Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

130/2023 Hraunteigur

Árið 2024, fimmtudaginn 8. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 130/2023, kæra á ákvörðun skipulagsfulltrúans í Reykjavík frá 7. september 2023 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Teigahverfis, syðri hluta, vegna lóðar nr. 30 við Hraunteig.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er barst nefndinni 16. nóvember 2023 kæra þrír af eigendum Hraunteigs 28, Reykjavík, þá ákvörðun skipulagsfulltrúans í Reykjavík frá 7. september 2023 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Teigahverfis, syðri hluta, vegna lóðar nr. 30 við Hraunteig. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 20. nóvember 2023.

Málavextir: Gatan Hraunteigur er í Teigahverfi í Reykjavík og er þar í gildi deiliskipulag syðri hluta þess frá árinu 2002. Lóð nr. 30 við Hraunteig er hornlóð sem liggur einnig að Reykja­vegi á móts við bílastæði Laugardalslaugar. Á lóðinni er sambýlishús sem byggt var árið 1946 með þremur íbúðum, ásamt bíl­skúr byggðum fimm árum síðar og er hann 21,5 m2. Aðkoma að bílskúrnum er af Reykjavegi og sam­kvæmt eignaskiptayfirlýsingu tilheyrir skúrinn íbúð 0101 og fylgir bílskúrs­réttur íbúð 0201.

Hluti eigenda Hraunteigs 30 hefur átt í viðræðum við skipulagsyfirvöld um möguleika á að stækka bílskúr sem fyrir er á lóðinni. Með erindi til skipulagsfulltrúans í Reykjavík 12. desember 2022 var sótt um breytingu á deiliskipulagi hverfisins sem fól í sér að á lóðinni yrðu tveir bílskúrar. Á uppdrætti sem fylgdi umsókninni kom fram að breytingin fæli í sér að á lóðinni yrði byggingar­reitur fyrir bílskúr stækkaður til norðurs þannig að heimilt yrði að endurbyggja nú­verandi bílskúr og til viðbótar byggja áfasta vinnustofu af sömu stærð.

Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 18. apríl 2023 var samþykkt að grenndarkynna tillögu að óverulegri breytingu á deiliskipulagi hverfisins. Með bréfi, dags. 24. apríl 2023, var tillagan grenndarkynnt fyrir húseigendum að Hraunteigi 28 og Kirkjuteigi 33 og þeim bent á að þeir skyldu kynna hana fyrir leigutökum húsnæðis á lóðunum. Kom fram að kynningin hæfist 28. s.m. og athugasemdum skyldi komið á framfæri eigi síðar en 31. maí s.á. Voru kærendur á meðal þeirra sem grenndarkynnt var fyrir og komu þeir athugasemdum sínum á framfæri, f.h. Hraunteigs 28, húsfélags. Gerðu kærendur m.a. athugasemdir við að í tillögunni væri notast við hæðarkóta sem fenginn væri frá óbyggðum bílskúr á lóð nr. 33 við Kirkjuteig. Óskuðu þeir eftir skuggavarpsteikningum og bentu á að athuga þyrfti „Samþykki um friðun trjáa í Reykjavík“, en skv. 2. og 3. gr. hennar væri óheimilt að fella tré sem væru 8 m eða hærri og eldri en 60 ára. Stórt tré væri á lóðamörkunum sem að líkindum væri bæði eldra en 60 ára og hærra en 8 m.

Að lokinni grenndarkynningu var umsóknin að nýju lögð fram á afgreiðslufundum skipulags­fulltrúa 8. júní og 13. júlí 2023. Í fundargerð síðarnefnda fundarins var bókað að erindið væri „lagt fram að nýju ásamt skuggavarpi, dags. 29. júní 2023 og bréfi frá embætti skipulags­fulltrúa, dags. 13. júlí 2023.“ Með bréfinu var húseigendum aftur gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum við tillöguna. Kom þar fram að óskað hefði verið eftir við­bótar­gögnum sem hagsmunaaðilum gæfist nú tækifæri til að gera athugasemdir við. Var þar vísað til uppdrátta, dags. 29. júní s.á., sem sýna skuggavarp. Athugasemdafrestur var veittur til 25. júlí s.á. Voru kærendur á meðal þeirra sem gefinn var kostur á að bregðast við greindum gögnum og komu þeir athugasemdum sínum á framfæri. Á afgreiðslufundum skipulagsfulltrúa 27. júlí og 3. ágúst 2023 var erindinu vísað til umsagnar verkefnastjóra hjá embættinu.

Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 7. september 2023, var málsmeðferðinni lýst og fram­komnum athugasemdum svarað. Kom þar m.a. fram að mesta breyting skuggavarps væri fyrir hádegi við jafndægur og einnig yrðu óverulegar breytingar vegna áformanna fyrir hádegi í júní. Skuggi ykist ekki á dvalarsvæði í garðinum, þ.e. við húsið og í suðvesturhorni hans, þar sem væri rúmgott útisvæði með palli, heldur á grasflöt og þar sem væru tré og runnar. Á lóð nr. 28 við Hraunteig væri birkitré sem staðsett væri nálægt lóðamörkum og stæði ekki til að fella það. Erindið var samþykkt á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 7. september 2023 og tók breyting deili­skipulagsins gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 18. október s.á.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er bent á að með hinni umdeildu breytingu á deili­skipulagi sé brotið gegn ákvæðum byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Ákvæði f. liðar gr. 2.3.5. um smáhýsi feli í sér meginreglu sem eigi einnig við um byggingar á borð við bílskúra og vinnustofur þannig að bygging smáhýsa innan við 3 m frá lóðamörkum sé háð samþykki eigenda aðliggjandi lóðar. Með því að heimila byggingu vinnustofu svo nærri mörkum lóðar kærenda og raun beri vitni sé þrengt að möguleikum þeirra til að geta síðar byggt vinnustofu eða aðra byggingu á sinni lóð. Yrði áskilnaði byggingarreglugerðar um fjarlægðir á milli bygginga vegna brunavarna þá einungis náð með því að byggingin væri í þeim mun meiri fjarlægð frá mörkum lóðanna með þeim afleiðingum að slík áform væru óraunhæf. Staðsetning vinnustofunnar sé því alfarið á kostnað hagsmuna kærenda og sé brot á jafnræði eigenda samliggjandi lóða. Skipulagsfulltrúi „hafi skautað ansi létt fram hjá“ gr. 6.2.1. í byggingarreglugerð um að byggingu skuli staðsetja með tilliti til skuggavarps þannig að sólar njóti á sem heppilegastan hátt á leik- og dvalar­svæðum. Hafi hann einhliða og án samráðs við kærendur ákveðið hver væru leik- og dvalar­svæði á lóð þeirra og með því farið á svig við gr. 5.2.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 þar sem kveðið sé á um að við gerð deiliskipulags skuli eiga sér stað virk samvinna við íbúa og aðra hagsmunaaðila gegnum allt skipulagsferlið. Verulega hafi skort á að skipulagsfulltrúi hafi skoðað til hlítar og brugðist nægilega við þeim athugasemdum sem kærendur hafi gert við meðferð málsins.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld benda á að í umsögn skipulagsfulltrúa frá 7. september 2023 hafi komið fram að tekið hefði verið undir athugasemdir um hæðarlegu bílskúrs/vinnustofu á lóð nr. 30 við Hraunteig. Á nýrri byggingu sé eðlilegt að gera ráð fyrir hærri þakkóta þar sem sá bílskúr sem fyrir sé á lóðinni hafi litla lofthæð. Mesta breyting á skuggavarpi sé fyrir hádegi við jafndægur en einnig verði óverulegar breytingar á því fyrir hádegi í júní. Byggðamynstur hverfisins samanstandi m.a. af bílskúrum á mörgum lóðum auk þess sem nýtingarhlutfall lóðarinnar haldist vel innan þeirra marka sem gert sé ráð fyrir í skipu­lagi. Engar breytingar hafi verið gerðar á garði kærenda og ekki sé fallist á að byggingin takmarki nýtingarmöguleika kærenda á sinni lóð. Samkvæmt gr. 9.7.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 skuli byggingar vera með nægjanlegum vörnum gegn útbreiðslu elds á milli þeirra. Til að takmarka þá áhættu sé hægt að beita ýmsum aðferðum, s.s. með nægjanlegu bili á milli bygginga eða með eldvarnarklæðningum.

 Umsækjendum um hina kærðu deiliskipulagsbreytingu var tilkynnt um framkomna kæru en hafa ekki látið málið til sín taka.

Niðurstaða: Gatan Hraunteigur er í grónu hverfi í austurbæ Reykjavíkur. Samkvæmt Aðal­skipulagi Reykja­víkur 2040 tilheyrir gatan íbúðarbyggð, ÍB21. Um slíka byggð segir m.a. að það sé svæði fyrir íbúðarhúsnæði og nærþjónustu sem því tengist auk minniháttar atvinnu­starfsemi sem samrýmist búsetu. Skapaður verði sveigjanleiki til að fjölga íbúðum innan gróinnar byggðar samkvæmt ákvörðunum í hverfisskipulagi með betri nýtingu þess húsnæðis sem sé fyrir, viðbyggingum, ofanábyggingum, uppskiptingu eigna og breyttri notkun. Með því verði m.a. stuðlað að hagkvæmri og sjálfbærri borgarþróun, auknum möguleikum fasteigna­eigenda að nýta eignir sínar og dregið úr nýbyggingarþörf. Við skipulagningu og hönnun íbúðar­byggðar verði gæði húsnæðis og nærumhverfis þess í fyrirrúmi. Í því samhengi þurfi m.a. að horfa til fjarlægðar milli bygginga, dýpt húsbygginga og hlutfalls útisvæða til leiks og dvalar þar sem sólar nýtur bróðurpart dags. Verður ekki annað ráðið en að umdeild breyting á deili­skipulagi sé í samræmi við gildandi aðalskipulag.

Á svæðinu er í gildi deiliskipulag Teigahverfis, syðri hluti, frá árinu 2002. Er svæðinu þar skipt í tvö svæði og er lóðin sem hér er um rætt á svæði 2. Í greinargerð skipulagsins kemur fram að­ svæðið hafi verið byggt samkvæmt skipulagi frá 1946 og að byggðin sé mjög heilsteypt, varan­leg og gott dæmi um byggingarstíl þess tíma er hún reis. Í almennum skilmálum ­er heimilað, að teknu tilliti til annarra skilmála, að byggja svalir og aðrar viðbyggingar að hámarki 15 m2 á hverri lóð utan hins eiginlega byggingarreits, t.d. garð­skála/sólstofur, enda falli þær vel að húsi og umhverfi hvað varði form og efnisval og uppfylli ákvæði byggingar­reglugerðar. Lágmarks­fjarlægð nýrra viðbygginga skuli vera a.m.k. 3 m frá lóðarmörkum. Þá sé á skipulagsuppdrætti gert ráð fyrir byggingareitum fyrir bílskúra þar sem aðstæður leyfi. Almennt sé miðað við að hámarksstærð einfalds bílskúrs verði allt að 4,0×7,5 m en 7,5×7,5 m fyrir tvöfaldan bíl­skúr. Ekki verði leyfðar nýjar innkeyrslur inn á lóðir þar sem það raski m.a. heildarsvip götunnar, að því undanskildu þar sem það sé leyft í skipulagi. Frístandandi garðskálar séu leyfðir enda liggi fyrir samþykki allra meðeigenda sem og lóðarhafa aðliggjandi lóða. Viðmiðunar­nýtingar­hlutfall á lóðum fyrir sambýlishús með 2–5 íbúðir sé 0,5–0,8. Þá sé í hverfinu almennt heimilt að víkja frá viðmiðunarnýtingarhlutfalli vegna bílskúra, hækkunar húsa, þakhækkunar, kvista og viðbygginga sem auki brúttóflatarmál húsa og gert sé ráð fyrir á skipulagsuppdrætti og í skilmálum.

Á lóð nr. 33 við Kirkjuteig er heimilt að reisa þrjá bílskúra, þ.e. við mörk þeirrar lóðar og lóðar nr. 28 og 30 við Hraunteig og er einnig gert ráð fyrir einum bílskúr á lóð nr. 28 við Hraunteig. Stærð umdeilds byggingarreits er í samræmi við þær heimildir sem fyrir eru á svæðinu og verður ekki séð að byggingin muni skera sig úr á skipulagssvæðinu enda eru fjölmörg dæmi um bílskúra við mörk lóða. Þá liggur fyrir að nýtingarhlutfall lóðarinnar muni ekki aukast mikið. Verður það 0,64 í kjölfar breytingarinnar sem er innan þeirra marka sem gert er ráð fyrir í deiliskipulagi hverfisins. Hvað varðar sjónarmið um brunaöryggi skal á það bent að komi til þess að byggingaráform verði samþykkt á grundvelli hins breytta deiliskipulags ber byggingar­fulltrúa m.a. að ganga úr skugga um að ákvæðum byggingarreglugerðar um brunavarnir sé gætt við hönnun byggingar.

Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 18. apríl 2023 var samþykkt að grenndarkynna tillögu að óverulegri breytingu deiliskipulags hverfisins vegna hinna umdeildu áforma. Var tillagan grenndarkynnt skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga og nágrönnum gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum við hana ásamt frekari gögn sem aflað var síðar. Tók breytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 18. október 2023 og var send Skipulagsstofnun. Var formleg máls­meðferð skipulagsbreytingarinnar því lögum samkvæmt.

Með hliðsjón af framangreindu verður talið að engir þeir form- eða efnisannmarkar liggi fyrir sem leiði til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar. Verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að felld verði úr gildi ákvörðun skipulagsfulltrúans í Reykjavík frá 7. september 2023 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Teigahverfis, syðri hluta, vegna lóðar nr. 30 við Hraunteig.