagi svæðisins að undangenginni grenndarkynningu skv. 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 með eftirfarandi bókun:  „Kynnt tillaga samþykkt, með vísan til 4. gr. samþykktar fyrir skipulags- og byggingarnefnd, með þeirri breytingu að dregið verði úr stærð glugga til austurs á aðalhæð viðbyggingar og svalir á þaki verði inndregnar til austur sem nemur 1,5 metra til að takmarka innsýn á lóð nr. 29 við Rafstöðvarveg sbr. umsögn skipulagsfulltrúa.

Fól skipulagsbreytingin í sér að heimilað var að reisa einnar hæðar viðbyggingu með kjallara, 38 fermetra að grunnfleti, við austurgafl hússins að Rafstöðvarvegi 31 með inndreginni verönd á þaki viðbyggingarinnar.  Heimilaði skipulagið að umrædd viðbygging stæði tvo metra frá lóðarmörkum kærenda.  Við grenndarkynningu tillögunnar komu fram mótmæli frá kærendum við fyrirhugaða viðbyggingu og var framkomnum athugasemdum þeirra svarað af hálfu Reykjavíkurborgar.  Var gildistaka skipulagsbreytingarinnar auglýst í B-deild Stjórnartíðinda hinn 30. september 2004 að undangenginni umsögn Skipulagsstofnunar þar sem ekki var gerð athugasemd við birtingu auglýsingar um gildistöku skipulagsbreytingarinnar.  Skutu kærendur umræddri skipulagsákvörðun til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Hinn 15. febrúar 2005 samþykkti byggingarfulltrúinn í Reykjavík byggingarleyfi fyrir greindri viðbyggingu og bílskúr á grundvelli umrædds skipulags og staðfesti borgarstjórn Reykjavíkur leyfið hinn 1. mars 2005.  Annar kærenda í máli þessu kærði veitingu leyfisins til úrskurðarnefndarinnar hinn 20. apríl sl. og krafðist þess að heimilaðar framkvæmdir yrðu stöðvaðar þar til efnisúrlausn lægi fyrir í málinu.  Úrskurðarnefndin kvað upp bráðabirgðaúrskurð um stöðvunarkröfuna hinn 4. maí sl. þar sem henni var hafnað.

Málsrök kærenda:  Kærendur benda á að heimilaðar framkvæmdir samkvæmt hinni kærðu skipulagsbreytingu gangi óhæfilega á grenndarrétt þeirra með útsýnisskerðingu og skertum nýtingarmöguleikum á lóð sem muni rýra verðgildi fasteignar þeirra.

Heimiluð viðbygging færi austurhlið hússins að Rafstöðvarvegi 31 fjóra metra nær lóð kærenda en nú er og aðeins yrðu tveir metrar frá viðbyggingunni að mörkum umræddra lóða.  Fjarlægð milli húsa á lóðunum færi úr 11,5 í 7,5 metra.

Kærendur hafi fyrirhugað að nýta suðvestur hluta lóðar sinnar, sem umdeild viðbygging snúi að, undir heitan pott en ljóst megi vera að tilvist viðbyggingarinnar svo nærri lóðamörkum takmarki notagildi pottsins fyrir kærendur en vænta megi að samtal sem þar ætti sér stað bærist auðveldlega yfir í viðbygginguna.  Verði byggingin reist til viðbótar fyrirhuguðum bílskúr myndist nánast samfelldur steinveggur frá vegi að suðurmörkum lóðar kærenda.

Umræddar framkvæmdir muni samkvæmt framansögðu valda kærendum bæði fjárhagslegu og tilfinningalegu tjóni sem leiða eigi til þess að umdeild skipulagsbreyting nái ekki fram að ganga.

Benda kærendur loks á að kannað verði hvort útlit hússins að Rafstöðvarvegi 31 sé friðað.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu borgaryfirvalda er þess krafist að hin kærða ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar frá 6. september 2004 verði staðfest.

Reykjavíkurborg geti ekki tekið undir málsástæður kærenda varðandi áhrif hinna samþykktu viðbyggingarheimildar sem snúist eingöngu um grenndaráhrif hennar.  Með tilkomu viðbyggingarinnar verði minnsta fjarlægð milli umræddra húsa 7,5 metrar í stað 11,5 metra áður, en hafa verði í huga að húsin standi ekki andspænis hvort öðru.  Leyfð fjarlægð á milli húsa sé ekki í ósamræmi við byggðamynstur svæðisins eða almenna nýtingu lóða.

Ekki verði séð að hagsmunir kærenda af því að koma fyrir heitum potti í framtíðinni á suðvestanverðri lóð þeirra séu meiri en hagsmunir lóðarhafa að Rafstöðvarvegi 31 af því að fá að byggja við hús sitt.  Geti slíkt hagsmunamat því ekki hróflað við gildi umdeildrar skipulagsbreytingar og ekki verði séð að umdeild viðbygging setji nýtingu lóðar kærenda skorður er nokkru nemi.  Bent sé á að upphaflegri skipulagstillögu hafi verið breytt með tilliti til athugasemda kærenda.  Lóðarhöfum hafi verið gert skylt að draga svalir á þaki viðbyggingarinnar inn til austurs um 1,5 metra í því skyni að takmarka innsýn á lóð kærenda auk þess sem stærð glugga á gafli sé takmörkuð við 70×200 sentimetra og hann útfærður á þann veg að innsýn verði ekki bein inn á lóð kærenda.

Tekið skuli fram að mikið útsýni sé frá húsum við Rafstöðvarveg og nefnd viðbygging hefði óverulega útsýnisskerðingu í för með sér eða sem næmi 3–10º frá húsi nr. 29 við Rafstöðvarveg.  Að auki séu lóðirnar vaxnar háum trjám sem þegar skerði útsýni töluvert og muni gróðurinn og fyrirhugaður bílskúr hylja viðbygginguna að mestu séð frá lóð kærenda.

Samkvæmt framangreindndu sé ljóst að samþykkt breyting muni hafa lítil sem engin grenndaráhrif og takmarki ekki nýtingarmöguleika lóðarinnar nr. 29.  Jafnframt megi taka fram að þrátt fyrir að komist væri að þeirri niðurstöðu að breyting á skipulagi hefði í för með sér bótaskylt tjón leiði það eitt og sér ekki til ógildingar en eftir atvikum gæti komið til greiðslu bóta ef tjón yrði sannað samkvæmt 33. gr. skipulags- og byggingarlaga.

Heimilaðar framkvæmdir hafi ekki meiri grenndaráhrif á lóð kærenda en að jafnaði megi búast við þegar gerðar séu breytingar á húsum í þéttbýli, en í skipulags- og byggingarlögum sé gert ráð fyrir að sveitarstjórnir hafi afmarkaðar heimildir til þess að breyta skipulagsáætlunum sbr. t.d. 25. og 26. gr. þeirra laga.  Benda megi á að samþykkt hafi verið viðbygging við hús númer 33 við Rafstöðvarveg árið 1999 og sé sú viðbygging töluvert stærri en sú sem hér sé vélað um.

Andmæli eigenda Rafstöðvarvegar 31:  Eigendur fasteignarinnar að Rafstöðvarvegi 31 hafa komið á framfæri við úrskurðarnefndina sjónarmiðum sínum og gögnum í tilefni af kærumáli þessu og taka þeir undir sjónarmið Reykjavíkurborgar í málinu.  Benda þeir sérstaklega á að ítrekað hafi verið reynt að hafa samráð við kærendur vegna fyrirhugaðra framkvæmda sem skipulagsbreytingin taki til og komið hafi verið til móts við sjónarmið kærenda, svo sem fram komi í umsögn Reykjavíkurborgar.  Telja lóðarhafar að umdeild viðbygging muni í raun minnka innsýn frá húsi þeirra inn á suðvesturlóð kærenda þar sem fjórir gluggar á austurgafli húss þeirra muni hverfa með viðbyggingunni en á henni verði aðeins einn gluggi með engri innsýn inn á lóð kærenda og hafi verönd á þaki byggingarinnar verið færð um 1,5 metra frá þakbrún.  Auk þess verði bílskúr með flötu þaki í stað mænisþaks, sem eldra skipulag gerði ráð fyrir, sem dragi verulega úr útsýnisskerðingu kærenda og minnki skuggavarp.  Svæði það sem undir bygginguna fari hafi verið nýtt af eigendum sem útivistarsvæði og megi með hliðsjón af framansögðu færa fram rök fyrir því að framkvæmdin muni í raun draga úr grenndaráhrifum gagnvart kærendum frá því sem nú er.  Sé því mótmælt að umdeild skipulagsbreyting raski hagsmunum kærenda svo nokkru nemi.

Vettvangsskoðun:  Nefndarmenn og starfsmenn úrskurðarnefndarinnar kynntu sér staðhætti á vettvangi hinn 31. maí sl.  Viðstaddir skoðunina vou fulltrúar Reykjavíkurborgar, annar kærenda og eigendur fasteignarinnar að Rafstöðvarvegi 31.

Niðurstaða:  Fullnaðarákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur um hina kærðu deiliskipulagsbreytingu er í samræmi við 4. gr. samþykktar fyrir nefndina frá 21. mars 2002, sbr. breytingu á þeirri samþykkt frá 22. júlí 2003, en samþykktin er sett á grundvelli samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 638/2001 með síðari breytingum, sem telja verður að eigi stoð í 2. mgr. 44 gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998, svo sem henni var breytt með 1. gr. l. nr. 74/2003.

Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu, er tekur eingöngu til lóðarinnar að Rafstöðvarvegi 31, er heimiluð einnar hæðar viðbygging með kjallara, sem verður í tveggja metra fjarlægð frá lóðarmörkum kærenda í vestur.  Á þaki viðbyggingarinnar er gert ráð fyrir verönd í eins og hálfs metra fjarlægð frá þakbrún er snýr að lóð kærenda.  Er viðbyggingin 38 fermetrar að grunnfleti (4,5×9,5 m) en með heimiluðum kjallara má heildarflatarmál hennar vera 65,5 fermetrar. 

Umdeild viðbygging er ekki stór að grunnflatarmáli og stendur hún lægra en núverandi austurgafl hússins að Rafstöðvarvegi 31 þar sem háreist rishæð rís frá fyrstu hæð hússins.  Við skipulagsgerðina voru þær breytingar gerðar að fyrirhuguð verönd á þaki viðbyggingarinnar var færð um 1,5 metra frá þakbrún er snýr að lóð kærenda þannig að veröndin er 3,5 metra frá lóðamörkum umræddra húsa.  Þá er í skipulaginu kveðið á um að sá eini gluggi sem heimilaður er á gafli viðbyggingarinnar verði þannig úr garði gerður að ekki verði bein innsýn frá honum inn á lóð kærenda.  Við skipulagsbreytinguna eykst nýtingarhlutfall lóðarinnar að Rafstöðvarvegi 31 úr rúmlega 0,37 í um 0,42.  Hús kærenda og húsið að Rafstöðvarvegi 31 standa ekki andspænis hvort öðru og á lóðunum er hávaxinn trjágróður og eru fasteignirnar inn á víðáttumiklu útivistarsvæði Elliðaárdals.

Samkvæmt 75. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 skal lágmarksfjarlægð húss frá lóðarmörkum vera þrír metrar en reglugerðin heimilar í gr. 75.4 að vikið sé frá þeim fjarlægðarmörkum í skipulagi svo sem gert var með hinni umdeildu skipulagsbreytingu þar sem fjarlægð heimilaðrar viðbyggingar frá lóðamörkum er tveir metrar.  Rétt er að taka fram að húsið að Rafstöðvarvegi 31 er ekki friðað samkvæmt húsafriðunarlögum nr. 104/2001 og ekki liggur fyrir að ákvörðun um friðun hússins hafi verið tekin með heimild í þeim lögum.

Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið varðandi staðhætti, umfang viðbyggingar þeirrar sem umdeild skipulagsbreyting heimilar og skilyrði þau um hönnun sem getið er í skipulaginu, verður ekki fallist á að heimiluð bygging raski svo hagsmunum kærenda að leiða eigi til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.  Þar sem ekki liggja fyrir aðrir þeir annmarkar er raskað gætu gildi ákvörðunarinnar er ógildingarkröfu kærenda hafnað.

Úrskurður í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 6. september 2004 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi íbúðarsvæðis við Rafstöðvarveg.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________            _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                       Sesselja Jónsdóttir

44/2004 Sefgarðar

Með

Ár 2005, fimmtudaginn 9. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Sesselja Jónsdóttir lögfræðingur, varamaður í nefndinni.

Fyrir var tekið mál nr. 44/2004, kæra eiganda hússins að Sefgörðum 16, Seltjarnarnesi á synjun skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarnesbæjar frá 8. júlí 2004 um að eiganda hússins að Sefgörðum 24 verði gert skylt að fjarlægja skjólveggi á mörkum lóðarinnar að Sefgörðum 24 og lóðanna nr. 16, 18 og 26 við Sefgarða. 

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 2. ágúst 2004, sem barst nefndinni hinn 3. s.m., kærir B, Sefgörðum 16, Seltjarnarnesi synjun skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarnesbæjar frá 8. júlí 2004 um að eiganda hússins að Sefgörðum 24 verði gert skylt að fjarlægja skjólveggi á mörkum lóðarinnar að Sefgörðum 24 og lóðanna nr. 16, 18 og 26 við Sefgarða. 

Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar hinn 21. júlí 2004. 

Kærandi krefst þess að úrskurðarnefndin endurskoði ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar frá 8. júlí 2004 og taki að því búnu til greina kröfu kæranda um að skjólveggir að Sefgörðum 24, sem reistir eru við mörk lóða Sefgarða nr. 16, 18 og 26, skuli rifnir eða endurgerðir í samræmi við byggingarreglugerð nr. 441/1998.

Málavextir:  Kærandi er eigandi einbýlishúss að Sefgörðum 16 á Seltjarnarnesi og mun hafa byggt húsið á árinu 1979.  Þannig hagar til að vesturmörk lóðar kæranda liggja að mestu að baklóð hússins nr. 26 við Sefgarða og er lág timburgirðing milli lóðanna.  Þar sem lóðir standast ekki á til fulls liggja umrædd lóðamörk einnig að baklóð hússins nr. 24 við Sefgarða á 7,5-8 metra bili til norðurs frá suðvesturhorni lóðar kæranda.  Við upphaflegan frágang lóðar sinnar setti eigandi Sefgarða 24 niður nokkrar trjáplöntur á lóðamörkum þar sem lóð hans liggur að lóð kæranda en reisti síðar allháan skjólvegg úr timbri inni á lóð sinni, samsíða mörkum lóðanna, en í um það bil 30 cm fjarlægð frá þeim.  Kveður eigandi Sefgarða 24 þennan vegg hafa verið reistan á árinu 1979 en kærandi telur það hafa verið nokkru seinna, líklega einhvern tímann á árabilinu 1982 til 1984.  Eftir að umræddur veggur var reistur hefur eigandi Sefgarða 24 ekki getað komist um lóð sína að trjám þeim er hann hafði sett niður á lóðamörkum þar sem skjólveggurinn skilur ræmu þá er þau standa á frá lóðinni.  Kærandi kveðst hafa krafist lagfæringar á þessum frágangi fljótlega eftir að skjólveggirnir hafi verið reistir en á þeim tíma hafi hann ekki búið í húsi sínu heldur hafi það verið leigt út.  Hann hafi flutt í húsið á árinu 1991 og hafi ári síðar ítrekað kröfur sínar um úrbætur við byggingarfulltrúa.  Hafi honum þá verið tjáð að ekkert væri hægt að aðhafast í málinu, en við endurgerð skjólveggjanna skyldu þeir reistir í samræmi við gildandi reglur.  Kveðst kærandi hafa sæst á þetta að svo stöddu.  Hann kveðst hafa ítrekað kröfur sínar við byggingarfulltrúa á árinu 1994.

Með bréfi, dags. 2. júlí 1999, til byggingarnefndar Seltjarnarnesbæjar, kom kærandi á framfæri þeirri skoðun sinni að skjólveggirnir þörfnuðust orðið endurgerðar þar sem þeir væru farnir að sveiflast óeðlilega mikið í hvassviðrum.  Með vísan til þessa krafðist kærandi flutnings og rétts frágangs á skjólveggjunum til samræmis við gildandi reglur, ef byggingarnefndin teldi að skjólveggirnir væru ekki reistir í samræmi við lög og reglur, sem hefðu gilt og giltu um slík mannvirki.  Ennfremur krafðist hann þess að trén á lóðamörkunum yrðu fjarlægð, svo ganga mætti þannig frá lóðamörkum að möl og annað lauslegt skriði ekki stöðugt inn á lóð hans.  Hafa deilur staðið milli eigenda fasteignanna að Sefgörðum 16 og 24 um skjólvegg þennan frá þessum tíma og hefur úrskurðarnefndin m.a. kveðið upp þrjá úrskurði, í málum nr. 23/2000, 18/2002 og 49/2002, vegna þessa ágreinings.  Hafa hinar kærðu ákvarðanir verið felldar úr gildi í tveimur þessara mála en hinu þriðja var vísað frá úrskurðarnefndinni.

Eftir að seinni efnisúrskurður úrskurðarnefndarinnar gekk, í byrjun september 2003, var kæranda tilkynnt að skipulags- og mannvirkjanefnd myndi endurupptaka mál hans og að við málsmeðferðina yrði stuðst við upphaflegt erindi hans frá 2. júlí 1999.  Jafnframt var eiganda Sefgarða 24 kynnt þessi ákvörðun og honum gefinn kostur á að koma á framfæri andmælum sínum við framkomnar kröfur til skipulags- og mannvirkjanefndar. 
 
Með bréfi til skipulags- og mannvirkjanefndar, dags. 23. febrúar 2004, kom kærandi á framfæri við nefndina athugasemdum við sjónarmið eiganda Sefgarða 24 í málinu og ítrekaði jafnframt kröfur sínar og málsástæður.  Áréttaði kærandi í lok bréfs síns að hann krefðist þess sem endranær að skjólveggirnir Sefgörðum 24, sem reistir væru við mörk lóða Sefgarða nr. 16, 18 og 26, yrðu rifnir eða endurgerðir í samræmi við byggingarreglugerð nr. 441/1998.  Þá væri þess og krafist að trjágróður á mörkum lóðanna nr. 16 og 24 yrði fjarlægður. 

Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar hinn 8. júlí 2004 var erindi kæranda tekið til afgreiðslu og eftirfarandi bókað af því tilefni:  „Lögð fram greinargerð bæjarlögmanns um Sefgarða.  Í samræmi við greinargerðina er það ákvörðun nefndarinnar að hafnað er kröfu eiganda Sefgarða 16 um að eigandi Sefgarða 24 verði gert skylt að fjarlægja girðingu á mörkum lóðanna Sefgarða 16 og 24.  Eiganda Sefgarða 24 ber að fjarlægja gróður á lóðamörkum utan girðingar.“

Kærandi hefur skotið synjun skipulags- og mannvirkjanefndar um að eiganda Sefgarða 24 verði gert skylt að fjarlægja skjólveggi á lóðarmörkum lóðanna nr. 16, 18 og 24 við Sefgarða til úrskurðarnefndarinnar svo sem fyrr greinir.  Af hálfu eiganda Sefgarða 24 hefur komið fram að hann uni ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar um að fjarlægja skuli gróður á lóðamörkum, utan girðingar, og kemur sá þáttur ákvörðunarinnar því ekki til umfjöllunar í málinu.

Málsrök kæranda:  Kærandi heldur því fram að hinir umdeildu skjólveggir séu byggingarleyfisskyld mannvirki og hafi verið það á þeim tíma er þeir hafi verið reistir.  Fram hafi komið að ekki hafi verið sótt um leyfi fyrir skjólveggjunum eins og skylt hafi verið samkvæmt reglugerð sem í gildi hafi verið á þeim tíma sem þeir hafi verið reistir, sbr. bréf byggingarfulltrúa, dags. 11. nóvember 1999. 

Þá heldur kærandi því fram að fullyrðing eiganda Sefgarða 24 um að skjólveggirnir hafi verið reistir á árinu 1979 sé röng.  Í bréfi byggingarfulltrúa, dags. 14. september 2001, komi fram að skjólveggirnir hafi verið reistir fyrir u.þ.b. 19 árum sem þýði í kringum 1982 en ekki á árinu 1979. 

Kærandi leggur á það áherslu að krafa hans beinist að því að allir skjólveggirnir, þ.e. þeir sem snúi að lóðarmörkum hans lóðar sem og lóðar nr. 18, verði fjarlægðir.

Kærandi bendir á að eigandi lóðarinnar nr. 24 við Sefgarða haldi því ranglega fram að hann hafi ekki vitað um neinar athugasemdir kæranda fyrr en á árinu 2000.  Annað komi fram í bréfi kæranda til byggingarfulltrúa frá 2. júlí 1999.  Hið rétta sé að eftir að eigandi lóðarinnar nr. 24 hafi reist skjólveggina hafi hann ítrekað og í leyfisleysi farið inn á lóð kæranda til að annast tré sem hann sjálfur hafi gróðursett á lóðarmörkunum. 

Kærandi mótmælir þeim skilningi eiganda lóðarinnar nr. 24 að þá fyrst hafi komið til álita að byggingaryfirvöld fyrirskipuðu niðurrif veggjanna eftir að tjón varð á honum í óveðri hinn 11. desember 2001.  Þær aðstæður sem eigandi Sefgarða 24 skírskoti til hafi verið fyrir hendi allt frá því að skjólveggirnir hafi verið reistir.  Þegar árið 1999 hafi kærandi vakið athygli byggingarfulltrúa á því að endurgerð skjólveggjanna væri löngu orðin tímabær vegna lélegs frágangs. 

Eigandi Sefgarða 24 hafi ekki fært neinar sönnur á fjárhagslegt óhagræði af því að koma skjólveggjunum í þannig horf að þeir samræmist lögum, annað hvort með endurgerð eða niðurrifi, enda séu þeir hagsmunir aldrei svo miklir að þeir víki til hliðar lögvörðum rétti kæranda. 

Kærandi heldur því fram að hin kærða ákvörðun staðfesti í fyrsta lagi að eigandi Sefgarða 24 hafi girt fyrir aðgengi sitt að mörkum lóðar sinnar og kæranda.  Ekki sé hægt að leggja annan skilning í ákvörðunina en að kærandi ráði nú einn frágangi lóðarmarkanna að fengnu samþykki byggingaryfirvalda. 

Í öðru lagi staðfesti ákvörðunin að eigandi Sefgarða 24 hafi reist skjólveggina án leyfis byggingaryfirvalda og í andstöðu við þágildandi byggingarreglugerð.  Rök Seltjarnarnesbæjar fyrir því að veggirnir fái að standa áfram séu þau að kærandi hafi sýnt af sér tómlæti og að mjög vindasamt sé á Nesinu.  Ekki sé hægt að leggja annan skilning í þetta en að byggingaryfirvöldum hafi frá upphafi verið rétt að leggja blessun sína yfir mannvirkið. 

Í þriðja lagi staðfesti ákvörðunin að skjólveggirnir séu ekki í samræmi við núgildandi byggingarreglugerð en að við endurgerð skuli fylgt ákvæðum hennar.  Nefndin taki enga afstöðu til þess fyrir hvaða tíma eða við hvaða aðstæður endurgerð eigi að fara fram.  Ekki sé hægt að leggja annan skilning í þetta en að skjólveggirnir, sem reistir hafi verið fyrir rúmlega 20 árum, geti staðið til frambúðar. 

Í fjórða lagi staðfesti hin kærða ákvörðun að samþykkt byggingarnefndar frá 24. apríl 2002, þar sem eiganda Sefgarða 24 hafi verið gert að rífa niður eða endurgera þann hluta skjólveggjanna sem snúi að lóð kæranda, hafi verið óþarflega íþyngjandi og fái ekki staðist meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins.  Skoðun nefndarinnar sé svohljóðandi:  „Skipulags- og mannvirkjanefnd telur að þáverandi byggingarnefnd hafi borið að skora á eiganda veggjarins að lagfæra hann og koma honum í það horf að af honum stafaði ekki fokhætta og hafi aðeins haft heimild til þess að krefjast þess að veggurinn yrði fjarlægður ef ekki yrði orðið við þeirri áskorun.“  Ekki sé hægt að leggja annan skilning í þetta en að eigandi Sefgarða 24 hafi sinnt áskorunum byggingaryfirvalda og komið skjólveggjunum í ásættanlegt horf. 

Í gögnum sem kærandi lagði fyrir úrskurðarnefndina í fyrri kærumálum vegna hinna umdeildu skjólveggja komi fram staðhæfingar hans um að ekkert samráð hafi verið haft við hann þegar skjólveggirnir hafi verið byggðir og að hann hafi mótmælt byggingu þeirra þegar í upphafi.  Sjónarmið um friðhelgi einkalífsins hefðu átt að nægja til þess að byggingaryfirvöld hefðu haft afskipti af málinu.  Kærandi hafi aftur á móti ákveðið að hafast ekkert að fyrr en að endurbyggingu skjólveggjanna kæmi.  Með bréfi, dags. 2. júlí 1999, hafi hann vakið athygli byggingarnefndar á því að skjólveggirnir þörfnuðust orðið endurgerðar þar sem þeir sveifluðust mikið í hvassviðrum.  Því stæðu einnig öryggissjónarmið til þess að taka ætti kröfu hans til greina.        

Málsrök Seltjarnarnesbæjar:  Af hálfu Seltjarnarnesbæjar er bent á að skjólveggir þeir sem hér um ræði hafi eigandi Sefgarða 24 reist umhverfis bakgarð sinn á árinu 1979.  Lóðir húsanna að Sefgörðum 16 og 24 skarist á 7,5 – 8 metra kafla en að öðru leyti snúi þessir skjólveggir að öðrum aðliggjandi lóðum.  Ekki liggi fyrir umboð í málinu frá eiganda Sefgarða 26 til kæranda þess efnis að hann fari með hagsmuni hans í þessu máli og hafi sá aðili ekki óskað eftir samaðild í málinu, og sé ekki unnt að verða við kröfu kæranda varðandi þá eign. 

Eigandi Sefgarða 24 hafi ekki leitað heimildar byggingaryfirvalda á Seltjarnarnesi fyrir skjólveggjunum þegar þeir hafi verið reistir, sem þó hafi verið skylt á þeim tíma, sbr. þágildandi byggingarreglugerð nr. 292/1979, gr. 5.11.  Byggingaryfirvöld hafi látið það átölulaust þótt veggurinn risi enda hafi þau alla jafna á þeim tíma heimilað eigendum fasteigna að reisa girðingu umhverfis lóðir sínar, jafnvel þótt hæð þeirra færi yfir þau mörk sem sett hafi verið í þágildandi byggingarreglugerð (einn metri).  Ástæða þessa hafi verið sú að á Seltjarnarnesi sé mjög vindasamt sem kunnugt sé og skilningur hafi verið hjá byggingaryfirvöldum á því að íbúarnir reyndu að skapa sér skjól.  Þetta hafi þó verið háð því að eigendur aðliggjandi lóða hafi ekki gert við það athugasemdir.
 
Enginn eigenda aðliggjandi lóða hafi gert athugasemd við umræddan skjólvegg þegar hann hafi verið reistur og aldrei síðan, fyrr en erindi kæranda hafi borist þáverandi byggingarnefnd með bréfi, dags. 2. júlí 1999, um 20 árum eftir að skjólveggurinn hafi verið reistur.  Því verði að telja að kærandi hafi á sínum tíma samþykkt skjólvegginn og hann geti ekki svo löngu síðar krafist þess að hann verði fjarlægður af þeirri ástæðu að hann samrýmist ekki ákvæðum núgildandi byggingarreglugerðar.  Það sé hins vegar jafn augljóst að þegar komi að endurnýjun skjólveggjarins þá verði það ekki gert nema að gætt verði ákvæða núgildandi byggingarreglugerðar nr. 441/1998, sbr. 67. gr., en þar sé mælt fyrir um samþykki byggingarnefndar og eigenda aðliggjandi lóða fyrir girðingu á mörkum lóða.

Með tilliti til þessa, verði að telja að eigandi skjólveggjanna hafi haft heimild til þess að lagfæra veggina eftir tjón sem varð á þeim í hvassviðri aðfararnótt 11. desember 2001.  Skipulags- og mannvirkjanefnd telji að þáverandi byggingarnefnd hafi borið að skora á eiganda veggjanna að lagfæra þá og koma í það horf að af þeim stafaði ekki fokhætta og hafi aðeins haft heimild til að krefjast þess að veggirnir yrðu fjarlægðir ef ekki yrði orðið við þeirri áskorun.  

Málsrök eiganda hússins að Sefgörðum 24:  Áður en hin kærða ákvörðun var tekin leitaði skipulags- og mannvirkjanefnd eftir afstöðu eiganda hússins að Sefgörðum 24.  Af hans hálfu er fyrir úrskurðarnefndinni vísað til þeirra sjónarmiða er koma fram í svari hans til skipulags- og mannvirkjanefndarinnar. 
 
Eigandinn vísar til þess að umræddur veggur hafi staðið í u.þ.b. 21 ár án þess að nokkur maður hafi hreyft athugasemdum vegna hans.  Veggurinn hafi verið reistur á árinu 1979 og hafi á þeim tíma verið í fullu samræmi við byggingarreglugerð.  Eigandinn leggi á það áherslu, að hann hafi ekki heyrt um neinar athugasemdir frá kæranda varðandi skjólveggina fyrr en á árinu 2000.  Hann geti hins vegar ekki vitað um það, hvað kæranda og öðrum mönnum hafi farið á milli, þ.m.t. byggingarfulltrúa eða byggingaryfirvöldum, en honum hafi aldrei verið gert viðvart um neinar kvartanir eða athugasemdir varðandi þennan skjólvegg fyrr en á árinu 2000.

Eftir óveður sem gengið hafi yfir Seltjarnarnes hinn 11. desember 2001, hafi skemmdir orðið á skjólveggnum, og í framhaldi af því hafi byggingarfulltrúi komið á staðinn og skoðað umræddan vegg.  Í fundargerð byggingarnefndar hinn 24. apríl 2002 sé m.a. haft eftir byggingarfulltrúa að hann hafi daginn eftir umrætt óveður skoðað skjólvegginn og að hann hafi lagt að eiganda veggjarins að nota tækifærið og fjarlægja hann.  Síðar segi í fundargerðinni:  „Ekki féllst eigandinn á það, heldur myndi hann ganga tryggilega frá veggnum til bráðabirgða og rífa hann í sumar og endurbyggja.“  Þessari fullyrðingu sé mótmælt af hálfu eiganda hússins að Sefgörðum 24 enda sé hún í mótsögn við önnur gögn sem fyrir liggi í málinu. 

Eigandi hússins nr. 24 við Sefgarða heldur því fram að hann hafi aldrei fengið kröfur eða tilmæli frá byggingaryfirvöldum á Seltjarnarnesi þess efnis að hann breytti umræddum skjólveggjum eða fjarlægði eftir óveðrið í desember 2001.  Hann hafi hins vegar látið gera við skemmdir á þeim þannig að ekki væri hætta á að sams konar veður mundi aftur valda tjóni.  Þetta hafi hann gert eftir að hafa ráðfært sig við umhverfisverkfræðing.

Því sé harðlega mótmælt að skemmdir á skjólveggjunum hafi orðið slíkar í óveðrinu 11. desember 2001 að skapast hafi skilyrði til þess að skylda eiganda hússins nr. 24 við Sefgarða til að rífa veggina eða gera á þeim breytingar þannig að þeir yrðu í samræmi við skilyrði byggingarreglugerðar sem tekið hafi gildi 19 árum eftir að veggirnir hafi verið byggðir.  Gerð veggjanna sé óbreytt frá því þeir fyrst hafi verið reistir að öðru leyti en því að þeir hafi verið styrktir.  Gagnvart kæranda séu veggirnir nákvæmlega eins og þeir hafi alltaf verið.  Engin skynsamleg ástæða sé því til að hrófla við veggjunum, en slíkum tilfæringum myndi fylgja verulegur kostnaður.  Sé þess krafist að við ákvörðun í málinu verði litið til hagsmunamats, þ.e. hverju það varði kæranda að fá veggjunum breytt og hvað slík ákvörðun myndi þýða fyrir eiganda fasteignarinnar nr. 24 við Sefgarða.

Minnt sé á að lóðirnar nr. 16 og 24 við Sefgarða liggi aðeins saman að hluta, en lóðin nr. 24 liggi einnig að lóðunum nr. 18, nr. 22 og nr. 26.  Skjólveggirnir umlyki alla baklóð hússins nr. 24.  Lengd skjólveggjarins á mörkum lóðanna nr. 16 og 24 sé aðeins 7,5 m.  Enginn eigenda fasteignanna nr. 18, 22 og 26 við Sefgarða hafi nokkru sinni kvartað yfir veggjunum.

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér aðstæður á vettvangi við meðferð fyrra kæumáls um margnefnda skjólveggi.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um synjun skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness á kröfu kæranda um að eiganda Sefgarða 24 verði gert að fjarlægja skjólveggi að Sefgörðum 24, sem hann mun hafa reist við mörk lóða Sefgarða nr. 16, 18 og 26.  Ágreiningur er í málinu um hvenær umræddir veggir  hafi verið reistir en af málsgögnum verður ráðið að það hafi í fyrsta lagi getað verði á árinu 1979 en að kærandi telji það hafa verið á árabilinu 1982 til 1984.  Ekki nýtur gagna um það hvenær kærandi gerði fyrst athugasemdir við byggingaryfirvöld eða eiganda skjólveggjanna um byggingu þeirra en formleg krafa um afskipti byggingaryfirvalda af veggjunum kom fyrst fram af hálfu kæranda í bréfi hans til byggingarnefndar, dags. 2. júlí 1999, en þá voru liðin að minnsta kosti full 15 ár frá því veggirnir voru reistir og jafnvel allt að 20.

Af hálfu kæranda hefur aðeins að takmörkuðu leyti verið vísað til réttarheimilda til stuðnings kröfugerð hans en skilja verður málatilbúnað hans á þann veg að hann telji annars vegar hægt að reisa kröfu um brottnám skjólveggjanna á þeirri forsendu að gerð þeirra hafi verið byggingarleyfisskyld framkvæmd gerð í óleyfi og hins vegar að ástand þeirra hafi verið orðið með þeim hætti að tjón hafi getað hlotist af.  Tilvist veggjanna gangi gegn lögvörðum eignarrétti, friðhelgi og grenndarrétti kæranda og eigi hann rétt á að veggirnir verði fjarlægðir eða endurgerðir í samræmi við ákvæði núgildandi byggingarreglugerðar nr. 441/1998.

Fallast má á með kæranda að byggingarleyfi hefði þurft fyrir hinum umdeildu skjólveggjum samkvæmt byggingarreglugerð nr. 292/1979 með síðari breytingum, sem í gildi var er veggirnir voru reistir, og að gerð þeirra hafi því verið ólögmæt.  Þrátt fyrir þetta verður ekki fallist á að kærandi geti nú krafist brottnáms veggjanna á þeirri forsendu að þeir hafi á sínum tíma verið reistir án heimildar byggingaryfirvalda.  Samkvæmt 5. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 getur byggingarnefnd að vísu ávallt mælt fyrir um að fjarlægja skuli ólöglega byggingu eða byggingarhluta, en vandséð er að heimildarákvæði þessu verði beitt um minni háttar mannvirki sem reist hefur verið löngu fyrir gildistöku laganna.  Koma þar bæði til sjónarmið um tómlæti og þær skorður sem við því eru reistar að lagaheimildum um þvingunarúrræði f þessu tagi verði beitt með afturvirkum hætti.  Var og í eldri byggingarlögum gert ráð fyrir því að leitað væri dóms um heimild til að grípa til úrræða vegna óleyfisframkvæmda, en aldrei mun hafa verið leitað atbeina dómstóla til að koma fram kröfu um brottnám skjólveggja þeirra sem um er deilt í málinu.  Telur úrskurðarnefndin að kærandi hafi af framangreindum sökum ekki getað krafist atbeina byggingaryfirvalda á árinu 1999 eða síðar til að fá veggina fjarlægða með vísan til þess að um óleyfisframkvæmd hafi verið að ræða.  Þykir að auki mega líta til þess í þessu sambandi að leyfi til byggingar girðinga á lóðamörkum var ekki háð samþykki beggja lóðarhafa á þeim tíma þegar veggirnir voru reistir.

Samkvæmt 4. málsgrein 41. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 geta byggingaryfirvöld lagt fyrir eiganda mannvirkis að bæta úr því sem áfátt kann að þykja varðandi ástand mannvirkja eða ef af þeim er talin stafa hætta.  Er unnt að grípa til aðgerða samkvæmt 57. grein laganna til að knýja fram úrbætur sé slíkum fyrirmælum ekki sinnt.  Á byggingarfulltrúi, samkvæmt ákvæðinu, mat um það hvort slíkar aðstæður séu fyrir hendi sem í ákvæðinu er lýst.  Hefur byggingarfulltrúi metið það svo að ekki stafi hætta af umræddum skjólveggjum.  Hefur því mati ekki verið hnekkt og þykir ekki ástæða til endurskoða matið.  Verður því lagt til grundvallar að ekki séu fyrir hendi þær aðstæður er leiða eigi til þess að byggingaryfirvöld knýi á um brottnám eða endurgerð margnefndra veggja.  Verður kröfu kæranda um brottnám veggjanna með tilliti til öryggis því hafnað.

Í hinni kærðu samþykkt er ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um brottnám skjólveggja á mörkum lóðanna nr. 18 og 26 við Sefgarða.  Má fallast á með skipulags- og mannvirkjanefnd að ekki hafi verið efni til að taka afstöðu til þessara liða í kröfugerð kæranda, enda áttu lóðarhafar nefndra lóða enga aðild að málinu og höfðu ekki heldur veitt kæranda umboð til neinnar kröfugerðar í þessu efni.  Verður ekki heldur séð að kærandi hafi átt lögvarinna hagsmuna að gæta varðandi skjólveggi á mörkum þessara tilgreindu lóða og lóðarinnar nr. 24 við Sefgarða.  Verður það því ekki látið hafa áhrif á gildi hinnar kærðu ákvörðunar þótt ekki hafi verið tekin afstaða til þessara kröfuliða við úrlausn málsins.

Eins og að framan er rakið féllst skipulags- og mannvirkjanefnd á kröfu kæranda um að eiganda Sefgarða 24 yrði gert að fjarlægja trjágróður á lóðamörkum utan skjólveggjanna og unir hann þeirri ákvörðun.  Þykir því, með hliðsjón af því sem að framan er rakið, mega staðfesta ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness frá 8. júlí 2004 í málinu í heild sinni og verður kröfum kæranda um ógildingu tilgreindra þátta hennar því hafnað.
   
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarnesbæjar frá 8. júlí 2004 varðandi skjólveggi á mörkum lóðarinnar að Sefgörðum 24 og lóðanna nr. 16, 18 og 26 við Sefgarða á Seltjarnarnesi.

 

___________________________ 
Ásgeir Magnússon

_____________________________     ___________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                             Sesselja Jónsdóttir    

40/2004 Suðurgata

Með

Ár 2005, fimmtudaginn 12. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 40/2004, kæra íbúa að Suðurgötu 37, Hafnarfirði á ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 22. júní 2004 um að samþykkja breytingu á notkun hússins að Suðurgötu 35 úr atvinnuhúsnæði í íbúðarhúsnæði. 

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, er barst nefndinni hinn 15. júlí 2004, kæra J og S, eigendur hússins að Suðurgötu 37, Hafnarfirði, þá ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 22. júní 2004 að samþykkja breytta notkun hússins að Suðurgötu 35 úr atvinnuhúsnæði í íbúðarhúsnæði.  Ákvörðunin var staðfest á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar hinn 29. júní 2004.  Verður að skilja erindi kærenda svo að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir:  Húsin að Suðurgötu 35 og 37 munu á sínum tíma hafa verið byggð sem tvö aðskilin hús en verið sambyggð á árinu 1938 yfir sund er var milli húsanna og voru húsin þá í eigu sama eiganda.  Ekki virðist hafa verið gengið frá breyttum lóðarmörkum milli húsanna af þessu tilefni.  Húsið að Suðurgötu 35 mun hafa verið nýtt sem geymsluhúsnæði og verslun um langt skeið en síðar verið starfrækt þar hárgreiðslustofa.  Frá árinu 1994 var húsnæðið nýtt til íbúðar.  Í fasteignaskrá var húsnæðið skráð sem vörugeymsla á árinu 1986 en á árinu 1994 var skráningunni breytt í íbúðarhúsnæði.  Umrætt svæði hefur ekki verið deiliskipulagt en í aðalskipulagi er svæðið merkt sem íbúðarsvæði.

Á árinu 2002 fóru kærendur fram á það við bæjaryfirvöld að húsið að Suðurgötu 35 yrði rifið en ella að umrædd hús yrðu aðskilin með sundi eins og hafi verið fyrir 1938.  Bentu þeir á að þeir væru að greiða lóðarleigu fyrir mun stærri lóð en þeir hefðu umráð yfir.  Var erindinu synjað en lagt til að að ofgreidd lóðarleiga yrði endurgreidd frá árinu 1993 og að lóðarmörkum fasteignanna yrði breytt og sú breyting grenndarkynnt.  Kærendur munu ekki hafa sæst á breytta lóðarskipan svo sem lagt var til.

Hinn 2. mars 2004 samþykki embætti byggingarfulltrúa umsókn frá eiganda hússins að Suðurgötu 35 um að breyta notkun hússins úr atvinnu- í íbúðarhúsnæði.  Skipulags- og byggingarráð Hafnarfjarðar felldi þá afgreiðslu úr gildi hinn 30. mars 2004 en samþykkti að senda erindið í grenndarkynningu skv. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Fresti til að koma að athugasemdum lauk hinn 21. maí 2004 og bárust athugasemdir frá íbúum að Suðurgötu 37 og 37b.  Snérust þær um lóðarmörk, ónæði, skort á bílastæðum, ástand byggingar og leiksvæði á lóð.

Að lokinni grenndarkynningu tók skipulags- og byggingarráð málið til afgreiðslu hinn 22. júní og samþykkti fyrir sitt leyti breytta notkun hússins að Suðurgötu 35 með vísan til umsagnar skipulags- og byggingarfulltrúa bæjarins, þar sem á því var byggt að breytingin hefði ekki í för með sér hagsmunaröskun gangvart kærendum.  Var umhverfis- og tæknisviði bæjarins falið að afgreiða erindið til Skipulagsstofnunar og voru byggingarteikningar síðan samþykktar hinn 23. júlí 2004.

Málsrök kærenda:  Kærendur vísa til þess að er þeir eignuðust húsið að Suðurgötu 37 á árinu 1979 hafi húsið að Suðurgötu 35 verið nýtt undir lager og síðar undir hárgreiðslustofu.  Eftir að hún hætti rekstri hafi húsnæðið verið notað til íbúðar án heimildar og hafi kærendur gert athugasemdir af því tilefni við bæjaryfirvöld sem hafi ekkert aðhafst í málinu.  Benda kærendur á að stigagangur þeirra húss gangi inn í húsið að Suðurgötu 35, eftir að byggt var yfir sund milli húsanna á sínum tíma, en hvorki sé einangrun né milliveggur milli húsanna og brjóti sú tilhögun gegn ákvæðum byggingarreglugerðar um brunavarnir og hávaðamengun.

Húsið að Suðurgötu 37 hafi verið byggt á árinu 1907 og sé búið að leggja í mikinn kostnað við að gera húsið upp sem skráð hafi verið sem einbýli en ekki parhús.  Suðurgata 35 sé ferkantað steinhús sem passi engan veginn inn í umhverfið og standi húsið inn á lóð kærenda og á skorti nægjanleg bílastæði.  Munur sé á því hvort umrætt húsnæði sé aðeins notað til atvinnurekstrar á daginn eða til íbúðar allan sólarhringinn.

Kærendur hafi átt í viðræðum við bæjaryfirvöld um margra ára skeið vegna umdeilds húss og m.a. óskað eftir því að húsin yrðu skilin að eða húsið að Suðurgötu 35 yrði rifið en í engu hafi verið komið til móts við óskir kærenda og hagsmunir þeirra verið fyrir borð bornir.  Geti þeir ekki sætt sig við að húsið að Suðurgötu 35 verði nýtt til íbúðar.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar:  Bæjaryfirvöld benda á að umrædd hús hafi verið sambyggð er kærendur festu kaup á húsnæði sínu að Suðurgötu 37 á árinu 1979.  Aðeins sé gert ráð fyrir einni íbúð í húsinu að Suðurgötu 35 og muni bílastæðaþörf ekki aukast við þá breytingu.  Ekki verði séð að breytingin raski hagsmunum kærenda í ljósi þess að ekki sé tryggt að notkun hússins undir atvinnustarfsemi feli í sér minna ónæði eða röskun gagnvart kærendum en ef húsið væri notað til íbúðar.  Röksemdir kærenda um ástand hússins með tilliti til brunavarna og hávaðamengunar snerti ekki breytta notkun hússins heldur sé þar um tæknileg atriði að ræða.

Umrædd breyting hafi verið grenndarkynnt í samræmi við 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og samræmist breytingin gildandi aðalskipulagi.  Ekki séu rök til þess að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Vettvangsskoðun:  Nefndarmenn og starfsmenn úrskurðarnefndarinnar fóru á vettvang hinn 13. apríl 2005 og kynntu sér staðhætti.  Viðstaddur var annar kærenda en enginn var mættur af hálfu embættis byggingarfulltrúa, sem tilkynnt hafði verið um vettvangsskoðunina, en ekki tókst að hafa upp á núverandi eiganda hússins að Suðurgötu 35. 

Niðurstaða:  Hin kærða ákvörðun heimilar að húsið að Suðurgötu 35, sem er sambyggt húsi kærenda, verði nýtt sem ein íbúð með þeim innréttingum og frágangi sem fram kemur á aðaluppdrætti sem samþykktur var hinn 23. júlí 2004.  Ákvörðunin breytir ekki lóðamörkum milli húsanna.

Heimiluð notkun er í samræmi við gildandi aðalskipulag Hafnarfjarðar en umrætt svæði hefur ekki verið deiliskipulagt.  Ekki liggur fyrir í málinu hvort og þá hvaða notkun bæjaryfirvöld hafa áður heimilað varðandi umdeilt hús en fyrir liggur að það hefur verið nýtt með ýmsum hætti á liðnum áratugum.

Kærendur styðja málskot sitt þeim rökum að hin kærða ákvörðun gangi á hagsmuni þeirra.  Nýting umrædds húss muni valda meira ónæði en fyrir hafi verið, frágangur milli umræddra húsa sé ekki í samræmi við reglur um brunavarnir og hljóðvist, skortur sé á bílastæðum og gangi húsið að Suðurgötu 35 inn á lóð húss kærenda.

Almennt verður að telja að samskonar notkun húsnæðis á sama svæði sé til þess fallin að draga úr hagsmunaröskun og árekstrum milli einstakra fasteignaeigenda.  Ekki verður því fallist á að notkun hússins að Suðurgötu 35 til íbúðar gangi fremur á grenndarrétt kærenda en ef húsið yrði nýtt undir atvinnu- eða þjónustustarfsemi sem oft fylgir mikil umferð viðskiptavina og getur slík starfsemi staðið langt fram á kvöld og um helgar.  Þá standa kröfur núgildandi byggingarreglugerðar um bílastæði ekki í vegi fyrir hinni kærðu ákvörðun, sbr. gr. 12.8 í nefndri reglugerð, enda var umrætt hús reist á fyrstu áratugum síðustu aldar.

Samkvæmt samþykktum aðalteikningum hins kærða byggingarleyfis er gert ráð fyrir að veggur milli húss kærenda og Suðurgötu 35 sé með brunamótstöðu EI 90, sem uppfyllir kröfur byggingarreglugerðar þar að lútandi skv. gr. 103.3.  Ber byggingarfulltrúa að hafa eftirlit með að kröfum að þessu leyti samkvæmt byggingarleyfinu og byggingarreglugerð sé fullnægt, sbr. 40. og 41. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Að öllu þessu virtu verða ekki taldir þeir annmarkar á hinni kærðu ákvörðun að ógildingu varði og er kröfu kærenda þar að lútandi hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 22. júní 2004, að samþykkja breytta notkun hússins að Suðurgötu 35, Hafnarfirði úr atvinnuhúsnæði í íbúðarhúsnæði.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________               _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                         Ingibjörg Ingvadóttir

34/2005 Rafstöðvarvegur

Með

Ár 2005, miðvikudaginn 4. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Jóhannes Rúnar Jóhannsson hrl. varaformaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 34/2005, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. febrúar 2005 um að veita byggingarleyfi fyrir viðbyggingu og bílskúr við austurhlið hússins að Rafstöðvarvegi 31 í Reykjavík.

Í málinu er nú til bráðabirgða kveðinn upp svofelldur

úrskurður
um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 20. apríl 2005, er barst nefndinni sama dag, kærir G, Rafstöðvarvegi 29, Reykjavík þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að samþykkja byggingarleyfi fyrir viðbyggingu með kjallara við austurgafl parhússins að Rafstöðvarvegi 31 með inndreginni verönd á þaki byggingarinnar ásamt byggingu bílskúrs með kjallara.  Þessi ákvörðun var staðfest í borgarstjórn Reykjavíkur hinn 1. mars 2005.  Gerir kærandi þá kröfu að byggingarleyfið verði fellt úr gildi og heimilaðar framkvæmdir stöðvaðar þar til efnisúrlausn liggi fyrir í málinu.

Hinn 6. september 2004 samþykkti skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkur breytingu á deiliskipulagi umrædds svæðis þar sem fyrrgreind viðbygging er heimiluð og skaut kærandi máls þessa þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar með bréfi er barst nefndinni hinn 15. október 2004.

Umsögn Reykjavíkurborgar vegna greindrar skipulagskæru og umþrætts byggingarleyfis barst úrskurðarnefndinni hinn 2. maí sl., en gefa þarf kæranda kost á að tjá sig um hana.  Með hliðsjón af því og þeirri staðreynd að undirbúningur framkvæmda var þegar hafinn er byggingarleyfishafa varð kunnugt um kæruna verður ekki dregið að taka afstöðu til kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda enda er málið enn ekki tækt til efnisúrlausnar.  Verður hér því einungis tekin afstaða til kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda og málið reifað með hliðsjón af því.

Málsatvik og rök:  Hús kæranda stendur norðaustanvert við hús byggingarleyfishafa og eiga fasteignirnar sameiginleg lóðamörk.  Hinn 11. desember 1995 samþykkti skipulagsnefnd Reykjavíkur uppdrátt af íbúðarsvæði við Rafstöðvarveg þar sem lóðir voru m.a. afmarkaðar og skilmálar settir um íbúðarbyggðina.  Samkvæmt þeim uppdrætti var heimilað að reisa bílskúra á lóðum kæranda og byggingarleyfishafa.  Uppdráttur þessi og skilmálar voru staðfestir í borgarstjórn Reykjavíkur hinn 6. febrúar 1996. 

Hinn 6. september 2004 samþykkti skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkur breytingu á fyrrgreindum skipulagsuppdrætti að undangenginni grenndarkynningu skv. 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Fól sú breyting það í sér að heimilað var að reisa einnar hæðar viðbyggingu með kjallara, 38 fermetra að grunnfleti, við austurgafl hússins að Rafstöðvarvegi 31 með inndreginni verönd á þaki viðbyggingarinnar. Við grenndarkynningu tillögunnar komu fram athugasemdir af hálfu íbúa hússins að Rafstöðvarvegi 29, þ.á m. kæranda í máli þessu, þar sem kærandi taldi umrædda viðbyggingu ganga óhæfilega á grenndarrétt hans með útsýnisskerðingu og skertum nýtingarmöguleikum á lóð.  Taldi hann að téðar framkvæmdir myndu rýra verðgildi fasteignar hans.  Af hálfu Reykjavíkurborgar og byggingarleyfishafa er á því byggt að umdeild viðbygging hafi lítil sem engin grenndaráhrif gagnvart kæranda en komið hafi verið til móts við framkomnar athugasemdir hans með því að minnka glugga á gafli viðbyggingarinnar og færa fyrirhugaða verönd á þaki hennar um einn og hálfan metra frá þakbrún.  Var gildistaka skipulagsbreytingarinnar auglýst í B-deild Stjórnartíðinda hinn 30. september 2004 að undangenginni umsögn Skipulagsstofnunar þar sem ekki var gerð athugasemd við birtingu auglýsingar um gildistöku skipulagsbreytingarinnar.  Skaut kærandi umræddri skipulagsákvörðun til úrskurðarnefndarinnar með kröfu um ógildingu hennar eins og fyrr greinir.

Hinn 15. febrúar 2005 veitti byggingarfulltrúi byggingarleyfi fyrir umræddri viðbyggingu, sem heimiluð hafði verið með fyrrgreindri skipulagsbreytingu, ásamt bílskúr og var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndarinnar með skírskotun til þeirra raka sem færð voru fram gegn skipulagsbreytingunni.  Hefur Reykjavíkurborg mótmælt kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda með sömu rökum og færð voru fram í svörum borgarinnar við framkomnum athugasemdum kæranda við meðferð fyrrgreindrar skipulagsbreytingar.  Byggingarleyfishafi hefur bent á að hann hafi þegar verið búinn að semja um framkvæmd verksins og undirbúningur hafinn þegar honum varð kunnugt um málskot kæranda á skipulagsbreytingunni og veittu byggingarleyfi og myndi stöðvun verksins óhjákvæmilega hafa í för með sér verulegt óhagræði og fjártjón fyrir hann.

Niðurstaða:  Hið umþrætta byggingarleyfi heimilar byggingu um 20 fermetra bílskúrs norðaustan við parhúsið að Rafstöðvarvegi 31 með kjallara.  Umrædd bílskúrsbygging á stoð í fyrrgreindum uppdrætti fyrir íbúðarbyggð við Rafstöðvarveg sem samþykktur var fyrir gildistöku núgildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, en meta verður uppdráttinn sem gildan deiliskipulagsuppdrátt fyrir umrætt svæði samkvæmt 11. tl. bráðabirgðaákvæðis greindra laga.  Jafnframt er heimiluð einnar hæðar viðbygging með kjallara, sem verður í tveggja metra fjarlægð frá lóðarmörkum kæranda í vestur.  Á þaki viðbyggingarinnar er gert ráð fyrir verönd í eins og hálfs metra fjarlægð frá þakbrún að framanverðu.  Er viðbyggingin 38 fermetrar að grunnfleti en með heimiluðum kjallara er heildarflatarmál hennar 63 fermetrar  Á sú viðbygging stoð í skipulagsbreytingunni er tók gildi hinn 30. september 2004 og sætt hefur kæru til úrskurðarnefndarinnar.  Samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi verður heildarbyggingarmagn á lóðinni að Rafstöðvarvegi 31 473,6 fermetrar en lóðin er 1124 fermetrar.  Fer nýtingarhlutfall lóðarinnar því í 0,42.

Umdeild viðbygging er ekki stór að grunnflatarmáli og stendur hún lægra en núverandi austurgafl hússins að Rafstöðvarvegi 31 þar sem háreist rishæð rís frá fyrstu hæð hússins.  Verða grenndaráhrif byggingarinnar því ekki talin veruleg með hliðsjón af umfangi hennar.  Eins og málið liggur nú fyrir og í ljósi aðstæðna sem raktar hafa verið þykja ekki efni til, með hliðsjón af hagsmunum málsaðila, að stöðva þegar hafnar framkvæmdir þar til efnisniðurstaða liggur fyrir í kærumálum kæranda.  Frekari framkvæmdir samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi eru hins vegar á ábyrgð og áhættu byggingarleyfishafa.

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi er hafnað.

 

____________________________________
Jóhannes Rúnar Jóhannsson

 

______________________________           _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                      Ingibjörg Ingvadóttir

20/2005 Hörpugata

Með

Ár 2005, miðvikudaginn 4. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Jóhannes Rúnar Jóhannsson hrl., varaformaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 20/2005, kæra eiganda fasteignarinnar að Hörpugötu 1, Reykjavík á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 18. nóvember 2004 um að veita leyfi til að byggja einlyft einbýlishús á lóðinni nr. 2 við Hörpugötu.

Í málinu er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 15. mars 2005, er barst nefndinni sama dag, kærir Á, Hörpugötu 1, Reykjavík ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 18. nóvember 2004 um að veita leyfi til að byggja einlyft einbýlishús á lóðinni nr. 2 við Hörpugötu.  Hin kærða ákvörðun var staðfest af borgarstjórn Reykjavíkur hinn 7. desember 2004.

Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Með bréfi, dags. 23. mars 2005, var byggingarleyfishafa gerð grein fyrir kærunni og gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum í málinu fyrir 22. apríl 2005, en ekkert svar hefur borist frá honum við erindi nefndarinnar.

Af hálfu borgaryfirvalda er krafist frávísunar kærumálsins með þeim rökum að kærufrestur hafi verið liðinn er kæran barst úrskurðarnefndinni og þykir rétt, með vísan til ákvæða 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að taka málið sérstaklega til úrskurðar um frávísunarkröfu borgaryfirvalda.  Var kæranda gert kunnugt um framkomna frávísunarkröfu með bréfi, dags. 12. apríl 2005, og veittur frestur til 26. sama mánaðar til að koma að andmælum, en ekkert svar hefur borist frá kæranda af því tilefni.  Er málið nú tekið til úrlausnar um frávísunarkröfu Reykjavíkurborgar og verður í úrskurði þessum aðeins gerð grein fyrir málsatvikum og málsrökum aðila að því marki sem nauðsynlegt þykir við úrlausn frávísunarþáttar málsins.

Málavextir:  Forsaga máls þessa er sú að  í nóvember 1997 samþykktu borgaryfirvöld að skipta lóðinni nr. 1 við Hörpugötu í tvær lóðir.  Var jafnframt, að sögn borgaryfirvalda, samþykkt deiliskipulag fyrir lóðina nr. 2 við Hörpugötu, sem skipt var út úr lóðinni nr. 1.
Hinn 27. júlí 2004 barst embætti byggingarfulltrúa umsókn lóðarhafa um leyfi til byggingar húss á lóðinni nr. 2 við Hörpugötu og var umsókninni vísað til grenndarkynningar vegna breytinga frá áður gerðu skipulagi, sem borgaryfirvöld mátu smávægilegar.  Fólst í breytingunum að fallið var frá byggingu bílgeymslu á lóðarmörkum að Hörpugötu 1 en þess í stað gert ráð fyrir að þrjú bílastæði yrðu sunnan við húsið.  Jafnframt var gert ráð fyrir að nýbyggingin yrði með flötu þaki í stað mænisþaks eins og gert hafði verið ráð fyrir í skipulaginu. 

Athugasemdir bárust frá kæranda og lutu þær einkum að nálægð nýbyggingarinnar við hús kæranda að Hörpugötu 1 og að innkeyrslum að húsum og bílskúrum að Hörpugötu 1, 2, 3 og 4, sem kærandi taldi þröngar og að hætta gæti skapast af umferð ökutækja á svæðinu.  Athugasemdum þessum var svarað í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 15. september 2004, en hið umdeilda byggingarleyfi var síðan veitt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 16. nóvember 2004.  

Með bréfi, dags. 18. nóvember 2004, var kæranda tilkynnt að umsókn um leyfi til byggingar húss að Hörpugögu 2 hefði verið lögð fram á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 16. nóvember 2004.  Jafnframt sagði í bréfinu að samþykkt byggingarfulltrúa væri háð staðfestingu borgarstjórnar og að tilkynnt yrði tafarlaust ef staðfesting fengist ekki.  Loks var í bréfinu vakin athygli á ákvæðum 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 ásamt 8. gr. sömu laga sem fylgdu í afriti kæranda til upplýsingar.

Af málsgögnum verður ráðið að kærandi hafi ítrekað athugasemdir sínar og ritað byggingaryfirvöldum bréf, sem svarað var með bréfi skipulagsfulltrúa, dags. 28. janúar 2005.  Vildi kærandi ekki una ákvörðun borgaryfirvalda og skaut málinu því til  úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 15. mars 2005, svo sem að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er á því byggt að verulega hafi skort á að henni væri leiðbeint um rétt sinn af hálfu borgaryfirvalda.  Hafi henni m.a. verið sagt í viðtali við borgarfulltrúa hinn 7. desember 2005 að ekkert væri hægt að gera í málinu þar sem byggingarfulltrúi hefði samþykkt að veita hið umdeilda byggingarleyfi.  Það hafi ekki verið fyrr en komið var fram í marsmánuð 2005 sem máli hennar hafi verði sýnd athygli og henni verið bent á að snúa sér til úrskurðarnefndarinnar, sem þá hafi verið gert.  Allt fram til þess tíma hafi þeir aðilar sem kærandi hafi haft samband við hjá Reykjavíkurborg varðandi málið ítrekað fullyrt að ekkert væri hægt að gera í málinu.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Í greinargerð borgaryfirvalda um frávísunarkröfu þeirra er á það bent að fullir þrír mánuðir hafi verið liðnir frá staðfestingu borgarstjórnar á hinu umdeilda leyfi þegar kæra í málinu hafi borist úrskurðarnefndinni.  Þó hafi kæranda írekað verið leiðbeint um kæruheimild, kærufrest og kærustjórnvald, m.a. með bréfum byggingarfulltrúa, dags. 18. og 29. nóvember 2004, og bréfi skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. 30. nóvember 2004.  Kæranda hafi jafnframt verið gerð grein fyrir því með bréfi, dags. 29. nóvember 2004 að afskiptum byggingarfulltrúa af málinu væri lokið nema að því leyti er sneri að framkvæmd verksins.  Hins vegar hafi erindi kæranda í bréfi til byggingarfulltrúa, dags. 23. nóvember 2004, verið framsent skipulagsfulltrúa til frekari meðferðar vegna ýmissa atriða í bréfinu er ekki varði starfssvið byggingarfulltrúa.  Skipulagsfulltrúi hafi svarað umræddum atriðum í bréfi kæranda með umsögn til byggingarfulltrúa, dags. 28. janúar 2005, sem kæranda hafi verið send til upplýsingar með bréfi, dags. 1. febrúar 2005.  Sé augljóst af framansögðu að kæra í málinu hafi borist of seint og sé því ítrekuð krafa Reykjavíkurborgar um frávísun málsins.

Niðurstaða:  Samkvæmt 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar vegna ákvarðana byggingarnefnda og sveitarstjórna einn mánuður frá því að kæranda er kunnugt um afgreiðslu sveitarstjórnar.  Verður að telja að ákvarðanir sem byggingarfulltrúi tekur á grundvelli samþykktar um embættisafgreiðslur og staðfestar eru í sveitarstjórn, falli einnig hér undir, enda fer byggingarfulltrúi þá með vald sem byggingarnefndum er annars falið að lögum.  Var frestur til að kæra hina umdeildu ákvörðun því einn mánuður frá því kæranda var kunnugt um staðfestingu hennar.

Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 18. nóvember 2004,  var kæranda tilkynnt að umsókn um byggingarleyfi að Hörpugötu 2 hefði verið lögð fram á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa þann 16. nóvember 2004.  Ekki er í bréfinu berum orðum sagt hvaða afgreiðslu umsóknin hafi fengið en af því verður þó helst ráðið að hún hafi verið samþykkt.  Í niðurlagi bréfsins segir svo:  „Athygli yðar er vakin á ákvæðum 4. mgr. 39. gr. byggingarlaga nr. 73/1997 ásamt 8. gr. sömu laga sem fylgja hér með í afriti yður til upplýsingar.“

Með bréfi skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. 30. nóvember 2004, var kæranda tilkynnt að tillaga að fyrirhugaðri byggingu að Hörpugötu 2 yrði til endanlegrar afgreiðslu á fundi borgarstjórnar 7. desember 2004.  Jafnframt var gerð grein fyrir því að unnt væri að kæra ávörðun borgaryfirvalda í málinu til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála og að kærufrestur væri einn mánuður.

Samkvæmt því sem að framan er rakið var kæranda ítrekað bent á kæruheimild og kærustjórnvald og var því fullnægt skilyrðum 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um það efni.  Þykir ekki skipta máli þótt finna megi að þeirri málsmeðferð byggingarfulltrúa að senda kæranda afrit úr lagatexta, í stað þess að orða kæruheimildina í texta bréfsins, þegar til þess er litið að skilmerkilega var gerð grein fyrir kæruheimildinni í bréfi skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. 30. nóvember 2004.  Var kæranda því kunnugt um hina kærðu ákvörðun undir lok nóvember 2004 og að staðfesting borgarstjórnar væri fyrirhuguð hinn 7. desember 2004.  Verður að leggja til grundvallar að upphaf kærufrests miðist í síðasta lagi við 7. desember 2004, en frá þeim degi voru liðnir rúmir þrír mánuðir er kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni.  Var kærufrestur þá löngu liðinn, enda er hann aðeins einn mánuður í umræddu tilviki eins og þegar hefur verið rakið.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveðið á um að vísa beri kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti, nema afsakanlegt verði talið að hún hafi ekki borist fyrr eða að veigamiklar ástæður mæli með því að hún verið tekin fyrir.  Verður ekki talið að neinar þær ástæður hafi verið fyrir hendi er leiði til þess að afsakanlegt hafi verið hversu seint kæran barst, enda hafði kæranda ítrekað verið gerð grein fyrir því hvert beina ætti kærunni og hver kærufresturinn væri.  Verður ekki heldur talið að það skipti máli í þessu sambandi þótt skipulagsfulltrúi hafi svarað síðbúnu erindi kæranda með umsögn, dags. 28. janúar 2005, enda var áréttað af hálfu byggingarfulltrúa að umfjöllun um byggingarleyfið væri lokið.  Var kæranda því ekki rétt að líta á síðari afskipti skipulagsfulltrúa sem ígildi endurupptöku málsins.  Leið þar að auki meira en mánuður frá því kæranda var kynnt umsögn skipulagsfulltrúa og hefði kærufrestur því einnig verið liðinn þótt afskipti skipulagsfulltrúa hefðu verið talin hafa áhrif á kærufrestinn.

Loks verður ekki séð að neinar veigamiklar ástæður séu fyrir hendi er leiði til þess að taka eigi kæruna til meðferðar á grundvelli undantekningarákvæðis 2. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda sæta undantekningarákvæði málsgreinarinnar þröngri lögskýringu.

Með hliðsjón af framansögðu ber samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Jóhannes R. Jóhannsson

______________________________               _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                          Ingibjörg Ingvadóttir

35/2004 Strandvegur

Með

Ár 2005, fimmtudaginn 7. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 35/2004, kæra byggingarleyfishafa að fasteigninni Strandvegi 7, Garðabæ á ákvörðun byggingarnefndar Garðabæjar frá 23. apríl 2004 um að synja beiðni kæranda um breytingu á gildandi byggingarleyfi fasteignarinnar, er fólst í því að fella brott millihurðir í forstofum íbúða umrædds húss. 

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 25. maí 2004, er barst nefndinni hinn 1. júní s.á., kærir B ehf., byggingarleyfishafi að fasteigninni Strandvegi 7, Garðabæ, þá ákvörðun byggingarnefndar Garðabæjar frá 23. apríl 2004 að synja beiðni hans um breytingu á byggingarleyfi fasteignarinnar er fólst í því að fella brott millihurðir í forstofum íbúða umrædds húss.  Ákvörðunin var staðfest á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar hinn 6. maí 2004.  Skilja verður erindi kæranda svo að krafist sé ógildingar á hinni kærðu ákvörðun.

Málavextir:  Á fundi byggingarnefndar Garðabæjar hinn 10. október 2003 var kæranda veitt byggingarleyfi fyrir þriggja til fjögurra hæða 13 íbúða fölbýlishúsi að Strandvegi 7 í Garðabæ.  Á samþykktum teikningum var gert ráð fyrir millihurðum í forstofum íbúða, en gengið er inn í þær úr sameiginlegu stigahúsi fjölbýlishússins.

Hinn 24. apríl 2004 tók byggingarnefnd bæjarins fyrir umsókn kæranda um breytingu á greindu byggingarleyfi er fólst m.a. í því að fella brott millihurðir í forstofum.  Var umsóknin afgreidd með svofelldri bókun:  „Synjað.  Vegna athugasemda varðandi lofthljóðeinangrun milli íbúðar og rýmis utan hennar.“  Var kæranda tilkynnt um afgreiðslu þessa með bréfi, dags. 12. maí 2004, að aflokinni staðfestingu bæjarstjórnar Garðabæjar á afgreiðslu byggingarnefndar og skaut hann málinu til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi telur lofthljóðeinangrun milli stigahúss umrædds fjölbýlishúss og einstakra íbúða uppfylla skilyrði byggingarreglugerðar nr. 441/1998 þótt millihurð í forstofu yrði felld brott.  Séu því ekki rök til þess að hafna umsókn hans um þá breytingu á grundvelli ónógrar lofthljóðeinagrunar.

Við hönnun hússins að Strandvegi 7 hafi góð hljóðvist verið sérstaklega tryggð.  Allir innveggir milli íbúða séu 200 millimetrar að þykkt með hljóðeinangrun meiri eða jafnt og 55 desibel og plötur hafi hljóðeinangrun sem sé meiri eða jafnt og 57 desibel.  Hljóðeinangrunargildi í forstofu íbúða hússins sé á bilinu 43-48 desibel en krafan, eins og hún hafi hingað til almennt verið túlkuð, sé að hljóðeinangrun sé meiri eða jafnt og 39 desibel.

Í gr. 173.1 í byggingarreglugerð komi fram að vegið hljóðeinangrunargildi fyrir lofthljóð milli forstofu, innan við ganghurð, og sameiginlegs gangs eða stigahúss skuli vera meiri eða jafnt og 39 desibel.  Krafa byggingarnefndar Garðabæjar virðist hins vegar vera að lofthljóðeinangrun í því tilfelli þurfi að vera meira eða jafnt og 52 desibel.

Með hliðsjón af því misræmi sem komið sé upp á túlkun byggingaryfirvalda sveitarfélaga á byggingarreglugerð að þessu leyti og með vísan til meðalhófsreglu stjórnsýslulaga sé máli þessu skotið til úrskurðarnefndarinnar.

Málsrök Garðabæjar:  Af hálfu sveitarfélagsins er þess krafist að hin kærða ákvörðun standi óröskuð.

Ákvörðun byggingarnefndar, um að gera kröfu um millihurðir í forstofu til að tryggja lofthljóðeinangrun, byggi á skýrum viðmiðum sem byggingaraðilar eigi að uppfylla skv. grein 173.1 í byggingarreglugerð.

Kærandi hafi á engan hátt sýnt fram á að þau viðmið geti talist uppfyllt ef felld sé niður krafa um millihurðir í forstofum umrædds fjölbýlishúss.

Ákvæði byggingarreglugerðar um lofthljóðeinangrun séu sett til að vernda heilsu manna gagnvart hávaða og eigi íbúðareigendur rétt á að þeim ákvæðum sé framfylgt.

Niðurstaða:  Hin kærða ákvörðun fól í sér synjun á þeirri breytingu á byggingarleyfi hússins að Strandvegi 7, Garðabæ, að fella brott millihurðir í forstofu íbúða fjölbýlishússins með skírskotun til athugasemda varðandi lofthljóðeinangrun milli íbúðar og rýmis utan hennar.  Ekki liggur fyrir í gögnum málsins hverjar þessar athugasemdir voru og ekki er vikið að þeim í umsögn Garðabæjar vegna kærumálsins.  Þar kemur þó fram að krafa um millihurð í forstofu styðjist við kröfur um lofthljóðeinangrun skv. gr. 173.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998.

Í nefndri grein byggingarreglugerðar, sem er í 8. kafla hennar um hollustuhætti, er að finna töflu þar sem tilgreindar eru lágmarksviðmiðanir vegins hljóðeinangrunargildis fyrir lofthljóð í mismunandi tegundum húsnæðis.  Eru leiðbeiningargildi þar tilgreind innan sviga.  Þar er gerð sú almenna lágmarkskrafa um fjölbýlishús að hljóðeinangrunargildi milli íbúðar og rýmis utan hennar skuli vera 52 (55) desibel.  Slakað er á þessari kröfu hvað varðar hljóðeinangrunargildi milli forstofu eða rýmis innan við ganghurð og sameiginlegs gangs eða stigahúss þar sem viðmiðunargildið er 39 desibel.  Í tilvísunargrein um það viðmiðunargildi er tekið fram að almennt megi telja að krafan sé uppfyllt með hurð í hljóðeinangrunarflokki 35 desibel ef skilveggurinn sjálfur er með a.m.k. 10 desibela betri hljóðeinangrun en hurðin.  Ekki er í reglugerðinni að finna kröfu um að tvær hurðir þurfi að vera milli stigagangs og meginrýmis íbúðar í fjölbýlishúsi til þess að greindu skilyrði um lofthljóðeinangrun sé uppfyllt. 

Með vísan til þess sem rakið hefur verið liggja ekki fyrir neinar lögmætar ástæður fyrir hinni kærðu ákvörðun og ber því að fella hana úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og vegna tafa við gagnaöflun.

Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun byggingarnefndar Garðabæjar frá 23. apríl 2004, að synja beiðni kæranda um breytingu á byggingarleyfi fasteignarinnar að Strandvegi 7, Garðabæ, er felld úr gildi.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________        _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                   Ingibjörg Ingvadóttir

34/2004 Réttindamál

Með

Ár 2005, fimmtudaginn 7. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 32/2004, kæra H, byggingarfræðings, á þeirri ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjanesbæ frá 12. maí 2004 að hafna því að taka til yfirferðar burðarþols- og lagnauppdrætti sem áritaðir eru af kæranda.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, er barst nefndinni hinn 19. maí 2004, kærir H, byggingarfræðingur, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjanesbæ frá 12. maí 2004 að hafna því að taka til yfirferðar burðarþols- og lagnauppdrætti sem áritaðir eru af kæranda.  Verður að skilja málatilbúnað kæranda á þann veg að hann krefjist ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Málavextir:  Kærandi útskrifaðist sem byggingarfræðingur frá BTH í Horsens í Danmörku hinn 10. júní 1988 og hlaut leyfi iðnaðarráðherra til að nota starfsheitið byggingarfræðingur með leyfisbréfi, útgefnu 8. ágúst sama ár.  Hann kveðst hafa starfað við gerð aðal- og séruppdrátta á Teiknistofunni Garðastræti 17 á árunum 1988 til 1990. 

Með bréfi, dags. 14. ágúst 1990, veitti félagsmálaráðherra kæranda löggildingu „...til að gera aðaluppdrætti og séruppdrætti að húsum og öðrum mannvirkjum, sbr. 12. gr. byggingarlaga nr. 54/1978.“  Kveðst kærandi hafa rekið Teiknistofuna Örk í Keflavík frá árinu 1989 og hafi hann fengist við ráðgjöf, skipulag, hönnun og eftirlit.  Stærsti hluti starfseminnar felist í gerð aðaluppdrátta og stöku sinnum hönnun burðarþols og lagna í einbýlishús, raðhús og sumarbústaði.

Hinn 10. maí 2004 lagði kærandi fyrir byggingarfulltrúann í Reykjanesbæ sökkulteikningar einbýlishúss sem kærandi kveðst sjálfur hafa verið að byggja og hafi hann gert og ábyrgst aðaluppdrætti og burðarþols- og lagnauppdrætti.  Byggingarfulltrúi tilkynnti kæranda með bréfi, dags. 12. maí 2004, að hann teldi sér ekki heimilt að taka til yfirferðar burðarþols- og lagnauppdrætti kæranda þar sem gerð slíkra uppdrátta væri ekki á verksviði byggingarfræðinga.  Vísaði byggingarfulltrúi og til bréfs umhverfisráðuneytisins, dags. 15. mars 2002, þar sem svarað er fyrirspurn byggingarfulltrúa um rétt byggingarfræðings til að gera séruppdrætti, en af bréfinu verður ráðið að fyrirspurnin hafi lotið að réttarstöðu kæranda í máli þessu.

Í niðurlagi bréfs byggingarfulltrúa frá 12. maí 2004 er kæranda bent á að ágreiningsmálum á sviði skipulags- og byggingarmála megi skjóta til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála og skaut kærandi málinu til nefndarinnar með ódagsettu bréfi sem barst nefndinni hinn 19. maí 2004 eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að hann hafi fengið löggildingu ráðherra til að gera aðal- og séruppdrætti.  Ekki sé hægt að fallast á þá túlkun byggingarfulltrúa að með séruppdráttum sé átt við deiliuppdrætti tengda aðaluppdráttum, enda vandséð að þeir sem hafi löggildingu til að gera aðaluppdrætti þurfi einnig sérstaka löggildingu til gerðar þeirra deiliuppdrátta, sem séu hluti aðaluppdrátta.

Málsrök byggingarfulltrúa:  Af hálfu byggingarfulltrúa er á það bent að í 12. gr. byggingarlaga nr. 54/1978, sem við eigi í máli þessu, sé kveðið á um að rétt til að gera aðaluppdrætti og séruppdrætti af húsum og öðrum mannvirkjum hafi arkitektar, byggingarfræðingar, tæknifræðingar og verkfræðingar, hver á sínu sviði.  Að mati byggingarfulltrúa séu burðarþols- og lagnauppdrættir ekki á verksviði byggingarfræðinga og sé þeim því ekki heimilt að leggja slíka uppdrætti fyrir.  Þessi skilningur fái m.a. stoð í bréfi umhverfisráðuneytisins frá 15. mars 2002, þar sem fram komi það álit að notkun hugtaksins séruppdrættir í framkvæmd laganna hafi almennt byggt á þeim skilningi að séruppdrættir væru deiliuppdrættir einstakra hluta aðaluppdrátta og að almennt hafi verið tekið fram ef verið væri að veita heimild til að gera burðarþols- og lagnauppdrætti.  Af þessum sökum telji byggingarfulltrúi sér ekki heimilt að taka við til yfirferðar burðarþols- og lagnauppdráttum sem áritaðir séu af kæranda.

Niðurstaða:  Samkvæmt 2. mgr. 40. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 ákveður byggingarfulltrúi í samræmi við byggingarreglugerð hvaða hönnunargögn skuli lögð fram vegna byggingarleyfis.  Gengur hann úr skugga um að þau séu í samræmi við þær reglur er gilda um viðkomandi framkvæmd og áritar uppdrætti um samþykkt á þeim.  Eru nánari ákvæði um þessar starfsskyldur byggingarfulltrúa í 9. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998.

Telja verður að meðal þess sem byggingarfulltrúa beri að gæta við afgreiðslu hönnunargagna sé að þau stafi frá aðilum er hlotið hafi löggildingu til gerðar þeirra.  Verður því að telja að það hafi verið á valdsviði hans að taka afstöðu til þess hvort kærandi hefði tilskilin réttindi og löggildingu til að gera burðarþols- og lagnauppdrætti og að ákvörðun um að hafna viðtöku slíkra uppdrátta frá kæranda hafi verið lokaákvörðun á lægra stjórnsýslustigi, sem sæti kæru til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála.  Verður fyrirliggjandi ágreiningur um hina kærðu ákvörðun því tekinn til efnislegrar úrlausnar.

Eins og að framan er rakið hlaut kærandi löggildingu félagsmálaráðherra hinn 14. ágúst 1990 „…til að gera aðaluppdrætti og séruppdrætti að húsum og öðrum mannvirkjum, sbr. 12. gr. byggingarlaga nr. 54/1978“, eins og segir í löggildingarbréfinu. 

Með umræddu bréfi voru kæranda veitt atvinnuréttindi, sem njóta lögverndar, m.a. á grundvelli 75. gr. stjórnarskár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944.  Tók löggildingin ótvírætt til séruppdrátta, en þar undir féllu burðarþols- og lagnauppdrættir samkvæmt gr. 3.3 í byggingarreglugerð nr. 292/1979 með síðari breytingum, sem í gildi var er kæranda var veitt umrædd löggilding.  Verður ekki fallist á að heimilt hafi verið að skerða atvinnuréttindi kæranda með því að túlka hugtakið séruppdrættir á þann veg að það taki aðeins til deiliuppdrátta aðaluppdrátta eins og byggingarfulltrúi gerði með vísan til álits umhverfisráðuneytisins frá 15. mars 2002, enda er sú túlkun ekki í samræmi við skilgreiningu hugtaksins eins og það birtist í skráðum réttarheimildum á þeim tíma er hér skiptir máli. 

Hins vegar ber að skilja tilvísun löggildingarbréfsins til 12. gr. byggingarlaga nr. 54/1978 á þann veg að þar sé m.a. vísað til þess skilyrðis ákvæðisins að sérfræðingar þeir sem taldir eru í greininni hafi rétt til uppdráttargerðar, hver á sínu sviði.  Leiðir af þessu að viðfangsefni þargreindra starfshópa verða að vera í eðlilegu samræmi við menntunar- og þekkingarsvið þeirra.  Er það og á færi byggingarfulltrúa að meta hvort einstök verkefni séu leyst af hendi með fullnægjandi hætti og eru honum tiltæk ýmis úrræði telji hann svo ekki vera.  Á með þessum hætti að vera tryggt að skortur á fagþekkingu hönnuða leiði ekki til þess að öryggi mannvirkja verði áfátt.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að byggingarfulltrúa hafi ekki verið heimilt að neita að taka við til yfirferðar burðarþols- og lagnauppdráttum árituðum af kæranda.  Verður hin kærða ákvörðun því felld úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna anna hjá úrskurðarnefndinni og tafa við gagnaöflun.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjanesbæ frá 12. maí 2004, um að hafna því að taka til yfirferðar burðarþols- og lagnauppdrætti sem áritaðir eru af kæranda, er felld úr gildi.

___________________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Ingibjörg Ingvadóttir