Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

53/2023 Efnistaka í Hörgá

Með

Árið 2023, föstudaginn 29. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor. Geir Oddsson auðlindafræðingur tók þátt í gegnum fjarfundabúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 53/2023, kæra á ákvörðunum sveitarstjórnar Hörgársveitar frá 22. september 2022 um að samþykkja umsókn fyrir 100.000 m3 efnistöku á svæði E-9 í Hörgá, 27. ágúst 2020 um að samþykkja umsókn fyrir 85.000 m3 efnistöku á svæði E-6 í Hörgá og 26. október 2022 um að samþykkja ótiltekna heimild til efnistöku á svæði E-8 í Hörgá.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. apríl 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir Náttúrugrið, þær ákvarðanir sveitarstjórnar Hörgársveitar frá 22. september 2022 að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir 100.000 m3 efnistöku á svæði E-9 í Hörgá, 27. ágúst 2020 um að samþykkja 85.000 m3 efnistöku á svæði E-6 í Hörgá og 26. október 2022 um ótiltekna heimild til efnistöku á svæði E-8 í Hörgá. Er þess krafist að ákvarðanirnar verði felldar úr gildi. Jafnframt var gerð krafa um að framkvæmdir á svæði E-6 í Hörgá yrðu stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni, en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði uppkveðnum 26. maí 2023.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hörgársveit 5., 8. og 11. maí og 5. júní 2023.

Málavextir: Hörgá er u.þ.b. 44 km löng dragá sem rennur eftir Hörgárdal í Hörgársveit til sjávar. Stærð vatnasviðs Hörgár og hliðaráa hennar er áætlað um 700 km2. Kærandi kærði fimm ákvarðanir sveitarstjórnar um að samþykkja umsóknir um framkvæmdaleyfi vegna efnistöku úr Hörgá en með erindi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 8. maí 2023 féll kærandi frá kæru vegna tveggja þeirra ákvarðana. Með kæru í máli þessu er því skotið til nefndarinnar ákvörðunum sveitarstjórnar Hörgársveitar um samþykkja umsóknir um þrjú framkvæmdaleyfi, sem veitt voru þremur ólíkum félögum, til malartöku á grundvelli umhverfismatsskýrslu Hörgár sf. og álits Skipulagsstofnunar frá árinu 2015, en um er að ræða:

  1. Framkvæmdaleyfi G.V. Grafna ehf., dags. 1. október 2022, vegna 100.000 m3 efnistöku á svæði E-9 í Hörgá á tímabilinu 1. október 2022 til 31. desember 2023. Var málið tekið fyrir á fundi sveitarstjórnar Hörgársveitar 22. september 2022 og bókað í fundargerð að sveitarstjórn „samþykkti að framkvæmdaleyfið verði veitt, enda liggi fyrir skriflegt samþykki allra landeigenda áður en framkvæmdaleyfið er gefið út.“
  2. Framkvæmdaleyfi Skútabergs ehf., dags. 1. október 2022, fyrir 85.000 m3 efnistöku úr Hörgá á svæði E-6 samkvæmt aðalskipulagi. Erindið var samþykkt á fundi sveitarstjórnar Hörgársveitar 27. ágúst 2020 með þeim rökstuðningi að veiting framkvæmdaleyfis samræmdist aðalskipulagi. Einnig var bókað í fundargerð að endurnýjað leyfi frá Fiskistofu væri skilyrði. Gilti leyfið fyrir 85.000 m3 efnistöku og að henni skyldi lokið og efnið farið af svæðinu fyrir 1. október 2022. Ekki varð af framkvæmdum og var nýtt framkvæmdaleyfi gefið út, dags. 1. október 2022, án þess að málið væri tekið fyrir að nýju í sveitarstjórn.
  3. Framkvæmdaleyfi Nesbræðra ehf., dags. 4. nóvember 2022, fyrir 25.000 m3 efnistöku á svæði E-8 í Hörgá. Umsókn um framkvæmdaleyfi var tekin fyrir á fundi sveitar­stjórnar Hörgársveitar 26. október 2022 og samþykkti sveitarstjórn að framkvæmda­leyfi yrði veitt þegar skriflegt samþykki allra landeigenda sem ættu hlutdeild í svæði E8 lægi fyrir.

 Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að hinar kærðu ákvarðanir hafi ekki verið auglýstar í Lögbirtingablaði í samræmi við 4. mgr. 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og því sé kærufrestur ekki liðinn.

Hin kærðu framkvæmdaleyfi hafi verið gefin út án þess að lögbundið mat hafi farið fram á því hvort framkvæmdir væru til þess fallnar að umhverfismarkmið laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála næðust ekki, m.a. varðandi vatnshlotin Hörgá 1 102-1801-R, Fossá 102-1705-R, Hörgá 2 102-1702-R, Öxnadalsá 1 102-1793-R og Eyjafjörð 102-277-G. Samkvæmt vatnavefsjá sé vistfræðilegt ástand allra straumvatnshlotanna „mjög gott“ og umhverfismarkmið laganna séu því „mjög gott vistfræðilegt ástand“. Umhverfismatið frá árinu 2015 hafi leitt í ljós að framkvæmdirnar muni líklega hafa áhrif á eðli og þróun vatnsfalla og geti haft áhrif á lífríki í vatni. Fram komi í umhverfismatinu að Veiðimálastofnun, nú Hafrannsóknarstofnun, hafi talið óraunhæft að meta áhrif framkvæmda á veiði og lífríki á því stigi og því gæti stofnunin ekki mælt með slíkum verkefnum. Í matsskýrslu komi fram það álit stofnunarinnar að „ógerlegt [sé] að áætla fórnarkostnað við heildarframkvæmdina og efnistaka úr vatnsfalli ætti einungis að vera ásættanleg ef mjög miklir efnahags- og samfélagslegir hagsmunir eru í húfi“.

Í skýrslum Hafrannsóknarstofnunar komi fram að veiði á bleikju í Hörgá hafi dregist mikið saman á allra síðustu árum og hafi veiðin verið aðeins 146 fiskar sumarið 2021, en hafi áður verið að meðaltali yfir 900 bleikjur líkt og fram komi í fyrrnefndu umhverfismati. Ekki hafi verið aflað álits stofnunarinnar við veitingu framkvæmdaleyfanna. Með vísan til umhverfismatsins teljist komnar fram nægar líkur á að áhrif framkvæmda á vatnsgæði umræddra yfirborðsvatnshlota samrýmist ekki bindandi umhverfismarkmiðum 11. gr. laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála, svo sem þau verði skýrð með hliðsjón af tilskipun 2000/60/EB og fyrirliggjandi dómafordæmum um 4. gr. hennar. Því hafi sveitarstjórn verið óheimilt að veita hin kærðu framkvæmdaleyfi án undangengis mats á því, og eftir atvikum möguleikum á undanþágu frá bindandi umhverfismarkmiðum vegna knýjandi almannahagsmuna. Varúðarregla, greiðsluregla og reglan um vísindalegan grundvöll ákvarðana í náttúruverndar­lögum nr. 60/2013 styðji þá niðurstöðu.

Hvergi sé að finna vísbendingu í fundargerðum um að sveitarstjórn hafi lagt álit Skipulagsstofnunar til grundvallar ákvörðunum sínum um framkvæmdaleyfi. Þar sé ekki að finna rökstuðning fyrir leyfi svo sem skylt sé skv. 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga og 2. og 3. mgr. 27. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, sbr. áður rannsóknarskyldu, skyldu til að leggja til grundvallar og til greinargerðar eða rökstuðnings í samræmi við áskilnað 13. gr. laga nr. 106/2000. Leiðbeiningar, birtar á vefsvæði Hörgársveitar, hafi ekki lagastoð og komi ekki í stað lögbundinnar málsmeðferðar.

Í áliti Skipulagsstofnunar, dags. 4. júní 2015, hafi verið sett skilyrði um að tekið yrði á efnistöku í Hörgá með heildstæðum hætti í aðalskipulagi Hörgársveitar og það notað til að leggja línurnar um skipulag efnistöku. Sérákvæði um efnistöku í Hörgá og þverám hennar hafi verið sett í Aðalskipulag Hörgársveitar 2012–2024 en nú hafi því verið breytt, sbr. auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 19. febrúar 2021. Breytingarnar hafi verið gerðar að kröfu einstakra landeigenda, en ekki Hörgár sf. Í kjölfar þessara breytinga virðist sem efnistaka í Hörgá hafi farið úr böndum en fjöldaútgáfa framkvæmdaleyfa hafi átt sér stað frá því aðalskipulags­breytingin hafi tekið gildi.

Framkvæmd hins breytta aðalskipulags, um að við veitingu framkvæmda vegna efnistöku­svæða E2, E4, E6, E7, E8, E9, E10 og E11 skuli liggja fyrir umsögn Fiskistofu um sammögnunar­áhrif í stað þess að aðeins skuli liggja fyrir leyfi á einum stað í senn, virðist fara þvert gegn umhverfismatinu. Ógerningur sýnist einnig að framfylgja nýju ákvæði aðalskipulags um að efni skuli ekki hrúgað á bakka Hörgár á þann hátt að við háa vatnsstöðu skolist efni úr þeim aftur út í ánna, í stað þess að færa skuli það á stað fjarri bakkanum þegar í stað og því komi vinnuvélar ekki að ánni á veiðitíma, líkt og upphaflega hafi verið kveðið á um í aðalskipulaginu. Virðist því skilyrði Skipulagsstofnunar í umhverfismatinu fyrir borð borið með breyttu aðalskipulagi.

Ein meginforsenda í umhverfismati hafi verið að sameignarfélag landeigenda stæði að framkvæmdinni og er framkvæmdaraðili þar tilgreindur Hörgá sf. Um þetta hafi verið fjallað í áliti Skipulagsstofnunar. Hin kærðu framkvæmdaleyfi séu gefin út til annarra aðila og því stangist þau á við þessa forsendu. Samkvæmt samþykktum Hörgár sf. sé tilgangur félagsins allt annar en fram komi í umhverfismati. Þá stangist hinar kærðu ákvarðanir á við 2. og 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga þar sem ekki sé getið stærðar efnistökusvæðis, vinnsludýpis og gerðar efnis. Hvorki hafi verið leitað lögbundinnar umsagnar náttúruverndarnefndar né gengið úr skugga um samræmi við skipulag og náttúruverndarlög. Ákvarðanirnar uppfylli m.a. ekki áskilnað reglugerðar nr. 772/2012 um nákvæma tilgreiningu svæðis.

Í umsögn Orkustofnunar um frummatsskýrslu, dags. 16. febrúar 2015, komi fram hugleiðingar stofnunarinnar um þörf leyfisveitinga hennar skv. vatnalögum nr. 15/1923 og laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Þörf hafi verið á þeim leyfisveitingum áður en hægt hefði verið að veita hin kærðu framkvæmdaleyfi. Þannig virðist leyfi skv. 1. mgr. 75. gr. vatnalaga ekki hafa legið fyrir við ákvarðanir um framkvæmdaleyfi og heldur ekki nýtingarleyfi skv. 6. gr. laga nr. 57/1998.

Málsrök Hörgársveitar: Af hálfu sveitarfélagsins er þess krafist að kæru í máli þessu verði vísað frá eða kröfum kæranda hafnað. Kæranda skorti lögvarða hagsmuni til aðildar, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Hann eigi engin tengsl við hinar kærðu ákvarðanir og hafi því ekki lögvarða hagsmuni af kærunni. Í kæru sé hvergi rökstutt að skilyrði 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 séu uppfyllt. Aðild umhverfis-, útivistar- og hagsmunasamtaka skv. 3. og 4. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 sé undantekning frá þeirri almennu reglu stjórnsýsluréttar að aðeins þeir sem eigi einstaklegra, beinna og lögvarinna hagsmuna að gæta geti orðið aðilar að stjórnsýslumáli, sem verði því að túlka þröngt. Þá sé skilyrði 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um ætlað brot á þátttökurétti ekki uppfyllt.

Þá sé kærufrestur hinna kærðu ákvarðana liðinn. Þær hafi ekki verið auglýstar í Lögbirtingablaði en birtar á vefsíðu sveitarfélagsins. Einnig hafi umhverfismatsskýrsla frá apríl 2015 og álit Skipulagsstofnunar frá 4. júní 2015, sbr. ákvörðun Skipulagsstofnunar, dags. 4. september 2014, verið aðgengileg á vefnum síðan árið 2015. Verði því að líta svo á að birting hafi verið fullnægjandi. Auk þess séu framkvæmdir vel sýnilegar frá þjóðvegi og ættu ekki að dyljast þeim sem sýni þeim áhuga. Ákvæði 4. mgr. 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 gildi ekki um hinar kærðu ákvarðanir. Um sé að ræða aðskildar framkvæmdir, sem hver fyrir sig sé kærð í málinu, en engin þeirra sé matsskyld, sbr. gr. 2.01 í 1. viðauka við lög nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, þar sem matsskylda eigi aðeins við um efnistöku yfir 500.000 m3. Því þurfi ekki að birta þær opinberlega. Þó önnur viðmið kunni að hafa verið í tíð eldri laga nr. 106/2000 um umhverfismat framkvæmda þá verði að fjalla um kæru á grundvelli þeirra laga sem í gildi séu þegar kæra sé borin fram.

Öll efnistaka og leyfi séu í samræmi við skipulagslög nr. 123/2010, sbr. reglugerð um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012 og gildandi skipulag. Efnistakan sé í samræmi við umhverfismatsskýrslu frá apríl 2015 um efnistöku í Hörgá. Áhrif efnistöku séu í mörgum atriðum jákvæð að mati Skipulagsstofnunar, sbr. álit dags. 4. júní 2015, og heimili stofnunin fyrir sitt leyti efnistöku úr Hörgá á grundvelli matsskýrslunnar. Ekkert sé komið fram í málinu sem styðji að efnistakan sé ekki í samræmi við skipulag, umhverfismatsskýrslu, lög eða reglur, né að hagsmunum Hörgár, umhverfis hennar eða lífríki sé ógnað á nokkurn hátt. Aðeins hafi verið settar fram órökstuddar fullyrðingar um meint áhrif af flutningi efnis frá bökkum Hörgár sem séu meira í ætt við skoðanir en staðreyndir um atvik. Fullyrðingar um að minnkandi veiði megi að einhverju leyti tengja við efnistöku séu órökstuddar og fái enga stoð í rannsóknum eða athugunum og liggi ekkert fyrir um orsakatengsl. Fjölmargir aðrir þættir hafi áhrif á veiði og fiskafjölda, svo sem hitastig vatns og sjávar, heimilar veiðiaðferðir, fjöldi veiðidaga og ásókn og ástundun veiðimanna. Hörgá og aðrar ár í vatnakerfi hennar, eins og Öxnadalsá, séu nokkuð berskjaldaðar fyrir framburði vegna hlýinda sumarið í gegn og sé verðlagning veiðileyfa í ánni um áratugaskeið einn gleggsti mælikvarðinn á það að ástundun veiðimanna sé ef til vill stærsta breytan í því hver veiði sé í Hörgá, auk almennrar þróunar í veiði, en ekki efnistaka. Þó hin kærðu leyfi séu allt sjálfstæðar og aðskildar framkvæmdir hafi sveitarfélagið alltaf tekið mið af áhrifum á ánna í heild og telji sig hafa farið eftir umhverfismatsskýrslu.

Sameignarfélagið Hörgá sf. hafi staðið að öflun umhverfismatsins á sínum tíma. Landeigendur sem eigi rétt til efnistöku úr Hörgá hafi staðið að félaginu. Síðar hafi landeigendur ákveðið að slíta því samstarfi og sveitarfélagið keypt umhverfismatið, sbr. bókanir af fundum sveitarstjórnar, dags. 9. desember 2015, 17. mars 2016 og 20. apríl 2016, en það muni hafa verið til að draga úr beinu fjárhagstjóni Hörgár sf. af kostnaði við matið, en félagsmenn sjálfir skyldu bera kostnað af matinu væri ekki til fyrir því í sjóði. Kærandi haldi því fram í tölvupósti, dags. 9. maí 2023, að með því hafi grundvöllur umhverfismatsins liðið undir lok. Sveitarfélagið hafi alltaf litið svo á að rétt sé að fara eftir umhverfismatinu og hafi lagt sig fram um að fara eftir því við útgáfu leyfa og eftirlit með framkvæmdum. Þó fyrrnefnt sameignarfélag sé ekki lengur starfandi og í slitaferli þá hljóti að vera eðlilegt og í samræmi við góða stjórnsýslu og í þágu umhverfisins og lífríkis Hörgár að tekið sé mið af umhverfismatinu þrátt fyrir það. Þá sé ekkert sem banni slíkt framsal á vísindalegri skýrslu.

Á þeim tíma sem ráðist hafi verið í umhverfismatið hafi það verið í samstarfi landeigenda og sveitarfélagsins til að tryggja yfirsýn yfir efnistöku og áhrif hennar á vatnakerfi í heild, í stað þess að hver og einn landeigandi fyrir sig ráðstafi námuréttindum sínum án tillits til annarra landeigenda. Við útgáfu leyfanna hafi gildandi lögum verið fylgt og öll lagaskilyrði þeirra verið uppfyllt. Útgáfa leyfanna sé í samræmi við markmið a-d liðar 2. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Farið hafi verið eftir og byggt á matsskýrslu frá 2015 og áliti Skipulagsstofnunar frá 4. júní 2015. Samkvæmt Aðalskipulagi Hörgársveitar 2012–2024 sé Hörgá skipulagt efnistökusvæði en í aðalskipulaginu sé lögð áhersla á nýtingu náma sem náttúran geti viðhaldið.

Fyrirliggjandi gögn, þ.e. matsskýrslan, álit og ákvörðun Skipulagsstofnunar, sem og önnur fyrirliggjandi gögn hafi verið nægjanleg til að sveitarstjórn gæti lagt mat á áhrif efnistöku. Þá séu leyfin í samræmi við lög nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði, sbr. V. kafla þeirra. Ekki verði heldur séð að útgefin leyfi fari gegn þeim markmiðum sem sett séu í vatnaáætlun Umhverfisstofnunar fyrir Ísland 2022–2027, sbr. 5. mgr. 11. gr. laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála. Þá megi benda á umhverfisskýrslu vegna Aðalskipulags Hörgársveitar 2012–2024 en þar sé fjallað um áhrif efnistöku á gæði vatns. Vistfræðilegt ástand allra straumvatnshlotanna í Hörgá þar sem efnistaka fari fram sé mjög gott samkvæmt vatnavefsjá Umhverfisstofnunar. Hljóti það að vera vísbending um að efnistaka úr ánni á umliðum árum hafi ekki haft neikvæð áhrif á lífríki hennar. Ef svo væri mætti ætla að ástand straumvatnshlotanna væri ekki gott. Efnistaka hafi farið fram í Hörgá árum saman og vissulega hafi hún verið nokkuð umfangsmikil en hún sé framkvæmd á ábyrgan hátt og í sátt við vistfræði árinnar. Þá sé enda ljóst að farvegurinn jafni sig fljótt líkt og fram komi í umhverfismati. Miður sé að veiði fari sífellt minnkandi í Hörgá en engin gögn styðji að það sé vegna efnistöku úr ánni. Sífellt minnkandi bleikjuveiði sé í öðrum ám um allt land. Veiði hafi farið minnkandi löngu áður en hinu kærðu framkvæmdaleyfi hafi verið gefin út.

Sveitarstjórn hafi ávallt fært rök fyrir ákvörðunum sínum og fylgt fyrirliggjandi gögnum. Sérstakar leiðbeiningar sem sveitarfélagið fari eftir séu birtar á vefsíðu sveitarfélagsins en þær hafi verið samþykktar í sveitarstjórn 20. apríl 2016 á grundvelli 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og reglugerðar um framkvæmdaleyfi. Er það til vitnis um vandaða stjórnsýsluhætti. Þá sé eftirlit með efnistöku með ágætum og beri framkvæmdaleyfishafa til að mynda að hafa meðferðis á framkvæmdastað afrit framkvæmdaleyfis.

 Athugasemdir leyfishafa framkvæmdaleyfis á svæði E-6: Við meðferð máls þessa bárust úrskurðarnefndinni athugasemdir frá leyfishafa þar sem framkvæmdum á svæði E-6 er lýst. Kom þar fram að búið væri að ýta og moka upp á bilinu 35.000–38.000 m3 af möl úr stórri áreyri sem byggst hafi upp á síðastliðnum árum. Við þessa framkvæmd hafi myndast nýr og breiðari farvegur í sveigum, með misdjúpum og ójöfnum botni í samræmi við leiðbeiningar sem unnar hafi verið af Fiskirannsóknum ehf. fyrir framkvæmdaraðila. Ekkert rennsli hafi verið í eða eftir þessum nýja farvegi við framkvæmdina, enda hafi verið byrjað „neðst“ og unnið upp eftir eyrinni og endað með því að opna inn á Hörgá „efst“. Þá fyrst hafi hún runnið inn á þennan nýja farveg. Við framkvæmdina hafi þess verið gætt að „hræra“ ekki í árfarvegi Hörgár, þ.e. meginrennsli. Ekki hafi verið snert við lænu meðfram Krossastaðatúninu enda mælist mestur þéttleiki seiða í Hörgá á þessu svæði.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að sveitarfélagið hafi ekki gert grein fyrir því hvernig standi á því að skipulagsfulltrúi hafi gefið út leyfisbréf 1. október 2022 fyrir efnistöku á 85.000 m3 til tveggja ára á svæði E6 á grundvelli ákvörðunar sem sveitarstjórn hafi tekið 27. ágúst 2020. Útgáfa leyfisbréfsins sýnist í andstöðu við efni ákvörðunar sveitarstjórnar og hafi tímafrestir til útgáfu leyfis auk þess verið runnir út. Sveitarstjórn hefði því borið að taka nýja ákvörðun í málinu. Þá ítrekar kærandi áðurrakin málsrök. Sveitarfélagið viðurkenni að „hnökrar“ kunni að vera á hinum kærðu ákvörðunum, en álítur þá smávægilega. Þessu sé kærandi ekki sammála. Til að mynda hafi sveitarfélagið enga grein gert fyrir efni ákvörðunar sveitarstjórnar frá 26. október 2022 um heimild til ótiltekinnar efnistöku á svæði E8. Af opinberum gögnum sé útilokað að sjá um hvaða ákvörðun sé að ræða.

Í greinargerð sveitarfélagsins komi fram að sveitarfélagið hafi ekki þurft að ganga úr skugga um líkur á því að vistfræðilegu ástandi myndi hnigna í þeim vatnshlotum sem efnistökuleyfi hafi verið veitt og öðrum vatnshlotum sem geti orðið fyrir áhrifum. Það sé í ósamræmi við lög nr. 36/2011 um stjórn vatnamála og það sem vísað sé til í kafla 4.2 í áliti Skipulagsstofnunar, hvað snerti áhrif á veiði. Fullt tilefni hefði verið til þess fyrir sveitarfélagið að leita til Hafrannsóknarstofnunar áður en gefin yrðu út fleiri leyfi fyrir efnistöku, þá sérstaklega eftir að veitt hafi verið leyfi fyrir efnistöku á fleiri en einum stað í ánni á sama tíma.

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þær ákvarðanir sveitarstjórnar Hörgársveitar frá 22. september 2022 um að samþykkja umsókn fyrir 100.000 m3 efnistöku á svæði E-9 í Hörgá, 27. ágúst 2020 um að samþykkja umsókn fyrir 85.000 m3 efnistöku á svæði E-6 í Hörgá og 26. október 2022 um að samþykkja ótiltekna heimild til efnistöku á svæði E-8 í Hörgá. Kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar er í 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kveðið á um að kærufrestur til nefndarinnar sé almennt einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina eða ætlað brot á þátttökurétti almennings. Sé um að ræða ákvarðanir sem sæta opinberri birtingu telst kærufrestur hins vegar frá birtingu ákvörðunar.

Það er skilyrði kæruaðildar að málum fyrir úrskurðarnefndinni að kærandi eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Er það í samræmi við þá meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eiga einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Til þess er einnig að líta að umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök eiga lögvarinna hagsmuna að gæta fyrir nefndinni að ákveðnum skilyrðum uppfylltum skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Meðal ákvarðana sem slíkum samtökum er heimilt að bera undir nefndina eru ákvarðanir um leyfi vegna framkvæmda samkvæmt lögum nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, sbr. b. lið málsgreinarinnar. Lögin tóku gildi 1. september 2021, en í 1. ákvæði til bráðabirgða við lögin segir að í þeim tilvikum þegar umhverfismatsferli framkvæmdar sem fellur undir þau lög er lokið við gildistöku laganna skuli ákvæði eldri laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, er lúta að leyfisveitingum vegna framkvæmdarinnar gilda og verður því að líta til ákvæða þeirra laga í máli þessu, en ferli umhverfismats vegna heildstæðs mats á efnistöku á 795.000 m3 úr áreyrum og árfarvegi Hörgár, lauk með áliti Skipulagsstofnunar dags. 4. júní 2015.

Þótt hvert leyfi um sig, sem fjallað er um í máli þessu, taki aðeins til hluta þeirrar framkvæmdar sem um var fjallað í ferli umhverfismatsins sem lauk árið 2015, verður að álíta að leyfisveitanda sé skylt hverju sinni að horfa jafnframt til annara framkvæmda, sem þegar hafa átt sér stað og eru fyrirhugaðar, svo framarlega sem þær tengist með augljósum hætti. Teljast hinar kærðu ákvarðanir því allar til leyfa til framkvæmda í skilningi laga nr. 106/2000.

Kærandi nýtur aðildar að máli þessu skv. b. lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, en af gögnum sem nefndin hefur kynnt sér uppfyllir hann skilyrði þeirrar greinar sem umhverfisverndar- eða útivistar- og hagsmunasamtök. Fyrir liggur að hin kærða ákvörðun var ekki birt opinberlega og var í henni ekki fjallað um kæruheimild né kærufrest. Verður af gögnum málsins ályktað að kæranda varð eða mátti fyrst vera kunnugt um útgáfu hins kærða leyfis um miðjan apríl 2023, en samkvæmt því var kærufrestur ekki liðinn þegar kæra í málinu barst nefndinni 19. apríl s.á. Verður kæra í máli þessu því tekin til efnismeðferðar.

Í mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar frá 2015 segir að tilgangur framkvæmdarinnar sé að sporna við landbroti af völdum Hörgár með rennslisstýringu árinnar með það að markmiði að verja landbúnaðarland og mannvirki. Þar er rakið að Landgræðsla ríkisins hafi í gegnum tíðina styrkt eigendur jarða við Hörgá vegna bakkavarna fjárhagslega og með ráðgjöf. Að mati Landgræðslunnar séu bakkavarnir við Hörgá nánast endalaust verkefni vegna síbreytilegrar rennslisstefnu árinnar sökum mikils framburðar í ánni sem valdi landbroti mjög víða. Í skýrslunni var einungis fjallað að ráði um einn valkost, þ.e. efnistöku úr Hörgá, auk núllkosts. Kemur þar fram að aðrir valkostir, þ.e. manngerðar bakkavarnir, séu mögulegir til að verja landbúnaðarland og mannvirki. Grjótvarnir hefðu gefið nokkuð góða raun en þær séu mjög kostnaðarsamar. Verði efni ekki fjarlægt úr farvegum mætti gera ráð fyrir að þörfin fyrir grjótvarnir myndu aukast mikið. Þá geti varnargarðar gert gagn við að beina ánni frá árbökkum en séu þeir ekki grjótvarðir megi gera ráð fyrir að þeir geti skolast burt í stórum flóðum. Einnig var fjallað um þann kost að vinna að endurheimt árinnar með það að markmiði að láta hana „ná að þróast á sinn náttúrulega hátt“. Var það ekki talið samrýmast markmiðum Hörgár sf. og slíkar aðgerðir voru ekki taldar raunhæfar þar sem þær hefðu í för með sér mikið fjárhagslegt og samfélagslegt tjón þar sem land, vegir og mannvirki myndu skemmast eða eyðileggjast.

Í umhverfismatinu kemur fram að efnistakan muni fara fram með þeim hætti að fyrst verði efnistökusvæði afmarkað og sett upp tímabundin höft eða stíflur úr malarefni. Þá verði efni mokað upp úr farvegi eða áreyrum og flutt á haugsetningarsvæði í nægjanlega mikilli fjarlægð frá ánni þannig að ekki verði hætta á að áin sópi haugnum með sér í næsta flóði. Efni verði svo keyrt frá haugsetningarsvæði eftir því sem þörf og aðstæður á markaði kalli á. Fram kemur að þegar sótt hafi verið um framkvæmdaleyfi sé gert ráð fyrir að leita ráðgjafar Veiðimálastofnunar, nú Hafrannsóknarstofnunar, um ákjósanlegustu aðferðir og afmörkun á hverju einstaka framkvæmdasvæði. Kemur einnig fram að árlega sé áætlað að meta stöðu verkefnisins með tilliti til rennslis árinnar og landbrots og vinna áætlanir um efnistöku næsta tímabils. Fyrirhuguð framkvæmd feli í aðalatriðum í sér efnistöku á efnistökusvæðum á tímabilinu 1. október til 30. apríl ár hvert, flutning efnis frá efnistökusvæði á geymslusvæði og flutning efnis frá geymslusvæði á notkunarstað.

Fram kemur í matsskýrslu að árið 2013 hafi sameignarfélagið Hörgá sf. verið stofnað. Í samþykktum þess var tekið fram að félagsmenn væru landeigendur að ánni eða fulltrúar þeirra. Félaginu var ætlað að láta vinna umhverfismat fyrir efnistökuna fyrir hönd landeigenda við Hörgá og þveráa hennar. Skyldi félagið vera framkvæmdaraðili að allri efnistökunni. Ekki væru þó allir landeigendur að Hörgá í félaginu, en það hefði ekki áhrif á efnistöku. Þar sem félagið liti á ána alla og þverár sem eina heild og skipuleggi efnistöku með hagsmuni alls svæðisins að leiðarljósi, væri í umhverfismatinu fjallað um þau efnistökusvæði sem þættu hentug vegna aðstæðna, efnismagns eða efniseiginleika ásamt efnistökusvæðum sem þyki brýnt að taka efni úr til að draga úr landbroti. Í matsskýrslunni var lýst efnistökusvæðum sem tilgreind voru í drögum sem þá lágu fyrir að Aðalskipulagi Hörgársveitar 2012–2024, með auðkenninguna: E-2, E-4, E-6, E-7, E-8, E-9, E-10 og E-11.

Í áliti Skipulagsstofnunar um framkvæmdina dags. 4. júlí 2015 kom fram að tilgangur framkvæmdarinnar væri að sporna við landbroti af völdum Hörgár. Ekki yrði sótt um framkvæmdaleyfi fyrir öllum efnistökusvæðunum á sama tíma og væri árlega áætlað að meta stöðu verkefnisins með tilliti til rennslis árinnar og landbrots og vinna áætlanir um efnistöku næsta tímabils. Áætlað væri að hefja skipulagða efnistöku á þeim svæðum í ánni þar sem mest þörf væri á að skapa pláss fyrir flóðvatn í farveginum með það að markmiði að draga úr bakkarofi og þar með þörf fyrir annars konar og mjög kostnaðarsamar bakkavarnir s.s. grjótvörn. Fjallað var stuttlega um hvert efnistökusvæði um sig í álitinu, m.a. þau efnistökusvæði þar sem með hinum kærðu leyfum var heimiluð efnistaka.

Rakið var í álitinu að efnistaka gæti haft áhrif á eðli og þróun vatnsfalla. Efnistaka í og við ár sé vandasöm og geti haft áhrif á lífríki í vatni. Botngerð ánna geti breyst og búsvæði laxfiska geti þannig raskast og haft neikvæð áhrif á veiði. Að mati sérfræðinga Veiðimálastofnunar sé óraunhæft að meta áhrif verkefnisins á veiði og lífríki á þessu stigi og almennt geti stofnunin ekki mælt með slíkum verkefnum í ám. Hins vegar væri eðlilegt að stofnunin veitti ráðgjöf með heppilegustu útfærslu efnistöku á hverju framkvæmdasvæði fyrir sig, ef efnistaka á viðkomandi framkvæmdasvæði þætti nauðsynleg og framkvæmdaleyfi hefði verið veitt. Áhrif á veiði væru metin óviss en staðbundin og afturkræf. Áhrif framkvæmdanna á veiði yltu alfarið á því hvernig lífríki ánna reiddi af. Ef tækist að koma í veg fyrir að bú- og hrygningarsvæði ánna spilltust þá yrðu áhrif óveruleg en hætta væri á að inngrip í náttúrulegt ferli árinnar hefði neikvæð áhrif en um það væri nokkur óvissa. Í niðurstöðukafla álitsins var gerð bending um að til að lífríki árinnar yrði fyrir sem minnstum skaða væri nauðsynlegt að ráðfæra sig við fiskifræðinga um tilhögun og áfangaskiptingu á hverju efnistökusvæði.

Í álitinu var lögð áhersla á mikilvægi þess að efnistaka yrði unnin skipulega og yfir lengra tímabil, en fram kom að efnistakan mundi vara í 20 ár. Var í því sambandi talið jákvætt að landeigendur að efnistökusvæðinu hefðu sameinast um efnistökuna, sem ætti að bæta skipulag hennar og lágmarka neikvæð umhverfisáhrif. Meðal mótvægisaðgerða sem ráðgert var að fjallað yrði um við útgáfu hvers framkvæmdaleyfis væru hvernig staðið yrði að efnistökunni með því að ekki yrðu grafnar djúpar gryfjur, aðallega yrði fjarlægt efni ofan af áreyrum og árkeilum og að efnistakan færi fram á fáum afmörkuðum svæðum í einu og væru því staðbundin að hluta. Þá kom fram að ekki yrði unnið að efnistöku á tímabilinu 1. maí til 30. september. Í niðurstöðum álitsins var gerð ábending um að nauðsynlegt væri að í aðalskipulagi Hörgársveitar yrði tekið á efnistöku í Hörgá með heildstæðum hætti og það notað til að leggja línurnar um skipulag efnistöku í og við ána.

Mælt er fyrir um í 1. mgr. 14. gr. skipulagslaga og þágildandi 1. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 að óheimilt sé að gefa út leyfi til framkvæmda fyrr en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir eða ákvörðun um að framkvæmd sé ekki matsskyld. Í 2. mgr. beggja lagagreinanna er svo fjallað nánar um hvernig líta skuli til álits Skipulagsstofnunar við leyfisveitingu vegna matsskyldrar framkvæmdar. Áður voru þau lagaákvæði samhljóða um að við slíka leyfisveitingu bæri leyfisveitanda að kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hennar. Með breytingalögum nr. 96/2019 var skipulagslögum og lögum nr. 106/2000 hins vegar breytt og í stað þess að taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar segir nú í greindum lagaákvæðum að leyfisveitanda beri að leggja álitið til grundvallar við ákvörðun um útgáfu leyfis. Jafnframt kváðu breytingalögin á um það nýmæli að leyfisveitandi skuli taka saman greinargerð um afgreiðslu leyfis. Þannig segir í 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga að slíkt skuli gert í samræmi við ákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum en í þágildandi 3. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 er kveðið á um að í slíkri greinargerð skuli gera grein fyrir samræmi milli leyfis og niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar og rökstyðja sérstaklega ef í leyfinu sé vikið frá niðurstöðu álits. Einnig skuli leyfisveitandi taka afstöðu til tengdra leyfisveitinga þegar tilefni sé til ef um það sé fjallað í áliti Skipulagsstofnunar.

Þá er í 18. gr. breytingalaga nr. 96/2019 að finna lagaskilareglu er mælir fyrir um að matsskyldar framkvæmdir skuli hlíta málsmeðferð samkvæmt eldri ákvæðum laga nr. 106/2000 ef tillaga að matsáætlun hefur borist Skipulagsstofnun fyrir gildistöku laga nr. 96/2019, svo sem raunin er hér. Samkvæmt þágildandi 2. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 bar því sveitarstjórn að taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar. Sambærilegt lagaskila­ákvæði er hins vegar ekki að finna í tengslum við áðurgreinda breytingu á skipulagslögum og bar því að leggja álit Skipulagsstofnunar til grundvallar leyfisveitingu samkvæmt orðalagi 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga, sem gilti við samþykkt hinna kærðu framkvæmdaleyfa. Það verður þó ekki séð að breytt orðalag hafi haft í för með sér efnisbreytingu að máli skipti við úrlausn þessa máls, svo fremi að báðum ákvæðum sé fullnægt þannig að rökstudd afstaða sé tekin til álits Skipulagsstofnunar og það jafnframt lagt til grundvallar leyfisveitingu. Þá er einnig ljóst að þrátt fyrir að sveitarstjórn hafi ekki verið skylt samkvæmt þágildandi lögum nr. 106/2000 að taka saman greinargerð um afgreiðslu leyfis þá var henni það skylt samkvæmt gildandi skipulagslögum.

Að framangreindu virtu er skýrt að skv. 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga bar sveitarstjórn Hörgársveitar að kynna sér matsskýrslu um framkvæmdina, leggja álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hennar til grundvallar og taka saman greinargerð um afgreiðslu leyfis í samræmi við ákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum. Jafnframt er ljóst að samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 bar sveitarstjórn að taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar. Telja verður lögbundnar skyldur sveitarstjórnar, vegna framkvæmdar sem hefur sætt mati á umhverfisáhrifum, vera mikilvægan þátt í málsmeðferð leyfisveitingarinnar og til þess fallnar að stuðla að því að fyrrnefnt markmið b-liðar 1. gr. skipulagslaga verði náð, sem og markmið laga um mat á umhverfisáhrifum sem talin eru upp í 1. gr. þeirra laga. Er og ljóst að sveitarstjórn ber að sinna þeim skyldum óháð því hvenær mat á umhverfisáhrifum fór fram eða hvort leyfi hafi áður verið veitt fyrir hluta framkvæmdar.

Við útgáfu leyfis til framkvæmdar sem undirgengist hefur mat á umhverfisáhrifum eru skyldur sveitarstjórnar sem leyfisveitanda ríkar. Ber sveitarstjórn að fylgja þeim málsmeðferðarreglum sem mælt er fyrir um í skipulagslögum og lögum nr. 106/2000 og sjá til þess að skilyrði þeirra laga séu uppfyllt. Enn fremur ber sveitarstjórn að fylgja þeim markmiðum laganna sem tíundið eru í 1. gr. þeirra beggja, þar á meðal að stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða, tryggja vernd landslags, náttúru og menningarverðmæta og koma í veg fyrir umhverfisspjöll og ofnýtingu, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi, sbr. b-lið 1. gr. skipulagslaga. Jafnframt getur sveitarstjórn við leyfisveitinguna verið skylt að líta til efnis- og formreglna annarra laga, s.s. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Þá er sveitarstjórn sem endranær bundin af ákvæðum stjórn­sýslu­laga nr. 37/1993 og óskráðum meginreglum stjórnsýsluréttar.

Í áliti Skipulagsstofnunar um matsskýrslu framkvæmdarinnar var lögð áhersla á hlutverk sveitarfélagsins við stjórnun efnistökunnar í Hörgá, með þeim heimildum sem felast í gerð aðalskipulags, en í álitinu var um leið greint frá og fjallað um áform framkvæmdaraðila um að hann mundi árlega meta stöðu verkefnisins með tilliti til rennslis árinnar og landsbrots og vinna áætlanir um efnistöku næsta tímabils. Fram kom í umhverfismatinu að Hörgá sf. hafi verið ætlað að bera ábyrgð á malarnáminu, sjá um að forgangsraða og sækja um framkvæmdaleyfi hverju sinni. Fyrir liggur að upp úr þessu samstarfi slitnaði og að sveitarfélagið yfirtók sameignarfélagið og keypti umhverfismatið fyrir efnistökuna. Samkvæmt skýringum sveitarfélagsins hefur verið farið eftir umhverfismatinu frá upphafi og tekið mið af því við útgáfu framkvæmdaleyfa vegna efnistöku úr Hörgá. Það sé grundvallargagn þegar komi að efnistökunni og með því að fylgja því og áliti Skipulagsstofnunar sé tryggð yfirsýn um efnistökuna og vatnasvæði Hörgár.

Hinn 20. apríl 2016 samþykkti Hörgársveit leiðbeiningar um efnistöku úr Hörgá. Sveitarfélagið hefur staðfest við úrskurðarnefndina að ekki hafi verið farið eftir þeim leiðbeiningum í öllu, s.s. um auglýsingu um afmarkaða staði efnistöku á viðkomandi kjörtímabili, en það hafi verið álitið óþarft þegar á reyndi í ljósi þess að efnistökusvæðin í Hörgá væru nægilega skilgreind í aðalskipulagi sveitarfélagsins. Engri áætlun virðist því til að dreifa sem feli í sér skipulega efnistöku í Hörgá á grundvelli leiðbeininganna.

Í greinargerð Aðalskipulags Hörgársveitar 2012–2024 er fjallað um efnistöku úr Hörgá og þverám hennar í kafla um efnistöku- og efnislosunarsvæði. Þar segir: „Efnistaka verður skipulögð á afmörkuðum stöðum hverju sinni. Við efnistöku skal setja ströng skilyrði til varnar umhverfisspjöllum s.s. um viðhald vinnuvéla og meðferð olíu og spilliefna til að koma í veg fyrir mengun frá framkvæmdasvæðinu.“ Gerðar voru breytingar á aðalskipulaginu með ákvörðun sveitarstjórnar frá 5. febrúar 2021 og tóku þær gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 19. s.m. Með þeim var fellt brott skilyrði um að efnistaka yrði einungis á einum efnistökustað í einu. Kom fram í greinargerð með breytingunni að erfitt hafi verið að framfylgja því þar sem landeigendur efnistökusvæða teldu jafnræðis ekki gætt væri þeim synjað um framkvæmdaleyfi vegna þess að efnistaka stæði yfir á öðrum stað í ánni, en einnig vegna þess að ekki væri hafið yfir vafa hvernig túlka bæri orðalag ákvæðisins.

Eftir breytingu aðalskipulagsins segir: „Við veitingu framkvæmdaleyfis til efnistöku í Hörgá og þverám hennar (efnistökusvæði E2, E4, E6, E7, E8, E9, E10 og E11) skal liggja fyrir umsögn Fiskistofu um framkvæmdina þar sem tillit er tekið til annarra gildandi framkvæmdaleyfa vegna efnistöku í Hörgá.“ Þá var einnig bætt við ákvæði um að við efnistöku úr Hörgá og þverám hennar skuli þannig gengið frá efnislager á geymslusvæðum á bökkum ánna að ekki skolist efni úr þeim aftur í árnar við háa vatnsstöðu í þeim. Samkvæmt aðalskipulaginu er heimiluð 85.000 m3 efnistaka á svæði E-6, 75.000 m3 efnistaka á svæði E-8 og 400.000 m3 efnistaka á E-9.

Í fundargerðum sveitarstjórnar við töku hinna kærðu ákvarðana, dags. 27. ágúst 2020, 22. september og 26. október 2022, er enga umfjöllun að finna um það mat á umhverfisáhrifum sem fram fór vegna framkvæmdanna. Bera fundargerðirnar því ekki með sér að sveitarstjórn hafi, í samræmi við áðurnefnd ákvæði skipulagslaga og laga nr. 106/2000, kynnt sér matsskýrslu Hörgár sf., tekið afstöðu til þess hvort framkvæmdin sé sú sem lýst sé í matsskýrslu og lagt álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum til grundvallar eða tekið rökstudda afstöðu til þess.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 20. september 2023, hefur Hörgársveit upplýst að við afgreiðslu hinna kærðu framkvæmdaleyfa hafi verið farið yfir umsóknir og fyrirliggjandi gögn og stöðuna á efnistöku úr Hörgá og greinargerðir verið samþykktar af sveitarstjórn. Þetta hafi verið gert bæði munnlega og skriflega. Með bréfinu fylgdu skriflegar greinargerðir frá fundum skipulagsnefndar sveitarfélagsins, sem skipulags- og byggingarfulltrúi sveitarfélagsins tók saman vegna málanna og voru samþykktar, að því greinir í svari Hörgársveitar til nefndarinnar, á greindum fundum sveitarstjórnar. Sveitarfélagið álíti þessar greinargerðir uppfylla kröfur skipulagslaga nr. 123/2010 um rökstuðning, þ. á m. 2. mgr. 14. gr. laganna.

Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér þessar greinargerðir. Í þeim er fjallað um tiltekna umhverfisþætti fyrir hvert efnistökusvæði um sig, eins og þeim er lýst í matsskýrslunni frá 2015. Þar er um leið gerð grein fyrir ákvæðum aðalskipulags um frágang á efnislager á geymslusvæðum á bökkum Hörgár og að við veitingu framkvæmdaleyfis til efnistöku í ánni skuli liggja fyrir umsögn Fiskistofu um framkvæmdina þar sem tillit sé tekið til annarra gildandi framkvæmdaleyfa vegna efnistöku í Hörgá. Í greinargerð vegna eins leyfisins, sem samþykkt var samkvæmt framangreindu á fundi sveitarstjórnar 27. ágúst 2020, og tekur til efnistökusvæðis E6, var sett skilyrði um að fyrir lægi endurnýjað leyfi frá Fiskistofu til framkvæmdanna. Í engri þessara greinargerða var vikið að áliti Skipulagsstofnunar.

Sem áður er rakið var í áliti Skipulagsstofnunar um matsskýrslu framkvæmdarinnar lögð áhersla á hlutverk sveitarfélagsins við stjórnun efnistökunnar í Hörgá, með þeim heimildum sem felast í gerð aðalskipulags. Um leið var í álitinu greint frá og fjallað um áform framkvæmdaraðila um að hann mundi árlega meta stöðu verkefnisins með tilliti til rennslis árinnar og landbrots og vinna áætlanir um efnistöku næsta tímabils. Sú leið sem farin var í aðalskipulagi sveitarfélagsins að leggja í hendur Fiskistofu að gefa umsögn um heildaráhrif efnistöku var hvorki reifuð í matsskýrslu framkvæmdarinnar né heldur áliti Skipulagsstofnunar.

Úrskurðarnefndin hefur ekki leitað viðhorfa Fiskistofu til þessa hlutverks sem stofnuninni er ætlað samkvæmt aðalskipulaginu. Almennt má þó segja að álitsumleitan til stjórnvalds geti haft leiðbeinandi þýðingu fyrir sveitarstjórnir, ef álit er látið í té. Hins vegar leysir það ekki sveitarstjórn undan skyldu þeirri um rökstuðning sem felst í fyrirmælum 14. gr. skipulagslaga. Raunar verður þess utan ekki séð í gögnum málsins að umsagnar Fiskistofu hafi verið aflað með vísan til aðalskipulagsins. Meðal gagna þessa úrskurðarmáls eru á hinn bóginn leyfi sem Fiskistofa gaf með vísan til 33. gr. laga um lax- og silungsveiði, til þeirrar efnistöku sem fjallað var um á fundum sveitarstjórnar Hörgársveitar 22. september 2022 (100.000 m3) og 27. ágúst 2020 (85.000 m3). Í hvorugu þessara leyfa er fjallað um önnur leyfi eða aðra ráðgerða efnistöku í Hörgá eða þverám hennar. Þá var annað þessara leyfa, með úrskurði úrskurðarnefndarinnar, uppkveðnum í dag, í máli nr. 61/2023, fellt úr gildi.

Í ljósi framangreinds verður álitið að umræddar greinargerðir fullnægi ekki þeim áskilnaði sem gerður er í 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga og vék undirbúningar hinna kærðu leyfisveitinga með þessu frá mikilvægum og lögbundnum skilyrðum laga.

Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 15. gr. skipulagslaga er útgáfa framkvæmdaleyfis háð því skilyrði að sveitarstjórn, eða annar aðili sem hún hefur falið það vald, hafi samþykkt veitingu framkvæmdaleyfis. Hefjist framkvæmdir ekki innan 12 mánaða frá samþykki sveitarstjórnar fellur framkvæmdarleyfið úr gildi, sbr. 2. mgr. sama ákvæðis. Í 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 er kveðið á um að í því skyni að stuðla að hagræðingu, skilvirkni og hraðari málsmeðferð geti sveitarstjórn ákveðið í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins að fela fastanefnd fullnaðarafgreiðslu einstakra mála sem ekki varða verulega fjárhag sveitarfélagsins. Samkvæmt 2. málsl. 2. mgr. 6. gr. skipulagslaga er sveitarstjórn heimilt í samþykkt sveitarfélagsins að fela skipulagsnefnd eða öðrum aðilum innan stjórnsýslu sveitarfélagsins heimild til fullnaðarafgreiðslu mála, svo sem deiliskipulagsáætlana og útgáfu framkvæmdaleyfa.

Á fundi sveitarstjórnar 27. ágúst 2020 var samþykkt umsókn um framkvæmdaleyfi, dags. 16. apríl 2019, vegna 85.000 m3 efnistöku á svæði E-6. Í fundargerð segir: „Sveitarstjórn samþykk[ir] erindið enda samræmist veiting framkvæmdaleyfis samþykktu aðalskipulagi. Skilyrði er að fyrir liggi endurnýjað leyfi frá Fiskistofu. Leyfið gildi fyrir 85.000 m3 og efnistöku skal lokið og efnið farið af svæðinu fyrir 1. október 2022.“ Svo sem fyrr segir var framkvæmdarleyfi gefið út en ekki varð af framkvæmdum. Gefið var út nýtt framkvæmdarleyfi 1. október 2022, með vísan til ákvörðunar sveitarstjórnar frá 27. ágúst 2020. Af fundargerðum sveitarstjórnar verður ekki ráðið að hún hafi tekið umrædda umsókn vegna efnistöku á svæði E-6 til afgreiðslu að nýju áður en skipulagsfulltrúi gaf út framkvæmdaleyfi. Í gildi er samþykkt um stjórn Hörgársveitar og fundarsköp sveitarstjórnar nr. 678/2013, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 16. júlí 2013. Er þar fjallað um valdsvið nefnda og framsal sveitarstjórnar til fastanefnda á valdi til fullnaðarafgreiðslu mála, en ekki er vikið að framsali slíks valds til einstakra starfsmanna, s.s. skipulagsfulltrúa, um útgáfu framkvæmdaleyfa. Brast skipulagsfulltrúa því heimild til þess að endurútgefa hið kærða leyfi.

Framangreindu til viðbótar bendir úrskurðarnefndin á að ekki verði séð að við undirbúning og veitingu hinna kærðu leyfa hafi verið tekin afstaða til framkvæmdanna á grundvelli laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála, en samkvæmt þeim er skylt að vernda yfirborðsvatnshlot og tryggja að ástand þeirra versni ekki.

Að öllu framangreindu virtu vék undirbúningur hinna kærðu ákvarðana frá mikilvægum skilyrðum laga og verður því að fella hin kærðu leyfi úr gildi.

 Úrskurðarorð:

Felldar eru úr gildi ákvarðanir sveitarstjórnar Hörgársveitar frá 22. september 2022 um að samþykkja umsókn fyrir 100.000 m3 efnistöku á svæði E-9 í Hörgá, 27. ágúst 2020 um að samþykkja umsókn fyrir 85.000 m3 efnistöku á svæði E-6 í Hörgá og 26. október 2022 um að samþykkja ótiltekna heimild til efnistöku á svæði E-8 í Hörgá.

61/2023 Efnistaka í Hörgá

Með

Árið 2023, föstudaginn 29. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor. Geir Oddsson auðlindafræðingur tók þátt í gegnum fjarfundabúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 61/2023, kæra á ákvörðun Fiskistofu frá 12. september 2022 um að veita leyfi til efnistöku á svæði E-6 í Hörgá í Hörgársveit.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. maí 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir Náttúrugrið, þá ákvörðun Fiskistofu frá 12. september 2022 að veita Hæðargarði ehf. leyfi til efnistöku á svæði E-6 í Hörgá í Hörgársveit. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt var gerð krafa um að réttaráhrifum ákvörðunarinnar yrði frestað á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni, en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði uppkveðnum 26. maí 2023.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Fiskistofu 22. maí 2023.

Málavextir: Hinn 11. apríl 2019 veitti Fiskistofa framkvæmdaraðila leyfi til allt að 85.000 m3 efnistöku úr Hörgá við Krossastaði, þ.e. á svæði E-6 samkvæmt Aðalskipulagi Hörgársveitar 2012–2024, og gilti leyfið til 12. apríl 2020. Framkvæmdarleyfi var hins vegar ekki gefið út og því fór efnistaka ekki fram. Fiskistofa veitti leyfi að nýju 18. nóvember 2020 á grundvelli sömu forsendna og fyrra leyfi byggðist á með gildistíma til 1. október 2022. Hinn 4. júlí 2022 óskaði leyfishafi eftir því að leyfið yrði framlengt þar sem framkvæmdir hefðu ekki hafist vegna tafa. Var leyfi veitt að nýju 12. september 2022 á grundvelli sömu forsendna og fyrri leyfi.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að hin kærða ákvörðun fari í bága við ákvæði laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Samkvæmt 4. mgr. 27. gr. laganna, áður 4. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000, skuli leyfisveitandi tilkynna Skipulagsstofnun um útgáfu leyfis vegna matsskyldra framkvæmda og birta opinberlega með auglýsingu ákvörðun sína og gera leyfi og greinargerð með því aðgengilegt á netinu innan tveggja vikna frá afgreiðslu þess. Þar skuli tilgreina kæruheimild og kærufrest. Þessa hafi ekki verið gætt og hafi kærufrestur því ekki byrjað að líða fyrr en kæranda hafi getað verið kunnugt um hina kærðu ákvörðun, sem hafi verið þegar ummerki við Hörgá á svæði E-6 hafi fyrst komið fram um miðjan apríl 2023, en hann hafi í framhaldi þess lagt fram kæru vegna framkvæmdaleyfis sveitarfélagsins 19. s.m. Kærandi álítur að allar efnis- og formreglur hafi verið brotnar við útgáfu leyfisins við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar. Þar komi m.a. skýrt fram að í engu hafi verið gætt að því sem fiskifræðingur hafi mælt með í byrjun árs 2019 og hafi ekki heldur verið aflað uppfærðra upplýsinga frá þeim fiskifræðingi, þótt tvö og hálft ár hafi verið liðin frá því að greinargerðar hans hafi verið aflað.

Málsrök Fiskistofu: Af hálfu Fiskistofu er upplýst að hin kærða ákvörðun hafi ekki verið birt opinberlega og ekki hafi verið fjallað um kæruheimild né kærufrest í henni. Þá hafi Skipulagsstofnun ekki verið tilkynnt um útgáfu leyfanna. Þá sé það rétt að ekki hafi verið aflað uppfærðra upplýsinga frá sérfræðingi á sviði veiðimála fyrir útgáfu hins kærða leyfis, þar sem efnistaka hafi tekið til sama magns og svæðis og fjallað hafi verið um í fyrri leyfum til sömu framkvæmdar, en engin efnistaka hafi farið fram með heimild í þeim.

Fiskistofa geti krafist þess að framkvæmdaraðili láti gera líffræðilega úttekt á veiðivatni áður en leyfi sé veitt, sbr. 3. mgr. 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði. Sú leið hafi ekki verið farin við undirbúning málsins, en þess í stað kveðið á um það í leyfinu að efnistakan yrði framkvæmd í samráði við fiskifræðing til að meta áhrif framkvæmdarinnar á fiskistofna árinnar. Seiðamælingar yrðu gerðar á völdum stöðum áður en framkvæmdir hæfust og að henni lokinni. Þetta sé í samræmi við álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, dags. 4. júlí 2015. Ákvæði leyfisins um magn efnis og tíma framkvæmda hafi einnig verið í samræmi við álit Skipulagstofnunar.

Framkvæmdaraðila var gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum í málinu en hann hefur ekki tjáð sig um málatilbúnað kæranda.

Niðurstaða: Í máli þessu er kærð ákvörðun Fiskistofu frá 12. september 2022 skv. 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði sem verður borin undir úrskurðarnefndina með heimild í 1. mgr. 36. gr. þeirra laga. Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kveðið á um að kærufrestur til nefndarinnar sé almennt einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina eða ætlað brot á þátttökurétti almennings. Sé um að ræða ákvarðanir sem sæta opinberri birtingu telst kærufrestur hins vegar frá birtingu ákvörðunar.

Það er skilyrði kæruaðildar að málum fyrir úrskurðarnefndinni að kærandi eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Er það í samræmi við þá meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eiga einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Á hinn bóginn teljast  umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtökum eiga lögvarinna hagsmuna að gæta fyrir nefndinni að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, sbr. nánar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Meðal ákvarðana sem slíkum samtökum er heimilt að bera undir nefndina eru ákvarðanir um leyfi vegna framkvæmda samkvæmt lögum nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, sbr. b. lið málsgreinarinnar. Lögin tóku gildi 1. september 2021, en í 1. ákvæði til bráðabirgða við lögin segir að í þeim tilvikum þegar umhverfismatsferli framkvæmdar sem fellur undir þau lög er lokið við gildistöku laganna skuli ákvæði eldri laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, er lúta að leyfisveitingum vegna framkvæmdarinnar gilda. Ferli umhverfismats vegna heildstæðs mats á efnistöku á að 795.000 m3 úr áreyrum og árfarvegi Hörgár, lauk með áliti Skipulagsstofnunar dags. 4. júní 2015. Verður því að líta til ákvæða laga nr. 106/2000 hvað varðar leyfisveitinguna.

Í c-lið 3. gr. laga nr. 106/2000 var hugtakið framkvæmd afmarkað þannig að það næði til hvers konar nýframkvæmdar eða breytingar á eldri framkvæmd og starfsemi sem henni fylgi, sem undir lögin falli. Samkvæmt f-lið greinarinnar töldust leyfi til framkvæmda vera framkvæmdaleyfi og byggingarleyfi samkvæmt skipulagslögum og lögum um mannvirki og önnur leyfi til starfsemi og framkvæmda samkvæmt sérlögum sem um viðkomandi framkvæmd gilda. Í 2. og 3. mgr. 13. gr. laganna var mælt fyrir um undirbúning að útgáfu leyfis á grundvelli matsskýrslu framkvæmdaraðila og álits Skipulagsstofnunar um framkvæmdina. Í 4. mgr. lagagreinarinnar var síðan mælt fyrir um skyldu leyfisveitanda til að birta opinberlega með auglýsingu ákvörðun sína um útgáfu leyfis innan tveggja vikna frá afgreiðslu þess, þar sem tilgreint væri hvar greinargerð um afgreiðslu leyfis væri aðgengileg og tilkynnt væri um kæruheimild og kærufrest þegar það ætti við.

Um framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi var fjallað, sem einn framkvæmdaþátt, í áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum allt að 795.000 m3 efnistöku úr áreyrum og árfarvegi Hörgár í Hörgársveit. Þótt leyfið takið aðeins til hluta þeirrar framkvæmdar verður að álíta að leyfisveitanda sé skylt hverju sinni að horfa jafnframt til annara framkvæmda, sem þegar hafa átt sér stað og eru fyrirhugaðar, svo framarlega sem þær tengist með augljósum hætti. Verður leyfið því álitið leyfi til framkvæmda í skilningi laga nr. 106/2000, sbr. gr. 2.01 í 1. viðauka við lögin.

Kærandi nýtur aðildar að máli þessu skv. b. lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 og af gögnum sem nefndin hefur kynnt sér uppfyllir hann skilyrði þeirrar greinar sem umhverfisverndar- eða útivistar- og hagsmunasamtök. Fyrir liggur að hin kærða ákvörðun var ekki birt opinberlega og var í henni ekki fjallað um kæruheimild né kærufrest. Verður af gögnum málsins ályktað að kæranda varð eða mátti fyrst vera kunnugt um útgáfu hins kærða leyfis um miðjan apríl 2023, en samkvæmt því var kærufrestur ekki liðinn þegar kæra í málinu barst nefndinni 11. maí s.á. Verður kæra í máli þessu því tekin til efnismeðferðar.

Í skýrslu um mat á umhverfisáhrifum efnistöku í Hörgá, dags. í apríl 2015, var rakið að árið 2013 hafi landeigendur við Hörgá stofnað sameignarfélagið Hörgá. Markmið þess væri að minnka líkur á landbroti sem valdi skemmdum á mannvirkjum og löndum í nágrenni árinnar og þveráa hennar og um leið að stuðla að sjálfbærri nýtingu jarðefna með sem minnstum neikvæðum umhverfisáhrifum. Markmiði sínu hygðist sameignarfélagið ná með því að láta vinna, fyrir hönd landeigenda við Hörgá og þveráa hennar, umhverfismat vegna efnistökunnar. Efnistaka væri áætluð á átta svæðum í ánni, en svæðin hefðu verið tilgreind sem efnistökusvæði í drögum að aðalskipulagi Hörgársveitar sem væri í vinnslu. Sameignarfélagið væri því framkvæmdaraðili að allri efnistöku úr Hörgá og þverám hennar.

Í áliti Skipulagsstofnunar um framkvæmdina, dags. 4. júlí 2015, kom fram að tilgangur framkvæmdarinnar væri að sporna við landbroti af völdum Hörgár. Ekki yrði sótt um framkvæmdaleyfi fyrir öllum efnistökusvæðunum á sama tíma og væri áætlað að meta árlega stöðu verkefnisins með tilliti til rennslis árinnar og landbrots og vinna áætlanir um efnistöku næsta tímabils. Áætlað hefði verið að hefja skipulagða efnistöku á þeim svæðum í ánni þar sem mest þörf væri á að skapa pláss fyrir flóðvatn í farveginum með það að markmiði að draga úr bakkarofi og þar með þörf fyrir annars konar og mjög kostnaðarsamar bakkavarnir, s.s. grjótvörn. Fjallað var stuttlega um hvert efnistökusvæði um sig í álitinu og kemur fram um svæði E-6, sem hið kærða leyfi varðar, að það sé í árfarvegi frá Laugalandi að Vöglum, á u.þ.b. 2,2 km svæði. Það sé á malarsvæði og í löndum jarðanna Krossastaða, Laugalands, Auðbrekku og Hólkots. Áætlað sé að taka 85.000 m3 á svæðinu sem sé á jaðri grannsvæðisverndar vatnsbóla. Á þessu svæði hafi á undanförnum árum verið mjög mikið bakkarof og farvegur árinnar breytist reglulega, en þar hafi landeigendur reynt ýmsar leiðir til að draga úr flóðahættu og landbroti.

Í áliti Skipulagsstofnunar var rakið að efnistaka gæti haft áhrif á eðli og þróun vatnsfalla. Efnistaka í og við ár sé vandasöm og geti haft áhrif á lífríki í vatni. Botngerð ánna geti breyst og búsvæði laxfiska geti þannig raskast og haft neikvæð áhrif á veiði. Að mati sérfræðinga Veiðimálastofnunar sé óraunhæft að meta áhrif verkefnisins á veiði og lífríki á þessu stigi og almennt geti stofnunin ekki mælt með slíkum verkefnum í ám. Hins vegar væri eðlilegt að stofnunin veitti ráðgjöf með heppilegustu útfærslu efnistöku á hverju framkvæmdasvæði fyrir sig, ef efnistaka á viðkomandi framkvæmdasvæði þætti nauðsynleg og framkvæmdaleyfi hefði verið veitt. Áhrif á veiði væru metin óviss, en staðbundin og afturkræf. Áhrif framkvæmdanna á veiði yltu alfarið á því hvernig lífríki ánna reiddi af. Ef tækist að koma í veg fyrir að bú- og hrygningarsvæði ánna spilltust þá yrðu áhrif óveruleg. Hætta væri á að inngrip í náttúrulegt ferli árinnar hefði neikvæð áhrif, en um það væri nokkur óvissa. Í niðurstöðukafla álitsins var sagt að til að lífríki árinnar yrði fyrir sem minnstum skaða væri nauðsynlegt að ráðfæra sig við fiskifræðinga um tilhögun og áfangaskiptingu.

Í álitinu var lögð áhersla á mikilvægi þess að efnistaka yrði unnin skipulega og yfir lengra tímabil, en fram kom að hún myndi vara í 20 ár. Var í því sambandi talið jákvætt að landeigendur hefðu sameinast um skipulag efnistökunnar, sem ætti að bæta skipulag hennar og lágmarka neikvæð umhverfisáhrif. Meðal mótvægisaðgerða sem fjallað yrði um við útgáfu hvers framkvæmdaleyfis væri hvernig staðið yrði nánar að efnistökunni á hverjum stað. Þá kom fram að ekki yrði efnistaka á tímabilinu 1. maí til 30. september. Í niðurstöðum álitsins var gerð ábending um að nauðsynlegt væri að í aðalskipulagi Hörgársveitar yrði tekið á efnistöku í Hörgá með heildstæðum hætti til að leggja línurnar um skipulag efnistöku í og við ána.

Hið kærða leyfi, sem er dags. 12. september 2022, er gefið út á grundvelli 33. gr. laga nr. 61/2006. Í þeirri lagagrein er kveðið á um það að sérhver framkvæmd í eða við veiðivatn, allt að 100 metrum frá bakka, sem áhrif geti haft á fiskigengd þess, afkomu fiskstofna, aðstæður til veiði eða lífríki vatnsins að öðru leyti, sé háð leyfi Fiskistofu. Mælt er fyrir um hvaða gögn skuli fylgja umsókn um slíkt leyfi og er þar m.a. nefnd umsögn sérfræðings á sviði veiðimála um hugsanleg áhrif framkvæmdar á lífríki veiðivatns.

Með leyfinu féllst Fiskistofa á að framkvæmdaraðili tæki allt að 85.000 m3 af malarefni á tveimur árum úr efnistökusvæði E6 við Hörgá. Fram kom að efnistakan skyldi fara fram utan veiðitíma árinnar og unnin í samráði við fiskifræðing til þess að meta áhrif framkvæmdarinnar á fiskistofna árinnar. Seiðamælingar yrðu gerðar á völdum stöðum áður en framkvæmdin hæfist og að henni lokinni. Mælingar yrðu gerðar fyrir ofan, neðan og á framkvæmdasvæðinu. Þá fór Fiskistofa fram á að gerð yrði grein fyrir helstu niðurstöðum seiðarannsókna og niðurstöður yrðu síðan teknar saman í skýrslu að lokinni efnistökunni og hún send stofnuninni ekki síðar en 31. desember 2024.

Í hinu kærða leyfi kemur fram að Fiskistofa hafi litið til gagna sem fylgdu upphaflegri umsókn um leyfið og skýrslu um mat á umhverfisáhrifum. Með henni hafi fylgt upplýsingar um framkvæmdina og yfirlitsmynd af fyrirhuguðu framkvæmdasvæði, álit Skipulagsstofnunar vegna mats á umhverfisáhrifum vegna efnistöku úr og við Hörgá, umsókn stjórnar Veiðifélags Hörgár og samþykki landeigenda. Þá lá fyrir umsögn sérfræðings í veiðimálum um hugsanleg áhrif framkvæmdarinnar á lífríki veiðivatns skv. 2. mgr. 33. gr. laga nr. 61/2006. Umsögnin er dags. 18. mars 2019 og var því tveggja ára gömul við útgáfu leyfisins, en á hinn bóginn höfðu engar framkvæmdir átt sér stað á framkvæmdasvæðinu þegar það var veitt. Til þess er einnig að líta að gert er ráð fyrir því í hinu kærða leyfi að fiskifræðingur verði til ráðuneytis um tilhögun framkvæmda. Þá verður ekki gerð athugasemd við það mat Fiskistofu að sá sem lét álitið í té verði talinn sérfræðingur á sviði veiðimála.

Í leyfinu er ítarleg endursögn á umsögn sérfræðingsins og er rakið að engar seiðamælingar séu til af svæðinu, þ.e. úr meginfarvegi Hörgár. Á hinn bóginn væru fyrirliggjandi mælingar um stöðuna talsvert neðar í ánni, með mjög lágum gildum og talsvert ofan við svæðið þar sem gildi séu hærri og fari hækkandi því ofar sem dragi í ánni. Mælingar úr þverám í nágrenni svæðisins, t.d. Krossastaðaá, sýni mikinn þéttleika, raunar þann mesta á öllu vatnasvæði Hörgár. Í ljósi þessa sé freistandi að álykta að efnistökusvæðið sé á mörkum þess að vera gott hrygningar/búsvæði fyrir bleikju. Rétt sé að hafa í huga að í Krossastaðaá sé mikill þéttleiki og gæti sá þéttleiki einnig verið í lænu er liggi samhliða Hörgá í framhaldi af Krossastaðaá. Þá lænu og aðra andspænis þurfi að skoða sérstaklega og bíða með framkvæmdir þar uns seiðamælingar hafi farið fram. Mögulega þurfi að friða þá farvegi algerlega. Samkvæmt veiðitölum (veiðisvæði 3) sé svæðið með lakari veiðisvæðum árinnar og hafi veiðin dalað mjög á svæðinu síðust ár. Á svæðinu hafi áin safnað nokkurri möl, farvegir hækkað og breyst á milli ára, við það hefur hætta á bakkarofi með flóðum á ræktarland aukist. Séu landeigendur uggandi og séu uppi hugmyndir um bakkavarnir með stórgrýti. Afleiðingar slíkra framkvæmda séu oftar en ekki þær að áin grafi sig í djúpan og hraðan stokk meðfram bakkavörn. Slíkir staðir hugnist bleikju ekki.

Fram kemur einnig að framkvæmdin geti haft nokkur áhrif á búsvæði fiska og seiðaframleiðslu vatnssvæðisins. Það sé þó álit sérfræðingsins að með ákveðnu verklagi, mótvægisaðgerðum og eftirfylgni, megi jafnvel gera þessa efnistöku jákvæða fyrir lífríki árinnar. Varast skuli að dýpka ánna mikið en leggja fremur áherslu á að breikka farveg hennar. Áhrifin verði svo metin með seiðamælingu, myndatöku og gögnum úr veiðibókum. Mælt sé auk þess með því að rask á farvegi árinnar fari fram utan veiðitíma, eins og hann sé ákveðinn af veiðifélagi árinnar ár hvert, en sé þó með öllu óheimilt í júlí til september. Efnistakan sjálf geti svo farið fram utan þess tíma, en þá ekki í farvegi árinnar.

Í hinu kærða leyfi kemur fram að aflað hafi verið umsagnar veiðifélags Hörgár og hafi stjórn félagsins ekki gert athugasemd við efnistökuna, en árétti að ekki skuli unnið við hana á veiðitíma í ánni nema með sérstöku samkomulagi við veiðifélagið.

Í leyfinu er á grundvelli umsagnar sérfræðingsins heimiluð allt að 85.000 m3 efnistaka á efnistökusvæðinu á tveimur árum. Kveðið er á um að hún skuli fara fram utan veiðitíma árinnar. Engin bein afstaða er tekin til ábendinga í umsögn sérfræðingsins um tilhögun framkvæmdar hvað snertir æskilegt verklag og mótvægisaðgerðir, en mælt fyrir um að gengið skuli snyrtilega frá svæðinu að framkvæmdum loknum. Kveðið er á um að efnistakan skuli fara fram í samráði við fiskifræðing til þess að meta áhrif framkvæmdarinnar á fiskstofna árinnar. Skuli seiðamælingar gerðar á völdum stöðum áður en framkvæmdin hefjist og að henni lokinni, sem verði fyrir ofan, neðan og á framkvæmdasvæðinu. Skuli Fiskistofu gerð grein fyrir helstu niðurstöðum seiðarannsókna og niðurstöður teknar saman í skýrslu að lokinni efnistökunni sem send verði stofnuninni ekki síðar en 31. desember 2024. Loks er í leyfinu m.a. bent á að framkvæmdir við veiðivötn kunni að vera háðar framkvæmdaleyfi viðkomandi sveitarfélags.

Í 3. mgr. 33. gr. laga nr. 61/2006 er mælt fyrir um það að ef sérstök ástæða þyki til geti Fiskistofa krafist þess að framkvæmdaraðili láti gera líffræðilega úttekt á veiðivatni áður en leyfi til framkvæmdar er veitt. Fiskistofa geti í slíkum tilvikum kveðið nánar á um til hvaða þátta úttektin skuli ná. Í lögskýringargögnum kemur fram að ákvæðið feli í sér almenna skyldu til að standa þannig að framkvæmd við veiðivatn að ávallt liggi fyrir hver áhrif framkvæmdin kunni að hafa á þá þætti sem ráða afkomu fiskstofna vatnsins. Niðurstaða hinnar líffræðilegu úttektar geti leitt til þess að ekki verði fallist á framkvæmdina, þótt sá er hennar óski hafi aflað sér jákvæðra álita annarra umsagnaraðila, að því er segir í frumvarpi er varð að lögum nr. 60/2006 (þskj. 891, 132. löggjþ.). Með þessu er gert ráð fyrir einskonar þröskuldsviðmiðun, þannig að álíti Fiskistofa að umtalsverð áhrif geti orðið af framkvæmd á fiskigengd veiðivatns, afkomu fiskstofna, aðstæður til veiði eða lífríki vatnsins að öðru leyti, geti verið skilyrði til þess, til rannsóknar máls sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, að afla líffræðilegrar úttektar. Skal þá slík úttekt greidd af þeim sem óskar leyfis til framkvæmdanna, sbr. 4. mgr. 33. gr. laganna. Með þessum fyrirmælum er ekki fjallað um hvaða þýðingu það hafi ef fyrir liggur skýrsla um umhverfismat framkvæmdar, en eðlilegt virðist að efni hennar geti haft þýðingu um hvort krafist verði sérstakrar úttektar samkvæmt þessari lagagrein.

Svo sem að framan greinir telst hið kærða leyfi til leyfis til framkvæmda samkvæmt lögum nr. 106/2000. Af því leiðir að Fiskistofu var skylt við undirbúning leyfisins að byggja á 2. og 3. mgr. 13. gr. þeirra laga þar sem kveðið var á um að við útgáfu slíks leyfis skyldi leyfisveitandi kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hennar. Það er ljóst af hinu kærða leyfi að þessa var ekki gætt. Þar kemur að vísu fram að skýrsla um mat á umhverfisáhrifum hafi verið meðal gagna sem litið hafi verið til og fylgt hafi upphaflegri umsókn um framkvæmdina, en í engu er getið álits Skipulagsstofnunar. Þess í stað er í leyfinu aðeins fjallað um álit sérfræðings í veiðimálum og tillaga hans lögð grundvallar niðurstöðu. Með þessu vék undirbúningur hinnar kærðu ákvörðunar frá mikilvægum skilyrðum laga og verður því að fella hið kærða leyfi úr gildi.

Framangreindu til viðbótar bendir úrskurðarnefndin á að ekki verði séð að við undirbúning og veitingu hinna kærðu leyfa hafi verið tekin afstaða til framkvæmdanna á grundvelli laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála, en samkvæmt þeim er skylt að vernda yfirborðsvatnshlot og tryggja að ástand þeirra versni ekki.

 Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun Fiskistofu frá 12. september 2022 um að veita leyfi til efnistöku á svæði E-6 í Hörgá í Hörgársveit.

107/2023 Suðurnesjalína 2

Með

Árið 2023, fimmtudaginn 28. september, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 107/2023, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Voga frá 30. júní 2023 um að veita Landsneti hf. framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2 innan marka sveitarfélagsins.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. september 2023, er barst nefndinni sama dag, kæra Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands, Hraunavinir og Landvernd þá ákvörðun bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Voga frá 30. júní 2023 að veita Landsneti hf. framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2 innan marka sveitarfélagsins. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til þeirrar kröfu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Vogum 19. september 2023.

Málavextir og rök: Á fundi skipulagsnefndar Sveitarfélagsins Voga hinn 29. júní 2023 var tekin fyrir umsókn Landsnets hf. um framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2 innan marka sveitarfélagsins. Lagði nefndin til við sveitarstjórn að fallist yrði á umsókn félagsins samkvæmt leið C með vísan til rökstuðnings og þeirra skilyrða sem fram kæmi í 5. kafla í tillögu að greinargerð sveitarstjórnar. Næsta dag samþykkti bæjarstjórn afgreiðslu skipulagsnefndar og fól skipulagsfulltrúa að gefa út framkvæmdaleyfi.

Kærendur benda á að framkvæmdir séu yfirvofandi en áætlað sé að hefja framkvæmdir á þessu ári samkvæmt drögum að áætlun um framkvæmdaverk 2024–2026, sbr. tillögu að kerfisáætlun Landsnets 2023–2032. Sveitarfélagið hafi ekki rökstutt með fullnægjandi hætti ákvörðun sína um að veita framkvæmdaleyfi þvert á niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar frá 22. apríl 2020. Ekkert deiliskipulag sé til af svæðinu og engin grenndarkynning hafi farið fram. Þá hafi sveitarfélagið ekki gengið úr skugga um að öll fyrirliggjandi leyfi fyrir framkvæmdinni séu á réttum rökum reist. Með vísan til þeirra málsástæðna sé þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan mál þetta sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni, sbr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Leyfishafi bendir á að í tilvísuðum drögum að áætlun um framkvæmdarverk segi að gert sé ráð fyrir að hefja útboð verkþátta og framkvæmdir í kjölfar þess að tilskilin leyfi liggi fyrir. Þótt þau leyfi liggi nú fyrir hafi leyfishafi ekki náð samkomulagi um endurgjald fyrir landnot á allri línuleið Suðurnesjalínu 2 í Sveitarfélaginu Vogum, en framkvæmdir geti ekki hafist fyrr en það liggi fyrir eða eignarnám hafi farið fram, sbr. 21. gr. raforkulaga nr. 65/20023. Ekki liggi fyrir hvenær þessum þætti ljúki. Ef allt gangi að óskum verði hægt að fara í útboð í desember 2023 til febrúar 2024 og framkvæmdir geti þá hafist sumarið 2024. Séu því framkvæmdirnar séu ekki yfirvofandi í skilningi 5. gr. laga nr. 130/2011 og endanlegur úrskurður ætti að liggja fyrir áður en framkvæmdir hefjist.

Sveitarfélagið Vogar bendir á að ekkert framkvæmdaleyfi hafi enn verið gefið út. Engar forsendur séu því til að stöðva framkvæmdir. Stöðvun framkvæmda á grundvelli 5. gr. laga nr. 130/2011 sé þar að auki undantekningarheimild og beri að skýra ákvæðið þröngt. Réttaráhrif stöðvunar séu jafn afdrifarík og sambærileg og áhrif lögbanns, en við beitingu stöðvunarúrræðisins sé hins vegar ekki krafist tryggingar af hálfu þess aðila er fari fram á stöðvun eins og gert sé þegar lögbanni sé beitt. Þrátt fyrir það séu mjög þröngar skorður settar við beitingu lögbanns, sbr. 24. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl.

 Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda eða réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda.

Samkvæmt upplýsingum frá Sveitarfélaginu Vogum hefur ekki verið gefið út framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2. Þá liggur einnig fyrir samkvæmt upplýsingum frá leyfishafa að ekki hefur verið samið um endurgjald fyrir landnot á allri línuleið Suðurnesjalínu 2 í sveitarfélaginu, en skv. 21. gr. raforkulaga nr. 65/2003 má ekki leggja raflínur eða reisa önnur mannvirki á grundvelli leyfa samkvæmt lögunum fyrr en náðst hefur samkomulag um endurgjald fyrir landnot eða nýtingu auðlindar eða eignarnám hafi farið fram og umráðataka samkvæmt því. Jafnframt hefur leyfishafi upplýst nefndina um að stefnt sé að útboði fram­kvæmdanna í desember 2023 til febrúar 2024 og að framkvæmdir geti þá hafist sumarið 2024.

Gera verður ráð fyrir að meðferð málsins hjá úrskurðarnefndinni verði lokið innan lögbundins málsmeðferðartíma, sbr. 6. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, eða í öllu falli áður en framkvæmdir hefjast. Í ljósi framangreinds verður ekki talið að framkvæmdir séu yfirvofandi og því ekki knýjandi þörf til að grípa til svo íþyngjandi úrræðis sem stöðvun framkvæmda er þar til úrskurður gengur í kærumálinu. Verður kröfu kærenda þess efnis því hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða á grundvelli ákvörðunar bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Voga frá 30. júní 2023 um að veita Landsneti hf. framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2 innan marka sveitarfélagsins.

73/2023 Álfhella

Með

Árið 2023, fimmtudaginn 28. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 73/2023, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 10. maí 2023 um að synja byggingarleyfisumsókn fyrir staðsteyptu atvinnu-, lager- og geymsluhúsnæði á tveimur hæðum á lóð nr. 11 við Álfhellu.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. júní 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir Brimrás ehf. þá ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 10. maí 2023 að synja byggingarleyfisumsókn kæranda fyrir staðsteyptu atvinnu-, lager- og geymsluhúsnæði á tveimur hæðum á lóð nr. 11 við Álfhellu. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarkaupstað 30. júní 2023.

Málavextir: Á árinu 2019 sótti kærandi um breytingu á deiliskipulagi Hellnahrauns, 2. áfanga, vegna lóðar nr. 11 við Álfhellu í Hafnarfirði. Í breytingartillögunni var greint frá því að byggingar­reitur færðist til á lóð og að bundin byggingarlína félli niður. Á skipulagsuppdrætti var gert ráð fyrir útitröppum á vesturhlið hússins sem yrði fyrir utan byggingarreit.Að undangenginni málsmeðferð samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010 tók deiliskipulags­breytingin gildi við birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 25. september 2019.

Hinn 23. október 2020 sótti kærandi um leyfi til að byggja staðsteypt atvinnu-, lager- og geymsluhúsnæði á tveimur hæðum á lóðinni Álfhellu 11. Í kjölfarið mun kærandi og byggingar­fulltrúi hafa átt í nokkrum samskiptum og í apríl 2022 mun kærandi hafa lagt fram uppfærðan aðaluppdrátt. Í tölvubréfi byggingarfulltrúa, dags. 23. september 2022, kom fram sú afstaða embættisins að „ekki [væri] hægt að hafa lager með engri lyftu“ og að skrifa þyrfti í byggingarlýsingu að um frávik frá gildandi deiliskipulagi væri að ræða þar sem stigi og lyfta færu út fyrir byggingarreit. Hinn 13. febrúar 2023 lagði kærandi fram uppfærða upp­drætti til byggingarfulltrúa. Kæranda og byggingarfulltrúa munu hafa átt fund 18. s.m. og í kjölfar hans sendi kærandi byggingarfulltrúa bréf, dags. 3. maí s.á., þar sem færð voru rök fyrir því að ekki væri þörf á lyftu í húsnæðinu og þess óskað að byggingarleyfisumsóknin yrði tekin til afgreiðslu. Á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa 10. s.m. var umsókn kæranda synjað þar sem hún væri hvorki í samræmi við byggingarreglugerð né deiliskipulag. Í kjölfarið óskaði kærandi eftir frekari rökstuðningi fyrir ákvörðuninni og var hann veittur 16. maí 2023.

Málsrök kæranda: Kærandi telur hina kærðu ákvörðun byggja á ólögmætum sjónarmiðum og forsendum. Synjunin byggi annars vegar á því að fyrirhugað atvinnuhúsnæði á lóð Álfhellu 11 sé ekki í samræmi við byggingarreglugerð nr. 112/2012, en hins vegar að það sé ekki í samræmi við deiliskipulag.

Fyrra álitaefnið varði það hvort skylt sé að hafa lyftu í húsnæðinu, sbr. 4. tölulið 1. mgr. gr. 6.4.12. í byggingarreglugerð, en ákvæðið kveði á um að minnst ein lyfta skuli vera í öllum byggingum sem séu með tvær eða fleiri hæðir og hýsi opinbera starfsemi, hótel, samkomuhús, veitingastaði eða annað þjónustuhúsnæði, s.s. skrifstofur, þjónusturými iðnarhúsnæðis og verslanir svo og starfsemi sem almenningur hafi aðgang að. Orðalag ákvæðisins beri ekki með sér að skylt sé að hafa lyftur í öllu atvinnuhúsnæði, heldur eingöngu því sem falli undir skilgreininguna í ákvæðinu. Eins og fram komi á framlögðum uppdráttum geri kærandi ráð fyrir að á annarri hæð verði lagerhúsnæði, en þangað eigi aðrir en starfsmenn ekki erindi. Með öðrum orðum sé rýmið á annarri hæð ekki opið almenningi og teljist ekki þjónusturými iðnaðarhúsnæðis. Fái þessi sjónarmið stuðning í svari Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 23. mars 2023, við fyrirspurn kæranda um túlkun á ákvæðinu.

Bent sé á að samkvæmt lögmætisreglu íslensk stjórnsýsluréttar verði íþyngjandi ákvarðanir stjórnvalda að eiga sér stoð í lögum og reglum. Kostnaður við kaup á lyftu og tengdum búnaði og vegna lögbundins eftirlits með slíkum búnaði geti verið mjög stór hluti af byggingar- og rekstrarkostnaði. Byggingarfulltrúa sé ekki heimilt að fella á kæranda verulega íþyngjandi fjárhags­legar byrðar nema til staðar sé ótvíræð heimild í lögum og reglugerðarákvæðum, en sú heimild sé ekki til staðar.

Hvað síðarnefnda álitaefnið varði, þ.e. um ósamræmi við deiliskipulag, þá sé bent á að í sam­þykktu deiliskipulagi komi skýrt fram að stigi á vesturhlið hússins nái út fyrir byggingarreit. Í skilmálum fyrir deiliskipulag Hellnahrauns, 2. áfanga, nánar tiltekið grein 2.3., sé fjallað um byggingarreit og byggingalínur. Þar sé tilgreint að byggingar skuli vera innan byggingareita, einnig svalir, skyggni og léttbyggingar úr gleri. Samkvæmt því orðalagi falli stigar ekki þar undir. Sé stiginn því í samræmi við deiliskipulag lóðarinnar.

Þá sé bent á að byggingafulltrúi hafi gert þá athugasemd í tölvubréfi til kæranda, dags. 23. september 2022, að skrifa þyrfti í byggingarlýsingu að um frávik frá gildandi deiliskipulagi væri að ræða og að stigi og lyfta fari út fyrir byggingarreit. Verði ekki annað séð en að byggingar­fulltrúi hafi þá talið það vera í lagi þótt stigi færi út fyrir byggingarreit.

Málsrök Hafnarfjarðarkaupstaðar: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að á neðri hæð fyrirhugaðs atvinnuhúsnæðis að Álfhellu 11 eigi að vera eitt rými fyrir lager, en á efri hæð hússins eigi að vera sex rými sem einnig eigi að nota fyrir lager. Til að komast á efri hæð sé stigi utanhúss sem liggi vestanmegin við bygginguna, en í byggingarlýsingu komi fram að möguleiki sé á lyftu. Þetta séu allt rými sem hægt sé að selja sem sérstakan eignarhluta. Synjun byggingarfulltrúa hafi annars vegar byggst á því að hluti af byggingunni, þ.e. stigi á vesturhlið hússins, nái út fyrir byggingarreit, en samkvæmt deiliskipulagi skuli byggingin vera innan byggingarreits. Hins vegar hafi synjunin byggst á því að lyfta þyrfti að vera til staðar í húsinu til að uppfylla skilyrði gr. 6.4.12. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Í ákvæðinu komi m.a. fram að minnst ein lyfta skuli vera í byggingum sem hýsi starfsemi sem almenningur hafi aðgang að, en byggingarfulltrúi líti svo á að almenningur sé samheiti fyrir allt fólk, sbr. Íslensk orðabók frá 1963 sem skilgreini almenning sem „allur þorri manna, alþýða“.

Athugasemdir kæranda: Kærandi telji það engu máli skipta fyrir lögmæti ákvörðunar byggingar­fulltrúa Hafnarfjarðar hvort einhvern tíma í framtíðinni verði hugsanlega hægt að selja hluta húsnæðisins. Umsókn kæranda lúti að húsinu eins og það sé skilgreint á byggingar­nefndarteikningum og eins og hann og systurfyrirtæki hyggist nýta það í þeirri starfsemi sem þar eigi að fara fram.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúa Hafnar­fjarðar að synja umsókn kæranda um leyfi til að byggja staðsteypt atvinnu-, lager- og geymslu­húsnæði á tveimur hæðum á lóð nr. 11 við Álfhellu í Hafnarfirði. Var ákvörðunin tekin á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa 10. maí 2023 með vísan til þess að fyrirhugað húsnæði samræmdist hvorki deiliskipulagi svæðisins né byggingarreglugerð nr. 112/2012. Í umbeðnum rökstuðningi sem byggingarfulltrúi veitti 16. maí 2023 var vísað til þess að hluti af fyrirhugaðri byggingu, þ.e. stigi á vesturhlið hússins, myndi ná út fyrir byggingarreit og að það væri ekki í samræmi við það skilyrði deiliskipulags svæðisins að byggingar skyldu vera innan byggingar­reits. Þá vísaði byggingarfulltrúi einnig til þess að þörf væri á lyftu í húsinu til að skilyrði gr. 6.4.12. í byggingarreglugerð væru uppfyllt.

Samkvæmt 1. mgr. gr. 6.2.1. í byggingarreglugerð skal staðsetja byggingu innan byggingar­reits. Í sömu málsgrein er kveðið á um að bygging á lóðarmörkum að gangstétt, við gatnamót eða að almennum gangstíg megi aldrei hindra útsýni yfir götu eða gangstíg þar sem gera má ráð fyrir akandi umferð, né valda hættu fyrir gangandi umferð með útitröppum, útskagandi byggingarhlutum, veggsvölum, opnanlegum gluggum eða hurðum. Er samkvæmt þessu gert ráð fyrir því að útitröppur megi ná út fyrir byggingarreit nema í þeim tilvikum sem reglugerðar­ákvæðið tilgreinir. Þá verður einnig að líta svo á að sveitarstjórn sé heimilt að setja skilyrði í skipulagsáætlun þess efnis að útitröppur skuli staðsetja innan byggingarreits.

Ekki verður séð að fyrirhugaðar útitröppur á vesturhlið Álfhellu 11 muni valda hættu fyrir gangandi umferð þótt þær standi utan byggingarreits, sbr. áðurnefnd gr. 6.2.1. í byggingar­reglugerð. Í gildandi deiliskipulagi Hellnahrauns, 2. áfanga, er í gr. 2.3 fjallað um skilmála fyrir byggingarreiti og byggingarlínur, en þar er ekki tilgreint að útitröppur skuli vera innan byggingar­reits. Þá er á skipulagsuppdrætti lóðarinnar Álfhellu 11 gert ráð fyrir útitröppum á vesturhlið hússins. Með hliðsjón af því verður að telja að byggingarfulltrúa hafi ekki verið rétt að synja byggingarleyfisumsókn kæranda á þeim grundvelli að útitröppur standi utan byggingar­reits, enda stóðu hvorki ákvæði byggingarreglugerðar, skilmálar deiliskipulags né skipulagsuppdráttur því í vegi.

Í gr. 6.4.12. í byggingarreglugerð er fjallað um lyftur og lyftupalla. Fjallar 1. mgr. um megin­reglur sem gilda, en þar segir í 4. tölulið að minnst ein lyfta skuli vera í öllum byggingum sem séu tvær eða fleiri hæðir og hýsi opinbera starfsemi, hótel, samkomuhús, veitingastaði eða annað þjónustuhúsnæði, s.s. skrifstofur, þjónusturými iðnaðarhúsnæði og verslanir svo og starfsemi sem almenningur hefur aðgang að. Í rökstuðningi byggingarfulltrúa fyrir ákvörðun sinni er vísað til þess að almenningur sé samheiti fyrir allt fólk og því þurfi að vera lyfta upp á aðra hæð hússins. Einnig er vísað til þess að á efri hæðinni séu sex rými sem hægt sé að selja sem sérstaka eignarhluta.

Kærandi ráðgerir með byggingaráformum sínum að reisa tveggja hæða atvinnuhúsnæði þar sem á annarri hæðinni verði lager. Ekki verður talið að sú fyrirhugaða starfsemi falli undir að vera þjónusturými iðnaðarhúsnæðis eða starfsemi sem almenningur hafi aðgang að. Var byggingar­fulltrúa því ekki stætt á að synja byggingarleyfisumsókn með vísan til þess að þörf væri á lyftu vegna ákvæðis gr. 6.4.12. í byggingarreglugerð. Breytir engu í þeim efnum þótt sá mögu­leiki sé fyrir hendi að einhverjir eignarhlutar efri hæðarinnar verði seldir og að önnur starfsemi muni síðar eiga sér þar stað, enda er ljóst að sækja þarf um byggingarleyfi fyrir breyttri notkun og mun byggingarfulltrúi við afgreiðslu slíkrar umsóknar þurfa að taka afstöðu til þess hvort skilyrði byggingarreglugerðar um algilda hönnun séu uppfyllt.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið þykir rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar það áfátt að fella ber hana úr gildi.

 Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 10. maí 2023 um að synja byggingar­leyfisumsókn fyrir staðsteyptu atvinnu-, lager- og geymsluhúsnæði á tveimur hæðum á lóð nr. 11 við Álfhellu.

111/2023 Hafnargata

Með

Árið 2023, fimmtudaginn 28. september, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 111/2023, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Fjarðarbyggðar frá 5. september 2023 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir hljóðmön við lóðarmörk Hafnargötu 36, Fáskrúðsfirði.

 Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

 Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. september 2023 er barst nefndinni sama dag, kæra íbúar að Búðavegi 24, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar frá 5. september s.m. að samþykkja byggingarleyfisumsókn Loðnuvinnslunnar hf. fyrir hljóðmön við lóðarmörk Hafnargötu 36, Fáskrúðsfirði. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og vísað til efnislegrar meðferðar hjá byggingarfulltrúa Fjarðarbyggðar. Einnig er farið fram á að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu.

Málsatvik og rök: Á lóð Hafnargötu 36 á Fáskrúðsfirði er rekin fiskvinnslustarfsemi í frystihúsi leyfishafa. Á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar Fjarðarbyggðar 29. ágúst 2023 var samþykkt umsókn leyfishafa um leyfi til að reisa hljóðmön á lóðarmörkum Hafnargötu 36 er hefur þann tilgang að draga úr hljóðmengun frá fiskvinnslunni. Hinn 5. september 2023 gaf byggingarfulltrúi út byggingarleyfi fyrir framkvæmdinni.

Kærendur telja að gera hefði átt deiliskipulag vegna framkvæmdarinnar þar sem skilyrði grenndarkynningar um samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar hafi ekki verið fyrir hendi, sbr. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og gr. 5.9.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Hið kærða leyfi varði heimild til að reisa risastóran hljóðvegg, nokkrum metrum frá heimili þeirra. Um sé að ræða stórkostlega breytingu á byggðamynstri Fáskrúðsfjarðar sem sé fordæmisgefandi fyrir atvinnustarfsemi sem séu nálægt íbúðarhúsnæði. Framkvæmdir séu þegar hafnar og ljóst sé að ekki muni taka langan tíma að byggja hljóðmönina. Sé því óskað eftir því að úrskurðarnefndin stöðvi framkvæmdir strax þar sem að þeim verði nær örugglega lokið áður en úrskurðarnefndin getið tekið efnislega ákvörðun í málinu.

Af hálfu sveitarfélagsins er á því byggt að skilyrði fyrir grenndarkynningu framkvæmdarinnar hafi verið uppfyllt. Það að framkvæmdin taki stuttan tíma geti ekki talist sérstök rök fyrir að stöðva framkvæmdina.

 Leyfishafi bendir á að samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé það meginregla að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar. Frá þeirri reglu sé sú undantekning gerð að kærandi geti krafist þess að nefndin úrskurði um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Óljóst sé á hvaða grunni umrædd stöðvunarkrafa sé byggð að öðru leyti en að framkvæmdir yrðu að öllum líkindum yfirstaðnar þegar úrskurðarnefndin taki efnislega ákvörðun í málinu. Bent sé á að framkvæmdinni sé ætlað að draga úr hávaðamengun að beiðni kærenda, ljúka úrbótarætlun gagnvart heilbrigðiseftirliti og tryggja að fiskvinnslan uppfylli öll skilyrði hljóðvistar í komandi vertíðum.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið sé til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra beri þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda.

 Tekið er fram í athugasemdum um 5. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggist á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Þar kemur einnig fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili sé að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun sé íþyngjandi fyrir hann. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af æðra stjórnvaldi.

 Hið kærða byggingarleyfi heimilar byggingu hljóðmanar á lóðarmörkum Hafnargötu 36 á Fáskrúðsfirði. Að virtum framangreindum lagaákvæðum, þeim sjónarmiðum sem liggja þeim að baki sem og að um er að ræða afturkræfa framkvæmd verður ekki talin knýjandi þörf á að stöðva framkvæmdir á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður kröfu kæranda þess efnis því hafnað.

Rétt þykir þó að taka fram að framkvæmdaraðili ber áhættu af úrslitum kærumálsins kjósi hann að halda áfram framkvæmdum áður en niðurstaða þessa máls liggur fyrir

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða á grundvelli ákvörðunar byggingarfulltrúa Fjarðarbyggðar frá 5. september 2023 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir hljóðmön við lóðarmörk Hafnargötu 36, Fáskrúðsfirði.

83/2023 Kirkjusandur

Með

Árið 2023, fimmtudaginn 28. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 83/2023, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 16. febrúar 2023 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kirkjusands vegna lóðarinnar nr. 2 við Kirkjusand.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. júlí 2023, er barst nefndinni 4. júlí s.á., kærir húsfélagið Kirkjusandi 1, 3 og 5, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 16. febrúar 2023 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kirkjusands vegna lóðarinnar nr. 2 við Kirkjusand. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 10. júlí 2023.

Málavextir: Á Kirkjusandi í Reykjavík er í gildi deiliskipulag Kirkjusands frá 30. nóvember 1990. Deiliskipulagið hefur sætt breytingum og með breytingu er tók gildi 28. júní 2016 var gert ráð fyrir að skrifstofuhúsnæði á Kirkjusandi 2 myndi standa áfram og væri eingöngu gert ráð fyrir atvinnuhúsnæði á lóðinni.

Hinn 29. júní 2022 samþykkti umhverfis- og skipulagsráð að auglýsa tillögu um breytingu á deiliskipulagi Kirkjusands vegna lóðarinnar nr. 2 við Kirkjusand. Í tillögunni fólst breytt landnotkun, þ.e. heimiluð blöndun atvinnu- og íbúðarhúsnæðis, byggingarmagn, breyting á byggingar­reitum og skilmálum lóðar sem merkt er A í deiliskipulaginu. Borgarráð samþykkti tillöguna til auglýsingar á fundi 7. júlí s.á. Deiliskipulagstillagan var auglýst til kynningar með athuga­semda­fresti frá 21. s.m. til og með 19. september s.á. Athugasemdir bárust á kynningar­tíma, þ. á m. frá kæranda. Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 2. febrúar 2023, var tekin afstaða til framkominna athugasemda.

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 8. febrúar 2023 var málið tekið fyrir og var umsögn skipulagsfulltrúa lögð fram. Samþykkti ráðið tillöguna með þeim breytingum sem fram komu í umsögn skipulagsfulltrúa. Borgarráð samþykkti deiliskipulagsbreytinguna á fundi 16. s.m. og var hún send Skipulagsstofnun til lögboðinnar meðferðar. Í bréfi stofnunarinnar, dags. 18. apríl 2023, kom fram að hún gerði ekki athugasemdir við að birt yrði auglýsing um gildistöku deili­skipulags­­breytingarinnar en benti á að tilefni væri til að gera nánari grein fyrir umfangi áætlaðs niðurrifs með tilliti til loftslagsáhrifa. Deiliskipulagsbreytingin tók gildi með birtingu aug­lýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 29. júní 2023.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að enn sé gert ráð fyrir að fjöldi hæða byggingar, sem merkt sé A4 á skipulagsuppdrætti, séu fleiri en fimm. Farið sé fram á að ekki verði leyfð glerbygging á þaki hússins eða annarra húsa á reitnum sem valdi skuggavarpi á nærliggjandi hús norðan Kirkjusands. Einnig séu gerðar athugasemdir við fjölda nýrra íbúða á Kirkjusandi 2, skort á félagslegum innviðum í ljósi mikillar fjölgunar íbúa, aukna bílaumferð, aukna slysahættu auk neikvæðra umhverfisþátta, s.s. hættu á vindsveipum og sólarlausum útivistar­svæðum.

Þá hafi deiliskipulagsbreytingin tekið miklum efnislegum breytingum frá auglýstri tillögu án þess að þær breytingar hafi verið kynntar íbúum svæðisins. Kynnt deiliskipulagsbreyting hafi gert ráð fyrir 225–240 íbúðum á reit Kirkjusands 2 og hafi því byggingarmagni verið mótmælt. Nú sé tala íbúða komi í 432 sem sé aukning um allt að 86%. Sé miðað við 2,5 íbúa á íbúð verði íbúaaukning um 1.100. Þessi breyting sé rökstudd með því að atvinnuhúsnæði á reitnum sé minnkað um 10.400 m2. Skjóti þetta skökku við þar sem mikill skortur sé þegar til staðar í Laugar­nes­hverfi á atvinnuhúsnæði fyrir þjónustu við almenning, s.s. verslunum, veitinga­stöðum og öðrum þjónustufyrirtækjum.

Þörf hefði verið á mati á vindafari í vindgöngum áður en deiliskipulagið hefði verið samþykkt. Slíkt mat hefði getað leitt til breytinga á umfangi og staðsetningu bygginga. Einnig séu niðurstöður umferðarhermunar vafasamar. Gera verði þá kröfu að farið verði yfir þær af þar til bærum sérfræðingum á þessu sviði skipulagsmála.

Viðmiðunartölur um fjölda leikskóla- og grunnskólabarna virðist vera óvenju lágar að mati skipulagsfræðings sem leitað hafi verið álits hjá. Fram hafi komið í umræðu að leik- og grunnskólar geti sem standi ekki tekið við fleiri börnum í hverfinu. Því verði að endurskoða og útskýra fyrir íbúum um væntanlega fjölgun íbúa á svæðinu. Liggja verði fyrir skýrar áætlanir um hvar og hvenær fyrirhugað sé að auka leik- og grunnskólarými fyrir verðandi íbúa. Í umsögn skipulagsfulltrúa sé vísað til minnisblaðs frá skóla- og frístundasviði, en nú sé það plagg marklaust við mat á þörfum fyrir innviði þar sem á þeim tíma hafi í skipulagi aðeins verið gert ráð fyrir 195 íbúðum.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að komið hafi verið til móts við athugasemdir kæranda á auglýsingartíma deiliskipulagstillögunnar um að lækka hús A4, en fjölda hæða hafi verið fækkað úr sjö í sex til þess að minnka skuggavarp. Samkvæmt uppdráttum sé efsti punktur núverandi íbúðarhúss við Kirkjusand 1, 3 og 5 hærri en hámarkshæð húss A4. Að öðru leyti séu byggingarreitir óbreyttir frá kynningu deiliskipulags­tillögunnar. Byggingarmagn sé einnig óbreytt en þurfi að rúmast innan skilgreindra byggingarreita og skilmála.

Stefna og viðmið Aðalskipulags Reykjavíkur 2040 um þéttleika byggðar og byggingarmagn gefi einvörðungu til kynna mögulega hámarksnýtingu svæða. Endanleg ákvörðun um magn bygginga, fjölda íbúða, hæðir húsa og þéttleika á einstökum svæðum sé ávallt tekin við gerð deiliskipulags með tilliti til meginmarkmiða aðalskipulags um sjálfbæra þróun og gæði byggðar. Tillagan samræmist þeim meginmarkmiðum sem sett séu í aðalskipulagi, m.a. varðandi lágmarkshlutfall sólríkra dvalarsvæða, áherslu á grænt og manneskjulegt yfirbragð og náið samspil bygginga og almenningsrýma. Viðmið um lágmarkshlutfall sólríkra dvalarstaða sé í samræmi við kafla 3.6.3 í aðalskipulagi. Samkvæmt skilmálum deiliskipulags­breytingarinnar skuli samanlagt flatarmál dvalar- og leiksvæða á lóðinni samsvara að lágmarki 20% af samanlögðu birtu flatarmáli íbúða á lóðinni og 5% af birtu flatarmáli atvinnuhúsnæðis. Lögð sé áhersla á að þessi svæði séu björt og gerð sé krafa um að svæði sem svari til lágmarks 50% leik- og dvalarsvæða geti notið sólar í fimm klukkustundir á milli klukkan 09:00 og 17:00 þann 1. maí.

Misskilnings gæti hjá kæranda um að íbúðum hafi verið fjölgað verulega eftir að tillagan hafi verið auglýst, en hámarksfjöldi íbúða sé óbreyttur. Við meðferð málsins hafi Skipulagsstofnun gert athugasemd við að heildarfjöldi íbúða á deiliskipulagssvæðinu öllu kæmi ekki fram í tillögunni og því hafi honum verið bætt inn í greinargerð. Um sé að ræða nánari upplýsingar, en ekki efnislega breytingu. Þannig séu tölur kæranda yfir væntanlegan heildarfjölda íbúa um 1000 ekki réttar. Sé miðað við hefðbundnar íbúðir og að meðaltali 2,5 manns í íbúð sé væntanlegur íbúafjöldi nær 560 í samræmi við auglýsta tillögu.

Skipulagsfulltrúi hafi farið fram á að áhrif tillögunnar á umferð yrðu skoðuð áður en afstaða yrði tekin til hennar. Lóðarhafi hafi fengið verkfræðistofu til að gera umferðarhermun sem sýni áhrif aukins byggingarmagns og fjölgunar íbúða á kostnað atvinnuhúsnæðis á umferðarsköpun við reitinn. Samkvæmt minnisblaði verkfræðistofunnar, dags. 14. ágúst 2019, leiði breytt land­notkun jafnvel til minni umferðarsköpunar.

Þá hafi skilmálum um vindgreiningar verið bætt við tillöguna í kjölfar auglýsingar, en nú komi þar fram að lóðarhafi skuli gera vindgreiningu á útisvæðum lóðarinnar og aðlægum göturýmum áður en byggingarleyfi verði gefið út. Séu mótvægisaðgerðir vegna aukins vinds nauðsynlegar skuli þær koma fram á aðaluppdráttum. Hvað varði faglega ábyrgð þá sé það sveitarstjórn sem beri ábyrgð á gerð deiliskipulagsins, en öll vinna við breytinguna hafi verið unnin af þar til bærum hönnuðum og arkitektum.

Skóla- og frístundasvið hafi það hlutverk að gera ráðstafanir í skóla- og leikskólamálum ef þurfa þyki vegna fjölgunar íbúa, en viðmiðunartölur um leikskólabörn séu hjá sviðinu. Í minnisblaði sviðsins, dags. 4. september 2019, komi fram spá um fjölgun barna í skóla, leikskóla og frístund miðað við aukinn fjölda íbúða á Kirkjusandi. Miðað sé við 0,15 leikskólabörn á hverja íbúð og 0,29 grunnskólabörn, en tekið sé skýrt fram að um spá sé að ræða og að allar tölur séu því aðeins viðmið. Kirkjusandur sé ekki eini uppbyggingar­reiturinn í skólahverfinu og því megi búast við fjölgun leik- og grunnskólabarna á næstu árum. Samkvæmt minnis­blaðinu hafi leik- og grunnskólar ekki getað tekið við auknum fjölda barna árið 2019, en á móti komi að fyrirhugað sé að auka byggingarmagn í hverfinu fyrir bæði grunn- og leikskóla. Rétt sé að taka fram að minnisblaðið sé byggt á áætlaðri aukningu um 195 íbúðir á Kirkjusandi Reit A, en ekki 225–240 eins og endanleg deiliskipulagstillaga geri ráð fyrir. Uppfærsla á þessum tölum hafi verið send skóla- og frístundasviði sem sé nú upplýst um stöðuna og hafi vitað af áformum um fjölgun íbúða á Kirkjusandi frá því snemma í skipulags­ferlinu eða árið 2019. Þess megi geta að gert sé ráð fyrir nýjum ungbarnaleikskóla á Reit E sem sé nú í uppbyggingu.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi ítrekar að mikið ósamræmi sé í uppgefnum fjölda íbúða á reitnum og um leið fjölda íbúa. Svo virðist sem eldri tillaga að breytingu á deiliskipu­laginu hafi verið höfð í huga við skrif umsagnar borgaryfirvalda. Í henni sé gengið út frá 224 íbúðum, eða 560 íbúum, en samkvæmt endanlegri deiliskipulagsbreytingu sé gert ráð fyrir um 430 íbúðum á reitnum, eða um 1075 íbúum, án útskýringa.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti breytingar á deiliskipulagi Kirkjusands vegna lóðarinnar nr. 2 við Kirkjusand. Samkvæmt áðurgildandi deiliskipulagi var nýtingarhlutfall lóðarinnar 1,6 ofanjarðar og 4,5 í heild, en með breyttu skipulagi er nýtingarhlutfallið 2,1 ofanjarðar og 4,0 í heild.

Gerð skipulags innan marka sveitarfélags er í höndum sveitarstjórnar skv. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, en í því felst einnig heimild til breytinga á gildandi deiliskipulagi, sbr. 43. gr. laganna. Skal deiliskipulag byggja á stefnu aðalskipulags og rúmast innan heimilda þess, sbr. 3. mgr. 37. gr. og 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga. Við töku skipulags­ákvarðana er sveitarstjórn bundin af meginreglum stjórnsýsluréttar, þ. á m. lögmætisreglunni sem felur m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum markmiðum og sem endranær er sveitarstjórn bundin af öðrum meginreglum stjórnsýsluréttarins. Að gættum framangreindum reglum hafa sveitarstjórnir mat um það hvernig deiliskipulagi og breytingum á því skuli háttað.

Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 er Kirkjusandur á svæði M6b, en þar er gert ráð fyrir skrifstofum og eru íbúðir heimilar, einkum á efri hæðum bygginga. Reiturinn er einn af uppbyggingarreitum fyrir nýja íbúðarbyggð þar sem gera má ráð fyrir 50 íbúðum eða fleiri. Á töflu 3.1 í kafla III. í greinargerð aðalskipulagsins, Landnotkun og önnur ákvæði um uppbyggingu og þróun byggðar, er reiturinn merktur sem „Kirkjusandur-SÍS-reitur“ og kemur þar fram að fjöldi hæða húsa sé fimm til átta. Í kafla 3.6.2, Hæðir húsa, kemur fram að bindandi ákvæði um hæðir húsa á helstu þróunarsvæðum íbúðarbyggðar og blandaðrar byggðar séu sett fram á mynd sex í sama kafla. Samkvæmt myndinni er umrædd lóð á svæði þar sem heimilt er að byggja fimm til átta hæða hús. Þar kemur einnig fram að mögulegt sé að víkja frá viðmiðum, þannig að heimilt sé að bæta við tveimur hæðum við gerð deiliskipulags, sé það sérstaklega rökstutt. Í greinargerð aðalskipulagsins segir enn fremur að stefna og viðmið aðalskipulags um þéttleika byggðar og byggingarmagn gefi „einvörðungu til kynna mögulega hámarksnýtingu svæða“ en að endanleg ákvörðun um magn bygginga, fjölda íbúða, hæðir húsa og þéttleika á einstökum svæðum sé ávallt tekin við gerð deiliskipulags með tilliti til meginmarkmiða aðalskipulags og með sérstöku tilliti til viðmiða og ákvæða sem sett séu fram í köflum 3.6.1–3.6.4. Í viðauka V. við aðalskipulagið er fjallað um breytingar sem gerðar hafi verið miðað við áðurgildandi Aðalskipulag Reykjavíkur 2010–2030 og tekið fram um túlkun hæðaviðmiða og frávika að „frávik verði einkum leyfð við götuhorn og háhýsi (>9 hæðir) verði aðeins leyfð í undan­tekningar­tilvikum á öllum svæðum. Vikmörk -1/+2 eða -1/+1 verði eftirleiðis einvörðungu +2 eða +1, þ.e. engin takmörk á lágmarkshæð, það verði fyrst og fremst til ákvörðunar í deiliskipulagi.“

Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu er heimiluð blöndun íbúðar- og atvinnuhúsnæðis. Í breytingunni felst að byggingarreitir verða fjórir á lóðinni, A1–A4, og breytt stærð, legu og fyrirkomulagi reitanna. Gert er ráð fyrir að byggingarnar verði fjórar til sex hæðir og heimilt sé að gera bílageymslu í kjallara á tveimur hæðum. Samkvæmt deiliskipulaginu er heimilaður fjöldi íbúða 225, en verði nemendaíbúðir á byggingarreit A3 er heimilt að auka heildarfjölda íbúða í 240. Heildarfjölda íbúða var ekki breytt eftir auglýsingu deiliskipulagstillögunnar, en í greinargerð var bætt við upplýsingum um fjölda íbúða á Kirkjusandsreitnum öllum. Samkvæmt áðurgildandi deiliskipulagi var gert ráð fyrir 427 íbúðum, en eftir breytinguna er heimilaður fjöldi íbúða á skipulagssvæðinu 667. Um hæðir húsa kemur m.a. fram að hámarkshæðir þeirra séu gefnar upp á deiliskipulagsuppdrætti, fjöldi hæða sé gefinn upp og ekki sé heimilt að fjölga þeim þótt heildarhæð sé innan uppgefinna hámarks­hæða. Á byggingarreit A3 er gert ráð fyrir fjögurra hæða byggingu, en á öðrum byggingar­reitum er fjöldi hæða fimm til sex. Er fjöldinn samkvæmt deiliskipulagsbreytingunni því í samræmi við áðurgreind ákvæði aðalskipulagsins.

Samkvæmt 5. mgr. 12. gr. skipulagslaga skal við gerð skipulagsáætlana gera grein fyrir áhrifum áætlunar og einstakra stefnumiða hennar á umhverfið, m.a. með samanburði þeirra kosta sem til greina koma, og umhverfismati áætlunarinnar. Fjallað er um umhverfismat deiliskipulags í gr. 5.4.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Þar segir í 1. mgr. að við gerð deiliskipulags skuli meta líkleg áhrif af fyrirhuguðum framkvæmdum og starfsemi á aðliggjandi svæði og einstaka þætti áætlunarinnar sjálfrar svo sem á ásýnd, útsýni, hljóðvist og loftgæði eftir því sem efni skipulagsins gefi tilefni til. Áætla skuli áhrif af t.d. umferð, hávaða og umfangsmiklum mannvirkjum, sbr. 2. mgr. ákvæðisins. Þá er kveðið á um í 3. mgr. að gera skuli grein fyrir matinu og niðurstöðu þess í greinargerð deiliskipulagsins. Sé um breytingu á deiliskipulagi að ræða skal gera grein fyrir áhrifum hennar á umhverfið með nýju umhverfismati ef við eigi, sbr. gr. 5.8.5.2. í reglugerðinni.

Í köflum 3.6.1.–3.6.4. í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 er m.a. vikið að atriðum sem snerta umhverfisgæði sem taka þurfi mið af við endanlegt mat á umfangi uppbyggingar, ákvörðun um hæðir húsa og byggingarform í deiliskipulagi og að við endanlega ákvörðun um byggingarmagn og fjölda íbúða í deiliskipulagi eigi að leggja til grundvallar niðurstöður úr samgöngumati og mati á áhrifum uppbyggingar á umferð á nærliggjandi götum.

Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu gerðu kærandi og fleiri nágrannar athugasemdir við auglýsta tillögu að umdeildri deiliskipulagsbreytingu. Lutu þær m.a. að umfangi fyrirhugaðrar byggðar með tilliti til hæðar og skuggavarps og aukningu umferðar. Einnig voru gerðar athugasemdir við skort á gögnum um vindgreiningu. Í svörum við athugasemdum var tekið fram að tillagan samræmdist meginmarkmiðum aðalskipulags, m.a. varðandi lágmarkshlutfall sólríkra dvalarsvæða, áherslur á grænt og manneskjulegt yfirbragð og náið samspil bygginga og almenningsrýma. Komið hefði verið til móts við athugasemdir um að fækka hæðum en hámarksfjölda hæða á byggingarreit A-4 hefði verið breytt úr sjö í sex. Einnig kom þar fram að tekið væri undir mikilvægi þess að tryggja skjól á dvalarsvæðum og í göturýmum. Því hefði skilmálum um vindgreiningar verið bætt við tillöguna í kjölfar auglýsingar. Jafnframt kom fram í svörum við athugasemdum að lóðarhafi hefði fengið verkfræðistofu til að gera umferðar­hermun sem sýndi áhrif aukins byggingarmagns og fjölgunar íbúða á kostnað atvinnuhúsnæðis á umferðarsköpun við reitinn.

Ljóst er að þær kröfur sem gerðar eru til umhverfismats deiliskipulags eru breytilegar eftir efni þess og umfangi. Við umrædda breytingu fjölgar íbúðum á svæðinu um 225–240 sem er aukning um 52–56%. Verður því að telja að tilefni hafi verið til að meta áhrif breytinganna. Í greinargerð deiliskipulagsins kemur fram að við vinnslu deiliskipulagsbreytingarinnar hafi verið horft sérstaklega til mögulegra umhverfisáhrifa af fyrirhuguðum framkvæmdum. Breyting verði á byggingarmagni, ásýnd og svipmóti byggðarinnar þar sem núverandi hús á lóðinni verði rifið, byggingarmagn lóðarinnar aukið, byggðin brotin meira upp og dvalar­svæðum komið fyrir í stað umfangsmikilla bílastæða. Þá sé hæð byggðarinnar „heilt yfir að mestu óbreytt“ og teljist áhrif á umfang og svipmót hennar því óveruleg. Einnig kemur fram að breyting á hlutfalli íbúðar- og atvinnuhúsnæðis hafi áhrif á umferðarmál á svæðinu og hafi þau verið skoðuð. Umferðarflæði muni breytast, en það hafi ekki teljandi neikvæð áhrif. Breyting á hlutfalli milli íbúðar- og atvinnuhúsnæðis hafi einnig áhrif á skólamál í hverfinu og hafi það verið skoðað við vinnslu deiliskipulagsins. Er dregin sú ályktun að á heildina litið séu áhrif tillögunnar talin óveruleg.

Svo sem greinir að framan vann verkfræðistofa umferðarhermun fyrir lóðarhafa og liggur fyrir í málinu minnisblað stofunnar, dags. 14. ágúst 2019. Þar kemur fram að helstu áherslur hafi verið að meta umferð sem myndi skapast vegna nýrrar uppbyggingar á svæðinu og dreifingu þeirrar umferðar ásamt áhrifum á aðliggjandi gatnakerfi. Til grundvallar lá m.a. fyrir þágildandi deiliskipulag Kirkjusands frá árinu 2016, tillaga að breytingu á deiliskipulagi frá 2019, sem var þó aldrei samþykkt, og umferðartalning frá árinu 2010. Þágildandi deiliskipulag gerði eingöngu ráð fyrir skrifstofum við Kirkjusand 2, en breytingartillaga sem lá til grundvallar umferðarspánni gerði ráð fyrir 195 íbúðum á reitnum. Vegna þessa mun ökutækjum á sólarhring fækka úr 3.200 í 1.800. Þá segir einnig: „Samanborið við gildandi deiliskipulag sýna niðurstöður umferðarhermunar fyrir háannatíma árdegis að umferðarástand verður betra við allar aðkomur Kirkjusandsreits með breyttu deiliskipulagi. Það stafar að mestu leyti af breyttu byggingarmagni atvinnuhúsnæðis sem leiðir til þess að færri (starfsmenn) koma að reitnum á háannatíma árdegis og fleiri fara út af reitnum (íbúar), sem skapar betra jafnvægi. Meðalraðir fyrir vinstri beygju árdegis af Sæbraut á Kirkjusand styttast úr rúmlega 60 m í 10 m.“

Samkvæmt framangreindu lágu fyrir gögn um áhrif breytinganna og mat á vissum þáttum við málsmeðferð deiliskipulagsbreytingarinnar. Jafnframt voru settir skilmálar um vindgreiningu sem liggja þarf fyrir áður en byggingarleyfi verður gefið út. Tilefni hefði verið til að gera nánari grein fyrir þáttum sem nefndir eru í gr. 5.4.1. í skipulagsreglugerð, s.s. hljóðvist, loftgæði og veðurfari og loftslagsáhrifum vegna niðurrifs núverandi byggingar. Verður sá annmarki þó ekki talinn ráða úrslitum um gildi hins kærða deiliskipulags.

Fjallað er um skuggavarp í 1. mgr. b-liðar í gr. 5.3.2.1. í skipulagsreglugerð. Þar kemur fram að við ákvörðun um fjarlægð milli einstakra byggingarreita skuli taka tillit til sólarhæðar og skuggavarps eftir því hver notkun bygginganna sé. Þá er fjallað um skýringarmyndir og önnur fylgiskjöl deiliskipulagstillögu í gr. 5.5.4. og kemur þar fram að ef skýringaruppdrættir fylgi skuli vísa til þeirra í deiliskipulagi og að skýringaruppdrætti, svo sem skuggavarpsteikningar, sé heimilt að nota til að sýna áhrif af og dæmi um útfærslu deiliskipulags.

Skuggavarpsteikningar fylgdu hinni kærðu skipulagsbreytingu sem sýna skuggavarp á vorjafndægri og sumarsólstöðum kl. 10:00, 13:30 og 17:00. Af þeim gögnum verður ráðið að heimilaðar framkvæmdir í hinu kærða deiliskipulagi muni hafa í för með sér einhver grenndaráhrif vegna skuggavarps, en telja verður að skipulagsyfirvöld hafi nokkurt svigrúm við mat á því hvert ásættanlegt skuggavarp sé hverju sinni.

Með vísan til þess sem að framan er rakið þykir hin kærða ákvörðun ekki haldin þeim form- eða efnisannmörkum að leitt geti til ógildingar hennar. Verður kröfu kæranda þar um því hafnað.

Rétt þykir að vekja athygli á að geti fasteignaeigendur sýnt fram á fjártjón vegna deiliskipulags eða breytinga á því geta þeir eftir atvikum átt rétt á bótum, sbr. 51. gr. skipulagslaga. Það álitaefni á hins vegar ekki undir úrskurðarnefndina heldur eftir atvikum undir dómstóla.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 16. febrúar 2023 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kirkjusands vegna lóðarinnar nr. 2 við Kirkjusand.

68/2023 Flugstöð skipulagsgjald

Með

Árið 2023, fimmtudaginn 28. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson bygginga­r­­­­­­­­­­­­­­­­­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 68/2023, kæra á ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá 3. maí 2023, að synja um niðurfellingu skipulagsgjalds vegna viðbyggingar Flugstöðvar 1a á Keflavíkurflugvelli.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. júní 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir Isavia ohf. þá ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá 3. maí 2023 að synja um niðurfellingu skipulagsgjalds að upphæð kr. 2.454.714 vegna við­byggingar Flugsstöðvar 1a á Keflavíkurflugvelli. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun 10. júlí 2023.

Málavextir: Með tilkynningu frá Suðurnesjabæ 24. október 2022 var Húsnæðis- og mannvirkja­stofnun upplýst um að bygging matshluta 16 Flugstöðvar 1a, F2095330, væri komin á byggingarstig 7. Byggingarstigið var staðfest í fasteignaskrá 25. s.m. og kæranda send áskorun um að hann hlutaðist til um að fyrsta brunabótamat færi fram. Þar sem ekki barst beiðni um brunabótamat var það reiknað án skoðunar af hálfu stofnunarinnar 31. janúar 2023, í samræmi við ákvæði 10. mgr. 2. gr. laga nr. 48/1994 um brunatryggingar. Samhliða brunabótamati var skipulagsgjald lagt á fasteignina í sam­ræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010 og reglugerð um skipulagsgjald nr. 737/1997. Með beiðni, dags. 4. apríl 2023, óskaði kærandi eftir því að skipulagsgjaldið yrði fellt niður þar sem umræddur matshluti væri viðbygging og næði virðingarverð hans ekki 1/5 af verði eldra húss. Húsnæðis- og mann­virkjastofnun synjaði beiðni kæranda með tölvupósti 3. maí s.á. á þeim grundvelli að það væri mat stofnunarinnar að matshlutinn væri ekki viðbygging, heldur væri um nýbyggingu að ræða, sbr. 2. mgr. 17. gr. laga nr. 123/2010 og 1. gr. reglugerðar nr. 737/1997. Bæri kæranda því að greiða skipulagsgjald af byggingunni.

 Málsrök kæranda: Bent er á að Isavia standi í framkvæmdum á Keflavíkurflugvelli í samræmi við KEF Airport Masterplan 2015–2045, en framkvæmdirnar séu áfangaskiptar og muni standa yfir í mörg ár. Að endingu muni framkvæmdirnar skila nýrri tengibyggingu milli norður­byggingar og suðurbyggingar sem verði hjarta Keflavíkurflugvallar, nýrri austurálmu og stækkun suðurbyggingar. Flókið og umfangsmikið verkefni sé að standa í framkvæmdum á flugvelli sem sé í fullri starfsemi. Sem lið í að tryggja núverandi þjónustu og uppfylla þær öryggiskröfur sem gildi um starfsemina hafi verið farin sú leið að reisa tímabundna og endur­nýtanlega bráðabirgðaviðbyggingu á einni hæð sem hafi verið tekin í notkun árið 2023. Viðbyggingin sé 1.767 m2 á einni hæð og verði í notkun þar til búið verði að koma upp nýrri og varanlegri aðstöðu fyrir ytri landamæri Schengen í nýju tengibyggingunni. Viðbyggingin sé hönnuð með þeim hætti að hægt verði að taka hana niður og nýta í annað þegar hlutverki hennar við landamæraeftirlit ljúki. Viðbyggingin sé byggð ofan á flughlað og sé tengd með tveimur göngum við núverandi byggingu. Þegar viðbyggingin verði fjarlægð verði flughlaðið nýtt sem slíkt á ný. Sú starfsemi sem fari fram í viðbyggingunni sé beintengd og í beinu fram­haldi af þeirri starfsemi sem fari fram í byggingunni sem hún sé byggð við. Inngangur viðbyggingarinnar sé um suðurbygginguna, en ekki sé farið annars staðar inn í bygginguna á jörðu niðri heldur sé aðeins um neyðarútganga að ræða.

Félagið sé ósammála Húsnæðis- og mannvirkjastofnun um hvað teljist viðbygging og þeirri þröngu túlkun sem stofnunin leggi í hugtakið. Hugtakið sé ekki skilgreint sérstaklega í skipulags­lögum nr. 123/2010, lögum nr. 160/2010 um mannvirki eða lögum nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Gjaldheimildir þurfi að vera skýrar og ótvíræðar og styðjast við við­hlítandi lagastoð. Aðrar stækkanir og viðbyggingar í flugstöðinni hafi flestar hlotið nýja skráningar­töflu og þar með nýtt matshlutanúmer og í leiðinni hafi skráningartöflur fyrir þá mats­hluta sem stækkanirnar séu byggðar út frá verið uppfærðar. Skipulagsgjald hafi ekki verið lagt á vegna þessara stækkana og feli ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar því í sér breytta framkvæmd sem sé óheimilt nema á grundvelli skýrrar lagaheimildar eða samkvæmt reglum stjórnsýsluréttar um breytingu á fyrri framkvæmd.

Samkvæmt íslenskri nútímamálsorðabót Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum sé viðbygging skilgreind sem „hluti húss sem byggður var seinna en aðalhúsið“. Ljóst sé að um rúmt orðalag sé að ræða sem geti ekki takmarkast við það hvernig byggingin sé tengd við­byggingu eða hluta húss sem sé byggður seinna en það sem fyrir var, hvort sem það sé um ganga eða á annan hátt. Jafnframt séu viðbyggingar eins mismunandi og þær séu margar og þurfi þær ekki að fylgja útliti og gerð hins eldra húss heldur þvert á móti séu dæmi um við­byggingar sem séu ólíkar útliti þeirrar byggingar sem byggt sé við. Deiliskipulag kveði stundum á hvernig útlit viðbyggingar skuli vera. Þá séu gangar algeng rými í byggingum og ótækt að telja að vegna þess að hún sé tengd með göngum að þá sé byggingin ekki viðbygging. Ef byggð væri nýbygging frá grunni þar sem gangur myndi tengja tvö rými húsnæðis saman, myndi byggingin ekki vera talin tvær byggingar og lagt skipulagsgjald á hvora fyrir sig.

Þá komi ekki til greina að umrædd viðbygging væri höfð sem stakt mannvirki óháð eldri hluta byggingarinnar vegna einmitt þess tilgangs sem byggingin sé notuð eins og sjá megi á grunn­myndinni. Sú starfsemi sem fari fram í viðbyggingunni sé í framhaldi af starfsemi aðal­byggingarinnar, þ.e. för farþega utan Schengen sem eigi leið í gegnum flugstöðina að hliði sínu. Starfsemin sé því í beinu framhaldi af því sem fram fari í byggingunni sem hún sé byggð við. Mannvirkið sé viðbygging en ekki nýreist hús í skilningi 17. gr. skipulagslaga.

Óháð skilgreiningu á hugtakinu viðbygging þá sé jafnframt ljóst að um tímabundna bráða­birgða­viðbyggingu sé að ræða. Tilgangur skipulagsgjalds sé að standa straum af kostnaði við gerð skipulagsáætlana o.fl. sem nýtist sveitarfélögum við gerð skipulagsáætlana, sbr. 1. mgr. 17. gr. skipulagslaga. Viðbyggingin sé til bráðabirgða og geti því ekki verið andlag álagningar skipulagsgjalds. Þá fari verðmæti viðbyggingarinnar ekki yfir 1/5 af heildarverðmæti þeirrar byggingar sem hún sé fest við. Brunabótamat viðbyggingarinnar sé kr. 840.150.000, en bruna­­bótamat heildarbyggingarinnar sé kr. 56.294.450.000 og 1/5 hluti þess sé kr. 11.258.890.000.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafi vísað til þess að afhent hafi verið ný skráningartafla fyrir matshlutann. Hvergi sé gerð sú krafa að viðbyggingar séu innifaldar í skráningartöflu og því sé rökstuðningur stofnunarinnar ekki lögmætt sjónarmið fyrir ákvörðun um álagningu skipulags­gjalds. Ef skráning viðbyggingarinnar hafi úrslitavald um það hvort skipulagsgjald verði lagt á eða ekki muni félagið óska eftir breytingu á skráningunni. Verður að telja hina kærðu álagningu vera haldna þeim annmörkum að óhjákvæmilegt sé að fella hana úr gildi.

 Málsrök Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar: Bent er á að samkvæmt 1. gr. laga nr. 48/1994 um brunatryggingar sé húseiganda skylt að brunatryggja allar húseignir. Húseign skuli virt til bruna­bótamats eigi síðar en fjórum vikum eftir að byggingu hennar ljúki eða eftir að hún hafi verið tekin í notkun. Eigandi beri ábyrgð á að óska eftir brunabótamati.

Samkvæmt 2. gr. sömu laga annist Húsnæðis- og mannvirkjastofnun virðingu húseignar samkvæmt matskerfi og verklagsreglum stofnunarinnar og sé heiti þeirrar gerðar bruna­bóta­mat. Markmið brunabótamats sé að finna vátryggingarverðmæti húseignarinnar á þeim tíma er virðing fari fram. Matið taki til þeirra efnislegu verðmæta húseignarinnar sem eyðilagst geti af völdum elds og miðist við byggingarkostnað að teknu tilliti til aldurs, slits, viðhalds og ástands eignar að öðru leyti. Nánar sé kveðið á um tilhögun brunabótamats í reglugerð nr. 809/2000 um lög­boðna brunatryggingu. Álagning skipulagsgjalds fari fram á grundvelli brunabótamats, sbr. 2. mgr. 17. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem segi að greiða skuli skipulagsgjald af ný­byggingum í eitt skipti sem nemi 0,3% af brunabótamati hverrar húseignar. Nýbygging teljist hvert nýreist hús sem virt sé til brunabóta svo og viðbyggingar við eldra hús ef virðingarverð hinnar nýju viðbyggingar nemi að minnsta kosti 1/5 verðs eldra hússins. Skipulagsgjald verði fyrst lagt á og innheimt þegar brunabótamat liggi fyrir. Í máli þessu sé tekist á um skilgreiningu á því hvað teljist vera viðbygging, en það sé hvergi skilgreint nema þá með þeirri almennu skýringu að það sé bygging sem byggð hafi verið seinna við eldra hús.

Samkvæmt byggingarlýsingu og greinargerð hönnunar komi fram að umrædd bygging sé tímabundin viðbygging sem verði tengd við matshluta 13 með tengigöngum. Flatarmál mann­virkisins sé um 1.767 m2. Það hafi verið skráð sem sérstök eining í mannvirkjaskrá stofnunarinnar og við skráningu þess hafi fylgt sérstök skráningartafla. Gjaldheimild skipulags­gjalds sé skýr, það beri að greiða skipulagsgjald af nýbyggingum sem virtar séu til brunabóta, sbr. 2. mgr. 17. gr. skipulagslaga. Hins vegar sé deilt um það hvort byggingin sé nýbygging eða viðbygging.

Viðbygging samkvæmt orðanna hljóðan sé mannvirki sem byggt sé við nú þegar reist eldra hús. Ekki sé hægt að fallast á að mannvirki sem reist hafi verið við hlið eldra húss og tengi­gangur verið gerður á milli þeirra teljist sem viðbygging. Þá beri að hafa í huga að sérhver mats­hluti sé metinn sérstaklega og fái hús- og brunabótamat óháð öðrum matshlutum. Umrætt mann­virki hafi aðskilinn hjúp og geti staðið sjálfstætt þótt t.d. matshluti 13 yrði rifinn. Þá sé rétt að benda á að með því að fjarlægja á síðari stigum tengiganginn og rjúfa þannig öll tengsl milli bygginganna væri hægt að breyta byggingunum í tvær sjálfstæðar einingar. Það sé mat stofnunarinnar að eðli máls samkvæmt geti slík bygging ekki talist viðbygging ef hægt sé að rjúfa hana frá upprunalegri byggingu með einföldum hætti.

Vegna þeirrar breytingar á framkvæmd sem kærandi vísi til vegna afgreiðslu sambærilegra mála hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, áður hjá Þjóðskrá Íslands, þá er bent á að hvert tilvik verði að meta sjálfstætt. Það sé mat stofnunarinnar að um sé að ræða hús sem standi sjálfstætt, sé tengt við aðalbyggingu með tengigangi, en þær viðbyggingar sem hafi farið í gegnum skráningu án þess að skipulagsgjald hafi verið lagt á hafi ekki verið byggðar með þeim hætti sem að framan hafi verið rakið. Sem dæmi megi nefna að þegar sótt hafi verið um að matshluti 08 yrði undanþeginn skipulagsgjaldi hafi það verið samþykkt, enda ljóst af teikningu viðbyggingarinnar og öðrum fylgigögnum að viðbyggingin hafi verið tengd við vesturgafl eldri byggingar og líklegt að burðarvirki þess hafi verið notað í viðbygginguna. Þá hafi komið fram á afstöðumynd og í byggingarlýsingu matshluta 08 að „glerveggir í vestur gafli verða fjarlægðir en sjónsteypuveggir látnir standa. Skriðkjallari vestur álmu eldri byggingar verður að hluta grafinn út, miðjugangarnir tengdir saman […].“ Þá komi fram í grein 8.1.3. byggingar­reglugerðar nr. 112/2012 að þegar þegarbyggðu mannvirki sé breytt, t.d. með viðbyggingu, þá skuli burðarvirkishönnuður staðfesta með undirritun á aðaluppdrátt að burðar­þol mannvirkisins sé fullnægjandi. Jafnframt komi fram í d-lið fyrrgreinds ákvæðis að sé byggt við mannvirki, hluti þess eða heild endurnýjuð eða burðarvirki breytt, beri hönnuði að staðfesta að burðarvirki hinnar nýju, breyttu eða endurnýjuðu þátta fullnægi þeim kröfum sem gerðar séu til burðarþols vegna þeirrar starfsem sem fyrirhuguð sé í mannvirkinu skv. ákvæðum laga um mannvirki, byggingarreglugerðar og þeirra staðla sem hún vísi til. Jafnframt skuli staðfest að breytingin hafi ekki leitt til skerðinga á burðarþoli annarra þátta mannvirkisins.

Af þessu megi ráða að gert sé ráð fyrir að viðbyggingar séu reistar í það mikilli nálægð við eldra hús að notast sé við hluta af burðarvirki sem fyrir er og þannig þurfi að huga að burðarþoli mannvirkisins í heild sinni við þá breytingu. Stofnunin telji að mikill munur sé á því hvort hús sé reist í þó nokkurri fjarlægð við eldra hús og gerður sé tengigangur á milli húsa eða sam­eiginlegt burðarvirki sé notað við gerð viðbygginga.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafi enga fjárhagslega hagsmuni af þessu máli þar sem skipulagsgjald renni í skipulagssjóð samkvæmt lögum nr. 123/2010, en stofnunin fari með yfir­stjórn fasteignaskráningar og varðveiti upplýsingar um fasteignir í fasteignaskrá skv. lögum nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Stofnunin sé að framfylgja lögbundnu hlutverki sínu varðandi skráningu og mat fasteigna og tryggja að fasteignir séu réttilega skráðar í fasteigna­skrá.

Ekki sé útilokað að stofnunin, áður Þjóðskrá Íslands eða Fasteignaskrá ríkisins, hafi áður af­greitt sambærilegt mál frá Isavia sem hafi þá verið undanþegið greiðslu skipulagsgjalds, en ekki megi líta á að slíkt mál sé fordæmisgefandi hafi niðurstaða þess mögulega verið röng.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Vísað er til þess að öll lagnatengi viðbyggingarinnar séu tengd við núverandi kerfi í flugstöðvarbyggingunni ásamt neyðarlýsingakerfi. Rafmagn sé leitt frá núverandi dreifitöflu flugstöðvarbyggingarinnar og brunaviðvörunarkerfi sé það sama og tengist eldri hlutanum. Núverandi rýmingaráætlun flugstöðvarinnar sé uppfærð með tilliti til viðbyggingarinnar og því sé ekki horft á bygginguna sem sérbyggingu. Tilvitnað ákvæði Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar í byggingarreglugerð breyti því ekki að um viðbyggingu sé að ræða og geri það ekki ráð fyrir að þegar byggingum sé breytt hafi það sjálfkrafa áhrif á burðarvirki heldur aðeins að staðfesta þurfi að burðarvirki fullnægi þeim kröfum sem gerðar séu til burðarþols. Þá sé einnig bent á að það tíðkist á flug­völlum að þeir séu hannaðir með ganga á milli bygginga vegna umferðar á jörðu niðri og land­ganga sem komi út frá göngunum vegna þess að flugvélar þurfi nægilega stór svæði til athafna.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar að synja um niðurfellingu á greiðslu skipulagsgjalds fyrir matshluta 16 Flugstöðvar 1a, F2095330. Umrædd fasteign skiptist í 14 matshluta sem hafa verið byggðir í áföngum frá árinu 1986.

Í 2. mgr. 17. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kemur fram að greiða skuli skipulagsgjald af nýbyggingum sem virtar eru til brunabóta. Telst nýbygging hvert nýreist hús sem virt er til bruna­bóta svo og viðbyggingar við eldri hús ef virðingarverð hinnar nýju viðbyggingar nemur a.m.k. 1/5 hluta verðs eldra húss. Í 3. mgr. sömu greinar segir að skipulagsgjald falli í gjalddaga þegar virðingargjörð hafi farið fram og Fasteignamat ríkisins, nú Húsnæðis- og mannvirkja­stofnun, hafi tilkynnt hana innheimtumanni ríkissjóðs. Samkvæmt 6. gr. reglugerðar nr. 809/2000 um lögboðna brunatryggingu húseigna skal húseigandi óska eftir brunabótamati eigi síðar en fjórum vikum eftir að nýtt hús er tekið í notkun.

Orðið viðbygging er hvorki skilgreint í lögum né lögskýringargögnum, en samkvæmt íslenskri orðabók Menningarsjóðs er viðbygging; bygging sem hefur verið reist síðar en aðal­byggingin áföst henni. Samkvæmt framangreindu þurfa viðbygging og aðalbygging að vera fastar saman. Í íslenskri nútímamálsorðabók stofnunar Árna Magnússonar er viðbygging á hinn bóginn skil­greind sem hluti húss sem var byggður seinna en aðalhúsið. Þrátt fyrir að orðið viðbygging sé ekki skilgreint með sama hætti í þessum heimildum verður að telja að viðbygging sé, eðli málsins samkvæmt, bygging sem byggð er við eldra hús þannig að hún verði ekki að­skilin frá byggingunni með einföldum hætti. Viðbygging sé því fastskeytt við eldri byggingu.

Í mars 2023 lagði Isavia ohf. fram umhverfismatsskýrslu um stækkun Keflavíkurflugvallar og er í kafla 4.5.2. í skýrslunni að finna umfjöllun um umrædda byggingu. Þar kemur fram að um sé að ræða færanlegt stálgrindarhús sem reist hafi verið á flugvélastæði 6, austan við núverandi suðurbyggingu. Þegar hlutverki hússins ljúki verði það fært og geti m.a. nýst sem tækja­geymsla. Virðist samkvæmt þessu gengið út frá því að um sé að ræða staka byggingu. Samkvæmt teikningum af matshluta 16 er ljóst að hin umdeilda bygging er stakstæð og er einungis tengd aðalbyggingunni með gangi sem mögulegt er að fjarlægja. Þá eru á henni sérstakir útgangar sem að vísu eru aðeins ætlaðir sem neyðarútgangar. Á byggingin því engan sameiginlegan útvegg með aðalbyggingunni. Með vísan til þessa verður talið að umrædd bygging, matshluti 16, teljist ekki viðbygging í skilningi 17. gr. skipulagslaga.

Þrátt fyrir að um sé að ræða byggingu sem einungis eigi að standa í tiltekinn tíma og verði fjarlægð eða flutt síðar, þá eigi að síður er um að ræða mannvirki í skilningi 13. tl. 3. gr. laga nr. 160/2010 sem er varanlega skeytt við land og nýreist. Er því í samræmi við 1. gr. laga nr. 48/1994 um brunatryggingar og 1. gr. reglugerðar nr. 809/2000 um lögboðna brunatryggingu húseignar skylt að brunatryggja umrædda byggingu, en hún er ekki sambærileg starfs­manna­búðum eins og þær eru skilgreindar í 23. tl. 3. gr. laga nr. 160/2010.

Að öllu framangreindu virtu verður að telja að umrædd bygging sé ekki undanþegin greiðslu skipulagsgjalds og verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar af þeim sökum hafnað. 

Úrskurðarorð:

 Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá 3. maí 2023 að synja um niðurfellingu skipulagsgjalds að upphæð kr. 2.454.714 vegna viðbyggingar Flugstöðvar 1a á Keflavíkurflugvelli.

82/2023 Aratún

Með

Árið 2023, föstudaginn 22. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 82/2023, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Garðabæ frá 29. maí 2023 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir bílskúr á lóðinni Aratúni 36.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. júlí 2023, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur fasteignarinnar að Aratúni 34, Garðabæ, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Garðabæ frá 29. maí 2023 að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir bílskúr á lóðinni Aratúni 36. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Garðabæ 21. júlí 2023.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu. Lóðin Aratún 36 er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag Silfurtúns. Í úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í máli nr. 42/2009 var byggingarleyfi fyrir bílskúr á umræddri lóð fellt úr gildi. Á árinu 2020 var samþykkt óveruleg breyting á deiliskipulagi Silfurtúns vegna lóðarinnar nr. 36 við Aratún. Breytingin var kærð til úrskurðarnefndarinnar sem felldi hana úr gildi með úrskurði í máli nr. 114/2020. Mat nefndin það svo að með hliðsjón af stærð bílskúrsins sem gert væri ráð fyrir á lóðinni hafi ekki verið um að ræða óverulega breytingu á deiliskipulaginu þar sem nýtingarhlutfall lóðarinnar færi úr 0,30 í 0,46 og hækkaði því um 53%. Þar með hefði meðferð málsins átt að fara fram á grundvelli 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 en ekki í samræmi við 2. mgr. 43. gr. laganna eins og verið hafði. Ný breyting á deiliskipulagi Silfurtúns var samþykkt í bæjarstjórn Garðabæjar 3. febrúar 2022 sem tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 2. júní s.á. Með breytingunni var leyfilegt nýtingarhlutfall lóða í Silfurtúni hækkað úr 0,30 í 0,35 og þar sem hæðarmunur á lóð byði upp á útfærslu húss með kjallara mætti nýtingarhlutfallið fara upp í 0,45.

Á afgreiðslufundi skipulagsstjóra 7. júní 2022 var samþykkt, að lokinni grenndarkynningu, breikkun um 1,5 m á hluta byggingarreits Aratúns 36 fyrir bílskúr. Samþykkt skipulagsstjóra tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 8. júní s.á. Byggingarleyfi fyrir umræddum bílskúr var samþykkt 29. maí 2023.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að frá árinu 2008 hafi þau verið í samskiptum við þáverandi úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála, og Garðabæ vegna umrædds bílskúrs. Síðast hafi þau átt samskipti við úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, árið 2020 vegna málsins.

Hinn 26. júní sl. hafi íbúi Aratúns 36 bankað upp á hjá þeim og tilkynnt að nú færu að hefjast framkvæmdir við umrædda bílskúrsbyggingu þar sem samþykkt hafi verið byggingarleyfi fyrir framkvæmdinni. Hafi hann tjáð kærendum að hann myndi byrja á að grafa upp plötu sem hafði verið steypt árið 2011 og óskað eftir því að fá að koma 1 til 2 m inn á lóð kærenda til þess að geta drenað umræddan bílskúr og unnið við uppsetningu steypumóta. Hafi því verið neitað enda ekkert sem rökstyðji það að bílskúrinn sé drenaður á lóð þeirra eða að vinna vegna framkvæmdanna fari fram á lóð þeirra.

Degi síðar hafi kærendur farið á bæjarskrifstofur Garðabæjar og óskað eftir afriti af teikningum umrædds bílskúrs. Komi þar fram eins og kærendur hafi óttast að athugasemdir þeirra hafi verið virtar af vettugi. Aðspurður hafi starfsmaður Garðabæjar tjáð þeim að byggingarleyfið hafi verið gefið út 29. maí 2023. Hafi þau því enga vitneskju haft um leyfið fyrr en bankað hafi verið upp á hjá þeim 26. júní sl., þrátt fyrir að vera búin að vera í samskiptum við starfsmann byggingarnefndar haustið 2022 og óskað eftir teikningum. Á þeim tíma hafi þeim verið tjáð að þar sem ekki væri búið að gefa út leyfið gætu þau ekki fengið teikningarnar. Hafi starfsmaðurinn sagt ætla að láta þau vita um leið og að byggingarleyfi yrði gefið út en ekki staðið við það. Hefðu kærendur haft vitneskju um útgáfu byggingarleyfisins hefðu þau kært leyfið strax í byrjun júní.

Samkvæmt teikningum eigi umræddur bílskúr að vera 3,2 m á hæð á lóðarmörkum kærenda. Hækki hann þar af leiðandi niður lóðina og verði um 80% bílskúrsins á bilinu 4,5 til 5 m hár á lóðamörkunum þar sem lóð kærenda standi lægra en lóð Aratúns 36. Gert sé ráð fyrir að bílskúrinn verði um 12 m að lengd. Telji kærendur enga ástæðu til staðar sem rökstutt geti þessa hæð á bílskúrnum enda sé innkeyrsla Aratúns 36 með möl sem hafi nú þegar verið hækkuð um 50 cm undanfarin ár. Séu því fullar forsendur fyrir því að eigendur Aratúns 36 lækki innkeyrsluna til þess að lækka bílskúrinn í stað þess að byggja eins hátt og leyfið hljóði upp á.

Flatarmál umrædds bílskúrs verði gróflega áætlað um 139,9 m2 að meðtöldum lagnakjallara með hita í gólfi. Í kjallara og á 1. hæð bílskúrsins sé gert ráð fyrir að gengið sé inn á hliðinni að vestan. Þá sé einnig gert ráð fyrir baðherbergi og einstaklingsíbúð með eldhúsi er virðist vera samkvæmt teikningum. Einnig séu gluggar bílskúrsins um 1,2 m á hæð og 1,8 m á breidd, báðir með 72,5 cm opnalegu fagi á báðum hæðum. Telji kærendur að umræddur lagnakjallari þarfnist ekki slíkrar lofthæðar og að bílskúr þurfi heldur ekki glugga og hurðir sem séu á stærð við það sem þekkist í íbúðarhúsnæði á tveimur hæðum. Virðist því sem að samþykkt hafi verið leyfi fyrir byggingu íbúðarhúsnæðis en ekki bílskúrs á lóðamörkum Aratúns 34 og 36. Ljóst sé að bílskúr af framangreindri stærð komi til með að rýra verðgildi fasteignarinnar að Aratúni 34.

Ítrekað sé að ekki sé verið leggjast gegn því að byggður verði bílskúr að Aratúni 36. Heldur ættu allir að falla undir sama hatt. Hvergi sé gert ráð fyrir að bílskúrar séu með jafn háa veggi og bílskúrinn sem reisa eigi á lóð Aratúns 36. Ætti því umræddur bílskúr að vera í samræmi við hverfið og götuna. Einnig sé hvergi að sjá að gert hafi verið ráð fyrir að aukið byggingar-magn yrði lóðrétt á kostnað útsýnis og birtu húsa á nærliggjandi lóðum. Þá sé ekki heldur að sjá samkvæmt deiliskipulagi að gert hafi verið ráð fyrir að byggðar séu íbúðir í bílskúrum. Það hljóti að gefa auga leið að ef óskað sé eftir auknu byggingarmagni, verði það samþykkt sem viðbót við núverandi hús en ekki á kostnað annarra húsa í hverfinu. Frá árinu 2008 hafi það reynst erfitt fyrir kærendur að koma í orð lýsingu á raunverulegri stærð fyrirhugaðrar byggingar. Sé því sérstaklega óskað eftir því að úrskurðarnefndin fari í vettvangsferð að Aratúni 34 og 36 til að tengja saman teikningar á umræddum bílskúr við umhverfi hans.

 Málsrök Garðabæjar: Gerð er krafa um að hið kærða byggingarleyfi standi óraskað. Með breytingu á deiliskipulagi Silfurtúns sem samþykkt var í bæjarstjórn Garðabæjar 3. febrúar 2022 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 2. júní s.á. hafi nýtingarhlutfall lóða í Silfurtúni verið hækkað. Hafi það farið úr 0,3 í 0,35 og þar sem kjallari/neðri hæðir séu mögulegar megi nýtingarhlutfallið fara upp í 0,45. Með heimild í viðauka við samþykkt um stjórn Garðabæjar nr. 20/2017, hafi skipulagsstjóri, á afgreiðslufundi 7. júní 2022, samþykkt breikkun á byggingarreit fyrir hluta bílskúrs um 1,5 m að lokinni grenndarkynningu. Hafi samþykktin verið staðfest með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda degi síðar. Við útgáfu hins kærða byggingarleyfis hafi þess verið gætt að uppfylltir yrðu deiliskipulagsskilmálar hvað varði nýtingarhlutfall, hæð veggja við lóðarmörk og að byggingin falli innan byggingarreits.

Samkvæmt skráningu í fasteignaskrá sé húsið sagt vera 209 m2 en í úrskurði úrskurðarnefnd-arinnar nr. 114/2020 komi fram að rétt stærð hússins sé 233,7 m2 og þar af sé kjallari 97,2 m2. Nýr bílskúr sem umþrætt byggingarleyfi snúi að sé 63,6 m2 og lagnakjallari 76,3. Saman geri þetta 376,6 m2 og nýtingarhlutfallið 0,46 sem teljist innan skekkjumarka deiliskipulags-skilmála. Grunnflötur húsnæðis án kjallara sé 138,5 m2. Að viðbættum lagnakjallara sé stærðin 214,8 m2 og nýtingarhlutfallið þá 0,26 sem sé verulega undir heimild samkvæmt deiliskipulagsskilmálum. Hámarkshæð húsnæðis samkvæmt skilmálunum megi vera 3,2 m frá gólfkóta aðalhæðar sem sé 9,45. Því sé hámarkskóti samkvæmt deiliskipulagsskilmálunum 12,65. Á uppdráttum komi fram að hæð bílskúrs sé 12 og sé þar með undir framangreindri hámarkshæð.

 Málsrök leyfishafa: Bent er á að samkvæmt hæðarblaði dags. 1. september 2020 megi aðkomuhæð bílskúrs vera í hæðarkóta 8,95, sem sé 50 cm undir hæðarkóta íbúðar Aratúns 36. Sé þetta í samræmi við önnur hús í götunni að einu húsi undanskildu sem sé með hæðarkóta íbúðar og bílskúrs í sama kóta. Ákveðið hafi verið í samráði við byggingarfulltrúa að hafa bílskúrinn lægri en heimilt sé og verði hann í kóta 8,80. Fullyrðingu um að hæð á lóðamörkum verði 4,5 til 5,0 m sé vísað á bug. Hæð bílskúrsins sé 3,2 metrar eins og deiliskipulag kveði á um. Fullyrðingu um að búið sé að hækka innkeyrsluna um allt að 50 cm séu rangar. Því til stuðnings sé vísað til ljósmyndar sem sýni að heimkeyrsla sé langt undir botnplötu íbúðarhúss.

Samkvæmt samþykktri skráningartöflu fyrir Aratún 36, dags. 13. júní 2023, sé umræddur bílskúr 63,6 m2. Gert sé ráð fyrir salerni í bílskúr en engar teikningar sýni að gert sé ráð fyrir baðherbergi eða eldhúsi í kjallara. Lofthæð lagnakjallara sé 2,02 metrar sem ætti ekki að skipta máli í ljósi þess að bílskúrinn sé byggður út frá uppgefnum hæðarkóta, eða 15 cm undir í þessu tilfelli og upp á við sem nemi heimildum í deiliskipulagi. Dyr bílskúrs sé 0,98 metrar á breidd og hafi hún verið sett til þess að uppfylla lágmarksskilyrði gr. 6.4.2 í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Hvorki dyr né gluggar séu af óvenjulegri stærð og snúi gluggar og dyr inn í garð leyfishafa en ekki að lóð kærenda. Að lokum sé ítrekað að bílskúrinn sé innan heimilda deiliskipulags að öllu leyti, þar á meðal hvað varði byggingarreit og hámarkshæð. Aukið byggingarmagn rýri ekki útsýni þar sem byggingin sé öll innan hámarkshæðar.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Ítrekað er að kærendur séu ekki ósátt við byggingu bílskúrs heldur setji þau sig upp á móti stærð og hæð bílskúrsins á lóðarmörkum. Baklóðir Aratúns 32, 34, 36 og 38 séu nánast allar jafn háar. Hins vegar sé hús kærenda á einni hæð, en Aratún 36 sé á tveimur hæðum. Með því að hafa bílskúrinn svo háan og í hlutföllum við Aratún 36, gefi það auga leið að hann muni skyggja verulega á húsið við Aratún 34 og baklóð þess.

Ítrekuð sé framangreind umfjöllun að um sé að ræða byggingu íbúðarhúsnæðis, eða stækkun þess, á lóðarmörkum. Einungis fjórir metrar skilji að umræddan bílskúr og hús kærenda. Væri því nærtækast að byggð yrði hefðbundinn bílskúr í samræmi við aðra slíka í götunni og að stækkað yrði íbúðarhúsið sjálft að Aratúni 36, enda standi húsið á miðri lóð en ekki á lóðarmörkum.

 —–

Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 15. september 2023 að viðstöddum kæranda og leyfishafa ásamt fulltrúum Garðabæjar.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúans í Garðabæ að samþykkja leyfi til byggingar bílskúrs á lóðinni Aratúni 36. Er fyrst og fremst deilt um hvort hæð og stærð byggingarinnar við mörk lóðar kærenda eigi sér stoð í gildandi skipulagi.

 Í Aðalskipulagi Garðabæjar 2016-2030 er skipulagssvæðinu Silfurtúni lýst sem lágreistri, fullbyggðri sérbýlishúsabyggð sem jafnframt sé elsta íbúðarbyggð Garðabæjar. Að öðru leyti er vísað til gildandi deiliskipulags.

 Deiliskipulag Silfurtúns tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 9. júlí 2012. Í kafla 4.2.3. í greinargerð deiliskipulagsins kemur fram að þar sem hverfið sé þegar fullbyggt gildi ný ákvæði um mæli- og hæðarblöð aðeins fyrir nýbyggingar, sé núverandi hús rifið eða vegna viðbygginga. Þá skuli nýbyggingar og viðbyggingar ávallt taka mið af kótum eldra húss og aðalhæð. Undantekningalaust skuli miða við aðalhæð húss þegar kótar húss og lands séu samstilltir. Samkvæmt kafla 4.3.1. er heimilt að hafa kjallara að hluta eða öllu leyti þar sem lega lands og frárennsli lagna leyfa og endurbyggja hluta núverandi húss, s.s. bílgeymslu á núverandi stað án þess að fylgja nýjum byggingarreit. Skal endurbygging fylgja nákvæmlega stærð fyrri húshluta í hvívetna, bæði að grunnfleti og í hæð. Í kafla 4.3.2 greinargerðarinnar er fjallað um bílastæði og bílgeymslur. Þar kemur fram að bílskúrar séu ýmist sambyggðir húsi eða stakir í framhaldi af bílastæðum. Oftast einfaldir og reistir tiltölulega innarlega á lóðum nokkuð langt frá götu. Þar sem bílgeymsla hafi ekki verið byggð við hús gildi nýr byggingar-reitur um staðsetningu hennar. Bílgeymsla skuli að öllu jöfnu vera lágreist með litlum þakhalla og að hámarkshæð 3,2 m.

Í 5. tl. gr. 1.2.1 í byggingarreglugerð nr. 112/2012 er talið upp hvað falli undir hugtakið bílgeymsla. Þar segir að um sé að ræða hús eða húshluta til geymslu á bílum, ýmist opið eða lokað. Leikur því ekki vafi á að í framangreindri umfjöllun um að nýbyggingar og viðbyggingar skuli ávallt taka mið af kótum eldra húss og aðalhæð eigi einnig við um bílgeymslur.

Í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 114/2020 var deiliskipulagi Silfurtúns breytt og tók breytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 2. júní 2022. Með breytingunni var leyfilegt nýtingarhlutfall lóða í Silfurtúni hækkað úr 0,30 í 0,35. Þar sem hæðarmunur á lóð byði upp á útfærslu húss með kjallara mætti nýtingarhlutfallið fara upp í 0,45. Þá var gerð breyting á deiliskipulaginu vegna lóðarinnar Aratúns 36 sem tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 8. júní 2022 þar sem byggingarreitur fyrir bílskúr var stækkaður um 1,5 m til vesturs og heimild veitt fyrir lagnakjallara undir bílskúr. Þá var hámarksnýtingarhlutfall lóðarinnar jafnframt aukið úr 0,35 í 0,50.

Samkvæmt samþykktum teikningum er aðalhæð hússins að Aratúni 36 í gólfkótanum 9,45 og ætti gólfkóti bílskúrsins að taka mið af þeim kóta samkvæmt gildandi deiliskipulagi. Samkvæmt teikningunum er gólfkóti bílskúrs 8,8 og vegghæð bílskúrsins 3,2 m þar fyrir ofan eða í kóta 12,0. Samkvæmt þessu er hæð bílskúrsins, miðað við gólfkóta aðalhæðar, innan heimilda deiliskipulagsins.

Vegna landhalla lóðarinnar er bílskúrsveggurinn í breytilegri hæð miðað við jarðvegsyfirborð séð frá lóð kærenda. Fyrir liggur að nýtingarhlutfall lóðarinnar verður eftir stækkunina 0,45, sem er innan heimilda gildandi deiliskipulags. Eðli máls samkvæmt munu umdeild byggingar-áform hafa allnokkur grenndaráhrif gagnvart fasteign kærenda í ljósi stærðar hinnar samþykktu viðbyggingar og legu hennar við mörk lóðar kærenda.

Að öllu framangreindu virtu er hin kærða ákvörðun ekki haldin þeim form- eða efnis-annmörkum sem raskað geta gildi hennar og verður kröfu þess efnis því hafnað.

Rétt þykir að vekja athygli á að geti fasteignareigandi sýnt fram á fjártjón vegna deiliskipulags getur það leitt til bótaréttar, sbr. 51. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, en slíkt álitaefni á ekki undir úrskurðarnefndina heldur eftir atvikum dómstóla.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Garðabæ frá 29. maí 2023 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir bílskúr á lóðinni Aratúni 36, Garðabæ.

69/2023 Bakkaflöt

Með

Árið 2023, föstudaginn 22. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 69/2023, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Garðabæjar frá 3. maí 2023 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir viðbyggingu íbúðarhúss að Bakkaflöt 5, Garðabæ.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. júní 2023, er barst nefndinni sama dag, kæra íbúar að Bakkaflöt 7, Garðabæ, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Garðabæjar frá 3. maí 2023 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir viðbyggingu húss að Bakkaflöt 5. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess var jafnframt krafist að framkvæmdir á nefndri lóð yrðu stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni, en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 22. júní 2023.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Garðabæ 6. júlí 2023.

Málavextir: Deiliskipulagið Flatir Garðabæ tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 19. mars 2014. Markmið skipulagsins var að gera húseigendum kleift að byggja við hús sín eða eftir atvikum rífa þau og byggja ný. Í deiliskipulaginu var gert ráð fyrir að hús ofan götu, þar sem landhalli er meiri, gætu verið 1,5 hæðir, þ.e. stallast um hálfa hæð upp og niður. Varð því heimilt, þar sem landhalli leyfir, að byggja allt að tvær hæðir á lægri hluta lóðar.

Hinn 21. september 2021, samþykkti bæjarráð Garðabæjar afgreiðslu byggingarfulltrúa um að veita leyfi til að rífa bílageymslu og byggja við einbýlishús sem stendur á lóðinni Bakkaflöt 5. Í framhaldi þess staðfesti bæjarráð hinn 10. janúar 2023 samþykki byggingarfulltrúa á byggingarleyfisumsókn fyrir Bakkaflöt 5. Byggingarleyfið var gefið út 3. maí s.á. og hefur það nú verið kært til úrskurðarnefndarinnar.

 Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að hafa fyrst fengið upplýsingar um útgáfu byggingarleyfisins 4. maí sl. Á þeim tíma hefðu þó allir útveggir viðbyggingarinnar við Bakka-flöt 5 verið steyptir, að undanskilinni 2. hæð suðurhliðar viðbyggingarinnar og þakkants á norðurhluta. Hafi þetta allt verið framkvæmt áður en formlegt byggingarleyfi hafi verið gefið út. Kærendur byggja á því að hafa verulegra lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn málsins. Lóð þeirra liggi að Bakkaflöt 5 og valdi viðbyggingin verulegu skuggavarpi og útsýnis-skerðingu á lóð þeirra.

Hin kærða ákvörðun sé haldin verulegum annmörkum. Tveir nefndarmenn skipulagsnefndar Garðabæjar hafi verið vanhæfir til að koma að afgreiðslu byggingarleyfisumsóknar vegna Bakkaflatar 5, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, 1. mgr. 20. gr. sveitar-stjórnarlaga nr. 138/2011 og 2. mgr. 25. gr. samþykkta um stjórn Garðabæjar nr. 1182/2022. Um sé að ræða stjórnarformann verktakafyrirtækisins sem sá um framkvæmdina sem byggingarleyfið laut að, ásamt arkitekt verksins. Hafi því báðir aðilar hagsmuna að gæta við úrlausn málsins, sbr. álit UA nr. 3521/2002. Samkvæmt fundargerðum skipulagsnefndar Garðabæjar frá 12. ágúst og 30. september 2021 hafi þeir báðir setið fundina og tekið þátt í meðferð og afgreiðslu umdeildrar byggingarleyfisumsóknar. Á fyrri fundinum hafi verið lögð fram umsókn um byggingu bílageymslu, lækkun aðkomuplans í hæð við götu og gerð opins bílskýlis undir nýrri viðbyggingu. Þar hafi annar þessara aðila verið á fundinum en vikið af fundi undir þessum lið. Á seinni fundinum hafi umsóknin verið afgreidd þar sem báðir þessir aðilar hafi setið fundinn. Að framangreindu virtu hafi umræddir aðilar þó verið vanhæfir til að taka þótt í undirbúningi, meðferð eða úrlausn málsins, sbr. 4. gr. stjórnsýslulaga og beri því að ógilda ákvörðunina þegar af þeirri ástæðu.

Einnig telji kærendur að útgáfa byggingarleyfisins sé í brýnni andstöðu við almenna skilmála gildandi deiliskipulags, sbr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og gr. 2.4.2. í byggingar-reglugerð nr. 112/2012. Í greinargerð með gildandi deiliskipulagi Flata Garðabæ, frá árinu 2014, komi fram að leitast sé við að viðhalda þeim þáttum í mynstri byggðarinnar sem hafi víðast verið til viðmiðunar, s.s. bindandi byggingarlínur við götu, hæðir, hússtærðir og þakform. Samkvæmt skilmálum deiliskipulags svæðisins sé hámarkshæð fyrir 1,5 hæðar hús 4,2 m næst götu en 5,2 m aftar á lóð. Miðað við mynd 3-D á skipulagsuppdrætti skuli miða hámark þetta frá fyrstu hæð. Þess beri að geta að við Bakkaflöt 5 hafi áður staðið bílageymsla sem nú hafi verið rifin og ný bygging verið reist í staðinn. Við umrædda breytingu hafi eigendur byggt nýja byggingu á lægri fleti (botnplötu) en eldri bílageymslan hafi verið byggð á, sem nemi 90 cm.

Bent sé á að þrátt fyrir framangreinda breytingu á byggingunni, breytist ekki viðmið gólfkóta sem notaður sé til að reikna hámarks nýtingarhlutfall. Í deiliskipulaginu komi fram að þegar ný hús séu reist í stað eldri húsa gildi talan um hámarks nýtingarhlutfall sem komi fram í skilmálatöflu þó svo að núverandi hús sé stærra. Enn fremur komi þar fram að sé hús rifið og byggt nýtt gildi skilmálar um hámarks nýtingarhlutfall og hæðir án undantekninga. Kærendur hafi leitað álits Skipulagsstofnunar á inntaki deiliskipulagsins hvað þetta varðaði og hafi framangreindur skilningur þeirra á skilmálum deiliskipulagsins verið staðfestur. Hafi mat Skipulagsstofnunar verið að þar sem um væri að ræða framkvæmdir í þegar byggðu hverfi sé eðlilegt að miða við hámarkshæð þeirrar byggingar sem reist hafi verið upphaflega og allur frágangur á lóð og leyfileg hæð bygginga hafi tekið mið af. Af þessu leiði að Garðabæ hafi borið að miða hámarkshæð við gólfkóta þeirrar bílageymslu sem var upprunalega byggð með eigninni. Ekki sé útilokað að skilja megi deiliskipulagið þannig að miða eigi við götukóta. Það sé þó sama hvort viðmiðið yrði lagt til grundvallar, í báðum tilvikum sé ljóst að byggingin sé hærri en deiliskipulagið geri ráð fyrir. Miðað við fyrirliggjandi gögn sé nýbyggingin þannig öll of há.

Í tengslum við þær athugasemdir sem kærendur hafi borið upp við Garðabæ hafi sveitarfélagið óskað eftir leiðbeiningum um inntak gildandi deiliskipulags frá arkitekt sem unnið hafi deili-skipulagið fyrir bæinn. Samkvæmt bréfi arkitektsins frá 16. maí 2023 sé heimilt, þar sem landhalli leyfi, að byggja allt að tvær hæðir á hluta lóðar og þá á lægri hluta lóðar en ekki efri hluta. Taki hann sérstaklega fram í bréfi sínu ,,að miða skal við þá gólfkóta húsa sem byggðir voru upphaflega en í tilviki Bakkaflatar 5 var gólfkóti bílskúrs áður 32,7 en samþykkt teikning breytinga og viðbyggingar gerir ráð fyrir kóta 31,8 sem sé 90 cm lægri.“ Miðað við þetta sé ljóst að sé bílageymslan rifin og ný bygging reist þá beri að miða við upphaflegan gólfkóta bílageymslu. Verði því ekki annað séð en að byggingarleyfið sé í andstöðu við skilmála deili-skipulagsins. Hin samþykktu byggingaráform samræmist ekki framangreindu og sé við-byggingin því óvenjuleg og í ósamræmi við skilmála deiliskipulagsins, þar sem miða eigi við upphaflega gólfkóta þegar hámarkshæð sé ákvörðuð, þrátt fyrir breytingu og niðurrif bíla-geymslu Bakkaflatar 5. Að því sögðu sé viðbyggingin ekki innan hæðarmarka og því ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag.

Ef nágrönnum fasteignareigenda að Bakkaflöt 5 hefði verið kynnt áformin, sem bæjaryfir-völdum hafi verið skylt að gera í ljósi þeirra áhrifa sem breytingarnar hafi á hagsmuni eigenda Bakkaflatar 7, hefði þeim gefist færi á að tjá sig og koma að athugasemdum við framkvæmdina. Hafi kærendur verið ítrekað í samskiptum við bæjarfélagið en engar nákvæmar upplýsingar fengið um framkvæmdina.

 Málsrök Garðabæjar: Bent er á að skv. 2. mgr. 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 sé það byggingarfulltrúi sem samþykki og gefi út byggingarleyfi nema til staðar sé samþykkt um sérstaka byggingarnefnd í sveitarfélagi skv. 7. gr. sömu laga. Engin slík samþykkt hafi verið sett í Garðabæ og það sé því byggingarfulltrúi sem afgreiðir slík mál hjá sveitarfélaginu án aðkomu skipulagsnefndar. Afgreiðsla á umræddu byggingarleyfi hafi verið staðfest á fundi bæjarráðs 10. janúar 2023. Tilgreindir nefndarmenn í skipulagsnefnd hafi því ekki komið að afgreiðslu byggingarleyfisins. Meint vanhæfi þeirra hafi því engin áhrif á hið kærða leyfi. Hvað varði umfjöllun skipulagsnefndar hinn 12. ágúst 2021, sem vísað sé til í kæru, þá hafi sú umfjöllun lotið að því að vísa málinu til skoðunar til tækni- og umhverfissviðs og skipulagsráðgjafa. Hafi því ekki verið um efnislega afgreiðslu að ræða. Annar nefndar-mannanna sem talinn sé vanhæfur samkvæmt kæru hafi að auki vikið af fundi við afgreiðslu málsins eins og fram komi í fundargerð. Hvað varði aðkomu hins nefndarmannsins sé vísað í framangreinda umfjöllun. Að auki liggi fyrir að þátttaka hans í þeim þætti málsins hafi engu breytt varðandi afgreiðslu málsins enda málið samþykkt samhljóða af öðrum nefndarmönnum. Sé því ljóst að þeir aðilar sem vísað sé til í kæru að hafi verið vanhæfir hafi ekki komið að afgreiðslu málsins. Byggingarleyfið verði ekki fellt úr gildi á þeim grunni.

Byggingarleyfið sé í samræmi við ákvæði skipulags og skipulagsreglugerðar um hámarkshæð hússins. Vísað sé til þess að hámarkshæð húss megi vera 4,2 m næst götu en 5,2 m aftar á lóðinni. Bent sé á að mynd 3-D á skipulagsuppdrætti sem kærendur vísi til hafi skipulagshöfundur tekið fram í minnisblaði sínu, dags. 16. maí 2023, að gerð hafi verið mistök við framsetningu myndarinnar sem felist í að orðunum „lóðamörk“ og „gata“ hafi verið víxlað á umræddri mynd. Hún sé því röng eins og fram komi í minnisblaðinu þar sem sýnd sé ný og rétt mynd. Um sé að ræða augljós mistök í framsetningu eins og ráða megi af myndinni sjálfri, eðli máls og skilmálum að öðru leyti. Eðlilegt sé að veitt sé leyfi til að byggja hús að hluta á tveimur hæðum til að taka upp landhalla í landinu, þ.e. á lægri hluta lóðar en ekki öfugt. Aðrir skilmálar skipulagsins styðji við þessa túlkun og sé þetta ekki í fyrsta skipti sem reyni á þetta ákvæði. Athugasemd hafi komið fram um þetta atriði þegar sótt hafi verið um leyfi til breytinga á húsi nr. 3 við Bakkaflöt árið 2015. Hönnuður þess húss hafi bent á þetta og óskað eftir skýringum á túlkun á ákvæðinu með fyrirspurn, dags. 8. júlí 2015. Þá hafi skipulagsnefnd Garðabæjar staðfest túlkunina á fundi sínum 14. ágúst 2015.

Til viðbótar framangreindu sé lögð áhersla á að skýrt komi fram í skilmálum skipulagsins að miða beri hámarkshæð við gólfkóta aðalhæðar, sbr. síðustu setninguna í skilmálum þar sem fjallað sé um hæðir húsa og þakgerðir. Þar segi: „Hámarkshæð húsa er reiknuð út frá uppgefnum gólfkóta aðalhæðar á hæðarblöðum.“ Ekki liggi fyrir hæðarblað fyrir umrædda lóð enda hefði þegar verið byggt á henni hús eins og fram komi í gögnum málsins og engin ástæða til að gefa út hæðarblað. Hefði slíkt verið algjör rökleysa enda hefði í því verið miðað við hæðarkóta aðalhæðar. Ekki sé því hægt að miða við kóta skv. hæðarblaði. Eins og fram komi á aðaluppdráttum sé gólfkóti aðalhæðar hússins 34,0 eins og hann var fyrir breytingar og verði áfram, og hámarkskóti byggingarinnar 38,2. Hæð byggingarinnar sé því vel innan marka þess sem skipulag leyfi en samkvæmt því sé hámarkshæðin 39,2 (34,0 + 5,2).

Hvað varði umsögn Skipulagsstofnunar þá breyti hún engu um framangreint enda virðist stofnunin ekki gera sér grein fyrir villunni á mynd D-3. Tilvísun til skipulagsreglugerðar hafi heldur enga þýðingu enda sé skýrt kveðið á um hæðarkóta og við hvaða gólfkóta eigi að miða við í skipulaginu. Minnt sé á að um sé að ræða skipulag sem fjalli um svæði sem þegar sé byggt að mestu leyti og meðal annars löngu fyrir tíma núgildandi reglugerðar.

 Samkvæmt upplýsingum frá hönnuði hússins hafi verið gerðar nokkrar breytingar á fram-kvæmdunum eftir upphaflega hönnun til þess að leitast við að milda grenndaráhrif breyting-anna. Til að mynda hafi þakkantur viðbyggingar verið lækkaður um 10 cm, hluti þakkants viðbyggingar sem snúi að Bakkaflöt 7 hafi verið lækkaður um 100 cm, gryfja milli lóða við bílskýli felld burt og rimlaveggur felldur niður og renningur milli lóðanna nr. 5 og 7 jafnaður og aðlagaður að núverandi yfirborði lóðar Bakkaflatar 7 eins og kostur er. Þannig aukist rými á lóð nr. 7. Þá hafi verið gerður stoðveggur við innkeyrslu frá húsi nr. 5 að lóðamörkum vegna þessarar sömu lóðaraðlögunar og gert ráð fyrir gróðri milli húss og lóðar nr. 7. Með þessum aðgerðum telji hönnuður að ásýnd viðbyggingar (austurhliðar) séð frá Bakkaflöt 7 verði ígildi rétt ríflega einnar hæðar húss. Viðbyggingin verði eingöngu um 80 cm hærri en núverandi hús nr. 5, og um 33 cm hærri en mænishæð Bakkaflatar 7.

 Málsrök leyfishafa: Leyfishafar byggja á því að viðbyggingin sem umþrætt byggingarleyfi snúist um sé að öllu leyti í samræmi við gildandi deiliskipulags. Mál þetta snúist einfaldlega um hvert sé raunverulegt inntak deiliskipulagsins og hvort túlka beri greinargerð með skipulaginu eins og sveitarfélagið hafi gert eða hvort að fallast beri á málatilbúnað kærenda.

Leyfishafar telji túlkun sveitarfélagsins vera rétta. Það sem renni stoðum undir þau sjónarmið sé meðal annars sú staðreynd að eigendur fasteignarinnar að Bakkaflöt 3 hafi ætlað að reisa viðbyggingu við hús sitt á árinu 2015. Arkitektinn er sá um hönnun byggingarinnar hafi tekið eftir því að skýringarmynd 3 í greinargerð deiliskipulagsins hafi ekki farið saman við mynd D í skipulaginu, sem eigi við hús ofan götu við Bakkaflöt. Það sem ekki hafi farið saman á myndunum var hvernig land undir byggingunum var sýnt hallast og tilgreining á því hvar gata var merkt. Vegna þessa hafi arkitektinn sent fyrirspurn til skipulagsnefndar Garðabæjar um hvernig skilja bæri deiliskipulagsskilmálana að því er varðaði hæðarmörk. Á fundi nefndar-innar 13. ágúst 2015 hafi verið fallist á túlkun umrædds arkitekts. Í framhaldinu hafi eigendum hússins að Bakkaflöt 3 verið heimilað að byggja viðbyggingu með sama hætti og það byggingarleyfi sem nú sé þrætt um.

 Eftir að leyfishafar hófu að reisa viðbygginguna hafi starfsmenn Garðabæjar leitað til höfundar skipulagsins um skýringu hans á þessu misræmi. Hafi hann svarað fyrirspurninni 16. maí 2023 og staðfest að tilgreining götu og lóðarmarka hafi snúist við. Sé litið til skýringa hönnuðarins verði skilmálar deiliskipulagsins ekki túlkaðir á annan veg en að uppdráttur D á mynd 3 eigi í raun að sýna að land undir byggingu halli að götu en ekki öfugt. Um augljós minniháttar mistök í framsetningu sé að ræða sem beri að leiðrétta í samræmi við meginreglur laga, t.d. 1. mgr. 32. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Hafi sveitarfélaginu Garðabæ því verið heimilt að skera úr um inntak greinargerðarinnar með deiliskipulaginu og skýra það vegna annmarka á skýrleika þess.

Þá beri að telja að skýringarmyndir í deiliskipulagi séu settar fram í dæmaskyni til leiðbeininga og teljist því ekki til bindandi hluta skipulagsins, sbr. úrskurð nefndarinnar í máli nr. 122/2019. Leggja verði því texta greinargerðarinnar um svæði 3 Bakkaflöt til grundvallar en þar segi að landhalli sé nokkur og að hús skuli laga sig að landi. Miðað sé við að hús ofan götu, þar sem landhalli sé meiri, geti verið 1,5 hæðir. Því geti húsin stallast um hálfa hæð upp eða niður og verið tvær hæðir að hluta. Af texta þessum sé augljóst að orðin gata og lóðarmörk hafi víxlast á skýringarmyndinni. Það sé útilokað að höfundar deiliskipulagsins hafi verið að lýsa því í greinargerðinni að byggingar í landhalla ofan götu mættu stallast þannig að hæðir þeirra mættu vera hærri fjær götu en nær götu.

Sveitarstjórnir hafi mat um það hvernig deiliskipulagi og breytingum á því skuli háttað, sbr. úrskurð nefndarinnar í máli nr. 105/2022 og um heimildir sveitarstjórnar til túlkunar á deiliskipulagsákvæðum, sbr. úrskurð nefndarinnar í máli nr. 118/2022. Jafnræðisregla 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 leiði einnig til þess að heimilt sé að reisa viðbygginguna með þeim hætti sem byggingarleyfið heimili vegna þess að sveitarstjórn hafi áður heimilað samskonar framkvæmd við Bakkaflöt 3.

Umfjöllun um að miða beri gólfkóta viðbyggingar við gólfkóta bílskúrs þess sem rifin var geti ekki staðist. Miða eigi gólfkóta við aðalhúsið sjálft eins og lagt sé til grundvallar hjá sveitar-félaginu. Í greinargerð með deiliskipulaginu sé tilgreint að hámarkshæð húsa sé reiknuð út frá gólfkóta aðalhæðar á hæðarblöðum. Þá sé skuggavarp á lóð kærenda eðlileg afleiðing af breytingu deiliskipulagsins sem tekið hafi gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðanda í mars 2014. Kærendur hafi ekki gert athugasemdir við það á sínum tíma.

Vísað sé á bug meintu vanhæfi nefndarmanna í skipulagsnefnd Garðabæjar og bent sé á að hvorugur þeirra hafi komið að efnislegri ákvörðun um veitingu byggingarleyfisins. Að lokum sé því harðlega mótmælt að álit Skipulagsstofnunar hafi þýðingu um inntak skilmála deili-skipulagsins. Að auki hafi starfsmenn Skipulagsstofnunar ekki hæfi að lögum til að skera úr um ágreining sem upp kunni að koma um túlkun á einstökum skipulagsmálum.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Þeim röksemdum sé mótmælt sem fram komi í greinargerð sveitarfélagsins og athugasemdum leyfishafa. Bent sé á að báðir þeir nefndarmenn sem kærendur vísi til séu aðalmenn í skipulagsnefnd Garðabæjar. Skipulagsnefndir hafi lögbundið hlutverk og fari með skipulagsmál undir yfirstjórn sveitarstjórna, sbr. 1. og 2. mgr. 6. gr. skipu-lagslaga nr. 123/2010. Um slíkar nefndir og störf þeirra gildi ákvæði sveitarstjórnarlaga eftir því sem við eigi, sbr. 3. mgr. sömu greinar. Þá sé nánar mælt fyrir um störf skipulagsnefnda í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Samkvæmt 5. mgr. gr. 2.3. reglugerðarinnar sé eitt megin-verksvið slíkra nefnda að veita umsagnir um hvort leyfisskyldar framkvæmdir séu í samræmi við skipulagsáætlun. Við slíka meðferð og afgreiðslu taki nefndin því efnislega afstöðu til málsins. Áréttað sé að starfsmenn séu ekki eingöngu vanhæfir til meðferðar máls ef þeir afgreiða sjálfir málið endanlega, heldur sé þeim óheimilt að taka þátt í undirbúningi, meðferð eða úrlausn þess, sbr. 1. mgr. 4. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Auk þess sem nærvera vanhæfs nefndarmanns nægi ein og sér til þess að hafa áhrif á afgreiðslu málsins, sbr. 2. mgr. 4. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og athugasemdir við frumvarp sömu laga.

Vegna umsagnar um að mistök hafi verið gerð við framsetningu myndar á skipulagsuppdrætti sé rétt að minna á að skipulagsáætlanir eru bindandi bæði fyrir sveitarfélag og almenning eftir að þær eru samþykktar og birtar í B-deild Stjórnartíðinda. Deiliskipulagið hafi því réttaráhrif eins og það sé samþykkt og birt. Minnisblað skipulagshöfundar eða almenn umfjöllun skipulagsnefndar Garðabæjar við fyrirspurn til sveitarfélagsins eftir að slíkt skipulag sé birt breyti því ekki réttaráhrifum og gildi skipulagsins. Bent sé á að umsögn Skipulagsstofnunar sem kærendur vísi til sé byggð á gildandi deiliskipulagi og skipulagsgögnum.

Andmælt sé að engu skipti um leyfilega hæð byggingarinnar að bílageymsla hafi staðið þar áður, þrátt fyrir að í deiliskipulaginu komi fram að sé hús rifið og byggt nýtt gildi skilmálar um hámarksnýtingarhlutfall og hæðir án undantekninga. Ágreiningur máls þessa snúi að því hvort útgefið leyfi sé í samræmi við lög og gildandi skipulag eða ekki og sjónarmið varðandi jafnræðisreglu veiti ekki tilkall til neins sem ekki samrýmist lögum. Til hliðsjónar megi sjá álit Umboðsmanns Alþingis í málum nr. 2025/1997 og 2147/1997.

Að lokum sé það áréttað að um óleyfisframkvæmdir hafi að miklu leyti verið að ræða sem hvorki Garðabær né leyfishafar hafi tekið afstöðu til. Byggingarleyfi byggingarfulltrúans í Garðabæ hafi verið gefið út 3. maí 2023, þegar stór hluti viðbyggingarinnar hafði þegar verið reistur í óleyfi. Hafi byggingaráform verið samþykkt fyrr þá felist ekki í því heimild til þess að hefja byggingaframkvæmdir, sbr. 11. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Til þess þurfi byggingarleyfi, sbr. 9. gr. laganna, sem hafi í þessu tilviki ekki verið fyrir hendi þegar framkvæmdir voru hafnar og því um óleyfisframkvæmdir að ræða, sbr. 9. gr. og 2. mgr. 13. gr. laga um mannvirki.

Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 15. september 2023 að viðstöddum öðrum kærenda og leyfishafa ásamt fyrirsvarsmönnum þeirra auk fulltrúa Garðabæjar.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis fyrir viðbyggingu einbýlishúss á lóð nr. 5 við Bakkaflöt í Garðabæ. Annars vegar er deilt um hvaða gólfkóta miða skuli við samkvæmt deiliskipulagi og hins vegar um hæfi tveggja nefndarmanna í skipulagsnefnd Garða-bæjar.

Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 gilda ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um hæfi sveitarstjórnarmanna, nefndarfulltrúa og starfsmanna sveitarfélaga nema öðruvísi sé ákveðið í sveitarstjórnarlögum. Í 3 .gr. stjórnsýslulaga eru tilgreindar mögulegar vanhæfisástæður og í 4. gr. laganna er fjallað um áhrif vanhæfis. Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 er það byggingarfulltrúi í viðkomandi sveitarfélagi sem veitir byggingarleyfi. Undantekningu á þessari reglu er að finna í 1. mgr. 7. gr. laganna sem veitir sveitarstjórn heimild með sérstakri samþykkt að kveða á um að í sveitarfélaginu starfi byggingarnefnd sem fjalli um byggingarleyfisumsókn áður en byggingarfulltrúi gefur út byggingarleyfi og hafi að öðru leyti eftirlit með stjórnsýslu hans fyrir hönd sveitarstjórnar. Engin slík samþykkt liggur fyrir hjá Garðabæ.

Bæjarráð Garðabæjar samþykkti ákvörðun byggingarfulltrúa um veitingu hins kærða byggingarleyfis og sat hvorugur þeirra nefndarmanna skipulagsnefndar sem kærendur hafa talið vanhæfa við meðferð málsins þann fund. Einnig ber að geta að nefndarmaður vék af fundi skipulagsnefndar í samræmi við 2. mgr. 4. gr. stjórnsýslulaga þegar tekin var ákvörðun um að vísa málinu til umhverfis- og tæknisviðs. Að því sögðu getur úrskurðarnefndin ekki fallist á að framangreindir nefndarmenn skipulagsnefndar Garðabæjar hafi tekið þátt í meðferð málsins eða ákvarðanatöku með þeim hætti að leitt geti til ógildingar ákvörðunarinnar.

 Í Aðalskipulagi Garðabæjar 2016-2030 er skipulagssvæðinu Flötum lýst sem lágreistri, fullbyggðri sérbýlishúsabyggð. Að öðru leyti er vísað til gildandi deiliskipulags.

 Deiliskipulagið Flatir Garðabæ tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 19. mars 2014. Meginmarkmið þess var að gera húseigendum kleift að byggja við hús sín eða eftir aðstæðum rífa þau og byggja ný. Um bílageymslur segir eingöngu að þær skuli byggðar í framhaldi af bílastæðum á deiliskipulagsuppdrætti.

Gatan Bakkaflöt er skilgreind sem svæði 3 í framangreindu deiliskipulagi. Samkvæmt skil-málum í greinargerð skipulagsins er gert ráð fyrir að hús ofan götu á svæði 3, þar sem landhalli er meiri geti verið 1,5 hæðir. Er þar átt við að hús geti stallast um hálfa hæð og verið tvær hæðir að hluta. Til nánari skýringa eru hámarkshæðir sýndar á mynd 3-B og 3-D. Á mynd 3-B eru hæðarskilmálar fyrir einnar hæðar hús. Á mynd 3-D eru skilmálar fyrir einnar og hálfrar hæðar hús. Þar kemur fram að hámarkshæð húsa sé reiknuð út frá uppgefnum gólfkóta aðalhæðar á hæðarblöðum. Samkvæmt myndunum má einnar hæðar hús vera allt að 4,2 m að hæð og einnar og hálfrar hæðar hús má vera 5,2 m þar sem það er hæst. Leyfileg heildarstærð húss má vera að hámarki í námunda við nýtingarhlutfallið 0,45. Grunnflötur húsa við Bakkaflöt má vera allt að 35% af lóðarstærð.

Samkvæmt gögnum málsins var einbýlishúsið að Bakkaflöt 5 áður 242,2 m2. Viðbyggingin sem samþykkt hefur verið við íbúðarhluta hússins er 75,5 m2 og er bílskýlið 40,2 m2. Nýtingarhlutfall lóðarinnar samkvæmt þessu verður 0,31.

Samkvæmt teikningum er gólfkóti aðalhæðar hússins 34,0 og mesta hæð byggingarinnar í kóta 37,3. Samkvæmt deiliskipulaginu er hæsti kóti hússins 38,2 og er húsið því 90 cm undir leyfilegri hámarkshæð. Gólfkóti aðalhæðar viðbyggingarinnar er 34,7 og hæsti kóti 38,2. Eru kótar viðbyggingar þar með innan heimilda skipulagsins.

Fyrir liggur í málinu yfirlýsing arkitekts deiliskipulagsins frá 16. maí 2023 þar sem hann staðfestir að orð hafi víxlast við skýringateikningu 3-D á skipulagsuppdrætti. Þykir einnig tilefni til að benda á að mynd 3-D er eingöngu til frekari skýringa en er ekki bindandi hluti skipulagsins. Liggur því fyrir að umdeild byggingaráform fara ekki í bága við gildandi deiliskipulag.

Með vísan til þess sem að framan greinir og þar sem ekki liggja, fyrir þeir form- eða efnisannmarkar sem raskað geta gildi hinnar kærðu ákvörðunar verður kröfu um ógildingu hennar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Garðabæjar frá 3. maí 2023 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir Bakkaflöt 5, Garðabæ.

55/2023 Þormóðsdalur

Með

Árið 2023, miðvikudaginn 20. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Sæmundsson jarðfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 55/2023, kæra á ákvörðun heilbrigðisnefndar Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness frá 6. mars 2023 um að hafna umsókn um endurnýjun starfsleyfis fyrir jarðborun í rannsóknarskyni í Þormóðsdal.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. apríl 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir Iceland Resources ehf. ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness frá 17. apríl s.á., sem fól í sér tilkynningu um ákvörðun heilbrigðisnefndar Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness sem tekin var á fundi 6. mars s.á., um að synja umsókn um endurnýjun starfsleyfis fyrir jarðborun í rannsóknarskyni í Þormóðsdal. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að heilbrigðiseftirlitinu verði gert að gefa út starfsleyfi í samræmi við umsókn félagsins.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá heilbrigðiseftirlitinu 25. maí 2023.

Málavextir: Kærandi hefur leyfi Orkustofnunar til leitar og rannsóknar á málmum í Þormóðsdal á leyfissvæði 14, Esja. Rannsóknarleyfið var upphaflega gefið út af iðnaðarráðuneytinu 23. júní 2004 en framselt til kæranda 9. ágúst 2021. Það hefur verið framlengt fimm sinnum, síðast með ákvörðun Orkustofnunar dags. 14. mars 2023. Leyfið gildir með því til 1. júlí 2025. Orkustofnun hefur samþykkt leitar- og rannsóknaráætlun á grundvelli leyfisins, nú síðast fyrir árið 2023. Samkvæmt leyfinu afmarkast leyfissvæðið af línu sem dregin er úr ósi Laxár í Kjós og eftir henni að Vindáshlíð og þaðan í hábungu Kjalar, þaðan til suðurs að Stíflisdalsvatni og þaðan til suðvesturs í Leirvogsdal, síðan til suðurs í Lyklafell og svo til vesturs í Elliðavatn og til sjávar í Elliðaárósum.

Hinn 4. ágúst 2021 samþykkti Heilbrigðiseftirlit Kjósarsvæðis umsókn kæranda um tímabundið starfsleyfi til 30. september s.á. til jarðborana í Þormóðsdal í Mosfellsbæ. Samkvæmt leyfinu fól framkvæmdin í sér jarðborun með léttum beltabor og sýnatöku til gullleitar og náði leyfið einnig til efnisflutninga og frágangs í verklok. Ráða má af leyfinu að samanlagt dýpi borana megi nema 4.000 m. Sett voru sértæk skilyrði vegna mengunarvarna í leyfið auk þess að kveðið var á um að almenn starfsleyfisskilyrði fyrir mengandi starfsemi næðu til þess.

Haustið 2022 sótti kærandi um endurnýjun fyrra starfsleyfis til Heilbrigðiseftirlits Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarnesbæjar, sem tekið hafði við verkefnum Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis eftir sameiningu framangreindra heilbrigðiseftirlitssvæða. Var um að ræða áform um framhald fyrri rannsókna á svæðinu samkvæmt eldra leyfi. Heilbrigðiseftirlitið auglýsti tillögu að starfsleyfinu 18. nóvember 2022 og var frestur til athugasemda veittur til 18. desember s.á. Um leið var óskað afstöðu landeigenda og umsagnar skipulagsfulltrúa Mosfellsbæjar með vísan til ákvæða reglugerðar nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnareftirlit.

Með bréfi Heilbrigðiseftirlitsins til kæranda, dags. 14. febrúar 2023, var upplýst að ekki væri hægt að verða við beiðni um útgáfu á starfsleyfi fyrir jarðborunum á grundvelli 6. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Var um ástæður þess vísað til framkominna sjónarmiða Mosfellsbæjar, en í bréfi skipulagsfulltrúa bæjarfélagsins, dags. 15. desember 2022, kom fram að bærinn liti svo á að öll efnistaka og borun væri óheimil á rannsóknarsvæðinu. Auk þess var vísað til þess að fyrir lægi neikvæð afstaða landeigenda þar sem ekki hafi verið haft nægilegt samráð við þá og var um það vísað til bréfa sem borist höfðu frá þeim. Var kæranda veittur frestur til að koma að andmælum og bárust þau með bréfi, dags. 28. febrúar 2023.

Á fundi heilbrigðisnefndar 6. mars 2023 var umsókn kæranda um starfsleyfi tekin fyrir og áður boðuð höfnun á útgáfu starfsleyfis staðfest. Var framkvæmdastjóra falið í samráði við formann nefndarinnar að benda umsækjanda á að afla samþykkis landeigenda og skipulagsyfirvalda í Mosfellsbæ. Kæranda var tilkynnt um afgreiðsluna með bréfi, dags. 15. mars 2023. Í bréfinu var einnig greint frá því að heilbrigðiseftirlitinu hefði borist erindi frá Ríkiseignum þess efnis að framkvæmdirnar hefðu verið heimilaðar af stofnuninni sem einum af tveimur landeigendum með vísan til samnings frá 10. maí 2005, þótt fyrirvari væri gerður vegna hagsmuna sumarbústaðareiganda vegna staðsetningar tveggja af ráðgerðum borholum. Upplýst var um þetta og leiðbeint um að enn skorti samþykki annars landeiganda og skipulagsyfirvalda í Mosfellsbæ. Var kæranda veittur andmælaréttur um efni bréfsins til 29. mars 2023.

Heilbrigðiseftirlitinu barst svarbréf kæranda með tölvubréfi 17. mars s.á. og var í því m.a. rakið að í samskiptum félagsins við Mosfellsbæ sumarið 2021 hefði gætt misskilnings um umfang framkvæmdarinnar sem hefði verið leiðrétt. Enn gætti slíks misskilnings, að því fram kom í svari þessu, en hvorki væri um verulegt jarðrask né efnisflutninga að ræða og væru jarðboranir kæranda hvorki skipulagsskyldar né framkvæmdaleyfisskyldar. Safnað væri bergkvörnum og væri loft notað til að dæla þeim upp. Við kjarnaborun væri vatni dælt niður til kælingar en þá væri borsvarfinu safnað í tanka og skilað á urðunarstað. Loks væri ekki væri þörf á samþykki landeigenda en þeim væri skylt að veita handhöfum rannsóknarleyfa óhindraðan aðgang að landi sínu.

Í bréfi Heilbrigðiseftirlitsins til kæranda, dags. 17. apríl 2023, var honum loks leiðbeint um að forsenda fyrir útgáfu starfsleyfisins væri að fyrir lægi álit Mosfellsbæjar um hvort framkvæmdin væri framkvæmdaleyfisskyld og í samræmi við samþykktir sveitarfélagsins. Jafnframt að fyrir lægi samþykki eða staðfesting landeiganda um að haft hafi verið samráð við þá um tilhögun framkvæmda og var í því samhengi vísað til fyrirliggjandi samnings við annan af tveimur landeigendum á svæðinu.

Málsrök kæranda: Kærandi álítur að ekki þurfi að afla framkvæmdaleyfis fyrir ráðgerðum rannsóknarborunum enda séu þær hvorki meiriháttar né líklegar til að hafa áhrif á umhverfið eða breyta ásýnd þess. Einnig standist ekki að synja umsókninni á þeim grundvelli að ekki liggi fyrir samþykki landeigenda. Þá hafi ekki verið gætt meðalhófs við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar, en hún sé verulega íþyngjandi. Á rannsóknarsvæðinu séu engar náttúruminjar og engum vistkerfum sé ógnað. Þess verði gætt að engin spilli- eða mengunarefni berist út í umhverfið og grunnvatn. Samráð hafi verið og verði áfram við landeigendur í samræmi við skilyrði rannsóknarleyfisins. Um sé að ræða bergsýnatökur með annars vegar stungubor og beltum og hins vegar sleða. Mest verði tveir borar drifnir samtímis. Boranir muni standa í stuttan tíma og valdi nánast engu raski. Um sé að ræða óveruleg og afturkræf umhverfisáhrif með takmarkaðri slóðagerð.

Málsrök Heilbrigðiseftirlitsins: Af hálfu Heilbrigðiseftirlitsins er tekið fram að hin kærða ákvörðun byggist á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum. Samkvæmt 6. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir skuli allur atvinnurekstur skv. IV. viðauka við lögin hafa gilt starfsleyfi, en jarðboranir séu tilgreindar í þeim viðauka. Í lagagreininni sé kveðið á um að allur atvinnurekstur sem sótt sé um starfsleyfi fyrir skuli vera í samræmi við skipulag samkvæmt skipulagslögum. Horfa verði til ákvæða skipulagslaga við útgáfu starfsleyfis vegna rannsóknaborana. Fram komi í umsögn skipulagsfulltrúa Mosfellsbæjar að í aðalskipulagi bæjarins sé ekki gert ráð fyrir þeirri starfsemi sem kærandi hyggist standa fyrir innan skilgreinds rannsóknasvæðis og engar áætlanir séu uppi um að það breytist. Áformuð starfsemi samræmist því ekki skipulagi.

Í 3. mgr. 1. gr. laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu segi að um rannsóknir og nýtingu samkvæmt lögunum gildi einnig náttúruverndarlög, skipulagslög og önnur lög er varði rannsóknir og nýtingu lands og landsgæða. Afla þurfi allra þeirra leyfa sem vísað sé til í öðrum lagabálkum. Sveitarfélagið hafi hvorki tekið við umsókn frá kæranda um framkvæmdaleyfi né móttekið gögn og upplýsingar sem lýsi með greinargóðum hætti umfangi þeirra framkvæmda sem kærandi hyggist ráðast í. Því hafi ekki verið unnt að leggja mat á það hvort um framkvæmdaleyfisskylda framkvæmd væri að ræða. Það sé forsenda fyrir veitingu starfsleyfis að fyrir liggi ákvörðun sveitarstjórnar um framkvæmdaleyfisskyldu. Samkvæmt úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 72/2017 feli rannsóknarleyfi enda ekki í sér heimild til framkvæmda og sé handhafa slíks leyfis skylt að sækja um slíkt leyfi áður en hann hefji framkvæmdir. Þá sé stefna aðalskipulags bindandi við útgáfu framkvæmdaleyfa, sbr. 5. mgr. gr. 4.7.1. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013.

Það sé á ábyrgð kæranda að leita eftir því að fá lögboðin leyfi útgefin eða í það minnsta að sjá til þess að leyfisveitandi fái vitneskju um fyrirhugaðar framkvæmdir og umfang þeirra í því skyni að meta framkvæmdaleyfisskyldu þeirra áður en framkvæmdir hefjist. Í bréfi lögmanns annars landeiganda til heilbrigðiseftirlitsins hafi auk þess komið fram að ekki hafi verið haft neitt samráð við umbjóðanda hans.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi áréttar að umræddar rannsóknir séu ekki skipulagsskyldar samkvæmt skipulagslögum enda sé ekki um atvinnustarfsemi að ræða heldur vísindarannsóknir. Þá séu þær ekki háðar framkvæmdaleyfi enda minniháttar og staðbundnar. Rannsóknirnar stríði ekki gegn ákvæðum náttúruverndarlaga. Þær séu starfsleyfisskyldar vegna mengunarsjónarmiða og beri heilbrigðiseftirlitinu að taka afstöðu til umsóknarinnar á þeim grundvelli.

———-

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Kæruheimild til nefndarinnar í máli þessu er í 65. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Miða verður upphaf kærufrests við 17. apríl 2023 og barst kæran því innan kærufrests. Í málinu er deilt um synjun umsóknar um starfsleyfi samkvæmt lögum nr. 7/1998 og verður því ekki fjallað um hvort skylt sé að afla framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar vegna umræddra jarðboranna. Með vísan til 7. gr. stjórnsýslulaga er gerð um það bending að aðila máls og hlutaðeigandi sveitarstjórn er heimilt að skjóta til úrskurðarnefndarinnar vafa um skyldu til slíkrar leyfisöflunar, sbr. nánar 8. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Kærandi hefur leyfi Orkustofnunar til leitar og rannsóknar á málmum í Þormóðsdal á leyfissvæði 14, Esja. Með því eru kæranda heimilaðar jarðfræði-, jarðefnafræði- og jarðeðlisfræðilegar rannsóknir ásamt sýnatöku og er framkvæmdin háð ýmsum skilyrðum sem greinir í leyfinu, m.a. um skil á sýnum, skýrslugerð og opinbera birtingu rannsóknarniðurstaðna. Auk þess er í leyfinu mælt fyrir um umgengi, frágang og varnir gegn mengun. Fyrir liggur bréf Orkustofnunar, dags. 9. maí 2023, þar sem fallist er á rannsóknaráætlun kæranda vegna leitar- og rannsókna fyrir árið 2023 og kemur fram að ráðist verði í borun á allt að 40 rannsóknarholum til að bæta gagnaupplausn á rannsóknarsvæðinu en tvær holur verði nýttar til svonefndra málmvinnsluprófana. Boranir standi yfir í um 90 daga, þar sem unnið verði á 12 tíma vöktun og borun hverrar holu taki um 4 klst.

Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 skal allur atvinnurekstur, sbr. viðauka I, II og IV, hafa gilt starfsleyfi. Starfsleyfi skal veitt starfsemi uppfylli hún þær kröfur sem til hennar séu gerðar samkvæmt lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim að teknu tilliti til annarra laga. Heilbrigðiseftirlitið hefur bent á að jarðboranir séu taldar upp í 55. tölul. viðauka IV. við lögin, sem tímabundinn atvinnurekstur og séu því starfsleyfisskyldar. Með þessu er ekki tekið tillit til þess að skylda til öflunar starfsleyfis skv. téðri lagagrein er miðuð atvinnurekstur og kemur þá til álita hvort jarðboranir kæranda teljist til slíks rekstrar.

Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu gefur Orkustofnun út rannsóknarleyfi til rannsóknar og leitar að auðlindum í jörðu, en um veitingu leyfis, efni þess og afturköllun fer nánar eftir VIII. kafla laganna, sbr. og 1. mgr. 5. gr. þeirra. Landeiganda eða umráðamanni lands er skylt að veita rannsóknarleyfishöfum óhindraðan aðgang að eignarlandi því sem í hlut á, sbr. 1. mgr. 26. gr. nefndra laga, og skv. 2. mgr. ákvæðisins ber landeiganda eða umráðamanni skv. 1. mgr. að hlíta hvers konar afnotum af landi, takmörkun á umráðarétti og óþægindum sem nauðsynleg eru vegna rannsóknar í samræmi við viðkomandi leyfi.

Hið kærða leyfi felur samkvæmt 5. gr. laga nr. 57/1998 í sér heimild til handa leyfishafa til að framkvæma mælingar og rannsóknir á viðkomandi svæði á leyfistímanum og ber að haga þeim í samræmi við ákvæði leyfisins. Er tekið fram í 1. gr. leyfisins að það feli í sér heimild til þess að leita að málmum, rannsaka efniseiginleika þeirra og umfang og afkastagetu líklegra námasvæða. Skal starfsemi leyfishafa byggja á heildstæðri rannsóknaráætlun, sem skal uppfæra árlega og afhenda Orkustofnun, sem hafi með höndum eftirlit með framkvæmd leyfisins. Þær rannsóknarathafnir sem leyfið heimilar eru taldar í 4. gr. og tekið fram að heimila megi víðtækari athafnir sérstaklega. Mælt er fyrir um forgang leyfishafa að nýtingarleyfi samkvæmt lögum nr. 57/1998, í tiltekinn tíma eftir að rannsókn lýkur. Þá eru ítarleg fyrirmæli um skýrslugjöf og skal árlega senda Orkustofnun skýrslu um allar jarðfræði-, jarðefnafræði- og jarðeðlisfræðilegar rannsóknir og aðrar rannsóknir sem framkvæmdar hafi verið á undangengnu ári.

Með hliðsjón af því að skylda til öflunar starfsleyfis skv. 6. gr. laga nr. 7/1998 er bundin við starfsemi sem telst til atvinnureksturs og að teknu tilliti til þess að rannsóknarleyfi Orkustofnunar, sem er til grundvallar starfsemi kæranda, heimilar ekki atvinnurekstur heldur takmarkaða og tímabundna rannsóknarstarfsemi, sem afmörkuð er sem slík í lögum, verður að álíta að áformaðar jarðboranir falli utan gildissviðs 6. gr. laga nr. 7/1998 og því beri að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun heilbrigðisnefndar Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness frá 6. mars 2023 um að hafna umsókn um endurnýjun starfsleyfis fyrir jarðborun í rannsóknarskyni í Þormóðsdal.