Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

8/2010 Háholt

Með

Ár 2011, föstudaginn 30. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 8/2010, kæra á synjun bæjarráðs Mosfellsbæjar frá 28. janúar 2010 á beiðni um breytingu á lóðamörkum Háholts 20 og 22 í Mosfellsbæ. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 24. febrúar 2010, er barst nefndinni 25. s.m., kærir Ragnheiður Þorkelsdóttir hdl., f.h. K, Háholti 24, Mosfellsbæ, synjun bæjarráðs Mosfellsbæjar frá 28. janúar 2010 á beiðni um breytingu á lóðamörkum Háholts 20 og 22 í Mosfellsbæ.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Aðdragandi máls þessa er sá að hinn 26. júní 1954 tók kærandi á leigu landsspildu í eigu Mosfellshrepps undir verslunarhús og söluskála.  Hann tók síðan á leigu viðbótarlóð, austan fyrrgreindrar landspildu, hinn 9. maí 1963, sem svarar nú til lóðanna nr. 16, 18, 20, 22 og 24 við Háholt í Mosfellsbæ.  Leigusamningar nefndra lóða voru endurnýjaðir hinn 19. febrúar 1998. 

Með kaupsamningi, dags. 7. apríl 1998, seldi kærandi einbýlishús að Háholti 20, ásamt lóðarréttindum.  Samkomulagi milli kaupenda og seljanda var þinglýst og fól það í sér að seljandi héldi eftir átta metra breiðri spildu á suðurmörkum lóðarinnar.  Í samkomulaginu kom einnig fram að seljandi stefndi að því að fá samþykki bæjaryfirvalda í Mosfellsbæ til að sameina framangreindan syðsta hluta lóðarinnar að Háholti 20 lóðinni nr. 22 við Háholt.  Kaupendur seldu síðan eignina í nóvember 1999 til núverandi þinglýstra eigenda. 

Með bréfi, dags. 27. september 2007, var kæranda tilkynnt að til stæði að breyta deiliskipulagi miðbæjar Mosfellsbæjar og þyrfti bærinn af þeim sökum að nýta heimild sína í lóðarleigusamningum til að leysa til sín tilteknar lóðir kæranda við Háholt.  Var þessari fyrirætlan mótmælt af hálfu kæranda.  Í ágústmánuði 2008 fór kærandi fram á að lóðamörkum milli Háholts 20 og 22 yrði breytt á þann veg að fyrrgreind átta metra spilda úr lóðinni að Háholti 20 yrði lögð undir lóðina að Háholti 22.  Hinn 4. september s.á. samþykkti bæjarráð Mosfellsbæjar innlausn lóðanna nr. 16, 18 og 22 við Háholt með stoð í 12. gr. lóðarleigusamninga um lóðirnar en ákvað að bíða með ákvörðun um lóðamörk Háholts 20 og 22 þar til málalyktir lægju fyrir um innlausnina.  Sú ákvörðun var staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 10. sama mánaðar. 

Í kjölfar þessa var kæranda tilkynnt um afgreiðslu bæjarstjórnar og var Sýslumanninum í Reykjavík sent erindi þess efnis að umræddir lóðarleigusamningar yrðu afmáðir úr þinglýsingarbókum á grundvelli 39. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978.  Með úrlausn þinglýsingarstjóra, dags. 4. febrúar 2009, var þeirri beiðni hafnað þar sem ekki væru forsendur til þess að aflýsa umræddum lóðarleigusamningnum á grundvelli þeirra gagna sem fyrir lægju í málinu.  Héraðsdómur staðfesti þá niðurstöðu sýslumanns með úrskurði uppkveðnum 26. mars 2010 og Hæstiréttur staðfesti þann úrskurð héraðsdóms með dómi uppkveðnum 30. apríl s.á. 

Kærandi fór ítrekað fram á að umsókn hans um áðurgreinda breytingu á lóðamörkum Háholts 20 og 22 fengi efnislega afgreiðslu og hinn 28. janúar 2010 synjaði bæjarráð umsókninni með sömu rökum og lágu að baki afgreiðslu ráðsins á erindinu hinn 4. september 2009.  Hafa kærendur skotið þeirri synjun til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Til stuðnings ógildingarkröfu sinni vísar kærandi til þess að bæjaryfirvöldum sé ekki stætt á að synja erindi hans um breytt lóðamörk á grundvelli þess að til staðar sé ágreiningur milli aðila um beitingu 12. gr. lóðarleigusamninga um lóðirnar að Háholti 16, 18 og 22.  Bæjaryfirvöldum sé skylt að taka efnislega afstöðu til erindisins, óháð öðrum ágreiningi aðila, enda séu málin ótengd.  Beiðni um breytingu á lóðamörkum byggi á kaupsamningi sem gerður hafi verið árið 1998 um einbýlishúsið Háholt 20 ásamt tilheyrandi lóðarleiguréttindum. 

Ómálefnanleg rök liggi að baki synjun bæjarráðs.  Synjunin byggi eingöngu á þeirri staðreynd að annar ágreiningur sé til staðar milli aðila og því sé ekki unnt að fallast á erindið.  Beiðni um breytingu á lóðamörkum byggi á atvikum sem hafi átt sér stað löngu áður en ágreiningur aðila um 12. gr. lóðarleigusamninganna hafi komið upp.  Kærandi sé ennþá eigandi lóðarinnar að Háholti 22 og það varði hagsmuni hans miklu, sem og hagsmuni eiganda fasteignarinnar að Háholti 20, að bæjaryfirvöld taki erindi hans til málefnalegrar skoðunar.  Hin kærða ákvörðun sé ekki rökstudd með fullnægjandi hætti og hafi kærandi óskað eftir frekari rökstuðningi á grundvelli 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Málsrök Mosfellsbæjar:  Af hálfu bæjaryfirvalda er vísað til þess að ágreiningur um heimild Mosfellsbæjar til að leysa til sín lóðir að Háholti, sem m.a. hafi varðað lóðina Háholt 22, hafi verið kominn upp þegar kærandi hafi óskað þess að lóðamörkum milli Háholts 20 og 22 yrði breytt.  Á sínum tíma hafi ekki þótt rétt að taka afstöðu til þeirra breytinga á lóðamörkum sem falist hafi í umsókn kæranda og hafi honum verið tilkynnt um frestun á afgreiðslu málsins þar til ferli varðandi nýtingu á 12. gr. umræddra lóðarleigusamninga um innlausn lóða við Háholt væri lokið. 

Mosfellsbær vísar til þess að vegna ítrekana kæranda á að umrætt erindi yrði tekið til efnislegrar meðferðar hafi beiðnin um breytingu á lóðamörkum verið tekin fyrir á fundi bæjarráðs hinn 28. janúar 2010 þar sem bæjarráð hafi samþykkt að synja erindi um breytingu á mörkum lóðanna Háholts 20 og 22.  Synjunin hafi verið rökstudd með vísan til beitingar Mosfellsbæjar á 12. gr. lóðarleigusamninga vegna lóða nr. 16, 18 og 22 við Háholt, svo og þess útburðarmáls sem þá hafi verið rekið fyrir dómstólum varðandi þær lóðir.  Þegar erindi kæranda hafi verið synjað hafi í raun verið óútkljáð hver færi með réttindi til lóðarinnar nr. 22 og hefði þar með hagsmuni af því hvernig lóðamörkum þar væri hagað. 

Fyrir liggi að beiðni kæranda um breytingu á lóðamörkum varði bæði Háholt 20 og 22.  Ljóst sé að kærandi sé ekki lóðarhafi að lóð nr. 20 svo sem fram komi í kæru.  Jafnframt telji Mosfellsbær að heimild 12. gr. gildandi lóðarleigusamnings til að leysa til sín lóðina að Háholti 22 hafi verið beitt með lögmætum hætti.  Samkvæmt þessu sé staðan sú að kærandi krefjist þess að mörkum á milli tveggja lóða, sem hann eigi ekki réttindi yfir, verði breytt.  Það sé eitt af grunnskilyrðum þess að Mosfellsbær geti orðið við beiðni um breytingu á lóðamörkum að beiðnin stafi frá lóðarhöfum viðkomandi lóða.  Á meðan ágreiningur um það sé óútkljáður hafi Mosfellsbær ekki getað tekið beiðni kæranda til efnislegrar skoðunar og því hafi bærinn orðið að synja erindi hans um breytingu á umræddum lóðamörkum.  Samkvæmt þessu sé því hafnað að um ótengd mál sé að ræða.  Í ljósi málsatvika hafi málefnaleg sjónarmið búið að baki synjunar bæjarins á beiðni kæranda. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er krafist ógildingar á synjun bæjarráðs Mosfellsbæjar frá 28. janúar 2010 um breytingu á lóðamörkum milli Háholts 20 og 22 í Mosfellsbæ. 

Samkvæmt 30. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem voru í gildi við töku hinnar kærðu ákvörðunar, ákveður sveitarstjórn skiptingu landa, lóða og breytingar á lóðamörkum.  Stærðir og mörk nefndra lóða koma fram á mæliblaði árituðu af byggingarfulltrúa hinn 21. júlí 1997 og um lóðirnar gilda lóðarleigusamningar, dags. 19. febrúar 1998, þar sem vísað er til nefnds mæliblaðs.

Fyrir liggur að ástæða Mosfellsbæjar fyrir höfnun á erindi kæranda um breytt lóðamörk var fyrirhuguð breyting á deiliskipulagi miðbæjar Mosfellsbæjar og innlausn á lóðunum samkvæmt heimild í gildandi lóðarleigusamningum af því tilefni.  Verður því að telja að hin til grundvallar hinni kærðu ákvörðun hafi legið lögmæt og málefnaleg sjónarmið.  Þá fólst í raun í erindi kæranda beiðni um breytingu á tvíhliða samningum um leigu umræddra lóða og verður ekki séð að kærandi hafi átt lögvarinn rétt til þess að knýja fram breytingar á þeim í andstöðu við vilja viðsemjanda síns.  Var bæjaryfirvöldum einnig af þeirri ástæðu rétt að synja erindi kæranda.

Með vísan til þess sem rakið hefur verið verður ekki fallist á ógildingarkröfu kæranda í máli þessu.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu synjunar bæjarráðs Mosfellsbæjar frá 28. janúar 2010 á beiðni um breytingu á lóðamörkum Háholts 20 og 22 í Mosfellsbæ.

________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson

2/2010 Stuðlaberg

Með

Ár 2011, föstudaginn 7. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 2/2010, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 9. desember 2009 um að hafast ekki frekar að vegna kröfu kærenda um að geymsluskúr á mörkum lóðanna nr. 62 og 64 við Stuðlaberg verði fjarlægður.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 10. janúar 2010, er barst nefndinni 11. s.m., kæra G og H, Stuðlabergi 62 í Hafnarfirði, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 9. desember 2009 að hafast ekki frekar að vegna kröfu kærenda um að geymsluskúr á mörkum lóðanna nr. 62 og 64 við Stuðlaberg verði fjarlægður.  Hin kærða ákvörðun var staðfest í bæjarstjórn hinn 22. desember 2009.

Málavextir:  Kærendur eru eigendur að fasteigninni nr. 62 við Stuðlaberg í Hafnarfirði.  Sumarið 2009 fóru þau fram á við bæjaryfirvöld að geymsluskúr á lóðamörkum Stuðlabergs 62 og 64 yrði fjarlægður, en skúrinn tilheyrir Stuðlabergi 64. 

Hinn 11. júní 2009 var mál kærenda tekið fyrir á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar og óskaði hann eftir að eigandi Stuðlabergs 64 gerði grein fyrir heimildum fyrir hinum umdeilda skúr og framkvæmdum við hann á lóðamörkum.  Svar barst frá eiganda skúrsins 4. ágúst sama ár þar sem fram kemur að skúrinn hafi staðið á lóðinni um áraraðir og að engar athugasemdir hafi komið fram fyrr en á árinu 2009. 

Hinn 28. október 2009 gerði skipulags- og byggingarfulltrúi eiganda skúrsins skylt að fjarlægja hann innan fjögurra vikna, eða færa hann frá lóðarmörkum sem svaraði mænishæð hans, og sækja um byggingarleyfi.  Var sú ákvörðun staðfest í bæjarstjórn Hafnarfjarðar hinn 10. nóvember s.á.  Eigandi skúrsins kom á framfæri frekari athugasemdum á fundi með skipulags- og byggingarfulltrúa hinn 2. desember s.á.  Í kjölfar þess ákvað skipulags- og byggingarfulltrúi á afgreiðslufundi hinn 9. desember 2009 að hafast ekki frekar að í málinu. 

Málsrök kærenda:  Kærendur krefjast þess að ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa um að fjarlægja skúrinn af lóðamörkum Stuðlabergs 62 og 64 skuli standa.  Skúrinn sé kærendum til ama og þurfi þau að hluta til að halda honum við.  Einnig safnist mikið af pöddum og köngulóm undir skyggninu á skúrnum, sem viti að lóð kærenda.  Þá hafi eigandi skúrsins meinað kærendum að hengja blómapotta utan á skúrinn, en málið hafi snúist um það frá upphafi. 

Engar samþykktir séu fyrir  skúrnum og hann sé því í algeru óleyfi.  Loks sé bent á að ekki sé farið rétt með staðreyndir varðandi skúrinn af hálfu eigenda Stuðlabergs 64.

Málsrök eigenda að Stuðlabergi 64:  Eigendur Stuðlabergs 64 benda á að hinn umdeildi skúr hafi verið tilgreindur í kaupsamningi þegar þau hafi keypt húsið árið 2002.  Skúrinn hafi verið byggður á árunum 1994-1996 samkvæmt upplýsingum frá fyrri eiganda hússins, en núverandi eigendur Stuðlabergs 62 hafi þá búið í húsinu og verið í fullum rétti til að mótmæla byggingu skúrsins.  Engin mótmæli hafi hins vegar borist fyrr en í byrjun júní 2009.

Sama dag og bréf hafi borist frá skipulags- og byggingarfulltrúa hafi eigendur Stuðlabergs 64 átt orð við annan eigenda Stuðlabergs 62 til að fá útskýringar á málinu og hafi þá komið í ljós að ástæða deilunnar væri aðallega sú að kærendur teldu að þeim hefði verið meinað að hengja blómapotta á gafl skúrsins.  Sú ástæða væri hins vegar á misskilningi byggð.  Rangt sé að kofinn sé 2,4 m á hæð heldur sé hann 2,2 m frá steyptum grunni.  Hægt sé að minnka þakkant og fjarlægja torfþak og setja bárujárn í staðinn og myndi skúrinn þá lækka um 10 cm. 

Loks sé bent á að kofinn sé ekki fyrir eigendum Stuðlabergs 62 að neinu leyti, hvorki varðandi sól né útsýni.  Fallist sé á að leyfa blómapotta við kofann og fjarlægja þakkant en ekki sé hægt að lækka skúrinn líkt og kærendur óski eftir að gert verði.

Málsrök Hafnarfjarðar:  Bæjaryfirvöldum var gefinn kostur á að tjá sig um málið en engar athugasemdir bárust úrskurðarnefndinni.  Af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að bæjaryfirvöld byggi á því að á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa hinn 9. desember 2009 hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að þar sem skúrinn hefði staðið á lóðamörkum í allmörg ár, án þess að athugasemd hefði verið gerð við hann, jafngilti það samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar, sbr. grein 67.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998.  Af þeim sökum hafi byggingarfulltrúi ákveðið að hafast ekki frekar að í málinu.

Niðurstaða:  Í kröfu kærenda felst að sveitarfélaginu verði gert að beita úrræði 56. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 til að umræddur skúr verði fjarlægður.  Samkvæmt hinni kærðu ákvörðun hyggjast bæjaryfirvöld ekki verða við kröfum um að skúrinn verði fjarlægður með stoð í tilvitnaðri 56. gr.  Verður jafnframt að telja að með hinni kærðu ákvörðun hafi byggingarfulltrúi tekið upp fyrri ákvörðun í málinu og breytt henni, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt 5. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga var byggingarnefnd heimilt að mæla fyrir um niðurrif óleyfisbygginga.  Var ákvörðun um beitingu þess þvingunarúrræðis háð mati hverju sinni.  Hlýtur slíkt mat fyrst og fremst að byggjast á almannahagsmunum og skipulagsrökum en einstaklingum eru tryggð önnur réttarúrræði til að verja einkaréttarlega hagsmuni.

Hin umdeilda ákvörðun er einkum studd þeim rökum að fyrir liggi að skúrinn hafi staðið um árabil á lóðinni að Stuðlabergi 64, án athugasemda eigenda Stuðlabergs 62.   Verður að telja, með hliðsjón af greindum atvikum og lagasjónarmiðum, að málefnaleg rök hafa búið að baki þeirri ákvörðun bæjaryfirvalda að beita ekki þvingunarúrræði 56. gr. skipulags- og byggingarlaga til niðurrifs umdeilds skúrs. Verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð: 

Kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar er hafnað.

_______________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson

43/2011 Hagi

Með

Ár 2011, föstudaginn 2. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 43/2011, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Vesturbyggðar frá 13. maí 2011 um að veita byggingarleyfi fyrir stálgrindarhúsi undir ferðaþjónustutengda starfsemi, tengda íslenskum landbúnaði, á spildu sveitarfélagsins úr landi Haga á Barðaströnd, vestan árinnar Móru í Mórudal.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 16. júní 2011, er barst nefndinni 21. s.m., kærir Ó, f.h. eigenda jarðarinnar Kross, Vesturbyggð, ákvörðun bæjarstjórnar Vesturbyggðar frá 13. maí 2011 um að veita byggingarleyfi fyrir stálgrindarhúsi undir ferðaþjónustutengda starfsemi, tengda íslenskum landbúnaði, á spildu sveitarfélagsins úr landi Haga á Barðaströnd, vestan árinnar Móru í Mórudal.

Krefjast kærendur þess að hin kærða ákvörðun verið felld úr gildi og að kveðinn verði upp bráðabirgðaúrskurður um stöðvun framkvæmda meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Var byggingarfulltrúa þegar gert viðvart um framkomna kröfu um stöðvun framkvæmda en af hans hálfu var upplýst að hann hefði ekki veitt heimild til að hefja framkvæmdir við bygginguna.  Síðar, eða hinn 26. júlí 2011, bárust úrskurðarnefndinni upplýsingar um að umdeild bygging hefði verið reist en það mun hafa verið gert án vitundar eða samþykkis byggingarfulltrúa og án lögboðinna úttekta af hans hálfu.  Stöðvaði byggingarfulltrúi framkvæmdir við bygginguna þegar honum varð um þetta kunnugt og eru af þessum sökum ekki efni til að taka kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til úrlausnar.

Málavextir:  Upphaf málsins má rekja til ársins 2006, en á fundi skipulags- og byggingarnefndar Vesturbyggðar hinn 29. júní það ár var tekin fyrir umsókn frá Móru ehf. um 1,4 ha lóð á iðnaðarsvæði við ána Móru fyrir ferðaþjónustu á Barðaströnd.  Nefndin tók jákvætt í erindið en benti á að rétt væri að auglýsa umrædda lóð.  Skipulags- og byggingarnefnd tók málið fyrir að nýju á fundi sínum hinn 8. febrúar 2008.  Bókaði nefndin að ekki hefði verið farið að tillögu hennar um að auglýsa lóðina en samþykkti að umsækjandi fengi lóð á umræddum stað fyrir starfsemi sína og nýtti sökkulveggi sem þar væru fyrir ef unnt væri.  

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 21. september 2010 var tekin fyrir umsókn Móru ehf. um byggingarleyfi fyrir stálgrindarhúsi á áður steyptum grunni vestan Móru undir ferðaþjónustutengda starfsemi tengda íslenskum landbúnaði.  Samþykkti nefndin fyrir sitt leyti byggingu hússins með fyrirvara um fullnægjandi hönnunargögn, meðmæli Skipulagsstofnunar og grenndarkynningu.   Á fundi nefndarinnar 10. mars 2011 var lagt fram bréf umhverfisráðuneytis um undanþágu frá kröfu um fjarlægð frá vegi og svar Skipulagsstofnunar um að stofnunin gerði ekki athugasemdir við byggingu umrædds gripahúss á þessum stað.  Jafnframt var  bókað: „Þar sem ekki hefur tekist að fá áritun allra nágranna til samþykkis verður grenndarkynning að fara fram áður en afstaða verður tekin til byggingarleyfis.“ 

Hinn 17. mars 2011 ritaði byggingarfulltrúi bréf til þeirra er málið varðaði.  Sagði í bréfinu að grenndarkynning ætti ekki við en hagsmunaaðilum væri þó gefinn kostur á að koma að athugasemdum.  Meðfylgjandi þessu bréfi voru svör Skipulagsstofnunar og umhverfisráðuneytis.  Samkvæmt bréfi Skipulagsstofnunar hafði Vesturbyggð sótt um meðmæli stofnunarinnar 27. september 2009 og var lóðin þá sögð vera iðnaðarlóð.  Skipulagsstofnun ritaði sveitarfélaginu bréf 14. október s.á. og óskaði eftir rökstuðningi fyrir því hvernig framkvæmdin samræmdist landnotkun samkvæmt gildandi aðalskipulagi.  Í svari frá Vesturbyggð hinn 22. nóvember 2009 kom fram að villa væri í aðalskipulagi varðandi uppgefnar stærðir á tveimur iðnaðarlóðum, en þær væru í raun 0,3 ha en ekki 3 ha.  Væri svæðið þar sem fyrirhuguð bygging ætti að rísa því landbúnaðarsvæði.

Á fundi bæjarstjórnar Vesturbyggðar hinn 23. mars 2011 var fundargerð skipulags- og bygginganefndar frá 10. mars s.á. tekin fyrir og eftirfarandi bókað vegna 6. töluliðar um umsókn Móru ehf:  „Forseti lagði fram tillögu um að töluliðnum verði vísað til fullnaðarafgreiðslu í skipulags- og byggingarnefnd. Samþykkt samhljóða. Fundargerðin staðfest samhljóða.“  Á fundi nefndarinnar hinn 13. maí 2011 var fjallað um framkomnar athugasemdir og bygging umrædds stálgrindarhúss fyrir ferðaþjónustutengda starfsemi samþykkt.  Var sú ákvörðun staðfest af bæjarstjórn Vesturbyggðar 18. s.m. og er það sú ákvörðun sem kærð er í málinu.

Málsrök kærenda:  Kærendur eru eigendur jarðarinnar Kross á Barðaströnd en jörðin á land að ánni Móru.  Telja þeir að fyrirhuguð framkvæmd muni valda mengun og truflun við ána, m.a. vegna aukinnar umferðar og beitar.     

Vísað sé til þess að svæðið þar sem umdeild bygging eigi að rísa teljist ekki landbúnaðarsvæði samkvæmt skilgreiningu gr. 4.14.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.  Búið sé að selja viðkomandi spildu frá lögbýli.  Teljist hún því ekki landbúnaðarsvæði og geti byggingin þar með ekki tengst búrekstri á jörðinni.  Skipulagsstofnun hafi því ekki haft fullnægjandi upplýsingar til að mæla með veitingu byggingarleyfisins. 

Með byggingarleyfinu sé verið að heimila byggingu fjölskyldugarðs samkvæmt skilgreiningu Vesturbyggðar frá 18. maí 2011 en ekki verslunar og þjónustubyggingu og því eigi gr. 4.16.2 í skipulagsreglugerð ekki við.  Sérhver framkvæmd í eða við veiðivatn, allt að 100 m frá bakka, sé háð leyfi Fiskistofu, sbr. 33. gr. laga um lax- og silungaveiði nr. 61/2006.  Ekkert slíkt leyfi sé til staðar, en horn byggingarinnar sé samkvæmt Fasteignamati ríkisins um 87 m frá ánni Móru.  Samkvæmt afsali fyrrum eiganda spildunnar sé skilyrt að áin verði ekki fyrir neinni mengun.  Þá sé kaupanda óheimilt að leigja eða nota landið sem beitiland nema það sé örugglega girt.  Ekkert mat á mengunarhættu liggi fyrir, t.d. frá Náttúrustofu Vestfjarða, en síðasta ár hafi stafað mengun frá þeirri starfsemi sem nú þegar sé til staðar.  Ákveðin fjarlægð þurfi að vera á milli bygginga sem hýsi ólíka starfsemi eins og hér sé um að ræða og brotið hafi verið gegn 24. gr. hollustuháttareglugerð nr. 941/2002 með því að leita ekki neinnar umsagnar þar um. 

Loks vísi kærendur til þess að grenndarkynning hafi ekki farið fram með réttum hætti í upphafi þar sem lóðarhafi hafi sjálfur leitað samþykkis hagsmunaaðila.  Ekki hafi verið nein kynning á niðurstöðu nefndarinnar um þær athugasemdir sem fram hafi komið.

Málsrök Vesturbyggðar:  Af hálfu Vesturbyggðar er vísað til þess að Skipulagsstofnun hafi ekki gert athugasemd við að sveitarstjórn veitti leyfi fyrir framangreindu gripahúsi á þessum stað.  Umsækjandinn eigi búmark fyrir 50 fjár og hafi leigusamning um hluta úr landi Litluhlíðar til upprekstrar og slægju, með tveggja ára uppsagnarfresti.  Hámarksákvæði 3. gr. samþykktar Vesturbyggðar um búfjárhald eigi því ekki við í þessu tilfelli.  Skipulags- og byggingarnefnd taki afstöðu til þeirra umsókna sem lagðar séu fyrir en ekki til þess sem hugsanlega verði gert í framtíðinni.

Andmæli byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er á því byggt að umfjöllunarefni í kæru fari langt út fyrir verksvið úrskurðarnefndarinnar þar sem þess sé krafist að við mat á því hvort skilyrði til útgáfu byggingarleyfis séu uppfyllt verði metnar líkur á því hvort byggingarleyfishafi kunni að brjóta önnur skilyrði og kvaðir sem á hann kunni að verða lögð, m.a. af heilbrigðisyfirvöldum, vegna fyrirhugaðs reksturs.

Þær athugasemdir sem fram hafi komið þegar framkvæmdin hafi verið kynnt hafi ekki snúið að húsbyggingunni sjálfri eða þeirri starfsemi sem byggingarleyfishafi ætli að reka þar.  Telji byggingarleyfishafi óumdeilt að byggingarleyfi honum til handa hafi verið gefið út í samræmi við gildandi lög og reglugerðir og eigi það því að standa óhaggað.  Fráleitt sé að fullyrðingar kærenda, um að hann muni ekki fá umrædd leyfi eða brjóta gegn skyldum sem slík leyfi kunni að leggja á hann, eigi að hafa áhrif á mat á því hvort veita hafi mátt byggingarleyfið.

Niðurstaða:  Í máli þessu er þess krafist að ógilt verði ákvörðun bæjarstjórnar Vesturbyggðar frá 13. maí 2011 um að veita byggingarleyfi fyrir stálgrindarhúsi undir ferðaþjónustutengda starfsemi, tengda íslenskum landbúnaði, á spildu sveitarfélagsins úr landi Haga á Barðaströnd, vestan árinnar Móru í Mórudal.

Samkvæmt Aðalskipulagi Vesturbyggðar 2006-2018 er merkt iðnaðarsvæði norðan Barðastrandarvegar, vestan árinnar Móru.  Í greinargerð skipulagsins segir að iðnaðarsvæði utan þéttbýlis séu Hvestuvirkjun og mannvirki tengd henni, sem og iðnaðarlóð á Krossholti.  Nánar segir í lýsingu þessara iðnaðarsvæða að á Krossholti séu tvær iðnaðarlóðir, eins og tveggja ha að stærð, og er gerð grein fyrir byggingum á þeim lóðum.  Ekki er á uppdrætti aðalskipulags gerð grein fyrir afmörkun þessa iðnaðarsvæðis heldur er svæðið tilgreint með hringlaga merki með lit er táknar iðnaðarsvæði og árituninni I2.  Verður því að leita annarra heimilda um afmörkun svæðisins.

Meðal málsgagna er skipulagsuppdráttur fyrir Krossholt, unninn af Teiknistofu Skipulags ríkisins, að stofni til frá september 1976, en á hann er ritað maí 1988.  Bendir það til að hann hafi komið í stað eldri uppdráttar frá árinu 1976.  Samkvæmt uppdrætti þessum er syðsti hluti spildu sveitafélagsins úr landi Haga, vestan Móru, merktur sem atvinnusvæði, milli austur- og vesturmarka spildunnar, og er sú lóð þar sem umdeild bygging var heimiluð innan þess svæðis.  Er það í samræmi við það sem fram kemur í bókunum skipulags- og byggingarnefndar í málinu á árinu 2006 og 2008 þar sem lóðin er sögð vera á iðnaðarsvæði við Móru.  Það styður og þá niðurstöðu að um iðnaðarsvæði sé að ræða að á umræddri lóð var fyrir sökkull og ber heimildum saman um að þar hafi átt að rísa hús fyrir fiskhausaþurrkun.

Eftir að fram hafði komið ábending frá Skipulagsstofnun um að rökstyðja þyrfti hvernig fyrirhuguð starfsemi samræmdist landnotkun á svæðinu samkvæmt gildandi aðalskipulagi komu fram þær skýringar af hálfu sveitarfélagsins að villa væri í aðalskipulagi varðandi stærðir iðnaðarlóða á svæðinu, sem væru 1000 og 2000 m² að flatarmáli, eða samtals 0,3 ha í stað 3,0 ha.  Lóðin væri því utan iðnaðarsvæðisins og teldist því á landbúnaðarsvæði, enda væri samkvæmt aðalskipulaginu allt land í dreifbýli landbúnaðarsvæði sem ekki væri skilgreint með öðrum hætti. 

Úrskurðarnefndin telur þessar skýringar ekki haldbærar.  Sé um villu að ræða í staðfestu aðalskipulagi kallar það á leiðréttingu og gildir texti aðalskipulagsgreinargerðar óbreyttur meðan ekki hefur verið gerð á honum breyting eða leiðrétting með formlegum hætti.  Þar við bætist að umrædd lóð er á landspildu í eigu Vesturbyggðar sem hvorki hefur lögbýlisrétt né tilheyrir bújörð eða lögbýli.  Getur hún því ekki talist landbúnaðarland, sbr. gr. 4.14.1 í skipulagreglugerð nr. 400/1998, þar sem segir að landbúnaðarsvæði nái yfir allt land jarða eða lögbýla, sbr. ákvæði jarðalaga og ábúðarlaga um land sem nýtt sé til landbúnaðar.

Að því virtu sem að framan er rakið verður að telja að umdeild bygging sé á skilgreindu iðnaðarsvæði.  Samkvæmt skilgreiningu í gr. 4.7.1 í tilvitnaðri skipulagsreglugerð, sem áréttuð er í greinargerð Aðalskipulags Vesturbyggðar 2006-2018, skal á iðnaðarsvæðum fyrst og fremst gera ráð fyrir umfangsmikilli iðnaðarstarfsemi eða starfsemi sem talin er geta haft mengun í för með sér, s.s. verksmiðjum, virkjunum, tengivirkjum, veitustöðvum, skólpdælu- og hreinsistöðvum, birgðastöðvum fyrir olíur og móttökustöðvum fyrir úrgang.  Telur úrskurðarnefndin að sú bygging fyrir ferðatengda starfsemi, tengda landbúnaði, sem um er deilt í málinu, falli ekki að skilgreindri landnotkun aðalskipulags.  Hafi því ekki verið fullnægt því skilyrði fyrir veitingu byggingarleyfis, sem sett er í 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, að mannvirkið og notkun þess skuli samræmast skipulagsáætlunum á svæðinu.  Verður hin kærða ákvörðun af þeim sökum felld úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi  ákvörðun bæjarstjórnar Vesturbyggðar frá 13. maí 2011 um að veita byggingarleyfi fyrir stálgrindarhúsi undir ferðaþjónustutengda starfsemi, tengda íslenskum landbúnaði, á spildu sveitarfélagsins úr landi Haga á Barðaströnd, vestan árinnar Móru í Mórudal.

_________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson

15/2010 Tóftabraut

Með

Ár 2011, mánudaginn 29. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumanns, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 15/2010, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 4. febrúar 2010 um að hafna sameiningu sumarhúsalóðanna Tóftabrautar 2 og 4 í eina lóð. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 15. mars 2010, er barst nefndinni sama dag, kærir I, Bakkastöðum 131, Reykjavík, ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 4. febrúar 2010 um að hafna sameiningu sumarhúsalóðanna Tóftabrautar 2 og 4 í eina lóð. 

Fyrir liggur að kæra í máli þessu barst þegar meira en 30 dagar voru liðnir frá hinni kærðu ákvörðun.  Ekki verður þó talið að það eigi að leiða til frávísunar m.t.t. þess að óskað var eftir endurupptöku málsins, en með því var kærufrestur rofinn, sbr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Verður málið því tekið til efnisúrlausnar. 

Málavextir:  Upphaf málsins má rekja til þess að eigandi lóðanna Tóftabrautar 2 og 4, Grímsnes- og Grafningshreppi, óskaði eftir breytingu á deiliskipulagi sem fólst í því að mörk nefndra lóða breyttust lítillega svo unnt væri að staðsetja gestahús sem til stóð að byggja á annarri lóðinni.  Umrædd breyting var samþykkt í sveitarstjórn 2. júlí 2009.  Í nóvember s.á. óskaði eigandi lóðanna eftir því að fá að sameina lóðirnar tvær og var á fundi skipulags- og byggingarnefndar 25. nóvember 2009 samþykkt að grenndarkynna slíka breytingu fyrir eigendum sjö aðliggjandi lóða.  Samhljóða athugasemd barst frá eigendum fimm lóða á svæðinu þar sem breytingartillögunni var mótmælt.  Tillagan var tekin fyrir í skipulags- og byggingarnefnd 26. janúar 2010 ásamt athugasemdum er borist höfðu og var breytingunni hafnað í ljósi þeirra athugasemda.  Sveitarstjórn staðfesti þá afgreiðslu hinn 4. febrúar s.á. með frekari rökstuðningi í tilefni af viðbótarrökum sem kærandi hafði sent inn til stuðnings beiðni sinni. 

Með bréfi, dags. 10. febrúar 2010, óskaði kærandi eftir endurupptöku málsins.  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar var erindinu hafnað með vísan til fyrri afgreiðslu og var sú afgreiðsla staðfest í sveitarstjórn 4. mars s.á. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að aldrei hafi verið ætlunin að byggja bústaði á báðum lóðunum heldur hafi alltaf staðið til að nýta þær sem eina lóð.  Kærandi hafi fært mörkin milli umræddra lóða einu sinni og sjái fram á að þurfa að gera það að nýju til þess að geta staðsett aðalhús á miðju landi, þar sem lóðamörkin séu nú. 

Kærandi telji að eðlilegast hefði verið að fresta málinu hinn 4. febrúar 2010 til að skoða fyrirliggjandi rök og gefa honum færi á að koma að andmælum.  Ljóst sé að fram komnar athugasemdir eigi ekki við rök að styðjast enda skiptist sameignarkostnaður í umræddu sumarhúsahverfi á milli 40 lóðareigenda, en ekki 16 eins og þar sé haldið fram.  Þá leiddi breytingin til að færri bústaðir yrðu á svæðinu og umferð og viðhald vegar yrði minna.  Sameignarkostnaður tengist auk þess rekstri en ekki skipulagsmálum.  Skipulags- og byggingarnefnd eigi ekki að hafa afskipti af skiptingu kostnaðar og viðhaldi vega og sé nefndinni því ekki rétt að hafna erindinu á þeim forsendum.  Loks bendi kærandi á að formaður félags landeigenda á svæðinu hafi hvatt kæranda til að sameina umræddar lóðir. 

Málsrök Grímsnes- og Grafningshrepps:  Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að ákveðinn stöðuleiki þurfi að ríkja í skipulagsmálum og að veigamikil rök þurfi til breytinga á áður samþykktu deiliskipulagi á sumarhúsasvæðum.  Einnig hafi fimm eigendur lóða á svæðinu sent inn samhljóða athugasemdir og lagst gegn sameiningu lóðanna. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er krafist ógildingar á synjun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps á beiðni um sameiningu sumarhúsalóðanna Tóftabrautar 2 og 4 í eina lóð. 

Fallast má á það með sveitarfélaginu að festa þurfi að ríkja í skipulagsmálum.  Í gildi er nýlegt deiliskipulag fyrir umrætt svæði og væri með breytingu þeirri sem um var sótt raskað samræmi í stærð lóða og skiptingu sameiginlegs kostnaðar á svæðinu.  Lóðarhafar á deiliskipulagssvæði eiga almennt að geta treyst því að nýlegu deiliskipulagi verði ekki breytt nema ríkar málefnalegar ástæður séu fyrir hendi.  Verða ákvæði þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 heldur ekki skilin svo að lóðarhafar eigi rétt á að fá deiliskipulagi breytt til samræmis við óskir sem þeir kunna að hafa.  Verður ekki annað séð en að umdeild ákvörðun sveitarstjórnar, sem fer með skipulagsvald í sínu sveitarfélagi, hafi verið lögmæt og að rétt hafi verið staðið að undirbúningi hennar.  Verður kröfu kæranda um ógildingu hennar því hafnað. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu synjunar sveitastjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 4. febrúar 2010 á beiðni um sameiningu sumarhúsalóðanna Tóftabrautar 2 og 4 í eina lóð. 

_______________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson

53/2011 Sóltún

Með

Ár 2011, mánudaginn 29. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 53/2011, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 28. júní 2011 um að veita byggingarleyfi fyrir færanlegum kennslustofum á lóðinni Sóltúni 6 í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 13. júlí 2011, er barst nefndinni 14. s.m., kæra Á og B, f.h. stjórna húsfélaga að Sóltúni 5, 7, 8-12, 11-13, 14-18, og 28, Mánatúni 2, 4 og 6, og Borgartúni 30 A og B, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 28. júní 2011 að veita byggingarleyfi fyrir færanlegum kennslustofum á lóðinni Sóltúni 6 í Reykjavík. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt var sett fram krafa um að kveðinn yrði upp úrskurður til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Með hliðsjón af því sem þegar liggur fyrir í málinu þykir það nú nægjanlega upplýst til þess að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda. 

Málavextir:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 28. júní 2011 var tekin fyrir umsókn framkvæmdasviðs Reykjavíkurborgar þar sem sótt var um leyfi til að koma fyrir færanlegum kennslustofum að Sóltúni 6 í Reykjavík, sem stóðu áður að Hraunbergi 12, og á lóðum Sæmundarskóla, Borgaskóla og Rimaskóla.  Var umsóknin samþykkt með áskilnaði um lokaúttekt og samþykki heilbrigðiseftirlits.  Sú afgreiðsla var staðfest í borgarráði hinn 30. júní 2011.  Byggingarleyfi var síðan gefið út hinn 6. júlí s.á. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er á því byggt að hið kærða byggingarleyfi sé ekki í samræmi við gildandi skipulag umrædds svæðis.  Gildandi deiliskipulag kveði á um að á lóðinni Sóltúni 6 megi byggja tveggja hæða fræðslustofnun en hið kærða byggingarleyfi heimili flutning færanlegra kennslustofa á lóðina og ekki verði séð að um bráðabirgðaleyfi sé að ræða.  Engin grenndarkynning hafi farið fram vegna þessara breyttu framkvæmda, svo sem kveðið sé á um í 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.  Íbúar hafi um árabil verið í viðræðum við borgaryfirvöld um að lóðin yrði nýtt undir útivistarsvæði sem ekki sé þar vanþörf á, en ekkert knýi á um að setja þar skóla í ljósi þess að íbúar hverfisins séu að stærstum hluta eldri borgarar. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Borgaryfirvöld fara fram á að kröfu kærenda um ógildingu samþykktar byggingarfulltrúa í máli þessu verði hafnað.  Hið kærða byggingarleyfi sé í samræmi við gildandi deiliskipulag Ármannsreits sem taki m.a. til greindrar lóðar við Sóltún.  Með breytingu á því deiliskipulagi sem samþykkt var í borgarráði 3. febrúar 2005 og tekið hafi gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 18. febrúar s.á., hafi verið heimilað að byggja fræðslustofnun á tveimur hæðum, allt að 3.320 m², á lóðinni nr. 6 við Sóltún.  Umræddar kennslustofur séu samtals um 527 m² og því vel innan ramma gildandi deiliskipulags.  Séu því ekki rök til að verða við ógildingarkröfu kærenda. 

Niðurstaða:  Með breytingu á deiliskipulagi Ármannsreits frá árinu 2005 var heimiluð bygging 3.320 m² fræðslustofnunar á allt að tveimur hæðum að Sóltúni 6.  Að minnsta kosti helmingur bílastæða skyldi vera neðanjarðar en reikna skyldi með einu bílastæði fyrir hverja 50 m² húsnæðis, 33 stæði neðanjarðar og 33 stæði ofanjarðar.  Deiliskipulagi þessu hefur ekki verið hnekkt og verður það lagt til grundvallar í máli þessu. 

Umdeilt byggingarleyfi heimilar að settar verði einnar hæðar færanlegar kennslustofur úr timbri fyrir leik- og grunnskóla á nefnda lóð, samtals 527,4 m² að stærð.  Á samþykktum aðaluppdrætti kemur fram að á lóðinni verði 18 bílastæði. 

Notkun heimilaðra bygginga er í samræmi við gildandi deiliskipulag og flatarmál þeirra og stærð rúmast innan skipulagsskilmála.  Þá liggur ekki annað fyrir en að byggingarnar séu innan marka byggingarreits lóðarinnar og fjöldi bílastæða uppfylli kröfur skipulagsins.  Ekki skiptir hér máli þótt um sé að ræða byggingar sem fluttar séu á umrædda lóð, enda hefur í framkvæmd ekki verið gerð krafa um sérstakar heimildir í skipulagi fyrir slík hús að því tilskyldu að byggingarnar falli að skilmálum gildandi skipulags.  Í byggingarleyfum sem heimila flutning húsa eru gerðar kröfur um fullnægjandi frágang og umbúnað eins og um hús sem reist eru á lóð.  Var því ekki þörf á breytingu skipulagsins með almennri auglýsingu eða grenndarkynningu skv. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 áður en hið kærða byggingarleyfi var veitt. 

Með vísan til þess sem rakið hefur verið, og þar sem ekki liggur fyrir að annmarkar hafi verið á málsmeðferð hins kærða leyfis, verður kröfu um ógildingu þess hafnað. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 28. júní 2011, sem borgarráð staðfesti hinn 30. sama mánaðar, um að veita byggingarleyfi fyrir færanlegum kennslustofum á lóðinni Sóltúni 6 í Reykjavík. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

_________________________                   ________________________
Ásgeir Magnússon                                       Þorsteinn Þorsteinsson

10/2011 Lækjarnes

Með

 Ár 2011, fimmtudaginn 11. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 10/2011, kæra á samþykkt bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 1. desember 2010 um deiliskipulag Lækjarness í Mosfellsdal.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 20. janúar 2011, er barst nefndinni 21. s.m., kærir Þ, Laxnesi I í Mosfellsbæ, samþykkt bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 1. desember 2010 um deiliskipulag Lækjarness.  Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins birtist í B-deild Stjórnartíðinda hinn 18. janúar 2011.

Málavextir:  Mál um deiliskipulag fyrir Lækjarnes í Mosfellsdal hefur áður komið til kasta úrskurðarnefndarinnar, en með úrskurði uppkveðnum 14. janúar 2010 felldi nefndin úr gildi deiliskipulag sem þá hafði verið samþykkt fyrir umrædda landspildu.   Hinn 6. september 2010 var auglýst tillaga að deiliskipulagi Lækjarness með athugasemdafresti til 18. október s.á.  Kom kærandi á framfæri athugasemdum sínum hinn 8. október 2010.   Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 23. nóvember s.á. var fjallað um framkomnar athugasemdir og skipulagstillagan samþykkt með lítils háttar breytingu.  Samþykkti bæjarstjórn afgreiðslu skipulagsnefndar hinn 1. desember 2010.  Skipulagsstofnun afgreiddi hið nýja deiliskipulag með bréfi, dags. 22. desember 2010, og var auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 18. janúar 2011, svo sem fyrr greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi krefst ógildingar á hinni kærðu samþykkt bæjarstjórnar Mosfellsbæjar.  Hafi hann mótmælt umræddu deiliskipulagi hinn 8. október 2010 og hafi aðalathugasemd verið að áformað væri að breyta reiðleið í akveg, en samkvæmt aðalskipulagi þessa svæðis sé gert ráð fyrir reiðslóð.  Deiliskipulagið sé því í ósamræmi við staðfest aðalskipulag.  Einnig séu mörk Lækjarness og Laxness óljós og ennfremur sé umrætt deiliskipulag á vatnsverndarsvæði.

Deilur hafi staðið undanfarin ár um veg sem liggi meðfram Köldukvísl, að Lækjarnesi og svonefndum Bakkakotsvelli.  Mosfellsbær hafi undanfarin ár ítrekað hundsað óskir kæranda um að koma skikk á málið.  Ógni síaukin umferð bíla öryggi viðskiptavina Laxnesbúsins auk þess sem alvarleg slys hafi orðið á svæðinu.

Landeigendur hafi falið lögmönnum Bændasamtakanna að afla heimildar sýslumanns til upptöku landamerkja og hafi landeigendur í fórum sínum sannanir fyrir því að Mosfellsbær hafi selt hluta úr landi Laxness I, sem og haft makaskipti á skikum og stækkað aðrar lóðir án samráðs við meðeigendur sína.  Einnig séu til gögn sem sýni að lóð Lækjarness hafi stækkað mikið og þetta mál verði tekið upp samhliða öðrum þar sem landeigendur ætli að hreinsa til í málum Laxneslandsins, með eða án aðkomu Mosfellsbæjar.

Sé það eindreginn vilji Mosfellsbæjar að deiliskipuleggja þessa lóð verði bærinn að finna henni aðra aðkomu því samþykki meðeigenda sé ekki fyrir hendi, enda hafi bærinn engin lagaleg rök til eignaupptöku á landi sem nota eigi sem aðkomu að lóðinni.

Málsrök Mosfellsbæjar:  Mosfellsbær krefst þess að kröfum kæranda verði hafnað, enda hafi engir formgallar verið á málinu, rétt hafi verið staðið að málsmeðferð þess og deiliskipulagið sé ekki í ósamræmi við gildandi aðalskipulag. 

Mosfellsbær vísi í bréf skipulags- og byggingarnefndar til lögmanns kæranda dags. 23. nóvember 2010.  Þar komi fram að vegur meðfram Köldukvísl að Lækjarnesi fari um land sem sé í óskiptri sameign nokkurra aðila, þ.á m. Mosfellsbæjar, og hafi um árabil þjónað sem aðkoma að golfvelli og Lækjarnesi.  Í aðalskipulagi Mosfellsbæjar séu vegir heim að bæjum og býlum almennt ekki sýndir og þótt þar sé sýnd reiðleið í svipaðri legu og umræddur vegur þýði það ekki að þarna sé eingöngu reiðleið en ekki akvegur.  Nefndin fallist því ekki á að deiliskipulagið sé í ósamræmi við aðalskipulag að þessu leyti.  Bent sé á að í greinargerð Lex lögmanna frá 21. febrúar 2008 og greinargerð Mosfellsbæjar vegna kæru í máli nr. 156/2007 komi fram að umræddur vegur hafi verið til staðar þegar kærandi hafi keypt eignarhlut sinn í Laxnesi og hafi vegurinn þá þjónað sama hlutverki.  Hið kærða skipulag geri ekki ráð fyrir breytingu á vegstæðinu í landi kæranda né breyttum notum á veginum.  Frá því þessi greinargerð hafi verið lögð fram hafi eigendur 93% hins óskipta lands að Laxnesi I, gert með sér sérstakt samkomulag um að vinna deiliskipulag fyrir umræddan veg, m.a. til þess að skilja að umferð akandi og ríðandi vegfaranda og auka þar með öryggi beggja. 

Bent sé á að samkvæmt 3. mgr. 2. gr. skipulags- og byggingarlaga sé deiliskipulagi ætlað að vera nánari útfærsla á aðalskipulagi.  Þótt kveðið sé á um reiðleiðir í aðalskipulagi Mosfellsbæjar sé lega vega háð þeirri ónákvæmni sem almennt sé um að ræða í aðalskipulagi og ráðist m.a. af mælikvarða uppdráttar.  Ekkert ósamræmi sé því á milli aðal- og deiliskipulags að þessu leyti.

Niðurstaða:  Í máli þessu er krafist ógildingar á samþykkt Mosfellsbæjar frá 1. desember 2010 um deiliskipulag fyrir lögbýlið Lækjarnes í Mosfellsbæ.  Telur kærandi að deilskipulagið samræmist ekki gildandi aðalskipulagi þar sem deiliskipulagið geri ráð fyrir akvegi að skipulagssvæðinu en aðeins sé þar sýndur reiðvegur í aðalskipulagi.  Þá séu áhöld um merki Lækjarness en sú landspilda hafi verið stækkuð án samráðs við landeigendur.

Ekki verður fallist á að hin kærða ákvörðun fari í bága við aðalskipulag.   Á uppdrætti gildandi Aðalskipulags Mosfellsbæjar 2002-2024 má sjá að gert er ráð fyrir vegi á umræddum stað, auk reiðvegar.  Svæðið næst Köldukvísl nýtur hverfisverndar en það girðir þó ekki fyrir að vegur sé á umræddum stað þar sem hann hefur verið kominn til sögunnar fyrir samþykkt aðalskipulagsins.  Verður þetta ráðið af því að vegurinn er m.a. aðkoma að golfskála í landi Minna-Mosfells sem reistur var árið 1996.  Af sömu ástæðu verður ekki séð að samþykkis kæranda hafi þurft við þegar ákvörðun var tekin um akveg um land Laxness á umræddum stað þar sem kærandi var þá ekki orðinn eigandi að eignarhlut sínum í jörðinni, en eignarheimild hans er dagsett 27. janúar 1999.  Landnotkun samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi er jafnframt í samræmi við aðalskipulag en Lækjarnes hefur nú stöðu lögbýlis samkvæmt leyfi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra frá 2. júlí 2010.

Ekki verður fallist á að það hafi átt að koma í veg fyrir að unnt væri að gera deiliskipulag fyrir land Lækjarness þótt kærandi bæri brigður á merki landsins gagnvart Laxnesi.  Felur deiliskipulag ekki í sér neina ákvörðun um merki eða um breytingu á þeim og stendur það því ekki í vegi fyrir að kærandi geti vefengt merkin eftir þeim reglum sem gilda um meðferð slíkra mála. 

Með hliðsjón af framansögðu, og þar sem enga annmarka er að sjá á undirbúningi eða gerð hinnar kærðu ákvörðunar, verður kröfu um ógildingu hennar hafnað.

Úrskurðarorð: 

Kröfu kæranda um ógildingu á samþykkt bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 1. desember 2010, um deiliskipulag Lækjarness í Mosfellsdal, er hafnað.

___________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                               Þorsteinn Þorsteinsson

50/2011 Silfurtún

Með

Ár 2011, föstudaginn 26. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson hdl., staðgengill forstöðumanns, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 50/2011, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 16. júní 2011 um breytingu á deiliskipulagi fyrir Silfurtún-Hofstaðamýri í Garðabæ er fól í sér nýjan byggingarreit á lóð leikskólans Bæjarbóls við Bæjarbraut. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 30. júní 2011, er barst nefndinni hinn 4. júlí s.á., kærir S, Faxatúni 20, ásamt 11 öðrum íbúum að Faxatúni 18, 20, 22, 24, 26 og 28 í Garðabæ, þá ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 16. júní 2011 að samþykkja deiliskipulagsbreytingu fyrir Silfurtún-Hofstaðamýri í Garðabæ sem fól í sér nýjan byggingarreit á lóð leikskólans Bæjarbóls við Bæjarbraut.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða deiliskipulagsákvörðun verði felld úr gildi. 

Með bréfi, dags. 4. júlí 2011, er barst nefndinni sama dag, kærir Sóley Björg Færseth, Faxatúni 20, Garðabæ, jafnframt þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Garðabæ frá 23. júní 2011 að veita byggingarleyfi fyrir bráðabirgðahúsi á lóð leikskólans Bæjarbóls.  Var sú afgreiðsla byggingarfulltrúa staðfest á fundi bæjarráðs hinn 28. júní s.á.  Gerir kærandi þá kröfu að hið kærða byggingarleyfi verði fellt úr gildi.  Jafnframt var sett fram krafa um að kveðinn yrði upp til bráðabirgða úrskurður um stöðvun framkvæmda á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Þykir málið nú nægjanlega upplýst til þess að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til kröfunnar um stöðvun framkvæmda. 

Þar sem sömu málsatvik eiga við um hið kærða byggingarleyfi og fyrrgreinda deiliskipulagsbreytingu verður kærumálið vegna byggingarleyfisins, sem er nr. 51/2011, sameinað máli þessu enda standa hagsmunir kærenda í nefndum málum því ekki í vegi. 

Málavextir:  Deiliskipulag fyrir Silfurtún-Hofstaðamýri í Garðabæ var samþykkt í bæjarstjórn 21. ágúst 2001.  Deiliskipulagssvæðið nær yfir opið svæði milli Túnahverfis og Mýrarhverfis auk lóða leikskólans Bæjarbóls og skátaheimilis ásamt svæði garðyrkjudeildar bæjarins undir skólagarða.  Samkvæmt skipulaginu er hámarksnýtingarhlutfall leikskólalóðarinnar 0,5.

Á fundi skipulagsnefndar Garðabæjar 14. apríl 2011 var tekin fyrir tillaga að breytingu á fyrrgreindu deiliskipulagi þar sem gert var ráð fyrir byggingarreit fyrir færanlega kennslustofu í norðvesturhorni lóðar leikskólans Bæjarbóls.  Breytingin á deiliskipulagi svæðisins var metin óveruleg og samþykkt að grenndarkynna hana skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.  Bæjarstjórn samþykkti þá afgreiðslu 5. maí 2011 og var breytingartillagan síðan grenndarkynnt eigendum Engimýrar 1, 3, 5 og 7 og Faxatúns 18, 20, 22, 24, 26 og 28. 

Að lokinni grenndarkynningu var málið tekið fyrir að nýju á fundi skipulagsnefndar 10. júní 2011 og var hin kynnta tillaga samþykkt með þeirri breytingu að aðkoma að heimiluðu húsi yrði um leikskólalóðina en ekki um göngustíg milli lóða leikskólans og húsa við Engimýri eins og gert hafði verið ráð fyrir í upphaflegri tillögu.  Bæjarstjórn samþykkti síðan breytingartillöguna á fundi 16. júní 2011. 

Með bréfi skipulagsstjóra bæjarins, dags. 21. júní 2011, var öllum þeim sem gerðu athugasemdir við tillöguna innan tilskilins frests tilkynnt um samþykkt bæjarstjórnar.  Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins var birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 23. júní 2011. 

Veiting byggingarleyfis fyrir færanlegri kennslustofu á lóð leikskólans Bæjarbóls var samþykkt af byggingarfulltrúa Garðabæjar hinn 23. júní 2011 og staðfest í bæjarráði 28. s.m. 

Kærendur skutu fyrrgreindum ákvörðunum til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Kærendur vísa til þess að misræmis gæti í gögnum tengdum hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu.  Í bréfi skipulagsstjóra frá 10. maí 2011 komi eftirfarandi fram:  „Efni: Grenndarkynning vegna tillögu að breytingu á deiliskipulaginu Silfurtún-Hofstaðamýri“.  Í svari skipulagsstjóra frá 21. júní s.á. segi hins vegar:  „Efni: Bæjarból, tillaga að óverulegri breytingu deiliskipulags Silfurtúns og Hofstaðamýrar.“  Á einum stað sé rætt um bráðabirgðahúsnæði í formi færanlegrar kennslustofu en í kynningarbréfi sé aðeins talað um breytingu á deiliskipulaginu Silfurtún-Hofstaðamýri.  Einnig sé gerð athugasemd við fundargerð bæjarstjórnar Garðabæjar frá 16. júní 2011 vegna fundar bæjarráðs frá 14. s.m. þar sem málefni deiliskipulagsins Silfurtún-Hofstaðamýri hafi verið rædd.  Þar hafi komið skýrt fram hjá bæjarstjóra að um framtíðarlausn væri að ræða en í umræddri fundargerð bæjarstjórnar hafi þessa ekki verið getið.  Sé því um að ræða verulega breytingu en ekki óverulega og hafi því meðferð málsins átt að vera skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga.  Þá sé gerð athugasemd við svar skipulagsstjóra frá 21. júní 2011, við ábendingu kærenda um aukinn fjölda barna um 30% á leikskólanum.  Í svari sínu taki skipulagsstjóri ekkert tillit til þess en einskorði sig við nýtingarhlutfall lóðar.  Ljóst sé að umrædd breyting feli í sér aukið ónæði og álag á kærendur, m.a. vegna aukinnar umferðar í kringum leikskólann og um göngustíg er liggi að íbúðarsvæði kærenda.  Götumynd á deiliskipulagssvæði Silfurtúns-Hofstaðamýrar verði og ósamstæð með umdeildri breytingu.  Því sé mótmælt að tekinn sé einn þáttur út úr þeirri deiliskipulagsvinnu sem unnið sé að fyrir umrætt svæði.  Eðlilegast sé að allar breytingar á svæðinu verði teknar inn í heildarskipulag sem nú sé unnið að.  Loks krefjast kærendur þess að gætt verði meðalhófs þegar samfélagslegri starfsemi sé dreift á hverfi sveitarfélagsins en henni sé ekki hlaðið á einn bæjarhluta. 

Um málsrök vegna hins kærða byggingarleyfis er vísað til sjónarmiða sem tíunduð eru í kæru vegna hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar. 

Málsrök Garðabæjar:  Bæjaryfirvöld Garðabæjar fara fram á að kröfum kærenda um ógildingu hinna kærðu ákvarðana verði hafnað. 

Garðabær starfræki leikskólann Bæjarból og tímabundið sé þörf á að fjölga nemendum við skólann vegna fjölgunar barna í bænum.  Til lausnar á því máli hafi verið tekin sú ákvörðun að koma fyrir færanlegri kennslustofu á lóð skólans en skólastofan standi ónotuð á lóð Flataskóla.  Sú breyting, að aðkoma gangandi vegfarenda væri um skólalóðina en ekki um göngustíg milli leikskólans og Engimýrar, hafi átt að vera til þess að draga úr áhrifum og hugsanlegum truflunum vegna kennslustofunnar gagnvart næsta nágrenni.  Þannig hafi verið komið til móts við kærendur.  Samþykkt bæjarstjórnar á breytingu á deiliskipulagi Silfurtúns-Hofstaðamýrar hafi verið í samræmi við málsmeðferðarreglur skipulagslaga.  Breytingin hafi verið metin sem óveruleg breyting á deiliskipulagi svæðisins og augljóst megi vera að hún geti á engan hátt raskað hagsmunum kærenda, þar sem umrætt húsnæði sé í um 100 m fjarlægð frá bakgörðum húsa þeirra og á milli sé stórt opið svæði.  Ekki sé um varanlegt mannvirki að ræða.  Samkvæmt lóðarblaði leikskólans megi sjá að byggingarreitur sé aðeins nýttur að hluta þannig að fyrir hendi séu möguleikar á viðbyggingu við skólann án skipulagsbreytingar. 

Á það megi fallast að umferð að og frá leikskólanum muni aukast en þar sem aðkoma að leikskólanum sé frá Bæjarbraut valdi sú aukning engri truflun gagnvart kærendum.  Þá geti aukinn fjöldi barna valdið meiri hávaða þegar þau séu að leik á leiksvæði skólans en það verði varla talið raska hagsmunum kærenda þar sem þau séu að mestu leyti innandyra.  Umrædd kennslustofa sé aðeins um 78 m² og með henni aukist nýtingarhlutfall lóðarinnar úr 0,12 í 0,13.  Það sé því augljóst að um óverulega breytingu sé að ræða á skipulagssvæðinu. 

Hið kærða byggingarleyfi sé í samræmi við deiliskipulag eftir fyrrgreinda skipulagsbreytingu.  Nú sé gert ráð fyrir nýjum byggingarreit á lóðinni sem snúi að opnu svæði í eigu bæjarins sem nýtt sé til útivistar og fyrir skólagarða bæjarins.  Gert sé ráð fyrir að umrædd kennslustofa rísi á norðvestur hluta lóðarinnar sem snúi að bakgarði húss kæranda byggingarleyfisins.  Aðkoma að kennslustofunni verði frá Bæjarbraut sem sé sú hlið leikskólans sem snúi frá húsi kærandans.  Aðkoman sé í raun langt frá því húsi og umferð að skólanum einnig þar fjarri. 

Ekki sé verið að breyta eðli starfsemi leikskólans og fjölgun nemenda um 30% muni ekki hafa í för með sér aukna truflun fyrir kærandann.  Starfsemi leikskóla sé samfélagslegt verkefni sem fari fram í öllum sveitarfélögum landsins og staðsetning leikskóla í hverfum hafi hingað til verið talin meðal kosta þegar lífsgæði þar séu metin.  Í Garðabæ séu starfræktir 10 leikskólar sem séu staðsettir í hinum ýmsu hverfum bæjarins og því sé erfitt að skilja hvað sé átt við þegar ýjað sé að því að Garðabær hafi ekki gætt meðalhófs við staðsetningu á leikskólum í bænum. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er meðal annars um það deilt hvort hin kærða deiliskipulagsbreyting sé óveruleg og þar með hvort heimilt hafi verið að grenndarkynna hana í stað þess að auglýsa hana til kynningar. 

Í 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er kveðið á um að ef gera þurfi breytingar á samþykktu deiliskipulagi sem séu það óverulegar að sveitarstjórn telji ekki ástæðu til meðferðar skv. 1. mgr. skuli fara fram grenndarkynning.  Við mat á því hvort breyting teljist óveruleg skuli taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víki frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. 

Hin kærða deiliskipulagsbreyting felur í sér afmörkun 80 m2 nýs byggingarreits undir bráðabirgðahús úr timbri á lóð leikskólans Bæjarbóls við Bæjarbraut.  Engin breyting var gerð á notkunarflokki lóðar leikskólans, en ráða má af gögnum að breytingin feli í sér að rýmum fyrir leikskólabörn fjölgi úr 85 í 110.  Fyrir liggur og að heimilað nýtingarhlutfall lóðarinnar er óbreytt og ekki er vikið að marki frá formi eða útliti svæðisins með heimilaðri breytingu.  Með hliðsjón af þessu, og því að um er að ræða breytingu á einni þjónustulóð í tengslum við starfsemi sem þar fer fram, verður fallist á að fara hafi mátt með skipulagstillöguna í samræmi við ákv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga. 

Umdeild skipulagsbreyting var grenndarkynnt með bréfi skipulagsstjóra Garðabæjar þar sem fram kom að breytingin varðaði lóð umrædds leikskóla og fæli í sér byggingarreit fyrir færanlega kennslustofu í norðvesturhorni lóðarinnar.  Bréfinu fylgdi uppdráttur er sýndi staðsetningu og stærð byggingarreitsins og jafnframt loftmynd af svæðinu.  Bera þessi gögn ótvírætt með sér hvert efni hinnar kynntu tillögu var og þótt misræmis kunni að hafa gætt í orðalagi fundargerða eða bréfa er tengjast meðferð skipulagstillögunnar getur það ekki ráðið úrslitum um gildi hinnar kærðu ákvörðunar. 

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið verður ekki fallist á kröfu um ógildingu hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar.  Að þeirri niðurstöðu fenginni er hið kærða byggingarleyfi fyrir færanlegu bráðabirgðahúsi á umræddri lóð í samræmi við gildandi deiliskipulag.  Að því virtu og þar sem ekki liggur fyrir annað en að málsmeðferð leyfisins hafi verið lögum samkvæmt verður kröfu um ógildingu þess jafnframt hafnað. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Garðabæjar frá 16. júní 2011 um að samþykkja deiliskipulagsbreytingu fyrir Silfurtún-Hofstaðamýri, Garðabæ. 

Kröfu um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Garðabæ frá 23. júní 2011, er bæjarráð staðfesti 28. s.m., um að veita byggingarleyfi fyrir bráðabirgðahúsi á lóð leikskólans Bæjarbóls í Garðabæ, er hafnað. 

_______________________________
Ómar Stefánsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                               Þorsteinn Þorsteinsson

45/2009 Austurvegur

Með

Ár 2011, fimmtudaginn 4. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 45/2009, kæra á ákvörðunum sveitarstjórnar Mýrdalshrepps frá 18. mars og 26. maí 2009 um að veita byggingarleyfi fyrir húsi á lóð nr. 11d við Austurveg í Vík og um breytta aðkomu að lóðinni.  Einnig kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Mýrdalshrepps frá 17. september 2009 um að heimila breytta staðsetningu húss á nefndri lóð og að breyta afmörkun tilgreindra lóða við Kirkjuveg og Austurveg í Vík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 25. júní 2009, er barst nefndinni 26. sama mánaðar, kærir J, eigandi Kirkjuvegar 3 í Vík, „… málsmeðferð sveitarstjórnar Mýrdalshrepps vegna Austurvegar 11d“.  Af kröfugerð verður ráðið að kæran taki til ákvarðana sveitarstjórnar Mýrdalshrepps frá 18. mars 2009 um að veita byggingarleyfi fyrir frístundahúsi að Austurvegi 11d og frá 26. maí 2009 um að „… aðkoma að lóðinni Austurvegur 11d verði 2,5 m meðfram húsinu að Austurvegi 11c“. 

Kærandi krefst þess aðallega að fellt verði úr gildi byggingarleyfi fyrir fasteignina að Austurvegi 11d, þ.m.t. stækkun göngustígs á kostnað lóðar kæranda, en til vara að felld verði úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar frá 26. maí 2009 um að aðkoma að lóðinni Austurvegi 11d verði 2,5 m meðfram húsinu að Austurvegi 11c. 

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 11. nóvember 2009, er barst nefndinni 12. sama mánaðar, kærir kærandi einnig þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Mýrdalshrepps frá 15. september 2009, sem staðfest var í sveitarstjórn 17. september 2009, að heimila breytingu á staðsetningu húss á lóðinni Austurvegi 11d og um afmörkun lóða við Kirkjuveg og Austurveg.  Krefst hann ógildingar greindrar ákvörðunar. 

Með hliðsjón af efni hinna kærðu ákvarðana var síðara kærumálið, sem er nr. 71/2009, sameinað máli þessu. 

Málavextir:  Kærandi er eigandi fasteignarinnar að Kirkjuvegi 3 í Vík.  Vestan megin við lóð hans er lóðin Austurvegur 11c en norðan megin er lóðin Austurvegur 11d.  Milli lóðar kæranda og lóðarinnar Austurvegar 11c mun hafa verið 90 cm breiður göngustígur er lá að Austurvegi 11d.  Að þeirri lóð liggur hins vegar engin innkeyrsla fyrir bifreiðar.  Ekkert deiliskipulag er í gildi fyrir hverfið, Hjallahverfi, þar sem fasteignir þessar eru staðsettar. 

Aðdragandi máls þessa er sá að á fundi sínum hinn 4. mars 2008 samþykkti skipulags- og byggingarnefnd Mýrdalshrepps leyfisbeiðni um endurbyggingu hússins að Austurvegi 11d.  Í framhaldi af því var óskað leyfis til að bæta við einni burst við húsið og var skipulagsfulltrúa falið að kynna nágrönnum áformin á formlegan hátt með grenndarkynningu.  Samþykkti nefndin, að grenndarkynningu lokinni, stækkun hússins á fundi 16. október 2008.  Sveitarstjórn Mýrdalshrepps staðfesti báðar framangreindar samþykktir á fundi sínum hinn 23. sama mánaðar. 

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 5. mars 2009 var tekin fyrir umsókn lóðarhafa Austurvegar 11d um leyfi til byggingar frístundahúss á lóðinni.  Samþykkt nefndin að veita byggingarleyfið með fyrirvara um að kröfur um brunavarnir yrðu uppfylltar.  Staðfesti sveitarstjórn þessa ákvörðun hinn 18. mars 2009.  Á grundvelli þessarar samþykktar gaf byggingarfulltrúi út byggingarleyfi hinn 20. sama mánaðar skv. 1. mgr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Á fundi sveitarstjórnar hinn 26. maí 2009 var m.a. til umfjöllunar breytt aðkoma að Austurvegi 11d og var á fundinum samþykkt svohljóðandi tillaga:  „Aðkoma að lóðinni Austurvegur 11d verði 2,5 m meðfram húsinu Austurvegur 11c.“ 

Með bréfi, dags. 23. júní 2009, var lóðarhöfum tilgreindra lóða við Kirkjuveg og Austurveg kynnt tillaga um mörk og stærðir lóða á svæðinu og um breytta staðsetningu fyrirhugaðs húss að Austurvegi 11d.  Að grenndarkynningu lokinni var á fundi skipulags- og byggingarnefndar Mýrdalshrepps hinn 15. september 2009 samþykkt ný staðsetning húss að Austurvegi 11d og skipulags- og byggingarfulltrúa falið að ljúka afmörkun lóða í samræmi við fyrirliggjandi gögn.  Staðfesti sveitarstjórn Mýrdalshrepps fundargerðina 17. sama mánaðar. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að í grenndarkynningu frá 29. ágúst 2008 hafi hvorki verið tilgreint að til stæði að breikka göngustíginn upp að Austurvegi 11d né gera hann að innkeyrslu að lóðinni.  Hið kærða byggingarleyfi hafi verið veitt án þess að fullnægjandi grenndarkynning hefði áður farið fram.  Sá annmarki leiði til ógildingar byggingarleyfisins enda sé ekki útilokað að hugsanlegar athugasemdir kæranda hefðu getað haft áhrif á efni hinnar kærðu ákvörðunar. 

Brotið hafi verið gegn andmælarétti kæranda þar sem í bréfi Mýrdalshrepps, dags. 24. október 2008, sé talað um 2,2 m breiðan veg en síðar hafi hreppurinn breikkað veginn um 30 cm án þess að gefa kæranda kost á að andmæla þeirri breikkun.  Málsmeðferð hafi verið ábótavant og hafi hún byggst á ómálefnalegum sjónarmiðum. 

Ómögulegt sé að stækka umræddan göngustíg eða breyta honum í innkeyrslu án þess að sneiða hluta af lóð kæranda. Slík skerðing sé hins vegar óheimil þar sem hún brjóti gegn eignarréttarákvæði 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar. 

Málsrök Mýrdalshrepps:  Af hálfu Mýrdalshrepps er krafist frávísunar á kröfu kæranda um ógildingu umrædds byggingarleyfis þar sem kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæran barst úrskurðarnefndinni.  Þá sé ljóst að ágreiningur um eignarréttindi, bein og óbein, sem kærandi telji vera fyrir hendi eigi ekki undir úrskurðarnefndina heldur almenna dómstóla, sbr. 1. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Því sé hafnað að annmarkar hafi verið á grenndarkynningu og að kærandi hafi ekki notið andmælaréttar.  Sveitarfélagið telji að ekki sé farið inn á lóð kæranda með breyttri aðkomu að Austurvegi 11d og mótmælt sé þeirri fullyrðingu að mörk lóðar kæranda séu skýr og óumdeild.  Jafnframt sé því mótmælt að með þeirri afmörkun sem fram komi í umræddri grenndarkynningu hafi lóð kæranda verið skert og að sjónarmið um eignarnám eigi við í málinu.  Eignarheimild kæranda kveði á um að lóð hans að Kirkjuvegi 3 sé 1.125 m² en eldri eignarheimildir segi hana 1.200 m².  Lóðin sé 1.200 m² eins og hún sé sýnd á afmörkun lóða við Kirkjuveg og Austurveg og sé slík ráðstöfun landsins heimil eiganda þess, sem sé sveitarfélagið.  Telji sveitarfélagið að þær breytingar sem felist í breyttri aðkomu að Austurvegi 11d leiði ekki til bótaskyldu samkvæmt 32. gr. skipulags- og byggingarlaga. 

Málsrök byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er rakið að hann hafi fengið leyfi til að endurbyggja húsið að Austurvegi 11d.  Síðar hafi komið fram hugmyndir um að stækka húsið og bæta við það nýrri burst.  Eftir að sú hugmynd hafi komið fram hafi verið talið nauðsynlegt, horft til framtíðar, að hægt væri að koma aðföngum að húsinu án þess að þurfa til þess leyfi nágranna eða leigja kranabíl.  Byggingarnefnd hafi, að aflokinni kynningu, heimlað stækkun hússins, en jafnframt hafi komið fram að göngustígur að húsinu yrði breikkaður í 2,2 m.  Síðar hafi komið í ljós að eigandi Kirkjuvegar 3 væri ekki sáttur við breidd stígsins og að byggingaryfirvöld væru að leita samkomulags við hann um að stígurinn yrði tveir metrar á breidd.  Hafi sveitarstjóra þá verið gerð grein fyrir því að ef niðurstaðan yrði sú að mjókka stíginn aftur myndi byggingarleyfishafi fresta framkvæmdum um óákveðinn tíma og endurskoða byggingaráform sín.  Það sé hins vegar einlæg von hans að sátt geti skapast um að gera umhverfið þarna fallegra en það hafi verið um mörg ár. 

Aðilar hafa fært fram frekari rök í máli þessu sem ekki verða reifuð hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 13. júlí 2011. 

Niðurstaða:  Af hálfu Mýrdalshrepps er krafist frávísunar á kröfu kæranda um ógildingu byggingarleyfis þar sem kærufrestur hafi verið liðinn er sú kæra barst úrskurðarnefndinni.  Ákvörðun um að veita hið umdeilda byggingarleyfi var staðfest í sveitarstjórn 18. mars 2009 en kæra í málinu barst úrskurðarnefndinni 26. júní 2009, eða rúmum þremur mánuðum eftir samþykkt sveitarstjórnar.  Enda þótt ráðið verði af bréfi lögmanns kæranda til Mýrdalshrepps, dags. 10. júní 2009, að kæranda hafi þá verið orðið kunnugt um útgáfu hins kærða byggingarleyfis, liggur ekkert fyrir um það hvenær hann fékk í raun vitneskju um leyfið.  Liggur ekki heldur fyrir að honum hafi verið gert kunnugt um útgáfu þess eða um kæruheimild, kærustjórnvald og kærufrest.  Verður við það að miða að kæran hafi borist innan kærufrests eða í öllu falli að afsakanlegt verði að telja að kæran hafi borist svo seint sem raun bar vitni, sbr. 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og verður því ekki fallist á að vísa beri þessum hluta kröfugerðarinnar frá af ástæðum er varða kærufrest. 

Leyfi byggingarfulltrúa skv. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 til byggingar húss á lóðinni Austurvegi 11d var gefið út 20. mars 2009.  Samkvæmt nefndri 44. gr., svo og byggingarleyfinu sjálfu, fellur byggingarleyfi úr gildi hafi framkvæmdir ekki hafist innan árs frá útgáfu þess.  Í 14. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 er kveðið á um að byggingarframkvæmdir teljist hafnar þegar undirstöður hafi verið steyptar eða þegar byggingarfulltrúi hafi annars, eftir því sem við á, lokið úttekt á einum eða fleirum úttektarskyldum verkþáttum sem framkvæmdir hafi verið samkvæmt leyfinu.  Þar eð hvorki liggur fyrir að sökklar hafi verið steyptir né að nokkur úttekt hafi farið fram á úttektarskyldum verkþáttum innan 12 mánað frá útgáfu leyfisins er ljóst að umrætt byggingarleyfi er úr gildi fallið.  Á kærandi því ekki lengur lögvarða hagsmuni því tengda að fá skorið úr um lögmæti leyfisins og verður kröfu hans um ógildingu þess því vísað frá nefndinni, sbr. 5. mgr. 8. gr. laga nr. 73/1997, sbr. nú 59. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010, sbr. og 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. 

Með ákvörðunum sveitastjórnar Mýrdalshrepps frá 26. maí og 17. september 2009 var heimilað að breikka aðkomu að lóð, færa umrætt hús og breyta mörkum lóða og var þeim ákvörðunum skotið til úrskurðarnefndar innan kærufrests.  Enda þótt heimildum um stærð lóðar kæranda að Kirkjuvegi 3 beri ekki saman verður ráðið af málsgögnum að með ákvörðunum þessum sé tekin af lóðinni spilda til breikkunar á aðkomu að Austurvegi 11d og fyrir þrjú bílastæði til almennra nota.  Slík skerðing verður ekki gerð nema samningar náist við lóðarhafa eða að undangengnu eignarnámi, séu fyrir hendi skilyrði til þess, og skiptir í því sambandi ekki máli þótt sveitarstjórn hafi einhliða ákveðið að bæta landi við lóð kæranda á öðrum stað.  Ekki er í gildi deiliskipulag fyrir umrætt svæði og áttu heimildir 2. mgr. 32. gr. skipulags- og byggingarlaga því ekki við í málinu. 

Að þessu virtu verða framangreindar ákvarðanir sveitarstjórnar Mýrdalshrepps felldar úr gildi. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Mýrdalshrepps frá 18. mars 2009 um að veita byggingarleyfi fyrir húsi að Austurvegi 11d er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Felld er úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Mýrdalshrepps frá 26. maí 2009 um breytta aðkomu að lóðinni að Austurvegi 11d og ákvörðun frá 15. september 2009 um að heimila breytta staðsetningu húss á lóðinni Austurvegi 11d og að breyta afmörkun lóða við Kirkjuveg og Austurveg í Vík. 

 

_______________________________
Hjalti Steinþórsson

 

______________________________       _____________________________
Ásgeir Magnússon                                           Þorsteinn Þorsteinsson

60/2010 Haukaberg

Með

Ár 2011, fimmtudaginn 11. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.     

Fyrir var tekið mál nr. 60/2010, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Vesturbyggðar frá 5. júní 2008 um að hafna umsókn kæranda um afmörkun sumarhúsalóðar í landi jarðarinnar Haukabergs í Vesturbyggð og synjun nefndarinnar um byggingarleyfi fyrir sumarhúsi á lóðinni.  Þá er kærð ákvörðun nefndarinnar frá 2. júlí 2010, er bæjarstjórn staðfesti hinn 7. s.m., um að kæranda verði gert að fjarlægja öll mannvirki af lóð hans í landi Haukabergs að viðlögðum dagsektum. Loks er kærð ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Vesturbyggðar frá 21. september 2010, er bæjarstjórn samþykkti 22. s.m., um að leggja 25.000 króna dagsektir á kæranda frá og með 1. september 2010. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 23. september 2010, er barst nefndinni 27. s.m., kærir H, handhafi lóðarsamnings um sumarhúsalóð í landi Haukabergs á Barðaströnd, ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Vesturbyggðar frá 5. júní 2008 um að hafna umsókn kæranda um afmörkun sumarhúsalóðar í landi nefndrar jarðar og synjun nefndarinnar um byggingarleyfi fyrir sumarhúsi á lóðinni.  Þá er kærð ákvörðun nefndarinnar frá 2. júlí 2010, er bæjarstjórn staðfesti hinn 7. s.m., um að kæranda verði gert að fjarlægja öll mannvirki af lóð hans í landi Haukabergs að viðlögðum dagsektum. Loks er kærð ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Vesturbyggðar frá 21. september 2010, er bæjarstjórn staðfesti 22. s.m., um að leggja 25.000 króna dagsektir á kæranda frá og með 1. september 2010. 

Málavextir:  Jörðin Haukaberg er á landbúnaðarsvæði samkvæmt Aðalskipulagi Vesturbyggðar 2006-2018.  Samkvæmt aðalskipulaginu er á slíkum svæðum fyrst og fremst gert ráð fyrir byggingum og starfsemi sem tengjast búrekstri.  Aðalskipulagið heimilar afmörkun lóða og byggingu allt að þriggja íbúðarhúsa þar sem aðstæður leyfa á lögbýlum, auk þeirra íbúðarhúsa sem tilheyra búrekstrinum, og skulu nýbyggingar vera í samræmi við samþykkt deiliskipulag.  Þá er heimilt að byggja allt að þrjú stök frístundahús á lögbýlum, þ.m.t. veiðihús, auk aðstöðu fyrir ferðaþjónustu og léttan iðnað. 

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Vesturbyggðar 5. júní 2008 var tekin fyrir umsókn kæranda frá 13. maí 2008 um afmörkun lóðar undir sumarhús í heimatúni jarðarinnar Haukabergs.  Erindinu var hafnað með þeim rökum að ekki lægi fyrir deiliskipulag að svæðinu auk þess sem breyta þyrfti aðalskipulagi Vesturbyggðar þar sem farið væri út fyrir heimildir þess um fjölda frístundahúsa á lögbýlum.  Í kjölfar þeirrar afgreiðslu beindu byggingaryfirvöld sveitarfélagsins fyrirspurn til Skipulagsstofnunar um hvort unnt yrði að veita kæranda byggingarleyfi fyrir íbúðarhúsi á umræddri lóð.  Taldi Skipulagsstofnun slíkt íbúðarhús ekki fara gegn gildandi aðalskipulagi Vesturbyggðar en minnti á ákvæði í greinargerð aðalskipulagsins um að nýbyggingar ættu að vera í samræmi við deiliskipulag.  Mun kæranda hafa verið tilkynnt um þá afstöðu. 

Hinn 8. júní 2010 sótti eiginkona kæranda um stöðuleyfi fyrir „stöðuhýsi” í landi Haukabergs og var um staðsetningu vísað til þinglýsts lóðarleigusamnings kæranda.  Umsóknin var tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar 2. júlí 2010 og afgreidd með eftirfarandi bókun: 

„Umrædd lóð er ekki til í Fasteignaskrá Íslands. Haraldur Einarsson sótti um framangreinda lóð undir sumarhús vorið 2008. Á fundi skipulags- og byggingarnefndar þann 5. júní 2008 var erindinu hafnað, án undangengins deiliskipulags og breytingar á aðalskipulagi Vesturbyggðar. Í framhaldi af þessari afgreiðslu byggði Haraldur sumarhús á lóðinni án leyfis og braut þar með alvarlega gegn skipulags- og byggingarlögum. Gerð hefur verið krafa um að sumarhúsið verði fjarlægt en því hefur ekki verið sinnt. Skipulags- og byggingarnefnd veitir hér með frest til að fjarlægja öll mannvirki af lóðinni til 31. ágúst 2010 að viðlögðum dagsektum skv. 210. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998. Varðandi íbúðargám (stöðuhýsi) sem flutt var á lóðina í byrjun júní þá tekur skipulags- og byggingarnefnd jákvætt í að veita stöðuleyfi til allt að eins árs að fengnu samþykki allra landeigenda sem málið varðar.“ 

Þessi afgreiðsla nefndarinnar var staðfest á fundi bæjarstjórnar Vesturbyggðar 7. júlí 2010. 

Kærandi og eiginkona hans mótmæltu fyrrgreindri afgreiðslu með bréfi til bæjarstjórnar Vesturbyggðar, dags. 14. júlí 2010, þar sem sjónarmið þeirra í málinu voru reifuð.  Andmælin voru tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar 23. júlí 2010.  Taldi ekki efni til að breyta fyrri afstöðu sinni en benti á að samþykkt bæjarstjórnar frá 7. júlí 2010 á afgreiðslu nefndarinnar frá 2. júlí s.á. væri kæranleg til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála.  Var fundargerð greinds fundar staðfest í bæjarráði Vesturbyggðar hinn 27. júlí 2010.  Skipulags- og byggingarnefnd ákvað síðan á fundi hinn 21. september 2010, með vísan til fyrri afgreiðslu málsins, að upphæð dagsekta skyldi vera krónur 25.000.- frá 1. september 2010 að telja. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er á það bent að jarðirnar Brekkuvellir og Haukaberg deili með sér óskiptu landi í úthaga og séu uppi deilur milli eigenda jarðanna vegna hins óskipta lands.  Í landi Brekkuvalla séu tvö sumarhús en í landi Haukabergs sé aðeins eitt sumarhús sem byggingarleyfi sé fyrir.  Í óskiptu landi jarðanna séu þrjú sumarhús sem byggingarleyfi hafi verið veitt fyrir. 

Hinn 6. maí 2008 hafi kærandi gert lóðarleigusamning við móður sína um leigu á afmörkuðu landi undir frístundahús í landi Haukabergs og hafi þeim samningi verið þinglýst.  Í kjölfarið hafi formlega verið óskað eftir afmörkun lóðarinnar en því erindi verið hafnað af skipulags- og byggingarnefnd Vesturbyggðar þar sem ekki hefði verið gert deiliskipulag að svæðinu.  Með bréfi, dags. 21. ágúst 2008, hafi byggingarfulltrúi Vesturbyggðar hins vegar staðfest að umrædd lóð væri staðsett í heimatúni Haukabergs eins og fram kæmi á uppdrætti og hnitaskrá. 

Sótt hafi verið um byggingarleyfi 13. maí 2008 en erindinu verið hafnað á röngum forsendum hvað varðar fjölda frístundahúsa í landi Haukabergs að mati kæranda.  Það sem fram komi í greinargerð Vesturbyggðar um að sex íbúðarhús hafi verið reist í landi Haukabergs og Brekkuvalla sé málinu óviðkomandi.  Þrjú frístundahúsanna standi í óskiptu landi jarðanna en tvö þeirra á jörðinni Brekkuvöllum.  Einungis eitt frístundahús standi í landi Haukabergs og sé því heimilt að reisa þar tvö frístundahús til viðbótar samkvæmt gildandi aðalskipulagi.  Hér verði einnig að hafa í huga að samkvæmt 23. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 beri sveitastjórn ábyrgð á og annist gerð deiliskipulags.  Sé það því ekki á ábyrgð kæranda að annast gerð deiliskipulags á svæðinu heldur Vesturbyggðar sem hafi brugðist þeim lögbundnu skyldum sínum.  Með hinni umdeildu synjun um byggingarleyfi hafi auk þess verið farið gegn jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar, þar sem áður hafi verið veitt byggingarleyfi fyrir sumarhúsi á jörðinni sem þó hafi ekki uppfyllt ekki skilyrði skipulags- og byggingarlaga og ekki hlotið meðmæli Skipulagsstofnunar. 

Kærandi hafi brugðið á það ráð haustið 2008 að festa kaup á færanlegu húsi sem byggingarfulltrúinn í Hafnarfirði hafi tekið út og vottað sem stöðuhýsi og flutt það að Haukabergi.  Áður hafi kærandi fengið þær upplýsingar að sækja þyrfti um leyfi fyrir stöðuhýsi innan þriggja ára frá því að það væri sett niður.  Með bréfi, dags. 8. júní 2010, hafi verið sótt um stöðuleyfi fyrir stöðuhýsi í landi Haukabergs en ekki verði séð að það erindi hafi verið afgreitt á fundi skipulags- og byggingarnefndar 2. júlí 2010 þegar það hafi verið tekið fyrir.  Í bókun nefndarinnar komi hins vegar fram að reist hafi verið sumarhús á lóðinni án leyfis og að kröfu byggingarfulltrúa Vesturbyggðar um að það yrði fjarlægt hafi ekki verið sinnt.  Rétt sé að taka fram að kærandi hafi talið sig í fullum rétti til að flytja umrætt stöðuhýsi á lóðina auk þess sem honum hefði engin áskorun borist frá byggingarfulltrúa um að fjarlægja umrætt hús fyrr en með bréfi, dags. 12. júlí 2010.  Húsið hafi ekki verið reist á lóðinni heldur flutt þangað sem stöðuhýsi.  Þrátt fyrir bókun nefndarinnar á greindum fundi um að öll mannvirki skyldu fjarlægð af lóðinni að viðlögðum dagsektum hafi verið tekið jákvætt í fyrirliggjandi umsókn um stöðuleyfi fyrir stöðuhýsinu.  Telja verði að hús það sem nú standi á lóðinni uppfylli skilyrði um stöðuhýsi, enda liggi fyrir úttekt byggingarfulltrúans í Hafnarfirði á því að um sé að ræða slíkt hús. 

Kærandi telji hina kærðu ákvörðun um dagsektir ólögmæta.  Í fyrsta lagi hafi honum ekki borist áskorun frá skipulags- og byggingarnefnd um að fjarlægja stöðuhýsið af jörðinni þegar ákvörðun um dagsektir hafi verið tekin.  Í öðru lagi sé á því byggt að við ákvörðunina hafi fyrirmælum stjórnsýslulaga ekki verið fylgt.  Ekki hafi verið tilkynnt að taka ætti tillögu um álagningu dagsekta eða kröfu um brottnám mannvirkja fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar og hafi þar með réttur kæranda til andmæla þar með verið brotinn.  Við ákvarðanatökuna hafi legið fyrir umsókn um leyfi fyrir stöðuhýsi á umræddri lóð en kæranda hafi aldrei verið tilkynnt um álagningu dagsektanna.  Hafi hann frétt af henni fyrir tilviljun hjá bændum á Barðaströnd.  Enn þann dag í dag hafi kærandi hvorki fengið áskorun um að fjarlægja mannvirki af lóðinni né tilkynningu um álagningu dagsekta.  Ekki verði betur séð en að umrædd ákvörðun sé einungis að finna í fundargerð skipulags- og byggingarnefndar. 

Í stuttu máli snúist mál þetta í fyrsta lagi um lögmæti ákvörðunar Skipulags- og byggingarnefndar um að synja um byggingarleyfi fyrir umdeildu húsi.  Eins og fyrr sé að vikið byggi sú ákvörðun á röngum forsendum og röngum upplýsingum um fjölda frístundahúsa á lóðinni.  Að auki komi til skoðunar sjónarmið um jafnræði sem og sjónarmið um skyldu bæjarstjórnar til að deiliskipuleggja svæði.  Í öðru lagi snúist málið um gildi ákvörðunar skipulags- og byggingarnefndar um að fjarlægja beri öll mannvirki af lóð kæranda en veita um leið tímabundið leyfi fyrir stöðuhýsi á lóðinni.  Í ljósi þess að eina mannvirkið á lóðinni sé umrætt stöðuhýsi sé erfitt að átta sig á innihaldi ákvörðunarinnar en kærandi telji sig hafa fengið leyfi fyrir stöðuhýsinu.  Loks sé á því byggt að formleg málsmeðferð ákvarðana um að fjarlægja mannvirki af lóð kæranda og álagningu dagsekta fari í bága við stjórnsýslulög. 

Málsrök Vesturbyggðar:  Af hálfu Vesturbyggðar er gerð krafa um frávísun málsins en ella að öllum kröfum kæranda verði hafnað. 

Kæra í málinu sé ófullkomin og erfitt að átta sig á kæruefninu.  Enga skýra kröfugerð sé að finna í kærunni en hún beri yfirskriftina „Ábending um stöðu frístundahúss í landi Haukabergs…“  Af þessum sökum sé erfitt að taka afstöðu til málsins og verði að telja að kæran uppfylli ekki þær lágmarkskröfur sem gerðar séu í 3. gr. reglugerðar nr. 621/1997 um úrskurðarnefndina. 

Fyrir liggi að skipulags- og byggingarnefnd Vesturbyggðar hafi á árinu 2008 hafnað umsókn kæranda um byggingarleyfi fyrir byggingu sumarhúss í landi Haukabergs.  Þá hafi legið fyrir að þá þegar hefðu verið reist sex stök frístundahús í landi Haukabergs og Brekkuvalla og séu þrjú þeirra, Haukaberg lóð nr. 1, Haukaberg lóð nr. 2 og Haukaberg lóð nr. 3, í óskiptu landi jarðanna.  Tvö sumarhús, Brekkuvellir lóð nr. 1 og Brekkuvellir lóð nr. 2, séu í útskiptu landi Brekkuvalla og eitt hús, Haukaberg lóð nr. 4, sé á útskiptu landi Haukabergs.  Málefnalegar ástæður hafi því legið að baki þeirri ákvörðun að synja umsókn kæranda þar sem að ekki hafi legið fyrir deiliskipulag að svæðinu og ákvæði aðalskipulags um hámarksfjölda frístundahúsa á lögbýlum hafi staðið í vegi fyrir útgáfu byggingarleyfis.  Kærufrestur skv. 5. mgr. 8. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 vegna fyrrgreindrar ákvörðunar skipulags- og byggingarnefndar sé löngu liðinn og ákvörðunin því ekki tæk til endurskoðunar hjá úrskurðarnefndinni. 

Með bréfi, dags. 27. júlí 2010, hafi eiginkonu kæranda verið tilkynnt um að afgreiðsla skipulags- og byggingarnefndar Vesturbyggðar frá 2. júlí s.á. væri kæranleg til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála.  Ekki verði séð að hún standi að kærunni til úrskurðarnefndarinnar og því vandséð að ákvörðunin varðandi umsókn hennar um stöðuleyfi sé til endurskoðunar hjá úrskurðarnefndinni, auk þess sem kærufrestur skv. 5. mgr. 8. gr. laga nr. 73/1997 til nefndarinnar hafi verið liðinn er kæran hafi borist nefndinni. 

Standi því einungis eftir sú ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Vesturbyggðar frá 21. september 2010 að leggja dagsektir á eiganda þess frístundahúss sem reist hafi verið á umdeildri lóð án byggingarleyfis og því í andstöðu við 1. mgr. 43. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Þá sé tekið fram í 2. mgr. 43. gr. að framkvæmdir skv. 1. mgr. skuli vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag.  Í 2. mgr. 56. gr. laganna segi jafnframt að ef byggingarframkvæmd sé hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni og hún brjóti í bága við skipulag, beri byggingarfulltrúa að stöðva framkvæmdir tafarlaust og síðan skuli hin ólöglega bygging eða byggingarhluti fjarlægður.  Í 11. kafla byggingarreglugerðar nr. 441/1998 sé að finna úrræði til að knýja fram úrbætur vegna framkvæmda sem séu án leyfis eða brjóti í bága við skipulag.  Í 210. gr. reglugerðarinnar komi fram að sinni aðili ekki fyrirmælum byggingarfulltrúa eða byggingarnefndar innan þess frests sem bæjarstjórn setji geti hún ákveðið dagsektir þar til úr verði bætt.  Eigendur umrædds frístundahúss að Haukabergi hafi ekki sinnt ítrekuðum fyrirmælum byggingarfulltrúa Vesturbyggðar um að fjarlægja húsið og í ljósi þess hafi skipulags- og byggingarnefnd ákveðið að að leggja dagsektir á eiganda þess.  Hafi því legið fyrir fullnægjandi heimild til beitingar dagsekta og réttilega hafi verið að málum staðið af hálfu byggingaryfirvalda í Vesturbyggð. 

Aðilar hafa fært fram frekari rök í máli þessu sem ekki verða rakin hér nánar en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða:  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. nú 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra skal.  Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema afsakanlegt verði talið að hún hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að taka hana til meðferðar, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Kæru verður þó ekki sinnt berist hún meira en ári eftir upphaf kærufrests skv. 2. mgr. tilvitnaðar lagagreinar. 

Í fyrirliggjandi kæru, er barst úrskurðarnefndinni 27. september 2010, er farið fram á að úrskurðarnefndin taki til skoðunar ákvarðanir Vesturbyggðar sem tengjast lóðum í landi Haukabergs frá árinu 2008 og fyrr.  Samkvæmt áðurgreindum lagaákvæðum voru ekki lengur skilyrði til að bera þær ákvarðanir undir úrskurðarnefndina er kæran barst og verður þeim þætti málsins því vísað frá nefndinni.  Hins vegar verður kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Vesturbyggðar frá 7. júlí 2010, um að mannvirki á lóð kæranda skyldu fjarlægð að viðlögðum dagsektum, tekin til efnismeðferðar með vísan til 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga þótt kærufrestur hafi verið liðinn er kæra barst.  Er það gert í ljósi þess að kæranda var ekki leiðbeint um kærufrest í tilkynningu um ákvörðunina, svo sem mælt er fyrir um í 2. tl. 20. gr. stjórnsýslulaga.  Þykir því afsakanlegt að kæra á þeirri ákvörðun hafi borist að liðnum kærufresti.  Óumdeilt er að kæra ákvörðunar um að leggja 25.000 króna dagsektir frá 1. september 2010 barst innan kærufrests. 

Embætti byggingarfulltrúans í Hafnarfirði gaf út vottorð hinn 8. september 2008 um að burðarvirki húss þess sem kærandi flutti síðar á lóð sína væri í samræmi við teikningar.  Hins vegar var ekki aflað byggingarleyfis, eins og nauðsynlegt hefði verið, fyrir staðsetningu og frágangi hússins á lóð kæranda hjá byggingaryfirvöldum Vesturbyggðar skv. 43. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. gr. 121.3 í byggingarreglugerð nr. 441/1998.  Í nefndu reglugerðarákvæði er skýrlega kveðið á um að frístundahúsi eða sambærilegu húsi, sem reist sé utan lóðar, skuli fylgja vottorð frá byggingarfulltrúa þess svæðis sem það er byggt á og skuli það vottorð hafa borist byggingarfulltrúa sem veitir endanlegt byggingarleyfi áður en það er gefið út. 

Fyrir liggur að kærandi kom fyrir húsi á lóð sinni án leyfis byggingaryfirvalda Vesturbyggðar og höfðu þau yfirvöld því rétt til að krefjast brottflutnings þess skv. 56. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga.  Þótt tilkynning um ákvörðunina hafi ekki verið stíluð á kæranda heldur eiginkonu hans getur það ekki ráðið úrslitum um gildi ákvörðunarinnar enda liggur fyrir að kæranda var kunnugt um efni hennar og andmælti henni í bréfi, dags. 14. júlí 2010.  Var auk þess veittur rúmur frestur til þess að verða við umræddri kröfu byggingaryfirvalda.  Að þessu virtu verður ekki fallist á kröfu um ógildingu þeirrar ákvörðunar enda liggur ekki fyrir að þeir annmarkar hafi verið við undirbúning og töku ákvörðunarinnar sem raskað gætu gildi hennar. 

Ákvörðun um álagningu og upphæð dagsekta á hendur kæranda var tekin af skipulags- og byggingarnefnd Vesturbyggðar hinn 21. september 2010 og staðfest í kjölfar þess í bæjarstjórn án þess að séð verði að kæranda hafi verið veittur andmælaréttur í samræmi við fyrirmæli 13. gr. stjórnsýslulaga áður en ákvörðunin var tekin.  Var sérstaklega brýnt að gæta þessa réttar kæranda í ljósi þess að um verulega íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun var að ræða.  Þá fólst í ákvörðuninni álagning sekta með afturvirkum hætti, eða frá 1. september 2010.  Auk þess var tilkynningu um ákvörðunina ekki beint til kæranda, sem þinglýsts lóðarhafar umdeildrar lóðar, heldur eiginkonu hans.  Þykir ákvörðunin af þessum sökum haldin slíkum annmörkum að fella beri hana úr gildi. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar skipulags- og byggingarnefndar Vesturbyggðar frá 2. júlí 2010, er bæjarstjórn staðfesti 7. s.m., um að kæranda verði gert að fjarlægja öll mannvirki af lóð hans í landi Haukabergs að viðlögðum dagsektum. 

Ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Vesturbyggðar frá 21. september 2010, er bæjarstjórn staðfesti 22. s.m., um að leggja 25.000 króna dagsektir á kæranda frá og með 1. september 2010, er felld úr gildi. 

Að öðru leyti er kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni. 

_______________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________     ______________________________
Ásgeir Magnússon                                   Þorsteinn Þorsteinsson

38/2011 Kópavogsbakki

Með

Ár 2011, miðvikudaginn 27. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 38/2011, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogs frá 3. maí 2011 um að veita byggingarleyfi er varðar frágang lóðarinnar Kópavogsbakka 6. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 31. maí 2011, er barst nefndinni sama dag, kærir G, lóðarhafi að Kópavogsbakka 2 í Kópavogi, ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogs frá 3. maí 2011 um að veita byggingarleyfi er varðar frágang lóðarinnar Kópavogsbakka 6.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi bæjarráðs hinn 10. maí 2011. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða afgreiðsla byggingarfulltrúa Kópavogs verði felld úr gildi og að Kópavogsbæ og/eða lóðarhafa Kópavogsbakka 6 verði gert að sjá til þess að frágangur lóðarinnar Kópavogsbakka 6 verði í samræmi við gildandi skipulagsskilmála.  Nánar tiltekið að hæðarmunur á lóðinni frá norðri til suðurs verði jafnaður innan lóðar, lóðin endi í hæðarkóta 7,20 til suðurs og að flái við lóðarmörk verði ekki brattari en 1:2.  Er þar jafnframt farið fram á að kveðinn verði upp bráðabirgðaúrskurður um stöðvun framkvæmda meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Þykir málið nú nægjanlega upplýst til þess að það verði tekið til endanlegrar úrlausnar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda. 

Málavextir:  Deiliskipulag fyrir Kópavogstún var samþykkt í bæjarstjórn Kópavogs á árinu 2005 og samkvæmt því er heimilt að reisa einnar hæðar einbýlishús með innbyggðri bílgeymslu á lóðunum nr. 2-10 við Kópavogsbakka, allt að 230 m² að grunnflatarmáli.  Breyting var gerð á deiliskipulaginu árið 2006 sem fólst aðallega í því að lóðir voru stækkaðar til suðurs og byggingarflötur stækkaður í 271 m² fyrir lóðir nr. 4-10 við Kópavogsbakka. 

Kærandi er eigandi að einbýlishúsinu Kópavogsbakki 2, sem er annað hús vestur af Kópavogsbakka 6, neðan götu.  Báðar lóðirnar liggja til suðurs að útivistarsvæði í eigu bæjarins og Kópavoginum sjálfum.  Alls eru fimm hús við Kópavogsbakka sem snúa að þessu útivistarsvæði, hús númer 2, 4, 6, 8 og 10.  Samkvæmt hæðarblöðum fyrir Kópavogsbakka, sem sett eru með stoð í samþykktu skipulagi, byrja hæðarkótar fyrir suðurenda lóðanna númer 2-10 í 6,80 vestast, hækka síðan í 7,20 fyrir framan hús númer 6 og enda síðan í 6,90 austast í götunni.  Búið er að ganga frá lóðarmörkum sunnan hússins númer 2 með steyptum vegg sem er 1,00 til 1,20 m hár, með efri mörk í hæðarkótanum 8,00.

Teikningar að Kópavogsbakka 6 voru samþykktar 18. apríl 2007.  Samkvæmt þeim er gert ráð fyrir að lóðin sé í svipaðri hæð og gólfplata hússins, en verði stölluð innan lóðar niður í hæðarkóta 7,20 sem er uppgefinn kóti fyrir suðurmörk lóðar.  Samkvæmt útlitsmynd að vesturhlið hússins fylgir hæð lóðar við lóðarmörk beinni línu milli uppgefinna hæðarkóta, annars vegar við götu og hins vegar við suðurmörk lóðar. 

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 3. maí 2011 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að, meðal annars, lagfæra lóð og lóðarlínur og steypa vegg á suðurhlið lóðarinnar Kópavogsbakka 6. Var umsóknin afgreidd með svohljóðandi bókun:  „Byggingarfulltrúi samþykkir erindið 3. maí 2011. Samrýmist lögum nr. 160/2010.“ 

Samkvæmt hinni kærðu ákvörðun er gert ráð fyrir að suðurendi lóðarinnar Kópavogsbakka 6 endi í hæðarkóta 9,70 í stað 7,20 og að munurinn á hæð við lóðarmörk og hæðarkóta samkvæmt skipulagi verði jafnaður með aflíðandi brekku sem nær 5,50 m inn á opið svæði til suðurs.  Á suðurmörkum lóðarinnar hefur verið steyptur 0,50 m hár veggur með efri brún í hæðarkóta 10,20 og er þetta einnig í samræmi við hina kærðu ákvörðun.  Á aðaluppdráttum fyrir Kópavogsbakka 6 má sjá að hæðarkótar fyrir SV og SA horn lóðarinnar eru 7,20 samkvæmt skipulagi. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að verulegur hæðarmunur myndist milli lóðanna nr. 2 og 6 við Kópavogsbakka verði gengið frá lóð nr. 6 í samræmi við hina kærðu ákvörðun.  Þá telur kærandi að verið sé að stækka lóðina til suðurs um 5,50 m við Kópavogsbakka 6, en það skapi verulegt ósamræmi við Kópavogsbakka 2 þegar heildarmynd húsanna sé skoðuð að sunnanverðu, þar sem sé fjölfarið útivistarsvæði. 

Kærandi heldur því fram að á meðan hann sem lóðarhafi Kópavogsbakka 2 leggi kostnað í að steypa stoðvegg á lóðarmörkum til að uppfylla gildandi skipulag fái lóðarhafi Kópavogsbakka 6 að skila lóð sinni 2,50 m yfir gildandi hæðarkótum og jafna þann hæðarmun utan lóðar.  Þá sé umræddur frágangur lóðarinnar Kópavogsbakka 6 til þess fallinn að draga úr verðmæti Kópavogsbakka 2 þar sem ásýnd lóðar nr. 6 verði yfirþyrmandi séð frá lóð kæranda.  Gera verði þá kröfu til skipulags- og byggingaryfirvalda í Kópavogi að þau virði gildandi skipulag fyrir svæðið og hafni aðaluppdráttum sem ekki séu í samræmi við það. 

Loks vísar kærandi til þess að hin kærða afgreiðsla byggingarfulltrúa sé í andstöðu við samþykkt byggingarnefndar Kópavogs frá 14. desember 2010, sem staðfest hafi verið í bæjarstjórn Kópavogs 21. sama mánaðar.  Hin kærða samþykkt sé auk þess í andstöðu við þau sjónarmið sem á sé byggt í úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í máli nr. 63/2009.

Málsrök Kópavogsbæjar:  Af hálfu Kópavogsbæjar er aðallega krafist frávísunar  málsins enda hafi kærandi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá úrskurð um kröfur sínar í málinu.  Hafi hann ekki sýnt fram á að hann hafi beina hagsmuni að því að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Um efniskröfur vísi bæjaryfirvöld til þess að hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúa sé form- og efnislega rétt.  Uppdrættir sem samþykktir hafi verið varðandi lóðarfrágang að Kópavogsbakka 6 hinn 3. maí 2011 séu í fullu samræmi við gildandi deiliskipulag.  Á uppdráttum samkvæmt hinni kærðu ákvörðun komi fram að hæðarkótar í SV og SA hornum lóðarinnar séu 7,20, sem sé í fullu samræmi við hæðarblöð fyrir lóðina, en engir hæðarkótar séu í deiliskipulagi fyrir Kópavogsbakka.  Frágangur milli Kópavogsbakka 6 og aðliggjandi lóða sé í samræmi við deiliskipulag og samkomulag lóðarhafa.  Þá sé frágangur á suðurlóðarmörkum Kópavogsbakka 6 í fullri sátt við bæjaryfirvöld og gildi þar sama regla og um önnur lóðamörk, þ.e.a.s. að lóðarhafar geti samið um frágang á lóðamörkum.  Í þessu tilviki megi jafna Kópavogsbæ við lóðarhafa sem hafi rétt til að semja um frágang á lóðarmörkum enda sé bærinn eigandi þess lands er liggi að Kópavogsbakka 6 að sunnanverðu.  Flái við lóðarmörkin sé ekki brattari en 1:2, eins og áskilið sé í skipulagsskilmálum, og skapi hann því ekki hættu eða óþægindi fyrir þá sem þurfi að fara um bæjarlandið og að auki sé fláinn vel fyrir utan gönguleið um svæðið.  Ekki sé verið að stækka lóðina Kópavogsbakka 6 til suðurs enda séu lóðarmörk þar skýrt afmörkuð með steyptum vegg.  Ekki sé heldur verið að mismuna lóðarhöfum hvað varði stoðveggi til suðurs enda sé slíkur veggur á lóðarmörkum Kópavogsbakka 6, þó að frágangur hans sé ekki með sama hætti og að Kópavogsbakka 2. 

Sýndur sé flái út fyrir lóðarmörk á þversniðsteikningum í deiliskipulagi og því sé lóðarhafi Kópavogsbakka 6 að fylgja þeirri heildarmynd sem ráðgerð hafi verið í deiliskipulagi. 

Málsrök byggingarleyfishafa:  Eiganda Kópavogsbakka 6 var gefinn kostur á að tjá sig um kæruefni málsins.  Hefur lögmaður hans komið því á framfæri að hann mótmæli kröfum kæranda og taki hann undir sjónarmið Kópavogsbæjar í málinu.   

Vettvangsganga:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 6. júlí 2011. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er krafist frávísunar af hálfu Kópavogsbæjar með þeim rökum að kærandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá úrskurð um kröfur sínar í málinu.  Sá frágangur lóðarinnar Kópavogsbakka 6 sem um er deilt verður að teljast breyta ásýnd umrædds svæðis, auk þess að vera vel sýnilegur frá lóð kæranda.  Framkvæmdin snertir því hagsmuni kæranda og telst hann því hafa lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun, sbr. 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.  Um málskotsrétt kæranda vísast til 59. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010.  Verður kröfu Kópavogsbæjar um frávísun málsins því hafnað.

Með hinni kærðu ákvörðun var heimilað að jafna um 2,5 m hæðarmun á suðurmörkum lóðarinnar Kópavogsbakka 6 með því að hækka aðliggjandi land í eigu Kópavogsbæjar og mynda aflíðandi halla til suðurs frá mörkum lóðarinnar.  Á svæðinu er í gildi deiliskipulag Kópavogstúns, samþykkt á árinu 2005.  Í 4. gr. almennra skilmála skipulagsins fyrir einbýlis- og parhús er fjallað um frágang lóða.  Í c-lið þeirrar greinar segir að öll stöllun á lóð skuli gerð innan hennar í beinni línu milli uppgefinna hæðartalna nema annað sé tekið fram eða um annað semjist við rétthafa aðliggjandi lóðar. 

Svæði það sem liggur að suðurmörkum lóðarinnar Kópavogsbakka 6 er opið svæði til sameiginlegra nota, sbr. 7. gr. skilmála deiliskipulagsins.  Slíku svæði verður ekki jafnað til lóðar skv. 4. gr. skilmálanna og hefur það því enga þýðingu þótt frágangur á sunnanverðum lóðarmörkum Kópavogsbakka 6 sé í fullri sátt við bæjaryfirvöld, enda gildir heimild lóðarhafa samkvæmt c-lið 4. gr. skilmálanna, til að semja sín á milli um frágang á lóðamörkum, ekki um hið opna svæði er hér um ræðir.  Um er að ræða breytingu á hæðarsetningu svæðis sem ákvörðuð er á hæðarblöðum í samræmi við ákvæði deiliskipulags.  Er hið nýja fyrirkomulag í andstöðu við þessi gögn.  Svæðið er jafnframt bæjarverndað samkvæmt aðalskipulagi Kópavogsbæjar.  Hvort tveggja stóð þetta í vegi fyrir því að heimilt væri að veita umrætt byggingarleyfi og verður hin kærða ákvörðun því felld úr gildi. 

Ekki er á færi úrskurðarnefndarinnar að mæla fyrir um tiltekinn frágang á suðurmörkum lóðarinnar Kópavogsbakka 6 og verður kröfu þar um því vísað frá nefndinni.

Úrskurðarorð: 

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 3. maí 2011 er varðar frágang lóðarinnar Kópavogsbakka 6. 

Kröfu kæranda um að úrskurðarnefndin mæli fyrir um tiltekinn frágang á suðurmörkum lóðarinnar Kópavogsbakka 6 er vísað frá nefndinni.

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                   Þorsteinn Þorsteinsson