Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

40/2006 Höfn II

Með

Ár 2007, fimmtudaginn 28. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson, formaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 40/2006, kæra eigenda að landi lögbýlisins Hafnar í Svalbarðsstrandarhreppi á ákvörðun byggingarnefndar Eyjafjarðar frá 25. apríl 2006 um að veita leyfi til að byggja vélageymslu úr stálgrind á Höfn II í Svalbarðsstrandarhreppi.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 26. maí 2006, er barst nefndinni hinn 29. sama mánaðar, kærir Arnar Sigfússon hdl., f.h. eigenda að landi lögbýlisins Hafnar í Svalbarðsstrandarhreppi, þá ákvörðun byggingarnefndar Eyjajarðar frá 25. apríl 2006 að veita leyfi til að byggja vélageymslu úr stálgrind á Höfn II í Svalbarðsstrandarhreppi.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi sveitarstjórnar hinn 9. maí 2006. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt gerðu kærendur kröfu til þess að framkvæmdir yrðu stöðvaðar meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.  Fram kom í kæru að framkvæmdir við bygginguna væru komnar nokkuð á veg og þegar nefndinni höfðu borist frumgögn í málinu og nánari upplýsingar var staða verksins þannig að ekki þótti hafa þýðingu að stöðva framkvæmdir.  Var afstaða því ekki tekin sérstaklega til kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda. 

Málavextir:  Mál þetta á sér nokkra forsögu sem ítarlega er rakin í kærunni.  Kemur þar m.a. fram að ágreiningur hafi verið með kærendum og byggingarleyfishafa um lóðarréttindi Hafnar II og rétt til bygginga í landi Hafnar, en Höfn II er íbúðarhús í landi Hafnar með umdeildum lóðarréttindum. 

Með bréfi, dags. 3. október 2005, tilkynnti sveitarstjóri Svalbarðsstrandarhrepps landeigendum Hafnar að fram væri komin umsókn frá erfðafestuhafa lögbýlisins um leyfi til að byggja vélageymslu í landi lögbýlisins og var þar meðal annars vísað til heimilda í erfðafestusamningi.  Í tilefni af þessu bréfi ritaði lögmaður landeigenda bréf til hreppsins hinn 11. október 2005 þar sem umsókninni var mótmælt og rök færð fram fyrir mótmælunum.

Umrædd umsókn virðist ekki hafa komið til afgreiðslu en á fundi byggingarnefndar Eyjafjarðar hinn 25. apríl 2006 var tekin fyrir umsókn eigenda Hafnar II um leyfi til að byggja vélageymslu úr stálgrind á Höfn II.  Bókaði nefndin að þar sem fyrir lægi samþykki sveitarstjórnar Svalbarðsstrandarhrepps, Skipulagsstofnununar, umhverfisráðuneytisins og Vegagerðarinnar vegna skipulagstengdra ákvæða er vörðuðu þetta tiltekna hús teldi hún sér ekki fært að synja erindinu, enda þótt húsið væri að dómi nefndarinnar ekki heppilegt á fyrirhuguðum stað.  Vísaði bókun byggingarnefndar til þess að sveitarstjórn hafði óskað meðmæla Skipulagsstofnunar samkvæmt 3. tl. bráðabirgðaákvæða skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 með veitingu umrædds leyfis og hafði stofnunin fallist á erindið eftir að aflað hafði verið undanþágu umhverfisráðuneytisins frá 7. mgr. gr. 4.16.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 um lágmarksfjarlægð frá vegi, en Vegagerðin hafði áður lýst þeirri afstöðu sinni að ekki væri gerð athugasemd við staðsetningu byggingarinnar.

Framangreindri ákvörðun byggingarnefndar, sem staðfest var í sveitarstjórn hinn 9. maí 2006, skutu kærendur til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 26. maí 2006, eins og að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er á því byggt að sveitarstjórn hafi borið að gefa þeim kost á að gæta hagsmuna sinna vegna umsóknar eigenda Hafnar II um byggingarleyfið.  Þess hafi ekki verði gætt og hafi með því verið brotinn á þeim réttur, ekki aðeins sem landeigendum, heldur einnig sem nágrönnum, en þau eigi sumarbústaðalönd og bústaði í næsta nágrenni.  Muni bygging vélaskemmunnar hafa veruleg áhrif á hagsmuni kærenda og hafa í för með sér óþægindi, sjónmengun og jafnvel verðrýrnun eigna.

Þá telji kærendur að grenndarkynning hefði átt að fara fram samkvæmt 7. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997 áður en umsókn um hið umdeilda byggingarleyfi hefði getað komið til afgreiðslu.  Bendi kærendur sérstaklega á að hér sé um að ræða tiltölulega mjög stóra og áberandi byggingu á viðkvæmum stað á landi sem hafi verið landbúnaðarland og sumarbústaðasvæði.  Ljóst sé einnig að byggingin muni hýsa starfsemi sem hafi í för með sér mikla umferð stórra vinnuvéla með tilheyrandi truflun og óþægindum.

Málsrök sveitarstjórnar:  Af hálfu sveitarstjórnar hefur verið vísað til þess að leitað hafi verið meðmæla Skipulagsstofnunar samkvæmt 3. tl. bráðabirgðaákvæða skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og hafi Skipulagsstofnun ekki gert athugasemd við að leyfi yrði veitt eftir að aflað hafði verið undanþágu umhverfisráðuneytisins frá ákvæði skipulagreglugerðar nr. 400/1998 um fjarlægð mannvirkis frá þjóðvegi.  Málsmeðferð hafi verið í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga og beri því að hafna kröfum kærenda. 

Málsrök byggingarleyfishafa:  Gunnar Sólnes hrl. hefur f.h. byggingarleyfishafa mótmælt kröfu kærenda um að umdeilt byggingarleyfi verði fellt úr gildi.  Telji byggingarleyfishafar sig hafa fullnægt öllum skilyrðum fyrir byggingunni og fengið öll tilskilin leyfi með lögmætum hætti og að ekki hafi verið brotið í bága við skipulags- og byggingarlög og reglugerðir við veitingu leyfisins.

Landeigendur hafi áður reynt að stöðva byggingarframkvæmdir á því landi sem þeir teljist eigendur að en því hafi verið hafnað af dómstólum.

Úrskurðarnefndin hefur gefið sveitarstjórn og byggingarleyfishafa kost á að tjá sig um álitaefni er lúta að því hvort hið umdeilda byggingarleyfi kunni að fara í bága við gildandi aðalskipulag á umræddu svæði en engar athugasemdir hafa borist af því tilefni.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið greinir kærendur og byggingarleyfishafa á um lóðarréttindi á Höfn II og rétt til bygginga í landi Hafnar.  Verður ekki úr þessum ágreiningi skorið í stjórnsýslumáli þessu, en fyrir liggur að hvað sem líður réttarstöðu kærenda sem landeigenda eru þeir jafnframt eigendur frístundalóða og sumarhúsa í nágrenni Hafnar II og eiga því lögvarða hagsmuna tengda hinni kærðu ákvörðun svo sem áskilið er í 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Verður málið því tekið til efnisúrlausnar.

Í málinu er deilt um lögmæti byggingarleyfis sem veitt var að fengnum meðmælum Skipulagsstofnunar samkvæmt 3. tl. bráðabirgðaákvæða skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, en ekki er í gildi deiliskipulag fyrir umrætt svæði.  Segir í tilvitnuðu ákvæði að sveitarstjórn geti án þess að fyrir liggi staðfest aðal- eða svæðisskipulag eða samþykkt deiliskipulag og að fengnum meðmælum Skipulagsstofnunar leyft einstakar framkvæmdir sem um kunni að verða sótt og sé unnt að binda slíkt leyfi tilteknum skilyrðum. 

Í hinu kærða tilviki skorti á að fyrir hendi væri samþykkt deiliskipulag, en skylt er að gera deiliskipulag á grundvelli aðalskipulags þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar, sbr. 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 m.s.br.  Verður að ætla að það hafi vakað fyrir sveitarstjórn að fá meðmæli Skipulagsstofnunar fyrir veitingu leyfisins þar sem deiliskipulag lægi ekki fyrir og virðist það því hafi verið mat sveitarstjórnar að ekki væru skilyrði til þess að veita leyfið með stoð í Aðalskipulagi Svalbarðsstrandarhrepps 1994-2014 að undangenginni grenndarkynningu samkvæmt heimild í 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Þykja ekki efni til að endurskoða þá afstöðu sveitarstjórnar við úrlausn máls þessa.

Við rannsókn málsins hefur komið í ljós að samkvæmt gildandi aðalskipulagi umrædds svæðis er landnotkun á Höfn I landbúnaður, lögbýli og á Höfn II er gert ráð fyrir íbúðarbyggð, opnu óbyggðu svæði og svæði fyrir útivist og beitarlönd.  Er hið umdeilda byggingararleyfi þannig í andstöðu við ákvæði gildandi aðalskipulags um landnotkun og fullnægir því ekki skilyrðum 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga sem kveður á um að byggingarleyfisskyldar framkvæmdir skuli vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag.  Verður ákvæði 3. tl. bráðabirgðaákvæða skipulags- og byggingarlaga ekki skilið á þann veg að Skipulagsstofnun geti með stoð í því heimilað framkvæmdir sem fara í bága við gildandi skipulag heldur felur ákvæðið aðeins í sér úrræði sem gerir sveitarfélögum kleift að heimila einstakar framkvæmdir þar sem á skortir að fyrir hendi sé fullnægjandi skipulag.  Verður jafnframt að skýra ákvæðið svo að því séu takmörk sett hversu umfangsmiklar framkvæmdir unnt sé að fallast á án þess að ráðist sé í gerð viðeigandi skipulags.

Af hálfu Skipulagsstofnunar hefur komið fram að við afgreiðslu stofnunarinnar á erindi sveitarfélagsins um byggingarleyfið hafi verið litið til þess að um hafi verið að ræða stækkun á þegar byggðu og starfræktu verkstæði.  Við þessa staðhæfingu verður að gera þá athugasemd að umdeild nýbygging, sem mun vera um 500 m² að flatarmáli, er byggð við 124 m² hús er samþykkt var sem vélaskemma hinn 30. júlí 1992 og liggja ekki fyrir nein gögn um að húsið hafi þá eða síðar verið samþykkt sem verkstæði.  Verður og til þess að líta að umrædd eldri bygging var samþykkt fyrir gildistöku aðalskipulags á svæðinu og fyrir gildistöku núgildandi skipulags- og byggingarlaga.  Er því alfarið hafnað að tilvist þessa eldra húss hafi getað réttlætt samþykkt hinnar umdeildu byggingar í andstöðu við gildandi skipulag og verður hún ekki talin hafa neina þýðingu við úrlausn málsins.

Samkvæmt framansögðu verður fallist á kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.   

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna anna hjá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð: 

Ákvörðun byggingarnefndar Eyjafjarðar frá 25. apríl 2006 um að veita leyfi til að byggja vélageymslu úr stálgrind á Höfn II í Svalbarðsstrandarhreppi, sem staðfest var af sveitarstjórn hinn 9. maí 2006, er felld úr gildi.

 

 

                                              _____________________________
                                                               Hjalti Steinþórsson

 

 

        __________________________                  ___________________________
                        Ásgeir Magnússon                                       Þorsteinn Þorsteinsson

88/2005 Hraukbær

Með

Ár 2007, mánudaginn 25. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson, forstöðumaður, Ásgeir Magnússon, héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 88/2005, kæra eiganda húss að Hraukbæ, Hörgárbyggð á ákvörðun byggingarnefndar Eyjafjarðar frá 4. október 2005 um að synja um endurskoðun á afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við umrætt hús kæranda. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. nóvember 2005, er barst nefndinni hinn 14. sama mánaðar, kærir A, f.h. föður síns K, eiganda hússins að Hraukbæ, Hörgárbyggð, þá ákvörðun byggingarnefndar Eyjafjarðar frá 4. október 2005 að synja um endurskoðun á afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við umrætt hús kæranda. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Á fundi byggingarnefndar Eyjafjarðar hinn 5. júlí 2005 var tekin fyrir umsókn kæranda um leyfi til að byggja við og endurinnrétta gamalt íbúðarhús úr steinsteypu á lögbýlinu Hraukbæ í Hörgárbyggð.  Var afgreiðslu málsins frestað en bent á að gæta þyrfti vel að útliti þegar byggt væri við gömul hús.  Taldi nefndin ekki við hæfi að byggja við núverandi hús eftir framlögðum teikningum og var byggingarfulltrúa falið að koma ábendingum um breytingar og lagfæringar á framfæri við umsækjanda.  Hinn 17. ágúst 2005 var umsóknin tekin fyrir hjá sveitastjórn Hörgárbyggðar og hún samþykkt með fyrirvara um samþykki byggingarnefndar.  Á fundi byggingarnefndar næsta dag vísaði nefndin til fyrri afstöðu nefndarinnar til málsins og þess að ekki hafi af hálfu kæranda verið tekið tillit til ábendinga nefndarinnar um breytingar og lagfæringar á teikningum.  Byggingarnefnd vísaði til gr. 8.2 í byggingarreglugerð þar sem segði að byggingarnefnd skyldi m.a. meta útlitshönnun bygginga hvað varðaði form, hlutföll, efni og næsta umhverfi.  Áréttaði byggingarnefndin að þau áform sem sýnd væru á teikningum teldust ekki ásættanleg og benti m.a. á að bygging vestan við núverandi hús með tengibyggingu á milli væri betri kostur en framlagðar teikningar gerðu ráð fyrir. 

Hinn 31. ágúst 2005 var tekin fyrir í sveitastjórn Hörgárbyggðar ofangreind afgreiðsla byggingarnefndar.  Féllst sveitastjórn ekki á höfnun nefndarinnar og samþykkti fyrir sitt leyti framlagðar teikningar vegna byggingarframkvæmda við gamla húsið í Hraukbæ.  Í fundargerð kemur fram að skipulagsnefnd hafi jafnframt lagt til að umsókn kæranda yrði samþykkt. 

Í kjölfar þessa sendi sveitastjórn byggingarnefnd bréf, dags. 23. september 2005, þar sem þess var farið á leit að afstaða nefndarinnar vegna erindis kæranda yrði endurskoðuð.  Byggingarnefnd tók tilmælin fyrir á fundi hinn 4. október 2005 þar sem bókað var að ekki hafi komið fram nein ný efnisatriði í málinu og þar af leiðandi engin rök fyrir breyttri afgreiðslu.  Það væri skylda byggingarnefndar að meta tiltekin atriði og það hafi hún gert ásamt því að benda á hugsanlega leið til úrlausnar í málinu.  Afstaða nefndarinnar byggðist á því að framlagðar tillögur væru ekki ásættanlegar. 

Á fundi sveitastjórnar hinn 6. október 2005 var nefnd afgreiðsla byggingarnefndar frá 4. október tekin fyrir og eftirfarandi m.a. bókað:  „Sveitarstjórn harmar að byggingarnefnd hafi ekki farið að vilja sveitarstjórnar Hörgárbyggðar og bendir Kristni Björnssyni því á að leita réttar síns hjá úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála.“ 

Málsrök kæranda:  Í kæru kemur fram að gamla húsið í Hraukbæ hafi verið notað sem geymsla síðustu 25 ár.  Ástand hússins sé nokkuð gott og búið sé að skipta um þak og glugga á húsinu.  Tilgangur kæranda með viðbyggingu við húsið sé að auka rými og gera húsið íbúðarhæft.  Bent sé á að synjun á umsókn kæranda sé byggð á huglægu mati en hafa beri í huga að áður hafi staðið og standi enn viðbyggingar við norður og vesturhlið gamla hússins.  Tillögur byggingarnefndar um breytingar séu afar ólíkar hugmyndum kæranda og óframkvæmanlegar þar sem gamla húsið standi á gilbarmi.  Ekki sé á verksviði nefndarinnar að hanna hús og tekið sé fram að enginn úr byggingarnefnd hafi kynnt sér aðstæður á staðnum.  Að lokum sé bent á að synjun á viðbyggingu geti leitt til þess að nauðsynlegt verði að rífa gamla húsið sem búið sé að vera í eigu ættarinnar allt frá 1957. 

Málsrök byggingarnefndar:  Af hálfu byggingarnefndar er vísað til fyrri afgreiðslu nefndarinnar um umsókn kæranda.  Því sé mótmælt að nefndarmenn hafi ekki kynnt sér aðstæður og á það bent að þeir þekki til staðhátta.  Kæranda hafi verið bent á leiðir til úrlausnar og þannig hafi verið leitast við að leiða málið til farsælla lykta á grundvelli þeirrar reynslu og þekkingar sem byggingarnefndarmenn búi yfir.  Skírskotað sé til framlagðrar umsagnar Árna Ólafssonar, arkitekts, dags. 6. febrúar 2006, en þar komi fram faglegt álit sem nýta megi sem gagnlegar upplýsingar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Samkvæmt ákvæðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skal sveitarstjórn afgreiða byggingarleyfisumsóknir, sbr. t.d. 2. mgr. 38. gr., 2. mgr. 39. gr. og 1. mgr. 43. gr. laganna, og fer byggingarnefnd með byggingarmál undir yfirstjórn sveitarstjórnar samkvæmt 2. mgr. 6. gr. greindra laga.  Af ákvæðum þessum leiðir að sveitarstjórn tekur lokaákvörðun um það hvort byggingarleyfi verði veitt eður ei. 

Fyrir liggur í málinu að byggingarnefnd hefur ítrekað lýst andstöðu sinni við að samþykkja umsókn kæranda um umrædda viðbyggingu við hús hans í Hraukbæ óbreytta og verður að líta svo á að með því hafi nefndin synjað umsókn kæranda.  Hinn 31. ágúst 2005 hnekkti sveitarstjórn Hörgárbyggðar hins vegar synjun byggingarnefndar frá 18. ágúst sama ár á umræddri umsókn og samþykkti umbeðnar framkvæmdir.  Lá þá fyrir endanleg stjórnvaldsákvörðun um afgreiðslu umsóknar kæranda um nefnda viðbyggingu samkvæmt fyrrgreindum ákvæðum skipulags- og byggingarlaga og ekki er kunnugt um að sú ákvörðun sveitarstjórnar hafi verið endurupptekin eða afturkölluð. 

Kærumál þetta lýtur að ákvörðun byggingarnefndar frá 4. október 2005 um að verða ekki við tilmælum sveitarstjórnar um endurskoðun á afstöðu nefndarinnar til umsóknar kæranda eftir að sveitarstjórn hafði afgreitt þá umsókn eins og fyrr greinir.  Sveitarstjórn hefur ekki tekið afstöðu til þeirrar afgreiðslu byggingarnefndar með öðrum hætti en þeim að harma afstöðu byggingarnefndar og benda kæranda á að leita réttar síns hjá úrskurðarnefndinni. 

Hin kærða ákvörðun byggingarnefndar Eyjafjarðarsveitar verður ekki talin fela í sér nýja lokaákvörðun um byggingarleyfisumsókn kæranda, enda hefur hún ekki hlotið staðfestingu sveitarstjórnar í samræmi við fyrrnefnda 2. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Verður ákvörðunin því ekki borin undir úrskurðarnefndina, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Með vísan til þess er að ofan greinir er hinni kærðu ákvörðun byggingarnefndar því vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

 

 

                                           ____________________________________
                                                                      Hjalti Steinþórsson

 

 

           _____________________________     ____________________________
                            Ásgeir Magnússon                                 Þorsteinn Þorsteinsson

68/2005 Mururimi

Með

Ár 2007, mánudaginn 25. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson, formaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 68/2005, kæra íbúa við Mururima á ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 20. júlí 2005 um að veita byggingarleyfi til að staðsetja færanlegra kennslustofu við leikskólann Lyngheima á lóðinni nr. 2 við Mururima í Reykjavík. 

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 23. ágúst 2005, er barst nefndinni hinn 31. sama mánaðar, kæra S og 17 aðrir íbúar við Mururima þá ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 20. júlí 2005 að samþykkja að sett verði niður færanleg kennslustofa á bifreiðastæði starfsmanna við leikskólann Lyngheima á lóð nr. 2 við Mururima í Reykjavík.  Borgarráð staðfesti ákvörðun skipulagsráðs hinn 21. júlí 2005.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 8. mars 2005 var tekin fyrir umsókn þess efnis að heimilt yrði að staðsetja tímabundið færanlega kennslustofu við leikskólann Lyngheima á lóðinni nr. 2 við Mururima.  Var afgreiðslu málsins frestað og málinu vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa.  Á fundi skipulagsráðs hinn 16. mars 2005 var samþykkt að kynna málið fyrir hagsmunaaðilum að Mururima 1, 2, 3, 4, 17 og 19 og var það í kynningu frá 18. mars til 18. apríl 2005.  Bárust athugasemdir frá tveimur kærenda með tölvupósti, dags. 28. mars 2005. 

Að lokinni kynningu var málið tekið fyrir að nýju á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 22. apríl 2005 og því vísað til umsagnar Fasteignastofu framkvæmdasviðs vegna athugasemda um niðurfellingu bílastæða.  Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 8. júlí 2005 var málinu vísað til skipulagsráðs, sem tók það fyrir á fundi sínum hinn 20. júlí 2005 og samþykkti umsóknina. 

Framangreindri ákvörðun skipulagsráðs hafa kærendur skotið til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Kærendur benda á að búið sé að setja niður umrædda kennslustofu á bifreiðastæði starfsmanna við leikskólann Lyngheima á lóð nr. 2 við Mururima.  Hafi það verið gert án formlegrar kynningar fyrir öllum íbúum við götuna.  Málið hafi aðeins verið kynnt fyrir þremur íbúum við Mururima og ekki hafi verið tekið tillit til framkominna athugasemda.  Framkvæmd hafi hafist án þess að framkvæmdaleyfi hafi verið gefið út og allt kapp hafi verið lagt á að ljúka henni svo íbúum við götuna gæfist ekki ráðrúm til að stöðva framkvæmdina.  Telji kærendur að staðsetning kennslustofunnar muni leiða til aukins umferðarþunga og slysahættu í götunni.  Umrædd gata sé lítil og þröng og beri ekki þessar breytingar.  Unnt sé að hafa kennslustofuna á lóð leikskólans, þar sem ónýtt pláss sé til staðar, og með því yrðu hagmunir allra aðila tryggðir. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er því haldið fram að kæra sé of seint fram komin og beri því að vísa henni frá.  Tilkynnt hafi verið um hina kærðu ákvörðun með bréfi, dags. 21. júlí 2005, og megi því ljóst vera að kæran hafi borist að liðnum kærufresti hinn 31. ágúst sama ár. 

Verði ekki fallist á frávísunarkröfu krefst Reykjavíkurborg þess að kröfum kærenda verði hafnað og ákvörðun skipulagsráðs staðfest, enda sé ekkert fram komið sem leitt gæti til ógildingar hennar og um sé að ræða tímabundið leyfi fyrir umdeildri kennslustofu. 

Niðurstaða:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er gerð krafa um frávísun málsins frá úrskurðarnefndinni.

Samkvæmt þágildandi 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, nú 5. mgr. 8. gr. sömu laga, er kærufrestur einn mánuður frá því kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun.  Sé um að ræða ákvarðanir sem sæta opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. 

Í máli þessu er deilt um byggingarleyfi sem ekki sætir opinberri birtingu og verður því að líta til þess hvenær kærendum varð kunnugt um eða mátti verða kunnugt um hina kærðu ákvörðun.  Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var þeim, er andmæltu fyrirhugaðri framkvæmd og nú eru meðal kærenda, tilkynnt um lyktir málsins með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 21. júlí 2005.  Var í því bréfi jafnframt vakin athygli á ákvæðum laga nr. 73/1997 um kæriheimild og kærufrest.  Kæra til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála er dagsett 23. ágúst 2005, en er ekki móttekin hjá nefndinni fyrr en 31. ágúst s.á, eða rúmum fimm vikum frá fyrrgreindri tilkynningu.  Verður því að líta svo á að kærufrestur hafi verið liðinn er kæran barst úrskurðarnefndinni. 

Samkvæmt framansögðu, og þar sem ekki liggja fyrir atvik er leitt geta til þess að kæran verði tekin til efnismeðferðar að loknum kærufresti á grundvelli 1. eða 2. tl. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ber að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna anna hjá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð: 

Kröfum kærenda um að felld verði úr gildi ákvörðun skipulagsráðs frá 20. júlí 2005 um heimild til að staðsetja færanlega kennslustofu á bifreiðastæði við leikskólann Lyngheima á lóðinni nr. 2 við Mururima í Reykjavík er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

_____________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

__________________________     ___________________________
Ásgeir Magnússon                           Þorsteinn Þorsteinsson

44/2007 Hraunteigur

Með

Ár 2007, föstudaginn 15. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson, forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 44/2007, kæra eigenda fasteignarinnar að Sundlaugavegi 16, Reykjavík á þeirri ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. maí 2007 að veita byggingarleyfi fyrir tvöföldum steinsteyptum bílskúr með torfþaki í norðvesturhorni lóðar nr. 13 við Hraunteig í Reykjavík.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 21. maí 2007, er barst úrskurðarnefndinni sama dag, kærir S, f.h. eigenda að Sundlaugavegi 16, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. maí 2007 að veita byggingarleyfi fyrir steinsteyptum tvöföldum bílskúr með torfi á þaki í norðvesturhorni lóðar nr. 13 við Hraunteig í Reykjavík.  Borgarráð staðfesti hina kærðu ákvörðun á fundi sínum hinn 16. maí 2007.
 

Kærendur gera þá kröfu að úrskurðað verði til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda.  Jafnframt verður að skilja kæruna svo að farið sé fram á að umrætt byggingarleyfi verði fellt úr gildi.

Úrskurðarnefndinni hafa borist andmæli byggingarleyfishafa og greinargerð Reykjavíkurborgar og þykir málið nú nægilega upplýst til að taka það til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Málavextir:  Hinn 13. mars 2001 var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa umsókn um byggingarleyfi fyrir steinsteyptum tvöföldum bílskúr með torfi á þaki í norðvesturhorni lóðar nr. 13 við Hraunteig.  Var afgreiðslu málsins frestað og það næst tekið fyrir á fundi hinn 3. apríl 2001 og því vísað til Borgarskipulags Reykjavíkur til ákvörðunar um grenndarkynningu.  Ekki kom til þess að málið yrði grenndarkynnt, þar sem unnið var að deiliskipulagi fyrir syðri hluta Teigahverfis á sama tíma, en innan þess svæðis eru lóðir kærenda og lóð nr. 13 við Hraunteig.  Drög að deiliskipulagstillögu fyrir svæðið voru í kynningu frá 10. júní 2001 til 10. júlí s.á. og var tillaga að deiliskipulagi auglýst frá 14. nóvember 2001 til 31. desember 2001.  Engar athugasemdir bárust frá kærendum máls þessa á kynningartíma deiliskipulagsins, en fyrir gerð þess hafði Borgarskipulagi Reykjavíkur borist bréf eins eigenda fasteignarinnar að Sundlaugavegi 16, dags. 17. apríl 2001, þar sem byggingu bílskúrs á lóð nr. 13 við Hraunteig var mótmælt.

Hinn 2. júlí 2002 var deiliskipulag Teigahverfis samþykkt í borgarráði Reykjavíkur og auglýsing um gildistöku þess birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 16. ágúst 2002.  Fól tillagan m.a. í sér að gert væri ráð fyrir byggingarreit fyrir bílskúr í norðvesturhorni lóðarinnar nr. 13 við Hraunteig á mörkum lóðarinnar nr. 16 við Sundlaugaveg.

Á fundi skipulags- og umferðanefndar hinn 11. febrúar 2002 var lagt fram fyrrgreint bréf eins eigenda að Sundlaugavegi 16 frá 17. apríl 2001 og eftirfarandi bókað:  „Svarað með bréfi lögfræði og stjórnsýslu 11. febrúar 2002“. 

Hinn 10. september 2002 var fyrrgreind umsókn um byggingarleyfi tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa og hún samþykkt.  Borgarráð samþykkti afgreiðsluna á fundi sínum hinn 17. september 2002.  Með bréfi, dags. 10. mars 2003, til skrifstofu skipulags- og byggingarsviðs eru andmæli við byggingu bílskúrs að Hraunteig 13 ítrekuð. 

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 10. maí 2007 var tekin fyrir umsókn um endurnýjun á áður veittu byggingarleyfi og var afgreiðslu málsins frestað þar sem samþykki lóðarhafa aðlægra lóða vantaði.  Hinn 15. maí 2007 var málið tekið fyrir að nýju og umsókn samþykkt og talið að hún samræmdist ákvæðum laga nr. 73/1997.

Hafa kærendur kært veitingu byggingarleyfisins eins og að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Kærendur benda á að umdeild bygging liggi að suðurmörkum lóðar þeirra og muni staðsetning verða u.þ.b. að miðju lóðarinnar, en lóðir við Hraunteig og Sundlaugaveg standist ekki á.  Telja kærendur að um fjögurra metra hár bílskúr á lóðamörkum, þar sem hæðarmunur sé um einn metri, muni valda verulegri skerðingu á útsýni og birtu í suðurgarði þeirra.  Réttur byggingarleyfishafa til að byggja bílskúr sé virtur en það eigi ekki að ganga á rétt kærenda til að njóta gróðurs og garðs síns í sól og birtu.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Borgaryfirvöld gera þá kröfu að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella að hin kærða ákvörðun standi óhögguð.  Um sé að ræða endurnýjun á áður samþykktu byggingarleyfi sem sé óbreytt og aldrei hafi verið kært á sínum tíma.  Kærufrestir séu því löngu liðnir.  Engir hagsmunir séu nú fyrir kærendur að fá byggingarleyfið fellt úr gildi sem ekki hafi áður verið fyrir hendi. 

Verði ekki fallist á frávísun af þessum sökum sé á því byggt að staðfesta beri samþykkt byggingarfulltrúa þar sem umrædd byggingarleyfisumsókn sé í samræmi við samþykkt deiliskipulag Teigahverfis.  Tillagan hafi verið auglýst og hvorki hafi borist athugasemdir eða kæra vegna skipulagsins frá kærendum.

Reykjavíkurborg fellst á að hin nýja bygging muni hafa einhver áhrif á lóð kærenda en ekki meiri en búast megi við í þéttbýlli miðborg (sic) og sem íbúar geti gert ráð fyrir.  Hafi öll málsmeðferð verið í samræmi við skipulags- og byggingarlög.

Málsrök byggingarleyfishafa:  Gerð er sú krafa að kæru verði vísað á bug.  Vísað er til þess að samþykkt deiliskipulag af svæðinu geri ráð fyrir bílskúrum á umræddum stað og hafi það ráðið nokkru um kaup byggingarleyfishafa á eigninni að Hraunteigi 13.  Gróflega sé því brotið á rétti hans verði ákvörðun borgarráðs í máli þessu virt að vettugi.

Að lokum er bent á að ranglega sé farið með staðsetningu bílskúranna í kæru til úrskurðarnefndarinnar.  Gert sé ráð fyrir því að þeir liggi að lóðarmörkum en ekki að miðju lóðar kærenda.

Niðurstaða:  Í máli þessu er þess krafist að hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík verði felld úr gildi.  Kærendur styðja kröfu sína fyrst og fremst þeim rökum að umdeild bygging raski grenndarhagsmunum þeirra.  Hefur Reykjavíkurborg sett fram kröfu um frávísun málsins þar sem kæra hafi borist að liðnum kærufresti en ella er þess krafist að ákvörðun byggingarfulltrúa verði staðfest.

Byggingarleyfi það er samþykkt var á fundi borgarráðs hinn 17. september 2002 er fallið úr gildi skv. ákvæðum 1. mgr. 45. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 þar sem framkvæmdir við heimilaða byggingu hófust ekki innan 12 mánaða frá útgáfu þess.  Ákvörðun sú er tekin var á fundi byggingarfulltrúa hinn 15. maí sl., og mál þetta varðar, var ný stjórnvaldsákvörðun og var því kærufrestur ekki liðinn skv. 5. mgr. 8. gr. tilv. laga er kæra barst úrskurðarnefndinni.  Verður málinu af þeim sökum ekki vísað frá nefndinni.

Í gildi er deiliskipulag fyrir Teigahverfi í Reykjavík sem tekur m.a. til lóðar byggingarleyfishafa og kærenda og er það bindandi fyrir stjórnvöld og borgara, sbr. 2. mgr. greinar 6.4 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.  Samkvæmt deiliskipulagsskilmálum fyrir svæði 2 er gert ráð fyrir byggingarreitum fyrir bílskúra þar sem aðstæður leyfa og er almennt miðað við að hámarksstærð fyrir tvöfaldan bílskúr sé 7,5×7,5m.  Um hæðir bílskúra er vísað til greinar 113.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998.  Heimilt er skv. skilmálum að víkja um 10% frá byggingarreitum bílskúra og stærð þeirra, ef þörf þykir, með samþykki meðeigenda og lóðarhafa aðliggjandi lóða.  Á skipulagsuppdrættinum er markaður byggingarreitur fyrir bílskúr í norðvesturhorni lóðarinnar nr. 13 að Hraunteig og liggur hann að suðurmörkum lóðar nr. 16 við Sundlaugaveg.

Af fyrirliggjandi gögnum málsins verður ráðið að umdeilt byggingarleyfi sé í samræmi við gildandi deiliskipulag á svæðinu sem bindandi er fyrir borgarana eins og fyrr greinir.  Verða íbúar skipulagssvæðis að sætta sig við framkvæmdir sem stoð eiga í skipulagi sem ekki hefur verið hnekkt, en geta eftir atvikum átt bótarétt skv. 33. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 valdi framkvæmd skipulagsins þeim tjóni.

Með hliðsjón af framangreindu og þar sem ekki liggja fyrir aðrir annmarkar er leitt gætu til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar er kröfu kærenda í máli þessu hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. maí 2007 um veitingu byggingarleyfis fyrir byggingu bílskúrs á lóðinni nr. 13 við Hraunteig í Reykjavík.

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

______________________________     _______________________________
Ásgeir Magnússon                              Þorsteinn Þorsteinsson

46/2007 Helgafellsbraut

Með

Ár 2007, föstudaginn 15. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 46/2007, kæra 19 íbúa og eigenda fasteigna við Álafossveg og Brekkuland í Mosfellsbæ á leyfi skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar til framkvæmda í og við vegstæði væntanlegs Helgafellsvegar án framkvæmdaleyfis sem fram kemur í bréfi frá 15. maí 2007 svo og á heimild til framkvæmda á bökkum Varmár við gömlu ullarverksmiðjuna að Álafossi.  

Í málinu er nú til bráðabirgða kveðinn upp svofelldur

úrskurður
um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 15. maí 2007, sem barst nefndinni hinn 22. sama mánaðar, kærir Katrín Theodórsdóttir hdl., f.h. 19 íbúa og eigenda fasteigna við Álafossveg og Brekkuland í Mosfellsbæ, leyfi skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar til framkvæmda í og við vegstæði væntanlegs Helgafellsvegar án framkvæmdaleyfis sem fram kemur í bréfi frá 15. maí 2007 svo og heimild til framkvæmda á bökkum Varmár bak við gömlu ullarverksmiðjuna að Álafossi.

Krefjast kærendur þess að heimildir þær til framkvæmda sem kæran tekur til verði metnar ólögmætar.  Þá krefjast kærendur þess jafnframt að úrskurðað verði til bráðabirgða um stöðvun allra framkvæmda sem hafnar hafi verið á og við vegstæði væntanlegrar tengibrautar og á bökkum Varmár við ullarverksmiðjuna þar til ákvörðun nefndarinnar í málinu liggi fyrir.   

Úrskurðarnefndinni hafa borist greinargerð og gögn frá Mosfellsbæ um kæruefnið.  Er þess krafist af hálfu bæjaryfirvalda að öllum kröfum kærenda í málinu veði hafnað.  Er málið nú tekið til úrskurðar um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er í kærunni lýst aðdraganda málsins og ítarleg grein gerð fyrir málsástæðum og lagarökum er kærendur telja að leiða eigi til þess að hinar kærðu heimildir Mosfellsbæjar til framkvæmda verði metnar ólögmætar.  Verður nánar fjallað um þau sjónarmið við efnisúrlausn málsins.

Kröfu sína um stöðvun framkvæmda byggja kærendur á því að ekki hafi verið gefið út leyfi fyrir þeim framkvæmdum sem fari fram á umræddu svæði en framkvæmdirnar séu leyfisskyldar skv. 27. gr. laga nr. 73/1997 sbr. 11. gr. laga 135/1997.  Krafa kærenda sé reist á því að óheimilt sé að hefja framkvæmdir sem séu háðar framkvæmdaleyfi fyrr en að fengnu leyfi viðkomandi sveitarstjórnar.  Ef framkvæmd sem falli undir 27. gr. skipulags- og byggingarlaga sé hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni geti kærendur með heimild í 6. mgr. 8. gr. laga nr. 73/1997 krafist stöðvunar framkvæmda.  Í 6. mgr. greinar 9.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 sé tekið fram að framkvæmdaleyfi veiti ekki heimild til framkvæmda sem brjóti í bága við skipulag, ákvæði laga og reglugerða eða rétt annarra. 

Kærendur telji nauðsynlegt að allar framkvæmdir verði stöðvaðar til að forða frekari röskun á svæðinu.  Þeir byggi kröfu sína á því að framkvæmdirnar geti haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir lífríki, landslag og landslagsheild Álafosskvosarinnar.  Vísað sé að öðru leyti til málsástæðna og lagaraka um efni málsins.
 
Kröfur og sjónarmið Mosfellsbæjar:  Í greinargerð Mosfellsbæjar er gerð ítarleg grein fyrir málsástæðum og lagarökum bæjarins í málinu.  Er því m.a. haldið fram að kæran sé að hluta til byggð á misskilningi þar sem hinar umdeildu framkvæmdir lúti að nokkru að nauðsynlegri endurnýjun gamalla fráveitulagna.  Þá sé álitamál hvort yfirhöfuð þurfi framkvæmdaleyfi vegna lagnanna.

Hvað varði kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda sé vísað til fyrri úrlausna úrskurðarnefndarinnar, en af þeim megi m.a. ráða að ekki sé fallist á kröfur um stöðvun framkvæmda þegar framkvæmdir sem kæra lúti að feli ekki í sér röskun á hagsmunum sem réttlæti stöðvun framkvæmda en í því sambandi skipti máli hvort unnt sé að færa framkvæmdasvæði til fyrra horfs eða ekki.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um heimildir er Mosfellsbær hefur veitt til framkvæmda við veitulagnir er tengjast hinu nýja Helgafellshverfi auk heimilda til endurnýjunar gamalla fráveitulagna er liggja skammt austan Varmár nærri svonefndri Álafosskvos.  Ekki hafa verið gefin út framkvæmdaleyfi samkvæmt 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 fyrir umræddum framkvæmdum enda telja bæjaryfirvöld þær ekki háðar slíkum leyfum.

Samkvæmt 8. mgr. nefndrar 27. greinar er umsækjanda um framkvæmdaleyfi og hlutaðeigandi sveitarstjórn heimilt að skjóta máli til úrskurðarnefndarinnar leiki vafi á því hvort framkvæmdir séu háðar ákvæðum greinarinnar um framkvæmdaleyfi.  Verður að skilja ákvæði þetta svo að aðrir en umsækjandi um framkvæmdaleyfi eða hlutaðeigandi sveitarstjórn geti ekki átt aðild að máli til úrlausnar um vafa um það hvort framkvæmd sé háð framkvæmdaleyfi og verður því ekki skorið úr því álitaefni í máli þessu, jafnvel þótt kröfugerð kærenda þætti gefa tilefni til þess.

Eftir stendur að viðurkennt er að Mosfellsbær hefur heimilað umræddar framkvæmdir, a.m.k. að hluta til, og þarf úrskurðarnefndin að taka afstöðu til þess hvort fyrir liggi formleg lokaákvörðun bæjaryfirvalda um framkvæmdirnar er sætt geti kæru til úrskurðarnefndarinnar.  Verður afstaða tekin til þess álitaefnis við frekari meðferð málsins.

Samkvæmt framansögðu eru áhöld um það hvort hinar umdeildu framkvæmdir styðjist við kæranlega ákvörðun sem er skilyrði þess að úrskurðarnefndin geti tekið ákvörðun um stöðvun framkvæmda til bráðbirgða.  Þar að auki eru framkvæmdirnar þess eðlis að vandséð er að þær raski til muna lögvörðum hagmunum kærenda. 

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður ekki fallist á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda í og við vegstæði væntanlegs Helgafellsvegar og við endurnýjun fráveitulagna meðfram Varmá í Mosfellsbæ er hafnað.

 

_______________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

___________________________    ____________________________
  Ásgeir Magnússon                               Þorsteinn Þorsteinsson
                                                                            

 

85/2005 Birnustaðir

Með

Ár 2007, fimmtudaginn 14. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 86/2005, kæra á frávísun byggingarnefndar Súðavíkurhrepps frá 6. október 2005 á erindi eigenda fasteignar í landi Birnustaða í Súðavíkurhreppi varðandi girðingarframkvæmdir og gerð hliðs í grennd við nefnda fasteign. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. nóvember 2005, er barst nefndinni hinn 10. sama mánaðar, kæra M og Þ fyrir sína hönd og G og Á, eigenda fasteignar í landi Birnustaða, Súðavíkurhreppi, frávísun byggingarnefndar Súðavíkurhrepps frá 6. október 2005 á erindi varðandi girðingarframkvæmdir og gerð hliðs í grennd við nefnda fasteign.  Skilja verður málskot kærenda svo að krafist sé ógildingar á hinni kærðu afgreiðslu byggingarnefndar Súðavíkurhrepps. 

Málsatvik og rök:  Kærendur máls þessa munu hafa sent erindi til byggingarnefndar Súðavíkurhrepps á vordögum 2005 í tilefni af girðingarframkvæmdum og gerð hliðs af hálfu eigenda Birnustaða í grennd við fasteign kærenda.  Á fundi sínum hinn 20. maí 2005 afgreiddi nefndin erindið með svofelldri bókun:  „Rætt um bréf og myndir Margrétar og Þóru Karlsdætra vegna lóðamála og ýmissa annarra mála sumarhúss hennar í landi Birnustaða.  Byggingarnefnd er sammála um að þessi málefni heyri ekki undir byggingarnefnd og landeigendur verði að leysa sín á milli.“   Virðist kærendum ekki hafa verið gert kunnugt um þessa afgreiðslu.  Var erindi kærenda tekið fyrir að nýju á fundi byggingarnefndar hinn 6. október 2005 þar sem fyrri afstaða var ítrekuð og byggingarfulltrúa falið að kynna aðilum þá niðurstöðu og skutu kærendur þessari afgreiðslu byggingarnefndar til úrskurðarnefndarinnar. 

Byggja kærendur á því að með umdeildum framkvæmdum sé gengið á þinglýstan umferðarrétt þeirra að umræddri fasteign í landi Birnustaða og umsaminn rétt til bílastæða og rýmis til að snúa við bílum.  Núverandi eigendur Birnustaða hafi ráðist í nefndar framkvæmdir án samráðs við kærendur og engin grenndarkynning hafi farið fram af hálfu opinberra aðila vegna þeirra. 

Ekki hafa borist gögn frá Súðavíkurhreppi og hefur sveitarfélagið ekki tjáð sig um kæruefnið.

Niðurstaða:  Af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að kærendur hafi leitað til byggingarnefndar Súðavíkurhrepps vegna uppsetningar girðingar og hliðs í landi Birnustaða.  Ekki liggur fyrir í málinu hve há umdeild girðing er og hvort hún sé á mörkum lóðar kærenda og Birnustaðalands. 

Ekki hafa verið færð fram rök fyrir hinni kærðu afstöðu byggingaryfirvalda Súðavíkurhrepps þess efnis að umdeildar framkvæmdir heyri ekki undir nefndina eða sú afstaða með öðrum hætti skýrð svo sem skylt er samkvæmt 2. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Þykir þessi annmarki á afgreiðslu erindis kærenda þess eðlis að leiða eigi til ógildingar á frávísun málsins frá byggingarnefnd hreppsins. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Frávísun byggingarnefndar Súðavíkurhrepps frá 6. október 2005 á erindi varðandi girðingarframkvæmdir og gerð hliðs í grennd við nefnda fasteign er felld úr gildi.

 

 

__________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

__________________________      ____________________________
Ásgeir Magnússon                 Þorsteinn Þorsteinsson

23/2007 Laugarvegur

Með

Ár 2007, fimmtudaginn 31. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 23/2007, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur um breytt deiliskipulag Laugavegar 95-99 og á ákvörðun skipulagsráðs frá 7. febrúar 2007 um að heimila byggingu steinsteypts húss á lóðinni nr. 99 við Laugaveg, ásamt því að byggja við og ofan á húsin að Laugavegi 95 og 97 og ofan á núverandi hús að Laugavegi  99.

 Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður
um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 2. mars 2007, er barst nefndinni hinn 14. sama mánaðar, kæra G og E, f.h. Húsfélagsins Hverfisgötu 108 / Snorrabraut 22, Reykjavík ákvarðanir borgaryfirvalda varðandi uppbyggingu á horni Laugavegar og Snorrabrautar.  Skilja verður kæruna á þann veg að annars vegar sé kærð ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 10. ágúst 2006 um breytt deiliskipulag Laugavegar 95-99 ásamt síðari breytingu og hins vegar skipulagsráðs frá 7. febrúar 2007 um að heimila byggingu þriggja hæða steinsteypts húss á lóðinni nr. 99 við Laugaveg auk inndreginnar fjórðu hæðar og geymslukjallara ásamt því að byggja við og ofan á húsin að Laugavegi 95 og 97 og ofan á núverandi hús að Laugavegi  99. 

Gerir kærandi þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi.  Með bréfi, dags. 11. maí 2007, setti kærandi einnig fram kröfu um að kveðinn yrði upp bráðabirgðaúrskurður um stöðvun framkvæmda þar til niðurstaða lægi fyrir í kærumálinu.  Verður krafan um stöðvun framkvæmda nú tekin til úrskurðar.

Málsatvik og rök:  Á fundi skipulagsráðs hinn 17. maí 2006 var samþykkt að auglýsa tillögu að breyttu deiliskipulagi staðgreinireits 1.174.1 er tók til lóðanna 95-99 við Laugaveg og lóðarinnar nr. 24 við Snorrabraut.  Auglýsingartími var frá 7. júní til og með 19. júlí 2006 og bárust engar athugasemdir.  Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 28. júlí 2006 var tillagan samþykkt.  Skipulagsstofnun staðfesti með bréfi, dags. 15. ágúst 2006, að stofnunin gerði ekki athugasemdir við málsmeðferðina og birtist auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda hinn 20. nóvember 2006. 

Deiliskipulagsbreytingin fól m.a. í sér heimildir til að byggja eina hæð ofan á húsin nr. 95-99 við Laugaveg og að byggja fjögurra hæða hús og kjallara á lóðinni nr. 99 við Laugaveg, við hlið þess sem þar er fyrir.          

Á fundi skipulagsráðs hinn 1. desember 2006 var lagt fram erindi varðandi sameiningu lóðanna nr. 95, 97 og 99 við Laugaveg og nr. 24 við Snorrabraut og var fært til bókar að ekki væru gerðar athugasemdir við að unnin yrði tillaga að breyttu  deiliskipulagi þessa efnis og á fundi skipulagsráðs hinn 13. sama mánaðar var hún samþykkt með vísan til 12. gr. samþykktar fyrir skipulagsráð.  

Á fundi skipulagsráðs hinn 7. febrúar 2007 var samþykkt að heimila byggingu þriggja hæða steinsteypts húss á lóðinni nr. 99 við Laugaveg auk inndreginnar fjórðu hæðar og geymslukjallara ásamt því að byggja við og ofan á húsin að Laugavegi 95 og 97 og ofan á núverandi hús að Laugavegi  99.  Borgarráð staðfesti afgreiðslu skipulagsráðs á fundi sínum þann 8. febrúar 2007.

Af hálfu kæranda er vísað til þess að hann hafi enga vitneskju haft um hið kærða deiliskipulag fyrr en honum hafi borist bréf frá byggingarleyfishafa í desember árið 2006 þess efnis að framkvæmdir væru við það að hefjast.  Allt virðist hafa verið gert til að leyna kæranda breytingunum þrátt fyrir loforð og fyrirheit um að samráð yrði við hann haft. Hið kærða byggingarleyfi hafi í för með sér verulega neikvæð grenndaráhrif og gangi freklega á rétt kæranda þar sem byggingarnar muni skyggja á sól í garði og íbúðum hússins.  

Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að kröfum kæranda verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem þær séu of seint fram komnar.  Kæra  hafi borist hinn 14. mars 2007, en auglýsing um gildistöku hins breytta deiliskipulags hafi birst í B-deild Stjórnartíðinda hinn 5. janúar 2007.  Ljóst megi því vera að kærufrestur vegna breytingar á deiliskipulagi hafi verið löngu liðinn.  Hið kærða byggingarleyfi sé í fullu samræmi við samþykkt deiliskipulag.  

Verði ekki fallist á frávísun málsins sé byggt á því að málsmeðferð hafi verið í samræmi við skipulags- og byggingarlög og því beri að staðfesta hinar kærðu ákvarðanir.  Tillaga að breytingu á deiliskipulagi hafi verið auglýst í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga og hafi engar athugasemdir borist. 

Í ljósi alls ofangreinds og á grundvelli meginreglu 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, um að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar, telji Reykjavíkurborg einsýnt að hafna beri kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda.  Reykjavíkurborg ítreki þó þá afstöðu sína að kjósi byggingarleyfishafar að halda áfram með framkvæmdirnar, áður en efnisúrskurður liggi fyrir, geri þeir það á eigin ábyrgð og áhættu.
 
Byggingarleyfishafi mótmælir framkominni stöðvunarkröfu.  Byggingaráform á reit þeim sem vestastur sé hafi verið kynnt fyrir mörgum árum og engar breytingar gerðar.  Kærufrestur sé því liðinn.  Hvað varði hæð bygginga á reitnum þá hafi þær verið  kynntar í samræmi við lög og reglur.  Kærufrestur sé því liðinn, sbr. lokamálslið 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Á því sé byggt að byggingarleyfið sé í samræmi við skipulag.

Vísað sé til þess að framkvæmdir þær sem hafnar séu að Laugavegi 95-99 séu í  grunni hússins og því nokkrir mánuðir í það að ráðist verði í byggingu efstu hæðar þess.  Því sé ekki þörf á að stöðva framkvæmdir, að minnsta kosti ekki í bili.

Niðurstaða:  Ekki verður á þessu stigi tekin afstaða til þess hvort vísa eigi frá kröfum kæranda í málinu eða einstökum þáttum þess. Bíður það frekari meðferðar málsins.

Af málsgögnum sem nú liggja fyrir verður ekki ráðið að á hinum kærðu ákvörðunum séu slíkir annmarkar að líklegt sé að koma þurfi til ógildingar þeirra.  Þykja því ekki efni til að verða við kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda meðan málið er til frekari rannsóknar hjá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinum kærðu ákvörðunum er hafnað.

 

        ___________________________          
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________                            ____________________________
            Ásgeir Magnússon                                                            Þorsteinn Þorsteinsson       

 

51/2007 Dalsbraut

Með

Ár 2007, fimmtudaginn 14. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 51/2007, kæra á ákvörðunum skipulags- og byggingarfulltrúa Akureyrarbæjar frá 11. apríl, 2. maí og 30. maí 2007 um að veita byggingarleyfi fyrir niðurrifi tiltekinna mannvirkja á lóðunum nr. 1J og 1F við Dalsbraut, Akureyri ásamt leyfi til jarðvegsskipta að Gleráreyrum 1 og graftrarleyfi fyrir nýbyggingu að Gleráreyrum 4. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfum til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 29. maí og 6. júní 2007, er bárust nefndinni hinn 30. maí og 7. júní sama ár, kærir Hákon Stefánsson lögfr., f.h. Svefns og heilsu ehf., þær ákvarðanir skipulags- og byggingarfulltrúa Akureyrarbæjar frá 11. apríl 2007 að veita byggingarleyfi fyrir niðurrifi mannvirkja með fastanúmer 215-1354 á lóðinni nr. 1J við Dalsbraut, Akureyri og fyrir niðurrifi mannvirkja með fastanúmer 215-1357, 222-1198 og 224-4750 á lóðinni nr. 1F við Dalsbraut.  Þá eru kærðar ákvarðanir sama embættis frá 11. apríl, 2. maí og 30. maí 2007 um veitingu framkvæmdaleyfis fyrir jarðvegsskiptum vegna viðbyggingar við Glerártorg, Gleráreyrum 1, ásamt tilheyrandi bifreiðaplönum, að undanskildum þeim hluta lóðarinnar sem samkvæmt eldra skipulagi tilheyrði Dalsbraut 1I, heimild til niðurrifs mannvirkis með fastanúmer 222-1197 að Dalsbraut 1F, og graftrarleyfi fyrir nýbyggingu dekkjaverkstæðis að lóðinni að Gleráreyrum 4.  Bæjarstjórn Akureyrar staðfesti ákvarðanirnar frá 11. apríl og 2. maí hinn 8. maí og 22. maí 2007. 

Eins og frá er greint skaut kærandi tilteknum ákvörðunum skipulags- og byggingarfulltrúa Akureyrar frá 11. apríl, 2. maí og 30. maí 2007 til úrskurðarnefndarinnar með kæru, dags. 7. júní 2007, er ber málsnúmerið 53/2007.  Þar sem í báðum kærumálunum er deilt um leyfi fyrir framkvæmdum á sama svæði og byggt á sömu eða svipuðum rökum þykir rétt að sameina málið nr. 53/2007 hinu fyrra kærumáli sem er nr. 51/2007. 

Gerir kærandi þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi.  Jafnframt var gerð krafa um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða meðan málin væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.  Þykja málsatvik nú nægjanlega upplýst til þess að taka kærurnar til endanlegrar úrlausnar og verður því ekki tekin afstaða til framkominna stöðvunarkrafna. 

Málsatvik og rök:  Í febrúarmánuði 2007 samþykkti bæjarstjórn Akureyrar breytt deiliskipulag fyrir Gleráreyrar 1-10, Akureyri, sem er verksmiðjulóð sú sem Samband íslenskra samvinnufélaga hafði undir verksmiðjur sínar og nefndist í eldra skipulagi Dalsbraut 1.  Eru umdeild mannvirki innan skipulagssvæðisins.  Tók skipulagið gildi með gildistökuauglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 2. apríl sl.  Hefur kærandi máls þessa krafist ógildingar á nefndri skipulagsákvörðun í kæru til úrskurðarnefndarinnar með þeim rökum að skipulagsákvörðunin sé haldin ýmsum ógildingarannmörkum.  Er það kærumál nú til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. 

Skírskotar kærandi til þess að hin kærðu leyfi byggi á skipulagi sem hann hafi kært til úrskurðarnefndarinnar og telja verði ólögmætt og vísar til þeirra sjónarmiða er hann tefli fram í skipulagskærunni. 

Af hálfu Akureyrarbæjar er gerð krafa um frávísun málsins.  Ekki verði séð að hin kærðu leyfi snerti lögvarða hagsmuni kæranda enda liggi umræddar lóðir ekki að húshlutum eða lóðum hans.  Þá hafi hluti umdeildra mannvirkja þegar verið rifinn.  Hin kærðu niðurrifsleyfi varði ekki hið kærða deiliskipulag, enda séu leyfin í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag og framkvæmdaáform á svæðinu.  Umdeilt graftrarleyfi og leyfi til jarðvegsskipta breyti ekki ásýnd svæðisins og hafi engin áhrif á eignir kæranda. 

Byggingarleyfishafi allra lóða, að undanskilinni lóðinni að Gleráreyrum 4, bendir á að niðurrifi samkvæmt hinum kærðu leyfum sé nú að mestu lokið.  Ekki sé ljóst með hvaða hætti umdeild leyfi raski hagsmunum kæranda.  Virðist sem kærandi telji samkeppnishagsmunum sínum ekki vel borgið með fyrirhugaðri uppbyggingu á svæðinu og fallist ekki á niðurstöðu Hæstaréttar í málinu nr. 380/2006 um afmörkun lóða á svæðinu. 

Niðurstaða:  Að stjórnsýslurétti er það skilyrði aðildar að kærumáli að kærandi eigi einstaklegra og verulegra lögvarinna hagsmuna að gæta vegna kærðrar ákvörðunar eða að kæruaðild sé samkvæmt beinni lagastoð.  Hin kærðu leyfi fela aðeins í sér heimild til niðurrifs mannvirkja og jarðvegsframkvæmda, en telja verður að slíkar framkvæmdir séu almennt ekki til þess fallnar að hafa áhrif á einstaklega lögvarða hagsmuni eigenda nágrannaeigna. 

Með hliðsjón af eðli hinna kærðu leyfa og þar sem ekki liggur fyrir að umdeildar ákvarðanir gangi gegn einstaklegum, verulegum og lögvörðum hagsmunum kæranda með þeim hætti að hann eigi kæruaðild um þær, verður máli þessu vísað frá.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

___________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________        ______________________________
    Ásgeir Magnússon                         Þorsteinn Þorsteinsson

41/2007 Suðurströnd

Með

Ár 2007, fimmtudaginn 24. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Geirharður Þorsteinsson arkitekt og skipulagshönnuður.

Fyrir var tekið mál nr. 41/2007, kæra á ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarnesbæjar frá 8. mars 2007 um að rífa húsið við Suðurströnd 4, girða af svæðið og hefja þar jarðvinnu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 7. maí 2007, er barst nefndinni hinn 11. s.m., kærir Óskar Sigurðsson hrl., f.h. H, Steinavör 6, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarnesbæjar frá 8. mars 2007 að rífa húsið við Suðurströnd 4, girða af svæðið og hefja þar jarðvinnu.  Bæjarstjórn staðfesti greinda ákvörðun hinn 14. mars 2007.

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kveðinn verði upp bráðabirgðaúrskurður um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinni kærðu ákvörðun þar til niðurstaða liggi fyrir í kærumálinu. 

Málsatvik og rök:  Hinn 25. júní 2005 voru haldnar almennar kosningar um skipulag og landnotkun á Hrólfsskálamel og Suðurströnd á Seltjarnarnesi og hlaut svokölluð S-tillaga, sem gerði ráð fyrir gervigrasvelli við Suðurströnd og íbúðarbyggð við Hrólfsskálamel, meirihluta atkvæða bæjarbúa.  Fyrirfram hafði verið gert ráð fyrir að niðurstaða kosninganna væri bindandi gagnvart bæjaryfirvöldum.  Var síðan unnið að gerð deiliskipulagstillagna fyrir íbúðarbyggð á Hrólfsskálamel og Suðurströnd sem öðluðust gildi hinn 16. október 2006 og 4. janúar 2007.  Hefur kærandi máls þessa einnig kært þær ákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar.  Með úrskurðum úrskurðarnefndarinnar uppkveðnum í dag var kröfu kæranda um ógildingu deiliskipulags Hrólfskálamels og Suðurstrandar vísað frá úrskurðarnefndinni.   

Hinn 8. mars 2007 samþykkti skipulags- og mannvirkjanefnd að rífa húsið við Suðurströnd 4, girða af svæðið og hefja þar jarðvinnu.  Bæjarstjórn staðfesti greinda ákvörðun hinn 14. mars 2007.

Byggir kærandi kröfu sína á því að hin kærða framkvæmd eigi stoð í deiliskipulagi sem sé ólögmætt.  Skipulagið stangist á við niðurstöður bindandi kosninga í sveitarfélaginu og sé auk þess haldið ýmsum öðrum annmörkum sem tíundaðir séu í kærum kæranda vegna umræddra deiliskipulagsákvarðana.  Ljóst sé að kærandi hafi hagsmuna að gæta í máli þessu enda búi hann í næsta nágrenni við umrætt svæði.

Kröfu sína um stöðvun framkvæmdarinnar rökstyður kærandi á þann veg að hún sé undanfari byggingar og því hluti af frekari framkvæmdum.  Ljóst sé að hagsmunir kæranda af stöðvun framkvæmdarinnar séu mun meiri en sveitarfélagsins.  Þá liggi einnig fyrir að sveitarfélagið muni ekki bíða neitt tjón við slíka frestun.

Seltjarnarnesbær krefst frávísunar málsins en ella að kröfu kæranda verði hafnað.  Vísa beri málinu frá þar sem kæran eigi ekki undir úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála, skv. 1. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Kærandi byggi ekki á því að hið kærða leyfi sé í andstöðu við ákvæði skipulags- og byggingarlaga.  Eingöngu sé byggt á að deiliskipulagið sé ekki í samræmi við niðurstöðu bindandi kosninga og að brotið hafi verið gegn 5. mgr. 104. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998.  Úrskurðarnefndinni hafi ekki verið falið að úrskurða um brot gegn ákvæðum sveitarstjórnarlaga heldur fari félagsmálaráðuneytið með úrskurðarvald um slík mál samkvæmt 103. gr. sveitarstjórnarlaga.  Því beri að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni.

Einnig sé á því byggt að kærandi eigi ekki einstaklegra lögákveðinna hagsmuna að gæta, skv. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Í því máli sem hér um ræði verði ekki séð í hverju hinir einstaklegu lögákveðnu hagsmunir kæranda séu fólgnir enda geri hann ekki grein fyrir þeim í kæru sinni.  Þá búi kærandi í töluverðri fjarlægð frá Hrólfsskálamel.

Verði máli þessu ekki vísað frá sé vísað til þess að hið kærða leyfi sé fullkomlega lögmætt og í samræmi við gildandi deiliskipulag svæðisins sem geri ráð fyrir niðurrifi umrædds húss en það sé í samræmi við bindandi kosningar sem fram hafi farið hinn 25. júní 2005.   

Niðurstaða:  Eins og fyrr greinir var með úrskurði úrskurðarnefndarinnar uppkveðnum fyrr í dag vísað frá úrskurðarnefndinni kröfu kæranda um ógildingu deiliskipulags Hrólfsskálamels.  Byggðist sú niðurstaða nefndarinnar á því að kærandi ætti ekki lögvarða hagsmuni því tengda að fá úrlausn um kæruefnið, svo sem áskilið er, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Af sömu ástæðu telst kærandi ekki eiga lögvarða hagsmuni af byggingu einstakra húsa eða mannvirkja eða öðrum framkvæmdum á svæðinu sem stoð eiga í deiliskipulagi þess.  Ber því að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

                                                ___________________________         
                                                            Hjalti Steinþórsson

_____________________________                  ____________________________
            Ásgeir Magnússon                                                  Geirharður Þorsteinsson       

 

32/2007 Suðurströnd

Með

Ár 2007, fimmtudaginn 24. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Geirharður Þorsteinsson arkitekt og skipulagshönnuður.

Fyrir var tekið mál nr. 32/2007, kæra á ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar  Seltjarnarnesbæjar frá 8. febrúar 2007 um að veita byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við Íþóttamiðstöðina við Suðurströnd.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 20. apríl 2007, er barst nefndinni sama dag, kærir Óskar Sigurðsson hrl., f.h. H , Steinavör 6, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Seltjarnarnesbæjar að veita byggingarleyfi fyrir byggingu heilsuræktarstöðvar við Suðurströnd á Seltjarnarnesi.  Skilja verður málatilbúnað kæranda á þann veg að kæran taki til ákvörðunar skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarnesbæjar frá 8. febrúar 2007, sem staðfest var í bæjarstjórn hinn 14. sama mánaðar, um að veita byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við Íþróttamiðstöðina við Suðurströnd, Seltjarnarnesi, enda sætir afgreiðsla byggingarfulltrúa á byggingarleyfi samkvæmt 44. gr. á grundvelli staðfestrar samþykktar skipulags- og mannvirkjanefndar ekki kæru til úrskurðarnefndarinnar. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kveðinn verði upp bráðabirgðaúrskurður um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinni kærðu ákvörðun þar til niðurstaða liggi fyrir í kærumálinu. 

Málsatvik og rök:  Hinn 25. júní 2005 voru haldnar almennar kosningar um skipulag og landnotkun á Hrólfsskálamel og Suðurströnd á Seltjarnarnesi og hlaut svokölluð S-tillaga, sem gerði ráð fyrir gervigrasvelli við Suðurströnd og íbúðarbyggð við Hrólfsskálamel, meirihluta atkvæða bæjarbúa.  Fyrirfram hafði verið gert ráð fyrir að niðurstaða kosninganna væri bindandi gagnvart bæjaryfirvöldum.  Var síðan unnið að gerð deiliskipulagstillagna fyrir Hrólfsskálamel og Suðurströnd sem öðluðust gildi hinn 16. október 2006 og 4. janúar 2007.  Kærandi máls þessa kærði einnig þær ákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem með úrskurðum uppkveðnum fyrr í dag vísaði málunum frá nefndinni.    

Hinn 8. febrúar 2007 samþykkti skipulags- og mannvirkjanefnd að veita byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við Íþróttamiðstöðina við Suðurströnd, Seltjarnarnesi.  Bæjarstjórn staðfesti greinda ákvörðun hinn 14. febrúar 2007. 

Byggir kærandi kröfu sína á því að hin kærða framkvæmd byggi á deiliskipulagi sem sé ólögmætt.  Skipulagið stangist á við niðurstöður bindandi kosninga í sveitarfélaginu og sé auk þess haldið ýmsum öðrum annmörkum sem tíundaðir séu í kærum kæranda vegna umræddra deiliskipulagsákvarðana.  Ljóst sé að kærandi hafi hagsmuna að gæta í máli þessu enda búi hann í næsta nágrenni við umrætt svæði.

Því sé haldið fram að kæranda hafi ekki verið kunnugt um hið kærða byggingarleyfi fyrr en þann dag er kæra barst úrskurðarnefndinni en þá hafi hann tekið eftir því að mótauppsláttur væri hafinn í grunni byggingarinnar.  

Af hálfu Seltjarnarnesbæjar er krafist frávísunar málsins en ella að kröfu kæranda verði hafnað.  Vísa beri málinu frá þar sem kærandi eigi ekki einstaklegra lögvarinna hagsmuna að gæta varðandi hina kærðu ákvörðun.  Í engu þeirra kærumála er kærandi hafi sett fram vegna málsins hafi hann gert grein fyrir því hvaða efnislegu sjónarmið eða hagsmunir búi að baki kærunum eða hverjir raunverulegir hagsmunir hans séu.    Þá sé og krafa um frávísun málsins byggð á því að kærandi hafi ekki gert athugasemdir við tillögu að deiliskipulagi svæðis þess er hin umdeilda viðbygging rísi á og teljist því hafa samþykkt hana, sbr. áskilnað í auglýsingum þar að lútandi.  Réttur kæranda til að gera athugasemdir við byggingar sem byggðar séu í samræmi við samþykkt deiliskipulag hafi því fallið niður fyrir tómlæti hans við að gera athugasemdir við deiliskipulagstillöguna.

Verði máli þessu ekki vísað frá úrskurðarnefndinni sé því haldið fram að hið kærða byggingarleyfi samræmist gildandi deiliskipulagi og sé því fullkomlega lögmætt.  Bent sé að kærandi byggi ekki á því að hið kærða byggingarleyfi brjóti með neinum hætti í bága við deiliskipulagið.      

Niðurstaða:  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er frestur til að skjóta máli til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra á.  Hin kærða ákvörðun var tekin á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarnesbæjar hinn 8. febrúar 2007 og staðfest í bæjarstjórn 14. sama mánaðar.  Gaf byggingarfulltrúi út leyfi samkvæmt 44. gr. skipulags- og byggingarlaga og áritaði teikningar hinn 15. febrúar 2007 í samræmi við samþykktina.  Kæra í málinu er dagsett 20. apríl 2007 og kveðst kærandi fyrst hafa fengið vitneskju um byggingarleyfið þann dag.

Fyrir úrskurðarnefndinni liggur bréf, dags. 8. mars 2007, er lögmaður kæranda ritaði nefndinni vegna bráðabirgðaúrskurðar er gengið hafði í fyrra máli kæranda um takamarkað byggingarleyfi fyrir jarðvegsframkvæmdum til undirbúnings byggingar viðbyggingar þeirra sem um ræðir í máli þessu.  Í bréfinu vísaði lögmaðurinn til þess að hinn 8. febrúar 2007 hafi skipulags- og mannvirkjanefnd samþykkt umsókn um leyfi til byggingar heilsuræktarstöðvar við Íþróttamiðstöðina á Suðurströnd en leyfi fyrir þeirri bygginu er kæruefni máls þessa.  Bréf lögmanns kæranda ber með sér að kæranda hafi verið kunnugt um efni þess enda var honum sent afrit af því.  Mátti kæranda og vera kunnugt um að bæjarstjórn myndi hafa staðfesta samþykkt skipulags- og mannvirkjanefndar fljótlega eftir að hún var gerð.  Verður við það að miða að kæranda hafi verið kunnugt, eða mátt vera kunnugt, um hina kærðu ákvörðun er lögmaður hans ritaði bréfið til úrskurðarnefndarinnar hinn 8. mars 2007 eða á allra næstu dögum þar á eftir.  Var kærufestur því liðinn er kærandi skaut málinu til úrskurðarnefndarinnar hinn 20. apríl 2007 og ber því að vísa kærumáli þessu frá úrskurðarnefndinni, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Ekki þykir koma til álita að beita undanþáguákvæði 1. tl. 28. gr. stjórnsýslulaga þegar litið er til þess að kærandi hefur áður skotið fjórum málum til úrskurðarnefndarinnar og nýtur lögmannsaðstoðar við málareksturinn.  Þá þykir undanþáguákvæði 2. tl. 28. gr. stjórnsýslulaga ekki eiga við í málinu.

Samkvæmt því sem að framan er rakið verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

                                              ___________________________         
                                                         Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________                  ____________________________
            Ásgeir Magnússon                                               Geirharður Þorsteinsson