Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

22/2010 Laugavegur

Ár 2011, miðvikudaginn 16. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 22/2010, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 16. mars 2010 um að synja umsókn um leyfi til að loka með slám fyrir aðkomu ökutækja að bílastæðum á bakvið húseignina nr. 86-94 við Laugaveg. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 15. apríl 2010, er barst nefndinni sama dag, kærir Á, f.h. stjórnar húsfélagsins að Laugavegi 86-94, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 16. mars 2010 að synja umsókn um leyfi til að loka með slám fyrir aðkomu ökutækja að bílastæðum á bakvið húseignina nr. 86-94 við Laugaveg.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 9. mars 2010 var tekin fyrir umsókn húsfélagsins að Laugavegi 86-94 þar sem sótt var um leyfi til að loka bílastæðum á baklóð greindrar lóðar með slám.  Var afgreiðslu málsins frestað og því vísað til umsagnar skipulagsstjóra.  Hinn 12. mars s.á. var umsóknin tekin fyrir á afgreiðslufundi hans og eftirfarandi bókað:  „Neikvætt. Samræmist ekki deiliskipulagi.“  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 16. s.m. var umsóknin afgreidd með svofelldri bókun:  „Synjað. Samræmist ekki deiliskipulagi.“  Staðfesti borgarráð afgreiðslu byggingarfulltrúa hinn 18. s.m. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er á því byggt að þegar leyfi hafi verið veitt fyrir byggingu hússins að Laugavegi 86-94 hafi á samþykktum teikningum verið sýndar slár bæði í innkeyrslu að baklóð hússins sem og bílakjallara í eigu Reykjavíkurborgar.  Hafi þetta fyrirkomulag meðal annars verið hugsað til þess að vernda aðgengi að einkabílastæðum íbúða á lóðinni.  Af hálfu bílastæðasjóðs hafi slárnar síðar verið færðar niður í kjallara.  Hafi þetta verið gert án þess að gerðar væru ráðstafanir til að einkabílastæði íbúða í húsinu yrðu vernduð.  Hvorki hafi verið sótt um þessa breytingu til byggingarnefndar né teikningum skilað inn svo sem skylt hafi verið.  Verið sé að rýra eign þeirra sem bílastæðin eigi, en almenningur og einkum nágrannar leggi bílum sínum í stæðin og hindri eigendur þeirra í að nota þau.  Hafi íbúar í nágrenninu ekki notkunarrétt á bílastæðum á lóðinni en benda megi á að engin bílastæði séu samþykkt á baklóðum húsa að Grettisgötu og Barónsstíg sem aðlæg séu lóðinni nr. 86-94 við Laugaveg.  Hindri slárnar í engu gönguleið að þeim lóðum og megi frekar telja að umrædd breyting auðveldi aðgengi íbúanna að lóðum sínum.  Þá bendi kærandi ennfremur á að slárnar hafi verið færðar án samþykkis meðeigenda bílastæðasjóðs að lóðinni nr. 86-94 við Laugaveg.  Slárnar hafi þegar verið settar upp í góðri trú.  Hafi það aðeins verið gert til að eigendur íbúða að Laugavegur 86-94 kæmust að bílastæðum sínum.  Gera verði þá kröfu að slárnar fái að vera þannig að eigendurnir verði ekki fyrir óþægindum þegar þeir ætli að leggja bílum sínum. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Borgaryfirvöld krefjast þess að kröfu kæranda verði hafnað.  Sé á því byggt að ekki hafi verið gert ráð fyrir því á samþykktum aðaluppdráttum lóðarinnar að aðkomu að baklóð Laugavegar 86-94 yrði lokað með slám, líkt og haldið hafi verið fram.  Fram komi á greindum uppdráttum að bílaplan á lóðinni skuli vera aðgengilegt fyrir slökkvilið og sorpbíla og sé kvöð um aðgengi að baklóðinni á uppdráttum. 

Ekki sé heldur heimild fyrir hliðlokunum í samþykktu deiliskipulagi fyrir skipulagsreitinn.  Í umræddu skipulagi, sem samþykkt hafi verið í borgarráði 30. apríl 2002, hafi fyrra ástandi á „opnu svæði“ í engu verið breytt gagnvart lóðarhöfum og aðgengi að baklóðum þeirra á engan hátt verið skert.  Hafi byggingarfulltrúa verið heimilt að synja umsókn um byggingarleyfi þar sem uppsetning slánna sé ekki í samræmi við deiliskipulag. 

Bent sé á að þegar hafi verið settar upp slár sem loki aðgengi að baklóðinni, en mannvirki af þessu tagi sé byggingarleyfisskylt samkvæmt ákvæðum 11. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998. 

Ekki verði heldur fallist á þau rök að íbúum Laugavegar 86-94 sé nauðsyn að loka aðgengi að baklóðinni til að verja bílastæði sín umfram aðrar lóðir í Reykjavík. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um réttmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúa að synja umsókn kæranda um að setja upp slár er loka fyrir umferð ökutækja annarra en íbúðareigenda Laugavegar 86-94 að bílastæðum á baklóð. 

Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag fyrir staðgreinireit 1.174.3.  Deiliskipulagið er að stofni til frá árinu 2002 en samþykktar hafa verið nokkrar breytingar á því.  Var m.a. sú breyting gerð á skipulaginu á árinu 2003 að heimilað var að byggja fjögurra hæða nýbyggingu á lóðinni nr. 86-94 við Laugaveg, auk bílgeymslu neðanjarðar á allt að fjórum hæðum undir nýbyggingunni og undir baklóð (bílastæði) Reykjavíkurborgar.  Samkvæmt greinargerð deiliskipulagsins frá 2002 er kvöð á greindri lóð þess efnis að göngustígur og akstursleið skuli vera að bílastæði á baklóð.  Segir þar einnig að gert sé ráð fyrir að bílastæðið verði endurgert og allt útlit þess bætt og verður ekki annað ráðið af skipulaginu en að umrætt bílastæði sé á sérgreindri lóð í eigu Reykjavíkurborgar.  Samræmist það ekki gildandi skipulagi að stýra aðkomu ökutækja að umræddu bílastæði á baklóð með slám og var byggingarfulltrúa því rétt að synja umsókn um leyfi til að loka henni með slám, sbr. 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Verður því hafnað kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 16. mars 2010, sem borgarráð staðfesti hinn 18. s.m., um að synja umsókn um leyfi til að loka með slám fyrir aðkomu ökutækja að bílastæðum á bakvið húseignina nr. 86-94 við Laugaveg. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

_________________________                   ________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson