Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

100/2011 Grundarstígur

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 1. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 100/2011, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 22. september 2011 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Grundarstígsreit.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 12. desember 2011, er barst nefndinni 20. s.m., kæra eigendur Grundarstígs 9, og eigandi 1. hæðar á Grundarstíg 12, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 22. september 2011 að samþykkja deiliskipulag fyrir Grundarstígsreit. Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins birtist í B-deild Stjórnartíðinda 9. desember 2011. Gera kærendur þá kröfu að sérskilmálar fyrir lóðina Grundarstíg 10, er heimila byggingu samkomusalar sem taki allt að 50 manns í sæti, kaffihús sem taki allt að 45 manns í sæti, rekstur veitingasalar og samkomu- og tónleikahald í húsinu, verði felldir úr gildi.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Málavextir: Forsaga málsins er sú að með úrskurði í máli nr. 58/2009, uppkveðnum 8. febrúar 2010, felldi úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála úr gildi byggingarleyfi, þar sem m.a. var heimilað að byggja við kjallara og hækka þak hússins að Grundarstíg 10 og heimila þar blandaða atvinnustarfsemi í stað íbúðar. Taldi úrskurðarnefndin að um svo verulega breytingu hefði verið að tefla að ekki hefðu verið skilyrði til þess að fara með umsókn um byggingarleyfi eftir undantekningarákvæði 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, auk þess sem hinni kærðu ákvörðun og rökstuðningi fyrir henni hefði verið áfátt. Í kjölfarið var forsögn að deiliskipulagi Grundarstígsreits kynnt fyrir hagsmunaaðilum á svæðinu, Íbúasamtökum miðborgar Reykjavíkur og hverfisráði miðborgar. Athugasemdir bárust á kynningartíma.

Tillaga að deiliskipulagi umrædds skipulagsreits var lögð fram á fundi skipulagsráðs 9. mars 2011 ásamt m.a. húsakönnun, og var á fundinum bókað að í tillögunni fælist stefnumörkun um þróun byggðar á reitnum. Var samþykkt að kynna tillöguna fyrir hagsmunaðilum á svæðinu og bárust athugasemdir við hana. Tók skipulagsstjóri afstöðu til fram kominna athugasemda og hinn 22. júní 2011 samþykkti skipulagsráð að auglýsa fyrrgreinda tillögu í samræmi við 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samþykkti borgarráð þá afgreiðslu 30. s.m. Tillagan var auglýst frá 6. júlí til 17. ágúst 2011 og á fundi skipulagsfulltrúa 19. s.m. var tekin ákvörðun um að framlengja athugasemdafrestinn til 30. s.m. Athugasemdabréf bárust á kynningartíma tillögunnar frá Íbúasamtökum miðborgar og 25 íbúum, þ. á m. þremur kærenda. Tillagan var tekin fyrir að nýju á fundi skipulagsráðs 14. september 2011 og samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsstjóra um fram komnar athugasemdir, dags. 12. s.m. Var málinu vísað til borgarráðs, er staðfesti greinda samþykkt á fundi hinn 22. september 2011.

Deiliskipulagið var síðan sent Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu með bréfi, dags. 28. september 2011. Með bréfi, dags. 14. október s.á., gerði stofnunin athugasemd við birtingu auglýsingar um samþykkt deiliskipulagsins, m.a. „… þar sem ósamræmi er á milli áforma deiliskipulagsins og gildandi aðalskipulagi 2001-2024 gr. 3.1.2 og þróunaráætlun miðborgar um íbúðarsvæði á miðborgarsvæði“. Í kjölfarið var gerð breyting á skipulagstillögunni og svofelld áritun gerð á uppdrátt hennar: „Breytt 21.11.2011 til samræmis við bréf skipulagsstofnunar dags. 14.10.2011. Texti varðandi landnotkun og aðalskipulag í kafla 4 í almennum skilmálum er yfirfarinn og lagfærður og tilvísun í skilmála úr þróunaráætlun miðborgar greinargerð I er tekin út af uppdrættinum, þar sem þeir skilmálar eru ekki bindandi hluti aðalskipulags.“ Leiðréttur uppdráttur var sendur Skipulagsstofnun ásamt bréfi, dags. 24. nóvember 2011, þar sem athugasemdum stofnunarinnar er svarað og rökstutt að ekki væri nokkurt ósamræmi að finna við gildandi aðalskipulag en rétt þætti að leiðrétta uppdráttinn aðallega til að auka skýrleika skipulagsgagna. Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins var birt í B-deild Stjórnartíðinda 9. desember 2011.

Í bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 15. desember 2011, kom fram að erindi Reykjavíkurborgar, dags. 24. nóvember s.á., yrði ekki tekið til afgreiðslu fyrr en m.a. breytingar þær sem gerðar voru á deiliskipulaginu eftir kynningu yrðu teknar til umfjöllunar og samþykktar í borgarráði, sbr. 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga. Hinn 11. janúar 2012 var á fundi skipulagsráðs samþykktur skipulagsuppdráttur, lagt fram fyrrgreint bréf skipulagsstjóra, dags. 24. nóvember 2011, og lögð fram ný umsögn umhverfis- og samgöngusviðs varðandi umferð, dags. 10. janúar 2012, og svarbréf skipulagsstjóra til Skipulagsstofnunar, dags. 11. s.m. Á fundi borgarráðs 12. janúar 2012 var eftirfarandi bókað: „Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 11. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., um tillögu að deiliskipulagi Grundarstígsreits … Samþykkt.“ Í bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 26. janúar 2012, segir að komið hafi í ljós að umrætt deiliskipulag hafi tekið gildi og því muni stofnunin birta hinn upphaflega deiliskipulagsuppdrátt sem samþykktur hafi verið í borgarráði 22. september 2011. Stofnunin geri athugasemdir við málsmeðferð á deiliskipulaginu auk þess sem vanti upplýsingar um það hvort niðurstaða sveitarstjórnar hafi verðið auglýst.

Hið kærða deiliskipulag er af Grundarstígsreit en hann afmarkast af Grundarstíg, Spítalastíg, Þingholtsstræti og Skálholtsstíg. Þær byggingar sem eru innan svæðisins eru Grundarstígur 2-10 (sléttar tölur) og Þingholtsstræti 25 og 27. Í sérskilmálum fyrir lóðina að Grundarstíg 10 segir: „Í húsinu er heimilt að reka menningartengda starfsemi. Í því er heimilt að innrétta samkomusal sem tekur allt að 50 manns í sæti og kaffihús sem tekur allt að 45 manns í sæti. Auk þess er heimilt að innrétta nauðsynlega aðstöðu fyrir starfsemina og vinnuaðstöðu fyrir fræðimenn. Gerður er nýr byggingarreitur á norðvesturhluta lóðarinnar. Innan hans er heimilt að reisa nýbyggingu, heimil mænishæð er allt að 5 m. Tenging nýbyggingar við eldra hús skal vera á forsendum hins síðarnefnda. Ný uppbygging er háð niðurrifi bílskúrs á lóðinni. Halda skal í steyptan garðvegg umhverfis lóðina og heimilt er að setja hlið í hann út að Skálholtsstíg. Ef valið er að nýta húsið sem íbúðarhús er heimilt að innrétta tvær íbúðir í því. Um mannfagnaði og veitingarekstur í húsinu fer eftir „Málsmeðferðarreglum Borgarráðs um veitingastaði og gististaði“ og Aðalskipulagi Reykjavíkur hverju sinni. Reksturinn skal vera tengdur starfsemi hússins.“

Með úrskurði í máli nr. 84/2012, uppkveðnum 24. janúar 2013, vísaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála frá kæru á byggingarleyfi vegna Grundarstígs 10 þar sem hún barst utan kærufrests.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að skilmálar deiliskipulagsins sem heimili að húsinu að Grundarstíg 10 verði breytt úr íbúð í aðstöðu til skemmtanahalds séu í andstöðu við Aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2024, þar sem Grundarstígur sé á íbúðarsvæði.

Þá stangist hin kærða ákvörðun á við ákvæði gr. 4.2.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 sem segi m.a. að á íbúðarsvæðum skuli fyrst og fremst gera ráð fyrir íbúðarhúsnæði. Svonefnd menningartengd starfsemi í nefndu húsi muni að langmestu leyti nýtast öðrum en íbúum hverfisins og geti því ekki talist starfsemi sem eðlilegt sé að þar sé til þjónustu við íbúa viðkomandi hverfis samkvæmt greindu ákvæði skipulagsreglugerðar. Þá sé ekki hægt að skilgreina fyrirhugað margmiðlunarsafn sem þjónustu við íbúana og geti það varla talist þjónusta að gera ýmsum menningarverðmætum úr nánasta umhverfi skil. Í næsta nágrenni Grundarstígs sé fjöldi veitinga- og kaffihúsa auk tónleika- og fundarsala, þar sem hægt sé að stunda starfsemi á borð við þá sem fyrirhuguð sé, og sé umrædd starfsemi á þessum stað því ekki nauðsynleg. Ætla megi að samkomusalur sem nefndur sé í skilmálunum verði oft notaður til tónleikahalds og auk þess sé gert ráð fyrir útleigu á sal til einkaaðila. Starfsemi sem beinlínis sé ætlað að framleiða hljóð muni valda ónæði vegna hávaða sem stangist á við fyrrnefnt ákvæði skipulagsreglugerðar. Þá sé ótalinn hávaði sem ávallt myndist við það að fólk safnist saman utandyra til að reykja og vegna umferðar í kringum húsið, m.a. þegar leigubílar bíði eftir fólki o.þ.h. Ef staðurinn fái leyfi sem veitingastaður án vínveitingaleyfis sé verið að leyfa starfsemi sem megi hafa opna allan sólarhringinn hvort sem eigendur hússins ætli að nýta sér það eða ekki, sbr. 3. gr. málsmeðferðarreglna borgarráðs um veitingastaði og gististaði. Loks snúist starfsemin um að draga að sér umferð sem fari gegn umræddu ákvæði skipulagsreglugerðar. Ef enginn mæti á kaffihúsið eða fundi, veislur, tónleika og aðrar uppákomur, sé engin starfsemi. Ólíklegt sé að gestir staðarins fari að leggja bílum sínum í 200-300 m fjarlægð frá honum heldur muni þeir leggja bílum í öll stæði við Grundarstíg, nálægar götur og upp á gangstéttir. Íbúar í kringum Grundarstíg 10 búi á svæði þar sem talsverður bílastæðaskortur sé nú þegar og muni þeir sjá fram á aukinn bílastæðaskort, einkum á kvöldin. Þá sé ótalið að engin áætlun sé sýnileg um sérstök bifreiðastæði fyrir fatlaða.

Ef menningarstarfsemi sú sem fyrirhuguð sé í húsinu leggist af sé eins víst að húsið verði nýtt til skemmtanahalds. Í svari skipulags- og byggingarsviðs við athugasemdum Íbúasamtaka miðborgar segi að áfengisveitingar séu óheimilar á íbúðarsvæðum en þess sé ekki getið að samkvæmt 5. gr. fyrrgreindra málsmeðferðarreglna geti borgarráð veitt undantekningu frá þessu í jaðri miðborgar. Í deiliskipulaginu sé svæðið kallað jaðarsvæði og falli því undir framangreint undanþáguákvæði.

Í þróunaráætlun miðborgar sé kveðið á um að núverandi íbúðarhúsnæði og íbúðarlóðum beri að halda sem slíkum nema í þeim tilvikum þar sem aðstæður mæli gegn því, svo sem: a) verulegur kostnaður, b) sýnt sé fram á að breyting á notkun sé nauðsynleg til að tryggja byggingarlistar- og sögulegt gildi, c) breytingar á notkun styðji við íbúðareinkenni svæðisins, t.d. kaupmaðurinn á horninu, eða d) fella eigi húsnæði eða lóð að umfangsmikilli endurbyggingu í samræmi við gildandi skipulag. Umrætt sérákvæði deiliskipulagsins um Grundarstíg 10 gangi gegn nefndu ákvæði þar sem verið sé að breyta notkun íbúðarhúsnæðis án þess að nokkrar aðstæður mæli gegn því að hafa húsið áfram sem íbúðarhús.

Þá standist hin kærða ákvörðun ekki aðalskipulag þar sem ekki hafi farið fram úttekt á framboði á nærþjónustunni í viðkomandi hverfi og áhrif starfseminnar á umhverfið, s.s. vegna aukinnar umferðar, hávaða eða annars ónæðis af starfseminni, eins og áskilið sé í aðalskipulaginu. Í deiliskipulagi Grundarstígsreits standi í lið 4, um megin markmið og áherslur, að deiliskipulag Grundarstígsreits skuli vera í samræmi við stefnumörkun borgaryfirvalda eins og hún birtist í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024, en hafa skuli til hliðsjónar að í vinnslu sé nýtt aðalskipulag þar sem áhersla sé m.a. lögð á sjálfbærari hverfi, ekki síst í jaðri miðborgar. Samkvæmt þessu ætli skipulagsyfirvöld að hafa hliðsjón af reglum sem séu í vinnslu og ekki sé búið að samþykkja.

Íbúar hverfisins eigi að njóta vafans um lögmæti skilmálanna en ekki rekstraraðilar, enda sé Grundarstígur í rótgrónu og rólegu íbúðarhverfi sem íbúar hafi valið vegna nálægðar við miðbæinn í góðri trú um að farið verði eftir skipulagsreglugerð, aðalskipulagi og þróunaráætlun miðborgar.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld vísa til þess að hið kærða deiliskipulag muni ekki skapa hættu á óþægindum fyrir íbúa hverfisins og muni starfsemin að Grundarstíg 10 þjóna þeim íbúum sem og öðrum íbúum borgarinnar. Ákvörðunin standist skipulagsreglugerð sem kveði sérstaklega á um að leyfa megi aðra starfsemi en þá sem eðlileg sé til þjónustu fyrir íbúa, enda muni hún ekki valda óþægindum vegna lyktar, hávaða eða óþrifnaðar eða draga að sér óeðlilega mikla umferð. Starfsemin muni jafnvel verða hverfinu til framdráttar og gefa því aukið gildi, en vilji eigenda Grundarstígs 10 standi til þess að hagsmunir þeirra og hverfisins fari saman.

Í fyrrgreindu húsi verði ekki heimilaður rekstur skemmtistaðar með ótakmörkuðum opnunartíma heldur verði í því menningartengd starfsemi, kaffihús án áfengis, tónleikahald í sal sem rúmi um 70 (sic) manns og útleiga á sal fyrir veislur og fundahöld. Um mannfagnaði og veitingarekstur í húsinu fari eftir málsmeðferðarreglum borgarráðs um veitingastaði og gististaði og aðalskipulagi Reykjavíkur. Árið 2009 hafi verið þinglýst kvöð á fasteignina Grundarstíg 10 um að „Mannfagnaðir í nýbyggingu skuli ekki standa lengur en til kl. 23:00 á kvöldin, þetta gildi um alla daga vikunnar.“ Við yfirferð byggingarleyfisumsóknar sé farið yfir tæknileg atriði, s.s. hljóðvistarkröfur, og því sé ekki talin nein hætta á að íbúar verði fyrir óþægindum vegna óeðlilegs hávaða. Óheimilt sé að veita rekstrarleyfi til áfengisveitingastaða á skilgreindu íbúðarsvæði samkvæmt nefndum málsmeðferðarreglum og eingöngu heimilt að veita undanþágu frá því ef um sé að ræða staðsetningu í jaðri miðborgar/miðsvæðis og rekstur í flokki II. Húsið að Grundarstíg 10 sé ekki staðsett í jaðri miðborgar/miðsvæðis og verði því að óbreyttum reglum ekki um neinar áfengisveitingar að ræða í því. Í skilmálum deiliskipulagsins sé einnig tekið fram að reksturinn skuli vera tengdur starfsemi í húsinu.

Engin bílastæði séu á lóðinni og umferð muni ekki aukast merkjanlega í samhengi við stærð hússins. Gera megi ráð fyrir að umferð aukist um u.þ.b. 30 ferðir á sólahring, þ.e. úr 5-10 ferðum í 35-40, við það að breyta húsinu úr íbúðarhúsnæði í hús undir menningarstarfsemi. Til samanburðar sé umferð á Skálholtsstíg um 1.500 bílar á sólarhring og hafi fyrirhuguð starfsemi á Grundarstíg 10 því óveruleg áhrif á umhverfið. Óþægindi nágranna gætu þó falist í auknu álagi á bílastæði í grenndinni. Umtalsverður fjöldi bílastæða sé í um 200-300 m fjarlægð frá húsinu og muni fyrirsvarsmenn stofnunarinnar vinna gagngert að því að fá viðskiptavini hússins til að nýta sér þau. Mögulegt umferðarálag og/eða bílastæðavandamál geti eitt og sér ekki valdið ógildi deiliskipulagsins. Fjölmörg dæmi séu um atvinnustarfsemi á íbúðarsvæðum og í miðborginni, bæði veitingahús og verslanir, þar sem íbúar geti orðið fyrir tímabundnum óþægindum vegna umferðar. Almenningsstæði í miðborginni séu ætluð almenningi öllum en ekki eingöngu til að þjóna íbúum viðkomandi hverfa. Bílaeign á landinu hafi aukist mjög á undanförnum árum, en hverfið hafi ekki verið skipulagt fyrir slíkan fjölda bíla. Borgaryfirvöld vilji hvetja borgarbúa til að nýta sér betur almenningssamgöngur, ganga meira og hjóla. Þá megi eigendur fasteigna í þéttbýli ávallt eiga von á því að breytingar verði gerðar á skipulagi sem haft geti í för með sér t.d. skerðingu á útsýni, aukið skuggavarp, umferðaraukningu eða aðrar breytingar. Verði menn almennt að sæta því að með almennum takmörkunum geti hagsmunir þeirra í einhverju verið skertir með slíkum breytingum.

Hið kærða deiliskipulag sé ekki í andstöðu við þróunaráætlun miðborgar og fyrirhuguð starfsemi að Grundarstíg 10 feli hvorki í sér léttiðnað né skrifstofustörf. Í þróunaráætlun miðborgar, íbúðarsvæði, komi m.a. fram að halda beri núverandi húsnæði sem slíku nema í tilvikum þar sem aðstæður mæli gegn því. Tekin séu nokkur dæmi um slíkar aðstæður, þar á meðal að breytingar á notkun séu nauðsynlegar til að tryggja byggingarlistar- og sögulegt gildi. Sú stefnumörkun sem vísað sé til hafi verið lögð fram til samþykktar í skipulags- og umferðarnefnd og borgarráði til nánari útfærslu í aðal- og deiliskipulagi á miðborgarsvæði. Stefnumörkunin sé ekki bindandi hluti af aðalskipulagi Reykjavíkur og komi ekki í stað samþykktra landnotkunarákvæða í aðalskipulagi. Stefnumörkun í þróunaráætlun miðborgar, m.a. um íbúðarsvæði, sé góðra gjalda verð og nytsamleg við vinnslu deiliskipulags í miðborg, en geti einungis verið gott skýringargagn við vinnslu bindandi áætlana. Hún geti þó aldrei haft svo víðtæk áhrif að koma í veg fyrir að heimila landnotkun á einstaka lóðum á miðborgarsvæði.

Deiliskipulagið sé í samræmi við ákvæði aðalskipulags Reykjavíkur enda komi fram í grein 3.1.2 í gildandi aðalskipulagi að á íbúðarsvæðum sé gert ráð fyrir íbúðarbyggð ásamt tilheyrandi nærþjónustu. Nærþjónusta innan íbúðarsvæða er t.d. verslun, þjónusta, stofnanir, leikvellir og opin svæði sem einkum þjóni íbúum viðkomandi hverfis. Ekki hafi þurft að vinna úttekt vegna þeirrar starfsemi sem gert sé ráð fyrir á Grundarstígsreit. Í deiliskipulaginu sé gert ráð fyrir að heimilt verði að reka verslanir á þeim lóðum þar sem hefð sé fyrir slíkum rekstri. Nýjar umsóknir um slíkan rekstur séu alltaf háðar ákvæðum mannvirkjalaga nr. 160/2010 og öðrum lögum og reglugerðum sem um slíkar umsóknir gildi. Þá sé það mat skipulagsyfirvalda að fyrirhuguð menningarstarfsemi falli vel að umhverfinu og sé líkleg til að bæta það. Þá sé málsmeðferðin öll og þeir sérskilmálar sem settir hafi verið án vafa í samræmi við lög og reglur.

Athugasemdir eigenda Grundarstígs 10: Af hálfu eigenda Grundarstígs 10 er bent á að starfsemin í Hannesarholti uppfylli skilyrði gr. 4.2.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 um að sinna þjónustu við íbúa hverfisins á margvíslegan máta. Dæmi um slíka þjónustu sé að safnað verði upplýsingum um sögu hverfisins, bæði menningarsögu og byggingarsögu. Fjallað verði um nafntogaða fyrrum íbúa hverfisins en einnig sé fyrirhugað að skrifa, í samstarfi við íbúa hverfisins, sögu venjulegs fólks sem búið hafi í hverfinu. Sama eigi við um kaffihús þar sem áhersla verði lögð á heimilislegar veitingar gegn sanngjörnu verði. Þá verði boðið upp á hverfiskvöld eða nágrannasamkomur sem yrðu lokaðar öðrum en íbúum hverfisins. Þjónusta á hverjum tíma taki mið af þörfum neytenda og það sé því eðli hennar að taka breytingum í takt við ný viðhorf, þarfir og áhugamál neytendanna. Þjónusta við íbúa felist ekki eingöngu í að selja þeim vörur eða gera við bilaða hluti og nái til andlegra ekki síður en til líkamlegra þarfa einstaklingsins. Starfræksla stofnunar í íbúðarhverfi, sem hafi m.a. það markmið að sinna sérstaklega menningartengdum þáttum hverfisins og að verða vettvangur fyrir jákvæð og uppbyggjandi samskipti við nágranna, sinni einnig mikilsverðri hverfisþjónustu. Færa megi gild rök fyrir því að þjónusta sem veitt verði í Hannesarholti falli í dag betur að skilgreiningu á hugtakinu þjónusta samkvæmt fyrrgreindu ákvæði í skipulagsreglugerð heldur en t.d. fiskbúð eða skósmiður. Vitaskuld muni aðrir Reykvíkingar notfæra sér þjónustu Hannesarholts en slíkt hið sama gildi um aðra þjónustu, eins og jólabúð, sem hafi verið starfrækt á Grundarstíg fyrir nokkrum árum.

Í greinargerð frá verkfræðistofu komi fram að hljóðmyndun í viðbyggingu sem samsvari 80 dB(A) verði við útvegg um 39 dB(A), en gera verði ráð fyrir að tónlist og talað mál verði að jafnaði lægra en 80 dB(A) í viðbyggingunni. Hljóð sem hugsanlega bærist út fyrir veggi verði því augljóslega undir þeim viðmiðum sem sett séu um íbúðarsvæði í reglugerð nr. 724/1998 um hávaða. Stærð salarins sé um 70 m², sem sé svipuð stærð og meðalstór skólastofa eða stofa ásamt borðstofu í heimahúsi, enda séu áform um að nýta salinn einkum til sýninga á vegum stofnunarinnar, stofutónleika, fyrirlestra og fræðakvölda. Önnur notkun, s.s. fyrir samkomur, verði undirskipuð og hávær raftónlist verði vitaskuld ekki leyfð. Vissulega fylgi hljóð tónlist en þau séu ekki bönnuð í íbúðarhverfum. Gerðar hafi verið ýmsar ráðastafarnir til að fyrirbyggja að hljóðmyndun verði að óþægilegum hávaða fyrir nágrennið. Vandað verði mjög til viðbyggingar með góðri hljóðeinangrun og góðri loftræsingu, þannig að ekki gerist þörf á að hreinsa loftið með því að opna glugga eða hurðir. Þá hafi forsvarsmenn Hannesarholts að eigin frumkvæði þinglýst þeirri kvöð á starfsemi í viðbyggingunni að henni skuli ljúka eigi síðar en kl. 23 alla daga vikunnar. Það sé álíka langsótt að banna fyrrgreinda viðbyggingu vegna hugsanlegs hávaða eins og það væri að banna byggingu bílskúrs vegna þess möguleika að hávær unglingahljómsveit hreiðraði um sig í skúrnum og truflaði nágrennið með leik sínum.

Stofnun Hannesarholts sé menningar- og fræðasetur þar sem ætlunin sé að meginþungi starfseminnar snúist um samræður og skoðanaskipti, halda menningar- og sögutengdar sýningar og halda lágstillta tónleika í viðbyggingu sem muni ljúka ekki síðar en kl. 23. Sú mynd sem kærendur setji fram sé í talsverðri mótsögn við framangreinda lýsingu. Þar sem fyrrgreindur salur sé lítill muni umferð ekki vera í líkingu við umferð við stærri samkomuhús, sem taki við hundruðum manna. Verði hvatt til þess, og jafnvel sett sem skilyrði fyrir samkomum, að gestir leggi bílum sínum í bílastæðahús eða á öðrum opinberum bílastæðum í nágrenninu. Fjölmörg bílastæði í hverfinu séu nýtt á daginn af ýmsum fyrirtækjum og stofnunum en standi síðan auð á kvöldin en meginþungi bílaumferðar vegna Hannesarholts verði einmitt á kvöldin.

Ótækt sé að byggja kæru á því sem geti skeð í framtíðinni ef fyrirhuguð starfsemi myndi leggjast af og á þeirri forsendu að borgaryfirvöld eða lögregluyfirvöld framfylgi ekki lögum og reglum. Húsið að Grundarstíg 10 sé eitt af merkari húsum í Reykjavík út frá byggingarlistarlegu og sögulegu tilliti eins og áskilið sé í þróunaráætlun miðborgar þegar breyta eigi notkun íbúðarhúsnæðis. Aðalmarkmið með stofnun Hannesarholts sé að opna hið merka hús fyrir nágrönnum þess og almenningi til að kynna það og sögu þess fyrir sem flestum. Saga þess sé samofin sögu Hannesar Hafstein og þeirri umbótahugsun og bjartsýnisanda sem hafi fylgt tilkomu fyrsta ráðherra Íslands.

Niðurstaða: Hið kærða deiliskipulag var staðfest í borgarráði hinn 22. september 2011. Breytingar þær sem gerðar voru á greinargerð þess eftir þann tíma voru hvorki til umfjöllunar né voru þær staðfestar í borgarráði áður en skipulagið tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 9. desember 2011. Samkvæmt 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 ber sveitarstjórn ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags og í 3. mgr. 41. gr. laganna er kveðið á um að sveitarstjórn skuli taka deiliskipulagstillögu til umræðu að lokinni kynningu og að undangenginni umfjöllun skipulagsnefndar um hana ef athugasemdir hafa borist á kynningartíma. Í umfjöllun sveitarstjórnar skal m.a. taka afstöðu til þess hvort gera skuli breytingar á tillögunni. Með hliðsjón af nefndum ákvæðum skipulagslaga verða þær breytingar sem gerðar voru á skipulagstillögunni eftir afgreiðslu borgarráðs ekki taldar hluti gildandi deiliskipulags svæðisins.

Með bréfi, dags. 14. október 2011, gerði Skipulagsstofnun athugasemd við birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda um samþykkt umdeilds deiliskipulags fyrir Grundarstígsreit. Með bréfinu er tekið fram: „… ósamræmi er á milli áforma deiliskipulagsins gildandi aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024, gr. 3.1.2 og þróunaráætlun miðborgar um íbúðarsvæði á miðborgarsvæði. Auk þess sem ekki er skýrt hvernig komið verði í veg fyrir ónæði og aukna umferð vegna fyrirhugaðra breytinga að Grundarstíg 10. Ennfremur er ósamræmi á milli settra skilmála og þeirra hugmynda eigenda fyrir starfsemina notaðar eru sem grundvöllur fyrir umsögn Reykjavíkurborgar við athugasemdum. Jafnframt vantar að heimild til verslunarreksturs, á jarðhæðum þeirra húsa sem hafa áður hýst verslanir, sé skilyrt með úttekt, sbr. ákvæðum gr. 3.1.2. í gildandi aðalskipulagi.“

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga skal sveitarstjórn taka athugasemdir Skipulagsstofnunar til umræðu og gera nauðsynlegar breytingar hvað varðar athugasemdir um form deiliskipulags. Fallist sveitarstjórn ekki á athugasemdir Skipulagsstofnunar um efni deiliskipulags skal hún gera rökstudda grein fyrir ástæðum þess. Í greinargerð með frumvarpi til skipulagslaga segir í athugasemdum með 42. gr. að lagt sé til það nýmæli að sveitarstjórn sé skylt að bregðast við athugasemdum Skipulagsstofnunar vegna deiliskipulagsins og gera nauðsynlegar breytingar á því varðandi form þess ef þörf sé á. Slíkar athugasemdir varði t.d. hvort deiliskipulag sé í samræmi við aðalskipulag og að athugasemdum á auglýsingatíma hafi ekki verið svarað.

Fyrrgreindar athugasemdir Skipulagsstofnunar voru ekki afgreiddar af borgarstjórn í samræmi við fyrrgreint ákvæði 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga áður en auglýsing um deiliskipulagið var birt í B-deild Stjórnartíðinda. Samkvæmt framangreindu er málsmeðferð hins kærða deiliskipulags haldin slíkum annmörkum að fella ber það úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 22. september 2011 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Grundarstígsreit.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________       _____________________________
Ásgeir Magnússon                                     Þorsteinn Þorsteinsson

21/2008 Stóragerði

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 8. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 21/2008, kæra á samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 7. febrúar 2008 er lítur að breyttum mörkum deiliskipulags Espigerðis frá árinu 1971.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 19. mars 2008, er barst nefndinni 25. s.m., kærir Þorvaldur Emil Jóhannesson hdl., f.h. K, Stóragerði 33, Reykjavík, samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 7. febrúar 2008 er lítur að breyttum mörkum deiliskipulags Espigerðis frá árinu 1971. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Málavextir: Að lokinni grenndarkynningu samþykkti skipulagsráð Reykjavíkur hinn 13. júní 2007 tillögu um „… breytingu á deiliskipulagi og stækkun á afmörkun deiliskipulagssvæðis vegna lóðarinnar nr. 40-46 við Stóragerði“ með vísan til 12. gr. samþykktar um skipulagsráð og umsagnar skipulagsstjóra. Í bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 31. ágúst 2007, kemur fram að deiliskipulagsbreytingin sé sett fram á uppdrætti, dags. 20. febrúar 2007, í mkv. 1:500 með greinargerð og skýringarmyndum sem sýni útlit, skuggavarp og snið. Gerði stofnunin ekki efnislegar athugasemdir við framlögð gögn en taldi að fara ætti með deiliskipulagsbreytinguna skv. 1. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Skipulagsráð samþykkti á fundi 3. október 2007, með vísan til bréfs Skipulagsstofnunar, að auglýsa tillöguna og jafnframt að upplýsa þá aðila sem áður gerðu athugasemdir við tillöguna um nýja málsmeðferð. Staðfesti borgarráð þá afgreiðslu á fundi hinn 18. s.m. Tillagan var auglýst til kynningar 24. október til 7. desember 2007.

Á auglýsingartíma komu fram athugasemdir, m.a. frá kæranda, sem svarað var með bréfi skipulagsstjóra, dags. 15. janúar 2008. Í framangreindu bréfi skipulagsstjóra var lagt til að lagfærðir yrðu uppdrættir þannig að byggingarreitur yrði skilgreindur nákvæmar og tæki mið af kynntum skýringarmyndum, sett yrði inn sneiðing, sem sýndi hæðarsetningu nýbyggingar og inndregna efstu hæð, þakform yrði flatt í stað rishæðar eða inndreginnar hæðar, sett yrði kvöð um gróður innan lóðar, til að tryggja að umgjörð hennar félli betur að ásýnd gróinna íbúðarhverfa, og bætt yrði inn tölum sem sýndu fjölda hæða, byggingarmagn, fjölda íbúða og bílastæða.

Tillagan var lögð fram að nýju á fundi skipulagsráðs 16. janúar 2008 ásamt m.a. hljóðstigsmælingum, umsögn umhverfissviðs um að beita fráviki II varðandi hljóðvist á reitnum, athugasemdum, greinargerð arkitekts, dags. 30. nóvember 2007, undirskriftalista 97 einstaklinga og framangreindri umsögn skipulagsstjóra, dags. 15. janúar 2008. Hin auglýsta tillaga var samþykkt, með vísan til umsagnar skipulagsstjóra, og ákveðið að vísa málinu til borgarráðs þegar uppdrættir hefðu verið lagfærðir. Á fundi borgarráðs 7. febrúar 2008 var eftirfarandi bókað: „Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 16. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., varðandi breytingu á deiliskipulagi lóðar nr. 40-46 við Stóragerði. R0710088 Samþykkt.“ Í kjölfar þess var málið sent Skipulagsstofnun til lögbundinnar yfirferðar, sem gerði ekki athugasemd við birtingu þess. Öðlaðist breytingin gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda 26. febrúar 2008.

Í hinni kærðu breytingu felst að gildandi deiliskipulagssvæði frá árinu 1971 er stækkað þannig að lóðirnar nr. 42-44 og 46 við Stóragerði falla innan marka deiliskipulagsins. Afmarkast hið breytta deiliskipulagssvæði af Álmgerði, Stóragerði, lóðinni Stóragerði 40, Háaleitisbraut, Bústaðavegi og Espigerði. Með breytingunni er veitt heimild til að reisa fjögurra hæða fjölbýlishús, auk kjallara, með allt að 14 íbúðum á lóðinni Stóragerði 42-44. Skal efsta hæðin vera inndregin og gert er ráð fyrir a.m.k. einu bílastæði neðanjarðar og einu ofanjarðar fyrir hverja íbúð. Nýtingarhlutfall lóðarinnar er 1,0 ofanjarðar. Á lóðinni Stóragerði 46 er heimilt að reisa einnar hæðar þjónustubyggingu (spenni-/dælustöð) með hámarksvegghæð 3 m og hámarksnýtingarhlutfall 0,3. Samkvæmt greinargerð hinnar kærðu skipulagsbreytingar er ekki verið að breyta skilmálum deiliskipulagsins frá árinu 1971 en settir skilmálar fyrir þær lóðir sem felldar eru inn í skipulagið.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er á því byggt að rannsóknarregla 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi verið brotin við meðferð hinnar kærðu skipulagsákvörðunar. Mikil umferð sé nú þegar um Álmgerði og Stóragerði og hafi verið óskað eftir umferðartalningu áður en hugað yrði að frekari framkvæmdum sem gætu aukið á þennan vanda. Bent hafi verið á að breytingar á umferðarmannvirkjum í nágrenni hverfisins hefðu haft íþyngjandi áhrif á umferð í Álmgerði. Hafi skipulagsyfirvöld talið að þó svo að hlutfall gegnumumferðar væri all nokkuð um Álmgerði væri ekki ástæða til að ætla að hana mætti tengja breytingum á Háaleitisbraut. Íbúar svæðisins sem þekki best til aðstæðna séu á öðru máli. Þeir skynji breytingarnar en ekki sé unnt að byggja þá skoðun á umferðartalningu þar sem óskir þar að lútandi hafi ekki verið virtar.

Samkvæmt upplýsingum frá Umferðarstofu hafi verið skráðar 79.260 bifreiðar í Reykjavík í lok árs 2003. Í lok árs 2007 hafi þeim fjölgað í 139.986 og nemi aukningin 77%. Í ljósi þess geti umferðartalning frá 2003 ekki verið góður grundvöllur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Niðurstöður útreikninga sem byggi á röngum forsendum verði alltaf rangar. Það sé ámælisvert að ekki hafi verið framkvæmd umferðartalning þar sem ljóst sé að umferðarþungi hafi aukist stórlega á undanförnum árum. Þau rök að reikna út viðbótarálag við umferðina sem hlutfall af hundraði vegna fyrirhugaðrar nýbyggingar hafi því enga merkingu.

Þá hafi skýringaruppdrættir sem kynntir hafi verið íbúum verið mjög villandi og ekki gefið rétta mynd af tillögunni. Á skýringarmyndum, sem arkitekt hafi gert að beiðni íbúa og sendar hafi verið skipulagsyfirvöldum, megi glögglega sjá að byggingin, sem fyrirhugað sé að reisa á lóðinni Stóragerði 42-44, kunni að verða mun fyrirferðarmeiri gagnvart nærumhverfi sínu en ætla mætti af þeim skýringarmyndum sem íbúum hafi verið sýndar af hálfu Reykjavíkurborgar. Ónákvæmir skýringaruppdrættir, hvort sem slíkt sé gert af ásetningi eða gáleysi, leiði óhjákvæmilega til þess að villt sé um fyrir íbúum sem hagsmuna eigi að gæta og verði að telja að athugasemdir þeirra hefðu að öðrum kosti orðið mun fleiri en raunin hafi orðið. Hafi hinir villandi skýringaruppdrættir því leitt til þess að jafnframt hafi verið brotið á andmælarétti kæranda, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga. Ekki verði barið í brestina á málsmeðferðinni með því að leiðrétta uppdrættina fyrir endanlega ákvörðun borgarráðs. Þá hafi skipulagsstjóri verið vanhæfur er hann veitti seinni umsögn sína í málinu enda þegar búinn að taka þá ákvörðun að leggja til að tillagan yrði samþykkt.

Öll nærliggjandi hús séu mun minni en fyrirhuguð fjögurra hæða bygging á lóðinni Stóragerði 42-44. Þau séu aðeins á einni eða tveimur hæðum og það sé algjört stílbrot gagnvart þeim að byggja hærra og stærra hús á fyrrgreindri lóð. Þegar þau hús sem fyrir séu í hverfinu hafi verið byggð hafi skipulagsyfirvöld lagt mikla áherslu á að ekki yrði vikið frá sjónarmiði um stærðir húsa og hafnað óskum um hærra hús til að hverfið hefði skýra og fallega ásýnd áþekkra húsa. Þótt finna megi íbúðablokkir við Stóragerði standi þær mun fjær en húsin sem næst standi greindri lóð, eða í rúmlega 100 m fjarlægð. Á milli nefndrar lóðar og blokkanna í Stóragerði sé bensínstöð á einni hæð. Lóðin Stóragerði 42-44 hljóti því að taka mið af þeim húsum sem næst standi. Allt annað sé hrein röskun á heildaráferð hverfisins. Sé því ljóst að svar skipulagstjóra við röksemdum um að byggðamynstur í næsta nágrenni við umrædda lóð sé nokkuð fjölbreytt eigi ekki við rök að styðjast. Þau einbýlishús sem næst standi, og verði í um 40 m fjarlægð frá fyrirhugaðri byggingu, missi að nokkru þá kosti sem einbýlishús hafi og muni rýra verðmæti þeirra og hverfisins í heild. Þá sé engan veginn rökstutt hvers vegna skuggamyndun á lóð kæranda verði að teljast ásættanleg og hvers vegna ekki sé fallist á þau sjónarmið að verðfall verði á eignum í nágrenninu ef af umræddri nýbyggingu verði.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld skírskota til þess að ferðamyndun frá því svæði sem tengist Álmgerði sé um 1300 ferðir á sólarhring. Viðbótarferðir frá 14 íbúðum séu um 80. Samkvæmt tveimur talningum frá árinu 2003 sé um 2000 bíla umferð á sólarhring í Álmgerði. Ekki hafi verið sérstök ástæða til að ætla annað en að talningin hefði verið marktæk þótt hún væri fjögurra ára gömul. Ef borin sé saman ferðamyndun og talin umferð megi ætla að gegnumakstur sé 600-700 bílar, eða um 1/3 af umferðinni. Aukning á umferð um Álmgerði, miðað við talningu og 14 íbúðir, því geti orðið um 4%.

Það standist ekki að orðið hafi 77% aukning bíla í Reykjavík á fjórum árum en þann misskilning megi  skýra með því að sífellt fleiri leigi bíl af fjármögnunarfyrirtækjum sem flest séu staðsett í Reykjavík. Bíll geti því verið skráður í Reykjavík en notaður í öðru sveitarfélagi. Þegar tekið sé mið af fjölda bíla í eigu fjármögnunarfyrirtækja á umræddu tímabili sé aukning bíla í borginni um 15%. Ekki sé hægt að heimfæra aukna bílaeign beint upp á aukna umferð í íbúðarhverfi. Öðrum bíl á heimili sé ekið minna en fyrsta bíl og þá standi mögulega eftir 10% vegna aukinnar bílaeignar, úr 2000 bílum á sólarhring í 2100, sem sé óveruleg leiðrétting á lítilli umferð. Með 4% aukningu bílaumferðar vegna viðbótarbyggðar muni umferð aukast úr 2100 í tæplega 2200 bíla, en sú breyting mælist vart, t.d. ef verið sé að meta hávaða.

Varðandi skýringaruppdrætti hafi verið fallist á að þeir hefðu getað verið nákvæmari en bent hafi verið á að um mögulegt útlit væri að ræða og að hæðarsetning yrði nánar skýrð á deiliskipulagsuppdrætti. Ekkert liggi fyrir í málinu sem valdið gæti vanhæfi skipulagsstjóra og hafi málsmeðferð öll verið í samræmi við skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997.

Byggðamynstur í næsta nágrenni við lóðina Stóragerði 42-44 sé nokkuð fjölbreytt. Þar séu fimm hæða blokkir við Stóragerði, bensínstöð og tveggja hæða sérbýli. Sérstaða fyrrgreindrar lóðar felist í nálægð hennar við Háaleitisbraut, líkt og eigi við um gafla blokka við Stóragerði. Í ljósi þess sé talið ásættanlegt að byggingin sé fjórar hæðir og efsta hæðin inndregin. Ekki hafi verið leitt í ljós að ákvæði byggingarlaga um samræmi milli húsa og umhverfis hafi verið brotin, enda um almennt matskennt ákvæði að ræða. Íbúar í borg geti ávallt átt von á því að nánasta umhverfi þeirra taki einhverjum breytingum, sem m.a. geti haft í för með sér skerðingu á útsýni, aukið skuggavarp og umferðaraukningu. Verði menn almennt að sæta því að með almennum takmörkunum geti hagsmunir þeirra í einhverju verið skertir með slíkum breytingum. Áhrif umræddra breytinga séu ekki svo veruleg að leitt geti til ógildingar hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar. Telji aðilar sig hins vegar geta sannað að þeir hafi orðið fyrir tjóni umfram það sem almennt gerist hjá fasteignaeigendum í þéttbýli eigi þeir bótarétt skv. 33. gr. skipulags- og byggingarlaga, en um bótarétt sé úrskurðarnefndin ekki bær til að fjalla.

——————————

Rétthafa lóðarinnar nr. 42-44 við Stóragerði var gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum í tilefni af kærumáli þessu en engar athugasemdir hafa borist úrskurðarnefndinni af hans hálfu.

Niðurstaða: Hin kærða deiliskipulagsbreyting tekur til lóða á íbúðarsvæði samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024, sem í gildi var er hin kærða ákvörðun var tekin, og stendur einbýlishús kæranda nr. 33 við Stóragerði gegnt fyrrgreindum lóðum. Ekki verður fallist á það með kæranda að kynningaruppdráttur hafi verið villandi á þann hátt að reynt hafi verið að draga úr umhverfisáhrifum, en á honum kemur fram að heimilt verði að byggja fjögurra hæða fjölbýlishús með allt að 14 íbúðum, nýtingarhlutafall ofanjarðar verði 1,0 og jafnframt er byggingarreitur sýndur heldur rýmri en hin kærða breyting felur í sér.

Samkvæmt ákvæðum þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 höfðu sveitarstjórnir víðtækt skipulagsvald innan marka sveitarfélags, sbr. 2. mgr. 3. gr., 23. gr. og 26. gr. laganna. Í því fólst tæki sveitarstjórnar til að hafa áhrif á og þróa byggð og umhverfi með bindandi hætti. Ekki verður talið að kærandi eigi einstaklingsbundna lögvarða hagsmuni tengda ásýnd og heildaryfirbragði skipulagssvæðisins, sem fyrst og fremst taka mið af skipulagslegum sjónarmiðum og markmiðum skipulagsyfirvalda við mótun og þróun byggðar. Hið umdeilda fjölbýlishús að Stóragerði 42-44, sem heimilað er með hinni kærðu skipulagsbreytingu, getur hins vegar haft nokkur grenndaráhrif gagnvart kæranda vegna aukinnar umferðar, sem vænta má að leiði af fjölgun íbúða og nálægð fasteignar hans við nefnda lóð. Aukning umferðar í hverfinu vegna fjölgunar íbúða á grundvelli hinnar kærðu skipulagsbreytingar, sem samkvæmt gögnum málsins telst 4% verður þó ekki talin veruleg. Fyrir liggja skýringarmyndir um skuggavarp við sumarsólstöður kl. 13, 16 og 18, og við jafndægur að hausti fyrir sömu tímamörk, og samkvæmt þeim myndum fellur ekki skuggi frá umræddri byggingu inn á lóð kæranda á þeim tímum. Samkvæmt því hefur skuggavarp ekki grenndaráhrif að marki.

Vanhæfisreglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og þágildandi sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998  fjalla um sérstakt hæfi einstaklinga í ljósi persónulegra hagsmuna eða tengsla, sem í krafti starfs síns eða embættis í opinberri stjórnsýslu koma að meðferð máls og töku ákvarðana. Um slík tengsl eða hagsmuni er ekki að ræða hér og kemur því ekki til álita að ógilda hina kærðu ákvörðun á grundvelli reglna um vanhæfi.

Með vísan til þess sem að framan greinir, og þar sem ekki verður annað af fyrirliggjandi gögnum ráðið en að meðferð umdeildrar deiliskipulagsbreytingar hafi verið lögum samkvæmt, er kröfu kæranda um ógildingu hennar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 7. febrúar 2008 er lítur að breyttum mörkum deiliskipulags Espigerðis frá árinu 1971.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

73/2013 Njarðargata

Með
Árið 2015, þriðjudaginn 29. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 73/2013, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 30. maí 2013 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi staðgreinireits 1.185.6, Nönnugötureits.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. júlí 2013, er barst nefndinni sama dag, kæra G, Urðarstíg 15, Reykjavík, samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 15. maí 2013 um breytingu á deiliskipulagi Nönnugötureits vegna lóðarinnar nr. 25 við Njarðargötu í Reykjavík. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. júlí 2013, sem barst nefndinni 24. júlí s.m., kæra Helena Óladóttir og Theodór Welding, Urðarstíg 13, Reykjavík, samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur á tillögu um breytingu á deiliskipulagi staðgreinireits 1.185.6 vegna lóðarinnar nr. 25 við Njarðargötu. Þar sem sama ákvörðun er kærð í báðum málum og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi verður síðargreinda kærumálið, sem er nr. 75/2013, sameinað máli þessu.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 26. ágúst og 5. nóvember 2013.

Málavextir: Deiliskipulag staðgreinireits 1.185.6, Nönnugötureits, var samþykkt í borgarráði 6. september 1988. Samkvæmt skilmálum deiliskipulagsins hækkaði nýtingarhlutfall á svæðinu og er tekið fram að það sé aðallega hugsað sem svigrúm til að byggja litlar viðbyggingar eða kvisti eða hækka þak. Við Njarðargötu sé leyfð þó nokkur hækkun þar sem byggja megi upp að háum brunagafli. Ekki sé gert ráð fyrir fjölgun íbúða. Ný hámarks nýting á reitnum verði 1,5 með deiliskipulaginu.

Með úrskurði í máli nr. 41/2010, kveðnum upp 15. febrúar 2012, felldi úrskurðarnefndin úr gildi breytingu á nefndu deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 25 við Njarðargötu, en breytingin laut að hækkun á nýtingarhlutfalli og afmörkun á kvöð um aðgengi að nefndri lóð.

Á fundi skipulagsfulltrúa Reykjavíkur 23. mars 2013 var lagt fram erindi umhverfis- og skipulagssviðs varðandi breytingu á nefndu deiliskipulagi vegna áðurnefndrar lóðar, en í breytingunni fólst aukning á nýtingarhlutfalli úr 1,5 í 1,9 og stækkun hámarksgólfflatar úr 153 m² í 193,8 m² samkvæmt uppdrætti arkitekts, dags. 14. mars 2013. Á fundinum var samþykkt að grenndarkynna tillöguna fyrir hagsmunaaðilum í næsta nágrenni lóðarinnar. Tillagan var grenndarkynnt frá 2. apríl til 1. maí 2013 og bárust athugasemdir á kynningartíma, m.a. frá kærendum. Að grenndarkynningu lokinni var málið tekið fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 15. maí s.á. og var þar lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 8. s.m. Var tillagan samþykkt með vísan til umsagnarinnar og vísað til borgarráðs þar sem hún var samþykkt á fundi 30. maí 2013. Tók deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 21. júní 2013.

Málsrök kærenda: Kærendur gera athugasemdir við nýja útreikninga á brúttóflatarmáli hússins við Njarðargötu 25. Ef reiknað sé eftir þeim teikningum sem í gildi séu fyrir húsið sé það nákvæmlega 108,68 m². Ekki sé hægt að stækka húsið um 18,3 m² með því einu að benda á nýjar reikningsaðferðir. Brúttógólfflötur hverrar hæðar sé 54,34 m² og sé gengið út frá því að hæðirnar séu þrjár geri það 163,02 m². Þá sé raunar byggingarmagnið þegar komið 10 m² yfir leyfilegt byggingarmagn. Ef reglugerð segi virkilega að aðeins lítill hluti rishæðar þurfi að vera manngengur til að allur gólfflöturinn teljist með þá eigi það ekki við í þessu tilfelli því enginn hluti rishæðar Njarðargötu 25 sé manngengur. Mesta lofthæð sé u.þ.b. einn metri og því sé risið ekki gjaldgengt í útreikningum.

Í gildandi deiliskipulagi segi að leyfileg hækkun við Njarðargötu sé töluverð þar sem byggt sé upp að háum brunagafli, en almennt sé ekki gert ráð fyrir fjölgun íbúða á skipulagssvæðinu þótt svigrúm sé veitt, aðallega til byggingar lítilla viðbygginga eða kvista eða til að hækka þak. Ekkert í deiliskipulaginu frá 1988 gefi til kynna hversu mikið eða lítið megi hækka húsið að Njarðargötu 25, aðeins að það sé ekki meira en 153 m² að stærð og fari ekki út fyrir lóðarmörk. Það sé hægt að gera á marga vegu og þótt heimilt sé samkvæmt deiliskipulaginu frá 1988 að byggja eina og hálfa hæð ofan á húsið sé ekkert sem segi að það verði að gera það og alls ekki hægt að fullyrða að nýtingarhlutfallið hafi verið rangt reiknað, eins og haldið sé fram í greinargerðinni með skipulagstillögunni. Telji kærendur fráleitt að það stækka þurfi húsið upp í 193,8 m² til að uppfylla einhver ímynduð skilyrði.

Með stækkun hússins að Njarðargötu 25 um 85,2 m² megi gera ráð fyrir að húsið geti hýst fleiri íbúa, jafnvel fleiri íbúðir. Það myndi þýða aukna umferð með tilheyrandi ónæði og óþægindum fyrir nágranna.

Sé fallist á að um villu hafi verið að ræða í gildandi deiliskipulagi hefði verið hægt að fara þá leið að líta svo á að ranglega hefði verið veitt heimild til hækkunar um eina og hálfa hæð. Sá kostur að hækka nýtingarhlutfallið fórni hagsmunum kærenda og fleiri nágranna fyrir minni hagsmuni. Margir fasteignareigendur hafi lýst áhyggjum og fært rök fyrir neikvæðum afleiðingum breytinganna á húseignir sínar, sbr. innsendar athugasemdir. Framangreind rök eigi að vega þyngra en rök skipulagsfulltrúa fyrir breytingunni. Uppfylli deiliskipulagið frá 1988 ekki þau skilyrði sem gerð séu til slíks beri að fella það úr gildi og hefja vinnu við nýtt deiliskipulag í samræmi við lög og reglugerðir.

Ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs halli á rétt kærenda að Urðarstíg 13 til friðhelgi einkalífs með aukinni innsýn í húseign þeirra, auk þess sem breytingartillagan feli í sér aukið skuggavarp og dragi þar með úr gæðum fasteignar þeirra. Þeir geti ekki fallist á þau rök fyrir breytingunni að verið sé að leiðrétta villu í deiliskipulagi sem sé í gildi. Það sé ekki nægjanlegt til að rökstyðja þá grundvallarbreytingu á nýtingarhlutfalli fasteignarinnar við Njarðargötu 25 sem sé til umfjöllunar.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgarinnar kemur fram að hin umdeilda deiliskipulagsbreyting feli aðeins í sér leiðréttingu á hámarksbyggingarmagni og þar með nýtingarhlutfalli lóðarinnar. Eingöngu sé í breytingunni fjallað um lóðina að Njarðargötu 25 og þann rétt sem eigandi hennar hafi samkvæmt deiliskipulagi Nönnugötureits frá 1988. Samkvæmt því megi hækka húsið um eina og hálfa hæð í tvær hæðir og ris, eins og sjá megi af götumynd af deiliskipulagsuppdrættinum. Nýtingarhlutfall lóðarinnar samkvæmt því skipulagi megi vera allt að 1,5 en þar sem lóðarstærðin sé aðeins 102 m² væri ekki heimilt að byggja nema 153 m² á lóðinni. Byggingarmagn sé samkvæmt fasteignamati 108,6 m² en við útreikninga á brúttóflatarmáli hússins hafi komið í ljós að það sé 126,9 m². Samkvæmt því væri hægt að stækka húsið um 26 m² eða 44 m² ef gengið sé út frá því að brúttóflatarmálið sé rétt reiknað í fasteignamatinu. Samkvæmt nýjum reglum um útreikning á brúttóflatarmáli bygginga reiknist rishæð með að fullu þótt aðeins lítill hluti hennar sé manngengur. Hús að grunnfleti 60-65 m², eins og húsið við Njarðargötu 25, sem sé tvær hæðir og ris, reiknist því með nálægt 200 m² brúttóflatarmál. Samkvæmt því þurfi nýtingarhlutfallið að vera 1,9 til þess að hægt sé að byggja samkvæmt deiliskipulaginu frá 1988. Ytra formi hússins sé ekki breytt frá gildandi deiliskipulagi.

Því miður sé deiliskipulagið frá 1988 ekki mjög nákvæmt og þar komi t.d. ekki fram hæð húsa í metrum. Athugasemdir snúi m.a. að því að heimiluð bygging muni skerða birtu og útsýni úr nærliggjandi húsum. Ekki sé borið á móti því að hækkun hússins muni hafa einhver áhrif á þau atriði en þó verði að athuga að húsið verði eftir sem áður talsvert lægra en aðliggjandi hús að Nönnugötu 16. Skiljanlegt sé að nágrannar hafi áhyggjur vegna breytinga í umhverfi þeirra en breytingin nú sé eingöngu gerð til að eigendur Njarðargötu 25 geti stækkað hús sitt í samræmi við gildandi deiliskipulag. Skipulagið hafi verið í gildi í næstum aldarfjórðung en sé gallað, eins og áður hafi verið rakið.

——-

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi samþykktar borgarráðs frá 30. maí 2013 um breytingu á deiliskipulagi fyrir stðagreinireit 1.186.5, Nönnugötureit, vegna lóðarinnar nr. 25 við Njarðargötu.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er því haldið fram að önnur kæran í málinu sé of seint fram komin og skuli því vísa henni frá úrskurðarnefndinni. Frestur til að kæra ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hana nema á annan veg sé mælt í lögum, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um útreikning frests. Þar kemur fram í 1. mgr. að sá dagur sem frestur telst frá sé ekki talinn með í frestinum. Í 2. mgr. segir síðan að ef lokadagur frests er almennur frídagur lengist fresturinn til næsta opnunardags þar á eftir. Ákvörðunin var birt í B-deild Stjórnartíðinda 21. júní 2013. Samkvæmt tilvitnuðum ákvæðum 8. gr. stjórnsýslulaga ber að byrja að telja frest daginn eftir birtinguna, eða 22. júní. Þann dag bar hinsvegar upp á laugardag og því byrjaði fresturinn að líða frá mánudeginum 24. júní. Umrædd kæra barst nefndinni 24. júlí og samkvæmt framangreindu telst hún því hafa borist innan lögmælts kærufrests.

Eins og nánar er lýst í málavöxtum er hámarksnýtingarhlutfall 1,5 samkvæmt deiliskipulagi Nönnugötureits. Því er lýst í greinargerð hinnar umdeildu deiliskipulagsbreytingar að samkvæmt gildandi skipulagi sé gert ráð fyrir að hækka megi húsið úr 1,5 hæðum í 3 hæðir. Lóðarstærð sé 102 m² og samkvæmt fasteignamati sé núverandi byggingarmagn 108,6 m². Dugi heimilað brúttóbyggingarmagn ekki fyrir 1,5 hæðum, eins og heimilt sé. Við gerð skráningartöflu hafi komið í ljós að núverandi byggingarmagn sé 126,9 m² og muni því aðeins 26,1 m² á raunverulegu núverandi byggingarmagni og byggingarmagni húss sem byggja megi 1,5 hæð ofan á.

Samkvæmt gögnum málsins snýr hin umdeilda deiliskipulagsbreyting því einungis að hækkun leyfilegs nýtingarhlutfalls á lóðinni í 1,9 og samsvarandi aukningu hámarksbyggingarmagns, en í gildandi deiliskipulagi frá 1988 var þegar gert ráð fyrir hækkun hússins upp að háum brunagafli. Sýna götumyndir deiliskipulagsins heimilaða hækkun glögglega. Útreikningar á því sem talið er nauðsynlegt nýtingarhlutfall fyrir leyfða stækkun á húsinu samkvæmt gildandi skipulagi liggja því til grundvallar hinni umdeildu breytingu. Verður ekki annað séð en að þær forsendur hinnar kærðu breytingar, að 1,5 sé of lágt nýtingarhlutfall vegna þeirrar viðbótar sem þegar sé heimiluð í gildandi deiliskipulagi, séu málefnalegar. Þá verður ekki talið að deiliskipulagsbreytingin sé slík að umfangi, miðað við efnisheimildir í fyrra deiliskipulagi, að réttur kærenda sé fyrir borð borinn.

Loks verður ekki annað séð en að meðferð málsins hafi verið í samræmi við skipulagslög nr. 123/2010. Umrædd tillaga að deiliskipulagsbreytingu var grenndarkynnt fyrir næstu nágrönnum Njarðargötu 25, með vísan til 43. gr. laganna, sem heimilar að grenndarkynna óverulegar breytingar á samþykktu deiliskipulagi, en í ljósi atvika málsins verður að telja nefnda breytingu á nýtingarhlutfalli úr 1,5 í 1,9 óverulega í skilningi ákvæðisins. Þá var hin umdeilda breytingartillaga auglýst til kynningar samkvæmt lögunum, fram komnum athugasemdum var svarað, tillagan samþykkt og gildistaka breytingarinnar auglýst í kjölfarið.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 30. maí 2013 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi staðgreinireits 1.185.6, Nönnugötureits.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson
 

76/2013 Austurvegur á Ísafirði

Með
Árið 2015, þriðjudaginn 29. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 76/2013, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar frá 6. júní 2013 um breytingar á skólalóð Grunnskólans á Ísafirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. ágúst 2013, er barst nefndinni 2. s.m., kæra Á, Austurvegi 7, Ísafirði, framkvæmdir Ísafjarðarbæjar vegna skólalóðar Grunnskólans á Ísafirði. Verður að skilja kæruna svo að kærð sé ákvörðun bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar frá 6. júní 2013 um breytingar á skólalóð Grunnskólans á Ísafirði. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Ísafjarðarbæ 4. október 2013.

Málavextir: Á fundi umhverfisnefndar Ísafjarðarbæjar 29. maí 2013 var lagt fram erindi Grunnskólans á Ísafirði, dags. 8. s.m., þar sem þess var óskað að blómagarðurinn við Austurvöll yrði skilgreindur sem skólalóð. Jafnframt voru lagðar fram nokkrar tillögur að nýrri skólalóð og lagði nefndin til að farið yrði eftir tillögu 3, sem fól m.a. í sér að sá hluti Austurvegar, sem hafði verið skilgreindur sem vistgata og lokaður á skólatíma, var gerður að hluta skólalóðarinnar og þeim hluta því lokað varanlega. Þá var bókað að óheimilt væri að skerða umfang garðsins og var grunnskólanum veitt leyfi til að nýta hann sem hluta af skólalóð undir eftirliti skólastjórnenda. Á fundi bæjarstjórnar 6. júní s.á. var samþykkt að nýta Austurvöll sem hluta af skólalóð Grunnskólans á Ísafirði og var bókað að sú nýting gengi ekki gegn hverfisvernd Austurvallar, sem samþykkt væri í Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar. Á sama fundi var fundargerð umhverfisnefndar frá 29. maí s.á. staðfest.

Fréttir af greindum ákvörðunum ásamt teikningu að fyrirhugaðri skólalóð birtust í Bæjarins Besta, fréttablaði á Vestfjörðum, í byrjun júlí 2013. Hófust framkvæmdir við lóðina og var leiktækjum komið fyrir seinna í sama mánuði.

Málsrök kæranda: Kærendur taka fram að með hinum kærðu breytingum verði þeim meinuð aðkeyrsla að fasteign þeirra að Austurvegi 7, og þá sérstaklega að bílskúr austan megin við húsið. Aðkeyrslan hafi verið um sund á milli Sundhallar Ísafjarðar og skrúðgarðsins Austurvallar. Ekki hafi farið fram grenndarkynning vegna framkvæmdanna og ákvörðunin hafi ekki verið auglýst. Kærendur hafi þær upplýsingar frá Skipulagsstofnun að framkvæmdir þessar séu unnar í trássi við gildandi deiliskipulag frá 16. október 1997. Það fyrsta sem kærendur hafi séð um málið hafi verið frétt á vef bæjarblaðsins, dags. 3. júlí 2013, þar sem birt hafi verið teikning af fyrirhugaðri skólalóð.

Með lokun á innkeyrslunni séu nýtingarmöguleikar kærenda á fasteign þeirra stórlega takmarkaðir. Útilokað sé að koma bifreið að húsinu eða inn í bílskúrinn nema um innkeyrsluna. Sé um að ræða rýrnun á verðmæti fasteignarinnar vegna hinna kærðu framkvæmda.

Málsrök Ísafjarðarbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er skírskotað til þess að gildandi deiliskipulag hafi verið samþykkt af bæjarstjórn Ísafjarðar 16. október 1997. Í skipulaginu komi fram að Austurvegur sé lokaður á skólatíma milli sundhallar og Grunnskólans á Ísafirði, en einstefna sé þar á öðrum tímum. Austurvegur sé skólalóð samkvæmt skipulaginu og því hafi nægt að breyta umferðarsamþykkt til að banna umferð um þennan hluta Austurvegar.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar að loka hluta Austurvegar á Ísafirði, en aðkoma að innkeyrslu að fasteign kærenda Austurvegi 7 er innan þess svæðis sem lokað var.

Þegar ákvörðun sú er málið snýst um var tekin var í gildi deiliskipulag fyrir Eyrina á Ísafirði frá 16. október 1997. Þar var sá hluti Austurvegar sem lokað var skilgreindur sem vistgata en í greinargerð með skipulaginu kom fram í kafla 2.8 Kvaðir: „Kvöð er um umferð að Austurvegi 7 um lóðir Austurvegar 9 og 11.“ Samkvæmt þeim gögnum sem liggja fyrir úrskurðarnefndinni var hafist handa við breytingu á nefndu deiliskipulagi í kjölfar kæru til nefndarinnar og segir í greinargerð með breytingunni að kæran hafi verið ástæða þess að ákveðið hafi verið að breyta deiliskipulaginu. Í öðrum kafla greinargerðarinnar segir eftirfarandi: „Meginbreyting deiliskipulagsins felst í að Austurvegi milli grunnskólans (Aðalstræti 36) og Austurvallar (Austurvegar 5) og Sundhallarinnar (Austurvegur 9) er lokað að fullu, í stað þess að vera skilgreindur sem vistgata með lokun á skólatíma. Lóð skólans stækkar sem þessari lokun nemur.“ Einnig segir: „Aðkoma að Austurvegi 7 verður áfram um lóð Sundhallarinnar (Austurvegar 9) líkt og í gildandi skipulagi.“ Á skipulagsuppdrættinum kemur fram að gatan fyrir framan innkeyrslu þá er kæra málsins snýst um sé nú lokuð en kvöð um umferðarrétt sé að húsi kærenda milli húsanna við Austurveg 9 og 11. Loks kemur fram í greinargerðinni að annar kærenda hafi skilað inn athugasemdum á auglýsingartíma skipulagsins.

Skipulagsbreytingin tók gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 10. september 2014 og hefur sú skipulagsákvörðun hvorki verið borin undir úrskurðarnefndina af kærendum né öðrum aðilum.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Ljóst er af framangreindu að hvað sem líður lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar liggur nú fyrir ný ákvörðun um breytingu deiliskipulags, sem gildir fyrir hið umdeilda svæði. Hefur hin kærða ákvörðun af framangreindum ástæðum ekki lengur réttarverkan að lögum eftir gildistöku hinnar yngri ákvörðunar. Eiga kærendur af þeim sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hinnar kærðu ákvörðunar, enda stæði hin nýja skipulagsákvörðun óhögguð allt að einu. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni, sbr. áðurgreinda 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

96/2011 Hafnarfjörður miðbær

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 1. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 96/2011, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 31. ágúst 2011 um að breyta deiliskipulagi, Hafnarfjörður miðbær 1981, reitur 15.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 25. nóvember 2011, er barst nefndinni sama dag, kærir Ívar Pálsson hrl., f.h. A, Austurgötu 27b, Hafnarfirði, þá ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 31. ágúst 2011 að breyta deiliskipulagi, Hafnarfjörður miðbær 1981, reitur 15. Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Málavextir: Á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar 9. febrúar 2011 var samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi reits sem afmarkast af Mjósundi, Austurgötu, Gunnarssundi og efri lóðamörkum húsa við Hverfisgötu 31-49 (oddatölur). Stærsti hluti svæðisins tilheyrði deiliskipulagi er nefnist Hafnarfjörður Miðbær 1981, en hús ofan við Hverfisgötu 31-49 voru á ódeiliskipulögðu svæði. Í bréfi skipulags- og byggingarsviðs Hafnarfjarðar til Skipulagsstofnunar, dags. 22. febrúar 2011, var tekið fram að markmið skipulagsvinnunnar væri að fella deiliskipulagið að skipulagslögum nr. 123/2010 með því að sýna byggingarreiti, yfirfara nýtingarhlutfall og lóðamörk. Með bréfinu var leitað umsagnar stofnunarinnar vegna áforma um að falla frá gerð og kynningu lýsingar skv. 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga og féllst hún á þá málsmeðferð með bréfi, dags. 2. mars 2011, með vísan til upplýsinga bæjarins um að tillagan væri að öllu leyti í samræmi við meginforsendur aðalskipulags.

Tillagan var auglýst í Fréttablaðinu 21. mars 2011 með athugasemdafresti til 7. maí s.á. og var kynningarfundur vegna hennar haldinn 24. mars 2011. Á fundi bæjarstjórnar 20. apríl 2011 var samþykkt að auglýsa tillöguna að nýju vegna tilmæla Skipulagsstofnunar um að vísa þyrfti í skipulagslög, bæði við afgreiðslu bæjarstjórnar og í auglýsingu. Deiliskipulagstillagan var auglýst í Fréttablaðinu að nýju til kynningar 18. maí 2011 með athugasemdafresti til 29. júní s.á. Athugasemdir bárust á kynningartíma, m.a. frá kæranda, og á fundi skipulags- og byggingarráðs 5. júlí 2011 var skipulags- og byggingarsviði falið að taka saman athugasemdir og gera drög að svörum. Skipulags- og byggingaráð samþykkti skipulagstillöguna á fundi hinn 23. ágúst 2011 og fyrirliggjandi svör skipulags- og byggingarsviðs við fram komnum athugasemdum. Tillagan var tekin fyrir á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar 31. ágúst 2011 og samþykkt.

Þeim sem gert höfðu athugasemdir við hina kynntu tillögu voru send svör bæjaryfirvalda með bréfi, dags. 5. september 2011. Deiliskipulagið var síðan sent Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu með bréfi, dags. 6. september s.á., þar sem fram kom að Byggðasafn Hafnarfjarðar hefði gert fornleifaskráningu, húsakönnun hefði verið gerð, aldursákvörðun húss að Austurgötu 27b verið leiðrétt, eftir kynningu tillögunnar, og að bætt hefði verið við skýringu á lit á opinberu gróður- og útivistarsvæði. Í bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 16. september 2011, kemur fram að ekki sé unnt að taka afstöðu til deiliskipulagsbreytingarinnar fyrr en skilmálum hafi verið breytt.

Skilmálar deiliskipulagsins voru lagfærðir 26. september 2011 með þeim hætti að heiti deiliskipulagsins var breytt úr „Hafnarfjörður nýtt skipulag: Hverfisgata – Austurgata milli Mjósunds og Gunnarssunds“ í „Breytt skipulag: Hafnarfjörður miðbær 1981 (reitur 15)“. Þá var bætt við svohljóðandi sérskilmálum: „Hverfisgata 31, heimilt er að byggja 13 m² gróðurskála hámarks vegg hæð 1.8 m. Mjósund 13, heimilt er að byggja geymslu á einni hæð með flötu þaki. Austurgata 33, heimilt að byggja bílskúr með 28 m² grunnflöt og hámarksvegghæð 2.7 m. Þá er heimilt að endurbyggja geymsluskúr í sömu mynd og sá sem fyrir er.“ Þá var setningu um að deiliskipulagið hefði fengið meðferð skv. 42. gr. skipulags- og byggingarlaga breytt í að það hefði fengið meðferð skv. 43. gr. og auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga.

Lagfærður skipulagsuppdráttur var sendur Skipulagsstofnun með bréfi, dags. 27. september 2011, og gerði stofnunin ekki athugasemd við birtingu auglýsingar um gildistöku skipulagstillögunnar. Var hún birt í B-deild Stjórnartíðinda 26. október 2011.

Samkvæmt greinargerð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar er stærð 16 lóða breytt, þ. á m. stærð lóðar kæranda við Austugötu 27b, sem var tilgreind fyrir breytingu 453 m² en verður eftir breytingu 503,9 m², og stærð lóðarinnar við Austurgötu 29b, sem liggur samhliða lóð kæranda, en hún stækkar úr 472 m² í 568,8 m².

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er vísað til þess að hin kærða skipulagsbreyting geri ráð fyrir breytingum á lóð hans án þess að gerð sé grein fyrir því í texta eða á uppdrætti í hverju þær breytingar felist. Varðandi afmörkun lóða sé þar vísað til mæliblaða sem gerð verði en þannig hafi Hafnarfjarðarbær sjálfdæmi um afmörkun lóðar kæranda. Í ljósi fyrri samskipta við sveitarfélagið telji kærandi að þótt gert sé ráð fyrir að lóð hans stækki í fermetrum, eigi að taka af lóðinni til hagsbóta fyrir lóðarhafa lóðarinnar Austurgötu 29b. Framsetning af þessum toga í þegar byggðu hverfi, þar sem lóðarmörk séu skýr og hægt að mæla þau út, samræmist ekki kröfum skipulagslaga nr. 123/2010 og skipulagsreglugerðar um framsetningu skipulagsáætlana enda sé algjörlega ómögulegt að átta sig á þeim breytingum sem skipulagið feli í sér. Mikilvæg réttindi séu í húfi sem varði grenndarhagsmuni og verðmæti fasteignar. Breytingin sé sett fram á óljósan hátt til að villa um fyrir lóðarhöfum. Þá samræmist framsetningin hvorki sjónarmiðum og meginreglum laganna um samvinnu við hagsmunaaðila né markmiðum þeirra um réttaröryggi. Framsetning tillögunnar sé einnig í andstöðu við ákvæði 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um rannsókn máls og andmælarétt. Þá sé jafnræðisregla ekki virt gagnvart eigendum fasteigna á reitnum, enda nýtingarhlutfall lóða og heimildir til bygginga mjög misjafnar án þess að getið sé á hvaða forsendum sú mismunun byggi.

Meðferð málsins hafi brotið gegn 41. gr. skipulagslaga um samráð og samvinnu við gerð tillögunnar, en sérstaklega sé nauðsynlegt að hafa samráð við hagsmunaaðila sé ætlunin að breyta fyrirliggjandi lóðamörkum eða skerða réttindi aðila.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Bæjaryfirvöld skírskota til þess að lóðamörk séu skýrt afmörkuð í hinu kærða deiliskipulagi en hins vegar séu mæliblöð ávallt í nákvæmari mælikvarða en deiliskipulag. Ekki sé verið að skerða lóðina að Austurgötu 27b á mörkum hennar og Austurgötu 29b. Stækkun á lóð kæranda til austurs teljist honum til hagsbóta og muni verðmæti lóðarinnar aukast við hið breytta deiliskipulag.

Þá séu lóðamörk í þessum gamla bæjarhluta ekki alltaf skýr þar sem lóðasamningar séu yfirleitt frá árunum 1910-1930, byggðir á gömlum mælieiningum, svo sem álnum og fetum, og með tilvísun til kennileita, svo sem hlaðinna garða og mannvirkja sem löngu séu horfin. Því verði að styðjast við þær takmörkuðu upplýsingar sem lóðasamningar gefi, gamlar ljósmyndir og uppdrætti sem ekki gefi mikla nákvæmni ásamt þeim kennileitum sem enn séu sýnileg. Lóðarsamningur Austurgötu 27b sé frá árinu 1908 og lóðarsamningur Austurgötu 29b sé frá árinu 1929.

Haft hafi verið samráð við íbúa og skipulagstillagan unnin í samvinnu við þá. Kynningarfundur hafi verið auglýstur og haldinn 24. mars 2011. Einnig hafi tilkynning um fundinn verið borin í öll hús á svæðinu. Hafi ákvæði laga um kynningu verið uppfyllt og að auki hafi hagsmunaaðilum verið tilkynnt umfram það sem lög geri kröfu um. Haldinn hafi verið fundur snemma árs 2010, að beiðni kæranda, að viðstöddum lögmanni, arkitekt og eiginmanni kæranda. Jafnframt hafi verið haldinn fundur í júní 2010 með lóðarhöfum Austurgötu 29b. Ekki hafi verið hægt að sætta sjónarmið lóðahafa á þeim fundum, en þau lóðamörk sem tillagan sýni geti verið ásættanleg fyrir báða eigendur. Auk þess hafi skipulagsyfirvöld verið í tölvupóstasamskiptum við fyrrnefndan arkitekt. Farið hafi verið nákvæmlega yfir öll gögn sem varði lóðamörkin, þ.e. lóðsamninga, gamlar ljósmyndir, álit nefnds arkitekts og þá uppdrætti sem til hafi verið, ásamt þeim kennileitum sem enn séu til staðar, en ekkert hafi stutt röksemdir um önnur lóðamörk eða aðra aðkomu að húsunum. Þá hafi lögboðnu ferli varðandi kynningu, auglýsingu og athugasemdafrest skipulagsins verið fylgt.

Nýtingarhlutfall sé mjög illa fallið til að stýra uppbyggingu í eldri hverfum þar sem lóðastærðir séu mismundi og stórar lóðir gefi meira rúm til byggingar en minni lóðir, hlið við hlið. Eins og fram komi í töflu um nýtingarhlutfall fyrir breytingu deiliskipulagsins, sé það mjög breytilegt í þessum bæjarhluta, eða frá 0,23 í allt að 1,46. Þá hafi stærðir lóða á reitnum fyrir breytinguna verið allt frá 85 m² upp í 667 m². Markmið skipulagsins hafi m.a. verið að yfirfara lóðamörk, setja skilmála um viðbyggingar og tryggja að gæði götumynda skerðist ekki við breytingu á einstöku húsum. Sérstaklega þurfi að huga að öllum breytingum á útliti húsa, með heildarsvip hverfisins að leiðarljósi, eins og fram komi í skilmálunum. Þetta gildi jafnt fyrir öll hús á reitnum og geti því ekki talist brot á jafnræðisreglu. Forsendur fyrir því hvernig breyting skuli metin komi einnig fram í skilmálum.

Niðurstaða: Í máli þessu er fyrst og fremst deilt um lóðastærðir, en í bréfi sem arkitekt ritaði í umboði kæranda, dags. 20. apríl 2011, og vísað er til í kæru, er farið fram á það við skipulagsyfirvöld að sameiginleg mörk lóðar kæranda að Austurgötu 27b og lóðarinnar Austurgötu 29b verði áfram í samræmi við lóðarblað bæjarverkfræðingsins í Hafnarfirði, sem sé merkt 21.844.6.

Í bréfi Skipulagsstofnunar til Hafnarfjarðarbæjar, dags. 16. september 2011, voru gerðar þær athugasemdir við skipulagsbreytinguna að skilmálar fyrir umrætt svæði væru ekki nægjanlega skýrir og að breyta þyrfi texta á uppdrætti og tilvísun í málsmeðferð til samræmis við 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga skal sveitarstjórn taka athugasemdir Skipulagsstofnunar til umræðu og gera nauðsynlegar breytingar hvað varðar athugasemdir um form deiliskipulags. Fallist sveitarstjórn ekki á athugasemdir stofnunarinnar um efni deiliskipulags skal hún gera rökstudda grein fyrir ástæðum þess. Í greinargerð með frumvarpi til skipulagslaga segir í athugasemdum með 42. gr. að lagt sé til það nýmæli að sveitarstjórn sé skylt að bregðast við athugasemdum Skipulagsstofnunar vegna deiliskipulags og gera nauðsynlegar breytingar á því varðandi form þess ef þörf sé á. Slíkar athugasemdir varði t.d. hvort deiliskipulag sé í samræmi við aðalskipulag og að athugasemdum á auglýsingatíma hafi ekki verið svarað. Fyrrgreindar athugasemdir Skipulagsstofnunar voru ekki afgreiddar af bæjarstjórn í samræmi við tilvitnað ákvæði skipulagslaga áður en auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins var birt í B-deild Stjórnartíðinda. Þá voru heldur ekki afgreiddar á fundi bæjarstjórnar þær breytingar sem gerðar voru á deiliskipulagstillögunni 26. september 2011.

Með vísan til þess sem að framan er rakið þykja slíkir annmarkar vera á málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar að ógildingu varði.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 31. ágúst 2011 um að breyta deiliskipulagi, Hafnarfjörður miðbær 1981, reitur 15.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

 

77/2010 Hörðuvellir Reykdalsreitur

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 24. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 77/2010, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 10. nóvember 2010 um að samþykkja tillögu að breytingu á deiliskipulagi Hörðuvalla/-Reykdalsreits í Hafnarfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. desember 2010, er barst nefndinni 10. s.m., kærir Kári Hólmar Ragnarsson hdl., f.h. G, Ljósatröð 4, Hafnarfirði, þá ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 10. nóvember 2010 að samþykkja tillögu að breytingu á deiliskipulagi Hörðuvalla/Reykdalsreits í Hafnarfirði. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að bæjaryfirvöldum verði gert að taka tillit til þeirra athugasemda sem kærandi hefur sett fram.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið nú til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Gögn málsins bárust frá Hafnarfjarðarbæ 25. janúar 2011.

Málavextir: Á fundi skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðarbæjar hinn 24. mars 2009 var samþykkt að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi Hörðuvalla/Reykdalsreits vegna staðsetningar á lóð fyrir dælustöð og byggingarreits viðbyggingar við Ljósatröð 2 skv. 1. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Var afgreiðslan staðfest í bæjarstjórn hinn 31. mars 2009. Tillagan var auglýst frá 4. maí 2009 til 2. júní s.á. og var frestur til að skila inn athugasemdum veittur til 16. s.m. Vegna tafa á úrvinnslu málsins samþykkti skipulags- og byggingarráð á fundi sínum 3. ágúst 2010 að tillagan yrði auglýst að nýju. Deiliskipulagsbreytingin var auglýst 13. september s.á. Var hún til sýnis til 11. október s.á. og frestur til að skila inn athugasemdum veittur til 25. s.m. Athugasemdir bárust frá kæranda og var þeim svarað í umsögn skipulags- og byggingarsviðs bæjarins, dags. 1. nóvember 2010.

Á fundi skipulags- og byggingarráðs 2. nóvember 2010 var málið tekið fyrir að nýju og tillagan afgreidd með svohljóðandi bókun: „Skipulags- og byggingarráð tekur undir svar skipulags- og byggingarsviðs, samþykkir skipulagið og að afgreiðslu verði lokið í samræmi við 26. grein skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Skipulags- og byggingarráð gerir eftirfarandi tillögu til bæjarstjórnar: „Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir svæði við Ljósatröð dags. 15.01.2009 og að afgreiðslu verði lokið í samræmi við 26. grein skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997“.“ Bæjarstjórn samþykkti tillöguna á fundi hinn 10. nóvember 2010 og var auglýsing um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar birt í B-deild Stjórnartíðinda 15. mars 2011.

Deiliskipulagsbreytingin tekur til svæðis við Ljósatröð sem afmarkast af Lækjargötu, Reykjanesbraut og Læknum, en deiliskipulagi þessa svæðis var frestað þegar deiliskipulag Hörðuvalla/Reykdalsreits var samþykkt árið 2001. Með umræddri deiliskipulagsbreytingu var svæðið því deiliskipulagt í fyrsta sinn.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er vísað til þess að hin kærða deiliskipulagsbreyting brjóti í bága við eignarrétt hans og valdi honum hugsanlegu tjóni og spjöllum. Lóð hans, Ljósatröð 4, sé afmörkuð minni en hún ætti að vera í skipulagstillögunni. Lóðin sé að stofni til erfðafestulóð samkvæmt erfðafestusamningi, dags. 28. desember 1933, og hafi verið hluti af landi Verksmiðju Reykdals, en landið hafi verið selt Hafnarfjarðarbæ árið 2000. Í erfðafestusamningnum sé lóðin afmörkuð og tilgreind með flatarmálið 1.250 m2 og sé hún merkt inn á deiliskipulagsuppdráttinn með sama hætti nú. Eftir að erfðafestusamningurinn hafi verið gerður hafi lóðarmörk Reykholts, nú Ljósatraðar 4, hins vegar breyst og lóðin stækkað á grundvelli samkomulags við þáverandi eigendur landsins og/eða hefðar. Talið sé líklegt að fljótlega eftir að erfðafestusamningurinn hafi verið gerður hafi orðið að samkomulagi milli eigenda Reykholts og eigenda Reykdalslandsins að land Reykholts næði allt niður að læk. Skriflegir gerningar um slíkt samkomulag finnist ekki en framkvæmdin tali sínu máli. Jóhannes Reykdal, leigusali samkvæmt erfðafestusamningnum, hafi álitið að lóðarmörk Reykholts væru með þeim hætti sem kærandi haldi fram og sé þar vísað til uppdráttar sem Jóhannes hafi undirritað hinn 25. ágúst 1967, sem Hafnarfjarðarbæ hafi mátt vera kunnugt um, enda hafi verið til hans vísað í afsali vegna kaupa bæjarins á spildu úr lóð Íshúss Reykdals. Einnig sé vísað til teikningar bæjarverkfræðings Hafnarfjarðar af lóð Reykdalsverksmiðju frá því í janúar 1988.

Eigendur Ljósatraðar 4 hafi í 75 ár farið að öllu leyti með eignarhald og nýtingu á stærra svæði en erfðafestusamningurinn hafi gert ráð fyrir, eða alls 1.877 m2, án athugasemda frá eigendum Reykdalsverksmiðjunnar. Því til stuðnings sé meðal annars vísað til girðingar sem komið hafi verið fyrir í tíð fyrri eigenda og sjáist á teikningu sem stafi frá Garðahreppi. Þá hafi landfræðilegar aðstæður ætíð ráðið lóðamörkum á svæðinu en mikill hæðarmunur sé meðfram suður- og norðurmörkum lóðarinnar, eins og kærandi telji þeim rétt lýst. Stallur á suðurmörkum hennar sé að öllum líkindum manngerður og hæðarmunurinn sé hátt í tveir metrar. Eigendur landsins hafi ávallt nýtt allt svæðið, m.a. til ræktunar og dýrahalds, en ummerki um ræktun utan lóðamarka samkvæmt deiliskipulagsuppdrættinum sjáist vel. Skilyrði hefðar séu uppfyllt og kærandi og forverar hans hafi öðlast eignarrétt á landi allt niður að læk, eða a.m.k. afnotarétt með sömu skilyrðum og komi fram í erfðafestusamningnum.

Samkvæmt skipulagstillögunni eigi skúr á lóð kæranda að víkja en það sé bæði heimildarlaust og óútskýrt af hálfu sveitarfélagsins. Skúrinn hafi staðið athugasemdalaust á lóðinni frá árinu 1997 og sé því harðlega mótmælt að hann eigi að víkja. Einnig sé stækkun byggingarreits vegna fyrirhugaðrar viðbyggingar á lóð Ljósatraðar 2 mótmælt en gert sé ráð fyrir gríðarlegri stækkun á mannvirkjum í átt að lóð kæranda, sem óhjákvæmilega muni hafa í för með sér aukið áreiti, óþægindi og umferð vegna starfseminnar í húsinu. Lóð kæranda standi á einstökum stað, fjarri öðrum íbúðarhúsum, og verðmæti hennar taki mið af þeirri sérstöðu. Fyrirhuguð viðbygging nái inn fyrir lóðarmörk Ljósatraðar 4, eins og kærandi telji þau rétt afmörkuð. Auk þess muni svo há bygging sem fyrirhuguð sé varpa algerum skugga á lóð Ljósatraðar 4. Þá virðist Hafnarfjarðarbær þegar hafa tekið afstöðu til viðbyggingarinnar með lóðarleigusamningi um Ljósatröð 2 frá árinu 2004, þar sem gert hafi verið ráð fyrir henni. Sveitarfélaginu sé óheimilt að gera samning sem brjóti í bága við gildandi skipulag og telja verði nær ómögulegt að mál þetta fái faglega meðferð af þess hálfu við þessar aðstæður.

Þá sé mótmælt fyrirhugaðri byggingu dælustöðvar örskammt frá íbúðarhúsi kæranda en slíkt mannvirki eigi illa heima svo nálægt íbúðarbyggð. Starfseminni fylgi veruleg og viðvarandi óþægindi fyrir nágranna vegna mögulegrar hávaðamengunar, sjónmengunar og hættu á slysum og tjóni, en deiliskipulagstillagan geri ekki ráð fyrir sérstökum viðbúnaði vegna slíkrar hættu. Í aðalskipulagi Hafnarfjarðarbæjar sé svæðið skilgreint sem verslunar- og þjónustusvæði og ekki komi fram að búast megi við veitumannvirkjum á slíkum svæðum. Deiliskipulagstillagan sé í andstöðu við skilmála aðalskipulags hvað landnotkun varði. Þá njóti deiliskipulagsreiturinn hverfisverndar samkvæmt aðalskipulagi. Þar segi m.a. að í hverfisverndinni felist að vistkerfi lækjarins, fuglalíf, útivistarmöguleikar og menningarminjar skuli njóta forgangs miðað við hagsmuni annarrar landnotkunar. Við allar framkvæmdir innan hverfisverndar skuli leitast við að viðhalda og styrkja þá þætti sem hverfisverndin nái til. Þessir skilmálar aðalskipulagsins hafi ekki verið virtir við gerð skipulagstillögunnar og eigi það bæði við um dælustöðina og aðrar viðbyggingar.

Verði ekki fallist á ógildingu á ákvörðun um samþykkt deiliskipulagstillögunnar sé þess krafist að bæjaryfirvöld girði af þau mannvirki sem deiliskipulagstillagan geri ráð fyrir að reist verði á svæðinu til þess að draga úr áhrifum breytinganna. Þá er ítrekuð krafa um að tillögunni verði breytt þannig að heimiluð verði bygging tveggja nýrra íbúðarhúsa á lóð Ljósatraðar 4 og tvennra veggsvala á 2. hæð hússins á þeirri lóð.

Að lokum telur kærandi að kröfur skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 um form deiliskipulags hafi ekki verið uppfylltar við málsmeðferð deiliskipulagstillögunnar. Ekki verði séð að gerð hafi verið bæja- og húsakönnun, sbr. 3. mgr. gr. 3.1.4 í skipulagsreglugerð, og ekki sé gerð grein fyrir trjágróðri, sbr. 3. mgr. gr. 4.5.2 í nefndri reglugerð. Vísað sé til 64. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 um bílastæði, en fjöldi bílastæða samkvæmt deiliskipulagstillögunni sé ekki rökstuddur eða vikið að honum í greinargerð með tillögunni. Engar upplýsingar séu veittar um umfang starfsemi í húsinu við Ljósatröð 2 og því sé nær ómögulegt að meta hvort fyrirhugaður fjöldi bílastæða teljist nægilegur. Engin grein sé gerð fyrir því hvort skilyrðum 75. gr. byggingarreglugerðar um lágmarksfjarlægð milli húsa sé fullnægt, hvað varði fjarlægð milli íbúðarhúss kæranda og dæluhúss Orkuveitu Reykjavíkur. Þá komi ekkert fram um stærð viðbyggingar við Ljósatröð 2, en aðeins sé tilgreint leyfilegt nýtingarhlutfall. Deiliskipulagstillagan í heild sé svo ónákvæm að erfitt sé fyrir þá sem hagsmuna eigi að gæta að átta sig á áhrifum hennar. Einnig séu gerðar athugasemdir við umsögn skipulags- og byggingarsviðs Hafnarfjarðar um athugasemdir kæranda við deiliskipulagstillöguna og sérstaklega vísað til málsmeðferðar varðandi athugasemdir kæranda vegna dælustöðvar. Í umsögninni komi fram að dælustöðin verði óþægilega nálægt íbúðarhúsi kæranda og að ekkert land sé eftir til slíkra framkvæmda. Því skyldi ætla að ekki hafi mátt samþykkja fyrirliggjandi tillögu til breytinga á deiliskipulaginu en það hafi þó verið gert. Slík vinnubrögð samræmist ekki stjórnsýslulögum nr. 37/1993. Sérstaklega sé vísað til rannsóknarreglu 10. gr. laganna og meðalhófsreglu 12. gr. þeirra.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Í greinargerð Hafnarfjarðarbæjar kemur fram að ástæða þess að upphaflega hafi verið ráðist í þær breytingar á deiliskipulagi sem um sé deilt í málinu hafi verið sú að Orkuveita Reykjavíkur hafi óskað eftir því í desember 2008 að setja upp dælustöð á þessum stað til þess að halda uppi nægilegum þrýstingi á heitu vatni á nýjum íbúðarsvæðum í bænum. Þessi staðsetning hafi verið álitin langbesti kosturinn með tilliti til þess svæðis sem Orkuveitan gæti þjónað. Svæðið sé skilgreint sem verslunar- og þjónustusvæði í aðalskipulagi Hafnarfjarðar. Samkvæmt upplýsingum frá Orkuveitu Reykjavíkur sé engin hljóðmengun frá dælustöðinni og ekki sé rétt að fyrirhuguð dælustöð sé á hverfisvernduðu svæði.

Samkvæmt þinglýstum lóðarsamningi frá 1933 og lóðarblaði frá 2004 sé lóð kæranda að Ljósatröð 4 1.250 m2 að flatarmáli og á þeim upplýsingum sé deiliskipulagstillagan byggð. Einnig sé vísað til þinglýsts lóðarleigusamnings frá 2004 um lóð til byggingar félagsheimilis að Ljósatröð 2, sem sýni hvernig mannvirkjum á þeirri lóð skuli háttað. Þar sem Ljósatröð 4 sé á verslunar- og þjónustusvæði sé það ekki vilji sveitarfélagsins að leyfa þar aukna íbúðarbyggð, eins og kærandi hafi óskað eftir. Þá sé skúrinn, sem standi á lóðinni Ljósatröð 4, ekki skráður hjá Þjóðskrá Íslands og ekkert byggingarleyfi sé fyrir honum. Eigi hann að standa áfram þurfi að sækja sérstaklega um það.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 10. nóvember 2010 að samþykkja tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir Hörðuvelli/-Reykdalsreit. Ákvörðun bæjarstjórnar var tekin í gildistíð skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, en auglýsing um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar var birt hinn 15. mars 2011. Hinn 1. janúar 2011 tóku gildi skipulagslög nr. 123/2010 en í þágildandi 3. mgr. 42. gr. þeirra sagði: „Birta skal auglýsingu um gildistöku deiliskipulags í B-deild Stjórnartíðinda innan þriggja mánaða frá endanlegri afgreiðslu sveitarstjórnar á tillögunni. Hafi slík auglýsing ekki verið birt innan þess frests telst tillagan ógild og fer um hana í samræmi við 41. gr.“ Fyrirliggjandi gögn bera með sér að Hafnarfjarðarbær hafi metið það svo að hin kærða deiliskipulagsbreyting væri ógild samkvæmt nefndri 3. mgr. 42. gr. skipulagslaga þar sem ríflega fjórir mánuðir liðu frá endanlegri afgreiðslu bæjarstjórnar og þar til auglýsing um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar var birt í B-deild Stjórnartíðinda.

Var ný tillaga að breytingu  deiliskipulags Hörðuvalla/Reykdalsreits, samhljóða hinni fyrri, lögð fram og samþykkti skipulags- og byggingarráð Hafnarfjarðar á fundi sínum hinn 5. febrúar 2013 að sú tillaga yrði auglýst að nýju, skv. 41. gr. skipulagslaga. Samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar þá afgreiðslu hinn 13. s.m. Tillagan var auglýst frá 25. febrúar til 12. apríl 2013. Engar athugasemdir bárust og samþykkti skipulags- og byggingarráð Hafnarfjarðar deiliskipulagsbreytinguna hinn 30. apríl 2013 og að málinu yrði lokið í samræmi við 41. gr. skipulagslaga. Tók skipulagsbreytingin gildi 5. júní 2013 með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda og hefur sú skipulagsákvörðun ekki verið borin undir úrskurðarnefndina.

Hvað sem líður lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar liggur fyrir að ný ákvörðun um umdeilda deiliskipulagsbreytingu tók gildi 5. júní 2013 og gildir hún fyrir umrætt svæði. Hefur hin kærða ákvörðun af framangreindum ástæðum ekki réttarverkan að lögum eftir gildistöku hinnar yngri ákvörðunar. Á kærandi af þeim sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar enda stæði hin nýja skipulagsákvörðun óhögguð allt að einu. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni með hliðsjón af þágildandi 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingalaga nr. 73/1997 og 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. nú 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________         _____________________________
Ásgeir Magnússon                                       Þorsteinn Þorsteinsson

115/2008 Langholtsvegur/Drekavogur

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 24. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 115/2008, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 16. október 2008 um að samþykkja deiliskipulag Langholtsvegar/Drekavogs.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 19. desember 2008, er barst nefndinni sama dag, kærir Einar Páll Tamimi hdl., f.h. húsfélagsins að Langholtsvegi 109-111, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 16. október 2008 að samþykkja deiliskipulag Langholtsvegar/Drekavogs. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá borgaryfirvöldum 7. apríl 2015.

Málavextir: Á fundi skipulagsráðs 18. júní 2008 var samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi Langholtsvegar/Drekavogs og 26. s.m. samþykkti borgarráð þá afgreiðslu. Tillagan var auglýst frá 2. júlí til 13. ágúst 2008 og bárust nokkur athugasemdarbréf, þar á meðal frá kæranda. Tillaga að umræddu deiliskipulagi var lögð fram á fundi skipulagsráðs 8. október 2008 ásamt umsögn skipulagsstjóra um fram komnar athugasemdir, dags. 2. s.m., og lagfærðum uppdráttum. Tillagan var samþykkt með þeim breytingum sem fram komu í umsögn skipulagsstjóra. Samþykkt skipulagsráðs var staðfest í borgarráði 16. október 2008. Skipulagsstofnun tilkynnti með bréfi, dags. 7. nóvember s.á., að hún gerði ekki athugasemdir við birtingu auglýsingar um gildistöku skipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda og birtist sú auglýsing 20. nóvember 2008.

Fram kemur í greinargerð hins kærða deiliskipulags að það taki til þegar byggðs reits sem afmarkist af Langholtsvegi til vesturs, Drekavogi til norðurs, opnu grænu svæði til austurs og íbúðarhúsum sem liggi við Sigluvog til suðurs. Innan reitsins eru lóðirnar Langholtsvegur 109-115 (oddatölur) og Drekavogur 4. Í húsinu nr. 109-111 við Langholtsveg er verslun, þjónusta, skrifstofur og félagastarfsemi, í húsinu nr. 113 er verslun, þjónusta og íbúðir, í húsi nr. 115 og í húsum nr. 4, 4a, og 4b við Drekavog eru íbúðir.

Samkvæmt greinargerð hins kærða deiliskipulags eru helstu breytingar sem gerðar eru frá fyrra ástandi þær að á lóðunum 109-111 og 113 við Langholtsveg er heimilað byggingarmagn aukið með því að leyfa inndregnar hæðir ofan á núverandi byggingar. Markaður er nýr byggingarreitur á baklóð við Langholtsveg 113, þar sem fyrir var ósamþykkt viðbygging, og er lóðin stækkuð í línu við aðliggjandi lóðir. Jafnframt kemur fram að heimilt er að byggja bílageymslur við norðurgafl núverandi byggingar við Langholtsveg 115 og við Drekavog 4, 4a, og 4b er heimilt að loka núverandi svölum.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að slíkir annmarkar hafi verið á auglýstri tillögu að deiliskipulaginu að hún hafi ekki getað orðið grundvöllur gilds deiliskipulags. Lýsing á núverandi ástandi á uppdrætti og í texta tillögunnar sé í meginatriðum röng. Þannig sé aðkomu að Langholtsvegi 109 frá Drekavogi ekki rétt lýst, fjöldi bílastæða sé rangur, sem og staðsetning þeirra við Langholtsveg 109-111. Þá hafi ekki farið fram bæja- og húsakönnun, svo sem skylt hafi verið samkvæmt 5. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 þegar deiliskipulag sé unnið í þegar byggðu hverfi.

Byggingarleyfi vegna breyttrar notkunar hússins að Drekavogi 4, úr skrifstofuhúsnæði í íbúðarhúsnæði, hafi verið fellt úr gildi með úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í máli nr. 11/2002 á þeim grundvelli að ekki hafi verið í gildi deiliskipulag fyrir reitinn og ekki hafi verið gætt ákvæða 3. mgr. 23. gr., sbr. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga um grenndarkynningu. Framangreind ákvæði feli í sér undantekningu frá þeirri meginreglu er fram komi í 2. mgr. 43. gr. sömu laga um að allar framkvæmdir sem veitt sé byggingaleyfi fyrir skuli vera í samræmi við samþykkt deiliskipulag. Lúti undantekningin að því að sveitarstjórn geti veitt heimild til framkvæmda í þegar byggðum hverfum að undangenginni grenndarkynningu þótt deiliskipulag liggi ekki fyrir. Grenndarkynningu sé í raun veitt staða deiliskipulagsbreytingar í því tilviki er hér um ræði enda eigi sama regla við um minni háttar breytingar á deiliskipulagi, sbr. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga. Samkvæmt 4. mgr. 56. gr. greindra laga sé óheimilt að breyta skipulagi svæðis þar sem framkvæmt hafi verið í ósamræmi við skipulag fyrr en hin ólöglega bygging, eða byggingarhluti hafi verið fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt. Þegar 4. mgr. 56. gr. laganna vísi til framkvæmda í ósamræmi við skipulag standi öll rök til þess að orðalagið taki einnig til byggingarleyfisskyldra framkvæmda í þegar byggðum hverfum án deiliskipulags sem ekki hafi verið grenndarkynntar. Því sé ekki unnt að samþykkja deiliskipulag fyrir umræddan reit án þess að byggingin að Drekavogi 4 verði fjarlægð.

Ekki sé unnt að samþykkja deiliskipulag sem geri ráð fyrir að óskráðar óleyfisbyggingar norðan við húsið að Langholtsvegi 113 standi áfram. Slík málsmeðferð sé ekki í samræmi við 3. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga, sem kveði á um að hafi mannvirki, sem falli undir IV. kafla laganna, verið reist án samþykkis sveitarstjórnar og hún látið hjá líða að fjarlægja það innan sex mánaða frá því að henni varð kunnugt um málið skuli Skipulagsstofnun láta fjarlægja mannvirkið á kostnað sveitarfélags. Þá kveði 2. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga á um að byggingarfulltrúa beri að stöðva byggingarframkvæmd sem hafin sé án þess að leyfi sé fengið fyrir henni og að síðan skuli hin ólöglega bygging eða byggingarhluti fjarlægð. Ekki verði annað ráðið en að um ófrávíkjanleg ákvæði sé að ræða.

Samkvæmt uppdrætti með umræddri deiliskipulagstillögu hafi átt að rúnna af lóð Langholtsvegar 109-111, en slík eignaskerðing geti ekki átt sér stað með samþykki deiliskipulags. Hafi umrædd rúnnun átt að bæta óásættanlega aðkomu að húsum við Drekavog 4, 4a og 4b þar sem bílar geti ekki mæst vegna þrengsla og stærri bílar geti ekki náð þeirri beygju sem nauðsynleg sé nema að fara inn á lóðina við Langholtsveg 109-111. Í hinu kærða deiliskipulagi sé gert ráð fyrir að bílastæði á lóðinni Langholtsveg 109-111, við lóðamörk þeirrar lóðar og Drekavogs, verði færð frá lóðarmörkum sem sé íþyngjandi fyrir lóðarhafann og án viðhlítandi lagagrundvallar. Í hinu kærða deiliskipulagi sé jafnframt gert ráð fyrir hæð ofan á húsið að Langholtsvegi 109-111, sem verði inndregin á öllum hliðum, þannig að ekki verði hægt að nýta núverandi stigaganga til uppgöngu á hina nýju hæð. Því sé í raun verið að synja um byggingu slíkrar hæðar án rökstuðnings og það sama gildi um þá kröfu að handrið á 3. hæð sé gagnsætt, sem íþyngi lóðarhöfum að ástæðulausu. Ákvæði í tillögunni um bann við uppsetningu neonskilta á húsið við Langholtsveg 109-111 sé ómálefnalegt og feli í sér ólögmæta skerðingu á ráðstöfunarrétti lóðarhafa.

Samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi verði bílastæði á lóðinni nr. 4 við Drekavog minnst 32, þ.e. tvö bílastæði fyrir hverja íbúð stærri en 80 m² en eitt fyrir hverja íbúð minni en 80 m². Það sé sama reikniregla og finna megi í 64. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, sem fjalli um lágmarksfjölda bílastæða þegar deiliskipulag kveði ekki á um annað. Samkvæmt upplýsingum úr Landskrá fasteigna séu í umræddum húsum 17 íbúðir stærri en 80 m² en sex minni íbúðir, þannig að bílastæðin þyrftu að vera minnst 40. Í gr. 64.4 í fyrrgreindri reglugerð sé aukinheldur gerð sú krafa að við öll íbúðarhús með sex íbúðum eða fleiri skuli vera minnst eitt gestabílastæði sem henti þörfum fatlaðra nema deiliskipulagið kveði á um annað. Með þeim bílastæðafjölda sem ætlaður sé fyrir Drekavog 4 felist verulegt og órökstutt frávik frá almennum lágmarksreglum um bílastæðafjölda við fjölbýlishús, sem leiði til þess að bílum verði lagt á bílastæði á lóð Langholtsvegar 109-111.

Í hinu samþykkta deiliskipulagi sé gerður nýr byggingarreitur á baklóð, þar sem nú standi áðurnefnd ósamþykkt viðbygging. Slík áform hafi ekki komið fram í auglýstri tillögu að deiliskipulaginu. Þau hafi því aldrei komið til umsagnar þeirra sem lögvarða hagsmuni hafi vegna málsins og bregði þar svo mjög út af lögmæltri málsmeðferð að hljóti að varða ógildi skipulagsins. Samkvæmt hinu samþykkta deiliskipulagi sé gert ráð fyrir kvöð um aðkomu að Drekavogi 4 um lóðina að Langholtsvegi 113. Þetta atriði sé illskiljanlegt ef litið sé til deiliskipulagsuppdráttarins. Verði ekki betur séð en að kvöð þurfi að vera á lóðinni Drekavogi 4 um aðkomu að Langholtsvegi 113 og einnig að Langholtsvegi 115 miðað við staðsetningu bílastæða á tveim síðarnefndum lóðum. Ekki verði komist að bílastæðum austan megin eignanna nema aka um lóðina að Drekavogi 4, en hins vegar verði ekki séð að nokkurs staðar sé þörf fyrir að fara yfir lóðirnar við Langholtsveg til að komast að bílastæðum eða húsum við Drekavog. Sé hið samþykkta deiliskipulag að þessu leyti svo óskýrt um efni sitt og slíkt misræmi til staðar milli deiliskipulagsuppdráttar og skýringartexta að það geti ekki haldið gildi sínu.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til þess að þegar deiliskipulagstillagan hafi verið auglýst hafi kærandi haft uppi sömu athugasemdir um að uppdrátturinn hafi verið í meginatriðum rangur. Tekið hafi verið tillit til athugasemda kæranda varðandi bílastæði og uppdráttur leiðréttur þannig að þeir hnökrar sem kunni að hafa verið á framsetningu skipulagstillögunnar hafi ekki getað leitt til réttarspjalla. Þá hafi ekki verið nauðsynlegt að gera bæja- og húsakönnun við gerð deiliskipulagsins þar sem einungis hafi verið deiliskipulagður hluti reits og tilteknar byggingar innan reitsins. Slík könnun eigi einkum við þegar um heildarendurskoðun skipulags í þegar byggðu hverfi sé að ræða með tilliti til verndarsjónarmiða, en slíku sé ekki til að dreifa í hinu umdeilda skipulagi.

Ákvæðið 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga hafi falið það eitt í sér að óheimilt væri að breyta skipulagi svæðis þar sem framkvæmt hefði verið í ósamræmi við skipulag nema áður hefði verið fjarlægð sú bygging eða framkvæmd sem reist hefði verði í bága við skipulagið. Byggingin að Drekavogi 4 hafi ekki verið í ósamræmi við skipulag og ekki séu forsendur til að leggja að jöfnu þær aðstæður að skort hafi á grenndarkynningu og að framkvæmd hafi farið í bága við skipulag. Verði að skýra ákvæði 4. mgr. 56. gr. þröngt, enda um verulega íþyngjandi ákvæði að ræða, og hafi það nú verið numið úr lögum. Ekki hafi staðið í vegi fyrir gerð skipulagsins að umrædd bygging hafi verið reist.

Þá hafi 2. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga aðeins átt við um óleyfisframkvæmdir sem hafi brotið í bága við skipulag. Í 1. mgr. 56. gr. hafi hins vegar verið kveðið á um að ef byggingarleyfisskyld framkvæmd væri hafin án tilskilins leyfis gæti byggingarfulltrúi stöðvað slíka framkvæmd. Hafi verið um heimildarákvæði að ræða sem veitti sveitarstjórn færi á því að meta hvort koma ætti í veg fyrir framkvæmdina eða gefa eiganda hennar kost á að afla til hennar tilskilins leyfis, enda færi framkvæmdin ekki í bága við skipulag. Verði að skýra ákvæði 3. mgr. svo að íhlutun Skipulagsstofnunar hafi því aðeins getað komið til álita að um væri að ræða framkvæmd sem sveitarstjórn væri skylt að láta fjarlæga, þ.e. að um væri að ræða framkvæmd sem færi í bága við skipulag. Byggingar norðan við húsið að Langholtsvegi 113 hafi verið í samræmi við aðalskipulag á þeim tíma er þær hafi verið reistar en ekkert deiliskipulag hafi þá verið í gildi fyrir umrætt svæði. Að auki hafi umræddar byggingar verið reistar fyrir gildistöku skipulags- og byggingarlaga og sé því vandséð að unnt hafi verið að beita íþyngjandi ákvæðum þeirra um þær. Þá sé það alkunna að við vinnslu deiliskipulags séu teknar inn byggingar sem reistar hafi verið í óleyfi á einhverjum tímum. Séu slíkar byggingar þá festar í sessi. Engin heimild sé til þess að krefjast niðurrifs á óleyfisbyggingum sem staðið hafi árum saman án athugasemda. Loks megi benda á að ekkert í lögum girði fyrir að byggingarleyfi sé veitt eða að bætt sé úr annmörkum eftir á við útgáfu slíkra leyfa, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar í máli nr. 559/2009.

Fallið hafi verið frá afrúnnun á horni lóðar Langholtsvegar 109-111 í því skyni að greiða fyrir umferð og sé því ekki um neina eignaskerðingu að ræða. Sú athugasemd að ómögulegt sé að nýta byggingarrétt vegna inndreginnar hæðar ofan á Langholtsveg 109-111 lúti að byggingartæknilegum atriðum og hafi ekkert með deiliskipulagið að gera. Hvergi sé í greinargerð skipulagsins talað um neonskilti heldur vísað í gildandi samþykkt um skilti í lögsögu Reykjavíkur frá 1996. Loks sé fjöldi bílastæða í samræmi við þær kröfur sem giltu á þeim tíma sem hér um ræði.

Breytingar sem gerðar hafi verið eftir að skipulagstillagan hafi verið auglýst hafi miðað að því að koma til móts við athugasemdir kæranda auk þess sem þær breytingar hafi ekki áhrif á lögvarða hagsmuni hans. Hvað byggingarreit á baklóð Langholtsvegar 113 varði sé það misskilningur hjá kæranda að um sé að ræða breytingu frá upphaflegri tillögu. Í henni hafi umrædd bygging verið auðkennd sem „núverandi bygging“ og í texta greinargerðar tekið fram að gerð sé krafa um að teikningar að óskráðum óleyfisbyggingum á lóðinni verði lagðar inn til samþykktar. Tillagan hafi gert ráð fyrir umræddri byggingu og feli það ekki í sér neina efnisbreytingu þótt í skipulaginu sé sýndur byggingarreitur þar sem hún standi heldur sé það gert til áréttingar því að byggingin sé ósamþykkt þegar skipulagið sé gert. Sama eigi við um kvaðir um aðkomu. Þeirra sé getið í texta í tillögunni og því ekki um efnisbreytingu að ræða hvað þær varði. Samkvæmt 1. og 2. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga hafi verið heimilt að breyta skipulagstillögu við málsmeðferð, þó þannig að auglýsa þyrfti hana að nýju væri henni breytt í grundvallaratriðum. Ekki hafi verið um slíkt að ræða í hinu kærða tilviki og hafi Skipulagsstofnun ekki gert athugasemdir við birtingu auglýsingar um gildistöku skipulagsins.

Kvaðir um umferð séu bæði um lóðina nr. 4 við Drekavog að lóðinni Langholtsveg 113 og um þá lóð að Drekavogi 4. Komi þetta skýrt fram í greinargerð á uppdrætti skipulagsins og sé það í samræmi við ákv. 4. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga um að deiliskipulag skuli setja fram í greinargerð og á uppdrætti.

————————–

Aðilar hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu sem ekki verða rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Hið kærða deiliskipulag tekur til þegar byggðs reits þar sem ekki var í gildi deiliskipulag. Um er að ræða íbúðarsvæði samkvæmt þágildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024.
Deiliskipulagstillagan var auglýst í samræmi við 25. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Þær breytingar voru gerðar eftir kynningu tillögunnar að uppdráttur sem sýndi fyrri aðstæður á skipulagsreitnum var leiðréttur og á skipulagsuppdrátt var markaður byggingarreitur þar sem sýnd hafði verið óleyfisbygging á baklóð hússins að Langholtsvegi 113 í hinni kynntu tillögu. Jafnframt var hætt við að rúnna af eitt horn lóðarinnar nr. 109-111 við Langholtsveg, kvöð var sett um gróður á mörkum lóðarinnar og kveðið á um að ekki væri heimilt að útbúa íbúð í húsi á þeirri lóð. Þá var vísað í samþykkt um skilti í lögsögu Reykjavíkur í stað ákvæðis í tillögu um að ekki yrði leyft að setja upp neonskilti á hús. Loks var bætt við ákvæði um að óheimilt væri að fjölga íbúðum í húsinu að Langholtsvegi 113 og tilgreint að verið væri að festa í sessi íbúðarbyggð að Drekavogi 4. Framangreindar breytingar verða ekki taldar verulegar og breyta ekki tillögunni í grundvallaratriðum. Var því ekki þörf á að kynna tillöguna að nýju samkvæmt 2. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga.
Bæja- og húsakönnun skv. 5. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga er gerð við skipulagningu þegar byggðra hverfa svo skipulagsyfirvöld geti haft hana til hliðsjónar við gerð skipulags, svo sem við ákvarðanatöku um verndun byggðamynsturs, friðun húsa eða um það hvaða mannvirki sem fyrir séu á skipulagssvæðinu megi víkja. Rétt hefði verið að fram færi bæja- og húsakönnun til að taka afstöðu til varðveislu mannvirkja, en þegar litið er til þess hvaða tilgangi slíkri könnun er ætlað að þjóna og þess að ekki var gert ráð fyrir að byggingar á svæðinu myndu víkja verður sá annmarki ekki talinn raska gildi deiliskipulagsins.
Í deiliskipulaginu er kvöð sem fyrir var um aðkomu frá lóðinni Drekavogi 4 að Langholtsvegi 113 gerð gagnkvæm og tekið fram að fyrir væri aðkoma um lóð Drekavogs 4 að leiksvæði austan við skipulagsreitinn. Eru þær kvaðir merktar inn á skipulagsuppdrátt í samræmi við gr. 5.4.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, sem kveður á um framsetningu deiliskipulagsuppdráttar. Þá er í greinargerð skipulagsins fjallað um aðkomu að Langholtsvegi 115 sem fyrir sé. Kvöð sú sem til varð með setningu skipulagsins kemur fram á uppdrætti og er skýrð í greinargerð þess.

Í 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga kemur fram að óheimilt sé að breyta skipulagi svæðis þar sem framkvæmt hefur verið í ósamræmi við skipulag fyrr en hin ólöglega bygging, eða byggingarhluti, hefur verið fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt. Samkvæmt ótvíræðu orðalagi ákvæðisins á það eingöngu við þegar gildandi deiliskipulagi er breytt en ekki þegar verið er að vinna nýtt deiliskipulag og því á framangreint ákvæði ekki við í máli þessu. Þá eiga ákvæði 56. gr. nefndra laga um skyldu til að fjarlægja byggingar fyrst og fremst við þegar þær hafa verið byggðar í andstöðu við gilt deiliskipulag, enda er í 5. mgr. 56. gr. gert ráð fyrir mati byggingaryfirvalda um það hvort óleyfisbygging skuli fjarlægð eða ekki. Því stóð fyrrnefnt lagaákvæði ekki í vegi fyrir að nýtt deiliskipulag væri samþykkt fyrir svæðið.

Í 7. mgr. gr. 3.1.4 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 og í gr. 64 í byggingarreglugerð nr. 441/1998, sem hér eiga við, er tekið fram að ákvæði um fjölda bílastæða skuli sett hverju sinni í deiliskipulag á grundvelli stefnu aðalskipulags. Jafnframt eru þar settar fram kröfur um lágmarksfjölda bílastæða miðað við stærð og notkun húsa, en fram kemur að unnt sé að víkja frá þeim kröfum í deiliskipulagi sé sýnt fram á að bílastæðaþörf sé minni eða unnt sé að uppfylla hana með öðrum hætti. Í greinargerð skipulagsins kemur fram um bílastæði á lóð Drekavogs 4: „Bílastæði á lóð eru tvö fyrir hverja íbúð stærri en 80 m², en eitt fyrir hverja íbúð minni en 80 m², minnst 32 stæði.“ Samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands um birta stærð íbúða að Drekavogi 4 þyrftu stæðin á lóðinni hins vegar að vera 40 svo kröfum reglugerðarákvæðanna um fjölda bílastæða yrði fullnægt. Samkvæmt skipulagsuppdrættinum verður eingöngu komið fyrir 32 stæðum á lóðinni og skortir á að sýnt hafi verið fram á að bílastæðaþörf sé minni en kveðið er á um í tilvitnaðri skipulagsreglugerð eða að unnt sé að uppfylla hana með öðrum hætti. Þá er heldur ekki uppfyllt skilyrði ákvæðis reglugerðarinnar um að íbúðarhús með sex íbúðum eða fleiri skuli hafa eitt gestastæði fyrir fatlaða.

Í ljósi þess að lóðinni Drekavogi 4, og fjölda bílastæða á henni, var ekki breytt með hinu kærða deiliskipulagi, og með hliðsjón af því að ekki er aukinn byggingarréttur á lóðinni og fjöldi íbúða óbreyttur, þykir greindur ágalli á framsetningu upplýsinga og ákvörðunar um fjölda bílastæða á lóðinni ekki slíkur að ógilda beri hið kærða deiliskipulag.

Þrátt fyrir framangreinda annmarka á hinni kærðu ákvörðun þykja þeir þó ekki það verulegir að fallist verði á kröfu um ógildingu hennar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og vegna tafa við gagnaöflun.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 16. október 2008 um að samþykkja deiliskipulag Langholtsvegar/Drekavogs.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________       _____________________________
Ásgeir Magnússon                                     Þorsteinn Þorsteinsson

 

57/2013 Egilsgata

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 24. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 57/2013, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 4. júní 2013 um að veita leyfi til að breyta húsnæði á lóð nr. 6 við Egilsgötu í þrjár stúdíóíbúðir á neðri hæð og eina íbúð á efri hæð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. júní 2013, sem barst nefndinni 29. s.m., kærir Þ, f.h. Ikan ehf., Egilsgötu 4, Borgarbyggð, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 4. júní 2013 að veita leyfi til að breyta húsnæði á lóð nr. 6 við Egilsgötu í þrjár stúdíóíbúðir á neðri hæð og eina íbúð á efri hæð.

Gögn málsins bárust frá Borgarbyggð 11. ágúst 2014 og 2. og 17. september 2015.

Málavextir: Á 60. afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Borgarbyggð 3. apríl 2013 var tekin fyrir umsókn frá 8. febrúar s.á., þar sem sótt var um leyfi til að breyta íbúðarhúsi og geymslu á lóð nr. 6 við Egilsgötu í þrjár stúdíóíbúðir á fyrstu hæð og eina íbúð á annarri hæð. Á fundinum var samþykkt að grenndarkynna fram lagða tillögu skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Með samhljóða bréfum umhverfis- og skipulagssviðs, dags. sama dag, var afgreiðsla byggingarfulltrúans kynnt fyrir lóðarhöfum nærliggjandi lóða og gefinn frestur til athugasemda til 3. maí s.á. Á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar 15. apríl s.á. voru lagðar fram til kynningar fundargerðir afgreiðslufunda byggingarfulltrúa nr. 58, 59, 60 og 61 og eftirfarandi bókað: „Málið kynnt.“ Var sú fundargerð samþykkt af sveitarstjórn á fundi hennar 18. s.m.

Á 65. afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 7. maí s.á. var lagt fram bréf kæranda, dags. 2. s.m., þar sem óskað var eftir frekari gögnum. Hinn 23. s.m. voru kæranda send frekari gögn er vörðuðu fram lagða tillögu og honum veittur frestur til 31. s.m. til þess að tjá sig frekar um tillöguna. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda innan frestsins, en hann mun hafa beiðst frekari frests með bréfi, dags. 3. júní s.á, sem sent var með tölvupósti að kvöldi þess dags.

Tillagan var tekin fyrir á ný á 69. afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 4. júní s.á. að aflokinni þeirri grenndarkynningu sem að framan er lýst. Var eftirfarandi bókað: „Í ljósi þess að ekki hafa komið athugasemdir við grenndarkynningu er samþykkt að gefa út byggingarleyfi.“ Sú afgreiðsla var lögð fram til kynningar á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar 7. s.m. og bókað á sama veg og áður: „Málið kynnt.“ Beindi kærandi bréfi, dags. 11. s.m., til sveitarstjórnar og óskaði þess að erindi hans yrði tekið fyrir á næsta fundi hennar. Í bréfinu krafðist kærandi þess að fá að koma að athugasemdum vegna grenndarkynningarinnar og hélt kærandi því fram í bréfinu að kynningin hefði ekki hlotið „… lögformlega umfjöllun eða afgreiðslu í umhverfis- og skipulagsnefnd Borgarbyggðar heldur aðeins kynningu“. Á fundi sveitarstjórnar 13. s.m. var fundargerð umhverfis- og skipulagsnefndar frá 7. júní 2015 samþykkt samhljóða, að undangenginni umræðu þar sem m.a. var greint frá bréfi kæranda.

Á fundi byggðarráðs 20. júní 2015 var áðurnefnt bréf kæranda frá 11. s.m. lagt fram og var bókað að grenndarkynning vegna breytinga á Egilsgötu 6 hefði verið framkvæmd með þeim hætti sem lög og reglugerðir gerðu ráð fyrir. Tekið var fram að engar athugasemdir hefðu borist innan þess frests sem gefinn hefði verið og ekki heldur eftir að hann hefði verið framlengdur og því hefði framkvæmdaleyfi verið gefið út. Framkvæmdaleyfið hefði verið staðfest á fundi sveitarstjórnar 13. s.m. Loks var bókað: „Byggðaráð telur því að málið sé fullafgreitt af hálfu sveitarfélagsins og gerir engar athugasemdir við vinnubrögð embættismanna Borgarbyggðar í málinu.“

Málsrök kæranda: Kærandi skírskotar til þess að um verulegar breytingar á fasteigninni að Egilsgötu 6 sé að ræða. Verið sé breyta einbýlishúsi í fjórar íbúðir. Aðgengi að íbúð efri hæðar hússins sé um stiga í eigu lóðarhafa Egilsgötu 4 og sé nánast að öllu leyti á þeirri lóð. Hvorki hafi verið samið um umferðarrétt né samningur þar um gerður milli eigenda Egilsgötu 4 og 6. Byggingarfulltrúa hafi mátt vera þetta kunnugt vegna eignaskiptayfirlýsingar fyrir Egilsgötu 4. Í gögnum greindrar grenndarkynningar hafi ekki verið að finna afstöðumynd með hnitum sem sýni lóðarmörk eða afstöðu á milli eigna á Egilsgötu 4 og 6.

Hafi bréf, dags. 23. maí 2013, ekki fullnægt kröfum um grenndarkynningu með svarfresti til 31. s.m. Hafi athugasemdafrestur verið of stuttur. Veita skuli hagsmunaaðilum að minnsta kosti fjögurra vikna frest. Sé eðlilegt að líta svo á að ákvæðið gangi út frá því að veittar séu fullnægjandi upplýsingar, líkt og mælt sé fyrir um í gr. 5.9.7. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Kærandi hafi óskað eftir frekari gögnum þar sem upplýsingar um afstöðumynd og bílastæði hafi ekki verið fullnægjandi. Þau gögn sem síðar hafi borist hafi ekki fullnægt kröfum skipulagsreglugerðar. Hefði átt að veita fjögurra vikna lágmarksfrest frá 23. maí, þegar kærandi hafi beðið um frekari gögn, þar sem bæjaryfirvöld hafi viðurkennt að gögn hafi verið ófullnægjandi í grenndarkynningu.

Brotið hafi verið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar. Til þess að mál teljist nægjanlega upplýst þurfi að afla nauðsynlegra upplýsinga um málsatvik. Tengist rannsóknarreglan náið andmælareglunni og stundum verði mál ekki nægilega upplýst nema aðila hafi verið gefinn kostur á að kynna sér gögn og koma að athugasemdum. Þá beri stjórnvaldi að leiðbeina þeim aðila sem gert sé að skila inn upplýsingum og láta vita ef þær séu ekki fullnægjandi.

Málsrök Borgarbyggðar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að sú starfsemi sem fyrirhuguð sé í húsinu samræmist landnotkun svæðisins, líkt og hún sé skilgreind í Aðalskipulagi Borgarbyggðar 2010-2022, en um sé að ræða svokallaða blandaða landnotkun fyrir íbúðarbyggð, þjónustustofnanir, verslun og þjónustu.

Hinn 3. apríl 2013 hafi verið samþykkt að setja málið í grenndarkynningu skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og hafi málið verið kynnt lóðarhöfum aðliggjandi lóða þar sem fyrirhuguð breyting hafi verið í byggðu hverfi. Með grenndarkynningu hafi fylgt afrit af framlögðum teikningum, þ.e. grunnmynd, snið, útlitsteikningar og afstöðumynd. Frestur til að skila inn athugasemdum hafi verið gefinn til 3. maí 2013. Með bréfi, dags. 2. maí s.á., hafi kærandi óskað eftir ítarlegri gögnum um málið, með vísan til skipulagsreglugerðar, til að hann gæti tekið afstöðu til málsins. Í kjölfarið hafi honum verið send afrit af deiliskipulagi gamla miðbæjarins, afstöðumynd úr skjalasafni byggingarfulltrúa, sem sýni afstöðu húsa í nágrenni við Egilsgötu 6, og bréf frá leyfishafa, þar sem upplýst hafi verið að fyrirhugað væri að leigja húsið út til lengri eða skemmri tíma. Vegna óska kæranda um frekari gögn hafi honum verið gefinn lengri tími til að gera skriflegar athugasemdir við fyrirhugaðar framkvæmdir áður en málið yrði endanlega afgreitt frá byggingarfulltrúa, eða til föstudagsins 31. maí 2013. Hafi engar frekari athugasemdir borist frá kæranda og erindið því verið tekið fyrir á vikulegum afgreiðslufundi byggingarfulltrúa og málið afgreitt.

Málsrök leyfishafa: Leyfishafi bendir á að fyrirhugaðar lagfæringar og breytingar á húsinu við Egilsgötu 6 hafi verið kynntar kæranda um miðjan marsmánuð 2013. Hafi honum þá verið afhentar teikningar hússins og haft þær til skoðunar í hálfan mánuð. Í framhaldi hafi kærandi neitað að árita teikningar að fyrirhuguðum breytingum til samþykkis. Í enda marsmánaðar hafi breytingin verið sett í grenndarkynningu. Í umræddum breytingum felist aðallega að verslunarrými á jarðhæð sé breytt í stúdíóíbúðir. Í aðalskipulagi fyrir svæðið sé gert ráð fyrir blandaðri byggð íbúða og atvinnuhúsnæðis. Hafi verið heimild fyrir verslunarrekstri í húsinu. Engar stórvægilegar breytingar séu gerðar á ytra byrði hússins utan þess að útidyrum sé bætt við á þá hlið sem snúi að götu. Að öðru leyti hafi húsið einungis verið lagfært að utan, enda verulega farið að láta á sjá, og flokkist lagfæringarnar því sem eðlilegt viðhald.

Þá sé bent á að leyfishafi sé ekki aðili að eignaskiptayfirlýsingu sem gerð hafi verið 3. apríl 2013 og geti því ekki talist bundinn af henni. Verði að skoða lögmæti þess hvort umræddur eignaskiptasamningur taki til alls stigans í því samhengi að aðilar samningsins séu eigendur þess sem um sé samið. Fullyrðingu kæranda um eignarhald hans og full yfirráð yfir greindum stiga sé því vísað á bug. Stiginn hafi ávallt fylgt Egilsgötu 6 að hálfu.

Löng hefð sé fyrir atvinnustarfsemi á svæðinu í samræmi við aðalskipulag. Af svæðinu og nærliggjandi götum hafi horfið á brott starfsemi, s.s. Kaupfélag Borgfirðinga, Póstur og sími og Sparisjóður Mýrarsýslu, ásamt smærri verslunum og þjónustu. Því sé nóg af bílastæðum í eigu sveitarfélagsins á svæðinu til að þjóna þeim íbúðum sem þar séu. Breytingar á atvinnustarfsemi að Egilsgötu 6 skapi því engan vanda hvað varði bílastæði. Þá sé bent á að á ofanverðri lóð Egilsgötu 6 séu tvö bílastæði sem tilheyri þeirri lóð og muni þau nýtast íbúum hússins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um veitingu byggingarleyfis vegna breytinga á húsinu að Egilsgötu 6.

Byggingarfulltrúum viðkomandi sveitarfélaga er veitt vald til tiltekinna leyfisveitinga með lögum nr. 160/2010 um mannvirki. Þá er sveitarstjórnum falið skipulagsvald samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010 og er náið samspil milli laganna tveggja.

Ekkert deiliskipulag er í gildi fyrir það svæði þar sem fasteignin að Egilsgötu 6 er staðsett. Þegar svo háttar að sótt er um byggingarleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og ekkert deiliskipulag liggur fyrir skal skipulagsnefnd láta fara fram grenndarkynningu, sbr. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Kemur skýrt fram í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að skipulagslögum að grenndarkynnt skuli í slíkum tilvikum. Er því með ótvíræðum hætti lögð sú skylda á sveitarfélög að sjá til þess að grenndarkynning fari fram samkvæmt lögunum áður en leyfi er veitt til framkvæmda á ódeiliskipulögðu svæði. Gildir það þrátt fyrir að framkvæmd sé í samræmi við aðalskipulag. Í 2. mgr. 44. gr. er nánar fjallað um framkvæmd grenndarkynningar og segir að hún felist í því að skipulagsnefnd kynni nágrönnum, sem taldir séu geta átt hagsmuna að gæta, leyfisumsókn og gefi þeim kost á að tjá sig um hana innan tilskilins frests. Segir jafnframt að þegar sveitarstjórn hafi afgreitt málið skuli þeim sem tjáðu sig um það tilkynnt niðurstaða sveitarstjórnar. Er það því í höndum skipulagsnefndar hvers sveitarfélags að taka ákvörðun um grenndarkynningu og sjá um framkvæmd hennar og þarf síðan samþykki sveitarstjórnar til, að liðnum fresti til athugasemda. Fyrr er byggingarfulltrúa ekki heimilt að veita byggingarleyfi á ódeiliskipulögðu svæði.

Eins og nánar er lýst í málavöxtum er ljóst að ákvörðun um grenndarkynningu var tekin af byggingarfulltrúa. Sú ákvörðun var kynnt fyrir umhverfis- og skipulagsnefnd og var bókað að málið hefði verið kynnt. Ekki er hægt að fallast á að í því hafi falist ákvörðun skipulagsnefndar skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga um að grenndarkynning skuli fara fram, enda felur kynning á máli fyrir stjórnvaldi hvorki í sér afstöðu þess til samþykkis né synjunar. Að sama skapi verður ekki séð að sveitarstjórn hafi afgreitt málið skv. 2. mgr. 44. gr. að grenndarkynningu lokinni. Raunar hafði byggingarfulltrúi þegar samþykkt hið kærða byggingarleyfi áður en málið kom næst til kasta sveitarstjórnar, og þá í þeim búningi að sveitarstjórn samþykkti fundargerð umhverfis- og skipulagsnefndar, en í þeirri fundargerð var bókað að kynnt væri afgreiðsla byggingarfulltrúa á byggingarleyfi. Samkvæmt framansögðu var málsmeðferð og ákvörðunartaka vegna hins kærða byggingarleyfis ýmsum annmörkum háð. Með hliðsjón af þeirri verkaskiptingu byggingar- og skipulagsyfirvalda sem löggjafinn hefur ákveðið verður að telja þá annmarka svo verulega að ekki verði hjá því komist að fella leyfið úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og vegna tafa við gagnaöflun.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 4. júní 2013 um að veita leyfi til að breyta húsnæði á lóð nr. 6 við Egilsgötu í þrjár stúdíóíbúðir á neðri hæð og eina íbúð á efri hæð.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

26/2014 Númerslaus bifreið

Með
Árið 2015, þriðjudaginn 15. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 26/2014, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar um að skylda eiganda bifreiðar með fastanúmer PI-563 að fjarlægja hana innan tiltekins frests ellegar sæta förgun hennar eða vörslutekt.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. apríl 2014, er barst nefndinni sama dag, kærir O, Guðrúnargötu 6, Reykjavík, þá ákvörðun umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar frá 27. mars 2014 að skylda eiganda bifreiðar með fastanúmer PI-563 að fjarlægja hana innan tiltekins frests ellegar verði henni fargað eða hún tekin í vörslu. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að auki er þess krafist að framkvæmd á ákvörðun Reykjavíkurborgar verði stöðvuð til bráðabirgða. Stöðvunarkröfu kæranda var hafnað með úrskurði uppkveðnum 23. apríl 2014.

Gögn málsins bárust frá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkur 15. apríl 2014.

Málavextir: Hinn 27. mars 2014 var af hálfu umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar límd tilkynning á númerslausa bifreið kæranda af gerðinni VW Golf með fastanúmerið PI-563. Í tilkynningunni voru fyrirmæli um að fjarlægja bifreiðina með vísan til ákvæða 21. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti, 4. mgr. 16. gr. reglugerðar nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs og laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, með síðari breytingum. Kom fram í tilkynningunni að eiganda bifreiðarinnar væri veittur frestur til 7. apríl s.á. til að fjarlægja hana og tekið fram að henni yrði fargað að loknum þeim fresti eða hún tekin í vörslu í 45 daga. Að þeim tíma liðnum yrði henni fargað eða hún seld nauðungarsölu. Þá kom fram að kostnaður vegna þessara aðgerða skyldi greiðast af eiganda/forráðamanni. Með bréfi, dags. sama dag og fresturinn rann út, komu fram andmæli af hálfu kæranda, sem krafðist þess að hætt yrði við boðaðar aðgerðir eða að veittur yrði viðbótarfrestur í 30 daga. Var honum veittur viðbótarfrestur í tvo daga með tölvubréfi. Mun bifreið kæranda hafa verið fjarlægð í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndarinnar þar sem kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar var hafnað.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að hann hafi verið eigandi bifreiðar þeirrar er um ræði í áratug. Hún hafi verið tekin af númerum í lok árs 2013 vegna tryggingakostnaðar en vegna væntanlegrar sölu hafi hún verið færð í bílastæði á horni Guðrúnargötu og Rauðarárstígs, skammt frá heimili kæranda. Mörg bílastæði séu á þessu svæði og hafi þau ekki verið öll í notkun á sama tíma. Engar kvartanir hafi borist vegna bifreiðarinnar og hafi hún verið undir stöðugu eftirliti þar sem hún hafi verið skammt frá heimili kæranda.

Ekkert hafi bannað stöðu bifreiðarinnar í því bílastæði sem hún hafi staðið. Hún sé ógangfær og eina leiðin til að fjarlægja hana hafi verið að færa hana í annað bílastæði. Lagaskilyrði fyrir hinni kærðu ákvörðun hafi ekki verið uppfyllt auk þess sem málsmeðferð Reykjavíkurborgar standist ekki stjórnsýslulög nr. 37/1993. Kveðið sé á um heimild, en ekki skyldu, heilbrigðisnefndar til að láta fjarlægja númerslausar bifreiðar í 21. gr. reglugerðar nr. 941/2002. Bifreiðin hafi verið undir stöðugu eftirliti kæranda og þess gætt að hún væri ekki fyrir nokkrum manni, lögaðila eða opinberum aðilum. Hún gæti ekki talist bílflak og engin sjónmengun væri af henni. Engin sjónarmið hafi réttlætt það að borgin tæki bifreiðina úr vörslum kæranda frekar en aðrar bifreiðar sem lagt hefði verið á sama svæði, þótt hún hefðii verið tímabundið án númera.

Túlka verði ákvæði reglugerða nr. 941/2002 og 737/2003 í samhengi við markmið þeirra og laga nr. 7/1998, um að draga úr myndun úrgangs, stuðla að framkvæmd hollustuverndar, búa landsmönnum heilnæm lífsskilyrði og vernda þau gildi sem felist í heilnæmu og ómenguðu umhverfi. Bifreið kæranda hafi hvorki valdið mengun né skerðingu á heilnæmum lífsskilyrðum. Jafnframt veiti 21. gr. reglugerðar nr. 941/2002 ekki heimild til að fjarlægja númerslausa bifreið úr bílastæði þar sem ákvæðið taki til hreinlætis á lóðum og opnum svæðum. Bílastæði geti ekki talist falla undir þau hugtök. Þá efist kærandi um lagastoð fyrrgreindra reglugerðarákvæða, sem heimili án skýrra lagaheimilda að gengið sé á stjórnarskrárvarinn eignarrétt, þ.m.t. umráðarétt, bifreiðareiganda, með því að fjarlægja bifreið af almennu bílastæði. Reglugerð um hollustuhætti nr. 941/2002 sé sett með stoð í 4. gr. laga nr. 7/1998, þar sem segi að til þess að stuðla að framkvæmd hollustuverndar setji ráðherra í reglugerð almenn ákvæði um m.a. „umgengni og þrifnað utanhúss“ (2. tölul.) og „önnur sambærileg atriði“ (23. tölul). Samkvæmt 5. gr. laganna setji ráðherra, til þess að stuðla að framkvæmd mengunarvarnareftirlits, í reglugerð almenn ákvæði um m.a. „önnur sambærileg atriði“ (19. tölul.). Ekkert í þessum lagagreinum eða öðrum ákvæðum laga nr. 7/1998 mæli fyrir um heimildir framkvæmdarvaldsins til að færa númerslausar bifreiðar úr vörslum eigenda þeirra og gangi ákvæði 21. gr. reglugerðar nr. 941/2002 og 4. mgr. 16. gr. reglugerðar nr. 737/2003 lengra en löggjafinn hafi heimilað. Verði talið að reglugerðarákvæðin rúmist innan heimilda laganna þá sé um of víðtækt framsal lagasetningarvalds til framkvæmdavalds að ræða.

Samkvæmt lögum nr. 7/1998 og fyrrnefndum reglugerðarákvæðum þá sé það heilbrigðisnefnd Reykjavíkurborgar sem eigi að framfylgja nefndum ákvæðum. Umhverfis- og skipulagssvið borgarinnar hafi enga heimild eða umboð til að beita því valdi sem þar sé veitt og hafi því rangt stjórnvald tekið hina kærðu ákvörðun.

Loks hafi málsmeðferð Reykjavíkurborgar ekki verið í samræmi við stjórnsýslulög nr. 37/1993. Hver og einn annmarki eigi að valda því að ákvörðunin verði felld úr gildi. Brotnar hafi verið reglur um meðalhóf, sbr. 12. laga nr. 37/1993, reglur um skyldubundið mat stjórnvalds og rannsóknarskyldu, sbr. 10. gr. laganna, regla um andmælarétt, sbr. 13. gr., og íþyngjandi ákvörðun hafi verið tekin án nokkurs rökstuðnings. Loks hafi verið brotið gegn leiðbeiningarskyldu skv. 7. gr. stjórnsýslulaga þar sem tilkynning kærða sem límd hafi verið á bifreiðina sé öll hin óskýrasta og þrátt fyrir að bent sé á kæruleið til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála þá sé ekki bent á heimild 5. gr. laga nr. 130/2011 um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða.

Málsrök umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkur: Af hálfu Reykjavíkurborgar er bent á að bifreiðin hafi verið á stæði í eigu borgarinnar sem ekki sé ætlast til að nýtt sé sem geymslusvæði fyrir lausafé einstaklinga. Bílastæðin séu hugsuð öllum borgurum til afnota undir bifreiðar sem hafi skráningarnúmer.  Af hálfu borgarinnar sé ekki gerð athugasemd við það að kærandi nýti almenn bílastæði fyrir bifreið sína svo framarlega sem hún sé með skráningarmerki. Ákvörðun um að fjarlægja bifreiðina að undangenginni tilkynningu eigi sér stuðning í 21. gr. reglugerðar um hollustuhætti, nr. 941/2002, sbr. 4. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Í 21. gr. hollustureglugerðarinnar komi fram að heilbrigðisnefnd sé heimilt að láta fjarlægja númerslausar bifreiðar, bílflök og sambærilega hluti á almannafæri að undangenginni viðvörun, svo sem með álímingarmiða með aðvörunarorðum. Þetta ákvæði þarfnist ekki frekari skýringa við, þar sem ljóst sé hver merking þess sé. Einu skilyrðin til beitingar ákvæðisins séu þau að bifreið sé númerslaus og að hún sé á almannafæri. Óhætt sé að fullyrða að samkvæmt almennri málvenju sé hugtakið almannafæri skilgreint sem svæði sem allur almenningur eigi för um. Utan hugtaksins falli lóðir og einkalönd, sem heimilt sé að takmarka umferð um. Ljóst sé að almennt bílastæði falli undir skilgreininguna „á almannafæri“.

Mótmælt sé þeirri fullyrðingu kæranda að með setningu 21. gr. reglugerðar nr. 941/2002 hafi framkvæmdarvaldið gengið lengra en heimilt sé skv. 4. gr. laga nr. 7/1998, þar sem í ákvæðinu sé einungis heimild til að setja reglugerðarákvæði um almenna umgengni utanhúss. Reglugerðarheimildin feli framkvæmdarvaldinu að útfæra nánar hvernig markmiðum og tilgangi laganna verði náð með sem bestum hætti og það sé í fullu samræmi við þau markmið sem fram komi í 1. gr. laganna að heimila heilbrigðisnefnd að fjarlægja númerslausar bifreiðar svo tryggja megi ómengað umhverfi í víðu samhengi. Varðandi meinta skerðingu á eignarrétti kæranda með því að fjarlægja bifreiðina úr hans umráðum sé ljóst að kæranda hafi verið í lófa lagið að flytja bifreiðina af bílastæði í eigu Reykjavíkurborgar á svæði sem ætlað sé til geymslu á lausafé. Vegna brots kæranda á ákvæðinu í 21. gr. reglugerðar nr. 941/2002 hafi Reykjavíkurborg neyðst til að skerða umráðarétt hans.

Umboð umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar til að fara með vald það sem heilbrigðisnefnd Reykjavíkurborgar sé falið með 21. gr. reglugerðarinnar hafi verið samþykkt á 73. fundi heilbrigðisnefndarinnar, sem haldinn hafi verið 11. febrúar 2014.

Málsmeðferðarreglna stjórnsýsluréttar hafi verið gætt við meðferð málsins. Farið hafi verið eftir skýrri kröfu 21. gr. reglugerðar nr. 941/2002, sem kveði á um að líma skuli aðvörunarmiða á númerslausa bifreið sem fjarlægja eigi og með því móti gefa umráðamanni tækifæri til að fjarlægja bifreiðina áður en til aðgerða komi. Með þessu sé meðalhófs gætt þar sem 10 daga frestur sé veittur og tveir dagar til viðbótar sé farið fram á það. Þetta sé í samræmi við vinnureglur umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar. Einnig hafi kærandi haft tækifæri til að andmæla ákvörðuninni, enda hafi hann verið í tölvupóstsamskiptum við starfsmann þann sem beri ábyrgð á eftirliti með númerslausum bifreiðum í borgarlandi.
——-

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar að gera kæranda að fjarlægja númerslausa bifreið sína af almenningsbílastæði, að viðlagðri förgun eða vörslutekt bifreiðarinnar.

Lög nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir hafa það að markmiði að búa landsmönnum heilnæm lífsskilyrði og vernda þau gildi sem felast í heilnæmu og ómenguðu umhverfi, sbr. 1. gr. laganna. Landinu er skipt í eftirlitssvæði og skal heilbrigðisnefnd, kosin eftir hverjar sveitarstjórnarkosningar, starfa á hverju svæði, sbr. 1. og 2. mgr. 11. gr. sömu laga. Heilbrigðisnefnd ber að sjá um að framfylgt sé ákvæðum laganna og reglugerða settra samkvæmt þeim, samþykktum sveitarfélaga og ákvæðum í sérstökum lögum eða reglum sem nefndinni er eða kann að vera falið að annast um framkvæmd á, sbr. 13. gr. laganna. Samkvæmt 15. gr. laganna ráða heilbrigðisnefndir á hverju svæði heilbrigðisfulltrúa til að annast eftirlit sveitarfélaganna með þeim viðfangsefnum sem undir lögin falla. Ef heilbrigðisfulltrúarnir eru tveir eða fleiri skal einn úr hópi þeirra jafnframt ráðinn framkvæmdarstjóri eftirlitsins. Heilbrigðisfulltrúar starfa í umboði heilbrigðisnefndar.

Ákvæði um valdsvið og þvingunarúrræði eru í VI. kafla laganna. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. geta heilbrigðisnefnd og heilbrigðisfulltrúi beitt eftirfarandi aðgerðum til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt lögunum og reglugerðum settum með stoð í þeim: 1. veitt áminningu, 2. veitt áminningu og tilhlýðilegan frest til úrbóta eða 3. stöðvað eða takmarkað viðkomandi starfsemi eða notkun, þar með lagt hald á vörur og fyrirskipað förgun þeirra. Samkvæmt 2. mgr. skal aðeins beita síðastnefnda úrræðinu í alvarlegri tilvikum eða við ítrekuð brot eða ef aðilar sinna ekki úrbótum innan tiltekins frests og er heimilt að leita aðstoðar lögreglu ef með þarf. Samkvæmt framangreindu er ljóst að heilbrigðisnefndir og heilbrigðisfulltrúar eða heilbrigðiseftirlit hafa lagaheimildir fyrir þvingunaraðgerðum, sem m.a. fela í sér haldlagningu á lausamunum og förgun þeirra vegna brota á lögum nr. 7/1998 eða reglugerðum settum með stoð í þeim.

Reglugerð nr. 941/2002 um hollustuhætti hefur verið sett með heimild í 4. gr. laga nr. 7/1998 og reglugerð nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs hefur verið sett með heimild í 4. og 5. gr. sömu laga og núverandi 43. gr., áður 13. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Heimildir til að láta fjarlægja númerslausar bifreiðar og bílflök er að finna í ákvæðum 21. gr. reglugerðar um hollustuhætti og 16. gr. reglugerðar um meðhöndlun úrgangs. Í nefndri 21. gr. er að finna heimild heilbrigðisnefndar til að láta fjarlægja lausamuni, númerslausar bifreiðar, bílflök og sambærilega hluti á almannafæri að undangenginni viðvörun, svo sem með álímingarmiða með aðvörunarorðum. Í áðurnefndri 16. gr. er fjallað um almennan þrifnað utanhúss og segir þar m.a. að heilbrigðisnefnd sé heimilt að láta fjarlægja númerslausar bifreiðar og bílflök og sambærilega hluti að undangenginni viðvörun.

Á eftirlitssvæði Reykjavíkur er Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur starfrækt og starfar það í umboði heilbrigðisnefndar borgarinnar skv. lögum nr. 7/1998, sbr. þau lagaákvæði sem áður eru rakin, og fer jafnframt með þvingunarvald það sem heilbrigðisnefndum er veitt skv. VI. kafla laganna. Mun heilbrigðiseftirlitið vera staðsett skipulagslega innan umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkur, nánar tiltekið innan skrifstofu umhverfisgæða, en fleiri skrifstofur er að finna innan nefnds sviðs. Kemur fram á upplýsingavef Reykjavíkurborgar að heilbrigðiseftirlitið „…hafi engu að síður sjálfstæði í starfi eins og lög gera ráð fyrir,“ sé með eigin framkvæmdastjóra og hlíti niðurstöðum heilbrigðisnefndar Reykjavíkur.

Fyrir liggur að miði sá sem límdur var á bifreið kæranda bar með sér að það hefði verið gert samkvæmt ákvörðun umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar samkvæmt umboði heilbrigðisnefndar Reykjavíkur. Á fundi þeirrar nefndar 11. febrúar 2014 var lagt fram og samþykkt umboð, dags. sama dag, þess efnis að nefndin veitti umhverfis- og skipulagssviði borgarinnar „…fullt og ótakmarkað umboð til þess að sinna lögbundnum skyldum sem heilbrigðisnefndum eru falin skv. 21. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti ásamt síðari breytingum og 4. mgr. 16. gr. reglugerðar nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs, ásamt síðari breytingum. Þær skyldur sem hér er vísað til er að hafa eftirlit með að númerslausar bifreiðar og bílflök sem og sambærilegir hlutir sem eru á almannafæri (þar með talið borgarlandi) séu fjarlægðir að undangenginni viðvörun sbr. vinnuleiðbeiningar VEL-021.“

Samkvæmt framangreindu umboði heilbrigðisnefndar Reykjavíkur framselur nefndin umhverfis- og skipulagssviði borgarinnar lögbundið vald sitt til fullnaðarákvörðunar er varðar nánar tiltekin mál er henni eru falin skv. ákvæðum laga nr. 7/1998 og reglugerðum sem settar eru með stoð í þeim, þ.e. vörslutekt og förgun lausafjár. Ákvörðunarvald það sem framselt var með nefndu umboði er til beitingar þvingunarúrræða skv. 26. gr. laga nr. 7/1998. Heimildin er fyrir vörslusviptingu og eftir atvikum förgun á eignum borgaranna, sem er afar íþyngjandi aðgerð. Mikilvægt er að slíkar valdheimildir séu skýrar og sama máli gegnir um heimildir til framsals slíkra heimilda og hvernig að því er staðið. Eins og áður er rakið er það bundið í lög nr. 7/1998 hvert hlutverk og hverjar heimildir heilbrigðisnefndar séu og skv. skýru ákvæði 15. gr. laganna er það heilbrigðisfulltrúi eða heilbrigðiseftirlit sem skal fara með það vald í umboði nefndarinnar. Engar heimildir eru í lögunum fyrir heilbrigðisnefnd til að framselja vald sitt öðru stjórnvaldi eða stjórnsýslueiningu sveitarfélags, þrátt fyrir að fyrir liggi að heilbrigðiseftirlit sé staðsett innan þeirrar einingar. Er rétt að árétta í þessu sambandi að í 1. mgr. 32. gr. laga nr. 7/1998 er gert ráð fyrir því að ráðherra úrskurði vegna ágreinings milli heilbrigðisnefnda og sveitarstjórna um framkvæmd laganna og að í athugasemdum með ákvæðinu í frumvarpi því sem varð að lögunum er tekið fram að hafa verði í huga að heilbrigðisnefndir séu ekki settar undir vald sveitarstjórna í ákvörðunum sínum. Er því alveg ljóst að heilbrigðisnefnd er sjálfstæð í störfum sínum, ólíkt þeim fastanefndum sveitarfélags sem sækja umboð sitt frá sveitarstjórn.

Samkvæmt framangreindu skorti heilbrigðisnefnd Reykjavíkur heimild að lögum til að framselja umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkur vald sitt skv. lögum nr. 7/1998 og reglugerðum settum samkvæmt þeim, þ.m.t. 21. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti og 16. gr. reglugerðar nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs, og var umhverfis- og skipulagssvið þar með ekki bært að lögum til að taka hina kærðu ákvörðun. Verður með vísan til þessa ekki hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar um að skylda eiganda bifreiðar með fastanúmer PI-563 til að fjarlægja hana innan tiltekins frests ellegar sæta förgun hennar eða vörslutekt.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              ____________________________
                              Aðalheiður Jóhannsdóttir                                  Ásgeir Magnússon                                    

1/2014 Baldursgata

Með
Árið 2015, þriðjudaginn 22. september, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 1/2014, kæra á samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 4. desember 2013 um breytingu á deiliskipulagi staðgreinireits 1.186.3 vegna lóðanna nr. 32 og 34 við Baldursgötu í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. janúar 2014, er barst nefndinni 6. s.m., kærir K, Þórsgötu 18 a, þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 27. nóvember 2013, að samþykkja breytingu á deiliskipulagi staðgreinireits 1.186.3 vegna lóða nr. 32 og 34 við Baldursgötu í Reykjavík. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að samþykkt deiliskipulag frá 2008 haldi gildi sínu. Samkvæmt gögnum málsins mun rétt vera að umhverfis- og skipulagsráð tók afstöðu til breytingar á umræddu deiliskipulagi á fundi sínum 4. desember 2013, en ekki 27. nóvember s.á., og verður á því byggt í máli þessu.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 18. febrúar 2014 og á árinu 2015.

Málavextir: Árið 2009 tók gildi deiliskipulag fyrir staðgreinireit 1.186.3, svonefndan Baldursgötureit 1. Gerði skipulagið ráð fyrir að heimilt væri að fjarlægja byggingar að Baldursgötu 32 og 34 og reisa ný hús á lóðunum. Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa Reykjavíkur 4. október 2013 var tekin fyrir tillaga að breytingu á nefndu skipulagi. Fól breytingin m.a. í sér að mænishæð Baldursgötu 32 hækkaði um 60 cm frá núverandi mænishæð Freyjugötu 15 og hæð þakbrúnar um 15 cm yfir hæð núverandi þakbrúnar Freyjugötu 15. Jafnframt var gert ráð fyrir að hæð á þakbrún Baldursgötu 34 hækkaði um 100 cm og yrði því 130 cm hærri en núverandi hæð þakbrúnar Þórsgötu 14. Samþykkt var að grenndarkynna framlagða tillögu fyrir hagsmunaaðilum að Baldursgötu 33, Freyjugötu 15, 17 og 17a og Þórsgötu 12, 14, 16, 16a og 18. Bárust jákvæðar sem neikvæðar athugasemdir við breytinguna á kynningartíma tillögunnar.

Málið var tekið fyrir að nýju á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 8. nóvember s.á. og því vísað til umhverfis- og skipulagsráðs er tók það fyrir 4. desember s.á. Var umsóknin tekin til dagskrár undir lið A, skipulagsmál, og afgreidd þar með svohljóðandi bókun: „Samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa dags. 15. nóvember 2013.“ Fundargerð ráðsins var lögð fram á fundi borgarráðs 5. desember s.á. þar sem B-hluti hennar var samþykktur. Birtist auglýsing um gildistöku breytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda 20. desember 2013. 

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að húsið hafi ekki verið byggt í samræmi við samþykktar teikningar. Þegar ábending hafi borist til byggingarfulltrúa um að það væri stærra en heimild væri fyrir hafi framkvæmdaaðila látið vinna nýtt deiliskipulag sem gerði ráð fyrir stærra húsi. Hafi það því þegar verið risið í leyfisleysi þegar hið kærða deiliskipulag hafi verið samþykkt. Beri framkvæmdaaðilanum að leiðrétta á eigin kostnað þau mistök sem gerð hafi verið. Jafnframt telji kærandi að skipulagsyfirvöld hafi ekki beitt eðlilegum stjórnsýsluháttum við afgreiðslu málsins. Rýri byggingin verðgildi annarra eigna á reitnum og hafi neikvæð áhrif á nánasta umhverfi.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Sveitarfélagið bendir á að hin kærða breyting hafi verið gerð til að koma til móts við skekkju er orðið hafi við gerð uppdrátta af Baldursgötu 32. Séu breytingarnar svo óverulegar, t.d. varðandi skuggavarp og útsýni, að þær rýri hvorki umhverfisgæði né raski svo nokkru nemi grenndarhagsmunum kæranda. Ekki valdi það heldur ógildi þó þær hafi verið framkvæmdar áður en í ljós kom að húsið væri of hátt. Vegi hagsmunir lóðarhafa af því að fá húsin í löglegt horf með deiliskipulagsbreytingunni mun þyngra en óljósir og óverulegir grenndarhagsmunir kæranda. 

Athugasemdir lóðarhafa: Lóðarhafi tekur fram að eftir að húsið að Baldursgötu 32 hafi að mestu verið risið og sperrur komnar upp hafi komið í ljós að samþykktar teikningar, og þar með húsið, hafi reynst vera 50 cm hærri en heimilt væri samkvæmt gildandi deiliskipulagi. Tekið sé undir sjónarmið borgarinnar um áhrif breytinganna. Sé breyting á Baldursgötu 32 það lítil að hún sjáist varla frá götunni og skerði á engan hátt útsýni frá Freyjugöturóló og frá íbúðum við Freyjugötu og Þórsgötu. Þá falli hækkun þakbrúnar á Baldursgötu 34 að byggðamynstri reitsins. Unnið hafi verið skuggavarp fyrir umþrættan reit sem sýni enga aukningu skugga á sumarsólstöðum og nánast enga breytingu á skugga á jafndægrum, en eigendur þeirra húsa sem skuggi falli á hafi samþykkt breytinguna. Hafi mun fleiri hagsmunaaðilar lagt fram samþykki sitt fyrir breytingunum en andmælt þeim.

Lóðarhafi hafi alla tíð verið í góðri trú varðandi umræddar framkvæmdir og að samþykktar teikningar væru í samræmi við gildandi deiliskipulag, enda hafi hann mátt ætla að Reykjavíkurborg hafi staðreynt að svo væri. Séu fullyrðingar kæranda um áhrif breytinganna órökstuddar. Gangi meiri hagsmunir framar minni hagsmunum.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs frá 4. desember 2013 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi svonefnds Baldursgötureits 1.
 
Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 annast sveitarstjórnir m.a. gerð svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlana. Fara skipulagsnefndir með skipulagsmál undir yfirstjórn sveitarstjórna skv. 2. mgr. 6. gr. sömu laga og er sveitarstjórn heimilt í samþykkt sveitarfélagsins að fela skipulagsnefnd eða öðrum aðilum innan stjórnsýslu sveitarfélagsins heimild til fullnaðarafgreiðslu mála samkvæmt lögunum, svo sem afgreiðslu deiliskipulagsáætlana. Er vísað til sveitarstjórnarlaga um þetta atriði, sem nú eru lög nr. 138/2011. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að skipulagslögum segir um 2. mgr. 6. gr. að þar séu lagðar til breytingar til samræmis við ákvæði sveitarstjórnarlaga sem heimili að fela nefndum sveitarfélags fullnaðarafgreiðslu mála sem ekki varði verulega fjárhag sveitarfélagsins. Lagt sé til að sveitarstjórn sé heimilt í samþykkt sveitarfélagsins að vísa afgreiðslum til skipulagsnefnda. Er tekið fram í athugasemdunum að í slíkum samþykktum „… yrði að kveða á með skýrum hætti um hvað fælist í fullnaðarafgreiðslu mála hjá skipulagsnefnd, svo sem kynningu gagnvart sveitarstjórn, og hvort afstaða sveitarstjórnar þurfi að liggja fyrir á einhverju stigi mála“. Skulu sveitarstjórnir skv. 1. mgr. 9. gr. sveitarstjórnarlaga gera sérstaka samþykkt um stjórn og stjórnsýslu sveitarfélagsins og um meðferð þeirra málefna sem sveitarfélagið annast. Skal slík samþykkt send ráðuneytinu til staðfestingar.

Sveitarstjórn ákveður valdsvið nefnda, ráða og stjórna sem hún kýs nema slíkt sé ákveðið í lögum, sbr. 1. mgr. 40. gr. sveitarstjórnalaga. Hafi nefnd ekki verið falin fullnaðarafgreiðsla máls samkvæmt lögum eða samþykkt um stjórn sveitarfélagins teljast ályktanir hennar tillögur til sveitarstjórnar enda þótt þær séu orðaðar sem ákvarðanir eða samþykktir nefndar, sbr. 2. mgr. 40. gr. Kveðið er á um framsal sveitarstjórnar á valdi til fullnaðarafgreiðslu mála í 42. gr. laganna. Segir í 1. mgr. að í því skyni að stuðla að hagræðingu, skilvirkni og hraðari málsmeðferð geti sveitarstjórn ákveðið í samþykkt um stjórn sveitarfélagins að fela fastanefnd fullnaðarafgreiðslu einstakra mála sem ekki varði verulega fjárhag sveitarfélagsins, nema lög eða eðli máls mæli sérstaklega gegn því. Þá er tekið fram í 4. mgr. að þegar sveitarstjórn nýti sér heimild skv. 1. mgr. skuli jafnframt kveða á um það í samþykkt sveitarfélagsins hver skuli taka fullnaðarákvörðun í máli skv. 3. mgr. og hvernig skuli fara með endurupptöku mála sem hljóti afgreiðslu samkvæmt þessum ákvæðum.

Um V. kafla sveitarstjórnarlaga um nefndir, ráð og stjórnir segir í almennum athugasemdum með frumvarpi til laganna að í ljósi þess að sveitarstjórn fari með æðsta vald í málefnum sveitarfélagsins, og taki ákvarðanir um stjórn þess og stjórnskipulag innan ramma laga, sé í frumvarpinu lagt til grundvallar að stærstu ákvarðanir um málefni sveitarfélagsins geti aðeins sveitarstjórnin sjálf tekið. Sveitarfélög fari með mikla hagsmuni og ákvarðanir um málefni þeirra geti haft mikil áhrif á íbúa sveitarfélaganna og jafnvel á þjóðfélagið í heild sinni. Enn fremur segir að það sé í samræmi við þann lýðræðislega grundvöll sem kjör sveitarstjórnar byggist á að eiginlegt ákvörðunarvald um mikilvæg málefni sé í hennar höndum, en ekki undirnefnda hennar eða einstakra starfsmanna.

Samþykkt fyrir umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar var samþykkt af borgarstjórn 18. desember 2012 og í 12. gr. hennar er kveðið á um að umhverfis- og skipulagsráð afgreiði, án staðfestingar borgarráðs, nánar tilgreind verkefni skv. skipulagslögum samkvæmt heimild í 42. gr. sveitarstjórnarlaga og viðauka við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar. Ný samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, nr. 715/2013, var staðfest fyrir hönd innanríkisráðherra 8. júlí 2013 og öðlaðist gildi með birtingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 25. s.m. Frá sama tíma féll eldri samþykkt um sama efni, ásamt viðaukum, úr gildi. Í VI. kafla gildandi samþykktar er fjallað um fastanefndir, ráð og stjórnir, aðrar en borgarráð. Í 58. gr. samþykktarinnar er kveðið á um fullnaðarafgreiðslu og er orðalag greinarinnar áþekkt orðalagi 42. gr. sveitarstjórnarlaga. Segir nánar í 1. mgr. 58. gr. að borgarstjórn geti ákveðið með viðauka við samþykktina að fela nefnd, ráði eða stjórn á vegum Reykjavíkurborgar fullnaðarafgreiðslu mála og eru sett við því sömu skilyrði og er að finna í 1. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga. Slíkir viðaukar við samþykktina höfðu ekki verið samþykktir þegar hin kærða deiliskipulagsbreyting var samþykkt í umhverfis- og skipulagsráði 4. desember 2013.

Sveitarstjórnir fara með skipulagsvaldið samkvæmt skipulagslögum og er framsal þess valds undantekning frá greindri meginreglu. Heimild 1. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga til valdframsals innan sveitarfélaga er almenns eðlis en í 2. mgr. 6. gr. skipulagslaga er sveitarstjórn veitt sérstök heimild til framsals valds síns samkvæmt þeim lögum. Er ljóst af orðalagi ákvæðanna að valdframsal þetta fer fram í sérstakri samþykkt um stjórn og stjórnsýslu sveitarfélaga, en kveðið er á um slíkar samþykktir í 1. mgr. 9. gr. sveitarstjórnarlaga. Fer lögmætt valdframsal ekki fram með öðrum hætti á þessum lagagrundvelli. Með hliðsjón af athugasemdum með frumvörpum til nefndra laga sem að framan eru raktar þykir einnig ljóst að í slíkri samþykkt þurfi að koma fram efnislegt valdframsal. Nægir í því sambandi ekki að endurtaka í samþykkt orðalag lagaheimildar til valdframsals heldur verður að koma skýrt fram í samþykktinni sjálfri hvert það vald er sem framselt er og hverjum. Valdframsal borgarstjórnar til umhverfis- og skipulagsráðs í samþykkt um umhverfis- og skipulagsráð frá 18. desember 2012 var því ekki í samræmi við lög.

Samkvæmt framansögðu brast umhverfis- og skipulagsráð vald til að samþykkja umþrætta deiliskipulagsbreytingu og verður að líta svo á að í samþykkt hennar hafi falist tillaga til sveitarstjórnar um afgreiðslu, sbr. 2. mgr. 40. gr. sveitarstjórnarlaga. Eins og nánar er rakið í málavöxtum samþykkti umhverfis- og skipulagsráð hina umdeildu deiliskipulagsbreytingu undir lið A, skipulagsmál, svo sem fundargerð ráðsins frá 4. desember 2013 ber með sér, en borgarráð samþykkti B-hluta fundargerðarinnar á fundi sínum degi síðar. Þar sem ekki liggur fyrir að sveitarstjórn hafi komið að málinu er ekki fyrir hendi lokaákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar. Ber því að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir