Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

2/2011 Björtusalir

Ár 2011, miðvikudaginn 27. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 2/2011, kæra á ákvörðun bæjarráðs Kópavogsbæjar frá 16. desember 2010 um synjun á stækkun sorpgeymslu að Björtusölum 17, Kópavogi.  Einnig er kærð ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar um að fjarlægja útigeymslu sem er fyrir framan húsið að Björtusölum 17. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 4. janúar 2011, er barst nefndinni 6. sama mánaðar, kæra H og E, lóðarhafar að Björtusölum 17, Kópavogi, ákvörðun skipulagsnefndar Kópavogsbæjar frá 16. (sic) desember 2010 um synjun á umsókn um stækkun sorpgeymslu að Björtusölum 17.  Skilja verður kæruna svo að krafist sé ógildingar á ákvörðun bæjarráðs Kópavogsbæjar frá 16. desember 2010 um synjun á stækkun umræddrar sorpgeymslu en sú ákvörðun er lokaákvörðun í málinu og sætir því kæru til úrskurðarnefndarinnar. 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 19. maí 2011, er barst nefndinni 23. sama mánaðar, kæra kærendur og ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 11. maí 2011 um að fjarlægja skuli útigeymslu, sem staðsett er fyrir framan húsið að Björtusölum 17, fyrir 1. júlí 2011. 

Með hliðsjón af efni hinna kærðu ákvarðana var síðari kæran, sem er nr. 35/2011, sameinuð máli þessu. 

Málavextir:  Upphaf máls þessa má rekja til þess að með bréfi dags. 27. október 2009, benti byggingarfulltrúi kærendum á að sorpgeymsla sem búið var að byggja framan við hús þeirra væri ekki í samræmi við samþykktar teikningar.  Þetta var ítrekað með bréfi, dags. 8. apríl 2010, og kærendum bent á að koma sorpgeymslunni í rétt horf eða leggja fram ósk um leyfi til að breyta sorpgeymslu.  Tekið var fram að leita þyrfti álits skipulagsnefndar. 

Umrædd sorpgeymsla er reist þar sem gert er ráð fyrir sorpgeymslu á samþykktum aðaluppdráttum að Björtusölum 17.  Hún er hins vegar 40 cm lengri, 70 cm breiðari og 20 cm hærri en sýnt er á samþykktum uppdráttum og er auk þess hólfuð í tvennt, annar vegar í rými fyrir sorp og hins vegar fyrir reiðhjól, og því í senn sorpgeymsla og útigeymsla. 

Kærendur lögðu fram beiðni til skipulagsnefndar hinn 15. júní 2010 og umsókn um byggingarleyfi fyrir sorpgeymslunni 16. júní s.á.  Erindið fór í grenndarkynningu samkvæmt 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 til allra lóðarhafa í Björtusölum.  Skipulagsnefnd hafnaði erindinu 13. desember 2010 og var afgreiðsla nefndarinnar staðfest og erindinu hafnað í bæjarráði hinn 16. sama mánaðar. 

Hinn 11. maí 2011 ritaði byggingarfulltrúi kærendum bréf þar sem skorað var á þau, með vísan til synjunar skipulagsnefndar, að fjarlægja geymsluna og gera sorpgeymslu í samræmi við samþykkt byggingarleyfi fyrir 1. júlí 2011. 

Málsrök kærenda:  Varðandi fyrri kæruna er af hálfu kærenda vísað til þess að stækkun sorpgeymslu hafi verið óveruleg og að hún hafi engin neikvæð grenndaráhrif gagnvart þeim sem gert hefðu athugasemdir við breytinguna.  Sorpgeymslan liggi ekki að lóðarmörkum heldur að opnu svæði.  Hugsanlega hafi ekki verið skylt að grenndarkynna umrædda breytingu enda sé sorpgeymslan gerð úr timbri og ekki steypt föst.  Teljist hún því ekki mannvirki sem sé varanlega skeytt við jörðu í skilningi laga.  Hægt sé að kaupa sorpgeymslur sem séu bæði forsteyptar og úr timbri og almennt hafi ekki verið gerð krafa um byggingarleyfi eða deiliskipulagsbreytingu vegna þeirra. 

Varðandi síðari kæruna sé byggt á því að kærendum hafi ekki verið gefinn kostur á að andmæla, sbr. stjórnsýslulög nr. 37/1993, áður en ákvörðun var tekin af hálfu byggingarfulltrúa um að geymslan skyldi fjarlægð.  Jafnframt telji kærendur að ákvörðun hans brjóti í bága við meðalhófsreglu stjórnsýslulaga.  Ekki komi fram að ákvörðunin sé byggð á lögum enda engin tilvísun til þeirra ákvæða sem hún byggist á. 

Málsrök Kópavogsbæjar:  Varðandi fyrri kæruna gerir Kópavogsbær þá kröfu að ákvörðun skipulagsnefndar frá 13. desember 2010 verði staðfest.  Vísað sé til þess að geymslan sé ekki í samræmi við skipulagsskilmála og falli ekki að gildandi deiliskipulagi vegna stærðar.  Hún uppfylli ekki kröfur um brunavarnir og hafi neikvæð áhrif á götumynd og heildaryfirbragð götunnar.  Grundvöllur þess að fá samþykki fyrir breytingu á deiliskipulagi parhúsalóðar sé jafnframt að fyrir liggi samþykki eigenda aðliggjandi eignar en í þessu tilviki liggi fyrir mótmæli eigenda aðliggjandi parhúss. 

Ekki sé hægt að líkja umræddri geymslu við forsteypta sorpgeymslu líkt og kærendur geri enda sé hún mun stærri en slíkar geymslur.  Geymslan sé einnig fest með einhverjum hætti við jörðu.  Umrædd bygging falli ekki utan skilgreiningar á „byggingu“ og „mannvirki“ í eldri skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 sem gilt hafi þegar ákvörðunin hafi verið tekin.  Skoða verði þessa framkvæmd sem hluta af fasteigninni Björtusölum 17 og jafnvel sem hluta af fjöleignarhúsinu Björtusölum 15-17.  Ljóst sé að byggingin standi ekki utan við lög og rétt á sviði byggingarmála. 

Varðandi ákvörðun byggingarfulltrúa um að fjarlægja útigeymsluna sé því hafnað að kærendum hafi ekki verið gefinn kostur á andmælum.  Búið sé að hafna því að breyta deiliskipulagi til að geymslan fái að standa áfram og því sé augljóst næsta skref að krefjast þess að hún verði fjarlægð.  Bent sé á að ef kærendur teldu sig hafa eitthvað nýtt fram að færa hefðu þau getað sent byggingarfulltrúa athugasemdir sínar fyrir 1. júlí 2011.  

Meðalhófsreglan hafi ekki verið brotin enda hafi kærendum verið gefinn langur tími til að koma málum í rétt horf og hafi byggingarfulltrúi beðið með aðgerðir á meðan kærendum hafi verið gefinn kostur á að leita eftir breytingu á deiliskipulagi. 

Kópavogsbær telji afgreiðslu bæjarins á erindum kærenda bæði formlega og efnislega rétta og geri þá kröfu að úrskurðarnefndin hafni framkomnum kröfum og staðfesti hinar kærðu ákvarðanir. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er krafist ógildingar á synjun bæjarráðs Kópavogsbæjar frá 16. desember 2010 á umsókn um stækkun á sorpgeymslu að Björtusölum 17.  Í skipulagsskilmálum fyrir viðkomandi skipulagsreit segir að sorpgeymsla skuli vera við hvert hús og skuli stærð hennar miðast við að hún geti rúmað a.m.k. tvö sorpílát.  Enda þótt í þessu ákvæði felist ekki skýr ákvörðun um hámarksstærð á sorpgeymslum verður að fallast á þann skilning bæjaryfirvalda að sorp- og útigeymsla sú sem sótt var um rúmist ekki innan skilmála deiliskipulags.  Var bæjaryfirvöldum því rétt að fara með málið eins og um beiðni um óverulega breytingu á deiliskipulagi væri að ræða svo sem gert var. 

Húsin að Björtusölum 15 og 17 eru sambyggð en standa ekki á sameiginlegri lóð.  Verður að telja, með hliðsjón af ákvæðum 3. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús, að um sjálfstæð hús sé að ræða og því hafi ekki verið réttmætt að áskilja samþykki eigenda Björtusala 15 fyrir skipulagsbreytingunni, en það virðist hafa verið ein af forsendum fyrir niðurstöðu bæjaryfirvalda í málinu.  Á hitt ber hins vegar að líta að geymsla sú sem um er deilt í málinu er í senn sorpgeymsla og útigeymsla fyrir reiðhjól.  Ekki er í skipulagi svæðisins gert ráð fyrir slíkum útigeymslum á framlóðum og gátu kærendur ekki vænst þess að leyft yrði að reisa slíka geymslu sem er til muna meiri að umfangi en gera mátti ráð fyrir að sorpgeymsla væri.  Verður því að fallast á að synjun bæjarráðs á umsókn kærenda um breytt deiliskipulag hafi verið studd málefnalegum rökum, enda verða íbúar í deiliskipulögðum hverfum almennt að geta treyst því að festa sé í framkvæmd nýlegs skipulags og að því verði almennt ekki breytt nema veigamiklar ástæður mæli með því.  Verður því hafnað kröfu kærenda um ógildingu á synjun bæjarráðs á erindi þeirra um breytt deiliskipulag vegna margnefndrar útigeymslu. 

Í málinu er einnig krafist ógildingar á ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 11. maí 2011 um að fjarlægja umrædda útigeymslu sem staðsett er fyrir framan húsið að Björtusölum 17, fyrir 1. júlí 2011.  Útigeymslan er byggingarleyfisskylt mannvirki sem ekki var reist í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti og átti krafa byggingarfulltrúa sér því stoð í 1. mgr. 56. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010. 

Fallast má á að það sé ágalli á umræddri ákvörðun að ekki sé getið þeirrar lagaheimildar sem stuðst er við en sá ágalli þykir þó ekki stórvægilegur og leiðir ekki til ógildingar.  Þegar litið er til þess að ákvörðun byggingarfulltrúa fól ekki í sér beitingu dagsekta eða annarra þvingunarúrræða og að kærendum var veittur rúmur frestur til viðbragða verður að telja að undirbúningur þessarar ákvörðunar hafi verið fullnægjandi eins og á stóð.  Samkvæmt því verður kröfu kærenda um ógildingu hennar hafnað. 

Með vísan til réttaröryggissjónarmiða og réttar borgaranna til að skjóta ákvörðunum til æðra stjórnvalds ber, þrátt fyrir þessa niðurstöðu, að veita kærendum hæfilegan frest, sbr. 61. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, frá uppkvaðningu úrskurðar þessa, til að færa umrætt mannvirki til samræmis við samþykkta uppdrætti. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu synjunar bæjarráðs Kópavogsbæjar frá 16. desember 2010 á umsókn um að stækka og breyta sorpgeymslu að Björtusölum 17.   

Einnig er hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 11. maí 2011 um að fjarlægja útigeymslu sem staðsett er fyrir framan húsið að Björtusölum 17 en ákvarða ber kærendum að nýju hæfilegan frest til að ljúka verkinu. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________     _____________________________
Ásgeir Magnússon                                         Þorsteinn Þorsteinsson