Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

84/2011 Þingholtsstræti

Ár 2011, fimmtudaginn 15. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 84/2011, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. mars 2011 um að veita leyfi til að byggja við húsið á lóðinni nr. 2-4 við Þingholtsstræti.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 3. nóvember 2011, er barst nefndinni 8. s.m., kærir G, f.h. K og V, eigenda eignarhluta að Þingholtsstræti 6, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. mars 2011 að veita leyfi fyrir viðbyggingu við húsið á lóðinni nr. 2-4 við Þingholtsstræti. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Reykjavíkurborg verði gert að fjalla efnislega um málið.  Kærendur hafa jafnframt krafist bráðabirgðaúrskurðar um stöðvun framkvæmda á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Með hliðsjón af því sem þegar liggur fyrir í málinu þykir það nú nægjanlega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Málsatvik og rök:  Hinn 12. október 2010 var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík umsókn um leyfi til að rífa bakhús við Skólastræti 1 og reisa þriggja hæða viðbyggingu með kjallara við Þingholtsstræti 2-4.  Kemur fram í umsókninni að í viðbyggingunni verði hótelíbúðir og verði hún reist vestan við Þingholtsstræti 2-4, milli þess húss og Skólastrætis 1.  Var afgreiðslu málsins frestað og var erindið til umfjöllunar á nokkrum fundum skipulagsstjóra og byggingarfulltrúa á tímabilinu frá 15. október 2010 fram til 15. mars 2011 er það var tekið til endanlegrar ákvörðunar á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa.  Var umsóknin samþykkt og m.a. tekið fram í bókun að frágangur á lóðamörkum yrði gerður í samráði við lóðarhafa aðliggjandi lóða.  Ákvörðun byggingarfulltrúa var staðfest í borgarráði 24. mars 2011.  

Kærendur byggja á því að samkvæmt deiliskipulagi megi nýbyggingin að hámarki vera kjallari og þrjár hæðir en af samþykktum teikningum megi ráða að hún verði kjallari og fjórar hæðir.  Af efstu hæð verði útgengt á þak hússins en slíkt fyrirkomulag auðveldi aðgengi af svölum og þaki yfir á svalir á húsi kærenda.  Grenndarkynning hafi ekki farið fram og hafi kærendum, sem hafi ríkra hagsmuna að gæta í málinu, ekki verið gefinn kostur á að tjá sig um málið og skila inn athugasemdum.  Þá hafi húsbyggjandi ekki haft samráð við kærendur um framkvæmdina eins og honum hafi borið að gera samkvæmt bókun sveitarfélagsins.  Fyrirætlanir húsbyggjanda um aðgengi og afnot hótelgesta af þaki og þaksvölum hússins sé í fullkominni andstöðu við afstöðu kærenda til málsins og þvert á hagsmuni þeirra.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er farið fram á að kröfum kærenda í máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kæra sé allt of seint fram komin.  Kærufrestur skv. 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra á.  Byggingarleyfi hafi verið gefið út 6. júlí 2011 og 29. júlí hafi framkvæmdir verið hafnar á lóðinni enda hafi úttekt á botnplötu farið fram þann dag.  Hafi fjölmargar úttektir verið gerðar á byggingunni síðan. Telja verði að kærendum hafi fyrir löngu mátt vera kunnugt um framkvæmdirnar.  Takmarkað byggingarleyfi vegna jarðvinnu og undirbúningsaðstöðu á lóðinni hafi verið gefið út 12. apríl síðastliðinn og hafi kærendum þá einnig mátt vera ljóst að framkvæmdir væru hafnar eða um það bil að hefjast.  Hafi þeir þá getað kynnt sér samþykktir byggingarfulltrúa, en kæra sé dagsett 3. nóvember 2011 eða um sjö mánuðum eftir að framkvæmdir hófust á lóðinni. 

Verði ekki fallist á frávísunarkröfu sé á því byggt að úrskurðarnefndin hafi þegar tekið afstöðu til þess að byggingarleyfið frá 15. mars 2011 sé í samræmi við deiliskipulag sbr. úrskurð frá 30. júní 2011. 

Af hálfu byggingarleyfishafa er tekið undir sjónarmið og röksemdir Reykjavíkurborgar í málinu.  Hafi hann gert sitt ítrasta frá upphafi til að hafa gott samráð við eigendur húsa er liggi að hinni umþrættu byggingu.  Byggingarleyfið brjóti hvorki í bága við skipulags- og byggingarlög né heldur reglugerðir sem settar hafi verið með stoð í þeim. 

Í andsvörum kærenda er því hafnað sem röngu og rakalausu að kæra sé of seint fram komin.  Kærendur hafi ítrekað reynt að afla upplýsinga hjá sveitarfélaginu um framkvæmdir við húsið, m.a. með tölvupósti til sveitarfélagins, dags. 23. ágúst 2011.  Hafi sveitarfélagið engu svarað um framkvæmdina.  Af þeirri ástæðu hafi kærendur þurft að hefja sjálfstæða gagnaöflun og leita álits sérfróðra aðila á einstökum þáttum máls til að glöggva sig til fulls á málavöxtum.  Kærendum hafi á þeim tímapunkti hvorki verið kunnugt um fyrirætlanir húsbyggjanda né mátt vera um þær kunnugt.  Hafi húsbyggjandi ekki kynnt fyrirætlanir sínar fyrir kærendum né haft nokkuð samráð við þá eins og gert hafi verið að skilyrði við útgáfu byggingarleyfis.  Fundur hafi verið haldinn með byggingaryfirvöldum 3. október sl. en kærendur hafi þá verið búnir að óska eftir fundi með sveitarfélaginu um málið í hartnær sex vikur.  Á fundinum hafi komið fram í máli starfsmanna sveitarfélagsins að fyrirhuguð fjórða hæð hússins væri í andstöðu við gildandi deiliskipulag og því lægi beint við að leggja fram kæru á grundvelli þeirrar óleyfisframkvæmdar.  Auk þess hafi komið fram í máli starfsmanna að fyrirhugaður frágangur á lóðamörkum væri ekki fullnægjandi, sbr. samþykkta deiliskipulagsuppdrætti varðandi aðgengi á svalir nærliggjandi húsa.  Hafi kærendur óskað eftir því í tölvupósti að skilningur þeirra yrði staðfestur en ekkert svar hafi borist.  Óásættanlegur dráttur á svörum og útskýringum af hálfu sveitarfélagsins, þegar eftir því hafi verið leitað af hálfu kærenda, ásamt röngum og villandi upplýsingum í tölvupósti, sé í senn bagalegt fyrir aðila máls og utan áhrifasviðs kærenda.  Ljóst sé að kærendur hafi lagt fram kæru sína innan tilskilins frest. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. og 59. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, sæta stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga kæru til úrskurðarnefndarinnar og er kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra á. 

Fram kemur í gögnum málsins að kærendur áttu í viðræðum við byggingaryfirvöld eftir að byggingarframkvæmdir hófust og leituðu skýringa á því hvernig umræddri byggingu yrði háttað.  Verður helst af málsgögnum ráðið að kærendur telji að þeim hafi ekki mátt vera ljóst fyrr en eftir fund með byggingaryfirvöldum hinn 3. október 2011 hvað nákvæmlega fælist í hinni kærðu ákvörðun frá 15. mars s.á.  Staðhæfa kærendur að á fyrrgreindum fundi hafi þeir verið hvattir til að kæra. 

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum gerðu kærendur athugasemdir þegar á árinu 2008 við tillögu að breytingu á deiliskipulagi varðandi uppbyggingu að Þingholtsstræti 2-4 og lutu þær m.a. að umbúnaði svala á fyrirhugaðri nýbyggingu.  Þá liggur fyrir að kærendur hafa haft byggingaráform á umræddri lóð til skoðunar eins og m.a. kemur fram í tölvubréfi umboðsmanns þeirra til skipulagsyfirvalda dags. 23. ágúst 2011.  Var kærendum allt frá þeim tíma í lófa lagið að afla sér afrita af samþykktum aðaluppdráttum að hinni umdeildu byggingu og hefðu þeir með þeim hætti getað kynnt sér efni hinnar kærðu ákvörðunar, hvað sem leið svörum borgaryfirvalda við fyrirspurnum þeirra.  Verður því að telja að kærendum hafi mátt vera kunnugt um efni hinnar kærðu ákvörðunar þegar í lok ágúst 2011 og hafi þá borið að kynna sér kærurétt sinn og gera reka að því að vísa málinu til úrskurðarnefndarinnar.  Var kærufrestur því liðinn er kæran barst úrskurðanefndinni hinn 8. nóvember 2011.

Samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar.  Ekki verður séð að neinar slíkar ástæður séu fyrir hendi í máli þessu og ber því að vísa því frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

______________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                    Þorsteinn Þorsteinsson