Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

38/2004 Akranes

Með

Ár 2006, fimmtudaginn 1. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Sigurður Erlingsson verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 38/2004, kæra á breyttu deiliskipulagi miðbæjarreits á Akranesi frá 11. maí 2004.  

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála er barst nefndinni hinn 29. júní 2004, kæra R og J, bæði til heimilis að Dalbraut 21, Akranesi þá ákvörðun bæjarstjórnar Akraness frá 11. maí 2004 að breyta deiliskipulagi miðbæjarreits á Akranesi. 

Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir og málsrök aðila:  Á fundi bæjarstjórnar Akraness hinn 11. maí 2004 voru samþykktar breytingar á deiliskipulagi svokallaðs miðbæjarreits á Akranesi. Fól hin breytta skipulagsákvörðun m.a. í sér að á svæðinu, þar sem áður hafði eingöngu verið gert ráð fyrir verslun og þjónustu, var nú einnig gert ráð fyrir íbúðarbyggð.  Var þannig gert ráð fyrir samtals fjórum lóðum, tveimur fyrir 10 hæða íbúðarhús, lóð fyrir verslunarmiðstöð og lóð verslunarinnar Skagavers. 

Tillaga að breyttu deiliskipulagi var auglýst frá 28. janúar 2004 til 28. febrúar 2004 og var frestur til að skila athugasemdum til 12. mars sama ár.  Margar athugasemdir komu fram vegna tillögunnar, m.a. frá kærendum.  Á fundi bæjarstjórnar Akraness hinn 11. maí 2004 voru breytingar á deiliskipulaginu samþykktar og birtist auglýsing um gildistöku þess í B-deild Stjórnartíðinda hinn 9. júlí 2004. 

Á fundi bæjarstjórnar Akraness hinn 12. apríl 2005 var á ný samþykkt breyting á deiliskipulagi miðbæjarreits sem fól í sér breytta staðsetningu beggja  íbúðarhúsanna sem fyrirhugað var að reisa á reitnum, auk breytinga á fyrirkomulagi bílastæða og bílageymslu.  Þá var og gerð breyting á byggingarreit verslunarmiðstöðvarinnar hvað varðar lögun hans og staðsetningu.  Birtist auglýsing um gildistöku breytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda hinn 12. maí 2005.  Hefur þeirri deiliskipulagsákvörðun bæjaryfirvalda á Akranesi ekki verið skotið til úrskurðarnefndarinnar.

Eins og að framan greinir gera kærendur þá kröfu að hin kærða deiliskipulagsbreyting verði felld úr gildi.  Vísa þau m.a. til þess að breytingin geri ráð fyrir mannvirkjum sem séu í engu samræmi við umhverfi sitt, bæjaryfirvöld hafi ekki tekið afstöðu til mótmæla sem sett hafi verið fram þegar tillaga að breytingunni hafi verið auglýst ásamt því að óupplýst sé um skuggavarp bygginga þeirra er rísa muni á svæðinu. 

Af hálfu Akraness er þess krafist að kærunni verði vísað frá sökum þess að hinni kærðu deiliskipulagsákvörðun hafi verið breytt.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið liggur fyrir að bæjarstjórn Akraness hefur með samþykkt sinni hinn 12. apríl 2005 breytt hinni kærðu ákvörðun í grundvallaratriðum og hefur af þeim sökum ekki lengur þýðingu að fjalla um lögmæti hennar.  Eiga kærendur hér eftir ekki lögvarða hagsmuni því tengda að fá efnisúrlausn í kærumáli þessu svo sem áskilið er í 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Verður málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna þess fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessi er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

   _____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

____________________________                               ___________________________  
         Ásgeir Magnússon                                                         Sigurður Erlingsson

 

 

6/2006 Hliðsnes

Með

Ár 2006, miðvikudaginn 24. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent.

Fyrir var tekið mál nr. 6/2006, kæra á ákvörðun skipulagsnefndar Álftaness frá 11. janúar 2006 um að synja umsókn um leyfi til byggingar einbýlishúss að Hliðsnesi á Álftanesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála hinn 31. janúar 2006 kærir Klemenz Eggertsson hdl., f.h. H, Hliðsnesi 2, Álftanesi ákvörðun skipulagsnefndar Álftaness frá 11. janúar 2006 um að synja umsókn kæranda um leyfi til byggingar einbýlishúss að Hliðsnesi á Álftanesi.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi bæjarstjórnar Álftaness hinn 24. janúar 2006.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt krefst hann þess að úrskurðarnefndin samþykki erindi kæranda um byggingarleyfi og að hún úrskurði honum hæfilegan málskostnað úr hendi varnaraðila.

Málsatvik:  Með bréfi, dagsettu 19. september 2005, óskaði kærandi eftir leyfi til að byggja einbýlishús á landareign sinni að Hliðsnesi á Álftanesi.  Tekið var fram að fyrir væri á landinu einbýlishús og hesthús.  Erindið var tekið fyrir á fundi bæjarráðs Álftaness hinn 22. september 2005 og samþykkti ráðið að vísa málinu til skipulagsnefndar. 

Erindi kæranda var tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar hinn 28. september 2005 og var eftirfarandi bókun gerð í málinu:  „Bréf landeiganda í Hliðsnesi, Halldórs Júlíussonar dags. 19. september sl. þar sem óskað er eftir byggingarleyfi fyrir íbúðarhúsi í Hliðsnesi.  Bæjarráð samþykkti á fundi sínum þann 22. september sl. að vísa erindinu til skipulagsnefndar. Efni bréfsins kynnt og rætt. Skipulagsfulltrúa er falið að taka saman upplýsingar og málið sem verður áfram til umfjöllunar í nefndinni.“

Málið var tekið fyrir að nýju í skipulagsnefnd hinn 7. desember 2005 og þá gerð í málinu svofelld bókun:  „Hliðsnes. Skipulagsfulltrúi leggur fram gögn vegna umsóknar Halldórs Júlíussonar um heimild til byggingar íbúðarhúss. Erindið verður áfram til umfjöllunar í nefndinni.“

Málið var enn tekið fyrir í skipulagsnefnd á fundi hinn 11. janúar 2006 og eftirfarandi bókað:  „Hliðsnes. Umsókn Halldórs Júlíussonar dags. 19. september 2005 um leyfi til byggingar íbúðarhúss á Hliðsnesi.  Skipulagsnefnd hefur haft málið til umfjöllunar undanfarið og er það niðurstaða að hafna erindi bréfritara þar sem fyrirhugaðar byggingar falla utan afmarkaðs íbúðasvæðis skv. tillögu að aðalskipulagi 2005-2024.“

Var þessi niðurstaða staðfest á fundi bæjarstjórnar Álftaness hinn 24. janúar 2006 og tilkynnt kæranda með bréfi, dags. sama dag.  Er það þessi ákvörðun sem kærð er í máli þessu.  

Aðalskipulagstillaga sú er vísað er til í bókun skipulagsnefndar frá 11. janúar 2006 hafði á þeim tíma komið til fyrri umræðu í sveitarstjórn og verið auglýst til kynningar frá 16. desember 2005 til 12. janúar 2006, en frestur til að gera athugasemdir var til 27. janúar 2006.  Var skipulagstillagan eftir það til meðferðar hjá Skipulagsstofnun en á fundi bæjarstjórnar Álftaness hinn 10. apríl 2006 var tillaga skipulagsnefndar að aðalskipulagi 2005 – 2024 samþykkt með breytingum sem gerðar höfðu verið í kjölfar athugasemda Skipulagsstofnunar og var eftirfaradi bókun gerð í málinu:  „Bæjarstjórn samþykkir orðalagsbreytingar við greinargerð tillögunnar. Bæjarstjórn samþykkir tillögu skipulagsnefndar að aðalskipulagi Álftaness 2005-2024. Skipulagsfulltrúa er falið að senda aðalskipulagstillöguna til samþykktar hjá Skipulagsstofnun og auglýsa hana.“

Samkvæmt upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur aflað af sjálfsdáðum hefur Skipulagsstofnun lokið lögboðinni afgreiðslu málsins til staðfestingar ráðherra og mun skipulagstillagan hafa hlotið staðfestingu hinn 19. maí 2006, en ekki verður séð að auglýsing um gildistöku hennar hafi enn verið birt í B-deild Stjórnartíðinda.

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er á  því byggt að við ákvörðun um erindi hans hafi skipulagsnefnd og sveitarstjórn borið að leggja til grundvallar gildandi aðalskipulag fyrir sveitarfélagið 1993 – 2013, sem staðfest hafi verið af umhverfis¬ráðherra hinn 1. desember 1993.  Samkvæmt því skipulagi sé svæðið þar sem kærandi hafi áformað að reisa einbýlishús ótvírætt ætlað til íbúðabygginga.  Áður hafi verið veitt leyfi fyrir byggingu íbúðarhúss á svæðinu og nýverið, eða hinn 24. janúar 2006, hafi verið samþykkt leyfi til byggingar einbýlishúss og sérstaks baðhúss að Hliði (Hliðsvegi 1) þar sem skipulags- og landfræðilegar aðstæður séu algerlega sambærilegar.  Megi því ætla að sveitarstjórn hafi orðið á mistök eða að ómálefnaleg rök hafi ráðið för við ákvörðun sveitarfélagsins.  Jafnframt hafi verið brotið gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga við afgreiðslu málsins. 

Málsrök bæjararstjórnar Álftaness:  Eins og að framan greinir var hin kærða ákvörðun skipulagsnefndar einungis studd þeim rökum að hafna bæri erindi kæranda þar sem fyrirhugaðar byggingar féllu utan afmarkaðs íbúðasvæðis samkvæmt tillögu að aðalskipulagi 2005-2024.  Í greinargerð Álftaness í kærumáli þessu, dags. 9. mars 2006, kemur fram að í gildi sé aðalskipulag sveitarfélagsins fyrir 1993-2013.  Þá sé til umfjöllunar nýtt aðalskipulag, sem gert sé ráð fyrir að gildi til ársins 2024.  Það skuli áréttað að í aðalskipulagi séu landnotkunarreitir almennt ekki hnitasettir eða staðsettir á nákvæman hátt, heldur sé gert ráð fyrir að fyrirkomulag og staðsetning verði útfærð nánar í deiliskipulagi.  Hins vegar hafi ekki verið samþykkt deiliskipulag fyrir það svæði sem kæran taki til.

Í 43. gr. laga nr. 73/1997 sé ráð fyrir því gert að sveitarstjórn veiti byggingarleyfi og eigi það að vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag.  Þar sem ekki liggi fyrir samþykkt deiliskipulag fyrir reitinn hafi verið ljóst við afgreiðslu bæjarstjórnar að framangreind skilyrði 43. gr. laga nr. 73/1997 væru ekki uppfyllt við afgreiðslu erindis kæranda.  Þar sem í tillögu að nýju aðalskipulagi hafi verið fyrirhugað að byggingarsvæði á Hliðsnesi yrði minnkað töluvert, m.a. vegna flóðahættu, hafi jafnframt ekki verið talið rétt að fallast á umsókn kæranda, einkum þar sem fyrirhuguð nýbygging myndi lenda utan skilgreinds 30 – 50 metra öryggissvæðis í hinu fyrirhugaða skipulagi.

Loks sé kröfu um kostnað vegna málsmeðferðar fyrir nefndinni mótmælt þar sem telja verði að lagaheimild skorti til slíkrar ákvörðunar.  Sé þess því krafist að kröfu kæranda um kærumálskostnað verið vísað frá nefndinni. 

Niðurstaða:  Eins og að framan greinir hafnaði skipulagsnefnd umsókn kæranda á fundi sínum hinn 11. janúar 2006 með þeim rökum einum að fyrirhugaðar byggingar féllu utan afmarkaðs íbúðasvæðis samkvæmt tillögu að aðalskipulagi 2005-2024.  Var þessi afgreiðsla samþykkt af bæjarráði og bæjarstjórn án frekari rökstuðnings eða athugasemda.  Í afgreiðslunni fólst að lögð var til grundvallar tillaga að aðalskipulagi sem þá hafði hvorki hlotið endanlegt samþykki sveitarstjórnar né lögboðna málsmeðferð Skipulagsstofnunar og staðfestingu ráðherra.  Var þessi málsmeðferð andstæð ákvæði 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, þar sem m.a. er áskilið að byggingarleyfi skuli vera í samræmi við staðfest aðalskipulag.  Jafnframt var þessi afgreiðsla andstæð þeirri grundvallarreglu að stjórnvaldsfyrirmælum, sem sæti birtingu að lögum, verði ekki beitt fyrr en birting hafi farið fram, sbr. 8. gr. laga nr. 15/2005.  Var hin kærða ákvörðun því ekki reist á lögmætum sjónarmiðum og leiða þeir annmarkar til ógildingar hennar.

Fyrir liggur að skipulagsfulltrúi lagði fram ný gögn í málinu á fundi skipulagsnefndar hinn 7. desember 2005, sem voru beinlínis til þess fallin að hafa áhrif á niðurstöðu nefndarinnar í málinu.  Þessi gögn voru ekki kynnt kæranda og var því ekki gætt andmælareglu 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við meðferð málsins.  Leiðir sá ágalli einnig til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Í greinargerð bæjarstjórnar í kærumálinu er leitast við að skjóta frekari stoðum undir niðurstöðu skipulagsnefndar í málinu.  Er þar annars vegar á því byggt að ekki hafi verið unnt að verða við erindi kæranda vegna þess að deiliskipulag hafi ekki verið gert fyrir umrætt svæði og hins vegar að fyrirhuguð nýbygging samræmdist ekki væntanlegu aðalskipulagi.  Þykir rétt að víkja stuttlega að þessum röksemdum enda þótt slíkur, síðar til kominn, rökstuðningur geti ekki haft áhrif á gildi hinnar kærðu ákvörðunar.

Þegar hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að óheimilt hafi verið að leggja til grundvallar ákvörðun í málinu ákvæði aðalskipulagstillögu á vinnslustigi svo sem gert var.  Verður ítarlegri rökum af sama meiði í greinargerð sveitarfélagsins því hafnað.

Rétt er að samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skulu byggingarleyfi vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag.  Hins vegar segir í 3. mgr. 23. gr. sömu laga að sveitarstjórn geti veitt heimild til framkvæmda í þegar byggðum hverfum, þar sem deiliskipulag liggi ekki fyrir, að undangenginni grenndarkynningu, sbr. 7. mgr. 43. gr.  Segir í tilvitnaðri 7. mgr. 43. gr. að þegar sótt sé um byggingarleyfi í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggi ekki fyrir eða um sé að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi, sbr. 2. mgr. 26. gr., skuli skipulagsnefnd fjalla um málið og láta fara fram grenndarkynningu áður en það hljóti afgreiðslu byggingarnefndar. 

Samkvæmt framansögðu er það ekki ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis að deiliskipulag liggi fyrir.  Bar bæjarstjórn, með hliðsjón af lögvörðum rétti kæranda til hagnýtingar á eignarlandi sínu, að taka til athugunar hvort skilyrði væru til að veita byggingarleyfi í samræmi við umsókn kæranda að undangenginni grenndarkynningu með heimild í tilvitnuðum ákvæðum.  Þessa var ekki gætt og var meðferð málsins því einnig áfátt að þessu leyti.

Umsókn kæranda barst bæjaryfirvöldum hinn 22. september 2005 en meðferð málsins lauk rúmum fjórum mánuðum seinna með staðfestingu bæjarstjórnar hinn 24. janúar 2006.  Verður ekki ráðið af málsgögnum að nein þau atvik hafi verið fyrir hendi er réttlættu þann drátt er varð á afgreiðslu málsins og ber að átelja hann.

Samkvæmt framansögðu er hin kærða ákvörðun haldin verulegum ágöllum sem þykja eiga að leiða til þess að hún verði ógilt.

Ekki verður fallist á þá málsástæðu kæranda að brotið hafi verið gegn jafnræðisreglu með hinni kærðu ákvörðun, enda eru skipulagsforsendur ekki sambærilegar í Hliði  og í Hlíðsnesi. 

Ekki er á færi úrskurðarnefndarinnar að verða við kröfu um að veita umbeðið byggingarleyfi og verður þeirri kröfu vísað frá nefndinni.  Kröfu um kærumálskostnað verður einnig vísað frá þar sem fyrir henni er ekki lagastoð.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist lítillega vegna mikilla anna hjá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun um að synja umsókn kæranda um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi að Hliðsnesi á Álftanesi er felld úr gildi.  Vísað er frá úrskurðarnefndinni kröfum kæranda um að nefndin veiti honum umrætt byggingarleyfi og um kærumálskostnað.

 

 ___________________________          
Hjalti Steinþórsson

 

____________________________               ____________________________     
Þorsteinn Þorsteinsson                                      Aðalheiður Jóhannsdóttir

60/2005 Garðastræti

Með

Ár 2006, miðvikudaginn 24. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent. 

Fyrir var tekið mál nr. 60/2005, kæra á ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 6. júlí 2005 um breytingu á deiliskipulagi vegna sendiráðslóðar að Garðastræti 33 í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 24. júlí 2005, er barst nefndinni hinn 5. ágúst s.á., kæra I, G, R, T, M, R og G, íbúar að Túngötu 3 í Reykjavík, þá ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 6. júlí 2005 að breyta deiliskipulagi vegna lóðar sendiráðs Rússneska sambandsríkisins að Garðastræti 33, Reykjavík, sem fól í sér heimild til byggingarframkvæmda á lóð sendiráðsins.  Borgarráð staðfesti ákvörðunina hinn 7. júlí 2005 og var auglýsing um gildistöku hennar birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 22. júlí s.á.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málsatvik:  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur 22. desember 2004 var lögð fram tillaga skipulagsfulltrúa að breytingu á deiliskipulagi lóðar nr. 33 við Garðastræti og var samþykkt að grenndarkynna tillöguna fyrir hagsmunaaðilum að Túngötu 3 og 5 og Suðurgötu 4, 6, 8 og 8A.  Við grenndarkynninguna komu fram athugasemdir vegna fyrirhugaðra byggingaráforma, m.a. frá kærendum.  Skipulagsráð hafnaði skipulagstillögunni á fundi sínum hinn 2. febrúar 2005 með vísan til fyrirliggjandi umsagnar skipulagsfulltrúa og fól honum ásamt byggingarfulltrúa að funda með lóðarhafa til að leita annarra lausna með liðsinni utanríkisráðuneytis.  Ný skipulagstillaga var síðan lögð fram og samþykkti skipulagsráð hinn 25. maí 2005 að grenndarkynna hana fyrir hagsmunaaðilum og var tillögunni andmælt af hálfu kærenda.  Á fundi skipulagsráðs hinn 6. júlí 2005 var málið tekið fyrir á ný og deiliskipulagsbreytingin samþykkt.

Kærendur mótmæla stærð, staðsetningu og fyrirhugaðri notkun nýbyggingar sem heimiluð sé með hinni kærðu ákvörðun.  Kærendur telja að brotinn sé réttur á þeim með undirlægjuhætti við erlent ríki.  Benda þeir á að framkvæmdir haldi áfram á umræddri lóð þrátt fyrir að byggingarleyfi hafi ekki enn verið veitt.  Spurning vakni um hvort farið verði að íslenskum byggingarreglugerðum og ekki sé vitað til að útlitsteikning liggi fyrir af byggingunni.  Óviðunandi sé að reist verði sprengjuhelt pósthús við lóðarmörk þeirra og sendiráðslóðarinnar.  Heimiluð bygging muni leggja garð kærenda í rúst og eyðileggja nýtingu hans.  Útsýni muni skerðast úr garðinum og verðmæti fasteignar þeirra rýrna.  Bent sé á að nýtingarhlutfall lóðarinnar að Garðastræti 33 verði 0,91 eftir umdeilda breytingu og sé það í ósamræmi við sambærilegar lóðir við Garðastræti.  Nýbygging rússneska sendiráðsins, 400 fermetrar að stærð, sé inni í miðjum garði upp í lóðamörkum þess og Túngötu 3 en þar hafi ekki ekki verið gert ráð fyrir nýbyggingum í deiliskipulagi svæðisins sem staðfest hafi verið af umhverfisráðuneytinu 30. júní 1993. 

Reykjavíkurborg gerir þá kröfu að kærumáli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni með vísan til reglna úrlendisréttarins.  Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála, sem handhafi framkvæmdavalds, hafi ekki lögsögu um rétt og skyldur sendiráða, en óumdeilt sé að hin umdeilda breyting á deiliskipulagi sé alfarið innan marka lóðar sendiráðs Rússneska sambandsríkisins.  Samkvæmt 22. gr. Vínarsamningsins um stjórnmálasamband frá 18. apríl 1961, sem Ísland sé aðili að, sbr. 1. gr. l. nr. 16/1971, njóti sendiráðssvæðið friðhelgi.  Samkvæmt 41. gr. umrædds samnings sé það hins vegar skylda allra þeirra, sem njóti forréttinda og friðhelgi, að virða lög og reglur móttökuríkisins, en þó þannig að forréttindi þeirra eða friðhelgi skerðist eigi.  Ágreiningur varðandi umdeildar framkvæmdir verði því aðeins til lykta leiddur á sviði þjóðarréttarins. 

Niðurstaða:  Hið umdeilda deiliskipulag varðar lóðina að Garðastræti 33 þar sem sendiráð Rússneska sambandsríkisins er til húsa.  Samkvæmt 22. gr. Vínarsamningsins um stjórnmálasamband frá 18. apríl 1961, sem öðlast hefur lagagildi hér á landi, sbr. 1. gr. laga nr. 16/1971, nýtur sendiráðssvæðið friðhelgi en í því felst að svæðið er utan dóms- og framkvæmdavaldslögsögu íslenska ríkisins.  Samkvæmt 41. gr. er það hins vegar skylda allra þeirra, sem njóta forréttinda og friðhelgi, að virða lög og reglur móttökuríkisins, en þó þannig að forréttindi þeirra eða friðhelgi skerðist eigi.  Í samræmi við þessa skyldu var hlutast til um að breyting yrði gerð á deiliskipulagi lóðarinnar nr. 33 við Garðastræti og var fallist á það af borgaryfirvöldum.  Er það sú stjórnvaldsákvörðun sem kærð var til úrskurðarnefndarinnar í máli þessu. 

Af 22. og 31. gr. áðurgreinds þjóðréttarsamnings, hefur úrskurðarnefndin ekki, sem handhafi stórnsýsluvalds, lögsögu um rétt eða skyldur sendiráðs Rússneska sambandsríkisins í máli þessu og yrði úrskurði er varðaði sendiráðssvæðið ekki framfylgt að íslenskum lögum.  Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

___________________________
                          Hjalti Steinþórsson                                 

 

____________________________         ____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Aðalheiður Jóhannsdóttir 

 

 

 

 

 

 

 

51/2003 Eddufell

Með

Ár 2006, miðvikudaginn 24. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent. 

Fyrir var tekið mál nr. 51/2003, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá  30. júlí 2003 um að fresta afgreiðslu umsóknar um leyfi fyrir veitingastað með ballskákborðum á efri hæð hússins nr. 8 við Eddufell.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 28. ágúst 2003, er barst nefndinni sama dag, kærir Sævar Guðlaugsson f.h. R ehf., Byggðarenda 4, Reykjavík eiganda húsnæðis að Eddufelli 8, Reykjavík, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 30. júlí 2003 að fresta afgreiðslu umsóknar kæranda um leyfi fyrir veitingastað með ballskákborðum á efri hæð hússins að Eddufelli 8. Ákvörðunin var staðfest í borgarráði hinn 12. ágúst 2003.  Kærandi gerir þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að honum verði veitt leyfi til umbeðinna breytinga.

Málsatvik:  Hinn 7. maí 2002 var á embættisafgreiðslufundi byggingarfulltrúa tekin fyrir fyrirspurn um hvort leyft yrði að opna veitingastað ásamt sportbar með billjardborðum á fyrstu hæð í húsinu nr. 8 á lóðinni nr. 2-8 við Eddufell og var tekið jákvætt í erindið.  Formleg umsókn um greindar breytingar var síðan til umfjöllunar á fundi skipulags- og byggingarnefndar 30. júlí 2003 en afgreiðslu hennar frestað með með vísan til 6. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 þar sem deiliskipulagsvinna stæði yfir fyrir umrætt svæði.  Kærandi sætti sig ekki við þessa ákvörðun og skaut málinu til úrskurðarnefndarinnar.

Bendir kærandi á að umrætt húsnæði standi autt og ekki hafi verið unnt að leigja það að óbreyttu.  Frestun á jákvæðri afgreiðslu umsóknar hans valdi honum því fjárhagslegu tjóni.

Reykjavíkurborg krefst þess að kröfum kærenda í máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella að ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar um frestun á afgreiðslu málsins verði staðfest.  Heimilt hafi verið að fresta afgreiðslu málsins skv. 6. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Frestunin hafi byggst á því að verið var að vinna deiliskipulagstillögu vegna Fellagarða, en lóðin Eddufell 8 sé á því svæði.  Sú deiliskipulagsbreyting hafi verið samþykkt í skipulagsráði 22. júní 2005 og staðfest í borgarráði 30. júní s.á að undangenginni aðalskipulagsbreytingu.  Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins hafi birst í B-deild Stjórnartíðinda hinn 21. júlí 2005.  Í hinu nýja deiliskipulagi sé heimilt að breyta húsinu Eddufelli 8 í íbúðarhús með bílageymslu fyrir 14 bíla í kjallara og heimilað að byggja tvær íbúðarhæðir ofan á húsið.  Deiliskipulagsbreyting þessi hafi ekki verið kærð.  Kærandi í máli þessu hafi hins vegar gert bótakröfu á hendur Reykjavíkurborg sem byggi á fyrrgreindu ákvæði 6. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga og af því verði ráðið að kærandi hafi talið heimilt að afgreiðslu málsins væri frestað á grundvelli greinds ákvæðis.  Kærandi hafi því enga lögvarða hagsmuni af því að fá úr því skorið hvort skipulags- og byggingarnefnd hafi verið heimilt að fresta afgreiðslu málsins.  Frávísunarkrafa Reykjavíkurborgar varðandi þá kröfu kæranda að úrskurðarnefndin heimili umræddar breytingar sé á því byggð að umfjöllun um slíka kröfu sé utan valdsviðs nefndarinnar.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Reykjavíkurborgar að fresta afgreiðslu umsóknar kæranda um breytta notkun húsnæðis að Eddufelli 8, en slík frestun er heimiluð í 6. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 í allt að tvö ár, m.a. ef breytingar á deiliskipulagi standa yfir.  Verði fasteignareigandi fyrir tjóni í slíkum tilfellum á hann rétt til bóta.

Fyrir liggur að breyting á  deiliskipulagi umrædds svæðis tók gildi hinn 21. júlí 2005 og er þar gert ráð fyrir að greint húsnæði sé nýtt til íbúðar.  Kærandi hefur ekki kært þá deiliskipulagsákvörðun en hefur farið fram á bætur á grundvelli fyrrgreindrar 6. mgr 43. gr.  Að þessum atvikum virtum þykir kærandi ekki lengur hafa hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar og verður málinu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og vegna tafa við gagnaöflun.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

___________________________
                          Hjalti Steinþórsson                                 

 

 

_____________________________             ____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                      Aðalheiður Jóhannsdóttir 

1/2006 Sorpurðunarsvæði

Með

Ár 2006, fimmtudaginn 18. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ásgeir Magnússon héraðsdómari. 

Fyrir var tekið mál nr. 1/2006, kæra á samþykkt skipulags- og byggingarnefndar og bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Ölfuss á tillögu að breyttu deiliskipulagi á sorpurðunarsvæði í landi Kirkjuferjuhjáleigu og á útgáfu sveitarfélagsins á framkvæmdaleyfi, hafi það verið gefið út vegna framkvæmda á svæðinu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 4. janúar 2006, er barst nefndinni hinn 5. sama mánaðar, kærir Reynir Karlsson hrl., f.h. eigenda jarðanna Grænhóls, Strýtu og Auðsholtshjáleigu í Ölfusi, „…samþykkt skipulags- og byggingarnefndar og bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Ölfuss á tillögu að breyttu deiliskipulagi á sorpurðunarsvæði í landi Kirkjuferjuhjáleigu og á útgáfu sveitarfélagsins á framkvæmdaleyfi, hafi það verið gefið út vegna framkvæmda á svæðinu.“ 

Kærendur gera þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og hafa jafnframt krafist bráðabirgðaúrskurðar um stöðvun framkvæmda við urðun sorps á svæðinu þar til niðurstaða liggi fyrir í kærumálinu. 

Málsatvik og rök:  Í athugasemdum við kæruna, sem úrskurðarnefndinni bárust hinn 11. maí 2006 frá lögmanni Sveitarfélagsins Ölfuss, kemur fram að hin kærða skipulagsákvörðun hafi verið staðfest á fundi bæjarráðs hinn 6. október 2005, eftir að afstaða hafi verið tekin til framkominna athugasemda.  Málið hafi síðan verið sent Skipulagsstofnun til afgreiðslu en stofnunin hafi gert athugasemdir við skipulagið og hafi bréf gengið á milli stofnunarinnar og sveitarfélagsins af því tilefni.  Sé nú unnið að því að verða við framkomnum athugasemdum Skipulagsstofnunar.  Af þessum sökum hafi auglýsing um gildistöku skipulagsins enn ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda. 

Í athugasemdum sveitarfélagsins er jafnframt upplýst að ekkert framkvæmdaleyfi hafi verið veitt fyrir framkvæmdum á svæðinu.  Framkvæmdirnar hafi hafist fyrir gildistöku laga nr. 73/1997 og hafi engin áskilnaður verið í eldri lögum um framkvæmdaleyfi.  Framkvæmdirnar eigi sér stoð í eldra skipulagi og séu ekki háðar framkvæmdaleyfi.  Beri því að hafna kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda og ógildingu framkvæmdaleyfis.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið hefur auglýsing um gildistöku hinnar umdeildu skipulagsákvörðunar enn ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda, en slík auglýsing er gildistökuskilyrði og markar jafnframt upphaf kærufrests, sbr. lokamálslið 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 með síðari breytingum.  Þykir ekki geta komið til álita að ógilda með úrskurði ákvörðun sem ekki hefur öðlast gildi að lögum og verður kröfu um ógildingu hinnar kærðu skipulagsákvörðunar því vísað frá meðan svo er ástatt.  Krafa um ógildingu framkvæmdaleyfis kemur ekki til álita þar sem fyrir liggur að ekkert slíkt leyfi hefur verið veitt.  Ekki getur heldur komið til álita að úrskurða til bráðbirgða um stöðvun framkvæmda með stoð í 6. mgr. 8. gr. laga nr. 73/1997, enda verður þeirri heimild einungis beitt í tengslum við úrlausn ágreinings um lögmæti ákvörðunar sem skotið hefur verið til nefndarinnar. 

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið verður máli þessu vísað í heild frá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

   ___________________________         
                      Hjalti Steinþórsson                                 

 

 

_____________________________                  ____________________________                 
           Þorsteinn Þorsteinsson                                          Ásgeir Magnússon

 

17/2004 Vesturbrún

Með

Ár 2006, fimmtudaginn 18. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ásgeir Magnússon héraðsdómari. 

Fyrir var tekið mál nr. 17/2004, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 4. febrúar 2004 um veitingu leyfis fyrir byggingu tveggja hæða steinsteyptrar viðbyggingar við suðurenda hússins nr. 20 við Vesturbrún í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 27. febrúar 2004, er barst nefndinni hinn 2. mars s.á., kæra Þ og K, eigendur húseignarinnar að Vesturbrún 39, Reykjavík, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 4. febrúar 2004 að veita leyfi fyrir byggingu tveggja hæða steinsteyptrar viðbyggingar við suðurenda hússins að Vesturbrún 20 í Reykjavík.  Ákvörðunin var staðfest í borgarstjórn hinn 5. febrúar 2004.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Með umsókn, dags. 18. nóvember 2003, sóttu eigendur fasteignarinnar að Vesturbrún 20 í Reykjavík um leyfi fyrir tveggja hæða 80 fermetra viðbyggingu við hús sitt.  Byggingarfulltrúi vísaði erindinu til umsagnar skipulagsfulltrúa á fundi sínum hinn 25. nóvember 2003.  Skipulagsfulltrúi afgreiddi málið 28. nóvember 2003 með eftirfarandi bókun:  „Jákvætt að grenndarkynna erindið þegar samþykki lóðarhafa á lóð nr. 22 liggur fyrir vegna fjarlægðar frá lóðarmörkum. Grenndarkynna fyrir hagsmunaaðilum að Vesturbrún 18, 22 og 39.“ 

Að lokinni grenndarkynningu var málið tekið fyrir í skipulags- og byggingarnefnd 4. febrúar 2004 þar sem fyrir lá athugasemdabréf frá kærendum, dags. 20. janúar 2004, og umsögn skipulagsfulltrúa um þær athugasemdir, dags. 29. janúar s.á.  Var umsótt viðbygging samþykkt.  Skutu kærendur þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Kærendur telja að með hinni samþykktu viðbyggingu, sem muni rísa um metra hærra en húsið að Vesturbrún 20, muni útsýni frá húsi þeirra að Vesturbrún 39 skerðast verulega og útsýni yfir Laugardalinn hverfa að mestu.  Á sínum tíma hafi þau valið sér lóð með tilliti til útsýnis og hafi hús þeirra verið skipulagt með það í huga og stofur þess vegna hafðar á efri hæð hússins.  Viðbyggingin muni rýra notagildi og verðmæti fasteignar þeirra. 

Benda kærendur á að þak hússins að Vesturbrún 20 hafi áður verið hækkað án nokkurrar umfjöllunar og nú hafi skipulags- og byggingarnefnd samþykkt hina kærðu breytingu rúmri viku eftir að athugasemdir kærenda hafi borist nefndinni og að því er virðist án nokkurrar skoðunar eða umfjöllunar. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Reykjavíkurborg krefst þess að kröfum kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar verði hafnað. 

Húsið við Vesturbrún 20 liggi lægra við götu heldur en hús á aðliggjandi lóðum. Vesturbrún 20 skyggi því mun minna á útsýni byggðar austan götu heldur en önnur hús í sömu línu.  Sú útsýnisskerðing sem verði vegna viðbyggingarinnar sé ekki meiri en vænta megi í borgarumhverfi.  Telja verði að hagsmunir umsækjanda við að geta byggt við hús sitt á þann hátt sem samþykkt hafi verið með hinni kærðu umsókn séu meiri en þeir hagsmunir kærenda sem hugsanlega fari forgörðum vegna lítilsháttar útsýnisskerðingar.  Benda megi á að réttur til óbreytts útsýnis sé ekki bundinn í lög og að íbúar í borg geti ávallt átt von á að nánasta umhverfi þeirra taki einhverjum breytingum. 

Fullyrðingar kærenda um rýrnun á notagildi húss þeirra frá fagurfræðilegum- og hagkvæmnisjónarmiðum séu með öllu órökstuddar og vandséð hvernig verðgildi eignar þeirra rýrni vegna viðbyggingarinnar. 

Andmæli byggingarleyfishafa:  Byggingarleyfishafar taka fram að vegna leka og aldurs þaks húss þeirra hafi verið nauðsynlegt að endurnýja það og hafi lögboðin leyfi verið veitt fyrir þeim framkvæmdum á sínum tíma.  Í kjölfar breytinga sem ráðist hafi verið í á húsinu að Vesturbrún 22 hafi þau ákveðið að kanna hvort heimiluð yrði viðbygging við hús þeirra enda það orðið æði lágreist í samanburði við næstu hús. 

Góð sátt hafi náðst um framkvæmdirnar við næstu nágranna en kærendur hafi verið ósáttir vegna ætlaðrar útsýnisskerðingar frá húsi þeirra.  Taka beri fram að 45 ára gamalt grenitré á lóð byggingarleyfishafa, sem hafi verið umtalsvert hærra en umdeild viðbygging, hafi verið fellt við upphaf framkvæmda og megi halda því fram að nokkurt viðbótarútsýni hafi skapast á móti þeirri takmörkuðu útsýnisskerðingu sem stafi af viðbyggingunni, en hús kærenda snúi gafli að Vesturbrún 20.  Þrátt fyrir það að viðbyggingin verði einum metra hærri en álma sú sem hún tengist sé byggingin tveimur til þremur metrum lægri en húsin beggja vegna við og hús byggingarleyfishafa verði í meira samræmi við götumynd eftir breytinguna. 

Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér staðhætti á vettvangi. 

Niðurstaða:  Hús kærenda stendur gegnt húsinu að Vesturbrún 20 handan götunnar.  Svæðið hefur ekki verið deiliskipulagt en breytingar og stækkanir munu hafa verið heimilaðar við hús á svæðinu. 

Með hinni kærðu viðbyggingu hækkar hluti hússins að Vesturbrún 20 um einn metra og verður nýtingarhlutfall lóðarinnar 0,34.  Húsin beggja vegna við það hús standa mun hærra við götu en húsið að Vesturbrún 20, þótt tekið sé mið af umdeildri viðbyggingu, og er nýtingarhlutfall þeirra lóða 0,4 og 0,32 en nýtingarhlutfall lóðar kærenda mun vera 0,6.  Fram kemur í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 29. janúar 2004, vegna grenndarkynningar umdeildrar breytingar að nýtingarhlutfall lóða á svæðinu sé frá 0,12 til 0,8.

Eins og hæðarlegu hússins að Vesturbrún 20 er háttað í samanburði við aðliggjandi hús verður ekki séð að umdeild viðbygging hafi veruleg grenndaráhrif gagnvart kærendum eða að húsið svo breytt raski núverandi götumynd.  Þá verður nýtingarhlutfall lóðarinnar ekki annað og meira en fyrir er á nágrannalóðum við umdeilda breytingu. 

Að þessu virtu og þar sem ekki liggur fyrir að annmarkar hafi verið á málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar verður ekki fallist á ógildingu hennar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og vegna tafa við gagnaöflun.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 4. febrúar 2004, sem staðfest var í borgarstjórn hinn 5. s.m., um að veita leyfi fyrir byggingu tveggja hæða steinsteyptrar viðbyggingar við suðurenda hússins að Vesturbrún 20 í Reykjavík.

 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_____________________________      ____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                      Ásgeir Magnússon

32/2006 Jöklasel

Með

Ár 2006, fimmtudaginn 18. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ásgeir Magnússon héraðsdómari.

Fyrir var tekið mál nr. 32/2006, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 11. apríl 2006 um að veita leyfi til að byggja steinsteypta bílskúra fyrir fjóra bíla norðaustanvert við lóð nr. 21-23 við Jöklasel í Reykjavík.

Í málinu er nú til bráðabirgða kveðinn upp svofelldur

úrskurður
um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 5. maí 2006, er barst nefndinni sama dag, kæra G og Í, Fjarðarseli 31, Reykjavík ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 11. apríl 2006 um að veita leyfi til að byggja steinsteypta bílskúra fyrir fjóra bíla norðaustanvert við lóð nr. 21-23 við Jöklasel í Reykjavík.

Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt er þess krafist að framkvæmdir, sem hafnar eru samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi, verði stöðvaðar meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Af hálfu úrskurðarnefndarinnar var byggingaryfirvöldum og byggingarleyfishöfum þegar gerð grein fyrir framkominni kæru og kröfu um stöðvun framkvæmda og þeim gefinn kostur á að tjá sig um málið.  Hefur byggingarfulltrúi sent úrskurðarnefndinni gögn er málið varða en engin svör hafa borist frá byggingarleyfishöfum.  Þykir málið þó nægilega upplýst til þess að úrskurðað verði til bráðabirgða um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Málsatvik og rök:  Ráðið verður af málsgögnum að snemma árs 2004 hafi komið fram ósk frá eigendum íbúða að Jöklaseli 21 og 23 um að fá að byggja fjóra bílskúra á landspildu í eigu Reykjavíkurborgar norðaustan við lóð umræddra húsa.  Var erindið tekið til athugunar hjá embætti skipulagsfulltrúa og hlaut jákvæðar undirtektir.  Var því beint til umsækjenda að láta vinna tillögu að breyttu skipulagi svæðisins þar sem gert væri ráð fyrir byggingu umræddra skúra.  Létu umsækjendur vinna tillögu að breyttu skipulagi og var samþykkt á fundi skipulagsráðs hinn 8. júní 2005 að grenndarkynna tillöguna fyrir hagsmunaaðilum að Jöklaseli 1 – 19 (oddatölur). 

Að lokinni grenndarkynningu var málið tekið fyrir að nýju í skipulagsráði og tillagan samþykkt á fundi ráðsins hinn 20. júlí 2005, með vísan til 12. gr. samþykkta fyrir skipulagsráð, en engar athugasemdir höfðu borist við tillöguna.  Var tillagan send Skipulagsstofnun til afgreiðslu með bréfi, dagsettu 22. júlí 2005.

Með bréfi, dags. 28. júlí 2005, lýsti Skipulagsstofnun þeirri afstöðu sinni að ekki væri gerð athugasemd við að birt yrði auglýsing um samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda og var sú auglýsing birt hinn 17. ágúst 2005.

Hinn 16. ágúst 2005 sóttu húsfélögin að Jöklaseli 21 og 23 um byggingarleyfi fyrir fjórum bílskúrum í samræmi við hið breytta skipulag.  Endanlegir uppdrættir, dags. 3. febrúar 2006, voru samþykktir af byggingarfulltrúanum í Reykjavík hinn 14. febrúar 2006.  Var sú ákvörðun staðfest á fundi borgarráðs hinn 16. sama mánaðar.

Hinn 11. apríl 2006 gaf byggingarfulltrúi út formlegt byggingarleyfi fyrir bílskúrunum með vísan til 44. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og er það sú ákvörðun sem kærð er í máli þessu.

Af hálfu kærenda er því haldið fram að bygging bílskúra suðaustan við eign þeirra að Fjarðarseli 31 muni skerða útsýni frá eigninni og skyggja á sól í garði.  Þarna hafi áður verði grænt svæði samkvæmt deiliskipulagi sem í gildi hafi verið allt frá árinu 1978.  Engin grenndarkynning hafi farið fram gagnvart hagsmunaaðilum við Fjarðarsel og hafi því ekki verið farið að lögum við undirbúning málsins.  Þá sé stærð og hæð fyrirhugaðra skúra meiri en eðlilegt geti talist.  Beri því að fella hið kærða byggingarleyfi úr gildi.  Af sömu ástæðum beri að stöðva framkvæmdir án frekari tafa.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið var gerð breyting á deiliskipulagi umrædds svæðis haustið 2005 þar sem gert er ráð fyrir byggingu bílskúra þeirra sem um er deilt í málinu.  Var auglýsing um skipulagsbreytinguna birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 17. ágúst 2005 og verður að líta svo á að hún teljist almenningi kunn frá þeim tíma.  Skipulagsákvörðun þessi hefur ekki verið kærð til úrskurðarnefndarinnar og hefur henni ekki verið hnekkt.  Verður því að leggja til grundvallar við úrlausn málsins að hið umdeilda byggingarleyfi eigi stoð í formlega gildu skipulagi.  Ekki hefur heldur verið sýnt fram á að byggingarleyfið fari í bága við skipulagsskilmála eða byggingarreglur en úrskurðarnefndin mun taka það til sjálfstæðrar athugunar.

Samkvæmt framansögðu eru óverulegar líkur á því að hið umdeilda leyfi verði fellt úr gildi og verður kröfum kærenda um stöðvun framkvæmda því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfum kærenda um að framkvæmdir við byggingu bílskúra samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi verði stöðvaðar.

 

___________________________         
                           Hjalti Steinþórsson                                 

 
_____________________________        ____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                 Ásgeir Magnússon

 

31/2003 Laugavegur

Með

Ár 2006, fimmtudaginn 11. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, varaformaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Geirharður Þorsteinsson arkitekt og skipulagshönnuður. 

Fyrir var tekið mál nr. 31/2003, kæra á samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 9. apríl 2003 um deiliskipulag staðgreinireits 1.174.2, er tekur til svæðis innan Laugavegar, Barónstígs, Grettisgötu og Vitastígs. 
 
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 12. maí 2003, er barst nefndinni hinn 14. sama mánaðar, kæra H, Laugavegi 76b og G, Laugavegi 76a samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 9. apríl 2003 um deiliskipulag staðgreinireits 1.174.2, er tekur til hluta Laugavegar, Barónstígs, Grettisgötu og Vitastígs. 

Skilja verður kröfugerð kærenda á þann veg að þeir krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi eða henni breytt.  Þá er einnig krafist skaðabóta.  

Málsatvik:  Skipulags- og byggingarnefnd ákvað á fundi hinn 5. júní 2002 að auglýsa til kynningar tillögu að deiliskipulagi staðgreinireits 1.174.2, er tekur til svæðis innan Laugavegar, Barónstígs, Grettisgötu og Vitastígs.  Tillagan var auglýst til kynningar frá 12. júlí 2002 til 23. ágúst s.á. með athugasemdafresti til 15. ágúst s.á.  Athugasemdir bárust m.a. frá kærendum.  Tillagan var fyrst lögð fram á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 4. desember 2002 ásamt athugasemdum sem bárust.  Í kjölfarið funduðu arkitekt og lögfræðingur skipulagsfulltrúa með eigendum Grettisgötu 59 vegna málsins og voru minnispunktar frá þeim fundi lagðir fram á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 13. desember s.á.  Á þeim fundi var málinu frestað.  Tillagan var enn á ný lögð fyrir nefndina hinn 28. mars 2003, 2. apríl s.á. og 9. apríl s.á. og var hún þá samþykkt með 4 atkvæðum.  Borgarráð staðfesti afgreiðslu nefndarinnar á fundi sínum hinn 11. apríl 2003.  Málið var sent til athugunar Skipulagsstofnunar og með bréfi, dags. 19. maí 2003, tilkynnti Skipulagsstofnun að hún gerði ekki athugasemdir við að auglýsing um gildistöku skipulagsins yrði birt í B-deild Stjórnartíðinda.  Var auglýsing um gildistökuna birt hinn 1. ágúst 2003.

Hið kærða deiliskipulag gerir m.a. ráð fyrir kvöð um gönguleið um lóð nr. 59 við Grettisgötu að húsunum nr. 74a og 74b við Laugaveg.  Eigandi fasteignarinnar að Grettisgötu 59 kærði ákvörðun borgaryfirvalda um umferðarkvöð deiliskipulagsins til úrskurðarnefndarinnar.  Í kjölfarið hófust samningaumleitanir við eigandann og lauk málinu þannig að honum voru greiddar bætur fyrir kvöðina.  Eigandinn afturkallaði kæruna í kjölfarið.

Á gömlu en ódagsettu lóðablaði sem liggur fyrir í málinu er gönguréttur sýndur um lóð Grettisgötu 59 frá Grettisgötu að lóðunum nr. 76a og 76b við Laugaveg.  Er skjali þessu ekki þinglýst. 

Kærendur hafa skotið framangreindri ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Kærendur setja fram athugasemdir við þá ákvörðun skipulagsyfirvalda að ekki skuli hafa verið sett kvöð um akstursrétt um lóðina nr. 59 við Grettisgötu að húsunum nr. 76a og 76b við Laugaveg.

Allt frá fyrri hluta síðustu aldar hafi verið gert ráð fyrir því að aðkoma að húsunum nr. 76a og 76b við Laugaveg væri bæði frá Laugavegi og Grettisgötu.  Allt frá fyrstu heimildum sé gert ráð fyrir stíg sem sé hið minnsta fjórar álnir að breidd og hafi kvöð þessa efnis verið í gildi í áratugi.  Líklega hafi upphaflega verið gert ráð fyrir gangandi umferð þó ljóst sé að þarna hafi verið umferð bíla í marga áratugi.  Virðist sem skipulags– og byggingarnefnd horfi til þess að árið 1993 hafi verið lögð fram umsókn til skipulagsyfirvalda um rif á skúrum sem hafi staðið á lóðinni nr. 76a við Laugaveg.  Í umsókninni segi:  „Þessi ósk kemur til vegna möguleika á innkeyrslu frá Grettisgötu og inn á lóð nr. 74a við Laugaveg.“  Þetta hafi ekki sjálfstæða merkingu því þegar þessir skúrar hafi verið í notkun hafi alltaf verið ekið að þeim frá Grettisgötu og hafi svo verið um áratuga skeið.  Skúrar þessir hafi verið í eigu þeirra er hafi rekið Kjötbúðina Borg við Laugaveg og öll aðföng verslunarinnar hafi komið um portið milli Grettisgötu 57 og 59.  Því hafi verið ekið um lóðina nr. 59 við Grettisgötu í áratugi og skipti engu hvort unnt hafi verið að aka að húsinu nr. 76a eða ekki.   Aðalatriðið sé það að alltaf hafi verið ekið um Grettisgötu 59 til að komast að Laugavegi 76b og skúrunum sem tengst hafi Laugavegi 76a.  Í framhaldi af því að sótt hafi verið um heimild til niðurrifs skúranna árið 1993 hafi byggingarnefnd samþykkt beiðni um gerð bílastæða á lóðum húsanna nr. 59 við Grettisgötu og 76a við Laugaveg.  Velta kærendur því upp hvaða merkingu það hafi að heimila gerð bílastæða á lóð sem ekki hafi aðkomu. 

Kærendur benda einnig á að þegar núverandi eigandi fasteignarinnar að Grettisgötu 59 hafi fest kaup á eigninni hafi honum verið fullljóst að aksturskvöð væri um lóðina. 

Rök fyrir aksturskvöð um lóðina að Grettisgötu 59 að húsunum að Laugavegi 76a og 76b telja kærendur vera þau helst að tryggja verði aðkomu sjúkra- og slökkviliðs.  Í kjölfar bruna við Laugaveg hafi því verið lýst yfir að gera yrði átak í að tryggja öryggi og aðkomu að bakhúsum á svæðinu.  Það sé því órökrétt að skipulags- og byggingarnefnd ætli að stuðla að því að þessi hús verði inni lokuð og að engin greið aðkoma verði tryggð að þeim. 

Verði ekki talið forsvaranlegt að setja þessa kvöð á lóðina nr. 59 við Grettisgötu sé mögulegt að úrskurðarnefndin sjái til þess að umferðarréttur verði um lóð milli Laugavegar 76 og 78 og hann gerður þannig að hægt verði að aka að eignum kærenda.  Þetta sé þó langsóttari leið og verri að mati kærenda.

Að endingu taka kærendur fram að verði ekki orðið við kröfum þeirra muni þeir hafa upp kröfur um bætur og/eða uppkaup á fasteignum þeirra, sbr. 33. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, þar sem hin kærða ákvörðun hafi í för með sér að eignir þeirra rýrni verulega í verði og nýtingarmöguleikar þeirra skerðist verulega.    

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er vísað til þess að ótvíræður gönguréttur sé að lóðunum nr. 76, 76a og 76b við Laugaveg, sbr. afsöl, dags. 31. mars 1930 og 7. mars 1944, og merkjastefnublöð lóðarskrárritara.  Á lóðablaði lóðarskrárritara komi fram að kvöð sé á Grettisgötu 59 um göngurétt að lóð Laugavegar 76b og áfram yfir þá lóð og tengist gönguréttinum um lóðir Laugavegar 76 og Laugavegar 76a.  Þannig sé óheftur gangréttur um allar lóðirnar milli Grettisgötu og Laugavegar.  Þá sé bent á að skipulagsyfirvöld geri ekki við það athugasemd þó aðilar komi sér saman um akstursrétt.

Í ofangreindum heimildum sé talað um „umferðarrétt“.  Kvaðir sem þesssar hafi gjarnan verið settar á lóðir, m.a. vegna sorphirðu, aðfanga og flutninga, og hafi stígarnir oft verið nefndir öskustígar.

Þrátt fyrir að þrjú bílastæði séu sýnd á samþykktri teikningu af Laugavegi 76 frá árinu 1994, þá hafi sú teikning ekkert gildi gagnvart Grettisgötu 59, þar sem sótt hafi verið um breytingar vegna Laugavegar 76a.

Þrátt fyrir að ekið hafi verið í gegnum lóðina Grettisgötu 59 um áratugaskeið, líkt og kærendur haldi fram, þá sé það rangt hjá þeim að um „aksturskvöð“ sé að ræða á lóðinni. Slík kvöð hafi aldrei verið á lóðinni og verði eigandi Grettisgötu 59 þar af leiðandi ekki bundinn við óheftan akstur um lóð sína.

Því verði ekki talið, með vísan til fyrirliggjandi gagna, að í umferðarrétti lóðarhafa Laugavegar 76a og Laugavegar 76b felist heimild til aksturs bifreiða yfir lóð Grettisgötu 59 til að leggja þar bifreiðum í bílastæði.  Breyti engu þótt telja megi að gert hafi verið ráð fyrir því á sínum tíma að hægt yrði að koma bifreið inn á lóðina ef þurfa þætti, t.d. vegna flutninga eða vegna viðhalds, enda eina aðkoman að baklóðinni.

Í ljósi þessa sé niðurstaðan sú að samþykki lóðarhafa Grettisgötu 59 þurfi fyrir setningu kvaðar um akstursrétt í gegnum lóð hans.

Mótmælt sé sem órökstuddri fullyrðingu kærenda um að breytingin muni leiða til lækkunar á verði fasteigna þeirra.  Jafnframt sé tekið fram að þrátt fyrir að komist væri að þeirri niðurstöðu að breyting á skipulagi hefði í för með sér bótaskylt tjón leiði það eitt sér ekki til ógildingar skipulagsins, sbr. 33. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 9. apríl 2003 um deiliskipulag staðgreinireits 1.174.2, er tekur til hluta Grettisgötu, Vitastígs, Laugavegar og Barónstígs.  Kærendur eru eigendur fasteignanna að Laugavegi 76a og 76b. 

Eins og að framan er rakið byggir málatilbúnaður kærenda á því að hin kærða skipulagsákvörðun borgaryfirvalda feli í sér að gengið sé gegn rétti þeirra um heimild til aksturs bifreiða um lóðina nr. 59 við Grettisgötu.     

Af gögnum þeim er lögð hafa verið fyrir úrskurðarnefndina í máli þessu má ráða að á lóðinni nr. 59 við Grettisgötu hafi, áður en hin kærða ákvörðun tók gildi, ekki verið fyrir hendi þinglýst kvöð um aðkomu að lóðunum nr. 76a og 76b við Laugaveg, hvorki fyrir gangandi vegfarendur né akandi.  Hins vegar liggur fyrir ódagsettur og óstaðfestur uppdráttur þar sem fram kemur að gönguréttur sé um lóðina.  Sýnist óumdeilt að umferð hefur verið um lóðina að Grettisgötu 59, bæði akandi og gangandi að fasteignum kærenda. 

Samkvæmt framansögðu liggur ekki fyrir með ótvíræðum hætti að umferðarréttur hafi verið til staðar um lóðina að Grettisgötu 59.  Hið kærða skipulag tryggir kærendum vissan umferðarrétt að fasteignum þeirra.  Er það því mat úrskurðarnefndarinnar að hin kærða skipulagsákvörðun raski ekki hagsmunum kærenda og verður því kröfu þeirra um ógildingu hafnað. 

Ekki verður heldur tekið undir sjónarmið kærenda þess efnis að hugsanleg verðrýrnun á eignum þeirra vegna skipulagsbreytingarinnar eigi að leiða til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.  Slík verðrýrnun gæti aftur á móti leitt til þess að þeir öðlist rétt til skaðabóta samkvæmt ákvæði 33. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, en um þann bótarétt fjallar úrskurðarnefndin ekki.
 
Framsetningu hins kærða deiliskipulags er þannig háttað að á uppdrætti þess segir að nánari markmið og forsendur deiliskipulagsins komi fram í heftinu „Miðborgarsvæði Reykjavíkur.  Greinargerð og deiliskipulagsskilmálar fyrir staðgreinireit 1.174.2“.  Á uppdrætti deiliskipulagsins er í engu getið um landnotkun en það er gert í fyrrgreindu hefti, nánar tiltekið í 1. kafla greinargerðar/skilmálum þess.  Kemur þar fram að innan svæðisins sé heimil sú notkun sem samræmist reglum þar um samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016 með síðari breytingum.  Áfram segir síðan:  „Í því sambandi er rétt að minna á að sérstakar takmarkanir gilda um starfsemi á nokkrum götuhliðum jarðhæða innan miðborgarinnar (sjá kort nr. 2 hér að neðan yfir skilgreind götusvæði og reglur um útreikning götusvæða, fskj. 2).  Reglur um málsmeðferð vegna þessa eru fylgiskjal með skilmálum þessum (sjá fskj. nr. 1).“  Kort nr. 2, sem vitnað er til hér að ofan, ber heitið „Skilgreind götusvæði“ og kemur þar fram að svæðinu austan Ægisgötu og vestan Snorrabrautar er skipt í miðborgarkjarna, aðalverslunarsvæði og hliðarverslunarsvæði.  Kort þetta er án mælikvarða og í svart/hvítu. 

Í gr. 5.4.2 skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 segir að á skipulagsuppdrætti deiliskipulags skuli setja fram þá stefnu sem kynnt sé og í skipulagsgreinargerð fyrir skipulagssvæðið og bundin í þeim skipulagsskilmálum sem þar eru settir fram.  Þá skuli skipulagsskilmálar deiliskipulags, eftir því sem svæðið gefi tilefni til, koma fram á skipulagsuppdrætti og kveða m.a. á um landnotkun, lóðastærðir, umferðarsvæði og byggingarreiti.  Ennfremur segir að skipulagsskilmálar skuli einnig kveða á um önnur atriði en ofangreind eftir aðstæðum hverju sinni, s.s. þrengri skilgreiningu landnotkunar á einstökum reitum, lóðum, byggingum eða byggingarhlutum.  

Telja verður að framsetning deiliskipulagsuppdráttar hinnar kærðu ákvörðunar hvað landnotkun varðar sé ekki að fullu í samræmi við fyrrgreint ákvæði skipulagsreglugerðar, og efnisinnihald þeirra skjala sem vitnað er til og eiga að ákvarða landnotkun svæðisins er um sumt ruglingslegt og óskýrt.  Þegar litið er til þess að á umræddu skipulagssvæði er fyrir gróin byggð með mótaða landnotkun og að einstakir fasteignareigendur leiða rétt af hinu kærða skipulagi þykir ekki alveg nægjanleg ástæða til að ógilda deiliskipulagið þrátt fyrir framangreinda ágalla á framsetningu og skýrleika þess. 

Það athugist að á hinum samþykkta skipulagsuppdrætti segir að um sé að ræða breytingu á deiliskipulagi og hið sama kemur einnig fram í auglýsingu um gildistöku þess í Stjórnartíðindum, þrátt fyrir að ekkert eldra deiliskipulag af svæðinu liggi fyrir. 

Að öllu framanrituðu virtu verður kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað. 

Krafa kærenda um að þeim verði heimilað að aka bifreiðum milli húsanna að Laugavegi 76 og 78 að húsum felur í sér kröfu um að úrskurðarnefndin breyti hinu kærða deiliskipulagi.  Samkvæmt skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 er úrskurðarnefndinni falið vald til að meta lögmæti kærðra ákvarðana en ekki að breyta þeim.  Það vald er falið sveitarstjórnum.  Er kröfu þessari því vísað frá úrskurðarnefndinni.  

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar ásamt tafa við gagnaöflun.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 9. apríl 2003 um að samþykkja deiliskipulag fyrir staðgreinireit 1.174.2 er tekur til svæðis innan hluta Laugavegar, Vitastígs, Grettisgötu og Barónstígs. 

Kröfu kærenda um breytingu á hinni kærðu deiliskipulagsákvörðun er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

____________________________________
Ásgeir Magnússon

 

______________________________               _______________________________
 Þorsteinn Þorsteinsson                                          Geirharður Þorsteinsson

 

 

 

 

 

 

12/2003 Laufásvegur

Með

Ár 2006, fimmtudaginn 11. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, varaformaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Geirharður Þorsteinsson arkitekt og skipulagshönnuður.

Fyrir var tekið mál nr. 12/2003, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 26. nóvember 2002 um veitingu leyfis fyrir breytingum á ytra útliti fyrstu hæðar og breyttri notkun hennar úr atvinnuhúsnæði í íbúðir í húsinu nr. 17 við Laufásveg í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 25. febrúar 2003, er barst nefndinni sama dag, kærir Ragnar Halldór Hall hrl., f.h. Á, G, G, E, E, F  og R, eigenda eignarhluta í fasteigninni að Laufásvegi 19, Reykjavík,  ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 26. nóvember 2002 um veitingu leyfis fyrir breytingum á ytra útliti fyrstu hæðar og breyttri notkun hennar úr atvinnuhúsnæði í íbúðir í húsinu nr. 17 við Laufásveg í Reykjavík.  Ákvörðunin var staðfest í borgarstjórn Reykjavíkur hinn 5. desember 2002.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir:  Húsin að Laufásvegi 17 og 19 eru sambyggð og hafa verið íbúðir í þeim en fyrsta hæð að Laufásvegi 17 hefur verið notuð sem atvinnuhúsnæði um skeið.

Hinn 26. nóvember 2002 samþykkti byggingarfulltrúinn í Reykjavík á afgreiðslufundi byggingarleyfi fyrir breytingum á útliti fyrstu hæðar vesturhliðar hússins að Laufásvegi 17 í Reykjavík og breytingu atvinnuhúsnæðis á fyrstu hæð í íbúðir. Samþykki meðeigenda að Laufásvegi 17, dags. 17. október 2002, fylgdi erindinu.  Kærendur töldu á rétt sinn hallað með téðri ákvörðun og skutu henni til úrskurðarnefndarinnar.

Málsrök kærenda:  Kærendur telja að við meðferð hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið vanrækt að ganga úr skugga um afstöðu eigenda fasteignarinnar að Laufásvegi 19 til fyrirhugaðra breytinga.  Fasteignirnar að Laufásvegi 17 og 19 séu sambyggðar þannig að gaflar þeirra liggi saman.  Sérhver breyting á notkun annarrar fasteignarinnar hafi þess vegna bein áhrif á hagsmuni annarra í sömu sambyggingu.  Augljóst sé því að heimiluð breyting á notkun fasteignarinnar að Laufásvegi 17 verði ekki ákveðin svo gilt sé nema að gætt sé ákvæða 39. og 41. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994, en kærendum hafi ekki verið kunnugt um fyrirhugaðar breytingar fyrr en eftir að þær hafi verið samþykktar.

Benda kærendur á að lóð húsanna nr. 17-19 við Laufásveg sé sameiginleg og af afsalsgerningum fyrir eignarhlutum í fasteigninni að Laufásvegi 17, sem fylgt hafi umsókn um greindar breytingar, verði ráðið að gæta hefði átt hagsmuna eigenda að Laufásvegi 19 skv. fyrrgreindum ákvæðum fjöleignarhúsalaga við meðferð umsóknar um umrædda breytingu.  Virðist sem byggingaryfirvöldum hafi orðið á í messunni að þessu leyti.  Rétt þyki að árétta að þinglýsing mæliblaðs fyrir lóðina nr. 17-19 við Laufásveg, þar sem ráða megi að lóðinni hafi verið skipt upp í aðgreindar lóðir, hafi átt sér stað án atbeina eða samþykkis eigenda hússins að Laufásvegi 19.  Umrædd þinglýsing geti því með engu móti rýrt réttarstöðu kærenda í máli þessu.  Lóðin sé skráð óskipt hjá Fasteignamati ríkisins og kærendur greiði eftir sem áður fasteignagjöld af eignarhluta sínum í hinni sameiginlegu lóð svo og eignarskatt.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Reykjavíkurborg krefst þess að kröfum kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar verði hafnað.

Álitaefni máls þessa sé eingöngu það hvort samþykki kærenda hafi þurft að liggja fyrir þegar ákvörðun hafi verið tekin um að veita leyfi til breytinga þeirra er mál þetta snúist um.

Ekki sé fallist á að fasteignirnar Laufásvegur 17 og Laufásvegur 19 séu eitt hús í merkingu laga um fjöleignarhús nr. 26/1994, enda um tvö hús að ræða á aðskildum lóðum og ekki um neina sameign að ræða með Laufásvegi 17 og Laufásvegi 19 þrátt fyrir að gaflar húsanna liggi saman.  Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga, nr. 26/1994 um fjöleignarhús hafi eigandi einn rétt til hagnýtingar og umráða yfir séreign sinni með þeim takmörkunum einum sem greini í lögunum eða öðrum lögum.  Í eignarráðum felist heimild eiganda til að ráðstafa og hagnýta eign sína á hvern þann hátt sem hann kjósi innan þess ramma sem vísað sé til í fyrrgreindu ákvæði.  Þegar af þeirri ástæðu sé ekki um það að ræða að samþykki eigenda að Laufásvegi 19 hafi þurft að liggja fyrir þegar hin kærða ákvörðun hafi verið tekin.  Tilvísun kærenda til ákvæða 39. gr. og 41. gr. fjöleignahúsalaga eigi því ekki við í máli þessu. 

Jafnvel þótt talið yrði að fasteignirnar nr. 17 og 19 við Laufásveg teldust eitt hús í merkingu laga um fjöleignarhús nr. 26/1994, hafi samþykki kærenda ekki þurft að liggja fyrir í máli þessu.  Í 1. mgr. 27. gr. laganna sé áskilið samþykki allra eigenda hússins til breytinga á hagnýtingu séreignar frá því sem verið hafi eða ráð hafi verið fyrir gert í upphafi, sem hafi í för með sér verulega meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur eða afnotahafa en áður hafi verið og gangi og gerist í sambærilegum húsum. Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. geti eigandi ekki sett sig á móti slíkri breytingu ef sýnt sé að hún hafi ekki í för með sér neina röskun á lögmætum hagsmunum hans, sbr. 2. mgr. 27. gr.

Kærendur hafi ekki lagt fram rökstuðning fyrir því hvaða röskun fyrirhuguð breyting á nýtingu fasteignarinnar nr. 17 við Laufásveg muni valda þeim.  Hafa verði í huga að fasteignin nr. 19 við Laufásveg sé öll lögð undir íbúðarhúsnæði og sé vandséð að sambærileg nýting fasteignarinnar nr. 17 við Laufásveg muni valda kærendum röskun, óþægindum eða öðru óhagræði.  Rétt sé að árétta að samkvæmt teikningum samþykktum 22. september 1954 sé sýnd ein íbúð á fyrstu hæð hússins að Laufásvegi 17.  Fyrsta hæðin hafi því upprunalega verið íbúð sem síðar hafi verið breytt í verslunarhúsnæði, eða um árið 1973.  Með hinni kærðu ákvörðun sé verið að færa notkun fyrstu hæðarinnar í upprunalegt horf.

Í máli þessu sé því haldið fram að þinglýst mæliblað þar sem lóðinni sé skipt upp hafi ekki áhrif á réttarstöðu kærenda í máli þessu.  Þinglýsing mæliblaðsins hafi farið  fram 20. september 1995 og sé skjalinu þinglýst á alla eignarhluta hússins.  Sú málsástæða að þinglýsingin hafi átt sér stað án aðildar eða samþykkis kærenda eigi því ekki við rök að styðjast.   Einn kærenda hafi keypt íbúð sína á árinu 2003 og annar kærenda árið 1997.  Átti þeim því að vera fullkunnugt um tilvist mæliblaðsins þar sem lóðinni sé skipt upp í tvo eignarhluta.  Aðrir kærendur í máli þessu virðist nú samkvæmt þinglýsingabókum hafa selt sínar eignir.

Að lokum sé tekið fram að kærendur hafi ekki gert athugasemdir við útlitsbreytingar á fasteigninni nr. 17 við Laufásveg, en telja verði að útlitsbreytingar þær sem hér um ræði séu ekki  það verulegar að samþykki annarra eigenda hafi þurft að liggja fyrir við afgreiðslu umsóknarinnar.

Fyrirhuguð breyting á hagnýtingu húsnæðisins sæti ekki sérstakri takmörkun, hvorki í lögum nr. 26/1994, þinglýstum gögnum né aðalskipulagi.  Þá þyki ekki hafa verið sýnt fram á að umrædd breyting muni hafa í för með sér meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir kærendur en ráð hafi mátt gera fyrir í upphafi við nýtingu húsnæðisins.

Niðurstaða:  Húsin að Laufásvegi 17 og 19 eru sambyggð en hafa ekkert sameiginlegt húsrými og samkvæmt þinglýstu mæliblaði frá árinu 1995, sem ekki hefur verið hnekkt, hefur hvort hús sérstaka lóð.  Samkvæmt Landskrá fasteigna hjá Fasteignamati ríkisins hefur húsið að Laufásvegi 19 verið byggt árið 1933 en húsið að Laufásvegi 17 árið 1956. 

Þegar litið er til þessara staðreynda þykir eðlilegt að líta á umrædd hús sem sjálfstæð fjöleignarhús í skilningi fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994, en í 3. gr. laganna er gert ráð fyrir að hús geti verið sérstök hús þótt samtengd séu mæli eðlisrök með því.  Verður því ekki fallist á að leita hafi þurft samþykkis eigenda hússins að Laufásvegi 19 samkvæmt ákvæðum fjöleignarhúsalaga vegna afgreiðslu byggingarleyfis fyrir breyttri notkun séreignarhluta í húsinu að Laufásvegi 17 og breytingu á ytra útliti hússins er henni fylgdi.

Hin kærða ákvörðun felur í sér breytingu sem er byggingarleyfisskyld skv. 1. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 en umrætt svæði hefur ekki verið deiliskipulagt.  Í 7. mgr. nefndrar 43. gr. er kveðið á um að umsókn um leyfi skv. 1. mgr. í þegar byggðu hverfi sem ekki hafi verið deiliskipulagt skuli grenndarkynnt áður en afstaða sé tekin til umsóknarinnar.  Slík grenndarkynning fór ekki fram áður en hin umdeilda ákvörðun var tekin. 

Með hliðsjón af því, að með hinni kærðu ákvörðun var í fjöleignarhúsi verið að breyta atvinnuhúsnæði til fyrra horfs í íbúðarhúsnæði, sem að öðru leyti er eingöngu nýtt til íbúðar, þykir greindur annmarki ekki geta ráðið úrslitum um gildi hinnar kærðu ákvörðunar eins og hér stendur sérstaklega á, og verður hinni kærðu ákvörðun ekki hnekkt af þessum sökum.

Að öllu þessu virtu verður ekki fallist á kröfu kærenda um ógildingu umræddrar ákvörðunar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og vegna tafa við gagnaöflun.

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda, um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 26. nóvember 2002, sem staðfest var í borgarstjórn Reykjavíkur hinn 5. desember s.á., um veitingu leyfis fyrir breytingum á ytra útliti fyrstu hæðar og breyttri notkun hennar úr atvinnuhúsnæði í íbúðir í húsinu nr. 17 við Laufásveg í Reykjavík, er hafnað.

 

 

____________________________________
Ásgeir Magnússon

 

 

______________________________               _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                        Geirharður Þorsteinsson

 

   

 

 

 

 

31/2005 Stekkur

Með

Ár 2006, fimmtudaginn 4. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, varaformaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent. 

Fyrir var tekið mál nr. 31/2005, kæra á synjun skipulagsfulltrúa Reykjavíkur frá 11. mars 2005 um heimild til að skipta út lóð úr landi Stekks á Kjalarnesi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 6. apríl 2005, er barst nefndinni hinn 11. sama mánaðar, kærir Magnús Pálmi Skúlason hdl., f.h. H og G, eigenda Stekks, Kjalarnesi, synjun skipulagsfulltrúa Reykjavíkur frá 11. mars 2005 um heimild til að skipta út lóð úr landi Stekks á Kjalarnesi. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og lagt verði fyrir skipulagsyfirvöld Reykjavíkur að heimila umbeðna skiptingu lóðar úr landi Stekks. 

Málavextir:  Hinn 1. október 2004 var á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa tekin fyrir umsókn, dags. 29. september 2004, um að fá 1.500 fermetra sérlóð skipta út úr landi Stekks á Kjalarnesi.  Skipulagsfulltrúi frestaði afgreiðslu erindisins og vísaði því til umsagnar hverfisstjóra.  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur 20. október 2004, þar sem fyrir lá umsögn lögfræði- og stjórnsýslusviðs borgarinnar um málið, dags. 19. s.m., var erindinu synjað með eftirfarandi bókun: „Synjað með vísan til umsagnar lögfræði og stjórnsýslu“. 

Í kjölfar synjunar skipulags- og byggingarnefndar barst erindi frá eigendum Stekks, dags. 31. janúar 2005, þar sem að nýju var farið fram á heimild fyrir að fyrrgreindri lóð yrði skipt út úr landi Stekks.  Var erindið tekið fyrir á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 25. febrúar s.á. og ákveðið að kynna það fyrir formanni skipulagsráðs sem fól skipulagsfulltrúa að afgreiða málið endanlega í samræmi við ákvæði samþykktar um embættisafgreiðslur skipulagsfulltrúa.  Erindið var afgreitt á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 11. mars 2005 sem beiðni um endurupptöku, með hliðsjón af fyrirliggjandi áliti lögfræði- og stjórnsýslusviðs frá 10. mars 2005, með eftirfarandi bókun:  „Neikvætt. Ekki er hægt að fallast á endurupptöku málsins með vísan til umsagnar lögfræði og stjórnsýslu.“ 

Kærendur sendu borgarráði beiðni um endurupptöku synjunar á beiðni þeirra um fyrrgreinda skiptingu lóðar úr landi Stekks hinn 22. mars 2005 og kærðu áðurnefnda ákvörðun skipulagsfulltrúa frá 11. mars 2005 til úrskurðarnefndarinnar eins og fyrr greinir.  Borgarráð synjaði um endurupptöku á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar frá 20. október 2004 á fundi hinn 26. maí 2005 með vísan til fyrirliggjandi umsagnar lögfræðings borgarstjórnar, dags. 20. maí 2005. 

Málsrök kærenda:  Kærendur vísa til þess að beiðni þeirra um nefnda lóðarskiptingu frá árinu 2004 hafi ekki fylgt sérstakur rökstuðningur.  Eftir að henni hafi verið hafnað hafi því beiðnin verið endurtekin og rökstuðningur þá fylgt henni.  Seinna erindið hafi verið afgreitt sem synjun á beiðni um endurupptöku án þess að sérstök afstaða hafi verið tekin til sjónarmiða kærenda og án þess að erindið hafi falið í sér beiðni um endurupptöku málsins. 

Þau sjónarmið borgarinnar fyrir umdeildri afgreiðslu að heimild lóðarskiptingarinnar skapaði vafasamt fordæmi, en hægt væri að skipta landi Stekks upp í 50 slíkar lóðir, geti ekki talist málefnaleg.  Kærendur hafi lýst því yfir í erindi sínu til borgarinnar frá 31. janúar 2005 að þeir myndu ekki fara fram á slíka skiptingu.  Húsið í landi Stekks hafi verið byggt með leyfi byggingaryfirvalda og verði ekki séð að heimild fyrir sérstakri lóð fyrir húsið geti raskað skipulagslegum hagsmunum eða valdið vandkvæðum við fyrirhugaða endurskoðun aðalskipulags.  Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 sé land Stekks ekki á hefðbundnu landbúnaðarsvæði heldur skógræktarlandi og eigi sjónarmið borgarinnar um annað því ekki við rök að styðjast.  Hin kærða ákvörðun sé jafnframt mjög íþyngjandi gagnvart kærendum sem hafi ætlað að selja umrætt hús án þess að láta af hendi allt land Stekks.  Kærendur hafi ekki getað efnt samþykkt kauptilboð um húsið þar sem lóðarleysi þess hindraði þinglýsingu þess og hafi kauptilboðið því fallið niður. 

Afgreiðsla erindis kærenda hinn 11. mars 2005 sé alls órökstudd.  Þar sé lagt til að erindinu sé synjað án þess að tekin sé afstaða til sjónarmiða kærenda í bréfi þeirra frá 31. janúar s.á., en umrætt erindi hafi í fyrstu verið tekið sem ný umsókn um lóðarskiptingu.  Í bókun skipulagsfulltrúa við afgreiðslu málsins segi aðeins „neikvætt“ án frekari rökstuðnings og telji kærendur afgreiðsluna fara gegn ákvæðum 2. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 um rökstuðning á afgreiðslu umsókna. 

Verði litið svo á að erindi kærenda frá 31. janúar 2005 hafi falið í sér beiðni um endurupptöku fyrri umsóknar telji kærendur að skilyrði 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um endurupptöku máls hafi verið fyrir hendi.  Upphafleg umsókn hafi verið án rökstuðnings af hálfu kærenda.  Ekki hafi legið fyrir við afgreiðslu málsins að kærendur hygðust ekki fara fram á frekari skiptingu umrædds lands en megin röksemd borgarinnar fyrir synjun erindisins hafi verið ótti við fordæmi fyrir frekari skiptingu landsins.  Liggi því fyrir að umsögn lögfræði- og stjórnsýslusviðs borgarinnar, sem afgreiðsla skipulags- og byggingarnefndar byggði á, hafi verið reist á forsendum sem ekki gátu staðist og vegna ófullnægjandi upplýsinga sem síðar hafi verið bætt úr með seinni umsókn. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Reykjavíkurborg fer fram á að kröfum kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar eða um endurupptöku hennar verði hafnað og að kröfu kærenda varðandi það að úrskurðarnefndin leggi fyrir skipulagsyfirvöld að heimila kæranda að skipta út greindri lóð úr landi Stekks á Kjalarnesi verði vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001–2024 sé umrætt svæði skráð sem landbúnaðarsvæði.  Í greinargerð aðalskipulagsins segi þó: „Í Esjuhlíðum er ásamt smábýlum heimilt að byggja einstaka íbúðarhús án tengsla við landbúnað.“

Stekkur sé nú 87.175 fermetrar en skipulags- og byggingarnefnd hafi samþykkt hinn 22. október 2003 stækkun á landi smábýlisins sem áður hafi verið 71.024 fermetrar.  Fyrir umrædda umsókn kærenda hafi verið skipt út úr landi Stekks 10.000 fermetra spildu sem kölluð sé Skriða en á henni standi íbúðarhús og sé hún á vesturmörkum smábýlisins.  Umsótt lóð yrði á austurmörkum þess og fyrir liggi óafgreidd fyrirspurn um að skipta spildunni Skriðu upp í tvo hluta.  Ef fallist yrði á fyrirliggjandi umsókn kærenda myndi myndast mjó ræma milli hinnar nýju lóðar og Skriðu og smábýlið Stekkur nánast slitið í tvennt.  Umsótt lóð gæti vart talist smábýli vegna smæðar sinnar enda lóðin ekki mikið stærri en stór einbýlishúsalóð. 

Síðan Kjalarnes var sameinað Reykjavík séu fordæmi fyrir að leyft hafi verið að skipta upp jörðum á Kjalarnesi í minni einingar en ekki nálægt því svo litlar sem hér um ræði.  Slíkt fordæmi sé ekki æskilegt og myndi leiða til þess að erfitt væri að leggjast gegn öðrum sambærilegum erindum og megi í dæmaskyni nefna að hægt væri að skipta landi Stekks upp í um 50 lóðir af þeirri stærð sem sótt sé um.  Ljóst sé því að yrði fallist á framangreinda skiptingu gæti það leitt til þróunar í þá átt að fleiri spildum yrði skipt upp og til yrði, án skipulags, sundurlaus byggð á svæðinu sem væri óumhverfisvæn, samfélagslega dýr og ekki í samræmi við landnotkun svæðisins sem landbúnaðarsvæðis.  Til að missa ekki tökin á skipulagi svæðisins sé nauðsynlegt að afgreiða ekki einstök mál án heildaryfirsýnar.  Marka þurfi skýra stefnu um skipulag svæðanna í Esjuhlíðum og Kjalarness í heild.  Sú vinna sé þegar hafin og gert sé ráð fyrir að henni verði lokið samhliða endurskoðun aðalskipulags á árinu 2006. 

Byggt hafi verið á greindum staðreyndum og rökum er umrædd umsókn kærenda hafi verið hafnað en tvö hús hafi þegar verið byggð á umræddri spildu, ef með sé talið húsið sem standi á Skriðu. 

Það sé mat Reykjavíkurborgar, með vísan til c-liðar 2. gr. viðauka 2.4 um embættisafgreiðslur skipulagsfulltrúa í samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 638/2001, að skipulagsfulltrúa hafi verið fullkomlega heimilt að synja nýju erindi kærenda í máli þessu og hafi ákvörðunin verið nægjanlega rökstudd en fyrir hafi legið ítarleg umsögn lögfræði og stjórnsýslu í fyrri afgreiðslu um sömu kröfur kærenda. 

Hvað varði kröfu kærenda um ógildingu á synjun á endurupptöku málsins sé bent á að upphaflega hafi verið farið með síðara erindi kærenda sem nýtt erindi.  Við nánari athugun hafi orðið ljóst af málatilbúnaði að umsóknin væri endurtekning á fyrra erindi.  Þrátt fyrir að ítarlegri rökstuðningur kröfunnar hafi fylgt erindinu frá 31. janúar 2005 hafi það verið mat skipulagsyfirvalda að skilyrðum 24. gr. stjórnsýslulaga væri ekki fullnægt.  Hvorki hafi legið fyrir upplýsingar um að aðstæður hefðu breyst verulega né að upplýsingar um málsatvik hefðu verið það ófullnægjandi að valdið hafi rangri niðurstöðu við fyrri afgreiðslu málsins. 

Krafist sé frávísunar á þeirri kröfu kærenda að úrskurðarnefndin leggi fyrir skipulagsyfirvöld að heimila kærendum að skipta út greindri lóð úr landi Stekks á Kjalarnesi.  Er frávísunarkrafan byggð á því að úrskurðarnefndin sé ekki til þess bær að fjalla um og taka afstöðu til slíkrar kröfu. 

Niðurstaða:  Hinn 20. október 2004 synjaði skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkur umsókn kærenda frá 29. september s.á. um heimild til að skipta út lóð úr landi Stekks á Kjalarnesi.  Umsókn sama efnis var sett fram í bréfi kærenda til borgaryfirvalda, dags. 31. janúar 2005, þar sem gerð var grein fyrir ástæðum og sjónarmiðum kærenda að baki umræddri umsókn. 

Í 2. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. nú 5. mgr. 8. gr. laganna, er kveðið á um eins mánaðar kærufrest vegna ákvarðana sem kæranlegar eru til úrskurðarnefndarinnar skv. lögunum.  Það færi gegn markmiðum þessa ákvæðis og ákvæðum annarra laga um kærufresti og gerði þau í raun þýðingarlaus ef aðilar máls gætu endurtekið umsókn sem afgreidd hefur verið og með því myndað nýjan kærufrest.  Sé ákvörðun talin vera ábótavant, s.s. vegna ófullnægjandi upplýsinga við ákvarðanatöku, eiga menn kost á því að beiðast endurupptöku ákvörðunar, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Erindi kærenda frá 31. janúar 2005 gat því ekki falið annað í sér en beiðni um endurupptöku ákvörðunar skipulags- og byggingarnefndar frá 20. október 2004.  Kærendur sendu jafnframt slíka endurupptökubeiðni til borgarráðs áður en hinni kærðu ákvörðun var skotið til úrskurðarnefndarinnar og hafa lagt þá beiðni fram í kærumáli þessu, en borgarráð hafnaði þeirri beiðni á fundi sínum hinn 26. maí 2005.  Með hliðsjón af þessari framvindu málsins þykir rétt að skilja málskot kærenda svo að krafist sé ógildingar á synjun borgaryfirvalda á endurupptöku ákvörðunar skipulags- og byggingarnefndar frá 20. október 2004 sem felst í afgreiðslu skipulagsfulltrúa frá 11. mars 2005 og ákvörðun borgarráðs, dags. 26. maí s.á.

Við upphaflega ákvörðun um að synja umsókn kærenda um umrædda lóðarskiptingu lá fyrir umsögn lögfræði- og stjórnsýslusviðs borgarinnar um erindið sem vísað var til við ákvarðanatökuna.  Í umsögn þeirri var fyrst og fremst skírskotað til skipulagsraka gegn samþykkt erindisins, eins og á stóð, en vísað var til þess að vinna væri þegar hafin við mörkun skipulagsstefnu fyrir svæðið undir Esjuhlíðum og á Kjalarnesi með endurskoðun aðalskipulags og varhugavert væri að skapa fordæmi fyrir slíkri lóðaskiptingu undir þeim kringumstæðum. 

Miðað við greindar forsendur, er bjuggu að baki umræddri synjun skipulags- og byggingarnefndar, verður ekki séð að rökstuðningur kærenda í bréfi, dags. 31. janúar 2005, fyrir umsókn þeirra hafi getað breytt umdeildri ákvörðun.  Með vísan til þessa og þar sem ekki liggja fyrir aðrar ástæður er knýja á um endurupptöku ákvörðunarinnar skv. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eða öðrum ólögfestum reglum stjórnsýsluréttarins verður ekki fallist á að efni sé til að ógilda ákvörðun Reykjavíkurborgar um að synja um endurupptöku umdeildrar ákvörðunar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda, um ógildingu á synjun skipulagsfulltrúa Reykjavíkur frá 11. mars 2005 og borgarráðs, dags. 26. maí s.á., um endurupptöku þeirrar ákvörðunar skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 20. október 2004 um að hafna umsókn kærenda um afmörkun lóðar úr landi Stekks Kjalarnesi, er hafnað.

 

 

____________________________________
Ásgeir Magnússon

 

 

______________________________               _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson        Aðalheiður Jóhannsdóttir