Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

79/2022 Arnarnesvegur 3. áfangi

Með

Árið 2023, miðvikudaginn 31. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 79/2022, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 14. júní 2022 og ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 7. júlí s.á. um að samþykkja deiliskipulag Arnarnes­vegar, 3. áfanga, frá Rjúpnavegi að Breiðholtsbraut.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. júlí 2022, er barst nefndinni sama dag, kæra 40 íbúar við Akrasel, Fljótasel, Jakasel, Jórusel, Kambasel, Klyfjasel, Ystasel, Neðstaberg og Torfufell í Reykjavík; tíu íbúar við Dofrakór, Fjallakór, Gnitakór og Klappakór í Kópavogi, Vinir Kópavogs og Hollvinasamtök Elliðaárdalsins, ákvarðanir bæjarstjórnar Kópavogs frá 14. júní 2022 og borgarráðs Reykjavíkur frá 7. júlí s.á. um að samþykkja deiliskipulag Arnarnesvegar, 3. áfanga, frá Rjúpnavegi að Breiðholtsbraut. Er þess krafist að ákvarðanirnar verði felldar úr gildi.

Var þess jafnframt krafist að réttaráhrifum hinna kærðu ákvarðana yrði frestað til bráðabirgða á meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þeirri kröfu var hafnað með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 4. nóvember 2022.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 23. ágúst 2022 og Kópavogsbæ 2. desember s.á.

Málavextir: Með úrskurði um mat á umhverfisáhrifum frá árinu 2003 féllst Skipulagsstofnun á lagningu Arnarnesvegar milli Reykjanesbrautar og Breiðholtsbrautar. Taldi stofnunin að framkvæmdin hefði ekki í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Var ákvörðunin kærð til umhverfisráðherra sem stað­festi hana með úrskurði uppkveðnum 11. desember 2003. Lagning vegarins hefur síðan þá farið fram í áföngum, en framkvæmdir eru samkvæmt kærumálsgögnum fyrirhugaðar við 1,3 km langan vegkafla á milli Rjúpnavegar í Kópavogi að Breiðholtsbraut í Reykjavík. Með bréfi, dags. 26. október 2020, óskaði Vegagerðin eftir ákvörðun Skipulagsstofnunar um hvort ný útfærsla á gatnamótum Arnarnesvegar og Breiðholtsbrautar væri háð mati á umhverfisáhrifum. Hinn 16. febrúar 2021 komst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu að fyrirhuguð breyting væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og því skyldi framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Á fundi skipulagsráðs Kópavogs 29. mars 2021 var lögð fram tillaga að deiliskipulagslýsingu fyrir 3. áfanga Arnarnesvegar. Skipulagslýsingin náði til hluta Arnarnesvegar frá gatnamótum Arnarnesvegar og Rjúpnavegar að fyrirhuguðum gatnamótum Breiðholtsbrautar og Arnarnes­vegar og veghelgunarsvæða hans. Samþykkti skipulagsráð að skipulagslýsingin yrði kynnt í samræmi við 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Á fundi bæjarstjórnar 13. apríl s.á. var afgreiðsla skipulagsráðs staðfest. Á fundi skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur 24. mars 2021 var sama tillaga að skipulagslýsingu lögð fram og samþykkt að kynna hana í samræmi við 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga. Var afgreiðsla skipulags- og samgönguráðs samþykkt á fundi borgarráðs 25. s.m.

Skipulagslýsing vegna nýs deiliskipulags fyrir 3. áfanga Arnarnesvegar var auglýst í Frétta­blaðinu 24. apríl 2021. Á fundi skipulagsráðs Kópavogsbæjar 15. nóvember s.á. var lögð fram tillaga að deiliskipulagi 3. áfanga Arnarnesvegar og samþykkt að auglýsa tillöguna sbr. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga. Var afgreiðsla skipulagsráðs staðfest á fundi bæjarstjórnar 23. s.m. Deiliskipulags­tillagan var samþykkt til auglýsingar á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykja­­­­víkur 15. desember 2021 og sú ákvörðun var staðfest á fundi borgarráðs 6. janúar 2022. Frestur til að skila athugasemdum var til 11. mars s.á.

Tillaga um deiliskipulag vegna 3. áfanga Arnarnesvegar innan marka Reykjavíkurborgar var samþykkt á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 29. júní 2022 og staðfesti borgarráð þá afgreiðslu á fundi ráðsins 7. júlí s.á. Þá var á fundi skipulagsráðs Kópavogsbæjar 30. maí s.á. samþykkt tillaga um deiliskipulag vegna sömu framkvæmdar innan sveitarfélagsmarka Kópa­vogs og var sú afgreiðsla staðfest á fundi bæjarstjórnar 14. júní s.á. Deiliskipulagið öðlaðist gildi við birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda 28. október 2022.

 Málsrök kærenda: Kærendur álíta að lögbundið samráð við íbúa hafi ekki verið virt við gerð deiliskipulagsins, þeim hafi ekki verið gefið tækifæri til að hafa áhrif á ákvörðun stjórnvalda og athugasemdum hafi verið svarað á ófullnægjandi hátt. Íbúafundur hafi verið auglýstur með stuttum fyrirvara og ekki hafi verið boðið á fund eins og venja væri heldur hafi verið haldinn streymisfundur og íbúum verið gefinn kostur á að senda inn spurningar í formi tölvupósta og í gegnum athugasemdakerfi Facebook. Fundartími hafi verið auglýstur 60 mínútur, en eftir 40 mínútur hafi fundarstjóri fyrirvaralaust slitið fundinum. Það sé eitt markmiða skipulagslaga að tryggja að samráð sé haft við almenning við gerð skipulagsáætlana. Þar sem íbúum hafi ekki verið gefinn kostur á því að fá fullnægjandi svör á fundinum né nýta allan þann fundartíma sem auglýstur hefði verið sé ljóst að deiliskipulagsferlið hafi verið brotið og skipulagslögum ekki verið fylgt.

Hinn fyrirhugaði vegur komi til með að skera Vatnsendahverfið í tvennt og breyta ásýnd þess og notagildi til hins verra. Umhverfismatið sem framkvæmdin byggi á sé frá 2003, en sam­kvæmt því muni veglagningin hafa óveruleg áhrif á umhverfi, útivist og hljóðvist. Kærendur séu að mestu íbúar í nágrenninu og telji að framkvæmdin muni hafa með sér veruleg og neikvæð áhrif á lífríki, umhverfi og útivist. Framkvæmdin muni auka á tafir á götum sem taki við umferð af veginum þar sem þær anni nú þegar ekki aukinni umferð. Þá muni mengun, svif- og hljóðmengun og losun gróðurhúsalofttegunda einnig aukast. Þannig samræmist fram­kvæmdin ekki markmiðum Samgöngusáttmálans þar sem segi meðal annars: „Markmiðið er að auka öryggi, bæta samgöngur fyrir alla ferðamáta og minnka tafir, stórefla almennings­samgöngur og draga úr mengun af völdum svifryks og losun gróðurhúsalofttegunda til að standa við loftlagsmarkmið stjórnvalda og sveitarfélaga.“

Vegurinn muni liggja þétt að fyrirhuguðum Vetrargarði í Breiðholti. Sleðabrautin muni liggja næst fjögurra akreina stofnbrautinni og tvöföldu hringtorgi. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hafi bent á að þetta væri varhugavert og skoða yrði áhrif mengunar frá veginum á börn sem leika sér nálægt veginum. Ekki hafi verið gert ráð fyrir Vetrargarðinum í umhverfismatinu.

Umferðarlíkanið sem stuðst hafi verið við í umhverfismatinu sé úrelt þar sem höfuðborgar­svæðið hafi breyst mikið á síðustu tveimur áratugum. Mikill umferðarþungi sé á Breiðholts­braut og nauðsynlegt sé að endurmeta áhrifin af viðbótarumferðarþunga Arnarnesvegar. Í matsskyldufyrirspurn frá Vegagerðinni hafi komið fram að einungis væri gert ráð fyrir 12.000 bifreiðum árið 2024 og 13.500 bifreiðum árið 2030 á þessum 3. kafla Arnarnesvegar. Til samanburðar sé gert ráð fyrir að umferð um Vatnsendaveg verði 16.000 bifreiðar á sólarhring árið 2024 og 17.500 bifreiðar á sólarhring árið 2030. Umferð um 4 akreina stofnbraut, sem gert sé ráð fyrir sem möguleika í framtíðinni, geti auðveldlega farið upp í 55.000 bifreiðar á sólarhring, sem sé nær fjórfalt hámark umferðar í umhverfismatinu. Umferð um fyrsta áfanga Arnarnesvegar hafi nú þegar náð neðri mörkum umferðar í matinu en þrátt fyrir það ætli Vegagerðin að tengja Salahverfi við Breiðholtsbraut með tilheyrandi stofnbrautarumferð og fara yfir efri mörk umhverfismatsins. Samkvæmt nýrri umferðarspá sé gert ráð fyrir allt að 16.500 bifreiðum á sólarhring upp úr árinu 2031 um Arnarnesveg. Vegurinn verði því strax árið 2031 farinn yfir viðmið umhverfismatsins sem eru 9.000–15.000. Svifryksmengun við Salaskóla og Vetrargarðinn gæti því farið yfir hættumörk á gráum dögum. Samkvæmt grein Bjarna Gunnarssonar umferðarverkfræðings í Morgunblaðinu 25. mars 2022 muni sú breyting sem gerð var á fyrirhuguðum gatnamótum, úr mislægum í ljósastýrð, hafa í för með sér fleiri umferðarslys, meira eignatjón, minni afkastagetu gatnamótanna, meiri umferðartafir, lengri akstursleiðir, meiri loftmengun, meiri umferðarhávaða við Nönnufell og Suðurfell, stærri mannvirki og breiðari rampa við Suðurfell. Þrátt fyrir þetta hafi Skipulags­stofnun talið að ekki væri þörf á nýju umhverfismati, jafnvel þótt umhverfismatið væri frá árinu 2003. Fram hefði komið í niðurstöðum í skýrslu um umferðaröryggi á gatnamótunum að mislæg gatnamót væru mun betri með tilliti til umferðaröryggis. Þessi niðurstaða umferðar­öryggismatsins hafi verið hunsuð af Vegagerðinni og ekki kynnt Skipulagsstofnun.

Tenging vegarins við Breiðholtsbraut sé nú áætluð með ljósastýrðum gatnamótum en ekki mislægum gatnamótum eins og upphaflegt umhverfismat hafi gert ráð fyrir. Gatnamótin muni tefja umferð inn og út úr Breiðholti og ólíklegt sé að vegurinn muni leysa núverandi umferðar­vanda á Vatnsendavegi. Áætlanir Kópavogs um 5.000 manna byggð efst á Vatnsendahvarfi hafi ekki verið teknar með í reikninginn og hæpið sé að nærliggjandi vega­kerfi, þar með talinn Arnarnesvegur, muni anna þeirri aukningu. Vistlok sem hönnun vegarins taki mið af sé ekki nægilega vel ígrunduð lausn og ekki sé ljóst hvenær þau komi til fram­kvæmda þar sem þau séu ekki hluti upphaflegrar hönnunar. Leggja ætti þennan hæsta veg höfuðborgarsvæðisins í göng eða stokk og vernda þannig náttúruna, hlífa íbúum við mengun og hávaða sem og minnka snjómokstur á veturna.

Ný hverfi hafi verið byggð eftir gerð umhverfismatsins bæði í Kópavogi og Breiðholti og nauðsynlegt sé að meta umhverfisáhrif og hljóðvist af veginum á þau hverfi. Vatnsendahverfið, þar sem vegurinn eigi að liggja, sé mun grónara en fyrir 20 árum og virði þess sem útivistar­svæðis mun meira. Mikið rask verði af framkvæmdunum ásamt stórfelldri eyðileggingu á grænu svæði og villtri náttúru.

Skipulagsstofnun hafi ekki talið sig hafa heimild til að fara fram á nýtt umhverfismat þar sem byrjað hafi verið á framkvæmdinni innan tíu ára frá umhverfismati. Það hafi hins vegar aldrei verið byrjað á þessum 3. kafla Arnarnesvegar. Í kringum aldamót hafi jarðvegur verið færður úr hlíðinni til að fylla upp í mýrlendi annarstaðar. Ef þau rök ættu að standa væri hægt að hefjast handa á hvaða framkvæmdum sem er svo lengi sem jarðvegur hafi verið færður til innan 10 ára frá umhverfismati. Framkvæmdaraðili gæti þá alltaf nýtt sér þessa glufu í lögum til að komast hjá nýju umhverfismati. Lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum hafi verið felld úr gildi með lögum nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Í nýju lögunum komi fram í 28. gr. „Telji framkvæmdaraðili eða leyfisveitandi, sem hefur móttekið umsókn um leyfi til framkvæmda, að forsendur umhverfismatsskýrslu hafi breyst verulega frá því að álit Skipulagsstofnunar um umhverfismat framkvæmdar skv. 24. gr. lá fyrir getur hann óskað álits Skipulagsstofnunar á því hvort endurskoða þurfi umhverfismat framkvæmdarinnar að hluta eða í heild. Ef framkvæmd hefst ekki innan tíu ára frá því að álit Skipulagsstofnunar um umhverfis­mat framkvæmdarinnar liggur fyrir skal framkvæmdaraðili eða viðkomandi leyfisveitandi óska eftir slíku áliti Skipulagsstofnunar. Við gerð álits Skipulagsstofnunar um hvort endurskoða þurfi umhverfismat framkvæmdar skv. 1. mgr. skal leggja til grundvallar hvort forsendur hafi breyst verulega frá því að álit um umhverfismat framkvæmdarinnar lá fyrir, svo sem vegna breytinga á náttúrufari eða landnotkun á áhrifasvæði framkvæmdarinnar, breytinga á löggjöf um umhverfismál, breytinga á alþjóðlegum skuldbindingum eða vegna tækniþróunar varðandi framkvæmdina.“ Í ljósi þess að nær 20 ár séu liðin frá fyrra umhverfismati og forsendur hafi gjörbreyst frá umhverfismati sé leyfisveitendum skylt að óska eftir áliti Skipulagsstofnunar um hvort þörf hafi verið á nýju mati fyrir framkvæmdina. Þetta hafi ekki verið gert og því ljóst að deiliskipulagsferlið hafi ekki verið virt og hagsmunir almennings og umhverfis ekki sett í forgang.

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hafi í umsögn sinni til Skipulagsstofnunar, dags. 26. nóvember 2020, talið að ekki hafi verið gerð næg grein fyrir umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar og engin umfjöllun væri til um áhrif framkvæmdarinnar á náttúrufar svæðisins og loftgæði. Fjalla hefði þurft um áhrif framkvæmdarinnar á útivistarmöguleika svæðisins og þær upplýsingar hefðu þurft að liggja fyrir áður en hægt væri að taka afstöðu til matsskyldu framkvæmdarinnar.

Kærendur telji að framkvæmdin muni hafa veruleg neikvæð áhrif á umhverfi, útivist og hljóð­vist. Hún muni breyta ásýnd svæðisins og notagildi til frambúðar. Mikið rask muni hljótast af framkvæmdunum, eignir gætu skemmst vegna sprenginga, verðgildi fasteigna gæti fallið og íbúar eigi á hættu á að verða fyrir miklu ónæði yfir framkvæmdatímann.

 Málsrök Kópavogsbæjar: Sveitarfélagið telur að hluti kærenda uppfylli ekki skilyrði kæru­aðildar samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála og því beri að vísa málinu frá sökum aðildarskorts. Stór hluti kærenda búi ekki í grennd við hið deiliskipulagða svæði og eigi því ekki einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn málsins umfram aðra né séu hagsmunir þeirra verulegir. Þá liggi ekkert fyrir um aðildarhæfi samtakanna Vina Kópavogs og Hollvinasamtaka Elliðaárdalsins í skilningi laga nr. 130/2011. Á grundvelli 3. mgr. 4. gr laganna teljist umhverfisverndar-, útivistar og hagsmunasamtök með minnst 30 félaga eiga lögvarinna hagsmuna að gæta þegar um nánar tilgreindar ákvarðanir sé að ræða. Krafa kæranda lúti að ógildingu ákvörðunar um samþykki deiliskipulags sem teljist ekki til þeirra ákvarðana sem þar séu nefndar. Samtökin uppfylli því ekki þau skilyrði sem kveðið sé á um í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 og beri að vísa málinu frá hvað þá kærendur varði.

Kópavogsbær hafni því að lögbundið samráð hafi ekki verið virt við gerð deiliskipulagsins. Íbúum hafi verið gefinn kostur á að gera athugasemdir við lýsingu og tillögu að deiliskipulagi. Athugasemdum hafi verið svarað í samræmi við lög og reglur og hið samþykkta deiliskipulag beri með sér að bæjarstjórn hafi haft öll nauðsynleg gögn við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar. Frá upphafi hafi legið fyrir að framkvæmdinni við Arnarnesveg yrði áfangaskipt en, framkvæmdir hafi hafist við 1. áfanga Arnarnesvegar árið 2004. Fyrsta og öðrum áfanga sé lokið og fyrir liggi deiliskipulag sem kveði nánar á um útfærslu á 3. áfanga sem ljúka eigi fyrir árslok 2024. Engin breyting hafi orðið á framkvæmdinni frá því að mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar var staðfest í júlí 2003, fyrir utan breytingar á útfærslu vegamóta við Breiðholtsbraut. Breytingin hafi þau jákvæðu áhrif í för með sér að opið svæði sunnan Breiðholtsbrautar muni skerðast mun minna en fyrri hugmynd um mislæg gatnamót hafi gert ráð fyrir.

Skipulagslögum hafi verið fylgt þar sem með kynningu skipulagslýsingar hafi umsagnar­aðilum, hagsmunaaðilum og almenningi verið veittur kostur á að setja fram ábendingar og athugasemdir við vinnslu og mótun tillögu að deiliskipulagi. Öll málsmeðferð deiliskipulags­tillögunnar hafi verið í samræmi við ákvæði laga nr. 123/2010.

 Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgarinnar var farið fram á að úrskurðarnefndin hafnaði öllum kröfum kærenda þar sem ekkert hefði komið fram í málinu sem leitt gæti til ógildingar hins kærða deiliskipulags. Málsmeðferð hafi verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010, stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr.111/2021.

 Athugasemdir Vegagerðarinnar: Af hálfu Vegagerðarinnar er bent á að í matsskýrslu vegna mats á umhverfisáhrifum hafi komið fram að framkvæmdin yrði áfangaskipt og hafi Arnarnes­vegur verið byggður í áföngum í samræmi við það. Frá upphafi hafi verið gert ráð fyrir því að vinnu við 3. áfanga Arnarnesvegar yrði lokið fyrir lok ársins 2024.

Í matsskýrslu Skipulagsstofnunar frá árinu 2003 hafi verið gerð grein fyrir tveimur útfærslum vegamóta Breiðholtsbrautar og Arnarnesvegar og fallist á báðar útfærslur. Ákveðið hefði verið að á gatnamótunum yrðu mislæg vegamót. Árið 2020 hefðu Vegagerðin, Reykjavíkurborg og Kópavogsbær hins vegar ákveðið að í stað fullbúinna mislægra vegamóta, kæmi brú yfir Breiðholtsbraut og ljósastýrð vegamót. Vegagerðin hefði með fyrirspurn til Skipulags­stofnunar, dags. 26. október 2020, óskað eftir ákvörðun stofnunarinnar um það hvort fyrir­huguð áform væru háð mati á umhverfisáhrifum. Niðurstaða Skipulagsstofnunar, dags. 16. febrúar 2021, hefði verið sú að fyrirhuguð framkvæmd vegamótanna væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif eða víkja frá megin niðurstöðu úrskurðar Skipulagsstofnunar árið 2003 og því skyldi framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Skipulagsstofnun hafi kannað sérstaklega hvort þörf væri á endurskoðun umhverfismats og komist að þeirri niðurstöðu að engin lagaheimild væri til endurskoðunar umhverfismats, enda hefðu framkvæmdir þegar hafist árið 2004. Þessi ákvörðun hafi verið kærð til úrskurðarnefndarinnar af Vinum Vatnsendahvarfs en nefndin hafi vísað kærunni frá með úrskurði, dags. 25. maí 2021, í máli nr. 32/2021, þar sem samtökin hefðu ekki verið talin uppfylla skilyrði laga til að eiga aðild að málinu. Þá hafi hluti kærenda í þessu máli lagt fram kæru sama efnis 26. s.m. sem hafi verið vísað frá úrskurðarnefndinni með úrskurði, dags. 8. júlí 2021 í máli nr. 68/2021, þar sem kærendur hefðu ekki verið taldir eiga lögvarinna hagsmuna að gæta í málinu sem skapað gæti þeim kæruaðild.

Þrátt fyrir að málið varði staðfestingu á tillögu að deiliskipulagi í þágu framkvæmdarinnar byggi kæran efnislega á sömu röksemdum og í fyrri kærum á ákvörðun Skipulagsstofnunar. Málatilbúnaðurinn gangi út á kröfu um nýtt umhverfismat, að framkvæmdin eigi sér ekki stað eða verði endurskoðuð.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geti þeir einir átt kæruaðild að máli sem eigi lögvarinna hagsmuna að gæta. Skilyrði kæru­aðildar sé þannig að niðurstaða málsins hafi áhrif á einstaklingsbundna og verulega hagsmuni kærandans. Kærendur séu annars vegar einstaklingar sem búi innan marka Reykjavíkurborgar eða Kópavogsbæjar, og séu margir hverjir búsettir í þónokkurri fjarlægð frá fyrirhuguðu framkvæmdasvæði. Kærendur sem búsettir séu í töluverðri fjarlægð frá fyrirhugaðri stað­setningu Arnarnesvegar geti tæplega talist eiga lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn málsins, umfram aðra, miðað við fyrirhugaða staðsetningu vegarins.

Hvað varði samtökin Vini Kópavogs og Hollvinasamtök Elliðaárdalsins þá sé vísað til þess að í stafliðum ákvæðis 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 sé tæmandi taldar þær ákvarðanir sem slík hagsmunasamtök séu talin hafa lögvarða hagsmuni af því að leyst verði úr fyrir nefndinni og þar með hvaða ákvörðunum slík samtök geti átt kæruaðild. Ákvarðanir sveitarfélaga um samþykki deiliskipulags séu ekki þar á meðal. Af því leiði að samtökin geti ekki talist eiga lögvarinna hagsmuna að gæta í máli lögum samkvæmt og nefndinni beri að vísa málinu frá hvað þau varði. Þá liggi ekkert fyrir um aðildarhæfi samtakanna í skilningi 3. og 4. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Hvað aðra kærendur varði telji Vegagerðin þörf á að árétta að hinar kærðu ákvarðanir varði hvorki ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu, dags. 16. febrúar 2021, né ákvörðun um að nýtt mat á umhverfisáhrifum skuli eða skuli ekki fara fram, eða um lögmæti framkvæmdarinnar í heild. Röksemdir kærenda byggi hins vegar alfarið á sjónarmiðum þess efnis að meta þurfi umhverfisáhrif framkvæmdarinnar að nýju eða endurskoða framkvæmdina í heild. Raunverulegur ágreiningur málsins varði þannig ekki deiliskipulagið sjálft eða máls­meðferð og undirbúning þess. Verði hinn raunverulegi ágreiningur málsins ekki leiddur til lykta með úrlausn þessa máls.

Með hliðsjón af þeim upplýsingum og röksemdum sem fyrir liggi í málinu sé ekkert fram komið sem sýni fram á að hagsmunir kærenda af úrlausn málsins séu sérstakir, einstaklegir eða verulegir um ógildingu hinna kærðu ákvarðana. Í því sambandi verði einnig að líta til þess að staðsetning og lega Arnarnesvegar hafi lengi legið fyrir í aðalskipulagi Kópavogsbæjar og Reykjavíkurborgar og sé í samræmi við svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins. Feli nánari útfærsla svæðisins með hinu kærða deiliskipulagi ekki í sér svo veruleg áhrif á hagsmuni kærenda, um fram það sem þeir hafi mátt vænta af fyrirliggjandi aðalskipulagi og öðrum framkvæmdargögnum, að það skapi kærendum kæruaðild í málinu. Áratugum saman hafi legið fyrir að vegur yrði lagður á umræddu svæði, sem meðal annars hafi mátt sjá á upphaflegu deiliskipulagi vegna Seljahverfis frá átttugasta áratug síðustu aldar. Í ljósi þessa verði að telja að kærendur uppfylli ekki skilyrði um lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins svo skapað geti þeim kæruaðild og vísa beri kærunni frá úrskurðarnefndinni.

Í 12. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. bráðabirgðaákvæði 38. gr. laga nr. 111/2021 sé fjallað um þá aðila sem hafi forræði á kröfu um að metið verði hvort nýtt umhverfismat skuli framkvæmt, en það séu leyfisveitendur og Skipulagsstofnun. Í 28. gr. laga nr. 111/2021 sé einnig mælt fyrir um þá aðila sem geti óskað eftir mati á því hvort umhverfismat skuli fara fram að nýju, það séu framkvæmdaraðili og leyfisveitandi. Ljóst sé að krafa um slíkt sé ekki á forræði kærenda og því verði að vísa málatilbúnaði kærenda í heild frá úrskurðar­nefndinni.

Vinna við tillögur að deiliskipulagi sé á forræði viðkomandi sveitarfélags og fari fram í sam­ræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010. Inntak deiliskipulaga sé að öðru leyti háð frjálsu mati sveitarfélaga sem hafi víðtækt vald til skipulagsákvarðana innan sinna marka. Aðeins lögmæti verði borið undir æðra stjórnvald, það er hvort málsmeðferð hafi verið í samræmi við lög og hvort ákvörðunin eigi sér stoð í lögum. Kærendur hafi ekki bent á að hvaða leyti hinar kærðu ákvarðanir hafi verið ólögmætar enda sé grundvöllur málatilbúnaðar kærenda aðeins sá að nýtt mat á umhverfisáhrifum skuli fara fram og framkvæmdin endurskoðuð. Krafa kærenda feli í sér kröfu um að úrskurðarnefndin endurskoði efnislegt inntak hins kærða deiliskipulags, sem sé þó háð frjálsu mati Reykjavíkurborgar og Kópavogsbæjar. Þá sé samkvæmt áðurnefndu ákvæði 28. gr. laga nr. 111/2021 undir mati viðkomandi framkvæmdaraðila eða leyfisveitanda komið hvort óska skuli eftir áliti Skipulagsstofnunar á því hvort nýtt mat á umhverfisáhrifum skuli framkvæmt. Ekki sé mælt fyrir um skyldu þess efnis og sé sú krafa, að ákvörðun byggð á mati sveitarfélags verði ógild á grundvelli þess frjálsa mats, þar af leiðandi ótæk.

Engin lagaskilyrði séu til að fallast á kröfur kærenda. Hinar kærðu ákvarðanir byggi á faglegri og vandaðri málsmeðferð, séu vel rökstuddar, byggi á ítarlegum gögnum og séu í samræmi við lög og reglur. Ekki hafi verið lögð fram gögn eða upplýsingar sem geti leitt til þess að ógilda skuli hinar kærðu ákvarðanir og ekki sé lagalegur grundvöllur fyrir kröfum kærenda. Með kynningu skipulagslýsingar hafi umsagnaraðilum, hagsmunaaðilum og almenningi verið veittur kostur á að leggja fram sjónarmið og ábendingar við mótun tillögu að deiliskipulagi. Hið kærða deiliskipulag hafi í kjölfarið verið auglýst til kynningar hinn 21. janúar 2022. Kærendur hafi þannig átt kost á að koma á framfæri athugasemdum sínum sem þeir hafi og gert. Boðað hafi verið til íbúafundar þar sem áformin hafi verið kynnt og fyrirspurnum svarað. Ekki sé mælt fyrir um framkvæmd boðunar, tímalengd fundar eða form kynningarfundar í skipulagslögum. Í kjölfar fundarins hafi frestur til athugasemda við tillöguna verið framlendur frá 3. mars 2022 til 11. s.m. Athugasemdum hafi verið svarað bæði á kynningarfundi og skrif­lega. Orðið hafi verið við tilteknum athugasemdum og umsögnum og öllum athugasemdum verið svarað með fullnægjandi hætti.

Lega Arnarnesvegar hafi verið mikilvæg forsenda skipulags á höfuðborgarsvæðinu og hafi samgöngumannvirki verið unnin í samráði við sveitarfélög með veginn í huga. Vegurinn hafi verulega þýðingu fyrir greiðar samgöngur um ný íbúðar-, þjónustu og verslunarhverfi sem risið hafi á svæðinu og þeirra sem séu í undirbúningi. Framkvæmdin hafi legið fyrir áratugum saman. Með framkvæmdinni sé gert ráð fyrir jákvæðum áhrifum á íbúðarhverfi með því að draga úr umferð þar, stytta vegalengdir að meginumferðaræðum og auðvelda samgöngur. Miklar tafir séu á umferð við núverandi vegamót Breiðholtsbrautar og Vatnsendahvarfs og rík þörf sé á framkvæmdinni þar sem umferðaröryggi sé þar talið ábótavant og slysatíðni sé há. Stjórn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins hafi til að mynda skorað á samgönguyfirvöld í mars 2019 að flýta framkvæmdum við Arnarnesveg til að tryggja öryggi íbúa svæðisins.

Athugasemdir um meintan skort á umferðaröryggi vegna breytinga á gatnamótum Arnarnes­vegar og Breiðholtsbrautar standi utan málsins. Farið hafi verið eftir verklagsreglum Vega­gerðarinnar við framkvæmd umferðarmats og þeim hafi verið fylgt að öllu leyti. Ljóst sé að með greiðari samgöngum verði öryggi betur tryggt frá því sem nú sé. Umferðaröryggi hjólandi og gangandi vegfarenda muni aukast til muna auk þess sem öruggt umhverfi aðgengi veg­farenda að útivistarsvæði verði tryggt. Þá verði sá möguleiki enn tækur að hafa gatnamótin mislæg, ef þörf krefji vegna breyttra aðstæðna, þrátt fyrir að þau verði í upphafi ljósastýrð.

Hinar kærðu ákvarðanir varði staðfestingu á tillögu að deiliskipulagi í tengslum við fyrir­hugaðar framkvæmdir við 3. áfanga Arnarnesvegar en ekki hvort mat á umhverfisáhrifum skuli framkvæmt að nýju eða hvort hætta eigi við framkvæmdina. Í kærunni sé aðallega byggt á því að framkvæma beri nýtt umhverfismat fyrir framkvæmdina. Málatilbúnaðurinn fari út fyrir efni hinna kærðu ákvarðana sem varði ekki mat á því hvort umhverfismat skuli fara fram. Rétt sé þó að benda á að hin fyrirhugaða framkvæmd byggi á málsmeðferð og umhverfismati sem sé í fullu samræmi við lög. Engar lagalegar forsendur séu fyrir því að framkvæma nýtt umhverfis­mat vegna framkvæmdandarinnar.

Umhverfismat vegna Arnarnesvegar hafi farið fram árið 2003 fyrir alla framkvæmdina og framkvæmdir hafi hafist árið 2004 við 1. áfanga. Frá upphafi hafi legið fyrir að framkvæmdin yrði áfangaskipt og að um umfangsmiklar framkvæmdir yrði að ræða hverju sinni. Fyrsta og öðrum áfanga væri lokið og nú sé komið að þriðja áfanga, sem hafi verið áætlað að ljúka fyrir árslok 2024. Eina breytingin sem hafi átt sér stað á framkvæmdinni frá því að matsskýrsla hafi legið fyrir árið 2003 séu breytingar á fyrirhuguðum vegamótum við Breiðholtsbraut. Breytingin hafi í för með sér að minna landrými verði nýtt undir veginn heldur en gert hafi verið ráð fyrir í matsskýrslu. Skipulagsstofnun hafi þegar fjallað um þennan þátt málsins lögum samkvæmt.

Nýjar íbúðarbyggðir á svæðinu hafi væntanlega verið skipulagðar með hliðsjón af fyrirhugaðri framkvæmd við Arnarnesveg sem kæmi til með að tryggja flæði umferðar til og frá hinum nýju hverfum. Sjónarmið þess efnis komi fram í úrskurði Skipulagsstofnunar frá árinu 2003 þar sem bent hafi verið á að miðað við svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins muni byggð halda áfram að þróast austur og því sé nauðsynlegt að hafa möguleika á því að tengja fjarlægar byggðir með slíkum vegi. Hinar nýju byggðir hefðu líklega ekki þróast með sama hætti án þess að lagning Arnarnesvegar hefði verið fyrirhuguð. Sú umferðaraukning sem kærendur vísi til  séu aukinheldur ekki langt umfram það sem metið hafi verið. Að því sögðu muni aukning umferðar eiga sér stað óháð framkvæmdum Arnarnesvegar og verði því að gera ríkar kröfur til skilvirkra samgangna. Með 3. áfanga Arnarnesvegar megi gera ráð fyrir því að umferðarþunga á svæðinu verði betur dreift sem leiði til minni mengunar á hverjum stað og að hljóðvist batni almennt vegna minni umferðar á hverju svæði.

Ástæða þess að svæðið sem vegurinn muni liggja um sé enn óbyggt sé fyrst og fremst vegna þess að það hafi verið frátekið í skipulagi fyrir Arnarnesveg um áratuga skeið. Með hinu kærða deiliskipulagi sé aðeins verið að skipuleggja það svæði sem falli innan marka þess. Af því leiði að ekki verði kveðið á um mótvægisaðgerðir eða framkvæmdir vegna fyrirhugaðra fram­kvæmda innan marka annarra deiliskipulagssvæða sem enn séu í vinnslu, svo sem skipulags­svæða vetrargarðarins, nýrra íbúðabyggða eða á öðrum hlutum Breiðholtsbrautar. Ákvarðanir um uppbyggingu vetrargarðsins og nýrra íbúðabyggða hafi verið teknar þegar fyrirhuguð framkvæmd 3. áfanga Arnarnesvegar hafi þegar legið fyrir. Staðsetning þeirra hafi þannig verið ákveðin þrátt fyrir að ljóst væri að vegurinn yrði lagður. Ákvarðanir um uppbyggingu að­liggjandi svæða geti ekki réttilega leitt til þess að framkvæma verði nýtt mat á umhverfis­áhrifum vegna fyrirliggjandi veglagningar, sem þegar hafi verið metið í samræmi við lög. Væri enda ógerlegt að framkvæma nýtt mat á umhverfisáhrifum hverju sinni þegar breytingar væru gerðar á öðru skipulagi í nálægð við fyrirhuguð framkvæmdasvæði.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur benda á að þeir búi flestir nálægt hinu fyrirhugaða vegstæði og nýti svæðið sem um ræði mikið til útivistar og heilsubótar. Ef þeir eigi ekki lögvarða hagsmuni þá eigi enginn lögvarða hagsmuni og lögin séu ekkert annað en inni­haldslaus orð sem engum þjóni nema sveitarfélögum og stofnunum til að verja sína yfirburði og eiginhagsmuni. Töluverðar rangfærslur séu í greinargerðum Vegagerðarinnar og sveitar­félaganna og mikilvægt sé að úrskurðarnefndin fari yfir allar staðhæfingar sem þar komi fram.

—–

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvarðana bæjarstjórnar Kópavogs frá 14. júní 2022 og borgarráðs Reykjavíkur frá 7. júlí s.á. um að samþykkja deiliskipulag Arnarnesvegar, 3. áfanga, frá Rjúpnavegi að Breiðholtsbraut.

 Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvörðun til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Að stjórnsýslurétti hefur skilyrðið um lögvarða hagsmuni fyrir kæruaðild verið túlkað svo að þeir einir teljist aðilar kærumáls sem eigi einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Kærendurnir Vinir Kópavogs og Hollvinasamtök Elliðaárdalsins hafa ekki slíkra hagsmuna að gæta og verður kröfum þeirra vísað frá nefndinni. Þá er sérstök kæruaðild umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtaka til úrskurðarnefndarinnar bundinn við þær ákvarðanir um mat á áhrifum framkvæmda og áætlana sem greinir í tilvísaðri lagagrein.

Hin nefndu samtök lögðu kæru sína einnig fram fyrir hönd 40 tilgreindra aðila sem eru búsettir eða með heimilisfang í Kópavogi eða Reykjavík. Við mat á því hvort umræddir kærendur eigi lög­varinna hagsmuna að gæta af hinni kærðu ákvörðun verður sem fyrr segir að líta til þess hvort þeir eigi einstaklegra hagsmuna að gæta af hinu kærða deiliskipulagi og jafnframt hvort þeir hagsmunir séu verulegir. Þarf því að líta til staðhátta allra og meðal annars kanna hvar fasteignir þeirra eru staðsettar með tilliti til umrædds skipulagssvæðis. Jafnframt ber við matið að líta til þeirrar framkvæmdar sem skipulagið gerir ráð fyrir og hvort það komi til með að snerta hagsmuni þeirra, til að mynda vegna útsýnisskerðingar, hávaða eða annars ónæðis.

Fyrir liggur að hinn umdeildi vegur mun ekki sjást frá íbúðarhúsum kærenda sem búsettir eru í Akraseli 24, Fljótaseli 32, Jakaseli 9, Jóruseli 6, 21 og 23, Klyfjaseli 4, 6 og 22, Kambaseli 13 og Ystaseli 30. Á milli nefndra eigna kærenda og framkvæmdasvæðisins eru bæði hús og gróður. Hús kærenda að Neðstabergi 8 og Klappakór 1c og 6 eru í hálfs km fjarlægð frá hinu fyrirhugaða vegstæði Arnarnesvegar. Vegna greindra staðhátta verður að telja að hið kærða deiliskipulag varði ekki einstaklega hagsmuni framangreindra kærenda umfram aðra. Eiga þeir því ekki lögvarinna hagsmuna að gæta með tilliti til grenndaráhrifa. Verður kröfum framan­greindra kærenda því vísað frá úrskurðar­nefndinni. Öðrum kærendum er hins vegar játuð kæruaðild vegna mögulegra grenndaráhrifa heimilaðra framkvæmda gagnvart fasteignum þeirra sem staðsettar eru rétt utan framkvæmdasvæðisins.

 —–

 Málsrök kærenda lúta meðal annars að því að fara eigi fram nýtt mat á umhverfisáhrifum vegna hins umdeilda 3. áfanga Arnarnesvegar. Vísa þeir til þess að umferð muni aukast til muna, af því hljótist mengun og vegurinn muni hafa neikvæð áhrif á hljóðvist.

Hin umdeilda lega fyrirhugaðs 3. áfanga Arnarnesvegar hefur verið mörkuð í aðalskipulagi Kópavogs sem og í aðalskipulagi Reykjavíkur sem hafa verið staðfest lögum samkvæmt. Vegalagningin fór á sínum tíma í mat á umhverfisáhrifum og kvað Skipulagsstofnun upp úrskurð hinn 4. júlí 2003 samkvæmt þágildandi ákvæðum laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000, þar sem fallist var lagningu Arnarnesvegar milli Reykjanesbrautar og Breiðholtsbrautar ásamt lagningu tengibrautar um Hörðuvelli í Kópavogi, Garðabæ og Reykjavík. Sá úrskurður sætti kæru til umhverfisráðherra, sem staðfesti hann með úrskurði uppkveðnum 11. desember 2003.

Með bréfi, dags. 26. október 2020, óskaði Vegagerðin eftir ákvörðun Skipulagsstofnunar um hvort ný útfærsla á gatnamótum Arnarnesvegar og Breiðholtsbrautar væri háð mati á umhverfis­áhrifum. Fæli útfærslan í sér brú yfir Breiðholtsbraut og ljósastýrð gatnamót og kom fram í matsskyldufyrirspurn Vegagerðarinnar að um væri að ræða sameiginlega niðurstöðu Vega­gerðarinnar, Reykjavíkurborgar og Kópavogsbæjar. Hinn 16. febrúar 2021 komst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu að fyrirhuguð breyting væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og því skyldi framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Í ákvörðun sinni vísaði stofnunin m.a. til þess að í framkvæmdinni fælist breyting á útfærslu gatnamóta frá fyrri áformum sem kæmi ekki til með að auka ónæði af umferð eða mengun í íbúðarbyggð eða á útivistarsvæðum. Fæli framkvæmdin jafnframt í sér minna inngrip í ásýnd svæðanna. Tvær kærur bárust úrskurðarnefndinni vegna ákvörðunar Skipulagsstofnunar en með úrskurðum uppkveðnum 25. maí 2021, í máli nr. 32/2021 og 8. júlí 2021, í máli nr. 68/2021, var kærunum vísað frá þar sem kærendur töldust ekki uppfylla skilyrði til aðildar.

Koma framangreindar ákvarðanir ekki til endurskoðunar í máli þessu.

 —-

 Í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga er mælt fyrir um að gera skuli deiliskipulag fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Skipulag lands innan marka sveitarfélags er í höndum sveitarstjórna skv. 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga og ber sveitarstjórn skv. 38. gr. sömu laga ábyrgð á gerð deiliskipulags. Við gerð skipulagsáætlana ber að fylgja markmiðum skipulagslaga, sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra. Meðal þeirra markmiða er að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulagsmála þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi, sbr. c-lið. Að gættum þessum markmiðum hefur sveitarstjórn mat um það hvernig deiliskipulagi skuli háttað, svo fremi það mat byggi á lögmætum sjónarmiðum. Í d-lið nefndrar 1. gr. kemur fram það markmið laganna að tryggja að samráð sé haft við almenning við gerð skipulagsáætlana þannig að almenningi sé gefið tækifæri til að hafa áhrif á ákvörðun stjórnvalda við gerð þeirra.

Tekin var saman lýsing á hinu fyrirhugaða skipulagsverkefni í samræmi við 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga og var lýsingin kynnt fyrir almenningi og umsagnaraðilum. Tillaga að deili­skipulagi fyrir 3. áfanga Arnarnesvegar var auglýst í samræmi við 41. gr. laganna og að lokinni auglýsingu var tekin afstaða til athugasemda sem bárust við tillöguna skv. 3. mgr. 41. gr. laganna. Var málsmeðferð deiliskipulagsins að þessu leiti í samræmi við ákvæði skipulags­laga.

Samkvæmt 5. mgr. 12. gr. skipulagslaga skal við gerð skipulagsáætlana gera grein fyrir umhverfisáhrifum áætlunar og einstakra stefnumiða hennar, m.a. með samanburði þeirra valkosta sem til greina koma, sbr. lög nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana. Þá er fjallað um umhverfismat deiliskipulags í gr. 5.4.1. í skipulagsreglugerð. Samkvæmt 1. mgr. greinarinnar skal við gerð deiliskipulags meta líkleg áhrif af fyrirhuguðum framkvæmdum og starfsemi á aðliggjandi svæði og einstaka þætti áætlunarinnar sjálfrar, svo sem á vistkerfi, auðlindir, landslag, ásýnd, útsýni, hljóðvist, loftgæði, hagkvæmni, veðurfar, varðveislugildi og svipmót byggðar og einstakra bygginga o.fl. umhverfisþætti eftir því sem efni skipulagsins gefi tilefni til. Í 2. mgr. segir að áætla skuli áhrif af landmótun, skógrækt, umferð, hávaða, umfangsmiklum mannvirkjum, svo sem háhýsum, ásamt fleiri atriðum sem talin eru þar upp. Þá er kveðið á um í 3. mgr. að gera skuli grein fyrir matinu og niðurstöðu þess í greinargerð deiliskipulagsins. Að lokum er tekið fram í 4. mgr. að ef í ljós komi að fyrirhugaðar framkvæmdir eða starfsemi geti haft neikvæð áhrif á umhverfið skuli gera breytingar á deiliskipulagstillögunni til að draga úr hinum neikvæðu áhrifum eða rökstyðja af hverju það sé ekki gert. Setja skuli skilmála um vöktun áhrifa og um hvernig bregðast eigi við umhverfisvandanum eftir því sem þörf sé á.

Í umhverfisskýrslu deiliskipulagsins var fjallað um þá umhverfisþætti sem deiliskipulags­áætlunin var talin hafa áhrif á, nánar tiltekið; landnotkun, umferðaröryggi, hljóðstig, loftmengun, afrennsli og vatnafar, gróður, fuglalíf, fornleifar, sjónræn áhrif og áhrif á útivistar­möguleika. Markmið umhverfismats á áætlunarstigi er að huga að umhverfisáhrifum á fyrri stigum ákvörðunartöku. Þar sem stefnumörkun á áætlanastigi er yfirleitt almenns eðlis, borið saman við það sem á við um einstakar framkvæmdir sem háðar eru mati á umhverfisáhrifum, verður að ganga út frá því að umhverfismat áætlana sé tiltölulega almennt mat, sem oft fer fram án sérstakra rannsókna á umhverfi og umhverfisáhrifum. Í umhverfisskýrslu hins kærða deiliskipulags er að finna mat á því hver séu líkleg áhrif framkvæmdarinnar á greinda umhverfisþætti og hvaða mótvægisaðgerða og/eða eftirfylgni eigi grípa til. Að framangreindu virtu og að teknu tilliti til stöðu deiliskipulagsins í stigskiptri áætlanagerð verður að telja að umhverfismat skipulagsins hafi uppfyllt skilyrði skipulagslaga.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður hin kærða ákvörðun um deiliskipulag hvorki talin haldin þeim form- né efnisannörkum að ógildingu varði.

 Úrskurðarorð:

 Kröfum kærenda að Akraseli 24, Fljótaseli 32, Jakaseli 9, Jóruseli 6, 21, og 23, Kambaseli 13, Klyfjaseli 4, 6 og 22, Ystaseli 30, Neðstabergi 8 og Klappakór 1c og 6 auk samtakanna Vina Kópavogs og Hollvinasamtaka Elliðaárdalsins er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Hafnað er kröfum annarra kærenda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Kópavogs frá 14. júní 2022 og ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 7. júlí s.á. um að samþykkja deiliskipulag Arnarnesvegar, 3. áfanga, frá Rjúpnavegi að Breiðholtsbraut.

61/2023 Efnistaka úr Hörgá

Með

Árið 2023, föstudaginn 26. maí, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 61/2023, kæra á ákvörðun Fiskistofu frá 12. september 2022 um að veita leyfi til efnistöku á svæði E-6 í Hörgá í Hörgársveit.

 Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

 um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. maí 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir Náttúrugrið, þá ákvörðun Fiskistofu frá 12. september 2022 að veita leyfi vegna efnistöku á svæði E-6 í Hörgá í Hörgársveit. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist á réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni og verður nú tekin afstaða til þeirrar kröfu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Fiskistofu 22. maí 2023.

Málavextir: Hinn 11. apríl 2019 veitti Fiskistofa framkvæmdaraðila leyfi til efnistöku á svæði E-6 í Hörgá í Hörgársveit, fyrir allt að 85.000 m3. Gildistími leyfisins var til 12. apríl 2020. Sveitarfélagið mun ekki hafa veitt framkvæmdaleyfi og fór efnistaka því ekki fram. Fiskistofa veitti aftur leyfi 18. nóvember 2020 og gilti það til 1. október 2022. Framkvæmdir munu ekki hafa farið fram og óskaði framkvæmdaraðili eftir því að leyfið yrði framlengt. Fiskistofa veitti leyfi að nýju 12. september 2022 á grundvelli sömu forsendna og fyrri leyfi.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að hin kærða ákvörðun brjóti gegn ákvæðum laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana en um kæruheimild fari samkvæmt 1. mgr. 36. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði. Í hinni kærðu ákvörðun komi skýrt fram að í engu hafi verið gætt að því sem sjávarútvegsfræðingur hafi mælt með í byrjun árs 2019, og þá hafi heldur ekki verið aflað uppfærðra upplýsinga frá þeim sérfræðingi, þótt tvö og hálft ár hafi liðið frá því að fyrri greinargerð hans lá fyrir. Allar efnis- og formreglur hafi verið brotnar við töku hinnar kærðu ákvörðunar.

Málsrök Fiskistofu: Af hálfu Fiskistofu er vísað til þess að stofnuninni hafi ekki þótt tilefni til þess að afla uppfærðra upplýsinga frá sérfræðingi á sviði veiðimála fyrir útgáfu leyfisins frá 12. september 2022. Efnistakan hafi tekið til sama magns og engin efnistaka hefði farið fram á svæðinu á grundvelli fyrri leyfa. Stofnunin hefði ekki krafist þess að framkvæmdaraðili léti gera líffræðilega úttekt á veiðivatni áður en leyfi hafi verið veitt, sbr. 3. mgr. 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði. Þess í stað hefði verið kveðið á um að efnistakan yrði unnin í samráði við fiskifræðing til að meta áhrif framkvæmdarinnar á fiskistofna árinnar.

 Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðun en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið sé til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra beri þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda.

Tekið er fram í athugasemdum um 5. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggist á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Þar kemur einnig fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili sé að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun sé íþyngjandi fyrir hann. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af æðra stjórnvaldi.

Mál þetta snýst um gildi ákvörðunar Fiskistofu frá 12. september 2022 um að veita leyfi til efnistöku á svæði E-6 í Hörgá í Hörgársveit. Samkvæmt upplýsingum frá sveitarfélaginu er efnistöku á svæðinu lokið á þessu efnistökutímabili. Með hliðsjón af því og framangreindum lagaákvæðum verður ekki séð að tilefni sé til að fallast á kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa. Verður kröfu kæranda þar um því hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa vegna ákvörðunar Fiskistofu um að veita leyfi til efnistöku á svæði E-6 í Hörgá í Hörgársveit.

53/2023 Efnistaka úr Hörgsá

Með

Árið 2023, föstudaginn 26. maí, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 53/2023, kæra á ákvörðun sveitastjórnar Hörgársveitar frá 27. ágúst 2020 um að samþykkja umsókn um framkvæmdaleyfi vegna efnistöku á svæði E-6 í Hörgá.

 Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

 um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. apríl 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir Náttúrugrið, þá ákvörðun sveitarstjórnar Hörgársveitar frá 27. ágúst 2020 að samþykkja umsókn um framkvæmdaleyfi vegna efnistöku á svæði E-6 í Hörgá. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hörgársveit 5. og 11. maí 2023.

Málavextir: Í apríl 2015 fór fram umhverfismat framkvæmdar fyrir allt að 795.000 m3 efnistöku úr Hörgá, Fossá og Öxnadalsá. Álit Skipulagsstofnunar lá fyrir 4. júní 2015. Kemur m.a. þar fram að gert er ráð fyrir að tímabundin framkvæmdaleyfi verði gefin út yfir 20 ára tímabil í samræmi við áfangaskiptingu á grundvelli ráðgjafar fiskifræðinga. Gefin hafa verið út nokkur framkvæmdaleyfi vegna efnistöku á mismunandi svæðum í Hörgá, en stöðvunarkafa í máli þessu varðar eingöngu framkvæmdaleyfi vegna efnistöku á svæði E-6.

Sveitarstjórn Hörgársveitar samþykkti á fundi sínum 27. ágúst 2020 umsókn um framkvæmdaleyfi og var það gefið út með gildistíma til 1. október 2022, en ekki mun hafa orðið að framkvæmdum. Framkvæmdaraðili óskaði eftir framlengingu á leyfinu og gaf skipulagsfulltrúi út fram­kvæmda­leyfi 1. október 2022 með vísan til fyrri ákvörðunar sveitarstjórnar frá 27. ágúst 2020.

Málsrök kæranda: Máli sínu til stuðnings vísar kærandi til framlagðra ljósmynda og bendir á að mikil og vel sýnileg efnistaka, rask og haugsöfnun hafi farið fram undanfarið í og við Hörgá, og sé enn yfirstandandi. Að loknu efnistökutímabili, 30. apríl 2023, hafi átt eftir að sækja efni úr geymslusvæðum við ána. Því fylgi áhætta vegna frekara álags og áhrifa á vatnsgæði viðkomandi vatnshlota, en ekki hafi verið gerð lögbundin athugun á þeim áhrifum. Miklir almannahagsmunir lífríkis og vatnsgæða séu undir í málinu. Frá því að kæra hafi verið send í máli þessu til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, 19. apríl 2023, þar til sveitarfélagið hafi skilað athugasemdum sínum, 5. maí 2023, hafi efnistaka sannanlega farið fram á efnistökusvæði 6. Á þessu tímabili hafi farvegur Hörgár verið fluttur í heild sinni á nokkurra hundruð metra kafla. Tjón á lífríki blasi við, svo sem lesa megi út frá mati á umhverfisáhrifum frá árinu 2015, þar með talinna umsagna Fiskistofu, Veiðimálastofnunar og Umhverfisstofnunar, og áliti Skipulagsstofnunar. Verði ekki fallist á stöðvun framkvæmda á meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni verði hagsmunir lífríkisins fyrir borð bornir.

Málsrök Hörgársveitar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að lagaskilyrði séu ekki uppfyllt fyrir stöðvunkröfu og henni beri að hafna. Ekki séu fyrir hendi ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir því að framkvæmdir verði stöðvaðar og vikið verði frá meginreglu 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar. Ákvæði sem mæli fyrir undantekningum á þeirri meginreglu beri að skýra þröngt. Stöðvun framkvæmda geti falið í sér tjón fyrir framkvæmdaraðila og mikla röskun á því fyrirkomulagi sem sé til staðar varðandi efnistöku úr Hörgá. Þá sé stöðvun framkvæmda afar íþyngjandi inngrip í sjálfsstjórnarrétt sveitarfélags, ráðstöfunarheimild eiganda yfir landi sínu og eignarrétt þeirra sem eigi haugsett efni. Þar sem um sé að ræða hagsmuni sem njóti allir verndar ákvæða stjórnarskrárinnar beri að gera ríkar kröfur til þess að skilyrði séu uppfyllt til stöðvunar framkvæmdar.

Ljósmyndir sem kærandi hafi lagt fram sýni ekki efnistöku úr ánni, heldur flutning og frágang efnis sem þegar hafi verið tekið úr ánni. Efnistaka sé þegar óröskuðu efni sé mokað upp og tekið úr árfarvegi eða öðrum efnistökustað. Flutningur sé þegar efni, sem mokað hafi verið upp og þegar verið raskað, sé tekið og flutt til. Í máli þessu sé efnistaka heimil til 30. apríl 2023 og megi hún hefjast aftur 1. október 2023. Flutningur efnis sé heimill þess á milli, svo framarlega sem það valdi ekki gruggi í ánni og að uppfylltum öllum skilyrðum. Í byrjun maí 2023 hafi skipulags- og byggingarfulltrúi gert athugasemdir við framkvæmdaraðila um að efni stæði of nærri ánni miðað við ákvæði umhverfismats og að efnishaugar hafi staðið utan geymslusvæðis sem skilgreint sé á uppdrætti sem liggi leyfinu til grundvallar. Framkvæmdaraðili hafi sagst myndu bregðast við þegar í stað og telji sveitarfélagið að svo hafi verið gert. Verði ekki betur séð en að skurðgrafa sem sjáist á ljósmynd frá 5. maí 2023 sýni að framkvæmdaraðili hafi brugðist við þessum athugasemdum og myndin sýni flutning efnis frá ánni. Alltaf hafi legið fyrir að efninu yrði safnað upp í hauga. Um tímabundna sjónmengun sé að ræða, enda verði haugarnir fjarlægðir og efni tekið úr þeim til framkvæmda.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðun en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið sé til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra beri þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda.

Tekið er fram í athugasemdum um 5. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggist á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Þar kemur einnig fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili sé að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun sé íþyngjandi fyrir hann. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af æðra stjórnvaldi.

Mál þetta snýst um gildi framkvæmdaleyfis vegna efnistöku á svæði E-6 í Hörgá. Efnistökutímabili lauk 30. apríl 2023 og hefst það aftur 1. október 2023. Samkvæmt upplýsingum frá sveitarfélaginu er efnistöku á svæðinu lokið og ljósmyndir þær sem lagðar hafa verið í fram í málinu sýni flutning á efni en ekki efnistöku. Með hliðsjón af því og framangreindum lagaákvæðum verður ekki séð að tilefni sé til að fallast á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda. Verður kröfu kæranda þar um því hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða vegna ákvörðunar sveitarstjórnar um að samþykkja framkvæmdaleyfi vegna efnistöku á svæði E-6 í Hörgá.

40/2023 Skógrækt í Gilsfirði

Með

Árið 2023, föstudaginn 26. maí, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 40/2023, kæra á afgreiðslu Skipulagsstofnunar frá 28. febrúar 2023 um að ekki væri þörf fyrir umhverfismati vegna uppgræðslu á jörðinni Ólafsdal í Gilsfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. mars 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir Ólafsdalsfélagið, þá niðurstöðu Skipulagsstofnunar frá 28. febrúar s.á. að ekki væri þörf fyrir umhverfismat vegna fyrirhugaðrar uppgræðslu á jörðinni Ólafsdal í Gilsfirði. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 27. apríl 2023.

Málavextir: Við afgreiðslu Skipulagsstofnunar á deiliskipulagi fyrir Ólafsdal, dags. 16. júní 2022, benti stofnunin sveitarstjórn Dalabyggðar á að fyrirhuguð skógrækt á verndarsvæði væri tilkynningarskyld til ákvörðunar um mat á umhverfisáhrifum sbr. lið 1.04 í 1. viðauka laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, sbr. einnig 1. mgr. 19. gr. sömu laga. Með bréfi, dags. 6. janúar 2023, óskaði Minjavernd eftir því að Skipulagsstofnun legði mat á hvort fara þyrfti fram mat á umhverfisáhrifum vegna fyrirætlana um að koma fyrir lágvöxnum runnum á stökum stað í Ólafsdal og hugsanlega ögn þéttari utan til í dalnum. Skipulagsstofnun svaraði erindinu með tölvupósti 28. s.m. þar sem fram kom m.a. að með hliðsjón af lýsingu Minjaverndar á áformum væri ólíklegt að um skógrækt væri að ræða í skilningi laga nr. 111/2021 og að ef áformin fælu ekki í sér ræktun á skógi, sbr. skilgreiningu á skógi samkvæmt lögum nr. 33/2019, þá féllu þau ekki undir lög nr. 111/2021.

Ólafsdalsfélagið hafði samband við Skipulagsstofnun með tölvupósti 27. febrúar 2023 og kom á framfæri afstöðu félagsins til skógræktar í Ólafsdal ásamt gögnum því tengdu. Sendi félagið frekari gögn með tölvupósti 9. mars s.á. auk þess sem krafist var að áform Minjaverndar færu í ítarlegt umhverfismat. Skipulagsstofnun svaraði félaginu með tölvupósti 20. mars s.á. þar sem fram kom að erindi Minjaverndar hefði verið svarað 28. febrúar 2023. Þá kom fram að þar sem fyrir lægi ákvörðun stofnunarinnar um matsskyldu þá væri málið ekki lengur til meðferðar  auk þess sem það sem það félli ekki undir lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana.

Ólafsdalsfélagið óskaði eftir afriti af erindi Minjaverndar til Skipulagsstofnunar sem og upplýsingum um kærurétt til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála með tölvupósti 23. mars 2023. Var erindi félagsins svarað samdægurs með tölvupósti þar sem fram kom meðal annars að stofnunin hefði ekki kveðið upp neinn úrskurð í málinu heldur hafi Minjavernd verið leiðbeint um það hvort áformin féllu undir lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Þar af leiðandi væri ekki hægt að kæra afgreiðslu Skipulagsstofnunar á málinu til úrskurðarnefndarinnar eins og lög nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála væru úr garði gerð. Aftur á móti yrði hægt að kæra framkvæmdaleyfi fyrir umræddum áformum kæmi til útgáfu slíks leyfis af hálfu sveitarfélagsins og krefjast ógildingar á því.

 Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að stærð svæðisins sem Minjavernd hyggist leggja undir skógrægt sé allt að 50 ha á sjö svæðum í dalnum og því sé ljóst að um skógrækt sé að ræða, sbr. 12. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 33/2019 um skóga og skógrækt. Þá muni áformuð plöntun þýða trjávöxt umfram 2 m hæðarviðmið sama ákvæðis. Í bréfi Minjaverndar til Dalabyggðar, dags. 6. júlí 2022, hafi komið fram eindregnar ábendingar um að óráðlegt væri að heimila skógrækt í Ólafsdal. Bæði Fornleifastofnun Íslands og Landbúnaðarháskóli Íslands hafi lagst gegn skógrækt á svæðinu.

Í 19. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana sé fjallað um framkvæmdir sem kunni að vera háðar umhverfismati. Þar segir að tilkynningarskyldar framkvæmdir sem tilgreindar séu í flokki B í 1. viðauka skuli háðar umhverfismati þegar þær séu taldar líklegar til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar skv. 2. viðauka. Sama eigi við um framkvæmdir sem séu að umfangi undir viðmiðunarmörkum í flokki B í 1. viðauka ef þær séu fyrirhugaðar á verndarsvæði, sbr. iii. lið 2. tl. 2. viðauka. Þær ábendingar sem Ólafsdalsfélagið hafi sent Skipulagsstofnun hafi verið hunsaðar eða ekki farið yfir þær. Óskiljanlegt sé hvernig stofnunin hafi getað metið það svo að ekki væri ástæða fyrir umhverfismati á skógræktinni. Annars vegar í ljósi umfangsins en ekki síður vegna þeirrar merku stöðu sem Ólafsdalur hafi í minja- og menningarlegu tilliti.

 Málsrök Skipulagsstofnunar: Bent er á að hin kærða ákvörðun, sem sé tölvupóstur stofnunarinnar til Minjaverndar frá 28. febrúar 2023, hafi falið í sér afstöðu í formi leiðbeiningar um hvort áform, eins og þeim hafi verið lýst í bréfi Minjaverndar, féllu undir lög nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Bent hafi verið á hvað teldist skógrækt í skilningi laganna og framkvæmdaraðila tjáð að miðað við framlagða lýsingu væri ólíklegt að um skógrækt væri að ræða. Ekki hefði verið tekin endanleg afstaða til þess hvort áformin féllu undir lögin heldur bent á að svo lengi sem áformin fælu ekki í sér ræktun á skógi, sbr. skilgreiningu á skógi samkvæmt lögum nr. 33/2019 um skóga og skógrækt, þá féllu þau ekki undir lög nr. 111/2021.

Í lögum nr. 111/2021 sé ekki að finna kæruheimild sem taki til þeirrar afstöðu stofnunarinnar sem hafi komi fram í greindum tölvupósti. Kæruheimild 30. gr. laganna taki aðeins til ákvarðana um hvort framkvæmd skuli háð umhverfismati samkvæmt 20. gr. og ákvarðanir leyfisveitanda um veitingu leyfis til framkvæmda. Um misskilning af hálfu Ólafsdalsfélagsins sé að ræða þar sem stofnunin hafi ekki tekið slíka ákvörðun.

 Málsrök Minjaverndar: Vísað er til þess að ekki sé til staðar kæranleg ákvörðun í málinu. Í tölvupósti Skipulagsstofnunar til Minjaverndar, dags. 28. febrúar 2023, hafi ekki falist kæranleg ákvörðun heldur hafi stofnunin verið að sinna leiðbeiningarskyldu sinni skv. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í tölvupóstinum hafi ekki falist matsskylduákvörðun enda hafi ekki legið fyrir umsagnir umsagnaraðila né hafi verið gert grein fyrir niðurstöðum stofnunarinnar á vef hennar líkt og gert sé ráð fyrir þegar um matskylduákvörðun sé að ræða sbr. 20. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Þar sem ekki sé til staðar nein sú ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem borið verði undir úrskurðarnefndina beri að vísa málinu frá.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að bæði Skipulagsstofnun og Minjavernd geri tilraun til að halda því fram að ekki sé um skógrækt að ræða. Ætlunin virðist vera að varpa skugga á þá staðreynd að umhverfisáhrif af slíkri framkvæmd verði mikil og óbætanlegt tjón muni hljótast af í fyllingu tímans á einstakri minjaheild sem ríkisjörðin Ólafsdalur sé.

 Niðurstaða: Eins og greinir í málavöxtum er tilefni kæru þessa máls afstaða Skipulagsstofnunar við fyrirspurn Minjaverndar um hvort fara þyrfti fram mat á umhverfisáhrifum vegna fyrirætlana um gróðursetningu í Ólafsdal. Í svari Skipulagsstofnunar kom fram að með hliðsjón af lýsingu Minjaverndar á áformum væri ólíklegt að um skógrækt væri að ræða í skilningi laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Kæruheimild til nefndarinnar er m.a. að finna í lögum nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana.

Samkvæmt 30. gr. laga nr. 111/2021 er málskot til úrskurðarnefndarinnar einskorðað við ákvarðanir Skipulagsstofnunar um hvort framkvæmd skuli háð umhverfismati skv. 20. gr. laganna og ákvarðanir leyfisveitanda um veitingu leyfis til framkvæmda, nema sérlög kveði á um annað. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins var erindi Minjaverndar til Skipulagsstofnunar ekki beiðni um matsskylduákvörðun á grundvelli 20. gr. laga nr. 111/2021. Fyrirspurn um afstöðu stjórnvalds til erindis verður ekki lögð að jöfnu við formlega umsókn og svar stjórnvalds í slíku tilfelli getur eðli máls samkvæmt ekki talist stjórnvaldsákvörðun með þeirri réttarverkan sem slíkri ákvörðun fylgir, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Fól svar Skipulagsstofnunar til Minjaverndar því ekki í sér ákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar á grundvelli 30. gr. laga nr. 111/2021.

Með vísan til þess sem að framan greinir er verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

65/2023 Strandsvæðisskipulag Vestfjarða

Með

Árið 2023, fimmtudaginn 25. maí, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 65/2023, kæra á ákvörðun svæðisráðs strandsvæðisskipulags Vestfjarða um að samþykkja tillögu að strandsvæðisskipulagi Vestfjarða.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. maí 2023, er barst nefndinni 22. s.m., kæra íbúi í Ísafjarðarbæ, A og B, handhafar rækjuveiðiheimilda í Arnarfirði, þá ákvörðun svæðisráðs strandsvæðisskipulags Vestfjarða að gera ráð fyrir mannvirkjabelti fyrir sæstreng yfir Arnarfjörð í nýju strandsvæðisskipulagi. Jafnframt er kærð staðfesting innviðaráðherra á strandsvæðisskipulaginu. Er þess krafist að fyrirhugað mannvirkjabelti fyrir sæstreng yfir Arnarfjörð verði fjarlægt úr greinargerð og uppdrætti skipulagsins.

Málsatvik og rök: Í samræmi við ákvæði laga nr. 88/2018 um skipulag haf- og strandsvæða var tillaga að strandsvæðisskipulagi Vestfjarða auglýst til opinberrar kynningar og var kynningartími tillögunnar frá 15. júní 2022 til 15. september s.á. Hinn 7. desember s.á. samþykkti svæðisráð um strandsvæðisskipulag Vestfjarða tillöguna og staðfesti innviðaráðherra hana 2. mars 2023. Í strandsvæðisskipulaginu er gert ráð fyrir nýtingarflokknum Lagnir og vegir á skipulagsreitnum LV6 sem liggur yfir Arnarfjörð. Í greinargerð skipulagsins kemur fram að Landsnet áætli að leggja nýjan raforkustreng og muni hann taka land við Hrafnseyri. Strandsvæðisskipulagið öðlaðist gildi við birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 7. mars 2023.

Kærendur telja augljóst að áform Landsnets byggi á röngum forsendum og ófullnægjandi gögnum. Umhverfisskýrsla um framkvæmdina sé verulega gölluð þar sem hún taki ekki á veigamiklum atriðum varðandi áhrif hennar á rækjumið. Svæðisráð um strandsvæðisskipulag Vestfjarða ásamt skipulagsyfirvöldum aðliggjandi sveitarfélaga virðast ranglega telja að staðsetningar sæstrengja, sem nefndar séu í kerfisáætlun Landsnets, séu lögbundnar og óumbreytanlegar. Samráð af hálfu svæðisráðs hafi ekki verið í samræmi við eðlilegar kröfur. Skerðing á besta veiðisvæði rækju um 18% sé án gildra raka, verulega íþyngjandi fyrir þá sem stundi rækjuveiðar og kunni að vega að sjálfbærni veiðanna og gangi að því leyti gegn heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um líf í vatni.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði.

Um strandsvæðisskipulag er fjallað í lögum nr. 88/2018 um skipulag haf- og strandsvæða. Er þar gerð grein fyrir því hlutverki svæðisráðs að vinna tillögu að strandsvæðisskipulagi fyrir viðkomandi svæði, sbr. 5. gr. laganna. Þegar svæðisráð hefur samþykkt tillögu að strandsvæðisskipulagi skal senda tillöguna til ráðherra skv. 3. mgr. 13. gr. og ber honum skv. 4. mgr. sömu greinar staðfesta tillöguna, staðfesta frestun hennar að hluta eða hafna staðfestingu hennar. Við þá yfirferð á hann að meta hvort á tillögunni séu form- eða efnisgallar en í lögunum er ekki kveðið á um kæruheimild vegna ákvarðana tekna á grundvelli laganna.

Ákvörðun ráðherra um staðfestingu tillögu að strandsvæðisskipulagi Vestfjarða er lokaákvörðun æðra setts stjórnvalds og verður hún einungis borin undir dómstóla en ekki skotið til hliðsetts stjórnvalds. Brestur úrskurðarnefndinni því vald til að skera úr um lögmæti ákvörðunar svæðisráðs sem staðfest hefur verið af  ráðherra. Verður málinu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

151/2022 Naustavör

Með

Árið 2023, fimmtudaginn 25. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 151/2022, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 6. september 2022 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir lokun svala íbúðar 0302 að Naustavör 2.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. desember 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir húsfélagið Naustavör 4–12, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 6. september 2022 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir lokun svala íbúðar 0302 að Naustavör 2. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 27. febrúar 2023.

Málavextir: Forsaga málsins er sú að byggingarfulltrúi Kópavogsbæjar samþykkti umsókn lóðarhafa um byggingarleyfi fyrir Naustavör 2–18 hinn 27. nóvember 2012. Síðar var númerum húsanna breytt í Naustavör 2–12. Í húsinu eru rekin tvö húsfélög, annars vegar húsfélagið Naustavör 4–12, sem er kærandi í máli þessu, og hins vegar húsfélagið Naustavör 2. Fram-kvæmdir við byggingu hússins nr. 2 við Naustavör hófust fyrst og var fokheldisvottorð fyrir húsið gefið út 26. febrúar 2015. Framkvæmdir við byggingu hússins nr. 4–12 hófust síðar og var fokheldisvottorð fyrir þá byggingu gefið út 10. desember s.á. Þegar framkvæmdir við byggingu nr. 2 við Naustavör hófust var í gildi deiliskipulag bryggjuhverfis við Kársnes sem samþykkt hafði verið í bæjarstjórn 22. mars 2005. Á þeim tíma var ekki búið að hanna göturými Vesturvarar og gatnamót Vesturvarar, Naustavarar og Litluvarar.

Á fundi skipulagsráðs Kópavogsbæjar 3. desember 2018 var samþykkt að kynna tillögu að nýju deiliskipulagi fyrir framangreind göturými. Umhverfisþættir sem skipulagsbreytingin var helst talin hafa áhrif á voru umferð, hljóðvist og andrúmsloft. Var tillagan auglýst til kynningar 17. desember s.á. og barst ein athugasemd frá eiganda íbúðar 0302 að Naustavör 2. Var hún á þann veg að með því að fjarlæga hluta af hljóðvarnarvegg sem væri til staðar kæmi breytingin til með að rýra hljóðvörn sem þegar væri fyrir íbúðina og einnig fyrir íbúð merkta 0202, sem væri á hæðinni fyrir neðan.

Á fundi skipulagsráðs 4. febrúar 2019 var tillagan tekin fyrir að nýju ásamt umsögn skipulags- og byggingardeildar Kópavogsbæjar, dags. 1. febrúar 2019. Í umsögninni er tekið undir athugasemdir eiganda íbúðar 0302 að Naustavör 2 um að breytingin fæli í sér neikvæð áhrif á hljóðvist á suðvesturhorni Naustavarar 2. Benti skipulags- og byggingardeild á að koma yrði til móts við framangreind sjónarmið með hljóðvörnum sem yrðu útfærðar í samráði við eigendur og íbúa Naustavarar 2. Var vísað til þess að framangreint kæmi fram á skipulags-uppdrætti og í greinargerð með deiliskipulagstillögunni. Afgreiðsla skipulagsráðs var staðfest á fundi bæjarstjórnar 12. febrúar s.á. Breyting á deiliskipulagi göturýmis Vesturvarar, Litlu-varar og Naustavarar, Kársnes vesturhluti, tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 16. apríl 2019.

Hinn 6. september 2022 samþykkti byggingarfulltrúi Kópavogs umsókn Kópavogsbæjar um leyfi til að setja lokun á svalir framangreindrar íbúðar 0302 að Naustavör 2.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að húsið að Naustavör 2–14 teljist eitt og sama húsið í skilningi 1. og 3. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Samkvæmt 6. og 8. gr. laganna sé allt ytra byrði hússins sameign allra eigenda í húsinu. Skipti þar engu um hvort mismunandi hús-félög séu til staðar fyrir mismunandi stigaganga. Á grundvelli 1. og 2. mgr. 30. gr. laganna verði að liggja fyrir samþykki sameigenda í húsinu fyrir framkvæmdum og breytingum á ytra byrði og útliti hússins. Að sama skapi geti stjórnvöld ekki heimilað framkvæmdir eða breytingar á sameign án lögbundins leyfis sameigenda. Þá sé ljóst að 1. mgr. 30. gr. laga um fjöleignarhús geri þá kröfu að allir sameigendur í öllu húsinu þurfi að samþykkja slíkar breytingar á húsfundi ef um verulegar breytingar sé að ræða á sameign og útliti hússins. Séu slíkar breytingar ekki verulegar séu engu að síður kröfur um fundarsókn sbr. 2. mgr. 42. gr. framangreindra laga. Hafi þessi skilyrði laganna ekki verið uppfyllt þar sem húsfélagið Naustavör 4–12 hafi ekki gefið lög- og skyldubundið samþykki til umþrættrar svalalokunar og framkvæmda henni tengdri.

Í 1. mgr. 29. gr. laga um fjöleignarhús segi svo: „Rúmist bygging innan samþykktrar teikningar og sé byggingarrétturinn í eigu ákveðins eiganda, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 28. gr., getur hann ráðist í framkvæmdir að fengnum nauðsynlegum byggingarleyfum, enda taki hann sanngjarnt tillit til annarra eigenda við framkvæmdirnar og kosti kapps um að halda röskun og óþægindum í lágmarki.“ Ljóst sé að umþrætt svalalokun sé ekki á teikningum og hafi aldrei staðið til að breyta teikningum hússins. Einnig verði að líta til skyldu Kópavogsbæjar um að tryggja að samþykki sameigenda liggi fyrir þegar leyfi fyrir slíkum framkvæmdum sé veitt sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Það samþykki sem Kópavogsbær leggi fram í samskiptum sínum við kæranda vegna um-þrættrar framkvæmdar snúi einungis að samþykki sameigenda á stigaganginum að Naustavör 2 sem taki til minna en 20% samþykkis allra sameigenda í húsinu. Með vísan til framangreindra skilyrða laga um samþykki sameigenda sé því ljóst að um ólögmæta framkvæmd hafi verið að ræða. Auk þess hafi framkvæmdaraðili verið í „vondri trú“ um réttmæti leyfisveitingar húsfélagsins vegna framkvæmdanna. Af þeim sökum hafi Kópavogsbæ ekki átt að verið kleift að heimila framkvæmdina þar sem grundvallar formskilyrði leyfisveitingarinnar voru ekki til staðar. Þetta hafi starfsmönnum Kópavogsbæjar einnig átt að vera kunnugt um vegna fyrri samskipta.

Málsrök Kópavogsbæjar: Vísað er til greinargerðar VSÓ Ráðgjafar, dags. í desember 2016, sem unnin var fyrir Kópavogsbæ í tengslum við fyrirhugaða uppbyggingu á Kársnesi. Samkvæmt niðurstöðum greinargerðarinnar hafi hljóðvistarútreikningar sýnt að aukning á umferð hækki hljóðstig miðað við óbreyttar ferðavenjur.

Í kjölfar gildistöku breytinga á deiliskipulagi göturýmis Vesturvarar, Litluvarar og Naustavarar (Kársnes vesturhluti) hafi verið unnið að því að bæta hljóðvist í samvinnu við eigendur íbúða 0202 og 0302 á suðvesturhorni Naustavarar 2. Eftir skoðun og mat á mismunandi kostum hafi niðurstaðan verið að setja upp hljóðvarnargirðingu við svalir íbúðar á 2. hæð og svalalokun á íbúð 0302 að Naustavör 2. Þessa einu svalalokun hafi hönnuður hússins samþykkt sem einungis hafi verið ætluð fyrir umrædda íbúð.

Deiliskipulag bryggjuhverfis við Kársnes hafi verið unnið af Birni Ólafssyni arkitekt sem einnig hafi hannað Naustavör 2–12. Í greinargerð með deiliskipulaginu sé fjallað um hljóð-varnir, sbr. grein 1.3.7. Komi þar fram að gert sé ráð fyrir hljóðvörnum vegna bílaumferðar eftir því sem reglur segi til um. Að jafnaði sé reglum fylgt eftir með fjarlægð milli vega og bygginga og með skjólveggjum. Einnig sé gert ráð fyrir að reglum um hljóðvarnir sé svarað með sérstökum ráðstöfunum í útfærslu bygginga í samræmi við gildandi reglur. Þá komi einnig fram að hávaðamælingar hafi verið gerðar af Almennu verkfræðistofunni hf. og brugðist hafi verið við umsögn hennar frá 26. maí 2005 með eftirfarandi hætti: „Engin mikilvæg umferðaræð liggur nálægt svæðinu og hljóðverndun er ekki nauðsynleg nema í húsum sem næst eru Vestur-vör og eystri innkeyrslu. Fyrrgreindar ráðstafanir eru því eingöngu nauðsynlegar þar. Gert er ráð fyrir um 2 m háum skjólvegg meðfram þessum hluta Vesturvarar og sérútfærslu næstu bygginga þar þurfi, þ.e. á efri hæðum nokkurra húsa.“ Byggingarleyfið fyrir svalalokun á íbúð merktri 0302 í Naustvör 2 eigi því stoð í gildandi deiliskipulagi sbr. grein 1.3.7.

Samkvæmt skipulagsskilmálum fyrir svæðið, þ.m.t. Naustavör 2–12, skuli varast að líta á byggingu, þar sem séu tvö eða fleiri stigahús, sem eina heild eða eitt „verk“, heldur skuli líta á hvert stigahús sem augljósa einingu. Í þeim tilgangi megi nota einfaldar aðferðir eins og liti, mismunandi innganga og frágang útveggja á sökkli og jarðhæð. Einnig skuli forðast að hanna láréttar línur, reglulegar endurtekningar sömu gluggagerða eða önnur einkenni blokka, sbr. grein 2.6.

Svalalokunin hafi verið hönnuð fyrir Kópavogsbæ af Sigurði Á. Grétarssyni, verkfræðingi. Tilgangurinn hafi verið að bæta hljóðvist í íbúð 0302 að Naustavör 2 í samræmi við skilmála gildandi deiliskipulags göturýmis Vesturvarar, Litluvarar og Naustavarar. Hafi umrædd teikning fylgt umsókn umhverfis- og skipulagssviðs um leyfi fyrir svalalokuninni og samþykki allra eigenda íbúða í Naustavör 2. Við mat á umsókn um byggingarleyfi hafi byggingarfulltrúi sérstaklega litið til þess að hávaði í íbúð 0302 af völdum umferðar við hringtorgið, sem staðsett sé einungis nokkrum metrum frá íbúðinni, væri mun meiri en eigendur íbúðarinnar hafi með réttu geta búist við. Hafi byggingarfulltrúi talið umrædda svalalokun vera eina kostinn til að tryggja viðunandi hljóðvist í íbúðinni.

Samkvæmt áðurnefndri greinargerð VSÓ Ráðgjafar megi ætla að hávaði í íbúðinni af völdum ökutækja við hringtorgið á gatnamótum Vesturvarar og Naustavarar sé um og yfir 65 dB(A). Sé slíkur hávaði heilsuspillandi og langt umfram það sem eðlilegt geti talist. Eins og fram komi í greinargerðinni sé stöðugur hávaði heilsuspillandi. Í reglugerð um hávaða nr. 724/2008 sé lagt til að þar sem dvalarsvæði á lóð sé skilgreint skuli þess gætt að hljóðstig sé undir 55 dB(A). Að baki ákvörðuninni hafi því legið brýnir heilbrigðishagsmunir eigenda íbúðar 0302 sem kröfðust þess að gripið yrði til úrræða gagnvart hávaða frá umferð við gatnamót Vesturvarar og Naustavarar.

Þá hafi byggingarfulltrúi einnig litið til þess að húsið Naustvör 2–12 sé um margt óvenjulegt með tilliti til útlits og hönnunar. Form hússins sé óreglulegt og fjölbreytt í mörgum litum, stærð og útlit á svölum sé með um 40–50 mismunandi útfærslum. Þá séu sumar svalir með þaki en aðrar ekki. Samkvæmt þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu séu tveir matshlutar í húsinu, annars vegar matshluti 01, sem sé Naustavör 2 með 12 íbúðum, og hins vegar matshluti 02 sem sé Naustavör 4–12 með 50 íbúðum. Þá sé einn stigagangur fyrir Naustavör 2, en í Naustavör 4–12 séu þeir fimm talsins. Enn fremur sé húsið frábrugðið öðrum hefðbundnum fjöleignarhúsum að því leyti að Naustavör 10–12 standi eitt og sé ekki sambyggt Naustavör 2–8. Í Naustavör 2 sé sjálfstætt húsfélag sem fari með málefni hússins og annað sjálfstætt húsfélag í Naustavör 4–12 sem fari með málefni þess.

Enn fremur hafi byggingarfulltrúi litið til þess að umrædd svalalokun teldist smávægileg breyting á útliti hússins og því væri samþykki allra íbúa hússins að Naustavör 2 fullnægjandi. Íbúum í Naustavör 2–12 hefði mátt vera ljóst að gera þyrfti sérstakar ráðstafanir varðandi hljóðvarnir á suðvesturhorni hússins að Naustavör 2 til að tryggja ásættanlega hljóðvist í íbúðum á 2. og 3. hæð sbr. áðurnefnt deiliskipulag göturýmis Vesturvarar og deiliskipulags bryggjuhverfis við Kársnes sem gilda um Naustavör 2–12. Hafi allur undirbúningur og máls-meðferð umræddra deiliskipulagsákvarðana verið í samræmi við skipulagslög nr. 123/2010, óskráðar meginreglur stjórnsýsluréttar og meginreglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Verði að meta heildstætt málsmeðferð byggingarfulltrúa vegna hinnar kærðu ákvörðunar með hliðsjón af tilgangi og markmiðum laga um mannvirki nr. 160/2010 og byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Í því ljósi verði ekki fram hjá því litið að eigendur íbúðar 0302 í húsinu Naustavör 2 hafi búið við heilsuspillandi hávaða frá bílaumferð við nýtt hringtorg á gatnamótum Vestur-varar og Naustavarar. Hafi það verið mat hönnuðar hússins og byggingarfulltrúa að önnur lausn en svalalokun kæmi ekki til greina með hliðsjón af því markmiði að lausnin hefði uppfyllt markmið um einfaldleika og lágmarks útlitsbreytingu hússins. Ákvörðun byggingarfulltrúa frá 6. september 2022 hafi samrýmst lögum nr. 160/2010 um mannvirki, sbr. III. kafla laganna og kafla 4.2. og 4.3. í byggingarreglugerð nr. 112/2010.

Að lokum sé athygli vakin á að hin kærða ákvörðun hafi verið tekin á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 6. september 2022. Kæra í málinu hafi borist úrskurðarnefndinni 29. desember s.á. og hafi þá verið tæpir fjórir mánuðir liðnir frá upphafi kærufrests. Hafi kærufrestur því verið löngu liðinn og vísa beri kröfunni frá sbr. 27. gr. og 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá sé skv. 2. mgr. 28. gr. sömu laga óheimilt að sinna kæru sé meira en ár liðið frá töku ákvörðunar.

Málsrök framkvæmdaraðila: Eigandi íbúðar 0302 í húsinu Naustavör 2 vísar til athugasemda sinna sem gerðar voru við kynningu deiliskipulagstillöguna þess efnis að rýra ætti hljóðvörn sem þegar hafi verið fyrir íbúðina og íbúð 0202 á hæðinni fyrir neðan. Deiliskipulagsbreytingin hafi verið samþykkt með fyrirvara um að bæta ætti hljóðvörn umræddra íbúða. Settur hafi verið upp timburveggur til að bæta hljóðvörn neðri íbúðarinnar en sú ráðstöfun hafi ekki dugað fyrir þá efri. Eftir ýmsar vangaveltur hafi eina raunhæfa leiðin reynst vera að setja svalalokun til að bæta hljóðvörn íbúðar 0302.

Vísað er til áður framkominna sjónarmiða Kópavogsbæjar um heilsuspillandi hávaða og greinargerðar deiliskipulags bryggjuhverfis við Kársnes. Einnig vísar framkvæmdaraðili til tölvupósts, dags. 22. september 2020, þar sem fram komi álit arkitekts hússins um umrædda svalalokun. Komi þar fram að hún „sé gott svar við þessu viðkvæma vandamáli“ og hans álit sé jafnframt að svalalokunin sé „ekki fordæmi fyrir aðrar íbúðir í húsinu sem eiga ekki við sama vandamál að stríða.“

Viðbótarathugasemdir kæranda: Ítrekað er að íbúar Naustavarar 4–12 hafi fyrst orðið þess áskynja að Kópavogsbær hefði veitt tiltekið byggingarleyfi þegar framkvæmdir á svalalokun voru hafnar, þ.e. 1. desember 2022. Hefði Kópavogsbæ verið nær að tilkynna húsfélaginu um að til stæði að taka slíka ákvörðun og veita íbúðareigendum andmælarétt áður en farið væri í framkvæmdirnar að frumkvæði og á kostnað Kópavogsbæjar. Virðist sem engin raunveruleg hljóðmæling hafi átt sér stað og eingöngu hafi verið stuðst við einhverskonar áætlun eða mat sem byggðist á öðrum forsendum en núverandi gatnaskipulag gefi í raun. Megi því ætla að allar forsendur hinnar kærðu ákvörðunar sem varði hljóð séu reistar á órannsökuðum grundvelli. Að auki sé mörgum spurningum ósvarað eins og þeirri hver beri ábyrgð á viðhaldi og endurnýjun þessarar svalalokunar, en það virðist vera húsfélagið þar sem slíkur búnaður fellur undir ytra byrði alls hússins.

Niðurstaða: Í máli þessu er farið fram á að því verði vísað frá þar sem kæra hafi borist að liðnum kærufresti. Fram kemur í kæru að eigendum íbúða í húsinu Naustavör 4–12 hafi fyrst verið kunnugt um framkvæmdir við umdeilda svalalokun 1. desember 2022 og komist þá að því að byggingarfulltrúi Kópavogsbæjar hefði samþykkt byggingarleyfi til breytinga á fasteigninni 6. september s.á. Ekki liggja fyrir gögn eða upplýsingar sem benda til að kæranda hafi verið kunnugt eða mátt vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun fyrir þann tíma og verður því við það miðað að kæra í máli þessu, sem barst úrskurðarnefndinni 29. desember 2022, hafi borist innan kærufrests. Verður málið því tekið til efnismeðferðar.

Hið kærða byggingarleyfi fyrir svalalokun íbúðar 0302 að Naustavör 2 er tilkomið vegna fyrirsjáanlegs hávaða frá umferð um hringtorg á gatnamótum Vesturvarar og Naustavarar. Við slíkar aðstæður bar Kópavogsbæ að bregðast við og tryggja að íbúðareigendur nefndrar íbúðar búi við hljóðvist sem uppfylli skilyrði laga um mannvirki nr. 160/2010, byggingarreglugerðar nr. 112/2012 og reglugerðar um hávaða nr. 724/2008. Ekki liggja fyrir í málinu hljóðmælingar er feli í sér upplýsingar um hljóðvist á greindum svölum fyrir svalalokun.

Fjöleignarhúsið Naustavör 2–12 er eitt fjölbýlishús í skilningi 1. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Samkvæmt 8. tl. 5. gr. laganna er innra byrði svalaveggja og gólfflötur svala sér-eign, en húsfélag hefur ákvörðunarvald um allar breytingar, búnað og annað á svölum sem áhrif hefur á útlit hússins og heildarmynd. Í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 160/2010 er kveðið á um hvað skuli fylgja með umsókn um byggingarleyfi. Þar segir að í fjöleignarhúsum þurfi að liggja fyrir samþykki meðeigenda samkvæmt ákvæðum laga um nr. 26/1994 eftir því sem við eigi.

Umdeild svalalokun felur ekki einungis í sér framkvæmdir við umbúnað innan séreignar, sbr. 27. gr. laga nr. 26/1994. Breytingin er fyrst og fremst á ytra útliti húss þar sem ekki hefur verið gert ráð fyrir svalalokunum á endanlega samþykktri teikningu hússins að Naustavör 2–12. Umþrætt svalalokun getur þó ekki talist veruleg í skilningi 30. gr. nefndra laga. Um er að ræða einfalda smíð sem auðvelt er að fjarlægja, en ekki er gert ráð fyrir breytingum á útveggjum hússins. Fyrir liggur að kostnaður við uppsetninguna var greiddur af Kópavogsbæ og áhrif á notkun sameignar og viðhaldskostnaður sameigenda mun ekki fylgja framkvæmdinni. Bar Kópavogsbæ samkvæmt framansögðu að leita samþykkis húsfélagsins Naustavarar 2–12 fyrir umdeildri svalalokun og byggingarfulltrúa að gæta að því að slíkt samþykki lægi fyrir áður en umrætt byggingarleyfi var veitt.

Með vísan til þess sem að framan greinir eru þeir ágallar á málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar að fallast ber á kröfu um ógildingu hennar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogs frá 6. september 2022 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir lokun svala íbúðar 0302 að Naustavör 2.

42/2023 Skor

Með

Árið 2023, mánudaginn 22. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Kristín Benediktsdóttir dósent.

 Fyrir var tekið mál nr. 42/2023, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 31.  mars 2023, um að gefa út tímabundið starfsleyfi til þriggja mánaða fyrir veitingastaðinn Skor, Geirsgötu 24.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. apríl 2023, er barst nefndinni dags. 4. s.m, kærir stjórn húsfélags Geirsgötu 2–4 og eigendur og íbúar 16 íbúða í fasteigninni að Kolagötu 1, áður Geirsgötu 2, og 19 íbúða í fasteigninni að Kolagötu 3, áður Geirsgötu 4, í Reykjavík, þá ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 31. mars 2023 að veita Rollsinum ehf. tímabundið starfsleyfi til þriggja mánaða. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur 10. maí 2023.

Málavextir: Hinn 29. mars sl. kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð í máli nr. 102/2022. Fellt var úr gildi starfsleyfi til að reka veitingastað í flokki II til 12 ára að Geirsgötu 2–4, sem gefið var út af Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur 5. ágúst 2022, með vísan til þess að undirbúningi og rannsókn hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið hagað með þeim hætti að ekki hafi verið uppfyllt skilyrði, 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Hinn 30. mars sl. lagði rekstraraðili Skor fram nýja umsókn til heilbrigðiseftirlitsins um starfsleyfi fyrir reksturinn. Óskað var eftir að gefið yrði út nýtt tímabundið starfsleyfi til áframhaldandi óbreytts reksturs veitingastaðar í flokki II skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Var óskað eftir því af hálfu rekstraraðila að málið fengi flýtimeðferð hjá heilbrigðiseftirlitinu.

Umbeðin flýtimeðferð var samþykkt af hálfu heilbrigðiseftirlitsins og var málið tekið fyrir á sérstökum aukafundi 31. mars s.m. Á fundinum var rekstraraðila Skor veitt tímabundið starfsleyfi til óbreytts reksturs veitingastaðarins sbr. skilgreiningu framangreindra laga á veitingastað í flokki II. Gildir leyfið frá 31. mars 2023 til og með 30. júní nk.

 Málsrök kærenda: Kærendur telja að Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur hafi verið með öllu óheimilt að veita hið tímabundna starfsleyfi til reksturs Skor, í fasteigninni að Geirsgötu 2–4 og verði ákvörðunin að teljast ógildanleg eða markleysa.

 Fyrir liggi tveir úrskurðir úrskurðarnefndarinnar vegna deilna um lögmæti útgáfu heilbrigðiseftirlitsins á starfsleyfum til Skorar. Annars vegar úrskurður nr. 77/2022 vegna tímabundins starfsleyfis og hins vegar nýr úrskurður nr. 102/2022, þar sem starfsleyfi til 12 ára hafi verið fellt úr gildi. Af síðastnefndum úrskurði virtum, leiði það af sér, eðli málsins samkvæmt, að ætli heilbrigðiseftirlitið sér að taka nýja ákvörðun í málinu um veitingu nýs starfsleyfis, beri stofnuninni að byrja málið frá grunni. Sé þar átt við að hefja beri nýtt formlegt umsóknarferli, veita öllum hagsmunaaðilum andmælarétt, fylgja ákvæðum stjórnsýslulaga og fyrirmælum úrskurðarins, áður en ný ákvörðun verði tekin þannig að hún verði samræmd ákvæðum gildandi laga um töku stjórnvaldsákvörðunar. Við þá málsmeðferð bæri heilbrigðiseftirlitinu að leggja sjálfstætt mat á, og rökstyðja sérstaklega hvert sé eðli starfsemi Skorar með tilliti til þess í hvaða flokk hún falli sé henni haldið óbreyttri sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 85/2007. Sé það gert ætti ekki að liggja fyrir nokkur vafi um að veitingastaður sem auglýsi starfsemi sína á þann hátt að hann geti með nýtingu karaoke-kerfis kallað fram hávaða sem mælist allt að 123 dB(A), falli ekki undir framangreinda skilgreiningu veitingastaðar í flokki II. Þá sé ekki séð að nokkur þau sjónarmið hafi verið uppi sem réttlættu þá flýtimeðferð sem málið hafi fengið.

Í samræmi við gildandi lög og réttarframkvæmd séu úrskurðir nefndarinnar, sem æðra setts stjórnvalds, bindandi fyrir aðila máls og það stjórnvald sem tók hina kærðu ákvörðun. Hið lægra setta stjórnvald geti því ekki lagt mál sem svona hátti um í nýjan farveg, þvert á niðurstöðu æðra setta stjórnvaldsins, án þess að uppfylla til þess nein skilyrði. Þá hafi kærendur hinn 31. mars sl., sama dag og ákvörðunin var tekin, óskað eftir því að heilbrigðiseftirlitið afhenti fundargerð, umsóknina og öll gögn sem málið varðaði. Við þeirri beiðni hafi heilbrigðiseftirlitið ekki orðið.

Undirbúningur og rannsókn málsins af hálfu heilbrigðiseftirlitsins, er varðaði veitingu starfsleyfis til 12 ára fyrir Skor, hafi ekki uppfyllt kröfur gildandi laga. Af þeirri ástæðu hafi ákvörðunin verið felld úr gildi með úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 102/2022. Af þeim sökum telji kærendur að ný ákvörðun verði ekki tekin í sama máli, á grunni þeirra upplýsinga sem heilbrigðiseftirlitið byggði á, sem síðar voru úrskurðaðar andstæðar lögum.

Fyrir liggi að engin viðhlítandi rannsókn hafi farið fram áður en ákvörðun um veitingu hins tímabundna starfsleyfis var tekin sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hefði það þó verið nauðsynlegt ef heilbrigðiseftirlitið hefði ætlað að lagfæra þau atriði sem misfórust í upphaflegri rannsókn og taka nýja ákvörðun sem byggði á gildandi lagareglum og lögmætum sjónarmiðum. Þá hafi kærendur í engu verið upplýstir um þá atburðarrás sem hófst strax eftir birtingu úrskurðar í máli nr. 102/2022 og hafi heilbrigðiseftirlitið þar með ekki gætt neins jafnræðis milli aðila sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga. Að auki hafi kærendum ekki verið gefinn kostur á að koma að andmælum við ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins um útgáfu hins tímabundna starfsleyfis sbr. 13. gr. nefndra laga. Ljóst sé að stjórnvaldi er skylt að kalla eftir andmælum aðila þegar  ágreiningur er til staðar milli þeirra um efni máls, réttindi og skyldur. Því sé óhlutdrægni heilbrigðiseftirlitsins í málinu dregin í efa sbr. 6. tl. 3. gr. stjórnsýslulaga.

Með ákvörðun sinni hafi heilbrigðiseftirlitið gert að engu þau réttindi borgaranna að fá skotið ákvörðunum lægra setts stjórnvalds til endurskoðunar hjá æðra settu stjórnvaldi. Í því felist freklegt brot gegn grundvallarréttindum borgaranna.                                                                                                         

 Málsrök Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur: Áréttað er að hlutverk heilbrigðiseftirlits sé að gefa út starfsleyfi skv. lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, með síðari breytingum, og lögum nr. 93/1995 um matvæli, með síðari breytingum, ásamt því að fara með eftirlit með þeirri löggjöf. Almennar miðborgarheimildir gildi á lóðinni sem um ræðir og þar séu heimilar allar tegundir veitingastaða í flokki I-III, að skemmtistöðum undanskildum, og megi opnunartíminn vera lengst til kl. 03:00 um helgar. Þá séu útiveitingar heimilar til kl. 23:00

Mat heilbrigðiseftirlitsins sé að starfsemi rekstraraðilans falli undir skilgreininguna á krá, skv. reglugerð nr. 1277/2016, enda fari lágmarksmatargerð þar fram, takmörkuð þjónusta í boði og aðaláhersla lögð á áfengisveitingar. Sé því ekki um skemmtistað að ræða líkt og kærendur haldi fram enda ekki boðið upp á fjölbreyttar veitingar á staðnum né er lögð áhersla á dans gesta, tónlist og langan afgreiðslutíma. Heilbrigðiseftirlitið sé umsagnaraðili hvað þessa löggjöf varði, en ein af forsendum þess að heilbrigðiseftirlit geti gefið jákvæða umsögn til sýslumanns um rekstrarleyfi sé að staðurinn hafi einnig starfsleyfi. Embætti sýslumannsins á höfuðborgar-svæðinu fari með útgáfu og eftirlit með rekstrarleyfum og taki stjórnvaldsákvarðanir með bindandi hætti um rétt og skyldur rekstraraðila á grundvelli laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald.

Úrskurðarnefndin veiti ákveðnar leiðbeiningar í úrskurði nr. 102/2022, um hvað myndi teljast fullnægjandi rannsókn, skv. 10. gr. stjórnsýslulaga, með vísan til þeirra eftirlitsheimilda sem heilbrigðisnefndir hafi til framkvæmda á mælingum á hávaða, sbr. 2. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 724/2008. Vísi nefndin til þess að rauntímamælingar inni í íbúðum sem næstar eru starfseminni myndu varpa skýrara ljósi á það hvort hávaði frá starfseminni teldist innan viðmiðunarmarka reglugerðar nr. 724/2008. Að mati heilbrigðiseftirlitsins sé erfitt að sjá hvernig hægt sé að framkvæma slíkar rauntímamælingar án þess að staðurinn sé í rekstri. Stöðvun rekstursins myndi óhjákvæmilega verða til þess að ekki væri hægt að afla rauntímahljóðmælingagagna sem sýndu raunverulegan hávaða sem berst frá staðnum í nærliggjandi íbúðir og þar með ganga þvert á þá rannsóknarhagsmuni sem bæði íbúar og rekstraraðili hafa af hljóðmælingum.

Vert sé að geta þess að leyfi hafi fengist til rauntímahljóðmælinga hjá eiganda íbúðar 201 sem hafi samþykkt að veita heilbrigðiseftirlitinu aðgang að íbúðinni um óákveðinn tíma. Íbúar hafi bæði verið tregir til að heimila hljóðmælingar heilbrigðiseftirlits sem og að óska eftir slíkum mælingum og hafi það háð rannsókn málsins, enda ekki heimilt að fara inn í íbúðarhús án samþykkis eigenda eða umráðamanns húsnæðis nema að fengnum úrskurði dómara, sbr. 3. mgr. 37. gr. laga nr. 160/2010. Slíkar aðgerðir væru á þessu stigi málsins í andstöðu við 12. gr. stjórnsýslulaga um meðalhóf. Þegar horft sé til framangreinds, að teknu tilliti til 10. gr., 11. gr. og 12. gr. stjórnsýslulaga, sem og skyldu stjórnvalda til að afgreiða mál svo fljótt sem unnt er, hafi heilbrigðiseftirlitið fallist á að veita umsókn Skor flýtimeðferð í málinu. Slíkar afgreiðslur á aukaafgreiðslufundum eigi sér margar hliðstæður hjá stofnuninni.

Heilbrigðiseftirlitið hafi ítrekað verið í sambandi við deiluaðila síðan málið hófst í janúar 2022, bæði rekstraraðila sem og íbúa. Hafi m.a. verið fundað með íbúum þar sem raktar voru málsástæður, sjónarmiðum komið á framfæri og farið yfir mikilvægi þess að geta staðfest kvartanir m.a. með hljóðmælingum, sem og afleiðingar þess að hljóðmæling geti ekki farið fram. Samskipti hafi verið virk, bæði í gegnum kvartanir sem og sjálfstæðar rannsóknir heilbrigðiseftirlitsins á málinu. Frá því starfsleyfi fyrir Skor var gefið út þann 5. ágúst 2022 hafi 35 kvartanir borist frá íbúum og hafi heilbrigðiseftirlitið verið í sambandi við íbúa og rekstraraðila vegna þeirra. Þá hafi heilbrigðiseftirlitið ítrekað lýst því yfir að alltaf væri hægt að óska eftir heimsóknum þeirra til hljóðmælinga og mati á ónæði í íbúðum. Farið hafi verið í eftirlit í íbúð 205 í nóvember sl. og íbúð 301 í mars sl. eftir ítrekaðar kvartanir um ónæði í íbúðinni af völdum karíókí. Í heimsókninni hafi ekki verið unnt að staðfesta ónæði í íbúðinni né frá staðnum. Fullyrðingar um að engin rannsókn hafi farið fram áður en ákvörðun um veitingu tímabundins starfsleyfis hafi verið tekin eigi ekki við rök að styðjast. Málið hafi verið í virkri rannsókn hjá heilbrigðiseftirlitinu allan tímann og sé enn í virkri rannsókn, bæði á hljóðvist og lyktarmengun. Eftir að umþrætt starfsleyfi var gefið út hafi rauntímahljóðmælingar staðið yfir í þrjár vikur í íbúð 201 frá 5.-21. apríl sl., en niðurstöður þeirra mælinga séu í vinnslu. Einnig hafi verið farið í eftirlitsferðir vegna hljóðmælinga og lyktarkvartana eftir útgáfu umþrætts starfsleyfis.

Að lokum er því harðlega andmælt að stofnunin dragi taum rekstraraðila. Stofnunin einseti sér að vinna mál ávallt af fagmennsku og með vandaða og góða stjórnsýsluhætti að leiðarljósi.

Málsrök leyfishafa: Leyfishafi færir fram athugasemdir við aðild kærumálsins, en húsfélag geti ekki staðið að kærunni, þar sem ekki liggi fyrir umboð frá því til lögmannsins sem borið hafi málið undir úrskurðarnefndina.

Leyfishafi bendir á að almennar miðborgarheimildir gildi á lóðinni sem um ræði, sem heimili allar tegundir veitingastaða, að skemmtistöðum undanskildum. Starfsleyfi sé gefið út uppfylli viðkomandi starfsemi þau skilyrði sem sett séu í lögum og reglugerðum. Hafi kærendur haft ótal tækifæri til þess að vinna með aðilum að því að mæla hljóðvist, en ekki haft til þess áhuga.

Fráleitt sé að tengja allan hávaða í miðbænum við Skor. Um sé að ræða fjölfarna götu þar sem stöðug umferð sé öll kvöld og langt fram eftir nóttu um helgar. Í næsta nágrenni sé fjöldi veitingastaða og einn vinsælasti nætursöluvagn landsins. Þá sé bílakjallari í húsnæðinu opinn allan sólarhringinn. Af þessari upptalningu sé ljóst að umgangur um húsið að Geirsgötu 2–4 muni aukast á næstu misserum. Þeir sem kaupi sér eign í hjarta miðbæjarins hljóti að gera sér grein fyrir því hvernig umhverfið sé og sé því hafnað með öllu að rekstur Skor hafi áhrif til lækkunar á verðmæti eigna í nágrenni sínu.

Með vísan til niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar í úrskurði í máli 102/2022, sé með engu móti hægt að gagnálykta að nefndin hafi þar með tekið afstöðu til þess hvort að gefið yrði út starfsleyfi eða ekki. Réttaráhrif niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar hafi verið þau að fella úr gildi starfsleyfið til 12 ára sem gefið hafi verið út 5. ágúst 2022, en ekki að allur rekstur væri bannaður í húsnæðinu um aldur og ævi.

 Með greindum úrskurði úrskurðarnefndarinnar hafi staðurinn misst starfsleyfi. Því hafi leyfishafar óskað eftir nýju leyfi til bráðabirgða, enda telji þeir sig uppfylla öll almenn skilyrði þess að starfrækja veitingastað í flokki II á Geirsgötu 2–4. Rekstraraðilar hafi frá upphafi kappkostað við að uppfylla öll skilyrði sem þeim hafi verið sett. Öllum ábendingum um hávaða hafi verið tekið alvarlega og brugðist við þeim á viðeigandi hátt. Þess beri þó að geta að kærendur hafi engin gögn lagt fram um hljóðvist. Fáir íbúðareigendur hafi heimilað fulltrúum leyfisveitanda eða Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur að mæla hljóðvist innan íbúða þeirra. Þvert á móti hafi flestir meinað aðilum að mæla hljóðvist hjá sér og hafi sjálfir ekki látið gera slíka mælingu.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur ítreka sjónarmið um réttaráhrif ákvarðana æðra setts stjórnvalds gagnvart ákvörðun hins lægra setta í tilvikum þar sem ákvörðun þess síðarnefnda er ógilt. Fyrir liggi að með ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins frá 31. mars sl. um að gefa út tímabundið starfsleyfi til Skor hafi stjórnvaldið tekið sömu efnislegu ákvörðun og þá sem felld hafi verið úr gildi með úrskurði æðra setts stjórnvalds án þess að nokkur málsmeðferð hafi farið fram. Verði fallist á að slík ákvarðanataka sé í samræmi við lög gæti heilbrigðiseftirlitið endurtekið leikinn að nýju að liðnum þeim leyfistíma sem fram kemur í hinni kærðu ákvörðun. Forsenda þess að hægt sé að endurupptaka mál og taka sömu ákvörðun sé að lögmæt málsmeðferð hefjist að nýju og að öll form- og efnisskilyrði lögmætrar málsmeðferðar séu uppfyllt og málið þannig upplýst lögum samkvæmt áður en tekin er ný ákvörðun sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga.

Seinni viðbótarathugasemdir kærenda: Ítrekuð eru fyrri sjónarmið um andmælarétt. Grundvöllur hagsmuna íbúðareigenda samkvæmt fyrirliggjandi umboði sé eigna- og afnotaréttur á íbúðum og sameign húsanna sem um ræðir. Íbúðareigendur í fasteignunum eiga ríkra lögvarinna hagsmuna að gæta, bæði hver fyrir sig og saman. Aðilar máls séu því annars vegar einstaka íbúðaeigendur í fasteignunum við Geirsgötu 2–4, sbr. fyrirliggjandi umboð og hins vegar rekstraraðili Skor, sem sé handhafi hins umþrætta starfsleyfis, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Heilbrigðiseftirlitið eigi því ekki aðild að kærumáli þessu, enda standi lög ekki til þess. Stjórnvaldinu sé eingöngu ætlað það að lögum að gefa umsögn við meðferð kærumálsins. Af þeim sökum sé stofnuninni óheimilt að lögum að hafa uppi sjálfstæðar kröfur í málinu um það hver skuli vera niðurstaða hins æðra setta stjórnvalds.

Í greinargerð heilbrigðiseftirlitsins sé staðfest af hálfu stofnunarinnar að málið hafi ekki verið rannsakað sem skyldi og hafi því ekki verið upplýst í samræmi við ákvæði laga. Af þeim sökum uppfylli málsmeðferð stofnunarinnar ekki kröfu 10. gr. stjórnsýslulaga. Við þær aðstæður sé heilbrigðiseftirlitinu óheimilt að lögum að taka stjórnvaldsákvörðun um útgáfu starfsleyfis, hvort heldur um sé að ræða leyfi til lengri eða skemmri tíma. Grundvallaratriði rannsóknarreglunnar sé að mál sé upplýst á þeim tímapunkti þegar stjórnvaldsákvörðun er tekin. Í því máli sem hér um ræði hafi verið teknar nokkrar stjórnvaldsákvarðanir, sem allar hverfist um útgáfu starfsleyfa til lengri eða skemmri tíma og lúta eiga reglum stjórnsýsluréttarins við framkvæmd þeirra. Það sé því með engu móti hægt að fallast á það sjónarmið stofnunarinnar að taka hinnar umþrættu bráðabirgðaákvörðunar, sé liður í því að tryggja rannsóknarhagsmuni aðila, eins og það sé orðað í greinargerðinni.

Áréttað er að skilgreining Skor sem veitingastaðar í flokki II, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald nr. 85/2007, sé ekki í samræmi við umrætt ákvæði laga um veitingastaði. Í tilvitnuðu ákvæði segi að veitingastaðir í flokki II skuli vera: „Umfangslitlir áfengisveitingastaðir þar sem starfsemin er ekki til þess fallin að valda ónæði í nágrenninu, svo sem með háværri tónlist og kalla ekki á mikið eftirlit og/eða löggæslu“. Raunin sé sú að heilbrigðiseftirlitið hafi metið starfsemi staðarins sem svo, að hann valdi verulegu ónæði í nágrenninu, m.a. með háværri tónlist (karókí). Því liggi fyrir samkvæmt takmörkuðum mælingum heilbrigðiseftirlitsins að staðurinn starfi ekki samkvæmt þeim reglum sem gilda um veitingastað í flokki II, sökum þess að hann valdi ónæði.

—–

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur farið yfir öll gögn og haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti tímabundins starfsleyfis til þriggja mánaða fyrir veitingastaðinn Skor að Geirsgötu 2–4. Aðilar að málinu eru þeir sömu og nutu aðildar að máli nr. 102/2022 fyrir nefndinni og njóta kæruaðildar. Ekki hefur verið lagt fram umboð frá stjórn húsfélagsins í húsinu og verður því ekki fallist á aðild hennar að kærumálinu.

Um það hvort starfsemi umrædds veitingastaðar samrýmist landnotkun samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 og hvort starfsemin sé réttilega flokkuð sem veitingastaður í flokki II, við útgáfu starfsleyfis, sem fjallað er um í kæru þessari, vísar úrskurðarnefndin til umfjöllunar í úrskurði nefndarinnar nr. 102/2022 þar sem fram kemur að rekstur veitingastaðar í flokki II í húsinu að Geirsgötu 2–4 samrýmist deiliskipulagi svæðisins og með því sé gert ráð fyrir að hann samrýmist búsetu á sama svæði. Nefndin telur að ekki sé tilefni til þess að endurskoða þá afstöðu í máli þessu sem varðar útgáfu tímabundins starfsleyfis til þriggja mánaða. Að gefnu tilefni bendir nefndin um leið á að heilbrigðisnefnd ber ábyrgð á því að ákvæðum laga nr. 7/1998 og reglugerða settra samkvæmt þeim sé fylgt eftir sbr. 47. gr. nefndra laga.

Hvað snertir sjónarmið kærenda um aðild Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur að máli þessu skal athugað að úrskurðarnefndin hefur gefið stjórnvaldinu færi á að koma að sjónarmiðum við hina framkomnu kæru sem varðar stjórnvaldsákvörðun sem það hefur tekið á lægra stjórnsýslustigi. Er heilbrigðiseftirlitið því ekki aðili að máli þessu í skilningi stjórnsýsluréttarins.

—–

Í máli þessu reynir á lögmæti útgáfu tímabundins starfsleyfis til veitingastaðar að Geirsgötu 2–4. Í úrskurði nefndarinnar nr. 102/2022, var fellt úr gildi starfsleyfi til 12 ára vegna annmarka við undirbúning og rannsókn máls, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Í úrskurðinum var rakið að samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 skuli gefa út starfsleyfi til tiltekins tíma og skv. 4. mgr. lagagreinarinnar sé útgefanda starfsleyfis heimilt að framlengja gildistíma starfsleyfis á meðan nýtt starfsleyfi er í vinnslu, að hámarki til eins árs, hafi fullnægjandi umsókn um nýtt starfsleyfi borist útgefanda.

Á það var bent í greindum úrskurði að heilbrigðiseftirlitinu hefði verið heimilt að gefa út starfsleyfi til skemmri tíma en 12 ára, meðan unnt væri að leggja nánar mat á hávaða frá starfseminni. Með hliðsjón af þeirri heimild sem heilbrigðisnefndir hafa til að framkvæma eftir þörfum, eða láta framkvæma, eftirlitsmælingar á hávaða, sbr. 2. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 724/2008, hefði með því verið unnt að framkvæma eða láta framkvæma mælingar á rauntíma inni í íbúðum sem næstar eru atvinnustarfseminni, sem hefðu getað varpað skýrara ljósi á það hvort hávaða gætir frá starfseminni í íbúðum í húsinu þannig að yfirstígi viðmiðunarmörk reglugerðarinnar. Var talin sérstök ástæða til þessa þar sem umræddur veitingastaður hafði verið starfræktur á tímabundnu starfsleyfi vegna krafna um endurbætur á hljóðvist og þeirra fjölmörgu athugasemda sem gerðar höfðu verið við hávaða frá starfseminni.

—–

Um starfsleyfi til atvinnurekstrar er fjallað í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998. Í 2. mgr. lagagreinarinnar er kveðið á um að starfsleyfi skuli gefið út til tiltekins tíma. Af afgreiðslu hins sérstaka aukafundar hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur 31. mars 2023 verður ekki annað séð en að um nýtt tímabundið leyfi sé að ræða fremur en að hið eldra leyfi, sem fellt hafi verið úr gildi, hafi verið framlengt. Verður það lagt hér til grundvallar.

Í 8. gr. reglugerðar um hollustuhætti nr. 941/2002 er mælt fyrir um þau gögn sem fylgja skulu umsókn um starfsleyfi sem heilbrigðisnefndir gefa út, þ.e. upplýsingar um rekstraraðila, lýsingu á tegund starfseminnar, umfangi hennar og umfangi einstakra rekstrarþátta, uppdrætti af staðsetningu og önnur gögn ef þurfa þykir. Öll þessi gögn lágu fyrir hjá heilbrigðiseftirlitinu við töku hinnar kærðu ákvörðunar.

Í 9. gr. reglugerðarinnar segir síðan að í starfsleyfi skuli tilgreina rekstraraðila og staðsetningu starfsemi, tegund hennar, skilyrði, gildistíma og endurskoðun starfsleyfis, auk ákvæða um eftirlit, umgengni, hreinlæti, öryggisráðstafanir, sóttvarnir, gæðastjórnun og innra eftirlit eftir því sem við á hverju sinni. Verður ekki annað ráðið af hinu útgefna starfsleyfi en það fullnægi þessum áskilnaði. Þá voru þar sett sérstök skilyrði, sem áður höfðu verið í eldra starfsleyfi, sem ætlað er að draga úr hávaða frá starfseminni, sbr. 22. gr. téðrar reglugerðar.

—–

Af hálfu kærenda er vísað til þess að þeim hafi ekki verið gefinn kostur á því að koma að andmælum við ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins um útgáfu hins tímabundna starfsleyfis.

Almennt við útgáfu starfsleyfa er ekki gert ráð fyrir því að leitað sé sjónarmiða þeirra sem hugsanlega eiga hagsmuna að gæta af því að sú starfsemi verði heimiluð sem starfsleyfisumsókn nær til. Tillögur að starfsleyfum skv. lögum nr. 7/1998 geta sætt opinberri auglýsingu, en svo hagar ekki til um starfsemi veitingastaða í flokki II. Við töku hinnar kærðu ákvörðunar var heilbrigðiseftirlitinu vel kunnugt um þann ágreining sem verið hafði um rekstur umrædds veitingastaðar. Hefði við þær aðstæður, með hliðsjón af vönduðum stjórnsýsluháttum og þeirra andstæðu hagsmuna sem um er að ræða í málinu, verið eðlilegt að upplýsa húsfélagið Geirsgötu 2–4 og íbúðareigendur nærliggjandi íbúða við veitingastaðinn um að fyrir lægi ný umsókn rekstraraðila um starfsleyfi og veita þeim með því möguleika á að koma sjónarmiðum á framfæri, sbr. 13. og 14. gr. stjórnsýslulagalaga nr. 37/1993. Þar sem kærandi hefur nú átt þess kost að koma sjónarmiðum sínum að hér fyrir nefndinni verður að telja að þessi annmarki varði ekki ógildingu þeirrar ákvörðunar sem um er að ræða sem sætir endurskoðun.

—–

Með hinni kærðu ákvörðun var rekstraraðila Skor veitt tímabundið starfsleyfi til þriggja mánaða meðan brugðist væri við úrskurði nefndarinnar í máli nr. 102/2022 þar sem starfsleyfi veitingastaðarins var fellt úr gildi vegna skorts á undirbúningi og rannsókn málsins af hálfu heilbrigðiseftirlitsins og því ekki ljóst hvort skilyrði til útgáfu starfsleyfisins væru uppfyllt að teknu tilliti til reglugerðar nr. 724/2008. Í umræddum úrskurði var heilbrigðiseftirlitinu bent á að sérstök ástæða hefði verið til frekari hljóðmælinga í íbúðum í húsinu til að varpa skýrara ljósi á það hvort hávaða gætti frá starfsemi veitingahússins í íbúðum í húsinu þannig að hann færi yfir viðmiðunarmörk þeirrar reglugerðar. Fallist verður á að til þess að uppfylla þessa rannsóknarskyldu hafi heilbrigðiseftirlitinu reynst nauðsynlegt að gefa út tímabundið starfsleyfi. Í gögnum málsins kemur fram að unnið mun vera að framkvæmd hávaðamælinga og greiningu niðurstaðna úr þeim. Ljóst sýnist að þessar mælingar verði grundvöllur ákvörðunar um það hvort starfsleyfi til veitingastaðarins verði gefið út til lengri tíma eða ekki. Er þetta í samræmi við þær ábendingar sem fram komu í umræddum úrskurði og hvíla á meðalhófssjónarmiðum.

Með vísan til framangreindrar umfjöllunar verður hin kærða ákvörðun staðfest. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að felld verði úr gildi ákvörðun, Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 31. mars 2023 um að gefa út tímabundið starfsleyfi til þriggja mánaða fyrir veitingastaðinn Skor, Geirsgötu 2–4.

22/2023 Stöðuleyfi

Með

Árið 2023, fimmtudaginn 11. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 22/2023, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Múlaþings frá 10. janúar 2023 um að synja umsókn um framlengingu á stöðuleyfi fyrir listaverkið Stýrishús – Brú á svæði til hliðar við lóðina Austurveg 17b á Seyðisfirði.

 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. febrúar 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi þá ákvörðun byggingarfulltrúa Múlaþings frá 10. janúar 2023 að synja umsókn um framlengingu á stöðuleyfi fyrir listaverkið Stýrishús – Brú. Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að krafist sé að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Þá gerir kærandi kröfu um að henni verði gefið tækifæri á að kynna mál sitt fyrir heimastjórn Seyðis­fjarðar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Múlaþingi 14. febrúar 2023.

Málavextir: Kærandi fékk útgefið stöðuleyfi fyrir listaverkið Stýrishús – Brú hinn 10. júlí 2020. Leyfið var framlengt um eitt ár eða til 3. september 2022. Með tölvupósti 2. maí 2022 sótti kærandi um að leyfið yrði framlengt út september 2023. Erindi kæranda var tekið fyrir á fundi heimastjórnar Seyðisfjarðar 23. júní 2022 þar sem umsókninni var hafnað. Synjaði byggingar­fulltrúi umbeðinni framlengingu stöðuleyfis og tilkynnti umsækjanda með bréfi, dags. 24. s.m. Ákvörðun byggingar­fulltrúa var kærð til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 22. júlí s.á. Með bréfi, dags. 12. september s.á., afturkallaði byggingarfulltrúi synjun á framlengingu stöðuleyfisins og í kjölfarið afturkallaði kærandi kæru sína til úrskurðar­nefndarinnar.

Með bréfi, dags. 10. janúar 2023, synjaði byggingarfulltrúi beiðni um framlengingu stöðu­leyfisins að nýju með vísan til minnisblaðs framkvæmda- og umhverfismálastjóra Múlaþings þar sem fram kom að sveitarfélagið, sem landeigandi, myndi ekki veita áfram­haldandi stöðu­leyfi verksins á umræddum stað.

 Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að synjun um framlengingu stöðuleyfisins hafi ekki verið rökstudd. Höfnun heimastjórnarinnar og byggingarfulltrúa sé byggð á þeim rökum að listaverkið sé staðsett í íbúðarbyggð og að í listaverkinu sé fyrirhugað að vera með veitingar og við­­burði sem samræmist ekki þeirri staðsetningu. Þau rök séu haldlaus og röng þar sem á því svæði sem listaverkið sé staðsett séu í næstu húsum verslanir, atvinnufyrirtæki í útleigu kajaka, vinnu­stofur listamanna og sýningarrými. Allt í kringum Lónið á Seyðisfirði sé lifandi starfsemi og listaverkið eigi ekki á neinn hátt að skera sig úr eða valda ónæði umfram aðra starfsemi þar. Þá megi benda á að þær auðu lóðir sem standi því nærri séu til úthlutunar atvinnustarfsemi s.s. sam­vinnu­húsnæði og húsnæði Tækniminjasafns Austurlands.

Ekki hafi verið gætt jafnræðis við ákvörðun heimastjórnar né viðhöfð vönduð vinnubrögð líkt og sjá megi af fundargerð nefndarinnar frá 23. júní 2022. Þar hafi erindið verið tekið til umfjöllunar en umsækjanda hafi ekki verið gert kunnugt um fundinn eða tímasetningu hans né boðið að kynna mál sitt eins og öðrum höfundum innsendra erinda. Þar sem umsækjandi hafi ekki íslenskan bakgrunn hafi þurft að gæta sérstaklega að því að upplýsa um réttindi og ferla í stjórnsýslunni.

Draga megi hlutleysi starfsmanns nefndarinnar í efa þar sem hann hafi persónulegar skoðanir á listaverkinu og hafi meðal annars viðrað þær í tölvupósti sem ekki hafi átt að berast til umsækjanda. Starfsmaðurinn sé búsettur á Seyðisfirði en formaður nefndarinnar sé nýkjörinn sveitarstjórnarmaður sem sé búsettur á Egilsstöðum og því líklegt að ákveðið traust sé sett á upplýsingar sem berist frá starfsmanni til heimastjórnarmanna. Þá sé [byggingarfulltrúi] tengdur fjölskylduböndum einum af þeim sem kvartað hafi yfir verkinu. Meirihluti nágranna sé sáttur við listaverkið og styðji framlengingu leyfisins.

 Málsrök Múlaþings: Bent er á að um sé að ræða stýrishús af báti sem flutt hafi verið á lóð við Austurveg 17b á Seyðisfirði og sé notað meðal annars sem veitingarsala. Byggingarfulltrúi hafi metið að um svokallað torgsöluhús væri að ræða og því væri um stöðuleyfisskyldan hlut að ræða í skilningi gr. 2.6.1. byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Synjun á stöðuleyfi hafi byggt á því að leyfi landeiganda hafi ekki legið fyrir, en það sé eitt af ófrávíkjanlegum skilyrðum þess að hægt sé að veita stöðuleyfi, sbr. 2. mgr. gr. 2.6.1. byggingarreglugerðar. Fyrir hafi legið bréf frá landeiganda, sem sé sveitarfélagið Múlaþing, þar sem fram hafi komið að ekki yrði veitt leyfi fyrir stýrishúsinu á þessum stað. Sveitarfélagið sé hins vegar tilbúið að skoða þann mögu­leika með kæranda að setja listaverkið upp á Ferjuleiru, sem sé skilgreint svæði fyrir upp­setningu listaverka.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreining­smálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúa um synjun á framlengingu stöðuleyfis til endurskoðunar en tekur ekki afstöðu til kröfu kæranda um að fá að kynna mál sitt fyrir heimastjórn Seyðisfjarðar.

 Í 9. tl. 1. mgr. 60. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er tekið fram að í reglugerð skuli setja ákvæði um skilyrði fyrir veitingu stöðuleyfa fyrir gáma, báta, torgsöluhús, stór samkomutjöld og þess háttar sem ætlað sé að standa utan skipulagðra svæða fyrir slíka hluti í lengri tíma en tvo mánuði. Í reglugerð skuli kveða á um atriði sem varði öryggi og hollustuhætti vegna þessara lausafjármuna og um heimildir byggingarfulltrúa til að krefjast þess að þeir séu fjarlægðir ef ekki séu uppfyllt ákvæði reglugerðarinnar.

Fjallað er um stöðuleyfi í kafla 2.6. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Um veitingu stöðuleyfis segir í gr. 2.6.1. að ef lausafjármunum sem upptaldir séu í ákvæðinu sé ætlað að standa í lengri tíma en tvo mánuði utan svæða þar sem sérstaklega sé gert ráð fyrir geymslu þeirra skuli sækja um stöðuleyfi til leyfisveitanda. Umsókn um stöðuleyfi á að vera skrifleg og undirrituð af eiganda eða ábyrgðarmanni viðkomandi hlutar og á henni að fylgja samþykki eiganda eða lóðar­­hafa þeirrar lóðar sem fyrirhugað er að lausafjármunirnir standi á. Þá skal í umsókn gera grein fyrir tilgangi og lengd stöðuleyfis og henni eiga að fylgja uppdrættir og önnur gögn sem nauð­synleg eru til að sýna staðsetningu, útlit og gerð, fyrirkomulag og öryggi lausa­fjármunanna. Stöðuleyfi skulu mest veitt til 12 mánaða nema ákvæði skipulags mæli fyrir um annað.

Samkvæmt minnisblaði framkvæmda- og umhverfismálastjóra sveitarfélagsins stendur hið umrædda listaverk á óbyggðu svæði við hlið lóðar nr. 17b við Austurveg á Seyðisfirði. Þá kemur fram að sveitarfélaginu hafi á fyrra leyfistímabili borist athugasemdir frá íbúum vegna stað­setningar verksins auk þess sem það standi utan lóðamarka og að þar sé ekki gert ráð fyrir tengingum við veitulagnir. Í ljósi þessa hafi sveitarfélagið ákveðið, sem landeigandi, að veita ekki leyfi fyrir áframhaldandi stöðuleyfi verksins á þessum stað.

Byggingarfulltrúi Múlaþings fer með vald til að taka ákvörðun um útgáfu stöðuleyfis í hverju tilviki eða eftir atvikum að synja um slíkt leyfi. Samkvæmt hinni kærðu ákvörðun lá fyrir að sveitarfélagið, sem landeigandi, samþykkti ekki staðsetningu listaverksins á þeim stað sem það hefur hingað til verið og óskað var framlengingar stöðuleyfis fyrir. Í ljósi þessa var skilyrði 2. mgr. gr. 2.6.1. byggingarreglugerðar um samþykki eiganda eða lóðarhafa þeirrar lóðar sem fyrirhugað sé að lausafjármunir standi á ekki uppfyllt og byggingarfulltrúa því ekki heimilt að veita kæranda framlengingu á hinu umdeilda stöðuleyfi.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Múlaþings frá 10. janúar 2023 að synja umsókn um framlengingu á stöðuleyfi fyrir listaverkið Stýrishús – Brú til hliðar við Austurveg 17b á Seyðisfirði.

19/2023 Skotvöllur í Álfsnesi

Með

Árið 2023, fimmtudaginn 11. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 19/2023, kæra á ákvörðun heilbrigðisnefndar Reykjavíkur frá 25. janúar 2023 um að samþykkja umsókn um starfsleyfi til handa Skotfélagi Reykjavíkur til reksturs skotvallar á Álfsnesi og útgáfu leyfisins sama dag.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 31. janúar 2023, kæra eigendur, Stekk, Reykjavík, þá ákvörðun heilbrigðisnefndar Reykjavíkur frá 25. janúar 2023 að samþykkja umsókn um starfsleyfi til handa Skotfélagi Reykjavíkur til reksturs skotvallar á Álfsnesi og útgáfu leyfisins sama dag. Er þess krafist að leyfið verði fellt úr gildi.

Með bréfum til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er bárust nefndinni 26. og 27. febrúar 2023, kæra 6 aðrir hagsmunaaðilar sömu ákvörðun heilbrigðisnefndar Reykjavíkur og útgáfu sama starfsleyfis. Skilja verður málskot kærenda svo að þess sé krafist að umrætt starfsleyfi verði fellt úr gildi. Verða þau kærumál sem eru nr. 32/2023 og 33/2023 sameinuð máli þessu þar sem sama ákvörðun er kærð í öllum málunum til ógildingar og hags­munir kærenda þykja ekki standa því í vegi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkurborgar 8. og 27. mars 2023.

Málavextir: Á annan áratug hafa tvö félög rekið sinn hvorn skotvöllinn á Álfsnesi, þ.e. annars vegar Skotfélag Reykjavíkur sem er leyfishafi í fyrirliggjandi máli og hins vegar Skot­veiði­félag Reykjavíkur og nágrennis. Með úrskurðum, uppkveðnum 24. september 2021, í málum nr. 51/2021 og 92/2021 felldi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála úr gildi ákvarðanir Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkurborgar frá 11. mars og 4. maí 2021 um að gefa út starfsleyfi þeim til handa til reksturs skotvalla á Álfsnesi þar sem starfsemin samræmdist ekki gildandi landnotkun Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030 fyrir umrætt svæði.

Nýtt Aðalskipulag Reykjavíkur 2040 tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 18. janúar 2022 og kemur þar m.a. fram að framtíð skotæfingasvæðis á svæði I2, Álfsnes – Kollafjörður, verði viðfangsefni í endurskoðun aðalskipulags á Kjalarnesi og opnum svæðum utan þéttbýlis en þar til að þeirri endurskoðun komi sé heimilt að endurnýja leyfi skot­æfinga­svæðisins. Sótti leyfishafi í þessu máli, Skotfélag Reykjavíkur, um nýtt starfsleyfi með umsókn, dags. 31. maí 2022, en áður hafði Skotveiðifélag Reykjavíkur og nágrennis sótt um nýtt starfs-leyfi og fékk það leyfi útgefið 26. júlí s.á. Það leyfi var fellt úr gildi með úrskurði úrskurðar­nefndarinnar, uppkveðnum 30. desember 2022, í máli nr. 94/2022 vegna sama annmarka og áður, þ.e. að leyfið væri ekki talið í samræmi við landnotkun samkvæmt aðalskipulagi.

Auglýsing um tillögu að starfsleyfi fyrir skotvöll Skotfélags Reykjavíkur var auglýst á vef­svæði Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkurborgar 25. nóvember 2022 í samræmi við 6. gr. reglu­gerðar nr. 550/2018. Sérstök tilkynning var send á hagsmunaaðila. Í tillögunni var lagt til að um starfsemi skotvallarins giltu almenn starfsleyfisskilyrði heilbrigðisnefndar Reykjavíkur fyrir mengandi starfsemi og sértæk starfsleyfisskilyrði. Auk þess var lagt til að gildistími starfsleyfisins yrði til 31. október 2026 sem væri vel innan tíma­marka aðalskipulags í samræmi við umsögn skipulagsfulltrúa. Frestur til að koma að athuga­semdum var til 28. desember 2022. Alls bárust 11 athugasemdir við tillöguna á auglýsingatíma og var gerð grein fyrir þeim og svörum í greinargerð heilbrigðiseftirlitsins vegna auglýsingar á starfsleyfistillögu og útgáfu starfsleyfis. Á fundi heilbrigðisnefndar hinn 25. janúar 2023 var umsókn um greint starfsleyfi samþykkt og gaf heilbrigðiseftirlitið leyfið út sama dag til tveggja ára.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að landnotkun svæðisins hafi ekki verið breytt frá því úrskurður í máli nr. 51/2021 hafi verið kveðinn upp. Hinn umdeildi skotvöllur sé á iðnaðar­svæði samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 og sé rekstur skotvallar þar því óheimill. Starfsleyfið fari í bága við ákvæði skipulagsreglugerðar um landnotkunarflokka en í reglu­gerðinni sé ekki að finna heimild til að víkja frá gildandi landnotkun samkvæmt skipulagi. Þá séu „skeet“ vellir Skotfélagsins ekki á iðnaðarsvæði heldur á opnu svæði.

Kærendur fari fram á „að hlutlausir verkfræðilærðir með sérmenntun í hljóðmælingum verði látnir framkvæma hljóðmælingar með mæliaðferð sem [Umhverfisstofnun] hefur leiðbeint [heilbrigðiseftirlitinu] að nota.“ Þar sem heilbrigðiseftirlitið hafi viðurkennt í rannsóknar­skýrslu sinni að blý/stál högl berist niður í fjöru og sjó vilji kærendur einnig að hlutlausir aðilar verði látnir rannsaka blýmengunin á þeim svæðum fyrir neðan skotsvæðið.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkurborgar: Af hálfu heilbrigðiseftirlitsins er vísað til þess að starfsemi skotvallar Skotfélags Reykjavíkur sé í samræmi við skipulag og sé ákvörðun um það byggð á umsögn tveggja starfsmanna borgarinnar frá 23. janúar 2023, þ.e. deildarstjóra Aðalskipulags 2040 og lögmanns á umhverfis- og skipulagssviði. Þá renni minnisblað Skipulagsstofnunar frá 27. janúar s.á. enn styrkari stoðum undir það mat að starfsemin sé heimil á svæðinu m.t.t. skipulags til skemmri tíma. Rétt hafi verið staðið að veitingu starfsleyfis fyrir umræddan skotvöll á Álfsnesi og gætt hafi verið að öllum lagalegum skilyrðum. Þá hafi máls­meðferðarreglum stjórnsýsluréttarins verið fylgt í hvívetna.

 Leyfishafa var gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum vegna málsins en engar slíkar hafa borist úrskurðarnefndinni af hans hálfu.

———-

Kærendur og Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkurborgar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu sem verður ekki rakið nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft það til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir er tekið fram að allur atvinnurekstur sem sótt sé um starfsleyfi fyrir skuli vera í samræmi við skipulag samkvæmt skipulagslögum eða lögum um skipulag haf- og strandsvæða. Var þessu ákvæði skeytt við 1. mgr. 6. gr. með 18. gr. laga nr. 88/2018 um skipulag haf- og strandsvæða. Í athuga­semdum við 18. gr. í frumvarpi því sem varð að þeim lögum segir að með ákvæðinu séu lagðar til þær breytingar á nokkrum lögum er varði leyfisveitingar að þar komi skýrt fram að útgáfa skuli samræmast gildandi skipulagi, en í sumum tilvikum hafi jafnvel skort á að í umræddum lögum væri kveðið skýrt á um að leyfisveitingar skyldu samræmast skipulagi sveitarfélaga.

Eins og rakið er í málavaxtalýsingu felldi úrskurðarnefndin úr gildi starfsleyfi Skotfélags Reykjavíkur og Skotveiðifélags Reykjavíkur og nágrennis með úrskurðum, dags. 24. september 2021, þar sem starfsemi skotæfingasvæða var ekki talin sam­ræmast landnotkun umrædds svæðis samkvæmt þágildandi aðalskipulagi. Í kjölfar þess tók gildi nýtt Aðalskipulag Reykjavíkur 2040 þar sem m.a. var gerð sú breyting að heimild var veitt til að endurnýja umrædd starfsleyfi en landnotkun svæðisins var ekki breytt. Eftir það var sótt um starfsleyfin að nýju. Með úrskurði, uppkveðnum 30. desember 2022, í máli nr. 94/2022 felldi úrskurðarnefndin úr gildi starfsleyfi fyrir skotvöll Skotveiðifélags Reykjavíkur og nágrennis á Álfsnesi frá júlí­mánuði s.á. þar sem heimiluð starfsemi var ekki talin samræmast gildandi landnotkun svæðisins samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkurborgar 2040.

Hinn 23. janúar 2023 barst heilbrigðiseftirlitinu umsögn deildarstjóra aðalskipulags Reykja­víkur og lögmanns á umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar þar sem m.a. kom fram að starfsemi Skotfélagsins væri innan svæðis I2 í aðalskipulagi, sem til framtíðar væri ráðgert sem iðnaðarsvæði. Sett hefðu verið sérstök ákvæði í landnotkunarskilgreiningu iðnaðarsvæðis, I2, í Aðalskipulag Reykjavíkur 2040, sem kvæðu á um að heimilt væri að stunda skotíþróttir tímabundið innan svæðisins enda sú starfsemi þegar til staðar á svæðinu. Kom og fram að land-notkunarákvæðið grundvallaðist á gr. 6.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 þar sem sérstaklega væri vísað til þróunarsvæða líkt og ætti við um umrætt svæði, þ.e. I2. Þá var vísað til kafla 20.4 í aðalskipulaginu sem grundvallaðist á áðurnefndu ákvæði í skipulagsreglugerð. Kaflinn kvæði á um að heimilt væri að endurnýja starfsleyfi fyrir rekstur og starfsemi sem væri til staðar til skemmri tíma litið, en það væri ávallt háð mati og nánari upplýsingum um tíma­setningu og framvindu uppbyggingar samkvæmt framtíðarlandnotkun. Í niðurstöðu umsagnarinnar var ekki lagst gegn því að starfsleyfi Skotfélags Reykjavíkur yrði endurnýjað til skemmri tíma og lagt til að leyfið takmarkaðist við tvö ár. Tveimur dögum síðar var tekin ákvörðun um að hið kærða starfsleyfi yrði gefið út og var það gert samdægurs.

Samkvæmt 1. mgr. gr. 6.2. í skipulagsreglugerð skal stefna um landnotkun sýnd með einum landnotkunarflokki. Sé gert ráð fyrir landnotkun á sama reit sem falli undir fleiri en einn land­notkunarflokk skuli sá flokkur tiltekinn fyrir reitinn sem er ríkjandi en umfang annarrar land­notkunar tilgreint í skilmálum. Á reitnum sem hér um ræðir er í gildi landnotkunarflokkurinn „iðnaðarsvæði“, I2, og að hluta „opið svæði“, OP28. Samkvæmt f-lið gr. 6.2. í skipulags­reglugerð er iðnaðarsvæði skilgreint svo: „Svæði fyrir umfangsmikla iðnaðarstarfsemi eða starfsemi sem er talin geta haft mengun í för með sér, svo sem verksmiðjur, virkjanir, þ.m.t. vatnsfallsvirkjanir, jarðhitavirkjanir, sjávarfallavirkjanir og vindmyllur, tengivirki, veitu­stöðvar, skólpdælu- og hreinsistöðvar, endurvinnslustöðvar, brennslustöðvar, förgunarstöðvar, sorpurðunarsvæði, flokkunarmiðstöðvar og birgðastöðvar fyrir mengandi efni.“ Í i-lið sömu greinar eru opin svæði skilgreind með þeim hætti að það séu svæði fyrir útivist, aðallega í tengslum við þéttbýli, með aðstöðu sem almennri útivist tilheyrir, svo sem stígum og áningar­stöðum, auk þjónustu sem sé veitt á forsendum útivistar. Þá er í j-lið sömu greinar að finna skilgreiningu fyrir landnotkunarflokkinn „íþróttasvæði“ og kemur þar fram að íþróttasvæði sé fyrir landfreka íþróttaaðstöðu aðra en þá sem þjóni tilteknu hverfi, svo sem skeiðvelli, hesthúsa­byggð, akstursíþróttasvæði, skotæfingasvæði, golfvelli og stærri íþróttamiðstöðvar. Fellur um-deilt skotæfingasvæði því undir síðastnefndan landnotkunarflokk. Í greinargerð með Aðal­skipulagi Reykjavíkur 2040 er kveðið á um heimild sem tekur til svæðis I2, Álfsnes – Kolla­fjörður, til að „endurnýja leyfi skotæfingasvæðisins til skemmri tíma“. Ekki er þó mælt fyrir um að landnotkunarflokkurinn „íþróttasvæði“ gildi á svæði I2 eða OP28, að hluta eða öllu leyti.

Samkvæmt gr. 6.1. skipulagsreglugerðar er veitt ákveðið svigrúm þegar landnotkun er breytt með nýju skipulagi og skal þá gerð grein fyrir því hvenær og hvernig breytingin kemur til framkvæmda og hvað gildi fram að því. Ekki liggur fyrir að landnotkun umrædds svæðis hafi verið breytt frá því að úrskurðir nefndarinnar í fyrrnefndum málum voru kveðnir upp og getur umrætt ákvæði því ekki átt við. Í fyrri úrskurðum nefndarinnar var starfsemi skotæfingavalla á svæðinu ekki talin í samræmi við gildandi landnotkun umrædds svæðis samkvæmt eldra aðal­skipulagi og þess sem nú gildir svo sem áskilið er í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998. Fer starfsleyfið auk þess í bága við ákvæði skipulagsreglugerðar um landnotkunarflokka en í þeirri reglugerð er ekki að finna heimild til að víkja frá gildandi landnotkun samkvæmt skipulagi með ákvörðunum um veitingu starfsleyfa sem fari í bága við gildandi landnotkun. Þess ber að geta að umrædd starfsemi hefur um árabil verið stunduð í bága við gildandi landnotkun aðal­skipulags en með aðalskipulagi setja sveitarstjórnir fram stefnu sína um þróun sveitarfélagsins, m.a. varðandi landnotkun, sbr. ákvæði 1. mgr. 28. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og gildir sú landnotkun frá gildistöku aðalskipulags og breytinga á því.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður hið kærða starfsleyfi fellt úr gildi.

 Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun heilbrigðisnefndar Reykjavíkur frá 25. janúar 2023 um að samþykkja umsókn um starfsleyfi til handa Skotfélagi Reykjavíkur til reksturs skotvallar á Álfsnesi og útgáfa leyfisins sama dag.

145/2022 Hraunbraut

Með

Árið 2023, fimmtudaginn 11. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 145/2022, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 25. nóvember 2022 um að hafna umsókn um byggingarleyfi fyrir íbúð á jarðhæð hússins að Hraunbraut 14, Kópavogi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 22. desember 2022, kærir eigandi Hraunbrautar 14 þá ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 25. nóvember 2022 að hafna umsókn um byggingarleyfi fyrir íbúð á jarðhæð hússins að Hraunbraut 14, Kópavogi. Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar ákvörðunarinnar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 13. mars 2023.

Málavextir: Kærandi sótti um að breyta bílskúrsþaki í dvalarsvæði og rými í kjallara hússins að Hraunbraut 14, Kópavogi, í íbúð. Erindið var lagt fram á fundi skipulagsráðs 7. desember 2020. Ráðið hafnaði erindinu og var sú afgreiðsla staðfest í bæjarráði 22. s.m. Kærandi lagði þá fram tvær aðskildar umsóknir, dags. 11. mars 2021, annars vegar um að breyta bílskúrsþaki í dvalarsvæði og hins vegar um að breyta rými í kjallara í íbúð. Á fundi skipulags­ráðs 29. mars 2021 var samþykkt að grenndarkynna umsókn kæranda um dvalarsvæði á bílskúrsþaki en umsókn hans um að breyta rými í kjallara í íbúð var hafnað. Bæjarstjórn samþykkti hina síðarnefndu afgreiðslu á fundi sínum 13. apríl s.á. Kærandi sótti að nýju um að breyta rými í kjallara í íbúð 11. nóvember 2022. Þeirri umsókn var hafnað á afgreiðslufundi byggingar­fulltrúa 25. s.m. með vísan til afgreiðslu skipulagsráðs 29. mars 2021 og bæjarstjórnar 13. apríl s.á. auk tilvísunar til 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er bent á að afgreiðsla byggingarfulltrúa innihaldi þá rangfærslu að umrædd íbúð sé í kjallara. Það sé rangt enda hafi byggingarfulltrúi áður staðfest að íbúðin sé á jarðhæð. Ekki sé um að ræða ósk um breytingu á notkun eða uppskiptingu eignar. Ófullnægjandi upplýsingar hafi ítrekað legið til grundvallar ákvörðunum skipulagsráðs vegna erinda kæranda.

Tilvísun í afgreiðslu fyrra erindis eigi sér enga stoð þar sem það erindi hafi verið afgreitt á þeim röngu forsendum að kljúfa ætti geymslu frá íbúð á efstu hæð og stofna nýtt fasteignanúmer og breyta í íbúð. Hið rétta sé að umrædd íbúð hafi frá upphafi verið sérstakur eignarhluti en hafi um árið 1990 verið ranglega skráð hjá Þjóðskrá sem hluti af annarri eign. Um tvö ár hafi tekið að fá þau mistök leiðrétt. Byggingarfulltrúi virðist gefa sér að um sömu umsókn sé að ræða og áður hafi verið hafnað með þeim rökstuðningi að „nær væri að setja skýra stefnu hvað varðar fjölgun íbúða innan tiltekins hverfis“. Í þessu samhengi skuli bent á þá skýru stefnu Kópavogs­bæjar í hverfinu að fjölga íbúum svo þúsundum skipti. Benda megi á byggingu fjölbýlishúsa í stað einbýlishúsa inn á milli eldri húsa í næsta nágrenni við Hraunbraut 14, t.d. Ásbraut 1, Kársnesbraut 21 o.fl. auk yfirstandandi þéttingar á vesturhluta Kársness og við Fossvog. Óskiljanlegt sé að skipulagsnefnd snúi jákvæðu áliti sínu í neikvætt um viðurkenningu einnar stúdíóíbúðar í hverfinu sem full sátt hafi verið um í þau 37 ár sem þar hafi verið búið og feli ekki í sér neinar breytingar fyrir hagsmunaaðila.

Í 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sé fjallað um grenndarkynningu og hafi umrædd íbúð marg­sinnis farið í grenndarkynningu og alltaf hlotið samþykki allra nágranna.

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er bent á að kærandi hafi sótt um sömu breytingu og mál þetta snúist um 18. nóvember 2020. Á fundi skipulagsráðs 7. desember s.á. hafi erindi kæranda um að breyta 57,6 m2 rými undir bílskúr í íbúð á eigin fasteignanúmeri verið synjað. Sambærileg umsókn hafi verið lögð inn 11. mars 2021 sem skipulagsráð hafi synjað á fundi 29. s.m.

Kærandi hafi í kjölfarið óskað eftir endurupptöku málsins. Bæjarráð hafi hafnað beiðni um endurupptöku á fundi sínum 16. júní 2021. Til grundvallar þeirri ákvörðun hafi legið umsögn lögfræðideildar Kópavogsbæjar þar sem fram komi að þau fordæmi sem kærandi hafi vísað til væru ekki sambærileg þeirri breytingu sem hann hafi sótt um, að einu tilviki undanskildu, sem samþykkt hafi verið árið 1994. Skipulagsráð hafi ekki talið sig bundið af þeirri afgreiðslu enda um að ræða tæplega þrjátíu ára gamalt fordæmi. Í janúarmánuði árið 2022 hafi enn borist erindi frá kæranda þar sem gerðar hafi verið athugasemdir við málsmeðferð og ákvörðun skipulags­ráðs. Erindi kæranda hafi verið svarað og fyrri sjónarmið og rök ítrekuð, m.a. um að skipulags­ráð teldi varasamt að setja fordæmi um samþykkt íbúðar á þessu svæði án þess að fyrir lægi stefna um fjölgun íbúða í grónum hverfum og án þess að litið væri til þess hvaða heildaráhrif fjölgun íbúða og íbúa myndi hafa á hverfið.

Samkvæmt Aðalskipulagi Kópavogs 2019-2040 sé Hraunbraut 14 á skilgreindu íbúðasvæði á Kársnesi. Í greinargerð aðalskipulagsins sé fjallað um rammahluta þess en markmið hans sé að útfæra nánari markmið fyrir fimm hverfi, þ.m.t. Kársnes, í takt við meginstefnu aðal­skipulagsins. Markmiðið sé m.a. að viðhalda kostum og sérkennum hverfisins. Samkvæmt aðal­skipulaginu gildi rammaákvæði nr. 1–4 fyrir Hraunbraut 14. Eitt af markmiðunum fyrir Kársnes sé að stuðla að því að draga úr neikvæðum áhrifum umferðar og auka sjálfbærni með vistvænum áherslum. Í aðal­skipulaginu sé miðað við áframhaldandi uppbyggingu á Kársnesi, þó aðallega á vestanverðu nesinu á þróunarsvæði og í Bryggjuhverfinu.

Með hliðsjón af framangreindu og þar sem að um sé að ræða ákvörðun sem veiti skipulags­yfirvöldum ákveðið svigrúm í skjóli lögbundinna skipulagsheimilda til að móta og þróa gróin hverfi telji Kópavogsbær að ákvörðun byggingarfulltrúa um að synja umsókn kæranda byggi á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Bent er á að umsókn kæranda um byggingarleyfi, dags. 11. nóvember 2022, hafi ekki fengið neina efnislega umfjöllun. Umsókninni hafi verið hafnað með vísan til afgreiðslu skipulagsráðs og bæjarstjórnar rúmu einu og hálfu ári áður. Slík máls­meðferð sé í andstöðu við ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og laga um mannvirki nr. 160/2010. Útgáfa byggingarleyfis sé stjórnvaldsákvörðun sem lúti reglum stjórnsýslulaga, m.a. rannsóknarreglu 10. gr. laganna. Það að vísa einungis til ákvörðunar sem tekin hafi verið einu og hálfu ári áður gangi þvert gegn rannsóknarreglunni. Með umsókn kæranda frá 11. nóvember 2022 hafi fylgt ítarlegur rökstuðningur sem og gögn sem ekki hafi legið fyrir með fyrri umsóknum að öllu leyti, þ. á m. leiðrétting á rangri skráningu fasteignarinnar í fasteignaskrá. Byggingaryfirvöldum í Kópavogi hafi borið að taka efnislega afstöðu til erindisins óháð afgreiðslu þeirra á fyrri umsóknum kæranda. Sérstök ástæða sé til að benda á að í rökstuðningi fyrir höfnun skipulagsráðs og bæjarstjórnar Kópavogs í mars og apríl 2021 hafi sérstaklega verið vísað til þess að verið væri að vinna nýtt aðalskipulag fyrir Kópavogsbæ þar sem m.a. kæmi fram tillaga varðandi möguleika á fjölgun íbúða í þegar byggðum hverfum. Þegar kærandi sendi inn umsókn sína hafði nýtt aðalskipulag fyrir Kópavogsbæ tekið gildi, en það hafi verið staðfest í bæjarstjórn 28. desember 2021. Í ljósi þess hefði verið eðlilegt að erindið fengi umfjöllun og skoðun með hliðsjón af nýju aðalskipulagi, frekari rökstuðningi og nýjum gögnum. Þessu til viðbótar sé afgreiðsla byggingarfulltrúa ekki í samræmi við þá rannsóknarskyldu sem m.a. komi fram í 10.-11. gr. laga nr. 160/2010.

Fasteign kæranda sé á skilgreindu íbúðasvæði skv. Aðalskipulagi Kópavogs 2019-2040. Svæðið hafi ekki verið deiliskipulagt og það sé ekki á skilgreindu þróunarsvæði. Rammaákvæði 1–4 gildi á svæðinu en ekkert þessara ákvæða standi því í vegi að hægt sé að samþykkja umsókn kæranda um byggingarleyfi. Rétt sé að eitt af markmiðum rammahluta aðalskipulagsins sé að viðhalda kostum og sérkennum hverfanna en samtímis sé einnig gert ráð fyrir breytingum og þróun í hverfunum. Kostir og sérkenni Kársness muni á engan hátt breytast við að umsókn kæranda verði samþykkt. í rammahluta aðalskipulagsins segi: „Markmið með fjölgun íbúða í rað-, par- og einbýlishúsahverfum verða sett fram í hverfisáætlunum hvers hverfis fyrir sig (skv. markmiði í kafla 2.1.1.1. í greinargerð þessari). Skoðaðir verða möguleikar á að fjölga íbúðum (séríbúðum og aukaíbúðum) í þegar byggðum hverfum með áherslu á greiningu á reitum þar sem par-, rað- og einbýlishús eru ríkjandi. Ávallt skal meta áform um fjölgun íbúða á grundvelli markmiða og viðmiða sem sett eru í aðalskipulagi þessu, m.a. um gæði byggðar og fjölda bílastæða.“ Í samræmi við meginmarkmið aðalskipulagsins og hverfisáætlanir séu sérstök markmið fyrir Kársnes í rammahluta aðalskipulagsins. Þar komi m.a. fram að ekki sé mælt með að atvinnuhúsnæði á jarðhæðum í hverfiskjörnum verði breytt í íbúðir. Húsnæði kæranda sé ekki atvinnuhúsnæði. Þá sé gert ráð fyrir mikilli fjölgun íbúða á Kársnesi á skipulagstímabilinu og ráðgert að fjölgunin geti verið um 1.400 íbúðir.

Unnið hafi verið að gerð hverfisáætlana fyrir einstök hverfi Kópavogsbæjar allt frá árinu 2014, eða í rúm níu ár, og muni sú vinna nú vera langt komin. Markmið og leiðarljós hverfisáætlana sé m.a. að skoða hvernig auka megi gæði hverfisins, þróa verklagsreglur um hvernig fella megi nýja byggð að eldri byggð í hverfunum, stuðla að fjölbreyttri íbúðarbyggð, verslun og þjónustu og stuðla að vistvænum samgöngumátum. Í drögum að hverfisáætlun fyrir Kársnes sé m.a. fjallað um íbúðaþéttleika á Kársnesinu. Fasteign kæranda sé á svæði sem merkt sé sem K3, en fyrir liggi að þéttleiki íbúða á því svæði sé með því minnsta sem gerist á Kársnesi. Mesti þétt­leikinn sé á svæðum K2 og K4 og viðbúið að þéttleikinn á svæði K1 verði enn meiri þegar uppbyggingu á því svæði verði lokið á komandi árum. Þéttleiki íbúða sé og verði minnstur á svæðum K3 og K5 en stærstu opnu svæði Kópavogsbæjar séu á svæði K5.

Mikil aukning íbúða hafi verið á síðustu árum og sé fyrirhuguð á Kársnesi á komandi árum og í ljósi þess sé röng sú röksemd Kópavogsbæjar að hafna umsókn kæranda um byggingarleyfi sem snúi eingöngu að því að fá samþykkta íbúð í húsnæði sem nýtt hafi verið til íbúðar í hartnær 37 ár í sátt við allt nærumhverfi, hafi verið sérstakur eignarhluti í húsinu frá byggingu þess og sé skráð með sérstakt fasteignanúmer í fasteignaskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, áður Þjóðskrár. Að umsókn kæranda hafi verið hafnað á þeim forsendum „að nær væri að setja skýra stefnu hvað varðar fjölgun íbúða innan tiltekins hverfis“ sé með ólíkindum, enda standi það upp á sveitar­félagið að marka slíka stefnu að svo miklu leyti sem hún sé ekki nú þegar til. Slík stefna hafi þó verið mótuð í nýlegu aðalskipulagi sem tekið hafi gildi í árslok 2021 og í hverfisáætlunum. Umsókn kæranda falli mjög vel að þeirri stefnu.

Þegar erindi kæranda var hafnað hafi verið vísað til 44. gr. skipulagslaga, en sú lagagrein fjalli um grenndarkynningu og standi greinin ekki í vegi fyrir umsókn kæranda um byggingarleyfi. Hins vegar kunni að vera rétt að láta fara fram grenndarkynningu vegna umsóknarinnar og hafi kærandi ekki lagst gegn því. Þá hafi með umsókninni fylgt samþykki annarra íbúðareigenda og lóðarhafa í húsinu svo og í næsta nágrenni. Umrætt íbúðarrými hafi verið nýtt sem íbúð í rúm 37 ár. Að samþykkja umsókn kæranda hafi þannig í raun enga breytingu í för með sér fyrir sveitarfélagið, aðra íbúa hússins eða íbúa í næsta nágrenni.

Það húsnæði sem hér um ræði uppfylli öll þau skilyrði og þær kröfur sem gerðar séu til íbúðar­húsnæðis í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Íbúðin hafi verið tekin út af byggingarfulltrúa Kópavogs, sem hafi staðfest að eignin uppfyllti allar þær almennu kröfur sem gerðar séu til íbúða og fram komi í gr. 6.7. byggingarreglugerðar. Fullnægjandi teikningum og uppdráttum hafi einnig verið skilað til byggingaryfirvalda og hafi aldrei komið fram athugasemdir við innsend gögn.

Kópavogsbær sé bundinn af ákvæðum stjórnsýslulaga og meginreglum stjórnsýsluréttar við afgreiðslu á umsókn kæranda. Ekki verði annað séð en að ákvörðun bæjarins gangi gegn jafnræðisreglu 11. gr. laganna og meðalhófsreglu 12. gr. sömu laga. Í málinu liggi fyrir fjöldinn allur af fordæmum þar sem byggingaryfirvöld í Kópavogi hafi samþykkt fjölgun íbúða í þegar byggðum hverfum. Allar þær ákvarðanir hafi haft í för með sér fjölgun íbúða á Kársnesinu og varðað þéttleika byggðar. Þær eignir sem nefndar hafi verið hér að framan séu allar á sama reit og fasteign kæranda á Kársnesi og sé viðbúið að finna megi fleiri sambærileg dæmi bæði á Kársnesi og í öðrum þegar byggðum hverfum Kópavogs. Einnig megi velta fyrir sér hvort þessar byggingarleyfisumsóknir hafi haft í för með sér einhver áhrif, t.d. á umferð í hverfinu, en í greinargerð Kópavogs sé m.a. vísað til þess að mikilvægt sé að draga úr neikvæðum áhrifum umferðar á Kársnesi og auka sjálfbærni með vistvænum áherslum.

Í ljósi byggðaþróunar á svæðinu verði ekki séð að nýting kæranda á fasteign sinni sem íbúð fari hvorki í bága við markmið skipulagsyfirvalda um byggðamynstur á svæðinu né ákvæði aðal­skipulags eða hverfisáætlana. Þvert á móti virðist umsóknin falla mjög vel að byggðaþróun, ákvæðum aðalskipulags og hverfisáætlun svæðisins. Benda megi á fordæmi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 60/2000, en í því tilviki var samþykkt íbúð á svæði þar sem bæði aðal- og deiliskipulag hafi gert ráð fyrir atvinnuhúsnæði sem gæti verið í íbúðabyggð. Í því máli sem hér um ræði sé fasteign kæranda hins vegar á skilgreindu íbúðasvæði samkvæmt gildandi aðalskipulagi.

Þó svo að um matskennda stjórnvaldsákvörðun sé að ræða sé mikilvægt að hafa í huga að sveitarfélagið sé bundið af lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins og meginreglum stjórnsýsluréttar og stjórnsýslulaga, m.a. varðandi rannsóknarskyldu, andmælarétt, meðalhóf og jafnræði við meðferð og afgreiðslu á umsókn kæranda. Svigrúm sveitarfélagsins í skjóli lögbundinna skipulagsheimilda takmarkist m.a. af fyrrgreindum ákvæðum. Það eitt að um matskennda ákvörðun sé að ræða þýði ekki að sveitarfélag geti hagað sér að vild við afgreiðslu slíkra umsókna. Ákvörðunin verði að grundvallast á málefnalegum og lögmætum sjónarmiðum. Það hafi ekki verið gert við hina umdeildu afgreiðslu og byggi hin kærða ákvörðun á ólögmætum og ómálefnalegum sjónarmiðum.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 25. nóvember 2022 um að synja umsókn kæranda um leyfi til að breyta rými í kjallara hússins að Hraunbraut 14 í íbúð.

Í fundargerð skipulagsráðs 29. mars 2021 kemur fram að á lóðinni sé steinsteypt þriggja hæða hús með þremur íbúðum og sambyggðum bílskúr, byggt 1968. Þar kemur einnig fram að í erindi kæranda sé óskað eftir að breyta 57,6 m2 rými, staðsettu undir tvöföldum bílskúr á lóðinni, í íbúð á eigin fastanúmeri. Á upphaflegum teikningum að húsinu sé þetta rými merkt sem geymsla en frá árinu 1985 hafi það verið notað sem íbúð. Samþykki meðeiganda og nágranna liggi fyrir. Líkt og fram kom í málavöxtum hafnaði skipulagsráð erindinu og vísaði því til afgreiðslu bæjarstjórnar sem hafnaði erindinu á fundi sínum 13. apríl 2021. Í hinni kærðu ákvörðun var vísað til þessara afgreiðslna og 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir höfnun skipulagsráðs, sbr. 1. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem var veittur 19. apríl 2021. Í rökstuðningi bæjaryfirvalda kom fram að skipulagsráð hafi hafnað erindi kæranda á þeim forsendum að nær væri að setja skýra stefnu hvað varðaði fjölgun íbúða innan tiltekins hverfis. Í nýju aðalskipulagi sem væri í vinnslu væri að finna tillögu um að skoða möguleika á fjölgun íbúða í þegar byggðum hverfum með áherslu á greiningu á reitum og fjölgun íbúða yrði metin á grundvelli markmiða og viðmiða sem sett séu í aðalskipulagi, m.a. um gæði byggðar og fjölda bílastæða. Verður að líta svo á að byggingarfulltrúi hafi gert framangreindan rökstuðning að sínum með vísan til afgreiðslu skipulagsráðs við ákvörðun sína frá 25. nóvember 2022 um að synja umsókn kæranda.

Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga skal í rökstuðningi vísa til þeirra réttarreglna sem ákvörðun stjórnvalds er byggð á. Í rökstuðningi Kópavogsbæjar er vísað til þess að nær væri að setja skýra stefnu hvað varðaði fjölgun íbúða innan tiltekins hverfis og í því samhengi vísað til nýs aðalskipulags sem væri í vinnslu. Verður ekki talið að slík almenn tilvísun til framtíðaráforma sveitarfélagsins uppfylli áskilnað 1. málsl. 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga um rökstuðning. Hin kærða ákvörðun varðaði erindi kæranda, sem dagsett var 11. nóvember 2022, en nýtt aðalskipulag Kópavogsbæjar tók gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 30. desember 2021. Samkvæmt framansögðu var byggingarfulltrúa því ekki rétt að hafna erindi kæranda með vísan til afgreiðslu skipulagsráðs 29. mars 2021 og bæjarstjórnar 13. apríl s.á.

Í hinni kærðu ákvörðun byggingarfulltrúa var einnig vísað til 44. gr. laga nr. 123/2010, en í þeirri grein er fjallað um grenndarkynningu. Ekki er nánar tiltekið í afgreiðslu byggingar-fulltrúa hvað í 44. gr. mæli gegn því að erindi kæranda fáist samþykkt. Í 1. mgr. 44. gr. segir að þegar sótt er um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulag liggur ekki fyrir geti sveitarstjórn eða sá aðili sem heimild hafi til fullnaðarafgreiðslu mála, sbr. 6. gr., ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar að undan-genginni grenndarkynningu. Í 2. málsl. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki kemur fram að ef mannvirki er háð byggingarleyfi byggingarfulltrúa skuli hann leita umsagnar skipulagsfulltrúa leiki vafi á að framkvæmd samræmist skipulagsáætlunum sveitarfélagsins. Hafi byggingarfulltrúi litið svo á að umsókn kæranda gæti farið í bága við gildandi skipulag hefði honum verið rétt að leita umsagnar skipulagsfulltrúa. Það var ekki gert við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar og getur afgreiðsla skipulagsráðs frá gildistíð eldra aðalskipulags ekki komið í þess stað.

Með vísan til alls framangreinds var málsmeðferð og rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar svo áfátt að fella ber hana úr gildi.

 Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 25. nóvember 2022 um að hafna umsókn um byggingarleyfi fyrir íbúð á jarðhæð hússins að Hraunbraut 14, Kópavogi.