Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

74/2009 Sléttuhlíð

Með

Ár 2010, fimmtudaginn 15. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 74/2009, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúans í Hafnarfirði frá 2. apríl 2008 um að veita leyfi til byggingar sumarbústaðar á lóð merktri B-2 í Sléttuhlíð í Hafnarfirði. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 1. nóvember 2009, er barst nefndinni hinn 6. sama mánaðar, kærir Á, Smárahvammi 9 í Hafnarfirði, einn eigenda sumarhúss á lóð merktri F-4 í Sléttuhlíð í Hafnarfirði, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúans í Hafnarfirði frá 2. apríl 2008 að veita leyfi til byggingar sumarbústaðar á lóð merktri B-2 í Sléttuhlíð í Hafnarfirði.  Var ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 15. sama mánaðar. 

Gerir kærandi þá kröfu að hið kærða byggingarleyfi verði fellt úr gild. 

Málavextir og rök:  Á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúans í Hafnarfirði 2. apríl 2008 var samþykkt að veita leyfi til byggingar sumarbústaðar á lóð nr. B-2 í Sléttuhlíð samkvæmt framlögðum teikningum og var afgreiðslan staðfest á fundi bæjarstjórnar 15. sama mánaðar. 

Af hálfu kæranda er vísað til þess að hið kærða byggingarleyfi fari í bága við gildandi deiliskipulag sökum þess að á lóðinni séu tvö hús.  Sé annað þeirra 111 m2 og á tveimur hæðum en hitt 36 m2 og hafi staðið þar lengi.  

Bent sé á að hvorki hafi verið auglýst tillaga að breyttu deiliskipulagi svæðisins né farið fram grenndarkynning og því hafi ekki verið unnt að gera athugasemdir við hið kærða byggingarleyfi.  Fyrst skömmu áður en kæra hafi verið lögð fram hjá úrskurðarnefndinni hafi kærandi fengið í hendur gögn er vörðuðu málið.  Hafnarfjarðarbær hafi hvorki upplýst nágranna né íbúa bæjarins um leyfið og því sé ekki hægt að benda á að kærufrestur hafi verið liðinn þar sem ekki hafi verið tilefni til athugasemda. 

Af hálfu Hafnarfjarðarbæjar er fallist á að hið kærða byggingarleyfi sé ekki í samræmi við deiliskipulag svæðisins og að veiting þess hafi verið mistök.  Við afgreiðslu málsins hafi verið talið að leyfið rúmaðist innan deiliskipulags og því hafi grenndarkynning ekki verið viðhöfð. 

Vísað sé til þess að samkvæmt 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sé frestur til að skjóta málum til úrskurðarnefndarinnar 30 dagar frá því kæranda hafi verið kunnugt eða mátt vera kunnugt um ákvörðun þá er kærð sé.  Sé um að ræða ákvarðanir sem sæti opinberri birtingu teljist kærufrestur frá birtingu.  Hið kærða byggingarleyfi hafi verið samþykkt 2. apríl 2008 og staðfest á fundi bæjarstjórnar 15. sama mánaðar.  Báðar fundargerðirnar séu á vef Hafnarfjarðarbæjar.  Framkvæmdir hafi hafist um mitt ár 2008.  Jafnvel þótt unnt væri að fallast á að kæranda hafi ekki verið kunnugt um hina kærðu ákvörðun hefði honum mátt vera ljóst að framkvæmdir væru í gangi.  Væri því liðinn frestur til að skjóta málinu til úrskurðarnefndarinnar. 

Kæranda var gefinn kostur á að tjá sig um málsrök Hafnarfjarðarbæjar.  Bendir hann á að þrátt fyrir mistök við veitingu hins kærða leyfis vilji skipulags- og byggingarsvið að það standi óhaggað í skjóli útrunnins kærufrests. 

————–

Málsaðilar hafa fært fram ítarlegri rök fyrir kröfum sínum en með hliðsjón af niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar þykir ekki ástæða til að rekja þau frekar. 

Niðurstaða:  Samkvæmt almennum reglum stjórnsýsluréttarins er það skilyrði aðildar að kærumáli fyrir æðra stjórnvaldi að kærandi eigi verulegra og einstaklegra lögvarinna hagmuna að gæta í málinu.  Er þessi regla nú áréttuð, hvað varðar málskot til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, í 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, svo sem ákvæðinu var breytt með lögum nr. 74/2005.  Kærandi hefur ekki tilgreint með hvaða hætti hin umdeilda ákvörðun varði einstaklega hagmuni hans heldur byggir hann málatilbúnað sinn alfarið á því áliti sínu að hið umdeilda byggingarleyfi sé ekki í samræmi við samþykkt deiliskipulag svæðisins.  Þegar litið er til þess að veruleg fjarlægð er frá lóð kæranda, merkt F-4, að lóð B-2, svo og til legu lóðanna að öðru leyti og einnig þess að fjölmörg sumarhús eru milli þeirra, verður ekki séð að kærandi eigi þá einstaklegu og lögvörðu hagsmuni í málinu sem eru skilyrði aðildar að kæru til úrskurðarnefndarinnar.  Hefur kærandi ekki heldur bent á neina slíka hagmuni og verður kærumáli þessu því vísað frá nefndinni vegna aðildarskorts. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

_______________________________          _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                Þorsteinn Þorsteinsson

76/2007 Klapparstígsreitur

Með

Ár 2010, fimmtudaginn 15. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 76/2007, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 16. maí 2007 um að samþykkja tillögu að deiliskipulagi staðgreinireits 1.182.0, sem markast af Skólavörðustíg, Vegamótastíg, Grettisgötu og Klapparstíg. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 29. júlí 2007, er barst nefndinni 31. sama mánaðar, kæra E og Ö, eigendur fasteignar að Klapparstíg 42, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 16. maí 2007 að samþykkja tillögu að deiliskipulagi staðgreinireits 1.182.0, sem markast af Skólavörðustíg, Vegamótastíg, Grettisgötu og Klapparstíg.  Hin kærða ákvörðun tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 27. júní 2007.  Gera kærendur þá kröfu að hún verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Á árinu 2003 samþykkti borgarráð Reykjavíkur nýtt deiliskipulag fyrir umræddan staðgreinireit, 1.182.0, og var auglýsing um gildistöku skipulagsins birt í B-deild Stjórnartíðinda 18. júlí 2003.  Kærendur máls þessa kærðu deiliskipulagið til úrskurðarnefndarinnar.  Með úrskurði, uppkveðnum 27. júlí 2006, felldi úrskurðarnefndin deiliskipulagið úr gildi þar sem vafi lék á um efni skipulagsins varðandi byggingarheimildir á lóðinni að Klapparstíg 40 að lóðarmörkum fasteignar kærenda að Klapparstíg 42.  Í kjölfar þess var unnið nýtt deiliskipulag sem byggt var á hinu fyrra og var þar gert ráð fyrir byggingu húss að Klapparstíg 40, að lóðarmörkum Klapparstígs 42. 

Á fundi skipulagsráðs 18. október 2006 var lögð fram áðurgreind tillaga að deiliskipulagi reits 1.182.0, dags. 10. október 2006, og samþykkti skipulagsráð að auglýsa hana til kynningar.  Málið var síðan tekið fyrir á fundi ráðsins 9. maí 2007 þar sem fyrir lágu athugasemdabréf er borist höfðu á kynningartíma tillögunnar, m.a. frá kærendum, ásamt breyttri skipulagstillögu, dags. 4. maí 2007, og umsögn skipulagsstjóra.  Var hin breytta skipulagstillaga samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsstjóra og málinu vísað til borgarráðs, sem samþykkti tillöguna á fundi hinn 16. maí 2007.  Deiliskipulagið tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 27. júní sama ár, að undangenginni lögmæltri yfirferð Skipulagsstofnunar. 

Í deiliskipulaginu er m.a. heimilað að reisa tveggja hæða hús með kjallara og risi á vesturhluta lóðarinnar að Klapparstíg 40, að lóðarmörkum Klapparstígs 42, en næst lóðamörkunum skal húsið vera ein hæð og kjallari.  Skutu kærendur deiliskipulagsákvörðuninni til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er skírskotað til þess að ekkert tillit hafi verið tekið til athugasemda þeirra við kynningu umdeilds skipulags þess efnis að færa fyrirhugaða byggingu að Klapparstíg 40 frá lóðarmörkum fasteignar kærenda, t.d. um þrjá metra.  Athugasemdirnar hafi þó verið studdar sömu rökum og lotið að sömu kröfu sem eigendur Skólavörðustígs 15 hafi gert við skipulagsgerðina vegna Skólavörðustígs 13 og 13a og tekið hafi verið tillit til.  Telja verði þennan afgreiðslumáta brjóta gegn jafnræðisreglu.

Fyrir liggi að heimild fyrir umdeildri nýbyggingu á lóðinni nr. 40 við Klapparstíg hafi komið til vegna fyrirspurnar frá aðila sem vafasamt sé að eigi nema mjög takmarkaðan, ef nokkurn, eignarrétt að lóðinni og það gegn andmælum þess sem eigi stærstan hluta lóðarinnar.  Staðfest sé í bréfi Reykjavíkurborgar, dags. 10. júlí 2000, að sá aðili sem lagt hafi fram nefnda fyrirspurn sé ekki skráður eigandi að fasteignaréttindum að Klapparstíg 40 samkvæmt gögnum hjá Reykjavíkurborg og Fasteignamati ríkisins.  Velta megi því upp hvort það standist lög að taka til efnislegrar meðferðar beiðni um byggingu húss á eignarlóð annars manns. 

Kærendur mótmæli því að áratuga umferðarréttur þeirra inn á lóðina nr. 42 við Klapparstíg sé frá þeim tekinn en eðlilegt hefði verið að tryggja hann í skipulaginu.  Telja kærendur að þetta rýri verðgildi lóðar þeirra þar sem tvö bílastæði tapist sem séu dýr á þessum stað. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Borgaryfirvöld fara fram á að ógildingarkröfu kærenda verði hafnað.  Á það sé bent að með hinu samþykkta deiliskipulagi sé gert ráð fyrir einnar hæðar viðbyggingu á lóðinni nr. 40 við Klapparstíg sunnan við núverandi hús og geymslu við vesturhlið.  Gert sé ráð fyrir byggingarreit fyrir tveggja hæða húsi með risi og kjallara.  Sá hluti hússins sem liggi að lóðarmörkum Klapparstígs 42 sé á einni hæð og ekki verði heimilt að nýta þak einnar hæðar hlutans til útivistar.  Heimild til nýbyggingar sé háð því skilyrði að núverandi skúrar á suðurlóðamörkum verði rifnir. 

Ólíkar forsendur eigi við um lóðirnar Klapparstíg 40 og Skólavörðustíg 13.  Á lóðinni nr. 40 við Klapparstíg hafi verið skúr sem liggi að lóðarmörkum Klapparstígs 42.  Með hinu samþykkta deiliskipulagi verði veggur nýbyggingarinnar einnig að lóðamörkum, en styttri en sá sem fyrir sé.  Húsið verði á einni hæð, eins og eldri bygging.  Tvílyfti hluti nýbyggingarinnar verði í a.m.k. þriggja metra fjarlægð frá lóðarmörkum að Klapparstíg 42.  Staðsetning og umfang heimilaðs húss teljist samræmast byggðamynstri reitsins, sbr. umsögn skipulagsfulltrúa og þeirra ráðgjafa er tillöguna hafi unnið.  Aðstæður á lóðinni nr. 13 við Skólavörðustíg séu aðrar.  Þar hafi verið um að ræða tveggja hæða hús, alveg út í lóðarmörkin, sem hefði verið talsverð breyting frá fyrra ástandi, sem ekki eigi við í tilfelli kærenda.  Aðstæður og forsendur séu því mismunandi á lóðunum.  Ætíð þurfi að meta hverja lóð fyrir sig þegar nýting þeirra sé ákveðin og sé því ekki fallist á að jafnræðis hafi ekki verið gætt við hina kærðu ákvörðun þótt ekki hafi verið orðið við athugasemdum kærenda við meðferð málsins. 

Í byrjun árs 2001 hafi fyrirspurn borist byggingaryfirvöldum í Reykjavík um hvort leyft yrði að rífa byggingu, skráða sem vörugeymslu, og byggja í hennar stað verslunarhúsnæði á tveimur hæðum á lóðinni að Klapparstíg 40.  Þar sem þá hafi farið fram vinna við deiliskipulagningu umrædds reits hafi fyrirspurninni verið komið á framfæri við þá sem unnið hafi að skipulagstillögunni og ekkert þótt því til fyrirstöðu að gera ráð fyrir nýbyggingunni.  Hafi byggingin verið talin falla vel að byggðamynstri reitsins.  Ekki sé gerð sú krafa að fyrirspurnir varðandi skipulagsmál stafi frá þinglýstum eigendum einstakra lóða heldur sé almennt litið svo á að hver sem er geti fengið svör við fyrirspurnum sínum á þeim vettvangi.  Hins vegar sé gerð sú krafa að umsóknir um byggingarleyfi stafi frá þar til bærum aðilum. 

Lóðamörk á deiliskipulagsuppdráttum séu byggð á gögnum frá landupplýsingadeild framkvæmdasviðs Reykjavíkurborgar, áður lóðarskrárritara.  Ekki sé mögulegt að byggja lóðamörk og stærðir lóða í eldri hverfum Reykjavíkur á öðrum gögnum.  Eins og fram komi í skilmálum umdeildrar skipulagstillögu sé ekki tekið tillit til kvaða í tillögunni eða annarra einkaréttarlegra gerninga sem aðilar kunni að hafa gert sín á milli.  Ekki verði séð að einhliða færsla girðinga inn á nágrannalóð skapi rétt samkvæmt lögum um hefð.  Í 33. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sé kveðið á um bótarétt vegna tjóns er deiliskipulag kunni að valda borgurunum, en álitaefni um slíkan bótarétt verði hér ekki til lykta leidd þar sem það falli utan valdsviðs úrskurðarnefndarinnar. 

Niðurstaða:  Kærendur byggja kröfu sína um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar á því að heimild í hinu kærða deiliskipulagi, fyrir byggingu húss að Klapparstíg 42 að lóðarmörkum þeirra að Klapparstíg 40, fari gegn hagsmunum þeirra og að ekki hafi í skipulaginu verið gert ráð fyrir ætluðum umferðarrétti þeirra um lóðina að Klapparstíg 42. 

Samkvæmt fyrirliggjandi skipulagsuppdrætti er fyrir á lóðinni að Klapparstíg 40 skúrbygging sem stendur á lóðamörkum Klapparstígs 40 og 42 á um ellefu metra kafla.  Hin kærða ákvörðun felur í sér að reisa megi nýtt hús að umræddum lóðamörkum á um átta metra bili þar sem skúrinn er nú.  Um er að ræða tvílyft hús með kjallara og risi sem lækki í eina hæð, a.m.k. þremur metrum frá lóðamörkunum til norðurs frá Klapparstíg 42.  Þá er heimiluð þriggja hæða viðbygging með kjallara og risi á sameinaðri lóð Skólavörðustígs 13 og 13A.  Í skipulagstillögu var gert ráð fyrir að viðbyggingin næði að lóðarmörkum Skólavörðustígs 15, en vegna framkominna athugasemda við kynningu skipulagstillögunnar var sú bygging færð þrjá metra frá lóðarmörkunum. 

Ekki verður fallist á að farið hafi verið gegn jafnræðisjónarmiðum við skipulagsgerðina þótt ekki hafi verið farið að kröfum um að færa áformaða byggingu frá lóðarmörkum Klapparstígs 42 eins og gert var vegna áformaðrar viðbyggingar að Skólavörðustíg 13.  Verður að líta til þess að lengri bygging, sem mun víkja ef til nýbyggingar kemur, stendur nú þegar á lóðarmörkum Klapparstígs 40 og 42 og að heimiluð nýbygging verður aðeins ein hæð við lóðarmörkin.  Að Skólavörðustíg 13 var hins vegar um að ræða heimild fyrir viðbyggingu að lóðamörkum, þrjár hæðir og ris, þar sem engin bygging hafði áður staðið.  Eru aðstæður í þessum tilvikum því ekki sambærilegar.

Samkvæmt 1. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 bera sveitarstjórnir ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags og skal eftir föngum leita eftir sjónarmiðum og tillögum íbúa og annarra þeirra sem hagsmuna eiga að gæta um mörkun stefnu og markmið við skipulagsgerðina, sbr. 4. mgr. 9. gr. laganna.  Þessi ákvæði verða ekki skilin svo að rétthafar einstakra lóða hafi úrslitavald um skipulag lóða sinna en þess ber að geta að það er í valdi lóðarhafa á hverjum tíma hvort og hvenær ráðist er í byggingarframkvæmdir á þeirra lóð þar sem þeir þurfa að standa saman að byggingarleyfisumsókn, sbr. 4. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingalaga.  Það verður því ekki talið andstætt lögum þótt einstakar byggingar séu heimilaðar í skipulagi án samþykkis viðkomandi lóðarhafa. 

Ekki liggja fyrir í málinu gögn um meintan umferðarrétt kærenda um lóðina að Klapparstíg 40 og verður það því ekki talinn annmarki á hinu kærða deiliskipulagi að þar sé ekki að finna slíka kvöð. 

Með hliðsjón af nefndum atvikum, og að um er að ræða miðsvæði samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024, þykir hið kærða deiliskipulag ekki raska hagsmunum kærenda með þeim hætti að varði ógildingu þess.  Verður kröfu kærenda þar að lútandi hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 16. maí 2007 um að samþykkja tillögu að deiliskipulagi staðgreinireits 1.182.0. 

_____________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________                 ____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

61/2009 Hellisgata

Með

Ár 2010, þriðjudaginn 30. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 61/2009, krafa um að skorið verði úr vafa um hvort framkvæmdir við girðingu á mörkum lóðarinnar nr. 22 við Hellisgötu í Hafnarfirði séu háðar byggingarleyfi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. september 2009, er barst nefndinni 10. sama mánaðar, krefjast G, Garðavegi 2, L og A, Garðavegi 4 og B og S, Garðavegi 6 í Hafnarfirði, þess að úrskurðað verði að framkvæmdir við girðingu á mörkum lóðarinnar nr. 22 við Hellisgötu í Hafnarfirði, er snúa að Garðavegi, séu háðar byggingarleyfi.  Þá gerðu kærendur og kröfu um að allar frekari framkvæmdir á lóðinni yrði stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Ekki þótti tilefni til að fjalla sérstaklega um þá kröfu kærenda enda allar framkvæmdir yfirstaðnar er kæran barst nefndinni. 

Málavextir:  Vorið 2008 hófu lóðarhafar að Hellisgötu 22 framkvæmdir við girðingu á mörkum lóðar sinnar og bílastæða við Garðaveg.  Þar var fyrir 70 cm hár steinveggur en hann söguðu þau niður á um 210 cm bili, komu þar fyrir 160 cm háu opnanlegu hliði og settu timburgirðingu ofan á steinvegginn sem fyrir var.  Var framkvæmdum þessum lokið u.þ.b. ári seinna.  Gerðu kærendur athugasemdir vegna framkvæmdarinnar, bæði við lóðarhafa og skipulags- og byggingaryfirvöld.  Í tölvubréfi skipulags- og byggingarfulltrúa til lóðarhafa að Hellisgötu 22, dags. 23. júní 2009, veitti hann leyfi til að opna girðinguna og setja á hana hlið.  Þessu vildu kærendur ekki una og á fundi skipulags- og byggingarráðs hinn 11. ágúst 2009 var eftirfarandi fært til bókar:  „Lögð fram athugasemd frá íbúum við Garðaveg varðandi leyfi fyrir hliði frá Hellisgötu 22 út á bílastæði við Garðaveg, dags. 27.07.2009.  Erindið var til umfjöllunar á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa 29.07.2009, sem vísaði því til skipulags- og byggingarráðs.  Lagðir fram minnispunktar sviðsstjóra skipulags- og byggingarfulltrúa og byggingarfulltrúa, dags. 06.08.2009.  Þar sem athugasemd snéri að embættisfærslu byggingarfulltrúa vék hann af fundi við afgreiðslu þess.  Skipulags- og byggingarráð telur hliðið ekki byggingarleyfisskylt, en vísar atriðum sem snúa að bílastæðamálum og umferðaröryggi til undirbúningshóps umferðarmála.“ 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er vísað til þess að framkvæmd sú er um ræði sé byggingarleyfisskyld og hana hafi borið að grenndarkynna næstu nágrönnum.  Vísað sé til ákvæða skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og byggingarreglugerðar nr. 441/1998, sérstaklega ákvæða gr. 67 um girðingar á lóðamörkum. 

Kærendur halda því fram að með framkvæmdinni sé gengið á áralangan rétt þeirra til hagnýtingar bílastæða við Garðaveg, hætta sé á eignatjóni ásamt því að slysahætta aukist.  Engin sjáanleg þörf sé fyrir hlið á girðingunni, aðkoma að Hellisgötu 22 sé frá þeirri götu og þar séu bílastæði er rétthafar þeirrar lóðar geti nýtt. 

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar:  Af hálfu Hafnarfjarðarbæjar er vísað til þess að almennt sé ekki sótt um leyfi til að setja hlið á girðingar er snúi út að götu eða almennu bílastæði.  Væri því brotin jafnræðisregla stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ef sú krafa hefði verið gerð í tilviki því er hér um ræði. 

Bent sé á álit undirbúningshóps um umferðarmál þar sem fram komi að hin umdeilda framkvæmd leiði hvorki til skerðingar á bílastæðum né hafi í för með sér aukna slysahættu.  Þá séu bílastæðin við Garðaveg í eigu og umsjá Hafnarfjarðarbæjar og hafi íbúar við götuna engan lögvarinn rétt sem útiloki aðra frá því að leggja þar bifreiðum.  Sérstaklega sé bent á að 67. gr. byggingarreglugerðar áskilji samþykki beggja lóðarhafa ef girðing sé reist á lóðamörkum og sé það samþykki til staðar, sbr. leyfi skipulags- og byggingarfulltrúa þar að lútandi. 

Ef talið væri hins vegar að byggingarleyfis hefði verið þörf í hinu umdeilda tilviki þá hafi skipulags- og byggingarfulltrúi veitt skriflegt leyfi í tölvupósti 23. júní 2009 og sé það á valdsviði hans að gefa slíkt leyfi samkvæmt staðfestri samþykkt um afgreiðslur byggingarfulltrúans í Hafnarfirði frá 11. ágúst 2005. 

Málsrök byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er vísað til þess að er þau hafi fest kaup á fasteigninni að Hellisgötu 22 hafi staðið á lóðarmörkum um 70 cm hár steinveggur.  Veggurinn hafi verið lítil fyrirstaða fyrir ung börn og í raun hafi garðurinn verið notaður sem göngustígur á milli Garðavegs og Hellisgötu.  Vegna þessa hafi verið ákveðið að setja girðingu ofan á vegginn.  Ástæður þess að sett hafi verið hlið á girðinguna hafi verið þær helstar að auðveldara sé þannig með öll aðföng heim að húsinu ásamt því að aðgengi sé betra þeim megin. 

——-

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Ekki verður fallist á að leyfi það sem byggingarfulltrúi veitti í tölvupósti hinn 23. júní 2009 geti talist byggingarleyfi í skilningi 1. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 enda var umrædd afgreiðsla byggingarfulltrúa hvorki lögð fram í skipulags- og byggingarráði né afgreidd í bæjarstjórn svo sem áskilið er í 4. gr. samþykktar um afgreiðslur byggingarfulltrúans í Hafnarfirði frá 11. ágúst 2005.  Þvert á móti komst skipulags- og byggingarráð að þeirri niðurstöðu á fundi sínum hinn 11. ágúst 2009 að umdeilt hlið væri ekki byggingarleyfisskylt.  Liggur því ekki fyrir í máli þessu nein stjórnvaldsákvörðun er sætt getur kæru til úrskurðarnefndarinnar. 

Hins vegar er vafi uppi um það hvort umræddar framkvæmdir hafi verið háðar byggingarleyfi og gera kærendur kröfu til þess að úrskurðarnefndin skeri úr um þann vafa.  Á nefndin úrlausnarvald um það efni, án þess að fyrir liggi kæranleg stjórnvaldsákvörðun, sbr. 3. mgr. 36. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Ber nefndinni samkvæmt tilvitnuðu ákvæði að taka erindi kærenda um þetta álitaefni til úrlausnar. 

Samkvæmt gr. 18.14 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 skal á afstöðumynd aðaluppdrátta m.a. skrá númer lóðar og götuheiti og sýna aðkomu að lóð.  Þarf því að koma til skoðunar hvort ný eða breytt aðkoma að lóð leiði til þess að breyta þurfi byggingarleyfi húss en ekki liggur fyrir í máli þessu hvernig gerð sé grein fyrir aðkomu að lóðinni Hellisgötu 22 á samþykktum aðaluppdráttum.  Er rannsókn málsins áfátt að þessu leyti. 

Í 1. mgr. 67. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 segir að leita skuli samþykkis byggingarnefndar á gerð og frágangi girðingar sé hún hærri en 1,80 m eða nær lóðarmörkum en sem svari hæð hennar, mælt frá jarðvegshæð við girðinguna eða frá hæð lóðar á lóðamörkum sé hún meiri.  Þá segir ennfremur að girðing á mörkum lóða sé háð samþykki beggja lóðarhafa.  Ákvæði þetta verður að skilja svo að girðing sem sé nær lóðamörkum en sem nemi hæð hennar sé byggingarleyfisskyld, óháð afstöðu rétthafa aðliggjandi lóðar.  Þar að auki sé girðing á lóðamörkum háð samþykki beggja lóðarhafa en ekki verður fallist á að samþykki bæjaryfirvalda sem lóðarhafa geti jafngilt eða komið í stað þess samþykkis byggingarnefndar sem áskilið er í ákvæðinu. 

Þegar litið er til tilvitnaðra ákvæða byggingarreglugerðar nr. 441/1998 og þeirra áhrifa sem umrædd girðing og hlið á henni getur haft á umferð og aðkomu að Hellisgötu 22 er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að hinar umdeildu framkvæmdir séu byggingarleyfisskyldar. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Framkvæmdir á mörkum lóðarinnar nr. 22 við Hellisgötu í Hafnarfirði, er snúa að Garðavegi, eru háðar byggingarleyfi samkvæmt 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

 

__________________________
Hjalti Steinþórsson

 

__________________________     _________________________
Ásgeir Magnússon                                Þorsteinn Þorsteinsson

 

15/2009 Neðri-Lá

Með

Ár 2010, þriðjudaginn 30. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 15/2009, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar frá  18. desember 2008 um að hafna tillögu að deiliskipulagi fyrir Neðri-Lá í Eyrarsveit.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi, dags. 2. mars 2009, framsendi samgönguráðuneytið til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála erindi J, G, K og Ó varðandi ákvörðun umhverfisnefndar Grundarfjarðarbæjar frá 16. desember 2008 um að hafna tillögu að deiliskipulagi fyrir jörðina Neðri-Lá í Eyrarsveit, sbr. staðfestingu bæjarstjórnar frá 18. desember 2008.  Telur ráðuneytið að þar sem erindið varði deiliskipulag jarðarinnar og málsmeðferð sem viðhöfð hafi verið við afgreiðslu skipulagstillögu eigi það undir úrskurðarnefndina. 

Í erindi kærenda, sem eru átta af níu eigendum nefndarar jarðar, eru nokkrar spurningar lagðar fyrir ráðuneytið.  Er það ekki á verksviði úrskurðarnefndarinnar að svara þeim.  Hins vegar verður einnig að skilja erindið svo að kærendur vilji ekki una synjun Grundarfjarðarbæjar á tillögu þeirra að deiliskipulagi fyrir jörðina Neðri-Lá og að þeir geri kröfu til þess að henni verði hnekkt.  Á það undir úrskurðarnefndina að skera úr um lögmæti synjunarinnar og verður málið tekið til úrlausnar um það álitaefni. 

Málavextir:  Jörðin Neðri-Lá í Eyrarsveit er í óskiptri sameign níu eigenda og er eignarhlutur hvers fyrir sig um 11,1%.  Átta sameigendanna lögðu fram tillögu að deiliskipulagi fyrir jörðina árið 2005 og óskuðu þess að bæjaryfirvöld í Grundarfirði tækju tillöguna til meðferðar.  Var tillagan samþykkt á fundi umhverfisnefndar Grundarfjarðar hinn 16. ágúst 2005 og staðfesti bæjarráð afgreiðslu nefndarinnar 18. sama mánaðar.

Með bréfi til Skipulagsstofnunar, dags. 16. september 2005, óskaði Grundarfjarðarbær eftir meðmælum stofnunarinnar skv. 3. tl. bráðabirgðaákvæða skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 með auglýsingu tillögunnar þar sem ekki væri í gildi staðfest svæðis- eða aðalskipulag fyrir umrætt svæði.  Með bréfi, dags. 27. september 2005, synjaði Skipulagsstofnun umbeðnum meðmælum með þeim rökum að skipulagstillagan uppfyllti ekki þær kröfur sem gerðar væru til forms og efnis slíkrar tillögu.  Kom því ekki til þess að tillagan væri auglýst. 

Ný og endurbætt tillaga var lögð fram hinn 12. desember 2007.  Var hún tekin fyrir hjá umhverfisnefnd 4. mars 2008, en afgreiðslu málsins var þá frestað vegna óljósrar stöðu varðandi landnúmer í fasteignamati.  Tillagan var tekin fyrir á ný hinn 5. ágúst 2008 og afgreiðslu enn frestað.  Á fundi umhverfisnefndar hinn 3. september 2008 var samþykkt að óska eftir heimild bæjarstjórnar til að auglýsa tillöguna, en með þeim fyrirvara að nefndin samþykkti á engan hátt efni eða innihald hennar en vildi þó láta reyna á hvort og þá hvaða athugasemdir kæmu fram.  Tillagan var samþykkt á fundi bæjarstjórnar 11. september 2008 og auglýst í Lögbirtingarblaðinu 25. september s.á.  Var hún til sýnis á bæjarskrifstofu Grundarfjarðarbæjar frá 25. september til og með 23. október 2008 og var þeim sem áttu hagsmuna að gæta gefinn kostur á að gera athugasemdir við tillöguna til 6. nóvember 2008.  Með bréfi, dags. 30. október 2008, gerði sá eigendanna sem ekki hafði staðið að tillögunni athugasemdir við hana.  Mótmælti hann tillögunni, sem hann taldi fara gegn hagsmunum sínum og eignarréttindum. 

Á fundi umhverfisnefndar 16. desember 2008 var tillögunni hafnað með vísan til þess að ekki lægi fyrir samþykki allra sameigenda.  Var tekið fram að unnt væri að taka skipulagið til skoðunar á ný þegar sameigendur hefðu komið sér saman um skipulag svæðisins.  Á fundi bæjarstjórnar hinn 18. desember 2008 var afgreiðsla umhverfisnefndar staðfest og var kærendum kynnt niðurstaða málins með bréfi, dags. 23. desember 2008. 

Málsrök kærenda:  Kærendur vísa til þess að tillaga að deiliskipulagi fyrir Neðri-Lá hafi verið samþykkt af umhverfisnefnd og bæjarráði Grundarfjarðar í ágúst 2005.  Þessar samþykktir hafi ekki verið afturkallaðar.  Kærendur líti svo á að tillagan hafi í raun þegar verið samþykkt og því hafi bæjaryfirvöldum borið að auglýsa án tafa lagfærða tillögu, sem þeim hafi verið send í tilefni af athugasemdum Skipulagsstofnunar.  Varðandi þá mótbáru að einn af eigendum jarðarinnar hafi ekki samþykkt skipulagstillöguna vísi kærendur til þess að samkvæmt 18. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994 sé ekki þörf á samþykki allra eigenda til ráðstafana af því tagi sem hér um ræði. 

Málsrök Grundarfjarðarbæjar:  Af hálfu Grundarfjarðarbæjar er þess aðallega krafist að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni, en til vara að kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar verði hafnað og ákvörðun bæjarstjórnar staðfest. 

Kröfu sína um frávísun málsins byggir Grundarfjarðarbær á því að kæra vegna greindrar ákvörðunar sé of seint fram komin.  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sé frestur til að skjóta máli til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra eigi.  Hin kærða ákvörðun hafi verið tekin á fundi bæjarstjórnar 18. desember 2008 og kynnt kærendum með bréfi, dags. 23. desember 2008, en kæra hafi fyrst borist hinn 11. febrúar 2009.  Hafi kærufrestur þá verið liðinn og beri því að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni, sbr. 5. mgr. 8. gr. laga nr. 73/1997 og 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Um kröfu sína um höfnun á kröfu kærenda vísar Grundarfjarðarbær til þess að samkvæmt 1. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga, með síðari breytingum, beri sveitarstjórn ábyrgð á og annist gerð deiliskipulags.  Landeiganda eða framkvæmdaraðila sé þó heimilt að gera tillögu til sveitarstjórnar að deiliskipulagi eða breytingu á deiliskipulagi á sinn kostnað. 

Meginreglan sé því sú að deiliskipulag sé á ábyrgð og forræði sveitarstjórnar.  Tillögugerð landeiganda eða framkvæmdaraðila sé því undantekning frá meginreglunni.  Í ljósi þess, sem og meginreglna eignaréttar, sem kveði á um að samþykki allra sameigenda þurfi til vegna ráðstöfunar og nýtingar óskiptrar sameignar, verði landeigendur allir að standa að slíkri tillögu. 

Sveitarstjórn hafi tekið hlutlæga afstöðu til erindis kærenda um deiliskipulag landsins og hafi í því sambandi m.a. litið til afstöðu meðeiganda, sem hafi lýst sig andvígan tillögunni þar sem hún tæki ekki nægjanlegt mið af stöðu þeirra húsa sem fyrir væru á jörðinni.  Samkvæmt tillögunni sé deiliskipulagssvæðið um 9,2 ha að stærð og sé lóðinni skipt upp í 13 reiti og heimilt eigi að vera að byggja sjö hús til viðbótar þeim sem fyrir séu.  Tillagan feli því í sér breytingu á landnotkun og fjölgun bygginga.  Af því leiði að samþykki allra sameigenda þurfi að koma til, sbr. hér einnig til hliðsjónar 41. gr. laga nr. 26/1994. 

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið samþykkti umhverfisnefnd Grundarfjarðar hinn 16. ágúst 2005 tillögu að deiliskipulagi fyrir Neðri-Lá og staðfesti bæjarráð afgreiðslu nefndarinnar 18. sama mánaðar.  Á þeim tíma var hvorki í gildi staðfest svæðisskipulag né aðalskipulag er náði til umrædds svæðis.  Var sveitarstjórn því ekki heimilt að auglýsa tillöguna nema að fengnum meðmælum Skipulagsstofnunar, sbr. 3. tl. bráðabirgðaákvæða skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Eftir þessum meðmælum leituðu bæjaryfirvöld en var synjað vegna ágalla sem Skipulagsstofnun taldi vera á skipulagstillögunni.  Verður ekki fallist á að umrædd samþykkt bæjaryfirvalda frá ágúst 2005 sé bindandi fyrir bæjaryfirvöld þótt hún hafi ekki verið afturkölluð, enda var hún háð skilyrðum sem ekki tókst að uppfylla. 

Kærendur lögðu fram nýja og endurbætta tillögu að deiliskipulagi fyrir jörðina 12. desember 2007.  Var þeirri tillögu hafnað með hinni kærðu ákvörðun bæjarstjórnar frá 18. desember 2008. 

Af hálfu Grundarfjarðarbæjar er krafist frávísunar málsins á þeim grundvelli að kæran hafi borist að liðnum kærufresti.  Á þá kröfu verður ekki fallist.  Miða verður við að kæra í málinu hafi komið fram er samgönguráðuneytið móttók erindi kærenda hinn 11. febrúar 2009.  Var þá að vísu liðinn eins mánaðar kærufrestur samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga, en eins og hér stendur á þykir það ekki eiga að leiða til frávísunar, enda skorti á að kærendum væri gert kunnugt um kæruheimild, kærufrest og kærustjórnvald er þeim var kynnt niðurstaða bæjaryfirvalda.  Verður því að teljast afsakanlegt að þeim hafi ekki verið kunnugt um hinn stutta kærufrest sem gildir í þessu tilviki og verður málið því tekið til efnisúrlausnar með vísan til 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Samkvæmt 1. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga er landeiganda eða framkvæmdaraðila heimilt að gera tillögu til sveitarstjórnar að deilskipulagi eða breytingu á deiliskipulagi á sinn kostnað en ekki er í ákvæðinu kveðið á um það hvers konar samþykki sé áskilið þegar um óskipta sameign sé að ræða.  Gilda því um það almennar reglur, eftir atvikum reglur fjöleignarhúsalaga, sé um eign að ræða sem fellur undir þau.  Þau lög gilda hins vegar ekki um sameign af því tagi sem hér um ræðir og koma því ekki til álita í máli þessu.   Um sérstaka og óskipta sameign, svo sem þá er hér um ræðir, gildir almennt að til allra meiri háttar ráðstafana er varða eignina þarf samþykki allra sameigenda.  Gildir þetta t.d. um sölu, veðsetningu og leigu til lengri tíma og aðrar varanlegar ráðstafanir á eigninni.  Verður að ætla að deiliskipulag, sem felur í sér ákvörðun um framtíðarnot lands og fyrirkomulag mannvirkja, teljist til meiri háttar ráðstafana og sé því háð samþykki allra sameigenda nema fyrir liggi umboð eða tilnefning fyrirsvarsmanns skv. 9. gr. jarðalaga nr. 81/2004, þar sem það á við.  Liggja engar slíkar heimildir fyrir í máli þessu.

Þar við bætist að á skipulagstillögunni voru ágallar sem fóru í bága við ákvæði gr. 4.11.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, en ákvæðið verður vart skilið á annan veg en þann að hverju sumarhúsi skuli fylgja lóð, sbr. og gr. 62.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998. 

Samkvæmt framansögðu skorti á að fullnægjandi samþykki landeigenda lægi að baki beiðni þeirra um samþykkt deiliskipulags auk þess sem tillagan var haldin efnisannmörkum.  Var bæjarstjórn Grundarfjarðabæjar því rétt að synja umræddri skipulagstillögu, svo sem hún gerði, og verður kröfu kærenda um ógildingu þeirrar ákvörðunar því hafnað. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar frá 18. desember 2008 um að synja tillögu að deiliskipulagi fyrir Neðri-Lá í Eyrarsveit. 

_____________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________          ____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

124/2007 Hólmsheiði

Með

Ár 2010, þriðjudaginn 30. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 124/2007, kæra á ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 22. ágúst 2007 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir sléttun svæðis, grjóthreinsun og tilfærslu trjágróðurs til undirbúnings gerðar flugbrautarsvæðis, bílastæða, flugskýla og félagsheimilis fyrir starfsemi Fisfélags Reykjavíkur á Hólmsheiði. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 26. september 2007, er barst nefndinni 28. sama mánaðar, kærir Magnús Guðlaugsson hrl., f.h. Græðis, félags landeigenda í Óskoti og Reynisvatnslandi, þá ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 22. ágúst 2007 að veita framkvæmdaleyfi fyrir sléttun svæðis, grjóthreinsun og tilfærslu trjágróðurs til undirbúnings gerðar flugbrautarsvæðis, bílastæða, flugskýla og félagsheimilis fyrir starfsemi Fisfélags Reykjavíkur á Hólmsheiði.  Gerir kærandi þá kröfu að framkvæmdaleyfið verði fellt úr gildi. 

Málsatvik og rök:  Hinn 22. ágúst 2007 tók skipulagsráð Reykjavíkur fyrir umsókn Fisfélags Reykjavíkur um framkvæmdaleyfi fyrir tilteknum jarðvegsframkvæmdum til undirbúnings áformaðri fisflugstarfsemi félagsins á Hólmsheiði.  Var umsóknin samþykkt og framkvæmdaleyfið gefið út hinn 3. september 2007. 

Kærandi vísar til þess að fyrirhuguð starfsemi framkvæmdaleyfishafa verði í um 400 metra fjarlægð frá þeim sumarbústöðum félagsmanna kæranda sem næstir séu svæðinu en flest öll lönd og bústaðir þeirra séu í minna en kílómeters fjarlægð.  Umdeilt svæði sé skilgreint í gildandi aðalskipulagi sem opið svæði til sérstakra nota en það hafi ekki verið deiliskipulagt.  Verði helst ráðið af skipulagsuppdrætti að áformað hafi verið að nýta svæðið til skógræktar. 

Í grein 4.12.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 séu opin svæði til sérstakra nota skilgreind sem svæði með útivistargildi þar sem gert sé ráð fyrir mannvirkjagerð í tengslum við þá starfsemi sem þar sé stunduð og séu í ákvæðinu tilfærð dæmi um ýmis konar starfsemi sem talið sé að geti fallið undir umrædda landnotkun.  Í 2. mgr. gr. 4.12.2 sömu reglugerðar segi að í deiliskipulagi skuli gera grein fyrir mannvirkjagerð, efnisnotkun og litavali, gróðri og girðingum, bílastæðum og frárennsli o.fl.  Samkvæmt framangreindu ákvæði þurfi að gera deiliskipulag að þeim mannvirkjum sem áformuð séu á umræddri spildu áður en til mannvirkjagerðar geti komið á svæðinu.  Jafnframt þurfi, á grundvelli þess skipulags, að veita framkvæmda- og byggingarleyfi fyrir einstökum framkvæmdum og mannvirkjum eftir því sem við geti átt. 

Í máli þessu sé staðan sú að hvorki liggi fyrir deiliskipulag af svæði því sem ætlað sé undir starfsemi framkvæmdaleyfishafa né teikningar af þeim mannvirkjum sem nú sé verið að heimila undirbúning að.  Telja verði að slík undirbúningsvinna við gerð flugbrauta, bílastæða, flugskýla og félagsheimila sé óheimil að óbreyttu aðalskipulagi nema að undangenginni gerð deiliskipulags fyrir svæðið svo sem skylt sé skv. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Borgaryfirvöld telji að áformuð starfsemi á Hólmsheiði fari ekki í bága við skilgreinda landnotkun svæðisins í aðalskipulagi sem opið svæði til sérstakra nota.  Að svo komnu sé ekki gert ráð fyrir varanlegri mannvirkjagerð á svæðinu en ef til þess kæmi yrði það tekið til skipulagningar eða byggingarleyfisumsókn grenndarkynnt.  Ekki verði séð að hið kærða framkvæmdaleyfi, sem heimili einungis í sér tilteknar framkvæmdir við að slétta og lagfæra jarðvegsyfirborð og tíundaðar séu í umsókn, hafi þau áhrif á nágrennið að til álita komi að ógilda framkvæmdaleyfið. 

Rétt sé að koma því á framfæri að deiliskipulagstillaga að umræddu svæði hafi verið auglýst eftir að kæra hafi borist í máli þessu.  Þar sé gert ráð fyrir að svæðið sé ætlað tímabundið undir starfsemi Fisfélags Reykjavíkur og verði þar flugbrautir og æfingaaðstaða fyrir vélknúin fis, svæði fyrir bílastæði og flugskýli og svæði fyrir félagsheimili og útivist. 

Framkvæmdaleyfishafa var gefinn kostur á að tjá sig um kæruefnið en athugasemdir af hans hálfu hafa ekki borist úrskurðarnefndinni. 

Niðurstaða:  Í hinu kærða framkvæmdaleyfi fólst einungis heimild til umráðaaðila viðkomandi landspildu á Hólmsheiði að slétta og grjóthreinsa jarðvegsyfirborð og færa til trjágróður.  Þótt fram komi að framkvæmdirnar séu hugsaðar til undirbúnings fyrirhugaðrar fisflugsstarfsemi leyfishafa á svæðinu, felur hin kærða ákvörðun ekki í sér heimild til slíkrar starfsemi eða til gerðar mannvirkja í tengslum við hana. 

Að þessu virtu verður ekki séð að heimilaðar framkvæmdir séu þess eðlis að þær geti raskað grenndarhagsmunum félagsmanna kæranda sem umráðamanna lands í nokkur hundruð metra fjarlægð frá umræddu svæði.  Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni enda telst kærandi ekki aðili máls í skilningi 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

_____________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________            ____________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson

8/2009 Hólatorg

Með

Ár 2010, miðvikudaginn 24. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 8/2009, kæra á samþykkt skipulagsráðs Reykjavíkur frá 1. október 2008 um breytingu á deiliskipulagi Hólatorgsreits, er tók til lóðarinnar að Hólatorgi 2, og á ákvörðun byggingarfulltrúa frá 3. febrúar 2009 um að veita leyfi til stækkunar rishæðar hússins að Hólatogi 2, byggja tvennar svalir á vesturhlið, koma þar fyrir dyrum og tröppum út í garð og endurbyggja skúr á lóðinni. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 11. febrúar 2009, er barst nefndinni hinn 12. s.m., kæra G og S, Hávallagötu 1, G, Hávallagötu 3 og Á, S og S, Garðastræti 45, Reykjavík, samþykkt skipulagsráðs Reykjavíkur frá 1. október 2008 um breytingu á deiliskipulagi Hólatorgsreits, er tók til lóðarinnar að Hólatorgi 2.  Hin kærða deiliskipulagsbreyting tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 12. janúar 2009.  Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 13. febrúar s.á., er barst nefndinni samdægurs, kæra ennfemur N og H, Hávallagötu 1, framangreinda deiliskipulagsákvörðun. 

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 2. mars 2009, er barst nefndinni hinn 3. s.m., kæra allir fyrrgreindir aðilar ákvörðun byggingarfulltrúa frá 3. febrúar 2009 um að veita leyfi til að stækka rishæð hússins að Hólatorgi 2 með því að hækka þak viðbyggingar og breyta í mænisþak, byggja tvennar svalir á vesturhlið, koma þar fyrir dyrum og tröppum út í garð og endurbyggja skúr á lóðinni.  Ákvað úrskurðarnefndin að sameina tvö hin síðari kærumál máli þessu. 

Gera kærendur þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi.  Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 24. nóvember 2009, gerðu kærendur að Hávallagötu 1 ennfremur kröfu um að kveðinn yrði upp til bráðabirgða úrskurður um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Var þá langt komið endurbyggingu skúrs að Hólatorgi 2, en engar aðrar framkvæmdir er máli skipta hafa átt sér stað eftir að krafa kom fram um stöðvun framkvæmda og hefur því ekki verið tilefni til að taka hana sérstaklega til úrlaunsar.  Er málið nú tekið til endanlegs úrskurðar.

Málavextir:  Árið 2004 öðlaðist gildi deiliskipulag svokallaðs Hólatorgsreits, er tekur til hluta Sólvallagötu, Blómvallagötu, Hávallagötu, Garðastrætis og Hólatorgs, og er á svæðinu gróin íbúðarhúsabyggð.  Samkvæmt skipulaginu er gert ráð fyrir að byggja megi við núverandi hús og/eða byggja bílskúr á öllum lóðum á svæðinu nema að Hólatorgi 2.  Þar eru ekki heimilaðar neinar breytingar en aftur á móti segir svo í greinargerð skipulagsins varðandi þá lóð:  „Á lóð nr. 2 [við Hólatorg] er skúr sem byggður var sem bílskúr, en hefur ekki verið notaður sem slíkur, og er nú geymsluskúr.  Leyfilegt er að endurbyggja skúrinn á sama stað og hann er nú með þeim skilmálum er koma fram um nýbyggingar bílskúra …“  Eftir gildistöku deiliskipulagsins, eða á árinu 2006, óskaði eigandi hússins að Hólatorgi 2 eftir heimild til breytinga á húsinu.  Ekkert varð af þeim fyrirætlunum. 

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 6. maí 2008 var lögð fram umsókn um leyfi til að stækka rishæð hússins nr. 2 við Hólatorg með því að hækka þak viðbyggingar og breyta í mænisþak, byggja tvennar svalir á vesturhlið hússins, koma þar fyrir dyrum og tröppum út í garð og endurbyggja skúr.  Nánar tiltekið fól umsóknin í sér að rishæð hússins yrði stækkuð um 20,8 m² og geymsluskúr á lóð minnkaður um 12,2 m².  Var afgreiðslu umsóknarinnar frestað og málinu vísað til umsagnar skipulagsstjóra.  Á embættisafgreiðslufundi skipulagsstjóra 30. maí s.á. var málið tekið fyrir og eftirfarandi bókað:  „Frestað.  Samræmist ekki deiliskipulagi.  Ekki eru gerðar athugasemdir við það að umsækjendur láti vinna tillögu að breytingu á deiliskipulagi á eigin kostnað, í samræmi við erindið, sem síðar verður grenndarkynnt.“ 

Á embættisafgreiðslufundi skipulagsstjóra 4. júlí 2008 var eftirfarandi fært til bókar:  „Hólatorg 2, breyting á deiliskipulagi.  Lögð fram umsókn, dags. 27. júní 2008, um að hækka þak á stigahúsi á norðurhlið og breyta því í mænisþak, gera svalir á rishæð á vesturhlið stigahússins og endurgera svalir á 2. hæð.  Meðfylgjandi eru uppdrættir, dags. 1. júlí 2008.  Samþykkt að kynna framlagða tillögu fyrir hagsmunaaðilum að Garðastræti 43, 45 og 47, Hávallagötu 1 og 3 ásamt Hólatorgi 4.“  Bárust skipulags- og byggingaryfirvöldum borgarinnar athugasemdir vegna grenndarkynningarinnar, m.a. frá kærendum.  Að lokinni grenndarkynningu var málið tekið fyrir að nýju á fundi skipulagsráðs 1. október 2008 og lögð fram umsögn skipulagsstjóra, dags. 17. september 2008.  Var eftirfarandi fært til bókar:  „Kynnt tillaga samþykkt með vísan til a-liðar 12. gr. samþykktar um skipulagsráð og umsagnar skipulagsstjóra.“

Skipulagsstofnun tilkynnti með bréfi til skipulags- og byggingarsviðs borgarinnar, dags. 23. október 2008, að stofnunin gerði athugasemdir við birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda.  Var einkum vísað til þess að Reykjavíkurborg hefði ekki svarað efnislega öllum athugasemdum er borist hefðu vegna grenndarkynningarinnar.  Með bréfi skipulags- og byggingarsviðs til Skipulagsstofnunar, dags. 26. janúar 2009, uppfærðu 20. febrúar s.á., var beðist velvirðingar á því að stofnuninni hefði aðeins verið send drög að umsögn skipulagsstjóra.  Segir ennfremur:  „Rétt umsögn fylgir með bréfi þessu og hefur öllum þeim er gerðu athugasemdir verið send rétt umsögn þar sem öllum athugasemdum er svarað.“ 

Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar birtist í B-deild Stjórnartíðinda 12. janúar 2009. 

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 3. febrúar 2009 var samþykkt umsókn um leyfi til að stækka rishæð hússins að Hólatorgi 2 með því að hækka þak viðbyggingar og breyta í mænisþak, byggja tvennar svalir á vesturhlið, koma þar fyrir dyrum og tröppum út í garð og endurbyggja skúr á lóðinni.  Var samþykkt byggingarfulltrúa staðfest á fundi borgarráðs 5. febrúar 2009. 

Hafa kærendur skotið greindum ákvörðunum til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er því haldið fram að hinar kærðu ákvarðanir séu haldnar form- og efnisannmörkum, ásamt því að ganga gegn lögmætum hagsmunum þeirra, er leiða eigi til ógildingar hinna kærðu ákvarðana.  

Vísað sé til þess að núverandi deiliskipulag Hólatorgsreits sé frá árinu 2004.  Telji kærendur að þeir eigi að geta treyst því að deiliskipulaginu sé ekki breytt stuttu eftir samþykkt þess nema slíkt sé nauðsynlegt.  Á svæði því sem um ræði hafi verið gætt íhaldssemi um allar breytingar og hafi ýmsum viðaminni breytingum en þeirri er hér um ræði verið hafnað. 

Það hafi komið kærendum á óvart að fyrirhugaðar væru breytingar á húsinu að Hólatorgi 2.  Tveimur árum fyrr hafi sami eigandi sótt um leyfi til breytinga sem hafi verið mun viðaminni.  Þá hafi verið fundað með aðilum án þess að sættir næðust.  Fram hafi hins vegar komið í niðurstöðum skipulags- og byggingarsviðs að ekki skyldi gera breytingar á húsinu að Hólatorgi 2 nema í sátt við nágranna.  Í þessu hafi síður en svo falist nokkur geðþóttaákvörðun, heldur hafi afstaðan í raun verið óhjákvæmileg og eigi um leið stoð í gildandi deiliskipulagi, er miði að verndun íbúðarbyggðar á skipulagsreitnum.  Telji kærendur að þau eigi að geta treyst því að sú ákvörðun standi og ekki sé hægt tveimur árum síðar að sækja um mun viðameiri breytingar. 

Kærendur hafi komið á framfæri athugasemdum sínum vegna hinna kærðu ákvarðana sem virðist hafa verið samþykktar án sérstakrar efnisumræðu.  Liggi fyrir að kærendur séu ekki ein um skoðanir sínar þar sem Skipulagsstofnun hafi í bréfi sínu, dags. 23. október 2008, lýst sama viðhorfi.  Kærendum hafi verið tilkynnt niðurstaða skipulagsráðs, en athugasemdum ekki svarað efnislega, hvorki bréflega né bókað um ástæðu fyrir sinnaskiptum ráðsins. 

Bent sé á að allir umsagnaraðilar sem hafi tjáð sig vegna grenndarkynningarinnar hafi lýst sig andvíga hinni kærðu breytingu á húsinu að Hólatorgi 2.  Áður en ákvörðun um breytingar hafi verið tekin hafi áhrif þeirra á næsta nágrenni ekki verið nægjanlega rannsökuð, en kanna hefði átt áhrif á skuggamyndun á fleiri tímum dags og fleiri hús en gert hafi verið.  Skuggamyndun sé aðeins hluti þess sem athuga þurfi varðandi birtu að nágrannahúsunum og útsýni frá þeim.  Áhrifin séu mikil gagnvart öllum húsunum og þyki m.a. ástæða til að benda sérstaklega á athugasemdir íbúa á annari hæð Garðastrætis 45, þar sem áhrif á sjónhringinn séu ekki síður róttæk en Hávallagötumegin.  Virðist sýnt að hjá þeim geti orðið smátt um „vorkvöld í Vesturbænum“ eftir hækkun bakhússins og takmörkuð prýði að því nývirki sem birtast muni framan við sjónarrönd. 

Ákvörðun skipulagsráðs hafi ekki verið rökstudd á neinn veg sem sé andstætt bæði ákvæðum skipulags- og byggingalaga nr. 73/1997 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Þessu til áréttingar sé vísað til umsagnar skipulagsstjóra, dags. 17. september 2008, þar sem segi m.a:  „Þegar þetta mál var í gangi fyrir tveimur árum var tekin sú afstaða að ekki skyldi breyta deiliskipulaginu, nema að sátt næðist við nágranna.  Deiliskipulagið er mjög vandlega unnið og tekur á öllum þáttum sem varða byggingar, bílastæði, garðveggi ofl.  Deiliskipulagið hefur ákveðinn sveigjanleika, þar sem heimilt er að gera minni háttar breytingar á húsum ef þær falla vel að byggingarstíl þeirra.  Eins og fyrr segir fellur breytingin ekki illa að byggingarstíl hússins.“  Þau ummæli sem viðhöfð séu í fyrri málsgreininni um deiliskipulagið frá 2004 skýri á engan hátt hvernig unnt hafi verið að hverfa frá þeirri afstöðu að skipulaginu skyldi ekki breyta nema í sátt við nágranna hlutaðeigandi húseigna.  Sú staðhæfing að í deiliskipulaginu búi sveigjanleiki til að leyfa minni háttar breytingar, sem falli vel að byggingarstíl húsa, svari þessu einmitt ekki þar sem hún varði húsin sjálf en ekki grenndaráhrif breytinganna.  Enda yrði hún að öðrum kosti í beinni mótsögn við fyrrnefnda umsögn skipulagsstjóra þar sem staðfest sé að skilmálar deiliskipulagsins heimili aðeins „minni háttar breytingar … sem sannanlega hafi engin grenndaráhrif. “ 

Á sama hátt sé síðari málsgreinin haldlaus sem röksemd gagnvart athugasemdum og hagsmunum kærenda.  Efni hennar sé greinilega sótt í bréf Húsafriðunarnefndar til arkitekta byggingarleyfishafa, dags. 9. maí 2008.  Í umsögn nefndarinnar segi eftirfarandi:  „Ekki er gerð athugasemd við erindið enda er umbeðin hækkun á inngönguskúr vel útfærð í samræmi við aldur og gerð hússins og kemur hvorki til með að rýra varðveislugildi hússins sjálfs né stöðu þess á svæði sem nýtur verndar skv. deiliskipulagi.“  Ráða megi af þessu að Húsfriðunarnefnd hafi einblínt á húsið sjálft en ekki talið ástæðu til að fjalla sérstaklega um grenndaráhrif af hækkun bakhússins.  Sé þetta e.t.v. eðlilegt svo langt sem það nái en vekji nokkra furðu í þessu tilviki.  Hvað sem því líði megi ljóst vera að umsögnin veiti ekki bein svör við neinum spurningum um ríka hagsmuni kærenda.  Það leiði af því og framansögðu að skipulagsráði hafi ekki verið rétt að samþykkja umsókn byggingarleyfishafa á grundvelli umsagnar skipulagsstjóra einnar saman. 

Þá hafi breytingin verið kynnt með grenndarkynningu en ekki með auglýsingu í Lögbirtingarblaði eins og beri að gera þegar um verulega breytingu á deiliskipulagi sé að ræða.  Kærendur telji fyrirhugaðar breytingar meiri háttar með vísan til þess að um sé að ræða breytingar á þriðjungi grunnflatar á risinu ásamt því að nýtilegur grunnflötur hússins aukist um 24 m², sem sé fimmtungur af heildargrunnfleti þess eftir breytingu.  Þá standi til að gera vistarrými úr bakhúsi sem áður hafi eingöngu verið nýtt sem inngangur og stigagangur.  Stigagangshúsið hafi frá öndverðu verið hugsað og hannað sem viðauki við meginhúsið, til að hámarka nýtingarrými þess, en ekki til að mynda eigið vistarrými.  Þurfi vart að efa að tillit til nærliggjandi eigna hafi ráðið þessari tilhögun.  Með breytingunni sé ætlunin að færa þak meginhússins út yfir allan „inngönguskúrinn“ sem næst í fullri rishæð og um leið með þeim árangri að húsið fái nýjan mæniás suður/norður, er verði að auki mun lengri en núverandi meginás austur/vestur.  Sé einfaldast að lýsa þessu þannig að verið sé að innlima bakhúsið í meginhúsið og bylta stærðarhlutföllum þess.  Sé m.a. ekki unnt að ræða um breytinguna sem kvistbyggingu, enda eigi hún sér ekki hliðstæður innan byggingarreitsins þar sem nær öll hús Hólatorgsmegin séu með meginás austur/vestur og hallandi norðurþak án útskota umfram það sem telja megi minni háttar.  

Með svölum á vesturhlið annarrar hæðar og á rishæð, svo og glugga í norður, telji kærendur að gengið sé á heimilishelgi þeirra þar eð ný vistarrými og svalir verði í beinni sjónlínu við helstu vistarrými að Hávallagötu 1, þ.e. stofur og gang.  Hið sama gildi reyndar um vistarrými á neðri hæð Hávallagötu 1 og einnig hluta vistarrýmis að Hávallagötu 3.  Í þessu samhengi sé rétt að benda á að á bakhlið Hólatorgs 2, þ.e. í stigahúsinu, séu nú engin herbergi eða fastir íverustaðir.  Heimilað sé íverurými í bakhúsi og með því gengið á heimilishelgi sem íbúar að Hávallagötu 1 hafi hingað til notið í helstu vistarrýmum.  Þá þyki íbúum að Hávallagötu 1 gengið á byggingarlega fagurfræði síns húss með breytingum á bakhúsi að Hólatorgi 2. 

Skuggavarp muni aukast í næsta nágrenni, aðallega í garði og á fyrstu tveimur hæðum að Hávallagötu 1.  Lóðin að Hávallagötu 1, sem liggi að Hólatorgi 2, sé ein sú minnsta í húsaröðinni við Hávallagötu.  Þá sé þrengra á milli húsa að Hólatorgi 2 og Hávallagötu 1 en milli annarra húsa við Hólatorg og Sólvallagötu annars vegar og hins vegar húsa við Hávallagötu.  Af því leiði að skuggavarp af þessu rismikla húsi, sem nú standi til að hækka að hluta, sé til muna meira í garðinum að Hávallagötu 1 en aðrir íbúar við götuna búi almennt við.  Einnig sé einsýnt að aukin skuggamyndun verði í garði að Hávallagötu 3 og að Garðastræti 45.  Jafnframt skerði breytingin útsýni íbúa, s.s. þeirra sem búi að Garðastræti 45. 

Breytingin brjóti í bága við allar grundvallarforsendur að tilhögun bygginga á deiliskipulagsreitnum og hönnun sjálfs hússins, ásamt því að raska götumyndinni við suðurenda Garðastrætis til tjóns fyrir íbúa handan götunnar.  Með vísan til alls þessa sé um meiri háttar breytingu á deiliskipulagi að ræða sem hefði þurft að auglýsa eins og um nýtt deiliskipulag væri að ræða samkvæmt 26. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Nái hin kærða deiliskipulagsbreyting fram að ganga verði hún fordæmisgefandi fyrir önnur hús í nágrenninu og geti haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir skipulag nágrennisins. 

Vakin sé athygli á því að stór geymsluskúr, sem tilheyri Hólatorgi 2 og standi á mörkum lóðanna að Hólatorgi 2 og Hávallagötu 1, hafi aldrei verið samþykktur af hálfu íbúa að Hávallagötu 1.  Kvöð um niðurrif hafi hvílt á þessum skúr en hún felld úr gildi og hafi aldrei verið gefinn kostur á því að gera athugasemdir við það.  Skúrinn spilli heildarmynd garðsins og skyggi á sólu.  Skúrinn sé á deiliskipulagi sem samþykkt hafi verið árið 2004, en ekki hafi verið tekið fram að hann hafði áður verið reistur með kvöð um niðurrif. 

Til stuðnings kröfu sinni um ógildingu hins kærða byggingarleyfis vísi kærendur til þess að það byggi á deiliskipulagi sem þeir telji ekki gilt að lögum og hafi kært til úrskurðarnefndarinnar.  Að auki sé bent á að í kjölfar ákvörðunar skipulagsráðs um breytt deiliskipulag hafi Skipulagsstofnun gert athugasemdir við breytinguna.  Eftir að kærur hafi borist úrskurðarnefndinni hafi kærendum verið tjáð að athugasemdum stofnunarinnar hafi verið svarað með bréfi frá skipulags- og byggingarsviði.  Málsmeðferð þessi sé óskiljanleg og fái kærendur ekki séð hvernig hin lagfærða umsögn geti talist vera það sem legið hafi fyrir skipulagsráði þegar hin kærða ákvörðun þess hafi verið tekin. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er bent á að mál þetta eigi sér nokkra forsögu.  Árið 2006 hafi verið lögð fram fyrirspurn hjá embætti skipulagsfulltrúa um hvort leyft yrði að hækka þak á stigahúsi hússins að Hólatorgi 2.  Talið hafi verið að breytingin gæti haft áhrif á nágrannalóðir vegna aukins skuggavarps og innsýnar og samræmdist því ekki gildandi deiliskipulagi svæðisins.  Í kjölfar fyrirspurnarinnar hafi verið lögð fram umsókn um breytingu á deiliskipulagi.  Hafi tillagan verið grenndarkynnt hagsmunaaðilum sem óveruleg breyting á deiliskipulagi og hafi athugasemdir borist.  Hafi verið reynt að sætta málsaðila en ekki tekist og hafi því ekkert orðið af framkvæmdum. 

Bent sé á að í umsögn skipulagsstjóra hafi komið fram að byggingarleyfisumsóknin væri frábrugðin þeirri sem kynnt hafi verið tveimur árum fyrr.  Húsafriðunarnefnd hafi talið að breytingin myndi fara húsinu vel en hafa í för með sér aukið skuggavarp á hús og lóð að Hávallagötu 1. 

Varðandi þá málsástæðu kærenda að málsmeðferð hafi verið ófullnægjandi með vísan til bréfs Skipulagsstofnunar, dags. 23. október 2008, sé bent á að tillagan hafi verið lögð fyrir skipulagsráð 1. október 2008 og samþykkt með vísan til a-liðar 12. gr. samþykktar um skipulagsráð og umsagnar skipulagsstjóra.  Í bréfi Skipulagsstofnunar sé bent á að í umsögn Reykjavíkurborgar hafi ekki verið nægilega svarað athugasemdum sem borist hefðu vegna grenndarkynningarinnar varðandi skuggavarp, innsýn, útlit húss og breytingu á nýlegu deiliskipulagi.  Í bréfi skipulags- og byggingarsviðs til Skipulagsstofnunar, dags. 20. febrúar 2009, hafi verið beðist velvirðingar á því að með fyrra bréfi hafi einungis fylgt drög að umsögn skipulagsstjóra.  Rétt umsögn hafi fylgt bréfinu og hafi öllum þeim er gert höfðu athugasemdir verið send rétt umsögn þar sem öllum athugasemdum hafi verið svarað.  Þrátt fyrir ofangreinda vankanta á umsögninni sé það mat Reykjavíkurborgar að þeir séu ekki þess eðlis að það varði ógildingu deiliskipulagsbreytingarinnar, enda hafi Skipulagsstofnun gert athugasemd við umsögnina sem síðan hafi verið bætt úr.  Verði ekki séð hvaða heimildir í skipulags- og byggingarlögum standi til að ógilda heildarmeðferð máls þegar svo standi á.  Hafi Skipulagsstofnun oft á tíðum gert athugasemdir við erindi sem þessi og talið að ekki væri hægt að svara þeim nema betrumbætt gögn lægju fyrir.  Hafi slíkar athugasemdir hingað til ekki varðað ógildingu kærðra ákvarðana út af fyrir sig. 

Því sé hafnað að um verulega breytingu á deiliskipulagi hafi verið að ræða sem kallað hafi á nýtt deiliskipulag og þá heildarendurskoðun á skipulagi.  Engin fordæmi séu fyrir því að á einbýlishúsalóðum sé deiliskipulag tekið til heildarendurskoðunar þó fram komi óskir einstakra lóðarhafa um breytingar.  Það hafi verið mat borgarinnar að um óverulega breytingu á deiliskipulagi væri að ræða sem þyrfti að grenndarkynna, sbr. 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga, og hafi málsmeðferðin verið í samræmi við það.  Um matsatriði sé að ræða hverju sinni, þ.e. hvort breyting á deiliskipulagi teljist veruleg eða óveruleg, og sé hin kærða deiliskipulagsbreyting í öllum skilningi minni háttar.  Áhrif breytingarinnar séu lítil á deiliskipulagið í heild og grenndaráhrif hennar óveruleg, breytingin varði einungis eina lóð og hafi áhrif á hagsmuni mjög fárra einstaklinga. 

Þegar sótt hafi verið um að stækka viðbyggingu fyrir tveimur árum hafi verið tekin sú afstaða hjá embætti skipulagsfulltrúa að ekki skyldi leggja til við skipulagsráð að samþykkja breytingu á deiliskipulaginu nema sátt næðist við nágranna.  Deiliskipulagið sé mjög vandlega unnið og taki á öllum þáttum sem varði byggingar, bílastæði, garðveggi o.fl.  Deiliskipulagið hafi ákveðinn sveigjanleika þar sem heimilt sé að gera minni háttar breytingar á húsum ef þær falli vel að byggingarstíl þeirra.  Með vísan til þessarar afstöðu hafi ekki náðst samkomulag um útfærslu breytingarinnar á sínum tíma og hún því ekki afgreidd.  Þegar nýtt erindi hafi borist skipulags- og byggingarsviði hafi verið ákveðið að endurtaka fyrri málsmeðferð, þ.e. að grenndarkynna tillöguna fyrir sömu hagsmunaaðilum og áður. 

Athugasemdir vegna útsýnisskerðingar, innsýnar og skuggavarps séu skiljanlegar.  Flestar viðbyggingar eða stækkanir húsa í svo þéttbyggðu umhverfi hafi áhrif á nágrannabyggð.  Hækkun viðbyggingar með litlum viðbótarglugga efst á gafli hennar auki skuggavarp á nærliggjandi lóðir, valdi meiri birtuskerðingu og jafnvel einhverri innsýn. 

Minnsta fjarlægð milli Hólatorgs 2 og Hávallagötu 1 sé 12 m.  Það sé ekki minni fjarlægð en víða í hverfinu og húsin séu ekki meira en tvær hæðir auk rishæða.  Á tímabilinu maí til ágúst hafi hækkun viðbyggingar mjög lítil áhrif á skuggavarp í garði Hávallagötu 1 og nái skugginn þá aðeins lítillega inn á nágrannalóðina.  Þegar sól sé lægra á lofti, við jafndægur, nái skugginn hins vegar að falla á neðri hæð Hávallagötu 1 sem sé aukning frá því sem verið hafi fyrir breytinguna.  Skuggavarpið hafi eingöngu verið skoðað fyrir sumarmánuðina, þ.e. milli jafndægra, en það sé sá tími sem garður og svalir séu mest notuð.  Ekki hafi verið óskað eftir því við arkitekt hússins að sýna skuggavarp yfir vetrarmánuðina, þó svo að nágrannar hafi óskað eftir því.  Teikningar af skuggavarpi sem unnar hafi verið fyrir kynningu hafi verið taldar nægilegar til að hægt væri að átta sig á áhrifum breytingarinnar.  Málsástæðum kærenda varðandi skuggavarp sé því hafnað.  Bent sé á að á þeim tíma árs þegar sól sé lágt á lofti megi gera ráð fyrir auknu skuggavarpi nánast án tillits til þess hve breytingar á húsum séu litlar.  Á þeim tímum séu garðar almennt ekki notaðir til útiveru og sólbaða á sama hátt og á sumrin. 

Það hafi og verið mat skipulagsyfirvalda að breytingin félli ekki illa að byggingarstíl hússins.  Segi orðrétt í bréfi Húsafriðunarnefndar:  „Ekki er gerð athugasemd við erindið enda er umbeðin hækkun á inngönguskúr vel útfærð í samræmi við aldur og gerð hússins og kemur hvorki til með að rýra varðveislugildi hússins sjálfs né stöðu þess á svæði sem nýtur verndar skv. deiliskipulagi.“  Orðalag umsagnar gefi tilefni til að álykta að nefndin hafi talið breytinguna fara húsinu vel. 

Kvöð varðandi skúr hafi veriði aflétt þegar deiliskipulag það sem nú sé í gildi hafi verið samþykkt.  Því sé ekki vettvangur nú til að gera athugasemdir við það. 

Skipulagsyfirvöld hafi verið á þeirri skoðun að breytingin hefði grenndaráhrif og því hafi ekki verið hægt að telja hana samræmast eldri skilmálum sem heimiluðu minni háttar breytingu.  Hafi því verið talið að deiliskipulagsbreyting sú sem deilt sé um í máli þessu hafi verið nauðsynleg.  Segja megi að nánast allar breytingar sem varði stækkanir húsa hafi einhver áhrif á umhverfið.  Í þéttbýli verði menn að gera ráð fyrir einhverjum breytingum.  Verði ekki hjá þeim komist þótt deiliskipulagsáætlanir séu vel og nákvæmlega unnar.  Grenndaráhrif hinar kærðu breytingar hafi, að mati skipulagsyfirvalda, ekki verið meiri en vænta mátti í þéttri byggð. 

Þá ætti ekki að skipta kærendur máli hvort rýmið sé notað sem stigahús eða vistarrými.  Ekki hafi legið fyrir byggingarnefndarteikningar þegar málið hafi verið kynnt. 

Af hálfu kærenda sé því haldið fram að skipulagsyfirvöld hafi lofað að ekki yrðu gerðar breytingar á fasteigninni að Hólatorgi 2 nema í sátt við nágranna.  Þessu sé til að svara að á sínum tíma hafi það verið markmið skipulagsfulltrúa að sætta aðila.  Skipulags- og byggingarnefnd hafi ekki bókað neitt þessa efnis á sínum tíma og sé því ekki um að ræða opinbera afstöðu hennar til niðurstöðu málsins, enda þurfi að liggja fyrir rökstudd málefnaleg niðurstaða sem byggist á skipulagslegum forsendum þegar tillögu, sem vísað hafi verið í grenndarkynningu, sé synjað.  Bent sé á að athugasemdaraðilum hafi verið tilkynnt um niðurstöðuna með bréfi, dags. 7. október 2008. 

Með vísan til ofangreinds sé málsástæðum þess efnis að ekki hafi verið viðhaft samráð við íbúa vísað á bug sem órökstuddum.  Bent sé á að það sé ekki hlutverk lögbundins samráðs eða í samræmi við hugmyndir um íbúalýðræði að tryggja það að farið verði eftir öllum hugmyndum eða skoðunum sem íbúar hafi, enda væri slíkt ómögulegt. 

Því sé alfarið hafnað að hin kærða deiliskipulagsbreyting feli í sér slíka röskun á hagsmunum kærenda að það varði ógildingu hennar.  Sérstaklega sé nauðsynlegt að minna á að eigendur fasteigna í þéttbýli geti ávallt vænst þess að breytingar séu gerðar á skipulagi sem haft geti í för með sér skerðingu á útsýni, aukið skuggavarp, umferðaraukningu eða aðrar breytingar, enda sé beinlínis gert ráð fyrir því í skipulags- og byggingarlögum að deiliskipulagsákvarðanir geti tekið breytingum.  Verði menn almennt að sæta því að með almennum takmörkunum geti hagsmunir þeirra í einhverju verið skertir með slíkum breytingum. 

Kærendur geri ekki neinar efnislegar athugasemdir við hið kærða byggingarleyfi eða bendi á atriði sem leitt geti til ógildingar þess þrátt fyrir kröfu þeirra þar að lútandi. 

Málsrök byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er vísað til þess að málflutning kærenda verði að skoða í ljósi þess að þau vilji bregða fæti fyrir réttmætar og eðlilegar hugmyndir íbúa að Hólatorgi 2 til endurnýjunar og nýtingar hússins, m.a. með tilliti til brunavarna. 

Þrátt fyrir fullyrðingar kærenda um aukið skuggavarp vegna fyrirhugaðs kvists á norðurþaki líti kærendur að Hávallagötu 1 framhjá því að það skuggavarp sé þegar til staðar vegna hávaxinna trjáa sem séu á lóðamörkum Hávallagötu 1 og Hávallagötu 3.  Bent sé á að á norðurhlið hússins að Hólatorgi 2 séu þrír gluggar og úr þeim sjáist a.m.k. inn í öll suðurherbergi hússins að Hávallagötu 1.  Einn gluggi til viðbótar hafi því ekki áhrif í þessu sambandi. 

Skúrbygging hafi staðið á mörkum lóðanna nr. 2 við Hólatorg og nr. 1 við Hávallagötu frá því árið 1920, eða löngu áður en hús kærenda að Hávallagötu nr. 1 hafi verið reist árið 1939.  Skúrbyggingin byggi á hefðarrétti sem nái lengra aftur en ævi elstu íbúa við Hávallagötu. 

Svo virðist sem kærendur hafi ekki kynnt sér meginröksemdir deiliskipulags svæðisins eða að þau virði sjónarmið þess að vettugi.  Deiliskipulagið sé enn í gildi, utan að hert hafi verið á jafnræðissjónarmiðum í túlkun þess og þeim eina aðila sem undanþeginn hafi verið almennum reglum þess sé nú veittur sami réttur og öðrum.  Hið kærða byggingarleyfi auki ekki skuggamagn eða nábýli umfram það sem samþykkt sé og veitt sé í öðrum tilvikum á skipulagsreitnum. 

Andsvör kærenda við sjónarmiðum Reykjavíkurborgar og byggingarleyfishafa:  Kærendur bendi á að ekki hafi verið grenndarkynnt áform um tröppur út í garð á vesturhlið hússins að Hólatogi 2 og endurbyggingu skúrs á lóðarmörkum.  Á skúrnum hafi hvílt kvöð um niðurrif en henni hafi verið aflétt, án samráðs við nágranna.  Á árinu 2006 hafi sú afstaða verið tekin af skipulagsyfirvöldum í borginni að deiliskipulagi svæðisins yrði ekki breytt nema í sátt við nágranna.  Eigi að síður hafi hin kærða breyting verið staðfest án þess að kærendum hafi verið svarað efnislega eða verið reynt á einhverju stigi málsins að koma til móts við þá eða funda með þeim.  Samþykkt hafi verið tillaga er gangi mun lengra en fyrri tillaga frá árinu 2006 sem ekki hafi þá þótt rétt að samþykkja.  Ekki hafi kærendum verið gefin nein málefnaleg skýring á þessum sinnaskiptum skipulagsráðs. 

Umsögn skipulagsstjóra sé til í fjórum útgáfum, en í þremur breyttum útgáfum sé reynt að svara efnislega athugasemdum Skipulagsstofnunar.  Kærendum hafi aldrei verið svarað formlega eða sendar þessar síðar gerðu útgáfur af umsögn, dags. 17. september 2008, með uppfærðum dagsetningum.  Þessar eftirá útgáfur hafi ekki komið fyrr en í lok febrúar 2009 þegar kærendur hafi verið búnir að kæra til úrskurðarnefndarinnar.  Hin lagfærða umsögn, dags. 28. janúar 2009, hafi aldrei verið send kærendum formlega.  Það sé með ólíkindum að slík vinnubrögð skuli viðgangast í stjórnsýslu borgarinnar og að þau séu ekki álitin nógu alvarleg til að stoppa fyrirhugaðar breytingar á deiluskipulaginu. 

Grenndaráhrif séu veruleg.  Hvergi í nágrenni Hólatorgs 2 hafi verið heimiluð sambærileg breyting þar sem svo stór hluti af risi sé byggður ofan á rými sem ekki hafi áður gengt hlutverki íverustaðar og sé eingöngu anddyri og stigagangur.  Hlutfallslega sé hér um mikla stækkun á nýtilegu rými í risi að ræða, eða u.þ.b. 50% stækkun, er auki nýtingarrými um 20,8 m².  Auðveldlega sé hægt að gera sér grein fyrir því að innsýn úr nýju risi og svölum yrði töluvert truflandi fyrir íbúa að Hávallagötu 1.  Innsýn í íbúð að Hávallagötu 3 aukist einnig töluvert.

Af yfirlitsmynd byggðarinnar megi sjá að nálægðin sé langmest á milli Hólatorgs 2 og Hávallagötu 1, miðað við önnur hús á skipulagsreitnum, og sé hún meiri en víðast hvar í nágrenninu þó farið sé út fyrir reitinn.  Einnig sé ljóst að lóðirnar í kringum Hávallagötu 1 og Hávallagötu 5 séu langminnstar í reitnum og því viðkvæmastar fyrir frekari þrengingum og skuggavarpi. 

Fullyrðingar borgaryfirvald um skuggavarp séu órökstuddar og auk þess rangar.  Hið rétta sé að frá 7. maí og til 7. ágúst, kl. 16:30, skyggi húsið að Hólatorgi 2, án breytinga, á u.þ.b. 1/3 af suðurgarði Hávallagötu 1.  Með breytingum muni skuggavarp aukast um 25%.  Þetta hljóti að teljast frekar mikil breyting í litlum garði.  Á tímabilinu frá 22. mars til 22. sept., kl. 13:30, skyggi húsið að Hólatorgi 2, án breytinga, á rúmlega helming suðurgarðs Hávallagötu 1 og með breytingunni muni skuggavarp aukast um 20-25%.  Að vísu nái skugginn inn á suðurhlið Hávallagötu 1 og fari yfir daginn fyrir glugga kjallaraíbúðar og sé það mikil breyting.  Þegar sól sé enn lægra á lofti, t.d. frá september til mars, falli skuggi fyrr á svalir og glugga á efri hæðum.  Hinn 22. júní, kl. 16:30, aukist skuggavarp um 30% við breytinguna.  Samkvæmt framansögðu sé ljóst að fyrirhuguð bygging muni varpa töluverðum skugga og stela kvöldsólinni, að sumri til, frá íbúum að Garðastræti 45 sem sé nokkuð mikil breyting. 

Kærendur geri athugasemdir við að kvöð um niðurrif geymsluskúrs á lóðinni að Hólatorgi 2 hafi verið aflétt í deiliskipulagi svæðisins frá árinu 2004, enda hafi þeim aldrei verið kynnt niðurfelling kvaðarinnar og hafi þeir ekki vitað um hana fyrr en við grenndarkynningu árið 2006. 

Geymsluskúrinn, sem sótt sé um að komi í staðinn fyrir skúrinn sem búið sé að rífa, muni liggja eins og hann og skyggja mikið á gróður.  Allt umhverfi myndi njóta sín mun betur án skúrsins.  Þetta sé eini staki geymsluskúrinn í nágrenninu og þó víðar væri leitað. Það hljóti að teljast til undantekninga og lítt nútímalegt að leyfa að byggja slíkan skúr í gamalgrónu hverfi í Reykjavík.  Gerð sé athugasemd við það að skúrinn falli undir skilmála er lúti að bílskúrum þegar til standi að nota hann sem mjög stóra geymslu sem og stórt þvottahús sem jafnan fylgi íbúðarhúsum.  Hér sé því verið að stækka íbúðarhúsið með því að flytja hluta þess út í garð.  Ef leyfa eigi geymsluskúr á lóðamörkum Hólatorgs 2 og Hávallagötu 1 hljóti að teljast eðlilegt að kærendur hafi eitthvað um það að segja hversu stór hann sé og hvar hann sé staðsettur.  Skúrinn eigi að vera sem lengst frá lóðarmörkum þannig að hann skyggi sem minnst á suðurgarð Hávallagötu 1. 

Bent sé á að Húsafriðunarnefnd taki ekki afstöðu til áhrifa breytingarinnar á nærliggjandi hús eða nágrenni sem sé galli, því auðvitað skipti þau áhrif jafnvel meira máli en áhrifin á húsið sjálft.  Breytingin að Hólatorgi 2 muni raska götumyndinni við suðurenda Garðastrætis til tjóns fyrir nágranna.  Hinar kærðu breytingar á húsinu uppfylli ekki áherslu deiluskipulags svæðisins þess efnis að núverandi götumynd verði ekki breytt, nema til þess að færa nær upprunanum.  Skýrt komi fram í deiluskipulaginu að ekki sé leyfilegt að hækka þök eða setja á þau kvisti og því sé hér gróflega horft framhjá hinum stórkarlalegu breytingum. 

Varðandi hinar fyrirhuguðu framkvæmdir við húsið að Hólatorgi 2 og nálægð þess við lóðarmörk sé bent á að samkvæmt 1. mgr. 75. gr. byggingareglugerðar nr. 441/1998 séu tvenns konar reglur notaðar til að finna út lágmarksfjarlægð húsveggjar frá lóðarmörkum og skuli nota þá reglu sem gefi meiri fjarlægð.  Önnur reglan taki mið af meðalhæð húsveggjar er snúi að lóðarmörkum og síðan helminga og hin taki mið af því hvernig eldvörnum sé háttað.  Leyfileg hámarksfjarlægð inngangsskúrs frá lóðarmörkum Hávallagötu sé u.þ.b. 3,6 m miðað við hæð húsveggjar skúrsins í dag (u.þ.b. 7,3 m), en miðað við eldvarnir þegar útveggir fullnægi a.m.k. kröfum um REI30 og klæddir með klæðningu í flokki 2 megi fjarlægð ekki vera minni en 5 m og með klæðningu í flokki 1 ekki minni en 4 m.  Ef  leyfa eigi hækkun á inngangsskúr fari lágmarksfjarlægð húsgaflsins í u.þ.b. 4,4 m miðað við meðalhæð (u.þ.b. 8,87 m).  Fjarlægð inngangsskúrs frá lóðarmörkum við Hávallagötu sé í dag 4,58 m og samkvæmt byggingarreglugerð sé skúrinn of nálægt mörkum lóðar nr. 1 við Hávallagötu miðað við klæðningu útveggjar í flokki 2 (5 m fjarlægð).  Verði inngangsskúrinn hækkaður líkt og heimild standi til og bætt úr eldvörnum útveggja hússins sé samt sem áður vafi á því hvort byggingin sé nægilega langt frá lóðarmörkum eftir þessum almennu lágmarksreglum. 

Að lokum sé bent á að í gögnum málsins liggi fyrir að kærendur sem búsettir séu að Hávallagötu 1 hafi fellt tré í garði sínum þar sem þau hafi skyggt á sólu. 

——-

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Vettvangsganga:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 25. janúar 2010. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er annars vegar deilt um ákvörðun skipulagsyfirvalda í Reykjavík um breytingu á deiliskipulagi Hólatorgsreits frá árinu 2004 er tekur til lóðarinnar að Hólatorgi 2 og hins vegar ákvörðun byggingarfulltrúa um að veita leyfi til að stækka rishæð hússins að Hólatorgi 2 með því að hækka þak viðbyggingar og breyta í mænisþak, byggja tvennar svalir á vesturhlið, koma þar fyrir dyrum og tröppum út í garð og endurbyggja skúr á lóðinni. 

Af hálfu kærenda er því haldið fram að hin kærða deiliskipulagsbreyting sé þess eðlis að skipulagsyfirvöldum hafi verið óheimilt að fara með hana sem óverulega breytingu á deiliskipulagi samkvæmt 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, heldur hafi borið að auglýsa hana svo sem um nýtt deiliskipulag væri að ræða, sbr. 1. mgr. 26. gr. laganna. 

Samkvæmt deiliskipulagi svæðisins er á lóðinni nr. 2 við Hólatorg 336 m² tvílyft íbúðarhús með risi ásamt 43 m² bílskúr.  Nýtingarhlutfall lóðar er 0,74.  Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu er veitt heimild til að stækka húsið um 24 m²  en á móti kemur minnkun bílskúrs um 12 m².  Verður nýtingarhlutfall lóðar eftir breytingu 0,77.  Hefur eldir skúr þegar verið rifinn og nýr reistur í hans stað.   

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum mun breyting sú sem heimiluð er á húsinu að Hólatorgi 2 auka nokkuð skuggavarp og innsýn.  Það verður þó ekki meira en almennt má búast við í þéttri byggð, sem er innan skilgreinds miðborgarsvæðis samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024.   Með hliðsjón af því verður hin umrædda breyting talin óveruleg og var skipulagsyfirvöldum því heimilt, eins og þarna stóð á, að grenndarkynna tillögu að breyttu deiliskipulagi svæðisins.  Hefur það ekki áhrif á þessa niðurstöðu þótt skipulagsyfirvöld hafi á árinu 2006 hafnað breytingu á deiliskipulagi vegna umræddrar lóðar.  

Fallast má á með kærendum að meðferð málsins hafi verið ábótavant hvað varðar svör við athugasemdum, en þau voru í fyrstu ófullnægjandi, og var ekki endanlega úr því bætt fyrr en eftir gildistöku hinnar kærðu ákvörðunar.  Þessi ágalli þykir þó ekki eiga að leiða til ógildingar þegar til þess er litið að hann varðar meðferð máls eftir samþykkt sveitarstjórnar á hinni kærðu ákvörðun, auk þess sem ekki verður séð að hann hafi valdið kærendum réttarspjöllum. 

Athugasemdir kærenda, er varða framkvæmdir við skúr á lóðinni að Hólatorgi 2, lúta að ákvörðun er tekin var með samþykkt deiliskipulags á árinu 2004 og getur sú ákvörðun ekki sætt endurskoðun í máli þessu.  Þá verður ekki séð að þörf hafi verið að grenndarkynna áform um tröppur út í garð á vesturhlið hússins, enda bar ekki nauðsyn til að breyta deiliskipulagi vegna þeirra, heldur telst þetta fyrirkomulag eðlilegur hluti af byggingarleyfi hússins.

Samkvæmt öllu framansögðu er kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar hafnað, enda verður ekki fallist á að með henni hafi verið brotið gegn ákvæðum skipulags- og byggingarlaga eða stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Hið kærða byggingarleyfi er í samræmi við deiliskipulag svæðisins eftir framangreinda breytingu og þar sem ekki liggur fyrir að málsmeðferð við þá ákvarðanatöku hafi verið ábótavant eða að farið hafi verið gegn ákvæðum 75. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 með áorðnum breytingum verður kröfu kærenda um ógildingu leyfisins hafnað. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikilla anna og málafjölda hjá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar skipulagsráðs Reykjavíkur frá 1. október 2008 um breytingu á deiliskipulagi Hólatorgsreits er tók til lóðarinnar að Hólatorgi 2.  Jafnframt er hafnað kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Reykjavíkur frá 3. febrúar 2009 um að veita leyfi til stækkunar rishæðar hússins að Hólatogi 2, byggja tvennar svalir á vesturhlið, koma þar fyrir dyrum og tröppum út í garð og endurbyggja skúr á lóðinni. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________         ____________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson

79/2009 Kórsalir

Með

Ár 2010, þriðjudaginn 16. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 79/2009, kæra vegna lokaúttektar byggingarfulltrúa Kópavogs á fjölbýlishúsinu að Kórsölum 5 í Kópavogi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 13. nóvember 2009, er barst nefndinni sama dag, kærir húsfélagið að Kórsölum 5 í Kópavogi lokaúttekt byggingarfulltrúans í Kópavogi á greindu fjölbýlishúsi sem gefið var vottorð fyrir hinn 16. október 2009. 

Gerir kærandi þær kröfur að tekin verði afstaða til réttmætis athugasemda hans sem fram komu við lokaúttekt hússins og varða ákvæði byggingarreglugerðar nr. 441/1998 og að lagt verði fyrir byggingarfulltrúa að leggja fram öll gögn sem krafist sé að liggi fyrir við lokaúttekt og útgáfu úttektarvottorðs, sbr. 35. gr., 53. gr. og 54. gr. byggingarreglugerðar.  Reynist athugasemdir kæranda réttmætar varðandi hönnun, smíði og frágang hússins, verði lagt fyrir byggingarfulltrúa að hlutast til um að byggingaraðili lagfæri og endurbæti það sem nauðsynlegt sé til að lögmæt lokaúttekt geti farið fram og að því loknu verði gefið út nýtt lokaúttektarvottorð. 

Málsatvik og rök:  Fjölbýlishúsið að Kórsölum 5 í Kópavogi mun hafa verið tekið í notkun á árinu 2002.  Byggingarstjóri fyrir húsbyggingunni óskaði eftir lokaúttekt á byggingarframkvæmdunum og átti hún að fara fram hinn 28. júní 2005.  Sú ráðagerð gekk ekki eftir þar sem athugasemdir voru gerðar við framkvæmdir og var veittur frestur til 4. nóvember sama ár til að lagfæra tilgreind atriði en því var ekki sinnt innan frestsins.  Enn stóð til að ljúka lokaúttekt á húsinu og gefa út vottorð þar að lútandi hinn 15. mars 2007, en þar sem þá hafði ekki verið bætt úr atriðum sem þótti ábótavant við fyrri úttekt var því beint til byggingarstjóra að bæta þar úr.  Hinn 21. september 2009 fór síðan fram lokaúttekt, m.a. að viðstöddum fulltrúum kæranda, sem gerðu athugasemdir við byggingu og frágang fjölbýlishússins.  Var vottorð um lokaúttekt gefið út hinn 16. október sama ár eftir að bætt hafði verið úr þeim þáttum er byggingarfulltrúi hafði farið fram á. 

Kærandi vísar til þess að sá óhæfilegi dráttur sem orðið hafi á lokaúttekt Kórsala 5 gangi gegn hagsmunum íbúðareigenda hússins, fari gegn markmiðum byggingarreglugerðar og dragi úr réttaröryggi í meðferð byggingarmála.  Byggingarfulltrúi hafi við lokaúttekt ekki tekið tillit til athugasemda kæranda er lotið hafi að smíði og frágangi byggingarinnar, svo sem hljóðeinangrun og hljóðvist, loftræstingu og leka.  Gögn og yfirlýsingar sem eigi að liggja frammi við lokaúttekt hafi vantað eða verið ábótavant, svo sem yfirlýsingar um raforkuvirki, hitakerfi og loftræstingu.  Ekki hafi verið gengið með trúverðugum hætti úr skugga um að byggingarstjóri hafi fylgt samþykktum uppdráttum, lögum og reglugerðum við byggingu hússins áður en lokaúttektarvottorð hafi verið gefið út. 

Af hálfu Kópavogsbæjar er þess krafist að kærumálinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella að kröfum kæranda verði hafnað.  Lokaúttekt sé stjórnvaldsathöfn er feli í sér áfangaúttekt við byggingu mannvirkis en sé ekki stjórnvaldsákvörðun um rétt og skyldur aðila.  Kærandi eigi auk þess ekki aðild að framkvæmd lokaúttektar, sbr. 53. gr. byggingarreglugerðar, og verði því ekki séð að hann eigi kæruaðild um framkvæmd slíkrar úttektar.  Framkvæmd umdeildrar úttektar hafi verið lögum samkvæmt en af málatilbúnaði kæranda sé ljóst að kröfur hans séu einkaréttarlegs eðlis og sprottnar af ágreiningi og málaferlum hans gegn byggingar- og söluaðila umrædds húss.  Lögbundið hlutverk byggingarfulltrúa sé að hafa eftirlit með öryggi mannvirkja í þágu almannahagsmuna en honum sé ekki ætlað að taka afstöðu í máli milli einkaaðila eða beita sér í þeirra þágu í skjóli byggingarreglugerðar. 

Í andmælum kæranda við greinargerð Kópavogsbæjar í málinu er frávísunarkröfu mótmælt.  Athugasemdir kæranda vegna lokaúttektar að Kórsölum 5 séu ekki einungis einkaréttarlegs eðlis heldur lúti þær að atriðum sem gæta skuli að við byggingareftirlit samkvæmt ákvæðum byggingarreglugerðar.  Bent sé á að í öllum samskiptum kæranda við byggingaryfirvöld Kópavogsbæjar vegna lokaúttektarinnar hafi honum verið bent á kærurétt sinn til úrskurðarnefndarinnar við lyktir málsins.  Lokaúttekt og útgáfa lokaúttektarvottorðs hljóti að teljast ákvörðun sem bindi enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og varði sú stjórnvaldsákvörðun verulega einstaklega og lögvarða hagsmuni íbúðareigenda sem hún snerti.  Telji kærandi því að um kæranlega stjórnvaldsákvörðun að ræða í máli þessu sem hann eigi kæruaðild að, enda beri að túlka aðildarhugtakið rúmt í stjórnsýslurétti.  Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála sé eðlilegur farvegur fyrir þetta mál, enda komi fram í 8. gr. skipulags- og byggingarlaga og 10. gr. byggingarreglugerðar að komi upp ágreiningsmál á sviði byggingarmála eða telji einhver á rétt sinn hallað, megi skjóta slíku til úrskurðarnefndarinnar, sem úrskurði um ágreininginn.

—————–

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir sjónarmiðum sínum og rökum í málinu sem ekki verða rakin hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Kærumál þetta snýst um framkvæmd lokaúttektar og útgáfu vottorðs um lokaúttekt vegna byggingar fjölbýlishússins að Kórsölum 5 í Kópavogi. 

Í 1. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er kveðið á um það hlutverk úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála að úrskurða í ágreiningsmálum um skipulags- og byggingarmál samkvæmt lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim.  Í 5. mgr. 8. gr. laganna er nánar skýrt hvaða ágreiningi verði skotið til nefndarinnar, en þar segir að kæru sæti stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga nema sérstaklega sé á annan veg mælt í lögum.  Samkvæmt téðum ákvæðum verður aðeins ágreiningi um stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga á sviði skipulags- og byggingarmála skotið til úrskurðarnefndarinnar nema sérstaklega sé mælt á annan veg í lögum. 

Lokaúttekt og útgáfa úttektarvottorðs eru liðir í eftirliti byggingarfulltrúa með byggingarframkvæmdum sem honum er falið að lögum, sbr. 2. mgr. 40. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Lokaúttekt skal gerð að ósk byggingarstjóra eða byggjanda skv. 53. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 eða ábyrgðartryggjenda hönnuða og byggingarstjóra.  Þar kemur og fram að auk byggingarfulltrúa og slökkviliðsstjóra skuli viðstaddir úttektina byggingarstjóri og þeir iðnmeistarar og hönnuðir sem þess óska eða eru til þess kvaddir af byggingarfulltrúa.  Lokaúttektarvottorð er síðan gefið út af byggingarfulltrúa þegar bætt hefur verið úr hugsanlegum ágöllum og gengið hefur verið úr skugga um að mannvirki fullnægi tilskyldum ákvæðum um gerð og búnað, sbr. 54. gr. byggingarreglugerðar. 

Skilja verður ákvæði þessi svo að þeim sé ætlað að tryggja eftirlit með öryggi og gæðum mannvirkja og að unnt sé að knýja þá sem ábyrgð bera á framkvæmdum til að bæta úr því sem á kunni að skorta svo mannvirkið fullnægi viðeigandi skilyrðum.  Lúta þessi ákvæði einkum að vörslu almannahagsmuna en ekki verður af þeim ráðið að eigendur fasteigna, sem keypt hafa eignir í byggingu, eignist lögvarinn rétt til aðildar að úttekt sem framkvæmd er af byggingarfulltrúa á grundvelli áðurgreindra laga og reglugerðarákvæða og geti gert þar kröfur um að skilaástand eigna verði staðreynt með tilteknum hætti eða knúið á um úrbætur í því efni.  Verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kærandi verður ekki talinn aðili þess í skilningi 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

______________________________
Hjalti Steinþórsson

_______________________________  ______________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson

5/2009 Reykjabakki

Með

Ár 2010, þriðjudaginn 16. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 5/2009, kæra á ákvörðunum hreppsnefndar Hrunamannahrepps frá 5. nóvember 2008 og 7. janúar 2009 um eignarnám á landi í eigu kærenda. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 20. janúar 2009, framsendir umhverfisráðuneytið stjórnsýslukæru Óskars Sigurðssonar hrl. f.h., eigenda Reykjabakka í Hrunamannhreppi, vegna ákvarðana hreppsnefndar Hrunamannahrepps frá 5. nóvember 2008 og 7. janúar 2009 um eignarnám á landi í eigu kærenda. 

Gera kærendur þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi. 

Málsatvik:  Hinn 5. nóvember 2008 ákvað hreppsnefnd Hrunamannhrepps að taka land í eigu kærenda eignarnámi með stoð í 1. tl. 2. mgr. 32. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Var ákvörðunin tekin á grundvelli umsagnar Skipulagsstofnunar frá 18. september 2008, þar sem fram kom að stofnunin gerði ekki athugasemd við fyrirhugað eignarnám.  Í kjölfar athugasemda kærenda afturkallaði stofnunin hins vegar umsögn sína með bréfi, dags. 5. desember 2008, þar sem hún taldi ljóst að fyrirhugaðar vegtengingar til norð-vesturs, við heimreið Reykjabakka, væru utan marka deiliskipulagsins.

Með bréfi, dags. 8. janúar 2009, var kærendum tilkynnt að hreppsnefnd hefði ákveðið hinn 7. sama mánaðar að taka það land eignarnámi sem félli innan deiliskipulagsmarka, sbr. bréf Skipulagsstofnunar frá 5. desember 2008.  Ekki kom fram hver yrðu afdrif fyrri ákvörðunar frá 5. nóvember 2008.  Skutu kærendur framangreindum ákvörðunum hreppsnefndar frá 5. nóvember 2008 og 7. janúar 2009 til umhverfisráðherra með bréfi, dags. 20. janúar 2009.  Framsendi ráðuneytið erindið til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 27. janúar 2009, svo sem að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Kærandur krefjast þess að greindar ákvarðanir hreppsnefndar Hrunamannahrepps verði felldar úr gildi.  Þar sem hreppsnefnd hafi ekki lýst því yfir með formlegum hætti að ákvörðunin frá 5. nóvember sé fallin úr gildi taki kæra þeirra einnig til hennar. 

Ákvarðanir þær sem krafist sé ógildingar á séu af hálfu hreppsnefndar Hrunamannahrepps byggðar á heimild í 1. tl. 2. mgr. 32. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, en þar segi: 

Sveitarstjórn er heimilt að fenginni umsögn Skipulagsstofnunar og á grundvelli gildandi deiliskipulags að taka eignarnámi vegna framkvæmdar skipulagsins:
  1. Fasteignir sem sveitarstjórn er samkvæmt skipulaginu nauðsynlegt að fá umráð yfir til almannaþarfa
.“ 

Eins og aðrar ákvarðanir um eignarnám þurfi ákvörðun hreppsnefndar einnig að uppfylla skilyrði 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. stjórnskipunarlög nr. 97/1995, og ákvæði 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sbr. einnig meðalhófsreglu stjórnskipunarréttar.  Þá þurfi ákvörðun hreppsnefndar að uppfylla þær kröfur sem stjórnsýslulög nr. 37/1993 og reglur stjórnsýsluréttarins setji um undirbúning og efni stjórnsýsluákvarðana. 

Kærendur byggi á því að ekki séu uppfyllt skilyrði til eignarnáms, hreppsnefnd hafi ekki við ákvarðanir sínar virt meðalhófs- og jafnræðisreglur stjórnskipunar- og stjórnsýsluréttar og gallar séu á undirbúningi og málsmeðferð við ákvarðanir hreppsnefndarinnar.  Þá séu ákvarðanirnar ekki byggðar á lögmætum sjónarmiðum. 

Á því sé byggt að hreppsnefnd geti ekki reist ákvarðanir sínar um eignarnám á 1. tl. 2. mgr. 32. gr. skipulags- og byggingarlaga. 

Eignarnámsheimild sveitarstjórnar skv. 2. mgr. 32. gr. sé takmörkuð við að þörf sé á eignarnáminu vegna framkvæmdar á deiliskipulagi.  Liggja verði fyrir samþykkt og birt deiliskipulag og þurfi eignarnámið að samrýmast því.  Auk þess þurfi að uppfylla skilyrði um almannaþörf. 

Kærendur telji ljóst að ákvörðunin frá 5. nóvember 2008 hafi ekki verið í samræmi við skipulag svæðisins.  Á uppdrætti, þar sem fyrirhugað eignarnám hafi verið nánar skilgreint, hafi verið gert ráð fyrir að umræddur vegur lægi þétt að garðávaxtageymslu í eigu kærenda og jafnframt kæmu tilteknir vegstútar þvert í gegnum land þeirra og aðliggjandi land.  Af fyrirliggjandi aðalskipulagi verði ekki séð að gert sé ráð fyrir umræddum vegstútum.  Deiliskipulag á landi kærenda verði að samrýmast fyrirliggjandi aðalskipulagi.  Ákvörðun hreppsnefndar frá 5. nóvember 2008 hafi því ekki verið í samræmi við gildandi aðal- og deiliskipulag og falli því utan heimildar í 1. tl. 2. mgr. 32. gr. skipulags- og byggingarlaga. 

Það felist í skilyrði 2. mgr. 32. gr. að fyrirhugað eignarnám verði að samrýmast gildandi deiliskipulagi.  Kærendur hafi ítrekað óskað eftir upplýsingum um hvernig fyrirhuguð framkvæmd samræmist skipulaginu.  Með bréfi sveitastjóra Hrunamannahrepps, dags. 18. nóvember 2008, hafi verið kynnt þau gögn sem legið hafi að baki ákvörðun hreppsins frá 5. nóvember.  Meðfylgjandi þeim gögnum hafi annars vegar verið uppdráttur að breyttu deiliskipulagi frá árinu 2006 og hins vegar uppdráttur að íbúðarsvæði frá 5. mars 2000.  Síðarnefndi uppdrátturinn virðist ekki vera hluti af deiliskipulagi, en á honum komi fram að um sé að ræða skýringaruppdrátt sem sýni á myndrænan hátt þær hugmyndir sem liggi að baki þágildandi deiliskipulagi. 

Af fyrrnefnda uppdrættinum megi ráða að sú breyting sem þá hafi verið gerð á deiliskipulagi íbúðarbyggðar í Bakkatúni hafi eingöngu náð til þess að færa til vegstæði um sjö metra til austurs þar sem vegurinn fari meðfram fyrirhugaðri íbúðarbyggð í Bakkatúni.  Breytingin hafi ekki náð til svæðis umhverfis fasteign kærenda.  Á uppdrættinum séu mörk deiliskipulags skilgreind sérstaklega.  Á þessum uppdrætti verði ekki séð að gert sé ráð fyrir vegstútum þvert í gegnum lóð kærenda.  Gert sé ráð fyrir einhverri vegtengingu eða vegstút á uppdrættinum, en sú tilhögun falli utan marka gildandi skipulags eins og skýrlega komi fram á uppdrættinum og sé því ekki hluti af gildandi deiliskipulagi. 

Ákvörðun hreppsnefndar frá 5. nóvember 2008 hafi m.a. falið í sér að tekið yrði eignarnámi land kærenda undir greinda vegstúta án heimildar samkvæmt gildandi deiliskipulagi.  Ákvæði 2. mgr. 32. gr. laganna sé fortakslaust um að eignarnám verði aðeins heimilað vegna framkvæmdar gildandi deiliskipulags.  Gæti misræmis í fyrirhugaðri framkvæmd og gildandi deiliskipulagi sé ljóst að ekki séu skilyrði fyrir eignarnámi.  Verði í þessu samhengi að líta til þess að eignarétturinn njóti sérstakrar verndar skv. 72. gr. stjórnarskrár.  Eignarnám verði ekki heimilað nema á grundvelli skýrrar og ótvíræðar lagaheimildar.  Skorti á að fyrirhuguð framkvæmd sé í samræmi við gildandi deiliskipulag beri að hafna eignarnámi.  Eins og fyrr greini hafi Skipulagsstofnun fallist á athugasemdir kærenda hvað þetta varði. 

Af framangreindu leiði að lagaskilyrði fyrir ákvörðun hreppsnefndar frá 5. nóvember 2008 séu ekki uppfyllt.  Hafi hreppsnefnd með ákvörðun sinni frá 7. janúar 2009 fallist á það, án þess þó að fella hina ólögmætu ákvörðun sína úr gildi.  Beri því að ógilda þá ákvörðun. 

Ennfremur sé skilyrði 1. tl. 2. mgr. ekki fullnægt og eigi það við um báðar hinar kærðu ákvarðanir.  Því hafi verið haldið fram að eignarnámið sé nauðsynlegt til að unnt sé að nýta land undir íbúðarbyggð fyrir aldraða.  Ekkert liggi hins vegar nánar fyrir um það.  Landið sem haldið sé fram að eigi að nýta til byggingar elliheimilis sé í einkaeigu og ekkert hafi verið lagt fram um heimildir til nýtingar á því í framangreindum tilgangi.  Auk þess hafi það ekki verið tekið úr landbúnaðarnotum.  Þá sé algjörlega óvíst hvort og hvenær fyrirhuguð íbúðarbyggð fyrir aldraða rísi.  Ekki sé þörf á eignarnámi lands í eigu kærenda í þeim tilgangi að fylgja eftir fyrirliggjandi skipulagi þegar óvíst og óljóst sé hvort yfirhöfuð verði ráðist í framkvæmdir samkvæmt því.  Skilyrði 1. tl. 2. mgr. um nauðsynleg umráð til almannaþarfa sé því ekki fullnægt.  Það skorti því á að sýnt hafi verið fram á að skilyrði eignarnáms um almannaþörf séu fyrir hendi. 

Ekki hafi heldur verið sýnt fram á að eignarnám á hluta lands kærenda nái því markmiði sem hreppsnefnd virðist stefna að með eignarnáminu.  Ljóst sé að hreppsnefnd beri að sýna fram á nauðsyn eignarnámsins og að markmið þess liggi fyrir, þ.e. að það sé nauðsynlegt til þess að tryggja greinda uppbyggingu.  Það hafi ekki verið gert. 

Samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar megi ekki svipta menn eignum sínum nema almenningsþörf krefji, sbr. einnig 1. gr. samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu.  Það sé og áréttað í 1. tl. 2. mgr. 32. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Í ljósi þess sem hér liggi fyrir sé ljóst að ákvarðanir hreppsnefndar um eignarnám á hluta af landi kærenda séu ekki löglegar. 

Til viðbótar og fyllingar reglu stjórnarskrárinnar um almenningsþörf gildi hin óskráða meðalhófsregla stjórnskipunarréttarins einnig þegar eignarnám eigi í hlut, sbr. og 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Því úrræði að þvinga fram afhendingu á eign með eignarnámi verði ekki beitt ef markmiði því sem ætlunin sé að ná fram með eignarnáminu verði náð með því að beita öðru og vægara úrræði gagnvart eiganda eignarinnar.  Fyrirséð sé að aðrar og vægari leiðir í garð kærenda séu tækar. 

Ákvörðun um eignarnám á hluta af landi kærenda leiði til þess að húsakostur sem nú sé til staðar verði a.m.k. illnýtanlegur eða ónýtanlegur.  Athafnasvæði við húsið takmarkist verulega og einboðið sé að verulegri umferð eigi að beina um lóð kærenda, sem feli í sér verulega röskun og hættu.  Samkvæmt mælingum kærenda verði fyrirhugað vegstæði aðeins 6,7 metrum frá horni garðávaxtageymslu, sem sé á lóðinni.  Eingöngu séu 2,7 metrar frá veghelgunarsvæði að húshorninu skv. sömu mælingum.  Líklegt verði að telja að afstaða vegarins gagnvart húsinu brjóti gegn ákvæði 76. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, þar sem mælt sé fyrir um að hús á lóðarmörkum við gatnamót megi aldrei hindra nægjanlegt útsýni fyrir akandi umferð.  Þá felist í eignarnáminu veruleg skerðing á ræktuðu landi, þar sem m.a. sé stunduð rófnarækt í atvinnuskyni.  Stór hluti þeirrar ræktunar fari undir fyrirhugaðan veg auk þess sem vegalagningin hafi bersýnilega áhrif á nýtingu þeirrar ræktunar sem ekki fari undir veginn en liggi þétt að honum.  Skerði þetta framfærslutekjur kærenda.  Óljóst sé með öllu hvaða þörf sé á því að taka umrædda spildu undir veginn, þar sem hægt sé með einföldum hætti að leggja hann austan við land kærenda og þar með takmarka skerðinguna. 

Óumdeilt sé að hreppsnefnd geti farið aðrar og vægari leiðir við vegalagningu á umræddu svæði.  Bent sé á að núverandi Hrunavegur liggi að jörðinni Grafarbakka og megi hæglega ráðast í lagfæringar og endurbætur á þeim vegi og tengja við fyrirhugaða íbúðarbyggð án þess að það raski að nokkru leyti eignarréttindum kærenda eða eigenda aðliggjandi eigna.  Vegurinn tengist við þjóðveginn utan við þéttbýlið á Flúðum og nýtist því vel í þeim tilgangi sem nýjum vegi sé ætlaður.  Hinar kærðu ákvarðanir brjóti því gegn meðalhófsreglu stjórnskipunarréttar. 

Svo virðist sem hreppsnefnd telji að afgreiðsla hennar 7. janúar 2009 geti bætt úr þeim vanköntum sem verið hafi á fyrri ákvörðun hennar frá 5. nóvember 2008.  Svo sé hins vegar ekki.  Ekki sé nægjanlegt af hálfu hreppsnefndar að afla einungis nýrrar lögmæltrar umsagnar Skipulagsstofnunar og/eða vísa til hennar sjálfstætt.  Að auki þurfi hreppsnefnd við undirbúning og töku ákvörðunar um eignarnám að uppfylla þær kröfur sem stjórnsýslulög nr. 37/1993 setji um undirbúning og málsmeðferð svo íþyngjandi ákvörðunar sem eignarnám sé, sbr. t.d. 3. mgr. 32. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Þessa hafi ekki verið gætt af hálfu hreppsnefndar.  Undirbúningur ákvörðunar hreppsnefndar frá 7. janúar sl. sé því ófullnægjandi og leiði það til ógildingar hennar.  Hér beri að gera mjög ríkar kröfur til undirbúnings ákvörðunarinnar þar sem um sé að ræða inngrip í grundvallarréttindi kærenda. 

Ljóst sé að öll málsmeðferð, forsendur og samskipti hreppsnefndar við kærendur hafi miðast við að fyrirhugaðar vegtengingar, sem óumdeilt sé nú að séu utan deiliskipulagsins, væru hluti af hinu fyrirhugaða eignarnámi og framkvæmd. 

Kærendur byggi kröfu sína um ógildingu ákvörðunarinnar frá 7. janúar 2009 á því, auk fyrrgreindra sjónarmiða, að ekki hafi af hálfu hreppsnefndar Hrunamannahrepps verið fylgt reglum stjórnsýsluréttarins um rannsókn máls og andmælarétt, sbr. 10. og 13. gr., sbr. 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Sérlega rík skylda hafi hvílt á hreppsnefnd til að gæta þessara réttinda, enda um að ræða inngrip í stjórnarskrárvarinn eignarrétt. 

Eins og fyrr greini hafi allur ferill málsins og viðræður við kærendur miðast við að taka eignarnámi hluta af landi þeirra, sem fallið hafi utan gildandi skipulags.  Kærendum hafi aldrei verið tilkynnt formlega að til stæði að fella fyrri ákvörðun hreppsnefndar úr gildi og að ætlunin væri að eignarnámið myndi taka til annars landsvæðis en upphaflega hafi verið áformað.  Kærendum hafi ekki verið gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum sérstaklega af því tilefni áður en ákvörðun um eignarnám hafi verið tekin hinn 7. janúar 2009.  Hreppsnefnd Hrunamannahrepps hafi borið að leggja fullnægjandi grundvöll að ákvörðun sinni og rannsaka málið áður en ákvörðunin hafi verið tekin.  Liður í því hafi verið að gefa eigendum landsins kost á að tjá sig sérstaklega vegna breyttra áforma um eignarnám, þ.e. gæta andmælaréttar síns.   Máli hafi skipt að kærendur fengju tækifæri til að tjá sig um hina breyttu framkvæmd, breytingar á vegtengingum, hvort ný áform hefðu áhrif á fjarlægðir, staðsetningu vegstæðis gagnvart húsum og mannvirkjum, o.s.frv. 

Áður hafi verið gerð grein fyrir bókun hreppsnefndar um hina kærðu ákvörðun 7. janúar 2009.  Engan rökstuðning sé að finna fyrir ákvörðuninni, einungis sé til þess vísað að tekið sé eignarnámi það land „… sem fellur innan deiliskipulagsmarka.“ og vísað til umsagnar Skipulagsstofnunar án frekari skýringa.  Hvorki sé vikið að því hvort fyrri ákvörðun sé felld úr gildi né mælt fyrir um með skýrum hætti eða afmarkað það land sem eignarnámið eigi að taka til eða hvaða áhrif þessar breyttu forsendur varðandi vegtengingarnar hafi fyrir hina fyrirhuguðu framkvæmd.  Kærendur hafi ætíð skilið hreppsnefnd þannig að vegtengingarnar væru forsenda fyrir eignarnáminu og hluti af framkvæmdinni.  Þá komi ekkert fram í rökstuðningi hreppsnefndar um nánari útfærslur, nú þegar viðurkennt sé að vegtengingarnar séu ekki og hafi aldrei verið hluti af skipulaginu, hvernig og hvort það hafi áhrif á legu vegarins, fjarlægðir og annað.  Ekki sé því unnt að átta sig á hvað hreppsnefnd sé að fara fram á og algjörlega óljóst hvað eigi að taka eignarnámi. 

Kærendur telji því að ákvörðun hreppsnefndar frá 7. janúar 2009 uppfylli ekki þær kröfur um skýrleika stjórnvaldsákvörðunar sem gildi samkvæmt almennum reglum stjórnsýsluréttarins.  Gera verði sérstaklega strangar kröfur í þessu sambandi þegar um svona viðurhlutamiklar ákvarðanir sé að ræða og inngrip í stjórnarskrárvarin eignarréttindi, sbr. 12. og 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 72. gr. stjórnarskrárinnar. 

Málsrök Hrunamannahrepps:  Af hálfu Hrunamannahrepps er forsaga málsins rakin í ítarlegu máli.  Er því haldið fram að í hvívetna hafi verið leitast við að fara að lögum varðandi meðferð málsins og reynt að leita sátta.  Það sé örugglega fátítt að hreppsnefndir leggi á sig að halda hreppsnefndarfundi inn á heimilum þegar deilur sem þessar standi yfir, en það hafi verið gert í því máli sem hér sé til umfjöllunar.  Þess skuli getið að umræddur Bakkatúnsvegur sé merktur nr. 31 á uppdrætti Aðalskipulags Hrunamannahrepps 1992-2012 en uppdrátturinn hafi verið undirritaður af skipulagsstjóra, staðfestur af hreppsnefnd 15. mars 1994 og loks staðfestur af umhverfisráðherra 25. apríl 1994. 

Fulltrúar hreppsnefndar hafi formlega rætt við umdæmisstjóra Vegagerðarinnar á Suðurlandi vegna umræddrar vegalagningar.  Í framhaldi af þeim viðræðum hafi hreppsnefnd ákveðið í samráði við Vegagerðina að sleppa ósk um eignarnám á landi undir þvervegi (stúta) sem annars vegar tengist veitingastaðnum Útlaganum og hins vegar grænmetisgeymslunni við Reykjabakka.  Þetta komi vel fram á uppdrætti að fyrirhuguðum vegi svo og í samþykkt hreppsnefndar frá 7. janúar 2009. 

Með samþykkt hreppsnefndar hinn 3. febrúar 2010 hafi verið tekin af öll tvímæli um að ákvörðun hreppsnefndar frá 5. nóvember 2008 hafi vikið fyrir ákvörðun hreppsnefndar frá 7. janúar 2009, en þar komi fram að aðeins sé óskað eignarnáms á því landi er falli innan marka deiliskipulags. 

Niðurstaða:  Með hinum kærðu ákvörðunum var annar vegar samþykkt „ …að taka umrædda spildu eignarnámi.“ og hins vegar „ …að taka það land eignarnámi sem fellur innan deiliskipulagsmarka.“  Af málsgögnum verður helst ráðið að eignarnámið hafi annars vegar átt að taka til spildu úr landi eiganda veitingastaðarins Útlagans og hins vegar spildu úr landi Reykjabakka. 

Með stjórnsýslukæru til samgönguráðuneytisins, dags 26. nóvember 2008, kærði Klemenz Eggertsson hdl., f.h. eiganda veitingastaðarins Útlagans, þá ákvörðun hreppsnefndar Hrunamannahrepps frá 5. nóvember 2008 að taka eignarnámi land í hans eigu til lagningar svonefnds Bakkatúnsvegar. 

Gekk úrskurður ráðuneytisins í málinu hinn 25. júní 2009 og segir þar m.a:

Kærandi gerir þá kröfu að ráðuneytið ógildi ákvörðun sveitarfélagsins um eignarnám sem byggir á skipulags- og byggingarlögum. Til álita kemur því hvort úrskurðarvald ráðuneytisins, samkvæmt 103. gr. sveitarstjórnarlaga, nær til þess að úrskurða um ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli skipulags- og byggingarlaga.

Í 8. gr. skipulags- og byggingarlaga er kveðið á um úrskurðarnefnd sem hefur það hlutverk að úrskurða í ágreiningsmálum um skipulags- og byggingarmál samkvæmt lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim.  Löggjafinn hefur því ákveðið að ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna skuli kæranlegar til sérstakrar úrskurðarnefndar og skiptir þá ekki máli hvort það er sveitarstjórn eða annað stjórnvald sem tekur viðkomandi ákvörðun.  Úrskurðarvald nefndarinnar nær þannig til lokaákvarðana sem teknar eru á grundvelli skipulags- og byggingarlaga, að því leyti sem þær eru ekki teknar af ráðherra, s.s. ákvarðanir um staðfestingu aðalskipulags, sbr. 19. gr.  Þegar úrskurðarvald í kærumálum er fært til slíkra nefnda sem settar eru á stofn með lögum er um leið kæruheimild til ráðherra rofin enda er meginreglan að sérstakar kæruheimildir ganga framar almennri kæruheimild (Páll Hreinsson, skýringarrit við Stjórnsýslulögin bls. 260-262).

Þá gildir sú meginregla að þegar sjálfstæðum úrskurðarnefndum er fengið úrskurðarvald í tilteknum málaflokkum tekur viðkomandi nefnd til endurskoðunar alla málsmeðferð sem leiddi til þeirrar ákvörðunar sem kærð er, sbr. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 4968/2007 og álit í máli nr. 5184/2007.  Í þeim báðum var fjallað um úrskurðarvald úrskurðarnefndar um hollustuhætti og mengunarvarnir sem er sérstök lögbundin úrskurðarnefnd.  Kemur þar fram það álit umboðsmanns að úrskurðarnefndinni sé ætlað að fara með almennt úrskurðarvald á kærustigi um viðkomandi ágreining og geti því, í samræmi við almenn sjónarmið um stjórnsýslukærur, endurskoðað bæði undirbúning og efni þeirra ákvarðana sem bornar eru undir hana.“ 

Þrátt fyrir framanritað segir síðar í úrskurðinum að úrskurðarvald ráðuneytisins samkvæmt 103. gr. sveitarstjórnarlaga nái til þess að fjalla um málsmeðferð sveitarfélagsins sem hafi leitt til töku hinnar kærðu ákvörðunar.  Kemst ráðuneytið að þeirri niðurstöðu að engir þeir hnökrar hafi verið á þeirri málsmeðferð sem hafi leitt til töku hinnar kærðu ákvörðunar frá 5. nóvember 2008, sem valdi því að rétt sé að ógilda hana.  Ekki hafi heldur verið efni til að ógilda ákvörðun sveitarstjórnar frá 7. janúar 2009 þótt betur hefði mátt vanda til undirbúnings hennar.  Var það niðurstaða ráðuneytisins að hafna bæri kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar Hrunamannahrepps um eignarnám vegna lagningar Bakkatúnsvegar. 

Samkvæmt því sem að framan er rakið hefur æðra stjórnvald með úrskurði hafnað því að fella úr gildi ákvarðanir þær sem kærðar eru í máli þessu.  Er úrskurðarnefndin ekki til þess bær að endurskoða niðurstöðu ráðuneytisins í málinu og verður málinu því vísað fá nefndinni. 

Úrskurðarnefndin áréttar að komi til eignarnáms geta kærendur leitað úrlausnar dómstóla um lögmæti þess, sbr. 17. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda kærumála sem úrskurðarnefndin hefur til úrlausnar. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

______________________________
Hjalti Steinþórsson

_______________________________  ______________________________
Ásgeir Magnússon                                         Þorsteinn Þorsteinsson

6/2010 Gunnarssund

Með

Ár 2010, miðvikudaginn 3. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 6/2010, kæra á samþykkt bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 22. desember 2009 um breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Hafnarfjarðar er tók til lóðarinnar að Gunnarssundi 9 og á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa bæjarins frá 13. janúar 2010 um að veita byggingarleyfi fyrir bárujárnsklæddu timburhúsi á einni hæð með portbyggðu risi á lóðinni. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 11. febrúar 2010, er barst nefndinni sama dag, kæra H og E, Gunnarssundi 10, Hafnarfirði, samþykkt bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 22. desember 2009 um breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Hafnarfjarðar, er tók til lóðarinnar að Gunnarssundi 9, og á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa bæjarins frá 13. janúar 2010 um að veita byggingarleyfi fyrir bárujárnsklæddu timburhúsi á einni hæð með portbyggðu risi á lóðinni.  Hin kærða deiliskipulagsbreyting tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 11. janúar 2010. 

Gera kærendur þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og að kveðinn verði upp bráðabirgðaúrskurður um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Þykja nú nægilegar upplýsingar liggja fyrir til þess að málið verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda. 

Málavextir:  Hinn 7. apríl 2009 var tekin fyrir í skipulags- og byggingarráði Hafnarfjarðar fyrirspurn eiganda fasteignarinnar að Gunnarssundi 9 um hvort leyft yrði að byggja nýtt hús á lóðinni í stað húss þess sem fyrir var.  Á fundi sínum hinn 12. maí 2009 lýsti ráðið sig jákvætt gagnvart erindinu en þá lágu fyrir umsagnir Byggðasafns Hafnarfjarðar og Húsafriðunarnefndar ríkisins um niðurrif eldra húss.  Á sama fundi var lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Hafnarfjarðar frá árinu 1981 þar sem gert var ráð fyrir nýju einbýlishúsi að Gunnarssundi 9 sem yrði ein hæð og ris.  Samþykkti skipulags- og byggingarráð að grenndarkynna tillöguna sem óverulega breytingu á deiliskipulagi skv. 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Að lokinni grenndarkynningu var breytingartillagan tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarráðs hinn 7. júlí 2009 þar sem ráðið samþykkti hana og tók undir fyrirliggjandi svör við þeim þremur athugasemdum er borist höfðu.  Var gildistaka skipulagsbreytingarinnar auglýst í B-deild Stjórnartíðinda hinn 14. ágúst 2009. 

Á fundi skipulags- og byggingarfulltrúa 19. ágúst 2009 var samþykkt byggingarleyfi fyrir einnar hæðar bárujárnsklæddu timburhúsi á steyptum sökkli að Gunnarssundi 9.  Sú afgreiðsla var síðan staðfest í bæjarstjórn Hafnarfjarðar hinn 1. september sama ár. 

Skutu kærendur áðurgreindri skipulagsákvörðun og veitingu byggingarleyfisins til úrskurðarnefndarinnar sem felldi þær ákvarðanir úr gildi með úrskurði, dags. 8. október 2009, þar sem ekki var talið rétt að fara með skipulagsbreytinguna sem óverulega breytingu samkvæmt 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Kröfu um ógildingu byggingarleyfis fyrir niðurrifi eldra húss á lóðinni var hins vegar vísað frá. 

Hinn 20. október 2009 samþykkti skipulags- og byggingarráð Hafnarfjarðar að auglýsa nýja tillögu að deiliskipulagsbreytingu samkvæmt 1. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga og var haldinn kynningarfundur um tillöguna hinn 23. nóvember sama ár.  Eitt athugasemdabréf barst á kynningartíma tillögunnar, frá kærendum í máli þessu.  Skipulags- og byggingarráð samþykkti hina auglýstu tillögu fyrir sitt leyti hinn 15. desember með vísan til fyrirliggjandi umsagnar skipulags- og byggingarsviðs, sem hafði m.a. að geyma drög að svörum við framkomnum athugasemdum kærenda.  Lagði ráðið til við bæjarstjórn að samþykkja skipulagstillöguna.  Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti hana hinn 22. desember 2009 og öðlaðist tillagan gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 11. janúar 2010.  Fól skipulagsbreytingin í sér að nýtingarhlutfall lóðarinnar að Gunnarssundi 9 fór úr 0,45 í 0,75 og flatarnýting lóðar úr 0,25 í 0,4. 

Í kjölfar deiliskipulagsbreytingarinnar veitti skipulags- og byggingarfulltrúi Hafnarfjarðar byggingarleyfi fyrir nýju einnar hæðar timburhúsi með portbyggðu risi að Gunnarssundi 9 hinn 13. janúar 2010 og staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu hinn 27. janúar sama ár. 

Hafa kærendur skotið greindum ákvörðunum til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er á því byggt að hin kærða deiliskipulagsbreyting og veiting byggingarleyfis í kjölfar hennar fyrir nýju húsi að Gunnarssundi 9 raski hagsmunum þeirra og hafi framsetningu og kynningu skipulagsbreytingarinnar verið áfátt. 

Er á það bent að málsetningar á uppdrætti skipulagstillögu skorti og framsetning skýringarmyndar á uppdrætti sé villandi auk þess sem mælikvarði uppdráttar og skýringarmyndar gefi misvísandi niðurstöður.  Þannig gefi uppdráttur til kynna að grunnflötur fyrirhugaðs húss að Gunnarssundi 9 verði 64 m² en ef beitt sé mælikvarða skýringarteikningar verði grunnflöturinn 83,3 m².  Í texta skipulagstillögunnar segi hins vegar að grunnflöturinn eigi að vera 75 m².  Málsetning skýringarmyndar sé á þann veg að reynt sé að draga sem mest úr því hve fyrirhugað hús sé miklu stærra en hús það sem fyrir hafi verið á lóðinni.  Eingöngu séu sýnd lóðrétt mál og miðað við minnstu hæð á húsi.  Sýnd sé minnsta hækkun þaks frá því sem áður hafi verið, eða um 1,7 m, en þagað um að þakið fari hækkandi frá blámiðju til beggja átta og verði um 4,0 m til endanna.  Þá komi fram að heimiluð vegghæð sé 3,9 m yfir gólfkóta 10,0 en kótann sé hvergi að finna á skýringarmynd.  Því sé haldið fram að við ákvörðun vegghæðar fyrirhugaðs húss hafi verið tekið mið af vegghæðum húsanna að Gunnarssundi 4 og 7 en við hæðarmælingarnar sé beitt ólíkum aðferðum, þ.e. annars vegar mælt frá götu í þakskegg en hins vegar frá gólfi fyrirhugaðs húss sem liggi nokkuð yfir götuhæð.  Ekkert samráð hafi verið haft við eigendur fasteigna í nágrenninu við undirbúning skipulagstillögunnar og engar athugasemdir nágranna hafi verið teknar til greina.  Eðlilegt hefði verið að grenndarkynna teikningar af fyrirhuguðu húsi að Gunnarssundi 9 enda hafi slíkar kynningar verið viðhafðar af minna tilefni. 

Með hinni kærðu skipulagsbreytingu sé nýtingarhlutfall hækkað sem um 67% á aðeins einni lóð og með því sé farið á svig við grundvallarhugmynd gildandi skipulags um nýtingu lóða á reitnum.  Ekki geti talist rök í málinu að aðrar lóðir við götuna séu ofbyggðar enda séu byggingar á þeim reistar fyrir gildistöku takmarkana um lóðarnýtingu í skipulagi svæðisins. 

Vegna hæðar sinnar muni fyrirhugað hús að Gunnarssundi 9 skerða útsýni, rýmistilfinningu og lífsgæði kærenda sem búi í nokkurra metra fjarlægð.  Þótt vegghæð hins nýja húss verði sú sama og eldra húss verði þak hins nýja nærfellt helmingi hærra, bratt risþak með göflum í stað lágs valmaþaks.  Þakið, eins og það snúi að kærendum, nánast fjórfaldist að flatarmáli og það litla sem eftir sé af útsýni og fjarsýni hverfi alveg. 

Málsrök Hafnarfjarðar:  Af hálfu bæjaryfirvalda er skírskotað til þess að grunnflötur eldra húss að Gunnarssundi 9 hafi verið 8,6×9,01 m eða 77,5 m².  Húsið sem nú sé veitt byggingarleyfi fyrir sé 9,375×8 m eða 75 m² auk lágrar geymslu sem sé 3,0×1,8 m eða 5,4 m².  Grunnflötur nýja hússins verði því 80,4 m² eða 2,9 m² stærri en þess húss sem rifið hafi verið.  Brúttóflötur hins nýja húss verði samkvæmt skráningartöflu 149,5 m² og nýtingarhlutfallið 0,75, sem sé í samræmi við deiliskipulag eftir hina kærðu breytingu.  Þakform sé bæði í samræmi við skipulagið fyrir og eftir breytingu en gert sé ráð fyrir 40° þakhalla. 

Ekki verði séð að umhverfisleg gæði minnki frá því sem eldra skipulag hafi gert ráð fyrir.  Útsýni skerðist ekki úr gluggum á miðhæð húss kærenda að Gunnarssundi 10 þar sem vegghæð sé óbreytt.  Nýtingarhlutfallið fari aðeins úr 0,69 í 0,75 þegar borið sé saman eldra og fyrirhugað hús og sé sú nýting í samræmi við aðliggjandi byggð.  Nýtingarhlutfallið 0,45 verði að telja mjög lágt fyrir miðbæjarsvæði en tíðkist fremur í einbýlishúsabyggð utan slíkra svæða.  Hið kærða byggingarleyfi veiti heimild til byggingar íbúðarhúss og þar sem húsið rúmist innan gildandi deiliskipulagsskilmála hafi ekki verið skilyrði til þess að grenndarkynna leyfisumsóknina.  Ekki sé fallist á að ófagleg vinnubrögð hafi verið viðhöfð enda beri fyrirliggjandi gögn í máli þessu og fyrra máli um sama efni með sér að efnisatriði hafi verið útskýrð og kynnt með lögformlegum hætti og málefnaleg rök búið að baki. 

Markmiðið með deiliskipulagi miðbæjar Hafnarfjarðar frá 1981, sem gildi á umræddu svæði, hafi ekki verið að lækka nýtingarhlutfall lóða sem fyrir hafi verið.  Í formála greinargerðar með skipulaginu segi meðal annars:  „Tillagan stefnir að því, að uppbygging geti átt sér stað í miðbænum án þess að fórnað sé miklu af þeim sérkennum sem setja svip á hann í dag.“ Á bls. 125 í sömu greinargerð segi ennfremur:  „Allar nýbyggingar í miðbæ skal leitast við að fella sem best má verða að þeirri byggð, sem fyrir er.  Tekið skal mið af hinum ríkjandi mælikvarða byggðarinnar í heild.  Yfirborðsefni séu valin og/eða meðhöndluð með hliðsjón af nágrannabyggð.  Á reitnum þar sem stök bárujárnshús eru mest áberandi, skal nota risþök á nýbyggingar.  Geta þau verið með kvistum svo fremi sem stærð kvists ofgeri ekki þaki.“  Því hefði verið unnt að heimila sams konar þak á eldra húsi að Gunnarssundi 9 og nú sé gert ráð fyrir á samþykkta nýbyggingu á lóðinni án breytinga á skipulagi.  Eini munurinn á formi þess húss sem rifið hafi verið og á endurbyggingunni sé að rishæð hússins verði nýtanleg og grunnflötur fyrstu hæðar stækki um 2,9 m², en nýja húsið falli einstaklega vel að þeirri byggð sem fyrir sé. 

Andmæli byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er bent á að upphaflega hafi verið áætlað að gera við og endurbyggja gamla húsið á lóðinni að Gunnarssundi 9 en niðurstaða ástandskönnunar hafi leitt í ljós að ódýrara og hagkvæmara væri að reisa nýtt hús.  Gamla húsið hafi verið byggt í mörgum áföngum, með mismunandi byggingarefnum, allt frá árinu 1916, sem hafi torveldað áætlanir um frágang og lausnir við endurnýjun hússins.  Hafi það verið rifið í september 2009. 

Gamla húsið hafi verið ein hæð og kjallari, samtals 119,9 m² með nýtingarhlutfall 0,69 og flatarnýtingu 0,44.  Samkvæmt deiliskipulagsbreytingu og samþykktum byggingarnefndarteikningum sé fyrirhugað að byggja nýtt einbýlishús innan sama byggingarreits og með sama grunnfleti, 75 m².  Nýja húsið verði ein hæð og portbyggt ris með mænisþaki með 40° halla.  Gólf á fyrstu hæð verði 80-90 cm lægra en gólf gamla hússins og verði birt flatarmál hússins í heild 134,7 m² með alls 430,7 m³ rými.  Lóðin sé eftir stækkun, samkvæmt nýju lóðarblaði, 199,5 m² og nýtingarhlutfall verði 0,75, sé miðað við brúttóflatarmál hússins, og flatarnýtingin 0,37.  Ljóst sé að nýtingarhlutfall lóðarinnar að Gunnarssundi 9 hafi verið hærra en kveðið hafi verið á um í skipulaginu frá 1981 en við gildistöku þess hafi lóðin þegar verið byggð.  Hafa verði í huga að nýja húsið sé ekki óhóflega stórt en nýtingarhlutfallið verði hátt vegna smæðar lóðarinnar.  Nýtingarhlutfall sé í raun ekki nothæfur mælikvarði á hámarksstærð húss á þessari lóð vegna þess hve lóðin sé lítil í samanburði við aðrar lóðir á reitnum. 

Gamla húsið sem staðið hafi að Gunnarssundi 9 hafi ekki verið í samræmi við deiliskipulagið frá 1981 hvað gerð og þakhalla varði en fyrirhugað hús verði það hins vegar.  Form þess, stærðarhlutföll og efnisnotkun verði hefðbundin og einföld og muni húsið verða í betra samræmi við önnur hús í götunni.  Á skipulagsreitnum sé aðallega byggt meðfram götum en í miðju reitsins sé stórt opið svæði með miklum gróðri.  Bil á milli nýja hússins að Gunnarssundi 9 og annarra húsa breytist ekki og muni það því ekki þrengja meira að nágrannaeignum en gerist annars staðar á reitnum. 

—–

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér staðhætti á vettvangi við meðferð fyrra kærumáls. 

Niðurstaða:  Hin kærða deiliskipulagsbreyting fól í sér hækkun nýtingarhlutfalls lóðarinnar að Gunnarssundi 9 úr 0,45 í 0,75 og flatarnýtingar lóðar úr 0,25 í 0,4.  Þá var markaður um 75 m² rétthyrndur byggingarreitur undir hús á lóðinni auk 2,0×3,5 m reits fyrir útigeymslu við norðausturhorn byggingarreitsins.  Þá voru sett skilyrði um 3,9 m vegghæð frá gólfkóta og 7,5 m hámarkshæð við suðausturhorn húss, sem yrði með portbyggðu risi.  Um áratuga skeið stóð á lóðinni einnar hæðar íbúðarhús með kjallara og var þá nýtingarhlutfall 0,69 og flatarnýting 0,44.  Tilefni breytingarinnar mun vera það að ekki þótti hagfellt að endurnýja hús það sem reist hafði verið á lóðinni árið 1916 og var það því rifið og stefnt að byggingu nýs húss í staðinn. 

Deiliskipulagsbreytingin var auglýst til kynningar lögum samkvæmt.  Var hún sett fram á uppdrætti og í greinargerð þar sem fram kom nýtingarhlutfall og flatarnýting lóðar ásamt hæð og formgerð fyrirhugaðs húss.  Á skipulagsuppdrættinum voru sýndar skýringarteikningar að fyrirhuguðu húsi en þær teikningar teljast ekki bindandi hluti skipulagsákvörðunar, sbr. gr. 5.4.3 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.  Verður ekki séð að sá ágalli hafi verið á kynningu og framsetningu umdeildrar skipulagsbreytingar að varðað geti ógildingu hennar. 

Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu var heimilað að reisa nýtt hús á umræddri lóð sem yrði með nánast sama grunnfleti og litlu stærra að heildarflatarmáli en hús það sem fyrir var á lóðinni.  Nýbyggingin yrði um 1,7 m hærri en eldra hús vegna breytts þakforms, en sú breyting rúmaðist innan gildandi skilmála deiliskipulags svæðisins fyrir umdeilda skipulagsbreytingu.  Heimiluð nýbygging fellur að byggðamynstri á skipulagsreitnum og sker nýtingarhlutfall umræddrar lóðar sig ekki úr, borið saman við aðrar lóðir á svæðinu.  Með hliðsjón af þessu, og með tilliti til jafnræðissjónarmiða um nýtingu lóða á skipulagsreitnum, verður ekki fallist á að hin kærða deiliskipulagsbreyting sé haldin þeim efnisannmörkum er leiða eigi til ógildingar ákvörðunarinnar. 

Hið kærða byggingarleyfi er í samræmi við deiliskipulag eftir framangreinda breytingu og þar sem ekki liggur fyrir að málsmeðferð við þá ákvarðanatöku hafi verið ábótavant verður kröfu kærenda um ógildingu leyfisins hafnað. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu um ógildingu samþykktar bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 22. desember 2009 um breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Hafnarfjarðar er tók til lóðarinnar að Gunnarssundi 9 og ákvörðunar skipulags- og byggingarfulltrúa bæjarins frá 13. janúar 2010, er bæjarstjórn staðfesti hinn 27. janúar sama ár, um að veita byggingarleyfi fyrir bárujárnsklæddu timburhúsi á einni hæð með portbyggðu risi á lóðinni. 

______________________________
Hjalti Steinþórsson

_______________________________    ______________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

72/2007 Eyjólfsstaðaskógur

Með

Ár 2010, miðvikudaginn 3. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 72/2007, kæra á synjun skipulags- og byggingarnefndar Fljótsdalshéraðs frá 2. júlí 2007 á beiðni um leyfi til byggingar frístundahúss á lóð nr. 14 í Eyjólfsstaðaskógi, Fljótsdalshéraði. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 20. júlí 2007, er barst nefndinni hinn 24. sama mánaðar, kærir Hreinn Pálsson hrl., f.h. A ehf., lóðarhafa að lóð nr. 14 í Eyjólfsstaðaskógi, Fljótsdalshéraði, synjun skipulags- og byggingarnefndar Fljótsdalshéraðs frá 2. júlí 2007 á beiðni um leyfi til byggingar frístundahúss á lóð nr. 14 í Eyjólfsstaðaskógi.  Hin kærða synjun var staðfest á fundi bæjarráðs 11. júlí 2007. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða synjun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Með bréfi, dags. 1. nóvember 2006, óskaði kærandi máls þessa eftir leyfi til byggingar frístundahúss á lóð nr. 14 í Eyjólfsstaðaskógi.  Var beiðnin tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar 20. s.m., sem samþykkti að umsóknin yrði grenndarkynnt með vísan til 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Þrjár athugasemdir bárust vegna grenndarkynningarinnar er aðallega lutu að stærð og hæð hússins.  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 21. maí 2007 fjallaði nefndin um erindi kæranda að nýju og var eftirfarandi fært til bókar af því tilefni:  „Á grundvelli framkominna athugasemda og þar sem hæð hússins er meiri en leyfilegt er skv. skilmálum, þá hafnar S&B erindi umsækjanda.“  Var framangreint staðfest á fundi bæjarstjórnar 6. júní 2007.  Með bréfi kæranda til skipulags- og byggingarnefndar var óskað eftir afstöðu nefndarinnar til mögulegrar lækkunar á þaki hússins.  Á fundi nefndarinnar 2. júlí 2007 var eftirfarandi bókað:  „S&B stendur við fyrri bókun frá 21. maí 2007 og þar sem hæð hússins og stærð er meiri en skilmálar kveða á um og að teknu tilliti til vel rökstuddra athugasemda sem fram komu við grenndarkynningu þá hafnar S&B framkomnu erindi.“  Var framangreint staðfest á fundi bæjarráðs 11. júlí 2007. 

Skaut kærandi synjun skipulags- og byggingarnefndar til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að umsókn hans um leyfi til byggingar frístundahúss í Eyjólfsstaðaskógi sé í samræmi við skilmála, bæði hvað stærð húss og byggingarform varði.  Grenndarkynningin hafi ekki verið skipulega gerð, tekið langan tíma og kæranda ekki kynntar niðurstöður hennar.  Þá séu rök synjunarinnar snubbótt. 

Málsrök Fljótsdalshéraðs:  Af hálfu Fljótsdalshéraðs er vísað til þess að samkvæmt umsókn kæranda um leyfi til byggingar frístundahúss í Eyjólfsstaðaskógi hafi nýtingarhlutfall verið 0,056 en eigi ekki að vera hærra en 0,05.  Þá hafi mesta hæð samkvæmt teikningum hússins verið 7,55 m, mælt af neðsta gólfi, og hæð af aðkomugólfi á efsta þakkant verið 6,20 m, en megi ekki fara yfir 5,40 m.  Verður af gögnum málsins ráðið að tilvitnaðar heimildir um hæð og stærð húsa á svæðinu eigi sér stoð í skjali er beri heitið Deiliskipulag fyrir frístundahúsabyggð – 2. áfangi – í landi Skógræktarfélags Austurlands í Eyjólfsstaðaskógi á Völlum. 

Andsvör kæranda við málsrökum Fljótsdalshéraðs:  Kærandi bendir á að samkvæmt upplýsingum sem hann hafi aflað sér hjá Skipulagsstofnun hafi samþykkt um deiliskipulag fyrir Eyjólfsstaðaskóg aldrei öðlast gildi þar sem auglýsing þess efnis hafi ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda. 

——-

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um synjun skipulags- og byggingarnefndar Fljótsdalshéraðs frá 2. júlí 2007 á beiðni um leyfi til byggingar frístundahúss á lóðinni nr. 14 í Eyjólfsstaðaskógi, Fljótsdalshéraði. 

Meðal gagna málsins er skjal er ber heitið Deiliskipulag fyrir frístundahúsabyggð – 2. áfangi- í landi Skógræktarfélags Austurlands í Eyjólfsstaðaskógi á Völlum.  Eru þar m.a. tilgreindir almennir skilmálar um stærð og hæð húsa og nýtingarhlutfall lóða.  Skjal þetta er unnið í apríl 1999 og er undirritað af bæjarstjóra Austur-Héraðs.  Er hin kærða synjun m.a. byggð á því að hæð og stærð hússins sé umfram það sem heimilt sé samkvæmt ákvæðum er fram koma í skjali þessu. 

Samkvæmt 4. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skal birta auglýsingu um samþykkt deiliskipulag í B-deild Stjórnartíðinda og er það skilyrði gildistöku skipulags, sbr. gr. 6.4 skipulagsreglugerðar nr. 400/1998.  Við rannsókn úrskurðarnefndarinnar á kærumáli þessu kom í ljós að auglýsing um gildistöku deiliskipulags annars áfanga frístundahúsabyggðar í Eyjólfsstaðaskógi hefur ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda og hefur það því ekki öðlast gildi.  Var hin kærða synjun því reist á röngum forsendum.  Gat skipulags- og byggingarnefnd ekki synjað umsókn kæranda með vísan til skipulags sem ekki hafði öðlast gildi heldur bar nefndinni að taka til athugunar hvort skilyrði væru til að afgreiða umsóknina á grundvelli 3. tl. til bráðabirgða eða 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Þessa var ekki gætt og verður hin kærða synjun því felld úr gildi. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikilla anna og málafjölda hjá úrskurðarnefndinni auk tafa við öflun málsgagna. 

Úrskurðarorð: 

Felld er úr gildi synjun skipulags- og byggingarnefndar Fljótsdalshéraðs frá 2. júlí 2007 á beiðni um leyfi til byggingar frístundahúss á lóð nr. 14 í Eyjólfsstaðaskógi, Fljótsdalshéraði. 

 

________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

______________________________             _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                 Þorsteinn Þorsteinsson