Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

50/2011 Silfurtún

Ár 2011, föstudaginn 26. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson hdl., staðgengill forstöðumanns, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 50/2011, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 16. júní 2011 um breytingu á deiliskipulagi fyrir Silfurtún-Hofstaðamýri í Garðabæ er fól í sér nýjan byggingarreit á lóð leikskólans Bæjarbóls við Bæjarbraut. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 30. júní 2011, er barst nefndinni hinn 4. júlí s.á., kærir S, Faxatúni 20, ásamt 11 öðrum íbúum að Faxatúni 18, 20, 22, 24, 26 og 28 í Garðabæ, þá ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 16. júní 2011 að samþykkja deiliskipulagsbreytingu fyrir Silfurtún-Hofstaðamýri í Garðabæ sem fól í sér nýjan byggingarreit á lóð leikskólans Bæjarbóls við Bæjarbraut.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða deiliskipulagsákvörðun verði felld úr gildi. 

Með bréfi, dags. 4. júlí 2011, er barst nefndinni sama dag, kærir Sóley Björg Færseth, Faxatúni 20, Garðabæ, jafnframt þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Garðabæ frá 23. júní 2011 að veita byggingarleyfi fyrir bráðabirgðahúsi á lóð leikskólans Bæjarbóls.  Var sú afgreiðsla byggingarfulltrúa staðfest á fundi bæjarráðs hinn 28. júní s.á.  Gerir kærandi þá kröfu að hið kærða byggingarleyfi verði fellt úr gildi.  Jafnframt var sett fram krafa um að kveðinn yrði upp til bráðabirgða úrskurður um stöðvun framkvæmda á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Þykir málið nú nægjanlega upplýst til þess að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til kröfunnar um stöðvun framkvæmda. 

Þar sem sömu málsatvik eiga við um hið kærða byggingarleyfi og fyrrgreinda deiliskipulagsbreytingu verður kærumálið vegna byggingarleyfisins, sem er nr. 51/2011, sameinað máli þessu enda standa hagsmunir kærenda í nefndum málum því ekki í vegi. 

Málavextir:  Deiliskipulag fyrir Silfurtún-Hofstaðamýri í Garðabæ var samþykkt í bæjarstjórn 21. ágúst 2001.  Deiliskipulagssvæðið nær yfir opið svæði milli Túnahverfis og Mýrarhverfis auk lóða leikskólans Bæjarbóls og skátaheimilis ásamt svæði garðyrkjudeildar bæjarins undir skólagarða.  Samkvæmt skipulaginu er hámarksnýtingarhlutfall leikskólalóðarinnar 0,5.

Á fundi skipulagsnefndar Garðabæjar 14. apríl 2011 var tekin fyrir tillaga að breytingu á fyrrgreindu deiliskipulagi þar sem gert var ráð fyrir byggingarreit fyrir færanlega kennslustofu í norðvesturhorni lóðar leikskólans Bæjarbóls.  Breytingin á deiliskipulagi svæðisins var metin óveruleg og samþykkt að grenndarkynna hana skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.  Bæjarstjórn samþykkti þá afgreiðslu 5. maí 2011 og var breytingartillagan síðan grenndarkynnt eigendum Engimýrar 1, 3, 5 og 7 og Faxatúns 18, 20, 22, 24, 26 og 28. 

Að lokinni grenndarkynningu var málið tekið fyrir að nýju á fundi skipulagsnefndar 10. júní 2011 og var hin kynnta tillaga samþykkt með þeirri breytingu að aðkoma að heimiluðu húsi yrði um leikskólalóðina en ekki um göngustíg milli lóða leikskólans og húsa við Engimýri eins og gert hafði verið ráð fyrir í upphaflegri tillögu.  Bæjarstjórn samþykkti síðan breytingartillöguna á fundi 16. júní 2011. 

Með bréfi skipulagsstjóra bæjarins, dags. 21. júní 2011, var öllum þeim sem gerðu athugasemdir við tillöguna innan tilskilins frests tilkynnt um samþykkt bæjarstjórnar.  Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins var birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 23. júní 2011. 

Veiting byggingarleyfis fyrir færanlegri kennslustofu á lóð leikskólans Bæjarbóls var samþykkt af byggingarfulltrúa Garðabæjar hinn 23. júní 2011 og staðfest í bæjarráði 28. s.m. 

Kærendur skutu fyrrgreindum ákvörðunum til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Kærendur vísa til þess að misræmis gæti í gögnum tengdum hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu.  Í bréfi skipulagsstjóra frá 10. maí 2011 komi eftirfarandi fram:  „Efni: Grenndarkynning vegna tillögu að breytingu á deiliskipulaginu Silfurtún-Hofstaðamýri“.  Í svari skipulagsstjóra frá 21. júní s.á. segi hins vegar:  „Efni: Bæjarból, tillaga að óverulegri breytingu deiliskipulags Silfurtúns og Hofstaðamýrar.“  Á einum stað sé rætt um bráðabirgðahúsnæði í formi færanlegrar kennslustofu en í kynningarbréfi sé aðeins talað um breytingu á deiliskipulaginu Silfurtún-Hofstaðamýri.  Einnig sé gerð athugasemd við fundargerð bæjarstjórnar Garðabæjar frá 16. júní 2011 vegna fundar bæjarráðs frá 14. s.m. þar sem málefni deiliskipulagsins Silfurtún-Hofstaðamýri hafi verið rædd.  Þar hafi komið skýrt fram hjá bæjarstjóra að um framtíðarlausn væri að ræða en í umræddri fundargerð bæjarstjórnar hafi þessa ekki verið getið.  Sé því um að ræða verulega breytingu en ekki óverulega og hafi því meðferð málsins átt að vera skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga.  Þá sé gerð athugasemd við svar skipulagsstjóra frá 21. júní 2011, við ábendingu kærenda um aukinn fjölda barna um 30% á leikskólanum.  Í svari sínu taki skipulagsstjóri ekkert tillit til þess en einskorði sig við nýtingarhlutfall lóðar.  Ljóst sé að umrædd breyting feli í sér aukið ónæði og álag á kærendur, m.a. vegna aukinnar umferðar í kringum leikskólann og um göngustíg er liggi að íbúðarsvæði kærenda.  Götumynd á deiliskipulagssvæði Silfurtúns-Hofstaðamýrar verði og ósamstæð með umdeildri breytingu.  Því sé mótmælt að tekinn sé einn þáttur út úr þeirri deiliskipulagsvinnu sem unnið sé að fyrir umrætt svæði.  Eðlilegast sé að allar breytingar á svæðinu verði teknar inn í heildarskipulag sem nú sé unnið að.  Loks krefjast kærendur þess að gætt verði meðalhófs þegar samfélagslegri starfsemi sé dreift á hverfi sveitarfélagsins en henni sé ekki hlaðið á einn bæjarhluta. 

Um málsrök vegna hins kærða byggingarleyfis er vísað til sjónarmiða sem tíunduð eru í kæru vegna hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar. 

Málsrök Garðabæjar:  Bæjaryfirvöld Garðabæjar fara fram á að kröfum kærenda um ógildingu hinna kærðu ákvarðana verði hafnað. 

Garðabær starfræki leikskólann Bæjarból og tímabundið sé þörf á að fjölga nemendum við skólann vegna fjölgunar barna í bænum.  Til lausnar á því máli hafi verið tekin sú ákvörðun að koma fyrir færanlegri kennslustofu á lóð skólans en skólastofan standi ónotuð á lóð Flataskóla.  Sú breyting, að aðkoma gangandi vegfarenda væri um skólalóðina en ekki um göngustíg milli leikskólans og Engimýrar, hafi átt að vera til þess að draga úr áhrifum og hugsanlegum truflunum vegna kennslustofunnar gagnvart næsta nágrenni.  Þannig hafi verið komið til móts við kærendur.  Samþykkt bæjarstjórnar á breytingu á deiliskipulagi Silfurtúns-Hofstaðamýrar hafi verið í samræmi við málsmeðferðarreglur skipulagslaga.  Breytingin hafi verið metin sem óveruleg breyting á deiliskipulagi svæðisins og augljóst megi vera að hún geti á engan hátt raskað hagsmunum kærenda, þar sem umrætt húsnæði sé í um 100 m fjarlægð frá bakgörðum húsa þeirra og á milli sé stórt opið svæði.  Ekki sé um varanlegt mannvirki að ræða.  Samkvæmt lóðarblaði leikskólans megi sjá að byggingarreitur sé aðeins nýttur að hluta þannig að fyrir hendi séu möguleikar á viðbyggingu við skólann án skipulagsbreytingar. 

Á það megi fallast að umferð að og frá leikskólanum muni aukast en þar sem aðkoma að leikskólanum sé frá Bæjarbraut valdi sú aukning engri truflun gagnvart kærendum.  Þá geti aukinn fjöldi barna valdið meiri hávaða þegar þau séu að leik á leiksvæði skólans en það verði varla talið raska hagsmunum kærenda þar sem þau séu að mestu leyti innandyra.  Umrædd kennslustofa sé aðeins um 78 m² og með henni aukist nýtingarhlutfall lóðarinnar úr 0,12 í 0,13.  Það sé því augljóst að um óverulega breytingu sé að ræða á skipulagssvæðinu. 

Hið kærða byggingarleyfi sé í samræmi við deiliskipulag eftir fyrrgreinda skipulagsbreytingu.  Nú sé gert ráð fyrir nýjum byggingarreit á lóðinni sem snúi að opnu svæði í eigu bæjarins sem nýtt sé til útivistar og fyrir skólagarða bæjarins.  Gert sé ráð fyrir að umrædd kennslustofa rísi á norðvestur hluta lóðarinnar sem snúi að bakgarði húss kæranda byggingarleyfisins.  Aðkoma að kennslustofunni verði frá Bæjarbraut sem sé sú hlið leikskólans sem snúi frá húsi kærandans.  Aðkoman sé í raun langt frá því húsi og umferð að skólanum einnig þar fjarri. 

Ekki sé verið að breyta eðli starfsemi leikskólans og fjölgun nemenda um 30% muni ekki hafa í för með sér aukna truflun fyrir kærandann.  Starfsemi leikskóla sé samfélagslegt verkefni sem fari fram í öllum sveitarfélögum landsins og staðsetning leikskóla í hverfum hafi hingað til verið talin meðal kosta þegar lífsgæði þar séu metin.  Í Garðabæ séu starfræktir 10 leikskólar sem séu staðsettir í hinum ýmsu hverfum bæjarins og því sé erfitt að skilja hvað sé átt við þegar ýjað sé að því að Garðabær hafi ekki gætt meðalhófs við staðsetningu á leikskólum í bænum. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er meðal annars um það deilt hvort hin kærða deiliskipulagsbreyting sé óveruleg og þar með hvort heimilt hafi verið að grenndarkynna hana í stað þess að auglýsa hana til kynningar. 

Í 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er kveðið á um að ef gera þurfi breytingar á samþykktu deiliskipulagi sem séu það óverulegar að sveitarstjórn telji ekki ástæðu til meðferðar skv. 1. mgr. skuli fara fram grenndarkynning.  Við mat á því hvort breyting teljist óveruleg skuli taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víki frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. 

Hin kærða deiliskipulagsbreyting felur í sér afmörkun 80 m2 nýs byggingarreits undir bráðabirgðahús úr timbri á lóð leikskólans Bæjarbóls við Bæjarbraut.  Engin breyting var gerð á notkunarflokki lóðar leikskólans, en ráða má af gögnum að breytingin feli í sér að rýmum fyrir leikskólabörn fjölgi úr 85 í 110.  Fyrir liggur og að heimilað nýtingarhlutfall lóðarinnar er óbreytt og ekki er vikið að marki frá formi eða útliti svæðisins með heimilaðri breytingu.  Með hliðsjón af þessu, og því að um er að ræða breytingu á einni þjónustulóð í tengslum við starfsemi sem þar fer fram, verður fallist á að fara hafi mátt með skipulagstillöguna í samræmi við ákv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga. 

Umdeild skipulagsbreyting var grenndarkynnt með bréfi skipulagsstjóra Garðabæjar þar sem fram kom að breytingin varðaði lóð umrædds leikskóla og fæli í sér byggingarreit fyrir færanlega kennslustofu í norðvesturhorni lóðarinnar.  Bréfinu fylgdi uppdráttur er sýndi staðsetningu og stærð byggingarreitsins og jafnframt loftmynd af svæðinu.  Bera þessi gögn ótvírætt með sér hvert efni hinnar kynntu tillögu var og þótt misræmis kunni að hafa gætt í orðalagi fundargerða eða bréfa er tengjast meðferð skipulagstillögunnar getur það ekki ráðið úrslitum um gildi hinnar kærðu ákvörðunar. 

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið verður ekki fallist á kröfu um ógildingu hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar.  Að þeirri niðurstöðu fenginni er hið kærða byggingarleyfi fyrir færanlegu bráðabirgðahúsi á umræddri lóð í samræmi við gildandi deiliskipulag.  Að því virtu og þar sem ekki liggur fyrir annað en að málsmeðferð leyfisins hafi verið lögum samkvæmt verður kröfu um ógildingu þess jafnframt hafnað. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Garðabæjar frá 16. júní 2011 um að samþykkja deiliskipulagsbreytingu fyrir Silfurtún-Hofstaðamýri, Garðabæ. 

Kröfu um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Garðabæ frá 23. júní 2011, er bæjarráð staðfesti 28. s.m., um að veita byggingarleyfi fyrir bráðabirgðahúsi á lóð leikskólans Bæjarbóls í Garðabæ, er hafnað. 

_______________________________
Ómar Stefánsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                               Þorsteinn Þorsteinsson