Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

46/2007 Helgafellsbraut

Ár 2007, föstudaginn 15. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 46/2007, kæra 19 íbúa og eigenda fasteigna við Álafossveg og Brekkuland í Mosfellsbæ á leyfi skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar til framkvæmda í og við vegstæði væntanlegs Helgafellsvegar án framkvæmdaleyfis sem fram kemur í bréfi frá 15. maí 2007 svo og á heimild til framkvæmda á bökkum Varmár við gömlu ullarverksmiðjuna að Álafossi.  

Í málinu er nú til bráðabirgða kveðinn upp svofelldur

úrskurður
um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 15. maí 2007, sem barst nefndinni hinn 22. sama mánaðar, kærir Katrín Theodórsdóttir hdl., f.h. 19 íbúa og eigenda fasteigna við Álafossveg og Brekkuland í Mosfellsbæ, leyfi skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar til framkvæmda í og við vegstæði væntanlegs Helgafellsvegar án framkvæmdaleyfis sem fram kemur í bréfi frá 15. maí 2007 svo og heimild til framkvæmda á bökkum Varmár bak við gömlu ullarverksmiðjuna að Álafossi.

Krefjast kærendur þess að heimildir þær til framkvæmda sem kæran tekur til verði metnar ólögmætar.  Þá krefjast kærendur þess jafnframt að úrskurðað verði til bráðabirgða um stöðvun allra framkvæmda sem hafnar hafi verið á og við vegstæði væntanlegrar tengibrautar og á bökkum Varmár við ullarverksmiðjuna þar til ákvörðun nefndarinnar í málinu liggi fyrir.   

Úrskurðarnefndinni hafa borist greinargerð og gögn frá Mosfellsbæ um kæruefnið.  Er þess krafist af hálfu bæjaryfirvalda að öllum kröfum kærenda í málinu veði hafnað.  Er málið nú tekið til úrskurðar um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er í kærunni lýst aðdraganda málsins og ítarleg grein gerð fyrir málsástæðum og lagarökum er kærendur telja að leiða eigi til þess að hinar kærðu heimildir Mosfellsbæjar til framkvæmda verði metnar ólögmætar.  Verður nánar fjallað um þau sjónarmið við efnisúrlausn málsins.

Kröfu sína um stöðvun framkvæmda byggja kærendur á því að ekki hafi verið gefið út leyfi fyrir þeim framkvæmdum sem fari fram á umræddu svæði en framkvæmdirnar séu leyfisskyldar skv. 27. gr. laga nr. 73/1997 sbr. 11. gr. laga 135/1997.  Krafa kærenda sé reist á því að óheimilt sé að hefja framkvæmdir sem séu háðar framkvæmdaleyfi fyrr en að fengnu leyfi viðkomandi sveitarstjórnar.  Ef framkvæmd sem falli undir 27. gr. skipulags- og byggingarlaga sé hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni geti kærendur með heimild í 6. mgr. 8. gr. laga nr. 73/1997 krafist stöðvunar framkvæmda.  Í 6. mgr. greinar 9.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 sé tekið fram að framkvæmdaleyfi veiti ekki heimild til framkvæmda sem brjóti í bága við skipulag, ákvæði laga og reglugerða eða rétt annarra. 

Kærendur telji nauðsynlegt að allar framkvæmdir verði stöðvaðar til að forða frekari röskun á svæðinu.  Þeir byggi kröfu sína á því að framkvæmdirnar geti haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir lífríki, landslag og landslagsheild Álafosskvosarinnar.  Vísað sé að öðru leyti til málsástæðna og lagaraka um efni málsins.
 
Kröfur og sjónarmið Mosfellsbæjar:  Í greinargerð Mosfellsbæjar er gerð ítarleg grein fyrir málsástæðum og lagarökum bæjarins í málinu.  Er því m.a. haldið fram að kæran sé að hluta til byggð á misskilningi þar sem hinar umdeildu framkvæmdir lúti að nokkru að nauðsynlegri endurnýjun gamalla fráveitulagna.  Þá sé álitamál hvort yfirhöfuð þurfi framkvæmdaleyfi vegna lagnanna.

Hvað varði kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda sé vísað til fyrri úrlausna úrskurðarnefndarinnar, en af þeim megi m.a. ráða að ekki sé fallist á kröfur um stöðvun framkvæmda þegar framkvæmdir sem kæra lúti að feli ekki í sér röskun á hagsmunum sem réttlæti stöðvun framkvæmda en í því sambandi skipti máli hvort unnt sé að færa framkvæmdasvæði til fyrra horfs eða ekki.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um heimildir er Mosfellsbær hefur veitt til framkvæmda við veitulagnir er tengjast hinu nýja Helgafellshverfi auk heimilda til endurnýjunar gamalla fráveitulagna er liggja skammt austan Varmár nærri svonefndri Álafosskvos.  Ekki hafa verið gefin út framkvæmdaleyfi samkvæmt 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 fyrir umræddum framkvæmdum enda telja bæjaryfirvöld þær ekki háðar slíkum leyfum.

Samkvæmt 8. mgr. nefndrar 27. greinar er umsækjanda um framkvæmdaleyfi og hlutaðeigandi sveitarstjórn heimilt að skjóta máli til úrskurðarnefndarinnar leiki vafi á því hvort framkvæmdir séu háðar ákvæðum greinarinnar um framkvæmdaleyfi.  Verður að skilja ákvæði þetta svo að aðrir en umsækjandi um framkvæmdaleyfi eða hlutaðeigandi sveitarstjórn geti ekki átt aðild að máli til úrlausnar um vafa um það hvort framkvæmd sé háð framkvæmdaleyfi og verður því ekki skorið úr því álitaefni í máli þessu, jafnvel þótt kröfugerð kærenda þætti gefa tilefni til þess.

Eftir stendur að viðurkennt er að Mosfellsbær hefur heimilað umræddar framkvæmdir, a.m.k. að hluta til, og þarf úrskurðarnefndin að taka afstöðu til þess hvort fyrir liggi formleg lokaákvörðun bæjaryfirvalda um framkvæmdirnar er sætt geti kæru til úrskurðarnefndarinnar.  Verður afstaða tekin til þess álitaefnis við frekari meðferð málsins.

Samkvæmt framansögðu eru áhöld um það hvort hinar umdeildu framkvæmdir styðjist við kæranlega ákvörðun sem er skilyrði þess að úrskurðarnefndin geti tekið ákvörðun um stöðvun framkvæmda til bráðbirgða.  Þar að auki eru framkvæmdirnar þess eðlis að vandséð er að þær raski til muna lögvörðum hagmunum kærenda. 

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður ekki fallist á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda í og við vegstæði væntanlegs Helgafellsvegar og við endurnýjun fráveitulagna meðfram Varmá í Mosfellsbæ er hafnað.

 

_______________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

___________________________    ____________________________
  Ásgeir Magnússon                               Þorsteinn Þorsteinsson