Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

19/2010 Laufásvegur.

Ár 2011, þriðjudaginn 25. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 19/2010, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 18. febrúar 2010 um að eiganda fasteignarinnar að Laufásvegi 68 verði gefinn frestur að viðlögðum dagsektum til að koma mannvirkjum á suðurhluta lóðarinnar til samræmis við samþykkta aðaluppdrætti. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 31. mars 2010, er barst nefndinni sama dag, kærir Gunnar Ingi Jóhannsson hdl., f.h. V ehf., eiganda fasteignarinnar að Laufásvegi 68, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 18. febrúar 2010 að gefa eiganda fasteignarinnar að Laufásvegi 68 frest að viðlögðum dagsektum til að koma mannvirkjum á suðurhluta lóðarinnar til samræmis við samþykkta aðaluppdrætti. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Verði þeirri kröfu hafnað er sú krafa gerð að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála felli niður dagsektir sem kunni að vera áfallnar við uppkvaðningu úrskurðar og leggi fyrir borgarráð að mæla fyrir um nýjan frest í málinu og tilkynna kæranda um hann með sannanlegum hætti. 

Til vara er þess krafist, verði ofangreindum kröfum hafnað, að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað til uppkvaðningar úrskurðar úrskurðarnefndarinnar.

Málavextir:  Eigandi Laufásvegar 68 sótti um breytingu á deiliskipulagi vegna fasteignarinnar með skipulagstillögu, dags. 28. október 2006.  Tillagan var grenndarkynnt og hlaut í kjölfarið staðfestingu borgarráðs.  Var breytingin auglýst í B-deild Stjórnartíðinda hinn 3. janúar 2007.  Á grundvelli breytts deiliskipulags var sótt um byggingarleyfi vegna fyrirhugaðra framkvæmda.  Byggingarleyfisumsóknin var tekin til umfjöllunar í skipulagsráði hinn 21. mars 2007 og hlaut þar samþykki.  Fól samþykktin í sér leyfi til þess að byggja við Laufásveg 68 anddyri við 1. hæð norðurhliðar, stækka nýsamþykktar svalir við suðurhlið 1. hæðar, með geymslurými þar undir, koma fyrir heitum potti á stækkuðum svölum, breyta gluggum og bæta við glugga á 1. hæð norðurhliðar.  Þá voru samþykktar leiðréttar teikningar og breytt stærð bílskúrs á lóðinni.  Af uppdráttum verður ráðið að einnig hafi verið samþykktar tröppur af svölum við suðurhlið niður á suðurhluta lóðar, þótt þess sé ekki getið í bókun. 

Með bréfi lóðarhafa að Smáragötu 11 til skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkurborgar, dags. 5. desember 2007, var óskað eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun um leyfi til framkvæmda á lóðinni að Laufásvegi 68.  Var krafist stöðvunar framkvæmda sem færu út fyrir veitt byggingarleyfi og að ólögmæt mannvirki yrðu fjarlægð.  Voru kröfur þessar ítrekaðar með bréfum, dags. 21. febrúar og 11. apríl 2008. 

Hinn 23. apríl 2008 barst skipulags- og byggingarsviði bréf umboðsmanns Alþingis þar sem hann óskaði upplýsinga um hvað liði svörum eða öðrum viðbrögðum sviðsins við erindi eigenda Smáragötu 11.  Ritaði byggingarfulltrúa sama dag bréf til eigenda Smáragötu 11, þar sem tilkynnt var að byggingarleyfishafi yrði krafinn skýringa á málinu.  Með bréfi byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 28. apríl s.á., var greint frá því að embættinu hefði borist ábending um að ekki hefði verið farið eftir samþykktum aðaluppdráttum lóðarinnar og að við skoðun hefðu komið í ljós ýmis atriði sem væru ekki í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti.  Var þess krafist að kærandi gæfi nákvæma lýsingu á öllum þeim atriðum sem ekki væru í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti og var honum veittur 14 daga frestur til þess. 

Í svari byggingarstjóra til byggingarfulltrúa, dags. 9. maí 2008, var vikið að nokkrum atriðum sem ábendingar embættisins kynnu að eiga við um en áréttað að endurbótum væri ekki lokið og ekki komið að lokaúttekt.  Unnið væri að því að fá samþykki eigenda aðliggjandi fasteignar vegna breyttrar hæðarlegu lóðar og að gerðar yrðu ráðstafanir fengist það ekki. 

Með bréfi lögmanns kæranda til skipulags- og byggingarsviðs, dags. 14. maí 2008, var svo greint frá því að kærandi gæti með engu móti gert sér grein fyrir hvaða atriði það væru sem ekki væru í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti. 

Hinn 28. maí 2008 fór byggingarfulltrúi í vettvangsskoðun og lagði í kjölfarið fram bréf til skipulagsráðs, dags. 12. júní 2008, þar sem tilgreint var hvað hefði komið fram við skoðunina ásamt tillögum að meðferð málsins.  Þar kom fram að utan byggingarreits hefði verið byggð útigeymsla og verönd útbúin á þaki hennar.  Jafnframt virtist hæðarlegu allrar suðurlóðar hússins hafa verið raskað með óleyfilegri hækkun og tröppuvirki, sem tengdi nefnda verönd, og að lóð væri ekki eins og á aðaluppdráttum vegna þeirrar hækkunar sem orðið hefði á lóðinni.  Í bréfi byggingarfulltrúa var einnig vísað til þess að ábendingar vegna málsins hefðu borist frá lóðarhöfum og eigendum Smáragötu 11. 

Með bréfi byggingarfulltrúa til eiganda Laufásvegar 68, dags. 11. júlí 2008, var tilkynnt að skipulagsráð hefði falið byggingarfulltrúa að óska eftir skýringum og afstöðu lóðarhafa að Laufásvegi 68 vegna fyrirætlana byggingaryfirvalda um að krefjast niðurrifs á ólögmætum mannvirkjum á lóðinni.  Bréfinu var ekki svarað og var send ítrekun 13. október 2008 og þar tilkynnt um áform embættisins.  Sagði þar m.a:  „Embætti byggingarfulltrúa áformar því að leggja fyrir skipulagsráð tillögu byggða á ákv. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 þess efnis að gefa yður tímafrest að viðlögðum dagsektum til þess að koma mannvirkjum á suðurhluta lóðarinnar til þess horfs sem sýnt er á samþykktum aðaluppdráttum frá 21. mars 2007, hér er átt við óleyfishækkun lóðar og breytingum á tröppuvirki.“ 

Með bréfi lögmanns kæranda, dags. 7. nóvember 2008, var fyrirhuguðum áformum mótmælt og var því bréfi svarað með bréfi skipulags- og byggingarsviðs hinn 25. nóvember s.á. 

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 3. febrúar 2009 var lögð fram umsókn kæranda um leyfi til að breyta hæðarlegu í suðvesturhorni lóðarinnar, færa heitan pott í garði og bæta dyrum á bílgeymslu einbýlishúss á lóðinni nr. 68 við Laufásveg.  Var málinu frestað og vísað til umsagnar skipulagsstjóra.  Á embættisafgreiðslufundi skipulagsstjóra 6. mars 2009 var erindinu frestað og bókun lögð fram þess efnis að umsækjandi skyldi leggja fram samþykki lóðarhafa Smáragötu 11.  Með bréfi kæranda til skipulags- og byggingarsviðs, dags. 19. mars 2009, var óskað eftir fresti til 1. apríl s.á. til að afla samþykkis lóðarhafa Smáragötu 11 fyrir breytingu á hæðarlegu lóðar. 

Með bréfi byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 9. desember 2009, var honum veittur 14 daga frestur til að andmæla áformum byggingaryfirvalda um að beita þvingunarúrræðum í málinu.  Sagði m.a. eftirfarandi í bréfinu:  „Þann 28. apríl 2009 var synjað byggingarleyfisumsókn yðar nr. BN039427, þar sem sótt var um byggingarleyfi fyrir ýmsum óleyfisframkvæmdum á lóð nr. 68 við Laufásveg.  Byggðist synjunin á því að byggt var út fyrir þær heimildir sem fram koma í deiliskipulagi svæðisins.  Áður eða þann 13. október 2008 hafði yður verið kynnt tillaga um að gefa yður tímafrest að viðlögðum dagsektum til þess að koma mannvirkjum á suðurhluta lóðarinnar til þess horfs sem sýnt er á samþykktum aðaluppdráttum frá 21. mars 2007.  Engin viðbrögð hafa orðið af yðar hálfu til þess að koma fyrirkomulagi mannvirkja og lóð til samræmist við ívitnaða aðaluppdrætti.  Embætti byggingarfulltrúa áformar því að leggja fyrir skipulagsráð tillögu byggða á ákv. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 þess efnis að gefa yður tímafrest að viðlögðum dagsektum til þess að koma mannvirkjum á suðurhluta lóðarinnar til þess horfs sem sýnt er á samþykktum aðaluppdráttum frá 21. mars 2007, hér er átt við óleyfishækkun lóðar og breytingum á tröppuvirki.  Jafnframt verði útigeymsla sem staðsett er utan gildandi deiliskipulags fjarlægð.  Tímafrestur til þess að vinna verkin verði gefinn 70 dagar frá móttöku tilkynningar þar að lútandi og upphæð dagsekta, verði tímafrestur ekki virtur, 25.000 kr. fyrir hvern dag sem það kann að dragast að vinna verkin.  Dagsektir og kostnaður verði innheimt sbr. ákvæði 57 gr. fyrrnefndra laga.  Með vísan til 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er yður hér með gefinn 14 daga tímafrestur frá móttöku bréfs þessa til þess að tjá yður um málið.  Að tímafresti liðnum verður tillagan lögð fyrir skipulagsráð Reykjavíkur til ákvörðunar.“ 

Með bréfi lögmanns kæranda, dags. 22. desember 2009, var framangreindum áformum byggingarfulltrúa mótmælt.  Er í bréfinu vikið að þeim meintu óleyfisframkvæmdum sem fjallað er um í bréfi byggingarfulltrúa frá 9. desember s.á. og viðhorfum kæranda lýst til hvers þessara atriða fyrir sig. 

Á fundi skipulagsráðs 3. febrúar 2010 var lagt fram bréf byggingarfulltrúa, dags. 1. febrúar 2010, þar sem sagði m.a. eftirfarandi:  „Byggingarfulltrúi ályktar að málið sé fullrannsakað og staðreyndir þess liggi fyrir.  Í því ljósi er sú tillaga sem fram kemur í bréfi byggingarfulltrúa dags. 9. desember 2009 hér með lögð fyrir skipulagsráð og lagt til að ráðið samþykki tillöguna og vísi henni til meðferðar borgarráðs sbr. ákv. 1. mgr. 57. gr. laga nr. 73/1997.“  Bókaði skipulagsráð eftirfarandi af þessu tilefni:  „Laufásvegur 68, bréf byggingarfulltrúa.  Lagt fram bréf byggingarfulltrúa dags. 1. febrúar 2010, varðar lóð nr. 68 við Laufásveg.  Bréfinu fylgir afrit af bréfi dags. 9. desember 2009, bréfi dags. 22. desember 2009, bréfi dags. 22 desember 2009 og bréfi dags. 5. janúar 2010. Bréf byggingarfulltrúa samþykkt.  Vísað til borgarráðs.“  Á fundi borgarráðs 4. febrúar 2010 var eftirfarandi bókað undir lið 3.  „Lögð fram fundargerð skipulagsráðs frá 3. febrúar. R10010027. B-hluti fundargerðarinnar samþykktur“.  Á fundi skipulagsráðs 10. febrúar 2010 var bókað undir lið 20.  „Laufásvegur 68, bréf byggingarfulltrúa (01.197.207) Mál nr. BN041009
Lagt fram bréf byggingarfulltrúa dags. 1. febrúar 2010, varðar lóð nr. 68 við Laufásveg. Bréfinu fylgir afrit af bréfi dags. 9. desember 2009, bréfi dags. 22. desember 2009, bréfi dags. 22 desember 2009 og bréfi dags. 5. janúar 2010.
Bréf byggingarfulltrúa samþykkt“.  Á fundi borgarráðs 11. febrúar 2010 var enn bókað undir lið 3:  „Lögð fram fundargerð skipulagsráðs frá 10. febrúar. R10010027 B-hluti fundargerðarinnar samþykktur“. Á fundi borgarráðs 18. febrúar 2010 var eftirfarandi loks bókað:  „Lagt fram bréf byggingarfulltrúa frá 11. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 10. s.m., þar sem lagt er til að eigendum fasteignarinnar að Laufásvegi 68 verði gefinn tímafrestur að viðlögðum dagsektum til að koma mannvirkjum á suðurhluta lóðarinnar til samræmis við samþykkta aðaluppdrætti. R10020045.  Samþykkt.“

Hinn 1. mars 2010 ritaði byggingarfulltrúi kæranda bréf þar sem honum var tilkynnt að á fundi borgarráðs 18. febrúar s.á. hefði verið samþykkt tillaga sem honum hefði áður verið kynnt með bréfi, dags. 9. desember 2009.  Samþykkt hafi verið að gefa honum 70 daga frest frá móttöku bréfsins til að koma mannvirkjum á suðurhluta lóðar að Laufásvegi 68 til þess horfs sem sýnt sé á samþykktum aðaluppdráttum frá 21. mars 2007 og jafnframt að fjarlægja útigeymslu sem staðsett sé utan byggingarreits í samþykktu deiliskipulagi.  Jafnframt hafi verið samþykkt að yrði frestur ekki virtur yrði beitt dagsektum, 25.000 krónur á hvern dag sem það kynni að dragast að vinna verkið.  Í lok bréfsins var kæranda leiðbeint um málskotsrétt. 

Skaut kærandi áðurnefndri ákvörðun borgarráðs til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er á því byggt að meðferð máls þessa af hálfu borgaryfirvalda hafi verið ólögmæt og með eindæmum ósanngjörn fyrir hann.  Málið virðist hafa hafist með bréfi eigenda Smáragötu 11, dags. 5. desember 2007, þar sem kvartað hafi verið undan ýmsum atriðum sem ekki hafi átt við rök að styðjast og verulegar rangfærslur settar fram um staðreyndir.  Kærandi hafi ekki verið upplýstur um þetta erindi fyrr en með bréfi, dags. 12. júní 2008, en þá hafi verið liðið ár frá lokum framkvæmda.  Þá fyrst hafi kærandi gert sér grein fyrir að borgaryfirvöldum hefðu borist kvartanir á umliðnum mánuðum.  Þegar lóðarhafar Smáragötu 11 hafi hótað borgaryfirvöldum með umboðsmanni Alþingis hafi verið farið af stað með miklum látum gegn kæranda og þess krafist að hann rannsakaði og upplýsti málið sjálfur og léti borgaryfirvöld vita hvaða mannvirki á lóðinni væru ekki í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti.  Í kjölfarið hafi verið ákveðið að endurupptaka eða breyta þeirri stjórnvaldsákvörðun sem tekin hefði verið um að samþykkja teikningar kæranda og veita honum leyfi fyrir mannvirkjunum.  Telji kærandi að engin lagaskilyrði séu fyrir hendi sem réttlæti slíkt og að sú málsmeðferð sem viðhöfð hafi verið standist ekki lög.

Málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar brjóti í nokkrum grundvallaratriðum gegn stjórnsýslulögum nr. 37/1993.  Þannig byggi ákvörðunin einungis á fullyrðingum byggingaryfirvalda, sem engin gögn styðji.  Ákvörðunin brjóti og gegn rannsóknarreglu 10. gr. sömu laga.  Séu til gögn um málið sem ákvörðunin byggi á og styðji málatilbúnað byggingaryfirvalda sé ljóst að andmælaréttur kæranda hafi gróflega verið brotinn enda hafi kærandi engin slík gögn fengið að sjá, þrátt fyrir beiðnir um að fá öll gögn málsins.  Þá sé hin kærða ákvörðun ekki í neinu samræmi við 12. gr. stjórnsýslulaga um meðalhóf.  Hún sé verulega íþyngjandi fyrir kæranda og feli í sér milljónatjón standi hún óhögguð.  Ekki geti talist réttlætanlegt að taka slíka íþyngjandi ákvörðun til að ná fram léttvægum hagsmunum eigenda Smáragötu 11, einkum þar sem túlkun byggingaryfirvalda um efnisatriði málsins byggi á hæpnum forsendum.  Meðferð málsins hafi tekið tæp þrjú ár hjá borgaryfirvöldum og kærandi hafi ekki verið upplýstur um málið fyrr en löngu eftir að það hafi verið hafið.  Sé því ljóst að við meðferð málsins hafi verið brotið gegn réttindum kæranda í grundvallaratriðum. 

Sérstaklega sé athugavert að þegar kærandi hafi gert tilraun til að sækja um byggingarleyfi fyrir þeim atriðum sem að mati byggingaryfirvalda hafi verið talin óleyfisframkvæmd hafi umsókninni verið hafnað á þeim forsendum að samþykki lóðareigenda Smáragötu 11 lægi ekki fyrir.  Kærandi bendi á að hann hafi ekki fengið upplýsingar um það hvaða lagarök lægju til grundvallar þeirri forsendu að samþykki lóðarhafa að Smáragötu 11 þyrfti að liggja fyrir áður en málið fengi frekari framgang, enda sé um að ræða framkvæmdir sem að öllu leyti séu innan lóðar kæranda.  Benda megi á fyrirliggjandi gögn um að lóðareigendur Smáragötu 11 telji sig vel geta sætt sig við hin umdeildu atriði.  Bréf þeirra frá 5. desember 2007 sé uppfullt af rangfærslum og fráleitum fullyrðingum, t.d. um að framkvæmdir á lóð kæranda komi í veg fyrir stækkun hússins að Smáragötu 11 til norðurs.  Kærandi telji að byggingaryfirvöld hafi gert sér far um að leggja stein í götu hans að tilefnislausu og sé hin kærða ákvörðun því byggð á annarlegum og ómálefnalegum forsendum. 

Hvað varði efni hinnar kærðu ákvörðunar þá sé mótmælt öllu því sem borgaryfirvöld hafi fært fram er lúti að verönd og svokallaðri geymslu á 1. hæð hússins við suðurhlið.  Staðreynd málsins sé sú að á samþykktum aðaluppdráttum hússins sé verönd sýnd með sama hætti og hún hafi verið frá því hún hafi verið byggð.  Á uppdráttunum sé breytingarlýsing þar sem fram komi að meðal þess sem sótt sé um séu „… steyptar svalir stækkaðar á 1. hæð (með geymslurými undir)“.  Bæði embætti byggingarfulltrúa og skipulags- og byggingarsvið borgarinnar hafi haldið því fram að „vangá“ byggingarfulltrúa hafi valdið samþykki skipulagsráðs og byggingarfulltrúa á umsókninni, þ.e. því hafi ekki verið veitt eftirtekt að rými væri undir svölunum.  Þrátt fyrir þessa fullyrðingu sé sérstaklega bókað í fundargerð byggingarfulltrúa við meðferð umsóknarinnar að sótt sé um „… að stækka nýsamþykktar svalir með geymslurými undir við suðurhlið 1. hæðar“.  Það stoði því ekki að borgaryfirvöld haldi því fram, líkt og gert sé í bréfi byggingarfulltrúa, dags. 12. júní 2010, að þetta hafi farið framhjá starfsmönnum skipulags- og byggingarsviðs, eða hafi verið vangá, líkt og komi fram í bréfi lögmanns borgarinnar, dags. 25. nóvember 2008.  Sú vangá geti að minnsta kosti ekki verið á ábyrgð kæranda.  Kærandi telji að byggingaryfirvöld hafi augljóslega verið að fullu meðvituð um að verið væri að samþykkja verönd sem þannig væri úr garði gerð að undir henni væri holrými.  Ekki hafi undir nokkrum kringumstæðum vakað fyrir kæranda að sækja eingöngu um geymslu og nýta þak hennar sem verönd, enda hafi umsókn hans um byggingarleyfi ekki verið þannig úr garði gerð. 

Þrátt fyrir framangreint komi fram í bréfi byggingarfulltrúa til skipulagsráðs, dags. 12. júní 2008, að mat hans sé það að utan byggingarreits hafi verið byggð útigeymsla og á þaki geymslunnar hafi verið byggð verönd í sömu hæð og gólf á 1. hæð hússins.  Með þessu sé öllum staðreyndum snúið á hvolf á þann hátt að í stað þess að um sé að ræða verönd, líkt og kærandi hafi sótt um og sýnd sé á samþykktum uppdráttum, hafi að mati byggingarfulltrúa verið byggð útigeymsla og verönd verið útbúin á þaki hennar.  Kærandi telji þetta mat byggingarfulltrúans ekki standast neina skoðun og sé alls ekki í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti.  Það holrými sem sé undir samþykktum svölum hússins nýti kærandi ekki á nokkurn hátt og sé lokað rými.  Ekki sé innangengt í það rými úr húsinu og teljist það því tæpast vera geymsla. 

Að mati kæranda hvíli á borgaryfirvöldum sönnunarbyrði fyrir því að það holrými sem sé undir samþykktri og teiknaðri verönd, sbr. aðaluppdrætti, sé í raun útigeymsla með verönd á þakinu en ekki verönd með holrými undir.  Borgaryfirvöld hafi hins vegar á engan hátt rökstutt þessa skoðun sína.  Kærandi bendi á og ítreki að umsókn hans hafi lotið að stækkun svala á suðurhlið hússins og að framkvæmdin sé í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti eins og hún sé úr garði gerð.  Kærandi byggi á því að svalirnar, eins og þær séu úr garði gerðar, stangist ekki á við gildandi deiliskipulag, enda sé fullkomlega heimilt að sækja um og stækka svalir með þeim hætti sem gert hafi verið.  Svalirnar séu ekki óleyfisframkvæmd og ákvörðun borgarráðs um að leggja fyrir kæranda að fjarlægja þær á þeim grundvelli að þær séu útigeymsla sé ólögmæt.  Beri þess vegna að fella ákvörðunina úr gildi. 

Því sé einnig mótmælt sem fram komi í ákvörðun borgarráðs um meinta óleyfishækkun lóðarinnar.  Því sé ekki mótmælt að lóðin hafi verið hækkuð lítið eitt í suðvesturhorni hennar.  Hins vegar sé því alfarið mótmælt sem röngu að allur suðurhluti lóðarinnar hafi verið hækkaður eins og fullyrt sé í bréfi byggingarfulltrúa til skipulagsráðs, dags. 12. júní 2008.  Hin kærða ákvörðun borgarráðs virðist hvíla á þessum ósannindum.  Því sé einnig mótmælt að hæðarlegu lóðar hafi verið breytt frá samþykktum aðaluppdráttum.  Sá hluti suðurlóðarinnar standi 50 cm hærra en áður og geri það vegna þess að hann sé steinsteyptur eins og ráð sé fyrir gert á samþykktum aðaluppdráttum.  Á samþykktum aðaluppdráttum sé umræddur hluti reyndar sýndur hellulagður og sérstaklega merktur þannig.  Hafi því óveruleg breyting orðið frá samþykktum aðaluppdráttum hvað varði það efni sem þeki umræddan lóðarhluta, en ávallt hafi verið gert ráð fyrir að þessi hluti væri þakinn með steyptu efni. 

Kærandi geti ekki fallist á að umrædd hækkun lóðarinnar sé ólögmæt.  Hin kærða ákvörðun byggi á því að suðvesturhorn lóðarinnar hafi verið hækkað umfram það sem sé leyfilegt.  Kærandi bendi hins vegar á að engin fyrirmæli séu um það í byggingarreglugerð eða annars staðar hver þau mörk séu sem kalli á útgáfu sérstaks leyfis fyrir framkvæmdinni.  Umrædd hækkun sé mjög afmörkuð og óveruleg og byggi kærandi á því að hann hafi ekki þurft sérstakt leyfi til hennar.  Bent sé á að engir hæðarkótar mæli fyrir um hæðarlegu lóðarinnar.  Því sé í raun ómögulegt fyrir borgaryfirvöld að byggja á því að lóðin sé ekki í réttri hæð, enda sé „rétt hæð“ lóðarinnar ekki til, hvorki samkvæmt gildandi deiliskipulagi eða samþykktum uppdráttum. 

Hæðarbreyting í horni lóðarinnar sé það óveruleg að langur vegur sé frá því að hún teljist byggingar- eða framkvæmdaleyfisskyld framkvæmd.  Embætti byggingarfulltrúa hafi engar mælingar framkvæmt á lóðinni við skoðun og hafi ekkert fyrir sér í því um hvaða hæðarbreytingar sé að ræða.  Því sé engu að síður slegið fram í bréfum embættisins að hækkunin nemi allt að einum metra.  Sé sú fullyrðing fráleit.  Sömuleiðis sé fráleit og ósönn sú fullyrðing byggingarfulltrúa að allur suðurhluti lóðarinnar hafi verið hækkaður.  Hæð lóðarinnar sé hin sama og áður.  Byggingarfulltrúi hefði getað gengið úr skugga um þetta með því að skoða ummerki á hinum steinsteypta vegg lóðarinnar og þá séð strax að lóðin sé í dag jafnhá og hún hafi verið fyrir.  Byggingarfulltrúi hafi hins vegar kosið að gera þetta ekki heldur rita bréf til skipulagsráðs þess efnis að líklega væri rétt að álykta, gegn neitun kæranda, að lóðin hafi verið hækkuð sem einhverju nemi.  Þessi ályktun byggingarfulltrúa sé með öllu órökstudd og ósönn.  Á slíkum ósönnum og órökstuddum fullyrðingum hvíli hin kærða ákvörðun, sem meðal annars valdi því að hún sé ólögmæt. 

Umrædd breyting á hæð lóðarinnar í horni garðsins sé að öllu leyti innan lóðar hans og hafi engin grenndaráhrif hvað eigendur Smáragötu 11 varði eða aðra nágranna.  Sérstaklega sé vísað til bréfaskrifa eigenda Smáragötu 11, sem hafi tekið það fram að fyrir þeim sé þessi framkvæmd aukaatriði og trufli þá ekki heldur sé veggur á lóðamörkum aðalatriðið.  Þetta megi m.a. ráð af tölvubréfi annars þeirra til kæranda hinn 26. maí 2010 þar sem segi orðrétt:  „Málið snýst að okkar mati fyrst og fremst um það hvernig frágangi á lóðamörkum verði háttað til að við [H] getum sætt okkur við óleyfilegar framkvæmdir ykkar megin.“  Umrædd hæðarbreyting sé óveruleg en hafi í för með sér að tröppuvirkið sem tengi svalirnar á húsi kæranda við garðinn sé minna í sniðum en ella væri þar sem tröppum í því hafi fækkað um ca. þrjár.  Mat byggingarfulltrúa og skipulags- og byggingarsviðs borgarinnar, sem hin kærða ákvörðun hvíli á, sé sú að þar sem færri tröppur séu í tröppuvirkinu, og það sé minna í sniðum en ella, sé um óleyfisframkvæmd að ræða. 

Kærandi mótmæli þeim sjónarmiðum sem hin kærða ákvörðun hvíli á.  Hann telji að heimilt hafi verið að hafa tröppuvirki á þeim stað sem samþykktir aðaluppdrættir sýni og þann fjölda trappa sem þar sé sýndur.  Hins vegar hafi kæranda verið fullkomlega heimilt að byggja ekki tröppuvirkið að fullu. Það sé honum í sjálfsvald sett hvort hann nýti þá heimild að fullu sem samþykkt hafi verið. 

Bent sé á að minna tröppuvirki hafi í för með sér minni grenndaráhrif.  Vísað sé til bréfa eigenda Smáragötu 11, sem telji þetta atriði sig engu skipta.  Kærandi telji að þegar litið sé til þess hversu smávægilegt atriði sé um að ræða, og að fyrir liggi skrifleg yfirlýsing eigenda Smáragötu 11 um að þetta atriði skipti þá engu, beri að hafna þeirri ákvörðun borgarráðs að kæranda verði gert að bæta við þeim þremur tröppum sem talið sé að vanti neðst á tröppuvirkið.  Slík niðurstaða væri í samræmi við meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga. 

Kærandi telji með ólíkindum hvernig einn lóðareigandi virðist geta þrýst á borgaryfirvöld um að beita þvingunarúrræðum í annarlegum tilgangi, til að knýja fram að kærandi leggi í framkvæmdir sem ekki sé deilt um í málinu, þ.e. að endurbyggja steinvegg sem ekki komi málinu við að neinu leyti.  Þvingunarúrræði þessi séu borgaryfirvöldum fengin með lögum til að beita í þágu almannahagsmuna.  Engir slíkir hagsmunir séu á ferðinni í þessu máli.  Það sé raunar þannig vaxið að þau meintu óleyfismannvirki sem málið lúti að snerti á engan hátt hagsmuni eigenda Smáragötu 11.  Þau hafi hvorki áþreifanleg né sjónræn áhrif á hagsmuni þessara aðila né nokkurra annarra og því séu engir grenndarhagsmunir í húfi í málinu sem réttlæti ákvörðun borgaryfirvalda.  Áréttað sé að eigendur Smáragötu 11 hafi ítrekað lýst því yfir að þeir sætti sig við þau mannvirki sem reist hafi verið, en þeirra markmið sé að knýja fram nýjan steinvegg milli garðanna. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er því haldið fram að fullyrðing kæranda þess efnis að honum hafi ekki verið kunnugt um aðfinnslur lóðarhafa Smáragötu 11 fyrr en með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 12. júní 2008, standist ekki neina skoðun.  Ljóst sé að kæranda hafi verið kunnugt um kvörtun eigenda Smáragötu 11 hinn 5. maí 2008, sbr. birtingarvottorð, dags. þann dag, en þá hafi honum verið birt bréf byggingarfulltrúa, dags. 28. apríl 2008, og honum veittur frestur til andmæla.  Hafi lögmaður kæranda sent byggingarfulltrúa bréf, dags. 14. maí 2008, sem svar við bréfi byggingarfulltrúa, dags. 28. apríl s.á. 

Kærandi hafi sjálfur kosið að upplýsa ekki hvaða atriði það væru sem ekki væru í samræmi við samþykkta uppdrætti og hafi lagt þá vinnu á herðar byggingarfulltrúa.  Í því sambandi sé minnt sérstaklega á 32. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 þar sem segi að byggingarstjóri beri ábyrgð á því að byggt sé í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir.  Með bréfi, dags. 11. júlí 2008, hafi kæranda einnig verið veittur 18 daga frestur til að tjá sig um bréf skipulags- og byggingarsviðs, dags. 12. júní s.á, en í bréfinu hafi verið lagt til að skipulagsráð fæli byggingarfulltrúa að óska eftir skýringum og afstöðu kæranda til fyrirætlana skipulagsráðs um að krefjast niðurrifs ólögmætra mannvirkja á lóðinni og að þeim fengnum yrði málið lagt fyrir skipulagsráð að nýju.  Þá hafi kæranda verið sent bréf skipulags- og byggingarsviðs til skipulagsráðs, dags. 12. júní 2008, þar sem öll efnisatriði málsins hafi komið fram og hann þar með upplýstur um hvaða framkvæmdir væri um að tefla sem teldust ekki í samræmi við samþykkta uppdrætti.  Það sé því mat Reykjavíkurborgar að málsmeðferð borgaryfirvalda hafi í einu og öllu verið í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga um andmælarétt. 

Þá sé það beinlínis rangt hjá kæranda að rannsóknarregla stjórnsýslulaga hafi verið brotin.  Mál þetta hafi þvert á móti verið rannsakað í þaula af byggingaryfirvöldum, m.a. með tveimur vettvangsrannsóknum byggingarfulltrúa, hinn 21. og 28. maí 2008, þar sem staðreynd hafi verið þau atriði sem ekki hafi þótt vera í samræmi við samþykkta uppdrætti.  Sérstaklega sé vísað til bréfs skipulags- og byggingarsviðs, dags. 12. júní 2008, þar sem skýrt komi fram þau atriði sem í ljós hafi komið við vettvangsskoðun, en í bréfinu segi m.a:  „1. Út fyrir byggingarreit deiliskipulags hefur verið byggð útigeymsla 0002, brúttóflötur 32,2 ferm. Gengur þessi geymsla 4 m út úr byggingarreit. Á þaki geymslunnar og samfellt að húsi er verönd í sömu hæð og gólf 1. hæðar hússins. 2. Í stað þess að útitröppum af verönd var ætlað að tengjast yfirborði lóðarinnar hefur lóðaryfirborð verið hækkað á u.þ.b. 47 ferm svæði þannig að steypt plata liggur nú ofan á lóðarvegg milli Laufásvegar 68 og Smáragötu 11. Er ætluð hækkun u.þ.b. 1 m. Þrátt fyrir neitun eigenda verður ekki annað ráðið af uppdráttum en hæðarlega allrar suðurlóðar hússins hafi verið raskað. Sjá snið A-A á uppdrætti 10-02. 3. Ekki var annað að sjá en stærðir á bílgeymslu séu í samræmi við ákv. deiliskipulags en þar er ekki getið um hæð hennar eða hæðarsetningu.“  Útigeymsla sé því öll utan byggingarreits og tröppuvirki sé í reynd átta tröppur en ekki þrettán eins og samþykktir uppdrættir beri með sér.  Ástæða þess að tröppum hafi fækkað svo sé augljós, þ.e. lóðin hafi verið hækkuð það mikið að ekki sé lengur þörf á þrettán tröppum.  Hafi hækkun lóðarinnar numið fimm tröppum eða sem nemi um einum metra.  Engum blöðum sé um það að fletta að hækkun lóðar og breyting á tröppuvirki sé hrein óleyfisframkvæmd. 

Því sé einnig mótmælt að réttur til andmæla hafi verið brotinn á kæranda.  Þvert á móti hafi hann fengið alla fresti sem óskað hafi verið eftir til að koma að sjónarmiðum sínum og öll gögn hafi verið kæranda aðgengileg.  Sé vandséð hvað kærandi eigi við með fullyrðingu sinni um að hann hafi ekki fengið gögn um málið þrátt fyrir óskir þar að lútandi.  Í gögnum málsins sé ekki að finna ósk frá kæranda um að fá gögn þess send, en embættið hefði að sjálfssögðu sent kæranda þau gögn sem hann hefði viljað fá.  Á það sé þó bent að aðalgögn málsins séu uppdrættir, samþykktir 21. mars 2007, sem stafi frá kæranda sjálfum.  Kæranda hafi ætíð verið haldið upplýstum og honum gerð grein fyrir því í smáatriðum hvaða aðfinnslur Reykjavíkurborg hefði uppi við framkvæmdir hans á lóðinni.  Hafi honum verið gefinn kostur á að svara þeim, bæði bréflega og á fundi með byggingarfulltrúa og lögfræðingi lögfræði- og stjórnsýslu.  Sé því vandséð hvaða gögn það séu sem kærandi telji að hann hafi ekki haft aðgang að.  Fullyrðingum kæranda um að ákvörðun Reykjavíkurborgar hafi verið tekin í annarlegum tilgangi, og á grundvelli ómálefnalegra sjónarmiða, sé algjörlega vísað á bug sem ósannri og ósannaðri og eigi hún ekki við nein rök að styðjast.  Staðreynd málsins sé sú að samkvæmt 2. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 beri að fjarlægja ólöglegar byggingar sem byggðar hafi verið í bága við skipulag.  Breyti þar engu þótt byggingarleyfi liggi til grundvallar framkvæmdunum, allt að einu beri að fjarlægja óleyfisbyggingar.  Í 3. mgr. 56. gr. laganna sé tekið fram að sveitastjórn sé beinlínis skylt að hlutast til um að óleyfisframkvæmdir séu fjarlægðar innan sex mánaða frá því að henni hafi orðið kunnugt um málið.  Að öðrum kosti beri Skipulagsstofnun að láta fjarlægja hin ólöglegu mannvirki á kostnað sveitarfélagsins. 

Hvað varði þá málsástæðu kæranda að um sé að ræða steyptar svalir með geymslu undir, en ekki útigeymslu eins og byggingaryfirvöld hafi haldið fram, þá breyti það í raun engu hvað rýmið sé kallað, enda sé það allt utan byggingarreits lóðarinnar og því utan skipulags.  Klárlega sé um að ræða steypt rými undir steyptum svölum, staðsett utan byggingarreits.  Ekki sé innangengt í rýmið úr húsinu, heldur sé gengið inn í geymsluna að utanverðu og sé því eðlilegt að álykta að um útigeymslu sé að ræða. 

Ekki hafi tíðkast að kótasetja hæðir lóða á þeim tíma er húsið hafi verið byggt fyrir sextíu til sjötíu árum.  Sú hæð sem lóðin hafi verið í áður en kærandi hafi ráðist í framkvæmdir hafi því verið rétt hæð lóðarinnar og sú hæð sem sátt hafi verið um í umhverfinu.  Ljóst sé að lóðin, eða a.m.k. hluti hennar, hafi verið hækkuð um u.þ.b. einn metra.  Í 66. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 sé skýrt kveðið á um að óheimilt sé að breyta hæðarlegu lóðar frá samþykktum uppdrætti nema að fengnu samþykki byggingarnefndar.  Verði ákvæðið ekki túlkað öðruvísi en svo en að allar lóðahækkanir séu byggingarleyfisskyldar, enda hvergi í reglugerðinni eða annars staðar kveðið á um neinar undanþágur frá ákvæðinu.  Hækkun á lóð kæranda sé auk þess svo umfangsmikil að ekki leiki neinn vafi á að um byggingarleyfisskylda framkvæmd sé að ræða og óumdeilt sé að kærandi hafi ráðist í að hækka lóðina án byggingarleyfis. 

Byggingaryfirvöldum beri skylda til að fjarlægja óleyfisframkvæmdir skv. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga óháð því hvort framkvæmdir klagi upp á aðra íbúa eður ei.  Ekki sé þó fallist á með kæranda að um framkvæmdir innan lóðar sé að ræða sem ekki hafi áhrif á hagsmuni eigenda aðliggjandi lóðar að Smáragötu 11 enda séu svalirnar beinlínis lagðar ofan á steyptan vegg á lóðamörkum Smáragötu 11 og Laufásvegar 68.

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 6. júlí 2011 að viðstöddum fulltrúum kæranda og fulltrúa byggingaryfirvalda í Reykjavík. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er kærð ákvörðun byggingaryfirvalda í Reykjavík um að beita þvingunarúrræðum gagnvart kæranda vegna framkvæmda við fasteign hans að Laufásvegi 68.  Samkvæmt tilkynningu byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 1. mars 2010, var honum annars vegar gert að koma mannvirkjum á suðurhluta lóðarinnar að Laufásvegi 68 til þess horfs sem sýnt væri á samþykktum aðaluppdráttum frá 21. mars 2007 og hins vegar að fjarlægja útigeymslu, sem staðsett væri utan byggingarreits í samþykktu deilskipulagi.  Var veittur 70 daga frestur til að ljúka verkinu að viðlögðum 25.000 króna dagsektum fyrir hvern dag sem verkið kynni að dragast fram yfir veittan frest.  Við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar vísaði byggingarfulltrúi til 56. og 57. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Samkvæmt nefndri 56. gr. gat byggingarnefnd ávallt mælt fyrir um að fjarlægja skyldi ólöglega byggingu eða byggingarhluta og skv. 57. gr. gat sveitarstjórn ákveðið að beita dagsektum væri fyrirmælum byggingarfulltrúa eða byggingarnefndar ekki sinnt innan þess frests sem ákveðinn væri af sveitarstjórn. 

Mjög er óljóst hvernig skipulagsráð Reykjavíkur, sem fer með vald byggingarnefndar samkvæmt lögunum, stóð að töku ákvörðunar um afskipti byggingaryfirvalda af meintum óleyfisframkvæmdum, en í bókun ráðsins um málið hinn 3. febrúar 2010 segir aðeins að lagt hafi verið fram bréf byggingarfulltrúa, dags. 1. febrúar 2010, varðandi lóð nr. 68 við Laufásveg.  Bréfinu fylgi afrit af bréfi dags. 9. desember 2009, tveimur bréfum dags. 22. desember 2009 og bréfi dags. 5. janúar 2010.  Síðan segir orðrétt:  „Bréf byggingarfulltrúa samþykkt.“  Málið var aftur tekið fyrir á fundi ráðsins 10. febrúar 2010 og orðrétt bókað um það á sama veg og á fundi ráðsins 3. febrúar 2010.  Verður ekki séð að ráðið hafi með þessum bókunum tekið afstöðu til erindis byggingarfulltrúa um að samþykkja tillögu hans um aðgerðir og vísa henni til borgarráðs, sem fram kom í bréfi hans til ráðsins 1. febrúar 2010.

Á fundi borgarráðs hinn 4. febrúar 2010 var lögð fram fundargerð skipulagsráðs frá 3. sama mánaðar og var B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.  Þá var fundagerð skipulagráðs frá 10. febrúar 2010 lögð fram á fundi borgarráðs hinn 11. sama mánaðar og B-hluti hennar staðfestur.  Sama dag ritaði byggingarfulltrúi bréf til borgarráðs þar sem rakið var að skipulagsráð hefði samþykkt tillögu hans um að eiganda Laufásvegar 68 yrði veittur 70 daga frestur, að viðlögðum 25.000 króna dagsektum að honum liðnum, til þess koma mannvirkjum á suðurhluta lóðarinnar til þess horfs sem sýnt væri á samþykktum aðaluppdráttum frá 21. mars 2007 og til að fjarlægja útigeymslu sem staðsett væri utan byggingarreits.  Tók borgarráð þetta bréf fyrir á fundi sínum hinn 18. febrúar 2010 og afgreiddi það með svofelldri bókun:  „Lagt fram bréf byggingarfulltrúa frá 11. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 10. s.m., þar sem lagt er til að eigendum fasteignarinnar að Laufásvegi 68 verði gefinn tímafrestur að viðlögðum dagsektum til að koma mannvirkjum á suðurhluta lóðarinnar til samræmis við samþykkta aðaluppdrætti. R10020045. Samþykkt“.  Kemur ekkert fram í bókun þessari um lengd frests eða fjárhæð dagsekta og verður ekki talið að afgreiðsla borgarráðs fullnægi skilyrðum 57. gr. skipulags- og byggingarlaga um að frestur og fjárhæð dagsekta skuli ákveðin af sveitarstjórn. 

Sem meintar óleyfisframkvæmdir nefnir byggingarfulltrúi í bréfi sínu hækkun lóðar og breytingar á tröppuvirki.  Hvað varðar fullyrðingar um breytta hæðarsetningu lóðar í suðvesturhorni hennar skal tekið fram að engin fyrirmæli eru um hæðarsetningu lóða í gildandi deiliskipulagi frá 8. maí 2006, þrátt fyrir ákvæði gr. 5.4.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, og fór breytt hæðarsetning því ekki í bága við skipulag.  Skortir jafnframt á að skorið sé úr um við hvað miða eigi hæðarsetninguna, en fullyrðingar byggingaryfirvalda um breytta hæðarsetningu suðurhluta lóðar svara því ekki nákvæmlega hvernig hún skuli vera að þeirra mati.  Steinsteypt plan í suðvesturhorni lóðar er sýnt sem hellulagt svæði á aðaluppdráttum og liggur ekki fyrir hver hefði verið rétt hæðarsetning þess svæðis miðað við samþykkta uppdrætti, en auk þess liggur ekki fyrir hver hafi verið hæðarlega lóðar á umræddu svæði áður en framkvæmdir hófust eða samkvæmt eldri uppdráttum.  Hvað svonefnt tröppuvirki varðar þá er það vissulega ekki byggt í samræmi við samþykkta uppdrætti en ekki hafa komið fram haldbær rök borgaryfirvalda fyrir því að ekki hafi verið hægt að samþykkja umsókn kæranda um þær breytingar sem á því höfðu verið gerðar enda ekki á því byggt af hálfu Reykjavíkurborgar að þessi byggingarhluti fari í bága við deiliskipulag svæðisins. 

Þá er í tillögu byggingarfulltrúa, sem hann telur borgarráð hafa samþykkt hinn 18. febrúar 2010, lagt til að kæranda verði gert að fjarlægja útigeymslu sem staðsett sé utan byggingarreits sunnan við hús hans.  Þessi geymsla er í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti og á þeim tíma sem hér skiptir máli var fyrir henni byggingarleyfi.  Gat hin kærða ákvörðun borgarráðs, sem einungis varðaði óleyfisframkvæmdir, því ekki tekið til þessarar geymslu.  Skiptir hér ekki máli þótt leyfi fyrir geymslunni hafi síðar verið afturkallað en mál um lögmæti þeirrar afturköllunar er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. 

Ef framfylgja ætti ákvörðunum byggingaryfirvalda í máli þessu, eins og þær hafa verið kynntar kæranda, fælist m.a. í því að breyta ætti tröppuvirki til samræmis við samþykkta uppdrætti, en jafnframt að fjarlægja þann byggingarhluta, útigeymsluna,  sem tröppurnar tengjast við.  Þá ætti einnig að koma heitum potti fyrir á þeim palli sem myndar þak útigeymslunnar sem fjarlægja á samkvæmt sömu ákvörðun.  Er þannig ljóst að hin kærða ákvörðun væri um margt óframkvæmanleg. 

Hafi hins vegar vakað fyrir byggingaryfirvöldum að aðeins ætti að fjarlægja veggi umræddrar útigeymslu en leyfa áfram svalir þær sem samþykktar voru ofan á geymslunni þá liggur ekki fyrir að gerð hafi verið rannsókn á því hvort burðarþol svalanna væri nægilegt til að slíkt væri mögulegt.  Skortir þannig bæði á skýrleika ákvörðunar og rannsókn máls hvað þetta varðar.

Loks telur úrskurðanefndin að ekki hafi verið rétt að gera kæranda með einni og sömu ákvörðun að færa meintar óleyfisframkvæmdir til rétts horfs og að fjarlægja byggingarhluta sem byggður hafði verið í samræmi við útgefið byggingarleyfi, enda hvíla ákvarðanir um þessi óskyldu atriði á afar ólíkum grunni.  Bar að haga málum svo að kærandi gæti leyst sig undan þeirri skyldu er laut að meintum óleyfisframkvæmdum án þess að þurfa jafnframt að gangast undir ákvörðun um að fjarlægja á eigin kostnað og ábyrgð mannvirki sem reist hafði verið í samræmi við útgefið byggingarleyfi.  Verður ekki fallist á að byggingaryfirvöldum hafi ekki mátt vera ljóst að umræddur byggingarhluti væri utan byggingarreits, enda er lína byggingarreits greinilega merkt á grunnmynd 1. hæðar á aðaluppdrætti, samþykktum 21. mars 2007. 

Eins og að framan er rakið er ákvörðun sú sem kærð er í máli þessu haldin verulegum annmörkum, bæði hvað varðar form og efni.  Verður að gera þá kröfu að íþyngjandi ákvarðanir um beitingu þvingunarúrræða séu skýrar og framkvæmanlegar og studdar málefnalegum rökum.  Þykir mikið á skorta að hin kærða ákvörðun fullnægi þessum skilyrðum og verður hún því felld úr gildi. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Felld er úr gildi ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 18. febrúar 2010 um að eiganda fasteignarinnar að Laufásvegi 68 verði gefinn frestur að viðlögðum dagsektum til að koma mannvirkjum á suðurhluta lóðarinnar til samræmis við samþykkta aðaluppdrætti.  Jafnframt falla niður áfallnar og áfallandi dagsektir sem lagðar hafa verið á með stoð í hinni kærðu ákvörðun, svo og vextir og kostnaður af innheimtu þeirra. 

__________________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________            _____________________________
Ásgeir Magnússon                                         Þorsteinn Þorsteinsson