Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

16/2009 Heiðaþing

Með

Ár 2009, fimmtudaginn 3. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 16/2009, kæra á ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 19. nóvember 2008 um að veita byggingarleyfi fyrir parhúsum að Heiðaþingi 2 og 4 í Kópavogi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 19. mars 2009, er barst nefndinni sama dag, kærir A, Heiðaþingi 6, Kópavogi, þá ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 19. nóvember 2008 að veita byggingarleyfi fyrir parhúsum að Heiðaþingi 2 og 4 í Kópavogi.  Bæjarstjórn staðfesti hina kærðu ákvörðun á fundi sínum hinn 10. febrúar 2009. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt hefur verið gerð krafa um bráðabirgðaúrskurð um stöðvun framkvæmda á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Kópavogsbær, sem er byggingarleyfishafi samkvæmt hinu kærða leyfi, kom því á framfæri við úrskurðarnefndina að framkvæmdir stæðu ekki fyrir dyrum að Heiðaþingi 2-4 og hefur því ekki verið tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfunnar. 

Málavextir:  Á árinu 2005 tók gildi deiliskipulag fyrir suðursvæði Vatnsenda er tekur m.a. til umræddra lóða við Heiðaþing.  Samkvæmt deiliskipulagsskilmálum skyldu fyrirhuguð hús á lóðunum vera einnar hæðar parhús með innbyggðum bílageymslum, en heimilt var að hafa kjallara fyrir geymslur undir húsunum að hluta. 

Á fundi skipulagsnefndar Kópavogs hinn 6. júní 2006 var lagt fram erindi þáverandi lóðarhafa Heiðaþings 2-4 þar sem farið var fram á frávik frá gildandi skipulagi að því leyti að heimilað yrði að nýta kjallararými sem íbúðarherbergi og að svalir næðu út fyrir byggingarreit.  Var samþykkt að kynna tillöguna fyrir lóðarhöfum Heiðaþings 6 og 8 og Gulaþings 1 og 3. 

Að lokinni grenndarkynningu var málið tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar 8. ágúst 2006 þar sem lá fyrir umsögn bæjarskipulags um fram komnar athugasemdir frá lóðarhöfum Heiðaþings 6 og 8 varðandi skuggavarp og frágang á lóðamörkum.  Skipulagsnefnd fjallaði um erindið á fundi 22. ágúst 2006 ásamt tillögum um útfærslu og frágang á lóðamörkum vegna athugasemda lóðarhafa að Heiðaþingi 6.  Var skipulagsstjóra falið að kynna tillöguna og í kjölfarið gáfu lóðarhafar Heiðaþings 2 og 4 út yfirlýsingu þar sem samþykkt var að reistur yrði skjólveggur á lóðamörkum Heiðaþings 4 og 6 og því lýst yfir að lóðarhafar Heiðaþings 4 myndu setja upp stoðvegg á lóð sinni. 

Skipulagsnefnd samþykkti síðan tillögu um útfærslu deiliskipulags varðandi Heiðaþing 2 og 4 og vísaði málinu til bæjarráðs sem samþykkti tillöguna á fundi hinn 7. september 2006.  Var þeirri ákvörðun skotið til úrskurðarnefndarinnar af hálfu kæranda í máli þessu. 

Hinn 4. apríl 2007 voru umsóknir lóðarhafa að Heiðaþingi 2 og 4 teknar fyrir á fundi byggingarnefndar sem samþykkti byggingarleyfi vegna lóðanna með vísan til þess að erindin hefðu hlotið afgreiðslu skipulagsnefndar og bæjarráðs í samræmi við 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Byggingarfulltrúi gaf síðan út umrædd leyfi hinn 3. maí 2007.  Voru byggingarleyfi þessi einnig kærð til úrskurðarnefndarinnar. 

Hinn 20. september 2007 kvað úrskurðarnefndin upp úrskurði í kærumálunum vegna skipulagsbreytingarinnar og útgáfu byggingarleyfanna.  Var kæru vegna deiliskipulagsbreytingarinnar vísað frá, þar sem á skorti að auglýsing um gildistöku hennar hefði verið birt í B-deild Stjórnartíðinda.  Þá voru byggingarleyfin fyrir Heiðaþing 2 og 4 felld úr gildi með vísan til þess að þau vikju frá gildandi deiliskipulagsskilmálum. 

Áðurgreind deiliskipulagsbreyting tók síðan gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 12. október 2007 og skaut kærandi ákvörðuninni til úrskurðarnefndarinnar með kæru, dags. 9. nóvember sama ár. 

Hinn 2. maí 2008 birtist auglýsing í B-deild Stjórnartíðinda um afturköllun deiliskipulagsbreytingar varðandi Heiðaþing 2-4 og mun Kópavogsbær hafa leyst til sín umræddar fasteignir. 

Hinn 19. nóvember 2008 samþykkti byggingarnefnd umsókn Kópavogsbæjar um leyfi til að byggja parhús á lóðunum að Heiðaþingi 2-4 og var sú ákvörðun staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 25. nóvember s.á.  Kærandi sendi erindi, dags. 2. desember 2008, til bæjarráðs Kópavogs þar sem þess var farið á leit að fallið yrði frá áformum um byggingu tveggja hæða húsa á lóðunum.  Erindinu var vísað til bæjarstjórnar sem sá ekki ástæðu til að falla frá ákvörðun um veitingu byggingarleyfisins. 

Hefur kærandi skotið veitingu byggingarleyfisins fyrir Heiðaþing 2-4 til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Vísað er til þess að samkvæmt hinu kærða byggingaleyfi eigi að nýta útveggi neðri hæðar sem reistir hafi verið í tíð eldra byggingarleyfis sem úrskurðarnefndin hafi fellt úr gildi. 

Heimilað sé nú að reisa hús á tveimur hæðum með íbúðarrýmum í kjallara auk þess sem útgangur verði úr kjallararými.  Augljóst sé að með hinni kærðu ákvörðun sé brotið gegn gildandi skipulagi með því að heimila þvottahús og/eða önnur íbúðarrými í kjallara og í raun sé verið að byggja á því skipulagi sem fellt hafi verið úr gildi.  Auk þess liggi fyrir að hæð hússins sé meiri en skipulag heimili enda sé hæð milli minnstu hæðar í mestu hæð hússins meiri en heimiluð hámarkshæð, sem sé 4,8 m.  Byggingarleyfið sé ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag og muni bygging tveggja hæða húss að Heiðaþingi 4 bæði skerða einkalíf og lífsgæði kæranda. 

Málsrök Kópavogsbæjar:  Því er mótmælt að hið kærða byggingarleyfi sé í ósamræmi við gildandi deiliskipulag.  Engin íbúðarherbergi séu í kjallara samkvæmt samþykktum teikningum heldur aðeins geymslur og þvottahús sem séu á allan hátt sambærileg rými.  Deiliskipulag geri ráð fyrir kjallara undir hluta húss þar sem hafa megi geymsluherbergi.  Heimiluð rými í kjallara, sem sé undir um 1/3 hluta aðalhæðar, geti ekki með nokkru móti talist íbúðarherbergi og breyti í engu um eðli herbergjanna þó að útgönguleiðir séu úr kjallaranum út í garð. 

Hæð parhúsanna að Heiðaþingi 2-4 sé innan marka skipulagsskilmála.  Hvort hús um sig sé ekki hærra en 4,8 m frá kóta aðkomuhæðar og miða eigi við gólfkóta við útreikning mestu hæðar hvors húss um sig en hæðarblöð ráði hæðarlegu lóða samkvæmt skilmálum deiliskipulags. 

Telja verði afgreiðslu bæjarins á umdeildri byggingarleyfisumsókn bæði formlega og efnislega rétta og sé því ekki tilefni til að fallast á ógildingarkröfu kæranda. 

Niðurstaða:  Fyrr í dag kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð í kærumáli vegna deiliskipulagsbreytingar er varðaði lóðirnar að Heiðaþingi 2 og 4 og tók gildi hinn 12. október 2007.  Var kærumálinu vísað frá með þeim rökum að hin kærða ákvörðun hefði verið afturkölluð af hálfu Kópavogsbæjar með skuldbindandi hætti. 

Samkvæmt uppdrætti gildandi deiliskipulags umrædds svæðis, sem nefnt er Vatnsendi-Þing, og tók gildi hinn 14. júlí 2005, er gert ráð fyrir parhúsum á einni hæð á lóðunum að Heiðaþingi 2 og 4.  Fyrirliggjandi sérskilmálar fyrir reit 1 og svæði 8 á deiliskipulagsuppdrættinum eiga m.a. við um lóðirnar að Heiðaþingi 2 og 4.  Þar kemur fram að heimilt sé að reisa einnar hæðar parhús með einni íbúð á hvorri lóð að hámarks flatarmáli án kjallara 235 m2 að Heiðaþingi 2 og 250 m2 að Heiðaþingi 4.  Sérskilmálarnir heimila kjallara fyrir geymslur undir hluta húss og óheimilt er að hafa þar íbúðarherbergi.  Tekið er fram að hæð húsa sé annars vegar gefin upp sem bindandi hæðafjöldi og hins vegar sem hámarkshæð byggingar yfir aðkomukóta sem mest má vera 4,8 m. 

Grunnmynd neðri hæðar á samþykktum aðaluppdráttum fyrir Heiðaþing 2 og 4 sýnir geymslurými, þvottahús og gang í ætluðum kjallara húsanna.  Hins vegar er í byggingarlýsingu aðaluppdrátta tekið fram að um sé að ræða tveggja hæða parhús með tveimur íbúðum og innbyggðum bílgeymslum og í skráningartöflu er gert ráð fyrir 70 m2 íbúðum í kjöllurum húsanna.  Að þessu leyti gætir misræmis í samþykktum aðaluppdráttum. 

Samkvæmt samþykktum aðaluppdráttum er lofthæð ætlaðs kjallararýmis meiri en 2,5 m sem telst full lofthæð íbúðar- og atvinnuhúsnæðis, sbr. 78. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998.  Hæðarblöð og sneiðmyndir sýna og að gólfplata ætlaðs kjallararýmis er ekki niðurgrafin með austurhlið húsanna og fellur umrætt húsnæði því ekki undir skilgreiningu gr. 4.25 í byggingarreglugerð þar sem kjallari er skilgreindur á þann veg að gólf sé undir yfirborði jarðvegs á alla vegu. 

Fallast má á að það eigi sér nokkra stoð í samþykktum aðaluppdráttum að ekki séu heimiluð íbúðarherbergi í umdeildu húsrými og að mesta hæð húsanna sé ekki umfram það sem skipulagsskilmálar áskilja.  Hins vegar verða húsin að teljast tveggja hæða með vísan til þess sem áður er rakið og brýtur hin kærða ákvörðun að því leyti í bága við gildandi skipulag svæðisins þar sem kveðið er á um einnar hæðar parhús að Heiðaþingi 2-4.  Verður af þeim sökum að fella ákvörðunina úr gildi með vísan til 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 19. nóvember 2008, er bæjarstjórn staðfesti hinn 10. febrúar 2009, um að veita byggingarleyfi fyrir parhúsum að Heiðaþingi 2 og 4 í Kópavogi. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________       ______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Aðalheiður Jóhannsdóttir

44/2008 Urðarmói

Með

Ár 2009, miðvikudaginn 2. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 44/2008, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 12. júní 2008 um að veita leyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni nr. 6 við Urðarmóa á Selfossi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 1. júlí 2008, er barst nefndinni 2. sama mánaðar, kærir Óskar Sigurðsson hrl., f.h. M og S, Urðarmóa 10 og A og B, Urðarmóa 12, Selfossi, ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 12. júní 2008 um að veita leyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni að Urðarmóa 6 á Selfossi.  Bæjarráð staðfesti þá ákvörðun hinn 27. sama mánaðar. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt er gerð krafa um bráðabirgðaúrskurð um stöðvun framkvæmda á meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Þar sem málið telst nægjanlega upplýst til þess að taka það til endanlegs úrskurðar, og hinum umdeildu framkvæmdum var að mestu lokið er kæra barst, verður ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda. 

Málavextir og rök:  Kærumál þetta á sér nokkurn aðdraganda, en 14. febrúar 2008 var tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar umsókn lóðarhafa um leyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni að Urðarmóa 6 og var hún samþykkt.  Með úrskurði úrskurðarnefndarinnar, uppkveðnum hinn 6. maí s.á., var leyfið fellt úr gildi með vísan til þess að það væri ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag svæðisins.  Á fundi bæjarráðs 25. apríl 2008 var samþykkt breyting á deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 6 við Urðarmóa og birtist auglýsing um gildistöku breytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda 8. maí s.á.  Var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndarinnar.

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 12. júní 2008 var samþykkt leyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni að Urðarmóa 6.  Bæjarráð staðfesti þá ákvörðun hinn 27. s.m. 

Hafa kærendur kært ákvörðun bæjaryfirvalda um byggingarleyfið eins og að framan greinir. 

Af hálfu kærenda er vísað til þess að þeir séu eigendur aðliggjandi lóða við Urðarmóa 10 og 12 og hafi því lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins, sbr. einnig úrskurð úrskurðarnefndarinnar frá 6. maí 2008 þar sem staðfestir hafi verið lögvarðir hagsmunir þeirra. 

Um málsástæður og lagarök fyrir kærunni sé að öðru leyti vísað til rökstuðnings og lagaraka með kæru þeirra til úrskurðarnefndarinnar á samþykkt bæjarráðs um breytt deiliskipulag vegna lóðarinnar að Urðarmóa 6.  Sé á því byggt að gildi byggingarleyfisins velti á gildi deiliskipulagsbreytingarinnar.  Verði hún felld úr gildi leiði það til þess að fella beri hið kærða byggingarleyfi úr gildi. 

Fyrir liggi að húsið á lóð nr. 6 við Urðarmóa hafi verið reist í andstöðu við gildandi deiliskipulag.  Óheimilt sé skv. 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 að breyta skipulagi svæðis þar sem framkvæmt hafi verið í ósamræmi við skipulag fyrr en hin ólöglega bygging, eða byggingarhluti, hafi verið fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt. 

Af hálfu Árborgar er þess krafist að kröfu kærenda verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem þeir uppfylli ekki skilyrði 3. ml. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga um kæruaðild.  Kærendur séu eigendur lóðanna nr. 10 og nr. 12 við Urðarmóa og byggi þeir á því að af þeirri ástæðu einni eigi þeir lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins.  Með breytingu þeirri sem gerð hafi verið á deiliskipulagi lóðarinnar að Urðarmóa 6 hafi leyfilegum þakhalla hússins að Urðarmóa 6 verið breytt.  Áfram sé um að ræða einbýlishús á einni hæð í samræmi við upphaflegt deiliskipulag.  Umrædd bygging sé öll innan skilgreinds byggingarreits og sé mesta hæð hennar u.þ.b. einum metra minni en heimilt sé samkvæmt deiliskipulagsskilmálum, auk þess sem vegghæð sé í fullu samræmi við þá.  Sé því ljóst að umrædd breyting hafi engin áhrif gagnvart fasteignum kærenda.  Byggingin sé hvorki hækkuð né henni breytt á nokkurn þann hátt sem kunni að hafa áhrif á grenndarrétt kærenda.  Breytingin komi ekki til með að valda auknu skuggavarpi eða draga úr útsýni frá fasteignum kærenda eða á nokkurn annan hátt valda kærendum óþægindum.  Með vísan til þessa hafi kærendur ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins.  Verði ekki á framangreint fallist sé vísað til þess að hið kærða leyfi sé í fullu samræmi við deiliskipulag svæðisins. 

Af hálfu byggingarleyfishafa er kröfu kærenda mótmælt og þess krafist að henni verið hafnað. 

———–

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki verða rakin nánar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Vettvangsganga:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 20. nóvember 2009.  Að vettvangsgöngu lokinni aflaði úrskurðarnefndin gagna um hæðarsetningu og mænishæðir húsa á umræddu svæði auk séruppdrátta að burðarvirki þaks Urðarmóa 6.  Hafa þau gögn verið kynnt umboðmanni kærenda og honum gefinn kostur á að tjá sig um þau. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi ákvörðunar skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 12. júní 2008 um að veita leyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni að Urðarmóa 6 á Selfossi.  Bæjarráð staðfesti þá ákvörðun hinn 27. sama mánaðar.  Áður höfðu kærendur skotið til úrskurðarnefndarinnar samþykkt bæjarráðs frá 25. apríl s.á. um breytt deiliskipulag vegna lóðarinnar.  Með úrskurði uppkveðnum fyrr í dag var því máli vísað frá úrskurðarnefndinni með þeim rökum að kærendur ættu ekki lögvarða hagsmuni.  Er rakið í þeim úrskurði að bygging hússins að Urðarmóa 6 hafi ekki haft nein grenndaráhrif er máli skipti gagnvart fasteignum kærenda að Urðarmóa 10 og 12 umfram það sem búast hafi mátt við samkvæmt upphaflegu deiliskipulagi svæðisins. 

Ekki verður séð að með hinu kærða byggingarleyfi hafi verið gengið gegn lögvörðum hagsmunum kærenda frekar en með áður nefndri skipulagsbreytingu.  Eiga kærendur því ekki lögvarða hagmuni af úrlausn máls þessa og verður því af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________          _____________________________
Ásgeir Magnússon                                         Þorsteinn Þorsteinsson

152/2007 Heiðaþing

Með

Ár 2009, fimmtudaginn 3. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor. 

Fyrir var tekið mál nr. 152/2007, kæra á ákvörðun bæjarráðs Kópavogs frá 7. september 2007 um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðanna að Heiðaþingi 2 og 4 í Kópavogi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. nóvember 2007, er barst nefndinni sama dag, kærir Guðjón Ólafur Jónsson hrl., f.h. Ö og S, Heiðaþingi 6, Kópavogi ákvörðun bæjarráðs Kópavogs frá 7. september 2007 um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðanna að Heiðaþingi 2 og 4 í Kópavogi, sem fól m.a. í sér að parhús á lóðunum mættu vera tveggja hæða í stað einnar.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málsatvik og rök:  Á árinu 2005 tók gildi deiliskipulag fyrir suðursvæði Vatnsenda er tekur m.a. til umræddra lóða við Heiðaþing í Kópavogi.  Samkvæmt deiliskipulagsskilmálum skyldu fyrirhuguð hús á lóðunum vera einnar hæðar parhús með innbyggðum bílageymslum, en heimilt var að hafa kjallara fyrir geymslur undir húsunum að hluta. 

Á fundi skipulagsnefndar hinn 6. júní 2006 var lagt fram erindi þáverandi lóðarhafa Heiðaþings 2-4 þar sem farið var fram á frávik frá gildandi skipulagi að því leyti að heimilað yrði að nýta kjallararými sem íbúðarherbergi og að svalir næðu út fyrir byggingarreit.  Var samþykkt að kynna tillöguna fyrir lóðarhöfum Heiðaþings 6 og 8 og Gulaþings 1 og 3. 

Að lokinni grenndarkynningu var málið tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar 8. ágúst 2006 þar sem lá fyrir umsögn bæjarskipulags um fram komnar athugasemdir frá lóðarhöfum Heiðaþings 6 og 8 varðandi skuggavarp og frágang á lóðamörkum.  Skipulagsnefnd fjallaði um erindið á fundi 22. ágúst 2006 ásamt tillögum um útfærslu og frágang á lóðamörkum vegna athugasemda kærenda.  Var skipulagsstjóra falið að kynna tillöguna fyrir lóðarhöfum og í kjölfarið gáfu lóðarhafar Heiðaþings 2 og 4 út yfirlýsingu þar sem samþykkt var að reistur yrði skjólveggur á lóðamörkum Heiðaþings 4 og 6 og því lýst yfir að lóðarhafar Heiðaþings 4 myndu setja upp stoðvegg á lóð sinni. 

Skipulagsnefnd samþykkti síðan tillögu um útfærslu deiliskipulags varðandi Heiðaþing 2 og 4 og vísaði málinu til bæjarráðs sem samþykkti tillöguna á fundi hinn 7. september 2006.  Skutu kærendur í máli þessu þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar sem vísaði málinu frá hinn 20. september 2007 þar sem á skorti að auglýsing um gildistöku skipulagsbreytingarinnar hefði verið birt í B-deild Stjórnartíðinda. 

Umrædd deiliskipulagsbreyting tók síðan gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 12. október 2007 og skutu kærendur ákvörðuninni til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Byggja kærendur á því að hin kærða ákvörðun sé haldin form- og efnisannmörkum.  Ekki sé um óverulega skipulagsbreytingu að ræða, sem unnt sé að framkvæma með grenndarkynningu, auk þess sem kynningunni hafi verið ábótavant.  Skipulagsbreytingin feli í sér brot gegn jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar og byggingarframkvæmdir á lóðunum hafi verið hafnar áður en umdeild skipulagsbreyting hafi öðlast gildi.  Misræmi sé milli uppdráttar og greinargerðar skipulagsbreytingarinnar auk þess sem engin efnisleg rök séu fyrir breytingunni en hún raski grenndarhagsmunum kærenda. 

Hinn 2. maí 2008 birtist í B-deild Stjórnartíðinda svohljóðandi:  „Auglýsing um afgreiðslu bæjarráðs Kópavogs á auglýstri tillögu að deiliskipulagi Vatnsendi – Þing,  Heiðaþing 2-4, breytt deiliskipulag.  Í samræmi við skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997, með síðari breytingum, hefur bæjarráð Kópavogsbæjar samþykkt þann 17. apríl 2008 að afturkalla á grundvelli 2. mgr. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ákvörðun um breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina Heiðaþing 2-4.“ 

Ekki hafa borist athugasemdir eða umsögn Kópavogsbæjar vegna kærumálsins en í kærumáli fyrir úrskurðarnefndinni, nr. 16/2009, sem snýst um byggingarleyfi fyrir parhúsum að Heiðaþingi 2-4, kemur sú afstaða bæjaryfirvalda fram að hin kærða deiliskipulagsbreyting hafi verið afturkölluð með áðurnefndri auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda. 

Niðurstaða:  Skipulagsnefnd Kópavogs samþykkti á fundi sínum hinn 15. apríl 2008 að afturkalla hina kærðu deiliskipulagsbreytingu er tók til Heiðaþings 2-4.  Fundargerð skipulagsnefndar frá þeim fundi var til umfjöllunar á fundi bæjarráðs hinn 17. apríl sama ár þar sem afstaða var tekin til tiltekinna liða hennar.  Þar er þó ekki að finna bókun í fundargerð ráðsins um afstöðu þess til afturköllunar umdeildrar deiliskipulagsbreytingar.  Hins vegar var fyrrgreind fundargerð skipulagsnefndar á dagskrá fundar bæjarstjórnar hinn 22. apríl 2008 og þar bókað:  „Fundargerðin afgreidd án umræðu.“  Auglýsing um afturköllun deiliskipulagsbreytingar vegna Heiðaþings 2-4 birtist svo í B-deild Stjórnartíðinda hinn 2. maí 2008 eins og áður greinir. 

Samkvæmt 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 tekur sveitarstjórn ákvarðanir um deiliskipulag.  Þeir annmarkar eru á málsmeðferð umræddrar afturköllunar, að ekki kom fram í bókunum viljaafstaða bæjarráðs eða bæjarstjórnar til hennar og ekki er tilgreint með ótvíræðum hætti í auglýsingu til hvaða skipulagsbreytingar afturköllunin tekur.  Með hliðsjón af því að ekki liggur fyrir að önnur deiliskipulagsbreyting hafi verið gerð er snerti umræddar lóðar en sú sem kærð er í máli þessu og sú afstaða bæjaryfirvalda liggur fyrir að afturköllunin eigi við um hina kærðu ákvörðun verður lagt til grundvallar í máli þessu að Kópavogsbær hafi með skuldbindandi hætti fallið frá hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu.  Þykja kærendur því ekki lengur hafa hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hinnar kærðu ákvörðunar og verður málinu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

___________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________       ______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                               Aðalheiður Jóhannsdóttir

35/2008 Urðarmói

Með

Ár 2009, miðvikudaginn, 2. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 35/2008, kæra á samþykkt bæjarráðs Árborgar frá 23. apríl 2008 um breytt deiliskipulag Hagalands vegna lóðarinnar nr. 6 við Urðarmóa á Selfossi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 19. maí 2008, er barst nefndinni 26. sama mánaðar, kærir Óskar Sigurðsson hrl., f.h. M og S, Urðarmóa 10 og A og B, Urðarmóa 12, Selfossi, samþykkt bæjarráðs Árborgar frá 25. apríl 2008 um breytt deiliskipulag Hagalands vegna lóðarinnar nr. 6 við Urðarmóa.  Auglýsing um gildistöku samþykktarinnar birtist í B-deild Stjórnartíðinda 7. maí 2008. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir og rök:  Kærumál þetta á sér nokkurn aðdraganda, en 14. febrúar 2008 var tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar umsókn lóðarhafa um leyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni að Urðarmóa 6 og var hún samþykkt.  Áður hafði verið grenndarkynnt tillaga að breyttum þakhalla fyrirhugaðs húss á lóðinni en ekki hafði verið gengið frá breytingu á deiliskipulagi til samræmis við þau áform þegar byggingarleyfið var veitt.  Skutu nágrannar ákvörðun bæjaryfirvalda um byggingarleyfið til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála sem felldi leyfið úr gildi, með úrskurði uppkveðnum 6. maí 2008, með vísan til þess að það væri ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag svæðisins. 

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 23. apríl 2008 var eftirfarandi fært til bókar:  „Við afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar á byggingarleyfisumsókn lóðareiganda að Urðarmóa 6, var samþykkt byggingarleyfi í kjölfar grenndarkynningar, án þess að deiliskipulagi hafi áður verið breytt svo sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Þess vegna má færa rök fyrir því að byggingarleyfið sé ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag.  Er því nauðsynlegt að samþykkja meðfylgjandi greinargerð að breyttu deiliskipulagi, þar sem heimilað er að þakhalli á lóðinni að Urðarmóa 6, verði 42°.“ Á fundi bæjarráðs 25. sama mánaðar var framangreint samþykkt.  Birtist auglýsing um gildistöku breytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda 8. maí 2008.

Skutu kærendur þeirri samþykkt bæjaryfirvalda til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Af hálfu kærenda er vísað til þess að þeir séu eigendur aðliggjandi lóða við Urðarmóa 10 og 12 og hafi því lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins, sbr. einnig úrskurð úrskurðarnefndarinnar frá 6. maí 2008 þar sem staðfestir hafi verið lögvarðir hagsmunir þeirra. 

Fyrir liggi að húsið á lóðinni nr. 6 við Urðarmóa hafi verið byggt í ósamræmi við gildandi deiliskipulagsskilmála.  Af 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 leiði að óheimilt sé að breyta deiliskipulaginu til samræmis við ólögmætar framkvæmdir nema að framkvæmdir verði a.m.k. fyrst fjarlægðar, sbr. 2. mgr. sömu greinar.  Beytingar á nýlegu deiliskipulagi, eins og hér um ræði, verði að byggja á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum.  Hagsmunir eins lóðarhafa um aukna nýtingu og rýmri skilmála gegn hagsmunum annarra húseigenda á svæðinu geti ekki talist málefnaleg sjónarmið í þessu sambandi.  Breytingin sé því ólögmæt.  Þá samræmist hin kærða breyting ekki reglum stjórnsýsluréttar um samræmi og jafnræði borgaranna.  Ef samþykkja eigi slík frávik frá gildandi deiliskipulagi, sem breyting á þakhalla feli í sér, beri að endurskoða skilmála alls svæðisins í heild.  Loks felist í hinni kærðu breytingu leyfi til byggingar tveggja hæða húss á lóðinni þvert gegn fyrirmælum deiliskipulags.  

Af hálfu Árborgar er þess krafist að kröfu kærenda verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem þeir uppfylli ekki skilyrði 3. ml. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga um aðild máls.  Kærendur séu eigendur lóðanna nr. 10 og nr. 12 við Urðarmóa og byggi þeir á því að af þeirri ástæðu einni eigi þeir lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins.  Með breytingu þeirri sem gerð hafi verið á deiliskipulagi lóðarinnar að Urðarmóa 6 hafi leyfilegum þakhalla hússins verið breytt úr 14-25 í 42°.  Áfram sé um að ræða einbýlishús á einni hæð í samræmi við upphaflegt deiliskipulag.  Umrædd bygging sé öll innan skilgreinds byggingarreits og sé mesta hæð hennar u.þ.b. einum metra lægri en heimilt sé samkvæmt deiliskipulagsskilmálum, auk þess sem vegghæð sé í fullu samræmi við þá.  Sé því ljóst að umrædd breyting hafi engin áhrif gagnvart fasteignum kærenda.  Ekki sé byggingin hækkuð eða henni breytt á nokkurn þann hátt sem kunni að hafa áhrif á grenndarrétt kærenda.  Breytingin komi ekki til með að valda auknu skuggavarpi eða draga úr útsýni frá fasteignum kærenda eða á nokkurn annan hátt valda kærendum óþægindum.  Með vísan til þessa hafi kærendur ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. 

Af hálfu lóðarhafa Urðarmóa 6 er kröfu kærenda mótmælt og þess krafist að henni verið hafnað. 

———–

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki verða rakin nánar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Vettvangsganga:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 20. nóvember 2009.  Að vettvangsgöngu lokinni aflaði úrskurðarnefndin gagna um hæðarsetningu og mænishæðir húsa á umræddu svæði auk séruppdrátta að burðarvirki þaks Urðarmóa 6.  Hafa þau gögn verið kynnt umboðmanni kærenda og honum gefinn kostur á að tjá sig um þau. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi ákvörðunar bæjarráðs Árborgar frá 25. apríl 2008 um breytt deiliskipulag Hagalands vegna lóðarinnar nr. 6 við Urðarmóa.  Hafa kærendur vísað til þess að þeir séu eigendur aðliggjandi lóða og eigi því lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins.  Að mati þeirra sé húsið að Urðarmóa 6 í raun tveggja hæða, en það fari í bága við deiliskipulag og snerti hagsmuni kærenda sérstaklega. 

Sveitarfélagið Árborg krefst frávísunar málsins með þeim rökum að kærendur fullnægi ekki skilyrði 3. ml. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga um aðild máls. 

Eins og að framan er rakið felldi úrskurðarnefndin úr gildi fyrra byggingarleyfi fyrir húsinu að Urðarmóa 6, með úrskurði uppkveðnum 6. maí 2008, með vísan til þess að leyfið væri ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag svæðisins.  Taldi nefndin þá að kærendur ættu lögvarinna hagsmuna að gæta í málinu sem væru þó ekki stórfelldir.  Sætti málið flýtimeðferð þar sem krafa var uppi um stöðvun framkvæmda.  Fór ekki fram skoðun á aðstæðum á vettvangi, enda var bygging húsa á svæðinu þá skemmra á veg komin en nú er og því síður hægt að átta sig á aðstæðum við skoðun. 

Eftir skoðun á vettvangi og frekari öflun gagna tók nefndin til endurskoðunar fyrra mat sitt á hagsmunum kærenda.  Verður ekki fallist á að lóðir kærenda séu aðliggjandi að lóðinni að Urðarmóa 6 enda er botnlangagata milli Urðarmóa 10 og Urðarmóa 6.  Þá er húsið nr. 6 ekki í götulínu heldur standast á norðvesturhorn lóðarinnar að Urðarmóa 10 og suðausturhorn lóðarinnar að Urðarmóa 6.  Vegna afstöðu húsanna og innra fyrirkomulags þakrýmis yfir bílskúr að Urðarmóa 6 er komið í veg fyrir að séð verði út um glugga á því rými yfir á lóðir kærenda, en samkvæmt samþykkum uppdrætti er nærri tveggja metra bil frá geymslupalli í þakrýminu að gafli þeim sem umræddur gluggi er á. 

Ekki verður heldur fallist á að húsið að Urðarmóa 6 geti talist tveggja hæða.  Er miðrými þess að mestu opið upp í þakið en yfir herbergjum eru þakgrindur í öllum rýmum sem koma í veg fyrir nýtingu þeirra til íveru og virðast fullyrðingar kærenda um tveggja hæða hús vera á misskilningi byggðar. 

Þá er í ljós leitt að mænishæð hússins að Urðarmóa 6 er rúmum metra minni en heimilt væri samkvæmt skilmálum upphaflegs deiliskipulags svæðisins.  Jafnframt er óumdeilt að húsið er innan byggingarreits og veldur það því hvorki skuggavarpi ná skerðingu á útsýni umfram það sem búast mátti við samkvæmt skipulaginu.  Loks er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar eftir skoðun á vettvangi að útlit hússins að Urðarmóa 6 sé ekki svo frábrugðið útliti annarra húsa á svæðinu að máli skipti, sérstaklega þegar litið er til þess að á svæðinu eru hús ólíkrar gerðar sem sum eru verulega frábrugðin þeirri húsagerð sem algengust er þar.  Nægir þar að nefna húsið að Urðarmóa 3, sem er í næsta nágrenni kærenda. 

Að öllu þessu virtu, og með hliðsjón af því að hin umdeilda breyting tekur aðeins til þakhalla húss á einni lóð, er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að kærendur hafi ekki sýnt fram á að hin kærða breyting á deiliskipulagi raski verulegum og einstaklegum hagsmunum þeirra sem er skilyrði kæruaðildar fyrir úrskurðarnefndinni, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Málsástæða þeirra um að óheimilt hafi verið að samþykkja hina umdeildu skipulagsbreytingu vegna ákvæðis 4. mgr. 56. gr. laganna lýtur að gæslu almannahagsmuna og veitir kærendum ein og sér ekki kæruaðild.  Verður málinu samkvæmt framansögðu vísað frá úrskurðarnefndinni vegna aðildarskorts kærenda. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________         _____________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson

154/2007 Gámasvæði

Með

Ár 2009, miðvikudaginn 2. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 154/2007, kæra á ákvörðun hreppsnefndar Rangárþings ytra frá 10. október 2007 um að samþykkja deiliskipulag gámasvæðis á Hellu. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 14. nóvember 2007, er barst nefndinni samdægurs, kærir M, framkvæmdarstjóri Reykjagarðs hf., þá ákvörðun hreppsnefndar Rangárþings ytra frá 10. október 2007 að samþykkja deiliskipulag gámasvæðis á Hellu. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir og rök:  Á fundi skipulagsnefndar Rangárþings ytra hinn 14. júní 2007 var lögð fram tillaga að deiliskipulagi gámasvæðis á Hellu.  Var tillagan tekin fyrir í hreppsnefnd hinn 4. júlí 2007 og samþykkt að auglýsa hana.  Birtist auglýsing um tillöguna m.a. í Lögbirtingarblaðinu og bárust hreppsnefnd athugasemdir.  Á fundi skipulagsnefndar 10. október 2007 var fjallað um athugasemdirnar og á fundi hreppsnefndar sama dag var tillagan samþykkt.  Auglýsing um gildistöku samþykktarinnar hefur ekki birst í B-deild Stjórnartíðinda. 

Af hálfu kæranda er vísað til þess að fyrirhugað gámasvæði sé staðsett beint á móti húsi  sem hann reki í sláturhús og kjötvinnslu.  Um matvælavinnslu sé að ræða og mikilvægt að forðast alla lyktar- og sýklamengun. 

Af hálfu hreppsnefndar er vísað til þess að hin kærða samþykkt hafi ekki hlotið endanlega afgreiðslu þar sem auglýsing um gildistöku hennar hafi ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda eins og gert sé ráð fyrir í 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Slík auglýsing sé gildistökuskilyrði og marki upphaf kærufrests, sbr. lokamálslið 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Því sé ekki unnt að taka kæruna til efnislegrar meðferðar eða ógilda ákvörðun hreppsnefndar sem ekki hafi öðlast gildi að lögum.  Beri því að vísa kærunni frá úrskurðarnefndinni. 

Niðurstaða:  Fyrir liggur að umþrætt deiliskipulag, er hreppsnefnd samþykkti hinn 10. október 2007, hefur ekki öðlast gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda í samræmi við lokamálsgrein 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. og 2. mgr. gr. 6.4 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.  Hin kærða ákvörðun fól því ekki í sér lokaákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem kærð verður til úrskurðarnefndarinnar, og styðst sú ályktun enn fremur við 2. mgr. 27. gr. sömu laga, sem kveður á um að upphaf kærufrests miðist við opinbera birtingu ákvörðunar, þar sem slík birting sé lögmælt.  Að þessu virtu verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils málafjölda er skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

_________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________             ____________________________
Ásgeir Magnússon                                                 Þorsteinn Þorsteinsson

65/2009 Silfurteigur

Með

Ár 2009, miðvikudaginn 18. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 65/2009, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 25. ágúst 2009 um að veita leyfi til þess að færa eldhús milli herbergja og saga gat á burðarvegg innan íbúðar í fjölbýlishúsinu að Silfurteigi 2 í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 20. september 2009, er barst nefndinni 24. sama mánaðar, kæra Á, S og S, íbúðareigendur að Silfurteigi 2 í Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 25. ágúst 2009 að veita leyfi til að færa eldhús milli herbergja og saga gat á burðarvegg innan íbúðar í greindu fjölbýlishúsi. 

Skilja verður málatilbúnað kærenda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.  Jafnframt er sett fram krafa um að kveðinn verði upp bráðabirgðaúrskurður um stöðvun framkvæmda á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Þar sem málið telst nægjanlega upplýst til þess að taka það til endanlegs úrskurðar og hinum umdeildu framkvæmdum var að mestu lokið er kæra barst verður ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda. 

Málavextir:  Í lok árs 2008 var ráðist í framkvæmdir í íbúð á fyrstu hæð að Silfurteigi 2 í Reykjavík.  Gert var op á burðarvegg í tengslum við fyrirhugaða færslu á eldhúsi og stofu íbúðarinnar.  Ekki var sótt um byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum áður en þær hófust.  Kærendur, sem eru íbúðareigendur í sama húsi, sneru sér til embættis byggingarfulltrúa með mótmæli gegn framkvæmdunum og í bréfi, dags. 11. desember 2008, gerðu þeir kröfu til þess að byggingarfulltrúi stöðvaði þær.  Embætti byggingarfulltrúa sendi framkvæmdaaðila bréf, dags. 15. desember 2008, þar sem framkvæmdir innan íbúðarinnar voru stöðvaðar og skorað á íbúðareigendur að gefa skýringar á þeim.  Jafnframt leitaði einn kærenda af sama tilefni til Húseigendafélagsins, sem sendi framkvæmdaaðilanum bréf, dags. 18. desember 2008, þar sem m.a. var vísað til þess að á skorti nauðsynlegt samþykki sameigenda og byggingaryfirvalda fyrir umræddum framkvæmdum og þess krafist að þær yrðu stöðvaðar. 

Í janúar 2009 aflaði framkvæmdaaðili umsagnar verkfræðistofu um breytingu á burðarvirki hússins að Silfurteigi 2 vegna áðurgreinds gats á burðarvegg í íbúð á fyrstu hæð hússins.  Í bréfi verkfræðistofunnar til byggingarfulltrúa, dags. 21. janúar 2009, kemur fram að burðarvirki hafi verið athugað vegna framkvæmdanna og var niðurstaðan sú að: „Burðargeta veggjarins og stöðugleiki hússins er í lagi þó op verði tekið í vegginn.“  Var síðan sótt um byggingarleyfi fyrir gerð umrædds ops á burðarvegg og tilfærslu eldhúss milli herbergja í íbúðinni.  Leitað var samþykkis meðeigenda fjölbýlishússins sem ekki fékkst.  Urðu málalyktir þær að byggingarfulltrúi veitti leyfi fyrir nefndum framkvæmdum hinn 25. ágúst 2009.  Borgarráð staðfesti þá afgreiðslu hinn 27. ágúst sama ár. 

Hafa kærendur skotið þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er á því byggt að heimilaðar framkvæmdir samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi séu háðar samþykki meðeigenda fjölbýlishússins að Silfurteigi 2 samkvæmt ákvæðum laga um fjöleignarhús nr. 26/1994.  Byggingarfulltrúi hafi hins vegar ekki haft samband við aðra eigendur hússins en leyfishafa til að gefa þeim færi á að kynna sjónarmið sín frekar áður en byggingarleyfið hafi verið veitt. 

Burðarveggir séu sameign eigenda fjöleignarhúss en ekki séreign íbúðareigenda þótt hann sé innan íbúðar, enda sé byggingarkostnaði burðarvirkis slíks húss skipt hlutfallslega milli eignarhluta eftir hlutfallstölum.  Styrkur burðarvirkis falli því undir eignarrétt sameigenda að fasteign. 

Burðarveggur sá er hér um ræði, milli eldhúss og stofu, beri uppi stærstu gólfplötur hússins að Silfurteigi 2.  Innveggir hvíli á gólfplötu en þeir standist ekki á milli hæða og burðarþol burðarveggjar hafi rýrnað við viðgerð á frárennslislögn fyrir nokkrum árum.  Ljóst sé að heimilaðar framkvæmdir við burðarvirki hússins muni skerða möguleika annarra íbúðareigenda til framkvæmda innan séreignarhluta þeirra ef koma þurfi til framkvæmda við umræddan burðarvegg.  Með heimilaðri skerðingu veggjarins sé því nýtingarréttur annarra íbúðareigenda takmarkaður til frambúðar. 

Með breyttri herbergjanotkun íbúðar á fyrstu hæð aukist mjög ónæði vegna umgangs á loftum íbúðarherbergja í kjallara, sér í lagi svefnherbergis.  Ekki bæti úr skák að breytt hafi verið um gólfefni í íbúðinni þar sem teppi hafi verið fjarlægð en í stað þeirra komið steinflísar með engu eða ófullnægjandi undirlagi. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til þess að meðferð byggingarleyfisumsóknarinnar sem hin kærða ákvörðun taki til hafi verið í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, byggingarreglugerðar nr. 441/1998 og laga um fjöleignarhús nr. 26/1994.

Umræddar framkvæmdir séu allar innan séreignarhluta byggingarleyfishafa og hafi ekki í för með sér röskun á lögmætum hagsmunum kærenda.  Hafi því ekki verið nauðsyn á samþykki meðeigenda fyrir framkvæmdunum, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 26/1994.  Bent sé á að vottorð burðarvirkishönnuðar hafi legið fyrir við afgreiðslu málsins þar sem fram komi að burðargeta umrædds veggjar og stöðugleiki hússins að Silfurteigi 2 sé í lagi þótt op verði gert í vegginn.  Verði ekki séð að skylda til samráðs við aðra íbúa hússins hafi hvílt á embætti byggingarfulltrúa vegna hinnar kærðu ákvörðunar. 

Andmæli byggingarleyfishafa:  Vísað er til þess að heimilað 1,2×2,0 m op á burðarvegg sé til þess að bæta nýtingu viðkomandi rýmis með því að fella þar inn ískáp og ofn.  Eftir sé skilinn burðarbiti upp við loft, 47 cm að breidd.  Fyrir liggi álit sérfræðinga um að framkvæmdin hafi lítil áhrif á burðarvirki hússins.  Ekki sé rétt að burðarvirkið hafi skerst vegna lagfæringar á frárennslislögn á sínum tíma enda hafi þá aðeins verið farið í lagnastokk þann sem þjóni eldhúsum á öllum hæðum hússins. 

Hin kærða ákvörðun hafi ekki falið í sér breytta hagnýtingu séreignar en málið snúist fyrst og fremst um það hvort burðarvirki hússins sé í lagi þrátt fyrir heimilaðar framkvæmdir.  Við skipti á gólfefnum í íbúð hafi verið vandað til hljóðeinangrunar í ljósi þess að um gamalt hús sé að ræða með meiri hljóðburð en nýrri hús. 

——-

Aðilar hafa fært fram ítarlegri rök í málinu sem ekki verða rakin hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Hið kærða byggingarleyfi heimilaði breytta herbergjaskipan íbúðar á fyrstu hæð fjölbýlishússins að Silfurteigi 2 með færslu eldhúss og stofu og gerð ops á burðarvegg innan sömu íbúðar.  Ágreiningur er uppi um það hvort heimilt hafi verið að gefa út byggingarleyfið án samþykkis annarra íbúðareigenda í húsinu.  Telja kærendur hagsmunum sínum raskað með heimiluðum framkvæmdum. 

Í 4. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er kveðið á um að nauðsynleg gögn og skilríki þurfi að fylgja byggingarleyfisumsókn, þ.á m. samþykki sameigenda ef um sameign er að ræða.  Nánar er kveðið á um fylgigögn umsóknar í 12. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 og er þar í gr. 12.2 m.a. áskilið samþykki meðeigenda samkvæmt lögum um fjöleignarhús.  Fer það því eftir túlkun ákvæða fjöleignarhúsalaga hverju sinni hvenær afla þurfi samþykkis meðeigenda fyrir framkvæmdum sem íbúðareigandi sækir um. 

Það er meginregla íslensks réttar, sem m.a. kemur fram í 1. mgr. 26. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994, að eiganda sé heimilt að nýta eign sína að vild nema að lög eða aðrar réttarheimildir mæli á annan veg.  Í 27. gr. nefndra laga er áskilið samþykki sumra eigenda fjöleignarhúss, eða eftir atvikum allra, fyrir breytingu á hagnýtingu séreignar, nema að fyrir liggi að breytingin hafi ekki í för með sér skerðingu á lögmætum hagsmunum.  Umdeild breyting á herbergjaskipan felur ekki í sér breytta hagnýtingu séreignarinnar sem íbúðar og verður ekki talin þess eðlis að hún raski lögvörðum hagsmunum annarra sameigenda fjöleignarhússins.  Var því ekki þörf á samþykki annarra eigenda hússins að Silfurteigi 2 fyrir þeirri breytingu skv. 27. gr. fjöleignarhúsalaga. 

Allt burðarvirki húss, þ.m.t. burðarveggir, er í sameign eigenda fjöleignarhúss samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 8. gr., sbr. 3. tl. 1. mgr. 5. gr. fjöleignarhúsalaga.  Breytingar, endurbætur og framkvæmdir á sameign sem víkja frá samþykktum teikningum eru háðar samþykki einfalds eða aukins meirihluta sameigenda fjöleignarhúss samkvæmt 30. gr. laganna.  Með hinu umdeilda byggingarleyfi var samþykkt op sem þegar hafði verið gert á burðarvegg innan íbúðar byggingarleyfishafa án þess að samþykki annarra eigenda fasteignarinnar að Silfurteigi 2 hefði fengist, en við afgreiðsluna lá fyrir umsögn burðarþolshönnuðar er taldi burðarvirki hússins eftir framkvæmdina „í lagi“.  Með hliðsjón af nefndri umsögn og afgreiðslu embættis byggingarfulltrúa sem fag- og eftirlitsaðila með byggingarframkvæmdum verður að leggja til grundvallar í máli þessu að umdeilt op á burðarvegg hafi ekki veikt svo nokkru nemi burðarvirki hússins.  Skortur á lögmæltu samþykki annarra eigenda hússins fyrir umræddri framkvæmd verður ekki talinn varða ógildingu umþrætts byggingarleyfis eins og aðstæðum er háttað, þar sem ekki verður talið að breytingin á burðarveggnum innan íbúðar leyfishafa raski lögvörðum hagsmunum kærenda.

Að öllu framangreindu virtu verður ekki fallist á kröfu kærenda um ógildingu hins kærða byggingarleyfis. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 25. ágúst 2009, sem borgarráð staðfesti hinn 27. sama mánaðar, um að veita leyfi til þess að færa eldhús milli herbergja og saga gat á burðarvegg innan íbúðar á fyrstu hæð að Silfurteigi 2 í Reykjavík. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________            _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                Þorsteinn Þorsteinsson

52/2009 Brálundur

Með

Ár 2009, miðvikudaginn 18. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 52/2009, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Akureyrarbæjar frá 5. maí 2009 um að samþykkja deiliskipulag Brálundar. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. júlí 2009, er barst nefndinni hinn 10. sama mánaðar, kærir Ólafur Kjartansson hdl., f.h. H og M, til heimilis að Brálundi 2, Akureyri, þá ákvörðun bæjarstjórnar Akureyrar frá 5. maí 2009 að samþykkja deiliskipulag Brálundar.  Öðlaðist samþykktin gildi hinn 10. júní 2009 við birtingu auglýsingar þar að lútandi í B-deild Stjórnartíðinda. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Til vara er þess krafist að felldur verði úr gildi sá hluti skipulagsins er lýtur að tengingu Brálundar við Miðhúsabraut. 

Málavextir:  Árið 2007 réðst Akureyrarbær í útboð á gerð Miðhúsabrautar.  Samkvæmt útboðsgögnum var hluti af verkinu tenging Miðhúsabrautar við Skógarlund um Brálund, en um nýja vegtengingu var að ræða.  Er framkvæmdir stóðu yfir kom í ljós að þær voru ekki í samræmi við deiliskipulag og voru framkvæmdir stöðvaðar af bæjaryfirvöldum.  Í svari skipulagsstjóra vegna fyrirspurnar um framkvæmdina, dags. 16. október 2007, sagði að fyrir mistök hafi tengingin verið með í auglýstu útboði vegna Miðhúsabrautar.  Sagði ennfremur:  „Gert er ráð fyrir að deiliskipulagsvinna við fyrrgreindan íbúðarreit á milli Eikarlaundar og Miðhúsabrautar fari af stað í vetur og mun deiliskipulagssvæðið einnig taka á fyrrgreindri götutenginu sem auglýst verður með hefðbundnum hætti...“

Með auglýsingu, dags 25. febrúar 2009, auglýsti bæjarstjórn, með vísan til 1. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, tillögu að deiliskipulagi Brálundar, svæðis er afmarkast af Miðhúsabraut að sunnan og lóðum við Eikarlund að norðan, göngustíg frá Eikarlundi að vestan og Brálundi að austan.  Fól tillagan í sér að við nýja húsagötu, Daggarlund, yrði komið fyrir 16 einbýlishúsalóðum ásamt því að Lundarhverfi tengdist um Brálund við Miðhúsabraut.  Frestur til að skila athugasemdum var til 8. apríl og bárust bæjaryfirvöldum athugasemdir kærenda.  Á fundi skipulagsnefndar hinn 29. apríl var athugasemdum kærenda svarað og lagt til við bæjarstjórn að tillagan yrði samþykkt.  Á fundi bæjarstjórnar hinn 5. maí var tillagan samþykkt.  Birtist auglýsing um gildistöku samþykktarinnar í B-deild Stjórnartíðinda 10. júní 2009. 

Skutu kærendur framangreindri samþykkt til úrskurðarnefndarinnar svo sem áður greinir. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er byggt á því að framkvæmdir við tengingu Brálundar og Miðhúsabrautar séu langt komnar.  Veturinn 2007/2008 hafi verið boðnar út framkvæmdir við Miðhúsabraut og í útboðslýsingu hafi verið var gert ráð fyrir tengingu við Skógarlund í gegnum Brálund.  Í framhaldi af útboðinu hafi framkvæmdir hafist.  Eftir ábendingar kærenda um að áðurnefnd tenging um Brálund samræmdist ekki skipulagi hafi þeim hluta framkvæmdanna verið frestað.  Hafi skýringar bæjaryfirvalda verið að sá hluti framkvæmdanna hafi verið boðinn út fyrir mistök.  Eins og staðfest sé af skipulagsstjóra, sbr. bréf hans til kærenda, dags 16. október 2007, hafi framkvæmdir þá verið hafnar.  Megi í raun segja að þeim sé að mestu lokið.  Þær framkvæmdir hafi ekki verið fjarlægðar.  Umrædd tenging sé ekki á gildandi skipulagi.  Samkvæmt ákvæðum 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sé óheimilt að „… breyta skipulagi svæðis þar sem framkvæmt hefur verið í ósamræmi við skipulag fyrr en hin ólöglega bygging, eða byggingarhluti, hefur verið fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt.“  Þar sem framkvæmdir við tengiveginn séu þegar hafnar, sem auk þess séu í andstöðu við gildandi deiliskipulag, sé óheimilt að samþykkja breytt deiliskipulag sem feli hina ólögmætu framkvæmd í sér.  Beri því strax á þessari forsendu að fella skipulagið úr gildi. 

Við setningu laga nr. 73/1997 hafi við meðferð málsins á Alþingi verið gerð breytingartillaga af hálfu umhverfisnefndar sem síðar hafi orðið að 4. mgr. 56. gr. laganna.  Í nefndaráliti sem mælt hafi fyrir breytingunni segi:  „Hins vegar er mælt fyrir um að óheimilt sé að breyta skipulagi svæðis þar sem framkvæmt hefur verið í ósamræmi við skipulag fyrr en hin ólöglega bygging eða byggingarhluti hefur verið fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt.  Telur nefndin nauðsynlegt að slíkt ákvæði sé sett í lög þar sem dæmin sýna að skipulagi hefur oft verið breytt eftir að mannvirki hefur verið reist og eru slík vinnubrögð óviðunandi og fara gegn anda frumvarps þessa.“  Mjög skýrt sé kveðið á um það í nefndarálitinu að framkvæmdir sem séu í andstöðu við skipulag fari gegn anda frumvarpsins og séu ólíðandi.  Einbeittur vilji skipulagsyfirvalda til að breyta skipulagi til samræmis við orðna framkvæmd haggi ekki þeim skýra ásetningi löggjafans að koma í veg fyrir slíkt verklag.  Í þessu tilviki sé um að ræða nákvæmlega þá málsmeðferð sem ákvæðinu sé ætlað að koma í veg fyrir.  Beri að fella skipulagið úr gildi þar sem að málsmeðferð skipulagstillögunnar samrýmist ekki 56. gr. skipulags og byggingarlaga. 

Verði ekki fallist á ofangreint sé á því byggt að skipulagsyfirvöldum hafi borið að taka tillit til þess að Brálundur sé í dag íbúðargata og að við götuna sé starfrækt dagvistun fyrir börn.  Meginhlutverk slíkra gatna sé að skapa aðkomu að húsum og þjónustu við þá götu.  Ef framkomnar hugmyndir verði að veruleika sé fyrirséð að hin aukna umferð, sem fylgja muni breytingunni, skapi hættu og óþægindi fyrir þá sem fái þjónustu þar. 

Samkvæmt gildandi aðalskipulagi bæjarins sé fyrirhuguð tenging Lundarhverfis við Miðhúsabraut um Dalsbraut.  Sú tenging muni nýtast íbúum hverfisins og tengja það við verslun á gatnamótum Kjarnagötu og Miðhúsabrautar.  Sú tenging sé ekki gegnum íbúðargötur.  Veigamikil rök verði að koma fram til að beina umferð um Brálund frekar en um fyrirhugaða Dalsbraut.  Minnt sé á skyldu bæjarins til að hlíta eigin skipulagi og vinna í samræmi við það.  Skipulagsyfirvöld hafi ekki fært nein rök fyrir því að gera frekar tengingu um Brálund en láta Dalsbraut bíða.  Sé á því byggt að málaefnaleg sjónarmið hafi ekki ráðið ferðinni og að ekki hafi verið færð fram nægjanleg rök fyrir því að velja frekar þá leið sem farin sé samkvæmt hinu umþrætta deiliskipulagi. 

Þá sé á því byggt að skipulagsyfirvöld hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Samkvæmt deiliskipulaginu verði Brálundur notaður til tengingar Lundarhverfis við Miðhúsabraut.  Ekki hafi farið fram rannsóknir af hálfu skipulagsyfirvalda á því hvaða áhrif framkomnar hugmyndir hafi á umferð um götuna.  Engar rannsóknir liggi fyrir um umferð um Brálund, umferðarþunga eða annað sem kunni að skipta máli.  Sé að mati kærenda nauðsynlegt að slík rannsókn fari fram áður en deiliskipulagstillaga verði að veruleika.  Af hálfu skipulagsyfirvalda hafi því verið heitið að slík rannsókn færi fram en hvergi sé að finna niðurstöðu þeirra athugana. 

Þá sé ekki gerð grein fyrir áhrifum skipulagsins verði það að veruleika.  Í greinargerð sé ekki að finna neina greiningu á hugsanlegum umferðarþunga eða áhrifum aukinnar umferðar á starfsemi við Brálund eða íbúa á svæðinu.  Skipulagsyfirvöld hafi því ekki séð til þess við undirbúning skipulagsins að nægar upplýsingar lægju fyrir.  Sé því málsmeðferð við undirbúning deiliskipulagsins ekki í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, einkum 10. gr.  Sé ágalli þessi slíkur að fella beri skipulagið úr gildi. 

Ennfremur sé á því byggt að við undirbúning skipulagsins hafi skipulagsyfirvöld ekki leitað nægjanlega eftir sjónarmiðum og tillögum íbúa og annarra þeirra sem hagsmuna eigi að gæta um mörkun stefnu og skipulagsmarkmið í samræmi við ákvæði 4. mgr. 9. gr., sbr. 6. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Sérstaklega sé bent á að skipulagsyfirvöld hafi ekki haft samráð við hverfisráð Lundarhverfis.  Þá hafi kærendur ítrekað komið á framfæri athugasemdum til skipulagsyfirvalda, einkum vegna hinna ólögmætu framkvæmda við tengingu Brálundar við Miðhúsabraut.  Hafi athugasemdum þessum verið komið á framfæri í bréfum til skipulagsyfirvalda og á fundum með kjörnum fulltrúum bæjarins.  Sé á því byggt að skipulagsyfirvöld hafi hvorki leitað nægjanlega eftir samstarfi við íbúa og hagsmunaaðila né tekið nægjanlegt tillit til sjónarmiða sem þeim hafi borist.  Sé þessi ágalli á málsmeðferð skipulagsyfirvalda með þeim hætti að fella beri skipulagið úr gildi. 

Á því sé byggt að skipulagsyfirvöld hafi í raun komist að niðurstöðu um tilhögun skipulagsins áður en ferlið hafi hafist.  Eins og fram komi í tölvupósti, skipulagsstjóra bæjarins, dags. 8. október 2007, hafi þá þegar verið ráðgert að gera deildiskipulag með tengingu við Skógarlund um Brálund.  Þrátt fyrir ábendingar íbúa, sem sannanlega hafi verið mótteknar af skipulagsyfirvöldum hafi, verið haldið áfram með framkvæmdirnar.  Framkvæmdavilji bæjaryfirvalda hafi verið einbeittur og vísvitandi verið farið á svig við gildandi lög og skipulag.  Sé af þessu ljóst að ekki hafi neitt raunverulegt samráð verið haft við íbúa.  Þá liggi ekki fyrir könnun á afleiðingum tillögunnar eða öðrum þáttum sem kunni að skipta máli þar sem skipulagsyfirvöld hafi verið að bregðast við mistökum við útboð Miðhúsabrautar.  Virðist sem stjórnvöld hafi þegar fyrir auglýsingu skipulags verið búin að ákveða niðurstöðu deiliskipulagsferlisins.  Sé það ekki trúverðug stjórnsýsla að nánast ljúka framkvæmdum og auglýsa síðan deildiskipulag í samræmi við þær framkvæmdir og halda því fram að raunverulegt samráð hafi átt sér stað. 

Málsrök Akureyrarbæjar:  Af hálfu Akureyrarbæjar er vísað til þess að umrædd vegtenging, á milli Skógarlundar og Miðhúsabrautar, hafi verið á aðalskipulagi Akureyrarbæjar frá árinu 1974.  Þá hafi vegslóði verið á sama stað í tugi ára sem hafi verið ekið um að hesthúsum og fjárhúsum í bæjarlandinu.  Vegtengingin sjáist ekki lengur á núverandi aðalskipulagi þar sem lög kveði ekki lengur á um að þar þurfi að sýna aðrar götur en stofn- og tengibrautir. 

Þegar unnið hafi verið við lagningu Miðhúsabrautar hafi vegslóðinn verið nýttur af verktaka til aðfanga við hina nýju vegagerð.  Vegslóðinn hafi verið endurbættur svo hægt hafi verið að nýta hann undir nauðsynlega umferð þungra ökutækja við byggingu tengibrautarinnar.  Það hafi verið gert til þess að halda umhverfisraski sem minnstu á öðrum svæðum þar sem hluti Brálundar hafi þá þegar verið til staðar.

Því sé mótmælt að ekki hafi verið haft fullt samráð við hagsmunaaðila um gerð deiliskipulagstillögunnar.  Hverfisnefnd Lunda- og Gerðahverfis hafi verið sent erindi, dags. 20. febrúar 2009, þar sem tilkynnt hafi verið um fyrirhugaða auglýsingu deiliskipulagstillögunnar.  Frestur til að gera athugasemdir hafi verið til 8. apríl 2009, en engar athugasemdir hafi borist frá hverfisnefndinni.  Þá hafi engar athugasemdir komið frá eigendum Brálundar 1, þar sem rekin sé dagvistun fyrir börn.  Akureyrarbær telji að fullt samráð hafi verið haft um framlagðar hugmyndir sem hafi verið auglýstar samkvæmt skipulagslögum ásamt því að tillagan hafi verið rædd og útskýrð á hverfafundi um skipulagsmál sem haldinn hafi verið 5. mars 2009 í Brekkuskóla. 

Fram komi í kærunni að Akureyrarbær hafi viðurkennt að framkvæmdir hafi verið hafnar við tengingu án heimildar.  Hvergi sé minnst á slíkt í bréfi skipulagsstjóra, en einungis sé sagt að fyrir mistök hafi fyrrgreindur leggur verið í útboðsgögnum þegar Miðhúsabraut hafi verið boðin út, en umræddri vegtengingu hafi verið kippt út þegar þau mistök hafi uppgötvast og allar framkvæmdir stöðvaðar. 

Þá sé því mótmælt að framkvæmdavilji bæjarins hafi verið einbeittur og að vísvitandi hafi verið farið á svig við lög og reglur.  Eins og áður hafi komið fram hafi þau mistök verið gerð við útboð fyrir Miðhúsabraut að umrædd vegtenging hafi verið inni í útboðsgögnum og hafi framkvæmdir við tenginguna verið stöðvaðar um leið og það hafi orðið ljóst, eða í október 2007. 

Þá sé því mótmælt að rannsóknarskyldu hafi ekki verið fullnægt við deiliskipulagningu umrædds reits.  Samhliða gerð deiliskipulagstillögunnar hafi verkfræðistofan Línuhönnun unnið hljóðskýrslu um Miðhúsabraut og Brálund, dags. 3. apríl 2008, og minnisblað um umferðarmál, dags. 12. maí 2008.  Þar komi m.a. fram að umferð um Brálund yrði lítil, eða 1000-2000 bílar á sólarhring.  Þá sé í kafla 2.4 í greinargerð deiliskipulagsins tekið á áhrifum á umhverfi og samfélag. 

Kærendur vísi til þess að hætta geti stafað af vegtengingunni.  Í deiliskipulaginu sé gert ráð fyrir að Brálundartengingin við Miðhúsabraut verði skilgreind sem 30 km gata með hraðahindrunum.  Með þeirri tilhögun ætti ekki að skapast hætta vegna aðkomu að húsum við götuna. 

Lagning Miðhúsabrautar hafi hafist árið 2007 og hafi framkvæmdum við hana lokið á árinu 2008.  Með tilkomu hennar hafi álag minnkað mikið á Þingvallastræti en þó vanti tengingar við hana til þess að dreifa álagi enn frekar af Skógarlundi og Mýrarvegi.  Með tilkomu nýrrar verslunar við gatnamót Kjarnagötu og Miðhúsabrautar ætti aðgengi að versluninni að dreifast á fleiri tengingar með tilkomu Brálundartengingar við Miðhúsabraut sem annars færi um Mýrarveg.  Með þessu sé verið að dreifa umferð um svæðið og um leið freista þess að ná sem mestri nýtingu á Miðhúsabraut. 

Skipulagsrök fyrir vegtengingunni séu því hugsuð út frá almannaheill þar sem hún skapi minni hættu og meira hagræði fyrir fleiri íbúa, þó að íbúar við þau tvö hús sem séu við Brálund geti átt von á meiri umferð um götuna en nú sé, með vísan til skammtímaspár.  Benda megi á að eina tengingin við golfvöllinn á Jaðri hafi verið um Brálund.  Henni hafi  nú verið lokað og sé vegtenging á golfvöllinn nú um Naustahverfi.  Umferð um tengingu við golfvöllinn um Brálund hafi verið mjög mikil á köflum þannig að raunaukning umferðar um Brálund ætti að verða enn minni en fram komi í skýrslunni. 

Byggt sé á því að 56. gr. skipulags- og byggingarlaga eigi ekki við í málinu þar sem hið kærða deiliskipulag sé nýtt deiliskipulag, en ekki breyting á áður gerðu skipulagi eins og ákvæðið geri ráð fyrir og segi berum orðum.  Þetta eigi sér stoð í orðalagi 1. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga þar sem segir:  „Ef framkvæmd, sem fellur undir 27. gr. eða undir IV. kafla laga þessara, er hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni, hún byggð á annan hátt en leyfi stendur til eða ef bygging er tekin til annarra nota en sveitarstjórn hefur heimilað getur skipulagsfulltrúi/byggingarfulltrúi stöðvað slíkar framkvæmdir tafarlaust. Sé um framkvæmdaleyfisskylda framkvæmd að ræða leitar skipulagsfulltrúi staðfestingar sveitarstjórnar. Sé um byggingarleyfisskylda framkvæmd að ræða leitar byggingarfulltrúi staðfestingar byggingarnefndar svo fljótt sem við verður komið.“ 

Með vísan til 1. mgr. 56. gr. laganna sé byggt á því að ákvæði 4. mgr. 56. gr. eigi aðeins við um framkvæmdaleyfisskylda framkvæmd og/eða mannvirki sem þurfi byggingarleyfi fyrir.  Hvorugt skilyrðið eigi því við um umrædda vegtengingu. 

Í 27. gr. laganna sé fjallað um nauðsyn þess að afla framkvæmdaleyfis hjá sveitarstjórn vegna meiriháttar framkvæmda sem áhrif hafi á umhverfið og breyti ásýnd þess, svo sem breytingar lands með jarðvegi eða efnistöku, og annarra framkvæmda sem falli undir lög um mat á umhverfisáhrifum.  Ljóst sé að vegtengingin sem hafi verið á aðalskipulagi frá 1974 og vegslóðinn, sem nýttur hafi verið í tugi ára, teljist ekki til meiri háttar framkvæmda sem áhrif hafi á umhverfið og breyti ásýnd þess.  Þá sé í lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 sérstaklega tiltekið í viðauka I að aðeins stofnbrautir í þéttbýli séu háðar mati á umhverfisáhrifum og í viðauka II sé tiltekið að meta skuli hvort tengibrautir séu háðar slíku mati, en ákvæðið eigi ekki við um safngötur og íbúðargötur eins og umrædd vegtenging teljist vera. 

Þá sé ekki um byggingarleyfisskylda starfsemi að ræða en í 36. gr. skipulags- og byggingarlaga segi að ákvæði IV. kafla sem fjalli um mannvirki taki til hvers konar bygginga ofan jarðar og neðan.  Samkvæmt 1. mgr. 36. gr. laganna séu götur m.a. undanþegnar byggingarleyfi. 

Þar sem 4. mgr. 56. gr. kveði aðeins á um að óheimilt sé að breyta skipulagi svæðis þar sem framkvæmt hafi verið í ósamræmi við skipulag fyrr en hin ólöglega bygging, eða byggingarhluti, hafi verið fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt, sé ljóst að ákvæðið eigi ekki við um vegtengingu á milli Brálundar og Miðhúsabrautar.  Því sé ekki hægt að byggja á því að fjarlægja hefði þurft þær framkvæmdir sem þegar hafi verið gerðar áður en hið nýja deiliskipulag hafi litið dagsins ljós. 

Verði talið að umrætt ákvæði 56. gr. skipulags- og byggingarlaga eigi við sé því við að bæta að í tæmandi talningu í 4. mgr. 56. gr. séu talin upp nokkur skilyrði, en eitt af þeim sé að starfsemi sé hætt.  Umræddri starfsemi hafi verið hætt um leið og ljóst hafi verið að athugasemd hafi verið gerð við framkvæmdina. 

Þess fyrir utan megi velta fyrir sér hvort umrædd vegtenging hafi þurft að fara í deiliskipulag og hvort ekki hafi verið nægjanlegt að hanna og byggja hana í samræmi við vegslóðann og hið gamla aðalskipulag.  Ljóst sé að ef ekki hefði verið farið í deiliskipulagningu á Daggarlundi kveði skipulagslög ekki á um það sérstaklega að deiliskipuleggja þurfi vegtengingar á milli tveggja gatna sem þegar séu til í skipulagi.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið er í máli þessu deilt um gildi ákvörðunar bæjarstjórnar Akureyrarbæjar frá 5. maí 2009 um deiliskipulag Brálundar á Akureyri.  Svæðið afmarkast af Miðhúsabraut að sunnan og lóðum við Eikarlund að norðan, göngustíg frá Eikarlundi að vestan og Brálundi að austan.  Felur tillagan í sér að gerð verði ný húsagata, Daggarlundur, með 16 einbýlishúsalóðum ásamt því að Brálundur tengist Miðhúsabraut. 

Í 2. mgr. gr. 4.16.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 segir að í aðalskipulagi skuli gera grein fyrir þegar byggðum og fyrirhuguðum samgöngumannvirkjum, s.s. þjóðvegum og höfnum, svo og helstu umferðaræðum og tengingum við þær og í 5. mgr. sömu greinar segir að á þéttbýlisuppdrætti aðalskipulags skuli gera grein fyrir stofnbrautum og tengibrautum.  Verður að skilja ákvæði þessi svo að ekki nægi að sýna á þéttbýlisuppdrætti aðalskipulags stofn- og tengibrautir heldur þurfi einnig að sýna tengingar við þær.  Í gildandi Aðalskipulagi Akureyrar 2005-2018 er hvorki gerð grein fyrir tengingu Brálundar við Miðhúsabraut á uppdrætti né í greinargerð, en Miðhúsabraut er sýnd sem tengibraut á uppdrætti aðalskipulagsins. 

Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skal gera deiliskipulag á grundvelli aðalskipulags fyrir einstök svæði og reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar.  Í 9. gr. sömu laga segir og að svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlanir skuli vera í innbyrðis samræmi. 

Svo sem að framan er rakið er ekki í gildandi aðalskipulagi Akureyrar heimild fyrir þeirri tenginu Brálundar við Miðhúsabraut sem ákveðin er í hinu kærða deiliskipulagi.  Samræmist deiliskipulagið að því leyti ekki aðalskipulagi svo sem áskilið er að lögum.  Verður því fallist á kröfu kærenda um ógildingu, en með hliðsjón af meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, verður hin kærða ákvörðun þó aðeins felld úr gildi að því er varðar umdeilda tengingu Brálundar við Miðhúsabraut.  Er sú niðurstaða í samræmi við varakröfu kærenda en að öðru leyti skal hið kærða deiliskipulag standa óraskað, enda verður ekki séð að deiliskipulagið að öðru leyti sé haldið neinum þeim annmörkum er leiða eigi til ógildingar þess í heild sinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Hin kærða ákvörðun bæjarstjórnar Akureyrarbæjar frá 5. maí 2009 er felld úr gildi að því er varðar tengingu Brálundar við Miðhúsabraut.  Að öðru leyti skal hin kærða ákvörðun standa óröskuð. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________            _____________________________
Ásgeir Magnússon                                           Þorsteinn Þorsteinsson

15/2008 Austurbrún

Með

Ár 2009, fimmtudaginn 12. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 15/2008, kæra á ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 19. desember 2007 um að samþykkja breytt deiliskipulag í Laugarási vegna lóðarinnar nr. 26 við Austurbrún. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 10. mars 2008, er barst nefndinni samdægurs, kærir Andri Árnason hrl., f.h. átta íbúa við Austurbrún 20-28, þá ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 19. desember 2007 að samþykkja breytt deiliskipulag í Laugarási vegna lóðarinnar nr. 26 við Austurbrún. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Á embættisafgreiðslufundi skipulagsstjóra 19. október 2007 var lögð fram umsókn lóðarhafa Austurbrúnar 26 um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar.  Fól umsóknin í sér stækkun lóðarinnar úr 385 í 404 m², þannig að borgarland sem nýtt væri sem bílastæði yrði gert að bílastæði er tilheyrði lóðinni að Austurbrún 26.  Var samþykkt að grenndarkynna umsóknina og stóð kynningin yfir frá 25. október til 22. nóvember 2007.  Athugasemdir bárust, m.a. frá kærendum. 

Í athugasemdum og svörum skipulagsstjóra, dags. 7. desember 2007 sagði m.a. eftirfarandi:  „Í ljósi viðbragða hagsmunaaðila á reitnum er ekki hægt að mæla með því að kynnt tillaga verði samþykkt þar sem um sameiginlegt gestabílastæði er að ræða og mun lóðarstækkun Austurbrúnar 26 þannig ganga á hagsmuni heildarinnar. … Lagt er því til að fallið verði frá kynntri tillögu og erindinu synjað.“ 

Erindið var tekið fyrir á fundi skipulagsráðs 19. desember 2007, þar sem eftirfarandi var bókað:  ,,Samþykkt með vísan til a liðar 12. gr. samþykktar um skipulagsráð.  Skipulagsráð tekur að mestu undir þau sjónarmið sem fram koma í umsögn skipulagsstjóra en telur ástæðu til að samþykkja erindið með vísan til þess að aðliggjandi lóðarhafar hafa áður fengið sambærilegar lóðarstækkanir á kostnað göngustíga. Með vísan til þess og almennra sanngirnissjónarmiða telur skipulagsráð að málefnaleg sjónarmið hnígi til þess að samþykkja hina kynntu tillögu óbreytta.“  Auglýsing um gildistöku samþykktarinnar birtist í B-deild Stjórnartíðinda 12. febrúar 2008. 

Skutu kærendur framangreindri samþykkt til úrskurðarnefndarinnar svo sem áður greinir. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er vísað til þess að í 1. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sé kveðið á um þá meginreglu að með breytingar á deiliskipulagi skuli fara sem um nýtt deiliskipulag sé að ræða.  Þannig beri sveitarstjórn að auglýsa slíkar breytingar og fara að öðru leyti með þær í samræmi við framangreinda meginreglu í stað þess að grenndarkynna breytinguna, líkt og gert hafi verið í þessu tilviki. 

Af hálfu kærenda sé í sjálfu sér ekki gerð athugasemd við stækkun umræddrar lóðar.  Hins vegar séu kærendur mótfallnir stækkun hennar með þeim hætti sem hin kærða ákvörðun geri ráð fyrir, enda feli hún í sér skerðingu á almennum bílastæðum í götunni, sem kærendur geti ekki fellt sig við.  Jafnframt verði ekki séð að stækkun lóðarinnar takmarkist við notkun undir bílastæði, heldur sé um að ræða stækkun lóðarinnar á kostnað almenns gestabílastæðis sem nýst hafi öllum íbúum götunnar. 

Bent sé á að 2. mgr. 26. gr. laganna feli í sér undantekningarreglu frá fyrrgreindri meginreglu laganna, sem skýra beri þröngt.  Eingöngu sé því heimilt að víkja frá 1. mgr. 26. gr. laganna ef um smávægilegar breytingar á gildandi deiliskipulagi sé að ræða.  Álíti kærendur hina kærðu breytingu verulega, auk þess sem hún varði hagsmuni margra aðila.  Hið breytta skipulag feli í sér fækkun almennra bílastæða í götunni, úr átta í sjö, sem sé umtalsvert og komi sér illa fyrir íbúa, auk þess sem það feli í sér skerðingu verðmætis eigna við götuna.  Fækkun bílastæða í götunni bitni á fjölmörgum íbúum þar, en almenn gestabílastæði séu nú of fá.  Hið umþrætta bílastæði nýtist hins vegar öllum íbúum götunnar jafnt, einnig lóðarhafa Austurbrúnar 26.  Með breytingunni sé hins vegar gætt hagsmuna eins íbúa götunnar á kostnað allra hinna, en með því sé meiri hagsmunum fórnað fyrir minni.  Álíti kærendur slíkt stangast á við meðalhóf, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Bendi kærendur á að umrædd breyting feli í sér að lokað sé fyrir hjóla- og gönguleiðir um götuna og því sé umferð gangandi og hjólandi vegfarenda útilokuð um suðurenda götunnar, nema um lóðir. 

Ekki verði séð að nein haldbær skipulagsleg rök hafi legið fyrir hinni umdeildu breytingu, enda sé hún ekki rökstudd að öðru leyti en því að vísað sé til þess að „málefnaleg rök hnígi til þess að samþykkja hina kynntu tillögu óbreytta“.  Að öðru leyti sé í bókun ráðsins tekið undir þau sjónarmið sem sett hafi verið fram í áðurnefndri umsögn skipulagsstjóra.  Telji kærendur að þar sem ákveðið hafi verið að fara gegn vel rökstuddri umsögn skipulagsstjóra hafi skipulagsráði borið að rökstyðja niðurstöðu sína með mun ítarlegri hætti en gert hafi verið og geta þeirra málefnalegu sjónarmiða sem ráðið hafi talið hníga til samþykktar tillögunnar. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er tekið undir það með kærendum að í samræmi við almenn lögskýringarsjónarmið beri að skýra undantekningar laga þröngri lögskýringu.  Í úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 164/2007 sé að hluta komið inn á mörkin milli 1. og 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 um það hvað teljist veruleg breyting.  Þar segi m.a:  ,,Þegar meta skal hvort bygging teljist einungis hafa í för með sér óverulegar breytingar verður m.a. að líta til þess hversu umfangsmikil hún sé í hlutfalli við þær byggingar sem fyrir eru á umræddri lóð eða svæði og hver grenndaráhrif hennar séu á nærliggjandi eignir.“  Þá sé einnig vísað til úrskurðar í máli nr. 105/2005 þar sem úrskurðarnefndin hafi talið fækkun bílastæða vegna stúdentaíbúða ekki það verulega breytingu á deiliskipulagi að þurft hafi að auglýsa hana, sbr. 1. mgr. 26. gr. laganna, heldur hafi grenndarkynning, sbr. 2. mgr. 26. gr., sbr. 7. mgr. 43. gr. laganna, verið nægjanleg því verið hafi um óverulega breytingu að ræða.  Auk þessa sé bent á að með bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 6. febrúar 2008, hafi stofnunin ekki gert athugasemdir við að hin kærða samþykkt yrði auglýst í B-deild Stjórnartíðinda. 

Þá sé vísað til þess að í meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins felist að stjórnvöld verði að gæta hófs í meðferð valds síns.  Þannig sé stjórnvaldi ekki aðeins skylt að líta til þess markmiðs sem starf þess stefni að heldur beri því einnig að taka tillit til hagsmuna og réttinda þeirra einstaklinga og lögaðila sem athafnir stjórnvaldsins og valdbeiting beinist að.  Lagaleg þýðing meðalhófsreglunnar sé sú að hún hafi fyrst og fremst þýðingu þegar ákvörðun eða athöfn stjórnvalds byggi á mati á aðstæðum.  Meðalhófsreglan sé ekki fastmótuð regla sem segi til um hver niðurstaða eigi að vera í einstöku máli heldur gefi hún fremur til kynna ákveðin sjónarmið sem stjórnvaldshafa beri að hafa í huga þegar hann taki ákvörðun sem hafi íþyngjandi áhrif á líf borgaranna.  Það sé afstaða Reykjavíkurborgar að með hinni kærðu samþykkt hafi skipulagsráð ekki brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaga og ekki hafi verið um að ræða ákvörðun sem telja megi íþyngjandi fyrir aðra íbúa Austurbrúnar, þ.á m. kærendur. 

Vísað sé til þess að veigamikil sanngirnissjónamið hafi legið fyrir ákvörðun skipulagsráðs.  Vissulega fækki stæðum úr átta í sjö en vert sé að benda á, sbr. bókun skipulagsráðs, að rétthafar aðliggjandi lóða hafi áður fengið sambærilegar lóðarstækkanir á kostnað göngustíga.  Í gildi sé deiliskipulag Laugaráss, staðfest af Skipulagsstjórn ríkisins hinn 29. júní 1983.  Hinn 22. nóvember 1988 hafi borgarráð samþykkt niðurfellingu stíga milli lóðanna nr. 22 og 24 og milli lóðanna nr. 26 og 28 við Austurbrún og jafnframt að borgarland milli lóðanna nr. 22 og 24 skiptist jafnt milli viðkomandi lóða.  Sé það afstaða Reykjavíkurborgar að fækkun stæða um eitt vegna lóðarstækkunar Austurbrúnar nr. 26 geri það ekki að verkum að hagsmunir heildarinnar séu fyrir borð bornir, heldur hið gagnstæða þar sem umrædd breyting hafi það í för með sér að nú sitji íbúar Austurbrúnar við sama borð. 

Varðandi þá málsástæðu kærenda að ákvörðun skipulagsráðs hafi ekki verið rökstudd sé vísað til bókunar ráðsins.  Sé það afstaða Reykjavíkurborgar að í þeirri bókun felist vel rökstudd niðurstaða skipulagsráðs sem hafi verið einróma í afstöðu sinni til breytingarinnar. 

Andsvör kærenda við málsrökum Reykjavíkurborgar:  Af hálfu kærenda er bent á að almennt sé gert ráð fyrir einu einkabílastæði við hvert hús götunnar.  Með hinni kærðu samþykkt verði bílastæðin við hús nr. 26 hins vegar orðin tvö til þrjú, enda jafngildi grunnflötur umræddrar lóðarstækkunar tveimur bílastæðum.  Ekki verði séð að sérstök ástæða sé til þess að einkabílastæðum við umrætt hús verði fjölgað með þessum hætti á kostnað annarra íbúa götunnar. 

Þá verði ekki séð hvaða almennu sanngirnissjónarmið hafi legið því til grundvallar að fjölga einkabílastæðum eins íbúa götunnar á kostnað annarra íbúa.  Álíti kærendur að samþykkt borgarráðs frá 22. nóvember 1998 hafi ekki nokkra þýðingu við mat á þessu, enda með engu sambærilegt, auk þess sem um hafi verið að ræða breytingar til hagsbóta fyrir suma íbúa götunnar en alls ekki alla.  Þá hafi umræddar breytingar verið gerðar að frumkvæði og ósk íbúa að Austurbrún 26. 

Málsrök lóðarhafa að Austurbrún 26:  Lóðarhafa að Austurbrún 26 var gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum í málinu.  Telur hann að með hinni kærðu samþykkt hafi borgaryfirvöld viljað rétta hlut hans, en hann hafi verið eini lóðarhafinn við þá botnlangagötu sem um ræði sem aðeins hafi haft eitt bílastæði.  Með ákvörðuninni hafi verið komið til móts við sjónarmið um að allir lóðarhafar á svæðinu eigi að sitja við sama borð. 

———–

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki verða rakin nánar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Vettvangsskoðun:  Fulltrúar úrskurðarnefndarinnar kynntu sér með óformlegum hætti aðstæður á vettvangi hinn 23. september 2009. 

Niðurstaða:  Á svæði því er um ræðir er í gildi deiliskipulag í Laugarási frá árinu 1983 og felur hin kærða samþykkt í sér breytingu þess, þ.e. heimild til stækkunar lóðarinnar nr. 26 við Austurbrún úr 385 í 404 m2.  Svæði það er stækkunin tekur til var áður hluti borgarlands og nýtt sem bílastæði. 

Í 1. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 segir að ef sveitarstjórn ákveði að breyta deiliskipulagi skuli fara með breytinguna eins og um nýtt deiliskipulag væri að ræða, þ.e. að auglýsa tillögu um breytingu með áberandi hætti, sbr. 1. mgr. 25. gr. laganna.  Undantekningu frá þessari reglu er að finna í 2. mgr. 26. gr. laganna þar sem segir að heimilt sé að falla frá auglýsingu ef um óverulega breytingu sé að ræða.  Telur úrskurðarnefndin að stækkun lóðarinnar að Austurbrún 26 og nýting hennar í kjölfarið sé þess eðlis að borgaryfirvöldum hafi verið heimilt, eins og þarna stóð á, að neyta fyrrgreindrar undanþáguheimildar, enda verður ekki talið að byggðarmynstur eða yfirbragð byggðarinnar breytist til muna við breytinguna. 

Eins og áður segir var svæði það er stækkun lóðarinnar að Austurbrún 26 tekur til áður nýtt sem bílastæði.  Verður ekki annað af málsgögnum ráðið en að með hinni kærðu ákvörðun sé verið að jafna mun er verið hafi á aðstöðu lóðarhafa með tilliti til bílastæða.  Verður og að líta til þess að hinn 22. nóvember 1988 samþykkti borgarráð niðurfellingu stíga, sem sýndir voru á skipulagi milli lóðanna 22 og 24 svo og milli lóðanna 26 og 28 við Austurbrún, og að eigendur lóðanna nr. 22, 24 og 28 hafa notið þeirrar breytingar og fengið samsvarandi stækkun lóða sinna.  Er ákvörðun sú sem um er deilt í máli þessu í góðu samræmi við þessar breytingar, en auk þess, leiðir af þeim að ekki fær staðist sú fullyrðing kærenda að með henni hafi verið lokað fyrir hjóla- og gönguleiðir á svæðinu.  Styðst hin kærða ákvörðun og við málefnaleg sjónarmið um jafnræði og verður ekki á það fallist að í henni felist mismunun eða að rökstuðningi hennar hafi verið svo áfátt að leiða eigi til ógildingar.  Verður kröfu kærenda því hafnað. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 19. desember 2007 um að samþykkja breytt deiliskipulag í Laugarási vegna lóðarinnar nr. 26 við Austurbrún. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________             _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                 Þorsteinn Þorsteinsson

12/2007 Hverfisgata

Með

Ár 2009, þriðjudaginn 10. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor. 

Fyrir var tekið mál nr. 12/2007, kæra á ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 18. október 2006 um breytingu á deiliskipulagi reits 1.173.0, er varðar lóðina að Hverfisgötu 78 í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 14. febrúar 2007, er barst nefndinni sama dag, kærir Guðfinna J. Guðmundsdóttir hdl., f.h. V ehf., eiganda fasteignanna að Hverfisgötu 80 og Laugavegar 59, og H, Hverfisgötu 76, ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 18. október 2006 um breytingu á deiliskipulagi reits 1.173.0, er varðar lóðina að Hverfisgötu 78.  Auglýsing um gildistöku skipulagsbreytingarinnar birtist í B-deild Stjórnartíðinda hinn 15. janúar 2007. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða deiliskipulagsbreyting verði felld úr gildi og að kveðinn verði upp úrskurður um stöðvun framkvæmda á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Hin kærða ákvörðun varðar breytingu á deiliskipulagi sem felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir og eru því ekki skilyrði til þess að kveða upp úrskurð um stöðvunarkröfuna. 

Málavextir:  Á árinu 2004 lagði eigandi fasteignarinnar að Hverfisgötu 78 fram fyrirspurn til skipulagsyfirvalda í Reykjavík um afstöðu þeirra til áforma um að bæta við fimmtu hæð ofan á framhús á greindri lóð og þremur hæðum ofan á bakhús með fimm litlum íbúðum.  Skipulagsfulltrúi tók neikvætt í erindið en á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 22. desember 2004 var tekin jákvæð afstaða til málsins og var skipulagsfulltrúa falið að vinna að málinu með lóðarhafanum og mun málið hafa verið til meðferðar hjá skipulagsfulltrúa í janúar 2005. 

Í desembermánuði 2005 var málið aftur á dagskrá skipulagsfulltrúa sem vísaði því til skipulagsráðs.  Á fundi sínum hinn 21. desember sama ár fól skipulagsráð skipulagsfulltrúa að funda með aðilum og var ekki gerð athugasemd við að lóðarhafi Hverfisgötu 78 léti vinna tillögu að breytingu á deiliskipulagi reitsins á eigin kostnað sem síðar yrði grenndarkynnt.  Hinn 10. febrúar 2006 var breytingartillagan, er byggði á áðurgreindum byggingaráformum, lögð fram á fundi skipulagsfulltrúa og þar samþykkt að grenndarkynna hana.

Athugasemdir bárust við hina grenndarkynntu tillögu, m.a. frá kærendum, og var málið til umfjöllunar hjá skipulagsyfirvöldum næstu mánuði.  Urðu lyktir málsins þær að hinn 29. september 2006 var lögð fram breytt skipulagstillaga þar sem gert var ráð fyrir tveggja hæða hækkun bakhúss að Hverfisgötu 78 í stað þriggja samkvæmt hinni kynntu tillögu og samþykkti skipulagsráð tillöguna svo breytta, með fyrirvara um lagfæringu uppdrátta, hinn 18. október 2006, með vísan til 12. gr. samþykktar fyrir ráðið sem heimilar því lokaafgreiðslu óverulegra breytinga á deiliskipulagi.  Breytingin fól efnislega í sér heimild til byggingar fimmtu hæðar ofan á framhúsið að Hverfisgötu 78 með þremur íbúðum og hækkun bakhúss um tvær hæðir þar sem gert var ráð fyrir fimm litlum íbúðum.  Við þessa breytingu hækkaði nýtingarhlutfall umræddrar lóðar úr 2,5 í 3,5. 

Að lokinni framangreindri afgreiðslu skipulagsráðs var deiliskipulagsbreytingin send Skipulagsstofnun til yfirferðar samkvæmt 3. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Í svarbréfi stofnunarinnar, dags. 10. nóvember 2006, var gerð athugasemd við að auglýsing um gildistöku hennar yrði birt í B-deild Stjórnartíðinda.  Samkvæmt bréfinu byggðist sú afstaða á því að framkomnum athugasemdum við grenndarkynningu tillögunnar hefði ekki verið svarað efnislega, ekki yrði unnt að uppfylla kröfur gr. 79.2 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 hvað varði íbúðir í bakhúsi auk þess sem sá hluti fyrirliggjandi uppdráttar er sýndi gildandi deiliskipulag væri ekki í samræmi við breytingu á deiliskipulaginu frá árinu 2004.  Eftir að skipulagsyfirvöld Reykjavíkurborgar sendu inn lagfærðan skipulagsuppdrátt ítrekaði Skipulagsstofnun fyrrnefnda afgreiðslu sína á málinu í bréfi, dags. 15. desember 2006.   

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er á því byggt að hin kærða ákvörðun sé ólögmæt og haldin ógildingarannmörkum bæði að formi og efni til. 

Óheimilt hafi verið að leyfa tveggja hæða íbúðarbyggingu ofan á bakhús að Hverfisgötu 78 þar sem það húsnæði geti ekki uppfyllt þær lágmarkskröfur sem gerðar séu til íbúðarhúsnæðis í byggingarreglugerð, svo sem um birtuskilyrði, enda hafi neikvæð afstaða skipulagsfulltrúa til málsins á sínum tíma m.a. mótast af þeirri staðreynd.  Bygging fimmtu hæðar ofan á framhúsið muni gera það að verkum að byggingin verði mun hærri en nágrannabyggingar og nýtingarhlutfall verði annað en á grannlóðum.  Hvort tveggja brjóti í bága við stefnu og markmið gildandi deiliskipulags fyrir umræddan reit þar sem gert hafi verið ráð fyrir bílageymslum á baklóðum með görðum á þaki og reiturinn talinn nær fullbyggður.  Stuðst hafi verið við rangan uppdrátt við kynningu á hinni kærðu deiliskipulagstillögu hvað varði gildandi skipulag fyrir breytingu og ekki hafi verið tekin afstaða til framkominna athugasemda á kynningartíma fyrr en eftir afgreiðslu breytingartillögunnar.  Málið hafi verið unnið án samráðs við kærendur þótt áform hafi verið um annað samkvæmt minnisblaði skipulagsfulltrúa frá 7. janúar 2005. 

Við skipulagsbreytinguna hafi ekki verið tekið tillit til veitts byggingarleyfis annars kærenda varðandi lóðina að Hverfisgötu 80 og sett sé kvöð á þá eignarlóð um innkeyrslu að baklóð Hverfisgötu 78 án hans samþykkis.  Með tillögunni séu birtuskilyrði í húsnæði kæranda að Laugavegi 59 skert þar sem áformað sé að byggja að því húsi.  Athuganir kærenda hafi leitt í ljós að skuggavarp gagnvart fasteignum þeirra verði annað og meira en framlögð gögn hafi gefið til kynna enda sé þar fjarlægð milli mannvirkja röng og sömuleiðis hæðarafsetning milli Hverfisgötu 80 og Laugavegar 59. 

Kærendur telji að rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar hafi ekki verið gætt við málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar og tekið sé undir fyrirliggjandi sjónarmið Skipulagsstofnunar sem mælti í tvígang gegn því að umdeild breyting tæki gildi.  Þá mótmæli kærendur því að um óverulega breytingu á deiliskipulagi sé að ræða.  Þvert á móti sé breytingin veruleg frá fyrra ástandi og gildandi skipulagi. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu borgaryfirvalda er á því byggt að heimilt hafi verið að samþykkja umrædda deiliskipulagsbreytingu með tilliti til heimilda sveitarstjórna til skipulagsákvarðana.  Að öðru leyti sé vísað til framlagðra gagna í kærumáli þessu. 

Lóðarhafa Hverfisgötu 78 var gefinn kostur á að tjá sig í máli þessu en úrskurðarnefndinni hafa ekki borist athugasemdir eða andmæli frá honum. 

—————

Færð hafa verið fram ítarlegri rök og sjónarmið í máli þessu sem ekki verða rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn þess. 

Niðurstaða:  Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var í deiliskipulagi umrædds reits, sem er frá árinu 1999, gert ráð fyrir bílageymslum á baklóðum Hverfisgötu 76, 78 og 80 með garði á þaki.  Árið 2004 var gerð breyting á skipulaginu hvað varðaði lóðina að Hverfisgötu 78 þar sem heimilað var að byggja yfir meginhluta svala á götuhlið fjórðu hæðar framhússins á þeirri lóð.  Með hinni kærðu skipulagsbreytingu, er eingöngu snertir lóðina að Hverfisgötu 78, er heimiluð bygging fimmtu hæðar ofan á fyrrgreint framhús og tveggja hæða ofan á einnar hæðar bakhús.  Gert er ráð fyrir að í viðbyggingunum verði átta litlar íbúðir og að nýtingarhlutfall lóðarinnar hækki úr 2,5 í 3,5. 

Með nefndri skipulagsbreytingu er vikið í grundvallaratriðum frá áformaðri nýtingu baklóðar Hverfisgötu 78 í gildandi deiliskipulagi og hækkar nýtingarhlutfall lóðarinnar sem nemur um það bil 40%.  Heimiluð hækkun fram- og bakhúss með tilheyrandi fjölgun íbúða er þess eðlis að vænta má að breytingin hafi töluverð grenndaráhrif.  Af þessum ástæðum verður ekki fallist á að hin kærða deiliskipulagsbreyting hafi verið óveruleg í skilningi 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og bar því að auglýsa tillöguna samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laganna, sem felur í sér meginreglu um málsmeðferð deiliskipulagsbreytinga. 

Hin kærða ákvörðun hefur samkvæmt framansögðu ekki hlotið lögmæta málsmeðferð og verður hún þegar af þeirri ástæðu felld úr gildi. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Felld er úr gildi ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 18. október 2006 um breytingu á deiliskipulagi reits 1.173.0, er varðar lóðina að Hverfisgötu 78 í Reykjavík. 

 

 

______________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_______________________________     ______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                  Aðalheiður Jóhannsdóttir

141/2007 Skólavörðuholt

Með

Ár 2009, þriðjudaginn 10. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor. 

Fyrir var tekið mál nr. 151/2007, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 23. ágúst 2007 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Skólavörðuholts. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 8. nóvember 2007, er barst nefndinni samdægurs, kærir S, Bergþórugötu 4, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 23. ágúst 2007 að samþykkja breytt deiliskipulag Skólavörðuholts.  Auglýsing um gildistöku skipulagsbreytingarinnar birtist í B-deild Stjórnartíðinda hinn 15. janúar 2007. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Á fundi skipulagsráðs 4. október 2006 var samþykkt að kynna fyrir hagsmunaaðilum drög að tillögu að breyttu deiliskipulagi Skólavörðuholts, Iðnskólareits, eða svæðis er afmarkast til vesturs af Frakkastíg, til norðurs af Bergþórugötu, til austurs af Vitastíg og til suðurs af bílastæðum milli Hallgrímskirkju og Iðnskólans (nú Tækniskólans) á Skólavörðuholti.  Að lokinni kynningu fyrir hagsmunaaðila var málið tekið fyrir á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 10. nóvember 2006 en nokkrar athugasemdir höfðu borist.  Á fundi skipulagsráðs 9. maí 2007 var málið tekið fyrir ásamt samantekt skipulagsfulltrúa og var samþykkt að auglýsa tillögu að breyttu deiliskipulagi svæðisins.  Var tillagan auglýst til kynningar frá 25. maí til 6. júlí 2007 og bárust athugasemdir, m.a. frá kæranda. 

Í auglýsingu skipulagsstjóra, dags. 25. maí 2007, sagði m.a:  „Meginefni í uppbyggingu að Holtinu er tillaga að fullnaðaruppbyggingu Iðnskóla þá aðallega fyrir þá starfsemi sem Vörðuskóli hefur hýst til skamms tíma.  Tillagan gerir ráð fyrir tveggja hæða nýbyggingu vestan núverandi bygginga við Frakkastíg og heimilar hækkun á núverandi verkstæðisbyggingu um eina hæð auk byggingar miðlægrar tveggja hæða þjónustubyggingar við núverandi aðalinngang skólans.  Gert er ráð fyrir að byggja megi bílastæðageymslu neðanjarðar milli skóla og kirkju með aðkomu um Vitastíg.  Við Bergþórugötu er lagt til að (heil)byggja randbyggð fyrir íbúðir eða til notkunar fyrir skólann.“  Á uppdrætti tillögunnar sagði ennfremur:  „Ekki er gert ráð fyrir aukningu á bílastæðum ofanjarðar innan deiliskipulagsreitsins.  Nokkur bílastæði eru í innigarði Iðnskólalóðar og er ekki reiknað með fjölgun þeirra, heldur byggingu bílastæða neðanjarðar vegna aukningar byggingarmagns.  Gera skal ráð fyrir a.m.k. 1 bílastæði fyrir hverja 50m² aukins byggingarmagns fyrir þjónustustofnanir, en 1 bílastæði fyrir hverja íbúð óháð stærð.“ 

Á fundi skipulagsráðs 15. ágúst 2007 var tillagan samþykkt með eftirfarandi bókun:  „Auglýst tillaga samþykkt með þeim breytingum sem fram koma í umsögn skipulagsstjóra.  Vísað til borgarráðs.“  Í umsögn skipulagsstjóra kom m.a. fram að fallið hafi verið frá fyrrgreindum áformum um bílakjallara.  Framangreint samþykkti borgarráð á fundi 23. ágúst 2007.  Með bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 28. september 2007, tilkynnti stofnunin að hún gerði ekki athugasemdir við að samþykktin yrði auglýst í B-deild Stjórnartíðinda og birtist auglýsing þess efnis 12. október 2007. 

Hefur kærandi skotið framangreindri samþykkt til úrskurðarnefndarinnar svo sem að ofan greinir. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er bent á að forsaga máls þessa sé sú að í október 2006 hafi hagsmunaaðilum verið send til kynningar tillaga að deiliskipulagi Iðnskólareits.  Íbúar á svæðinu hafi gert athugasemdir við áformin og m.a. bent á að ekki væri gert ráð fyrir neinum bílastæðum í tengslum við nýjar byggingar Iðnskólans og því væri ekki uppfyllt ákvæði byggingarreglugerðar um fjölda bílastæða til samræmis við áformaðar byggingar.  Þegar tillagan hafi verið auglýst hafi bílastæði verið sýnd í bílakjallara milli Iðnskólans og Hallgrímskirkju og með því hafi augljóslega verið fallist á sjónarmið íbúa svæðisins varðandi bílastæðaþörf.  Að auglýsingu lokinni hafi skipulagsráð tekið ákvörðun um að falla frá þeirri hugmynd sinni að sprengja Skólavörðuholtið til að koma þar fyrir bílakjallara, enda hafi komið fram mikil andstaða íbúa og annarra nágranna Iðnskólans vegna tillögunnar. 

Eftir að skipulagsráð hafi tekið ákvörðun um að falla frá byggingu bílakjallara, sem uppfyllt gæti skilyrði reglna um bílastæði í samræmi við áformaðar byggingar, sé staða málsins því sú sama og verið hafi í upphafi á haustdögum 2006.  Með hinni kærðu samþykkt hafi borgarráð fallist á að fækka núverandi bílastæðum á lóð Iðnskólans um leið og heimilað sé 5.700 m2 byggingarmagn án nokkurra bílastæða. 

Í umsögn skipulagsstjóra, dags. 14. ágúst 2007, komi fram að ekki séu gerðar neinar kröfur um að fyrirhuguðum byggingum Iðnskólans fylgi bílastæði.  Ákvörðun um að falla frá ákvæðum reglugerðar um að fjöldi bílastæða við nýbyggingar skuli vera í samræmi við byggingarmagn stríði gegn ákvæðum gildandi byggingarreglugerðar.  Í kynningu á tillögu að deiliskipulagi fyrir Iðnskólareit sem auglýst hafi verið hafi í engu verið vikið að því að verið væri að undanskilja fyrirhugaðar framkvæmdir kvöðum um bílastæði.  Þvert á móti hafi verið kynnt deiliskipulagstillaga sem hafi gert ráð fyrir 130 nýjum bílastæðum samfara þeim byggingum sem sýndar hafi verið á uppdrætti. 

Í umsögn skipulagsstjóra, dags. 14. ágúst 2007, komi fram sú ákvörðun skipulagsráðs að tillagan sem auglýst hafi verið sem sjálfstætt deiliskipulag Iðnskólareits nr. 1.192 hafi eftir að auglýsingu hafi lokið verið breytt í: „… breyting á deiliskipulagi Skólavörðuholts stgr. 1.140.“  Augljóslega sé hér um algjörlega nýja tillögu að ræða og þurfi málsmeðferðin að vera í samræmi við það. 

Sú kynning sem fram hafi farið á deiliskipulagi Iðnskólareits hafi falið í sér kynningu á framlögðum gögnum um stækkun Iðnskólans í Reykjavík en ekki á gögnum sem sýni breytingu á deiliskipulagi Skólavörðuholts.  Til að borgarbúar geti látið í ljós skoðun sína á fyrirhuguðu deiliskipulagi einhvers svæðis borgarinnar eða eftir atvikum breytingu á áður samþykktu deiliskipulagi þurfi borgaryfirvöld að tryggja að íbúum séu kynnt rétt gögn.  Á dagskrá fundar borgarráðs 23. ágúst 2007 hafi verið til umfjöllunar breyting á deiliskipulagi Iðnskólareits en ekki Skólavörðuholtsins.  Rétt sé að taka fram að deiliskipulag Skólavörðuholts nái til mun fleiri íbúa og snerti hagsmuni mun fleiri aðila en eingöngu þeirra sem búi í næsta nágrenni við Iðnskólann.  Tillaga um breytingu á áður gerðu deiliskipulagi Skólavörðuholts sé algjörlega óreifuð og hafi ekki fengið lögmæta málsmeðferð. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er vísað til þess að hið kærða deiliskipulag geri ekki ráð fyrir að fjölgað verði bílastæðum á Skólavörðuholti vegna viðbyggingar við Iðnskólann.  Bílastæðin séu staðsett á borgarlandi þannig að um sé að ræða almenningsstæði fyrir fjölbreytta starfsemi á svæðinu.  Nýrri viðbyggingu við Iðnskólann sé að mestu leyti ætlað að taka við starfsemi og nemendum sem Vörðuskóli hýsi.  Því sé ekki um einfalda fjölgun nemenda að ræða.  Auk þess sé gert ráð fyrir nýjum matsal og aukinni miðlægri aðstöðu nemenda.  Slíkar breytingar séu ekki taldar hafa í för með sér aukið álag á bílastæði.  Deiliskipulagið sé þannig í fullu samræmi við gr. 64.1 byggingarreglugerðar nr. 441/1998, þar sem segi að heimilt sé að kveða á um fjölda bílastæða í deiliskipulagi. 

Þá sé því mótmælt að hin samþykkta tillaga hafi ekki fengið málsmeðferð í samræmi við skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997.  Deiliskipulagsbreytingin hafi verið í auglýsingu frá 25. maí til 6. júlí 2007.  Tíu athugasemdabréf hafi borist er leitt hafi til breytinga á auglýstri tillögu.  Málsmeðferð hafi því verið samkvæmt 1. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Fallið hafi verið frá tillögu um bílageymslu neðanjarðar á lóð Iðnskólans og ákvæði um eitt bílastæði á hverja 50 m² aukins byggingarmagns fellt niður.  Með breytingunni hafi lóð Iðnskólans verið stækkuð í átt að Frakkastíg.  Heimilt sé að byggja við Iðnskólann, byggja á lóðunum nr. 10, 12 og 18 við Bergþórugötu og byggja við hús á lóðunum nr. 4, 6 og 6b við Bergþórugötu.  Einnig sé gert ráð fyrir nýrri aðkomu á lóð Iðnskólans frá Vitastíg. 

Í athugasemdum hafi verið var bent á að deiliskipulag á Iðnskólareit eða staðgreinireit 1.192.0 hafi verið auglýst sem sjálfstætt deiliskipulag.  Sú leiðrétting hafi þá verið gerð að gert hafi verið ráð fyrir að tillagan fæli í sér breytingu á deiliskipulagi Skólavörðuholts, staðgreinireits 1.140, sem samþykkt hafi verið í borgarráði 31. nóvember 2001, enda sé það svæði afmarkað með þeim hætti að ofangreindur reitur innan Frakkastígs og Bergþórugötu sé hluti af þeirri heild.  Uppdrættinum hafi því verið breytt með tilliti til þess og hafi hann verið tilgreindur sem breyting á deiliskipulagi Skólavörðuholts án þess að breytt hafi verið efnisatriðum auglýstrar tillögu að öðru leyti af þeim ástæðum.  Málsmeðferð hafi því verið í fullu samræmi við skipulags- og byggingarlög, sbr. bréf Skipulagsstofnunar, dags. 28. september 2007. 

———–

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum og kröfum sem ekki verða rakin nánar en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Eins og að framan er lýst var í maí 2007 auglýst tillaga að deiliskipulagi svæðis er afmarkast til vesturs af Frakkastíg, til norðurs af Bergþórugötu, til austurs af Vitastíg og til suðurs af bílastæðum milli Hallgrímskirkju og Iðnskólans á Skólavörðuholti.  Í auglýsingunni sagði m.a. að gert væri ráð fyrir að byggja mætti bílageymslu neðanjarðar milli Iðnskólans og Hallgrímskirkju.  Á uppdrætti er fylgdi tillögunni sagði ennfremur:  „Ekki er gert ráð fyrir aukningu á bílastæðum ofanjarðar innan deiliskipulagsreitsins.  Nokkur bílastæði eru í innigarði Iðnskólalóðar og er ekki reiknað með fjölgun þeirra, heldur byggingu bílastæða neðanjarðar vegna aukningar byggingarmagns.  Gera skal ráð fyrir a.m.k. 1 bílastæði fyrir hverja 50m² aukins byggingarmagns fyrir þjónustustofnanir, en 1 bílastæði fyrir hverja íbúð óháð stærð.“  Bárust athugasemdir er tillagan var auglýst er vörðuðu framangreint.  Við afgreiðslu skipulagsráðs var fært til bókar að tillagan væri samþykkt með þeim breytingum sem fram kæmu í umsögn skipulagsstjóra, sem fól m.a. í sér að fallið var frá áformum um bílakjallara.  Segir aðeins eftirfarandi á uppdrætti hins kærða deiliskipulags:  „Ekki er gert ráð fyrir aukningu á bílastæðum ofanjarðar innan deiliskipulagsreitsins.  Nokkur bílastæði eru í innigarði Iðnskólalóðar og er ekki reiknað með fjölgun þeirra né fjölgun bílastæða vegna aukins byggingarmagns.“ 

Í 7. mgr. gr. 3.1.4 skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 segir að ákvæði um fjölda bílastæða skuli sett hverju sinni í deiliskipulagi og eru í greininni ákvæði um lágmarksfjölda bílastæða.  Þá segir ennfremur að unnt sé að víkja frá lágmarksákvæðum í deiliskipulagi ef sýnt sé fram á að bílastæðaþörf sé minni eða unnt sé að uppfylla hana með öðrum hætti. 

Með hinni kærðu deiliskipulagsákvörðun er leyft að auka byggingarmagn á skipulagsreitnum um rúmlega 7.000 m².  Þrátt fyrir það er í engu gerð grein fyrir því hvernig leyst skuli úr bílastæðaþörf er skapast vegna þessarar aukningar.  Í hinni kynntu tillögu að breyttu deiliskipulagi svæðisins var gert ráð fyrir að gerður yrði bílakjallari á Skólavörðuholti í þessu augnamiði en við samþykkt tillögunnar var horfið frá þeim áformum án þess að grein væri gerð fyrir því í tillögunni með hvaða öðrum hætti bílastæðakröfu yrði mætt, s.s. með innheimtu bílastæðagjalds, sbr. 54. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Nægir ekki að skýringar varðandi bílastæðamál á svæðinu hafi komið fram í umsögn skipulagsstjóra, sem vísað var til við afgreiðslu skipulagsráðs á tillögunni, heldur þurfti áætlun um lausn bílastæðakröfu að koma fram í deiliskipulaginu sjálfu.  Samræmist hin kærða deiliskipulagsákvörðun ekki ákvæðum skipulagsreglugerðar hvað þetta varðar og verður hún því felld úr gildi.      

Auk þess efnisannmarka sem að framan getur leikur vafi á hvort gætt hafi verið réttrar aðferðar við meðferð hinnar umdeildu skipulagstillögu.  Í 2. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 segir að ef sveitarstjórn ákveði að breyta auglýstri tillögu í grundvallaratriðum skuli hin breytta tillaga auglýst á nýjan leik.  Veður að ætla að tilgangur ákvæðis þessa sé að tryggja að öllum þeim er hagsmuna eigi að gæta gefist kostur á að gera athugasemdir ásamt því að þeir sem ekki geri athugasemdir megi treysta því að tillagan standi óhögguð í grundvallaratriðum, verði hún samþykkt. 

Úrskurðarnefndin telur að vegna eðlis og umfangs þeirrar breytingar sem gerð var á hinni umdeildu skipulagstillögu hefði komið til álita hvort þurft hefði að auglýsa hana að nýju.  Vegna þess efnisannmarka sem var á tillögunn hefur það þó ekki þýðingu hér að skera úr um hvort borgaryfirvöldum hafi verið skylt að auglýsa tillöguna að nýju, enda hefði ný auglýsing ekki bætt úr þeim annmarka sem á tillögunni var. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikilla anna og málafjölda hjá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 23. ágúst 2007, um breytt deiliskipulag Skólavörðuholts, Iðnskólareits, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda hinn 12. október 2007, er felld úr gildi. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________          ____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                      Aðalheiður Jóhannsdóttir