Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

19/2024 Austurvegur

Árið 2024, mánudaginn 22. apríl, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, fyrir:

Mál nr. 19/2024, kæra á málsmeðferð Sveitarfélagsins Árborgar við gerð og undirbúning deiliskipulags fyrir skipulagssvæðið Austurvegur-Vallholt á Selfossi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. febrúar 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi húsnæðis og lóðarinnar að Austurvegi 42 „málsmeðferð og afgreiðslu sveitarfélagsins Árborgar á stækkun bakhúss Austurvegar 42, Selfossi, til vesturs og þá yfir bílastæðasvæði sem ekkert er notað.“ Skilja verður kröfugerð kæranda svo að gerð sé krafa um að málsmeðferð sveitarfélagsins hvað greinda afgreiðslu varðar verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Árborg 22. mars 2024.

Málavextir: Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 22. september 2021 voru kynnt drög að tillögu að deiliskipulagi fyrir skipulagssvæðið Austurvegur-Vallholt, er m.a. tók til stækkunar byggingarreits við hús kæranda, Austurveg 42. Í janúar 2022 var tillagan kynnt fyrir fasteignaeigendum á svæðinu og bárust athugasemdir við tillöguna sem nefndin fól skipulagsfulltrúa að bregðast við. Kynntar voru breytingar á tillögunni á fundi nefndarinnar 12. október 2022. Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 26 s.m. var fyrirliggjandi tillaga samþykkt og mælst til þess að hún yrði auglýst í samræmi við 41. gr. skipulagslaga og send hagsmunaaðilum á svæðinu. Samþykkti bæjarstjórn greinda afgreiðslu 2. nóvember s.á. Málið var til umfjöllunar á fundi skipulagsnefndar 22. febrúar 2023 og á fundi nefndarinnar 22. mars s.á. voru svör við athugasemdum samþykkt. Við það tilefni var fært til bókar að í ljósi vægis athugasemda væri ekki grundvöllur fyrir stækkun á byggingarreit til vesturs á lóðinni nr. 42 við Austurveg og deiliskipulagstillögunni yrði breytt til samræmis við það. Bæjarstjórn staðfesti afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar frá 22. mars 2023 á fundi 13. apríl s.á. og var kæranda tilkynnt um niðurstöðu nefndarinnar með bréfi, dags. 25. s.m.

Kærandi hefur óskað eftir skýringum hjá bæjaryfirvöldum um hvað felist í hugtakinu „vægi“ sem vísað hafi verið til í fundargerð skipulagsnefndar. Með tölvupósti skipulagsfulltrúa til kæranda frá 7. júlí 2023 var hann upplýstur um að það væri mat skipulagsnefndar að breikkun hússins nr. 42 við Austurveg myndi þrengja verulega að lóðarmörkum til vesturs og afar þröngt yrði að koma bílaumferð þar í gegn. Þá var um leið brugðist við athugasemdum kæranda um að ráðgjafarstofa landslagsarkitekta sem undirbúið hafi skipulagið hafi verið vanhæf, en ekkert benti til þess að tiltekinn starfsmaður hennar hefði aðstoðað við eða skrifað andmælabréf vegna tillögunnar. Frá þessum tíma hefur kærandi verið í reglulegum samskiptum við skipulagsfulltrúa Árborgar og ítrekað þar sjónarmið sín og beiðni um að málið komi að nýju til umfjöllunar hjá skipulagsnefnd sveitarfélagsins eða verði vísað til bæjarráðs.

Málsrök kæranda: Kærandi hafnar sjónarmiðum skipulagsnefndar, en bílastæði þau sem hafnað sé að byggja á séu svo til aldrei notuð og því geti ekki verið mikil bílaumferð fyrir vestan húsið á Austurvegi 42. Aðalþrengingin sé við vesturhlið framhússins þar sem það sé um 4.5 m fjarlægð í lóðamörkin á um 8 m kafla. Ef bakhúsið yrði breikkað um 6.5–7.0 m til vesturs og þá yfir bílastæðin yrði fjarlægðin frá nýbyggingu út í lóðamörk um 6.0 – 7.0 m, sem myndi eftir sem áður leyfa tvær akstursgreinar. Flöskuhálsinn yrði áfram um 4.5 m breiður kafli við framhúsið sem nýbyggingin myndi ekki hafa nein áhrif á.

Í kæru er staðhæft að líklegt sé að einn starfsmaður ráðgjafarstofu þeirrar sem unnið hafi að gerð deiliskipulagsins hafi skrifað andmæli gegn stækkun hússins að Austurvegi 42. Andmælin, sem greinilega séu skrifuð af fagaðila, hafi verið óundirrituð, en nöfn hjóna sem séu tengdaforeldrar téðs manns hafi verið prentuð undir bréfið. Hljóti ráðgjafarstofan að vera vanhæf til að koma að gerð deiliskipulagsins hafi starfmaður þess skrifað og sent inn andmælin. Meta þurfi lögmæti þess að athugasemdirnar hafi verið teknar til greina og samþykktar. Jafnframt þurfi að endurskoða synjun skipulagsnefndar en rök hennar standist enga skoðun. Einnig sé spurt hvort hægt sé að fá það staðfest hver hafi sent inn andmælin og hvort það sé lögmætt að neita að leggja erindi er varði niðurstöðu skipulagsnefndar fyrir hana.

Málsrök Sveitarfélagsins Árborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er talið að ekki séu uppfyllt skilyrði fyrir því að ágreiningi verði skotið til úrskurðarnefndarinnar, þar sem engin ákvörðun hafi verið tekin sem leiði mál til lykta. Sé greint deiliskipulag enn til vinnslu hjá skipulagsfulltrúa eins og gögn málsins beri með sér og beri því að vísa málinu frá nefndinni. Til vara sé þess krafist að öllum kröfum kæranda verði hafnað. Bókun skipulagsnefndar á fundi 22. mars 2023 hafi varðað tillögur nefndarinnar um áframhaldandi vinnu við skipulagið. Ekki hafi enn verið tekin formleg ákvörðun um endanlega útfærslu byggingarreita. Öllum málsmeðferðarreglum hafi verið fylgt við meðferð málsins. Hugsanlegar nýjar athugasemdir kæranda verði teknar til skoðunar og afgreiddar með formlegum hætti þegar deiliskipulagstillagan verði auglýst á ný.

Þá hafi ekkert komið fram sem bendi til þess að starfsmenn þeirrar ráðgjafarstofu sem unnið hafi að gerð deiliskipulagsins séu vanhæfir. Skipulagsfulltrúi hafi kannað málið og enginn rökstuddur grunur sé um að svo sé, en aðili sá er kærandi vísi til sé ekki lengur starfsmaður fyrirtækisins. Athugasemdum viðkomandi aðila hafi verið skilað inn með tölvupósti og sé það viðtekið verklag í deiliskipulagsmálum hjá sveitarfélaginu. Ekki séu gerðar kröfur um að athugasemdir er fram komi við gerð deiliskipulags séu undirritaðar til að þær teljist gildar.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Höfnun skipulagsnefndar á stækkun hússins að Austurveg 42 hafi verið tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 25. apríl 2023. Með því hafi skipulagsnefnd fyrir hönd sveitarfélagsins tekið ákveðna stjórnvaldsákvörðun. Þá sé það annmarki við gerð deiliskipulagsins að ekki komi fram allar upplýsingar á auglýstri tillögu sem væntanlega gætu skipt sköpum fyrir ákvörðun skipulagsnefndar um væntanlega nýbyggingu. Athugasemdir kæranda varðandi afgreiðslu nefndarinnar á stækkun hússins hafi aldrei verið lagðar fyrir hana. Ekkert komi fram í greinargerð sveitarfélagsins sem afsaki eða réttlæti slíka málsmeðferð. Þá hafi ekkert komið fram um að skipulagsnefnd hafi afturkallað greinda ákvörðun. Ekki sé um nýjar athugasemdir að ræða heldur útskýringar sem leggja þurfi fyrir skipulagsnefnd þar sem útskýrt sé hvers vegna niðurstaða nefndarinnar varðandi höfnunina hafi byggt á röngum og ófullnægjandi upplýsingum.

 Þá bendi kærandi á að samkvæmt vefsíðu ráðgjafarstofunnar er komið hafi að gerð umrædds deiliskipulags starfi umræddur einstaklingur enn hjá henni.

 Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvalds­ákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlinda­mála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Ákvörðun sem ekki bindur enda á mál verður þó ekki kærð til æðra stjórnvalds fyrr en málið hefur verið til lykta leitt skv. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt upplýsingum frá Sveitarfélaginu Árborg var hin kærða synjun skipulagsnefndar sveitarfélagsins um stækkun byggingarreits hússins að Austurvegi 42 þáttur í undirbúningi deiliskipulags, sem er enn til vinnslu. Verður að líta svo á að með þessu hafi afgreiðslan verið liður í málsmeðferð en ekki falið í sér ákvörðun um rétt eða skyldu sem borin verði undir úrskurðarnefndina, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga. Ákvörðun um samþykkt deiliskipulags tekur ekki gildi fyrr en að undangenginni samþykkt sveitarstjórnar og að lokinni birtingu auglýsingu um gildistöku hennar í B-deild Stjórnartíðinda. Verður ákvörðuninni þá fyrst skotið til úrskurðarnefndarinnar og sætir þá deiliskipulagið og öll málsmeðferð þess lögmætisathugun nefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.