Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

79/2006 Sómatún

Ár 2006, föstudaginn 27. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 79/2006, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Akureyrar frá 24. maí 2006, er bæjarstjórn Akureyrar staðfesti hinn 17. október 2006, um að veita byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi, að hluta til á tveimur hæðum, á lóðinni nr. 6 við Sómatún á Akureyri. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 19. október 2006, er barst nefndinni sama dag, kærir Óskar Sigurðsson hrl., f.h. K, handhafa lóðar að Sómatúni 4, og H og E, handhafa lóðar nr. 8 við Sómatún, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Akureyrar frá 24. maí 2006, er bæjarstjórn Akureyrar staðfesti hinn 17. október 2006, að veita byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi, að hluta til á tveimur hæðum, á lóðinni nr. 6 við Sómatún á Akureyri. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt er gerð krafa um að úrskurðað verði til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða leyfi.  Úrskurðarnefndinni hafa borist gögn er málið varða, sjónarmið bæjaryfirvalda vegna kærunnar og athugasemdir byggingarleyfishafa.  Þykir málið nú nægjanlega upplýst til þess að það verði tekið til úrlausnar og verður því ekki tekin afstaða til kröfu um stöðvun framkvæmda. 

Málavextir:  Á svæði því sem lóðir kærenda og byggingarleyfishafa tilheyra er í gildi deiliskipulag Naustahverfis, 2. áfangi, frá árinu 2005. 

Hinn 24. maí 2006 veitti skipulags- og byggingarfulltrúi leyfi fyrir byggingu einbýlishúss að Sómatúni 6 sem skyldi að hluta til vera á tveimur hæðum.  Er lóðarhafa að Sómatúni 4 var kunnugt um útgáfu leyfisins kom hann hinn 31. júlí 2006 á framfæri athugasemdum við bæjaryfirvöld þess efnis að samkvæmt gildandi skipulagi ætti einungis að vera einnar hæðar hús á umræddri lóð. 

Málið var tekið fyrir á fundi umhverfisráðs Akureyrar 16. ágúst 2006, þar sem athugasemdum kærenda var hafnað með vísan til þess að nægjanlegt svigrúm væri til þess í skilmálum skipulagsins að heimila byggingu húss að Sómatúni 6 sem að hluta til væri á tveimur hæðum.  Kærendur voru ekki sáttir við þær málalyktir og skutu málinu til úrskurðarnefndarinnar sem vísaði kærunni frá hinn 3. október sl. með þeim rökum að ekki lægi fyrir lokaákvörðun um veitingu umdeilds byggingarleyfis þar sem sveitarstjórn hefði ekki staðfest leyfið.  Í kjölfar úrskurðarins staðfesti bæjarstjórn umdeilt byggingarleyfi sem skipulags- og byggingarfulltrúi hafði veitt hinn 24. maí 2006. 

Hafa kærendur nú skotið veitingu byggingarleyfisins til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Til stuðnings kröfu sinni skírskota kærendur til þess að á deiliskipulagsuppdrætti séu 17 lóðir með húsagerð H, þ.e. einbýlishús, annað hvort merktar sem einnar hæðar (1h) eða einnar- til tveggja hæða (1-2h).  Kærendur hafi valið lóðir sínar með það markmið í huga að byggja hús á einni hæð.  Sómatún 4 og 8 hafi orðið fyrir valinu, enda húsin merkt sem 1h á mæliblaði og deiliskipulagsuppdrætti.  Allar einbýlishúsalóðir við Sómatún séu merktar 1h að undanskilinni lóð að Sómatúni 2, sem sé merkt sem 2h og húsagerð E. 

Í skipulagsskilmálum sé sérákvæði um svokölluð H hús.  Þar sé sú húsagerð skilgreind sem „Einnar til tveggja hæða (þar sem landhalli býður upp á) einbýlishús með innbyggðum bílgeymslum.  15 af minni gerð (H1) og 2 af stærri gerð (H2).“  Kærendur hafi litið á þetta sem almenna lýsingu á húsagerðum því að búið hafi verið  að merkja inn á deiliskipulagsuppdrátt viðkomandi húsagerð í samræmi við landhalla.  Þar sem landhalli hafi verið mestur hafi lóðir verið merktar 1-2h húsum en 1h húsum þar sem landhalli hafi verið minnstur.  Samkvæmt þessu hafi verið búið að taka ákvörðun um húsagerð í þessu tilviki og því ekki svigrúm til mats hvað það varði.  Sérstaklega hefði þurft að taka fram í skilmálum og uppdrætti að umræddar merkingar væru ekki bindandi en að hvert tilfelli fyrir sig yrði metið sérstaklega eftir að teikningar bærust.  Hefði þá átt að merkja allar lóðirnar 1-2h. 

Hafa verði í huga að deiliskipulag sé stjórnvaldsákvörðun sem sé sett fram í greinargerð og á uppdrætti.  Þess þurfi að gæta að samræmi sé í efni þessara tveggja skjala, sbr. 3. mgr. 23. gr. laga nr. 73/1997.  Í lagagreininni sé tiltekið hvaða atriði skuli koma fram í greinargerðinni og á  uppdrættinum, en nánar sé fjallað um þau í gr. 5.4.1 og 5.4.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.  Þar segi m.a. að „…skipulagsskilmálar deiliskipulags skulu eftir því sem svæðið gefur tilefni til koma fram á skipulagsuppdrætti og kveða á um: Landnotkun, lóðastærðir, umferðarsvæði, byggingarreiti, hæðarlegu, hámarkshæð bygginga, byggingarmagn á lóð í m²/m³, og/eða hæðafjölda, …“ Eins og tekið sé fram í lagaákvæðinu þurfi þau atriði skipulags sem séu bindandi fyrir stjórnvöld, eigendur og notendur fasteigna, að koma fram í greinargerðinni og á uppdrættinum að því marki sem efni skipulagsins sé lýst þar. 

Af framangreindu leiði að sú ákvörðun að birta hæðafjölda húsa í skipulagsuppdrætti deiliskipulagsins sé bindandi fyrir alla hlutaðeigendur, jafnt skipulags- og byggingaryfirvöld á Akureyri sem og fasteignaeigendur.  Með þessari framsetningu sé búið að taka ákvörðun um hæðafjölda húsa við Sómatún.  Því verði að skoða skipulagsskilmálana í samhengi við uppdráttinn. 

Sé það hins vegar afstaða umhverfisráðs að skilmálarnir heimili byggingu eins til tveggja hæða húss sé ljóst að ekki sé samræmi á milli skilmálanna og uppdráttarins.  Fari það gegn 3. mgr. 23. gr. laga nr. 73/1997 og gr. 5.4.1 og 5.4.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.

Samkvæmt 2. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997 sé óheimilt að veita byggingarleyfi til framkvæmda nema þær séu í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag.  Af 3. mgr. 23. gr. laganna leiði að leyfið verði að vera í samræmi við bæði skipulagsskilmála deiliskipulags sem og skipulagsuppdrátt.  Ljóst sé að hið kærða byggingarleyfi sé ekki í samræmi við skipulagsuppdrátt og því ekki í samræmi við samþykkt deiliskipulag.  Kærendur telji því í ljósi framangreinds að skort hafi lagaskilyrði til að veita hið kærða byggingarleyfi og því beri þegar af þeirri ástæðu að fella það úr gildi. 

Þá sé veitt byggingarleyfi ekki í samræmi við mæliblöð.  Í skipulagsskilmálum segi í kaflanum um húsagerðir og lóðir:  „Húsagerðir skulu vera í samræmi við skilmála þessa (sérákvæði), mæliblöð og hæðarblöð.“  Á mæliblöðum sé merkt inn á hverja lóð 1h eða 1-2h líkt og á skipulagsuppdrætti deiliskipulagsins.  Lóðin að Sómatúni 6 sé merkt 1h.  Byggingarleyfið sé því einnig í andstöðu við mæliblöð og þar með skilmála deiliskipulagsins. 

Tekið skuli fram, í tilefni af þeirri afstöðu umhverfisráðs að landhalli að Sómatúni 6 bjóði upp á byggingu tveggja hæða húss, að hæðarmunur á viðkomandi lóð sé 1,69 metrar eins og sjá megi á mæliblöðum.  Hins vegar sé ljóst að við samþykkt deiliskipulagsins hafi verið talið að þessi landhalli byði ekki upp á tveggja hæða hús. 

Í skilmálum sé að finna skilmálateikningar sem séu í kvarða.  Þar sé sýnt hvernig hús skuli aðlagast landi miðað við landhalla.  Þar sjáist einnig að hús á tveimur hæðum miðist við að hæðarmunur á lóð skuli vera meiri en 3 metrar miðað við aðkomu að jarðhæð. 

Þegar H-lóðir séu skoðaðar á mæliblöðum sjáist að minnsti hæðarmunur í lóð sem merkt sé 1-2h sé 2,62 en sú lóð sé hornlóð með aðkomu um götu sem liggi mun neðar en gata sem liggi fyrir ofan lóðina.  Hæðarmunur upp á 1,69 metra sé því ekki nægjanlegur auk þess sem það sé í andstöðu við það sem deiliskipulagið gangi út frá sem og innbyrðis samræmi lóða á þessu svæði. 

Í skilmálum um H-hús í kaflanum um lóðafrágang segi að jarðvegspúðar séu bannaðir og að húsin sjálf skuli aðlagast landi.  Samkvæmt aðaluppdráttum fyrir Sómatún 6 sjáist að húsið standi að hluta á jarðvegspúða, þar sem búið sé að hækka það upp að framan.  Feli það einnig í sér brot gegn skipulagsskilmálum. 

Þá sé með þessari framkvæmd brotið gegn jafnræði lóðarhafa á svæðinu.  Fasteignir og eignarréttindi yfir fasteignum hafi um margt sérstöðu miðað við önnur eignarréttindi.  Réttarstaða fasteignareigenda sé yfirleitt mótuð til langframa, m.a. með skipulagsáætlunum.  Kærendur hafi gengið út frá deiliskipulagi, uppdrætti og fyrirmælum við ákvörðun um að byggja á lóðum sínum og þá byggingargerð og hæð húsa, sem skipulagið geri ráð fyrir.  Hið samþykkta deiliskipulag mæli fyrir um með hvaða hætti fasteignareigendum sé heimilt að nýta eignir sínar.  Það gangi ekki að heimila einum eiganda fasteignar eitt en öðrum annað.  Kærendur séu ekki að byggja til einnar nætur en það myndi rýra verðmæti eigna þeirra ef hús á lóðinni við Sómatún 6 yrði tveggja hæða og með því yrði gengið á stjórnarskrárvarinn eignarrétt kærenda.  Húsið að Sómatúni 4 myndi t.d. lenda á milli tveggja hæða húsa. 

Málsrök Akureyrarbæjar:  Í svarbréfi bæjaryfirvalda til annars kærenda, dags. 17. ágúst 2006, í tilefni af framkomnum athugasemdum við útgáfu hins kærða byggingarleyfis, eru sjónarmið bæjarins reifuð. 

Þar kemur fram að þar sem sótt hafi verið um byggingu húss að Sómatúni 6 að hluta til á tveimur hæðum hafi málið verið skoðað sérstaklega.  Lóðarhafi og hönnuður hússins hafi talið hönnunina í samræmi við gildandi skipulagsskilmála.  Þar komi fram að húsagerð H1 og H2 sé einnar til tveggja hæða, þar sem landhalli leyfi, með innbyggðum bílgeymslum. 

Eftir gaumgæfilega skoðun á landhalla lóðarinnar og texta greinargerðar skipulagsins með skipulagshönnuðum hafi verið samdóma álit allra þeirra sem að málinu komu að heimila umsótta stöllun umrædds húss ásamt því að byggja á tveimur hæðum eins og skilmálasneiðingar sýndu miðað við hús ofan götu. 

Á skipulagsuppdrætti séu gefnar upp leiðbeinandi hæðartölur, s.s. 1h við sum einbýlishúsin.  Í umræddu tilviki hafi verið taldar forsendur fyrir tveggja hæða húsi innan þess svigrúms er skipulagsskilmálar hafi gefið. 

Óskað hafi verið eftir áliti skipulagshönnuða áður en byggingarleyfið hafi verið veitt og á ný í tilefni af erindi eins kærenda.  Í niðurlagi minnisblaðs skipulagshönnuða segi svo:  „Það samræmist okkar skipulagshugmyndum að H-hús sem er merkt sem 1h á deiliskipulagsuppdrætti sé 2 hæðir ef landhalli lóðarinnar býður upp á það. En virða ber nágrannaréttinn þannig að sýna þarf fram á að hækkunin valdi ekki skerðingu á sólarljósi og útsýni nærliggjandi lóða.“

Á fundi umhverfisráðs hafi götumyndin verið skoðuð sérstaklega með væntanlegt útlit húsanna að Sómatúni 2, 4, 6, 8 og 10 í huga með hliðsjón af fyrirliggjandi áliti skipulagshönnuða.  Þegar götumyndin sé skoðuð komi fram að fjarlægð milli þess hluta umdeildrar byggingar sem sé á tveimur hæðum og hússins að Sómatúni 4 séu tæpir 15 metrar en húshæðin sé 6,2 metrar.  Í ljósi þessa sé ekki um skerðingu á sólarljósi eða útsýni eða öðrum hagsmunum kærenda að ræða vegna fyrirhugaðrar byggingar að Sómatúni 6. 

Á það sé bent að við hönnun hússins að Sómatúni 4 hafi ekki verið tekið tillit til landhalla sem sé talsverður og mestur næst húsinu að Sómatúni 6.  Byggingin sé grafin niður að vestanverðu um 1,7 metra miðað við landhæð á lóðarmörkum. 

Andmæli byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er gerð sú krafa að veiting hins kærða byggingaleyfis verði staðfest. 

Byggingarleyfishafi bendi á að starfsmenn umhverfisdeildar Akureyrarbæjar hafi talið hönnun hússins að Sómatúni 6 í samræmi við deiliskipulag og því hafi verið lokið við hönnun hússins.  Í bréfi skipulags- og byggingafulltrúa til eins kærenda frá 17. ágúst sl. sé rakið hvernig staðið hafi verið að veitingu umdeilds byggingaleyfis og sé tekið undir það sem þar komi fram. 

Athygli sé vakin á því að í raun séu kærendur að gera athugasemd við innra skipulag umrædds húss þar sem málið snúist um milligólf í þeim hluta hússins sem sé hærri.  Hámarkshæð húsa samkvæmt skipulagsskilmálum sé 4,8 metrar og sé hús byggingarleyfishafa innan þeirra marka.  Ekki verði séð að kærendur eigi hagsmuna að gæta varðandi innra fyrirkomulag húss byggingarleyfishafa. 

Í greinargerð umrædds deiliskipulags segi að markmið með skipulaginu sé m.a. margbreytileg byggð sérbýlis með rólegri heilsteyptri götumynd.  Síðan segi að sveigjanlegir skilmálar um húsform og stærð gefi fjölbreytilega byggð og að landhalli sé þó nokkur á nokkrum lóðum einbýlishúsa.  Hús skuli aðlagast landi og þannig verði möguleiki á aukinni lofthæð eða jafnvel viðbótarhæð.  Þessi umsögn verði ekki skilin á annan veg en að heimilt hafi verið að byggja hús þeirrar gerðar sem leyfi hafi verið veitt fyrir. 

Bent sé á að í umsögn skipulagshönnuða, sem leitað hafi verið til vegna málsins, komi fram að tveggja hæða hús á umræddri lóð samræmist þeirra skipulagshugmyndum og þó svo að hús sé merkt ein hæð á deiliskipulagsuppdrætti komi það ekki í veg fyrir að byggt sé tveggja hæða hús á lóðinni ef landhalli bjóði upp á það. 

Meginröksemd kærenda sé sú að á deiliskipulagsuppdrætti hafi verið gert ráð fyrir húsi á einni hæð á lóðinni að Sómatúni 6 og í því felist bindandi ákvörðun.  Það sé áréttað sem áður hafi verið sagt um hvernig staðið hafi verið að veitingu byggingaleyfisins en fyrir liggi að skipulagshönnuðir telji ekkert í veginum fyrir því að hús byggingarleyfishafa verði að hluta á tveimur hæðum.  Í þessu sambandi verði að hafa í huga hvað deiliskipulag sé, en það sé skilgreint í 3. mgr. 2. gr. laga nr. 73/1997 sbr. grein 1.3 í reglugerð nr. 400/1998.  Í tilvitnuðum ákvæðum komi fram að um sé að ræða áætlun um skipulag afmarkaðra reita.  Deiliskipulagsuppdráttur eigi að sýna fyrirhugaða byggð en það sem ráði séu þó skipulagsskilmálarnir.  Á uppdrættinum hafi verið gefnar upp leiðbeinandi hæðartölur fyrir þau hús sem gert hafi verið ráð fyrir að risu við Sómatún, en í skipulagsskilmálunum sé gert ráð fyrir að við hönnun húsa verði tekið tillit til landhalla.  Í skilmálunum sé greinilega ekki gert ráð fyrir að merkingar á uppdrættinum séu bindandi.  Það séu engin efni til að túlka deiliskipulagið eins þröngt og kærendur geri því að slíkt hafi ekki stoð í skipulagsskilmálunum.  Auk þess verði að benda á að deiliskipulag sé áætlun, sem vissulega beri að fylgja, en langsótt sé að það beri að túlka eins og kærendur haldi fram.  Af skipulagsskilmálunum verði ráðið að þær hugmyndir sem fram séu settar á deiliskipulagsuppdrætti séu ekki endanlegar og bindandi. 

Í 4. mgr. 23. gr. laga nr. 73/1997 segi að deiliskipulag skuli setja fram í greinargerð og á uppdrætti.  Síðan segi að í greinargerð beri að lýsa forsendum skipulagsins og einstök atriði skýrð.  Þar eigi einnig að koma fram byggingaskilmálar.  Ef auk þess sé litið til 5. kafla reglugerðar nr. 400/1998 sé ljóst að það sé í greinargerðinni sem skipulagsskilmálarnir skuli koma fram.  Hús byggingarleyfishafa sé í samræmi við skilmálana og sé hannað með það í huga að það aðlagist halla lóðarinnar sem best. 

Ekki sé fallist á það að landhalli lóðarinnar að Sómatúni 6 bjóði ekki upp á tveggja hæða hús en mesti hæðarmunur lóðarinnar sé 1,89 metrar.  Vísað sé til þess að hæð hússins sé innan þeirra marka sem gert sé ráð fyrir í skipulagi.  Engin afdráttarlaus afstaða sé tekin til þess í deiliskipulaginu hvað halli á landi þurfi að vera mikill svo að heimilað verði að byggja hús á tveimur hæðum en slíkt hafi verið metið með tilliti til legu húss í landinu við meðferð umsóknar um leyfi til byggingar slíks húss.  Minnt sé á að í umsögn skipulagshönnuða komi fram sú skýra afstaða þeirra að það samrýmist þeirra hugmyndum að hús, sem merkt séu 1h, geti verið byggð sem tveggja hæða og renni það stoðum undir þá ályktun að merkingar á deiliskipulagsuppdrætti hafi ekki verið bindandi. 

Byggingarleyfishafi telji að misskilnings gæti hjá kærendum um að umrætt hús standi á jarðvegspúða og hvað varði skilning á skipulagsskilmálunum í því efni.  Í þessu máli sé ekki til úrlausnar frágangur á lóð við húsið svo að þessi rök kærenda geti ekki átt við. 

Ekki sé fallist á þau rök kærenda að jafnræðis hafi ekki verið gætt gagnvart lóðarhöfum.  Vandséð sé hvernig komist verði að þessari niðurstöðu.  Kærendur hafi sóst sérstaklega eftir þeim lóðum sem þeir fengu vegna þess að þeir hafi talið að á þeim mætti byggja hús á einni hæð.  Þeir hafi því eðlilega ekki sótt um að fá að byggja hús á tveimur hæðum og því ómögulegt að átta sig á því hvernig hægt sé að halda því fram að Akureyrarbær hafi ekki gætt jafnræðis í þessu efni. 

Þá verði ekki séð að hin umdeilda bygging geti skert eignarrétt kærenda.  Heimilt sé að byggja enn hærra hús en fyrirhugað sé svo að þessi sjónarmið séu langsótt. 

Að lokum sé bent á að þrátt fyrir ítarlegan rökstuðning kærenda fyrir kröfum sínum hafi ekki komið fram hvaða lögvörðu hagsmunum þeirra verði raskað með umdeildri byggingu.  Þeir beri ekki fyrir sig venjuleg grenndarsjónarmið. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um veitingu byggingarleyfis fyrir einbýlishúsi, að hluta til á tveimur hæðum, á lóðinni nr. 6 við Sómatún á Akureyri.  Er ágreiningur um hvort deiliskipulag 2. áfanga Naustahverfis heimili stöllun húss á nefndri lóð. 

Kærendur eiga lóðir er liggja beggja vegna við lóð byggingarleyfishafa.  Það hvort heimilt sé að byggja húsið að Sómatúni 6 að hluta til á tveimur hæðum getur snert hagsmuni kærenda svo sem vegna yfirsýnar yfir á lóðir þeirra frá annarri hæð umdeildrar byggingar.  Verða kærendur því taldir eiga lögvarinna hagsmuna að gæta í máli þessu og eiga af þeim sökum kæruaðild. 

Í sameiginlegum ákvæðum í skilmálum umrædds deiliskipulags kemur fram að til úthlutunar voru 17 einnar hæðar hús af gerðinni H.  Þar kemur og fram í texta undir yfirskriftinni „Byggingar“ að húshæð sé gefinn upp sem bindandi hæðafjöldi og hámarkshæð byggingar yfir aðkomukóta.  Í sérákvæðum skilmálanna, er taka til húsa af gerðinni H, er sagt að um sé að ræða einnar til tveggja hæða einbýlishús með innbyggðum bílgeymslum þar sem landhalli bjóði uppá.  Á deiliskipulagsuppdrætti eru allar lóðir merktar ákveðnum húsagerðum og hæðafjölda.  Samkvæmt uppdrættinum er gert ráð fyrir að á lóðinni að Sómatúni 6 skuli rísa einnar hæðar einbýlishús af gerðinni H og er lóðin merkt með sama hætti á mæliblaði. 

Af greindum skilmálum og skipulagsuppdrætti verður ekki annað ráðið en að í umræddu deiliskipulagi felist ákvörðun um húsagerðir og hæðafjölda húsa á einstökum lóðum, enda er enginn fyrirvari á skipulagsuppdrætti eða í skilmálum er bendi til annars.  Verður að líta svo á að með merkingum lóða á staðfestum deiliskipulagsuppdrætti hafi verið tekin afstaða til þess á hvaða lóðum skipulagssvæðisins væri rétt að heimila byggingu eins til tveggja hæða húsa með tilliti til landhalla.  Sú staðreynd að sömu merkingar um húsagerð og hæðafjölda er að finna á mæliblaði umræddra lóða, sem samkvæmt áritun var síðast breytt hinn 18. ágúst 2006, rennir jafnframt stoðum undir þá ályktun.  Verður og að hafna þeirri túlkun bæjaryfirvalda að í skipulagsskilmálum geti falist heimildir til frávika frá ótvíræði framsetningu skipulagsuppdráttar. 

Samkvæmt því sem rakið hefur verið er hið kærða byggingarleyfi ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag svæðisins svo sem áskilið er í 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og verður það af þeim sökum fellt úr gildi. 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Akureyrar frá 24. maí 2006, er bæjarstjórn Akureyrar staðfesti hinn 17. október 2006, um að veita byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi, að hluta til á tveimur hæðum, á lóðinni nr. 6 við Sómatún á Akureyri, er felld úr gildi. 

 

 

   ___________________________         
                               Hjalti Steinþórsson                                 

 

_____________________________   _________________________
Ásgeir Magnússon                                       Þorsteinn Þorsteinsson