Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

78/2023 Urðarstígur

Með

Árið 2023, föstudaginn 21. júlí, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 78/2023, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. mars 2023, um að samþykkja leyfi til viðbyggingar við suðurgafl hússins nr. 4 við Urðarstíg, Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. júní 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi Urðarstígs 6 og 6a, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. mars 2023, að samþykkja leyfi til viðbyggingar við suðurgafl hússins nr. 4 við Urðarstíg, Reykjavík. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Kærandi gerir jafnframt þá kröfu að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 12. júlí 2023.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 14. mars. sl. var samþykkt leyfi til að byggja viðbyggingu við suðurgafl hússins nr. 4 við Urðarstíg, Reykjavík. Við athugun byggingarfulltrúa og eldvarnareftirlits, eftir að kæra þessa kom til nefndarinnar, var álitið að brunavörnum væri áfátt. Í framhaldi þess stöðvaði byggingarfulltrúi framkvæmdir á lóðinni 5. júlí. sl. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 11. júlí sl. var síðan samþykkt umsókn um breytingu varðandi bættar brunavarnir á suðurgafli fyrirhugaðrar viðbyggingar. Í framhaldi aflétti byggingarfulltrúi stöðvun framkvæmda. Var sú ákvörðun, sem fól í sér útgáfu nýs byggingarleyfis, einnig kærð til úrskurðarnefndarinnar og hefur fengið málsnúmerið 86/2023.

Málsrök kæranda: Kærandi kveðst hafa gert athugasemdir við breytingu á deiliskipulagi vegna framkvæmdanna fyrir Urðarstíg 4 þess efnis að fara skyldi eftir fyrirmælum reglugerðar sem varði brunavarnir og fjarlægð frá lóðarmörkum. Engin gögn hafi ó borist honum um hvernig brugðist hafi verið við þeim athugasemdum. Við útgáfu byggingarleyfisins hafi ákvæði byggingarreglugerðar nr. 112/2012, um fjarlægð milli húsa með tilliti til brunavarna ekki verið fylgt eftir. Fjarlægð viðbyggingar Urðarstígs 4 frá húsinu að Urðarstíg 6A sé hvorki nefnd í deiliskipulagi né byggingarleyfi, enda um að ræða brot á reglugerð. Viðbyggingin við suðurgafl Urðarstígs 4 sé um einn metra frá Urðarstíg 6A og innan við 6 metra frá Urðarstíg 6. Þessar fjarlægðir komi ekki fram með réttum hætti á teikningum. Þetta séu mun minni fjarlægðir en reglugerð heimili. Þá sé skúrbygging á lóð Urðarstígs 4 í 50 cm fjarlægð frá útvegg Urðarstígs 6A og á lóðarmörkum sem stórauki hættu á reitnum án þess að tekið hafi verið tillit til þessa við afgreiðslu byggingarleyfis.

Þær undanþágur sem veittar hafi verið með þessu frá reglugerð séu óskiljanlegar í ljósi þess að húsin við Urðarstíg 4 og 6 séu gömul timburhús og húsið á Urðarstíg 6A sé byggt árið 1922  úr holsteini og sé með stórt þakskyggni úr viði. Veruleg brunahætta hafi orðið til með breytingum á deiliskipulagi og veitingu byggingarleyfis. Sér hafi ekki verið kynnt að byggingafulltrúi hygðist gefa undanþágur frá reglugerð og ekki hafi verið gætt meðalhófs við meðferð málsins. Þess er krafist að framkvæmdir verði umsvifalaust stöðvaðar og teikningum breytt þannig að fjarlægðir á milli húsanna og viðbyggingar, sem settar sé fram í bruna- og byggingareglugerð verði að fullu virtar án undantekninga. Jafnframt að gluggalaus brunaveggur verði látinn snúa að húsunum á Urðarstíg 6 og 6A sem og að leyfi fyrir svölum og stiga sem snúi að Urðarstíg 6 og 6A, í mjög lítilli fjarlægð frá lóðarmörkum, verði afturkallað. Þá er þess óskað að skúrbygging sem standi í leyfisleysi 50 cm frá útvegg Urðarstígs 6A verði færð 3 metra frá lóðarmörkum og tekin inn í brunaúttekt á framkvæmdum.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar er staðhæft að fjarlægð frá húsinu á Urðarstíg 6 að steyptum kjallara viðbyggingarinnar sé um 6 metrar. Einnig séu 6 metrar frá efri hæð viðbyggingarinnar og að sömu byggingu. Því sé ekki talin vera sambrunahætta fyrir hendi. Samkvæmt samþykktu breytingarerindi frá 11. júlí sl. vegna suðvesturhorns viðbyggingarinnar sem snúi að Urðarstíg 6A verði gluggar í viðbyggingu með brunakröfu E30 og utanhúsklæðning eldvarin timburklæðning í flokki 2. Sé þannig ákvæðum gr. 9.6.26 (töflu 9.0) varðandi glugga, gr. 9.7.3., varðandi timburklæðningu og 9.7.5 (tafla 9.09) varðandi lágmarksfjarlægðir á milli bygginga uppfyllt. Í ljósi framangreinds og á grundvelli meginreglu 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um að kæra fresti ekki réttaráhrifum beri jafnframt að hafna kröfu um stöðvun framkvæmda og kveða upp fullnaðarúrskurð í málinu.

Málsrök leyfishafa: Hafnað er fullyrðingum kæranda um að fjarlægð viðbyggingar sé ekki í samræmi við reglugerð. Í brunavarnarlýsingu á aðaluppdrætti fyrir Urðarstíg 4 komi fram að fjarlægð í næstu byggingu frá kjallara sé um 6 metrar og um 6.6 metrar séu frá efri hæð og að sömu byggingu. Við hönnun viðbyggingarinnar hafi verið hugað sérstaklega að þessu og hafi verkfræðingur verið fenginn til þess að kynna málið fyrir slökkviliði höfuðborgarsvæðisins þann 8. nóvember 2022. Jafnframt er staðhæft að fjarlægð milli viðbyggingar Urðarstígs 4 og Urðarstígs 6A sé 1.70 metrar en ekki 1 metri. Einnig sé því hafnað að engar fjarlægðarmælingar hafi verið sýndar á milli húsanna. Hið rétta sé að á uppdrætti í deiliskipulagstillögu komi fram að útveggur viðbyggingar nái 300 cm frá húsinu. Að auki hafi aldrei staðið til að hafa aðeins tvo glugga á þeirri hlið Urðarstígs 4 sem snúi að Urðarstíg 6A. Þá sé skúrbygging sú sem kærandi fari fram á að verði færð um þrjá metra 14.9 fermetrar og hafi því ekki þarfnast byggingarleyfis. Þá hafi skýrinn verið reistur áður en kærandi varð eigandi að Urðarstíg 6A og með samþykki fyrrverandi eigenda. Af fyrirliggjandi gögnum málsins megi glögglega sjá að málið hafi fengið alla þá málsmeðferð sem tilgreind sé í skipulagslögum nr. 123/2010 og stjórnsýslulögum nr. 37/1993.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. mars 2023, um að samþykkja leyfi til viðbyggingar við suðurgafl hússins nr. 4 við Urðarstíg, Reykjavík. Meðan mál þetta var til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni voru framkvæmdir stöðvaðar af byggingarfulltrúa vegna brunavarna. Gefið var út nýtt byggingarleyfi 11. júlí sl. sem hefur verið kært til nefndarinnar en með því var fyrra leyfi fellt niður. Í ljósi þess verður kæru þessari vísað frá nefndinni, enda á kærandi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn nefndarinnar um gildi þess leyfis.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

51/2023 Vindmyllur

Með

Árið 2023, föstudaginn 21. júlí 2023, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Arnór Snæbjörnsson formaður og Geir Oddsson auðlindafræðingur. Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor tók þátt í gegnum fjarfundabúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 51/2023, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 17. mars 2023 um að endurnýjun og uppsetning tveggja nýrra vindmylla á undirstöðum fyrri vindmylla við Þykkvabæ skuli ekki háð umhverfismati.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 20. apríl 2023, kærir eigandi Stóra-Rimakots í Þykkvabæ, ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 27. febrúar 2023 um að endurnýjun og uppsetning tveggja nýrra vindmylla á undirstöðum fyrri vindmylla við Þykkvabæ skuli ekki háð umhverfismati. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Jafnframt er gerð krafa um að framkvæmdin sæti umhverfismati og verði grenndarkynnt. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu fyrrnefndra vindmylla lá ekki fyrir 27. febrúar 2023 heldur 17. mars s.á. og verður því litið svo á að það sé hin kærða ákvörðun í máli þessu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 22. maí 2023.

Málavextir: Hinn 18. janúar 2023 barst Skipulagsstofnun til ákvörðunar um matsskyldu tilkynning framkvæmdaraðila, skv. 19. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, um fyrirhugaða uppsetningu tveggja nýrra vindmylla á undirstöðum fyrri vindmylla við Þykkabæ, sbr. lið 3.16. í 1. viðauka við lögin.

Í greinargerð sem fylgdi tilkynningunni kom m.a. fram að árið 2014 hefðu verið reistar tvær vindmyllur 0,5 km norðaustan við þéttbýlið í Þykkvabæ, um 13,5 km sunnan við þjóðveg 1. Kviknað hefði í annarri þeirra árið 2017 og í hinni árið 2022 og þær því verið felldar. Fyrirhuguð framkvæmd fæli í sér að reistar yrðu tvær nýjar vindmyllur á undirstöðum fyrri vindmylla. Þær yrðu hvor um sig með 900 KW uppsett afl í stað 600 KW sem var afl fyrri vindmylla. Heildarhæð mastursturna yrði 46,6 m en hefði verið 53 m áður. Lengd spaða yrði óbreytt frá fyrri vindmyllum eða 44 m. Spaðar í hæstu stöðu myndu því ná 67,6 m hæð, en hefðu áður náð 74 m hæð. Nýju myllurnar yrðu 50% aflmeiri þrátt fyrir að vera lægri. Allir innviðir væru þegar til staðar, þ.m.t. vinnuplön, aðkomuvegur og tenging við raforkukerfi. Áætlaður líftími vindmyllanna væri 25 ár. Þær yrðu á framræstu landbúnaðarlandi, en í kringum framkvæmdasvæðið væri flatt ræktarland. Var það mat framkvæmdaraðila að fyrirhuguð framkvæmd myndi ekki hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér svo sem rakið var nánar í greinargerðinni.

Við meðferð málsins leitaði Skipulagsstofnun umsagna Minjastofnunar Íslands, Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Orkustofnunar, Rangárþings ytra, Samgöngustofu, Umhverfisstofnunar, Veðurstofu Íslands og Vegagerðarinnar. Taldi Heilbrigðiseftirlitið í umsögn sinni að framkvæmdin kallaði ekki á umhverfismat. Í umsögn Umhverfisstofnunar kom fram að nokkuð ítarlega hefði verið fjallað um áhrif fyrri vindmylla. Myndi umhverfismat nú skila litlu af nýjum upplýsingum og ekki væri ástæða til að ætla að nýjar vindmyllur myndu hafa önnur og meiri áhrif en fyrri mannvirki. Það væri því ekki líklegt að framkvæmdin myndi hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif.

Orkustofnun, Samgöngustofa, Vegagerðin og Veðurstofan tóku í umsögnum sínum ekki afstöðu til þess hvort framkvæmdin skyldi sæta umhverfismati, en gerðu ekki athugasemdir við tilkynninguna. Náttúrufræðistofnun tók heldur ekki afstöðu til þess, en taldi að bæta þyrfti upplýsingar um fuglalíf svæðisins til að hægt væri að meta áhrif vindmyllanna á fullnægjandi hátt. Loks var það mat Rangárþings ytra að framkvæmdin gæti verið háð umhverfismati. Minjastofnun mun ekki hafa skilað inn umsögn. Veitti framkvæmdaraðili svör við athugasemdum Rangárþings ytra og Náttúrufræðistofnunar með bréfi, dags. 9. mars 2023.

Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu fyrirhugaðrar framkvæmdar lá fyrir 17. mars 2023 og var niðurstaða stofnunarinnar sú að á grundvelli fyrirliggjandi gagna væri fyrirhuguð framkvæmd ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi því ekki háð umhverfismati.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að ýmislegt bendi til þess að ekki hafi verið rétt staðið að gerð deiliskipulags fyrir fyrirhuguð áform þegar þau hafi verið kynnt árið 2013. Þegar málið hafi verið kynnt fyrir íbúum á þeim tíma hafi komið fram að íbúar og starfsemi á svæðinu myndu njóta góðs af lægra raforkuverði, en það hafi ekki gengið eftir. Ef annmarkar séu á gildandi deiliskipulagi ætti það að teljast ógilt og þurfi þá að fara fram nýtt umhverfismat sem og ný grenndarkynning.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Af hálfu Skipulagsstofnunar er bent á að í 1. mgr. 19. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana sé kveðið á um að tilkynningarskyldar framkvæmdir, sem tilgreindar séu í flokki B, skuli háðar umhverfismati þegar þær séu „taldar líklegar til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif“ vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar skv. 2. viðauka við lögin. Skipulagsstofnun meti hvort framkvæmd geti haft í för með sér umtalsverð áhrif og skipti ekki máli við það mat þótt uppi kunni að vera álitaefni um lögmæti deiliskipulags er varði framkvæmdirnar. Umfjöllun í hinni kærðu ákvörðun um skipulag sé aðeins sett fram til leiðbeiningar. Að öðru leyti sé vísað til rökstuðnings stofnunarinnar sem fram komi í niðurstöðukafla ákvörðunarinnar.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að skýrt sé í lögum að grenndarkynning hafi þurft að fara fram og sé íbúðafundur ekki ígildi hennar. Þá hafi íbúum verið gefið vilyrði fyrir lægra raforkuverði, en um innantómt loforð hafi verið að ræða sem ekki hafi verið hægt að framkvæma. Meirihluti íbúa á svæðinu sé andvígur uppsetningu vindmyllanna.

Athugasemdir sveitarfélagsins: Sveitarfélagið bendir á að samþykktar hafi verið breytingar á skipulagsáætlunum vegna áforma um uppsetningu tveggja vindmylla. Í aðdraganda breytinga á aðalskipulagi sveitarfélagsins á árinu 2013 hafi það verið álit Skipulagsstofnunar að þar sem um einungis tvær vindmyllur væri að ræða þá væri breytingin ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Jafnframt hafi stofnunin óskað eftir betri umfjöllun um áhrif vindmylla á fuglalíf og hafi nánar tilgreind verkfræðistofa verið fengin til að meta þau áhrif. Breyting á aðalskipulagi hafi tekið gildi árið 2013, líkt og deiliskipulag fyrir viðkomandi svæði. Á árinu 2014 hafi verið gefið út byggingarleyfi fyrir vindmyllunum. Óskað hafi verið eftir nýju byggingarleyfi á árinu 2017 vegna uppsetningu nýrrar vindmyllu í stað þeirrar sem hafi brunnið. Því hafi verið hafnað þar sem áformin hafi ekki verið í samræmi við gildandi skipulag. Hins vegar hafi verið fallist á umsókn um að veita leyfi til niðurrifs á vindmyllunni. Ekkert hafi þó orðið af þeim áformum. Árið 2022 hafi nýr eigandi vindmyllanna óskað eftir leyfi til niðurrifs þeirra og hafi það verið samþykkt. Í maí 2023 hafi byggingarfulltrúi síðan gefið út byggingarleyfi til endurnýjunar á umræddum vindmyllum. Fullt samráð hafi verið viðhaft við almenning og umsagnaraðila í öllu skipulagsferlinu. Þá sé það ekki á hendi sveitarfélagsins að lofa eða taka afstöðu til loforðs um lækkun á orkukostnaði.

———-

Niðurstaða: Í máli þessu er kærð ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 17. mars 2023 um að endurnýjun og uppsetning tveggja nýrra vindmylla á undirstöðum fyrri vindmylla við Þykkvabæ skuli ekki háð umhverfismati. Af hálfu kæranda er einkum vísað til þess að ekki hafi verið rétt staðið að gerð deiliskipulags vindrafstöðva í Þykkvabæ sem tók gildi árið 2013 og því sé nauðsynlegt að endurtaka það ferli sem og að láta fara fram umhverfismat. Af því tilefni þykir rétt að benda á að það er einungis hin kærða ákvörðun sem sætir lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar í þessu máli, en ekki ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings ytra frá 2013 um að samþykkja deiliskipulag vindrafstöðva í Þykkvabæ, en kærufrestur til nefndarinnar vegna þeirrar ákvörðunar er löngu liðinn.

Áform framkvæmdaraðila voru tilkynnt til Skipulagsstofnunar til ákvörðunar um matsskyldu skv. 2. mgr. 19. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana sem framkvæmd í flokki B, sbr. lið 3.16, en þar undir falla vindorkuver með uppsett rafafl 1 MW eða meira eða mannvirki sem eru 25 eða hærri. Samkvæmt þeirri lagagrein skal framkvæmdaraðili leggja fram upplýsingar um framkvæmdina og líkleg umtalsverð umhverfisáhrif hennar. Jafnframt skal hann, þar sem við á, taka tillit til fyrirliggjandi niðurstaðna um umhverfismat framkvæmdarinnar og leggja fram, þar sem við á, upplýsingar um fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir. Í 20. gr. laganna er síðan mælt fyrir um að Skipulagsstofnun skuli innan sjö vikna frá því að fullnægjandi gögn berast um framkvæmdina taka ákvörðun um hvort framkvæmdin skuli háð umhverfismati samkvæmt lögunum. Áður skal stofnunin leita umsagnar umsagnaraðila eftir því sem við á hverju sinni. Þá skal Skipulagsstofnun gera hlutaðeigandi grein fyrir niðurstöðu sinni og hafa hana aðgengilega á netinu.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 111/2021 skulu tilkynningarskyldar framkvæmdir sem tilgreindar eru í flokki B í 1. viðauka við lögin háðar umhverfismati þegar þær eru taldar líklegar til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar skv. 2. viðauka við lögin. Það fer eðli máls samkvæmt eftir þeirri framkvæmd sem ákvörðun snýst um hvert þeirra atriða sem tiltekin eru í 1.–3. tölul. í 2. viðauka laganna vegi þyngst við mat Skipulagsstofnunar á því hvort umhverfisáhrif framkvæmdar teljist umtalsverð. Þegar það er metið verður að miða við þá tilhögun framkvæmdar sem kynnt er og leggja mat á það hvort framkvæmdin, svo sem hún er fyrirhuguð, sé líkleg til þess að valda umtalsverðum umhverfisáhrifum. Verður að gera kröfu um að fyrir liggi nægar upplýsingar miðað við aðstæður til að hægt sé að komast að niðurstöðu um hvort framkvæmdin geti haft í för með sér umtalsverð áhrif.

Í greinargerð framkvæmdaraðila er framkvæmdinni lýst og kemur m.a. fram að fyrirhugaðar vindmyllur verði settar upp á undirstöðum fyrri vindmylla, um 0,5 km norðaustan við þéttbýlið í Þykkvabæ. Heildarhæð turna verði 46,6 m. Þvermál spaða verði 44 m og muni þeir ná 67,6 m hæð í hæstu stöðu. Um flatt landbúnaðarland sé að ræða og allt í kring séu beitilönd, tún og kartöfluakrar. Náttúruleg búsvæði séu af skornum skammti og þéttleiki varpfugla ekki mikill. Sé allt Suðurlandsundirlendið flokkað sem mikilvægt fuglasvæði, meðal annars vegna mikils fjölda farfugla sem fari um svæðið.

Við undirbúning ákvörðunarinnar aflaði Skipulagsstofnun umsagna Minjastofnunar Íslands, Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Orkustofnunar, Rangárþings ytra, Samgöngustofu, Umhverfisstofnunar, Veðurstofu Íslands og Vegagerðarinnar á grundvelli 1. mgr. 20. gr. laga nr. 111/2021, sbr. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Taldi Náttúrufræðistofnun í umsögn sinni að þar sem ekki væri um fjölgun vindmylla að ræða og notast yrði við innviði sem fyrir væru fylgdi framkvæmdinni aðeins minniháttar rask. Sökum þess væru þau umhverfisáhrif sem mest þyrfti að huga að, áhrif á fuglalíf. Taldi stofnunin að hvort sem fullt mat á umhverfisáhrifum færi fram eða ekki þá þyrfti að bæta upplýsingar um fuglalíf á svæðinu til að hægt væri að meta áhrif vindmyllanna á fuglalíf á fullnægjandi hátt. Einnig vék stofnunin að mikilvægi vöktunar á fuglalíf og að vöktun á áflugi þyrfti að vera markviss. Í umsögn Rangárþings ytra var vikið að því að í greinargerð framkvæmdaraðila væri ekki tekið á öllum þeim atriðum sem fjalla þyrfti um í umhverfismatsskýrslu um áhrif framkvæmdanna, t.a.m. varðandi breyttar forsendur frá lýsingu deiliskipulags um fyrirhugaða nýtingu orkunnar og skuggaáhrif á nærliggjandi byggð. Væru áformin ekki í fullu samræmi við stefnumótun um nýtingu á vindorku í Rangárþingi ytra, sem orðið hefði hluti af aðalskipulagi sveitarfélagsins árið 2019, m.a. varðandi viðmið um fjarlægð vindrafstöðva frá byggð og frístundasvæðum. Veitti Skipulagsstofnun framkvæmdaraðila færi á að koma að sjónarmiðum sínum vegna framkominna athugasemda, sem hann og gerði.

Í niðurstöðukafla ákvörðunar Skipulagsstofnunar var tekið fram að við mat á því hvort tilkynningarskyld framkvæmd skyldi háð umhverfismati skyldi taka mið af eðli, staðsetningu og eiginleikum hugsanlegra áhrifa framkvæmdar og var um það vísað til nánar tilgreindra atriða í 1–3. tölul. í 2. viðauka við lögin. Tekið var fram að engin svæði væru innan áhrifasvæðis framkvæmdarinnar, með tilliti til sjónrænna áhrifa, sem nytu verndar og jarðrask yrði lítið sem ekkert. Engin sérstök útivistar- eða ferðamannasvæði væru innan eða í nágrenni við framkvæmdasvæðið. Landslagið einkenndist af flötu og manngerðu landslagi, sjónlínur væru langar en vindmyllurnar væru tiltölulega lágar sem takmarkaði áhrifasvæði þeirra. Ásýndaráhrifin væru að miklu leyti afturkræf þótt mannvirkin kæmu til með að standa í langan tíma. Þá tók Skipulagsstofnun fram að mikilvægt væri að í virkjunarleyfi væru sett ákvæði um líftíma mannvirkjanna, frágang, niðurrif og förgun þeirra. Með þessu lagði stofnunin mat á áhrif framkvæmdarinnar hvað varðar m.a. ásýnd, en áhrif á landslag og ásýnd lands eru meðal þýðingarmestu umhverfisáhrifa vindorkuvera.

Fyrir liggur að vindmyllurnar verða staðsettar nálægt byggð, en um 0,5 km munu vera í næstu íbúðarhús. Benti Skipulagsstofnun á að byggð væri í næsta nágrenni við vindmyllurnar, en lítil sem engin áhrif væru á byggð á þeim svæðum þar sem helst mætti búast við skuggaflökti eða skuggum. Tekið var fram í niðurstöðu Skipulagsstofnunar að áhrif vindmyllanna á hljóðvist væru innan marka sem skilgreind væru í reglugerð. Það var einnig niðurstaða verkfræðistofu er gerði hljóðútreikninga á áhrifum þeirra sem lýst er í greinargerð framkvæmdaraðila. Áleit Skipulagsstofnun heilt yfir litið að endurnýjaðar vindmyllur kæmu til með að hafa sambærileg áhrif og fyrri vindmyllur.

Almennt má ætla að áhrif á fugla séu meðal þýðingarmestu umhverfisáhrifa vindorkuvera. Nokkurt fuglalíf er á fyrirhuguðu framkvæmdarsvæði og tekur Náttúrufræðistofnun fram í umsögn sinni að meginþátturinn sem þurfi að huga að sé áflug fugla, bæði áflugshætta fyrir varpfugla sem dvelji á svæðinu og farfugla á fartíma þegar margar tegundir fari um svæðið í stórum hópum. Fyrir liggur að takmarkaðar upplýsingar virðast vera um fuglalíf á svæðinu. Höfundur minnisblaðs um áhrif vindmylla á fuglalíf, sem lagt var fram til Skipulagsstofnunar við breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins, rekur að ekki séu tiltæk gögn um fugla á umræddu svæði og að samkvæmt upplýsingum frá Náttúrufræðistofnun Íslands séu ekki til útgefin gögn um svæðið. Því verði fjallað um líkleg áhrif á fuglalíf með almennum hætti út frá því sem líklegt væri á svæðinu. Þá er ljóst að Náttúrufræðistofnun telur að bæta þurfi upplýsingar um fuglalíf á svæðinu til að hægt sé að meta áhrif vindmyllanna nánar.

Þrátt fyrir að Skipulagsstofnun sé ekki bundin af þeim umsögnum sem aflað er við rannsókn máls ber henni að leggja efnisleg mat á innihald og vægi þeirra áður en ákvörðun er tekin. Í hinni kærðu ákvörðun fjallaði Skipulagsstofnun um áhrif framkvæmda á fuglalíf og tók fram að fyrirhugað framkvæmdasvæði væri innan mikilvægs fuglasvæðis sem spanni um 3.476 km2. Um fuglalíf á og næst framkvæmdasvæðinu hafi takmarkaðar upplýsingar verið í greinargerð framkvæmdaraðila. Jafnframt var vísað til umsagnar Náttúrufræðistofnunar um mikla umferð farfugla sem leggja þyrfti áherslu á að vakta ásamt því að vakta áflug. Tók Skipulagsstofnun undir það í áliti sínu og taldi mikilvægt að ráðist yrði í vöktun á fuglalífi á og við framkvæmdarsvæðið sökum þess hversu ábótavant vöktun hafi verið í tíð fyrri vindmylla en myllurnar ættu að rísa í nálægð við og í farleiðum margra fuglategunda. Setja þyrfti skýr ákvæði um fyrirkomulag vöktunar og mótvægisaðgerðir í virkjunarleyfi m.t.t. áhrifa á fuglalíf í samráði við Náttúrufræðistofnun Íslands.

Í ljósi takmarkaðs umfangs framkvæmdarinnar og þeirra upplýsinga sem lágu fyrir Skipulagsstofnun við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar, sem nú hafa verið raktar, verður þrátt fyrir framangreint að álíta að stofnunin hafi tekið viðhlítandi tillit til þeirra viðmiða sem eru í 2. viðauka við lög nr. 111/2021. Verður og ekki annað ráðið en að fyrir Skipulagsstofnun hafi legið nauðsynlegar upplýsingar um framkvæmdina og forsendur hennar sem stofnunin gat reist ákvörðun sína á.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður ekki álitið að hin kærða ákvörðun sé haldin þeim form- eða efnisannmörkum er ógildingu geta valdið og verður kröfu kæranda þar um því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 17. mars 2023 um að endurnýjun og uppsetning tveggja nýrra vindmylla á undirstöðum fyrri vindmylla við Þykkvabæ skuli ekki háð umhverfismati.

80/2023 Mælimastur í Grjóthálsi

Með

Árið 2023, föstudaginn 21. júlí, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 80/2023, kæra á synjun Skipulagsstofnunar frá 31. maí 2023 á að staðfesta óverulega breytingu  á Aðalskipulagi Borgarbyggðar 2010-2022 vegna mælimasturs á Grjóthálsi í landi Sigmundarstaða.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi, dags. 29. júní 2023, sem móttekið var sama dag hjá úrskurðarnefndinni kæra eigendur jarðanna Hafþórsstaða og Sigmundarstaða í Borgarbyggð synjun Skipulagsstofnunar frá  31. maí 2023 um að staðfesta óverulega breytingu á aðalskipulagi Borgarbyggðar vegna mælimasturs á Grjóthálsi í landi Sigmundarstaða.

Þess er krafist að synjun Skipulagsstofnunar verði felld úr gildi og að breyting á aðalskipulagi Borgarbyggðar sem samþykkt var í sveitarstjórn 13. apríl 2023, þess efnis að heimila tímabundið mælimastur, til 12 mánaða, á Grjóthálsi í landi Sigmundastaða, verði staðfest.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 29. júní 2023.

Málsatvik: Að því greinir í kæru áforma eigendur jarðanna Hafþórsstaða og Sigmundarstaða í Borgarbyggð að reisa rannsóknar- eða mælimastur fyrir vindafl í landi Sigmundarstaða. Muni hæð mastursins verða allt að 98 metrar og mælingar standa í allt að 12 mánuði, en mastrið verði þá fjarlægt.

Framkvæmdin hefur tvisvar áður komið til umfjöllunar hjá úrskurðarnefndinni. Með úrskurði uppkveðnum 28. desember 2021 í máli nr. 169/2021 var álitið að mastrið væri ekki háð framkvæmdarleyfi samkvæmt reglugerð nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Í framhaldi þessa var tilkynnt um uppsetningu mastursins til Borgarbyggðar með vísan til gr. 2.3.6. í byggingarreglugerð, þar sem mælt er fyrir um að tímabundin rannsóknarmöstur séu tilkynningarskyld. Synjað var á hinn bóginn um framkvæmdina á fundi skipulags- og byggingarnefndar Borgarbyggðar 4. nóvember 2022, þar sem álitið var að hún væri ekki samrýmanleg aðalskipulag sveitarfélagsins og var byggingafulltrúa falið að synja um heimild til framkvæmdarinnar, sem hann gerði 11. sama mánaðar. Með úrskurði úrskurðarnefndarinnar uppkveðnum 7. mars 2023, í máli nr. 136/2022, var því hafnað að fella þá ákvörðun úr gildi.

Með bréfi til Borgarbyggðar, dags. 29. mars 2023, óskuðu kærendur eftir því að gerð yrði breyting á aðalskipulagi vegna mælimastursins. Var af því tilefni vísað til 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sem varðar óverulegar breytingar á aðalskipulagi. Á fundi sveitarstjórnar Borgarbyggðar 13. apríl 2023 var slík breyting á aðalskipulagi samþykkt og með bréfi, dags. 2. maí s.á., var hún send Skipulagsstofnun til staðfestingar. Með bréfi, dags. 31. s.m. tilkynnti Skipulagsstofnun um synjun á staðfestingu þeirrar breytingar á aðalskipulagi.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun Skipulagsstofnunar um að synja um staðfestingu á óverulegri breytingu sveitarfélags á aðalskipulagi skv. 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, en þar er mælt fyrir um að fallist stofnunin ekki á að um óverulega breytingu sé að ræða skuli hún tilkynna sveitarstjórn um það og fari þá um málsmeðferð eins og um gerð aðalskipulags sé að ræða.

Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. skipulagslaga sæta stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli þeirra laga kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra ber að skipulagslögum að staðfesta verða þó ekki bornar undir úrskurðarnefndina. Í 3. mgr. 29. gr. sömu laga kemur fram að aðalskipulag sé háð samþykki sveitarstjórnar og staðfestingu Skipulagsstofnunar eða ráðherra. Breyting á aðalskipulagi er að sama skapi háð staðfestingu Skipulagsstofnunar eða eftir atvikum ráðherra, sbr. 1. mgr. 36. gr. laganna. Gildir einnig hið sama um óverulegar breytingar sbr. 2. mgr. 36. gr. laganna.

Samkvæmt greindum fyrirmælum skipulagslaga brestur úrskurðarnefndina vald til að endurskoða lögmæti ákvarðana um aðalskipulag og breytingar á því og verður af þeirri ástæðu að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

72/2023 Vogar vatnstaka

Með

Árið 2023, föstudaginn 21. júlí, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 72/2023, kæra á ákvörðun Orkustofnunar frá 4. maí 2023 um að samþykkja nýtingarleyfi  til töku grunnvatns til fiskeldis og fyrir neysluvatn á tilgreindu svæði við Vogavík, Sveitarfélaginu Vogum.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með ódagsettu bréfi, er barst nefndinni 8. júní 2023 kæra  Reykjaprent ehf., a, b og c,  ákvörðun Orkustofnunar  frá 4. maí 2023 um veitingu nýtingarleyfis til Benchmark Genetics Iceland hf. til töku grunnvatns til fiskeldis og fyrir neysluvatn á tilgreindu svæði við Vogavík, Sveitarfélaginu Vogum.  Þess er krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi sem og að nýting grunnvatns á grundvelli leyfisins verði stöðvuð til bráðabirgða að frágreindri tilgreindri vinnslu neysluvatns til þarfa Sveitarfélagsins Voga.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Orkustofnun 6. júlí 2023.

Málsatvik og rök: Leyfishafi hefur frá árinu 2005 nýtt 350 l/s af fersku grunnvatni og 600 l/s af söltu grunnvatni (jarðsjó) við fiskeldisstöð sína í Vogum. Munu þær borholur sem með því eru hagnýttar hafa verið boraðar á árunum 1984-1989. Félagið hefur sótt eftir heimild til þess að auka þessa nýtingu sem nemur 126 l/s af fersku grunnvatni og 346 l/s af söltu grunnvatni en það er þáttur í áformum um aukna framleiðslu í eldisstöð félagsins í Vogavík. Álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum þeirrar framkvæmdar lá fyrir 10. maí 2021.

Kærendur, sem eru meðal eigenda óbyggðs lands á Reykjanesskaga, Heiðarlands Vogajarða, færa fram þær málsástæður að leyfishafi njóti ekki fullnægjandi eignarheimildar og að rannsókn máls hafi verið ábótavant með tilliti til heildarmats á vatnstökunni og áhrifa hennar á vatnshlot og vatnstökusvæði það sem nýtingin lúti að. Þá eru færð fram sjónarmið sem varða málsmeðferð við undirbúning leyfisveitingarinnar og skort á rökstuðningi fyrir ákvörðun. Um kæruaðild vísa kærendur til eignarhalds á landi og takmarkana á umráðarétti vegna vatnsverndar. Hvað snertir kröfu um stöðvun framkvæmda er tekið fram að hún lúti aðeins að vatnstöku leyfishafa í þágu eigin atvinnustarfsemi, en ekki að töku neysluvatns.

Leyfishafi gerir kröfu um að kæru þessari verði vísað frá úrskurðarnefndinni vegna skorts á lögvörðum hagsmunum og til vara að kröfum kærenda verði hafnað og eru færð fram nánari sjónarmið er það varðar. Varðandi kröfu um stöðvun framkvæmda er bent á að leyfishafi starfræki seiðaeldisstöð og sé upptaka og nýting á grunnvatni forsenda fyrir þeirri starfsemi. Verði hann  fyrir verulegu fjárhagslegu tjóni ef fallist yrði kröfur kærenda. Séu hagsmunir þeirra af stöðvun framkvæmda  óljósir og ósannaðir, ekkert óafturkræft tjón sé yfirvofandi þótt vatnstakan sé ekki stöðvuð og ólíklegt sé að fallist verði á kröfur þeirra í málinu.

Af hálfu Orkustofnunar er staðhæft að ekki sé teljandi hætta á því að yfirvofandi sé óafturkræft umhverfistjón sem ónýta muni þá vatnstöku er um ræðir, en engin gögn hafi verið lögð fram sem styðja mundu það. Þvert á móti sé umrætt vatnshlot og næsta nágrenni þess afar vel rannsakað. Um þetta sé einnig vísað til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, þar sem segi að ólíklegt sé að aukin vatnsvinnsla komi til með að hafa neikvæð áhrif á grunnvatn sem nokkru nemi, að því gefnu að eftirlit tryggi að ekki raskist jafnvægi á milli ferskvatnsvinnslu og saltvatnsvinnslu.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið sé til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra beri þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda.

Tekið er fram í athugasemdum um 5. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggist á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Þar kemur einnig fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili sé að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun sé íþyngjandi fyrir hann, valdi honum t.d. tjóni. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af æðra stjórnvaldi.

Mál þetta snýst um gildi leyfis til töku grunnvatns til fiskeldis og fyrir neysluvatn og hafa verið færð fram sjónarmið af hálfu leyfishafa um að stöðvun framkvæmda mundi valda honum tjóni. Þá er sýnt að hagsmunir málsaðila eru ólíkir, en tekið skal um leið fram að nefndin hefur ekki tekið afstöðu til kæruaðildar kærenda. Að þessu virtu og þegar litið er til framangreindra lagaákvæða og hagsmuna kærenda, verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu um stöðvun framkvæmda. Verður kröfu kærenda þess efnis því hafnað, en frekari framkvæmdir eru á áhættu leyfishafa um úrslit málsins.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda við töku grunnvatns til fiskeldis og fyrir neysluvatn á tilgreindu svæði við Vogavík, Sveitarfélaginu Vogum, samkvæmt hinni kærðu ákvörðun.

48/2023 Bakkasmári

Með

Árið 2023, miðvikudaginn 19. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 48/2023, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogs frá 15. mars 2023 að synja um beitingu þvingunarúrræða vegna skjólveggjar á ­mörkum lóðanna Bakka­smára 19 og 21.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. apríl 2023, er barst nefnd­inni sama dag, kæra eigendur Bakkasmára 21, Kópa­vogi, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogs frá 15. mars 2023 að synja um beitingu þvingunar­úrræða vegna skjólveggjar á mörkum lóðanna Bakkasmára 19 og 21. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þá hafa kærendur uppi kröfu um að annað hvort verði séð til þess að girðingin verði lækkuð í 150 cm eða að starfsmenn bæjarins fjarlægi hana.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 4. maí 2023.

Málavextir: Við Bakkasmára í Kópavogi eru parhús og er hvert húsnúmer á sjálfstæðri lóð. Eiga lóðirnar Bakkasmári 19 og 21 sameiginleg lóðamörk og er síðarnefnda lóðin norðaustan við þá fyrrnefndu en langhlið þeirra er samsíða og nær frá göngustíg við götuna að bæjarlandi sem liggur í norðvestur að Fífu­hvammsvegi. Snemmsumars árið 2022 reistu eigendur Bakka­smára 19 skjólgirðingu á mörkum um­ræddra lóða. Í kjölfarið leituðu eigendur lóðar nr. 21, kærendur í máli þessu, til em­bættis byggingarfulltrúa Kópavogs. Svokölluð stöðu­skoðun fór fram af hálfu embættisins 7. júní 2022 og var hæð girðingarinnar mæld 180 cm. Hinn 24. s.m. var f.h. byggingarfulltrúa farið fram á að lóðahafar leituðu sam­eiginlegrar lausnar á frágangi á lóða­mörkunum og jafnframt tekið fram að ell­egar skyldi fjarlægja girðinguna, eigi síðar en 15. ágúst s.á. Hinn 16. september 2022 var send ítrekun á fyrra bréfi þar sem m.a. var upplýst um að eigendur Bakkasmára 21 gætu sætt sig við að hæð girðingar yrði 150 cm og var veittur frestur til 15. október s.á. til að finna sameiginlega lausn á frágangi á lóðamörkum. Fram kom að skoðað yrði hvort til greina kæmi að beita heimild til að knýja fram úrbætur skv. gr. 2.9.2. í byggingar­reglugerð nr. 112/2012, s.s. með álagningu dagsekta. Með bréfi, dags. 15. mars 2023, var aðilum málsins tilkynnt um ákvörðun byggingarfulltrúa þess efnis að ekki væri ástæða til að beita þvingunarúrræðum samkvæmt lögum nr. 160/2010 um mannvirki og byggingar­reglugerð nr. 112/2012.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er vísað til þess að vegna skuggamyndunar af um­deildri skjólgirðingu geti þeir ekki notið sólar sem skyldi og jafnframt eigi gróður erfitt upp­dráttar af sömu sökum. Girðingin sé í 191,5 cm hæð frá jarðvegi en ekki 180 cm líkt og mæling starfs­manns byggingarfulltrúa hafi sagt til um, en kærendur hafi fengið liðsinni arkitekts til þess að mæla hæð hennar. Mæling embættis byggingarfulltrúa sé röng en spjöldin á milli stauranna séu 180 cm há og séu 10 cm frá jörðu.

Kærendum hafi verið sagt af starfsmanni byggingarfulltrúa að rétturinn væri þeirra megin, bæjar­­starfsmenn myndu fjarlægja girðinguna og eigendur skjólgirðingarinnar þyrftu að greiða þeim dagsektir. Dregið hafi verið í land með að girðingin yrði fjarlægð og þá hafi dag­sektir aldrei komið til framkvæmda. Í níu mánuði hafi kærendur átt í samskiptum við starfsmann byggingar­fulltrúa þar sem fram hafi komið að um óleyfisframkvæmd væri að ræða og að bær­inn myndi standa með þeim. Kærendur geti ekki sætt sig við að beiting þvingunar­úrræða sé háð mati byggingar­fulltrúa þar sem í byggingarreglugerð komi skýrt fram að við byggingu skjól­veggja skuli farið að lögum. Þar standi skýrum stöfum að skjólveggir og girðingar megi ekki vera nær lóða­mörkum en sem nemi hæð þeirra og að nágrannar megi sam­mælast um girðingu en þurfi að skila inn undirrituðu samkomulagi til leyfisveitanda.

Málsrök Kópavogsbæjar: Bæjaryfirvöld benda á að vegna erindis kærenda til embættis byggingar­fulltrúa hafi starfsmenn embættisins farið í stöðuskoðun 7. júní 2022 og hafi annar kær­enda verið viðstaddur þá skoðun. Þar hafi veggurinn verið mældur 180 cm á hæð og 20 m að lengd. Í kjölfarið hafi embætti byggingarfulltrúa átt í samskiptum við lóðahafa til að afla upplýsinga og kanna hug aðila til samkomulags um framkvæmdina. Hafi aðilum svo verið veittur frestur til að finna sameiginlega lausn á frágangi á lóðamörkum til 15. október 2022. Þar sem það hafi ekki tekist hafi hin kærða ákvörðun verið tekin.

Engin skilyrði séu til að fallast á kröfu kærenda og hafi ákvörðunin samrýmst lögum nr. 160/2010 um mannvirki og byggingarreglugerð nr. 112/2012. Ákvörðunin hafi verið studd þeim rökum að ekki yrði séð að umræddur skjólveggur ógnaði öryggis- eða almanna­hags­munum. Af þeim sökum hafi byggingarfulltrúi ákveðið að beita sér ekki fyrir því að veggurinn yrði fjarlægður með beitingu þvingunarúrræða og því hafi efnisleg rök legið að baki ákvörðun hans í samræmi við 55. gr. laga nr. 160/2010 og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Athugasemdir framkvæmdaraðila: Af hálfu eigenda Bakkasmára 19 er vísað til þess að þau hafi síðasta sumar, í fyrsta skipti í langan tíma, getað notið þess að vera örugg með hund og barna­börn sín úti í garði. Í garði kærenda sé óbundinn Husky hundur og hafi framkvæmdaraðilar ekki fengið svar eða úrlausn við ábending­um sem þau hafi komið á framfæri við Kópavogsbæ varðandi hundinn. Þau telji að með ákvörðun byggingar­fulltrúa sé verið að taka öryggi og velferð allra íbúa og dýra fram yfir ein­staklings­­hagsmuni kærenda sem séu minni­háttar skuggamyndun frá skjólvegg. Á lóð Bakka­­smára 21 séu himin­há tré og því spurning hvernig skjólgirðing geti varpað skugga á þau og hvort mikið breytist við að lækka girðing­una í 150 cm.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur benda á að ekki sé hægt að nota lóð þeirra sem skyldi vegna skuggavarps og ástandið því til þess fallið að rýra verðgildi eignar þeirra. Byggingar­­­fulltrúa sé fengið vald til beitingar þvingunarúrræða einmitt til þess að stöðva óleyfis­­­fram­kvæmdir manna sem vegi að rétti nágranna sinna. Ekki sé tækt að byggingarfulltrúi skýli sér á bak við það að honum beri að beita þvingunarúrræðum með tilliti til meðalhófs til þess að forðast að taka íþyngjandi ákvörðun í málum og vísi til þess að einstaklingum séu tryggð önnur réttar­úrræði til að verja einstaklingshagsmuni sína. Ekki sé hægt að skilja þau orð öðru­vísi en að byggingar­fulltrúi telji að allan ágreining sem varði einstaklingshagsmuni verði að út­­­kljá fyrir dómstólum með öllum þeim kostnaði sem því fylgi. Það standist ekki skoðun og geti ekki hafa verið raunverulegur tilgangur athugasemda með frumvarpi að lögum nr. 160/2010 um mannvirki varðandi beitingu þvingunarúrræða. Þvert á móti verði að túlka til­vísun til meðalhófs svo að embættinu beri skylda til að skoða hvert mál til hlítar með tilliti til máls­­meðferðar­reglna stjórnsýslu­laga nr. 37/1993. Ekki sé að sjá að nokkur tilraun hafi verið gerð í málsmeðferð bæjar­­yfirvalda til að ná fram lögmætu markmiði með þeim þvingunar­úr­ræðum sem byggingar­fulltrúi hafi yfir að ráða. Þá hafi kærendur haft eðlilegar og réttmætar væntingar um að byggingarfulltrúi hefði ætlað að láta til sín taka í málinu enda verið tjáð að svo yrði frá upp­­hafi málsins.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreinings­­málum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Tekur úrskurðarnefndin því lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu eða leggur fyrir stjórnvöld að framkvæma tilteknar athafnir. Verður samkvæmt framangreindu ekki tekin afstaða til krafna kærenda um að umdeild skjólgirðing á mörkum lóðanna Bakkasmára 19 og 21 verði lækkuð í 150 cm eða að starfsmenn bæjaryfirvalda fjarlægi hana, heldur verður einungis tekin afstaða til lög­­mætis hinnar kærðu ákvörðunar um að hafna beitingu þvingunar­úr­­ræða.

Það er hlutverk byggingarfulltrúa að hafa eftirlit með mannvirkjagerð í sínu um­dæmi, sbr. 2. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 8. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og í 55. og 56. gr. laganna er kveðið á um þvingunarúrræði þau sem honum eru tiltæk til að fylgja eftir ákvörðunum sínum. Í 1. mgr. 55. gr. er m.a. tekið fram að byggingarfulltrúi geti gripið til aðgerða ef ekki er fylgt ákvæðum laganna eða reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim við byggingar­fram­kvæmdina. Þá er kveðið á um það í 2. mgr. ákvæðisins að ef framkvæmd sé hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag geti byggingar­fulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt, jarðrask afmáð eða starf­semi hætt. Sinni eigandi ekki þeirri kröfu sé heimilt að beita dagsektum eða vinna slík verk á hans kostnað.

Ákvörðun um beitingu þessara þvingunarúrræða er háð mati stjórnvalds hverju sinni og tekið er fram í athugasemdum við frumvarp það sem varð að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu úrræðanna sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Um­rædd ákvæði gefa sveitarfélögum kost á að bregðast við sé gengið gegn almannahagsmunum þeim er búa að baki mannvirkjalögum, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Fer það því eftir atvikum hvort nefndum þvingunarúrræðum verði beitt eða ekki, í tilefni af framkvæmd sem telst vera ólögmæt. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að einstaklingum sé tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunarúrræða vegna einstaklingshagsmuna enda eru þeim tryggð önnur réttarúrræði til þess að verja þá hagsmuni sína. Þótt beiting úrræðanna sé háð mati stjórnvalds þarf ákvörðun þess efnis að vera studd efnislegum rökum, m.a. með hlið­sjón af þeim hagsmunum sem búa að baki fyrrgreindum lagaheimildum, og fylgja þarf megin­reglum stjórnsýsluréttarins, s.s. um rannsókn máls og að málefnaleg sjónarmið búi að baki ákvörðun. Tekið skal fram að áskorun skv. 1. mgr. 56. gr. laga um mannvirki er liður í undir­búningi mögulegrar ákvörðunar um beitingu þvingunar­úrræða skv. 56. gr. en felur ekki í sér lokaákvörðun um beitingu þeirra.

Fyrir liggur að ekki hefur verið veitt byggingarleyfi fyrir hinum umdeilda skjólvegg sam­kvæmt ákvæðum III. kafla laga nr. 160/2010. Þá er ekki til staðar samkomulag um vegginn sam­kvæmt e-lið 1. mgr. gr. 2.3.5. og 3. mgr. gr. 7.2.3. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Þar sem samkomulag liggur ekki fyrir er skjólveggurinn ekki undanþeginn byggingarleyfi samkvæmt fyrrgreindum e-lið 1. mgr. gr. 2.3.5. reglugerðarinnar. Er því ljóst að hvorki hefur verið fylgt ákvæðum laga um mannvirki né byggingar­reglugerðar við framkvæmdina. Líkt og fram hefur komið fór fulltrúi embættis byggingar­fulltrúa á staðinn og kynnti sér aðstæður á vettvangi fyrir töku hinnar kærðu ákvörðunar. Í áskorunum byggingarfulltrúa skv. 1. mgr. 56. gr. laga um mannvirki var bent á að kærendur gætu sætt sig við lægri vegg. Lóðahafar hafi hins vegar ekki komið sér saman um aðra útfærslu á veggnum. Í hinni kærðu ákvörðun frá 15. mars 2023 kom fram það mat byggingarfulltrúa að ekki yrði séð að hinn umdeildi skjólveggur ógnaði öryggis- eða almanna­hagsmunum.

Með hliðsjón af framangreindu verður að telja að efnisrök hafi búið að baki þeirri matskenndu ákvörðun að synja kröfu kærenda um beitingu þvingunarúrræða þótt hún kunni að snerta hags­muni þeirra, enda verður ekki talið að almannahagsmunum hafi verið raskað með hinum um­deilda skjólvegg. Verður kröfu kærenda því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 15. mars 2023 að synja um beitingu þvingunarúrræða vegna skjólveggjar á mörkum lóðanna Bakka­smára 19 og 21.

Að öðru leyti er máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

52/2023 Bakkahjalli

Með

Árið 2023, miðvikudaginn 19. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 52/2023, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogs frá 21. mars 2023 að synja um beitingu þvingunarúrræða vegna skjólveggjar á mörkum lóðanna Bakkahjalla 3 og 5.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er barst nefndinni 20. apríl 2023, kæra eigendur Bakkahjalla 3, Kópavogi, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Kópa­vogs frá 21. mars 2023 að synja um beitingu þvingunarúrræða vegna skjólveggjar á mörkum lóðanna Bakkahjalla 3 og 5. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að byggingar­fulltrúa verði falið að endurskoða hana og beita þeim úrræðum sem til staðar séu í málum sem þessum.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 12. maí 2023.

Málavextir: Við Bakkahjalla eru par- og raðhús og er hvert húsnúmer á sjálfstæðri lóð. Lóðirnar Bakkahjalli 3 og 5 eiga að hluta sameiginleg lóðamörk, þ.e. við vesturmörk fyrr­nefndu lóðarinnar og austurmörk þeirrar síðarnefndu. Ná sameiginleg mörk lóðanna frá göngu­stíg við götuna að bæjarlandi sem liggur í hásuður en mörk Bakkahjalla 5 ná þó lengra inn á bæjar­landið. Í mars 2022 höfðu kærendur samband við embætti byggingarfulltrúa Kópavogs vegna framkvæmda við gerð skjólveggjar á mörkum umræddra lóða sem þeir hefðu ekki sam­þykkt. Mun byggingarfulltrúi hafi farið á vettvang 7. apríl og 7. júní 2022. Áttu kærendur í nokkrum samskiptum við embætti byggingarfulltrúa vegna kvörtunar sinnar og kemur þar m.a. fram sú fullyrðing kærenda að skjólveggurinn sé hærri en 180 cm. Með bréfi, dags. 21. mars 2023, var kærendum tilkynnt um ákvörðun byggingarfulltrúa þess efnis að ekki væri ástæða til að beita þvingunarúrræðum samkvæmt lögum nr. 160/2010 um mannvirki og byggingar­reglugerð nr. 112/2012.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er vísað til þess að ljóst sé að ákvæði byggingar­reglugerðar nr. 112/2012 hafi verið brotin og að byggingarfulltrúi hafi látið undir höfuð leggjast að beita þeim úrræðum sem til staðar séu eins og t.d. dagsektum. Fyrir liggi að ekki hafi verið um sameiginlegt verkefni lóðaeigenda að ræða og ekki hafi verið til staðar samkomulag um hina umdeildu framkvæmd. Hafi öllum mátt vera það ljóst enda hafi kærendur ítrekað leitað til byggingarfulltrúa á meðan á framkvæmdum hafi staðið. Hafi byggingarfulltrúi endurtekið ráðlagt málsaðilum að ná samkomulagi sem þyrfti að skjalfesta og leggja fram hjá embættinu. Í kjölfar fyrri skoðunar byggingarfulltrúa hefði fulltrúi eigenda Bakkahjalla 5 lofað að lagðar yrðu fram teikningar til umræðu og samþykktar en við það hefði ekki verið staðið. Aldrei hafi verið óskað eftir heimild fyrir framkvæmdum á lóðamörkum Bakkahjalla 3 og 5 og hafi slík heimild hvorki verið veitt skriflega né með öðrum hætti. Með ákvörðun byggingarfulltrúa hafi fylgt útskýringar sem hafi byggt á forsendum sem eigi sér enga stoð og því sé eðlilegt að ákvörðunin verði endurskoðuð og tillit tekið til atvika málsins.

Málsrök Kópavogsbæjar: Bæjaryfirvöld benda á að kærendur hafi 7. apríl 2022 haft samband við byggingarfulltrúa vegna hinnar umdeildu framkvæmdar. Fulltrúi byggingar­fulltrúa hafi farið til að skoða aðstæður á lóðamörkunum, fyrst samdægurs og svo 7. júní s.á., og hafi eigendur beggja lóða verið viðstaddir fyrri skoðunina. Við þá skoðun hafi það verið skilningur byggingarfulltrúa að sátt ríkti um framkvæmdina. Kvörtun kærenda hefði eingöngu lotið að afmörkuðum hluta skjólveggjar sem eigendur Bakkahjalla 5 hefðu reist á mörkum lóðanna.

Engin skilyrði séu til að fallast á kröfu kærenda og hafi hin kærða ákvörðun samrýmst lögum nr. 160/2010 um mannvirki og byggingarreglugerð nr. 112/2012. Ákvörðunin hafi verið studd þeim rökum að ekki yrði séð að umræddur skjólveggur ógnaði öryggis- eða almanna­hags­munum. Af þeim sökum hefði byggingarfulltrúi ákveðið að beita sér ekki fyrir því að veggurinn yrði fjarlægður með beitingu þvingunarúrræða og því hafi efnisleg rök legið að baki ákvörðun hans í samræmi við 55. gr. laga nr. 160/2010 og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 ——

Framkvæmdaraðila var gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum vegna málsins en engar slíkar hafa borist úrskurðarnefndinni af hans hálfu.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreinings­­málum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Tekur úrskurðarnefndin því lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu eða leggur fyrir stjórnvöld að framkvæma tilteknar athafnir. Verður samkvæmt framangreindu ekki tekin afstaða til kröfu kærenda um að byggingarfulltrúa verði gert að beita þeim úrræðum sem til staðar séu, heldur verður einungis tekin afstaða til lög­­mætis hinnar kærðu ákvörðunar um að hafna beitingu þvingunar­­úr­­ræða.

Það er hlutverk byggingarfulltrúa að hafa eftirlit með mannvirkjagerð í sínu um­dæmi, sbr. 2. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 8. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og í 55. og 56. gr. laganna er kveðið á um þvingunarúrræði þau sem honum eru tiltæk til að fylgja eftir ákvörðunum sínum. Í 1. mgr. 55. gr. er m.a. tekið fram að byggingarfulltrúi geti gripið til aðgerða ef ekki sé fylgt ákvæðum laganna eða reglugerða sem settar séu samkvæmt þeim við byggingar­fram­kvæmdina. Þá er kveðið á um það í 2. mgr. ákvæðisins að ef byggingarframkvæmd sé hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag geti byggingar­fulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt, jarðrask afmáð eða starf­semi hætt. Sinni eigandi ekki þeirri kröfu sé heimilt að beita dagsektum eða vinna slík verk á hans kostnað.

Ákvörðun um beitingu þessara þvingunarúrræða er háð mati stjórnvalds hverju sinni og tekið er fram í athugasemdum við frumvarp það sem varð að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu úrræðanna sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Um­rædd ákvæði gefa sveitarfélögum kost á að bregðast við sé gengið gegn almannahagsmunum þeim er búa að baki mannvirkjalögum, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Fer það því eftir atvikum hvort nefndum þvingunarúrræðum verði beitt eða ekki, í tilefni af framkvæmd sem telst vera ólögmæt. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að einstaklingum sé tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunarúrræða vegna einstaklingshagsmuna enda eru þeim tryggð önnur réttarúrræði til þess að verja þá hagsmuni sína. Þótt beiting úrræðanna sé háð mati stjórnvalds þarf ákvörðun þess efnis að vera studd efnislegum rökum, m.a. með hlið­sjón af þeim hagsmunum sem búa að baki fyrrgreindum lagaheimildum, og fylgja þarf megin­reglum stjórnsýsluréttarins, s.s. um rannsókn máls og að málefnaleg sjónarmið búi þar að baki.

Fyrir liggur að ekki hefur verið veitt byggingarleyfi fyrir hinum umdeilda skjólvegg sam­kvæmt ákvæðum III. kafla laga nr. 160/2010, en hann er ekki undanþeginn byggingarleyfi samkvæmt e-lið 1. mgr. gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 og ekki er til staðar samkomulag um vegginn sam­kvæmt 3. mgr. gr. 7.2.3. reglugerðarinnar. Er því ljóst að hvorki hefur verið fylgt ákvæðum laga um mannvirki eða byggingarreglugerðar við framkvæmdina. Líkt og fram hefur komið fór starfsmaður embættis byggingarfulltrúa á staðinn og kynnti sér í tvígang aðstæður á vettvangi fyrir töku hinnar kærðu ákvörðunar. Það mat byggingarfulltrúa að ekki yrði séð að hinn umdeildi skjólveggur ógnaði öryggis- eða almanna­hagsmunum kom fram í hinni kærðu ákvörðun frá 21. mars 2023.

Með hliðsjón af framangreindu verður að telja að efnisrök hafi búið að baki þeirri matskenndu ákvörðun að synja kröfu kærenda um beitingu þvingunarúrræða þótt hún kunni að snerta hags­muni þeirra, enda verður ekki talið að almannahagsmunum hafi verið raskað með hinum um­deilda skjólvegg. Verður kröfu kærenda í máli þessu því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Kópavogs frá 21. mars 2023 að synja um beitingu þvingunarúrræða vegna skjólveggjar á mörkum lóðanna Bakka­hjalla 3 og 5.

Að öðru leyti er máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

77/2023 Hamrabrekkur

Með

Árið 2023, miðvikudaginn 19. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 77/2023, beiðni um að úrskurðað verði um hvort bygging tveggja kofa á lóð Hamrabrekkna 11, Mosfellsbæ, sé háð byggingarleyfi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 27. júní 2023, fór eigandi lóðarinnar Hamrabrekkna 10, Mosfellsbæ, fram á að tekin yrði afstaða til þess hvort bygging tveggja kofa á lóðinni Hamrabrekkum 11 sé háð byggingarleyfi. Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðar­nefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kæranda.

Mál þetta er tekið til meðferðar skv. 4. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Málavextir: Hinn 20. júní 2023 sendi kærandi Mosfellsbæ erindi þess efnis að lóðinni Hamra­brekkum 11 hefði verið raskað og hún hækkuð. Verið væri að byggja smáhýsi sem kærandi taldi skerða útsýni sitt auk þess sem þau væru of há og fyrir utan byggingarreit. Erindinu var svarað 21. s.m. og kom þar fram sú afstaða bæjaryfirvalda að svæðið hefði verið skoðað og að viðkomandi mannvirki væru ekki byggingarleyfisskyld.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er vísað til f-liðar gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 um minniháttar mannvirkjagerð sem sé undanþegin byggingarheimild og -leyfi. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafi gefið út leiðbeiningar um greinina, þar sem komi m.a. fram að eigandi beri ábyrgð á að ekki sé gengið á rétt nágranna, sbr. gr. 2.3.9.

Upphaflega hafi undanþága frá byggingarleyfi verið hugsuð vegna skúra undir garðverkfæri. Skiljanlegt sé að heimilt sé að gera minniháttar kofa án þess að þurfa að undirgangast flókið umsóknarferli. Í gr. 2.3.5. sé sérstaklega tiltekið að mesta hæð þaks megi eingöngu vera 2,5 m frá yfirborði jarðvegs. Í þessu felist almenn forvörn gegn áhrifum á nágranna sem minnki þörf á grenndarkynningu. Ekki ætti að þurfa að ráðast í miklar jarðvegsframkvæmdir undir slík smáhýsi og því ekki réttlætanlegt að landslag sé hækkað. Undanþágu frá meginreglu beri að túlka þröngt. Mikið rask á frístundalóðum án leyfa sé vafasamt og geti spillt náttúrufegurð. Hinir umdeildu kofar séu augljóslega ekki garðskúrar og virðist frekar vera til íveru. Mesta hæð yfir jarðvegi sé umtalsvert meiri en 2,5 m.

Málsrök Mosfellsbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er bent á að starfsmaður á vegum bæjarins hafi skoðað umrætt svæði í kjölfar ábendingar kæranda. Mat starfsmannsins hafi verið að hvorugt smáhýsanna væri stærra en 15 m2 og að hæð þeirra væri ekki meiri en 2,5 m frá jarðvegi. Þá hafi hann talið hýsin fjær lóðarmörkum en 3 m og að eðlilegt væri að uppbygging á svæðinu hefði áhrif á ásýnd þess.

Í gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2010 sé hvorki kveðið á um að einungis megi reisa eitt hýsi á hverri lóð né að jarðvegsvinna megi ekki eiga sér stað. Nauðsynlegt hafi verið að hækka jarðveg þar sem hýsin standi í nokkrum halla. Þá séu þau innan byggingarreits lóðarinnar.

Lóðin Hamrabrekkur 11 sé á svæði fyrir frístundabyggð samkvæmt Aðalskipulagi Mosfells­bæjar 2011-2030. Á lóðinni standi 32,5 m2 sumarhús, byggt árið 2004, en auk þess sé bygging 97,5 m2 frístundahúss á lóðinni langt komin. Smáhýsin standi innan byggingarreits umræddrar lóðar. Lóðin sé rúmir 4.500 m2 og byggingarreitur hennar sé rúmlega 2.100 m2. Ekki sé í gildi deiliskipulagsáætlun fyrir svæðið.

Málsrök eiganda Hamrabrekkna 11: Af hálfu eiganda Hamrabrekkna 11 er farið fram á frávísun málsins, annars vegar þar sem kröfur kæranda séu það óljósar að málið sé ekki tækt til úrskurðar og hins vegar þar sem aðeins stjórnvaldsákvarðanir verði kærðar til úrskurðar­nefndarinnar, sbr. 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Að öðru leyti er tekið undir málsrök Mosfellsbæjar.

———-

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur nefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnarefna á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Verður samkvæmt ákvæðinu að vera til staðar sérstök kæruheimild í lögum, sé ekki um stjórnvaldsákvörðun að ræða. Samkvæmt 4. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki skal leita niðurstöðu úrskurðarnefndar, sbr. 59. gr., leiki vafi á því hvort mannvirki sé háð byggingarleyfi eða falli undir 2. eða 3. mgr. 9. gr. laganna. Ljóst er af erindi kæranda að hann fer fram á að úrskurðarnefndin taki afstöðu til þess hvort hin umdeildu mannvirki séu háð byggingarleyfi, en hefði nefndin talið óljóst í hverju kæra hefði falist hefði borið að rannsaka það sérstaklega, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður því ekki fallist á frávísunarkröfu eiganda Hamrabrekkna 11.

Fjallað er um byggingarleyfisskyldar framkvæmdir í 1. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga. Þar kemur fram að óheimilt er að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa, sbr. 2. mgr., eða Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, sbr. 3. mgr. Ráðherra getur í reglugerð kveðið á um að minniháttar mannvirkjagerð eða smávægilegar breytingar á mannvirkjum skuli undanþiggja byggingarleyfi, að slíkar framkvæmdir séu einungis tilkynningarskyldar eða að gera skuli vægari kröfur um fylgigögn eða umsóknarferli.

Í samræmi við framangreint er fjallað um minniháttar mannvirkjagerð sem er undanþegin byggingarheimild og -leyfi í gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2010. Í 1. mgr. ákvæðisins segir að minniháttar mannvirki og framkvæmdir sem taldar eru upp í stafliðum a-f séu undan­þegnar byggingarleyfi. Þær séu einnig undanþegnar byggingarheimild og tilkynningarskyldu skv. gr. 2.3.6., enda séu þær í samræmi við deiliskipulag og önnur ákvæði reglugerðar þessarar sem við eiga hverju sinni.

Hin umdeildu smáhýsi standa á lóðinni Hamrabrekkum 11, Mosfellsbæ. Ekki er í gildi deili­skipulag fyrir svæðið, en 1. mgr. gr. 2.3.5. byggingarreglugerðar gerir samræmi við deili­skipulag að skilyrði fyrir þeim undanþágum frá skyldu til öflunar byggingarheimildar og -leyfis sem þar eru taldar upp. Verður því ekki talið að f-liður 1. mgr. gr. 2.3.5. eigi við í máli þessu. Eru hin umdeildu smáhýsi því byggingarleyfisskyld skv. 1. mgr. 9. gr. laga um mannvirki.

Úrskurðarorð:

Umdeild smáhýsi á lóðinni Hamrabrekkum 11, Mosfellsbæ, eru byggingarleyfisskyld.

34/2023 Hafnargata 23

Með

Árið 2023, fimmtudaginn 6. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 34/2023, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 6. desember 2022 um að hafna umsókn kæranda um leyfi til að breyta verslunarrými við Hafnargötu 23 að hluta til í íbúð og ákvörðun bæjarstjórnar frá 7. febrúar 2023 um að staðfesta fyrri ákvörðun.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. mars 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir A, f.h. B, þá ákvörðun bæjar-stjórnar Reykjanesbæjar frá 6. desember 2022 að hafna erindi kæranda um leyfi til að breyta verslunarrými að Hafnargötu 23 að hluta til í íbúð og ákvörðun bæjarstjórnar frá 7. febrúar 2023 um að staðfesta þá ákvörðun. Er þess krafist að ákvarðanirnar verði felldar úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjanesbæ 12. apríl 2023.

Málavextir: Hafnargata 23 í Reykjanesbæ er á ódeiliskipulögðu svæði. Hinn 17. nóvember 2022 sendi kærandi erindi til bæjaryfirvalda Reykjanesbæjar og óskaði umsagnar umhverfis- og skipulagsráðs um fyrirhugaða breytingu verslunar­rýmis á jarðhæð húss að Hafnargötu 23 í íbúð­ og verslun. Í erindinu kom m.a. fram að verslunin yrði „óbreytt að sjá“ og þar yrði séreign með salerni, starfsmannaaðstöðu og lager. Gengið yrði í íbúðina úr sameign líkt og við á um aðrar íbúðir í húsinu. Erindið var tekið fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 24. nóvember 2022 og var því vísað til umhverfis- og skipulagsráðs með vísan til 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 2. desember s.á. var erindinu synjað og staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu á fundi 6. s.m.

Hinn 18. desember 2022 ítrekaði kærandi fyrra erindi sitt og sótti „formlega“ um fyrirhugaðar breytingar og eftir atvikum endurupptöku erindisins liti sveitarfélagið svo á að fyrri ákvörðun þess hafi verið stjórnvaldsákvörðun. Erindið var tekið fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 3. febrúar 2023 og því hafnað. Staðfesti bæjarstjórn afgreiðsluna á fundi 7. s.m.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er bent á að kærufrestur vegna ákvörðunar bæjarstjórnar frá 6. desember 2022 sé ekki liðinn. Samkvæmt 4. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 rofni kærufrestur þegar aðili óski eftir endurupptöku máls innan kærufrests, en haldi síðan áfram að líða að nýju frá þeim tíma er ákvörðun um að hafna beiðni um endurupptöku sé tilkynnt aðila máls. Kæranda hafi borist tilkynning um umrædda ákvörðun 15. desember 2022 og marki það upphaf kærufrests í málinu. Kærufrestur hafi rofnað 18. s.m. þegar endurupptöku málsins hafi verið óskað en byrjað aftur að líða þegar kæranda hafi verið tilkynnt um synjun erindisins með bréfi, dags. 9. febrúar 2023. Síðasti dagur kærufrests vegna umræddrar ákvörðunar sé því 8. mars 2023.

Rökstuðningi fyrir hinum kærðu ákvörðunum sé stórlega áfátt og eigi það að leiða til ógildingar þeirra. Í þágildandi aðalskipulagi hafi ekki komið fram að ekki mætti breyta atvinnuhúsnæði á jarðhæð í íbúðarhúsnæði. Slíkt ákvæði sé hins vegar að finna í nýju aðalskipulagi, sem auglýst hefði verið í B-deild Stjórnartíðinda 8. febrúar 2023, en það eigi ekki við í málinu þar sem hinar kærðu ákvarðanir hafi báðar verið teknar fyrir gildistöku þess. Afgreiða beri erindi á grundvelli þeirra laga, reglugerða og annarra réttarheimilda sem séu í gildi þegar umsókn berst en umsókn kæranda vegna umræddra breytinga hafi verið í fullu samræmi við þágildandi aðalskipulag. Óheimilt sé að vísa til áforma um hertar reglur í framtíðarskipulagi við afgreiðslu málsins líkt og sveitarfélagið hefði gert.

Þá hafi sveitarfélagið brotið gegn jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins, sbr. 11. gr. stjórnsýslu­laga. Ekki hafi verið gætt samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti þegar litið sé til afgreiðslu sambærilegra mála. Í umsókn sinni hafi kærandi vísað til fordæma, m.a. breytinga sem gerðar hafi verið á Hafnargötu 16 og 34. Ekki hafi verið vikið að þessum fordæmum í rökstuðningi sveitarfélagsins og kæranda einum gert að sæta því að beitt sé ákvæði í skipulagi sem ekki hefði öðlast gildi. Þá hafi ekki verið gætt meðalhófs við afgreiðslu hinna kærðu ákvarðana, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga. Í umsókn kæranda hafi verið komið til móts við stefnu bæjarstjórnar um að standa gegn því að verslunarrýmum á umræddu svæði verði breytt í íbúðir. Ekki standi til að breyta öllu rýminu í íbúð, heldur verði verslunarrými látið halda sér á þeirri hlið sem snúi að götunni. Því verði hvorki breyting á notkun þess hluta rýmisins né heldur götumynd eða innsýn í rýmið frá götunni.

Kæranda hafi verið bent á andmælarétt í tilkynningum til hans um hinar kærðu ákvarðanir. Sú málsmeðferð sé ekki í samræmi við lög enda felist í andmælarétti samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga að aðili máls eigi rétt á að tjá sig um efni máls áður en ákvörðun sé tekin í því. Full ástæða hefði verið til að gefa kæranda kost á að koma andmælum sínum á framfæri þegar fyrir hefði legið að til stæði að taka ákvörðun í málinu á grundvelli ákvæðis í aðalskipulagi sem ekki hefði öðlast gildi.

Málsrök Reykjanesbæjar: Sveitarfélagið bendir á að í þágildandi Aðalskipulagi Reykjanes­bæjar 2015–2030 hafi m.a. komið fram að áhersla væri lögð á að styrkja stoðir smá- og fag­verslana og veitingastaða við Hafnargötu. Umhverfis- og skipulagsráð hafi metið svo að breyting á jarðhæð Hafnargötu 23 væri ekki til þess fallin að ná því markmiði. Aðalskipulagið hafi gert ráð fyrir skrifstofum og íbúðum við götuna, en það gefi fasteignaeigendum ekki óskoraðan rétt til breytinga á notkun hvaða húsrýmis sem er samkvæmt eigin geðþótta og án þess að hafa málefnalegar ástæður. Í skjóli skipulagsvalds síns hafi sveitarfélagið fulla heimild til að hafna breytingartillögum sem styðji ekki markmið aðalskipulags og séu líklegri til að vinna gegn þeim. Við afgreiðslu hinna kærðu ákvarðana hafi verið fullljóst að endurskoðað aðalskipulag hefði ekki tekið gildi og það ekki lagt til grundvallar við afgreiðslu málsins. Hins vegar hefði verið vísað til ákvæða nýs aðalskipulags til þess að sýna fram á viðhorf og áherslu sveitarfélagsins til uppbyggingar í miðbænum.

Við afgreiðslu erindis kæranda hafi verið sérstaklega horft til aðstæðna á jarðhæð við Hafnar­götu 17–27a, en það sé kjarni verslunarhluta götunnar. Austan megin við götuna, þ.e. sömu megin og Hafnargata 23, sé gengið beint inn á jarðhæð. Þar sem ekki þurfi að fara um tröppur henti húsnæðið vel til verslunarreksturs. Vestan megin við götuna hafi nýtt deiliskipulag tekið gildi og þar sé gert ráð fyrir því að eldri hús á háum sökkli muni víkja fyrir nýjum byggingum með beinu aðgengi. Markmiðið sé að styrkja rekstur verslunar og þjónustu á þeim hluta götunnar.

Þau fordæmi sem kærandi hafi vísað til séu ekki sambærileg máli þessu. Veitt hefði verði heimild til að breyta 1. hæð Hafnargötu 16 í íbúð árið 2017 og hluta 1. hæðar Hafnargötu 34 í íbúð árið 2019. Vegna aðgengis henti þessi húsrými mun síður til reksturs verslunar eða þjónustu þar sem tröppur liggi að þeim og aðkoma sé þröng. Ekki hafi verið brotið gegn jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Við beitingu skipulagsvalds sé nauðsynlegt að úrlausn máls taki mið af aðstæðum í hverju tilfelli fyrir sig, götumynd, tegund og stærð húss, aðkomu og öðrum þáttum. Þessi fordæmi hafi ekki úrslita­áhrif í máli þessu.

Þá sé unnið að deiliskipulagi fyrir Hafnargötu, en hún hafi byggst upp á rúmri öld og húsagerð við götuna sé fjölbreytt. Efri hluti götunnar sé í aflíðandi brekku en neðsti hlutinn nær sléttur. Ekki verði lagt mat á hvort stærðir einstakra verslunarrýma séu fullnægjandi fyrr en þeirri vinnu sé lokið. Kærandi hafi ekki sýnt fram á að 45–50 m2 verslunarrými sé fullnægjandi né heldur að húsið, út frá fyrirkomulagi og staðsetningu, henti illa verslunarrekstri.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi ítrekar að ekki sé annað til úrlausnar í málinu en að fá úr því skorið hvort rökstuðningur umhverfis- og skipulagsráðs frá 2. desember 2022, sem bæjarstjórn hafi  staðfest 6. desember 2022, sé í samræmi við lög og fullnægi þeim kröfum sem gera verði til rökstuðnings stjórnvaldsákvarðana. Í rökstuðningi þeirrar ákvörðunar komi ekki fram með hvaða hætti umsókn kæranda hafi farið gegn þágildandi aðalskipulagi. Einu rökin sem sveitarfélagið hefði teflt fram gegn áformum kæranda séu að ekki sé heimilt að breyta atvinnuhúsnæði á jarðhæð í íbúðarhúsnæði samkvæmt endurskoðuðu aðalskipulagi. Aðrar ástæður eða skýringar sveitarfélagsins í kærumáli þessu geti engu breytt um þá staðreynd að rökstuðningurinn hafi verið rangur og ófullnægjandi, enda verði ekki bætt úr ágöllum á rök­stuðningi eftir að ákvörðun hafi verið tekin í stjórnsýslumáli. Sveitarfélagið hefði hafnað beiðni kæranda um endurupptöku og verði því ekki úr því bætt.

Þá sé réttur kæranda til að hagnýta eign sína í samræmi við gildandi skipulag ríkur og ótvíræður stjórnarskrárvarinn réttur. Því verði að færa fram veigamiklar og málefnalegar ástæður fyrir ákvörðun um að takmarka þann rétt og gegni furðu að sveitarfélagið leggi sönnunarbyrði á herðar kæranda. Sönnunarbyrði fyrir því að hafna beri umsókn af þessu tagi sé hjá sveitar­félaginu, en ekki öfugt.

Kærandi mótmæli því að breytingar á Hafnargötu 16 og 34 séu haldlaus fordæmi vegna þess að tröppur séu við innganga þeirra. Auðvelt sé að koma fyrir römpum til þess að tryggja aðgengi allra að þessu húsnæði, auk þess sem slíkt aðgengi sé ekki fyrir hendi alls staðar þar sem rekin sé verslun eða þjónustustarfsemi í eldri bæjarhlutum. Þá séu þær breytingar, sem gerðar hafi verið á Hafnargötu 16 og 34, umfangsmeiri en umsókn kæranda hafi gert ráð fyrir, m.a. varðandi breytingu á götumynd og innsýn.

Niðurstaða: Erindi kæranda, dags. 17. nóvember 2022, fól í sér ósk um umsögn umhverfis- og skipulagsráðs um breytingu á hluta verslunarrýmis á jarðhæð Hafnargötu 23 í íbúð. Byggingarfulltrúi vísaði erindinu til umhverfis- og skipulagsráðs með vísan til 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 um grenndarkynningu. Var erindið þannig tekið til meðferðar sem byggingarleyfisumsókn og afgreitt sem slík af umhverfis- og skipulagsráði og afgreiðslan staðfest af bæjarstjórn 6. desember 2022. Undanfari ákvörðunar bæjarstjórnar 7. febrúar 2023 var erindi kæranda, dags. 18. desember 2022, þar sem fram kom að hann sækti formlega um umrædda breytingu, en liti sveitarfélagið svo á að afgreiðsla á fyrra erindi hans fæli í sér stjórnvaldsákvörðun væri óskað endurupptöku þeirrar ákvörðunar. Í erindi kæranda fólst því umsókn um byggingarleyfi og eftir atvikum beiðni um endurupptöku fyrra erindis hans. Sveitarfélagið tók ekki beina afstöðu til beiðni kæranda um endurupptöku máls en hafnaði umsókn hans um fyrrgreindar breytingar á fyrstu hæð hússins að Hafnargötu 23. Verður að líta svo á að í máli þessu sé deilt um lögmæti þessara tveggja ákvarðana.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga er það á hendi sveitarstjórna að skipuleggja land innan marka sveitarfélags og annast þær og bera ábyrgð á gerð aðal- og deiliskipulags í sínu umdæmi, sbr. 29. gr. og 38. gr. laganna. Eru skipulagsáætlanir tæki sveitarstjórnar til að hafa áhrif á og þróa byggð og umhverfi með bindandi hætti. Við töku skipulagsákvarðana ber þó m.a. að hafa í huga markmið c-liðar 1. mgr. 1. gr. laganna að tryggt sé að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi. Þá eru yfirvöld sveitarfélaga bundin af reglum stjórnsýsluréttarins við töku ákvarðana, svo sem lögmætisreglu, og reglum um rökstuðning.

Í 1. mgr. 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 er m.a. mælt fyrir um að óheimilt sé að breyta mannvirki eða notkun þess nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa. Þá kemur fram í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulag liggi ekki fyrir geti sveitar­stjórn eða sá aðili sem heimild hafi til fullnaðarafgreiðslu mála, sbr. 6. gr. laganna, ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar að undangenginni grenndarkynningu ef framkvæmdin er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar.

Umhverfis- og skipulagsráð hafnaði erindi kæranda á fundi 2. desember 2022 með eftirfarandi rökstuðningi: „Hafnargata hefur átt undir högg að sækja sem verslunargata en unnið er að uppbyggingu og mikilvægt er að framboð verði á hentugu verslunarrými við götuna. Deili­skipulag liggur fyrir vegna Hafnargötu 12 og Hafnargötu 22–28 en stutt er í að framkvæmdir hefjist. Við endurskoðun aðalskipulags var sett inn svohljóðandi ákvæði: Lögð er áhersla á að viðhalda lifandi götuhliðum  með innsýn í verslunar- og þjónusturými. Ekki er heimilt að breyta atvinnuhúsnæði á jarðhæð í íbúðarhúsnæði. Erindi hafnað.“

Umsókn kæranda var tekin fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 3. febrúar 2023 og var henni hafnað. Vísaði ráðið til þess að í greinargerð Aðalskipulags Reykjanesbæjar 2015–2030 kæmi fram að Hafnargatan hefði verið aðalmiðbæjargata bæjarins og þróunarmöguleikar líflegs miðbæjarumhverfis væru góður. Kæmi einnig fram að lögð væri áhersla á að styrkja stoðir smá- og fagverslana og veitingastaða. Þessi stefna væri ítrekuð við endurskoðun aðal­skipulagsins en þar væri sett inn svohljóðandi ákvæði: „Lögð er áhersla á að viðhalda lifandi götuhliðum með innsýn í verslunar- og þjónusturými. Ekki er heimilt að breyta atvinnuhúsnæði á jarðhæð í íbúðarhúsnæði.“ Þá tók ráðið eftirfarandi fram: „Skipulagsáætlanir við götuna sem hafa verið samþykktar síðustu ár s.s. Hafnargata 12 og Hafnargata 22–28 styðja við þessa stefnu. Í vinnslu er deiliskipulag fyrir Hafnargötu fyrir reit sem markast af lóðum nr. 15 og að nr. 41. Áætlað er að það skipulag komi til afgreiðslu á vormánuðum en þar verður m.a. nánar skilgreind nýting rýma á jarðhæð húsa við götuna. Erindi hafnað.“

Samkvæmt 3. og 5. mgr. 32. gr. skipulagslaga tekur aðalskipulagsáætlun gildi þegar hún hefur verið samþykkt af sveitarstjórn, hlotið staðfestingu Skipulagsstofnunar eða eftir atvikum ráðherra og verið birt í B-deild Stjórnartíðinda. Um réttaráhrif þeirrar birtingar kemur fram í 1. málsl. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 15/2005 um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað að fyrirmælum, er felist í lögum, auglýsingum, reglugerðum, samþykktum eða öðrum slíkum ákvæðum almenns efnis, megi eigi beita fyrr en birting í Stjórnartíðindum hafi farið fram, nema þau geymi ákvæði algerlega einkamálaeðlis og aðilar hafi komið sér saman um að skipti þeirra skuli fara eftir óbirtum fyrirmælum. Samkvæmt 2. mgr. lagaákvæðisins skulu birt fyrirmæli binda alla frá og með deginum eftir útgáfudag þeirra Stjórnartíðinda þar sem fyrirmælin voru birt ef þau geymi ekki aðrar ákvarðanir um gildistöku sína. Skipulagsstofnun staðfesti Aðalskipulag Reykjanes­bæjar 2020–2035 hinn 25. janúar 2023 og var auglýsing birt í B-deild Stjórnar­tíðinda 8. febrúar s.á. Þegar hinar kærðu ákvarðanir voru teknar 6. desember 2022 og 7. febrúar 2023 var því eldra aðalskipulagið enn í gildi.

Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjanesbæjar 2015–2030 var Hafnargata á skilgreindu miðsvæði M2. Um svæðið var tekið fram að gatan hefði verið aðalmiðbæjargata bæjarins og þróunar­möguleikar líflegs miðbæjarumhverfis væru góðir. Lögð væri áhersla á að styrkja stoðir smá- og fagverslana og veitingastaða. Á svæðinu væri einnig gert ráð fyrir skrifstofum og íbúðum.

Í umsóttum breytingum fólst að hluta umrædds verslunarrýmis yrði breytt í íbúð, en þó ekki þeim hluta sem snýr að Hafnargötu og yrði því áfram innsýn í verslunarrýmið frá götunni. Af rökstuðningi hinna kærðu ákvarðana verður ráðið að meginforsenda þeirra var áhersla á að styrkja Hafnargötu sem aðalmiðbæjargötu og stefna sem mörkuð er í Aðalskipulagi Reykjanes­bæjar 2020–2035 um bann við breytingu atvinnurýmis á jarðhæð í íbúðarhúsnæði á svæðinu.

Ekki verður séð að umsókn kæranda um byggingarleyfi hafi farið í bága við þágildandi Aðal­skipulag Reykjanesbæjar 2015–2030 í ljósi þess að áfram var gert ráð fyrir verslunarrými við Hafnargötu og í aðalskipulaginu kom m.a. fram að gert væri ráð fyrir skrifstofum og íbúðum á svæðinu. Skírskotun sveitarfélagsins til væntanlegs aðalskipulags sem birt var 8. febrúar 2023 verður ekki talin viðhlítandi rökstuðningur fyrir synjun þess á umræddri byggingarleyfis­umsókn. Líta verður og til þess að við afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi er stefna gildandi aðalskipulags bindandi, sbr. 6. mgr. 32. gr. skipulagslaga.

Með vísan til alls framangreinds var rökstuðningi hinna kærðu ákvarðana svo áfátt að ekki verður hjá því komist að fella þær úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felldar eru úr gildi ákvarðanir bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 6. desember 2022 og 7. febrúar 2023 um að synja erindi og umsókn kæranda um breytingu á verslunarrými á jarðhæð Hafnar­götu 23 í Reykjanesbæ að hluta í íbúð.

58/2023 Ráðagerði

Með

Árið 2023, fimmtudaginn 6. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 58/2023, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings eystra frá 20. október 2022 um að falla frá fyrirhugaðri breytingu á Aðalskipulagi Rangárþings eystra 2012–2024 vegna efnistöku í landi Ráðagerðis og ákvörðun sveitarstjórnar frá 13. apríl 2023 um að skilyrða framkvæmdaleyfi vegna fyrirhugaðrar tjarnar í því landi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. maí 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir A, eigandi Ráðagerðis, þá ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings eystra frá 20. október 2022 að falla frá fyrirhugaðri breytingu á Aðalskipulagi Rangárþings eystra 2012–2024 vegna efnistöku í landi kæranda. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt er kærð ákvörðun sveitarstjórnar frá 13. apríl 2023 um að skilyrða framkvæmdaleyfi vegna fyrirhugaðrar tjarnar í landi kæranda við gerð hljóð­mana, landmótunar og vegar. Gerir kærandi þær kröfur að upphaflegar áætlanir um breytingu á aðal­skipulagi nái fram að ganga og að leyfið verði ekki háð tímamörkum.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Rangárþingi eystra 16. og 23. maí 2023.

Málavextir: Með umsókn, dags. 20. febrúar 2021, sótti kærandi um framkvæmdaleyfi til efnis­töku, haugsetningar og landmótunar vegna fyrirhugaðrar tjarnar í landi Ráðagerðis, sem er á svæði fyrir frístundabyggð samkvæmt Aðalskipulagi Rangárþings eystra 2012–2024. Fram kom í umsókninni að fyrirhuguð tjörn yrði 40.000 m2 að flatarmáli að framkvæmdum loknum. Óskað væri eftir tímabundnu leyfi til efnistöku og/eða haugsetningar á u.þ.b. 120.000 m3 af jarðefni. Eitt­hvað af efninu yrði keyrt út af svæðinu, en einnig þyrfti að nýta efni til vegagerðar. Væri áætlaður framkvæmdatími 5–7 ár. Á fundi skipulagsnefndar 4. mars s.á. var lagt til við sveitar­stjórn að gerð yrði breyting á aðalskipulagi er fælist í því að gert yrði ráð fyrir efnis­vinnslu á svæðinu á meðan unnið væri við landmótun samkvæmt deiliskipulagi. Samþykkti sveitarstjórn þá afgreiðslu á fundi 11. s.m. Í kjölfar þess gerði verkfræðistofa skipulagslýsingu vegna fyrir­hugaðrar aðalskipulagsbreytingar. Á fundi skipulags- og umhverfisnefndar 6. apríl 2021 var skipulagslýsingin samþykkt og mæltist nefndin til þess að hún yrði send Skipulags­stofnun og hagsmunaaðilum til umsagnar ásamt því að hún yrði kynnt fyrir almenningi. Samþykkti sveitarstjórn þá tillögu á fundi sínum 8. s.m. Á auglýsingatíma bárust umsagnir frá Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun og eigendum nærliggjandi jarða auk annarra aðila. Skipulags- og umhverfisnefnd tók málið fyrir að nýju á fundi 4. október 2022 og lagði til við sveitarstjórn að fallið yrði frá fyrirhugaðri aðalskipulagsbreytingu. Samþykkti sveitarstjórn þá tillögu á fundi 20. s.m.

Á fundi skipulags- og umhverfisnefndar 14. febrúar 2023 var tekin fyrir áðurgreind umsókn kæranda um framkvæmdaleyfi. Lagði nefndin til við sveitarstjórn að leyfið yrði skilyrt við gerð hljóðmana, landmótunar og vegar á svæðinu í samræmi við gildandi deiliskipulag frístunda­byggðarinnar, þ.e. að ekki yrði um efnisflutning af svæðinu að ræða. Jafnframt að leyfið myndi gilda tímabundið til 1. september 2023. Afgreiðslu málsins var frestað á fundi sveitarstjórnar 9. mars s.á. Málið var tekið fyrir að nýju á fundi sveitar­stjórnar 13. apríl 2023 og bókað að beiðni kæranda um frestun málsins öðru sinni væri hafnað. Staðfesti sveitar­stjórn bókun skipulags- og umhverfisnefndar frá 14. febrúar s.á. og samþykkti að framkvæmda­leyfi yrði veitt.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að í umsögnum Skipulagsstofnunar og Umhverfis­stofnunar hafi ekki verið lagst gegn aðalskipulagstillögunni. Umsagnir frá nágrönnum hafi ekki verið bornar undir kæranda í samræmi við andmælareglu stjórnsýsluréttar. Til að koma til móts við kvartanir eigenda jarðarinnar Brúar væri hægt að leggja vegi „niður viðkomandi nágranna­spildur“ og hætta þar með við umferð fram hjá Brú og öðrum nágrannabæjum. Bent sé á að hin umrædda skipulagsbreyting hafi falið í sér mokstur á efni vegna tjarnargerðar sem hefði síðan verið keyrt á brott til notkunar í steinsteypu, olíumöl, malbik, vegagerð eða í öðrum tilgangi, en að öðrum kosti þyrfti að haugsetja allt efni og væri það á skjön við gildandi skipulag. Auk þess sé fyrirhuguð nýting virðisaukandi og hagkvæm fyrir umhverfið. Kærandi hafi lagt út í mikinn kostnað vegna skýrslugerðar fyrir skipulagsbreytinguna.

Málsrök Rangárþings eystra: Sveitarfélagið fer fram á að kærumáli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Sveitarstjórn hafi hafið undirbúnings- og kynningaraðgerðir vegna fyrir­hugaðrar skipulagsbreytingar, en hafi fallið frá þeim áformum þegar umsagnir og athugasemdir hafi borist. Engin kæranleg stjórnvaldsákvörðun hafi verið tekin. Hafa beri í huga að skipulags­valdið sé í höndum sveitarstjórnar, en henni sé heimilt að kanna grundvöll til breytinga á skipulagi án þess að verða um leið skylt að hrinda slíkum breytingum í framkvæmd. Hið lög­bundna ferli skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. einkum VII. kafla laganna, geri einmitt ráð fyrir slíku ferli. Aldrei hafi komið til þess að tillaga að breyttu aðalskipulagi hafi verið auglýst skv. 31. gr. skipulagslaga og kærandi hafi ekki haft réttmætar væntingar til þess að skipulaginu yrði breytt. Telji úrskurðarnefndin að um kæranlega stjórnvaldsákvörðun sé að ræða bendi sveitar­félagið á að kærufrestur sé liðinn, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Krafa kæranda varðandi samþykki framkvæmdaleyfis með skilyrðum sé svo samþætt kröfu hans um að aðalskipulagsbreytingin nái fram að ganga að öll fyrrgreind sjónarmið um frávísun eigi við hér. Að auki sé ákvörðun um að fallast á umsókn um framkvæmdaleyfi ekki kæranleg stjórnvaldsákvörðun.

Niðurstaða: Í máli þessu er kærð ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings eystra frá 20. október 2022 um að falla frá fyrirhugaðri breytingu á Aðalskipulagi Rangárþings eystra 2012–2024 vegna efnistöku í landi kæranda sem er á skilgreindu svæði fyrir frístundabyggð, en sveitar­stjórn hafði áður samþykkt á fundi sínum 11. mars 2021 að gerð yrði breyting á aðalskipulaginu er fólst í því að gert yrði ráð fyrir efnisvinnslu á landinu.

Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sæta stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli þeirra laga kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra ber að skipulagslögum að staðfesta verða þó ekki bornar undir úrskurðarnefndina. Í 3. mgr. 29. gr. sömu laga kemur fram að aðalskipulag sé háð sam­þykki sveitarstjórnar og staðfestingu Skipulagsstofnunar eða ráðherra. Breyting á aðalskipulagi er að sama skapi háð staðfestingu Skipulags­­stofnunar eða eftir atvikum ráðherra, sbr. 1. mgr. 36. gr. laganna. Samkvæmt greindum fyrirmælum skipulagslaga brestur úrskurðarnefndina vald til að endurskoða lögmæti ákvarðana um aðalskipulag og breytingar á því. Eðli máls samkvæmt fellur það einnig utan valdheimilda úrskurðarnefndarinnar að taka afstöðu til gildis einstakra ákvarðana við undir­búning og málsmeðferð þeirra. Sá hluti kærumáls þessa er lýtur að ákvörðun sveitar­stjórnar um að falla frá breytingu á aðalskipulagi sveitar­félagsins frá 20. október 2022 verður af framangreindum ástæðum vísað frá úrskurðar­nefndinni.

Í málinu er jafnframt kærð sú ákvörðun sveitarstjórnar frá 13. apríl 2023 að skilyrða framkvæmda­leyfi vegna umsóknar kæranda um gerð tjarnar í landi hans við gerð hljóðmana, landmótun og gerð vegar. Einnig var samþykkt að leyfið myndi gilda tímabundið til 1. september 2023. Að virtum atvikum þessa máls verður að skilja málatilbúnað kæranda á þá leið að sú krafa sé gerð að skilyrði þau sem sveitarstjórn setti fyrir útgáfu leyfisins verði felld úr gildi en að samþykki sveitarstjórnarinnar á umsókn hans standi að öðru leyti óraskað. Samkvæmt 3. málsl. 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga er sveitarstjórn heimilt að binda framkvæmd skilyrðum í samræmi við gildandi skipulagsáætlanir sveitarfélagsins. Fyrir liggur að kærandi sótti um leyfi fyrir framkvæmd, þ.e. gerð fyrirhugaðrar tjarnar, sem var og er ekki í samræmi við aðalskipulag sveitarfélagsins. Var sveitarfélaginu því heimilt að setja umrædd skilyrði og verður af þeim sökum að hafna þeirri kröfu kæranda að fella beri þau úr gildi.

 Úrskurðarorð:

Kröfu um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Rangárþings eystra frá 13. apríl 2023 um að skilyrða framkvæmdaleyfi vegna fyrirhugaðrar tjarnar í landi kæranda við gerð hljóðmana, landmótun og vegar er hafnað.

Kærumáli þessu er að öðru leyti vísað frá úrskurðarnefndinni.

20/2023 Krossholt á Barðaströnd

Með

Árið 2023, fimmtudaginn 6. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor, Þorsteinn Sæmundsson jarðfræðingur og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 20/2023, kæra á ákvörðun Orkustofnunar frá 24. janúar 2023 um að veita Vesturbyggð leyfi til nýtingar á jarðhita á Krossholtum, Barðaströnd.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 31. janúar 2023, er barst nefndinni 2. febrúar s.á., kæra A, B, C og D, eigendur jarðarinnar Kross, þá ákvörðun Orkustofnunar frá 24. janúar 2023 að veita Vesturbyggð leyfi til nýtingar á jarðhita á Krossholtum á Barðaströnd. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Orkustofnun 2. mars 2023.

Málavextir: Hinn 14. júlí 1970 afsöluðu þáverandi eigendur jarðarinnar Kross á Barðaströnd 1,5 ha landspildu austan við lóð félagsheimilis Barðastrandarhrepps á Krossholtum til hreppsins. Einnig afsöluðu eigendurnir 2.500 m2 lóð undir og umhverfis sundlaug hreppsins í Laugarnesi norðan við Hagavaðal í Krosslandi. Í afsalinu kom fram að hreppnum væri heimilt að taka neysluvatn fyrir félagsheimili, sundlaug og skólamannvirki í Krosshlíð. Einnig væri hreppnum heimilt að taka heitt vatn úr uppsprettu í Laugarnesi til afnota fyrir sundlaug hreppsins og að framkvæma boranir eftir frekara vatni þannig að þörfum sundlaugarinnar yrði fullnægt. Þá sagði í afsalinu að fengist meira vatnsmagn við boranir áskildu eigendur sér afnot heits vatns til heimilisnota á Krossi, en vatnsmagn umfram það væri hreppnum heimilt að hag­nýta fyrir skólamannvirki og félagsheimili á Krossholtum.

Barðastrandarhreppur lét bora tvær borholur norðan við sundlaugina í Laugarnesi árið 1977. Hreppurinn og Orkubú Vestfjarða gerðu svo með sér samkomulag árið 1979 þar sem hreppurinn afhenti Orkubúinu „allan rétt til virkjunar vatnsafls, jarðhita og fallvatns, sem [hreppurinn á] eða kann að eiga í löndum sínum eða annars staðar og hann kann að hafa samið um.“ Í samkomulaginu kom fram að hreppurinn hefði áfram óskoraðan umráðarétt yfir bor­holum á Krossholtum og til nýtingar eða ráðstöfunar á því vatni sem kæmi úr þeim. Hinn 28. júlí 1988 afsöluðu þáverandi eigendur jarðarinnar Kross 1,0 ha landspildu til Barðastrandar­hrepps. Í afsalinu kom fram að til viðbótar fyrri ákvæðum varðandi nýtingu á heitu vatni úr borholum í landi Kross skuldbindi hreppurinn sig til að sjá eigendum jarðarinnar fyrir 8–9 mínútulítrum af heitu vatni til notkunar við upphitun og neyslu í sumarbústað í Mórudal. Skyldi vatnið látið í té endurgjaldslaust á tilteknu tímabili.

Árið 1994 sameinuðust Barðastrandarhreppur og þrjú önnur sveitarfélög á sunnanverðum Vest­fjörðum í Vesturbyggð. Hinn 29. nóvember 2021 barst Orkustofnun umsókn Vesturbyggðar um nýtingarleyfi á jarðhita, sbr. 6. gr. laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Í umsókninni kom fram að sveitarfélagið væri bæði landeigandi á nýtingarsvæði og eigandi jarðhitaréttinda. Þá kom fram að tilgangur nýtingar væri fyrst og fremst til húshitunar og fyrir sundlaug. Hinn 24. janúar 2023 veitti Orkustofnun Vesturbyggð leyfi til nýtingar á jarðhita á Krossholtum á Barðaströnd og er það hin kærða ákvörðun í máli þessu. Í fylgibréfi með nýtingarleyfinu segir að hitaveitan á Krossholtum hafi verið í rekstri síðan 1974 og hafi veitt heitu vatni til sundlaugar, íbúðarhúsa og iðnaðar á svæðinu.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er bent á að þeir séu eigendur jarðarinnar Kross og allra þeirra hlunninda sem jörðinni fylgja, þ.m.t. jarðhita. Kvöð sé á jarðhitaréttindum sem leiði af takmarkaðri heimild Vesturbyggðar til notkunar á heitu vatni til félagsheimilis, sundlaugar og skólamannvirkis, eins og fram komi í þinglýstu afsali frá 14. júlí 1970. Hið kærða nýtingarleyfi brjóti á eignarrétti kæranda.

Samkvæmt 8. gr. jarðalaga nr. 81/2004 séu hlunnindi sem fylgja jörð eign jarðareiganda og sé óheimilt að skilja hlunnindi frá jörð nema undantekningar séu gerðar frá þeirri reglu með lögum. Í 3. gr. laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu segi að eignar­landi fylgi eignarréttur að auðlindum í jörðu og í 12. gr. sömu laga segi að landeigandi megi ekki undanskilja eignarlandi sínu jarðhitaréttindi, nema með sérstöku leyfi ráðherra.

Með kaupum Barðastrandahrepps, nú Vesturbyggðar, á landspildum úr landi jarðarinnar Kross hafi ekki fylgt eignarréttur að jarðhita, enda hafi hvorki verið getið um afsal slíkra réttindi í kaupunum né hafi ráðherra veitt leyfi til að undanskilja þau frá jörðinni. Heimild Vesturbyggðar til nýtingar á heitu vatni takmarkist við þarfir og afnot sundlaugar auk félagsheimilis og skólamannvirkis. Afsalið, sem sé þinglýst, veiti ekki frekari réttindi til nýtingar á jarðvarma jarðarinnar.

Samkvæmt 7. gr. laga nr. 57/1998 þurfi nýtingarleyfishafi að hafa náð samkomulagi við land­eigendur um endurgjald fyrir auðlindina áður en hann hefji vinnslu. Í nýtingarleyfinu sé ranglega staðhæft að leyfishafi sé landeigandi og eigandi jarðhitaréttinda á nýtingarsvæðinu. Í skjóli þeirrar röngu staðhæfingar geti sveitarfélagið því hafið nýtingu jarðhita án samkomulags við kærendur.

Málsrök Orkustofnunar: Orkustofnun bendir á að upptaka jarðhita eigi sér stað í eignarlandi Vesturbyggðar. Í fyrirliggjandi afsölum séu kvaðir og skilyrði um nýtingu jarðhita. Ekki hafi verið lagt fram neitt skjal þess efnis að leitað hafi verið eftir leyfi ráðherra við gerð þessara samninga. Við sölu eignarlands megi ekki undanskilja jarðhitaréttindi frá þeim nema með leyfi ráðherra, sbr. 12. gr. laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Í dómi Héraðsdóms Vestfjarða í máli nr. E-94/2014 og í dómi Hæstaréttar í máli nr. 643/2015 hafi reynt á gildi ákvæðis um samþykki ráðherra fyrir aðskilnað jarðhitaréttinda frá landareignum. Í báðum dómunum sé niðurstaðan sú að ekki sé fortakslaust horft til þess hvort óskað hafi verið eftir heimild ráðherra til að undanskilja jarðhitaréttindi frá eignarlandi. Einnig beri að meta hvert markmið ákvæðisins sé og háttsemi aðila sé gagnvart efndum samnings. Við alla málsmeðferðina hafi leyfishafi komið fram með þeim hætti að ekki sé vafi á réttindum hans til nýtingar jarðhita á eignarlandi hans. Þá sé leyfishafi skráður eigandi lands í fasteigna­skrá og hinar umræddu kvaðir séu þar ekki skráðar, enda hafi ákvæði laganna um aðskilnað réttinda frá eignarlandi ekki verið fullnað með heimild ráðherra. Orkustofnun telji það ekki sitt hlutverk að rýna og endurskoða einstök ákvæði afsala eða annarra löggerninga.

Kæranda beri að leita til dómstóla telji hann að leyfishafi hafi vanefnt samning þeirra. Bent sé á að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi fjallað um þetta tiltekna álitaefni og valdsvið stjórnsýslu þar að lútandi í máli nr. 127/2018, en þar segi í niðurstöðukafla: „Loks verður af dómaframkvæmd ráðið að þótt leyfi ráðherra til að skilja jarðhitaréttindi frá eignar­landi skorti geti slíkur gjörningur allt að einu verið óraskaður, en það er á færi dómstóla einna að skera úr um það.“ Af þessu verði að gagnálykta á þann veg að túlka beri skyldu til að leita eftir heimild ráðherra samkvæmt orðanna hljóðan. Eini valdbæri aðilinn sem geti úrskurðað um annað séu dómstólar.

 Athugasemdir Vesturbyggðar: Af hálfu sveitarfélagsins er tekið fram að á grundvelli afsals frá 14. júlí 1970 hafi sveitarfélagið nýtt heitt vatn fyrir sundlaug, félagsheimili og skóla­mannvirki á Krossholtum. Þá hafi sveitarfélagið einnig nýtt heita vatnið til húshitunar fyrir þau íbúðarhús sem sveitarfélagið og aðrir hafi byggt á Krossholtum. Sveitarfélagið hafi kostað frekari boranir eftir heitu vatni á eignarlandi sínu á Krossholtum á árinu 1977, en við þær boranir hafi fengist aukið vatn frá því sem áður hafi verið. Ekki hafi verið gerðir sérstakir samningar af hálfu sveitarfélagsins við landeigendur á Krossi varðandi þá nýtingu, enda hafi sveitarfélagið talið sér heimilt að bora eftir heitu vatni á sínu eignarlandi og nýta það vatn sem þannig hafi fengist. Ekki hafi verið innheimt gjöld af eigendum íbúðarhúsa eða annarra mannvirkja á svæðinu fyrir afnot þeirra af heitu vatni eftir tilkomu Vesturbyggðar á árinu 1994, en ástæðan sé sú að formleg hitaveita hafi ekki verið stofnuð varðandi nýtingu á heitu vatni á svæðinu. Allt frá árinu 1977 hafi sveitarfélagið annast og kostað nauðsynlegt viðhald og endur­nýjun þeirra mannvirkja á svæðinu sem tengist umræddri vatnsöflun, s.s. lögnum, dæluhúsi og öðrum nauðsynlegum búnaði. Í raun megi segja að sveitarfélagið hafi haft nýtingarleyfi á því heita vatni sem hafi fengist við fyrrgreinda borun árið 1977, þó formlegt nýtingarleyfi af hálfu Orku­stofnunar hafi ekki verið gefið út fyrr en 24. janúar 2023.

Orkustofnun hafi farið yfir umsókn Vesturbyggðar um nýtingarleyfi og staðfest að um eignar­land sveitarfélagsins væri að ræða í samræmi við þinglýstar eignarheimildir. Öll skilyrði sem fram komi í lögum nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu séu uppfyllt. Þá sé einnig til þess að líta að sveitarfélög skuli hafa forgangsrétt til nýtingarleyfa vegna jarðhita innan marka sveitarfélagsins vegna þarfa hitaveitu sem rekin sé í sveitarfélaginu, sbr. 13. gr. sömu laga. Ekki reyni á ákvæði 7. gr. laganna í því tilviki sem hér um ræði þar sem umsækjandi nýtingarleyfisins sé eigandi alls nýtingarsvæðisins og þeirra jarðhitaréttindi sem þar séu.

 Athugasemdir Hagsmunasamtaka fasteignaeigenda á Krossholtum: Af hálfu hagsmuna­samtakanna er bent á að kærendur skorti lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins og því beri að vísa kærunni frá. Vesturbyggð fari að lögum með þau land- og hitavatnsréttindi sem samið hafi verið um á sínum tíma. Telji kærendur sig eiga slík réttindi þá sé það dómstóla að skera úr um það en ekki úrskurðarnefndarinnar.

Árið 1949 hafi verið tekin í notkun sundlaug í Laugarnesi, en þáverandi eigandi jarðarinnar Kross hafi gefið land undir laugina ásamt því að heimila töku vatns í hana úr volgri lind. Árið 1970 hafi Barðastrandarhreppur keypt af þáverandi eigendum jarðarinnar Kross 1,5 ha land úr jörð þeirra til að treysta uppbyggingu á svæðinu og viðbótarsamkomulag hafi svo verið gert árið 1988 vegna kaupa á 1,0 ha spildu. Íbúar hafi greitt hreppnum fyrir notkun á heitu vatni til ársins 1994, en eftir sameiningu fjögurra hreppa í sveitarfélagið Vesturbyggð hafi gjaldtöku verið hætt og lágmarksviðhaldi einungis verið sinnt.

Vesturbyggð sé óumdeilanlega eigandi að tilteknum land- og jarðhitaréttindum á jörðinni Krossi á grundvelli tveggja lögmætra og þinglýstra afsala. Í þeim báðum komi fram skýr ásetningur sveitarfélagsins um nýtingu jarðhita á þeim landspildum sem keyptar hafi verið. Ekki verði séð að þar skipti máli í hvaða hús sveitarfélagið hafi ætlað að leiða vatnið, þó að upphaflega nýtingin væri nefnd í öðru þeirra. Sú upphaflega notkun geti ekki hindrað sveitar­félagið í að nýta eignarrétt sinn og heita vatnið á landi sínu til upphitun annarra húsa. Eignar­réttur sveitarfélagsins sé ótvíræður.

Liðin séu meira en 50 ár frá upphaflegum kaupum sveitarfélagsins á landi og hitavatns­réttindum árið 1970 og vel yfir 30 ár frá kaupunum árið 1988. Þegar litið sé til þess langa tíma sem liðinn sé frá upphaflegum kaupum og nýtingu heita vatnsins sé einnig komin hefð á þá notkun. Einnig verði að líta til þess að eigendur jarðarinnar Kross hafi sýnt af sér stórkostlegt tómlæti í áratugi telji þeir sig nú eiga einhvern rétt umfram það sem samið hafi verið árin 1970 og 1988.

Reglur gildi um aðkomu sveitarfélaga að rekstri hitaveitna, en þær séu m.a. að finna í orku­lögum nr. 58/1967 og lögum nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Ákvörðun um að hefja rekstur hitaveitu á tilteknu svæði falli undir sjálfstjórnar- og fjárstjórnar­vald sveitarfélags, sbr. 2. mgr. 8. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og 78. gr. stjórnar­skrárinnar. Vesturbyggð hafi skyldum að gegna við rekstur og viðhald eigin hitaveitu. Hita­veitan hafi verið rekin í áratugi í þágu íbúa þess, löngu fyrir setningu laga nr. 57/1998, og líta verði svo á að sveitarfélagið hafi á þeim tíma haft ígildi nýtingarleyfis.

Mörg dæmi séu fyrir því, sérstaklega áður fyrr, að lönd og landspildur hafi verið seldar frá jörðum til sveitarfélaga í þágu almannahagsmuna og íbúa þeirra. Við þær aðstæður hafi fylgt öll réttindi sem viðkomandi landi eða landspildu hafi tilheyrt, þ.m.t. bæði kalt og heitt vatn, réttur til efnistöku o.fl., án þess að talin væri þörf á sérstöku samþykki ráðherra. Ljóst sé að frá upphafi hafi átt að nýta landspilduna fyrst og fremst til öflunar heits vatns í þágu hitaveitu til almannaþarfa án nokkurra skýrra takmarkana um eignar- og afnotarétt landsins og heita vatnsins. Í áratugi hafi engar athugasemdir verið gerðar við þá nýtingu.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur andmæla athugasemdum Hagsmuna­samtaka fasteignaeigenda á Krossholtum um að þáverandi eigandi jarðarinnar Kross hafi gefið land undir sundlaugina og heimilað töku á heitu vatni. Ekkert liggi fyrir sem styðji þá fullyrðingu. Í afsölum frá 1970 og 1988 séu skilgreind takmörkuð réttindi sveitarfélagsins til borana og nýtingar á heitu vatni. Í þeim skjölum sé ekkert sem bendi til þess að jarðhita­réttindi hafi verið skilin frá jörðinni Krossi.

Mótmælt sé þeim skilningi Orkustofnunar að það sé ekki hlutverk stofnunarinnar að rýna og endurskoða einstök ákvæði afsala eða annarra löggerninga. Áður en hið kærða leyfi hafi verið gefið út hafi kærendur komið á framfæri við Orkustofnun upplýsingum sem hafi sýnt fram á eignarrétt kærenda að jarðhitaréttindunum eða í það minnsta velt upp vafa á eignarréttindi sveitarfélagsins. Veiting leyfisins, sem heimili tafarlausa nýtingu jarðhitans án þess að leyfis­hafi þurfi að fullnægja ákvæði 1. mgr. 7. gr. laga nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, með samkomulagi við landeigendur, gangi þvert á meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

—–

Við meðferð þessa máls fyrir úrskurðarnefndinni óskaði nefndin eftir frekari skýringum hjá Orku­stofnun varðandi nánar tilgreind atriði, þ. á m. hvaða gögn eða forsendur lægju að baki þeirri staðhæfingu stofnunarinnar að umsótt nýtingarmagn væri innan marka sem teldust til sjálfbærrar nýtingar. Einnig var óskað eftir skýringum á því hvort og þá að hvaða leyti Orkustofnun hafi byggt á lögum nr. 36/2011 um stjórn vatnamála við undirbúning og afgreiðslu hins kærða nýtingarleyfis.

Í svarbréfi Orkustofnunar, dags. 7. júní 2023, kom m.a. fram að hin umrædda nýting hafi staðið yfir í áratugi. Engin merki hafi komið fram um að nýtingin væri ágeng og hún hafi ekki leitt til þrýstingsfalls eða markverðrar lækkunar vatnsborðs. Engin önnur þekkt jarðhitanýting væri á svæðinu og því ættu þau ákvæði laga nr. 57/1998 er varði áhrif á nýtingu annarra ekki við í þessu tilviki. Því hefði það verið mat Orkustofnunar að umsótt nýting væri innan sjálfbærra marka, sbr. nánar orðalag í fylgibréfi leyfisins. Hvað varði lög um stjórn vatnamála vísi stofnunin til þess að skv. 3. mgr. 28. gr. þeirra laga skuli leyfisveitandi, sem veiti leyfi á grundvelli laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, tryggja að leyfið sé í samræmi við þá stefnumörkun um vatnsvernd sem fram komi í vatnaáætlun. Bendir stofnunin á að afmörkun Umhverfisstofnunar sem vísað sé til í Vatnaáætlun 2022–2027 miði einungis að fersku köldu grunnvatni. Í áætluninni sé hvergi minnst á jarðhitasvæði og hafi jarðhitakerfið við Krossholt ekki verið flokkað sem vatnshlot skv. 11. gr. laga um stjórn vatnamála. Áratugur hafi liðið frá gildistöku laganna uns gefin hafi verið út vatnaáætlun og sé áskorun að horfa til hennar við stjórnsýslulega meðferð. Vikið hafi verið að lögunum í 12. gr. leyfisins, en þar segi að Orkustofnun sé heimilt að endurskoða leyfi eða setja í það ný skilyrði verði sýnt fram á það með gögnum að umhverfismarkmið á grundvelli laga um stjórn vatnamála náist ekki. Auk þessa séu ákvæði í leyfinu um skil á gögnum um ástand og nýtingu auðlindarinnar.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Orkustofnunar frá 24. janúar 2023 að veita Vesturbyggð leyfi til nýtingar á jarðhita á Krossholtum, Barðaströnd. Er sveitarfélagið land­eigandi á því nýtingarsvæði, en ágreiningur málsins lýtur að því hvort sveitarfélagið hafi jafn­framt rétt til að nýta jarðhita.

Hagsmunasamtök fasteignaeigenda á Krossholtum gera athugasemd við aðild kærenda að máli þessu þar sem Vesturbyggð fari að lögum með þau land- og jarðhitaréttindi sem samið hafi verið um á sínum tíma og deilt er um. Ljóst er af málatilbúnaði kærenda og gögnum málsins að fyrir hendi er eignarréttarlegur ágreiningur um jarðhitaréttindi á Krossholtum. Verður þeim því játuð kæruaðild að máli þessu enda er ekki loku fyrir það skotið að hin kærða leyfisveiting hafi áhrif á lögvarða hagsmuni þeirra, sbr. áskilnað 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála.

Samkvæmt 6. gr. laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu er nýting auðlinda úr jörðu háð leyfi Orkustofnunar, hvort sem það er til nýtingar auðlinda í eignar­löndum eða í þjóðlendum, með þeim undantekningum sem greinir í nefndum lögum. Er megin­reglan sú að eignarlandi fylgir eignarréttur að auðlindum í jörðu nema aðrir geti sannað eignar­rétt sinn til þeirra, sbr. 3. gr. laganna. Í 7. gr. þeirra kemur fram að áður en nýtingarleyfishafi hefji vinnslu í eignarlandi þurfi hann að hafa náð samkomulagi við landeiganda um endurgjald fyrir auðlindina eða fengið heimild til eignarnáms og óskað eftir mati samkvæmt ákvæðum 29. gr. laganna. Hafi hvorki náðst samkomulag um endurgjaldið né eignarnáms verið óskað innan 60 daga frá útgáfu nýtingarleyfis fellur það niður. Þá segir í 12. gr. sömu laga að landeigandi megi ekki undanskilja eignarlandi sínu jarðhitaréttindi, nema með sérstöku leyfi ráðherra.

Almennt verður sá sem sækir um leyfi að sýna fram á að hann uppfylli skilyrði til að fá slíkt leyfi gefið út sér til handa. Þannig ber umsækjanda um nýtingarleyfi að sýna fram á að hann hafi rétt til að nýta þá auðlind sem um er sótt. Að sama skapi ber Orkustofnun að taka afstöðu til þess hvort framlögð gögn og sjónarmið umsækjanda sýni fram á að hann hafi þann rétt.

Fram kemur í 9. gr. hins kærða nýtingarleyfis að leyfishafi, þ.e. Vesturbyggð, sé landeigandi og eigandi jarðhitaréttinda á nýtingarsvæðinu. Andmæla kærendur þeirri staðhæfingu og benda á að jarðhitaréttindi hafi ekki fylgt sölu á landspildu þeirri þar sem umrætt nýtingarsvæði er að finna. Samkvæmt þinglýstu afsali takmarkist heimild sveitarfélagsins til nýtingar á heitu vatni við þarfir og afnot sundlaugarinnar auk félagsheimilis og skólamannvirkis. Sjónarmiðum sínum til stuðnings benda kærendur jafnframt á, með hliðsjón af áðurgreindri 12. gr. laga nr. 57/1998 og einnig 8. gr. jarðalaga nr. 81/2004, að ráðherra hafi ekki veitt leyfi til að undanskilja jarðhitaréttindi frá jörðinni Krossi á sínum tíma.

Samkvæmt þinglýstu afsali frá 14. júlí 1970 er Vesturbyggð eigandi þeirrar landspildu þar sem borholur fyrir umrædda heitavatnstöku eru. Sú meginregla gildir að eignarlandi fylgir eignar­réttur að auðlindum í jörðu sbr. 3. gr. laga nr. 57/1998. Var því Orkustofnun rétt að líta svo á að sveitarfélagið hefði rétt til að nýta jarðhita á Kross­holtum, enda hafði það fest kaup á landi þar í þeim tilgangi að hagnýta hann. Þótt að við útgáfu leyfis til auðlindanýtingar verði leyfisveitandi oft að taka afstöðu til eignar­heimilda felst ekki í henni bindandi úrlausn eignarréttarlegs ágreinings með sama hætti og ef leitað væri dóms um hann. Það er hvorki innan valdheimilda Orku­stofnunar né úrskurðar­nefndarinnar að skera úr um eignarréttarlegan ágreining og hafa aðilar máls hverju sinni til þess önnur réttarúrræði.

Orkustofnun bar við útgáfu hins kærða nýtingarleyfis að fara að lögum nr. 36/2011 um stjórn vatnamála og tryggja að leyfið væri í samræmi við þá stefnumörkun um vatnsvernd sem fram kemur í vatnaáætlun, sbr. 3. mgr. 28. gr. laganna. Í Vatnaáætlun 2022–2027 er ekki fjallað um heitt grunnvatn eða vatnshlotið Haga, vatnshlotsnúmer 101-96-G, sem hið kærða nýtingarleyfi varðar, en í kafla um áherslur núverandi vatnahrings segir að enn sem komið sé hafi einungis farið fram vinna í tengslum við kalt grunnvatn. Vatnaáætlunin hefur aftur á móti að geyma þá almennu og bindandi stefnumörkun að öll vatnshlot á Íslandi eigi að vera í a.m.k. góðu ástandi nema að veitt hafi verið undanþága frá umhverfis­markmiðum og að ástand vatnshlots megi ekki versna, en sú stefnumörkun er jafnframt í samræmi við megin­reglur laganna, sbr. einkum 12. gr. þeirra. Með hliðsjón af því bar Orkustofnun að taka rökstudda afstöðu til þess við undirbúning og afgreiðslu hins kærða leyfis hvort hætta væri á að ástandi vatnshlotsins Haga færi hnignandi vegna fyrirhugaðrar nýtingar, en hvorki leyfið né fylgibréf þess bera með sér slíka rökstudda afstöðu.

Í ljósi þess að ekki er um breytingu að ræða á nýtingu jarðhita, allt að fjórum sekúndulítrum, sem fengin er reynsla af nýtingunni um lengri tíma og þar sem ekki er önnur þekkt jarðhitanýting á svæðinu verður ekki talið að hætta sé á að nýtingin sé ósjálfbær, sbr. 3. málsl. 12. gr. laga um stjórn vatnamála. Skortur á rökstuddri afstöðu stofnunarinnar til framan­greinds verður því ekki látinn ráða úrslitum um gildi hins kærða leyfis.

Að öllu framangreindu virtu liggja ekki fyrir þeir annmarkar á hinni kærðu leyfisveitingu sem raskað geta gildi hennar. Verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því  hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar Orkustofnunar frá 24. janúar 2023 um að veita Vesturbyggð leyfi til nýtingar á jarðhita á Krossholtum, Barðaströnd.

Sérálit Aðalheiðar Jóhannsdóttur og Þorsteins Sæmundssonar: Við erum ósammála þeirri niðurstöðu meirihluta úrskurðarnefndarinnar að ekki beri að fella hið kærða leyfi úr gildi vegna annmarka er varða skyldubundna málsmeðferð á grundvelli laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála. Með hliðsjón af því að engar haldbærar upplýsingar liggja fyrir um vatnshlotið Haga eða hvort nýting jarðhitans hafi verið sjálfbær er ógjörningur að líta svo á að fyrirhuguð nýting verði sjálfbær og að jafnvægi verði milli vatnstöku og endurnýjunar, sbr. 3. málsl. 12. gr. laga um stjórn vatnamála. Þar sem Orkustofnun tók ekki rökstudda afstöðu til meginreglna tilvitnaðra laga í hinu kærða leyfi og fylgibréfi þess og mat ekki hvort hætta væri á að ástandi vatnshlotsins Haga færi hnignandi vegna fyrirhugaðrar nýtingar, eftir atvikum að lokinni frekari gagnaöflun og rannsóknum, er það álit okkar að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi. Að öðru leyti en hér greinir erum við sammála niðurstöðu meirihluta nefndarinnar.