Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

17/2011 Flatasíða

Ár 2011, miðvikudaginn 21. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 17/2011, kæra á ákvörðun skipulagsnefndar Akureyrarbæjar frá 9. febrúar 2011 um að synja umsókn um leyfi til að byggja ofan á húsið að Flötusíðu 6 á Akureyri. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 28. febrúar 2011, er barst nefndinni 2. mars s.á., kæra G og A, Flötusíðu 6, Akureyri, synjun skipulagsnefndar Akureyrarbæjar frá 9. febrúar 2011 á umsókn um leyfi til að byggja ofan á húsið að Flötusíðu 6.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Forsaga málsins er sú að hinn 11. september 2008 sendu kærendur inn erindi til skipulagsnefndar Akureyrarbæjar þar sem þau sóttu um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu ofan á húsið að Flötusíðu 6.  Skipulagsnefnd synjaði erindinu hinn 24. s.m. með þeim rökstuðningi að viðbyggingin væri ekki í samræmi við byggingarskilmála og að slík viðbygging hefði neikvæð áhrif á götumyndina, en um var að ræða 64,8 m² byggingu ofan á þá byggingu sem fyrir var.  Einnig kom þar fram að byggingarreitur samkvæmt mæliblaði væri ekki fullnýttur og möguleiki væri á viðbyggingu til norðausturs. 

Nýtt erindi barst frá umsækjendum 9. október 2008 þar sem óskað var eftir endurupptöku málsins.  Skipulagsnefnd ákvað að grenndarkynna erindið en ekki er til deiliskipulag að svæðinu.  Tveir nágrannar, af þeim átta sem fengu erindið sent til kynningar, gerðu athugasemdir og synjaði skipulagsnefnd erindinu hinn 27. s.m. með sömu rökum og áður. 

Hinn 27. janúar 2011 sóttu kærendur enn á ný um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu ofan á húsið Flötusíðu 6.  Var erindið tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar 9. febrúar 2011 og afgreitt með svofelldri bókun: „Skipulagsnefnd synjaði erindinu, BN080357, á fundi 26. nóvember 2008.  Skipulagsnefnd hafnar erindinu þar sem ekkert nýtt hefur komið fram í málinu og vísar til fyrri bókunar nefndarinnar.“ 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er á því byggt að hin umdeilda viðbygging breyti ekki götumyndinni.  Hækkun á þaki sé á ⅓ hluta þakflatar hússins.  Skipulagsnefnd hafi hafnað umsókninni á þeim forsendum að byggingarreitur lóðar væri til staðar og þar mætti byggja við, en kærendur hafi bent á að mjög djúpt væri niður á fast, eða um fimm til sex metrar.  Auk þess sé hallandi klöpp og því afar kostnaðarsamt að fara í slíkar framkvæmdir.  Ekki sé hægt að koma tækjum við nema með miklu raski og loks passi slík viðbygging ekki á neinn hátt gagnvart þeirri húsaskipan sem nú sé. 

Umrætt svæði sé ekki deiliskipulagt og stuðst sé við skjal þar sem fram komi að við götur á svæðinu skuli vera hús sem séu á einni hæð eða hæð og kjallari eftir því sem landslagið gefi tilefni til.  Í götunum á svæðinu séu þó 20-25 hús sem ýmist séu á tveimur hæðum, eða á þremur pöllum og önnur séu með kjallara, hæð eða risi.  Við Flötusíðu standi tvö hús á tveimur hæðum og önnur tvö hús á þremur pöllum og gnæfi þau hátt yfir hús á einni hæð.  Af þessum ástæðum, sem og með tilliti til jafnræðisreglu, hafi kærendur talið hæpið að umsókn þeirra yrði hafnað.  Þá telji kærendur nauðsynlegt að svæðið verði deiliskipulagt og samþykktum breytt til samræmis við það sem leyft hafi verið á undangengnum árum.  Loks sé bent á að við Flötusíðu 4, 6 og 8 sé mikill gróður, há tré og runnar, sem orsaki að hin umdeilda hækkun á þaki myndi ekki skipta máli um útsýni eða skuggavarp. 

Málsrök Akureyrarbæjar:  Bæjaryfirvöld fara fram á að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni.  Verði ekki fallist á það krefjast bæjaryfirvöld þess að afgreiðsla skipulagsnefndar verði staðfest. 

Bent sé á að tvisvar áður hafi kærendur sent inn erindi til skipulagsnefndar en ekkert hafi breyst frá fyrri umsóknum þeirra.  Erindin hafi borist hinn 11. september 2008 og aftur 9. október s.á., en þá hafi kærendum verið kynnt niðurstaða nefndarinnar ásamt leiðbeiningum um kæruleið til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála.  Þann rétt hafi kærendur ekki nýtt sér innan tilskilins kærufrests.  Ekki verði talið að hægt sé að fá nýja kæruheimild með því einu að senda inn nýtt erindi sama efnis og án þess að leggja fram nokkuð nýtt í málinu.  Kæruheimild hafi því í raun runnið út í lok árs 2008, eftir afgreiðslu upphaflega málsins, og beri því að vísa kærunni frá á þeirri forsendu. 

Þá hafi bæjaryfirvöld byggt afgreiðslu sína annars vegar á afstöðu nágranna, sem fram hafi komið við grenndarkynningu á sambærilegu erindi frá kærenda 9. október 2008, og hins vegar á þeim byggingarskilmálum sem í gildi hafi verið við byggingu hússins. Við grenndarkynningu hafi borist mótmæli frá eigendum tveggja húsa, Flötusíðu 5 og 8.  Eigendur Flötusíðu 5 hafi gert athugasemdir við að viðbyggingin myndi gjörbreyta götumynd og skerða verulega útsýni frá húsi þeirra.  Eigandi Flötusíðu 8 hafi hins vegar talið að umbeðin viðbygging myndi skyggja á sól og valda þannig skuggavarpi inn á suðurlóð og byrgja útsýni.  Undir þessi sjónarmið hafi nefndin tekið og hafnað erindinu árið 2008. 

Bæjaryfirvöld mótmæli því að jafnræðisregla hafi verið brotin á þeirri forsendu að samkvæmt byggingarskilmálum sé heimilt að gera kjallara undir hluta húss þar sem landslag eða aðrar aðstæður á lóð gefi sérstakt tilefni til.  Húsin við Flötu- og Flögusíðu hafi verið byggð um 1980 og ekki liggi fyrir gögn svo hægt sé að fullyrða hvaða ástæður hafi legið að baki því að leyfa byggingu húsa á fleiri en einni hæð.  Þó sé hægt að ímynda sér þær ástæður ef skoðaðir séu hæðarkótar sem gefnir séu upp á mæliblöðum og teikningar af húsunum.  Ekki hafi verið til samþykkt deiliskipulag að svæðinu en húsin hafi verið samþykkt og byggð eftir mæliblöðum og byggingarskilmálum sem undirritaðir hafi verið af lóðarhöfum. 

Öll hús við Flötusíðu austanverða, þ.e. hús nr. 2, 4, 6, 8 og 10, séu á flatasta svæðinu við þessar götur og þau séu öll á einni hæð.  Frá Flötusíðu halli landinu vestur að Miðsíðu.  Á því svæði hafi á nokkrum lóðum verið byggð hús á tveimur hæðum sem gera megi ráð fyrir að hafi verið samþykkt þannig vegna aðlögunar að landi.  Geti það ekki talist óeðlilegt þegar horft sé yfir svæðið. 

Með tilvísun í áðurnefnda byggingarskilmála hafi skipulagsnefnd talið að hún gæti ekki heimilað umbeðna viðbyggingu þar sem landhalli á lóðinni gefi ekki tilefni til þess.  Samkvæmt framangreindu eigi að vísa málinu frá á þeirri forsendu að kærufrestur hafi runnið út mánuði eftir afgreiðslu skipulagsnefndar hinn 27. október 2008.  Jafnframt hafi erindi kærenda fengið þá meðferð sem kveðið sé á um í lögum um mannvirki og í skipulagslögum, áður skipulags- og byggingarlögum.  Því verði ekki séð að málsmeðferð sé haldin neinum þeim annmörkum sem leiða ætti til ógildingar afgreiðslu skipulagsnefndar. 

Niðurstaða:  Í 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 var kveðið á um eins mánaðar kærufrest vegna ákvarðana sem kæranlegar væru til úrskurðarnefndarinnar samkvæmt lögunum.  Sambærilegt ákvæði er nú í 59. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, sbr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.  Það færi gegn markmiðum þessara ákvæða og gegn ákvæðum annarra laga um kærufresti, og gerði þau í raun þýðingarlaus, ef aðilar máls gætu endurtekið umsóknir sem afgreiddar hefðu verið og með því myndað nýjan kærufrest. 

Með hinni kærðu ákvörðun synjaði skipulagsnefnd Akureyrarbæjar erindi kærenda um viðbyggingu við hús þeirra að Flötusíðu 6 með þeim rökum að nefndin hefði áður synjað sama erindi á árinu 2008.  Liggur ekki annað fyrir en að sú staðhæfing hafi verið rétt og var hin kærða ákvörðun því í samræmi við þau sjónarmið um kærufresti sem að framan eru rakin.  Ekki verður heldur séð að unnt hefði verið að fara með erindi kærenda sem beiðni um endurupptöku fyrri ákvörðunar skipulagsnefndar, enda verður mál ekki tekið upp að nýju sé ár liðið frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun í málinu nema veigamiklar ástæður mæli með því, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Liggur ekkert fyrir um að slíkar aðstæður hafi verið til staðar.  Var skipulagsnefnd, samkvæmt framansögðu, rétt að synja erindi kærenda og verður kröfu þeirra um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því hafnað. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á synjun skipulagsnefndar Akureyrarbæjar frá 9. febrúar 2011 á umsókn um leyfi til að byggja ofan á húsið að Flötusíðu 6.

______________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                     Þorsteinn Þorsteinsson