Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

69/2010 Versalir

Ár 2011, miðvikudaginn 30. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 69/2010, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Flóahrepps frá 6. október 2010 um að hafna því að taka endanlega afstöðu til deiliskipulagstillögu fyrir landspilduna Versali sem liggur við Langholtsveg í Flóahreppi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. nóvember 2010, er barst nefndinni 10. s.m., kærir Guðmundur Jónsson hdl., f.h. S og J, Heiðarvegi 9, Selfossi, þá ákvörðun sveitarstjórnar Flóahrepps frá 6. október 2010 að hafna því að taka endanlega afstöðu til deiliskipulagstillögu fyrir Versali. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að sveitarstjórn Flóahrepps verði gert að taka endanlega afstöðu til fyrirliggjandi tillögu að deiliskipulagi. 

Málavextir:  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps 20. apríl 2010 var lögð fram tillaga kærenda að deiliskipulagi fyrir 9,6 ha spildu, svokallaða Versali, við Langholtsveg, með landnúmer 190822, þar sem gert var ráð fyrir að reist yrði minkabú.  Nefndin benti á að líta yrði til þess að skv. 24. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti væri óheimilt að reisa íbúðarhús innan við 500 m frá minkahúsum, nema íbúðarhús sem tilheyri lögbýlinu sjálfu.  Af því leiddi að yrði deiliskipulagið samþykkt legðist kvöð á aðliggjandi land sem takmarkaði nýtingarrétt eiganda en hluti þess væri skilgreindur sem blandað svæði íbúðarbyggðar og landbúnaðarnota.  Í ljósi þessa var skipulagsfulltrúa falið að kynna fyrirliggjandi tillögu fyrir eiganda þessa lands.  Eftir þá kynningu gerði eigandinn athugasemdir við tillöguna og mótmælti henni. 

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 25. júní 2010 var því hafnað að auglýsa umrædda tillögu að deiliskipulagi nema að fyrir lægi samþykki eiganda aðliggjandi lands.  Afgreiðslan var samþykkt á fundi sveitarstjórnar Flóahrepps hinn 7. júlí 2010. 

Með bréfi, dags. 18. ágúst 2010, óskaði lögmaður kærenda eftir því að tillagan yrði auglýst og taldi ekkert standa í vegi fyrir auglýsingu eða samþykkt deiliskipulagstillögunnar.  Sveitarstjórnin tók erindið fyrir á fundi 6. október 2010 og taldi ekki ástæðu til að endurskoða ákvörðunina frá 7. júlí 2010.  Var sú ákvörðun tilkynnt kærendum með bréfi, dags. 7. október s.á.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er vísað til þess að árið 2007 hafi þeir sótt um til landbúnaðarráðuneytisins að land þeirra yrði gert að lögbýli.  Á fundi sveitarstjórnar Flóahrepps 17. mars 2010 hafi verið samþykkt tillaga að breytingu á aðalskipulagi svæðisins um að spildan yrði skilgreind sem landbúnaðarsvæði í stað frístundabyggðar.  Auglýsing um þessa breytingu hafi verið birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 6. maí 2010.  Engar athugasemdir hafi borist vegna breytingarinnar en þó hafi legið fyrir að loðdýrarækt yrði stunduð á lögbýlinu.  Hafi kærendur því haft lögmætar væntingar um að deiliskipulagstillaga þeirra yrði samþykkt.

Kærendur telji að með því að hafna erindi þeirra um að taka endanlega afstöðu til deiliskipulagstillögunnar sé sveitarstjórn Flóahrepps og embætti skipulags- og byggingarfulltrúa að koma sér undan að taka endanlega ákvörðun í málinu þar sem ljóst sé að sveitarfélagið yrði þá hugsanlega skaðabótaskylt, hvort sem tillögunni yrði hafnað eða ekki. 

Málsrök Flóahrepps:  Flóahreppur krefst þess að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni en til vara að kröfu kærenda verði hafnað.  Aðalkröfu sína um frávísun byggi Flóahreppur á því að kæran sé svo óljós og vanreifuð, sem og kröfugerð kærenda, að ekki sé unnt að taka hana til efnislegrar meðferðar.  Einnig telji Flóahreppur að kæran sé of seint fram komin. 

Skipulags- og byggingarnefnd hafi tekið ákvörðun, á lögmætum og málefnalegum grundvelli, um deiliskipulagstillögu kærenda á fundi sínum 25. júní 2010, sem staðfest hafi verið af hálfu sveitarstjórnar 7. júlí s.á.  Hafi sú ákvörðun verið tekin á grundvelli þeirra gagna sem kærendur hafi afhent.  Hafi sú ákvörðun verið endanleg á stjórnsýslustigi enda ekki kærð til úrskurðarnefndar.  Deiliskipulagstillagan hafi falið í sér að kvaðir myndu leggjast á aðliggjandi land og þar með leitt til bótaskyldu sveitarsjóðs samkvæmt 33. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, hefði hún verið samþykkt.  Af hálfu kærenda sé ekki gerð krafa um ógildingu tiltekinnar ákvörðunar sveitarstjórnar Flóahrepps heldur einungis að embætti skipulags- og byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu ásamt sveitarstjórn verði gert „…að taka endanlega afstöðu til deiliskipulagstillögu“ kærenda.  Krafa um ,,endanlega afstöðu“ sé óskiljanleg og ekki í samræmi við fyrirliggjandi gögn málsins.  Málatilbúnaður af þessu tagi sé ekki tækur til efnislegrar meðferðar hjá úrskurðarnefnd og beri að vísa málinu frá. 

Kærufrestur skv. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 hafi verið liðinn við móttöku kærunnar, hvort heldur litið sé til ákvörðunar frá 25. júní 2010, sem staðfest hafi verið 7. júlí 2010, eða ákvörðunar frá 6. október s.á.  Beri því að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Undanþáguákvæði 1. tl. 28. gr. stjórnsýslulaga geti hvorki komið til álita, þar sem kærendur njóti lögmannsaðstoðar við málarekstur sinn, né 2. tl. sömu greinar, sbr. fyrri fordæmi úrskurðarnefndar. 

Þá hafi ekki verið grundvöllur fyrir endurupptöku ákvörðunar skipulags- og byggingarnefndar frá 25. júní 2010.  Ekkert nýtt hafi komið fram í erindi lögmanns kærenda til skipulags- og byggingarfulltrúa 18. ágúst 2010 sem hafi gefið tilefni til að endurskoða fyrri ákvörðun.  Skilyrði 1. og 2. tl. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga fyrir endurupptöku fyrri ákvörðunar hafi því ekki verið fyrir hendi.  Af þeim sökum hafi sveitarstjórn ekki séð ástæðu til þess á fundi sínum 6. október 2010 að endurskoða ákvörðun um að synja auglýsingu á deiliskipulagstillögu kærenda. 

Niðurstaða:  Í 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, er við eiga í máli þessu, var kveðið á um eins mánaðar kærufrest vegna ákvarðana sem kæranlegar væru til úrskurðarnefndarinnar samkvæmt lögunum.  Það færi gegn markmiðum þessa ákvæðis og ákvæðum annarra laga um kærufresti, og gerði þau í raun þýðingarlaus, ef aðilar máls gætu endurtekið umsóknir sem afgreiddar hefðu verið og með því myndað nýjan kærufrest.  Sé ákvörðun talið ábótavant, s.s. vegna ófullnægjandi upplýsinga við ákvarðanatöku, á aðili mál hins vegar rétt á því að beiðast endurupptöku ákvörðunar, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Erindi kærenda frá 18. ágúst 2010 gat ekki falið annað í sér en beiðni um endurupptöku ákvörðunar sveitarstjórnar Flóahrepps frá 7. júlí s.á. sem telja verður að hafi verið lokaákvörðun í málinu.  Sveitarstjórnin hafnaði þeirri beiðni á fundi 6. október 2010 og tilkynnti hana með bréfi, dags. 7. október s.á.  Með hliðsjón af þessari framvindu málsins þykir rétt að skilja málskot kærenda svo að krafist sé ógildingar á synjun sveitarstjórnar þann 6. október 2010 á beiðni um endurupptöku ákvörðunar hennar frá 7. júlí s.á. 

Kærufrestur samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra á. Tilkynning sveitarstjórnarinnar um hina kærðu synjun var dagsett 7. október 2010, sem var fimmtudagur, og verður að telja líklegt að hún hafi ekki borist kærendum fyrr en mánudaginn 11. október.  Var kærufrestur því ekki liðinn er kæran barst úrskurðarnefndinni hinn 10. nóvember 2010.  Þar við bætist að ekki var getið kæruheimildar og kærufrests í tilkynningunni og voru því skilyrði til að taka kæruna til meðferðar skv. 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga jafnvel þótt kærufrestur hefði verið liðinn.  Verður málið því tekið til efnisúrlausnar. 

Miðað við þær forsendur er bjuggu að baki umræddri synjun skipulags- og byggingarnefndar verður ekki séð að rökstuðningur kærenda fyrir tillögu þeirra í bréfi, dags. 18. ágúst 2010, hafi getað breytt umdeildri ákvörðun.  Með vísan til þessa, og þar sem ekki liggja fyrir aðrar ástæður er knýja á um endurupptöku ákvörðunar skv. 24. gr. stjórnsýslulaga eða ólögfestum reglum stjórnsýsluréttarins, verður ekki fallist á að efni séu til að ógilda ákvörðun sveitarstjórnar Flóahrepps um að synja um endurupptöku umdeildrar ákvörðunar.  

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna þess fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á synjun sveitarstjórnar Flóahrepps frá 6. október 2010 á beiðni um endurupptöku fyrri ákvörðunar frá 7. júlí 2010 um að hafna tillögu kærenda um nýtt deiliskipulag fyrir lögbýlið Versali. 

_______________________________
Hjalti Steinþórsson

_______________________________          _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                Þorsteinn Þorsteinsson