Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

10/2024 Móvað

Árið 2024, fimmtudaginn 18. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 10/2024, kæra á ákvörðun Reykjavíkurborgar frá 19. janúar 2024 um að leggja á gjald vegna sorptunnu fyrir blandaðan heimilisúrgang og matarleifar fyrir fasteignina Móvað 15.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. janúar 2024, kærir A ákvörðun Reykjavíkurborgar frá 19. janúar 2024 um álagningu gjalds vegna sorptunnu fyrir blandaðan heimilisúrgang og matarleifar fyrir fasteign hans að Móvaði 15. Er þess krafist að gjaldið verði fellt niður.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 1. febrúar 2024.

Málavextir: Hinn 19. janúar 2024 barst kæranda álagning vegna fasteignagjalda fyrir árið 2024. Með álagningunni var kæranda gert að greiða gjald að fjárhæð kr. 52.500 vegna sorptunnu, fyrir lífrænan úrgang og óflokkað sorp.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að eitt af markmiðum sorpflokkunar sé að minnka sem mest umfang óflokkaðs sorps. Hann hafi náð því markmiði með ítarlegri flokkun, enda sé óflokkað sorp frá heimilisrekstri hans sáralítið og sjái hann sjálfur um að fara með það á gámastöð. Í garði hans sé svokölluð moltutunna sem í fari allur lífúrgangur. Sé því ekki verjandi að honum sé gert að greiða kr. 52.500 á ári fyrir tæmingu á sorptunnu fyrir blandaðan heimilisúrgang og matarleifar sem standi ávallt tóm. Þrátt fyrir að á borginni hvíli lagaskylda til að hafa umrædda tunnu við heimili kæranda sjái hann ekki að lagastoð sé fyrir umræddu gjaldi fyrir tunnu sem aldrei þurfi að tæma.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til þess að skv. 10. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs skuli koma upp sérstakri söfnun á heimilisúrgangi þar sem það sé nauðsynlegt til að uppfylla ákvæði laganna varðandi endurnýtingu úrgangs og koma í veg fyrir að úrgangur blandist öðrum úrgangi eða öðrum efniviði með aðra eiginleika. Sérstök söfnun skuli vera á a.m.k. eftirfarandi úrgangsefnum: pappír og pappa, málmum, plasti, gleri, lífúrgangi, textíl og spilliefnum. Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. laganna skulu sveitarfélög innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs. Heimilt sé m.a. að ákveða fast gjald á hverja fasteignareiningu miðað við fjölda sorpíláta og/eða þjónustustig, sbr, síðasta málsl. 2. mgr. Gjaldið skuli þó aldrei vera hærra en sem nemi kostnaði sem falli til í sveitarfélaginu við meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi, sbr. 3. mgr. lagagreinarinnar.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Vegna athugasemda Reykjavíkurborgar um að gjaldtaka fyrir sorphirðu eigi aðeins að standa undir kostnaði við hana þá bendir kærandi á að aldrei þurfi að hirða hjá honum sorp sem teljist til blandaðs úrgangs og eigi að flokkast í umrætt sorpílát.

Niðurstaða: Í máli þessu krefst kærandi þess að felld verði úr gildi álagning gjalds fyrir árið 2024 vegna sorptunnu fyrir blandaðan heimilisúrgang og matarleifar vegna fasteignar kæranda að Móvaði 15 í Reykjavík.

Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs er sveitarstjórn skylt að ákveða fyrirkomulag söfnunar á heimilis- og rekstrarúrgangi, ásamt því að hún ber ábyrgð á flutningi heimilisúrgangs og skal sjá um að starfræktar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir úrgang. Samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar setur sveitarstjórn sérstaka samþykkt þar sem tilgreind eru atriði um meðhöndlun úrgangs, umfram það sem greinir í lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Þar er heimilt að kveða á um fyrirkomulag sorphirðu, skyldu einstaklinga og lögaðila til að flokka úrgang, stærð, gerð, staðsetningu og merkingu sorpíláta og sambærileg atriði.

Í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 55/2003 er kveðið á um að koma skuli upp sérstakri söfnun á heimilisúrgangi. Sérstök söfnun skuli vera á a.m.k. eftirfarandi úrgangstegundum: pappír og pappa, málmum, plasti, gleri, lífúrgangi, textíl og spilliefnum. Heimajarðgerð sé þó heimil sem og söfnun lífúrgangs með öðrum úrgangi að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Skuli sérstök söfnun á pappír og pappa, plasti og lífúrgangi fara fram á sem aðgengilegastan hátt við íbúðarhús og hjá lögaðilum í þéttbýli. Söfnunin skuli fara fram innan lóðar viðkomandi íbúðarhúss eða lögaðila. Skuli sveitarfélög útfæra nánara fyrirkomulag söfnunar í samþykkt um meðhöndlun úrgangs. Einstaklingum og lögaðilum er skylt að flokka heimilisúrgang í samræmi við þessi fyrirmæli, sbr. 3. mgr. lagagreinarinnar. Þessu til viðbótar segir í 4. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 803/2023 um meðhöndlun úrgangs að sveitarstjórn sé ábyrg fyrir reglulegri tæmingu sorpíláta og flutningi heimilisúrgangs frá öllum heimilum og lögaðilum. Auk þess skuli fasteignareigandi sjá til þess að fasteign hans fylgi nægilega mörg sorpílát og að þau séu endurnýjuð eftir þörfum, sbr. 1. mgr. 15. gr. reglugerðarinnar.

Þessi fyrirmæli taka mið af því að meðhöndlun sorps er grunnþjónusta í sveitarfélagi. Hún þarf að vera í föstum skorðum og er þess eðlis að hún má ekki falla niður þótt einhverjir íbúar nýti sér hana ekki og að sama skapi er íbúum ekki í sjálfsvald sett hvort að þeir nýta sér þjónustuna eða ekki. Í gildi er samþykkt nr. 644/2022 um meðhöndlun úrgangs í Reykjavíkurborg sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 1. júní 2022. Í 4. gr. hennar er fjallað um söfnun á heimilisúrgangi og kemur fram í 1. mgr. að sérhverjum húsráðanda sé skylt að nota þau ílát og aðferðir sem Reykjavíkurborg ákveði. Þá segir í 3. mgr. að Reykjavíkurborg útvegi ílát til notkunar við íbúðarhúsnæði og kemur fram að ílát fyrir lífúrgang séu 120 lítrar. Samkvæmt 5. mgr. skal að lágmarki vera eitt ílát fyrir blandaðan heimilisúrgang við hvert íbúðarhús. Þessi fyrirmæli verður að túlka með hliðsjón af ákvæðum laga nr. 55/2003 og verður að álíta að kæranda sé skylt að greiða fyrir þá þjónustu við sorphirðu sem honum stendur til boða eins og öðrum íbúum í sveitarfélaginu.

Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003, sbr. lög nr. 103/2021, skulu sveitarfélög innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs. Tekið er fram að skylt sé að innheimta gjald sem næst raunkostnaði við viðkomandi þjónustu, svo sem með því að miða gjaldið við magn úrgangs, gerð úrgangs, losunartíðni, frágang úrgangs og aðra þætti sem áhrif hafa á kostnað við meðhöndlun úrgangs viðkomandi aðila. Þó er heimilt að færa innheimtu gjalda að nokkru á milli úrgangsflokka í því skyni að stuðla að markmiðum laganna auk þess að heimilað er að ákveða gjaldið sem fast gjald á hverja fasteignareiningu til þess að innheimta allt að 25% af heildarkostnaði sveitarfélags. Samkvæmt 4. mgr. lagagreinarinnar skal birta slíka gjaldskrá í B-deild Stjórnartíðinda.

Reykjavíkurborg hefur á grundvelli 2. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003 og 5. mgr. 59. gr. laga nr. 7/1998 samþykkt gjaldskrá nr. 1280/2023 fyrir meðhöndlun úrgangs í sveitarfélaginu. Öðlaðist hún gildi 1. janúar 2024 og féll um leið úr gildi gjaldskrá sama efnis nr. 1305/2022. Samkvæmt gjaldflokki E.1 í 2. gr. gjaldskrárinnar er gjald fyrir tvískipta tunnu fyrir blandaðan heimilis-úrgang (60%) og matarleifar (40%), sótt minna en 15 m frá hirðubíl, kr. 52.500 á ári.

Þegar um svokölluð þjónustugjöld er að ræða gilda ýmis sjónarmið um álagningu þeirra, m.a. að beint samhengi sé á milli fjárhæðar gjaldsins og þess kostnaðar sem til fellur við það að veita þjónustuna. Fjárhæðin verður einnig að byggjast á traustum útreikningi, en þó hefur verið litið svo á að sé ekki hægt að sérgreina nákvæmlega ákveðna kostnaðarliði sé heimilt að byggja þá á skynsamlegri áætlun. Sá sem greiðir þjónustugjöld getur hins vegar almennt ekki krafist þess að sá kostnaður sé reiknaður nákvæmlega út heldur er heimilt að haga gjaldtöku svo að um sé að ræða jafnaðargjald.

Við meðferð þessa máls óskaði úrskurðarnefndin eftir upplýsingum um útreikninga á sorphirðugjaldi Reykjavíkurborgar. Í svari til úrskurðarnefndarinnar er greint frá því að hirðugjöld vegna hirðu við heimili miðist við fjölda, stærð og tegund tunnu en hirðugjöld fyrir grenndar- og endurvinnslustöðvar sé fast gjald á íbúð. Hirðugjöldin séu reiknuð samkvæmt leiðbeiningum sem starfshópur á vegum stefnuráðs byggðasamlaga sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hafi unnið til samræmingar á ákvörðun hirðugjalda á höfuðborgar-svæðinu. Af rekstrartölum fyrir sorphirðu í Reykjavík árin 2014–2022 sést að rekstrarkostnaður er í öllum tilvikum hærri en innheimt gjöld, að undanskildu árinu 2017. Er sú niðurstaða í samræmi við áskilnað 3. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003 um að álögð gjöld megi ekki vera hærri en kostnaður sem falli til í sveitarfélaginu við meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi sem samræmist markmiðum laganna. Verður að telja að kostnaðarliðir vegna sorphirðugjalds Reykjavíkurborgar fyrir tvískipta tunnu falli undir þá þætti sem sveitarfélögum er skylt að innheimta gjald fyrir á grundvelli 2. mgr. 23. gr. sömu laga. Verður að öllu virtu ekki annað séð en að útreikningur hins kærða gjalds hafi byggst á skynsamlegri áætlun. Telst gjaldið því lögmætt þjónustugjald skv. áður tilvitnuðum ákvæðum 23. gr. laga nr. 55/2003.

Með hliðsjón af framangreindu verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun Reykjavíkurborgar frá 19. janúar 2024 um að leggja á gjald vegna sorptunnu fyrir blandaðan heimilisúrgang og matarleifar fyrir fasteignina Móvað 15.