Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

111/2015 Kötlunesvegur

Árið 2016, fimmtudaginn 9. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 111/2015, kæra á álagningu fráveitugjalda á fasteignina Kötlunesveg 3, Langanesbyggð, fastanúmer 217-0856, vegna áranna 2014 og 2015.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. desember 2015, er barst nefndinni 7. s.m., kæra S, á ákvarðanir Langanesbyggðar frá 26. febrúar 2014 og 8. febrúar 2015 um álagningu fráveitugjalda á fasteign þeirra Kötlunesveg 3, Langanesbyggð. Er þess krafist að ákvarðanirnar verði felldar úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Langanesbyggð 5. janúar 2016 og 30. og 31. mars s.á.

Málavextir: Kærendur eiga fasteignina Kötlunesveg 3 á Bakkafirði sem tilheyrir sveitarfélaginu Langanesbyggð. Sveitarfélagið lagði fráveitugjald á eignina fyrir árið 2014, kr. 10.418, og fyrir árið 2015, kr. 10.058. Kærendur kæra álagninguna á þeim forsendum að fasteignin sé ekki tengd fráveitukerfi sveitarfélagsins.

Málsrök kærenda: Kærendur kveða húsin í þorpinu við Bakkafjörð vera tengd sameiginlegri fráveitu að frátöldum húsum sem standi við Kötlunesveg. Þau hús hafi hvert um sig eigin fráveitulögn, sem lögð sé stystu leið frá viðkomandi húsi og fram á nærliggjandi sjávarbakka, eða niður fyrir hann þar sem aðstæður leyfi. Þetta eigi við um fasteign kærenda, sem standi við Kötlunesveg 3, en þeir hafi sjálfir þurft að annast og kosta lagfæringar á fráveitulögninni frá húsinu þegar upp hafi komið bilanir eða stíflur.

Þrátt fyrir framangreint krefjist sveitarfélagið þess að kærendur greiði fráveitugjald og haldi því fram að hús kærenda sé tengt fráveitukerfi sveitarfélagsins. Þessi staðhæfing sé röng og líti kærendur svo á að gjaldtakan sé óheimil skv. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna.

Málsrök Langanesbyggðar: Sveitarfélagið vísar til þess að lög nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna kveði á um einkarétt sveitarfélags til þess að koma á fót og reka fráveitu. Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laganna sé sveitarfélögum heimilt að innheimta fráveitugjald af öllum fasteignum sem tengdar séu eða muni tengjast fráveitu sveitarfélags. Langanesbyggð innheimti fráveitugjald af kærendum í samræmi við framangreint ákvæði þar sem fasteign þeirra að Kötlunesvegi 3 sé tengd fráveitukerfi sveitarfélagsins, hafi verið það um árabil og kærendur hafi greitt gjöld í samræmi við það án athugasemda um langa hríð.

Um sé að ræða lagnir sem lagðar hafi verið af Skeggjastaðahreppi á sínum tíma og tilheyri nú Langanesbyggð, eftir sameiningu Skeggjastaðahrepps og Þórshafnarhrepps. Þá liggi lagnirnar um land sem sé í eigu sveitarfélagsins og fullyrðingu kærenda um að fasteign þeirra sé tengd fráveitukerfi í eigu og umsjón kærenda sé mótmælt sem rangri og ósannaðri.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um réttmæti ákvörðunar Langanesbyggðar um að leggja fráveitugjald á fasteign kærenda að Kötlunesvegi 3, Langanesbyggð.

Kæruheimild til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er í 22. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna nr. 9/2009. Samkvæmt 22. gr. fer um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varðar kæru til úrskurðarnefndarinnar samkvæmt lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, nr. 130/2011. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. þeirra laga er kærufrestur í máli einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun.

Samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Í 2. mgr. ákvæðisins er þó tekið fram að kæra verði ekki tekin til meðferðar ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila. Samkvæmt gögnum málsins fór álagning fyrir árið 2014 fram 26. febrúar það ár. Kæra í málinu er dagsett 3. desember 2015 og var þá rúmlega 21 mánuður liðinn frá álagningu. Með vísan til 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga verður sá hluti kærunnar því ekki tekinn til efnismeðferðar og er honum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Álagning fyrir árið 2015 fór fram 8. febrúar það ár. Var því meira en mánuður liðinn frá álagningu þegar að kæra var lögð fram í málinu. Kærendum var þó ekki leiðbeint um kæruleið eða frest til að leggja fram kæru, eins og skylt er skv. 2. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Kærendur sendu sveitarfélaginu bréf, dags. 31. ágúst 2015, þar sem þeir fóru fram á leiðréttingu á fráveitu- og sorpgjöldum. Var það ekki fyrr en með svarbréfi Langanesbyggðar, dags. 4. nóvember s.á., sem kærendum var leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar. Þar sem kæra í málinu kom fram innan mánaðar eftir að kærendum var leiðbeint um kæruleið, eða 3. desember s.á., þykir sá hluti kærunnar er varðar álagningu fyrir árið 2015 vera tækur til efnismeðferðar.

Í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 9/2009 segir að sveitarfélag beri ábyrgð á uppbyggingu fráveitna í sveitarfélaginu. Í 2. mgr. segir að í þéttbýli skuli sveitarfélag koma á fót og starfrækja sameiginlega fráveitu. Samkvæmt 9. mgr. 4. gr. laga nr. 9/2009 skal sveitarfélag hafa einkarétt til að reka fráveitu þar sem skylt er skv. tilvitnaðri grein að koma á fót og reka fráveitu, þ.e. í þéttbýli, sbr. 2. mgr. 4. gr. Jafnframt fer sveitarstjórn með rekstur og stjórn fráveitu á vegum sveitarfélagsins nema annað rekstrarform hafi verið sérstaklega ákveðið, sbr. 1. mgr. 5. gr. laganna. Kveðið er á um fráveitugjald í 1. mgr. 14. gr. laga nr. 9/2009, en þar segir, eins og ákvæðið var orðað, að heimilt sé að innheimta fráveitugjald af öllum fasteignum sem tengdar eru eða munu tengjast fráveitu sveitarfélags.

Eins og skýrt kemur fram í tilvitnuðum lagaákvæðum telst rekstur fráveitu til grunnþjónustu innan sveitarfélags sem því er einu ætlað að koma að, nema annað sé sérstaklega ákveðið. Samkvæmt upplýsingum frá Langanesbyggð rekur sveitarfélagið fráveitu á Bakkafirði, m.a. þann hluta sem liggur frá húsum við Kötlunesveg. Samkvæmt uppdrætti sem lagður hefur verið fram ná lagnir út fyrir lóðarmörk fasteignar kærenda og í sjó fram. Með vísan til ákvæða þeirra sem áður voru rakin um skyldur og einkarétt sveitarfélags til reksturs fráveitu verður talið að fráveitulagnir frá fasteign kærenda séu hluti af fráveitukerfi sveitarfélagsins, hvað sem líður því álitaefni hver kostað hafi fráveitulögn frá húsi kærenda. Var sveitarfélaginu því rétt að innheimta fráveitugjald vegna húss kærenda.

Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laga nr. 9/2009 skal stjórn fráveitu semja gjaldskrá þar sem kveðið er nánar á um greiðslu og innheimtu gjalda skv. 13. og 14. gr. Samkvæmt 9. gr. samþykktar nr. 992/2012 um gatnagerðargjald, stofngjald fráveitu, byggingarleyfisgjald, gjöld vegna skipulagsvinnu, afgreiðslu- og þjónustugjöld og gjaldskrá vatnsveitu Langanesbyggðar, sbr. 1. gr. samþykktar nr. 1005/2012 um breytingar á framangreindri samþykkt, er árlegt fráveitugjald 0,225% af heildarálagningarstofni. Álagningarstofn vegna umræddrar fasteignar fyrir árið 2015 er kr. 4.470.000 og álagt fráveitugjald því kr. 10.058.

Miða skal við að fráveitugjald ásamt öðrum tekjum fráveitu standi undir rekstri hennar, þ.m.t. fjármagnskostnaði, viðtakarannsóknum og vöktun og fyrirhuguðum stofnkostnaði samkvæmt langtímaáætlun veitunnar, sbr. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 9/2009. Lagðar hafa verið fram afkomutölur fráveitu Langanesbyggðar fyrir árið 2015 og samkvæmt þeim eru tekjur kr. 6.220.297 en rekstrarkostnaður kr. 7.280.077. Reksturinn er því neikvæður um kr. 1.059.780. Álögð gjöld eru samkvæmt framangreindu ekki hærri en kostnaður af veittri þjónustu og telst gjaldið því lögmætt þjónustugjald skv. áður tilvitnuðu ákvæði 2. mgr. 15. gr. laga nr. 9/2009.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda um ógildingu álagningar fráveitugjalda á fasteignina Kötlunesveg 3, Langanesbyggð, fastanúmer 217-0856, vegna ársins 2014, er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu álagningar fráveitugjalda á fasteignina Kötlunesveg 3 vegna ársins 2015.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              __________________________                
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson