Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

10/2011 Lækjarnes

 Ár 2011, fimmtudaginn 11. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 10/2011, kæra á samþykkt bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 1. desember 2010 um deiliskipulag Lækjarness í Mosfellsdal.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 20. janúar 2011, er barst nefndinni 21. s.m., kærir Þ, Laxnesi I í Mosfellsbæ, samþykkt bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 1. desember 2010 um deiliskipulag Lækjarness.  Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins birtist í B-deild Stjórnartíðinda hinn 18. janúar 2011.

Málavextir:  Mál um deiliskipulag fyrir Lækjarnes í Mosfellsdal hefur áður komið til kasta úrskurðarnefndarinnar, en með úrskurði uppkveðnum 14. janúar 2010 felldi nefndin úr gildi deiliskipulag sem þá hafði verið samþykkt fyrir umrædda landspildu.   Hinn 6. september 2010 var auglýst tillaga að deiliskipulagi Lækjarness með athugasemdafresti til 18. október s.á.  Kom kærandi á framfæri athugasemdum sínum hinn 8. október 2010.   Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 23. nóvember s.á. var fjallað um framkomnar athugasemdir og skipulagstillagan samþykkt með lítils háttar breytingu.  Samþykkti bæjarstjórn afgreiðslu skipulagsnefndar hinn 1. desember 2010.  Skipulagsstofnun afgreiddi hið nýja deiliskipulag með bréfi, dags. 22. desember 2010, og var auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 18. janúar 2011, svo sem fyrr greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi krefst ógildingar á hinni kærðu samþykkt bæjarstjórnar Mosfellsbæjar.  Hafi hann mótmælt umræddu deiliskipulagi hinn 8. október 2010 og hafi aðalathugasemd verið að áformað væri að breyta reiðleið í akveg, en samkvæmt aðalskipulagi þessa svæðis sé gert ráð fyrir reiðslóð.  Deiliskipulagið sé því í ósamræmi við staðfest aðalskipulag.  Einnig séu mörk Lækjarness og Laxness óljós og ennfremur sé umrætt deiliskipulag á vatnsverndarsvæði.

Deilur hafi staðið undanfarin ár um veg sem liggi meðfram Köldukvísl, að Lækjarnesi og svonefndum Bakkakotsvelli.  Mosfellsbær hafi undanfarin ár ítrekað hundsað óskir kæranda um að koma skikk á málið.  Ógni síaukin umferð bíla öryggi viðskiptavina Laxnesbúsins auk þess sem alvarleg slys hafi orðið á svæðinu.

Landeigendur hafi falið lögmönnum Bændasamtakanna að afla heimildar sýslumanns til upptöku landamerkja og hafi landeigendur í fórum sínum sannanir fyrir því að Mosfellsbær hafi selt hluta úr landi Laxness I, sem og haft makaskipti á skikum og stækkað aðrar lóðir án samráðs við meðeigendur sína.  Einnig séu til gögn sem sýni að lóð Lækjarness hafi stækkað mikið og þetta mál verði tekið upp samhliða öðrum þar sem landeigendur ætli að hreinsa til í málum Laxneslandsins, með eða án aðkomu Mosfellsbæjar.

Sé það eindreginn vilji Mosfellsbæjar að deiliskipuleggja þessa lóð verði bærinn að finna henni aðra aðkomu því samþykki meðeigenda sé ekki fyrir hendi, enda hafi bærinn engin lagaleg rök til eignaupptöku á landi sem nota eigi sem aðkomu að lóðinni.

Málsrök Mosfellsbæjar:  Mosfellsbær krefst þess að kröfum kæranda verði hafnað, enda hafi engir formgallar verið á málinu, rétt hafi verið staðið að málsmeðferð þess og deiliskipulagið sé ekki í ósamræmi við gildandi aðalskipulag. 

Mosfellsbær vísi í bréf skipulags- og byggingarnefndar til lögmanns kæranda dags. 23. nóvember 2010.  Þar komi fram að vegur meðfram Köldukvísl að Lækjarnesi fari um land sem sé í óskiptri sameign nokkurra aðila, þ.á m. Mosfellsbæjar, og hafi um árabil þjónað sem aðkoma að golfvelli og Lækjarnesi.  Í aðalskipulagi Mosfellsbæjar séu vegir heim að bæjum og býlum almennt ekki sýndir og þótt þar sé sýnd reiðleið í svipaðri legu og umræddur vegur þýði það ekki að þarna sé eingöngu reiðleið en ekki akvegur.  Nefndin fallist því ekki á að deiliskipulagið sé í ósamræmi við aðalskipulag að þessu leyti.  Bent sé á að í greinargerð Lex lögmanna frá 21. febrúar 2008 og greinargerð Mosfellsbæjar vegna kæru í máli nr. 156/2007 komi fram að umræddur vegur hafi verið til staðar þegar kærandi hafi keypt eignarhlut sinn í Laxnesi og hafi vegurinn þá þjónað sama hlutverki.  Hið kærða skipulag geri ekki ráð fyrir breytingu á vegstæðinu í landi kæranda né breyttum notum á veginum.  Frá því þessi greinargerð hafi verið lögð fram hafi eigendur 93% hins óskipta lands að Laxnesi I, gert með sér sérstakt samkomulag um að vinna deiliskipulag fyrir umræddan veg, m.a. til þess að skilja að umferð akandi og ríðandi vegfaranda og auka þar með öryggi beggja. 

Bent sé á að samkvæmt 3. mgr. 2. gr. skipulags- og byggingarlaga sé deiliskipulagi ætlað að vera nánari útfærsla á aðalskipulagi.  Þótt kveðið sé á um reiðleiðir í aðalskipulagi Mosfellsbæjar sé lega vega háð þeirri ónákvæmni sem almennt sé um að ræða í aðalskipulagi og ráðist m.a. af mælikvarða uppdráttar.  Ekkert ósamræmi sé því á milli aðal- og deiliskipulags að þessu leyti.

Niðurstaða:  Í máli þessu er krafist ógildingar á samþykkt Mosfellsbæjar frá 1. desember 2010 um deiliskipulag fyrir lögbýlið Lækjarnes í Mosfellsbæ.  Telur kærandi að deilskipulagið samræmist ekki gildandi aðalskipulagi þar sem deiliskipulagið geri ráð fyrir akvegi að skipulagssvæðinu en aðeins sé þar sýndur reiðvegur í aðalskipulagi.  Þá séu áhöld um merki Lækjarness en sú landspilda hafi verið stækkuð án samráðs við landeigendur.

Ekki verður fallist á að hin kærða ákvörðun fari í bága við aðalskipulag.   Á uppdrætti gildandi Aðalskipulags Mosfellsbæjar 2002-2024 má sjá að gert er ráð fyrir vegi á umræddum stað, auk reiðvegar.  Svæðið næst Köldukvísl nýtur hverfisverndar en það girðir þó ekki fyrir að vegur sé á umræddum stað þar sem hann hefur verið kominn til sögunnar fyrir samþykkt aðalskipulagsins.  Verður þetta ráðið af því að vegurinn er m.a. aðkoma að golfskála í landi Minna-Mosfells sem reistur var árið 1996.  Af sömu ástæðu verður ekki séð að samþykkis kæranda hafi þurft við þegar ákvörðun var tekin um akveg um land Laxness á umræddum stað þar sem kærandi var þá ekki orðinn eigandi að eignarhlut sínum í jörðinni, en eignarheimild hans er dagsett 27. janúar 1999.  Landnotkun samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi er jafnframt í samræmi við aðalskipulag en Lækjarnes hefur nú stöðu lögbýlis samkvæmt leyfi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra frá 2. júlí 2010.

Ekki verður fallist á að það hafi átt að koma í veg fyrir að unnt væri að gera deiliskipulag fyrir land Lækjarness þótt kærandi bæri brigður á merki landsins gagnvart Laxnesi.  Felur deiliskipulag ekki í sér neina ákvörðun um merki eða um breytingu á þeim og stendur það því ekki í vegi fyrir að kærandi geti vefengt merkin eftir þeim reglum sem gilda um meðferð slíkra mála. 

Með hliðsjón af framansögðu, og þar sem enga annmarka er að sjá á undirbúningi eða gerð hinnar kærðu ákvörðunar, verður kröfu um ógildingu hennar hafnað.

Úrskurðarorð: 

Kröfu kæranda um ógildingu á samþykkt bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 1. desember 2010, um deiliskipulag Lækjarness í Mosfellsdal, er hafnað.

___________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                               Þorsteinn Þorsteinsson