Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

72/2005 Hamrahlíð

Ár 2005, föstudaginn 4. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ásgeir Magnússson héraðsdómari.

Fyrir var tekið mál nr. 72/2005, kæra fjögurra íbúa og eigenda fasteigna við Stigahlíð í Reykjavík á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 22. september 2005 um að veita takmarkað byggingarleyfi til að vinna jarðvinnu á lóðinni nr. 10 við Hamrahlíð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 29. september 2005, er barst nefndinni sama dag, kærir Hróbjartur Jónatansson hrl., f.h. Ó, Stigahlíð 50, Ó og Þ, Stigahlíð 56 og H Stigahlíð 60, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að veita takmarkað byggingarleyfi til að vinna jarðvinnu á lóðinni nr. 10 við Hamrahlíð.  Kefjast kærendur þess í kærunni að framkvæmdir verði stöðvaðar en jafnframt hefur lögmaður þeirra áréttað síðar í bréfi til úrskurðarnefndarinnar að einnig sé gerð krafa um ógildingu hins kærða byggingarleyfis.

Málsatvik og rök:  Kærendur í máli þessu höfðu áður, með bréfi dags. 10. ágúst 2005, kært ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 7. júlí 2005 um breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar nr. 10 við Hamrahlíð, sem er lóð Menntaskólans við Hamrahlíð.  Birtist auglýsing um gildistöku hins breytta deiliskipulags í B-deild Stjórnartíðinda þann  29. ágúst 2005.  Er það mál til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Hinn 22. september 2005 veitti byggingarfulltrúinn í Reykjavík leyfi það sem um er deilt í máli þessu.  Ber umrætt leyfi yfirskriftina Hamrahlíð 10, takmarkað byggingarleyfi, en síðan segir svo í leyfisbréfinu:  „Með vísan til ákvæða 44. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. einnig 13. og 14. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 og samþykkt á byggingarleyfisumsókn nr BN032554, sem er í vinnslu hjá Byggingarfulltrúanum í Reykjavík er Menntamálaráðuneytinu kt. 460269-2969 veitt takmarkað byggingarleyfi til þess að vinna jarðvinnu á lóðinni nr. 10 við Hamrahlíð.  Öll framkvæmdin skal unnin eftir samþykktum aðal- og séruppdráttum, byggingar- og verklýsingum og gildandi lögum og reglugerðum um skipulags- og byggingarmál.“  Síðan er í bréfinu getið byggingarstjóra verksins og tekið fram að þetta takmarkaða byggingarleyfi falli sjálfkrafa úr gildi við útgáfu á endanlegu byggingarleyfi.

Af hálfu kærenda er því haldið fram að útgáfa téðs byggingarleyfis fari alfarið í bága við þá stöðu sem nú sé uppi vegna ágreinings um lögmæti deiliskipulags þess sem Reykjavíkurborg sé að reyna að knýja fram í mikilli óþökk kærenda, sem keypt hafi eignarlóðir af borginni árið 1984 og goldið fyrir hátt verð á þeim forsendum að þágildandi skipulag myndi standa óbreytt.  Augljóst sé að fái byggingarleyfishafinn að hefja framkvæmdir, samkvæmt áformum hins ólögmæta deiliskipulags, á meðan ágreiningurinn sé til meðferðar í úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála, muni það leiða til þess að hann knýji fram niðurstöðu sér í hag á þeim grundvelli að ekki verði hróflað við mannvirkjum sem þegar hafi risið á lóðinni.  Slík aðstaða sé algerlega óviðunandi og gangi gegn meginreglum stjórnsýslulaga, sem og skipulags- og byggingarlaga, enda við það miðað að ekki verði ráðist í byggingarframkvæmdir nema ótvíræður lagagrunnur sé til staðar fyrir þeim.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er mótmælt kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.  Telja borgaryfirvöld að ekki hafi verið sýnt fram á að form eða efnisgallar hafi verið á skipulagsákvörðun þeirri sem fyrirhugaðar framkvæmdir að Hamrahlíð 10 styðjist við og hafi takmarkað byggingarleyfi verið veitt í samræmi við umsókn um byggingarleyfi fyrir framkvæmdinni.  Hafi sú umsókn verið samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 11. október 2005 og staðfest í borgarráði 13. sama mánaðar.  Endanlegum frágangi leyfa samkvæmt 44. gr. skipulags- og byggingarlaga hafi loks lokið 2. nóvember 2005.

Af hálfu byggingarleyfishafa er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda mótmælt og vísað til þess að framkvæmdir eigi sér stoð í leyfi þar til bærs stjórnvalds.

Niðurstaða:  Samkvæmt 1. gr. samþykktar um embættisafgreiðslur byggingarfulltrúans í Reykjavík, nr. 161/2005, afgreiðir hann, án staðfestingar skipulagsráðs, mál er falla undir skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997 með síðari breytingum og skilgreind eru sem verkefni byggingarnefnda í lögunum.  Í 4. gr. nefndrar samþykktar er áskilið að afgreiðslur byggingarfulltrúa samkvæmt samþykktinni skuli hljóta endanlega afgreiðslu borgarráðs. 

Byggingarleyfi það sem byggingarfulltrúi veitti hinn 22. september 2005 og um er deilt í máli þessu var veitt með vísan til heimildar í 44. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Segir þar í 2. mgr. að standi sérstaklega á megi veita leyfi til einstakra þátta byggingarframkvæmda og takmarkist leyfið þá hverju sinni við samþykkt hönnunargögn.  Leyfið var veitt milli afgreiðslufunda og verður ekki séð að það hafi fengið frekari meðferð í stjórnkerfi Reykjavíkurborgar.

Hvorki er í skipulags- og byggingarlögum né í áður nefndri samþykkt heimild til að víkja frá því skilyrði að byggingarleyfi sem byggingarfulltrúi afgreiðir skuli hljóta endanlega afgreiðslu borgarráðs, jafnvel þótt um takmarkað byggingarleyfi sé að ræða.  Telst hin kærða ákvörðun því ekki hafa hlotið lögboðna fullnaðarafgreiðslu borgaryfirvalda og gat hún því ekki sætt kæru til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni og kemur því ekki til úrlausnar hvort lagaskilyrði voru fyrir útgáfu takmarkaðs byggingarleyfis eins og atvikum var háttað í málinu.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                      _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                                 Ásgeir Magnússon