Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

26/2010 Hólmsheiði

Með

Ár 2011, miðvikudaginn 16. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson hdl., staðgengill forstöðumanns, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 26/2010, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá frá 25. mars 2010 um að samþykkja tillögu að deiliskipulagi um afmörkun á svæði til jarðvegsfyllingar á Hólmsheiði í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 5. maí 2010, er barst nefndinni 6. sama mánaðar, kærir Guðbjarni Eggertsson hdl., f.h. Þ ehf., eiganda landsspildu á Hólmsheiði, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 25. mars 2010 að samþykkja tillögu að deiliskipulagi um afmörkun á svæði til jarðvegsfyllingar á Hólmsheiði í Reykjavík.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Með tveimur bréfum, dags. 4. maí 2010, er úrskurðarnefndinni bárust hinn 7. og 17. maí sama ár, kæra fimm landeigendur í Almannadal og við Langavatn fyrrgreinda deiliskipulagsákvörðun og krefjast ógildingar hennar.  Þar sem hagsmunir kærenda standa því ekki í vegi, verða þau kærumál, sem eru nr. 27/2010 og 30/2010, sameinuð máli þessu.

Málsástæður og rök:  Að undangenginni breytingu á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins og aðalskipulagi Reykjavíkur var tillaga að deiliskipulagi auglýst að nýju en samhljóða skipulag hafði verið fellt úr gildi með úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála hinn 24. júlí 2008.  Fól skipulagstillagan í sér afmörkun svæðis fyrir losun ómengaðs jarðvegs á Hólmsheiði í Reykjavík.  Athugasemdir báust á kynningartíma tillögunnar, m.a. frá kærendum í máli þessu.  Borgarráð staðfesti deiliskipulagstillöguna hinn 25. mars 2010 og öðlaðist hún gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 7. apríl sama ár.

Á því er m.a. byggt af hálfu kærenda að hið kærða deiliskipulag fari á svig við svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins og aðalskipulag Reykjavíkur.  Þá sé ljóst að lög og reglugerðir hafi verið brotnar hvað varði skipulag, frágang og skýrleika skipulagsáætlana og samráð við hagsmunaaðila.  Um sé að ræða svæði sem ætlað hafi verið til útivistar en hafi nú verið breytt í losunarstað fyrir jarðveg.  Á svæðinu, sem sé við vatnsból Reykjavíkur, hafi verið losaður mengaður jarðvegur.  Jafnframt fylgi heimilaðri starfsemi fok jarðvegs og rusls yfir lönd kærenda auk ónæðis vegna umferðar og vinnuvéla.

Af hálfu Reykjavíkurborgar hefur verið upplýst að á fundi skipulagsstjóra 24. september 2010 hafi verið lögð fram tillaga að deiliskipulagi fyrir jarðvegsfyllingu á Hólmsheiði þar sem heimiluð yrði losun á ómenguðum jarðvegi á umræddu svæði til ársins 2020.  Hafi borgarráð samþykkt tillöguna hinn 21. október 2010, að lokinni kynningu hennar, og hafi deiliskipulagið öðlast gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 14. desember sama ár.  Með gildistöku skipulagsins hafi eldra deiliskipulag svæðisins, sem um sé deilt í máli þessu, fallið úr gildi.  Beri af þeim sökum að vísa kærumáli þessu frá úrskurðarnefndinni. 

Niðurstaða:  Eins og fram er komið tók gildi nýtt deiliskipulag sem heimilar jarðvegslosun á Hólmsheiði hinn 14. desember 2010.  Í bókun skipulagsráðs Reykjavíkur hinn 13. október 2010, þar sem fallist var á tillögu að greindu skipulagi kemur fram að við samþykkt tillögunnar sé gert ráð fyrir að eldra deiliskipulag á Hólmsheiði, sem tekið hafi gildi 7. apríl 2010, og deiliskipulag fyrir miðlunargeyma á Hólmsheiði, sem tekið hafi gildi „30. febrúar 2008“, falli úr gildi.  Borgarráð staðfesti skipulagstillöguna 4. nóvember 2010.  Hefur greindri deiliskipulagsákvörðun verið skotið til úrskurðarnefndarinnar með kröfu um ógildingu og er hluti kærenda í máli þessu aðilar að því málskoti.

Samkvæmt framansögðu hefur hið kærða deiliskipulag í máli þessu fallið úr gildi við gildistöku hins nýja deiliskipulags fyrir Hólmsheiði og hefur það því ekki lengur réttarverkan að lögum.  Af þeim sökum hafa kærendur ekki lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar og verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni með vísan til 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

______________________________
Ómar Stefánsson

_____________________________     _____________________________
Ásgeir Magnússon                                       Þorsteinn Þorsteinsson

61/2010 Breiðagerðisvík

Með

Ár 2011, miðvikudaginn 16. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson hdl., staðgengill forstöðumanns, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 61/2010, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagsnefndar Sveitarfélagsins Voga frá 7. september 2010 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir nýju húsi að Breiðagerði 8, Vatnsleysuströnd í Vogum. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 7. október 2010, er barst nefndinni sama dag, kærir S, eigandi lóðar að Breiðagerði 8, Vatnsleysuströnd í Vogum, þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsnefndar Sveitarfélagsins Voga frá 7. september 2010 að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir nýju húsi á fyrrgreindri lóð kæranda.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Kærandi er eigandi lóðarinnar Breiðagerði 8 við Breiðagerðisvík á Vatnsleysuströnd.  Skv. fasteignaskrá er lóðin 3.800 m2 og á henni stendur 40 m2 sumarbústaður og 21,9 m2 geymsla frá árinu 1980. 

Í ágústmánuði 2010 sótti kærandi um leyfi fyrir niðurrifi húsakosts þess sem fyrir var á umræddri lóð og byggingu nýs sumarhúss.  Umsóknin var tekin fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar Voga hinn 7. september sama ár og afgreidd með eftirfarandi bókun:  „Í grein 2.3.3 í greinargerð aðalskipulags Sveitarfélagsins Voga segir um frístundasvæðið í Breiðagerðisvík:  „Skilyrði fyrir frekari uppbyggingu frístundasvæðisins er að deiliskipulag verði unnið fyrir svæðið og það öðlist gildi áður en heimild er veitt til frekari uppbyggingar.“  Í ljósi þessa felst nefndin á niðurrif núverandi frístundahúss.  Nefndin hafnar umsókn um byggingarleyfi að nýju húsi samkvæmt meðfylgjandi teikningum, þar sem nýbyggingin er stærri en byggingin sem víkur.“  Fundargerð nefndarinnar var lögð fram á fundi bæjarráðs hinn 16. september 2010 og staðfest í bæjarstjórn 27. september sama ár. 

Málsrök kæranda:  Kærandi kveðst ósáttur við synjun byggingaryfirvalda sveitarfélagsins á leyfi fyrir byggingu nýs húss á lóðinni að Breiðagerði 8.  Núverandi sumarhús sé lélegt og úr sér gengið og því hafi verið sótt um endurbyggingu þess.  Byggingarmagn á lóðinni myndi aðeins aukast um 7 m2 ef fallist yrði á umsókn hans um endurbyggingu á lóðinni eða úr 62 m2 í 69 m2.  Leyfi hafi verið gefin fyrir mun stærri húsum á svæðinu sem þegar séu risin eða í byggingu.  Kærandi sjái ekkert því til fyrirstöðu að frístundasvæðið verði deiliskipulagt en það tefði fyrirhugaðar framkvæmdir á lóðinni. 

Málsrök Sveitarfélagsins Voga:  Hin kærða synjun á leyfi fyrir byggingu nýs húss á lóðinni Breiðagerði 8 hafi byggst á því að samkvæmt gildandi aðalskipulagi sveitarfélagsins sé frekari uppbygging á svæðinu óheimil nema að undangenginni gildistöku deiliskipulags fyrir svæðið, en sótt hafi verið um leyfi fyrir stærra húsi en fyrir var á lóðinni.  Hafi því ekki verið unnt að beita heimild 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 fyrir framkvæmdum að undangenginni grenndarkynningu samkvæmt 7. mgr. 43. gr. laganna þar sem slíkt væri andstætt fyrrgreindu ákvæði aðalskipulags.  Heimilaðar húsbyggingar á svæðinu, sem kærandi vísi til, hafi verið samþykktar að undangenginni grenndarkynningu fyrir gildistöku núverandi ákvæðis um uppbyggingu svæðisins í aðalskipulagi, en það hafi tekið gildi í marsmánuði 2010. 

Niðurstaða:  Hin kærða synjun fyrir nýbyggingu að Breiðagerði 8 í Vogum var rökstudd með vísan til ákvæðis í gr. 2.3.3 í greinargerð gildandi aðalskipulags, þess efnis að ekki skuli heimila frekari uppbyggingu á frístundasvæðinu við Breiðagerðisvík fyrr en deiliskipulag fyrir svæðið hefði tekið gildi.  Í sömu grein er og tilgreint það  markmið að viðhalda skuli svæðum fyrir frístundabyggð í sveitarfélaginu og tekið fram að heimilt sé að viðhalda og bæta þann húsakost sem þar sé fyrir.  Í nefndri grein aðalskipulagsgreinargerðar kemur jafnframt fram að umrætt svæði sé um 20 ha að stærð og að þegar séu þar fyrir á annan tug frístundahúsa.  Beiðni kæranda sem hafnað var fól í sér að nýbygging sú sem um var sótt yrði 7 m2 stærri en húsakostur sá sem fyrir var og heimilað var að rífa. 

Umrædd lóð kæranda hefur verið byggð og nýtt frá árinu 1980 sem frístundalóð og umsókn kæranda um nýbyggingu felur í sér óverulega breytingu á byggingarmagni.  Verður ekki talið að umrædd nýbygging geti falið í sér frekari uppbyggingu svæðisins í skilningi tilvitnaðs ákvæðis greinargerðar aðalskipulags, enda ekki um að ræða nýbyggingu á óbyggðri lóð.  Samkvæmt þessu verður ekki fallist á að greint ákvæði í greinargerð aðalskipulags Sveitarfélagsins Voga hafi girt fyrir veitingu leyfis fyrir umdeildri nýbyggingu og er rökstuðningi hinnar kærðu synjunar að þessu leyti áfátt.  Verður af þeim sökum fallist á kröfu kæranda um ógildingu synjunarinnar. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun umhverfis- og skipulagsnefndar Sveitarfélagsins Voga frá 7. september 2010, sem bæjarstjórn staðfesti hinn 27. september sama ár, um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir endurbyggingu sumarhúss á lóðinni Breiðagerði 8, Vogum.

_____________________________
Ómar Stefánsson

_____________________________         _____________________________
Ásgeir Magnússon                                           Þorsteinn Þorsteinsson

16/2011 Bergstaðastræti

Með

Ár 2011, föstudaginn 4. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson hdl., staðgengill forstöðumanns, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 16/2011, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 22. febrúar 2011 um að endurnýja byggingarleyfi fyrir fjögurra hæða viðbyggingu við húsið að Bergstaðastræti 13 í Reykjavík, með atvinnuhúsnæði á fyrstu hæð og þremur íbúðum á annarri til fjórðu hæð.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður
um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 23. febrúar 2011, er barst nefndinni sama dag, kærir Arnar Þór Stefánsson hdl., f.h. D, eiganda eignarhluta í fasteigninni að Bergstaðastræti 15, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 22. febrúar 2011 að endurnýja byggingarleyfi fyrir fjögurra hæða viðbyggingu við húsið að Bergstaðastræti 13 í Reykjavík, með atvinnuhúsnæði á fyrstu hæð og þremur íbúðum á annarri til fjórðu hæð.

Gerir kærandi þá kröfu að hið kærða byggingarleyfi verði fellt úr gildi og framkvæmdir við heimilaða byggingu verði stöðvaðar meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Verður krafan um stöðvun framkvæmda nú tekin til úrskurðar. 

Málsatvik og rök:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 23. febrúar 2010 var tekin fyrir umsókn um endurnýjun byggingarleyfis sem samþykkt hafði verið 19. ágúst 2008 fyrir fjögurra hæða viðbyggingu með atvinnuhúsnæði á fyrstu hæð og þremur íbúðum á annarri til fjórðu hæð á lóðinni nr. 13 við Bergstaðastræti.  Samþykkti byggingarfulltrúi umsóknina og var sú afgreiðsla staðfest í borgarráði 25. febrúar 2010.  Kærandi, ásamt öðrum, kærði veitingu byggingarleyfisins til úrskurðarnefndarinnar, sem með úrskurði uppkveðnum 6. október 2010 felldi hana úr gildi, þar sem notkun íbúðarhæða heimilaðrar byggingar samræmdist ekki landnotkun gildandi aðalskipulags fyrir umrædda lóð. 

Í kjölfarið var veitt sérstakt byggingarleyfi fyrir fyrstu hæð hússins og leituðu borgaryfirvöld jafnframt til Skipulagsstofnunar með erindi um að á grundvelli 23. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 yrði auglýst í B-deild Stjórnartíðinda leiðrétting á landnotkun umrædds svæðis, þar sem landnotkun hefði fyrir mistök borið lit athafnasvæðis í stað íbúðarsvæðis á aðalskipulagsuppdrætti.  Féllst Skipulagsstofnun á erindið fyrir sitt leyti og var málinu síðan vísað til umhverfisráðuneytisins sem annaðist staðfestingu og auglýsingu aðalskipulags samkvæmt þágildandi skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997. 

Byggingarfulltrúi veitti hinn 14. desember 2010 leyfi fyrir uppsteypu annarrar hæðar nýbyggingarinnar að Bergstaðastræti 13 og staðfesti borgarráð þá afgreiðslu 16. sama mánaðar.  Veiting þessa byggingarleyfis var kærð til úrskurðarnefndarinnar og krafist bráðabirgðaúrskurðar um stöðvun framkvæmda. 

Með bréfi, dags. 17. janúar 2011, tilkynnti umhverfisráðuneytið Reykjavíkurborg að það gæti ekki fallist á erindi borgarinnar um leiðréttingu á landnotkun umrædds svæðis á gildandi aðalskipulagsuppdrætti samkvæmt 23. gr. stjórnsýslulaga.  Byggðist sú niðurstaða á því að stjórnsýslulög ættu ekki við um skipulagsáætlanir, sbr. 1. gr. laganna, þar sem þær teldust vera almenn stjórnvaldsfyrirmæli.

Úrskurðarnefndin kvað hinn 24. janúar 2011 upp bráðabirgðaúrskurð um stöðvun framkvæmda samkvæmt leyfinu sem byggingarfulltrúi veitti hinn 14. desember 2010 á meðan málið væri til meðferðar hjá nefndinni.

Hinn 26. janúar 2011 samþykkti borgarráð tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 sem fól í sér að landnotkun umrædds götureits var breytt úr athafnasvæði í íbúðarsvæði.  Skipulagsstofnun staðfesti þá breytingu 17. febrúar 2011 og var auglýsing þar um birt í B-deild Stjórnartíðinda 18. febrúar s.á. 

Byggingarfulltrúi samþykkti síðan hinn 22. febrúar 2011 að endurnýja byggingarleyfið fyrir fjögurra hæða viðbyggingu að Bergstaðastræti 13, sem úrskurðarnefndin ógilti hinn 6. október 2010.  Það skilyrði var sett fyrir útgáfu byggingarleyfisins að eignaskiptayfirlýsingu vegna breytinga í húsinu yrði þinglýst fyrir útgáfu þess.  Borgarráð staðfesti veitingu byggingarleyfisins 24. febrúar sama ár og hefur kærandi nú skotið þessari ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Af hálfu kæranda er á því byggt að aðalskipulagsbreyting sú sem Skipulagsstofnun staðfesti hinn 17. febrúar 2011 sé ólögmæt og hafi staðfestingu stofnunarinnar verið skotið til umhverfisráðherra til ógildingar hinn 23. febrúar 2011.  Farið hafi verið með umdeilda breytingu eftir 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sem óverulega breytingu á aðalskipulagi en að mati kæranda hafi skilyrði fyrir þeirri málsmeðferð ekki verið fyrir hendi.  Málsmeðferðin hafi hins vegar átt að fara eftir meginreglum 30. og 32. gr. skipulagslaga, sbr. 1. mgr. 36. gr. laganna.

Reykjavíkurborg fer fram á að kröfum kæranda verði hafnað.  Fyrir veitingu hins kærða byggingarleyfis hafi tekið gildi breyting á aðalskipulagi Reykjavíkur þar sem landnotkun umrædds götureits hafi verið breytt í íbúðarsvæði í stað athafnasvæðis.  Í gildistökuauglýsingu breytingarinnar komi fram að á prentuðum uppdrætti aðalskipulagsins hafi íbúðarbyggð á svæðinu ranglega verið merkt sem athafnasvæði.  Breytingin hafi lotið að leiðréttingu á landnotkun svæðisins en ekki breytingu landnotkunar sem fyrir sé.  Hafi því verið farið með breytinguna sem óverulega í samræmi við 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.  Í kjölfarið hafi verið samþykkt og gefið út hið umþrætta byggingarleyfi og jafnframt hafi fallið brott hið takmarkaða byggingarleyfi sem gefið hafi verið út fyrir uppsteypu 2. hæðar byggingarinnar.  Byggingarleyfið sé í samræmi við gildandi deiliskipulag og gildandi landnotkun samkvæmt aðalskipulagi. 

Vegna málatilbúnaðar kæranda sé rétt að benda á að úrskurðarnefndina bresti vald að lögum til að úrskurða um breytingar á aðalskipulagi og sama eigi raunar við um umhverfisráðherra varðandi þær breytingar sem Skipulagsstofnun hafi samþykkt. 

Kröfu um stöðvun framkvæmda sé mótmælt enda séu frekari framkvæmdir á ábyrgð byggingarleyfishafa, kjósi hann að halda þeim áfram áður en úrskurður liggi fyrir.  Að öðru leyti sé vísað til fyrirliggjandi málsatvika og meginreglu 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar.

———-

Byggingarleyfishafa var gefinn kostur á að koma að í málinu athugasemdum sínum og sjónarmiðum en greinargerð af hans hálfu hefur ekki borist úrskurðarnefndinni. 

Niðurstaða:  Hinn 18. febrúar 2011 tók gildi breyting á aðalskipulagi Reykjavíkur þar sem landnotkun götureits þess sem Bergstaðastræti 13 tilheyrir var breytt úr athafnasvæði í íbúðarsvæði.  Kærumál þetta snýst fyrst og fremst um það álitaefni hvort hið kærða byggingarleyfi samræmist gildandi landnotkun á umræddu svæði.  Staðfesting Skipulagsstofnunar á nefndri aðalskipulagsbreytingu var af hálfu kæranda í máli þessu skotið til umhverfisráðherra með kröfu um ógildingu breytingarinnar.  Þykir rétt að bíða afgreiðslu þeirrar stjórnsýslukæru áður en kærumál þetta verður tekið til endanlegs úrskurðar.

Ekki liggur annað fyrir en að hin umdeilda viðbygging sé í samræmi við gildandi skipulag hvað form og umfang varðar og að byggingin sé innan markaðs byggingarreits lóðarinnar að Bergstaðastræti 13.  Vafi sá sem uppi er í máli þessu um lögmæti umdeilds byggingarleyfis lýtur að notkun húsnæðisins að loknum byggingarframkvæmdum.  Í ljósi þessa knýja hvorki hagsmunir kæranda né önnur efnisrök á um að framkvæmdir við bygginguna verði stöðvaðar meðan beðið er niðurstöðu í málinu. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda á lóðinni að Bergstaðastræti 13 í Reykjavík samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi.

_______________________________
Ómar Stefánsson

_____________________________        _____________________________
Ásgeir Magnússon                                         Þorsteinn Þorsteinsson

79/2010 Bergstaðastræti

Með

Ár 2011, föstudaginn 4. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson hdl., staðgengill forstöðumanns, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 79/2010, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. desember 2010 um að veita takmarkað byggingarleyfi fyrir uppsteypu 2. hæðar nýbyggingar við húsið að Bergstaðastræti 13 í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 13. desember 2010, er barst nefndinni sama dag, kærir Arnar Þór Stefánsson hdl., f.h. D, eiganda eignarhluta í fasteigninni að Bergstaðastræti 15, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. desember 2010 að veita takmarkað byggingarleyfi fyrir uppsteypu 2. hæðar nýbyggingar við húsið að Bergstaðastræti 13 í Reykjavík. 

Gerir kærandi þá kröfu að hið kærða byggingarleyfi verði fellt úr gildi.  Jafnframt var gerð krafa um að framkvæmdir við heimilaða byggingu yrðu stöðvaðar meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni og kvað úrskurðarnefndin upp bráðabirgða-úrskurð hinn 24. janúar 2011 þar sem framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi voru stöðvaðar. 

Málsatvik og rök:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 23. febrúar 2010 var tekin fyrir umsókn um endurnýjun byggingarleyfis sem samþykkt hafði verið 19. ágúst 2008 fyrir fjögurra hæða viðbyggingu með atvinnuhúsnæði á fyrstu hæð og þremur íbúðum á annarri til fjórðu hæð á lóðinni nr. 13 við Bergstaðastræti.  Samþykkti byggingarfulltrúi umsóknina og var sú afgreiðsla staðfest í borgarráði 25. febrúar 2010.  Byggingarleyfi sem heimilaði að hefja framkvæmdir var gefið út hinn 30. ágúst 2010. 

Kærandi, ásamt öðrum, kærði ákvörðun um veitingu fyrrgreinds byggingarleyfis til úrskurðarnefndarinnar, sem með úrskurði uppkveðnum 6. október 2010 felldi hana úr gildi, þar sem notkun annarrar til fjórðu hæðar heimilaðrar byggingar samræmdist ekki landnotkun gildandi aðalskipulags fyrir umrædda lóð. 

Í kjölfarið var veitt sérstakt byggingarleyfi fyrir fyrstu hæð hússins og leituðu borgaryfirvöld jafnframt til Skipulagsstofnunar með erindi um að á grundvelli 23. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 yrði auglýst í B-deild Stjórnartíðinda leiðrétting á landnotkun umrædds svæðis, þar sem landnotkun hefði fyrir mistök borið lit athafna-svæðis í stað íbúðarsvæðis á aðalskipulagsuppdrætti.  Féllst Skipulagsstofnun á erindið fyrir sitt leyti og var málinu síðan vísað til umhverfisráðuneytisins sem annaðist staðfestingu og auglýsingu aðalskipulags samkvæmt þágildandi skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997. 

Byggingarfulltrúinn í Reykjavík gaf út byggingarleyfi samkvæmt 2. mgr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga hinn 8. desember 2010, er takmarkaðist við uppsteypu annarrar hæðar nýbyggingar sem verið er að reisa að Bergstaðastræti 13, en veiting leyfisins var afgreidd á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 14. desember sama ár.  Sú afgreiðsla var lögð fram á fundi skipulagsráðs 15. desember og staðfest í borgarráði 16. desember 2010.  Hefur veitingu þessa byggingarleyfis verið skotið til úrskurðar-nefndarinnar eins og að framan greinir. 

Eftir að kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni tilkynnti umhverfisráðuneytið Reykjavíkurborg í bréfi, dags. 17. janúar 2011, að ráðuneytið gæti ekki fallist á erindi borgarinnar um leiðréttingu á landnotkun umrædds svæðis á gildandi aðalskipulags-uppdrætti samkvæmt 23. gr. stjórnsýslulaga.  Byggðist sú niðurstaða á því að stjórnsýslulög ættu ekki við um skipulagsáætlanir, sbr. 1. gr. laganna, þar sem þær teldust vera almenn stjórnvaldsfyrirmæli. 

Hinn 26. janúar 2011 samþykkti borgarráð tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 sem fól í sér að landnotkun umrædds götureits var breytt úr athafnasvæði í íbúðarsvæði.  Skipulagsstofnun staðfesti þá breytingu 17. febrúar 2011 og var auglýsing þar um birt í B-deild Stjórnartíðinda 18. febrúar s.á. 

Byggingarfulltrúi samþykkti síðan hinn 22. febrúar 2011 að endurnýja byggingarleyfið fyrir fjögurra hæða viðbyggingu að Bergstaðastræti 13, sem úrskurðarnefndin ógilti hinn 6. október 2010.  Borgarráð staðfesti veitingu byggingarleyfisins 24. febrúar sama ár og skaut kærandi þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar með kæru, dags. 23. febrúar 2011. 

Af hálfu kæranda er vísað til þess að byggingarleyfi fyrir umdeildri fjögurra hæða viðbyggingu að Bergstaðastræti 13 hafi með úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála verið fellt úr gildi þar sem leyfið hafi farið í bága við gildandi landnotkun svæðisins.  Kærandi hafi í kjölfarið krafist þess af borgaryfirvöldum að hin ólögmæta bygging yrði fjarlægð og lóðinni komið í fyrra horf í samræmi við þágildandi 2. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Borgaryfirvöld hafi hins vegar hinn 7. október 2010 veitt takmarkað byggingarleyfi fyrir uppsteypu fyrstu hæðar viðbyggingarinnar.  Byggingarfulltrúi hafi nú veitt takmarkað byggingarleyfi fyrir uppsteypu annarrar hæðar sem ætluð sé til íbúðar þrátt fyrir óbreytta landnotkun á svæðinu frá því að fyrrgreindur úrskurður gekk. 

Borgaryfirvöld benda á að í ljósi aðstæðna hafi verið heimilt og eðlilegt að veita hið umþrætta byggingarleyfi.  Fyrir liggi að umrædd bygging og það sem þegar hafi verið byggt sé hvorki í andstöðu við deiliskipulag né aðalskipulag.  Aðeins fyrirhuguð notkun hluta byggingarinnar til íbúðar komi þar til álita, en ekki sé búið að taka nýbygginguna í notkun.  Landnotkun á reitnum sé íbúðarsvæði og hafi svo alltaf verið.  Nú sé unnið að leiðréttingu mistaka við prentun aðalskipulagsuppdráttar.   Það sé vandséð hvaða hagsmuna kærandi eigi að gæta í máli þessu þar sem öllum efnislegum málatilbúnaði hans hafi verið hafnað í fyrri úrskurði úrskurðarnefndarinnar um umrædda byggingu. 

———-

Byggingarleyfishafa var gefinn kostur á að koma að í málinu athugasemdum sínum og sjónarmiðum en greinargerð af hans hálfu hefur ekki borist úrskurðarnefndinni. 

Niðurstaða:  Eins og fram er komið veitti byggingarfulltúinn í Reykjavík nýtt byggingarleyfi fyrir umdeildri viðbyggingu að Bergstaðastræti 13 í Reykjavík hinn 22. febrúar 2011.  Tekur það byggingarleyfi m.a. til byggingar annarrar hæðar viðbyggingarinnar sem hið kærða byggingarleyfi í máli þessu tekur til. 

Verður að líta svo á að með ákvörðuninni um veitingu hins nýja byggingarleyfis hafi hin kærða ákvörðun í máli þessu fallið úr gildi og hafi hún ekki lengur réttarverkun að lögum.  Samkvæmt því hefur kærandi, sem þegar hefur kært hina nýju ákvörðun um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu að Bergstaðastræti 13, ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hinnar kærðu ákvörðunar og verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. nú 59. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 og 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

_______________________________
Ómar Stefánsson

_____________________________        _____________________________
Ásgeir Magnússon                                          Þorsteinn Þorsteinsson

3/2011 Kúrland

Með

Ár 2011, föstudaginn 4. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson hdl., staðgengill forstöðumanns, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 3/2011, kæra á synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. desember 2010 á beiðni um leyfi fyrir áður gerðum heitum potti á lóðinni nr. 27 við Kúrland í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 7. janúar 2011, er barst nefndinni samdægurs, kærir Jóhannes S. Ólafsson hdl., f.h. K, Kúrlandi 27, Reykjavík, synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. desember 2010 á beiðni um leyfi fyrir áður gerðum heitum potti á lóðinni nr. 27 við Kúrland.  Skilja verður kröfugerð kæranda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar. 

Málavextir:  Kærandi er eigandi raðhússins að Kúrlandi 27 og sumarið 2010 kom hann fyrir heitum potti í bakgarði lóðarinnar.  Ágreiningur virðist hafa risið með kæranda og nágranna hans, búsettum að Kúrlandi 25, um heimild kæranda til að koma honum fyrir, tengingu hans og staðsetningu. 

Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 26. ágúst 2010, var kæranda tilkynnt að embættinu hefði borist athugasemd þess efnis að verið væri að setja niður heitan pott á lóð hússins við Kúrland 27.  Ekkert slíkt leyfi hefði verið veitt en framkvæmdin væri leyfisskyld.  Voru allar framkvæmdir stöðvaðar tafarlaust.  Þá var og skorað á kæranda að veita skriflegar skýringar til embættisins innan 14 daga frá móttöku bréfsins ellegar sækja um byggingarleyfi innan 30 daga frá móttöku bréfsins.  Með bréfi, dags. 5. september 2010, sendi kærandi byggingarfulltrúa skriflegar skýringar á framkvæmdinni. 

Með bréfi byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 27. september 2010, var bent á að meisturum og hönnuðum sem komið hefðu að verkinu ætti að vera kunnugt um að afla þyrfti byggingarleyfis fyrir uppsetningu heitra potta en slíkt leyfi sé auk þess háð skýru samþykki meðlóðarhafa.  Þá sagði að í tölvupósti meðlóðarhafa til byggingarfulltrúa væri því lýst yfir að slíkt samþykki myndi ekki verða veitt.  Með vísan til þessa áformaði embætti byggingarfulltrúa að leggja til við borgaryfirvöld að kæranda yrði veittur 30 daga frestur til að fjarlægja umræddan pott og koma lögnum í sama form og þær hefðu verið í áður en framkvæmdir hófust. 

Með bréfi, dags. 11. október 2010, kom kærandi frekari athugasemdum sínum á framfæri og sótti í framhaldinu um byggingarleyfi með umsókn, dags. 26. október 2010.  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 7. desember 2010 var umsókn kæranda synjað á grundvelli þess að umbeðið samþykki meðeigenda hefði ekki borist.  Var framangreind afgreiðsla staðfest á fundi borgarráðs 9. s.m. 

Hefur kærandi skotið þessari ákvörðun byggingarfulltrúa til úrskurðarnefndarinnar svo sem áður greinir. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að samþykki meðlóðarhafa hafi í raun legið fyrir allan framkvæmdatímann.  Þetta komi fram í tölvupósti meðlóðarhafa, dags. 4. júlí 2010, þar sem segi svo:  „Staðreyndir málsins eru einfaldlega þær að það er búið að vera ljóst í langan tíma að þið ætlið að setja umræddan pott í garðinn hjá ykkur og höfum við ekki sett okkur upp á móti því á nokkurn hátt.“  Þetta komi einnig fram í tölvupósti meðlóðarhafa til lögfræðings skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkurborgar, dags. 21. september 2010, þar sem segi eftirfarandi:  „Við höfum í sjálfu sér ekkert við það að athuga að eigendur Kúrlands 27 setji niður pott í lóðinni, svo framarlega að hann er úr augsýn okkar út um glugga húss okkar og hann sé rétt tengdur, en að hann sé settur nánast fyrir framan stofuglugga húss okkar og langt út á lóðinni, er algjörlega óásættanlegt fyrir okkur, eigendur Kúrlands 25.“  Það standist ekki að einn meðlóðarhafi dragi samþykki sitt til baka hvenær sem honum sýnist eftir að framkvæmdir séu hafnar og langt á veg komnar.  Væri réttarstaðan með þeim hætti gætu meðlóðarhafar hvenær sem er gert kröfu um að potturinn yrði farlægður og lóð og lögnum komið í fyrra horf og þannig í raun haldið meðlóðarhöfum sínum í eins konar gíslingu. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er vísað til þess að byggingarfulltrúa hafi verið skylt að synja um leyfi fyrir umræddum heitum potti, en hann sé staðsettur fyrir framan stofuglugga meðlóðarhafa.  Ljóst sé að samþykki meðlóðarhafa samkvæmt 30. gr., sbr. og 31. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994 sé skilyrði þess að byggingarfulltrúa sé unnt að samþykkja byggingarleyfisumsókn fyrir pottinum, sbr. gr. 69.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998.  Af gögnum málsins megi ráða að meðlóðarhafi muni ekki samþykkja staðsetningu umrædds potts undir neinum kringumstæðum.  Af samskiptum aðila megi einnig ráða að ekki séu gerðar athugasemdir við pottinn svo framarlega sem hann sé fyrir framan stofuglugga kæranda og upp við hús hans. 

Almennt verði að gera þá kröfu við meðferð byggingarleyfisumsókna, þar sem samþykki sé áskilið fyrir tilteknum framkvæmdum, að samþykki aðila sé skýrt og skriflegt og í tengslum við þá byggingarleyfisumsókn sem til meðferðar sé hverju sinni.  Slíku sé ekki til að dreifa í máli þessu og því hafi byggingarfulltrúa verið óheimilt að samþykkja umrædda byggingarleyfisumsókn. 

Málsrök lóðarhafa að Kúrlandi 25:  Lóðarhafi að Kúrlandi 25 bendir á að hinn umdeildi heiti pottur sé staðsettur langt úti á lóð kæranda, á mörkum lóðanna nr. 25 og 27 við Kúrland, fyrir framan stofuglugga hússins nr. 25, í stað þess að vera staðsett upp við húsið og fyrir framan stofuglugga húss nr. 27, sem lóðarhafi myndi ekki setja sig upp á móti.  Þessi staðsetning rýri söluandvirði hússins að Kúrlandi 25, eins og hæfir matsaðilar geti væntanlega staðfest. 

———–

Aðilar hafa fært fram ítarlegri rök fyrir sjónarmiðum sínum og kröfum, sem ekki verða rakin nánar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi synjunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. desember 2010 á beiðni um leyfi fyrir áður gerðum heitum potti á lóðinni nr. 27 við Kúrland í Reykjavík.  Var synjunin rökstudd á þann veg að umbeðið samþykki meðeigenda hefði ekki borist. 

Í gildi er deiliskipulag frá árinu 1968 fyrir raðhúsahverfi í Fossvogi, svæði III og IV.  Samkvæmt fyrirliggjandi skilmálum fyrir raðhúsalóðir á svæðinu, dags. 30. apríl 1968, teljast allar raðhúsaíbúðir, er liggja að sömu götu, vera á sömu lóð.  Götur tilheyra þó ekki lóðunum og kostar borgarsjóður lagningu þeirra og viðhald.  Þá segir ennfremur í skilmálunum að lóðir séu sameiginlegar og óskiptar, eins og mæliblað sýni, en þó sé heimilt að afmarka garð fyrir framan hverja íbúð með limgirðingum.  Í samhljóða lóðarleigusamningum frá árinu 1969 fyrir lóðirnar að Kúrlandi 23, 25, 27 og 29, sem er raðhús það er hér um ræðir, segir að um sé að ræða leigusamning um lóð til byggingar íbúðarhúss og sé hverjum leigutaka leigð ein tilgreind lóð.  Í lóðarleigusamningi um lóðina nr. 27 við Kúrland segir ennfremur:  „Lóðin Kúrland 1-30 er ein óskipt lóð, að stærð 17.378 ferm., skv. viðfestum uppdrætti.  Lóðin Kúrland nr. 27 er hluti af þeirri lóð.“  Samhljóða ákvæði er í samningi um lóðir nr. 23, 25 og 29 og eru lóðarhlutar afmarkaðir á baklóð hverrar raðhúsaíbúðar á lóðarblaði er fylgir hverjum lóðarleigusamningi. 

Verður að skilja greind ákvæði deiliskipulags svæðisins og lóðarleigusamninga ásamt lóðarblaði á þann veg að hverri raðhúsaíbúð fylgi garður sem sé sérstakur lóðarhluti.  Hafi því ekki verið skylt að afla samþykkis annarra rétthafa hinnar sameiginlegu lóðar til framkvæmda á sérgreindum lóðarhluta kæranda, en hinn umdeildi heiti pottur er staðsettur á þeim lóðarhluta.  Samkvæmt því eru rök fyrir hinni kærðu ákvörðun ekki haldbær og verður því fallist á kröfu kæranda um ógildingu hennar. 

Úrskurðarorð:

Synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. desember 2010, á beiðni um leyfi fyrir áður gerðum heitum potti á lóðinni nr. 27 við Kúrland í Reykjavík, er felld úr gildi. 

__________________________
Ómar Stefánsson

_________________________       ________________________
Ásgeir Magnússon                               Þorsteinn Þorsteinsson

20/2009 Sléttuvegur

Með

Ár 2011, föstudaginn 4. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson hdl., staðgengill forstöðumanns, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 20/2009, kæra á samþykktum skipulagsráðs Reykjavíkur frá 27. ágúst 2008 og 17. desember s.á. um breytt deiliskipulag neðan Sléttuvegar vegna lóðar C við Sléttuveg. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 3. apríl 2009, er barst nefndinni hinn 6. s.m., kærir A, lóðarhafi Lautarvegar 2, Reykjavík, samþykktir skipulagsráðs Reykjavíkur frá 27. ágúst 2008 og 17. desember s.á. um breytt deiliskipulag neðan Sléttuvegar vegna lóðar C við Sléttuveg. 

Gerir kærandi þá kröfu að hinar kærðu samþykktir verði felldar úr gildi.  Þá er og gerð krafa um að framkvæmdir sem hafnar séu verði stöðvaðar meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. 

Málsatvik og rök:  Á árinu 2007 samþykkti borgarráð deiliskipulag neðan Sléttuvegar í Fossvogi þar sem m.a. var gert ráð fyrir að á lóð C myndi rísa 70 íbúða fjölbýlishús fyrir námsmenn.  Hinn 27. ágúst 2008 samþykkti skipulagsráð breytingu á deiliskipulagi þessu er heimilaði að íbúðum í fjölbýlishúsinu yrði fjölgað um fimm eða úr 70 í 75.  Birtist auglýsing um gildistöku breytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda 19. september 2008.  Á fundi skipulagsráðs 17. desember s.á. var síðan samþykkt að íbúðir í húsinu yrðu 80.  Birtist auglýsing um gildistöku þeirrar samþykktar í B-deild Stjórnartíðinda 4. mars 2009. 

Af hálfu kæranda er vísað til þess að málsmeðferð hinna kærðu samþykkta hafi verið andstæð ákvæðum þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 þar sem tillögur um breytt deiliskipulag hafi hvorki verið auglýstar né grenndarkynntar.  Með samþykktunum sé gengið gegn grenndarhagsmunum hans en skipulagsreiturinn neðan Sléttuvegar myndi eina heild og séu íbúðafjöldi, íbúafjöldi og umferð veigamiklir þættir í skipulagsgerðinni.  Í upphaflegu deiliskipulagi svæðisins hafi verið gert ráð fyrir sameiginlegu grænu svæði og leiksvæði er liggi að lóð kæranda og með auknum íbúðafjölda verði væntanlega fleiri um notkun svæðanna. 

Reykjavíkurborg hefur ekki skilað sérstakri greinargerð í málinu en af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að borgaryfirvöld hafi ekki talið þörf á að grenndarkynna umdeildar deiliskipulagsbreytingar þar sem þær fælu aðeins í sér fjölgun íbúða í húsinu sem ekki hefðu áhrif á hagsmuni nágranna. 

Niðurstaða:  Hinar kærðu ákvarðanir heimila fjölgun íbúða í fjölbýlishúsi með leiguíbúðum fyrir námsmenn úr 70 í 80 á lóð C við Sléttuveg.  Ekki var gerð breyting á ytra byrði hússins eða grunnfleti þess heldur var fjölguninni náð fram með breytingu á innri hönnun þess.  Umrætt fjölbýlishús stendur norðan við lóð kæranda, í nokkurri fjarlægð, og er aðkoma bíla að fjölbýlishúsinu og lóð kæranda ekki um sömu götu.  Samkvæmt gildandi deiliskipulagi er gert ráð fyrir að á milli fasteignanna verði göngustígur, leikvöllur, fjölbýlishús með tuttugu íbúðum og útivistarsvæði. 

Samkvæmt almennum reglum stjórnsýsluréttarins er það skilyrði aðildar að kærumáli fyrir æðra stjórnvaldi að kærandi eigi verulegra og einstaklegra lögvarinna hagsmuna að gæta í málinu, sbr. 5. mgr. 8. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. nú 59. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 og 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.  Verður ekki séð, með hliðsjón af áðurgreindum staðháttum, að umdeild fjölgun íbúða snerti einstaklingsbundna og lögvarða hagsmuni kæranda með þeim hætti að hann teljist eiga kæruaðild varðandi hinar umdeildu ákvarðanir.  Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni vegna aðildarskorts. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

______________________________
Ómar Stefánsson

______________________________     ______________________________
Ásgeir Magnússon                                         Þorsteinn Þorsteinsson

76/2009 Vefmyndavél

Með

Ár 2011, fimmtudaginn 24. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson hdl., staðgengill forstöðumanns, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 76/2009, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Garðs frá 14. október 2009 um að stöðva framkvæmdir við uppsetningu á mastri við Rósaselstorg í Garði og beiðni um úrskurð um leyfisskyldu greindrar framkvæmdar. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. nóvember 2009, er barst nefndinni sama dag, kærir Vegagerðin þá ákvörðun byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Garðs frá 14. október 2009 að stöðva framkvæmdir við uppsetningu á mastri við Rósaselstorg í Garði og fer fram á að skorið verði úr um leyfisskyldu greindrar framkvæmdar. 

Málsatvik og rök:  Í októbermánuði 2009 voru framkvæmdir Vegagerðarinnar við uppsetningu mannvirkis fyrir vefmyndavél og fjarskiptabúnað henni tengdri stöðvaðar að kröfu skipulags- og byggingaryfirvalda í Sveitarfélaginu Garði.   Var kæranda tilkynnt um ákvörðun byggingarfulltrúa um stöðvun framkvæmda með bréfi, dags. 14. október 2009, en skipulags- og byggingarnefnd sveitarfélagsins hafði fjallað um málið á fundi deginum áður.  Er ágreiningur milli greindra aðila um hvort nefnt mannvirki hafi verið leyfisskylt samkvæmt þágildandi skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997. 

Framkvæmdaaðili vísar til þess að umdeild framkvæmd sé ekki leyfisskyld að lögum.  Um sé að ræða uppsetningu á vefmyndavél til notkunar við eftirlit með færð og ástandi vegar en slíkar vélar hafi verið settar upp víða um land án þess að sótt hafi verið um framkvæmdaleyfi vegna þeirra.  Úrskurðarnefndin hafi áður í úrskurði komist að þeirri niðurstöðu að uppsetning hraðamyndavéla væri ekki byggingarleyfisskyld enda félli sú framkvæmd undir undanþáguákvæði 2. mgr. 36. gr. skipulags- og byggingarlaga sem venjulegur búnaður tengdur rekstri og notkun vega.  Ekki hafi komið til álita að uppsetning myndavélanna teldist framkvæmdaleyfisskyld.  Ekki sé fallist á þau rök Sveitarfélagsins Garðs fyrir hinni kærðu ákvörðun um stöðvun framkvæmda að framkvæmdaleyfi þurfi fyrir þeim mannvirkjum sem ekki séu byggingarleyfisskyld.  Ákvæði 27. gr. framangreindra laga, er fjalli um framkvæmdaleyfi, taki til framkvæmda sem vegna eðlis eða umfangs hafi veruleg áhrif á umhverfi, svo sem framkvæmdir sem háðar séu mati á umhverfisáhrifum, en því sé ekki til að dreifa í umræddu tilviki. 

Af hálfu Sveitarfélagsins Garðs er á það bent að í máli þessu sé um að ræða uppsetningu masturs fyrir vefmyndavél, fjarskiptabúnað vegna hennar og hugsanlega veðurstöð o.fl., sem framkvæmdaaðili telji nauðsynlegt að staðsetja í slíkum möstrum.  Hvorki liggi fyrir með ótvíræðum hætti hvaða búnað verði um að ræða né um hæð masturs og umfang þess.  Af fyrirliggjandi mynd af sambærilegu mastri megi hins vegar ráða að hæð þess verði um 12 m, að umfang þess verði umtalsvert og að það muni hafa veruleg sjónræn áhrif og takmarka landnotkun á svæðinu.  Mastrið sé ekki hefðbundið umferðarmannvirki og sé á engan hátt sambærilegt uppsetningu hraðamyndavélar sem um sé fjallað í úrskurði þeim sem framkvæmdaaðili vísi til.  Fyrirhuguð sé ýmis konar þjónusta á svæðinu þar sem aðkoma að sveitarfélaginu liggi og sé mikilvægt að ásýnd þess sé ekki raskað.  Hafa verði og í huga að um svæðið gildi margþætt skilyrði laga vegna nálægðar við alþjóðaflugvöll. 

Verði ekki talið að umdeilt mastur sé framkvæmdaleyfisskylt hljóti það að vera háð byggingarleyfi samkvæmt 36. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Í 1. mgr. ákvæðisins sé tekið fram að öll mannvirki, ofan jarðar og neðan, séu byggingarleyfisskyld.  Undanþegin þeirri leyfisskyldu séu tiltekin mannvirki sem talin séu upp í 2. mgr. en þar sé þó tekið fram að byggingarleyfi þurfi fyrir fjarskiptamöstrum, tengivirkjum og móttökudiskum.  Því sé ótvírætt að umdeilt mannvirki, sem sé fjarskiptamastur sem virðist ná út fyrir umráðasvæði veghaldara, sé háð byggingarleyfi og þurfi að eiga stoð í skipulagi.  Öndverð niðurstaða leiði til þess að unnt verði að reisa stór og umfangsmikil mannvirki við þjóðvegi landsins með tilheyrandi umhverfisáhrifum án aðkomu íbúa eða viðkomandi sveitarfélags.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um leyfisskyldu mannvirkis sem fyrirhugað er að reisa við veg til að hafa þar vefmyndavél og fjarskiptabúnað henni tengdri.  Ekki liggja fyrir hönnunargögn varðandi mannvirkið en hins vegar hefur kærandi lagt fram mynd af sambærilegu mannvirki sem sett hafi verið upp á öðrum stað. 

Í 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er kveðið á um framkvæmdaleyfisskyldu meiri háttar framkvæmda sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess, svo sem breytingar lands með jarðvegi eða efnistöku og annarra framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum.  Þar er og tekið fram að ekki þurfi slíkt leyfi fyrir framkvæmdum sem háðar séu byggingarleyfi samkvæmt lögum um mannvirki.  Orðalag ákvæðisins ber með sér að framkvæmdaleyfi þurfi að koma til þegar ásýnd lands er breytt, svo sem með jarðvegsröskun eða námuvinnslu, en mannvirkjagerð, þótt áhrif geti haft á umhverfið, falli undir lög um mannvirki.  Kemur því aðeins til álita hvort umdeilt mannvirki sé háð byggingarleyfi samkvæmt lögum um mannvirki. 

Í 2. mgr. 2. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, er tóku gildi 1. janúar 2011, er tekið fram að lögin taki m.a. ekki til vega eða annarra samgöngumannvirkja, að undanskyldum umferðar- og göngubrúm í þéttbýli, og er hér um að ræða breytingu frá fyrri byggingarlöggjöf.  Í greinargerð með frumvarpi laganna kemur fram að rétt þyki að þau mannvirki sem 2. mgr. 2. gr. laganna taki til falli ekki undir lögin, þar sem mannvirkin og eftirlit með þeim falli undir aðra löggjöf, svo sem vegalög og siglingalög.  Samkvæmt 8. tl. 3. gr. vegalaga nr. 80/2007 er hugtakið vegur skilgreint sem:  „Akbraut, sem er sá hluti vegar sem er fyrst og fremst ætlaður fyrir umferð ökutækja, öll önnur mannvirki og vegsvæði sem að staðaldri eru nauðsynleg til þess að vegur sé varanlegur, unnt sé að halda honum við og hafa af honum sem fyllst not.“  Samkvæmt þessum lagaákvæðum taka lög um mannvirki ekki til mannvirkja við vegi sem þjóna viðhaldi og notkun hans, svo sem umferðarskilta, ljósastaura eða annars eðlilegs og nauðsynlegs búnaðar sem stuðlar að auknu umferðaröryggi og tryggri notkun vega. 

Vefmyndavélar eru settar upp við vegi í því skyni að auðvelda veghaldara eftirlit með færð og ástandi viðkomandi vegar.  Slíkur búnaður mun hafa verið settur upp á nokkrum stöðum við vegakerfi landsins í þessu skyni og verður að telja að búnaðurinn falli undir fyrrgreinda skilgreiningu veghugtaksins í 3. gr. vegalaga enda umrætt mannvirki til þess ætlað að þjóna þeim tilgangi sem þar er tíundaður. 

Með vísan til þess sem rakið hefur verið er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að umdeilt mannvirki sé ekki háð framkvæmdaleyfi að skipulagslögum og að lög um mannvirki taki ekki til uppsetningar umræddrar vefmyndavélar og fjarskiptabúnaðar henni tengdri innan umráðasvæðis veghaldara.  Ákvörðun byggingarfulltrúa um stöðvun framkvæmda frá 14. október 2009 er bráðabirgðaákvörðun sem bindur ekki enda á mál og verður hún því ekki borin undir úrskurðarnefndina, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Ákvörðun byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Garðs frá 14. október 2009 um að stöðva framkvæmdir við uppsetningu á mastri við Rósaselstorg í Garði er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Umdeilt mannvirki er ekki háð framkvæmdaleyfi samkvæmt 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og lög um mannvirki nr. 160/2010 taka ekki til uppsetningar þess á umráðasvæði veghaldara. 

___________________________
Ómar Stefánsson

____________________________   ___________________________
Ásgeir Magnússon                                  Þorsteinn Þorsteinsson

141/2007 Gnitakór

Með

Ár 2011, fimmtudaginn 24. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson hdl., staðgengill forstöðumanns, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 141/2007, kæra á samþykkt bæjarráðs Kópavogs frá 26. júní 2007 um breytt deiliskipulag Hörðuvalla vegna lóðarinnar nr. 13 við Gnitakór og ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 11. september 2007 um leyfi til byggingar húss á nefndri lóð. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 18. september 2007, er barst nefndinni 19. sama mánaðar, kæra B og Þ, Fjallakór 14, Kópavogi, ákvörðun bæjarráðs Kópavogs frá 26. júní 2007 um breytt deiliskipulag Hörðuvalla vegna lóðarinnar nr. 13 við Gnitakór og ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 11. september 2007 um að veita leyfi til byggingar húss á nefndri lóð. 

Gera kærendur þá kröfu að ofangreindar ákvarðanir verði felldar úr gildi. 

Málavextir:  Á árinu 2006 var sótt um leyfi til byggingar húss að Gnitakór 13 í Kópavogi.  Vísaði byggingarnefnd umsókninni til skipulagsnefndar sem ákvað að grenndarkynna tillögu að breyttu deiliskipulagi Hörðuvalla vegna lóðarinnar er m.a. fól í sér stækkun húss og að byggt yrði út fyrir byggingarreit.  Var grenndarkynningin síðar endurtekin vegna mistaka í framsetningu tillögunnar.  Skipulagsnefnd bárust athugasemdir vegna grenndarkynningarinnar og á fundi nefndarinnar 21. nóvember 2007 var tillögu um breytt deiliskipulag hafnað með vísan til athugasemda er borist höfðu á kynningartíma hennar. 

Á fundi skipulagsnefndar 6. febrúar 2007 var eftirfarandi fært til bókar:  „Lagt fram erindi lóðarhafa Gnitakórs 13 við Gnitakór, dags. 5. febrúar 2007, um útfærslu deiliskipulags lóðarinnar.  Svalir fara 2,1 meter út fyrir ytri byggingarreit til suðurs og 0,9 til vesturs.  Hús fer 1,2 metra upp úr ytri byggingarreit í suðurhluta húss og á stuttu bili á norður hluta húss.  Hús fer 3,3 m2 upp úr hámarks grunnfleti húss og 5,2 m2 upp úr hámarks heildarflatarmáli. … Skipulagsnefnd samþykkir að senda málið í kynningu til lóðarhafa Gnitakórs 11 og 15 og Fjallakórs 12, 14 og 16.“  Á fundi skipulagsnefndar 3. apríl 2007 var fjallað um athugasemdir er bárust, m.a. frá kærendum, vegna grenndarkynningarinnar.  Var málinu frestað og bæjarskipulagi falið að taka saman gögn varðandi innsendar athugasemdir.  Á fundum skipulagsnefndar 17. apríl, 30. apríl og 15. maí 2007 var enn fjallað um málið en afgreiðslu þess frestað.  Á fundi skipulagsnefndar 29. maí 2007 var eftirfarandi bókað:  „Lagt fram erindi dags. 22. maí 2007 þar sem komið er til móts við innsendar athugasemdir og suðurveggur lækkaður um 20 cm.  Skipulagsnefnd samþykkir erindið og umsögn bæjarskipulags dags. 16. apríl 2007 vísar því til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar.“  Á fundi bæjarráðs 31. s.m. var afgreiðslu skipulagsnefndar vísað að nýju til nefndarinnar til frekari meðferðar.  Á fundi skipulagsnefndar 19. júní s.á. var erindið samþykkt að nýju og á fundi bæjarráðs 28. s.m. var lögð fram umsögn skipulagsstjóra þar sem segir m.a:  „Bæjaryfirvöld hafa beðið um umsögn skipulagsstjóra um þær breytingar sem gerðar hafa verið til að koma til móts við innsendar athugasemdir.  Umsögn:  Verulega hefur verið komið til móts við innsendar athugasemdir samk. teikningum dags. í febrúar 2007 og breytt 12. júní 2007 þar sem hæð suðurveggjar hefur verið lækkuð um 26 cm og svalir á suðurhlið hafa verið færðar inn fyrir byggingarreit. … Undirritaður mælir með að bæjarstjórn samþykki erindið með áorðnum breytingum dags. 12. júní 2007 og umsögn bæjarskipulags dags. 16. apríl 2007.“  Var tillaga skipulagsstjóra samþykkt. 

Í kjölfar þessa var samþykktin send Skipulagsstofnun til yfirferðar og í bréfi stofnunarinnar til Kópvogsbæjar, dags. 14. september 2007, segir m.a:  „Nýr uppdráttur, dags. 3. september 2007, sýnir nú þá breytingu á deiliskipulaginu sem bæjaryfirvöld samþykktu í samræmi við síðustu umsögn skipulagsstjóra og felst breytingin einvörðungu í því að vegghæð og hluti þaks hækkar, en hámarkshæð þaks er óbreytt. … Skipulagsstofnun hefur yfirfarið framlögð gögn og gerir ekki athugasemd við að sveitarstjórn birti auglýsingu um samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda.  Skipulagsstofnun telur hins vegar að vafi geti leikið á um hvort það samræmist gildandi skipulagsskilmálum að heimila hús á þremur pöllum á lóðinni.“  Í bréfi Kópavogsbæjar til Skipulagsstofnunar, dags. 20. september 2007, segir m.a:  „Umrætt hús fer 64 cm upp úr byggingarreit að sunnan. … Hús á þrem pöllum er leyfilegt samkvæmt skipulagsskilmálum á þessu svæði.“  Birtist auglýsing um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda 20. september 2007. 

Hinn 11. september 2007 veitti byggingarfulltrúi síðan leyfi til byggingar húss á lóðinni að Gnitakór 13 og staðfesti bæjarstjórn þá ákvörðun á fundi 25. s.m. 

Hafa kærendur skotið áðurgreindum ákvörðunum til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan er rakið. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er vísað til þess að það geti vart verið eðlilegt að almennir borgarar séu settir í þá aðstöðu að þurfa að eyða miklum tíma og fjármunum, jafnvel í sérfræðiaðstoð, til að berjast fyrir því að farið sé að skipulagi hverfisins sem þeir búi í. 

Bent sé á að húsið að Gnitakór 13 sé á þremur pöllum.  Þá sé hæðarmunur lóða Gnitakórs 13 og Fjallakórs 14 talsverður og aukist enn með hinum kærðu samþykktum.  Óljós sé hvernig frágangi lóðarinnar að Gnitakór 13 verði háttað og líklegt að hæðarmismunurinn verði tekinn á eins litlu bili og auðið sé.  Húsið að Gnitakór 13 muni gnæfa yfir hús kærenda og gera það að verkum að notkun kærenda á vestur- og norðurhluta lóðar þeirra verði þrúgandi fyrir þá. 

Málsrök Kópavogsbæjar:  Af hálfu Kópavogsbæjar er því haldið fram að meðferð skipulags- og byggingaryfirvalda bæjarins á málinu hafi verið að öllu leyti í samræmi við lög og reglur.  Gerðar hafi verið breytingar á auglýstri tillögu til að koma enn frekar til móts við kærendur. 

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 11. janúar 2011. 

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið er í máli þessu deilt um gildi ákvörðunar bæjarráðs Kópavogs frá 26. júní 2007 um breytt deiliskipulag Hörðuvalla vegna lóðarinnar nr. 13 við Gnitakór og ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 11. september sama ár um að veita leyfi til byggingar húss á þeirri lóð. 

Á svæði því er hér um ræðir er í gildi deiliskipulag Hörðuvalla frá árinu 2003.  Samkvæmt skilmálum er gilda fyrir einbýlishús í Gnitakór er heimilt að reisa þar hús á einni eða tveimur hæðum.  Um hæðir húsa segir eftirfarandi í 5. gr. skilmálanna:  „Húshæð er gefin upp sem a) bindandi hæðafjöldi og b) hámarkshæð byggingar yfir aðkomukóta.  Þegar talað er um hæðafjölda er átt við fulla hæð, þ.e. útveggir séu í fullri lofthæð (ekki rishæð eða portbyggð rishæð).  Efsti hluti þaks má ná upp í uppgefna hámarkshæð, en getur verið lægri.  Hæðarkótar fyrir aðkomuhæðir húsa eru sýndir á hæðarblaði (gólfkótar –k).  Hámarkshæð húsa er gefin upp á skilmálateikningu og er hún miðuð við hæð yfir tilgreindum hæðarkóta aðkomuhæðar.  Mesta hæð húss talið frá aðkomuhæð er 7,5 metrar.“  Skilmálamynd sýnir að efri hæð húss ásamt þaki má vera 4,80 m. 

Í bókun skipulagsnefndar 6. febrúar 2007, varðandi beiðni lóðarhafa Gnitakórs 13 um skipulagsbreytingu, sagði m.a. eftirfarandi:  „Hús fer 1,2 metra upp úr ytri byggingarreit í suðurhluta húss og á stuttu bili á norður hluta  húss”, svo og að svalir yrðu byggðar út fyrir byggingarreit og að heildarflatarmál þess yrði aukið um 5,2 m2.  Var tillaga þessi grenndarkynnt og í kjölfarið var áformum breytt á þann veg samkvæmt skilmálamynd deiliskipulags að salarhæð efri hæðar fór úr því að mega vera allt að 3,60 m í 4,24 m.  Eftir breytinguna var hámarkshæð hússins innan þeirra marka sem sett voru í upphaflegu skipulagi.  Með hliðsjón af því verður hin umrædda breyting talin óveruleg og var skipulagsyfirvöldum því heimilt að grenndarkynna hana í samræmi við 2. mgr. 26. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Samkvæmt gildandi deiliskipulagi skal húsið að Gnitakór 13 vera á einni eða tveimur hæðum og stendur það norðan við hús kærenda að Fjallakór 14, en það hús er á einni hæð.  Talsverður hæðarmunum er á milli lóðanna enda landhalli allnokkur.  Umdeild skipulagsbreyting veitir heimild fyrir hækkun hluta hússins að Gnitakór 13 á þeirri hlið er snýr að kærendum, en hámarkshæð og umfang hússins rúmast engu að síður innan marka upphaflegs deilskipulags.  Verða grenndaráhrif breytingarinnar því ekki að marki önnur eða meiri en vænta mátti af byggingu að óbreyttu deiliskipulagi.  Deiliskipulagsbreytingin raskar því ekki hagsmunum kærenda með þeim hætti að leitt geti til ógildingar hennar. 

Að framangreindri niðurstöðu fenginni á hið kærða byggingarleyfi sér stoð í gildu deiliskipulagi og þar sem ekki liggur fyrir að annmarkar hafi verið á málsmeðferð þess verður ekki fallist á ógildingu byggingarleyfisins. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og tafa við gagnaöflun, en málsgögn bárust úrskurðarnefndinni hinn 30. desember 2010. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar bæjarráðs Kópavogs frá 26. júní 2007 um breytt deiliskipulag Hörðuvalla vegna lóðarinnar nr. 13 við Gnitakór og ákvörðunar byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 11. september 2007, er bæjarstjórn staðfesti hinn 25. s.m., um veitingu byggingarleyfis fyrir húsi að Gnitakór 13. 

___________________________
Ómar Stefánsson

____________________________     ___________________________
Ásgeir Magnússon                                     Þorsteinn Þorsteinsson

32/2010 Hvammabraut

Með

Ár 2011, fimmtudaginn 10. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson hdl., staðgengill forstöðumanns, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 32/2010, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 27. janúar 2010 um að veita byggingarleyfi fyrir sólhúsi á svölum íbúðar í fjölbýlishúsinu að Hvammabraut 4 í Hafnarfirði. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 10. maí 2010, er barst nefndinni 19. sama mánaðar, kæra Á, G, A og B, eigendur íbúða að Hvammabraut 2-16, Hafnarfirði, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 27. janúar 2010 að veita byggingarleyfi fyrir sólhúsi á svölum íbúðar 102 í fjölbýlishúsinu að Hvammabraut 4.  Gera kærendur þá kröfu að hið kærða byggingarleyfi verði fellt úr gildi. 

Með bréfi, dags. 25. maí 2010, gerði einn kærenda kröfu um bráðabirgðúrskurð um stöðvun framkvæmda á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Í málinu verður nú kveðinn upp endanlegur úrskurður og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfunnar. 

Málavextir:  Á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar hinn 25. nóvember 2009 var tekin fyrir umsókn um byggingarleyfi fyrir gerð sólhúss yfir hluta svala íbúðar 102 að Hvammabraut 4, Hafnarfirði.  Afgreiðslu málsins var frestað og óskað eftir fullnaðargögnum samkvæmt gr. 12.2 í byggingarreglugerð.  Erindið var síðan tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarfulltrúa 27. janúar 2010 og umsóknin samþykkt með vísan til þess að hún samræmdist ákvæðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Bæjarstjórn samþykkti þá afgreiðslu hinn 10. febrúar sama ár. 

Málsrök kærenda:  Byggt er á því af hálfu kærenda að heimiluð framkvæmd feli í sér meiriháttar útlitsbreytingu á fjölbýlishúsinu að Hvammabraut 2-16 sem háð sé samþykki allra sameigenda.  Til séu samþykktar teikningar af húsinu, dags. 9. júní 1993, sem sýni þá sólskála sem fyrir séu.  Þar séu sólskálarnir staðsettir ýmist á vinstri eða hægri helmingi svala og hafi sú tilhögun fordæmisgildi.  Bæjaryfirvöld hafi hins vegar í máli þessu heimilað staðsetningu sólskála fyrir miðjum svölum og telji kærendur þá breytingu þurfa samþykki allra eigenda fjölbýlishússins samkvæmt ákvæðum fjöleignarhúsalaga, sbr. 5., 8., 19. og 28.-30. gr. laganna. 

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar:  Vísað er til þess að úthlutunarskilmálar fyrir umrædda lóð, sem jafnframt séu skipulagaskilmálar, heimili að byggt sé yfir hálfar upprunalegar svalir íbúða.  Leyfi fyrir þeim byggingum séu því aðeins háðar samþykki byggingaryfirvalda.

Andmæli byggingarleyfishafa:  Vísað er til þess að teikningar að umræddum sólskála hafi verið bornar undir arkitekt hússins sem hafi engar athugasemdir gert við þær.  Í g-lið 14. gr. þinglýsts lóðarleigusamnings fyrir Hvammabraut 2-16 sé tilgreindur réttur til byggingar sólskála sem fylgi ákveðnum íbúðum í húsinu og auki sá réttur verðmæti þeirra.  Hafi byggingaryfirvöld byggt hina kærðu ákvörðun á þessu þinglýsta skjali.  Í nefndu ákvæði lóðarleigusamningsins komi fram að skálarnir skuli standa nær stigahúsi og sé hin kærða ákvörðun í samræmi við það.  Hitt sé annað mál að þegar hafi verið reistir þrír sólskálar næst stigahúsi og einn fjærst stigahúsi og að líkindum án leyfis nema í einu tilfelli.  Fráleitt sé að greind tilvik hafi fordæmisgildi eins og málum sé háttað.  Umræddur skáli hafi ekki verið framleiddur fyrr en að fengnu byggingarleyfi.  Staðsetning taki mið af nýtingu skálans fyrir íbúðina og yfirfalls- og niðurfallslögnum frá efri svölum og hafi framkvæmdin verið samþykkt á húsfundi með 20 atkvæðum gegn 2. 

Niðurstaða:  Lóðarleigusamningur fyrir lóðina að Hvammabraut 2-16, sem þinglýst var hinn 4. apríl 1984, hefur að geyma heimild fyrir viðbyggingum út á svalir íbúða fjölbýlishússins á lóðinni.  Í g-lið 14. gr. samningsins segir svo:  „Gert er ráð fyrir viðbyggingarmöguleika út á svalir íbúða.  Ef til slíkra útbygginga kemur, skulu þær vera uppbyggðar samkvæmt samræmdu kerfi og háðar samþykki byggingarnefndar.  Slíkar útbyggingar mega ekki vera breiðari en hálfar upprunalegar svalir viðkomandi íbúðar og koma aðeins til greina á húsum nr. 2, 4, 6, 14 og 16 á þeim hluta svala sem nær er stigahúsi.“  Efnislega samhljóða heimild er í fyrirliggjandi úthlutunarskilmálum fyrir fjölbýlishúsið að Hvammabraut 2-16 frá apríl 1982 að öðru leyti en því að staðsetning viðbygginga á svölum er ekki tilgreind. 

Kveðið er á um rétt byggingarleyfishafa til byggingar á svölum íbúðar að Hvammabraut 4 í þinglýstum lóðarleigusamningi sem sameigendur að Hvammabraut 2-16 eru bundnir af.  Umrædd svalabygging rúmast innan samþykktrar teikningar fjölbýlishússins í skilningi 1. mgr. 29. gr. laga um fjölbýlishús nr. 26/1994 enda um að ræða smíð innan opinna svala íbúðar í séreign sem heimiluð var í upphafi og kallar ekki á breytingu húss að öðru leyti.  Fyrir liggja samþykktar teikningar af nefndu fjölbýlishúsi frá árinu 1993 og 2002 þar sem teiknaðar hafa verið inn á upprunalega teikningu hússins sólstofur á svölum tveggja íbúða í tilefni af veitingu byggingarleyfa fyrir þeim. 

Af eðli máls og framangreindum atvikum leiðir að nýting umrædds byggingarréttar í samræmi við ákvæði lóðaleigusamningsins er ekki bundin samþykki sameigenda skv. 2. mgr. 28. gr. fjöleignarhúsalaga og gat byggingarleyfishafi að uppfylltum þeim ákvæðum ráðist í slíkar framkvæmdir að fengnu byggingarleyfi, sbr. 1. mgr. 29. gr. laganna. 

Hið kærða byggingarleyfi heimilar byggingu sólstofu innan þeirra stærðarmarka sem sett eru í fyrrgreindum lóðarleigusamningi með sambærilegri hönnun og útliti og sólstofur þær sem áður hafa verið samþykktar á svölum umrædds fjölbýlishúss.  Staðsetning sólstofunnar er hins vegar önnur en samkvæmt fyrri byggingarleyfum þar sem hún er ekki staðsett við hliðarvegg svala.  Sólstofan stendur fyrir miðju svalanna en þó nær stigagangi en hliðarvegg milli svala. 

Eins og áður greinir skal viðbygging á svölum staðsett á þeim hluta svala sem nær er stigagangi skv. g-lið 14. gr. lóðarleigusamnings fyrir Hvammabraut 2-16.  Í því ákvæði felst að sólskálinn verður að standa að öllu leyti milli miðlínu svala og hliðarveggs við stigagang.  Sólskáli sá sem hér um ræðir stendur hins vegar að hluta til á þeim helmingi svala sem fjær er stigagangi og fer að því leyti gegn nefndu ákvæði samningsins, þrátt fyrir að umdeild staðsetning fari ekki gegn fyrirliggjandi skipulagsskilmálum fyrir lóðina frá apríl 1982.  Með hliðsjón af framangreindu fer hið kærða byggingarleyfi í bága við hinn þinglýsta lóðarleigusamning og verður af þeim sökum að fella það úr gildi. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 27. janúar 2010, er bæjarstjórn staðfesti 10. febrúar sama ár, um að veita byggingarleyfi fyrir sólhúsi á svölum íbúðar 102 í fjölbýlishúsinu að Hvammabraut 4 í Hafnarfirði. 

 

___________________________
Ómar Stefánsson

 

____________________________   ___________________________
Ásgeir Magnússon                                   Þorsteinn Þorsteinsson

43/2009 Þúfukot

Með

Ár 2011, fimmtudaginn 10. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson hdl., staðgengill forstöðumanns, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 43/2009, kæra á afgreiðslu hreppsnefndar Kjósarhrepps frá 2. apríl 2009 á beiðni um deiliskipulag hluta jarðarinnar Þúfukots í Kjósarhreppi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 10. júní 2009, er barst nefndinni 22. s.m., kærir H, Þúfukoti, Kjósarhreppi, afgreiðslu hreppsnefndar Kjósarhrepps frá 2. apríl 2009 á beiðni um deiliskipulag hluta jarðarinnar Þúfukots.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða afgreiðsla verði felld úr gild. 

Málsatvik og rök:  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Kjósarhrepps 10. júlí 2008 var til umfjöllunar tillaga kæranda máls þessa um deiliskipulag hluta jarðarinnar Þúfukots í Kjós.  Var eftirfarandi fært til bókar á fundinum:  „Tillagan gerir ráð fyrir 20 lóðum fyrir búgarða og 4 lóðum fyrir íbúðarhús ásamt sameiginlegu svæði.  Meðfylgjandi eru umsagnir Veðurstofu Íslands og Fornleifaverndar ríkisins.  Frestað. Skipulagsnefnd tekur jákvætt undir erindið en felur skipulagsfulltrúa að afla ítarlegri gagna og umsagna.“  Á fundi nefndarinnar 5. nóvember s.á. var erindi kæranda til umfjöllunar og var eftirfarandi bókað:  „Tekin var fyrir öðru sinni deiliskipulagstillaga fyrir búgarðabyggð í landi Þúfukots. … Skipulagsnefnd samþykkir erindið með fyrirvara um umsagnir heilbrigðisfulltrúa Kjósarsvæðis og Vegagerðarinnar.“  Á fundi hreppsnefndar 6. s.m. var áðurnefnd fundargerð skipulags- og byggingarnefndar til umfjöllunar og afgreiðslu og var eftirfarandi fært til bókar af því tilefni:  „Byggingarnefndarhluti fundargerðarinnar er samþykktur en skipulagshluta er hafnað og vísað aftur til skipulagsnefndar.“  Í kjölfarið ritaði oddviti hreppsnefndar formanni skipulags- og byggingarnefndar bréf, dags. 10. nóvember 2008, þar sem segir m.a. að hreppsnefnd hafi ekki þótt tímabært að samþykkja tillöguna í skipulagsnefnd fyrr en umsögn Vegagerðarinnar og Heilbrigðiseftirlits liggi fyrir.  Einnig er bent á ýmsa ágalla er hreppsnefnd þóttu vera á tillögunni.  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 14. febrúar 2009 var erindi kæranda enn til umfjöllunar og var eftirfarandi bókað:  „Erindið var áður samþykkt í skipulagsnefnd 5. nóvember 2008 með fyrirvara um samþykki Vegagerðar og Heilbrigðseftirlits Kjósarsvæðis.  Afgreiðslu fundargerðar skipulagsnefndar var hafnað í hreppsnefnd 6. nóvember 2008 vegna ágalla á skipulagsuppdrætti.  Lagður er fram nýr og endurbættur uppdráttur af skipulagssvæðinu. … Bókun:  Frestað. Skipulagsfulltrúa falið að vera í samráði við skipulagshöfund varðandi frekari útfærslur skipulagsins og sjá um hagsmunaaðilakynningu.“ 

Á fundi hreppsnefndar 2. apríl 2009 var lagt fram erindi frá skipulagsfulltrúa er varðaði jörðina Þúfukot og var eftirfarandi fært til bókar:  „Lagt fram erindi frá skipulagsfulltrúa fyrir hönd skipulagsnefndar þar sem óskað er eftir því að hreppsnefndin taki afstöðu til deiliskipulagstillögu í landi Þúfukots, en hún felur í sér að hin fyrirhugaða byggð skilgreinist sem þéttbýli samkvæmt skipulagslögum.  Afgreiðsla:  Framlögð tillaga fellur undir skilgreiningu á þéttbýli samkvæmt byggingar- og skipulagslögum.  Í aðalskipulagi Kjósarhrepps er ekki gert ráð fyrir uppbyggingu á þéttbýlissvæðum í sveitarfélaginu.  Sveitarstjórn er einhuga um að framfylgja þeirri stefnu.“

Af hálfu kæranda er vísað til þess að hann hafi unnið tillögu að deiliskipulagi fyrir hluta jarðarinnar eftir forsögn aðalskipulags sveitarfélagins og ábendingum skipulags- og byggingarnefndar og því sé óskiljanlegt hvers vegna tillögunni hafi verið hafnað. 

Kjósarhreppur bendir á að tillaga kæranda rúmist ekki innan aðalskipulags sveitarfélagsins auk þess sem henni hafi aldrei verið formlega hafnað heldur einvörðungu verið bent á að tillagan samræmdist ekki aðalskipulagi og henni vísað til frekari úrvinnslu.  Verulegir ágallar hafi verið á tillögunni sem þurfi að vinna úr áður en hún sé tæk til auglýsingar. 

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið vísaði hreppsnefnd, á fundi sínum 6. nóvember 2008, afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar frá 5. s.m., um tillögu að deiliskipulagi hluta jarðarinnar Þúfukots, að nýju til skipulags- og byggingarnefndar.  Í bréfi oddvita hreppsnefndar til formanns nefndarinnar, dags. 10. nóvember 2008, kom m.a. fram það mat hreppsnefndar að ekki væri tímabært að samþykkja tillöguna og bent á ágalla er hreppsnefnd þóttu vera á henni. 

Á fundi hreppsnefndar 2. apríl 2009 var lagt fram erindi frá skipulagsfulltrúa þar sem óskað var eftir afstöðu hreppsnefndar til tillögu að deiliskipulagi í landi Þúfukots.  Í bókun hreppsnefndar af því tilefni sagði að í aðalskipulagi sveitarfélagins væri ekki gert ráð fyrir uppbyggingu þéttbýlissvæða innan þess en ekki verður af bókuninni ráðið, með tilliti til forsögu málsins, að endanleg afstaða hafi verið tekin til erindisins. 

Með vísan til þessa verður hin kærða afgreiðsla ekki talin fela í sér lokaákvörðun sem bindur enda á meðferð máls og er hún því ekki kæranleg til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

_______________________________
Ómar Stefánsson

_______________________________    _____________________________
Ásgeir Magnússon                                           Þorsteinn Þorsteinsson