Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

3/2009 Bakkasmári

Ár 2010, þriðjudaginn 17. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 3/2009, kæra á synjun skipulagsnefndar Kópavogs frá 16. desember 2008 á beiðni um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 16 við Bakkasmára. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 16. janúar 2009, er barst nefndinni samdægurs, kærir H, Bakkasmára 16 í Kópavogi, synjun skipulagsnefndar Kópavogs frá 16. desember 2008 á beiðni um breytingu á deiliskipulagi vegna stækkunar húss á lóðinni nr. 16 við Bakkasmára.  Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir og rök:  Erindi kæranda varðandi breytingu á deiliskipulagi lóðar nr. 16 við Bakkasmára, dags. 10. janúar 2008, var lagt fram í skipulagsnefnd hinn 15. janúar 2008.  Fyrirhuguð breyting fól í sér heimild til byggingar bílgeymslu og glerskála út frá eldhúsi.  Á fundi nefndarinnar 5. febrúar 2008 var skipulagsstjóra falið að kanna afstöðu íbúa hverfisins til breytinganna skv. tillögunni.  Á fundi skipulagsnefndar hinn 3. júní 2008 var erindið lagt fram að nýju og samþykkti nefndin að kærandi léti vinna tillögu að breyttu deiliskipulagi fyrir lóðina nr. 16 við Bakkasmára.  Var deiliskipulagstillaga lögð fram hinn 1. júlí 2008 en skipulagsnefnd óskaði þá eftir ítarlegri gögnum.  Á fundi nefndarinnar hinn 26. ágúst 2008 voru umbeðin gögn lögð fram og samþykkti nefndin að tillagan yrði auglýst í samræmi við 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Var tillögunni vísað til afgreiðslu bæjarráðs. 

Á fundi bæjarráðs 28. ágúst 2008 var samþykkt að tillagan yrði auglýst og var hún til kynningar frá 30. september til 28. október, með athugasemdafresti til 11. nóvember 2008.  Ein athugasemd barst.  Á fundi skipulagsnefndar hinn 18. nóvember 2008 var bæjarskipulagi falið að taka saman umsögn varðandi innsenda athugasemd.  Hinn 16. desember hafnaði skipulagsnefnd loks erindi kæranda á grundvelli umsagnar bæjarskipulags, dags. 16. desember 2008.  Bréf þess efnis var sent kæranda hinn 22. desember 2008. 

Kærandi telur að athugasemd eins aðila af 51, sem grenndarkynning vegna fyrirhugaðra breytinga hafi náð til, eigi ekki að koma í veg fyrir breytinguna.  Lög um skipulags- og byggingarmál geri ekki ráð fyrir að í grenndarkynningu felist neitunarvald.  Einnig telji kærandi að stærð bílgeymslu hafi ekki áhrif á hvort húseigandi stundi sjálfstæða atvinnustarfssemi eða ekki. 

Af hálfu Kópavogsbæjar er tekið fram að synjun skipulagsnefndar sé byggð á umsögn skipulags- og umhverfissviðs bæjarins frá 16. desember vegna athugasemdar sem borist hafi við grenndarkynningu.  Kópavogsbær telji afgreiðslu bæjarins á erindi kæranda bæði formlega og efnislega rétta og geri þá kröfu að úrskurðarnefndin hafni framkominni kæru og staðfesti ákvörðun skipulagsnefndar í máli þessu. 

—————–

Frekari rök og sjónarmið aðila liggja fyrir í málinu, sem ekki verða rakin hér nánar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn þess. 

Niðurstaða:  Skipulagsnefnd Kópavogs hafnaði á fundi sínum hinn 16. desember 2008 tillögu að deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 16 við Bakkasmára.  Fundargerð skipulagsnefndar frá þeim fundi var til umfjöllunar á fundi bæjarráðs hinn 18. sama mánaðar, þar sem afstaða var tekin til tiltekinna liða hennar.  Þar er þó ekki að finna bókun ráðsins varðandi afstöðu þess til áðurnefndrar afgreiðslu skipulagsnefndar.  Þá var og fyrrgreind fundargerð skipulagsnefndar á dagskrá fundar bæjarstjórnar hinn 19. desember 2008, þar sem hún var afgreidd án umræðu.

Samkvæmt 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 tekur sveitarstjórn ákvarðanir um deiliskipulag.  Þeir annmarkar eru á meðferð málsins að ekki kemur fram í bókunum afstaða bæjarráðs eða bæjarstjórnar til þess.  Verður framangreind afgreiðsla skipulagsnefndar ekki talin fela í sér ákvörðun er bindi endi á meðferð máls og ber því, skv. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________
Hjalti Steinþórsson

___________________________      __________________________
Ásgeir Magnússon                                    Þorsteinn Þorsteinsson