Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

41/2008 Bauganes

Með

Ár 2010, þriðjudaginn 6. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor. 

Fyrir var tekið mál nr. 41/2008, kæra á ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkur frá 25. apríl 2008 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Skildinganess sem fól í sér aukið byggingarmagn á annarri hæð heimilaðs húss að Bauganesi 22 í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 23. júní 2008, er barst nefndinni 24. sama mánaðar, kærir G, eigandi lóðarinnar að Bauganesi 20 í Reykjavík, þá ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkur frá 25. apríl 2008 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Skildinganess sem fól í sér aukið byggingarmagn á annarri hæð heimilaðs húss að Bauganesi 22 í Reykjavík.  Auglýsing um gildistöku ákvörðunarinnar birtist í B-deild Stjórnartíðinda hinn 2. júní 2008.  Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu skipulagsákvörðunar. 

Málavextir:  Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 7. mars 2008 var samþykkt að grenndarkynna fyrir hagsmunaaðilum tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir Skildinganes vegna lóðarinnar nr. 22 við Bauganes.  Að lokinni grenndarkynningu var málið aftur tekið fyrir á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 25. apríl 2008 og lágu þá fyrir athugasemdir kæranda og annars aðila ásamt umsögn skipulagsstjóra, dags. 23. apríl 2008.  Var deiliskipulagsbreytingin samþykkt með eftirfarandi bókun:  „Samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsstjóra, sbr. heimildir í viðauka um embættisafgreiðslur skipulagsstjóra við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar.“  Auglýsing um gildistöku skipulagsbreytingarinnar birtist í B-deild Stjórnartíðinda hinn 2. júní 2008 að undangenginni lögboðinni athugun Skipulagsstofnunar. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er á það bent að fyrirhuguð bygging á lóðinni nr. 22 við Bauganes muni valda skuggavarpi á suðurhlið lóðar og fyrirhugað hús kæranda á lóð nr. 20 við Bauganes, auk útsýnisskerðingar.  Þá sé áréttað að breyting á deiliskipulagi svæðisins frá 22. október 1990 hafi aldrei verið kynnt kæranda né öðrum á svæðinu og hafi hann því ekki haft tækifæri til að tjá álit sitt á málinu.  Gangi hin kærða ákvörðun eftir muni kærandi krefja borgarsjóð bóta vegna skerts verðgildis eignar sinnar og mögulegra óþæginda vegna breytingarinnar. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Vísað er til þess að með umræddri deiliskipulagsbreytingu hafi texta í skilmálum fyrir Bauganes 22 verið breytt.  Skilmálar hafi kveðið á um að byggja mætti á tveimur hæðum á helmingi grunnflatar hússins, innan byggingarreits, þó ekki hærra en 4,4 m yfir kóta í norðausturhorni lóðar.  Breytingin hafi aðeins falið í sér að heimilað yrði að byggja jafn marga fermetra á báðum hæðum innan marka leyfislegs nýtingarhlutfalls lóðarinnar. 

Í umsögn skipulagsstjóra, dags. 23. apríl 2008, komi fram að á sumarsólstöðum muni fyrirhugað hús að Bauganesi 22 ekki varpa skugga á aðliggjandi lóðir en á jafndægrum sé húsið farið að varpa talsverðum skugga á lóð Bauganess 20, eftir hádegi.  Hafa verði í huga að fyrir umrædda breytingu hafi deiliskipulag heimilað byggingu á lóðinni að Bauganesi 22 sem varpa myndi einhverjum skugga á nærliggjandi lóðir og skerða útsýni.  Breytingin feli ekki í sér „hækkun á byggingarreit“ heldur einungis það að byggja megi tvílyft á öllum grunnfleti hússins í stað hluta grunnflatar áður.  Við það verði neðri hæðin niðurgrafin og nýtingarhlutfall óbreytt.  Ekki sé um slíkar breytingar að ræða að leitt geti til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar og ekki verði hróflað við gildi deiliskipulags svæðisins frá 1990 enda kærufrestur vegna gildistöku þess löngu liðinn.  Telji kærandi sig hins vegar geta sannað að hann hafi orðið fyrir tjóni, umfram það sem almennt megi búast við hjá eigendum fasteigna í þéttbýli, eigi hann bótarétt skv. ákvæðum 33. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Um bótarétt hafi úrskurðarnefndin hins vegar ekki úrskurðarvald. 

Andmæli lóðarhafa:  Lóðarhafi Bauganess 22 bendir á að umdeild skipulagstillaga að uppbyggingu lóðarinnar sé í öllum aðalatriðum innan marka gildandi skipulags svæðisins.  Heimiluð hámarkshæð byggingar, byggingarreitur og nýtingarhlutfall sé óbreytt.  Breytingin felist fyrst og fremst í því að byggja megi tvílyft á öllum grunnfleti húss, þar sem neðri hæð sé niðurgrafin, en ekki einungis á helmingi grunnflatar eins og skilmálar hafi kveðið á um.  Vegna athugasemda nágranna hafi skuggavarp verið kannað og komið hafi í ljós að skipulagsbreytingin muni ekki hafa neikvæð áhrif á aðliggjandi lóðir umfram það sem leitt hefði af byggingu samkvæmt óbreyttu skipulagi.  Með hliðsjón af framangreindum atvikum, og öðru því sem liggi fyrir í málinu, sé ekkert tilefni til að fallast á kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 1. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga ber sveitarstjórn ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags.  Sveitarstjórn tekur ákvörðun um að auglýsa tillögu að deiliskipulagi og komi fram athugasemdir skal hún fjalla um tillöguna að loknum athugasemdafresti á nýjan leik, að undangenginni umfjöllun skipulagsnefndar, og taka afstöðu til framkominna athugasemda, sbr. 25. gr. laganna.  Fram kemur í 26. gr. nefndra laga að breytingar á deiliskipulagi sæta sömu meðferð með þeirri undantekningu að óverulega breytingu má grenndarkynna í stað auglýsingar og nægir þá ein umræða í sveitarstjórn. 

Í 2. og 3. mgr. 44. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 er sveitarstjórn heimilað með tilteknum skilyrðum að ákveða í samþykkt sveitarfélagsins skv. 10. gr. laganna að fela nefnd, ráði, stjórn eða öðrum aðilum innan stjórnsýslu sveitarfélagsins fullnaðarafgreiðslu mála.  Í Reykjavík hafa verið settar reglur um embættisafgreiðslur skipulagsstjóra í viðauka 2.3 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar frá 7. desember 2007, sem tók gildi með auglýsingu nr. 1200/2007 í B-deild Stjórnartíðinda hinn 19. desember sama ár.  Í 2. gr. nefndra reglna er skipulagsstjóra heimiluð fullnaðarafgreiðsla tillagna að óverulegum breytingum á deiliskipulagi hafi engar athugasemdir borist við grenndarkynningu. 

Við grenndarkynningu umdeildar deiliskipulagsbreytingar bárust athugasemdir en málið var engu að síður afgreitt á fundi skipulagsfulltrúa með skírskotun til áðurnefndra reglna um embættisafgreiðslur skipulagsstjóra.  Þrátt fyrir eftirgrennslan hefur ekki verið leitt í ljós að umrædd afgreiðsla hafi hlotið staðfestingu. 

Samkvæmt framangreindu brast skipulagsfulltrúa heimild til lokaafgreiðslu málsins og hefur það því ekki fengið fullnaðarafgreiðslu að lögum.  Með vísan til þess að hin kærða ákvörðun hefur formlega tekið gildi með opinberri auglýsingu í Stjórnartíðindum verður niðurstaðan sú að fella hana úr gildi. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Hin kærða ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkur frá 25. apríl 2008, um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Skildinganess, er felld úr gildi. 

______________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________        ___________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                   Aðalheiður Jóhannsdóttir

94/2008 Suðurhólar

Með

Ár 2010, fimmtudaginn 24. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 94/2008, kæra sex íbúa og eigenda fasteigna við Tröllhóla og Kjarrhóla á Selfossi vegna framkvæmda við gerð bílastæðis fyrir stórar bifreiðar við Suðurhóla á Selfossi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 19. september 2008, sem barst nefndinni hinn 25. sama mánaðar, kæra V og S, Tröllhólum 41, G og A, Tröllhólum 43 og K og B, Kjarrhólum 32 á Selfossi framkvæmdir við gerð bílastæðis fyrir stórar bifreiðar við Suðurhóla á Selfossi. 

Gera kærendur þá kröfu að framkvæmdirnar verði úrskurðaðar ólögmætar.  Þá gerðu kærendur og þá kröfu að úrskurðað yrði til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda þar til ákvörðun úrskurðarnefndarinnar í málinu lægi fyrir.  Þóttu ekki efni til að fjalla sérstaklega um þá kröfu kærenda þar sem um er að ræða afturtækar framkvæmdir við frágang bílastæða.  Er málið nú tekið til lokaúrskurðar. 

Málsatvik og rök:  Í júlí árið 2008 hófust framkvæmdir á vegum Sveitarfélagsins Árborgar við gerð bílastæðis fyrir stórar bifreiðar við Suðurhóla á Selfossi.  Komu kærendur á framfæri athugasemdum vegna þessa og voru framkvæmdir í kjölfarið stöðvaðar en hófust að nýju í lok ágúst sama ár.  Með bréfi kærenda til sveitarfélagsins, dags. 2. september 2008, var framkvæmdunum mótmælt og farið fram á tafarlausa stöðvun þeirra. 

Í bréfi bæjarritara til kærenda, dags. 8. s.m., sagði m.a. eftirfarandi:  „Með deiliskipulagi fyrir Suðurbyggð B sem samþykkt var af bæjarstjórn Árborgar 11. september 2002 er gert ráð fyrir stæði fyrir stóra bíla á þeim stað er framkvæmdir hafa staðið yfir.  Skipulagið var samþykkt að undangengnu lögboðnu ferli og auglýst í Stjórnartíðindum hinn 1. mars 2004. […] Eftir að íbúar gerðu fyrst athugasemdir við framkvæmdir við stæðið fyrr í sumar var ákveðið að minnka það um 40% frá því sem upphaflega er gert ráð fyrir í skipulagi, og færðist stæðið þá um 5 metra frá byggðinni syðst í Suðurhólum. […] Með vísan til þess sem að framan greinir um deiliskipulag fyrir svæðið er kröfu bréfritara um stöðvun framkvæmda hafnað.“ 

Af hálfu kærenda er því haldið fram að ákvörðun bæjarstjórnar um breytta framkvæmd, sem þeim hafi verið kynnt í bréfi bæjarritara, dags. 8. september 2008,  hljóti að teljast stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg sé til úrskurðarnefndarinnar.  Að auki séu framkvæmdirnar ekki í samræmi við aðalskipulag sveitarfélagsins og þar af leiðandi ólögmætar. 

Af hálfu Árborgar er því haldið fram að vísa beri málinu frá sökum þess að gerð hins umdeilda bílastæðis sé hvorki byggingarleyfisskyld, sbr. 2. mgr. 36. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, né framkvæmdaleyfisskyld skv. 27. gr. laganna.  Ákvörðun um gerð bílastæðisins sé ekki kæranleg til úrskurðarnefndarinnar því aðeins stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga séu kæranlegar til nefndarinnar, sbr. 1. ml. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Kæranleg stjórnvaldsákvörðun hafi ekki verið tekin af stjórnsýslu sveitarfélagins.  Þau rök kærenda, að breyting á framkvæmdinni sem þeim hafi verið kynnt í bréfi bæjarritara, dags. 8. september 2008, sé kæranleg, standist ekki. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um framkvæmdir við gerð bílastæðis fyrir stórar bifreiðar við Suðurhóla á Selfossi.  Hvorki hefur verið gefið út framkvæmdaleyfi samkvæmt 27. gr. skipulags- og byggingarlaga né byggingarleyfi samkvæmt IV. kafla laganna fyrir umræddum framkvæmdum.  Telja bæjaryfirvöld þær ekki háðar slíkum leyfum en þær séu í samræmi við skipulag svæðisins er öðlaðist gildi á árinu 2004.  Eftir stendur að bæjarritari hefur í bréfi til kærenda, dags. 8. september 2008, greint frá því að umfang hinna umdeildu framkvæmda hafi verið minnkað, en ákvörðun varðandi það atriði hefur hvorki hlotið afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar né verið samþykkt í bæjarstjórn. 

Samkvæmt framansögðu liggur ekki fyrir í máli þessu ákvörðun sem bindur enda á meðferð máls er sætt getur kæru skv. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og ber af þeim sökum að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________               _______________________________
Ásgeir Magnússon                                                   Þorsteinn Þorsteinsson

29/2010 Mávanes

Með

Ár 2010, mánudaginn 14. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Hildigunnur Haraldsdóttir arkitekt. 

Fyrir var tekið mál nr. 29/2010, kæra á leyfi byggingarfulltrúans í Garðabæ til byggingar einbýlishúss á lóðinni nr. 17 við Mávanes í Garðabæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 14. maí 2010, er barst nefndinni hinn 17. sama mánaðar, kæra L og B, Mávanesi 13, Garðabæ, K og H, Mávanesi 24, R og H, Mávanesi 22 og A, Mávanesi 9, leyfi byggingarfulltrúans í Garðabæ frá 8. desember 2009 til byggingar einbýlishúss á lóðinni nr. 17 við Mávanes.  Var samþykktin staðfest á fundi bæjarstjórnar 21. janúar 2010.

Gera kærendur þá kröfu að hið kærða byggingarleyfi verði fellt úr gildi.  Með bréfi kærenda til úrskurðarnefndarinnar, dags. 17. maí 2010, er barst nefndinni samdægurs, gera kærendur ennfremur kröfu um að kveðinn verði upp bráðabirgðaúrskurður um stöðvun framkvæmda á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Þykir málið nú nægjanlega upplýst til þess að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til kröfunnar um bráðabirgðaúrskurð um stöðvun framkvæmda.   

Málavextir:  Á fundi skipulagsnefndar 19. ágúst 2009 var lögð fram fyrirspurn lóðarhafa Mávaness 17 þar sem leitað var eftir afstöðu nefndarinnar um tillögu að nýju einbýlishúsi á lóðinni.  Sagði m.a. eftirfarandi í bókun nefndarinnar:  „Tillagan gerir ráð fyrir einbýlishúsi innan byggingarreits sem er alls 786 m².  Kjallari er undir húsinu að vestanverðu sem opnast til vesturs enda gefur landlagshalli á lóðinni tilefni til þess.  Tillagan er innan þeirra skipulagsskilmála sem í gildi eru í Arnarnesi en byggingarmagn á lóðinni er umtalsvert meira en aðliggjandi hús(nýtingarhlutfall að meðaltali 0,19) og sú bygging sem fyrir er (nh 0,21).  Vandað er til tillögunnar og fellur hún vel að aðliggjandi byggð þrátt fyrir stærð.  Fram kemur að lóðarhafar hafa kynnt nágrönnum tillöguna.  Þar sem að tillagan gerir ráð fyrir húsi sem hefur nýtingarhlutfall sem nemur 0,47 sem er talsvert mikið meira en nústandandi hús og aðliggjandi hús mælir skipulagsnefnd með því að áður en veitt verði byggingarleyfi fyrir framlagðri tillögu  skuli skipulagsstjóri grenndarkynna tillöguna með formlegum hætti.  Vísast þar með til 4. mgr. greinar 4.2.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.  Grenndarkynna skal eigendum Mávaness 15, 16, 18, 19 og 20.“  Grenndarkynning stóð yfir dagana 11. september til 14. október 2009 og bárust engar athugasemdir. 

Á fundi skipulagsnefndar 10. desember 2009 var að nýju fjallað um erindi lóðarhafa Mávaness 17 og lögð fram athugasemd frá íbúa að Mávanesi 22, dags 19. október 2009.  Laut athugasemdin m.a. því að tillagan hafi ekki verið kynnt íbúum innar í götunni, m.a. vegna álags af fyrirhuguðum framkvæmdum, að friðsæld íbúa yrði raskað vegna fyrirhugaðra framkvæmda og að engin heimild væri í upphaflegum byggingarskilmálum til að rífa viðkomandi hús og endurbyggja það.  Var eftirfarandi fært til bókar:  „Við skoðun tillögunnar taldi skipulagsnefnd að framlögð tillaga væri innan marka deiliskipulagsákvæða frá árinu 1964 sem eru sett fram í byggingarskilmálum fyrir lóðir við göturnar Mávanes og Blikanes.  Hér er því ekki um breytingu deiliskipulags að ræða.  En þar sem að einbýlishúsið sem tillagan gerir ráð fyrir  er umtalsvert stærra en aðliggjandi íbúðarhús var ákveðið að grenndarkynna tillöguna eigendum aðliggjandi lóða og þeim gefinn kostur á að gera athugasemdir sem gætu haft áhrif á útfærslu tillögunnar. Engar athugasemdir bárust frá eigendum aðliggjandi lóða… Í Arnarnesi sem og öðrum grónum hverfum eru mörg dæmi þess að eldri hús hafi verið fjarlægð eða að breytingar á þeim hafi verið það umfangsmiklar að þær séu á við framkvæmdir við nýbyggingu.  Út frá jafnræðissjónarmiði er því ekki hægt að meina húseigendum að ráðast í umfangsmiklar endurgerðir húsa sinna enda séu kröfur byggingarfulltrúa uppfylltar sbr. 2. kafli byggingarreglugerðar nr. 441/1998.  Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemd við framlagða og grenndarkynnta tillögu og telur að hún sé innan ramma deiliskipulags Arnarness.  Fylgja skal eftir ofangreindri tímaáætlun og fara skal að tilmælum byggingarfulltrúa um umgengni.  Þegar byggingarleyfi hefur verið veitt skal senda erindi til allra íbúa við Mávanes og þeim gerð grein fyrir fyrirhuguðum framkvæmdum, umfangi þeirra og tímasetningum.“

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 8. desember 2009 voru samþykktar umsóknir annars vegar um niðurrif hússins að Mávanesi 17 og hins vegar um byggingu einbýlishúss í þess stað.  Á fundi byggingarnefndar 21. desember voru lagðar fram afgreiðslur byggingarfulltrúa frá 4. nóvember 2009 til 10. desember s.á.  Á fundi bæjarráðs 12. janúar 2010 lagði ráðið til við bæjarstjórn að afgreiðslur byggingarfulltrúa frá 4. nóvember til 21. desember 2009 yrðu staðfestar.  Var fundargerð bæjarráðs samþykkt samhljóða á fundi bæjarstjórnar 21. janúar 2010.

Hafa kærendur skotið framangreindri samþykkt til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Með bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa til íbúa við Mávanes, dags 15. apríl 2010, var tilkynnt um fyrirhugaðar framkvæmdir og tímaáætlun þeirra.  Með bréfi nokkurra íbúa við götuna, þar á meðal kærenda, til bæjarstjóra, dags. 23. apríl 2010, var framkvæmdunum mótmælt.  

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er vísað til þess að lóðir við Mávanes hafi flestar verið seldar af eigendum Arnarness á árunum 1964-1965.  Þegar salan hafi farið fram hafi kaupendum verið kynnt fyrirhugað skipulag nessins og kvaðir, þ.m.t. byggingarskilmálar.  Í kjölfarið hafi afsöl verið gefin út.  Ekki hafi öll hús verið byggð samkvæmt ákvæðum um tímafrest og langflest húsin séu 250 til 400 fermetrar að stærð.  

Mávanesið sé í raun lokuð gata, tveir botnlangar.  Mjög skemmtileg götumynd hafi myndast með árunum með myndarlegum trjágróðri sem veitt hafi mikið skjól.  Aðgengi að fjörunni, sem sé m.a. eftir skipulögðum göngustígum við enda lóðar nr. 25, milli lóðanna nr. 9 og 11 og eftir opnu svæði austan við lóðir nr. 1 og 2.  Þá sé meira en 40 ára hefð fyrir ótakmörkuðu aðgengi eftir u.þ.b. þriggja metra breiðum göngustíg á sameiginlegri spildu milli lóðanna nr. 17 og 19. 

Bent sé á að þrátt fyrir að í byggingarskilmálum hafi ekki verið tiltekin hámarksstærð húsa felist eigi að síður í þeim takmarkanir.  Þannig sé skýrt tekið fram að hús skuli að öllu jöfnu vera einnar hæðar en þó sé leyfilegt að hafa kjallara undir þeim hluta sem fjærstur sé götu.  Varla þurfi að deila um það að fjærsti hluti húss frá götu geti vart orðið meira en helmingur af dýpt þess. 

Þá haldi kærendur því fram að til þess að unnt hefði verið að samþykkja tvöfalt stærra hús en þau hús sem fyrir séu við Mávanes hefði þurft að setja í gang endurskoðunarferli á byggingarskilmálum eða deiliskipulagi, sem kynna hefði þurft öllum húseigendum við götuna og leita eftir samþykki þeirra.  Ekki verði við það unað að nú verði tekin upp sú stefna að leyfa hús við Mávanes þar sem aðalhæð fylli út í byggingarreiti lóðar ásamt því að heimilt verði að grafa fyrir íverukjallara undir stærstum hluta hæðarinnar.

Íbúar við Mávanes telji margir að sjálfsagt hefði verið að kynna fyrirhugaðar framkvæmdir fyrir öllum íbúum götunnar, en ekki aðeins þeim sem næstir séu, og hafi jafnræðisregla verið brotin.  Við sölu lóða hafi verið lögð áhersla á að fljótlega yrði byggt á þeim til að hverfið yrði sem fegurst og friðsælast.  Þegar tekið sé til við að brjóta niður hús í götunni og stofna til umfangsmikilla framkvæmda, sem væntanlega muni standa yfir á annað ár, gefi það vissulega tilefni til að upplýsa íbúa og gefi þeim kost á að tjá sig um málið áður en það sé afgreitt hjá bæjaryfirvöldum.  Verði ekki annað séð en að grenndarkynningin hafi verið svo gölluð að hún teljist ómarktæk.

Málsrök Garðabæjar:  Af hálfu Garðabæjar er þess krafist að kærunni verði vísað frá þar sem kærendur eigi ekki lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun, sbr. 3. ml. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Kærendur séu allir íbúar í Mávanesi en geti ekki talist næstu nágrannar.  Sé því ljóst að grenndaráhrif hinnar kærðu framkvæmdar geti ekki varðað hagsmuni þeirra.   Beri því þegar af þeirri ástæðu að vísa kærunni frá.

Bent sé á að á fundi skipulagsnefndar 19. ágúst 2009 hafi verið bókað að tillaga að nýbyggingu húss á lóðinni nr. 17 við Mávanes væri í samræmi við þá skipulagsskilmála sem giltu á Arnarnesi.  Í bókuninni komi fram að þar sem nýtingarhlutfall hússins sé talsvert hærra en þess húss sem eigi að rífa og aðliggjandi húsa mæli nefndin með því að áður en veitt verði byggingarleyfi verði tillagan kynnt eigendum Mávaness 15, 16, 18, 19 og 20.  Hafi nefndin vísað til ákvæðis 4. mgr. gr. 4.2.2  skipulagsreglugerðar.  Tilgangur skipulagsnefndar hafi verið að leita eftir sjónarmiðum næstu nágranna, sem ef til vill væri ástæða til að hafa að leiðarljósi eða skoða nánar við útgáfu á byggingarleyfi vegna nýbyggingar.  Nágrannakynning hafi farið frá 11. sept. til 14. okt. 2009.  Kynningin, sem nefnd hafi verið grenndarkynning, hafi ekki verið grenndarkynning í skilningi ákvæða skipulags- og byggingarlaga eins og mælt sé fyrir um að fram fari um tillögu að óverulegri breytingu á deiliskipulagi.  Í umfjöllun um málið hafi gætt þess misskilnings hjá aðilum að um slíka lögformlega kynningu hafi verið að ræða.

Í skipulagsskilmálum sem gildi fyrir Mávanes og Blikanes komi ekki fram neinar takmarkanir á stærð húsa og engin ákvæði séu um nýtingarhlutfall.  Þegar litið sé til stærða húsa við Mávanes og Blikanes megi sjá að almennt sé nýtingarhlutfall þeirra á bilinu 0,2-0,3 en í hinu kærða tilviki sé nýtingarhlutfall 0,46.  Af hálfu Garðabæjar sé mótmælt þeirri röksemd kærenda að skapast hafi hefð fyrir því að hús við Mávanes eigi af vera að svipaðri stærð.  Byggingarréttur á hverri lóð ráðist ávallt af þeim skilmálum sem um viðkomandi lóð gildi og réttur eiganda lóðarinnar til nýtingar sinnar lóðar verði ekki takmarkaður með tilvísun til stærðar bygginga á öðrum lóðum þar sem byggingarréttur hafi ekki verið fullnýttur.  Í tilviki eiganda lóðarinnar að Mávanesi 17 eigi hann að geta treyst því að réttur hans til nýtingar á lóðinni sé í samræmi við þá skilmála sem um lóðina gildi og að bygging á lóðinni verði ekki takmörkuð við annað en gildandi skilmála og stærð og lögun byggingarreits samkvæmt mæliblaði.  Við umfjöllun um nýtingarhlutfall nýbyggingar að Mávanesi 17 verði að líta af sanngirni til raunverulegra grenndaráhrifa.  Slík áhrif ráðist fyrst og fremst af rými 1. hæðar sem sé 468 m² eða sem jafngildi því að nýtingarhlutfall sé 0,27.  Þá verði einnig að horfa til þess að um sé að ræða mjög stóra lóð, 1.681 m²,  sem snúi að sjó, en það dragi úr grenndaráhrifum byggingarinnar. 

Málsrök byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er vísað til þess að þau hafi keypt húsið að Mávanesi 17 í ársbyrjun 2008 með niðurrif þess og byggingu nýs húss í huga.  Húsið hafi þá staðið kalt í á annað ár enda hafi fyrri eigandi ætlað að rífa það og byggja nýtt í þess stað.  Stærð lóðarinnar hafi hentað vel þar sem sjö væru í heimili og fyrirsjáanlegt að húsið yrði nokkuð stórt þótt ekki væri það sjálfstætt markmið.  Frá byrjun hafi verið lögð á það áhersla að við hönnun hússins myndi ekki reyna á byggingarskilmála og að húsið skæri sig ekki í útliti frá nálægum húsum í götunni.

Byggingarleyfishafar haldi því fram að húsið samrýmist að öllu leyti byggingarskilmálum og því hafi grenndarkynningin, sem fram hafi farið, verið óþörf. 

Vandséð sé að kærendur sem séu íbúar húsa nr. 9, 13, 22 og 24 eigi nokkra hagsmuni svo heitið geti af þeirri framkvæmd sem kæran lúti að.  Ekkert þessara húsa liggi að Mávanesi 17 eða standi andspænis því.  Ekkert þeirra sé í beinni sjónlínu við húsið og aðkoma að tveimur þeirra liggi ekki framhjá því.  Það sé því skoðun þeirra að kærunni beri að vísa frá úrskurðarnefndinni.

Andsvör kærenda við málsrökum byggingarleyfishafa: Í andsvörum kærenda kemur fram að í byggingarskilmálum fyrir lóðir við Blikanes og Mávanes séu mjög skýrar kvaðir um hámarksstærð íbúðarhúsnæðis.  Ekki séu kvaðir um stærð bílgeymslna eða lagnakjallara, þ.e. húsnæðis sem ekki telst íbúðarhæft.  Mjög hafi reynt á þessi ákvæði þegar göturnar hafi verið byggðar.  Það sé mjög greinilegt af því hvernig þeir aðilar sem staðið hefðu að gerð byggingarskilmála hafi framfylgt þeim að settar hafi verið hömlur á stærð íbúðarhúsnæðis.  Í þessu sambandi vísist m.a. til nýtingarhlutfalls lóðanna við Mávanes, sem sé að meðaltali 0,22 og með einni undantekningu, Mávanes 7, á bilinu 0,17-0,32.  Við Blikanes séu samsvarandi tölur 0,24 með tveimur undantekningum. 

Varðandi kröfu byggingarleyfishafa um frávísun kærunnar sé bent á að þegar íbúum við Mávanes hafi almennt orðið ljóst hvað til stæði á lóðinni nr. 17 hafi þeir stungið saman nefjum og á örskömmum tíma hafi verið skrifað bréf til bæjarstjóra.  Engin formleg samtök íbúa séu fyrir hendi á svæðinu.  Ekki hafi náðst í alla íbúa götunnar en allir þeir sem tiltækir hafi verið hafi ritað undir umrætt bréf.  Eftir fund sem bæjarstjóri hafi boðað til með bréfriturum hafi verið ljóst að skipulags- og byggingaryfirvöld bæjarins myndu ekki gæta hagsmuna íbúanna ótilneydd og því ekki annar kostur en að leggja málið fyrir úrskurðarnefndina.  Þetta hafi þurft að gera í flýti vegna kærufrests.  Samkvæmt upplýsingum sem aflað hafi verið hafi ekki reynst þörf á að allir íbúar sem hagsmuna eiga að gæta stæðu að því að skjóta málinu til úrskurðarnefndarinnar.  Íbúar sem verið hefðu erlendis hafi nú haft samband við kærendur, lýst fullum stuðningi við aðgerðir hópsins og boðist til að bæta nöfnum sínum við undirskriftir.

Það dyljist varla nokkrum að gífurlegir hagsmunir húseigenda við Mávanes, og reyndar annarra íbúa í Arnarnesi, séu í húfi.  Það að opnað verði á að efnamenn, innlendir og erlendir, kaupi upp eldri hús, sem byggð hafi verið í samræmi við þær reglur sem gilt hafi og gildi enn á svæðinu, rífi húsin, eyðileggi yfirbragð gatnanna og byggi síðan hús sem þverbrjóti byggingarskilmála og hækki nýtingarhlutfall lóða sem byggingaraðilar hafi haldið sig við, sé með öllu óásættanlegt.

——-

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér aðstæður á vettvangi.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi leyfis byggingarfulltrúans í Garðabæ frá 8. desember 2009 til byggingar einbýlishúss á lóðinni nr. 17 við Mávanes, sem staðfest var á fundi bæjarstjórnar 21. janúar 2010.  Samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi verður húsið á einni hæð nær götu en að hluta á tveimur hæðum fjær götu, samtals 760 m².   

Í máli þessu liggur fyrir deiliskipulag Arnarness frá árinu 1961 og byggingarskilmálar fyrir sama svæði frá árinu 1964.  Samkvæmt þeim gögnum er heimilt að byggja þar einnar hæðar íbúðarhús ásamt bifreiðageymslu.  Í skilmálunum segir ennfremur að húsin á svæðinu skuli vera einnar hæðar, en á lóðum sunnan og vestan götu megi þau vera tvílyft á þeim hluta sem fjærstur er götu, gefi jarðvegshæð á lóð tilefni til þess.  Byggingarlínur húsa eru tilgreindar en nýtingarhlutfall lóða er ekki tilgreint. 

Lóðin að Mávanesi 17 er 1.681 m² að stærð og stendur neðan götu í lokuðum botnlanga.  Innar í þessum sama botnlanga eru m.a. hús kærenda nr. 22 og 24, en hús kærenda nr. 9 og 13 standa framar í götunni.  Ekkert húsa kærenda liggur að lóðinni nr. 17 eða er andspænis henni.

Þrátt fyrir stærð hinnar umdeildu nýbyggingar fellur hún vel að lóð og götumynd og breytir ekki að neinu marki yfirbragði hverfisins.  Telur úrskurðarnefndin ljóst að hún muni ekki hafa umtalsverð áhrif á útsýni frá eignum kærenda eða önnur slík grenndaráhrif að það geti snert sérstaka og verulega hagsmuni þeirra.  Verður ekki heldur fallist á að kærendur eigi lögvarða hagsmuni af því einu að koma í veg fyrir að nýtt hús verið reist á lóð byggingarleyfishafa í stað eldra húss, enda verður almennt að gera ráð fyrir því að hús séu endurýjuð með þeim hætti á svæðum þar sem ekki hafa verið reistar við því skorður, svo sem með friðlýsingu eða hverfisvernd.  Verða nágrannar jafnframt að þola tímabundið rask og ónæði sem mannvirkjagerðinni fylgir, enda sé eðlilegt tillit tekið til hagmuna þeirra við framkvæmd verksins.

Að öllu þessu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að kærendur eigi ekki þá lögvörðu hagsmuni tengda ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar sem eru skilyrði kæruaðildar fyrir úrskurðarnefndinni, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Verður málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni vegna aðildarskorts kærenda. 

Úrskurðarorð: 

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________         ______________________________
Ásgeir Magnússon                                             Hildigunnur Haraldsdóttir

29/2008 Svæði Hestamannafél. Sörla

Með

Ár 2010, fimmtudaginn 24. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 29/2008, kæra á samþykkt bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 29. janúar 2008 um breytt deiliskipulag athafnasvæðis Hestamannafélagsins Sörla í Hafnarfirði. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 21. apríl 2008, er barst nefndinni hinn 21. sama mánaðar, kæra J og B, eigendur jarðarinnar Selskarðs í Garðabæ, samþykkt bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 29. janúar 2008 um breytt deiliskipulag athafnasvæðis Hestamannafélagsins Sörla í Hafnarfirði. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða afgreiðsla verði felld úr gildi. 

Málavextir og rök málsaðila:  Sunnan Kaldárselsvegar í Hafnarfirði er athafnasvæði Hestamannafélagsins Sörla.  Á árinu 2003 var gerð breyting á aðalskipulagi bæjarins og svæði þetta stækkað til suðausturs og landnotkun breytt í opið svæði til sérstakra nota.  Í kjölfarið var samþykkt deiliskipulag svæðisins.  Á fundi bæjarstjórnar 29. janúar 2008 samþykkti bæjarstjórn breytingu á deiliskipulagi þessu.  Samkvæmt auglýsingu um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda 25. mars 2008 fólst eftirfarandi í henni:  „… að felldur er út hluti af áætluðum hesthúsalóðum við Kaplaskeið.  Á þessu svæði verði lagt nýtt gatnakerfi sem felur í sér fleiri lóðir fyrir hesthús auk þess sem gert er ráð fyrir að lóð Íshesta við Sörlaskeið verði uppfærð í samræmi við samþykkt deiliskipulag frá árinu 2006.“

Hafa kærendur skotið ofangreindri samþykkt til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Af hálfu kærenda, sem eru eigendur jarðarinnar Selskarðs í Garðabæ, er því haldið fram að með hinni kærðu ákvörðun sé gengið á lögvarinn ítaksrétt þeirra til beitar á svæðinu. 

Af hálfu Hafnarfjarðarbæjar er því haldið fram, með vísan til laga um ítaksrétt, að beitarréttur sé að öllum líkindum ekki lengur til staðar en dómsmál þurfi til að skera úr um það álitaefni.  Beitarréttur sé verðlaus í tilviki því er hér um ræði þar sem búfjárhald sé bannað á svæðinu.  Samkvæmt samkomulagi milli Vegagerðarinnar, Hafnarfjarðarbæjar, Grindavíkurbæjar og Vatnsleysustrandarhrepps frá árinu 2004 hafi bann við lausagöngu utan afmarkaðra beitarhólfa verið samþykkt.  Hvorki sé í aðalskipulagi Hafnarfjarðar né í hinu kærða deiliskipulagi gert ráð fyrir beitarhólfi á Sörlasvæðinu. 

Niðurstaða:  Á árinu 2003 samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar breytingu á aðalskipulagi bæjarins er laut að stækkun athafnasvæðis Hestamannafélagsins Sörla við Kaldárselsveg og í kjölfarið var samþykkt deiliskipulag svæðisins er lýsti mörkum þess og fyrirkomulagi mannvirkja.  Öðlaðist deiliskipulagið gildi hinn 10. júní 2003. 

Í núgildandi Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2005-2025 segir í kafla 2.2.11, opin svæði til sérstakra nota, að hvorki sé gert ráð fyrir nýjum svæðum eða stækkun svæða fyrir hestaíþróttir við Hlíðarþúfur né á athafnasvæði Sörla í Gráhelluhrauni.  Þá segir í kafla 2.2.13, landbúnaðarsvæði, að ekki séu afmörkuð nein svæði fyrir landbúnað í Hafnarfirði nema í Krýsuvík. 

Hin kærða samþykkt um breytt deiliskipulag á athafnasvæði Hestamannafélagsins Sörla fól ekki í sér stækkun svæðisins heldur aðeins breytingu innan þess, m.a. fjölgun lóða.  Fólst því ekki í henni ákvörðun um breytta landnotkun frá því sem ákveðið hafði verið í eldra deiliskipulagi frá árinu 2003.  Hefur lögmæti þess skipulags ekki verið borið undir úrskurðarnefndina og getur það hér eftir ekki komið til endurskoðunar af hálfu nefndarinnar þar sem frestir til kæru eða endurupptöku eru löngu liðnir. 

Samkvæmt framansögðu getur ákvörðun sú sem kærð er í máli þessu engin áhrif haft á rétt kærenda, umfram það sem þegar er orðið og felst í fyrri ákvörðunum um skipulag á umræddu svæði.  Verða þeir af þeim sökum ekki taldir eiga lögvarða hagsmuni því tengda að fá úrlausn um kæruefnið, svo sem áskilið er í 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, og ber því að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________               ______________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

18/2010 Austurgata

Með

Ár 2010, mánudaginn 14. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Hildigunnur Haraldsdóttir arkitekt. 

Fyrir var tekið mál nr. 18/2010, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar um að veita byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við norðausturhlið hússins að Austurgötu 25 í Hafnarfirði. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréf til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 31. mars 2010, er barst nefndinni sama dag, kærir K, Gunnarssundi 5, Hafnarfirði, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar að veita byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við norðausturhlið hússins að Austurgötu 25 í Hafnarfirði.  Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar hins kærða byggingarleyfis.

Kærandi hefur jafnframt krafist bráðabirgðaúrskurðar um stöðvun framkvæmda á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Þykir málið nú nægjanlega upplýst til að taka það til efnismeðferðar, en framkvæmdir vegna hins kærða byggingarleyfis hafa nú þegar verið bannaðar af hálfu byggingaryfirvalda í Hafnarfirði.  Er því ekki ástæða til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kæranda í máli þessu.

Málsatvik og rök:  Hinn 18. apríl 2007 var tekin fyrir umsókn eiganda fasteignarinnar að Austurgötu 25 í Hafnarfirði um breytingar á nefndri fasteign og var erindið afgreitt með svofelldri bókun:  „L… sækir um að byggja viðbyggingu við norðurhlið hússins að Austurgötu 25, Hafnarfirði skv. teikningum Byggingar- og skipulagshönnunar ehf. dags. 21.3. Nýjar teikningar bárust 18.04.2007 með nýjum rýmisnúmerum.  Skipulags- og byggingarfulltrúi samþykkir erindið. Umsóknin samræmist lögum nr. 73/1997.“  Fundargerðin var lögð fram á fundi skipulags- og byggingarráðs 24. apríl 2007 og staðfest í bæjarstjórn 2. maí sama ár.

Kærandi bendir á að samþykktar teikningar að fyrirhuguðum breytingum feli í sér viðbyggingu við norðvesturhlið hússins að Austurgötu 25 auk glugga sem til standi að bæta við á suðausturhlið hússins, en hún snúi að garði kæranda.  Grenndarkynna hefði átt fyrirhugaðar breytingar en viðbyggingin kalli á breytingu á deiliskipulagi þar sem um stækkun á byggingarreit sé að ræða og útliti húss breytt með fyrrgreindum glugga.  Kæranda hafi fyrir tilviljun fengið vitneskju um umdeilt byggingarleyfi sumarið 2009 og hefði þá verið tjáð af bæjaryfirvöldum að mistök hefðu átt sér stað.  Leyfið væri hins vegar fallið niður þar sem framkvæmdir hefðu ekki hafist innan tilskilins frests og yrði það ekki veitt að nýju nema að undangenginni réttri málsmeðferð.  Í byrjun mars 2010 hafi byggingarleyfishafi hins vegar tjáð kæranda að fyrirhugað væri að saga gat fyrir áðurgreindum glugga í samræmi við veitt byggingarleyfi.  Bæjaryfirvöld hafi nú upplýst að vafi leiki á um hvort umdeilt leyfi sé fallið niður en kærandi hafi gert kröfu til bæjaryfirvalda um að leyfið verði fellt úr gildi og framkvæmdir stöðvaðar.

Fram hefur komið af hálfu Hafnarfjarðarbæjar að veitt leyfi fyrir viðbyggingu að Austurgötu 25 rúmist innan skilmála gildandi deiliskipulags.  Hafi því ekki komið til grenndarkynningar á breytingu skipulagsins en í umsókn hafi þess ekki verið getið að sótt væri um að fjölga gluggum hússins.  Vafi leiki á um hvort framkvæmdir samkvæmt hinu kærða byggingaleyfi hafi byrjað innan 12 mánaða lögmælts frests svo það haldi gildi sínu.  Leitað hafi verið upplýsinga hjá byggingarleyfishafa í því efni en engar úttektir hafi átt sér stað af hálfu byggingaryfirvalda á heimiluðum framkvæmdum.

Af hálfu byggingarleyfishafa er skírskotað til þess að hann hafi fengið umrætt byggingarleyfi að undangenginni umsögn húsafriðunarnefndar.  Hann sé smiður að mennt og hafi sjálfur unnið að endurbótum að Austurgötu 25 og m.a. smíðað gluggana sjálfur.  Framkvæmdir samkvæmt byggingarleyfinu hafi verið byrjaðar innan árs frá veitingu þess og beri tiltækar ljósmyndir með sér að búið hafi verið að setja alla glugga á framhlið fyrstu hæðar hússins í febrúar 2008.  Framkvæmdir hafi staðið yfir frá árinu 2007 og standi enn yfir.  Nýtt gluggaop á fyrstu hæð hússins, sem snúi að fasteign kæranda og samþykkt hafi verið af byggingaryfirvöldum hinn 18. apríl 2007, sé eldhúsgluggi og hafi mikið notagildi vegna birtu og loftræstingar.  Þegar séu fyrir tveir gluggar á annarri hæð og einn gluggi á fyrstu hæð sem snúi að fasteign kæranda og ekki verði séð hvaða óhagræði fylgi einu glugga til viðbótar.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um samþykkt skipulags- og byggingarfulltrúans í Hafnarfirði frá 18, apríl 2007, sem staðfest var í bæjarstjórn Hafnarfjarðar 2. maí sama ár.  Í samþykktinni felst að heimilað er að reisa viðbyggingu við norðausturhlið hússins að  Austurgötu 25.  Af samþykkum uppdráttum má ráða að einnig felist í hinni umdeildu samþykkt leyfi til að beyta innra skipulagi á 1. hæð, setja nýjan glugga á suðausturhlið hússins og loka dyragati og setja glugga í þess stað á suðvesturhlið, en þessara breytinga á innra skipulagi og á gluggum er hvorki sérstaklega getið í bókun um samþykkt leyfisins né í byggingarlýsingu á aðaluppdráttum.

Kærandi vísar til þess að hann hafi verið búinn að skipta um glugga á framhlið (suðurvesturhlið) hússins í febrúar 2008 og því hafi framkvæmdir hafist innan árs frá útgáfu byggingarleyfisins.  Við þessa staðhæfingu er það að athuga að ekki var í hinu kærða leyfi fjallað um endurnýjun glugga á framhlið hússins, ef frá er talin heimildin til að setja glugga í dyraop, sem ekki hefur verið hafist handa við.  Engin úttekt hefur farið fram í tengslum við verkið og ekki hefur veri skráður byggingarstjóri á það.  Hefur byggingarleyfishafi ekki sýnt fram á að hann hafi, enn sem komið er, hafið neinar framkvæmdir samkvæmt hinu umdeilda byggingarleyfi, sbr. 14. gr. byggingar¬reglugerðar nr. 441/1998, og skipta framkvæmdir hans við endurbætur á húsinu að öðru leyti engu máli í því sambandi.
 
Samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 má gefa út byggingar¬leyfi þegar sveitarstjórn hefur staðfest samþykkt um veitingu leyfisins og byggingarleyfisgjöld og önnur tilskilin gjöld hafa verið greidd.  Í 4. mgr. sömu greinar segir að staðfesting sveitarstjórnar falli úr gildi hafi byggingarleyfi ekki verið gefið út innan 12 mánaða.  Þá segir í 1. mgr. 45. gr. laganna að byggingarleyfi falli úr gildi hafi byggingarframkvæmdir ekki hafist innan 12 mánaða frá útgáfu þess.

Eins og að framan greinir hafa engar framkvæmdir enn hafist á grundvelli hins kærða byggingarleyfis, en rúm tvö ár eru nú liðin frá staðfestingu sveitarstjórnar á leyfinu.  Er sú staðfesting því úr gildi fallin.  

Byggingarleyfishafi mun hafa greitt tilskilin byggingarleyfisgjöld í kjölfar afgreiðslu bæjaryfirvalda á umsókn hans. Væri litið svo á að með því hafi honum verið veitt byggingaleyfi skv. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga þá er það leyfi einnig úr gildi fallið, sbr. 1. mgr. 45. gr. laganna.  Eru því úr gildi fallnar allar heimildir til þeirra framkvæmda sem leyfðar voru með hinni kærðu samþykkt og verður hér eftir ekki í þær ráðist nema að undangenginni nýrri samþykkt sveitarstjórnar.  Hefur kærandi af þessum sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti hins kærða byggingarleyfis, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga, og verður málinu því vísað frá úrskurðar¬nefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                ________________________
Ásgeir Magnússon                                                    Hildigunnar Haraldsdóttir 

28/2010 Fannafold

Með

Ár 2010, fimmtudaginn 10. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Hildigunnur Haraldsdóttir arkitekt. 

Fyrir var tekið mál nr. 28/2010, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 3. júní 2003 um að veita byggingarleyfi fyrir bílgeymslu á lóðinni að Fannafold 31 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 10. maí 2010, er barst nefndinni hinn 12. sama mánaðar, kæra L og J, Fannafold 29, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 3. júní 2003 að veita byggingarleyfi fyrir bílgeymslu á lóðinni að Fannafold 31.  Borgarstjórn staðfesti þá ákvörðun á fundi sínum hinn 16. júní 2003.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 3. júní 2003 var samþykkt byggingarleyfi fyrir bílgeymslu á lóðinni nr. 31 við Fannafold.  Fundargerð þess fundar var lögð fram á fundi skipulags- og byggingarnefndar 4. júní 2003 og staðfesti borgarstjórn nefnda afgreiðslu byggingarfulltrúa hinn 16. júní sama ár.  Mun bílgeymslan hafa verið reist á árunum 2004 til 2005.

Kærendur benda á að umrædd bílgeymsla, sem standi um einum metra frá mörkum lóðar kærenda og byggingarleyfishafa, sé ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag hverfisins og hefði því borið að grenndarkynna leyfisumsóknina.  Byggingin valdi skuggavarpi og skerði útsýni gagnvart fasteign kærenda, langt umfram það sem við hefði mátt búast en breidd, lengd og hæð bílgeymslunnar eigi sér ekki hliðstæðu í hverfinu.

Niðurstaða:  Frestur til að kæra ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að aðila var eða mátti vera kunnugt um hana, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Berist kæra að liðnum kærufresti ber að vísa henni frá samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða að veigamiklar ástæður mæli með því að taka hana til efnismeðferðar.  Kæra verður þó ekki tekin til efnismeðferðar ef ár er liðið frá upphafi kærufrests, sbr. 2. mgr. ákvæðisins.

Hin kærða ákvörðun um veitingu byggingarleyfis var tekin og staðfest í júní 2003 og mun framkvæmdum við umdeilda bílgeymslu hafa verið lokið á árinu 2005.  Með vísan til nefndrar 28. gr. stjórnsýslulaga verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________
Hjalti Steinþórsson

_______________________________       _____________________________
Ásgeir Magnússon                                             Hildigunnur Haraldsdóttir

17/2010 Bjarnarflag

Með

Ár 2010, fimmtudaginn 3. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 17/2010, málaleitan Landsvirkjunar um að skorið verði úr um leyfisskyldu framkvæmdar við lagningu vatns- og raflagna í jörðu frá niðurrennslisholu í landi Voga að borsvæðum í landi Reykjahlíðar í Skútustaðahreppi. 

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 26. mars 2010, er barst nefndinni samdægurs, fer Landsvirkjun þess á leit við úrskurðarnefndina að skorið verði úr því álitaefni hvort framkvæmdir við lagningu vatns- og raflagna í jörðu frá niðurrennslisholu í landi Voga að borsvæðum í landi Reykjahlíðar séu háðar framkvæmdaleyfi samkvæmt 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Málsatvik og rök:  Af hálfu Landsvirkjunar er greint frá því að framkvæmd sú er um ræði sé tilkomin vegna borvatnsveitu í Bjarnarflagi, sem verði starfrækt meðan á borunum standi hverju sinni. 

Landsvirkjun lýsir málavöxtum svo að undanfarin ár hafi skolvatns fyrir borframkvæmdir á svæðinu verið aflað með því að sækja það með yfirborðslögnum í Mývatn en áður hafi það verið gert með því að dæla því sem leið liggi frá Bjarnaflagslóni.  Þessum aðgerðum hafi fylgt að allar lagnir hafi legið á yfirborði jarðar auk þess sem háværar dísilknúnar vatnsdælur hafi verið notaðar til að dæla vatninu frá vatnstökustað.  Auk hávaða og sjónrænna áhrifa hafi kostnaður við rekstur slíks búnaðar verið umtalsverður.  Vegna þessa óhagræðis hafi sú ákvörðun verið tekin að í stað þess að sækja skolvatn í Bjarnaflagslón eða Mývatn yrði vatn sótt tímabundið í niðurrennslisborholu GR-10, sem boruð hafi verið haustið 2008.  Holan hafi verið boruð í þeim tilgangi að rannsaka grunnvatnskerfið og möguleika á að losa frárennslisvatn fyrirhugaðar virkjunar, djúpt niður í grunnvatnsgeyminn.  Rannsókn á holunni hafi leitt í ljós að vatn í henni henti vel til reksturs borvatnsveitu. 

Í hinni umdeildu framkvæmd felist að lögð verði vatnslögn og jarðstrengur að borholunni.  Sérstaklega sé áréttað að ekki sé um að ræða borun á niðurrennslisholu heldur eingöngu að lagnir verði lagðar að henni.  Yfirborðslögnum frá niðurrennslisholu GR-10 sé komið í jörðu ásamt tilheyrandi rafstreng til að knýja borholudælu. 

Nánari lýsing sé eftirfarandi: 

Lagning vatnslagnar:  Lögð verði 280 mm plastlögn frá borholu GR-10 til norðurs að vatnstæmingu, austan borholu BJ-12.  Þaðan verði lögð 225 mm plastlögn að enda veitunnar, norðan þjóðvegar 1.  Heildarlengd lagnar sé 1800 m. 

Lagning jarðstrengs:  Til þess að knýja borholudælu sé samhliða vatnslögn lagður 12 kV jarðstrengur frá Léttsteypunni, þaðan sem rafmagnið sé sótt, að dreifistöð sem sé 760 m frá borholu GR-10.  Þar sé rafmagnið spennt niður í 400 V og flutt eftir jarðstreng að borholu.  Heildarlengd jarðstrengs sé 1917 m. 

Framkvæmdin sé tímabundið úrræði og hafi í raun hvorki verið gert ráð fyrir henni við undirbúning né við mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar virkjunar.  Í stuttu máli tengist framkvæmdin því að niðurrennslishola, sem boruð hafi verið árið 2008, sé tímabundið nýtt til vatnstöku.  Til bráðabirgða sé borhola GR-10 notuð til vatnstöku á rannsóknar- og framkvæmdartíma, en á endanum verði borholan nýtt sem niðurrennslishola fyrir losun á frárennsli virkjunarinnar, þ.e. þegar hún verði gangsett.  Ekki liggi fyrir áætlun um hvernig borvatnsveita verði tengd vatnsveitu virkjunarinnar þegar rekstur hennar hefjist. 

Grafið hafi verið fyrir umræddum lögnum en hingað til hafi þær legið á yfirborði jarðar.  Ákveðið hafi verið að fara út í framkvæmdina fyrst og fremst til að bæta umgengni á svæðinu og losna við lagnir og háværar dísilknúnar dælurafstöðvar af yfirborði jarðar.  Auk þessa hafi kostnaður við rekstur slíks búnaðar verið umtalsverður. 

Til þess að jarðrask verði sem minnst séu vatns- og raflagnir að stórum hluta lagðar meðfram núverandi vegslóðum.  Skurður fyrir lögnum sé grafinn í gróðursnauðu landi þannig að auðvelt sé að afmá jarðrask að verki loknu.  Framkvæmdin hafi því ekki varanleg áhrif á umhverfið enda séu lagnir lagðar í jörðu og rask afmáð. 

Með erindi landeigenda til Skipulagsstofnunar, dags. 20. janúar 2010, hafi verið lögð fram fyrirspurn um hvort hin umdeilda framkvæmd væri framkvæmdaleyfisskyld.  Í svari Skipulagsstofnunar, dags. 29. s.m., hafi komið fram það mat stofnunarinnar að framkvæmdin væri leyfisskyld skv. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga. 

Bent sé á að 18. mars og 5. maí 1971 hafi Ríkissjóður Íslands gert samninga við eigendur jarðanna Reykjahlíðar og Voga.  Með samningunum hafi ríkissjóður yfirtekið jarðhitaréttindi í landi jarðanna á ákveðnu afmörkuðu jarðhitasvæði samkvæmt uppdrætti Orkustofnunar, dags. 18. mars 1971.  Í 1. gr. samninganna sé að finna svohljóðandi ákvæði:  „Jarðhitaréttindi í landi Reykjahlíðar á jarðhitasvæði því, sem afmarkað er á viðfestum uppdrætti og landamerkjalýsingu, ásamt jarðhita þeim, sem þar er að finna, og aðstaða til mannvirkjagerðar til nýtingar hans, eru héðan í frá ríkissjóði til frjálsra umráða og ráðstöfunar.“  Landsvirkjun hafi yfirtekið réttindi ríkisins með samningi, dags. 17. september 1986.  Þær framkvæmdir sem fjallað sé um í máli þessu séu innan þess svæðis sem afmarkað sé í framangreindum samningum.  Samkvæmt samningunum sé réttur Landsvirkjunar til aðstöðu og framkvæmda í landi jarðanna til nýtingar jarðhitaréttinda ótakmarkaður og ótímabundinn.  Landsvirkjun byggi rétt sinn til framkvæmda í landi Reykjahlíðar og Voga á framangreindum samningum. 

Samkvæmt 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 séu þær framkvæmdir leyfisskyldar sem séu meiriháttar og hafi áhrif á umhverfið og breyti ásýnd þess.  Í hinni umdeildu framkvæmd felist að vatns- og raflagnir séu grafnar í jörðu.  Grafinn sé skurður sem lagnir séu lagðar í og svo sé fyllt yfir.  Framkvæmdirnar komi því ekki til með að hafa áhrif á umhverfið eða breyta ásýnd þess að þeim loknum.  Eftir framkvæmdina verði gengið frá yfirborði og allt jarðrask afmáð.  Til þess að jarðrask verði sem minnst verði vatns- og raflagnir að mestu leyti lagðar meðfram núverandi vegi.  Að mati Landsvirkjunar séu skilyrði 27. gr. ekki fyrir hendi. 

Í 9. kafla skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 sé fjallað nánar um framkvæmdaleyfi, en þar komi fram að háðar framkvæmdaleyfi séu meiriháttar framkvæmdir við götur, holræsi, vegi og brýr, aðrar en göngubrýr í þéttbýli, jarðgöng, flugbrautir, dreifi- og flutningskerfi rafveitna, hitaveitna, vatnsveitna og fjarskipta, hafnir, virkjanir, efnistöku, sorpförgun og aðrar meiriháttar framkvæmdir sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess.  Með meiriháttar framkvæmdum sé átt við framkvæmdir sem vegna eðlis eða umfangs hafi veruleg áhrif á umhverfið.  Það eigi t.d. við um framkvæmdir sem farið hafi í mat á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, en einnig skuli höfð hliðsjón af framkvæmdum tilgreindum í viðauka II með reglugerð um mat á umhverfisáhrifum.  Sú framkvæmd sem hér um ræði sé ekki hluti af framkvæmdum vegna virkjunar sem farið hafi í mat á umhverfisáhrifum.  Framkvæmdin sé ekki hluti af virkjunarframkvæmdum í mati.  Þá samræmist hún Aðalskipulagi Skútustaðahrepps 1996-2015.  

Í 3. mgr. gr. 9.1 í skipulagsreglugerð segi að við mat á því hvort framkvæmdir séu meiriháttar skuli höfð hliðsjón af framkvæmdum tilgreindum í viðauka II með reglugerð um mat á umhverfisáhrifum.  Í b- lið 3. tl. og h- lið 10. tl. viðauka II við reglugerð um mat á umhverfisáhrifum nr. 1123/2005 sé fjallað um framkvæmdir við flutningskerfi.  Þar segi að framkvæmdir við jarðstrengi til flutning rafmagns og vatnsleiðslur utan þéttbýlis, sem séu niðurgrafin, séu aðeins tilkynningaskyldar séu þær 10 km eða lengri.  Þær framkvæmdir sem hér um ræði séu aðeins um 1800 m að lengd.  Þar sem framkvæmdin nái ekki þeirri lengd sem tilkynningaskyld sé samkvæmt viðauka II verði að gagnálykta að framkvæmdin teljist ekki meiriháttar í skilningi laganna og því ekki framkvæmdaleyfisskyld, skv. 3. mgr. 9. gr. skipulagsreglugerðar. 

Af hálfu landeigenda Reykjahlíðar er vísað til þess að upphaflega hafi þeir staðið í þeirri trú að um bráðabirgðalögn væri að ræða, aðeins til skamms tíma, en ekki að lagður yrði 400 V kapall og vatnslögn, 9-11 tommur að sverleika.  Um sé að ræða stórframkvæmd sem hugsuð sé til lengri tíma.  Greinilegt sé að slíkur kapall geti varla verið til bráðabirgða, þ.e. kapall sem geti fullnægt uppbyggingu á heilli virkjun, auk vinnubúða.  Í dag sé ekki fyrirséð að virkjun sé á borðinu og því sé varla hægt að tala um bráðabirgðaframkvæmdir í þessu máli. 

Hér vanti að gera samninga við landeigendur, bæði varðandi tímalengd og umfang, sem og önnur mikilvæg atriði er varði skurðinn og það sem í honum verði.  Nauðsynlegt sé að árétta að umrætt land, norðan lands Voga, sé í eigu landeigenda Reykjahlíðar og um það sé ekki deilt.  Í framhaldi af niðurstöðu Óbyggðanefndar sé skylt að gera samninga um slíkar framkvæmdir í ljósi hins beina eignarréttar.  Um þetta megi lesa í fjölda úrskurða nefndarinnar varðandi lagalegt gildi hins beina eignarréttar aftur í aldir.  Landeigendum beri að vernda hinn beina eignarrétt til framtíðar á sínu eigin landi.  Eftir þessu vinni landeigendur og í landi Reykjahlíðar verði ekki leyfðar neinar framkvæmdir nema um það verði samið og farið að þeim lögum sem í landinu gildi á hverjum tíma. 

Þá hafi Landsvirkjun ekki óskað eftir leyfi landeigenda fyrir rafstreng frá Léttsteypunni að dreifistöð, en um það þurfi að semja eins og annað varðandi þetta mál. 

Svæðið sé ekki deiliskipulagt og því ekki útilokað að lögnin, þar sem hún sé teiknuð, stangist á við væntanlegar deiliskipulagshugmyndir á svæðinu. 

Landsvirkjun nefni ekki þá staðreynd að fyrirtækið ætli að leggja, og hafi þegar lagt, rör fyrir væntanlegan ljósleiðara í sama skurð.  Slík rör hafa þegar verið lögð í skurðinn í landi Voga.  Slíkt sé gert með það í huga að í gegnum þetta fari ljósleiðari Landsnets í hina væntanlegu virkjun.  Hér geti varla verið um tímabundna framkvæmd að ræða.  Þetta sé gert án leyfis landeigenda.  Slíkt verði ekki leyft í landi Reykjahlíðar nema um það verði samið eins og annað er varði þetta mál. 

Til upplýsingar sé bent á að Baðfélag Mývatnssveitar hf. hafi á sínum tíma þurft að afla tilskilinna opinberra leyfa og gera samning við landeigendur þegar lagður hafi verið svipaður skurður með 12 tommu vatnslögn, nálægt sama svæði, í gegnum land Reykjahlíðar.  Landeigendur trúi því varla að einhver önnur lög eða reglur gildi um Landsvirkjun þegar um slíkar framkvæmdir sé að ræða á þessu svæði.  Ef eitthvað sé gildi strangari reglur í dag en þá. 

Samkvæmt öllu framansögðu geti landeigendur ekki skilið hvers vegna Landsvirkjun hafi ekki farið hina réttu og löglegu leið þegar um svo mikla varanlega framkvæmd sé að ræða.  Það sé álit landeigenda að Landsvirkjun beri að sækja um framkvæmdaleyfi fyrir þessari framkvæmd. 

Sveitarstjórn Skútustaðahrepps var veitt færi á að tjá sig um úrlausnarefni máls þessa en sjónarmið hennar hafa ekki borist.

——-

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er leitað úrlausnar um hvort tilteknar framkvæmdir séu háðar ákvæðum skipulags- og byggingarlaga um framkvæmdaleyfi.  Er það meðal lögbundinna verkefna úrskurðarnefndarinnar samkvæmt 2. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 að skera úr um vafa af þessum toga, óháð því hvort fyrir liggi formleg ákvörðun sveitarstjórnar í málinu.  Segir í 8. mgr. 27. gr. að umsækjanda um framkvæmdaleyfi og hlutaðeigandi sveitarstjórn sé heimilt að skjóta slíkum vafa til úrskurðarnefndarinnar og verður að skilja ákvæðið svo að aðili sem hyggur á framkvæmdir eigi þennan málskotsrétt án þess að koma þurfi til umsókn um framkvæmdaleyfi.  Var Landsvirkjun því rétt að leita úrlausnar um þann vafa sem uppi er um það hvort tilgreindar framkvæmdir séu háðar framkvæmdaleyfi og verður erindið því tekið til efnislegrar úrlausnar. 

Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga skal afla framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar vegna meiriháttar framkvæmda sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess, svo sem breytingar lands með jarðvegi eða efnistöku, og annarra framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum.  Þó þarf ekki að afla slíks leyfis vegna framkvæmda sem háðar eru byggingarleyfi skv. IV. kafla laganna. 

Ákvæði um framkvæmdaleyfi var ekki að finna í frumvarpi því sem síðar varð að skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997, en því var bætt inn í frumvarpið í meðförum Alþingis.  Sagði þar að allar framkvæmdir, sem áhrif hefðu á umhverfið og breyttu ásýnd þess, svo sem skógrækt og landgræðsla eða breyting lands með jarðvegi eða efnistöku, skyldu vera í samræmi við skipulagsáætlanir og úrskurð um mat á umhverfisáhrifum þar sem það ætti við.  Óheimilt væri að hefja slíkar framkvæmdir sem ekki væru háðar byggingarleyfi skv. IV. kafla laganna fyrr en að fengnu framkvæmdaleyfi viðkomandi sveitarstjórnar. 

Verulegar breytingar voru gerðar á ákvæði laganna um framkvæmdaleyfi með lögum nr. 135/1997, sem sett voru fyrir gildistöku laga nr. 73/1997 hinn 1. janúar 1998.  Var m.a. dregið úr vægi ákvæðisins á þann veg að framkvæmdaleyfi var nú einungis áskilið til meiriháttar framkvæmda sem áhrif hefðu á umhverfið og breyttu ásýnd þess í stað þess að taka til allra slíkra framkvæmda.  Þá var fellt út úr 1. mgr. að telja skógrækt og landgræðslu sérstaklega til leyfisskyldra framkvæmda.  Loks var bætt við ákvæðið nýjum málsgreinum þar sem m.a. segir að ráðherra skuli kveða nánar á um útgáfu framkvæmdaleyfa í reglugerð. 

Í 9. kafla skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 er nánar kveðið á um framkvæmdaleyfi.  Segir þar í 2. mgr. gr. 9.1 að háðar framkvæmdaleyfi séu meiriháttar framkvæmdir við götur, holræsi, vegi og brýr, aðrar en göngubrýr í þéttbýli, jarðgöng, flugbrautir, dreifi- og flutningskerfi rafveitna, hitaveitna, vatnsveitna og fjarskipta, hafnir, virkjanir, efnistöku, sorpförgun og aðrar meiriháttar framkvæmdir sem áhrif hafi á umhverfið og breyti ásýnd þess. 

Þá segir í 3. mgr. gr. 9.1 að með meiriháttar framkvæmdum í 2. mgr. sé átt við framkvæmdir sem vegna eðlis eða umfangs hafi veruleg áhrif á umhverfið.  Það eigi t.d. við um framkvæmdir sem farið hafi í mat á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, en einnig skuli höfð hliðsjón af framkvæmdum tilgreindum í viðauka II með reglugerð um mat á umhverfisáhrifum. 

Einsýnt þykir að eftir þá breytingu sem gerð var á ákvæðinu með lögum nr. 135/1997 falla einungis undir ákvæðið framkvæmdir sem vegna eðlis og umfangs hafa veruleg áhrif á umhverfið og breyta ásýnd þess.  Við mat á umfangi framkvæmda í þessu samhengi ber að líta til viðauka II með reglugerð nr. 1123/2005 um mat á umhverfisáhrifum, en þar eru taldar þær framkvæmdir sem tilkynna ber um til Skipulagsstofnunar til ákvörðunar um matsskyldu, sbr. 10. gr. reglugerðarinnar. 

Samkvæmt ákvæði í nefndum viðauka II, lið 3 b, fellur undir viðaukann flutningur á raforku með jarðstrengjum utan þéttbýlis sem eru 10 km eða lengri og eru grafnir niður eða lagðir í stokk.  Undir viðaukann falla einnig vatnsleiðslur utan þéttbýlis 10 km eða lengri, sem grafnar eru niður, sbr. lið 10 h.  Ekki eru ákvæði um fjarskiptalagnir í viðaukanum. 

Framkvæmdir þær sem um ræðir í máli þessu felast í lagningu vatnsleiðslu, rafstrengs og rörs fyrir fjarskiptalögn, innan við tveggja kílómetra leið, og eru þar af leiðandi fjarri því að vera tilkynningarskyldar skv. tilvitnuðum ákvæðum.  Lagnirnar verða settar í skurð sem að mestu liggur meðfram vegslóðum um lítt gróið og þegar raskað svæði.  Eru þar fyrir lagnir sem liggja óvarðar en verða lagðar í jörðu.  Verður ekki talið að framkvæmd þessi hafi svo veruleg áhrif á umhverfið og ásýnd þess að skylt sé að afla framkvæmdaleyfis fyrir henni og breytir engu um þá niðurstöðu þótt framkvæmdin yrði talin varanleg. 

Af hálfu landeigenda Reykjahlíðar er því haldið fram að leyfi þeirra þurfi til framkvæmdanna, en af hálfu Landsvirkjunar er vísað til samningsbundinna heimilda til framkvæmda á umræddu svæði.  Tekur úrskurðanefndin enga afstöðu til þessa ágreinings, enda er í máli þessu einungis til úrlausnar hvort umræddar framkvæmdir teljist háðar framkvæmdaleyfi sveitarstjórnar skv. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga. 

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að framkvæmdir þær sem um er fjallað í máli þessu séu ekki háðar framkvæmdaleyfi. 

Úrskurðarorð: 

Ekki er skylt að afla framkvæmdaleyfis skv. 27. gr. laga nr. 73/1997 til eftirtalinna framkvæmda við borvatnsveitu í Bjarnarflagi samkvæmt lýsingu Landsvirkjunar:

Lagningar vatnslagnar:  Lögð verði 280 mm plastlögn frá borholu GR-10 til norðurs að vatnstæmingu austan borholu BJ-12.  Þaðan verði lögð 225 mm plastlögn að enda veitunnar norðan þjóðvegar 1.  Heildarlengd lagnar sé 1800 m. 

Lagningar jarðstrengs:  Til þess að knýja borholudælu sé samhliða vatnslögn lagður 12 kV jarðstrengur frá Léttsteypunni, þaðan sem rafmagnið sé sótt, að dreifistöð sem sé 760 m frá borholu GR-10.  Þar sé rafmagnið spennt niður í 400 V og flutt eftir jarðstreng að borholu.  Heildarlengd jarðstrengs sé 1917 metrar. 

Lagningar fjarskiptalagnar:  Lagt verði ídráttarrör fyrir ljósleiðara meðfram vatnslögn. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

__________________________                __________________________
Ásgeir Magnússon                                           Þorsteinn Þorsteinsson

39/2009 Hrefnugata

Með

Ár 2010, fimmtudaginn 3. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 39/2009, kæra á ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 22. apríl 2009 um að veita byggingarleyfi fyrir bílskúr og stækkun rishæðar ásamt breytingum innan annarrar hæðar fjölbýlishúss á lóð nr. 3 við Hrefnugötu. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 28. maí 2009, er barst nefndinni 29. sama mánaðar, kæra K og R, Flókagötu 14, Reykjavík, þá ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 22. apríl 2009 að veita byggingarleyfi fyrir bílskúr og stækkun rishæðar ásamt breytingum innan annarrar hæðar fjölbýlishúss á lóð nr. 3 við Hrefnugötu.  Borgarráð staðfesti ákvörðunina hinn 24. apríl 2009.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða veiting byggingarleyfis verði felld úr gildi. 

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 4. júní 2009, er barst nefndinni sama dag, kærir jafnframt Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir hdl., f.h. E, Flókagötu 14, nefnda ákvörðun um veitingu byggingarleyfis vegna Hrefnugötu 3 og er gerð krafa um ógildingu ákvörðunarinnar.  Með hliðsjón af málatilbúnaði kærenda þykir ekkert standa því í vegi að sameina málin og verður því kærumálið, sem er nr. 41/2009, sameinað hinu fyrra. 

Málsatvik og rök:  Hinn 22. apríl 2009 samþykkti skipulagsráð Reykjavíkur, í kjölfar grenndarkynningar, umsókn um byggingu bílskúrs og stækkun rishæðar ásamt breytingum innan annarrar hæðar fjölbýlishúss á lóð nr. 3 við Hrefnugötu.  Við grenndarkynninguna komu fram athugasemdir, m.a. frá kærendum.  Borgarráð staðfesti ákvörðun skipulagsráðs hinn 24. apríl 2009.  Skutu kærendur ákvörðun um veitingu byggingarleyfisins til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Kærendur benda á að óskiljanlegt sé að fyrirhugaður bílskúr verði staðsettur í línu aftan við húsið að Hrefnugötu 3, að suðurmörkum lóðar kærenda að Flókagötu 14.  Stór hluti bílgeymslunnar verði fyrir aftan húsið að Flókagötu 3 og geti sá hluti ekki nýst fyrir bifreið, enda ekki unnt að aka inn í þann hluta byggingarinnar.  Í raun sé um að ræða viðbyggingu við íbúðarhús það sem fyrir sé á lóðinni, sem hljóti að vera ætluð til annarra nota en geymslu bifreiðar, enda muni verða innangengt úr einni geymslu íbúðarhússins í nýbygginguna.  Þá sé hækkun á þaki íbúðarhússins mótmælt.  Sú hækkun muni valda verulegu skuggavarpi og raska lögvörðum hagsmunum íbúa í kjallaraíbúð að Flókagötu 14 og fari breytingin gegn sjónarmiðum sem fram komi í gildandi aðalskipulagi Reykjavíkur. 

Niðurstaða:  Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 26. maí 2010, upplýsti byggingarfulltrúinn í Reykjavík að samþykkt skipulagsráðs fyrir veitingu umdeilds byggingarleyfis hefði verið til umfjöllunar á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 25. maí 2010.  Fram kemur í bókun þess fundar að byggingarleyfi hafi ekki verið gefið út innan tilskilins frests skv. byggingarreglugerð nr. 441/1998 og sé því úr gildi fallið.  Óheimilt sé að endurnýja byggingarleyfið óbreytt.  Borgarráð staðfesti umrædda fundargerð byggingarfulltrúa hinn 27. maí 2010. 

Samkvæmt 5. mgr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. og gr. 13.3 í byggingarreglugerð nr. 441/1998, fellur staðfesting sveitarstjórnar á ákvörðun um veitingu byggingarleyfis úr gildi hafi byggingarleyfi skv. nefndri 44. gr. ekki verið gefið út innan 12 mánaða frá staðfestingunni.  Samkvæmt áðurgreindum upplýsingum embættis byggingarfulltrúa liggur fyrir að byggingarleyfi hafi ekki verið gefið út eftir staðfestingu borgarráðs á veitingu þess frá 24. apríl 2009.  Hefur hin kærða ákvörðun því fallið úr gildi samkvæmt tilvitnuðum ákvæðum skipulags- og byggingarlaga og byggingarreglugerðar vegna þess að meira en tólf mánuðir eru liðnir frá staðfestingu borgarráðs á umdeildu byggingarleyfi. 

Af framangreindum sökum hafa kærendur ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hinnar kærðu ákvörðunar og verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________
Hjalti Steinþórsson

_______________________________          _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                 Þorsteinn Þorsteinsson

11/2010 Lofnarbrunnur

Með

Ár 2010, miðvikudaginn 26. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 11/2010, kæra á ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 9. desember 2009, er borgarráð staðfesti hinn 14. sama mánaðar, um að krefja lóðarhafa Lofnarbrunns 6-8 í Reykjavík um tilteknar úrbætur á byggingarstað innan 30 daga frests en að öðrum kosti að verkið verði unnið á vegum borgaryfirvalda á kostnað lóðarhafa. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 20. febrúar 2010, er barst nefndinni 4. mars sama ár, kæra A og B, lóðarhafar Lofnarbrunns 6-8 í Reykjavík, þá ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 9. desember 2009, er borgarráð staðfesti hinn 14. sama mánaðar, að krefja kærendur um tilteknar úrbætur á byggingarstað á lóðinni að Lofnarbrunni 6-8 innan 30 daga frests, en að öðrum kosti að verkið verði unnið á vegum borgaryfirvalda á kostnað lóðarhafa.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málsatvik og rök:  Með bréfi byggingarfulltrúa til kærenda, dags. 18. ágúst 2009, voru gerðar kröfur um hreinsun og frágang á lóðinni að Lofnarbrunni 6-8 í Reykjavík, nánar tiltekið að hreinsa og flytja brott til förgunar innan 14 daga allt ónýtanlegt byggingarefni, flytja brott uppgrafið efni meðfram Úlfarsbraut eða jafna það út, koma fyrir grjóthleðslu við lóðarmörk Lofnarbrunns 2-4 þannig að unnt væri að ganga frá þeirri lóð og koma fyrir aksturshindrunum á lóðarmörkum við Lofnarbrunn.  Þá var í bréfinu farið fram á að gerð yrði grein fyrir gámi á staðnum.  Tók byggingarfulltrúi fram að ef ekki yrði brugðist við áskorun um úrbætur myndi hann leita atbeina skipulagsráðs til að knýja þær fram.  Var kærendum gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum vegna krafna byggingarfulltrúa.  Kærendur svöruðu með bréfi, dags. 12. september 2009, og komu á framfæri rökum sínum og sjónarmiðum fyrir því að þeim bæri ekki að verða við kröfum byggingarfulltrúa að öðru leyti en því að koma fyrir umkrafinni aksturshindrun.  Var jafnframt upplýst að 20 feta gámur sem stæði ofan við lóð kærenda væri á þeirra vegum. 

Skipulagsráð samþykkti á fundi sínum 9. desember 2009 að veita kærendum 30 daga frest til að verða við kröfu byggingarfulltrúa um áðurgreindar úrbætur og staðfesti borgarráð þá ákvörðun hinn 14. desember 2009.  Kærendum var síðan tilkynnt um málalyktir með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 19. janúar 2010. 

Kærendur benda á að á þeirra vegum sé ekkert ónýtanlegt byggingarefni á umræddri lóð.  Á því hafi hins vegar borið að húsgrunnar á svæðinu hafi verið nýttir sem urðunarstaðir fyrir rusl af þeim sem leið hafi átt um.  Það efni sem grafið hafi verið upp á lóð kærenda muni nýtast til uppfyllingar að sökklum eftir að þeir hafi verið steyptir upp.  Mikill kostnaður myndi fylgja því að fjarlægja uppgröftinn og kaupa síðar í hans stað fyllingarefni þegar sökklar væru tilbúnir.  Ekki sé fallist á að ganga nú frá grjóthleðslu við lóðarmörk Lofnarbrunns 2-4, þar sem það myndi hamla framkvæmdum svo sem við mótauppslátt og uppsteypu sökkla á lóð kærenda vegna plássleysis.  Borgaryfirvöld hafi lengt alla framkvæmdafresti og því hafi öllum mátt vera ljóst að framkvæmdir í hverfinu stæðu lengur en ella. 

Af hálfu Reykjavíkurborgar er farið fram á að kröfu kærenda í málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kæran sé of seint fram komin.  Kærendum hafi verið tilkynnt skriflega um ákvörðun skipulagsráðs með bréfi, dags. 19. janúar 2010, sem birt hafi verið kærendum hinn 25. sama mánaðar skv. birtingarvottorði dagsettu sama dag.  Kæra í máli þessu sé stimpluð móttekin hjá úrskurðarnefndinni 4. mars 2010, eða réttum 5 vikum eftir birtingu ákvörðunarinnar fyrir kærendum.  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 teljist kærufrestur vera einn mánuður frá því að kæranda varð eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra eigi.  Frestur til að kæra umdeilda ákvörðun í máli þessu hafi því runnið út 25. febrúar 2010. 

Niðurstaða:  Fyrir liggur í málinu birtingarvottorð er ber með sér að hin kærða ákvörðun hafi verið birt á heimili kærenda fyrir öðrum þeirra hinn 25. janúar 2010, kl. 20:20.  Komu fram í tilkynningunni upplýsingar um kæruheimild, kærustjórnvald og kærufrest.  Kærendum var gefinn kostur á að tjá sig um frávísunarkröfu Reykjavíkurborgar en engar athugasemdir hafa borist úrskurðarnefndinni af því tilefni.  Verður því í máli þessu lagt til grundvallar að birting hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið með þeim hætti sem birtingarvottorðið ber með sér. 

Frestur til að kæra ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að aðila var eða mátti vera kunnugt um hana, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Miðað við nefnt birtingarvottorð og skv. 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 rann kærufrestur út í máli þessu hinn 26. febrúar 2010.  Úrskurðarnefndinni barst málskot kærenda hinn 4. mars sama ár, eða sex dögum eftir lok kærufrests. 

Berist kæra að liðnum kærufresti ber að vísa henni frá samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga, nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða að veigamiklar ástæður mæli með því að taka hana til efnismeðferðar. 

Þar sem engar upplýsingar liggja fyrir um atvik sem geta réttlætt að vikið sé frá kærufresti samkvæmt greindum undantekningarákvæðum, verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________
Hjalti Steinþórsson

_______________________________            _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                   Þorsteinn Þorsteinsson

36/2008 Fagurhóll

Með

Ár 2010, miðvikudaginn 26. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 36/2008, kæra á synjun umhverfisnefndar Grundarfjarðarbæjar frá 4. mars 2008 á beiðni um endurskoðun á lögmæti sólpallabyggingar að Fagurhóli 8a, Grundarfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 26. maí 2008, er barst nefndinni 28. sama mánaðar, kæra K og K, Fagurhólstúni 9, Grundarfirði, synjun umhverfisnefndar Grundarfjarðarbæjar frá 4. mars 2008 á beiðni kærenda um endurskoðun á lögmæti sólpallabyggingar að Fagurhóli 8a, Grundarfirði.  Bæjarstjórn Grundarfjarðar staðfesti þá afgreiðslu hinn 13. mars sama ár.  Skilja verður málskot kærenda svo að krafist sé ógildingar á hinn kærðu ákvörðun.

Málsatvik og rök málsaðila:  Hinn 6. nóvember 2006 samþykkti umhverfisnefnd Grundarfjarðarbæjar umsókn um leyfi fyrir lóðarframkvæmdum að Fagurhóli 8a.  Var um að ræða pallagerð og skjólveggi auk jöfnunar og frágangs yfirborðs á baklóð og voru framkvæmdir þá þegar hafnar samkvæmt bókun nefndarinnar.  Bæjarstjórn staðfesti afgreiðslu nefndarinnar hinn 9. nóvember sama ár.  Með bréfi, dags. 11. desember 2007, fóru kærendur fram á það við umhverfisnefnd að kannað yrði lögmæti byggingar sólpalls að Fagurhóli 8a.  Var erindið tekið fyrir á fundi nefndarinnar 4. mars 2008 og sú afstaða nefndarinnar bókuð að áður veitt leyfi fyrir byggingu sólpalls að Fagurhóli 8a væri í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga og byggingarreglugerðar.  Að öðru leyti var vísað til fyrri afgreiðslu og 67. gr. byggingarreglugerðar um girðingu lóða.  Var kærendum tilkynnt um þessa afgreiðslu með bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa, dags. 19. maí 2008.

Kærendur benda á þeir eigi töluverðra hagsmuna að gæta varðandi umdeilt leyfi fyrir gerð sólpalls að Fagurhóli 8a, sem liggi að lóð kærenda, og standi að miklum mun hærra.  Þrátt fyrir það hafi grenndarkynning ekki farið fram.  Kærendur geti ekki fallist á að umræddar framkvæmdir og málsmeðferð geti verið lögum samkvæmt og hafi því vísað málinu til úrskurðarnefndarinnar.

Af hálfu Grundafjarðarbæjar er vísað til þess að á sínum tíma hafi byggingaryfirvöld farið á vettvang og metið það svo að umræddar framkvæmdir gengju ekki á hagsmuni nágranna.  Fjarlægð umdeilds hringlaga palls frá girðingu á lóðamörkum Fagurhóls 8a og Fagurhólstúns 9 sé 2,2 metrar.  Pallurinn sé tengdur aðalsólpalli með brú og sé aðeins ætlaður fyrir blóm og styttur og standi pallurinn 36 sentimetrum lægra en aðalpallurinn.

Niðurstaða:  Hin kærða afgreiðsla umhverfisnefndar Grundarfjarðarbæjar fól í sér synjun á erindi kærenda frá 11. desember 2007 um endurskoðun á fyrri ákvörðun um veitingu leyfis fyrir tilteknum framkvæmdum á lóðinni að Fagurhóli 8a, sem bæjarstjórn staðfesti  hinn 9. nóvember 2006. 

Aðili máls getur ekki gert kröfu um að stjórnvald, sem tekið hefur ákvörðun og birt hana, endurskoði hana nema að skilyrði um endurupptöku máls séu fyrir hendi.  Ekki er til að dreifa lagaákvæðum á sviði skipulags- og byggingarmála sem veita rýmri rétt til endurupptöku máls en kveðið er á um í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en hún hefur að geyma almenna reglu um endurupptöku stjórnvaldsákvarðana.  Samkvæmt nefndri 24. gr. er endurupptaka máls háð þeim skilyrðum að ákvörðun hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum eða að íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hafi byggst á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að ákvörðun var tekin.  Mál verður þó ekki endurupptekið eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá tilkynningu ákvörðunar eða því að aðila var kunnugt eða mátti vera kunnugt um breytingar á atvikum nema með samþykki annarra málsaðila.  Eftir að ár er liðið frá því að aðila varð eða mátti vera kunnugt um ákvörðun eða breyttar forsendur verður mál ekki endurupptekið nema veigamiklar ástæður mæli með því.

Þegar kærendur óskuðu endurskoðunar á veitingu umþrætts byggingarleyfis var liðið meira en ár frá veitingu þess og byrjun framkvæmda.  Þar sem samþykki byggingarleyfishafa skortir fyrir endurupptöku málsins og ekki liggja fyrir veigamiklar ástæður fyrir henni verður ekki haggað við hinni kærðu afgreiðslu umhverfisnefndar á erindi kærenda.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.          

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á synjun umhverfisnefndar Grundarfjarðarbæjar frá 4. mars 2008 á beiðni kærenda um endurskoðun á lögmæti sólpallabyggingar að Fagurhóli 8a, Grundarfirði. 

 

__________________________
Hjalti Steinþórsson

 

__________________________             __________________________
Ásgeir Magnússon                                       Þorsteinn Þorsteinsson