Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

68/2005 Mururimi

Ár 2007, mánudaginn 25. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson, formaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 68/2005, kæra íbúa við Mururima á ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 20. júlí 2005 um að veita byggingarleyfi til að staðsetja færanlegra kennslustofu við leikskólann Lyngheima á lóðinni nr. 2 við Mururima í Reykjavík. 

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 23. ágúst 2005, er barst nefndinni hinn 31. sama mánaðar, kæra S og 17 aðrir íbúar við Mururima þá ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 20. júlí 2005 að samþykkja að sett verði niður færanleg kennslustofa á bifreiðastæði starfsmanna við leikskólann Lyngheima á lóð nr. 2 við Mururima í Reykjavík.  Borgarráð staðfesti ákvörðun skipulagsráðs hinn 21. júlí 2005.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 8. mars 2005 var tekin fyrir umsókn þess efnis að heimilt yrði að staðsetja tímabundið færanlega kennslustofu við leikskólann Lyngheima á lóðinni nr. 2 við Mururima.  Var afgreiðslu málsins frestað og málinu vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa.  Á fundi skipulagsráðs hinn 16. mars 2005 var samþykkt að kynna málið fyrir hagsmunaaðilum að Mururima 1, 2, 3, 4, 17 og 19 og var það í kynningu frá 18. mars til 18. apríl 2005.  Bárust athugasemdir frá tveimur kærenda með tölvupósti, dags. 28. mars 2005. 

Að lokinni kynningu var málið tekið fyrir að nýju á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 22. apríl 2005 og því vísað til umsagnar Fasteignastofu framkvæmdasviðs vegna athugasemda um niðurfellingu bílastæða.  Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 8. júlí 2005 var málinu vísað til skipulagsráðs, sem tók það fyrir á fundi sínum hinn 20. júlí 2005 og samþykkti umsóknina. 

Framangreindri ákvörðun skipulagsráðs hafa kærendur skotið til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Kærendur benda á að búið sé að setja niður umrædda kennslustofu á bifreiðastæði starfsmanna við leikskólann Lyngheima á lóð nr. 2 við Mururima.  Hafi það verið gert án formlegrar kynningar fyrir öllum íbúum við götuna.  Málið hafi aðeins verið kynnt fyrir þremur íbúum við Mururima og ekki hafi verið tekið tillit til framkominna athugasemda.  Framkvæmd hafi hafist án þess að framkvæmdaleyfi hafi verið gefið út og allt kapp hafi verið lagt á að ljúka henni svo íbúum við götuna gæfist ekki ráðrúm til að stöðva framkvæmdina.  Telji kærendur að staðsetning kennslustofunnar muni leiða til aukins umferðarþunga og slysahættu í götunni.  Umrædd gata sé lítil og þröng og beri ekki þessar breytingar.  Unnt sé að hafa kennslustofuna á lóð leikskólans, þar sem ónýtt pláss sé til staðar, og með því yrðu hagmunir allra aðila tryggðir. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er því haldið fram að kæra sé of seint fram komin og beri því að vísa henni frá.  Tilkynnt hafi verið um hina kærðu ákvörðun með bréfi, dags. 21. júlí 2005, og megi því ljóst vera að kæran hafi borist að liðnum kærufresti hinn 31. ágúst sama ár. 

Verði ekki fallist á frávísunarkröfu krefst Reykjavíkurborg þess að kröfum kærenda verði hafnað og ákvörðun skipulagsráðs staðfest, enda sé ekkert fram komið sem leitt gæti til ógildingar hennar og um sé að ræða tímabundið leyfi fyrir umdeildri kennslustofu. 

Niðurstaða:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er gerð krafa um frávísun málsins frá úrskurðarnefndinni.

Samkvæmt þágildandi 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, nú 5. mgr. 8. gr. sömu laga, er kærufrestur einn mánuður frá því kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun.  Sé um að ræða ákvarðanir sem sæta opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. 

Í máli þessu er deilt um byggingarleyfi sem ekki sætir opinberri birtingu og verður því að líta til þess hvenær kærendum varð kunnugt um eða mátti verða kunnugt um hina kærðu ákvörðun.  Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var þeim, er andmæltu fyrirhugaðri framkvæmd og nú eru meðal kærenda, tilkynnt um lyktir málsins með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 21. júlí 2005.  Var í því bréfi jafnframt vakin athygli á ákvæðum laga nr. 73/1997 um kæriheimild og kærufrest.  Kæra til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála er dagsett 23. ágúst 2005, en er ekki móttekin hjá nefndinni fyrr en 31. ágúst s.á, eða rúmum fimm vikum frá fyrrgreindri tilkynningu.  Verður því að líta svo á að kærufrestur hafi verið liðinn er kæran barst úrskurðarnefndinni. 

Samkvæmt framansögðu, og þar sem ekki liggja fyrir atvik er leitt geta til þess að kæran verði tekin til efnismeðferðar að loknum kærufresti á grundvelli 1. eða 2. tl. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ber að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna anna hjá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð: 

Kröfum kærenda um að felld verði úr gildi ákvörðun skipulagsráðs frá 20. júlí 2005 um heimild til að staðsetja færanlega kennslustofu á bifreiðastæði við leikskólann Lyngheima á lóðinni nr. 2 við Mururima í Reykjavík er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

_____________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

__________________________     ___________________________
Ásgeir Magnússon                           Þorsteinn Þorsteinsson