Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

57/2009 Grímsárvirkjun

Með

Ár 2010, fimmtudaginn 11. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 57/2009, kæra á innheimtu Fljótsdalshéraðs á gjaldi fyrir framkvæmdaleyfi vegna Grímsárvirkjunar.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 19. ágúst 2009, er barst nefndinni 20. sama mánaðar, kærir Orkusalan ehf. innheimtu Fljótsdalshéraðs á gjaldi fyrir framkvæmdaleyfi vegna Grímsárvirkjunar.   Fer kærandi fram á niðurfellingu greinds framkvæmdaleyfisgjalds.

Málsatvik og rök:  Kærandi er dótturfélag RARIK og er megintilgangur fyrirtækisins að framleiða, kaupa og selja rafmagn.  Ein af virkjunum kæranda er Grímsárvirkjun sem er í Grímsá á Völlum í Skriðdal.

Hinn 30. júní 2009 sótti kærandi um framkvæmdaleyfi til Fljótsdalshéraðs fyrir áformuðum framkvæmdum vegna viðhalds á sográsarlokum Grímsárvirkjunar.  Var um að ræða gerð um 800 m³ stíflu framan við sográsarlokurnar, útjöfnun stíflunnar að loknum viðhaldsframkvæmdum, flutning um 300 m³ malareyrar neðar í farveg Grímsár og gerð vegslóða að vinnusvæðinu sem yrði fjarlægður við verklok.  Umsókninni fylgdi yfirlitsmynd af vinnusvæði, umsókn til Fiskistofu vegna framkvæmda við ár og vötn skv. 33. til 34. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði, umsögn Veiðimálastofnunar og leyfi Fiskistofu til framkvæmdanna.  Skipulags- og mannvirkjanefnd Fljótsdalshéraðs samþykkti umsóknina hinn 7. júlí 2009 og staðfesti sveitarstjórn þá afgreiðslu hinn 22. júlí sama ár.  Í kjölfar leyfisveitingarinnar var kæranda sendur reikningur, dags. 29. júlí 2009, vegna framkvæmdaleyfisgjalds að upphæð kr. 103.059 með stoð í samþykkt um gatnagerðargjald, byggingarleyfisgjald og þjónustugjöld byggingarfulltrúa Fljótsdalshéraðs nr. 1034/2008.

Byggingarfulltrúa Fljótsdalshéraðs var sent erindi af hálfu kæranda hinn 10. ágúst 2009  þar sem farið var fram á niðurfellingu framkvæmdaleyfisgjaldsins.  Var vísað til þess að um væri að ræða bráðabirgðastíflu í vatnsfarvegi, sem væri venjuleg hliðarframkvæmd við viðhald búnaðar í virkjunum, og yrði hún afmáð að loknu viðhaldi.  Ekki væri um að ræða óafturkræfa meiri háttar framkvæmd sem hvorki hefði áhrif á umhverfi né ásýnd þess og hefði mat á umhverfisáhrifum aldrei komið til álita vegna hennar.  Byggingarfulltrúi hafnaði erindinu hinn 17. ágúst 2009 og benti á að um lágmarksgjald væri að ræða og að það væri úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála sem skæri úr um hvort framkvæmdin væri leyfisskyld.

Kærandi byggir málskot sitt á fyrrgreindum sjónarmiðum og bendir á að þótt sótt hafi verið um framkvæmdaleyfi í umræddu tilfelli beri sveitarfélaginu að meta hvort þörf sé á framkvæmdaleyfi og gjaldtöku vegna þess.  Ekki verði séð að kostnaður falli á sveitarfélagið vegna framkvæmda kæranda nema vegna bréfaskrifta er málinu tengist og þyki gjaldið því ríflegt.

Af hálfu Fljótsdalshéraðs er vísað til þess að um sé að ræða framkvæmdaleyfi fyrir stíflu í farvegi Grímsár, lagningu vegslóða og tilflutning á um 300 m³ malareyri í farvegi árinnar en ekki sérstaklega leyfi fyrir viðhaldi á sográsarlokum.

Niðurstaða:  Krafa kæranda í máli þessu lýtur að því að gjald vegna veitts framkvæmdaleyfis verði fellt niður þar sem umsóttar framkvæmdir séu ekki framkvæmdaleyfisskyldar.

Í 8. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er heimild fyrir umsækjanda um framkvæmdaleyfi og hlutaðeigandi sveitarstjórn að bera undir úrskurðarnefndina vafa um  hvort framkvæmdir séu háðar ákvæðum um framkvæmdaleyfi.  Þá segir í 4. mgr. gr. 9.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 að leiki vafi á því hvort framkvæmdir séu háðar ákvæðum um framkvæmdaleyfi skuli úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála skera úr um það.  Skilja verður inntak þessara ákvæða svo að sá sem hyggur á framkvæmdir og einnig viðkomandi sveitarstjórn geti borið vafa um leyfisskyldu framkvæmda undir úrskurðarnefndina áður en mál er til lykta leitt með stjórnvaldsákvörðun.  Eftir það verði álitaefnið ekki borið undir úrskurðarnefndina nema í kærumáli um gildi viðkomandi stjórnvaldsákvörðunar.

Í máli þessu var af hálfu kæranda sótt um framkvæmdaleyfi til sveitarstjórnar fyrir áformuðum framkvæmdum og var það leyfi veitt.  Ákvörðun umdeilds framkvæmdaleyfisgjalds var ekki hluti þeirrar ákvörðunar heldur byggðist gjaldtakan á almennum stjórnvaldsfyrirmælum í samþykkt Fljótsdalshéraðs nr. 1034/2008 um gatnagerðargjald, byggingarleyfisgjald og þjónustugjöld byggingarfulltrúa á Fljótsdalshéraði.  Sú samþykkt á stoð í 55. gr. skipulags- og byggingarlaga og öðlaðist hún gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 11. nóvember 2008.  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga sæta stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga kæru til úrskurðarnefndarinnar, en almenn stjórnvaldsfyrirmæli eins og hér um ræðir verða ekki borin undir hana, sbr. og 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Að öllu þessu virtu verður kröfu kæranda um niðurfellingu umdeilds framkvæmdaleyfisgjalds vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

___________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________           ____________________________
    Ásgeir Magnússon                                          Þorsteinn Þorsteinsson

 

    

58/2009 Grundarstígur

Með

Ár 2010, mánudaginn 8. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 58/2009, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 21. júlí 2009 um að veita leyfi m.a. til að byggja við kjallara og hækka þak hússins að Grundarstíg 10 í Reykjavík og breyta notkun þess. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 19. ágúst 2009, er barst nefndinni hinn 24. sama mánaðar, kæra H, Hl og Ha, eigendur fasteignarinnar að Grundarstíg 9 í Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 21. júlí 2009 að veita leyfi m.a. til að byggja við kjallara og hækka þak hússins að Grundarstíg 10 og heimila þar blandaða starfsemi í stað íbúðar.  Hin kærða ákvörðun var staðfest í borgarráði 6. ágúst 2009.

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Til vara er þess krafist að ákvörðuninni verði frestað þar til deiliskipulag fyrir húsið og næsta umhverfi þess liggi fyrir.  Til þrautavara er þess krafist að skipulagsstjóra verði gert að skilyrða rekstrarleyfi til starfseminnar.  Með bréfi kærenda til úrskurðarnefndarinnar, dags. 30. nóvember 2009, er barst nefndinni hinn 1. desember s.á., gerðu kærendur einnig kröfu um að kveðinn yrði upp úrskurður til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Þykir málið nú vera tækt til efnisúrskurðar og verður því ekki fjallað sérstaklega um þá kröfu kærenda. 

Málavextir:  Á fundi skipulagsráðs 25. febrúar 2009 var tekin fyrir fyrirspurn um hvort byggja mætti sal við kjallara hússins á lóð nr. 10 við Grundarstíg og breyta nýtingu þessa fyrrum íbúðarhúss Hannesar Hafstein í blandaða atvinnustarfsemi.  Einnig var lögð fram umsögn skipulagsstjóra, dags. 20. febrúar 2009.  Ráðið gerði ekki athugasemdir við erindið með vísan til umsagnar skipulagsstjóra og bókaði að byggingarleyfisumsókn yrði grenndarkynnt þegar hún bærist.  Í tilvitnaðri umsögn skipulagsstjóra kom m.a. fram að ekki væri ástæða til að leggjast gegn því að menningartengd starfsemi yrði rekin í húsinu þar sem ætlun eigenda væri að láta hverfið njóta góðs af starfseminni.  Einnig kom fram að ekki væru gerðar athugasemdir við viðbyggingu í garði, m.a. með vísan til umsagna borgarminjavarðar og Húsafriðunarnefndar ríkisins.  Einnig var tekið fram að fyrirhuguð hækkun mænisáss væri það óveruleg að húsið myndi ekki skera sig úr umhverfinu og ekki líklegt að hækkunin hefði áhrif á skuggamyndun á næstu lóðum. 

Hinn 31. mars 2009 var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa umsókn um byggingarleyfi vegna hússins.  Sótt var um leyfi til að byggja sal við kjallara með steyptri loftplötu og torfi á þaki, lækka gólf í núverandi kjallara, miðjusetja glugga á vesturgafli, hækka þak um 70 cm, byggja svalir á rishæð, steypa vegg á lóðarmörkum að Grundarstíg nr. 8, setja op og hlið í vegg að Skálholtsstíg og breyta nýtingu hússins í blandaða atvinnustarfsemi.  Afgreiðslu umsóknarinnar var frestað og vísað til athugasemda á umsóknarblaði.  Erindinu var einnig vísað til umsagnar skipulagsstjóra til ákvörðunar um grenndarkynningu og jafnframt var óskað umsagnar um bílastæðakröfu.  Á afgreiðslufundi skipulagsstjóra 3. apríl 2009 var samþykkt að grenndarkynna framlagða umsókn fyrir hagsmunaaðilum.  Að lokinni grenndarkynningu var umsóknin lögð fram að nýju á fundi skipulagsráðs 10. júní 2009, ásamt fylgigögnum og tölvubréfi eins kærenda, dags. 11. maí 2009, þar sem óskað var eftir framlengingu á athugasemdafresti.  Grenndarkynning stóð frá 14. apríl til 14. maí og var framlengd til og með 22. maí 2009.  Bárust athugasemdir, m.a. frá kærendum.  Á fundinum hinn 10. júní 2009 bókaði skipulagsráð að ekki væru gerðar athugasemdir við að veitt yrði byggingarleyfi þegar teikningar hefðu verið lagfærðar í samræmi við athugasemdir á umsóknareyðublaði, með þeim breytingum sem fram kæmu í umsögn skipulagsstjóra.  Í umsögninni kom m.a. fram að við útgáfu byggingarleyfis skyldi setja það skilyrði að mannfagnaðir í nýbyggingunni stæðu ekki lengur en til kl. 23:00 á kvöldin, alla daga vikunnar, og að yfirlýsingu þessa efnis skyldi þinglýst á lóðina fyrir samþykkt byggingarleyfis.  Á embættisafgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 21. júlí 2009 var eftirfarandi samþykkt:  „Sótt er um leyfi til að byggja við kjallara sal úr steinsteypu með steyptri loftplötu og torfi á þaki, lækka gólf í núverandi kjallara, miðjusetja glugga á vesturgafli, hækka þak um 70 cm, byggja svalir á rishæð, steypa vegg á lóðamörkum að Grundarstíg nr. 8, setja op og hlið í vegg að Skálholtsstíg og breyta nýtingu þessa fyrrum einbýlishúss Hannesar Hafstein í blandaða atvinnustarfsemi á lóð nr. 10 við Grundarstíg.  Kynning stóð frá 14. apríl til 14. maí, framlengt til og með 22. maí 2009.  Athugasemdir bárust. …  Niðurrif: Bílskúr 19,5 ferm., 42,9 rúmm.  Stækkun: Kjallari 110,5 ferm., 3. hæð 16,6 ferm.  Samtals stækkun: 127,1 ferm., 455,9 rúmm.  Gjald kr. 7.700 + 7.700 + 35.104.  Samþykkt.  Samræmist ákvæðum laga nr. 73/1997.“  Var framangreint staðfest á fundi borgarráðs hinn 6. ágúst 2009. 

Skutu kærendur ákvörðun byggingarfulltrúa til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er vísað til þess að hið kærða leyfi heimili að húsinu að Grundarstíg 10 verði breytt úr íbúð í aðstöðu til skemmtanahalds með tónleikasal, veitingasal og fundaraðstöðu.  Húsið standi inni í miðju íbúðarhverfi.  Leyfið stangist á við ákvæði gr. 4.2.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 þar sem segi að á íbúðarsvæðum skuli fyrst og fremst gera ráð fyrir íbúðarhúsnæði.  Þar megi þó einnig gera ráð fyrir starfsemi sem eðlilegt sé að þar sé til þjónustu við íbúa viðkomandi hverfis, s.s. verslunum, hreinlegum iðnaði, handiðnaðarfyrirtækjum, þjónustustarfsemi og leiksvæðum, eða annarri starfsemi sem hvorki verði ætlað að muni valda óþægindum vegna lyktar, hávaða eða óþrifnaðar né dragi að sér óeðlilega mikla umferð.  Hið kærða leyfi gangi gegn framangreindu í þremur atriðum.  Í fyrsta lagi sé ólíklegt að fyrirhuguð starfsemi í húsinu muni nýtast sem þjónusta við íbúa hverfisins nema að mjög litlu leyti.  Ekki sé hægt að skilgreina fyrirhugað margmiðlunarsafn sem þjónustu við íbúana og það að gera ýmsum menningarverðmætum úr nánasta umhverfi hússins skil geti varla talist til þjónustu.  Fundaraðstaða fyrir íbúana sé góðra gjalda verð, en slíka þjónustu megi sækja víða í nágrenninu og því ekki knýjandi þörf íbúanna fyrir slíkt inni í miðju hverfinu.  Starfsemin sé ætluð fyrir aðra en þá sem í hverfinu búi.  Í öðru lagi muni hin fyrirhugaða notkun augljóslega valda hávaða.  Tónleikum fylgi alltaf einhver hljóð, annars væri ekki um tónleika að ræða.  Það sé álit kærenda að starfsemi, sem m.a. sé beinlínis ætlað að framleiða hljóð, valdi ónæði vegna hávaða með þeim hætti að það stangist á við ofangreint ákvæði í skipulagsreglugerð.  Þá sé ótalinn hávaði sem ávallt myndist við það að fólk safnist saman utandyra til að reykja og vegna umferðar í kring um húsið, m.a. þegar leigubílar bíði eftir fólki o.þ.h.  Í þriðja lagi snúist hin fyrirhugaða starfsemi um að draga að sér umferð.  Ef enginn mæti á fundi eða tónleika og ef kaffigestir verði sjaldséðir sé engin starfsemi.  Umferð sé beinlínis tilgangur starfseminnar.  Tónleikasalurinn muni taka um 70 manns í sæti og fundarsalir í húsinu taki líklega nokkra tugi að auki.  Starfsemin hljóti því að draga að sér umferð.  Hugmyndir byggingarleyfishafa um að auðvelt verði að fá landsmenn til að leggja bílum sínum í 200-300 metra fjarlægð frá staðnum, þegar þeir sæki fundi, tónleika, kaffihús, veislur, sýningar eða aðrar uppákomur í húsinu, séu léttvægar.  Gestir Grundarstígs 10 muni leggja bílum sínum í öll stæðin á Grundarstíg og nálægum götum og upp á gangstéttir.  Ábyrgðarlaust sé að halda öðru fram.  Íbúar í kringum Grundarstíg 10 búi á svæði þar sem talsverður bílastæðaskortur sé nú þegar.  Þeir muni sjá fram á aukinn bílastæðaskort, einkum á kvöldin. 

Þá sé á því byggt að hið kærða leyfi stangist á við Aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2025 en í kafla 3.1.2 þess segi að á íbúðarsvæðum sé gert ráð fyrir íbúðarbyggð ásamt tilheyrandi nærþjónustu.  Þá segi þar ennfremur:  „Við mat á umsókn um tiltekna starfsemi, t.d. verslun innan íbúðarsvæða, þar sem ekki liggur fyrir deiliskipulag, er lagt til grundvallar úttekt á framboði á nærþjónustu í viðkomandi hverfi og áhrif hugsanlegrar starfsemi á umhverfið, s.s. vegna aukinnar umferðar, hávaða eða annars ónæðis af starfseminni og áhrif byggingar á yfirbragð hverfis.  Gott aðgengi íbúa hverfisins að þjónustunni skal enn fremur lagt til grundvallar við mat á umsókninni.“  Fyrirhuguð starfsemi á Grundarstíg 10 hafi í för með sér mikla umferð um svæðið, valdi auknum hávaða og sé fyrst og fremst ætluð öðrum en íbúunum sjálfum, þó í undantekningartilfellum megi hugsa sér að íbúarnir hafi einhver not af starfseminni.  Að auki sé rétt að benda á að hvorki hafi farið fram úttekt á framboði á þeirri nærþjónustu sem byggingarleyfishafi ætli að veita í hverfinu né heldur áhrif hugsanlegrar starfsemi á umhverfið, s.s. vegna aukinnar umferðar, hávaða eða annars ónæðis af starfseminni.  Samkvæmt aðalskipulaginu sé gert ráð fyrir því að ný þjónusta á íbúðarsvæði sé aðallega fyrir íbúa svæðisins. 

Þá vísi kærendur til þess að skilyrði sem byggingarleyfishafa hafi verið sett séu ótrygg, sbr. það að mannfagnaðir í nýbyggingunni skuli ekki standa lengur en til kl. 23:00 á kvöldin.  Vandséð sé hvers vegna tímatakmarkanir á mannfagnaði séu eingöngu lagðar á nýbygginguna en ekki húsið allt.  Mannfagnaðir inni í gamla húsinu geti valdið jafnmikilli truflun og í nýbyggingunni og ættu því að lúta sömu reglum.  Þá sé núverandi lagaumhverfi hvað varði grenndarrétt og nábýli óljóst og skilyrði af þessu tagi því haldlítil. 

Bent sé á að í umsókn um byggingarleyfið hafi sú skoðun verið sett fram að húsið að Grundarstíg 10 sé í jaðri miðborgarinnar og beri að taka tillit til þess við útreikninga á bílastæðisgjöldum.  Hugtakið „jaðar miðborgarinnar“ sé óskilgreint en engu að síður  notað, m.a. í viðleitni borgaryfirvalda til að færa miðbæjarstarfsemina inn í nærliggjandi íbúðarhverfi.  Þannig sé t.d. „jaðar miðborgarinnar“ notað á bls. 2-3 í þróunaráætlun miðborgar.  Hér séu yfirvöld að gera mörkin milli íbúðarbyggðar og miðbæjar óskýr, en þau mörk hafi til þessa verið nokkuð skýr. 

Að lokum sé vísað til þess að vinnubrögð skipulagsstjóra séu að sumu leyti óvönduð.  Þau gefi tilefni til að ætla að ákveðin mismunun hafi átt sér stað.  Slík vinnubrögð séu líkleg til að leiða til ranglátrar eða a.m.k. óheppilegrar niðurstöðu. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði staðfest.  Til vara er þess krafist að kröfum kærenda verði vísað frá úrskurðarnefndinni.  Varakröfur kærenda séu ekki tækar, enda sé það utan valdheimilda úrskurðarnefndarinnar að fresta og/eða skilyrða ákvarðanatöku sveitarstjórnarinnar.  Einnig sé á það bent að skipulagsstjóri sé ekki útgefandi rekstrarleyfis og geti þ.a.l. ekki skilyrt útgáfu slíks leyfis. 

Af hálfu kærenda sé því haldið fram að fyrirhuguð starfsemi í húsinu að Grundarstíg 10 sé ekki í samræmi við gr. 4.2.1 í skipulagsreglugerð um íbúðarsvæði.  Hvað þetta varði þá hafi m.a. komið fram hjá byggingarleyfishafa að ætlunin sé að reka í húsinu sal sem unnt sé að nota til tónleikahalds, sýninga, fyrirlestra og fundarhalda.  Um sé að ræða starfsemi sem falli í flokk I samkvæmt ákvæðum 4. gr. laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, en það séu veitingastaðir án áfengisveitinga.  Reykjavíkurborg hafi litið svo á að umrædd starfsemi falli beint undir skilgreiningu á þjónustustarfsemi sem skilgreind sé í skipulagsreglugerð, enda hafi ítrekað komið fram í erindum byggingarleyfishafa að starfsemin sé að miklu leyti miðuð að íbúum hverfisins.  Jafnframt hafi það verið álit Reykjavíkurborgar að starfsemin væri alls ekki til þess fallin að valda óþægindum vegna lyktar, hávaða eða óþrifnaðar eða að hún dragi að sér óeðlilega mikla umferð.  Bent sé á að fyrirætlanir byggingarleyfishafa séu í fullu samræmi við þá stefnumörkun sem liggi fyrir bæði í núgildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 og í fyrirliggjandi vinnu að nýju aðalskipulagi um þjónustu í íbúðarhverfum og um sjálfbær hverfi, en sérstök stefnumörkun þess efnis muni fylgja nýju aðalskipulagi. 

Þar að auki sé bent á að Reykjavíkurborg hafi, í góðu samstarfi við byggingarleyfishafa, sett skilyrði fyrir veitingu byggingarleyfis í því skyni að tryggja að reksturinn í húsinu verði innan þeirra marka sem sett séu, m.a. í skipulagsreglugerð.  Í gögnum málsins liggi fyrir greinargerðir byggingarleyfishafa um fyrirætlanir og þær leiðir sem verði farnar til að draga úr grenndaráhrifum vegna breytinganna.  Hafi það verið einróma mat skipulagsráðs og skipulagsstjóra að þær aðgerðir séu sannfærandi og að ástæðulaust sé að gera ráð fyrir óásættanlegum ágangi í grenndinni vegna fyrirhugaðra breytinga. 

Tekið sé fram að væntanlega hafi það ekki verið ætlun höfunda skipulags- og byggingarlaga eða skipulagsreglugerðar að banna íbúum annarra hverfa að nýta sér einstakar þjónustueiningar sem séu staðsettar innan íbúðahverfa, enda myndi slík túlkun hafa í för með sér óeðlilega niðurstöðu.  Myndi hún m.a. leiða það af sér að íbúum í Hlíðunum væri óheimilt að versla í Melabúðinni og að íbúum í Vesturbænum væri meinað að fara í klippingu á hárgreiðslustofunni að Bergstaðastræti 10, því þótt rekstur beggja þjónustueininga sé innan íbúðahverfis og aðallega ætlaður íbúum hverfisins sé óumdeilt að fleiri íbúar Reykjavíkur nýti sér hann og myndi það teljast bæði óeðlilegt og ómálefnalegt að gera skipulagslegar athugasemdir við það. 

Í kærunni séu raktar áhyggjur kærenda af hávaða vegna fyrirhugaðrar starfsemi, sérstaklega vegna tónleikahalds, reykingafólks og umferðar.  Reykjavíkurborg vísi til þeirra skilyrða sem sett hafi verið við útgáfu byggingarleyfisins þess efnis að mannfagnaðir skuli ekki standa lengur en til kl. 23:00 á kvöldin, alla daga vikunnar.  Telja verði að skipulagsstjóri, í samstarfi við byggingarleyfishafa, hafi gert nauðsynlegar ráðstafanir til að lágmarka áhrif vegna hávaða frá umferð og vegna reykingafólks með því að útbúa reykingaaðstöðu innan lóðar.  Í rekstrarleyfi verði skilyrði um að hávaði verði innan eðlilegra marka og muni brot á slíkum skilyrðum varða sviptingu leyfisins.  Í umsögn skipulagsstjóra um athugasemdir er borist hafi á kynningartíma hafi m.a. verið fallist á að hin samþykkta breyting gæti valdið auknu umferðarálagi í næsta nágrenni.  Í bréfi byggingarleyfishafa sé tekið fram að umtalsverðan fjölda almennra bílastæða sé að finna í um 200-300 m fjarlægð (2-4 mínútna gangur) frá Grundarstíg 10.  Auk þess sé tekið fram að unnið verði gagngert að því að viðskiptavinir hússins nýti sér umrædd bílastæði.  Einn aðaltilgangur borgaryfirvalda með uppbyggingu bílastæðahúsa sé að gera almenningi kleift að sækja sér þjónustu án þess að skylda alla þjónustuaðila til að leggja stóran hluta af lóð sinni undir bílastæði.  Þyki það vera óeðlileg krafa í nálægð við miðborg auk þess sem það stuðli hvorki að hagkvæmri nýtingu lands né dragi úr því að verðmætt land á miðborgarsvæði fari undir samgöngumannvirki og bílastæði.  Athugun skipulagsstjóra hafi því leitt í ljós að ekki væri ástæða til þess að fara fram á að lóðarhafar gerðu ráð fyrir auknum fjölda bílastæða innan lóðar, þar sem næg almenn bílastæði á borgarlandi væru í næsta nágrenni.  Hins vegar muni byggingarleyfishafi að sjálfsögðu greiða sig frá bílastæðakröfu vegna nýbyggingar. 

Ekki sé fallist á að hið kærða byggingarleyfi sé í andstöðu við Aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2024.  Bent sé á að við meðferð byggingarleyfisumsóknarinnar og þeirrar fyrirspurnar sem hafi verið undanfari hennar, hafi skipulagsstjóri með meðferð sinni lagt mat á efni erindisins, m.a. með því að kanna þjónustuframboð í nágrenninu og leggja heildstætt skipulagslegt mat á umsóknina.  Ekki sé því hægt að halda því fram að skipulags- og byggingarsvið hafi ekki sinnt hlutverki sínu við meðferð málsins þótt niðurstaða skipulagsstjóra, skipulagsráðs og byggingarfulltrúa sé ekki í samræmi við skoðanir kærenda á umfjöllunarefninu. 

Málsrök byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er vísað til þess að í fjölmörgum bréfum og greinagerðum hafi verið settar fram skýrar áætlanir um eðli og umfang þeirrar starfsemi sem fyrirhuguð sé í húsinu að Grundarstíg 10.  Þannig hafi íbúum hverfisins, íbúasamtökum miðborgarinnar og skipulagsyfirvöldum verið gefinn kostur á að kynna sér áformin til hlítar.  Bent sé á að áformaðar breytingar á fasteigninni og fyrirhuguð starfsemi þar falli innan ramma skipulags- og byggingarlaga og skipulagsreglugerðar eins og atvinnustarfsemi í íbúðarbyggð sé skilgreind í gr. 4.2.1 reglugerðarinnar.  Fyrirhuguð starfsemi bjóði upp á aðstöðu til samveru íbúa, m.a. með heimsókn á kaffihús stofnunarinnar.  Íbúar geti fengið aðstöðu í húsinu fyrir skilgreinda viðburði samkvæmt samkomulagi.  Menningarsögu og byggingarlist hverfisins verði haldið til haga í margmiðlunarsýningu.  Þjónustan verði valkvæð eins og önnur þjónusta í hverfinu en sé viðbót við fræðslu- og afþreyingarmöguleika íbúa. 

Fyrirhuguð starfsemi sé afar ólík þeirri mynd sem dregin sé upp í kærunni og sé vísað til skipulagsskrár stofnunarinnar þar að lútandi.  Nýbyggingin verði hljóðeinangruð eins og best verði á kosið.  Þá hafi verið þinglýst kvöð þess efnis að ekkert samkomuhald verði í nýbyggingunni eftir kl. 23:00.  Í anda markmiða stofnunarinnar verði gestir hússins hvattir til að nota vistvænan ferðamáta, s.s. almenningsvagna, reiðhjól og að koma fótgangandi.  Akandi umferð verði beint í nálæg bílastæðahús og almenningsbílastæði sem þáttur í þeirri viðleitni að framfylgja manngildisstefnumiðum stofnunarinnar.  Starfsemi stofnunarinnar, sem og starfsemi annarra fyrirtækja í hverfinu, dreifist yfir daginn.  Þessi víxlverkun í starfsemi leiði því til heppilegrar nýtingar bílastæða. 

Fullyrðingar um hávaða og umferðaþunga í kæru eigi ekki við rök að styðjast. Salurinn taki að hámarki 70 manns og þrjú fundarherbergi í húsinu taki á bilinu 4-14 manns.  Húsið standi í þegar byggðu hverfi þar sem deiliskipulag liggi ekki fyrir.  Starfsemi hússins sé sannarlega breytt en breytingar á landnotkun á reitnum verði að teljast minni háttar.  Sé litið til götureitsins sem markist af Grundarstíg, Skálholtsstíg, Þingholtsstræti og Spítalastíg sé ljóst að þar sé og hafi verið íbúðarbyggð en jafnframt atvinnustarfsemi sem samræmist íbúðarbyggð.  Að Þingholtsstræti 27, sem liggi að lóðarmörkum Grundarstígs 10, hafi lengi verið prentsmiðja og einnig lessalur Borgarbókasafns Reykjavíkur.  Í því húsi séu nú auk íbúða m.a. arkitektastofur og hugbúnaðarfyrirtæki.  Að Þingholtsstræti 25 hafi áður verið spítali en nú sé þar gistiskýli.  Að Grundarstíg 2a hafi myndlistar- og handíðaskóli verið til húsa um árabil og þar hafi einnig verið starfrækt matvöruverslun.  Breyting á starfsemi Grundarstígs 10 verði í þessu samhengi að teljast minni háttar breyting á landnotkun götureitsins en jafnframt ný og aðgengileg þjónusta við íbúa hverfisins alls.  Byggingarleyfishafi sé sannfærður um að starfsemi Hannesarholts, þ.e. sjálfseignarstofnunin sem rekin verði í húsinu, verði farsæl viðbót við það fjölbreytta mannlíf og blönduðu byggð sem þrifist hafi í hverfinu í áraraðir eins og önnur starfsemi beri vott um. 

Hvað varði starfsemina sem rekin verði í húsinu þá sé um að ræða lítið kaffihús sem verði opið á dagtíma, aðstöðu til fundahalda og sal í viðbyggingu sem notaður verði fyrir minni háttar listviðburði, fyrirlestra og annað sambærilegt.  Margmiðlunarsýning og/eða -safn verði starfrækt en aðgangur að því verði að mestu leyti í gegnum vefsíðu Hannesarholts.  Fyrirhugað sé að leigja aðstöðuna í húsinu í takmörkuðum mæli til einkaafnota en um slík not gildi að sjálfsögðu þinglýstar reglur um opnunartíma hússins. 

Mikilvægt sé að hafa í huga að Hannesarholt sé hugsjónastofnun þar sem kjarninn í starfseminni sé rekstur menningartengdrar starfsemi.  Slíkri stofnun sé og verði mjög annt um að virða í hvívetna rétt nágranna til friðhelgi og óþægindalítils umhverfis.  Hannesarholt muni því, óháð lögum og reglugerðum, leggja áherslu á mannvænt líf í húsinu og nágrenni þess.  Til að undirstrika þennan einlæga vilja forsvarsmanna Hannesarholts hafi íbúasamtökum miðborgarinnar verið boðið sæti í fimm manna stjórn stofnunarinnar.  Slíkt boð sé líklega einsdæmi í miðborginni. 

Ítrekað sé að í hverfinu hafi alla tíð verið blönduð byggð, lifandi og fjölbreytt mannlíf.  Starfsemi hafi komið og farið og eðlilegt að framhald verði á því.  Það sé engin tilviljun að eigendur hússins hafi horft til hverfisins varðandi fyrirhugaða starfsemi Hannesarholts enda sé þetta merkilega hús Hannesar Hafstein staðsett við Grundarstíg og verði tæplega flutt.  Þá eigi mörg önnur hús í hverfinu sér langa og merkilega sögu sem mikilvægt sé að halda á lofti.  Sem dæmi um hina blönduðu byggð hverfisins í gegnum árin sé skemmst að minnast Borgarbókasafns Reykjavíkur sem starfrækt hafi verið að Þingholtsstræti 29a (Esjubergi), en það hús ásamt Grundarstíg 10 sé eitt af elstu steinsteypuhúsum í Reykjavík, reist um 1916.  Önnur stofnun hafi einnig verið starfrækt örskammt frá Grundarstíg 10 til margra ára, Tónskóli Sigursveins D. Kristinssonar í Hellusundi 7, frá árunum 1971-1996.  Þegar skólinn hafi um síðir flust úr Hellusundinu hafi nemendur verið um 650 og kennarar um 66 talsins.  Í dag sé Bónusvídeó á næsta götuhorni við Grundarstíg 10, þ.e. að Grundarstíg 12.  Safnaðarheimili Fríkirkjunnar sé skammt frá eða að Laufásvegi 13, Hótel Holt sé á næstu grösum, Volcano Show að Hellusundi 6, Kvennaskólinn og Bónus í seilingarfjarlægð.  Á Grundarstígnum megi að auki finna leikskóla, heildverslun, ERGO Engineering Geology ehf. og Menningar- og friðarsamtök íslenskra kvenna.  Í Þingholtsstræti, næstu götu fyrir neðan Grundarstíg, megi nefna að í húsi nr. 23 sé fyrirtæki er framleiði kvikmyndir og tannlækningastofa.  Í húsi nr. 27 sé arkitekta- og verkfræðistofa, fyrirtæki á sviði upplýsingatækni og Amnesty International.  Þá sé Stofnun Sigurðar Nordals í húsi nr. 29.  Af framangreindu megi glögglega sjá að byggð í hverfinu sé og hafi lengi verið afar blönduð þótt hverfið sé skilgreint íbúðarhverfi.  Starfsemi Hannesarholts yrði því áhugaverð viðbót við þá fjölbreyttu flóru mannlífs sem þar þrífist fyrir. 

Smekklegar og löngu tímabærar lagfæringar á húsinu ásamt menningarlegri starfsemi innandyra geti orðið verulegur vegsauki fyrir hverfið og umhverfi þess.  Sú staðreynd að ætlunin sé að halda til haga menningarsögu hverfisins og byggingarlist í væntanlegri margmiðlunarsýningu hljóti einnig að vera dýrmætt fyrir það fólk sem kosið hafi að búa sér heimili í hverfinu.  Byggingarleyfishafar telji hafið yfir allan vafa að fyrirhuguð starfsemi flokkist undir „þjónustu við íbúa viðkomandi hverfis“ og viti það fyrir víst út frá samtölum við nágrannana að fjölmargir íbúar muni nota einn eða fleiri þátt þessarar starfsemi.  Að öðru leyti sé starfsemi Hannesarholts einnig ætluð öllum almenningi rétt eins og starfsemi Borgarbókasafnsins í Þingholtsstræti forðum. 

Hvað varði fullyrðingar kærenda um hávaða sé bent á að áformað sé að halda tónleika í fyrirhugaðri viðbyggingu í bakgarði hússins að Grundarstíg 10.  Veggurinn á Þingholtsstræti 27, sem liggi að viðbyggingunni að lóðarmörkum, sé brunagafl.  Í viðbyggingunni (salnum) verði gluggar með tvöföldu, þykku verksmiðjugleri að garðinum og þakgluggar að gamla húsinu verði með samlímdu öryggisgleri.  Bæði gamla húsið og viðbyggingin séu steinsteypt hús, þar sem efnisþyngdin ein sé besta hljóðeinangrunin.  Veggir verði slitnir frá steinveggjum Þingholtsstrætis 27 með steinullarmottum.  Á þaki viðbyggingarinnar verði gras sem sannarlega sé hljóðeinangrandi.  Salurinn verði að auki með sérstakri loftræstingu svo ekki þurfi að opna glugga.  Veggir og gluggar verði sérstaklega útbúnir þannig að ekkert heyrist af utanhússhljóðum inn.  Þetta virki að sjálfsögðu í báðar áttir, þ.e. ekkert heyrist út.  Þannig eigi að vera hægt að flytja þar klassíska tónlist án truflana.  Fyrir utan viðbygginguna/salinn sé gróður og síðan garðveggurinn 2,5 m hár.  Einnig sé minnt á ákvæði þess efnis að samkomuhald í nýbyggingunni sé aðeins heimilað til kl. 23:00. 

Ástæða sé til að ítreka að markmiðið með starfseminni sé allt annað en að reka skemmtistað.  Því sé hvorki ástæða til að óttast umtalsverða umferð leigubíla né annarra bíla.  Miðað við að fyrirhugaður fyrirlestra/tónleikasalur taki á bilinu 50-70 manns í sæti og oftast mæti tveir saman, þar af sumir gangandi/hjólandi eins og Hannesarholt muni leggja mikla áherslu á, megi ljóst vera að ekki þurfi að hafa áhyggjur af þungri umferð. 

Tilgangur fyrirhugaðrar starfsemi lúti að fólki, ekki umferð.  Fundarherbergin í húsinu sjálfu, auk fyrirlestrasalar í viðbyggingu, verði þrjú talsins.  Tvö þeirra rúmi 4-8 manns og hið þriðja 12-14 manns samkvæmt teikningum.  Það sé því alrangt að fundarsalir í húsinu sjálfu taki nokkra tugi.  Áætlað sé að salur í viðbyggingu verði aðallega notaður á kvöldin og um helgar, en minna á daginn þegar kaffihúsið verði opið.  Þannig sé líklegt að fjöldi gesta dreifist allvel á dag-, kvöld- og helgaropnunartíma, sem muni leiða til hagstæðrar nýtingar á opinberum bílastæðum.  Líklegt sé að sú starfsemi sem dragi að sér flest fólk og þar með einhverja umferð verði að kvöldi þegar fjölmörg opinber bílastæði, sem annars séu upptekin á dagtíma, losni. 

——-

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér með óformlegum hætti aðstæður á vettvangi 25. janúar 2010. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er krafist ógildingar á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 21. júlí 2009 um að veita leyfi m.a. til að byggja við kjallara og hækka þak hússins að Grundarstíg 10 og heimila þar blandaða atvinnustarfsemi í stað íbúðar.  Þá felur hið kærða leyfi og í sér heimild til niðurrifs bílskúrs á lóðinni.  Á umræddu svæði er ekki í gildi deiliskipulag en samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 stendur húsið á íbúðarsvæði, nánar tiltekið á miðborgarsvæði, þar sem byggð er þétt, nýtingarhlutfall lóða hátt og götur þröngar. 

Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga með síðari breytingum, sem og 9. og 43. gr. sömu laga, gildir sú meginregla að byggingarleyfi verði að eiga sér stoð í deiliskipulagi.  Frá þeirri reglu er að finna undantekningu í 3. mgr. 23. gr. laganna þar sem segir að sveitarstjórn geti veitt leyfi til framkvæmda í þegar byggðum hverfum að undangenginni grenndarkynningu.  Ákváðu borgaryfirvöld að neyta þessarar undanþáguheimildar í máli því sem hér er til meðferðar og grenndarkynntu því framkomna byggingarleyfisumsókn.  Er það meðal úrlausnarefna málsins að skera úr um hvort skilyrði hafi verið til að beita umræddri undanþáguheimild í málinu.

Við afmörkun undantekningarreglu 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga gagnvart meginreglunni hefur verið talið að skýra beri ákvæðið til samræmis við 1. og 2. mgr. 26. gr. sömu laga þar sem segir að fara skuli með breytingu á deiliskipulagi eins og um nýtt skipulag sé að ræða nema breytingin sé óveruleg.

Þegar meta skal hvort bygging teljist einungis hafa í för með sér óverulega breytingu verður m.a. að líta til þess hversu umfangsmikil hún sé í hlutfalli við þær byggingar sem fyrir eru á umræddri lóð eða svæði og hver grenndaráhrif hennar séu á nærliggjandi eignir.  Sé um breytta notkun að ræða, eins og í hinu kærða tilviki, verður og að líta til þeirra áhrifa sem fyrirhuguð starfsemi kann að hafa á umferð, bílastæðaþörf og aðrar breytingar sem starfseminni kunni að fylgja.

Eins og að framan hefur verið rakið heimilar hið kærða byggingarleyfi bæði umtalsverða stækkun hússins að Grundarstíg 10 og að notkun þess verði breytt úr íbúð í blandaða atvinnustarfsemi þar sem heimilt sé að halda mannfagnaði til kl. 23:00 öll kvöld vikunnar.  Má ætla að þessari starfsemi fylgi aukin umferð og umgangur, hávaði og aukið álag á bílastæði fram eftir kvöldum.  Telur úrskurðarnefndin að um svo verulega breytingu sé að tefla að ekki hafi verið skilyrði til þess að fara með umsókn um byggingarleyfi eftir undantekningarákvæði 3. mgr. 23. gr. laga nr. 73/1997. 

Úrskurðarnefndin telur jafnframt að ekki hafi verið gerð nægileg grein fyrir því hvernig fullnægja eigi ákvæðum 64. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 um bílastæði.  Í byggingarlýsingu á aðaluppdráttum er að vísu gerð grein fyrir bílastæðaþörf en hvorki er þar gerð grein fyrir bílastæði fyrir hreyfihamlaða né útskýrt hvers vegna ekki þurfi að líta til sætafjölda í húsinu við ákvörðun um fjölda bílastæða.  Þá er ekki heldur vikið að því í hinni kærðu ákvörðun hvort mæta eigi bílastæðakröfu með greiðslu bílastæðagjalds skv. 28. gr. byggingarreglugerðar eða með öðrum hætti.

Loks er engin grein gerð fyrir því hvernig hið umdeilda byggingarleyfi samræmist stefnumarkandi ákvörðunum þróunaráætlunar miðborgar um íbúðarsvæði, samþykktum í borgarráði 10. október 2000, þar sem fram kemur að á íbúðarsvæðum miðborgarsvæðis sé meginmarkmið borgaryfirvalda að vernda og bæta íbúðarbyggð og umhverfi hennar.  Þar skuli og stefnt að því að halda núverandi íbúðarhúsnæði og íbúðarlóðum sem slíkum nema í þeim tilvikum þar sem aðstæður mæli sérstaklega gegn því og að notkun húsnæðis til léttiðnaðar, undir skrifstofur eða ámóta verði ekki heimiluð ef hætta sé á að hún valdi íbúum stöðugu ónæði eða auki umferð verulega. 

Samkvæmt því sem að framan er rakið er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að ekki hafi verið skilyrði til þess að fara með málið eftir undantekningarákvæði 3. mgr. 23. gr. laga nr. 73/1997, auk þess sem hinni kærðu ákvörðun og rökstuðningi fyrir henni hafi verið áfátt.  Verður ákvörðunin því felld úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikilla anna og málafjölda hjá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð: 

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 21. júlí 2009, sem staðfest var í borgarráði 6. ágúst 2009, um að veita leyfi til að byggja við og hækka þak hússins að Grundarstíg 10 í Reykjavík og breyta notkun þess. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________          _____________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson

40/2009 Bústaðavegur

Með

Ár 2010, fimmtudaginn 28. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 40/2009, kæra á ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 22. apríl 2009 um að veita leyfi fyrir smáhýsi úr timbri á lóð Veðurstofu Íslands að Bústaðavegi 9 í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 4. júní 2009, er barst nefndinni sama dag, kærir Dögg Pálsdóttir hrl., f.h. S, Stigahlíð 87 og S, Stigahlíð 89, Reykjavík, þá ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 22. apríl 2009 að veita leyfi fyrir smáhýsi úr timbri á lóð Veðurstofu Íslands að Bústaðavegi 9 í Reykjavík. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að umdeild bygging verði fjarlægð. 

Málavextir:  Á afgreiðslufundi skipulagsstjóra Reykjavíkur hinn 29. febrúar 2008 var lögð fram fyrirspurn Geislavarna ríkisins um byggingu 20 m² smáhýsis á lóð Veðurstofu Íslands að Bústaðavegi 9.  Skipulagsstjóri afgreiddi fyrirspurnina með eftirfarandi bókun:  „Ekki eru gerðar athugasemdir við að fyrirspyrjandi láti vinna tillögu að breytingu á deiliskipulagi í samráði við embætti skipulagsstjóra, á eigin kostnað, sem síðar verður grenndarkynnt án þess tekin sé afstaða til staðsetningu samkvæmt skissu.“ 

Fyrirspurnin var tekin fyrir að nýju á afgreiðslufundi skipulagsstjóra hinn 4. apríl 2008 og svohljóðandi bókað:  „Leiðrétt bókun frá afgreiðslufundi skipulagsstjóra frá 29. febrúar 2008. Ekki eru gerðar athugasemdir við erindið. Byggingarleyfisumsókn verður grenndarkynnt þegar hún berst.“ 

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 6. maí 2008 var tekin fyrir umsókn um leyfi fyrir 24,3 m² smáhýsi úr timbri fyrir Geislavarnir ríkisins á lóð nr. 9 við Bústaðaveg og fylgdi umsókninni samþykki lóðarhafa.  Var umsóknin afgreidd með svohljóðandi bókun:  „Samþykkt. Samræmist ákvæðum laga nr. 73/1997.“  Staðfesti borgarráð afgreiðsluna á fundi hinn 15. maí 2008. 

Hinn 22. desember 2008 höfðu kærendur máls þessa samband við embætti byggingarfulltrúa og mótmæltu framkvæmdum á lóð Veðurstofu Íslands og með tölvupósti byggingarfulltrúa, dags. 26. desember s.á., var þeim m.a. tilkynnt að embættið hefði samþykkt byggingu smáhýsis á umræddri lóð og hafi þá legið fyrir umsagnir ýmissa aðila, m.a. skipulagsstjóra.  Væri ekki annað að sjá en að starfsmönnum hefði við yfirferð umsóknar yfirsést bókun þess efnis að umsókn um byggingarleyfi yrði grenndarkynnt ef hún bærist.  Þegar þetta hefði komið í ljós hefðu framkvæmdir verið stöðvaðar. 

Í kjölfar þessa var kærendum sendur aðaluppdráttur, er samþykktur hafði verið 6. maí 2008, af umræddu smáhýsi til óformlegrar kynningar á málinu og þeim bent á að hefðu þeir einhverjar athugasemdir fram að færa myndi fara fram grenndarkynning. 

Með tölvupósti til byggingarfulltrúa, dags. 5. janúar 2009, fóru kærendur fram á að formleg grenndarkynning ætti sér stað.  Með svarbréfi byggingarfulltrúa, dags. 8. janúar s.á., var þeim tilkynnt að fallið hefði verið frá grenndarkynningu á byggingarleyfisumsókn og að stöðvun framkvæmda hefði verið aflétt með vísan til minnisblaðs skipulagsstjóra, dags. 8. janúar 2009. 

Var ákvörðun um veitingu byggingarleyfisins skotið til úrskurðarnefndarinnar af hálfu kærenda og með úrskurði, dags. 26. febrúar 2009, felldi nefndin leyfið úr gildi þar sem grenndarkynning á áformuðum framkvæmdum hafði ekki farið fram skv. fyrirmælum 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 27. febrúar 2009 var tekin fyrir umsókn um leyfi fyrir áðurgreindu smáhýsi á lóð Veðurstofunnar og var ákveðið að grenndarkynna umsóknina.  Að henni lokinni var málið tekið fyrir á fundi skipulagsráðs 22. apríl sama ár og lágu þar fyrir andmæli kærenda og umsögn skipulagsstjóra.  Var umsóknin samþykkt með vísan til nefndrar umsagnar skipulagsstjóra og var sú ákvörðun staðfest í borgarráði hinn 24. apríl 2009. 

Málsrök kærenda:  Kröfur kærenda byggjast á því að hið kærða byggingarleyfi sé ólögmætt og með veitingu þess sé gengið á mikilvæga hagsmuni þeirra. 

Umdeilt smáhýsi standi framan við stofuglugga Stigahlíðar 87 og byrgi fyrir útsýni til suðurs sem áður hafi verið óskert.  Að mati kærenda sé húsið allt of hátt og muni tilvist þess hafa áhrif á verðmæti fasteigna þeirra.  Einfalt hefði verið að finna smáhýsinu annan stað á lóð Veðurstofunnar en með því hefði dregið verulega úr grenndaráhrifum þess.  Smáhýsið sé auk þess í ósamræmi við aðrar byggingar á svæðinu og falli illa að umhverfi sínu.  Íbúðarhúsin við Stigahlíð standi lægra en umrædd bygging og verði því áhrif hennar á umhverfið og útsýni meiri en ella.  Kærendur hefðu átt þess kost að benda á þessi atriði áður en byggingin var reist ef áður hefði farið fram grenndarkynning.  Umrætt smáhýsi muni ennfremur takmarka þá fjölþættu útivist sem til þessa hafi verið stunduð á svæðinu. 

Kærendum sé ekki kunnugt um þá starfsemi sem fram muni fara í greindu húsi en henni fylgi mikil hávaðamengun og óljóst sé hversu mikil umferð muni fylgja starfseminni.  Nóg sé komið af mælitækjum og sendum í nágrenni fasteigna kærenda en um sé að ræða svæði sem sé ódeiliskipulagt. 

Málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar beri með sér að hagsmunir nágranna séu fyrir borð bornir.  Húsið hafi verið reist án grenndarkynningar en hún síðan farið fram eftir að húsið hafi verið komið á lóðina og byggingarleyfið fellt úr gildi.  Ekkert tillit hafi verið tekið til athugasemda sem fram hafi komið við grenndarkynninguna enda megi ætla að kynningin hafi aðeins þjónað þeim tilgangi að bæta úr formgalla á málsmeðferð byggingarleyfis fyrir þegar reistri byggingu. 
 
Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu borgaryfirvalda er farið fram á að kröfum kærenda verði hafnað. 

Grenndaráhrif umrædds smáhýsis séu svo óveruleg að ekki raski hagsmunum kærenda né annarra íbúa að neinu leyti.  Það sé aðeins um 20 m² að flatarmáli og um fjórir metrar á hæð.  Það sé staðsett innarlega á lóð, í a.m.k. 60 m frá stofuglugga kærenda og um 40 m fjarlægð frá lóðarmörkum.  Lóð Veðurstofunnar sé á ódeiliskipulögðu svæði og sé stofnanalóð samkvæmt aðalskipulagi.  Byggingin hafi einhver sjónræn grenndaráhrif en þau þyki ekki þess eðlis að hafna hefði átt umsókn byggingarleyfishafa.  Minnt sé á að eigendur fasteigna í þéttbýli geti ávallt vænst þess að breytingar verði gerðar í nágrenni þeirra sem haft geti í för með sér útsýnisskerðingu, skuggavarp eða önnur grenndaráhrif.  Telja verði að hagsmunir Geislavarna ríkisins af því að sinna lögboðinni starfsemi sinni með byggingu umrædds smáhýsins séu mun ríkari en hagsmunir kærenda af lítilsháttar útsýnisskerðingu.  Ekki verði gerð krafa um að smáhýsið falli að byggingarstíl annarra húsa í hverfinu, enda standi það sér á lóðinni og eigi kærendur og aðrir íbúar ekki kröfu til nýtingar lóðarinnar til útivistar.  Þar að auki verði ekki séð að ca. 20 m² smáhýsi komi í veg fyrir útivist og leiki á lóðinni. 

Starfsemi sú sem smáhýsið þjóni eigi að vera kunn kærendum enda hafi hún verið kynnt við grenndarkynningu og upplýst um að smáhýsinu sé ætlað að hýsa mælitæki fyrir Geislavarnir ríkisins.  Ekkert bendi til þess að íbúum stafi hætta af starfseminni og ekki sé fallist á að frá skúrnum berist verulegur hávaði.  Við val á staðsetningu smáhýsisins hafi m.a. verið tekið tillit til masturs, lagnastokks, jarðvegs og álfasteins sem á lóðinni sé.  Á öðrum stöðum, nær Bústaðavegi, sé gert ráð fyrir annarri uppbyggingu eins og uppdráttur af lóðinni sem samþykktur hafi verið 11. maí 1999 beri með sér.  Eðlilegt sé að umrædd stofnanalóð sé nýtt fyrir mælingar og þess háttar og mannvirki reist á henni í því skyni enda hafi svo verið um árabil og almenningi verið það kunnugt.  Telji Reykjavíkurborg að málsmeðferð umdeildrar byggingarleyfisumsóknar hafi verið eðlileg og að engin efnisleg rök séu fyrir því að fella byggingarleyfið úr gildi. 

Þá sé ekki unnt að fallast á kröfu kærenda um að úrskurðað verði í málinu að umrætt smáhýsi verði fjarlægt.  Smáhýsið sé byggtr skv. samþykktu byggingarleyfi og hafi úrskurðarnefndin enga lagalega heimild til að fyrirskipa slíka aðgerð. 

Málsrök byggingarleyfishafa:  Byggingarleyfishafi hefur komið sjónarmiðum sínum á framfæri við úrskurðarnefndina í fyrra kærumáli um sama efni og bendir hann á að kærendur búi í meira en 60 m fjarlægð frá umræddu smáhýsi sem sé fyrirferðarlítið, aðeins um 20 m² að flatarmáli og 4 m á hæð.  Hafi það því hverfandi grenndaráhrif  Byggingin muni ekki fela í sér skert útsýni fyrir kærendur, hún sé ekki í óþægilegri nálægð við þá og muni ekki varpa skugga á lóðir kærenda eða á annan hátt skerða hagsmuni þeirra. 

Bent sé á að byggingin hýsi búnað er mæli geislavirkar svifagnir í andrúmslofti og séu strangar kröfur gerðar um staðarval slíkra mælinga.  Vegi veðurfarsleg skilyrði hvað þyngst auk þess sem sjónlína þurfi að vera við gervihnött.  Hvað hávaða af notkun skúrsins varði beri að taka það fram að byggingarleyfishafi hafi gert sérstaka kröfu til hönnuða um að tryggja að hávaði verði innan ásættanlegra marka, enda skúrinn nærri fjölmennum vinnustað.  Því sé alfarið vísað á bug að búnaðurinn hafi þann hávaða í för með sér að hann hafi áhrif á kærendur. 

—————

Aðilar hafa fært fram frekari rök í málinu sem ekki verða rakin hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér óformlega aðstæður á vettvangi hinn 20. febrúar 2009 í tilefni af fyrra kærumáli vegna umrædds mannvirkis. 

Niðurstaða:  Lóð Veðurstofu Íslands, er hin umdeilda bygging stendur á, er á ódeiliskipulögðu svæði en hún er skilgreind sem stofnanalóð í gildandi aðalskipulagi Reykjavíkur.  Lóðin er hluti af svæði með mótaða byggð en engar byggingar standa á milli fasteigna kærenda og umdeilds smáhýsins. 

Samkvæmt meginreglu, sem fram kemur í 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, skal gera deiliskipulag þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar.  Sú undantekning er gerð í 3. mgr. ákvæðisins, þegar um er að ræða þegar byggð hverfi, að sveitarstjórn getur veitt heimild til framkvæmda þótt deiliskipulag liggi ekki fyrir, en þá að undangenginni grenndarkynningu samkvæmt 7. mgr. 43. gr. laganna.  Hefur umrædd bygging verið grenndarkynnt í samræmi við tilvitnað ákvæði eftir að úrskurður gekk í fyrra máli um gildi byggingarleyfis fyrir henni og verður að telja eins og atvikum er háttað að heimilt hafi verið að fara með málið eftir undantekningarreglu 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Hins vegar verður að fallast á með kærendum að grenndarkynning þjóni ekki tilgangi sínum með viðunandi hætti  eftir að mannvirki það sem kynningin tekur til er risið.  Er meðferð málsis haldi ágalla að þessu leyti en ekki þykir, þrátt fyrir það, alveg næg ástæða til þess að ógilda hina kærðu ákvörðun.
 
Eins og áður greinir stendur umdeild bygging Geislavarna ríkisins á stofnanalóð Veðurstofunnar sem er 30.591 m2 að stærð samkvæmt fyrirliggjandi aðaluppdrætti af lóðinni.  Nýtingarhlutfall lóðarinnar er lágt og mátti því vænta að frekari uppbygging gæti þar átt sér stað.  Á lóðinni standa möstur og önnur mannvirki er tengjast starfsemi Veðurstofunnar og ekki verður talið óeðlilegt eða ófyrirséð að mælingum eins og hér um ræðir sé fundinn staður á slíkri lóð.  Byggingin er ekki stór og stendur í nokkurri fjarlægð frá fasteignum kærenda.  Þótt hún hafi grenndaráhrif og þá einkum á útsýni frá hýbýlum kærenda, verða áhrifin ekki talin slík að raskað geti gildi hins kærða byggingarleyfis þegar tekið er mið af framangreindum atvikum.  Verður kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því hafnað. 

Að þeirri niðurstöðu fenginni þykir ekki ástæða til að fjalla um kröfu kærenda um brottnám hinar umdeildubyggingar í máli þessu. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar skipulagsráðs Reykjavíkur frá 22. apríl 2009, sem borgarráð staðfesti 24. sama mánaðar, um að veita leyfi fyrir smáhýsi úr timbri á lóð Veðurstofu Íslands að Bústaðavegi 9 í Reykjavík. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________            ____________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson

86/2007 Njálsgötureitur 3

Með

Ár 2010, fimmtudaginn 21. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 86/2007, kæra á samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 21. júní 2007 um deiliskipulag fyrir Njálsgötureit 3. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 17. ágúst 2007, er barst úrskurðarnefndinni hinn 20. sama mánaðar, kærir Ásgeir Þór Árnason hrl., f.h. eigenda fasteignarinnar að Njálsgötu 56, Reykjavík, samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 21. júní 2007 um deiliskipulag fyrir Njálsgötureit 3.  Auglýsing um hina kærðu ákvörðun var birt í B-deild Stjórnartíðinda 19. júlí 2007.

Af hálfu kærenda er þess krafist að byggingarreitur að Njálsgötu 56 verði stækkaður frá auglýstu deiliskipulagi,  að sérstaklega verði tiltekið að fasteignin að Njálsgötu 56 hafi óheftan umferðarrétt fyrir ökutæki frá götu að austurhluta lóðarinnar og að kvöð um akstur meðfram vesturlóðarmörkum Njálsgötu 58 verði breytt í kvöð um aðkomu.  Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 29. september 2004 var samþykkt forsögn skipulagsfulltrúa að deiliskipulagi fyrir þrjá reiti við Njálsgötu, þar á meðal Njálsgötureit 3, sem markast af Njálsgötu, Barónsstíg, Bergþórugötu og Vitastíg, dags. í september 2004.  Voru skipulagsáform fyrir umrædda reiti kynnt íbúum á svæðinu og bárust allmargar athugasemdir. 

Á fundi skipulagsráðs 7. júní 2006 var samþykkt að kynna framlagða tillögu fyrir hagsmunaaðilum innan reitsins.  Stóð kynning yfir frá 13. júní til og með 27. júní 2006.  Að þeirri kynningu lokinni var málið tekið fyrir á fundi skipulagsráðs hinn 21. febrúar 2007.  Fyrir lágu athugasemdir sem borist höfðu frá þremur aðilum, þar á meðal frá kærendum.  Lögð var fram samantekt skipulagsfulltrúa, dags. 19. febrúar 2007, ásamt húsakönnun Minjasafns Reykjavíkur og bréfi húsafriðunarnefndar, dags. 23. október 2006.  Jafnframt var lögð fram ný tillaga Teiknistofunnar Traðar, dags. 8. febrúar 2007, ásamt greinargerð, dags. 23. janúar 2007.  Skipulagsráð samþykkti að auglýsa tillöguna með eftirfarandi bókun:  „Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu. Jafnframt samþykkt að senda þeim sem gerðu athugasemdir við hagsmunaaðilakynningu tilkynningu um auglýsingu.  Vísað til borgarráðs.“

Að lokinni auglýsingu var málið tekið fyrir á fundi skipulagsráðs 13. júní 2007 og var þá lögð fram að nýju tillaga Teiknistofunnar Traðar, dags. 8. febrúar 2007, ásamt greinargerð, dags. 21. febrúar 2007.  Einnig var lögð fram samantekt skipulagsfulltrúa eftir hagsmunaaðilakynningu, dags. 19. febrúar 2007, húsakönnun Minjasafns Reykjavíkur nr. 122 og bréf húsafriðunarnefndar, dags. 23. október 2006.  Þá var og lögð fram umsögn skipulagsstjóra, dags. 11. maí 2007.  Skipulagsráð samþykkti hina auglýstu tillögu með eftirfarandi bókun:  „Auglýst tillaga samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsstjóra.  Vísað til borgarráðs.“  Borgarráð samþykkti afgreiðsluna á fundi sínum þann 21. júní 2007.

Skutu kærendur framangreindri samþykkt til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Kærendur telja að með samþykkt skipulagsráðs Reykjavíkur á hinu umdeilda deiliskipulagi hafi ráðið brotið gegn réttindum þeirra samkvæmt jafnræðisreglu 65. gr. og eignarréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. 3. gr. og 5. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995, sbr. og 1. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt deiliskipulaginu séu kærendur einu eigendur fasteigna á Njálsgötureit 3, sem ekki verði heimilað hér eftir að byggja að mörkum grannlóða við götu.  Þá sé nýtingarhlutfall lóðar þeirra hið lægsta á reitnum, aðeins 1,38, á meðan nýtingarhlutfall sambærilegarar eignar að Njálsgötu 54 sé 1,7.  Þó heimilað hafi verið á sínum tíma að reisa bakhús á lóð nr. 58 eigi það ekki nú að hafa þær afleiðingar að kærendum verði meinað að byggja að lóðarmörkum til austurs.  Í því sambandi sé vakin athygli á því að nægjanleg aðkoma sé að bakhúsinu um vesturhluta þeirrar lóðar.  Sérstaklega sé bent á að samskonar aðgengis sé þörf að lóð nr. 52A, vegna húss nr. 52B á baklóð, en þrátt fyrir það sé lóðarhafa að Njálsgötu 54 heimilt að byggja að vesturmörkum lóðar sinnar samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi.

Kærendur bendi á að fyrir sé bílskúr á þeim lóðarhluta sem þeir krefjist byggingarreits  og hafi skúrinn staðið þar a.m.k. frá 1950.  Hafa fasteignagjöld verið greidd af honum til Reykjavíkurborgar með tíðkanlegum hætti.  Kærendur hafi því hefðað rétt til að hafa byggingu á téðum hluta lóðar sinnar en um eignarlóð sé að ræða.

Kærendur hafi ítrekað bent starfsmönnum Reykjavíkurborgar á framangreind atriði og hafi bent formlega á þau í nóvember 2004 og í bréfum, dags. 25. júní 2006 og 22. og 24. apríl 2007.  Þeim hafi verið svarað með bréfi skrifstofu skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkurborgar, dags. 11. maí 2007, en þar sé kröfum þeirra hafnað með vísan til þess að þarna sé „…mikilvægt að opna inn á baklóðirnar“.  Þá sé þess einnig getið að ef kærendur fengju byggingarreit að lóðarmörkum Njálsgötu 58 myndi rísa þar stór lokaður brunaveggur og ef byggja ætti að lóðarmörkunum yrði að vera skilyrði um að Njálsgata 58 byggðist einnig að lóðarmörkum á sama tíma.  Þá séu uppi hugleiðingar um að eigendur beggja lóðanna gætu átt með sér samstarf í þessu tilliti og kæmi þá hugsanlega til greina að breyta deiliskipulagi.  Kærendur sætti sig ekki við þessi rök og telji að þau byggist á sértækum sjónarmiðum til hagsbóta fyrir eigendur Njálsgötu 58, sem tekin hafi verið fram yfir hagsmuni þeirra.  Þegar hins vegar sé virt að kröfur kærenda lúti að því að gera þau eins sett og eigendur annarra eigna á Njálsgötureit 3 beri að taka kröfur þeirra til greina.        

Í hinu samþykkta deiliskipulagi sé ekki gert ráð fyrir aðkomu ökutækja að bílskúr kærenda, sem standi á austurhluta lóðarinnar.  Þetta sé gert þrátt fyrir að sá réttur hafi verið fyrir hendi a.m.k. frá því að bílskúrinn hafi verið byggður, sem kærendur telji að hafi verið um 1924.  Þessi réttur hafi um langa hríð verið virtur í reynd af Reykjavíkurborg enda hafi hin síðari ár, við gerð gangstéttar fyrir framan lóðina, ávallt verið gert ráð fyrir innkeyrslu á lóðina á þessum stað og megi nú t.d. glögglega sjá sérstakar tilfæringar í götunni í því skyni.  Nauðsynlegt sé því að taka skýrlega upp í deiliskipulagið tilvísun til þessa aðgangsréttar kærenda.

Samþykkt hafi verið með fyrrgreindu bréfi að breyta kvöð um akstur eftir vesturlóðarmörkum Njálsgötu 58 í kvöð um aðkomu en það virðist síðan ekki hafa verið gert á endanlegum uppdrætti.  Því sé nauðsynlegt að kæra samþykktina einnig að því leyti.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Reykjavíkurborg krefst þess að hin kærða samþykkt verði staðfest.

Reykjavíkurborg taki ekki undir málsástæður kærenda eins og þær birtist í kæru.  Bent sé á að kröfugerð kærenda feli beinlínis í sér kröfu um að úrskurðarnefndin breyti deiliskipulaginu í samræmi við óskir kærenda.  Til þess sé nefndin ekki bær heldur hafi hún einungis vald til að skera úr um lögmæti skipulagsákvarðana.  Ekki sé þó krafist frávísunar málsins vegna þessa annmarka og líti Reykjavíkurborg svo á að einungis sé verið að krefjast ógildingar deiliskipulagsins sem til umfjöllunar sé í málinu.

Varðandi málsástæður kærenda um mismunandi nýtingarhlutfall og brot á jafnræði skuli á það bent að aðstæður á lóðum innan reitsins séu mismunandi og nýtingarhlutfall sé bara eitt þeirra atriða sem notuð séu til að stýra og takmarka byggingarheimildir innan lóða.  Á þeim lóðum þar sem veittar séu heimildir til viðbygginga og/eða til að rífa núverandi hús og byggja ný sé kveðið á um mismunandi hátt nýtingarhlutfall, sem ráðist af stærð þess byggingarreits sem lóðin sé talin þola með tilliti til legu hennar gagnvart eldri byggð og annarra atriða sem máli geti skipt.  Hvergi sé kveðið á um það í skipulags- og byggingarlögum að nýtingarhlutfall skuli vera það sama á öllum lóðum þegar deiliskipulagt sé í þröngri og gamalli byggð.  Ætíð þurfi að meta hverja lóð fyrir sig þegar nýtingarhlutfall sé ákveðið og sé því vísað á bug að gengið sé á jafnræði borgaranna með því að ákvarða mismunandi nýtingarhlutfall á lóðum innan reitsins.  Aðstæður hagi því þannig að ekki sé mælt með því að byggja að lóðarmörkum Njálsgötu 58 og skýrist mismunandi nýtingarhlutfall að hluta til af því að sums staðar séu lóðir litlar og byggt á baklóðum, en annars staðar sé svo ekki.

Mikilvægt sé að opna inn á baklóðirnar.  Kvöð sé um aðkomu að Njálsgötu 58B þannig að húsið að Njálsgötu 58 geti ekki byggst upp að lóðarmörkum Njálsgötu 56.  Með fjarlægðinni á milli húsanna gefist möguleiki á að hafa glugga á göflum þeirra.  Að öðrum kosti myndi myndast þarna stór lokaður brunaveggur.  Ef byggja ætti að lóðarmörkum Njálsgötu 58 yrði að vera skilyrði um að Njálsgata 58 byggðist samtímis að lóðarmörkum.  Nauðsynlegt sé að hafa kvöð um aðkomu fyrir lóðina Njálsgötu 58B og sé því vísað á bug að skipulagið byggist á einhverjum sértækum hagsmunum eigenda Njálsgötu 58.

Ekki hafi verið lagt til að setja bílskúr inn á lóð kærenda vegna fjarlægðar milli húsa, en skúr sá sem standi á austurhluta lóðarinnar sé ósamþykktur.  Eigi kærendur því engan rétt til að gert sé ráð fyrir aðkomu að skúrnum.

Bent skuli á að á staðfestum deiliskipulagsuppdrætti sé kvöð um aðgengi að lóð Njálsgötu 58B en ekki akstur.

Engin rök séu færð fyrir því hvers vegna kærendur telji eignarréttarákvæði stjórnarskrár brotin.  Af því tilefni sé ástæða til að benda á ákvæði 33. gr. skipulags- og byggingarlaga, en þar komi fram að ef gildistaka skipulags valdi því að verðmæti fasteignar lækki, nýtingarmöguleikar hennar skerðist frá því sem áður hafi verið heimilt, eða að hún rýrni svo að hún nýtist ekki til sömu nota og áður, eigi sá sem sýnt geti fram á að hann verði fyrir tjóni af þessum sökum rétt á bótum úr sveitarsjóði eða að sveitarstjórn leysi fasteignina til sín.  Leiði þessi málsástæða því ekki til þess að hin kærða ákvörðun teljist ógildanleg.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi samþykktar borgarráðs Reykjavíkur frá 21. júní 2007 um deiliskipulag fyrir Njálsgötureit 3.  Er þess aðallega krafist af hálfu kærenda að gerðar verði tilteknar breytingar á hinu kærða deiliskipulagi, en til vara að hin kærða samþykkt verði felld úr gildi.

Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála er stjórnvald á kærustigi og er það hlutverk nefndarinnar að endurskoða lögmæti kærðra ákvarðana.  Það er hins vegar ekki á færi nefndarinnar að mæla fyrir um breytingar á kærðri skipulagsákvörðun, enda væri henni þá fengið skipulagsvald sem að lögum er í höndum sveitarstjórna.  Verður aðalkröfu kærenda um breytingar á hinu kærða deiliskipulagi því vísað frá.

Hið kærða deiliskipulag er sett fram á uppdrætti og er á honum stutt lýsing á svæðinu og markmiðum skipulagsins.  Þá er á uppdrættinum stutt greinargerð en í henni er vísað til meðfylgjandi greinargerðar og skilmála.  Greinargerð sú er fylgir uppdrættinum er um margt óskýr, einkum sá hluti hennar sem hefur yfirskriftina almennir skilmálar/kvaðir.  Segir þar m.a. í gr. 1.1 að innan svæðisins sé heimil sú landnotkun sem samræmist reglum Aðalskipulags Reykjavíkur 2001-2024 m.s.br. með þeim takmörkunum sem getið verði um í greinargerðinni.  Þá segir að í því sambandi sé rétt að minna á að sérstakar takmarkanir gildi um stafsemi á götuhliðum jarðhæða innan miðborgarinnar, sbr. kort yfir skilgreind götusvæði og fylgiskjal nr. 1.

Við þetta er það að athuga að umrætt svæði er utan miðborgar og eru þar engin skilgreind götusvæði.  Er greinargerðin að þessu leyti villandi og á fylgiskjal nr. 1 ekki við í þessu sambandi, en það hefur að geyma reglur um afgreiðslu umsókna um breytta notkun á skilgreindum götusvæðum.  Þá segir í greinargerðinni að önnur starfsemi en búseta sé háð þeim skilyrðum sem fram komi í 4. hefti þróunaráætlunar miðborgar, sem samþykkt hafi verið í október árið 2000. 

Telja verður að ætlunin hafi verið að vísa í 5. hefti þróunaráætlunar miðborgar, sem samþykkt var í borgarráði 10. október 2000, en heftið fjallar um íbúðarsvæði á miðborgarsvæði og í miðborg.  Hið umdeilda deiliskipulag er innan miðborgarsvæðis en utan miðborgar samkvæmt skilgreiningu aðalskipulags.  Gætu skilmálar í nefndu hefti 5 því útaf fyrir sig gilt á umdeildu svæði.  Þess er hins vegar að gæta að ákvæði þau sem fram koma í hefti 5 eru ekki hluti af samþykktri greinargerð aðalskipulags og munu aldrei hafa fengið meðferð sem skipulagstillaga.  Þurfti því að taka efni þeirra upp í auglýsta deiliskipulagstillögu ef ætlunin var að þau yrðu hluti skipulagsgreinargerðar og nægði ekki sú tilvísun sem fram kemur í greinargerðinni.  Er greinargerðarinni áfátt að þessu leyti.

Þá eru í skilmálum greinargerðarinnar, í köflum 3.2-3.5, fjölmörg ákvæði sem lýsa skilmálum í mislöngu máli sem síðan er tekið fram að eigi ekki við.  Eru þetta óvönduð vinnubrögð, til þess fallin að valda misskilningi.

Loks er verulegt misræmi milli uppdráttar og þeirra skilmála fyrir hverja lóð sem fram eru settir sem hluti greinargerðar eða fylgiskjal með henni.  Segir þar um Njálsgötu 58A, sem liggur að lóð kærenda, að byggingar skuli vera þar óbreyttar, en á uppdrætti er sýndur á lóðinni allstór byggingarreitur fyrir viðbyggingu sem má vera kjallari, þrjár hæðir og ris.

Auk þeirra ágalla sem að framan eru raktir verður að fallast á að ekki hafi verið gerð viðhlítandi grein fyrir mögulegum rétti kærenda vegna bílskúrs á lóð þeirra.  Skúrinn er sýndur á uppdrætti þar sem lýst er byggingum á svæðinu fyrir gildistöku hins umdeilda deiliskipulags, en hvorki er í greinargerð né í skilmálum fyrir lóðina nr. 56 við Njálsgötu tekin afstaða til þess hvort hann skuli rifinn eða hver réttur kæranda sé í því sambandi.  Var þó meiri þörf á að fjalla í skipulaginu um mannvirki sem fyrir voru á svæðinu heldur en að fjalla þar um verndun byggðar og byggðamynsturs og fleiri atriði sem ekki voru talin eiga við í skipulagi svæðisins.

Með vísan til þess sem að framan er rakið telur úrskurðarnefndin að svo verulegir ágallar séu á gerð og efni hinnar kærðu ákvörðunar að ekki verði hjá því komist að fella hana úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikilla anna og málafjölda hjá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Vísað er frá kröfu kærenda um breytingar á hinu kærða deiliskipulagi.

Felld er úr gildi samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 21. júní 2007 um deiliskipulag Njálsgötureits 3, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda hinn 19. júlí 2007.

___________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________            _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                Þorsteinn Þorsteinsson

78/2009 Hagamelur

Með

Ár 2010, fimmtudaginn 14. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 78/2009, kæra eiganda fasteignarinnar að Hagamel 7, Hvalfjarðarsveit, á álagningu skipulagsgjalds vegna endurbyggingar húss. 

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi, dags. 9. nóvember 2009, fer Í, Hagamel 7, Hvalfjarðarsveit, fram á að skipulagsgjald sem lagt hefur verið á nýreist hús hans að Hagamel 7 verði fellt niður. 

Málavextir:  Kærandi er eigandi fasteignarinnar að Hagamel 7 í Hvalfjarðarsveit.  Að sögn kæranda stóð á lóðinni íbúðarhús ásamt bílgeymslu, byggt árið 1986.  Húsið hafi verið dæmt ónýtt vegna myglusveppa og hafi það verið rifið og nýtt hús byggt í þess stað á lóðinni.  Sér hafi síðan borist reikningur fyrir skipulagsgjaldi að fjárhæð 153.894 krónur vegna nýbyggingarinnar þrátt fyrir að skipulagsgjald hafi áður verið greitt af eldra húsi.  Sé þess krafist að álagning þessi verði felld úr gildi. 

Málsrök:  Kærandi styður kröfu sína þeim rökum að um endurbyggingu húss hafi verið að ræða sem farið hafi forgörðum vegna óviðráðanlegra atvika.  Það tjón verði kærandi að bera óbætt.  Vísað sé til þess að fyrir hendi sé undanþága frá skipulagsgjaldi í þeim tilvikum er hús séu reist í kjölfar eyðileggingar af völdum snjóflóða og skriða, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 737/1997, og telur kærandi að hér sé um sambærilegt tilvik að ræða. 

Af hálfu Fasteignaskrár Íslands hefur verið upplýst að í kjölfar Suðurlandsskjálftans árið 2000 hafi undanþáguákvæði 2. gr. reglugerðar nr. 727/1997 verið túlkað rúmt þannig að það taki einnig til nýbyggðra og endurbættra húsa eftir tjón af völdum jarðskjálfta. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 2. mgr. 35. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skal greiða skipulagsgjald í eitt skipti af nýbyggingum sem virtar eru til brunabóta.  Telst nýbygging hvert nýreist hús sem virt er til brunabóta, svo og viðbyggingar við eldri hús, ef virðingarverð hinnar nýju viðbyggingar nemur a.m.k. 1/5 verðs eldra húss.  Er gjaldi þessu ætlað að standa straum af kostnaði við gerð skipulagsáætlana skv. 1. mgr. ákvæðisins. 

Nánar er kveðið á um álagningu, innheimtu og ráðstöfun gjaldsins í reglugerð nr. 737/1997 um skipulagsgjald.  Í 2. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að tiltekin mannvirki, sem ekki séu háð byggingarleyfi, skuli undanþegin greiðslu skipulagsgjalds.  Þá kemur fram í 2. gr. reglugerðarinnar að sé hús flutt á nýja lóð sé það undanþegið skipulagsgjaldi hækki virðingarverð þess ekki meira en sem nemur 20% á hinum nýja stað.  Samkvæmt ákvæðinu gildir sama regla ef heimilað er að byggja ný hús eða endurbæta hús ef á þau hafa fallið snjóflóð eða skriður.  Hefur ákvæði þetta verið túlkað rúmt og einnig látið ná til þess er heimilað hefur verið að reisa ný hús eða endurbyggja hús eftir tjón af völdum jarðskjálfta. 

Í máli því sem hér er til úrlausnar eru atvik þau að fasteign kæranda var metin ónýt vegna myglusveppa.  Það verður þó ekki fallist á að um náttúruvá hafi verið að ræða, enda kemur fram í skoðunarskýrslu frá 6. desember 2007, sem kærandi hefur lagt fram, að ekki hafi verið farið eftir teikningum hönnuðar er varðar frágang á drenlögn, loftrásum í veggjum skriðkjallara og þrifalag í gólfi.  Hafa þessir byggingargallar leitt til óeðlilegrar rakamyndunar í húsinu og skapað skilyrði fyrir myglusveppi sem leiddu til þess að rífa þurfti húsið.  Þykir ekki tækt að beita undanþáguheimild 2. gr. reglugerðar um skipulagsgjald í tilviki kæranda þar sem ekki verður talið að um náttúruvá hafi verið að ræða.  Verður krafa kæranda um niðurfellingu umdeilds skipulagsgjalds því ekki tekin til greina. 

Engar athugasemdir hafa komið fram í máli þessu um gjaldstofn eða fjárhæð hins umdeilda gjalds og verður því lagt til grundvallar að álagning þess sé tölulega rétt. 

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um niðurfellingu skipulagsgjalds vegna Hagamels 7 í Hvalfjarðarsveit, að fjárhæð 153.894 krónur samkvæmt innheimtuseðli sýslumannsins í Borgarnesi, með gjalddaga 1. nóvember 2009, er hafnað. 

_____________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________       ____________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson

72/2009 Skipulagsgjald

Með

Ár 2010, fimmtudaginn 14. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 72/2009, kæra á álagningu skipulagsgjalds vegna húseigna á fyrrum umráðasvæði Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 19. október 2009, er barst nefndinni 22. sama mánaðar, kærir Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ehf. álagningu skipulagsgjalds vegna húseigna á fyrrum umráðasvæði Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli, samtals að fjárhæð kr. 82.649.481.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða álagning verði felld úr gildi. 

Málsatvik og rök:  Kærandi, sem er einkahlutafélag í eigu íslenska ríkisins, var sett á laggirnar á árinu 2006 og er markmið og tilgangur þess að leiða þróun og umbreytingu á fyrrum umráðasvæði Bandaríkjahers við Keflavíkurflugvöll.  Yfirtók félagið á annað hundrað fasteignir á svæðinu sem flestar munu vera byggðar fyrir árið 2000. 

Bendir kærandi á að hann hafi komið mörgum fasteignum á umræddu svæði í borgaraleg not með sölu og útleigu á grundvelli þjónustusamnings við fjármálaráðuneytið.  Við það að fasteignirnar hafi verið skráðar í Fasteignaskrá Íslands lögum samkvæmt hafi kæranda verið gert að standa straum af háu skipulagsgjaldi sem lagt hafi verið á í tengslum við skráninguna.  Félagið hafi gert athugasemdir  við greiðslu umræddra gjalda og hafi farið fram á rökstuðning Skipulagsstofnunar, sem vörsluaðila skipulagssjóðs, fyrir álagningunni með bréfi, dags. 30. október 2008, en umbeðinn rökstuðningur hafi ekki borist.  Skipulagsstofnun hafi hins vegar framsent erindi kæranda til embættis sýslumannsins í Keflavík, en engin formleg viðbrögð við erindinu hafi borist þaðan. 

Að mati kæranda eigi hin kærða álagning ekki lagastoð enda komi skýrt fram í 2. mgr. 35. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 að gjaldið skuli lagt á nýreist hús eða viðbyggingar við eldri hús, en umræddar fasteignir hafi verið reistar á síðustu áratugum liðinnar aldar.  Gjaldið skuli lagt á við virðingu nýbyggingar til brunabóta og telji kærandi að skipulagsgjald vegna fasteigna félagsins sem byggðar hafi verið fyrir mörgum áratugum kunni að vera fyrnt.  Þá beri að líta til þess að fasteignirnar hafi verið byggðar af Bandaríkjaher á sínum tíma og geti álagt skipulagsgjald því ekki átt að standa undir umsýslukosnaði við þær framkvæmdir hersins.  Vísar kærandi til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar nr. 17/2009 varðandi túlkun á hugtakinu nýreist hús í skilningu 2. mgr. 35. gr. skipulags- og byggingarlaga. 

Í bréfi Fasteignarskrár Íslands til úrskurðarnefndarinnar vegna málsins er tekið fram að kærandi hafi ekki beint kvörtun um álagningu og innheimtu skipulagsgjaldsins vegna umræddra fasteigna til stofnunarinnar.  Af þeim sökum hafi málið ekki komið til athugunar. 

Niðurstaða:  Samkvæmt fyrirliggjandi yfirliti frá kæranda hafa umdeild gjöld verið lögð á og innheimt frá lokum árs 2007 og fram í mars 2009.  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulag- og byggingarlaga nr. 73/1997 er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá er kæra á.  Samkvæmt því var kærufrestur vegna umdeildrar gjaldtöku liðinn þegar kæra barst í máli þessu hinn 22. október 2009. 

Í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveðið á um að berist kæra að liðnum kærufresti skuli vísa henni frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.  Kæru verður þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila skv. 2. mgr. ákvæðisins. 

Ekki liggur fyrir að kæranda hafi verið leiðbeint um málskotsrétt sinn til úrskurðarnefndarinnar skv. 7. gr. reglugerðar um skipulagsgjald eða um kærufrest svo sem kveðið er á um í 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga.  Þá virðist krafa hans um rökstuðning ekki hafa verið framsend Fasteignaskrá Íslands, í samræmi við 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga, en sú stofnun gefur fyrirmæli um álagningu og innheimtu skipulagsgjalds skv. 3. mgr. 35. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Með hliðsjón af þessum atvikum þykir afsakanlegt að kæran hafi borist svo seint sem raun ber vitni og verður því ágreiningur um álögð og innheimt skipulagsgjöld síðasta árið fyrir móttöku kæru í máli þessu tekinn til efnismeðferðar en ágreiningi um eldri álagningu skipulagsgjalda verður vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við fyrrnefnda 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. 

Álögð skipulagsgjöld, sem féllu til innan árs fram að því að kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni, eru þessi:  Frá 22. desember 2008 vegna Flugvallabrautar 941 að fjárhæð kr. 131.238 og Flugvallabrautar 752 að fjárhæð kr. 848.034 og frá 6. mars 2009 vegna Fjörubrautar 1229 að fjárhæð kr. 1.237.698, Keilisbrautar 755 að fjárhæð kr. 480.513, Suðurbrautar 758 að fjárhæð kr. 456.936, Valhallarbrautar 743 að fjárhæð kr. 558.234 og Keilisbrautar 749 að fjárhæð kr. 512.178 eða samtals kr. 4.224.831.  Eru nefndar fasteignir byggðar á árunum 1953 til 1992 nema Flugvallarbraut 941 sem reist var árið 2005. 

Samkvæmt 2. mgr. 35. gr. skipulags- og byggingarlaga skal greiða skipulagsgjald af nýbyggingum sem virtar eru til brunabóta.  Telst nýbygging hvert nýreist hús sem virt er til brunabóta, svo og viðbyggingar við eldri hús, ef virðingarverð hinnar nýju viðbyggingar nemur a.m.k. 1/5 verðs eldra húss.  Í 3. mgr. sömu greinar segir að skipulagsgjald falli í gjalddaga þegar virðingargjörð hafi farið fram og Fasteignaskrá Íslands hafi tilkynnt hana innheimtumanni ríkissjóðs. 

Skipulagsgjald er sérstakt gjald sem ætlað er að standa straum af kostnaði við gerð skipulagsáætlana.  Er það lagt á fullbyggðar nýbyggingar og á sér lagastoð í 35. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 737/1997 fellur skipulagsgjald í gjalddaga þegar brunabótavirðing hefur farið fram eða stofnverð tilkynnt og Fasteignaskrá Íslands hefur tilkynnt innheimtumanni ríkissjóðs þær fjárhæðir.  Gjaldinu fylgir lögveð í þeirri fasteign sem það er lagt á. 

Eins og háttað er reglum um álagningu skipulagsgjalds má við því búast að hún fari að jafnaði fram nokkru eftir að viðkomandi bygging hefur verið tekin í notkun og hefur úrskurðarnefndin í fyrri úrskurðum fallist á að réttlætanlegt kunni að vera að leggja gjaldið á allnokkru eftir að byggingu mannvirkis hafi lokið.  Á hitt ber að líta að miðað er við að gjaldið sé lagt á nýreist hús og nýjar viðbyggingar.  Verður ekki á það fallist að umræddar fasteignir, sem reistar hafa verið fyrir árum og áratugum, verði talin nýreist hús í skilningi 35. gr. skipulags- og byggingarlaga er umdeild álagning fór fram.  Engin eðlis- eða efnisrök leiða til þess að beitt verði svo rúmri lögskýringu við túlkun þess lagaákvæðis, sem umdeild álagning styðst við, þegar litið er til orðalags þess.  Verður og að líta til þess að um er að ræða eldri fasteignir á svæði sem löngu hafði verið byggt upp og skipulagt á kostnað framkvæmdaaðila er álagning skipulagsgjaldsins fór fram. 

Samkvæmt því sem að framan er rakið ber að fella úr gildi álagningu skipulagsgjalds á tilgreindar fasteignir kæranda eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Úrskurðarorð: 

Felld er úr gildi álagning skipulagsgjalds, dags. 22. desember 2008 vegna Flugvallabrautar 941 að fjárhæð kr. 131.238 og Flugvallabrautar 752 að fjárhæð kr. 848.034, og álagning dags. 6. mars 2009 vegna Fjörubrautar 1229 að fjárhæð kr. 1.237.698, Keilisbrautar 755 að fjárhæð kr. 480.513, Suðurbrautar 758 að fjárhæð kr. 456.936, Valhallarbrautar 743 að fjárhæð kr. 558.234 og Keilisbrautar 749 að fjárhæð kr. 512.178. 

__________________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________            _____________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson

156/2007 Lækjarnes

Með

Ár 2010, fimmtudaginn 14. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 156/2007, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 7. nóvember 2007 um að samþykkja deiliskipulag Lækjarness í Mosfellsdal. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, er barst nefndinni hinn 28. nóvember 2007, kærir Þ, Laxnesi, Mosfellsbæ, þá ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 7. nóvember 2007 að samþykkja deiliskipulag Lækjarness í Mosfellsdal. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 10. júlí 2007 var lögð fram beiðni um að auglýst yrði tillaga að deiliskipulagi Lækjarness, sem mun vera spilda úr landi Laxness í Mosfellsdal.  Var afgreiðslu málsins frestað.  Á fundi nefndarinnar 14. ágúst s.á. var eftirfarandi fært til bókar:  „Nefndin leggur til að tillagan verði auglýst til kynningar skv. 25. gr. S/B-laga, þrátt fyrir að hesthús sé staðsett í jaðri hverfisverndarbeltis skv. tillögunni.  Nefndin telur að hér sé um undantekningartilvik að ræða, þar sem í ljós hefur komið að misræmi er í afmörkun vatnsverndarsvæðis í aðal- og deiliskipulagi á þessum stað, og tekur fram að ekki sé með þessu gefið fordæmi fyrir frekari frávikum frá hverfisvernd við Köldukvísl.“  Í kjölfar þessa birtist svohljóðandi auglýsing, m.a. í Morgunblaðinu 31. ágúst 2007:  „Mosfellsbær auglýsir hér með skv. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 tillögu að deiliskipulagi fyrir land Lækjarness í Mosfellsdal.  Landið er norðan Köldukvíslar, milli Laxness og golfvallar, um 1,4 ha að stærð.  Á suðurhluta þess gilda hverfisverndarákvæði og norðurhlutinn er innan fjarsvæðis vatnsverndar.  Tillagan gerir ráð fyrir tveimur byggingarreitum, annars vegar fyrir íbúðarhús allt að 400 m² á sama stað og íbúðarhús stendur nú, og hins vegar fyrir hesthús allt að 200 m² á suðausturhluta landsins.  Kvaðir eru settar um umferð að golfvelli, reiðleið meðfram Köldukvísl og raflínu (Skálholtslínu).“  Kom kærandi á framfæri athugasemd vegna þessa, en hann er ábúandi jarðarinnar Laxness sem Lækjarnes mun hafa verið skipt út úr.  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 16. október 2007 var starfsmönnum falið að semja drög að svörum vegna athugasemda kæranda og á fundi nefndarinnar hinn 30. s.m. var eftirfarandi fært til bókar:  „Nefndin samþykkir framlögð drög að svari og leggur til að tillagan verði samþykkt skv. 25. gr. s/b-laga, með fyrirvara um útfærslu götu og reiðleiðar um lóðina.“  Var framagreint staðfest á fundi bæjarstjórnar 7. nóvember 2007. 

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 20. maí 2008 var lögð fram umsókn um leyfi fyrir bráðabirgðaíverustað.  Var eftirfarandi fært til bókar:  „Emil Pétursson óskar þann 14. maí 2008 eftir heimild fyrir bráðabirgðahúsi meðan endurbygging í Lækjarnesi á sér stað, sbr. meðfylgjandi uppdrátt.  (Húsið er þegar til staðar en stendur laust, án varanlegs grunns). Nefndin samþykkir ekki stöðuleyfi fyrir vinnuskúrinn fyrr en lagðir hafa verið fram endanlegir deiliskipulagsuppdrættir og uppdrættir fyrir mannvirki á lóðinni í samræmi við deilskipulag.“  Var framangreint staðfest á fundi bæjarstjórnar 4. júní 2008. 

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 29. september 2009 var eftirfarandi bókað vegna Lækjarness:  „Lagður fram endurskoðaður tillöguuppdráttur, sbr. bókun á 213. fundi.  Nefndin leggur til að skipulagstillagan verði auglýst að nýju.“  Á fundi bæjarstjórnar 7. október 2009 var fært til bókar að í ljósi nýrra upplýsinga frá Skipulagsstofnun ítreki bæjarstjórn samþykkt skipulagsins frá 7. nóvember 2007. 

Í bréfi Skipulagsstofnunar til skipulagsfulltrúa, dags. 14. október 2009, sagði m.a:  „Vísað er til erindis Mosfellsbæjar, dags. 5. október 2009, þar sem deiliskipulag Lækjarness í Mosfellsdal, er sent Skipulagsstofnun til yfirferðar samkvæmt 3. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Deiliskipulagið var samþykkt með breytingum í bæjarstjórn 7. nóvember 2007, ásamt umsögn skipulagsfulltrúa um framkomnar athugasemdir, dags. 30. nóvember 2007.  Athugasemdir bárust á kynningartímanum.  Málsmeðferð var skv. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Í bréfi sveitarfélagins kemur m.a. fram að deiliskipulagstillagan er fyrir svæði utan þéttbýlis og að ekki hefur orðið breyting á eignarhaldi eða nýtingu aðliggjandi landa síðan þá.  Jafnframt mun sveitarfélagið tilkynna eigendum aðliggjandi landa bréflega um gildistöku deiliskipulagsins, auk þess að auglýsa niðurstöðuna skv. 1. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Skipulagsstofnun fellst á rök sveitarfélagins og telur óþarft að kynna tillöguna að nýju þrátt fyrir að um tvö ár séu síðan hún var auglýst.“ 

Með bréfi skipulagsfulltrúa til kæranda, dags. 16. október 2009, var tilkynnt að deiliskipulag Lækjarness, sem samþykkt hafði verið 7. nóvember 2007, myndi taka gildi við birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda 19. október 2009 og birtist auglýsingin þann dag. 

Málsrök kæranda:  Af málsgögnum má ráða að krafa kæranda um ógildingu hins kærða deiliskipulags sé gerð með vísan til þess að hluti Lækjarness fari inn á land Laxness samkvæmt skipulagsuppdrætti.  Vegurinn sem liggi að Lækjarnesi sé í eigu Laxness og sé einkavegur.  Þeir er átt hafi erindi á golfvöllinn hafi notað veginn en til standi að loka honum fyrir bílaumferð þar sem öryggi hestamanna sé ekki tryggt.  Þar með sé engin aðkoma að Lækjarnesi.  Ennfremur sé vísað til þess að Lækjarnes sé á vatnsverndarsvæði. 

Málsrök Mosfellsbæjar:  Af hálfu Mosfellsbæjar er vísað til þess að málatilbúnaður og rökstuðningur kæranda sé svo óljós að erfitt sé að átta sig á því hvað átt sé við og krafan vanreifuð.  Engin tilraun sé gerð til að útskýra hvers vegna kærandi telji landamerki óljós og ekki sé vísað til gagna um landamerki eignanna.  Þá sé vakin athygli á því að ytri mörk Laxness hafi verið samþykkt af þáverandi eigendum jarðarinnar og þeim þinglýst 5. ágúst 1993.  Kærandi hafi ekki lagt fram nein þinglýst gögn sem ógildi það samkomulag.  Þá sé ekki ljóst hvort kærandi sé að óska eftir því að úrskurðarnefndin ákveði landamerki jarðarinnar sem sé ekki hlutverk nefndarinnar, sbr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga. 

Þá haldi kærandi því fram að aðkomuvegur að hinni deiliskipulögðu lóð sé „…einkavegur í eigu óskipts lands að Laxnesi.  Þar að auki er vegurinn skráður sem reiðvegur á aðalskipulagi.“  Bent sé á að umræddur vegur hafi verið aðkomuleið fyrir Bakkakotsvöll, Lækjarnes og Guddulaug um árabil og verið í sameign Mosfellsbæjar, nafngreindra aðila og kæranda.  Umræddur vegur muni hafa verið til staðar þegar kærandi hafi keypt eign sína og þá þjónað sama hlutverki.  Hið kærða skipulag geri hvorki ráð fyrir breytingu á vegstæðinu í landi kæranda né breyttum notum vegarins. 

Samkvæmt 3. mgr. 2. gr. skipulags- og byggingarlaga sé deiliskipulagi ætlað að vera nánari útfærsla á aðalskipulagi.  Í aðalskipulagi Mosfellsbæjar sé kveðið á um reiðleiðir, en líta verði svo á að þar sé ekki endilega um nákvæma legu að ræða, heldur sé hún háð þeirri ónákvæmni sem almennt sé í aðalskipulagi og ráðist m.a. af mælikvarða uppdráttar.  Í aðalskipulaginu sé ekki kveðið á um legu húsagatna eða heimreiða að húsum og býlum.  Þótt aðalskipulag sýni reiðleið í svipaðri legu og núverandi vegur þýði það ekki að vegurinn sé þar með skilgreindur sem reiðleið og geti ekki haft annað hlutverk.  Í deiliskipulaginu sé þarna skilgreindur akvegur sem hafi í meginatriðum sömu legu og núverandi vegur, en til hliðar við hann sé gert ráð fyrir reiðleið.  Ekkert ósamræmi sé því á milli aðal- og deiliskipulagsins að þessu leyti.  Þá megi benda á að vegurinn hafi verið notaður sem bílvegur um árabil án þess að athugasemdir hafi verið við það gerðar af landeigendum.  Ekki sé um þess háttar frávik frá aðalskipulagi að ræða að það geti valdið ógildi deiliskipulagsins. 

Þá sé á því byggt að skv. 33. gr. skipulags- og byggingarlaga geti aðili sem telji eign sína hafa rýrnað vegna skipulagsbreytinga gert kröfu um bætur vegna rýrnunarinnar til sveitarstjórnar.  Telji kærandi sig hafa orðið fyrir tjóni vegna deiliskipulagsins og geti hann sannað það tjón eigi hann bótarétt.  Það sé sveitarstjórnar að meta hvort rýrnun hafi átt sér stað en ekki úrskurðarnefndarinnar. 

Málsrök eiganda Lækjarness:  Af hálfu eiganda Lækjarness er þess krafist að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni, enda eigi kærandi enga lögvarða hagsmuni af hinu samþykkta deiliskipulagi Lækjarness.  Staðreyndin sé sú að kærandi hafi eingöngu fullan umráðarétt yfir lítilli lóð (5.460 m² er umlyki húsakost hans í Laxnesi.  Laxnes 1, sem liggi að Lækjarnesi og sé undir vegi þeim er liggi heim að Lækjarnesi, sé óskipt í eigu Mosfellsbæjar, sem eigi 25% eignarhlut, auk tilgreindra einstaklinga, þar á meðal kæranda, en hlutur hans sé aðeins 5,95%. 

Árið 1993 hafi landamerki Lækjarness verið hnitasett og samþykkt af þáverandi eigendum Laxness.  Umdeilt deiliskipulag sé innan þinglýstra landamerkja.  Kærandi hafi ekki gert neinn reka að því að vísa fram gögnum sem sýni með einhverjum hætti fram á að landamerki séu óljós eða að vegurinn sé þarna í óþökk landeigenda.  Þegar kærandi hafi eignast 5,95% hlut í Laxnesi 1 árið 1999 hafi vegurinn verið í notkun.  Sé gildandi aðalskipulag Mosfellsbæjar skoðað megi glögglega sjá að vegurinn sé teiknaður inn á það. 

Því sé alfarið hafnað að vegurinn, sem liggi heim að Lækjarnesi, sé einkavegur er tilheyri Laxnesi 1.  Vegurinn hafi verið lagður af sveitarfélaginu og Vegagerðinni í kringum árið 1980, m.a. vegna þess að áin Kaldakvísl hefði valdið töluverðu landbroti.  Til að koma í veg fyrir það hafi farvegur árinnar verið gerður beinni með því að taka efni upp úr ánni og leggja það á norðurbakka hennar.  Þar hafi umræddur vegur myndast, en hann hafi þá verið notaður til að komast að dæluskúr í eigu sveitarfélagsins, í landi Lækjarness.  Þetta hafi verið gert í fullu samráði við þáverandi landeigendur.  Vegurinn sé að auki notaður til að komast að golfvellinum sem liggi að landi Lækjarness.  Ljóst sé því að um sé að ræða veg sem liggi eins og hann hafi gert frá því hann hafi verið lagður með samþykki allra hlutaðeigandi frá upphafi. 

Telji kærandi eða aðrir sig hafa forræði á landi undir veginum heim að Lækjarnesi, umfram það sem þinglýst gögn beri með sér, beri þeim að sýna fram á það með óyggjandi hætti.  Meðan það sé ekki gert sé ekki hægt að fallast á að kærandi hafi lögvarða hagsmuni eða tilefni til að kæra viðkomandi deiliskipulag. 

Bent sé á að hið kærða deiliskipulag sé í samræmi við lög og reglugerðir sem gildi um skipulags- og byggingarmál.  Deiliskipulagið sé hið fyrsta á svæðinu og gangi því framar fyrra svæðisskipulagi og fyrra aðalskipulagi.  Hið umþrætta deiliskipulag sé af hinu góða þar sem verið sé að koma á framtíðarskipulagi á svæðinu í samræmi við gildandi lög og reglur. 

Deiliskipulagið hafi verið unnið í fullri samvinnu við Mosfellsbæ og íbúa sveitarfélagsins.  Einu mótmælin sem hafi borist séu frá kæranda sem samkvæmt þinglýstum eignarheimildum fari aðeins með eignarhald á 5,95% af óskiptu landi Laxness 1.  Aðrir eigendur Laxness 1 hafi ekki sett fram mótmæli og sé því ekki ljóst að kærandi hafi heimild til að kæra án samþykkis meðeigenda sinna.  Skortur sé því á samaðild sóknarmegin ef litið sé til almennra reglna er gildi um réttarfar á Íslandi. 

Andsvör kæranda vegna málsraka Mosfellsbæjar:  Af hálfu kæranda er málsrökum bæjaryfirvalda andmælt og bent á að í Lækjarnesi hafi hingað til verið sumarbústaður en ekki íbúðarhús. 

——-

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið gerir eigandi Lækjarness kröfu um að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni með þeim rökum að kærandi eigi ekki lögvarða hagsmuni af niðurstöðu þess.  Á þetta verður ekki fallist.  Læknarnes er landspilda á norðurbakka Köldukvíslar, austan Bakkakots og vestan Laxness, þar sem kærandi er búsettur og stundar atvinnurekstur.  Verður því að telja að kærandi eigi ótvíræða hagsmuni af niðurstöðu málsins vegna þess nábýlis sem að framan er lýst.  Á kærandi sjálfstæðra hagsmuna að gæta af úrlausn málsins og stendur það ekki í vegi fyrir málatilbúnaði hans þótt sameigendur hans að Laxnesi 1 hafi ekki látið það til sín taka.

Í máli þessu er krafist ógildingar á deiliskipulagi fyrir Lækjarnes í Mosfellsdal, sem bæjarstjórn samþykkti á fundi sínum hinn 7. nóvember 2007 og auglýst var í B-deild Stjórnartíðinda hinn 19. október 2009.  Tekur skipulagið til um 1,4 ha svæðis og er með því heimilað að byggja þar allt að 400 m² tvílyft einbýlishús og bílskúr og einnar hæðar hesthús, allt að 200 m². 

Umrætt deiliskipulagssvæði, Lækjarnes í Mosfellsdal, er samkvæmt gildandi aðalskipulagi Mosfellsbæjar á skilgreindu landbúnaðarsvæði norðan Þingvallavegar.  Spildan er ekki skráð lögbýli, en henni mun hafa verið skipt út úr landi jarðarinnar Laxness.  Samkvæmt aðalskipulaginu er í Mosfellsdal gert ráð fyrir blöndu íbúðarbyggðar og landbúnaðar á um 174 ha svæði, en það svæði er allt sunnan Þingvallavegar og á sú landnotkun sem þar er því ekki við um Lækjarnes.  Í kafla 2.3.7 í greinargerð aðalskipulagsins er nánar fjallað um landbúnaðarsvæði.  Segir þar að um 540 ha þess séu í Mosfellsdal en af þeim séu 174 ha skilgreindir sem blanda íbúðarbyggðar og landbúnaðar og er þar augljóslega átt við það svæði sunnan Þingvallavegar sem áður getur.  Þá segir að auk hefðbundins búskapar, þar sem hann sé enn stundaður, sé gert ráð fyrir að á landbúnaðarsvæðum geti verið umfangsmikil ylrækt, trjárækt, frístundabúskapur og annar búskapur sem ekki krefjist mikils landrýmis, s.s. alifugla- og svínarækt. 

Í grein 4.14.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 segir að landbúnaðarsvæði nái yfir allt land jarða eða lögbýla, sbr. ákvæði jarðalaga og ábúðarlaga um land sem nýtt sé til landbúnaðar.  Þar segir og að á landbúnaðarsvæðum skuli fyrst og fremst gera ráð fyrir byggingum og starfsemi sem tengist búrekstri á jörðum. 

Ekki er í hinu kærða deiliskipulagi gerð grein fyrir hvernig það samræmist aðalskipulagi, en úrskurðarnefndin telur að skýra verði heimildir aðalskipulagsins til samræmis við tilvitnað ákvæði skipulagsreglugerðarinnar.  Ekki sé því unnt að heimila í deiliskipulagi byggingu íbúðarhúss á skilgreindu landbúnaðarsvæði á spildu sem hvorki er lögbýli né tilheyrir bújörð.  Samræmist hið umdeilda deiliskipulag því ekki gildandi aðalskipulagi svæðisins og er því ekki fullnægt skilyrðum 9. gr. skipulags- og byggingarlaga um innbyrðis samræmi skipulagsáætlana.  Leiðir sá annmarki til ógildingar. 

Auk þess annmarka sem að framan getur var sá ágalli á meðferð málsins að verulegur dráttur varð á því að gildistaka hinnar umdeildu deiliskipulagstillögu væri auglýst í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 2. mgr. gr. 6.4 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, en tæp tvö ár liðu frá því að bæjarstjórn samþykkti hina umdeildu tillögu og þar til auglýsing um hana birtist í Stjórnartíðindum hinn 19. október 2009.  Áskilnaður um opinbera birtingu ákvarðana stjórnvalda, s.s. um deiliskipulag, styðst meðal annars við sjónarmið um réttaröryggi og verður að gera þá kröfu að birting eigi sér stað innan hóflegs tíma og án ástæðulausra tafa.  Var þessa ekki gætt í hinu kærða tilviki og telur úrskurðarnefndin að ekki hafi lengur verið skilyrði til að birta hina umdeildu ákvörðun þegar það var loks gert hinn 19. október 2009.  Verður ekki fallist á að nægilegt hafi verið að fyrir lægi það álit bæjaryfirvalda að sá dráttur sem orðið hefði á birtingunni myndi ekki valda réttarspjöllum. 

Samkvæmt því sem að framan er rakið verður hin kærða ákvörðun felld úr gildi. 

Sé miðað við það tímamark er kæra barst hefur uppkvaðning úrskurðar í máli þessu dregist verulega.  Til þess verður hins vegar að líta að einungis eru liðnir tæpir þrír mánuðir frá því auglýsing um hina kærðu ákvörðun birtist í B-deild Stjórnartíðinda, en sú auglýsing markar upphaf kærufrests í málinu.

Úrskurðarorð: 

Kröfu um frávísun máls þessa er hafnað.  Felld er úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 7. nóvember 2007 um að samþykkja deiliskipulag Lækjarness í Mosfellsdal. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________          _____________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson

153/2007 Fagurgerði

Með

Ár 2010, fimmtudaginn 14. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 153/2007, kæra á samþykkt bæjarstjórnar Árborgar frá 12. september 2007 um deiliskipulag Fagurgerðis 1 og 3 á Selfossi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 12. nóvember 2007, er barst úrskurðarnefndinni hinn 13. sama mánaðar, kærir J, Grænuvöllum 1, Selfossi, samþykkt bæjarstjórnar Árborgar frá 12. september 2007 um deiliskipulag Fagurgerðis 1 og 3 á Selfossi.  Auglýsing um gildistöku samþykktarinnar birtist í B-deild Stjórnartíðinda 15. október 2007. 

Af hálfu kæranda er þess krafist að hin kærða samþykkt verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 24. maí 2007 var lögð fram tillaga að deiliskipulagi Fagurgerðis 1 og 3 og lagði nefndin til við bæjarstjórn að tillagan yrði auglýst.  Var það samþykkt á fundi bæjarstjórnar 13. júní 2007.  Fól tillagan m.a. í sér heimild til stækkunar hússins að Fagurgerði 1 og byggingar húss á lóðinni nr. 3 við Fagurgerði.  Í skilmálum sagði að nýtingarhlutfall lóðanna yrði 0,45 að hámarki, byggingarnar yrðu 1-2 hæðir og hámarkshæð 7,9 m.  Tillagan var auglýst frá 7. júní 2007 til og með 5. júlí s.á., með athugasemdarfresti til 19. júlí 2007.  Bæjaryfirvöldum bárust athugasemdir við tillöguna, m.a. frá kæranda.  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 23. ágúst 2007 var lagt til við bæjarstjórn að tillagan yrði samþykkt.  Var tillagan samþykkt á fundi bæjarstjórn 12. september s.á.  Með bréfi Skipulagsstofnunar til skipulags- og byggingardeildar sveitarfélagins, dags. 3. október 2007, var tilkynnt að ekki væri gerð athugasemd við að samþykktin yrði auglýst í B-deild Stjórnartíðinda og birtist auglýsing þar þess efnis 15. október 2007. 

Kærandi skaut framangreindri samþykkt til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að hin kærða deiliskipulagssamþykkt sé ekki í samræmi við þá byggingarhefð sem ríkjandi sé á svæðinu, nýtingarhlutfall sé of hátt og væntanlegar byggingar muni hafa veruleg áhrif á útsýni.  Umferð muni aukast frá því sem nú sé og hafa í för með sér verulega neikvæð grenndaráhrif.  Samþykktin brjóti því gegn ákvæðum gr. 4.2.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 þar sem segi að við deiliskipulagningu íbúðarsvæða skuli þess jafnan gætt að í íbúðum og á lóðum íbúðarhúsa sé sem best hægt að njóta sólar, útsýnis, skjóls og friðsældar.  Skipulagningu íbúðarsvæða skuli jafnan hagað þannig að sem minnst umferð verði um húsagötur og að gönguleiðir barna að leiksvæðum, leikskólum og skólum séu öruggar.  Íbúðarhúsum skuli valinn staður með tilliti til þess að íbúar eigi greiðan og öruggan aðgang að lóðum þeirra. 

Málsrök Árborgar:  Af hálfu Árborgar er því mótmælt að hin kærða samþykkt hafi slík neikvæð grenndaráhrif að ógildingu hennar varði.  Komið hafi verið til móts við kæranda eftir að tillagan hafi verið auglýst og muni hann áfram geta notið sólar, skjóls, útsýnis og friðsældar í samræmi við ákvæði gr. 4.2.2 í skipulagsreglugerð. 

Þá sé einnig vísað til þess að í Aðalskipulagi Árborgar 2005-2025 sé lögð áhersla á þéttingu byggðar í eldri hluta bæjarins. 

Málsrök lóðarhafa:  Af hálfu lóðarhafa er vísað til þess að ósk þeirra um sameiningu lóðanna að Grænuvöllum 3a, sem sé norðan við lóð kæranda, og Fagurgerði 1 (nú Fagurgerði 3) sé tilkomin vegna þinglýstrar kvaðar um aðkomu lóðarinnar að Grænuvöllum 3a um Fagurgerði 1, sbr. afsalsbréf, dags. 15. október 1948.  Til að losna undan kvöðinni, sem misfarist hafi að geta um við kaup lóðarhafa á lóðinni að Fagurgerði 1, hafi þau ekki séð sér annað fært en að falast eftir kaupum á Grænuvöllum 3a. 

Lóðarhafar lýsi undrun sinni á því að fólk virðist ekki gera sér grein fyrir því að ef keypt sé fasteign í þéttbýli, ekki síst í ört stækkandi sveitarfélagi eins og Árborg, megi búast við því að byggt verði á byggingarlóðum í eldri hverfum bæjarins. 

——-

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi samþykktar bæjarstjórnar Árborgar frá 12. september 2007 um deiliskipulag Fagurgerðis 1 og 3 á Selfossi.  Á svæðinu er ekki í gildi deiliskipulag og ákvað bæjarstjórn að auglýsa tillögu að deiliskipulagi áðurnefndra lóða í samræmi við 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Samkvæmt 1. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga skal gera deiliskipulag á grundvelli aðalskipulags fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar.  Þá segir í gr. 1.3 skipulagsreglugerðar nr.400/1998 að deiliskipulag nái til einstakra svæða eða reita innan aðalskipulags og skuli jafnan miðast við að ná til svæða sem myndi heildstæða einingu.  Í þéttbýli skuli deiliskipulag að jafnaði ekki taka yfir minna svæði en götureit.  Hliðstætt ákvæði er í 1. mgr. gr. 3.1.4 í skipulagsreglugerðinni, en ákvæðið fjallar um deiliskipulag. 

Með tilvitnuðum ákvæðum er mörkuð sú meginstefna að deiliskipulag skuli jafnan taka til svæða sem myndi heildstæða einingu og að jafnaði ekki taka til minna svæðis en götureits.  Verður að skýra þessi ákvæði með hliðsjón af þeim markmiðum sem að er stefnt með gerð deiliskipulags, að útfæra nánar ákvæði aðalskipulags um viðkomandi svæði.  Við skipulagsgerðina verður jafnframt að líta til þeirra markmiða, sem sett eru fram í 1. gr. skipulags- og byggingarlaga, svo og til almennra ákvæða í 9. gr. laganna um gerð og framkvæmd skipulags. 

Til þess að fullnægt sé lagaskilyrðum þarf í skipulagsáætlunum að gera grein fyrir markmiðum viðkomandi stjórnvalda og ákvörðunum um framtíðarnotkun lands og fyrirkomulag byggðar og lýsa forsendum þeirra ákvarðana og þurfa þessar áætlanir að vera í eðlilegu samræmi innbyrðis.  Verður þessu skilyrði yfirleitt ekki fullnægt með viðunandi hætti við gerð deiliskipulags nema skipulagið sé látið ná til svæðis sem myndar heildstæða einingu, svo sem landnotkunarreits eða í það minnsta götureits. 

Í máli því sem hér er til meðferðar ákváðu skipulagsyfirvöld í Árborg að vinna deiliskipulag fyrir aðeins tvær lóðir á svæði þar sem fyrir er gróin íbúðarbyggð.  Lóðir eru þar almennt stórar og a.m.k. tvær þeirra óbyggðar.  Telur úrskurðarnefndin að við gerð hins kærða deiliskipulags hafi ekki verið tekið tillit til grundvallarsjónarmiða sem líta beri til við skipulagsgerð.  Voru mörk skipulagssvæðisins þannig hvorki miðuð við svæði sem augljóslega myndar heildstæða einingu né látin taka til götureits. 

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að skort hafi lagaskilyrði til þess að gera deiliskipulag fyrir lóðirnar nr. 1 og 3 við Fagurgerði á Selfossi án þess að jafnhliða væri að lágmarki unnið og samþykkt deiliskipulag fyrir götureitinn í heild.  Ber því að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikilla anna og málafjölda hjá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun bæjarstjórnar Árborgar frá 12. september 2007, um deiliskipulag Fagurgerðis 1 og 3 á Selfossi, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda hinn 19. október 2007, er felld úr gildi. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________       _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

85/2009 Austurstræti

Með

Ár 2009, föstudaginn 18. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Sigurður Erlingsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 85/2009, kæra á samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 10. desember 2009 á tillögu byggingarfulltrúa um að samkomutjald, sem sett hafi verið upp í óleyfi á lóð Hressingarskálans að Austurstræti 20, verði fjarlægt á kostnað eiganda, fjarlægi hann það ekki sjálfur innan tilskilins frests.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður
um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 15. desember 2009, er barst  nefndinni samdægurs, kærir Björgvin Halldór Björnsson hdl., f.h. E, fyrirsvarsmanns Hressingarskálans ehf., þá samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 10. desember 2009 að samkomutjald sem sett hafi verið upp í óleyfi á lóðinni að Austurstræti 20 í Reykjavík verði fjarlægt á kostnað eiganda hafi hann ekki fjarlægt það innan tilskilins frests.  

Af hálfu kæranda er þess krafist að hin kærða samþykkt verði felld úr gildi.  Jafnframt er gerð krafa um að framkvæmdir verði stöðvaðar en ella að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað á meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni og eru þær kröfur nú teknar til úrskurðar. 

Málsatvik og rök:  Kærandi máls þessa reisti, án heimildar skipulags- og byggingaryfirvalda, samkomutjald í bakgarði lóðarinnar að Austurstræti 20, þar sem rekinn er veitingastaður.    Af því tilefni ritaði byggingarfulltrúi kæranda bréf, dags. 2. nóvember 2009, þar sem honum var m.a. veittur fimm daga frestur frá móttöku bréfsins til að fjarlægja tjaldið.  Kærandi varð ekki við tilmælunum og með bréfi, dags. 27. sama mánaðar mótmælti hann framgöngu borgaryfirvalda með vísan til jafnræðis- og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins.  Sama dag ritaði embætti byggingarfulltrúa kæranda bréf þar sem röksemdum hans var hafnað og m.a. vísað til þess að um óleyfisframkvæmdir væri að ræða.  Þá sagði einnig að embættið myndi leggja til við skipulagsráð að frestur yrði veittur til 4. desember 2009 til að fjarlægja tjaldið og yrði ekki orðið við því myndi embættið fjarlægja það án frekari fyrirvara á kostnað kæranda með vísan til ákvæða gr. 209 og gr. 210 í byggingarreglugerð nr. 441/1998.  Á fundi skipulagsráðs 2. desember 2009 var eftirfarandi fært til bókar:  „Lagt fram bréf byggingarfulltrúa, dags. 2. nóv. 2009, vegna samkomutjalds í bakgarði Hressingarskálans á lóð nr. 20 við Austurstræti. Jafnframt er lagt fram bréf lögfræðinga Hressingarskálans, dags. 27. nóv., bréf lögfræði- og stjórnsýslu, dags. 27. nóv., og tölvubréf, dags. 27. og 30. nóv. 2009.  Bréf lögfræði- og stjórnsýslu samþykkt.“  Á fundi borgarráðs 10. desember 2009 var af sama tilefni eftirfarandi bókað:  „Lagt fram bréf byggingarfulltrúa frá 3. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs frá 2. s.m., þar sem lagt er til að samkomutjald, sem sett hefur verið upp í óleyfi á lóð Hressingarskálans að Austurstræti 20, verði fjarlægt á kostnað eiganda, fjarlægi hann það ekki sjálfur innan tilskilins frests… Samþykkt“ 

Kæranda var tilkynnt um þessa ákvörðun með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 11. desember 2009, og honum veittur frestur til 14. desember s.á. til þess að fjarlægja margnefnt tjald.  Var í því bréfi einnig vísað til bréfs byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 3. desember 2009, en þar sagði að auk þess að framkvæmdin hefði verið gerð í óleyfi væri, að mati forvarnardeildar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, „…umtalsverð hætta fyrir hendi á öryggi gesta veitingastaðarins.“

Skaut kærandi málinu til úrskurðarnefndarinnar 15. desember 2009 svo sem fyrr greinir. 

Af hálfu kæranda er m.a. vísað til þess að miklu varði fyrir hann að fá úr því skorið, áður en úrskurðarnefndin kveði upp lokaúrskurð í málinu, hvort borgaryfirvöldum sé stætt á að mæta á starfsstöð hans og taka niður umrætt tjald á hans kostnað.  Kærandi hafi mikla hagsmuni af því að hafa tjaldið uppi. Enginn beri skaða af því að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað, enda hafi ástandið varað í nokkurn tíma án þess að vandamál hafi hlotist af.  Engar framkvæmdir séu í gangi og því sé fyrirséð að ástandið muni ekki breytast í náinni framtíð.  Atvinnufrelsi kæranda sé verndað af 75. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, en skipun um að rífa niður tjald sem sé hluti af starfsemi sé verulega íþyngjandi ákvörðun í garð kæranda og þurfi því að vera vel ígrunduð.

Þá mótmælir kærandi því að slík hætta stafi frá tjaldinu að réttlætt geti þá ákvörðun borgaryfirvalda að láta fjarlægja tjaldið með svo skjótum hætti sem ætlunin sé.  Kveður hann sviðsstjóra forvarnarsviðs Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins hafa tjáð sér í símtali að ekki væri talið að tjaldið skapaði bráða hætti.

Þá vísi kærandi til þess að samþykkt skipulagsráðs hafi verið staðfest í borgarráði 10. desember 2009.  Honum hafi borist bréf 14. s.m., sem sé dagsett 11. desember 2009, þar sem honum hafi verið kynnt ákvörðunin.  Í ljósi þess hve skamman tíma kærandi hafi haft til að bregðast við ákvörðuninni sé enn mikilvægara að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er mótmælt þeirri kröfu kæranda að réttaráhrifum hinnar kærðu  ákvörðunarinnar verði frestað á meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Því  til rökstuðnings sé vísað til tölvubréfs sviðstjóra forvarnarsviðs Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins til byggingarfulltrúa, dags. 3. desember 2009, en þar segi eftirfarandi: 

„Vegna fyrirspurnar þinnar um afstöðu slökkviliðs til tjalds við Hressingarskálann vil ég greina þér frá eftirfarandi:  Þann 22. október sl. fór undirritaður ásamt eldvarnareftirlitsmanni að skoða aðstæður í Austurstræti 20.  Umræddu tjaldi var þannig fyrir komið að það liggur alveg upp að vegg á bakhluta Hressingarskálans og u.þ.b. fjóra metra frá vegg þess hluta er liggur að Austurstræti.  Við þetta breytast flóttaleiðir frá veitingastaðnum á þann hátt að þar sem áður var farið beint út í garð er nú farið í gegnum tjaldið.  Þetta lengir flóttaleið til öruggs staðar undir beru lofti og skerðir öryggi hennar umtalsvert.  Þá er leiðin torfarin þar sem frá bakhluta húsnæðisins þarf að fara í gegnum tvöfalda lokun tjalddúks sem haldið er með frönskum rennilásum til að komast út í tjaldið.  Einnig liggur flóttaleið úr tjaldinu að stóru tré sem heftir leið og veldur augljósri slysahættu ef hópur fólks þarf að flýja þarna um. Verði eldur laus í húsnæði Hressingarskálans geta flóttamerkingar í tjaldi einnig valdið þeim misskilningi að fólk flýji á öðrum stað aftur inn í húsið sem er að brenna og er það ótækt.  Tjaldið sjálft er um 150 fm. að stærð og samkvæmt reiknireglu Brunamálastofnunar má ætla að þar geti verið á þriðja hundrað manns sem er veruleg aukning miðað við samþykktan gestafjölda á staðnum.  Þá hefur Brunamálastofnun staðfest að ekki liggi fyrir vottun stofnunarinnar á dúknum.  Af þessum sökum er það mat slökkviliðsstjóra að þessar aðstæður geti haft umtalsverð áhrif á öryggi fólks í eldsvoða á staðnum.  Þá gerir rekstrarleyfi staðarins ekki ráð fyrir þessu tjaldi og það reist án nokkurra leyfa.  Það er því eindregin ósk slökkviliðsstjóra að embætti byggingarfulltrúa hlutist til um að tjaldið verði fjarlægt hið fyrsta.“ 

Þá hafi lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins haft afskipti af málinu.  Það sé því einlægt mat skipulags- og byggingarsviðs að nauðsyn beri að fjarlægja tjaldið án ástæðulauss dráttar.

—————-

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum í málinu sem ekki verða rakin nánar í bráðbirgðaúrskurði þessum, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn þessa þáttar málsins. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er gerð krafa um að framkvæmdir borgaryfirvalda við að rífa niður umrætt tjald verið stöðvaðar með vísun til 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 en ella að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað með stoð í 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 73/1997 og eru þær kröfur hér til úrlausnar.

Samkvæmt 6. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga getur kærandi krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi.  Segir í ákvæðinu að komi fram krafa um slíkt skuli úrskurðarnefndin svo fljótt sem verða megi kveða upp úrskurð um það atriði. Úrskurði um stöðvun framkvæmda beri sveitarstjórn að framfylgja þegar í stað, með aðstoð lögreglu ef með þurfi.

Ákvæði þetta verður að skilja svo að það heimili úrskurarnefndinni að stöðva framkvæmdir sem hafnar eru eða yfirvofandi á grundvelli leyfis sem byggingaryfirvöld hafa veit til mannvirkjagerðar og borið hefur verið undir nefndina.  Verður ákvæðið ekki talið taka til þess þegar framfylgt er ákvörðunum sveitarstjórnar um beitingu þvingunarúræða svo sem í máli þessu.  Verður kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda samkvæmt 8. gr. skipulags- og byggingarlaga því hafnað.

Samkvæmt mgr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er æðra stjórnvaldi heimilt að fresta réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar þar sem ástæður mæla með því.  Við mat á því hvort fallast eigi á kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa verður að líta til þess að hvorki er umfangsmikla né óafturtæka framkvæmd að ræða og hefur hún því ekki í för með stórfellda röskun á hagsmunum kæranda.

Af hálfu borgaryfirvalda er upplýst að áformað sé að fjarlægja umrætt tjald í dag, hinn 18. desember.  Gefst því ekki ráðrúm til þess að leita umsagnar Brunamálastofnunar um þá hættu sem stafa kann frá margnefndu tjaldi.  Verður, í ljósi allra atvika, að telja að mögulegir almannahagmunir, sem borgaryfirvöld vísa til, vegi þyngra en hagsmunir kæranda og verður kröfu hans um frestun réttaráhrifa því hafnað þrátt fyrir að ágallar kunni að vera á gerð og efni hinnar kærðu ákvörðunar, enda er framkvæmd hennar á ábyrgð og áhættu borgayfirvalda meðan ekki er genginn efnisúrskurður í málinu.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda við niðurrif umdeilds tjalds.  Jafnframt er hafnað kröfu hans um frestun réttarháhrifa samþykktar borgarráðs Reykjavíkur frá 10. desember 2009 á tillögu byggingarfulltrúa um að samkomutjald, sem sett hafi verið upp í óleyfi á lóð Hressingarskálans að Austurstræti 20, verði fjarlægt á kostnað eiganda, fjarlægi hann það ekki sjálfur innan tilskilins frests.

_____________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________              ______________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Sigurður Erlingsson

45/2007 Sóltún

Með

Ár 2009, föstudaginn 18. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Sigurður Erlingsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 45/2007, kæra á samþykkt byggingarfulltrúans í  Reykjavík um að veita leyfi til að setja upp glerlokun á tuttugu svalir fjölbýlishúss nr. 5 á lóð nr. 5-9 við Sóltún.
 
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 21. maí 2007, er barst úrskurðarnefndinni hinn 22. s.m., kæra G og J, Sóltúni 5 í Reykjavík, samþykkt byggingarfulltrúans í  Reykjavík frá 17. apríl 2007, sem staðfest var í borgarráði hinn 26. s.m., um að veita leyfi til að setja upp glerlokun á tuttugu svalir fjölbýlishúss nr. 5 á lóð nr. 5-9 við Sóltún.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málsatvik og rök:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 17. apríl 2007 var m.a.  samþykkt umsókn um leyfi til að setja upp glerlokun á tuttugu svalir fjölbýlishúss nr. 5 á lóð nr. 5-9 við Sóltún.  Fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa var lögð fram á fundi skipulagsráðs hinn 18. s.m. og samþykkt í borgarráði 26. apríl 2007.  Skutu kærendur ákvörðuninni til úrskurðarnefndarinnar svo sem fyrr greinir.

Ekki mun hafa komið til þess að formleg byggingarleyfi samkvæmt 44. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 væri gefið út en þrátt fyrir það mun hafa verið ráðist í framkvæmdir við umrædda glerlokun og henni lokið að mestu.

Af hálfu kærenda er m.a. vísað til þess að byggingarfulltrúa hafi verið óheimilt að samþykkja fyrirhugaðar framkvæmdir þar sem ekki hafi legið fyrir samþykki allra eigenda íbúða í fjölbýlishúsinu að Sóltúni 5.  Fyrir liggi álit kærunefndar fjöleignarhúsamála, dags. 13. febrúar 2006, þar sem skýrt komi fram að óheimilt sé að ráðast í framkvæmdir við lokun svala hússins án samþykkis allra eigenda þess.  Þrátt fyrir það hafi byggingarfulltrúi heimilað framkvæmdina.     

Af hálfu Reykjavíkurborgar er vísað til þess að byggingarfulltrúa hafi verið fullkomlega heimilt að samþykkja umrædda umsókn þrátt fyrir að ekki liggi fyrir samþykki eigenda allra íbúða í húsinu, sbr. m.a. úrskurð úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í máli nr. 44/1998.  Hin kærða ákvörðun byggi einnig á því að um sé að ræða póstalausar svalalokanir sem hafi hverfandi áhrif á útlit hússins og því um óverulega breytingu að ræða sem falli undir ákvæði 3. liðar B-hluta 41. gr. fjöleignarhúsalaga og raski ekki í neinu hagsmunum kærenda.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um samþykkt byggingarfulltrúans í  Reykjavík frá 17. apríl 2007 sem staðfest var í borgarráði hinn 26. s.m. 

Samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 má gefa út byggingarleyfi þegar sveitarstjórn hefur staðfest samþykkt um veitingu leyfisins að öðrum skilyrðum uppfylltum en þess háttar leyfi hefur byggingarfulltrúi ekki gefið út í deilumáli þessu.  Samkvæmt 5. mgr. sömu lagagreinar fellur staðfesting sveitarstjórnar úr gildi hafi byggingarleyfi ekki verið gefið út innan 12 mánaða.    

Eins og að framan greinir var byggingarleyfi skv. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga ekki gefið út innan tilskilins frests og er hin kærða samþykkt því úr gildi fallin.  Hafa kærendur af þessum sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar og verður málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.  Breytir það ekki þeirri niðurstöðu þótt umdeild ákvörðun um svalalokun hafi að mestu komið til framkvæmda enda fellur það utan valdsviðs úrskurðarnefndarinnar að fjalla um framkvæmdir sem ráðist er í án tilskilinna leyfa.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

___________________________           __________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                             Sigurður Erlingsson