Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

6/2005 Nýlendugata

Ár 2006, fimmtudaginn 2. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 6/2005, kæra á samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 24. nóvember 2004 á tillögu að breyttu deiliskipulagi Norðurstígsreits, er fól í sér færslu á byggingarreit lóðarinnar að Nýlendugötu 5a, Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 21. janúar 2005, er barst nefndinni hinn 24. sama mánaðar, kærir S eigandi fasteignarinnar að Nýlendugötu 5, Reykjavík, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 24. nóvember 2004 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Norðurstígsreits er fól í sér færslu byggingarreits lóðarinnar að Nýlendugötu 5a, Reykjavík, um einn metra til suðurs og snúning suðaustur hliðar reitsins svo hann yrði samsíða og í þriggja metra fjarlægð frá lóðamörkum. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða deiliskipulagsbreyting verði felld úr gildi.  Jafnframt hafa B og J eigendur fasteignarinnar að Nýlendugötu 7, Reykjavík kært til ógildingar nefnda deiliskipulagsbreytingu til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 23. janúar 2005, er barst nefndinni hinn 24. sama mánaðar.  Þykja hagsmunir kærenda ekki standa því í vegi að kærumálin verði sameinuð og verður síðarnefnda kærumálið, sem er nr. 7/2005, sameinað kærumáli þessu.

Málavextir:  Hinn 23. mars 2004 tók gildi deiliskipulag fyrir Norðurstígsreit.  Samkvæmt því skipulagi var heimilað að reisa 174,2 fermetra hús á lóðinni nr. 5a við Nýlendugötu og skyldi nýtingarhlutfall lóðarinnar verða 0,7.

Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 24. september 2004 var lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi Norðurstígsreits vegna lóðarinnar nr. 5a við Nýlendugötu með tilfærslu á byggingarreit.  Var samþykkt að grenndarkynna tillöguna og barst eitt athugasemdabréf á kynningartíma hennar. 

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 24. nóvember 2004 var málið tekið fyrir og var auglýst deiliskipulagsbreyting samþykkt og tók hún gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 23. desember 2004.

Athugasemdabréf kærenda, dags. 26. nóvember 2004, sem barst eftir samþykkt deiliskipulagstillögunnar, var tekið fyrir á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa og lágu jafnframt fyrir á fundinum drög skipulagsfulltrúa að svörum við athugasemdunum.  Leiddu athugasemdirnar ekki til breytinga á umræddri deiliskipulagsákvörðun og var byggingarleyfi fyrir flutningi húss á lóðina að Nýlendugötu 5a samþykkt af byggingarfulltrúa hinn 11. janúar 2005.

Hafa kærendur skotið nefndri deiliskipulagsbreytingu til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er bent á að með færslu fyrirhugaðs húss að Nýlendugötu 5a um einn metra til suðurs muni það skyggja á sólu við hús og verönd að Nýlendugötu 5, og þá sérstaklega að kvöldlagi.  Hæðar húss sé ekki getið og misræmi sé milli grenndarkynningargagna og skipulags.  Húsið sé teiknað með portbyggðu risi í skipulagi en við grenndarkynningu hafi aðeins verið kynnt ris á húsi.  Lofthæð í  þessu portbyggða risi sé 2,2 metrar auk lofts sem sé talsvert meira en gera mætti ráð fyrir ef þetta væri einungis ris og sé því um að ræða meira skuggavarp en ella.

Mikil nálægð húsanna að Nýlendugötu 5a og 7 skapi brunahættu og óþægilega nánd.  Teikning fyrirhugaðs húss sýni glugga á kjallara og því verði hann vart niðurgrafinn, sem geri það að verkum að húsið verði hærra en áætlað hafi verið og við það aukist skuggavarp enn frekar.  Kærendur telji það léttvæg rök að húsið þurfi að færa frá götu um einn metra til suðurs í ljósi þess að flest hús í kring standi við götu.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu borgaryfirvalda er þess krafist að hin kærða deiliskipulagsákvörðun standi óröskuð.

Umdeild breyting frá gildandi skipulagi sé einungis fólgin í því að byggingarreitur væntanlegs húss á lóðinni hafi verið færður til suðurs um einn metra og snúið þannig að suðausturhlið byggingarreitsins yrði í þriggja metra fjarlægð frá og samsíða næstu lóðamörkum.  Húsið að Lindargötu 13, sem gert sé ráð fyrir að flytja á lóðina, sé  nokkuð reisulegt hús og hafi það stóran kvist til suðurs og komi það nokkuð vel fram á samþykktum deiliskipulagsuppdrætti gildandi skipulags í sniði B-B.  Húsið sé 10,23 metrar frá götu upp í mæni, en leyfileg hæð húss samkvæmt deiliskipulaginu sé 10 metrar.  Hæð hússins sé því innan leyfilegra skekkjumarka.

Nálægð við Nýlendugötu 7 sé að vísu mikil, en sá veggur hússins er snúi að Nýlendugötu 5a sé steyptur og án glugga, þannig að brunavarnir séu taldar í lagi, en við veitingu byggingarleyfis sé gætt nánar að þessum efnum.  Hæð húss og fjöldi hæða hafi verið ákveðin í deiliskipulagi fyrir breytingu þá sem hér sé til umfjöllunar og komi þau atriði því ekki til skoðunar í máli þessu.  Staðsetning húss á umræddri lóð sé ekki óeðlileg frá skipulagssjónarmiði og muni ekki hafa veruleg grenndaráhrif þrátt fyrir stærð þess.

Ástæða sé til að minna á að eigendur fasteigna í þéttbýli geti ávallt vænst þess að breytingar verði gerðar á skipulagi sem haft geti í för með sér skerðingu á útsýni, aukið skuggavarp, umferðaraukningu eða aðrar breytingar, enda sé beinlínis gert ráð fyrir því í skipulags- og byggingarlögum að deiliskipulag geti tekið breytingum.  Verði menn almennt að sæta því að með almennum takmörkunum geti hagsmunir þeirra í einhverju verið skertir með slíkum breytingum.

Niðurstaða:  Hin kærða deiliskipulagsbreyting fól aðeins í sér tilfærslu á byggingarreit lóðarinnar að Nýlendugötu 5a um einn metra frá götu til suðvesturs og lítils háttar hliðrun á suðausturhlið reitsins eins og fyrr er frá greint. 

Nýtingarhlutfall, hæð og hæðafjöldi húss á umræddri lóð voru ákveðin í deiliskipulagi svæðisins er tók gildi hinn 23. mars 2004 og koma þau atriði ekki til endurskoðunar í máli þessu.  Þá var byggingarleyfi fyrir umdeildu húsi frá 11. janúar 2005 ekki kært til úrskurðarnefndarinnar og verður því ekki tekin afstaða til lögmætis þess.

Hús kærenda standa sitt hvoru megin við lóðina að Nýlendugötu 5a.  Umdeild skipulagsbreyting hefur aðallega áhrif gagnvart kærendum hvað skuggavarp varðar.  Eins og afstöðu húsa kærenda og umrædds byggingarreits er háttað mun færsla byggingarreits um einn metra inn í lóðina að Nýlendugötu 5a ekki hafa í för með sér aukið skuggavarp gagnvart lóðum kærenda svo nokkru nemi.  Verður hin kærða skipulagsbreyting því ekki felld úr gildi vegna grenndaráhrifa gagnvart kærendum.

Ekki hefur verið sýnt fram á að hin kærða ákvörðun sé haldin neinum öðrum annmörkum er leitt gætu til ógildingar hennar og verður kröfu kærenda því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda, um ógildingu á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 24. nóvember 2004 um breytingu á deiliskipulagi Norðurstígsreits er fól í sér færslu byggingarreits lóðarinnar að Nýlendugötu 5a, Reykjavík, er hafnað.

 

___________________________         
                         Hjalti Steinþórsson                                 

 

____________________________         _____________________________              

Ásgeir Magnússon                 Þorsteinn Þorsteinsson