Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

26/2009 Birkihlíð

Ár 2010, fimmtudaginn 22. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor. 

Fyrir var tekið mál nr. 26/2009, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyja frá 24. mars 2009 um að veita heimild til útgáfu byggingarleyfis fyrir tveggja hæða íbúðarhúsi á lóðinni nr. 15 við Birkihlíð, Vestmannaeyjum. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 17. apríl 2009, er barst nefndinni hinn 20. sama mánaðar, kærir Ívar Pálsson hdl., f.h. G, Birkihlíð 17 og T og S, Birkihlíð 11, Vestmannaeyjum, þá ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyja frá 24. mars 2009 að veita heimild til útgáfu byggingarleyfis fyrir tveggja hæða íbúðarhúsi á lóðinni nr. 15 við Birkihlíð.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málsatvik:  Hinn 4. febrúar 2009 samþykkti umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja að grenndarkynna umsókn lóðarhafa Birkihlíðar 15 um byggingu íbúðarhúss á lóðinni, en hún er á íbúðarsvæði sem ekki hefur verið deiliskipulagt.  Að lokinni grenndarkynningu var málið tekið fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsráðs hinn 20. mars 2009 og lágu þá fyrir tvö athugasemdabréf, þar sem m.a. kærendur andmæltu umsóttum byggingarframkvæmdum að Birkihlíð 15. Tók ráðið afstöðu til athugasemdanna og samþykkti síðan umsóknina og staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu eins og að framan greinir. 

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er vísað til þess að málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið ábótavant.  Óljóst sé hvort um hafi verið að ræða grenndarkynningu byggingarleyfisumsóknar samkvæmt 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, óverulega breytingu á deiliskipulagi samkvæmt 2. mgr. 26. gr. laganna eða nýtt deiliskipulag fyrir eina lóð, sem óheimilt sé að lögum.  Nauðsynlegt hafi verið að deiliskipuleggja umrætt svæði samkvæmt meginreglu 23. gr. skipulags- og byggingarlaga áður en heimild væri veitt fyrir fyrirhuguðum framkvæmdum og þá sérstaklega í ljósi bókunar eins nefndarmanns umhverfis- og skipulagsráðs um að svipað óleyst álitaefni væri til staðar í götunni.  Þá sé byggingarreitur lóðarinnar að Birkihlíð 15 dýpri en flestra lóða á svæðinu, útlit og form fyrirhugaðs húss víki frá því sem almennt gerist og sama eigi við um nýtingarhlutfall lóðarinnar.  Þá hafi rannsókn máls að hálfu sveitarfélagsins verið ábótavant hvað varði fullyrðingu tveggja kærenda um að þeir hafi öðlast afnotarétt yfir hluta umræddrar lóðar með samkomulagi eða fyrir hefð. 

Fyrir um 23-24 árum hafi starfsmaður bæjarins komið og sett niður lóðarmörk Birkihlíðar 11 gagnvart Birkihlíð 15 með þeim hætti að lóðin næði þrjá metra lengra til austurs en samkvæmt hinni kærðu ákvörðun.  Lóðarhafar að Birkihlíð 11 hafi frá þeim tíma nýtt lóð sína í samræmi við nefnd lóðamörk og sett niður palla og gróðursett tré.  Hafi hið kynnta byggingarleyfi því komið þeim kærendum sem um ræði í opna skjöldu en bent sé á að þótt ekki lægi fyrir formlegt samkomulag við bæjaryfirvöld um stækkun lóðarinnar að Birkihlíð 11 hafi myndast hefðarréttur til núverandi nýtingar lóðarinnar.  Með hinni kærðu ákvörðun sé því verið að taka hluta lóðarinnar að Birkihlíð 11 af lóðarhöfum en slíkt verði ekki gert nema með eignarnámi. 

Grenndaráhrif fyrirhugaðrar uppbyggingar á lóðinni að Birkihlíð 15 gagnvart kærendum verði íþyngjandi hvað varði rými og útsýni vegna nálægðar lóðar kærenda.  Hafa verði í huga að kærendur hafi búið við fyrra ástand um áratuga skeið og hafi mátt vænta að lóðin yrði ekki nýtt eins og nú sé fyrirhugað.  Draga megi í efa að eðlilegt sé að samþykkja nú byggingu húss á lóð, sem sé lítil og henti illa til byggingarframkvæmda, gegn hagsmunum íbúa í íbúðarhverfi sem byggst hafi upp fyrir mörgum áratugum. 

Málsrök Vestmannaeyjabæjar: Bæjaryfirvöld Vestmannaeyja taka fram að málsmeðferð umdeildrar ákvörðunar hafi í engu verið áfátt.  Í bókun umhverfis- og skipulagsráðs um að grenndarkynna umsókn um byggingarleyfi vegna Birkihlíðar 15 komi fram að það sé gert á grundvelli 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga, enda hafi verið um að ræða einstaka framkvæmd í þegar byggðu hverfi sem ekki hafi verið deiliskipulagt.  Fyrirhuguð nýbygging falli vel að byggðamynstri götunnar og sé heildarmynd hennar styrkt með jafnri húsaröð, götulínum og samsvarandi byggingarmagni.  Sé nú loks lokið við götumynd Birkihlíðar að norðanverðu.  Að kynningu lokinni hafi verið fjallað um framkomnar athugasemdir, þeim svarað og niðurstaðan send þeim sem athugasemdir gerðu og jafnframt vakin athygli á kæruheimild. 

Fyrir liggi lóðarleigusamningar um lóðirnar að Birkihlíð 11, 15 og 17 og við endurnýjun samninga árið 2004 hafi lóðir verið mældar upp með GPS tækni.  Við þá mælingu hafi lóðin að Birkihlíð 11 verið stækkuð til vesturs svo að bílgeymsla er fylgi þeirri fasteign yrði innan lóðar.  Engin breyting hafi verið gerð á upphaflegum lóðarleigusamningi fyrir Birkihlíð 11 og ekki liggi fyrir gögn um meinta mælingu starfsmanns bæjarins, sem nú sé látinn, á lóðamörkum Birkihlíðar 11 og 15. 

Þá sé því hafnað að réttur til hluta lóðarinnar að Birkihlíð 15 hafi unnist fyrir hefð.  Um þá lóð hafi í þrígang verið gerðir leigusamningar og engin gögn liggi fyrir um hvenær notkun lóðarhafa Birkihlíðar 11 á hluta fyrrnefndrar lóðar hafi átt sér stað og með hvaða hætti hún hafi verið síðan.  Bent sé á að samkvæmt 68. gr. gildandi byggingarreglugerðar beri lóðarhafa að halda vexti trjáa og runna innan lóðarmarka.  Geti hugsanleg ólögmæt notkun, er fari í bága við þá skyldu, ekki skapað hefðarrétt að lögum þar sem slíkur réttur náist ekki fram með óráðvendni.  Ætti fullyrðing um að ætluð notkun styddist við samkomulag um þau not við rök að styðjast kæmi hefðarréttur heldur ekki til álita enda væri notkunin þá samningsbundin.  Loks sé bæjaryfirvöldum ekki kunnugt um dómafordæmi þess að hægt sé að vinna hefð á landi með gróðursetningu trjáa á skipulögðu byggingarsvæði. 

Niðurstaða:  Hin kærða ákvörðun sveitarstjórnar Vestmannaeyjabæjar um veitingu byggingarleyfis var tekin hinn 24. mars 2009.  Upplýst hefur verið í málinu að formlegt byggingarleyfi hafi ekki verið gefið út af byggingarfulltrúa og framkvæmdir því ekki hafnar að Birkihlíð 15 en byggingarleyfisgjöld hafi hins vegar verið greidd. 

Samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga má gefa út byggingarleyfi þegar sveitarstjórn hefur staðfest samþykkt um veitingu leyfisins og byggingarleyfisgjöld og önnur tilskilin gjöld hafa verið greidd.  Í 4. mgr. sömu greinar segir að staðfesting sveitarstjórnar falli úr gildi hafi byggingarleyfi ekki verið gefið út innan 12 mánaða.  Þá segir í 1. mgr. 45. gr. laganna að byggingarleyfi falli úr gildi hafi byggingarframkvæmdir ekki hafist innan 12 mánaða frá útgáfu þess. 

Eins og að framan greinir hefur byggingarleyfi samkvæmt 1. mgr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga ekki verið gefið út og framkvæmdir enn ekki hafist á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar, en um 16 mánuðir eru nú liðnir frá staðfestingu sveitarstjórnar á veitingu umdeilds byggingarleyfis.  Er sú samþykkt því úr gildi fallin samkvæmt fyrrgreindri 4. mgr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga. 

Byggingarleyfishafi mun hafa greitt tilskilin byggingarleyfisgjöld í kjölfar afgreiðslu bæjaryfirvalda á umsókn hans.  Jafnvel þótt svo yrði litið á að með því hafi honum verið veitt byggingarleyfi skv. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga er það leyfi jafnframt úr gildi fallið, sbr. 1. mgr. 45. gr. laganna.  Eru því úr gildi fallnar allar heimildir til þeirra framkvæmda sem samþykktar voru með hinni kærðu ákvörðun og verður hér eftir ekki í þær ráðist nema að undangenginni nýrri samþykkt sveitarstjórnar.  Hafa kærendur af þessum sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti umdeildrar samþykktar sveitarstjórnar, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga, og verður málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________     ___________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                           Aðalheiður Jóhannsdóttir