Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

39/2005 Heiðarbær

Ár 2006, föstudaginn 6. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 39/2005, kæra annars vegar á synjun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 1. júní 2004 á umsókn um leyfi fyrir framkvæmdum við bátalægi sumarbústaðar nr. 1 í landi Heiðarbæjar í Þingvallasveit og hins vegar á ákvörðun sveitarstjórnar um að kæranda verði gert, á eigin kostnað, fyrir 15. september 2004, að afmá jarðrask samkvæmt tillögum sem sveitarstjórn ætlaði að óska eftir hjá sérfræðingum Umhverfisstofnunar. 

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 14. júlí 2004, er barst nefndinni samdægurs, kærir Sigurmar K. Albertsson hrl., f.h. P Langholti 9, Keflavík, leigutaka sumarhúsalóðar nr. 1 í landi Heiðarbæjar í Þingvallasveit, Bláskógabyggð, synjun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 1. júní 2004 á beiðni um heimild til endurbóta á bátalægi.  Þá er og kærð ákvörðun sveitarstjórnar um að kæranda verði á eigin kostnað gert að afmá jarðrask samkvæmt tillögum sem sveitarstjórn ætlaði að óska eftir hjá sérfræðingum Umhverfisstofnunar.  Var frestur til þessa veittur til 15. september 2004. 

Málavextir:  Hinn 17. maí 2004 barst skipulagsfulltrúa uppsveita Árnessýslu tilkynning um framkvæmdir við vatnsbakka Þingvallavatns, nánar tiltekið við sumarhúsalóð nr. 1 í landi Heiðarbæjar.  Fór skipulagsfulltrúi á vettvang og kynnti sér aðstæður.  Hitti hann fyrir kæranda máls þessa, en verið var að vinna á vélgröfu í vatnsbakkanum fyrir neðan sumhús það er á lóðinni stendur.  Skipulagsfulltrúi óskaði eftir því að framkvæmdir yrðu stöðvaðar og tilkynnti þær jafnframt til landbúnaðarráðuneytisins, sem er eigandi jarðarinnar.  Hafði hann einnig samband við starfsmenn Umhverfisstofnunar og óskaði eftir því að fulltrúar hennar mætu umfang framkvæmdarinnar.  Það var gert hinn 18. maí 2004 og kom þá í ljós að enn stóðu yfir framkvæmdir.  Fór þá skipulagsfulltrúi aftur á staðinn og stöðvaði framkvæmdir með aðstoð lögreglu. 

Hinn 25. maí 2004 ritaði lögmaður kæranda bréf til skipulagsfulltrúa og óskaði eftir leyfi til endurbóta á bátalægi við sumarbústaðinni og baðst jafnframt velvirðingar á því að framkvæmdir skyldu hefjast án heimildar sveitarstjórnar.

Í svarbréfi skipulagsfulltrúa, dags. 28. júní 2004, segir að erindi kæranda hafi verið tekið fyrir á fundi sveitarstjórnar hinn 1. júní 2004 ásamt stöðvun skipulagsfulltrúa og eftirfarandi bókun var gerð um málið:  „Heiðarbær, sumarbústaður nr. 1.  Stöðvun skipulagsfulltrúa á óleyfisframkvæmdum.  Mánudaginn 17. maí stöðvaði skipulagsfulltrúi óleyfisframkvæmdir við vatnsbakka Þingvallavatns við sumarbústað nr. 1 í landi Heiðarbæjar.  Ruddur hafði verið slóði niður að vatninu og gerðir tveir „hafnargarðar“ úr stórgrýti út í vatnið með vélgröfu.  Hafði grjótið verið tekið úr  vatnsbakkanum.  Daginn eftir fór fulltrúi Umhverfisstofnunar á vettvang að beiðni skipulagsfulltrúa og voru þá framkvæmdir enn í gangi.  Hann lét skipulagsfulltrúa vita sem  fór þá aftur á vettvang en kallaði þá á aðstoð lögreglu við að stöðva framkvæmdirnar en  þeim var lokið í þann mund sem komið var á vettvang.  Sveitarstjórn staðfestir stöðvunina  með vísan í 56. grein skipulags- og byggingarlaga.  Gjörningur þessi er ótvírætt brot á greinum V. kafla laga um náttúruvernd nr. 44/1999, 7. grein vatnalaga nr. 15/1923 og 27. grein skipulags- og byggingarlaga.  Auk þess er strandlengja Þingvallavatns á náttúruminjaskrá og gildi svæðisins mikið í þjóðarvitund eins og berlega hefur komið í ljós í umfjöllun um málið á vettvangi fjölmiðla.  Heiðarbær er ríkisjörð og frístundalóðin leigulóð.  Hefði því eigandi átt að hafa heimild landeiganda til framkvæmdarinnar og óljósar tilkynningar til ábúenda geta varla talist nægjanlegar.  Bátaaðstaða sem  þessi er ekki í samræmi við svæðisskipulag Þingvalla-, Grímsnes-, og Grafningshreppa sem vinna skal eftir og ekki í anda þeirrar stefnumótunar sem unnið er eftir við gerð aðalskipulags Þingvallasveitar sem er langt á veg komið.  Lagt fram erindi dags. 25. maí 2004 frá Sigurmari K. Albertssyni hrl. fyrir hönd eiganda sumarbústaðarins,  Péturs Jóhannssonar í Keflavík,  þar sem sótt er um leyfi fyrir framkvæmdinni.   Sveitarstjórn samþykkir ekki leyfi fyrir umræddri framkvæmd og gerir eiganda að afmá á eigin kostnað jarðrask það sem unnið hefur verið, með vísan í 11. kafla skipulagsreglugerðar  400/1998 og 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Skipulagsfulltrúa er falið að leita til sérfræðinga Umhverfisstofnunar um tillögur að lagfæringum á staðnum og verður eiganda gert að fylgja þeim.  Lagfæringum skal lokið fyrir 15. september 2004.“

Framagreindri ákvörðun hefur kærandi skotið til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 
 
Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að hann hafi um árabil átt sumarbústað í landi Heiðarbæjar, Þingvallasveit og frá því hann hafi eignast umræddan bústað hafi hann geymt lítinn bát í vatnsborðinu við land sitt, sér og fjölskyldu sinni til gagns og skemmtunar.  Báturinn hafi þó jafnan legið undir skemmdum vegna ölduróts og ísa.  Þá hafi innsiglingin jafnan eyðilagst af ísum á vetrum og hafi kærandi á vorin fært til stórgrýti í fjöruborðinu og í vatninu rétt undan landi í upphaflega og náttúrulega staðsetningu þess, til þess að lendingin héldist opin og hann gæti nýtt bát sinn.

Vorið 2004 hafi kærandi ákveðið að ráðast í smávægilegar framkvæmdir á bátavörinni, í því skyni að auðvelda aðkomu að henni, draga úr ölduróti og hættunni af skemmdum af völdum ísa.  Framkvæmdirnar hafi falist í því að laga göngustíg niður brattan vatnsbakkann að vatninu og færa til stórgrýti sem legið hafi laust á vatnsbakkanum á þann veg að það myndaði tvo nokkurs konar öldubrjóta nokkra metra út frá vatnsborðinu m.a. með því að bæta ofan á náttúrulegan grjótgarð sem þarna sé, þannig að skjól fengist fyrir öldu og ís.  Hafi kærandi fengið skurðgröfu til liðs við sig í þessu skyni og hafi nokkuð jarðrask orðið af ferð hennar niður vatnsbakkann innan lóðar kæranda, en ætlun hans hafi alltaf verið sú að sá í og ganga þannig frá landinu eftir framkvæmdirnar að engin ummerki sæjust eftir þær, önnur en grjótgarðurinn út í vatnið og lítillega bætt aðgengi niður vatnsbakkann.  Þessi mannvirki sjáist alls ekki frá landi og séu heldur ekki áberandi frá vatninu.

Kærandi heldur því fram að hann hafi ekki gert sér grein fyrir því að framkvæmdirnar væru þess eðlis að sérstakt byggingarleyfi þyrfti fyrir þeim, enda sé bátalægi fyrir hendi við nær alla sumarbústaði á bakka Þingvallavatns, en þar sé í flestum tilfellum um að ræða mun meiri mannvirki að ræða en það sem kærandi hafi ætlað að koma sér upp.  Hafi hann þó haft samband við ábúanda Heiðarbæjar vegna þessa og hafi sá maður veitt samþykki sitt fyrir þeim.  Hafi kærandi því talið sig þar með hafa sinnt skyldum sínum í þessu sambandi.

Kærandi telur að sveitarstjórn hafi með afgreiðslu sinni á umsókn hans um byggingar-leyfi brotið gegn ákvæðum 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem mælir fyrir um að stjórnvald skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því.  Sveitarstjórnin hefði a.m.k. þurft að sjá til þess, áður en hún tók afstöðu til umsóknar kæranda, að þau gögn sem mælt sé fyrir um í 4. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 lægju fyrir, en honum hafi aldrei verið gefinn kostur á að útskýra það fyllilega fyrir sveitarstjórninni hver fyrirætlan hans með framkvæmdunum hafi verið.  Engar leiðbeiningar skv. 7. gr. sömu laga hafi verið veittar um hvaða gögn kærandi þyrfti að leggja fram svo sveitarstjórnin teldi sér fært að leggja fullnægjandi og málefnalegt mat á umsókn hans um byggingarleyfi. 

Þá sé og á því byggt að sveitarstjórn hafi með hinni kærðu ákvörðun brotið gegn andmælarétti kæranda sbr. 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga.  Sé á því byggt að kærandi hafi ekki mátt vænta þess að stjórnvaldsákvörðun af þeim toga sem tekin hafi verið heldur hafi hann þvert á móti mátt ætla að sveitarstjórn æskti frekari gagna áður en leyst yrði úr erindi kæranda.  Telji kærandi að meðferð sveitarstjórnar á erindi hans hafi farið fram án þess að honum gæfist kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi efnisúrlausn erindisins og að hann hafi verið sviptur rétti til að tjá sig um efni ákvörðunarinnar.  Brýnt hefði verið að kynna kæranda að fyrir lægi að hafna málaleitan hans með jafn afdráttarlausum hætti og raunin hafi orðið og gefa honum kost á að tjá sig um þá ráðstöfun, enda um íþyngjandi ákvörðun að ræða.

Sveitarstjórn hafi ekki verið rétt að líta svo á að afstaða kæranda hans og rök hans fyrir henni kæmu fyrir í þeim gögnum sem legið hafi fyrir sveitarstjórn er umrædd ákvörðun hafi verið tekin enda nálega engin gögn lögð fram af hálfu kæranda er hin kærða ákvörðun hafi verið tekin.  Þá telur og kærandi að sveitarstjórn hafi ekki verið rétt að líta svo á að augljóslega væri óþarft að gefa honum færi á að tjá sig um ákvörðunina, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga in fine, enda varði ákvörðun sveitarstjórnarinnar brýna einkaréttarlega hagsmuni, bann við tilteknum ráðstöfunum og álagningu íþyngjandi skyldu um að afmá ummerki framkvæmda.  Nauðsynlegt hafi verið að heimila kæranda að koma að andmælum sínum áður en ákvörðun hafi verið tekin.  

Kærandi telur að synjun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar hafi ekki verið reist á réttum lagagrundvelli.  Bent sé á að V. kafli laga nr. 44/1999 um náttúruvernd, sem vísað sé til í ákvörðun sveitarstjórnarinnar, fjalli að meginstefnu ekki um svo smáa framkvæmd sem hér um ræði.  Þó gefi að finna eftirfarandi ákvæði í 37. gr. laganna:  „Eftirtaldar jarðmyndanir og vistkerfi njóta sérstakrar verndar og skal forðast röskun þeirra eins og kostur er: […]  b. stöðuvötn og tjarnir 1.000 m² eða stærri, […]  Leita skal umsagnar Umhverfisstofnunar og náttúruverndarnefnda áður en veitt er framkvæmda- eða byggingarleyfi, sbr. 27. og 43. gr. skipulags og byggingarlaga, nr. 73/1997, til framkvæmda sem hafa í för með sér röskun jarðmyndana og vistkerfa skv. 1. mgr. nema fyrir liggi aðalskipulag samþykkt eftir gildistöku laga þessara þar sem umsögn skv. 33. gr. liggur fyrir.“

Í greinargerð með ákvæðinu segir um túlkun þess:  „Framkvæmdir við landslagsgerðir þær sem tilgreindar eru í 1. mgr. eru háðar framkvæmda- eða byggingarleyfi sveitarstjórnar, sbr. 27. og 43. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997.  Þurfi ekki byggingarleyfi sveitarstjórnar til framkvæmda þarf sérstakt framkvæmdaleyfi hennar, enda sé um meiri háttar framkvæmd að ræða.  Það á t.d. við um efnistöku, sbr. og 1. mgr. 47. gr. framræslu votlendis og nýtingu hvera.  Ekki þarf leyfi til minniháttar framkvæmda[…]“

Að þessu virtu megi ljóst vera að ákvæðið innihaldi ekki þá bannreglu sem sveitarstjórn hafi byggt neitun sína um byggingarleyfi á, heldur sé í ákvæðinu ráð fyrir því gert að hagnýta megi jarðmyndanir þær sem þar sé um fjallað.  Athygli veki að greinargerðin taki af tvímæli um það að sérstakt framkvæmdaleyfi þurfi ekki til minniháttar framkvæmda.  Sé á því byggt, að þær framkvæmdir þær sem hér um ræði teljist til slíkra smávægilegra framkvæmda.

Sé einnig bent á að framkvæmdirnar feli ekki í sér röskun á sjálfu Þingvallavatni heldur smávægilegar framkvæmdir á bakka þess, en með því sé ljóst að ákvæði 37. gr. náttúruverndarlaga taki, skv. orðalagi sínu, ekki til þeirra framkvæmda.

Hið sama gildir um ákvæði 38. gr. laga um náttúruvernd, sem fjalli um framkvæmdir á svæðum þar sem hætta sé á að friðlýstar náttúruminjar spillist, enda innihaldi ákvæðið ekki bannreglu af þeim toga sem sveitarstjórn virðist hafa byggt ákvörðun sína á.  M.ö.o. umrædd ákvæði séu heimildarreglur sem veiti heimild fyrir því að veita byggingar- eða framkvæmdaleyfi á svæðum af þessum toga að tilteknum skilyrðum uppfylltum. 

Tilvísun sveitarstjórnar til 27. gr. skipulags- og byggingarlaga eigi ekki við um framkvæmdir af þeim smávægilega toga sem um hér um ræði, en samkvæmt orðalagi ákvæðisins taki það aðeins til skyldu til að láta meiriháttar framkvæmdir sem áhrif hafi á umhverfið eða breyta ásýnd þess með jarðvegi eða efnistöku fara fram í samræmi við skipulagsáætlanir og að fengnu mati á umhverfisáhrifum. 

Bent sé á, að 7. gr. vatnalaga nr. 15/1923, sem sveitarstjórn hafi enn fremur byggt höfnun sína á, feli í sér frávik frá þeirri meginreglu 2. gr. vatnalaga að umráðaréttur yfir vatni, þ.m.t. netlögum í því, fylgi því landi sem vatnið teljist til.  Beri af þeim sökum að skýra ákvæði umræddrar lagagreinar þrengjandi skýringu skv. hefðbundnum lögskýringar¬viðhorfum.  Verður greinin þá enn fremur ekki talin fela í sér fortakslaust bann við þeim framkvæmdum sem sótt hafi verið um, þar sem við túlkun á gildissviði hennar verði að taka tillit til ákvæða 75. gr. sömu laga, en þar sé einstaklingum í 1. mgr. veitt fortakslaus heimild til að:  „[…] hleypa niður vatnsfarvegi, víkka hann eða rétta, gera nýjan farveg, flóðgarða og fyrirhleðslur eða önnur mannvirki í vatni eða við það í því skyni að verja land eða landsnytjar við spjöllum af landbroti eða árennsli vatns.“

Kærandi telji að sú yfirlýsta fyrirætlan hans að verja bátavör sína fyrir ölduróti og ágangi ísa frá Þingvallavatni sé fyllilega samræmanleg efni umræddrar lagagreinar, sem að efni til gangi framar ákvæðum 7. gr. sömu laga.  Telji kærandi af þeim sökum að ekki sé unnt að líta svo á að synjun sveitarstjórnar um byggingarleyfi honum til handa verði réttilega studd við ákvæði 7. gr. vatnalaga nr. 15/1923, enda hefði sveitarstjórninni borið að líta bæði til tilgangs framkvæmdarinnar sem og til heimildarákvæðis 75. gr. laganna.

Afdráttarlaus neitun Bláskógabyggðar á umsókn kæranda hans um byggingarleyfi, verði ekki studd við svæðisskipulag Þingvalla-, Grímsnes-, og Grafningshreppa, líkt og gert hafi verið, en umrætt skipulag hafi verið fellt úr gildi í aprílmánuði 2002 í tengslum við sameiningu hreppanna í Bláskógabyggð.  Mun síðar hafa verið ákveðið í sveitarstjórn hins sameinaða sveitarfélags að skipulagsmálum þess skyldi háttað í „anda“ hins brottfellda svæðaskipulags.

Íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun af þeim toga sem sveitarstjórn hafi tekið verði ekki með lögmætum hætti byggð á skipulagi sem sveitarfélagið hafi sjálft fellt úr gildi og að samþykkt sveitarstjórnar um að starfað skuli í „anda“ hins brottfellda skipulags fullnægi ekki skilyrðum lögmætisreglu stjórnsýsluréttar fyrir töku ákvarðana af þessum toga.

Hið sama gildi um tilvísun sveitarstjórnar í stefnumótun sem unnið hafi verið eftir við gerð aðalskipulags Þingvallasveitar, óstaðfest drög að aðalskipulagi, hversu langt sem þau drög séu á veg komin, geti ekki grundvallað íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun.  Bent sé á að í umræddum skipulagsdrögum virðist aðeins lagst gegn því að reist séu sérstök bátaskýli við Þingvallavatn, en hvergi sé í þeim drögum vikið að bátavörum, eða aðgerðum til að verja slíkar varir gegn ágangi vatns og ísa.

Engar réttarreglur beinlínis leggi bann við framkvæmdum af þeim toga sem sótt hafi verið um og því hafi sveitarstjórn borið að leggja almennt mat á umsókn hans um byggingarleyfi skv. þeim reglum sem mælt sé fyrir um í 43. gr. skipulags- og byggingarlaga, en við það mat hafi sveitarstjórn borið að fylgja reglum um frjálst mat stjórnvalda sem bindi hendur þeirra varðandi það að hvaða efnisniðurstöðu hið frjálsa mat megi leiða til.  Sveitarstjórn hafi brugðist skyldu sinni til að gæta réttar kæranda til að njóta jafnræðis við aðra sumarhúsaeigendur við Þingvallavatn, en ljóst sé að bátavarir af þeim toga sem um ræði fyrirfinnist í tugatali við Þingvallavatn annað hvort með samþykki skipulags- og byggingaryfirvalda, eða á þann hátt að njóti afskiptaleysis þeirra.  Þá séu ótalin öll þau bátalægi og bátaskýli sem fyrirfinnist við vatnið sem hafi falið í sér langtum meiri röskun á umhverfi vatnsins og vatnsbakkanum, heldur en það sem kærandi hugðist reisa.  Af þessum sökum hafi sveitarstjórn borið að veita leyfi til framkvæmdanna, enda standi réttarheimildir ekki til þess að gera honum, og rétti hans til að hafa umráð sumarhúsalóðar sinnar, að sæta annarri meðferð að þessu leyti til en öðrum sumarhúsaeigendum við vatnið.  Sé bent á að viðmið þessi njóti verndar eignarréttar-ákvæða 72. gr. og jafnræðisákvæða 65. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944.

Þegar litið sé til allra framangreindra annmarka á ákvörðun sveitarstjórnar sé óhjákvæmilegt annað en að fella hana úr gildi og leggja fyrir sveitarstjórn að taka málið til nýrrar og lögmætrar afgreiðslu.  Bent sé á að ella myndi raunveruleg efnisumfjöllun um umsókn kæranda fara í fyrsta sinn fram á kærustigi, en telja verði að sá háttur sé andstæður málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga og skipulags- og byggingarlaga. 

Að lokum er tekið fram að telji úrskurðarnefndin sig bresta heimild að lögum til að leggja fyrir sveitarstjórn að taka umsókn kæranda til nýrrar úrlausnar, og að efnismeðferð umsóknar hans skuli fara fram á kærustigi, áskilji hann sér rétt til að koma að nýjum röksemdum við þá úrlausn.

Málsrök Bláskógabyggðar:  Af hálfu sveitarstjórnar Bláskógabyggðar er vísað til þess að bókun hennar hinn 1. júní 2004 sé til votts um viðhorf hennar til málsins.  Í svæðisskipulagi Þingvalla-, Grímsnes- og Grafningshreppa 1995-2015 komi skýrt fram að bygging nýrra bátaskýla sé ekki leyfð.  Það svæðisskipulag hafi verið fellt úr gildi en samkvæmt tilmælum hreppsnefndar fyrrverandi Þingvallahrepps skuli vinna í samræmi við skipulagið þar til aðalskipulag hafi verið staðfest fyrir Þingvallahrepp.  Það aðalskipulag sé í vinnslu.  Í drögum þess segi:  „Við mat á umsóknum um uppbyggingu sumarhúsa/deiliskipulagstillögum verði megin verndarmarkmið aðalskipulagsins höfð að leiðarljósi, þ.e. að vernda lífríki og tærleika Þingvallavatns, vernda ásýnd svæðisins (jarðmyndanir, landlagsheildir og gróðurfar) og menningarminjar.“

Af framangreindu megi ljóst vera að framkvæmd sú er kærumál þetta sé sprottið af sé ekki í anda aðalskipulagsins og hefði því ekki verið samþykkt á grundvelli þess. 

Skipulagsfulltrúi hafi leitað til Umhverfisstofnunar til að fá leiðbeiningar hennar um lagfæringar eins og sveitarstjórn hafi lagt til.  Þær leiðbeiningar hafi borist síðari hluta ágústmánaðar og þær í kjölfarið kynntar kæranda.  Þar sem dregist hafi að senda kæranda leiðbeiningar um lagfæringar hafi sveitarstjórn samþykkt að á fundi hinn 10. ágúst 2004 að framlengja frestinn til 15. október 2004. 

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 22. október 2004.

Niðurstaða:  Eins og að framan var rakið hóf kærandi framkvæmdir við bátalægi við sumarbústað sinn, nr. 1 í landi Heiðarbæjar í Þingvallasveit, án þess að hafa fengið til þess leyfi sveitarstjórnar. Voru framkvæmdir þessar stöðvaðar af skipulagsfulltrúa.  Í kjölfarið ritaði lögmaður kæranda bréf til sveitarstjórnar þar sem óskað var eftir leyfi til framkvæmdarinnar og henni lýst ásamt því að gerð var grein fyrir áformum kæranda um lagfæringu jarðrasks.

Á fundi sveitarstjórnar Bláskógarbyggðar hinn 1. júní 2004 var tekin til umfjöllunar stöðvun skipulagsfulltrúa á „óleyfisframkvæmdum“ við umrætt bátalægi þann 17. og 18. maí 2004.  Staðfesti sveitarstjórn stöðvunina með vísun til 56. greinar skipulags- og byggingarlaga og taldi framkvæmdina ótvírætt brot á V. kafla laga um náttúruvernd, 7. gr. vatnalaga og 27. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Auk þess vitnaði sveitarstjórn til þess að strandlengja Þingvallavatns væri á náttúruminjaskrá og gildi svæðisins mikið í þjóðarvitund.  Þá hafi skort á að fyrir lægi fullnægjandi samþykki landeiganda.  Bátaaðstaða sem þessi væri ekki í samræmi við svæðisskipulag Þingvalla-, Grímsnes- og Grafningshreppa, sem vinna skyldi eftir og væri ekki heldur í anda þeirrar stefnumótunar sem unnið væri eftir við gerð aðalskipulags Þingvallasveitar, sem væri langt komin.

Síðan segir í bókun sveitarstjórnar:  „Lagt fram erindi dags 25. maí 2004 frá Sigurmari K. Albertssyni hrl. fyrir hönd eiganda sumarbústaðarins, Péturs Jóhannssonar í Keflavík, þar sem sótt er um leyfi fyrir framkvæmdinni.  Sveitarstjórn samþykkir ekki leyfi fyrir umræddri framkvæmd og gerir eiganda að afmá á eigin kostnað jarðrask það sem unnið hefur verið, með vísan til 11. kafla skipulagsreglugerðar 400/1998 og 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Skipulagsfulltrúa er falið að leita til sérfræðinga Umhverfisstofnunar um tillögur að lagfæringum á staðnum og  verður eiganda gert að fylgja þeim.  Lagfæringum skal lokið fyrir 15. september 2004.“ 

Í máli þessu er einvörðungu kærð synjun sveitarstjórnar á umsókn kæranda um leyfi fyrir hinni umdeildu framkvæmd og ákvörðun sveitarstjórnar um að gera kæranda að afmá á eigin kostnað jarðrask það sem unnið hafi verið.  Hins vegar er ekki kærð sú samþykkt sveitarstjórnar að staðfesta ákvörðun skipulagsfulltrúa um stöðvun framkvæmdanna og kemur hún því ekki til frekari umfjöllunar hér.

Ákvörðun sveitarstjórnar um að samþykkja ekki leyfi fyrir umræddri framkvæmd er, að mati úrskurðarnefndarinnar, ekki studd neinum viðhlítandi rökum.  Sé horft til þeirra raka sem sveitarstjórn færði fram fyrir þeirri niðurstöðu að staðfesta bæri ákvörðun skipulagsfulltrúa um stöðvun framkvæmda, þá var þar um skipulagslegar forsendur vísað annars vegar til svæðisskipulags sem fellt hafði verið úr gildi og hins vegar til aðalskipulags sem var á vinnslustigi og hafði ekki hlotið staðfestingu.  Með vísan til þess að bæði framkvæmdaleyfi samkvæmt 27. gr. og byggingarleyfi skv. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 þurfa að vera í samræmi við skipulagsáætlanir eða hljóta meðmæli Skipulagsstofnunar samkvæmt 3. tl. ákvæða til bráðbirgða með lögunum má fallast á með kæranda að hin kærða ákvörðun hafi að þessu leyti ekki verið reist á réttum lagagrundvelli.  Í rökstuðningi sínum fyrir þeirri niðurstöðu að framkvæmdir kæranda hafi verið ólögmætar vísaði sveitarstjórn einnig til lagaraka, m.a. til 27. gr. skipulags- og byggingarlaga um framkvæmdaleyfi.  Er augljóst að þessi rök gátu ekki, að óbreyttu, átt við sem rök fyrir synjun á umsókn kæranda um framkvæmdaleyfi.  Var rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun því einnig áfátt.  Þykja framangreindir annmarkar eiga að leiða til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar um synjun á umsókn kæranda.

Auk þess að synja umsókn kæranda um leyfi fyrir framkvæmdinni ákvað sveitarstjórn að gera honum að afmá á eigin kostnað jarðrask það sem unnið hefði verið og átti skipulagfulltrúi að leita eftir tillögum sérfræðinga Umhverfisstofnunar um lagfæringarnar.  Í þessu fólst að sveitarstjórn var að leggja skyldur á herðar kæranda um framkvæmd samkvæmt tillögum þriðja aðila er ekki lágu fyrir þegar hin kærða ákvörðun var tekin.  Skorti sveitarstjórn heimild að lögum til þess að fela þriðja aðila að afmarka síðar skyldur kæranda til framkvæmdar verks, svo sem gert var með hinni kærðu ákvörðun, og verður hún því einnig felld úr gildi að þessu leyti.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 1. júní 2004 um að synja umsókn kæranda um leyfi fyrir framkvæmdum við bátalægi sumarbústaðar nr. 1 í landi Heiðarbæjar í Þingvallasveit og að gera honum að afmá jarðrask í samræmi við tillögur sérfræðinga Umhverfisstofnunar.

 

____________________________________
     Hjalti Steinþórsson

 

______________________________               _______________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson