Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

53/2010 Aðalskipulag Akureyrar

Ár 2010, þriðjudaginn 17. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 53/2010, kæra á samþykkt bæjarstjórnar Akureyrar frá 18. maí 2010 um breytingu á Aðalskipulagi Akureyrar 2005-2018 er lýtur að tengingu Brálundar við Miðhúsabraut. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 3. ágúst 2010, er barst nefndinni hinn 6. sama mánaðar, kæra E og S, Lerkilundi 24 á Akureyri, samþykkt bæjarstjórnar Akureyrar frá 18. maí 2010 um breytingu á Aðalskipulagi Akureyrar 2005-2018, er lýtur að tengingu Brálundar við Miðhúsabraut.  Kærendur krefjast þess að hætt verði við tengingu Brálundar við Miðhúsabraut og að lagt verði fyrir Akureyrarbæ að birta auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda um að sá hluti aðalskipulagsins sem varðar tenginguna verði felldur úr gildi. 

Málsatvik:  Í hinni umdeildu aðalskipulagsbreytingu fólst meðal annars að gerð var nánari grein fyrir helstu tengingum innan gatnakerfis Akureyrar við stofn- og tengibrautir.  Þar á meðal var ákvörðun um að Brálundur yrði tengdur inn á Miðhúsabraut og er það sú breyting sem kærendur telja raska lögvörðum hagsmunum sínum.

Skipulagsráð samþykkti tillöguna hinn 12. maí 2010 og staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu hinn 18. sama mánaðar.  Umhverfisráðherra staðfesti breytinguna á aðalskipulaginu hinn 10. júní 2010 og tók hún gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 6. júlí 2010. 

Ekki þótti tilefni til að leita eftir áliti Akureyrarbæjar í málinu. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er kveðið á um að aðalskipulag eða breyting á því sé háð staðfestingu ráðherra.  Verður ákvörðunum samkvæmt skipulags- og byggingarlögum sem sæta slíkri staðfestingu ekki skotið til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga, svo sem henni var breytt með 21. gr. laga nr. 74/2005. 

Samkvæmt framansögðu á mál þetta ekki undir úrskurðarnefndina.  Verður málinu því vísað frá. 

Úrskurðarorð: 

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________
Hjalti Steinþórsson

___________________________     _____________________________
Ásgeir Magnússon                                  Þorsteinn Þorsteinsson