Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

73/2011 Friðarstaðir

Ár 2011, miðvikudaginn 9. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 73/2011, kæra vegna dráttar á afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi fyrir hesthúsi í landi Friðarstaða í Hveragerði og á afgreiðslu skipulagsuppdráttar að nefndri jörð.  Þá er kærð auglýsing um gildistöku deiliskipulags fyrir Friðarstaði, í B-deild Stjórnartíðinda hinn 17. apríl 2009, sem staðfest hafði verið í bæjarstjórn Hveragerðisbæjar 18. júní 2002.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 22. september 2011, er barst nefndinni 27. s.m., framsendi innanríkisráðuneytið stjórnsýslukæru D, Friðarstöðum í Hveragerði, dags. 5. september 2011, þar sem kærður er dráttur á afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi fyrir hesthúsi í landi Friðarstaða og á afgreiðslu skipulagsuppdráttar að nefndri jörð.  Þá er kærð auglýsing um gildistöku deiliskipulags fyrir Friðarstaði, í B-deild Stjórnartíðinda hinn 17. apríl 2009, sem staðfest hafði verið í bæjarstjórn Hveragerðisbæjar 18. júní 2002.

Gerir kærandi þá kröfu að lagt verði fyrir sveitastjórn að taka fyrrgreint erindi til efnislegrar afgreiðslu og að úrskurðarnefndin felli nefnt deiliskipulag úr gildi. 

Málsatvik og rök:  Forsaga máls þessa er sú að hinn 3. nóvember 2008 sótti kærandi um byggingarleyfi til að breyta gróðurhúsi í landi umrædds býlis í hesthús fyrir allt að 24 hesta.  Skipulags- og byggingarnefnd bæjarins samþykkti hinn 2. desember s.á. að grenndarkynna umsóknina og bárust athugasemdir frá nágrönnum er lutu að því að hesthúsið yrði staðsett allt of nálægt íbúðarbyggð. 

Að lokinni grenndarkynningu var málið tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar 6. janúar 2009.  Urðu lyktir þess þær að nefndin hafnaði staðsetningu umrædds hesthúss samkvæmt fyrirliggjandi afstöðumynd með vísan til framkominna athugasemda.  Bæjarstjórn staðfesti þá afgreiðslu hinn 15. s.m.  Kærandi skaut þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar sem felldi hana úr gildi með úrskurði uppkveðnum hinn 24. júní 2011. 

Greindur úrskurður og byggingarleyfisumsókn kæranda var til umfjöllunar á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 5. júlí 2011 þar sem ákveðið var að leggja til við bæjarstjórn að taka deiliskipulag Friðarstaða til endurskoðunar í samráði við ábúendur jarðarinnar.  Bæjarráð samþykkti þá afgreiðslu í umboði bæjarstjórnar á fundi 21. júlí s.á. 

Kærandi bendir á að í stað þess að afgreiða fyrirliggjandi umsókn hans um byggingarleyfi fyrir hesthúsi í landi Friðarstaða eftir nefndan úrskurð sé málinu drepið á dreif með tilvísan til áforma um nýtt deiliskipulag fyrir jörð hans.  Fyrir liggi uppdráttur kæranda frá árinu 2009 sem feli í sér tillögu að breytingum á skipulagi jarðarinnar.  Sá uppdráttur hafi verið til umfjöllunar á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 11. maí 2010 án þess að fá efnislega afgreiðslu og málið hafi ekki heldur fengið umfjöllun eftir að áðurgreindur úrskurður úrskurðarnefndarinnar hafi fallið.  Gildandi deiliskipulag fyrir Friðarstaði frá árinu 2002 hafi ekki öðlast gildi fyrr en með auglýsingu þar um í apríl 2009 en þá hafi deiliskipulagið ekki verið í samræmi við aðalskipulag vegna breytinga sem gerðar hefðu verið á aðalskipulaginu á árinu 2006.  Af þeim sökum beri að ógilda deiliskipulagið.  Þá gerir kærandi athugasemdir við stjórnsýslu- og samskiptahætti byggingarfulltrúa við meðferð byggingarleyfisumsóknar hans.

Af hálfu Hveragerðisbæjar er vísað til þess að umdeild byggingarleyfisumsókn kæranda hafi verið tekin fyrir í skipulags- og byggingarnefnd í kjölfar fyrrnefnds úrskurðar úrskurðarnefndarinnar, eða hinn 5. júlí 2011, og hafi bæjarráð samþykkt tillögu um endurskoðun deiliskipulags fyrir Friðarstaði 21. s.m.  Skipulags- og byggingarnefnd hafi síðan hinn 7. september 2011 lagt til við bæjarstjórn að synja umsókn kæranda um leyfi fyrir byggingu hesthúss með vísan til afgreiðslu á fundi nefndarinnar 5. júlí s.á. og hafi bæjarstjórn samþykkt þá synjun 8. september 2011.  Málsmeðferð tillögu, sem hafi falið í sér hugmyndir kæranda að skipulagi Friðarstaða, hafi verið frestað, m.a. þar sem beðið hafi verið úrskurðar úrskurðarnefndarinnar um áðurnefnda byggingarleyfisumsókn.  Þegar úrskurðurinn hafi legið fyrir hafi verið ákveðið að vinna að endurskoðun á deiliskipulagi Friðarstaða og sé sú vinna þegar hafin.  Sé þar m.a. höfð hliðsjón af hugmyndum kæranda.  Núgildandi deiliskipulag Friðarstaða frá árinu 2002 hafi á sínum tíma verið sett til þess að koma til móts við óskir kæranda um nýtt íbúðarhús og endurnýjun gróðurhúsa.  Fyrir mistök hafi gildistaka skipulagsins ekki verið auglýst fyrr en 17. apríl 2009.  Með fyrrnefndri endurskoðun skipulagsins verði eldra deiliskipulag fellt úr gildi eins og kærandi krefjist nú.  Önnur atriði í kæru máls þessa snúist um tölvupóstsamskipti byggingarfulltrúa og starfsmanns verkfræðistofu sem unnið hafi fyrir kæranda og feli þau ekki í sér stjórnvaldsákvarðanir. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er unnt að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til.  Á þessi heimild við um þau kæruatriði í máli þessu sem lúta að meðferð á umsókn kæranda um byggingarleyfi fyrir hesthúsi í landi Friðarstaða í Hveragerði frá 3. nóvember 2008 og meðferð tillögu hans að nýju deiliskipulagi fyrir nefnt lögbýli, sem tekin var fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar Hveragerðisbæjar 11. maí 2010.

Umsókn kæranda um fyrrgreint byggingarleyfi var hafnað á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 6. janúar 2009 og var sú afgreiðsla staðfest í bæjarstjórn 15. s.m.  Úrskurðarnefndin felldi þá ákvörðun úr gildi með úrskurði uppkveðnum 24. júní 2011.  Í kjölfar þess var umsóknin tekin til umfjöllunar og liggur nú fyrir að henni var hafnað á fundi bæjarstjórnar 8. september s.á.  Verður því ekki tekin afstaða til dráttar á afgreiðslu þeirrar umsóknar í máli þessu. 

Umfjöllun um tillögu kæranda að skipulagi Friðarstaða var frestað á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 11. maí 2010 en þá var beðið úrskurðar í kærumálinu vegna synjunar á fyrrnefndri umsókn kæranda um byggingarleyfi.  Eftir að niðurstaða málsins lá fyrir var hinn 5. júlí 2011 tekin ákvörðun um að endurskoða deiliskipulag Friðarstaða og mun vinna við þá endurskoðun þegar vera hafin.  Í ljósi málsatvika, og þess að undirbúningur og meðferð skipulagstillagna getur tekið nokkurn tíma, verður ekki talið að óhæfilegur dráttur hafi verið orðinn á afgreiðslu umræddrar tillögu þegar kæra barst úrskurðarnefndinni.

Samkvæmt 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. og 59. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, sæta stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga kæru til úrskurðarnefndarinnar og er kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra á.  Upphaf kærufrests miðast við lögmælta opinbera birtingu ákvörðunar skv. 2. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga.  Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá skv. 1. mgr. 28. gr. laganna nema að afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar.  Í 2. mgr. ákvæðisins er þó tekið fram að kæra verði ekki tekin til meðferðar ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.  Hin kærða ákvörðun um að auglýsa gildistöku deiliskipulags fyrir Friðarstaði í B-deild Stjórnartíðinda hinn 17. apríl 2009 var tekin rúmum tveimur árum og fjórum mánuðum áður en kæra barst í máli þessu og leiðir af tilvitnuðum ákvæðum að málið verður ekki tekið til efnismeðferðar hjá úrskurðarnefndinni. 

Einn liður máls þessa snýst um málsmeðferð byggingarfulltrúa Hveragerðisbæjar við undirbúning afgreiðslu fyrrgreindrar byggingarleyfisumsóknar kæranda.  Er þar um að ræða tölvupóstssamskipti byggingarfulltrúa við starfsmann verkfræðistofu, sem vann í þágu kæranda í tengslum við umrædda umsókn.  Verður ekki talið að í þeim felist stjórnvaldsákvarðanir sem bera megi undir úrskurðarnefndina.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður máli þessu vísað í heild sinni frá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                   Þorsteinn Þorsteinsson