Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

8/2024 Almannadalur

Árið 2023, miðvikudaginn 14. febrúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 8/2024, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkurborgar frá 2. september 2023 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi hesthúsabyggðar á Hólmsheiði vegna lóðar nr. 9 við Almannadal.

 Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

 um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 19. janúar 2024, kærir eigandi Almannadals 17, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkurborgar frá 2. september 2023 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi hesthúsabyggðar á Hólmsheiði vegna lóðar nr. 9 við Almannadal. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Því til viðbótar er þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni og að kveðinn verði upp bráðabirgðaúrskurður um að byggingarfulltrúa sé óheimilt að taka til umfjöllunar og samþykkja teikningar sem byggjast á hinni kærðu ákvörðun. Verður nú tekin afstaða til þeirra krafna.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 30. janúar 2024.

Málsatvik og rök: Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar 20. september 2023 var breyting á deiliskipulagi hesthúsabyggðar á Hólmsheiði vegna lóðar nr. 9 við Almannadal samþykkt, að lokinni grenndarkynningu sem fram fór 31. maí 2023 til og með 28. júní s.á. Athugasemdir bárust við grenndarkynningu, þ. á m. frá kæranda. Í breytingu skipulagsins felast breytingar er varða glugga og svalir. Deiliskipulagsbreytingin var staðfest í borgarráði 2. september s.á. Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar birtist í B-deild Stjórnartíðinda 21. desember 2023.

 Af hálfu kæranda er bent á að nú þegar hafi verið grafið fyrir húsinu og jarðvegi skipt þar án þess að byggingarleyfi hafi fengist. Byggingarfulltrúa hafi ítrekað verið bent á óleyfisframkvæmdir þessar án þess að framkvæmdir hafi verið stöðvaðar. Af hálfu borgaryfirvalda hefur verið bent á að byggingarfulltrúi hafi stöðvað framkvæmdir við jarðvegsskipti þann 10. maí 2022. Vegna ábendinga sem borist hafi í desember 2022 um að framkvæmdir væru hafnar að nýju hafi verktaka verið tilkynnt um að framkvæmdir hefðu verið stöðvaðar þar sem byggingaráform hefðu ekki verið samþykkt.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Samkvæmt framansögðu tekur úrskurðarnefndin lögmæti ákvörðunar til skoðunar. Í kröfu kæranda um að úrskurðað verði að byggingarfulltrúa sé óheimilt að taka til umfjöllunar og samþykkja teikningar á grundvelli hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar felst öðrum þræði krafa um íhlutun í undirbúning að útgáfu byggingarleyfis, sem ekki hefur verið samþykkt svo kunnugt sé, og verður þeirri kröfu því vísað frá nefndinni.

 Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda séu þær hafnar eða yfirvofandi, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa.

Mál þetta snýst um breytingu deiliskipulags. Gildistaka deiliskipulags felur almennt ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, s.s. veiting byggingar- eða framkvæmdaleyfis, sbr. 11. og 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna greindra leyfisveitinga er eftir atvikum unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 130/2011. Að jafnaði er því ekki tilefni til að beita heimild um stöðvun framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana. Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða, eðlis deiliskipulagsákvarðana, þess að byggingarfulltrúi hefur nú þegar stöðvað framkvæmdir og hinnar kærðu ákvörðunar í máli þessu verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa vegna hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda og vísað frá kröfu um að úrskurðað verði að byggingarfulltrúa sé óheimilt að taka til umfjöllunar og samþykkja teikningar á grundvelli hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar.