Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

121/2023 Sala nikótínpúða

Með

Árið 2023, fimmtudaginn 11. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður og Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður. Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor tók þátt í gegnum fjarfundabúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 121/2023, kæra á ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá 19. september 2023 um að leggja á stjórnvaldssekt að fjárhæð 200.000 kr.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, 12. október 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir Svens ehf. ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá 19. september 2023 um álagningu stjórnvaldssektar að fjárhæð 200.000 kr. á félagið. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi, en til vara að fjárhæð sektar verði lækkuð verulega.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun 10. nóvember 2023.

Málavextir: Mál þetta hófst með ábendingu til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 24. apríl 2023, þess efnis að þann 21. s.m. hafi kærandi selt og afhent barni nikótínpúða. Í andsvörum kæranda við meðferð málsins kom fram að starfsfólk væri minnt daglega á að biðja um skilríki léki vafi á aldri kaupanda. Einnig upplýsti kærandi að til væri myndband af atvikinu úr myndavélakerfi. Á upptökunni, sem látin var í té við meðferð málsins, má sjá ungan einstakling sýna starfsmanni í verslun kæranda á skjá á farsíma og er ljóst af samhenginu að það var gert til að sýna fram á aldur til kaupa á vörunni.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sendi kæranda tilkynningu um fyrirhugaða álagningu stjórnvaldssektar 21. ágúst 2023. Var kæranda gefinn kostur á að koma að andmælum, sem hann og gerði með bréfi, dags. 31. s.m. Var stjórnvaldssekt að fjárhæð kr. 200.000 lögð á kæranda 19. september s.á.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er bent á að starfsmaður hans hafi uppfyllt skyldu sína um að óska eftir skilríkjum, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 87/2018 um nikótínvörur, rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur. Ákvæði laganna byggi ekki á hlutlægri refsiábyrgð. Augljóst sé að vafi hafi leikið á því hvort viðkomandi einstaklingur hafi verið orðinn 18 ára og hafi hann því verið spurður um skilríki, sem hann hafi sýnt. Þau skilríki hafi á hinn bóginn verið fölsuð eða röng.

Í hinni kærðu ákvörðun segi að samkvæmt 4. mgr. 20. gr. b. laga nr. 87/2018 skuli beita stjórnvaldssektum hvort sem brot gegn lögunum séu framkvæmd af ásetningi eða gáleysi. Í tilfelli kæranda hafi nikótínvaran verið seld kaupanda í góðri trú. Starfsmaður kæranda hafi hvorki sýnt af sér ásetning né gáleysi, þar sem sannað sé í málinu að beðið hafi verið um skilríki til þess að sannreyna að kaupandi væri orðinn 18 ára.

Kærandi geti ekki verið dreginn til ábyrgðar með refsikenndum viðurlögum fyrir ólögmæta háttsemi kaupanda, en tiltölulega einfalt sé að falsa rafræn skilríki. Kærandi hafi sett upp skilti í verslunum sínum þar sem varað sé við þeirri háttsemi að framvísa fölsuðum skilríkjum. Á skiltinu segi: „Að framvísa fölsuðum skilríkjum er skjalafals. Skjalafals verður kært til lögreglu.“

Vegna varakröfu um lækkun sektar sé vísað til stjórnvaldssektar í máli Rakkabergs ehf., sem birt hafi verið á vefsíðu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar 19. júní 2023. Í því máli hafi ólögráða einstaklingi verið seld rafsígaretta. Engin rök séu færð fyrir því hvers vegna sekt kæranda sé tvöföld þeirri sekt sem þar hafi verið ákveðin, en þar hafi auk þess ekki verið spurt um skilríki.

Málsrök Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar: Af hálfu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar er bent á að í 1. mgr. 7. gr. laga nr. 87/2018 um nikótínvörur, rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur sé tekið fram að leiki vafi á um aldur kaupanda geti sala einungis farið fram ef hann sýni með skilríkjum fram á að hann sé orðinn 18 ára. Það hafi því verið rétt viðbrögð hjá starfsmanni verslunar kæranda að kalla eftir skilríkjum áður en sala hafi farið fram. Þó verði ekki talið nóg að biðja um skilríki heldur verði jafnframt að sannreyna gildi þeirra.

Líkt og tiltekið sé í kæru sé tiltölulega einfalt að falsa rafræn skilríki og því ætti kærandi að vera meðvitaður um nauðsyn þess að brýna fyrir starfsmönnum að sannreyna rafræn skilríki. Til séu opinberar leiðbeiningar um hvernig starfsmenn fyrirtækja sem velji að taka á móti stafrænum ökuskírteinum eigi að sannreyna þau og leggi lögreglan áherslu á að fyrirtæki þjálfi „framlínufólk“ við að sannreyna þau. Af myndbandsupptöku megi sjá að starfsmaður hafi gefið sér lítinn sem engan tíma til að skoða eða sannreyna það sem viðskiptavinurinn hafi framvísað. Sú fullyrðing að fölsuðum skilríkjum hafi verið framvísað verði að teljast ósönnuð þar sem engin gögn geti sýnt fram á það með vissu. Þó að það megi teljast líklegt að svo hafi verið sé ekki hægt að slá því á föstu. Þrátt fyrir það leysi það kæranda ekki undan þeirri ábyrgð að sannreyna skilríkin áður en sala fór fram.

Samkvæmt 4. mgr. 20. gr. b. laga nr. 87/2018 skuli stjórnvaldssektum beitt óháð því hvort lögbrot séu framin af ásetningi eða gáleysi. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun telji sannað að kærandi hafi brotið gegn 1. mgr. 7. gr. laganna af gáleysi og því verði ekki um það deilt hvort ákvæði laganna byggi á hlutlægri refsiábyrgð. Þar sem kærandi hafi ákveðið að taka á móti rafrænum skilríkjum hafi hann sýnt af sér gáleysi með því að þjálfa starfsfólk sitt ekki betur í að sannreyna rafræn skilríki með einföldum og viðurkenndum hætti. Þessi vanræksla kæranda hafi leitt til þess að starfsmaður hafi ekki gætt þeirrar varkárni sem af honum mætti ætlast.

Hvað varði lækkun fjárhæðar sektar þá sé sá refsirammi sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun geti beitt frá 50.000 kr. til 25.000.000 kr. Kærandi vísi í annað mál sem hafi hafist með því að aðili þess hafi haft samband við stofnunina og játað brot sitt skýlaust að fyrra bragði. Málavextir hafi því verið aðrir en í máli þessu. Stofnunin telji að sektarupphæðin sé hæfileg miðað við samstarfsvilja og að um sé að ræða fyrsta brot fyrirtækisins, sbr. 3. mgr. 20. gr. b. laga nr. 87/2018.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Í viðbótarathugasemdum kæranda var því hafnað að sú skylda verði lögð á starfsmenn verslana að sannreyna gildi skilríkja. Ekkert bendi til þess að starfsmaður kæranda hefði getað séð í gegnum blekkingar viðskiptavinarins eða að hann hafi sýnt af sér gáleysi. Einnig verði að líta til þess að ekki hafi verið um barn að ræða heldur fullvaxta einstakling sem augljóslega hafi náð sakhæfisaldri.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 87/2018 um nikótínvörur, rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur má hvorki selja né afhenda börnum nikótínvörur, rafrettur og áfyllingarvörur. Bann þetta skuli vera öllum ljóst þar sem nikótínvörur, rafrettur og áfyllingar eru seldar. Leiki vafi á um aldur kaupanda nikótínvara, rafrettna eða áfyllinga geti sala því aðeins farið fram að hann sýni með skilríkjum fram á að hann sé orðinn 18 ára.

Af gögnum máls þessa er ljóst að kærandi seldi ungum einstaklingi nikótínvöru. Fyrir liggja m.a. upplýsingar um kortafærslu við kaupin. Af myndbandsupptöku er ljóst að starfsmaður verslunar kæranda óskaði eftir skilríkjum til að staðreyna aldur, til samræmis við lagaskyldu um að sé vafi um aldur beri að kalla eftir skilríkjum. Fyrir liggur að einstaklingurinn var 16 ára gamall. Niðurstaða þessa máls veltur á því hvort starfsmaðurinn, og með því kærandi í máli þessu, hafi sýnt af sér gáleysi við mat á þeim skilríkjum sem framvísað var í versluninni, en ekki er hægt að staðreyna hverju var framvísað á skjá farsímans.

Með orðinu skilríki í 1. mgr. 7. gr. laga nr. 87/2018 er átt við persónuskilríki. Í 3. gr. laga nr. 25/1965 um útgáfu og notkun nafnskírteina, sem voru í gildi á þeim tíma að atvik máls þessa gerðust, var kveðið á um að við notkun nafnskírteinis í sambandi við fyrirmæli laga, reglugerða og lögreglusamþykkta um að tiltekinn aldur sé skilyrði fyrir viðskiptum eða komu á stað sé nafnskírteinið því aðeins sönnunargagn um aldur að í því sé mynd af hlutaðeiganda, með embættisstimpli lögreglustjóra og dagsetningu.

Í 5. gr. laga nr. 25/1965 var kveðið á um að heimilt sé að ákveða með reglugerð, að handhafar ökuskírteinis skuli geta notað það á sama hátt og nafnskírteini sé notað samkvæmt lögum og öðrum opinberum fyrirmælum. Sett hefur verið reglugerð nr. 830/2011 um ökuskírteini og eru þar ekki slík fyrirmæli. Í framkvæmd er engu að síður mikið um að ökuskírteini séu hagnýtt sem persónuskilríki og er slík notkun þeirra sérstaklega heimiluð í ákvæðum ýmissa laga sbr. 18. tölul. 3. gr. laga nr. 140/2018 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, i-lið 35. gr. og l-lið 1. mgr. 36. gr. laga nr. 51/2021 um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi og 1. mgr. 74. gr. og 83. gr. kosningalaga nr. 112/2021.

Í reglugerð nr. 830/2011 er tekið fram að stafrænt ökuskírteini gefið út af ríkislögreglustjóra hafi á íslensku yfirráðasvæði sama gildi og hefðbundið ökuskírteini. Hvorki vegabréf né nafnskírteini eru hins vegar gefin út með stafrænum hætti. Má um það t.d. vísa til skýringa með nýjum lögum um nafnskírteini nr. 55/2023 en þar kom fram að nafnskírteini verði enn um sinn í formi plastkorta en með lögunum verði gefið svigrúm til þess að nafnskírteini verði gefin út með stafrænum hætti í framtíðinni. Vafa um hvað sýnt var á farsíma við það atvik sem er hér til umfjöllunar verður að túlka kæranda í hag. Einn möguleikinn er sá að á skjá farsíma hafi verið sýnt falsað ökuskírteini. Til þess er þá litið að engum öðrum stafrænum skilríkjum er til að dreifa hér á landi. Með þessu er einnig tekið tillit til þess að ökuskírteini hafa um langan tíma öðru fremur verið hagnýtt til auðkenningar í daglegu lífi.

Í máli þessu hafa komið fram sjónarmið bæði af hálfu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og kæranda um að auðvelt sé að falsa stafrænt ökuskírteini, án þess að því sé nánar lýst hvernig það verði gert. Til hliðsjónar má í þessu samhengi athuga að í 4. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 830/2011 segir að við umferðareftirlit geti lögregla staðfest gildi stafræns ökuskírteinis með til þess gerðum hugbúnaði sem ríkislögreglustjóri gefi út og skuli tengdur við ökuskírteinaskrá og upplýsingar sóttar þaðan. Með þessu er ljóst að gert er ráð fyrir að lögregla geti sannreynt gildi skírteinis með tæknilegri aðferð.

Á þjónustuvef sýslumanna á vefnum Island.is eru upplýsingar um stafræn ökuskírteini, sem auðvelt er að nálgast. Þar er svohljóðandi fyrirsögn: „Viltu sannreyna framvísað stafrænt ökuskírteini“. Þar segir að hugbúnaðarskanni sem gefinn sé út í smáforriti Ísland.is sé hluti af tæknilausn stafrænna ökuskírteina og sannreyni á öruggan hátt réttmæti skírteinis sem handhafi framvísi. Skanninn sé opinn öllum sem vilji hann nota og megi nálgast hann í Island.is smáforritinu. Þá eru einnig á sama stað leiðbeiningar fyrir fyrirtæki „sem velja að nota stafrænt ökuskírteini til auðkenningar“. Í leiðbeiningum þessum segir m.a. að taki fyrirtæki, einstaklingar eða stofnanir þá ákvörðun að taka við stafrænum ökuskírteinum sem gildum persónuskilríkjum sé mikilvægt að þjálfa „framlínufólk“ í að sannreyna ökuskírteinin. Fjallað er um að það geti verið mismunandi eftir tæki og stýrikerfi hvernig það sé gert en öruggast sé að nota skanna eða vafra til að kalla eftir upplýsingum.

Nefndar leiðbeiningar hafa ekki almenna þýðingu að lögum. Er hvorki að finna skýr fyrirmæli í lögum nr. 87/2018 né öðrum bindandi reglum þess efnis að kæranda beri að sannreyna skilríki. Verður því að líta svo á að með því óska eftir skilríkjum hafi háttsemi starfsmanns kæranda verið í samræmi við fyrirmæli 3. málsl. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 87/2018 og hafi hann ekki sýnt af sér gáleysi sem kærandi beri ábyrgð á. Í ljósi þessa verður ekki hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá 19. september 2023 um að kærandi skuli greiða stjórnvaldssekt að fjárhæð 200.000 kr.

Sérálit Arnórs Snæbjörnssonar: Svo sem rakið er af meirihluta nefndarinnar í máli þessu veltur niðurstaða þess á því hvort kærandi eða starfsmaður hans hafi sýnt af sér gáleysi við mat á aldri ungs einstaklings sem framvísaði skjámynd farsíma við kaup á vöru sem ekki verður seld börnum. Af hálfu meirihlutans er gerð grein fyrir þeim persónuskilríkjum sem tekin eru gild í viðskiptum þar sem aldur er áskilinn og kemur fram að mikið sé um að ökuskírteini séu hagnýtt sem nafnskírteini. Þar sem stafræn ökuskírteini séu einu stafrænu skírteinin sem séu í almennri notkun eru leiddar að því líkur að um slíkt falsað skírteini hafi verið að ræða. Ég geri ekki athugasemd við að vafi um þetta sé túlkaður kæranda í vil.

Kærandi starfrækir sérhæfðar verslanir með vöru sem óheimilt er að selja börnum. Ástæða þessa sölubanns er sú að varan getur innihaldið nokkuð magn nikótíns, sem talið er vera ávanabindandi efni, svo vísað sé til skýringa með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 56/2022 um breytingar á lögum nr. 87/2018 um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur (nikótínvörur). Því verður að gera ríkar kröfur til kæranda um aðgæslu við mat á því hvort sala geti farið fram, sbr. orðalag 1. mgr. 7. gr. laga nr. 87/2018.

Kærandi hefur ákveðið að taka stafræn ökuskírteini gild sem skírteini sem sýni fram á aldur og verður að mínu áliti ekki greint á milli þeirrar ákvörðunar og þess verklags sem lýst er í opinberum leiðbeiningum um hvernig sannreyna skuli slík skírteini með einföldum hætti. Í þeim leiðbeiningum er m.a. lögð áhersla á mikilvægi þess að þjálfa framlínustarfsfólk verslana í því að sannreyna greind skírteini, sem ekki verður séð að kærandi hafi gert. Þá var gáleysi kæranda þeim mun verulegra þar sem hann staðhæfir í málsrökum til nefndarinnar að honum sé kunnugt um að tiltölulega einfalt sé að falsa rafræn skilríki.

Ég tel ekki forsendur til að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi. Með vísan til niðurstöðu meirihluta nefndarinnar er ekki ástæða til þess að ég fjalli um fjárhæð álagðrar sektar.

140/2023 Endurvinnslustöð að Óseyri 3

Með

Árið 2024, fimmtudaginn 11. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður og Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður. Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor tók þátt í gegnum fjarfundabúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 140/2023, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra frá 15. nóvember 2023 um að veita Furu ehf. starfsleyfi til móttöku og meðhöndlun á málmum og hjólbörðum til endurvinnslu á lóðinni Óseyri 3, Akureyri.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

 

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, 13. desember 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir íbúi að Ægisgötu 7, Akureyri, þá ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra frá 15. nóvember 2023 að veita Furu ehf. starfsleyfi til móttöku og meðhöndlun á málmum og hjólbörðum til endurvinnslu á lóðinni Óseyri 3, Akureyri. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Til vara er þess krafist að úrskurðarnefndin felli ákvörðunina úr gildi þar til úrbætur hafa verið gerðar. Þá er gerð krafa um að Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra verði gert að greiða kæranda málskostnað.

Þess er jafnframt krafist að hin umdeilda starfsemi verði stöðvuð á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og er því ekki tilefni til að taka afstöðu til þeirrar kröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra 4. janúar 2024.

Málavextir: Leyfishafi í máli þessu hefur um skeið haft starfsleyfi til reksturs endurvinnslustöðvar fyrir móttöku og meðhöndlun á málmum og hjólbörðum á lóðinni Óseyri 3, Akureyri. Í ágúst 2023 sótti hann um endurnýjun starfsleyfisins og hinn 11. september s.á. var tillaga að þeirri endurnýjun kynnt á heimasíðu Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra. Á fundi Heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra 20. s.m. samþykkti nefndin að starfsleyfi yrði gefið út að umsagnarfresti liðnum, nema athugasemdir sem kynnu að berast við tillöguna gæfu tilefni til annars. Á kynningartíma tillögunnar kom kærandi að athugasemd er laut að því að hætta væri á því að olía bærist í jarðveg þar sem athafnasvæðið væri ekki malbikað og þar sem ekki væri gerð krafa um að frárennsli væri tengt við olíuskilju. Á fundi heilbrigðisnefndarinnar 15. nóvember 2023 var bókað að athafnasvæðið væri malbikað og að sú krafa væri gerð í starfsleyfisskilyrðum að óheimilt væri að taka á móti úr sér gengin ökutæki nema þau hefðu áður verið hreinsuð af olíu og spilliefnum. Væru hverfandi líkur á að jarðvegur í grennd við athafnasvæðið myndi mengast vegna starfseminnar. Samþykkti nefndin að veita leyfishafa umsótt starfsleyfi til 12 ára. Sama dag gaf Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra út starfsleyfi til handa leyfishafa.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er vísað til þess að nokkur alvarleg frávik hafi átt sér stað í leyfisskyldri starfsemi leyfishafa í aðdraganda endurnýjunar starfsleyfisins. Hafi kærandi sent ábendingar þar um til Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra. Forsendur fyrir útgáfu starfsleyfisins hafi því verið brostnar þar sem skilyrði hafi ekki verið uppfyllt. Leyfishafi meðhöndli olíutunnur í starfsemi sinni en við slíka meðhöndlun sé ávallt hætta á að olíuskiljur leki. Sú aðstaða kalli á réttar og fullnægjandi varnir á athafnasvæðinu. Skemmri skírn dugi ekki. Það sé aðfinnsluvert að rökstuðningur fyrir starfsleyfi byggi á líkindafræði, en með því sé vísað til ummæla eftirlitsins um að „hverfandi líkur“ séu á mengun jarðvegs. Fyrir liggi að lögmælt skilyrði um olískiljur sé ekki uppfyllt. Þá sé starfsemin ekki í samræmi við skipulagsáætlun svæðisins.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra: Stjórnvaldið bendir á að kærandi hafi ekki sýnt fram á hvaða lögvörðu hagsmuni hann hafi af hinni kærðu ákvörðun. Fasteign kæranda að Ægisgötu 7 sé í um eins kílómetra fjarlægð frá starfsstöð leyfishafa að Óseyri 3 og verði því ekki séð að hin kærða ákvörðun raski grenndarhagsmunum kæranda. Vísað sé til úrskurða úrskurðarnefndarinnar í málum nr. 146/2022 og 113/2020. Kærandi sé að auki einn af eigendum annars fyrirtækis sem sé í samskonar rekstri og leyfishafi, en samkeppnisstaða ein og sér geti ekki verið grundvöllur kæruaðildar. Hið kærða starfsleyfi hafi verið veitt í samræmi við lög nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Starfsemin sé ekki þess eðlis að olíuskilja skuli vera til staðar.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er bent á að ekki sé skýrt af kærunni hvaða hagsmuna kærandi hafi að gæta varðandi hina umræddu starfsemi, en fasteign kæranda sé fjarri Óseyri 3. Aldrei hafi neitt brugðið út af varðandi öryggismál eða mengunarvarnir. Fullyrðingu kæranda um að leyfishafi meðhöndli olíutunnur sem fylgi óhjákvæmileg hætta á leka sé mótmælt, enda hafi heilbrigðisfulltrúi staðfest að tunnurnar væru hreinsaðar og eingöngu nýttar fyrir geymslu á búnaði. Sé því engin hætta á mengun jarðvegs vegna þeirra.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi telur sig hafa lögvarða hagsmuni af kæruefni þessa máls. Úrskurðarnefndin hafi í máli nr. 119/2021 tekið fram að gæta bæri varfærni við að vísa málum frá á þeim grunni að kærendur skorti lögvarða hagsmuni nema augljóst væri að það hefði ekki raunhæfa þýðingu fyrir lögvarða hagsmuni þeirra að fá leyst úr þeim ágreiningi sem standi að baki kærumáli. Í lögskýringargögnum sem hafi fylgt frumvarpi til stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segi að skýra beri hugtakið aðili máls rúmt þannig að ekki einungis sé átt við þá sem eiga beina aðild að máli, heldur einnig þá sem hafi óbeinna hagsmuna að gæta, svo sem nágranna.

Við mat á því hvort kærandi eigi lögvarinna hagsmuna að gæta verði að líta til þess að hin kærða starfsemi feli í sér mengandi iðnað rétt við íbúðarbyggð, sem áhrif geti haft á fasteignaverð. Lóðin að Óseyri 3 sé í næsta nágrenni við heimili kæranda eða u.þ.b. 1,1 km fjarlægð. Vísað sé til sérálits nefndarmanns úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 96/2020 þar sem um hafi verið að ræða byggingu malbikunarstöðvar í 1,3–1,9 km fjarlægð. Hafi nefndarmaðurinn talið að ekki væri hægt að útiloka að kærendur yrðu fyrir áhrifum af loftmengun „og öðru ónæði“ frá starfseminni umfram aðra. Atvik í því máli séu sambærileg þessu máli. Kærandi sé íbúi á Akureyri en telja verði að allir íbúar Akureyrar geti verið aðilar að máli sem þessu þar sem þeir hafi hagsmuni af því að hætta á mengunarslysum sé sem minnst.

Þá sé það rétt að kærandi sé framkvæmdastjóri fyrirtækis sem sé í samkeppni við leyfishafa, en það fyrirtæki sé þó ekki aðili þessa máls þar sem kærandi hafi talið mikilvægara að efni kærunnar fengi að ráða för en ekki umfjöllun um samkeppni.

———-

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu en þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér í ljósi niðurstöðu máls þessa.

Niðurstaða: Í máli þessu er kærð sú ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra frá 15. nóvember 2023 að veita Furu ehf. starfsleyfi til móttöku og meðhöndlunar á málmum og hjólbörðum til endurvinnslu á lóðinni Óseyri 3, Akureyri.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er. Verður að túlka þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttar um aðild að kærumálum þar sem við mat á því hvort lögvarðir hagsmunir séu fyrir hendi beri að líta til þess hvort hlutaðeigandi eigi einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta við úrlausn málsins.

Fyrir liggur að fasteign kæranda, sem er í grónu íbúðarhverfi, er í tæplega eins kílómetra fjarlægð frá hinni umdeildu starfsemi leyfishafa og er starfstöðin ekki í augsýn frá húsi kæranda. Að teknu tilliti til þess og þeirrar starfsemi sem um ræðir verður ekki séð að hún varði grenndarhagsmuni kæranda. Þá byggir kærandi lögvarða hagsmuni sína einnig á því að hann hafi sem íbúi bæjarins hagsmuni af því að hætta á mengunarslysum sé sem minnst. Þau málsrök lúta að gæslu hagsmuna sem telja verður almenna en ekki einstaklega.

Með hliðsjón af framangreindu uppfyllir kærandi ekki skilyrði kæruaðildar samkvæmt fyrrgreindri 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 í máli þessu og verður málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni sökum aðildarskorts.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

98/2023 Seyðishólar

Með

Árið 2023, föstudaginn 29. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Sæmundsson jarðfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 98/2023, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 29. júní 2023 um að samþykkja útgáfu framkvæmdaleyfis fyrir efnistöku úr námu E24 í Seyðis­­hólum.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er barst nefndinni 11. ágúst 2023 kæra eigendur Klausturhóla 1, Grímsnes- og Grafnings­hreppi, þá ákvörðun sveitarstjórnar hreppsins frá 29. júní 2023 að samþykkja útgáfu framkvæmdaleyfis fyrir efnistöku úr námu E24, Seyðishólum, í Klausturhólum gjallnámum, landnúmer 168965. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Grímsnes- og Grafningshreppi 16. ágúst 2023.

Við meðferð málsins fyrir úrskurðarnefndinni lögðu kærendur fram átta stuðningsyfirlýsingar við málstað sinn, stafa þær m.a. frá þremur félögum sumarhúsaeigenda.

Málavextir: Hinn 9. mars 2022 barst Skipulagsstofnun matsáætlun framkvæmdaraðila vegna efnis­töku samkvæmt 21. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat fram­kvæmda og áætlana, sbr. lið 2.01 í 1. viðauka við lögin. Voru þar kynnt áform um áframhaldandi efnistöku gjalls í námu E30b, nú E24, í Seyðishólum í landi Klausturhóla í Grímsnes- og Grafningshreppi. Kom fram að efnistaka úr námunni hefði hafist fyrir árið 1950 og að þegar væri búið að vinna um 450.000 m3 úr henni. Fyrirhuguð efnistaka væri allt að 500.000 m3 af gjalli á næstu 15 árum eða um 33.000 m3 á ári að meðaltali en ekki væri gert ráð fyrir sérstakri áfangaskiptingu. Náman væri við Hólaskarð og aðkoma um 1 km malarveg frá Búrfellsvegi 351. Efnið væri til notkunar í nágrenninu ásamt því að ráðgert væri að árlega yrði um 20.000 – 25.000 m3 af gjalli flutt til Þorlákshafnar til útflutnings. Auk efnistöku væri tilgangur framkvæmdarinnar einnig afmörkun námu­svæðisins og frágangur að efnistökunni lokinni.

Að undangengnu ferli við umhverfismat framkvæmdarinnar, þar sem framkvæmdaraðili hafði komist að þeirri niðurstöðu að heildarumhverfisáhrif framkvæmdarinnar væru óveruleg, lá álit Skipulagsstofnunar um umhverfismatsskýrslu framkvæmdaraðila fyrir 12. desember 2022. Kom m.a. fram að fyrirhugað efnistöku­svæði væri nú þegar mikið raskað og fyrirhuguð flatarmálsstækkun þess væri ekki umfangs­mikil. Taldi stofnunin ljóst að helstu neikvæðu áhrif fyrirhugaðra framkvæmda fælust í stað­bundnum sjónrænum áhrifum sem væru að mestu óafturkræf og áhrif framkvæmdarinnar á ásýnd og landslag yrðu nokkuð neikvæð. Þá var talið að áhrif á jarð­myndanir yrðu óhjákvæmi­lega staðbundið nokkuð neikvæð og var tekið fram að þó svo að fyrir lægi að búið væri að raska svæðinu nú þegar réttlætti það ekki fyrirhugaða efnistöku í jarð­myndunum sem nytu sér­stakrar verndar skv. lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd. Ekki var talið líklegt að ónæði vegna efnisvinnslu eða flutnings yrði verulegt, hvorki varðandi hávaða né rykmengun. Þá væri framkvæmdin í samræmi við Aðalskipulag Grímsnes- og Grafningshrepps 2020-2032, sem þá beið staðfestingar. Tók Skipulagsstofnun fram að mikilvægt væri að skilyrði um frágang, tíma­lengd og annað skilaði sér inn í framkvæmdaleyfi.

Með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 29. desember 2022 tók gildi nýtt Aðalskipulag Grímsnes- og Grafningshrepps 2020-2032. Er þar vísað til umræddrar námu sem E24. Um efnistöku segir að lögð sé áhersla á nægt framboð efnistökusvæða og að þau séu í námunda við notkunarstað efnis. Stærri efnistökusvæði verði ekki á svæðum sem hafi sérstakt verndargildi, s.s. svæðum á náttúruminjaskrá, þar sem séu mikilvægar vistgerðir og hverfisverndarsvæði. Forðast skuli eftir megni að raska ósnortnum hlíðum, ásum, áberandi landslagsmyndum, vatns- og árbökkum og farvegum þeirra. Gert sé ráð fyrir ríflegum svæðum fyrir efnistöku til þess að hægt sé að nýta þá tegund efnis sem best henti hverju sinni og til að draga úr því að aka þurfi langar leiðir með efni. Námum væri fækkað frá eldra skipulagi og eldri og stærstu námurnar af­markaðar með skýrari hætti og í samræmi við þegar röskuð svæði. Um námu E24 kom fram að stærð hennar væri 6,5 ha og að um væri að ræða malarnámu í notkun með efnismagn allt að 500.000 m3. Í umhverfisskýrslu sem fylgdi aðalskipulaginu kom fram að endurskoðun skipulagsins félli undir lög nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana. Á meðal þeirra sem veittu um­sagnir við skipulagið voru Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Minjastofnun Íslands og Heilbrigðiseftirlit Suðurlands. Kemur m.a. fram í umhverfis­skýrslunni að við frágang vegna framkvæmda- og efnistökusvæða sé mikilvægt að hvorki verði eftir lýti á landi né hætta á upp­foki og/eða gróðurskemmdum. Rauðamöl hafi verið unnin úr Seyðishólum, Kerinu o.fl. gjall­gígum í gegnum tíðina og notuð til vegagerðar og undir húsa­grunna. Ljóst sé að mikil efnisþörf sé vegna fyrirhugaðs vindorkugarðs á Mosfellsheiði. Þá skuli öll efnistöku­svæði hafa framkvæmdaleyfi og eftir atvikum gilt deiliskipulag.

Að undangenginni grenndarkynningu samþykkti sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps útgáfu leyfisins á fundi sínum 29. júní 2023 og var leyfið gefið út 10. júlí s.á.

Málsrök kærenda: Kærendur telja hið kærða framkvæmdaleyfi valda hættu á ónæði vegna hávaða frá vinnslu og umferð. Þá sé mengun vegna starfseminnar. Engin tilkynning hafi borist um ákvörðun sveitarstjórnar eða svör við athuga­semdum kærenda. Jafnframt vísa þeir til fyrri athugasemda sinna við grenndarkynningu, dags. 30. apríl 2023,  m.a. um skýrleika tillögu að hinu kærða leyfi og um að fram­kvæmd grenndar­kynningar hefði verið haldin ágöllum enda mætti ráða að ekki hafi verið grenndarkynnt fyrir eigendum Klausturhóla nr. 3 og 8.

 Málsrök Grímsnes- og Grafningshrepps: Af hálfu sveitarfélagsins er þess krafist að kröfu kærenda verði vísað frá en ellegar hafnað. Kærendur hafi ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn um kæru­efnið og sé hið kærða framkvæmdaleyfi ekki haldið slíkum form- eða efnisann­mörk­um að ógildingu varði. Ákvörðun sveitarstjórnar um útgáfu þess hafi verið í fullu sam­ræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010, laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem og form- og efnisreglur stjórnsýslu­réttar. Ákvörðunin hafi byggt á málefnalegum sjónarmiðum og tillit verið tekið til hagsmuna eigenda fast­eigna í nágrenni námunnar. Útgáfa framkvæmdaleyfis hafi ekki í för með sér skerðingu á hagsmunum kærenda umfram það sem verið hefði á grundvelli eldra leyfis eða það sem þeir þurfi að þola á grund­velli skipulagsáætlana. Framkvæmdaleyfið hafi verið gefið út á grund­velli Aðal­skipulags Grímsnes- og Grafningshrepps 2020-2032, að undan­genginni grenndar­­kynningu, sbr. 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga og sé framkvæmdin í sam­ræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Mögu­leg aukning á umferð vegna efnis­flutninga geti ekki talist til breytinga á þéttleika byggðar í skilningi 44. gr. laganna.

Hafa verði í huga að um tímabundna framkvæmd sé að ræða en framkvæmdaleyfi hafi verið veitt til 15 ára og sé bundið því skilyrði að þegar efnistöku samkvæmt leyfinu ljúki verði þeir hlutar gígsins sem eftir standi varðveittir. Þá sé leyfið einnig bundið skilyrði um frágang efnistökusvæðisins. Í greinargerð sveitarstjórnar um framkvæmdaleyfið komi fram að gengið skuli frá svæðinu að framkvæmdartíma loknum þannig að það sé aðgengilegt til skoðunar fyrir almenning. Þá komi fram í starfsleyfi til framkvæmdaraðila að fylgt verði leiðbeiningum umhverfisráðuneytisins frá 2002, „Námur – efnistaka og frágangur“, sem kærendur hafi vísað til. Veigamikil rök séu fyrir veitingu leyfis til áframhaldandi efnistöku í Seyðishólum enda muni fyrirhuguð efnistaka hafa jákvæð efnahagsleg og samfélagsleg áhrif á komandi árum. Yrði efnistaka ekki leyfð úr námunni yrði þess í stað að opna aðrar námur á Suðurlandi til að anna eftirspurn eftir íslenskum jarðefnum. Svæðið beri þegar ummerki um áratugalanga efnistöku og viðbótarmagn það sem ætlað sé að taka úr námunni breyti ásýnd námunnar óverulega. Við afgreiðslu umsókna um framkvæmdaleyfi beri einnig að líta til stjórnarskrárvarinna eignar- og atvinnuréttinda framkvæmdaraðila, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í máli nr. 45/2006 frá 22. nóvember 2006. Framkvæmdaraðili hafi haft námuna á leigu síðastliðin ár og námuréttindi félagsins teljist til eignarréttinda þess í skilningi 72. gr. stjórnarskrár. Sveitarfélagið hafi metið það svo að þeir hagsmunir sem hefðu legið að baki veitingu framkvæmdaleyfis til áframhaldandi efnistöku í Seyðishólum til 15 ára vægju þyngra en hugsanleg skaðleg áhrif af völdum framkvæmdanna.

Í skipulags- og byggingarmálum verði nágranni aðeins talinn eiga aðild að stjórnsýslumáli hafi bygging í grennd við hann veruleg áhrif á lögvarða hagsmuni hans, t.d. með umtalsverðri birtu­skerðingu og hafi þannig áhrif á verðmæti eignar hans. Hið kærða leyfi hafi engin áhrif á verð­mæti sumar­bústaðalands kærenda og hafi ekki í för með sér skerðingu á hagsmunum þeirra. Þá hafi það verið niðurstaða umhverfismats að heildaráhrif framkvæmdarinnar væru óveruleg. Ekki verði talið að efnistaka úr námunni hafi neikvæð áhrif á fasteign kærenda hvað varði ásýnd svæðisins, þrátt fyrir að náman sé sýnileg frá fasteign þeirra en yfir­bragð og heildarútlit Seyðishóla muni lítið breytast frá því sem þegar sé. Leitast hafi verið við að hafa námuna litla að umfangi en djúpa, með bröttum, berum og vel sýnilegum gjallveggjum sem sýni vel litadýrð og önnur sérkenni hennar. Verði náman ekki talin fela í sér sjónmengun fyrir kærendur. Hvað sem því líði geti slík áhrif ekki valdið ógildingu framkvæmdaleyfisins enda sé útgáfa þess að öllu leyti í samræmi við lög.

Skipulagsnefnd umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita bs. hafi tekið umsókn um framkvæmda­leyfi fyrir á fundi sínum 8. mars 2023 og þar hafi verið bókað að mælst væri til þess að útgáfa leyfisins yrði samþykkt á grundvelli 13. gr. skipulagslaga. Óskaði nefndin eftir að útgáfa þess yrði grenndarkynnt fyrir eigendum aðliggjandi landareigna. Málið hafi verið tekið fyrir á fundi sveitarstjórnar 15. s.m. og þar gerð bókun í samræmi við bókun skipulags­nefndar. Hið kærða framkvæmdaleyfi hafi verið grenndarkynnt í samræmi við 44. gr. skipulagslaga og kærendum gefist tækifæri til að koma að athugasemdum sínum, sem þeir hafi og gert. Þótt almenningi sé gefinn kostur á að gera athugasemdir við umsókn um framkvæmdaleyfi geti aðeins aðili máls í hefðbundnum skilningi stjórnsýsluréttar komið að stjórnsýslukæru á slíkri leyfisveitingu. Ekkert hald sé í þeirri staðhæfingu að sveitarstjórn hafi tekið ákvörðun um veitingu leyfisins á fundinum 15. mars 2023. Tekin hafi verið efnisleg afstaða til þeirra athuga­semda sem borist höfðu í grenndar­kynningu og endanleg ákvörðun ekki tekin fyrr en eftir hana. Í greinargerð um afgreiðslu framkvæmdaleyfisins, dags. 22. júní 2023, hefðu verið sett skilyrði í samræmi við þær athugasemdir sem borist höfðu við grenndarkynninguna. Ákvörðun um að veita leyfi hefði síðan verið tekin 29. s.m.

Því sé hafnað að framkvæmd grenndar­kynningar hafi verið haldin ágöllum af þeirri ástæðu að umsóknin hafi ekki verið grenndarkynnt fyrir eigendum Klaustur­hóla 3 og 8. Vegna fjarlægðar lóðanna frá efnis­töku­svæðinu og þar sem séraðkoma sé að lóðunum, frá Biskups­tungna­braut en ekki um veg sem liggi að námunni hafi það verið metið svo að hagsmunir eigenda lóðanna myndu ekki skerðast við útgáfu framkvæmdaleyfisins, hvorki hvað varðaði land­notkun, skuggavarp eða útsýni né hávaða eða mengun vegna efnistöku eða efnisflutninga. Ákvæði 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga feli í sér matskennda reglu sem kveði á um að við grenndar­­kynningu kynni sveitarfélagið leyfisumsókn fyrir þeim nágrönnum sem taldir séu geta átt hagsmuna að gæta. Sveitarfélagið hafi því mat um það og hafi metið það svo að vegna staðsetningar fasteign­anna að Klausturhólum nr. 3 og 8 hefðu fyrirhugaðar fram­kvæmdir ekki áhrif á hagsmuni eigenda þeirra á þann veg að grenndarkynna þyrfti leyfis­veitingu fyrir þeim. Gildi hið sama um eigendur sumarbústaðalanda í Kerbyggð, enda séu fast­eignir þar lengra frá Seyðishólum en t.d. fasteignir að Kerhrauni. Þá geti kærendur ekki haft lögvarða hags­muni af því að framkvæmda­leyfið verði kynnt fyrir einhverjum ákveðnum aðilum, öðrum en þeim sjálfum. Í umhverfis­matsskýrslu hefði komið fram að möguleg aukning umferðar hefði ekki mark­tæk áhrif á næði sumar­bústaða­eigenda, nema fyrir þá sem væru allra næst námunni og þá helst austan Búrfells­vegar. Leyfisumsóknin hafi verið kynnt fyrir félögum sumar­húsa­eigenda á svæðinu og kynningin með þeim hætti hlotið tölu­verða dreifingu. Geti þetta atriði ekki leitt til þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi, enda leyfisumsóknin sannanlega kynnt öllum þeim sem sveitarfélagið taldi geta átt hagsmuna að gæta. Þá geti ekki valdið ógildingu fram­kvæmda­leyfisins að þeim sumarhúsaeigendum, sem komu að athugasemdum við grenndar­kynningu, hafi ekki verið kynnt sérstaklega hvort eða hvernig komið hefði verið til móts við athugasemdir þeirra. Hvergi sé kveðið á um í lögum að sveitarfélag skuli senda hverjum þeim sem sent hafi inn athuga­semdir við grenndarkynningu sérstakt erindi þar sem greint sé frá af­stöðu sveitar­félagsins til athugasemda viðkomandi. Þvert á móti segi einungis í 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga að þegar sveitarstjórn hafi afgreitt málið skuli þeim sem tjáð hafi sig um það tilkynnt niðurstaða sveitar­stjórnar. Það hafi sveitarfélagið gert 13. júlí 2023 þegar niðurstaða þess um útgáfu framkvæmdaleyfisins hafi verið auglýst m.a. í Morgunblaðinu og Lögbirtinga­blaði.

Hin umdeilda framkvæmd hafi sætt umhverfismati í samræmi við lög nr. 111/2021. Í umhverfis­mats­skýrslu hefði komið fram að ekki væri gert ráð fyrir að efnistakan myndi að ráði hafa aukna hljóð­mengun í för með sér, frá því sem áður hefði verið. Um loftmengun segi í ­skýrslunni að ekki sé gert ráð fyrir að aukin efnistaka hafi aukna loftmengun í för með sér nema sem nemi auknum útblæstri vörubíla. Auk þess hefði ekki verið gert ráð fyrir jarðraski utan afmarkaðs efnistökusvæðis og sé sumarbústaðaland kærenda utan áhrifasvæðis fram­kvæmdar­innar. Enga nýja vegagerð þurfi og hefðu áhrif á umferð vegna fram­kvæmdar­innar verið metin óveruleg, þrátt fyrir að einhver aukning yrði á umferð vörubíla á aksturleiðum til Þorlákshafnar. Gert sé ráð fyrir mótvægis­aðgerðum sem felist í því að efnis­flutningar til Þorlákshafnar verði einungis að degi til á virkum dögum. Megin­hávaði bílaumferðar sé frá daglegri bílaumferð um Biskupstungnabraut. Samkvæmt þessu sé ekki unnt að líta svo á að hið kærða framkvæmdaleyfi skaði hagsmuni kærenda hvað varði hávaða frá námuvinnslunni vegna efnistöku, umferðar og vinnuvéla um­fram það sem áður hefði verið og kærendur verði að þola á grundvelli skipulagslaga.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur benda á að framkvæmdaraðili hafi ekki sýnt fram á leigusamning um námuna eða gilt framkvæmda- eða starfsleyfi fram til þessa. Á fundi sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps 15. mars 2023 hafi verið sam­þykkt að veita framkvæmdaleyfi, með skilyrðum m.a. um að útgáfa leyfisins yrði grenndar­kynnt. Slík máls­meðferð fari í bága við ákvæði 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sem kveði á um að grenndarkynna megi um­sókn um byggingar- eða framkvæmdaleyfi við tiltekin skilyrði. Grenndarkynning ákvörðunar sem þegar hafi verið tekin komi aldrei til álita og hafi enga laga­stoð. Sé þess heldur ekki að vænta að grenndarkynning skili miklum árangri eftir að bindandi og ívilnandi ákvörðun hafi verið tekin. Leiði þetta eitt og sér til ógildingar. Í umhverfismats­skýrslu framkvæmdaraðila hefðu þrír valkostir verið settir fram, þ.e. sú framkvæmd sem orðið hafi fyrir valinu, núllkostur sem hafi falið í sér að allri efnistöku yrði hætt og að áframhaldandi efnistaka yrði um 20.000 m3 á ári. Aðrir kostir hafi ekki verið kannaðir. Síðasttaldi kosturinn hafi byggt á efnistöku án leyfis og þannig andstæð lögum. Af þeim sökum hafi enginn réttur getað skapast til handa leyfishafa og þegar af þeirri ástæðu ekki á þeirri tillögu byggjandi. Hafi efnistaka úr þeim hól sem um ræði farið fram síðan árið 1950, sé um að ræða fimmföldun miðað við meðaltals efnistöku síðustu áratuga, en sexföldun sé hin leyfislausa efnisvinnsla síðustu fjögurra ára ekki tekin með í reikninginn. Kærendur séu ekki mótfallnir takmarkaðri og hóflegri gjalltöku úr Seyðishólum, heldur leggist þeir gegn fyrirhugaðri stórfelldri aukningu og þeirri röskun og óþægindum sem henni fylgi. Varla sé það leyfisbeiðanda að ákvarða rammann, þ.e. um það hvaða kostir séu í stöðunni eins og gert hafi verið í umhverfismatsskýrslunni og sveitarstjórn virðist hafa lagt til grundvallar við úrlausn málsins. Fleiri kostir séu í stöðunni sem sveitarstjórn hefði getað íhugað til að koma á sátt um niðurstöðuna. Þar sem ákvörðunin hafi í reynd verið tekin áður en til grenndarkynningar hafi komið hefði ekki getað orðið af því. Fjórði valkostur­inn sé augljóslega að halda áfram takmarkaðri gjalltöku til notkunar innan­lands, t.d. 5-10.000 m3 á ári, í takmarkaðan tíma, t.d. í 5-10 ár. Ákveða þyrfti í upphafi hvað bæri að varð­veita og hverju mætti fórna en slíkt mat færi fram í samráði við sérfróða aðila með það að leiðar­ljósi að tak­marka frekari eyðileggingu á landslagi, ásýnd og náttúruminjum og eftir at­vikum til að móta það sem eftir yrði á ásættanlegan máta. Með þessum hætti yrði endan­leg lokun námunnar undir­búin þannig að viðskilnaður og lokafrágangur væri sómasamlegur og í sam­ræmi við lög. Út frá umhverfisverndarsjónarmiðum sé samþykkt sveitarstjórnar um frágang að fram­kvæmdum loknum ófullnægjandi, samanber umsögn Umhverfisstofnunar við umhverfismatsskýrslu framkvæmdaraðila, dags. 27. september 2022. Aug­ljóst sé að ásættanlegur viðskilnaður við námusvæðið verði mun erfiðari verði af fyrirhugaðri efnistöku sem verði meiri en öll uppsöfnuð efnistaka á 73 ára tímabili. Umhverfisstofnun hafi t.d. bent á að við frágang verði að móta jarðmyndunina og milda þannig ásýnd svæðisins. Framkvæmdaraðili hafi hins vegar bent á ýmis erfið verkefni sem ráðast þurfi í yrði sú leið valin. Þá hefði framkvæmdaraðili lagt mikla áherslu á að röskuðu svæði yrði haldið í lágmarki og að fyrirhuguð flatarmáls­stækkun efnistökusvæðisins væri ekki umfangsmikil og að unnið verði í hól­inn og niður. Það sé þó einmitt sú aðferð sem valdi langmestum skaða út frá sjónar­miðum um frágang og viðskilnað við efnistökusvæðið. Ein helsta afleiðing umfangsmikillar efnistöku síðustu ára, án framkvæmdaleyfis og án lögbundins eftirlits sveitarstjórnar, sé sú að mun erfiðara verði ­að fara að vilja löggjafans að þessu leyti. Það hafi þó verið mat Umhverfisstofnunar að unnt væri að draga úr áhrifum efnistökunnar en langan tíma taki fyrir sárin að gróa. Af gögnum málsins sé ljóst að ef hægt eigi að vera að móta jarðmyndunina til meira samræmis við umhverfið, verði sú framkvæmd erfiðari eftir því sem lengra sé farið inn í hólinn. Lög um umhverfismat fram­kvæmda og áætlana geri ráð fyrir að mælt sé fyrir um mótvægis­aðgerðir, m.a. um frágang framkvæmdasvæðis að efnistöku lokinni. Þá þurfi að tryggja í leyfi að framkvæmdaraðili standi straum af kostnaði við fráganginn, en í engu sé um slíkt fjallað í hinu kærða leyfi eða forsendum þess. Þetta ætti þó að hafa aukið vægi í máli þessu m.a. vegna sérstöðu Seyðishólanna.

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga skuli gera deiliskipulag fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir séu fyrirhugaðar. Um grundvallarreglu sé að ræða og verði að skýra heimildir til að víkja frá skilyrði laganna þröngt. Heimilt sé að víkja frá kröfunni um deili­skipulag vegna framkvæmda sem séu í sam­ræmi við landnotkun, byggða­mynstur og þéttleika byggðar. Að því er landnotkun varði þá sé hið kærða framkvæmdaleyfi í sam­­­ræmi við aðal­skipulag, en öðru máli gegni um byggða­mynstur og þéttleika byggðar. Samkvæmt 6. tölul. 1. mgr. 2. gr. skipulagslaga sé byggða­mynstur skil­greint sem lögun og yfirbragð byggðar, svo sem hæð og þéttleiki. Þegar litið sé til þess að svæðið ein­kennist af sumarhúsabyggð og land­búnaðarsvæði megi ljóst vera að aukin námuvinnsla sé ekki í samræmi við byggðamynstur þess. Auk þess leiði aukin námu­vinnsla til aukningar á þungri umferð sem svari í raun til þess að á svæðinu eigi sér stað upp­bygging langt umfram nú­verandi þéttleika. Af þessum sökum hafi ekki verið heimilt að veita leyfið á grundvelli grenndarkynningar heldur hefði þurft að vinna deili­skipulag fyrir svæðið. Í gildistíð eldri skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 hafi sú undanþáguheimild sem grenndarkynning feli í sér verið bundin við þegar byggð hverfi, sbr. 7. mgr. 43. gr. þeirra laga. Grenndarkynning hafi því ekki komið til álita við undirbúning leyfisveitinga fyrir ein­stökum framkvæmdum á svæðum utan þéttbýlis. Þess í stað hefðu verið aðrar heimildir til þess að víkja frá kröfum um gerð deili­skipulags á svæðum utan þéttbýlis sem ekki séu lengur fyrir hendi.

Verði talið að heimilt hafi verið að veita hið kærða leyfi að undangenginni grenndarkynningu sé þess allt að einu krafist að leyfið verði ógilt þar sem slíkir ágallar hafi verið á framkvæmd ­kynningarinnar að leiða eigi til ógildingar. Þegar aðila með augljósa hagsmuni sé ekki gefinn kostur á þátttöku séu fordæmi um að ákvörðun hafi verið felld úr gildi vegna þess ágalla, sjá m.a. úrskurð úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 60/2018. Ekki hafi verið grenndarkynnt fyrir eigendum Klausturhóla nr. 3 og 8 sem hafi staðfest við kærendur að þeir hefðu gert athuga­semdir við þessar fyrirætlanir. Báðar lóðirnar liggi við Biskupstungna­braut og aukin umferð stórra vörubíla sé til þess fallin að valda þeim miklu ónæði. Lóðirnar séu í nákvæmlega sömu fjarlægð frá námunni og Klausturhólar nr. 9 og 10, sem grenndarkynnt hefði verið fyrir.

Framkvæmdaleyfisumsóknin hafi verið grenndar­kynnt fyrir nágrönnum sem taldir hefðu verið geta átt hagsmuna að gæta af leyfisumsókn, sbr. 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga, en ekki al­menn­ingi. Ákvæði 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga um kynningu fyrir þeim sem komið hefðu á framfæri athugasemdum í grenndar­kynningu sé sérákvæði sem skuldbindi sveitarstjórnir til sértækrar kynningar umfram almennar tilkynningar. Með grenndarkynningu sé viðurkennt að tilgreindir aðilar eigi sérstakra hagsmuna að gæta vegna ákvarðanatöku, þeir eigi kærurétt samkvæmt lögunum og því beri að kynna þeim sérstaklega ákvörðunina, m.a. til að marka upphaf kæru­frests. Þessa hafi ekki verið gætt í málinu.

Lóð kærenda liggi mjög nálægt hinni umdeildu námu og séu hafnar ráðstafanir til að slétta land og fyrirhugað að byggja þar annað sumar­­hús, þaðan sem útsýni sé að námunni. Slík áform hafi lengi verið uppi, sem og um byggingu fleiri húsa. Þrátt fyrir beiðni þar að lútandi hafi kærendur ekki fengið eldra leyfi framkvæmdaraðila sent og virðist sem ekkert slíkt leyfi hafi verið til staðar. Viður­kennt sé í gögnum málsins að vinnsla undanfarinna ára hafi verið miklum mun minni en sú sem hið kærða leyfi feli í sér. Fullyrðing um að hin aukna vinnsla muni ekki valda meira ónæði en samkvæmt eldra leyfi sé því ekki á rökum reist. Gjallfok sé raunverulegt vandamál við núverandi aðstæður, þ.e. nú þegar og áður en til stór­aukinnar efnistöku og stækkunar námunnar komi. Geri vandamálið einkum vart við sig við vissar veðurfarslegar kringumstæður, nánar tiltekið í norðan og norðvestan stormi, en slík veður séu ekki óalgeng að vetri til á þessum slóðum. Svo virðist sem hvirfill myndist þá í námunni, gjallið þeytist út á ofsahraða og eiri engu sem á vegi þess verði, hvorki húsum né bif­reiðum. Í skotlínunni séu þær lóðir sem næstar námunni séu, þ. á m. lóð kærenda.

Við töku hinnar kærðu ákvörðunar hafi ekki verið gætt lögmætra sjónarmiða. Um sé að ræða gríðarlega efnistöku og ekki hafi verið sýnt fram á að stóraukin efnistaka geti réttlætt frekari eyðileggingu umhverfis og náttúru svæðisins. Framkvæmdin muni hafa í för með sér óásættan­lega röskun á hagsmunum sumarhúsa- og landeigenda í nágrenninu. Þá sé engin grein gerð fyrir því hvernig ákvörðunin falli að áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum en sveitarstjórn beri að leggja það til grundvallar í málinu, sbr. 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga. Rík ástæða hefði verið til þess að gera grein fyrir ákveðnum þáttum, svo sem hvernig brýn nauðsyn þyki til þess að raska vistkerfum og jarðmyndunum með óafturkræfum hætti, einungis vegna atvinnuhagsmuna eins aðila en til óhagræðis fyrir eigendur fjölda fasteigna á svæðinu, sbr. 3. mgr. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Ekki hafi með neinum hætti verið sýnt fram á brýna nauðsyn þess að selja drjúgan hluta lögvarðra náttúruminja í Seyðishólum til útlanda til hagsbóta fyrir einkaaðila. Augljóslega séu engir almannahagsmunir sem krefjist röskunarinnar. Hvorki sé um þetta fjallað í áliti Skipulagsstofnunar né í hinni kærðu ákvörðun eða rökstuðningi með henni. Í umhverfismatskýrslu framkvæmdar­aðila hafi komið fram að Seyðis­hólum hefði verið raskað svo mjög af námuvinnslu að 61. gr. laga nr. 60/2013 ætti ekki lengur við. Hvað snerti umrætt svæði séu þessar skemmdir óumdeilanlega af völdum leyfis­beiðanda sjálfs, einkum á síðustu árum þar sem efnistaka hafi að þeirra sögn verið um 20.000 m3 á ári. Þessi margfalda efnistaka í samanburði við áratugina á undan hafi verið í leyfis­leysi og valdið óafturkræfum spjöllum á ásýnd hólsins. Líkt og fram hefði komið í umsögn Umhverfis­stofnunar, dags. 27. september 2022, væri ekki matsatriði hvort 61. gr. laga nr. 60/2013 ætti við. Í áliti Skipulagsstofnunar sé með engum hætti tekin formleg afstaða til þessa atriðis og hvergi minnst á umsögn Umhverfis­stofnunar í niðurstöðukafla þess. Þar sem ekki sé í áliti Skipulagsstofnunar tekin upp framan­greind leiðrétting Umhverfisstofnunar á fullyrðingu framkvæmdaraðila um gildissvið 61. gr. verði að telja að sveitarstjórn hafi talið fullyrðingu framkvæmdaraðila rétta enda umsögn Umhverfisstofnunar ekki legið fyrir sveitarstjórn, sbr. tölvupóst skipulags­fulltrúa til kærenda. Þá sé lögbundið að leita beri umsagnar Umhverfis­stofnunar, sbr. 3. mgr. 61. gr. laganna enda sé svæðið ekki deiliskipulagt. Í 5. mgr. sömu greinar komi fram að ákveði leyfis­veitandi að heimila framkvæmd skuli hann rökstyðja þá ákvörðun sérstaklega fari hún í bága við umsagnir umsagnaraðila. Það hafi leyfisveitandi ekki gert. Sé því lögum sam­kvæmt ekki hægt að réttlæta frekara rask.

Sveitarstjórn hafi sett nokkur skilyrði fyrir leyfisveitingunni er lúti að hljóð- og loftmengun og komi þau fram í greinargerð með framkvæmdaleyfinu. Sé þar margt jákvætt þó Skipulags­stofnun hafi talið óvíst hvort þær ráðstafanir dygðu til. Þrátt fyrir mótvægisaðgerðir sé að mati stofnunarinnar ekki úti­lokað að af framkvæmdunum stafi bæði hljóð- og rykmengun. Þar sem framkvæmdirnar eigi að standa yfir í 15 ár skipti þessu óvissuþáttur verulegu máli. Þá hafi komið fram í mati stofnunarinnar að framkvæmdirnar hefðu í för með sér staðbundin, sjónræn áhrif, sem séu að mestu óafturkræf og líta megi svo á að áhrif þeirra á landslag og ásýnd verði nokkuð neikvæð. Framangreindir þættir bitni einkum á þeim sem eigi hús og jarðir í námunda við vinnslusvæðið. Sumarhúsaeigendur á svæðinu telji að þessi aukna efnistaka muni valda óafturkræfum áhrifum á ásýnd svæðisins. Hið kærða leyfi og forsendur þess feli ekki í sér neinar mótvægisaðgerðir. Frekar sé gefið í og greftri haldið áfram í umræddum hól með margföldum hraða, „jafna“ síðan botn námunnar, móta veggina til að minnka hættu á hruni og gera síðan almenningi kleift að heimsækja svæðið. Það standi m.ö.o. til að skilja eftir risastórt svöðusár í landinu að efnistöku lokinni. Virðist því sem ósamræmi sé á milli ákvörðunar sveitarstjórnar og starfsleyfis Heilbrigðiseftirlits Suðurlands enda verði ekki séð að hún uppfylli skilyrði framangreindra leiðbeininga umhverfisráðuneytisins og þar með starfsleyfis námunnar. Sé þetta enn einn galli á hinu kærða framkvæmdaleyfi. Hljóti málsmeðferðin í heild sinni að leiða til þess að leyfið verði fellt úr gildi, hvort sem litið sé til form- eða efnisþátta.

Í 4. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi sé sérstaklega tekið fram að framkvæmdaleyfi veiti ekki heimild til framkvæmda sem brjóti í bága við ákvæði laga, en sú framkvæmd sem heimiluð sé feli einmitt í sér brot gegn nánar tilgreindum lagaákvæðum. Vert sé að hafa í huga að verði hin kærða ákvörðun ekki felld úr gildi muni hún hafa fordæmisgildi fyrir frekari námuvinnslu í Seyðishólum án þess að samtal eða samráð hafi verið haft við þá aðila sem málið varði, s.s. Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands og sumarhúsaeigendur. Þá sé bréf Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita bs., dags. 10. júlí 2023, til framkvæmdaraðila ekki í samræmi við reglugerðina þar sem ekki komi þar fram sum þau atriði sem tilgreina eigi í leyfinu, skv. 12. gr. Þar megi t.d. nefna 8. og 9. tölul. 12. gr. um eftirlit og skilyrði en gera eigi grein fyrir mótvægisaðgerðum og frágangi eftir verklok. Þá beri skv. lokamálsgrein 14. gr. skipulagslaga að auglýsa framkvæmdaleyfi eftir útgáfu þess sem væntanlega sé til þess ætlað að hagsmunaaðilar geti þá kært leyfið. Augljóst megi vera að til þess að þeir geti áttað sig á málinu verði efnisatriði leyfisins að koma þar fram.

Hin stórfellda aukna efnistaka krefjist starfsleyfis Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, en í starfs­leyfum séu gerðar kröfur um frágang að efnistöku lokinni. Á meðal skilyrða fyrir umræddu starfsleyfi sé að farið verði eftir leiðbeiningum umhverfisráðuneytisins frá árinu 2002, „Námur – efnistaka og frágangur“. Í þeim komi fram að ganga þurfi frá öllum efnistökusvæðum strax og efnistöku ljúki. Almenna reglan sé að ganga þurfi þannig frá svæði að það falli aftur að um­hverfi sínu og líkist sem mest landformum í nágrenni þess. Þannig megi stuðla að því að umhverfið beri efnistöku lítt eða ekki merki. Þessi leiðbeiningaregla sé fyrir löngu orðin ófrá­víkjanlegt grundvallarviðmið hjá öllum þeim sem leggi stund á umfangsmikla efnistöku hér á landi, s.s. hjá Vegagerðinni og Landsvirkjun.

Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin kynnti sér staðhætti á vettvangi hinn 8. desember 2023 að viðstöddum kæranda, fulltrúa leyfishafa og fulltrúa sveitarfélagsins.

Leyfishafa var tilkynnt um framkomna kæru og honum gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum sem hann hefur ekki gert.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti framkvæmdaleyfis sem samþykkt var á fundi sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps 29. júní 2023 og gefið út 10. júlí s.á. vegna efnistöku úr námu E24 í Seyðishólum. Í leyfinu er vísað til þess að efnistaka sé fyrirhuguð í 15 ár, allt að 500.000 m3 á tímabilinu. Líkt og fram hefur komið hefur efnistaka farið fram á svæðinu áratugum saman.

Hinn 23. ágúst 2023 veitti Heilbrigðiseftirlit Suðurlands leyfishafa í máli þessu starfsleyfi fyrir efnistöku í námunni og er gildistími þess til 23. ágúst 2035. Er í starfsleyfinu veitt heimild til vinnslu, þ.m.t. hörpun, á allt að 500.000 m3 af efni úr námunni. Árlega er heimilt að vinna allt að 33.000 m3 af efni. Þá er kveðið á um að við efnistöku og frágang skuli fylgja leiðbeiningum: Námur – efnistaka og frágangur, sem umhverfisráðuneyti o.fl. aðilar gáfu út árið 2002.

Það er skilyrði aðildar í málum fyrir úrskurðarnefndinni að kærandi eigi lögvarinna hagsmuna að gæta tengda viðkomandi ákvörðun, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, nema lög mæli á annan veg. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Almennt ber þó að gæta varfærni við að vísa málum frá á þeim grunni að kærendur skorti lögvarða hagsmuni tengda kærðri ákvörðun nema augljóst sé að það hafi ekki raunhæfa þýðingu fyrir lögverndaða hagsmuni þeirra að fá leyst úr ágreiningi kærumálsins.

Lóð kærenda er 3 ha að stærð og í um 400 m fjarlægð frá hinni umdeildu námu. Er náman sýnileg frá lóðinni en ekki frá því húsi sem fyrir er á henni og byggt var árið 1965. Hafa kærendur upplýst um áform um uppbyggingu vestar á lóðinni þaðan sem útsýni er að námunni. Liggur fyrir að nálægð námunnar við fasteign kærenda er slík að ekki er loku fyrir það skotið að umdeilt jarðefnisnám geti haft grenndaráhrif gagnvart henni, s.s. vegna hávaða og foks. Verður þeim því játuð kæruaðild í málinu.

Mælt er fyrir um í 1. mgr. 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 1. mgr. 25. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana að óheimilt sé að gefa út leyfi til framkvæmda fyrr en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir eða ákvörðun um að fram­kvæmd sé ekki matsskyld. Samkvæmt 17. gr. laga nr. 111/2021 er umhverfismat framkvæmda ferli sem samanstendur af nánar tilgreindum þáttum sem tíundaðir eru í fimm stafliðum, þ. á m. afgreiðsla matsáætlunar, sbr. a-lið og álit Skipulagsstofnunar um umhverfismat fram­kvæmdarinnar, sbr. d-lið. Í síðasta þætti ferilsins, þ.e. e-lið, er svo tilgreint að álit stofnunar­innar sé lagt til grundvallar við afgreiðslu umsókna um leyfi til framkvæmda. Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laganna ber framkvæmdaraðili sem hyggst hefja matsskylda framkvæmd ábyrgð á umhverfismati hennar og skal hann vinna matsáætlun, sbr. 21. gr., og umhverfismatsskýrslu þar sem gerð er grein fyrir umhverfismati framkvæmdarinnar, sbr. 22. gr. Í c-lið 1. mgr. 22. gr. laganna er mælt fyrir um að umhverfismatsskýrsla framkvæmdaraðila skuli innihalda lýsingu og mat á raunhæfum valkostum sem framkvæmdar­aðili hafi kannað og upplýsingar um helstu ástæður fyrir þeim valkosti sem var valinn með tilliti til umhverfisáhrifa fram­kvæmdarinnar.

Tilgangur mats á mismunandi valkostum er einkum að sá sem beri ábyrgð á matinu velti fyrir sér raunhæfum valkostum og mótvægisaðgerðum í þeim tilgangi að draga úr umhverfis­áhrif­um. Þá ber að kynna bæði matsáætlun og umhverfismatsskýrslu fyrir almenningi og veita með því tækifæri á athugasemdum, sbr. 2. mgr. 21. gr. og 1. mgr. 23. gr. laga nr. 111/2021. Geta athugasemdir frá almenningi og aðilum sem hafa hagsmuna að gæta haft verulega þýðingu, t.a.m. um það hvaða valkosti umhverfismat lýtur að. Um leið verður að viðurkenna ákveðið forræði framkvæmdaraðila um það hvaða valkosti hann leggi fram sem uppfylli mark­mið viðkomandi framkvæmdar enda sé matið reist á hlutlægum og málefnalegum sjónar­miðum. Í 24. gr. laganna er fjallað um álit Skipulagsstofnunar um umhverfismat fram­kvæmdar en slíkt mat er veigamikill þáttur í rannsókn máls þegar leyfi er gefið út vegna mats­skyldra framkvæmda.

Hinn 9. mars 2022 barst Skipulagsstofnun matsáætlun framkvæmdaraðila vegna efnis­töku. Voru þar kynnt áform leigutaka námunnar um áframhaldandi efnistöku gjalls í námu E30b, nú E24, í Seyðishólum. Gera mætti ráð fyrir að um 1.500 ferðir vörubíla frá námunni á ári eða um 10 ferðir á dag miðað við 150 vinnudaga á ári, þar af um fimm ferðir til Þorlákshafnar. Stærð efnistökusvæðisins yrði 4,4 ha en væri í dag um 3,5 ha. Efnið væri til notkunar í nágrenninu ásamt því að ráðgert væri að árlega yrði um 20.000 – 25.000 m3 af gjalli flutt til Þorlákshafnar til útflutnings. Síðastliðin fjögur ár hefði efnistaka numið um 75.000 m3 eða tæpum 19.000 m3 á ári og þar af hefðu 5.000 – 10.000 m3 verið fluttir út á ári. Ekki væri gert ráð fyrir jarðraski utan afmarkaðra efnistökusvæða og áhrifasvæði í meginatriðum skilgreint 100 m út fyrir afmörkun þess. Að jafnaði yrðu á svæðinu ein til tvær gröfur og vinnslutæki. Þá yrði þar 4.000 lítra eldsneytis­tankur og tilfallandi færanlegur húsvagn með kaffi- og hreinlætis­aðstöðu. Enga nýja vegagerð þyrfti á svæðinu en gert væri ráð fyrir að Hólskarðsvegur yrði lagður bundnu slitlagi að námu. Í matsskýrslu yrðu skoðaðir og metnir tveir valkostir um framkvæmdir og núllkostur sem fæli í sér að látið yrði staðar numið.

Við meðferð málsins leitaði Skipulagsstofnun umsagna frá sveitarfélaginu, Heilbrigðiseftirliti Suðurlands, Náttúrufræðistofnun Íslands og Umhverfisstofnun, en framkvæmdaraðili hafði áður leitað umsagnar Minjastofnunar Íslands og barst hún Skipulagsstofnun með matsáætlun. Þá var almenningi gert kleift að kynna sér matsáætlunina og veita umsögn um hana. Umsagnir bárust frá framangreindum opinberu aðilum og átta einkaaðilum í mars og apríl 2022. Bárust Skipulagsstofnun frekari upplýsingar frá framkvæmdaraðila í apríl s.á.

Í áliti Skipulagsstofnunar um matsáætlun framkvæmdarinnar, dags. 27. maí 2022, kom m.a. fram að í umhverfismatsskýrslu þyrfti að birta sýnileikakort þar sem fram kæmi hvaðan mætti sjá framkvæmdasvæðið. Jafnframt þyrfti að sýna ásýndarmyndir þar sem val á sjónarhornum væri með hliðsjón af umferð ferðafólks og áningarstaða, nálægum íbúðar- og frístundahúsum sem og þekktum útivistarstöðum í nágrenni efnistökusvæðisins. Gera þyrfti grein fyrir því hvað væri lagt til grundvallar mati á gildi svæðisins. Þá þyrfti að gera grein fyrir því hvernig staðið yrði að frágangi svæðisins að vinnslutíma loknum. Meta þyrfti áhrif á jarðmyndanir og vistkerfi sem nytu verndar samkvæmt 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Einnig þyrfti að meta áhrif aukinnar efnistöku á loftgæði á svæðinu og ónæði fyrir frístundabyggð sem hlytist af aukinni umferð vörubíla. Þá þyrfti að skýra betur hvað fælist í valkosti 2 og meta áhrif beggja kosta á alla umhverfisþætti, gera grein fyrir mögulegum frágangi á svæðinu án þess að til frekari efnistöku kæmi og að núllkostur gerði ráð fyrir frágangi á námusvæðinu.

Hinn 2. ágúst 2022 barst Skipulagsstofnun umhverfismatsskýrsla framkvæmdaraðila og fylgdu henni tveir viðaukar, annars vegar um fugla og gróður í Seyðishólum og hins vegar um jarðfræði- og náttúrufarslegar aðstæður. Í skýrslunni kom fram að hún væri í samræmi við mats­áætlun með þeirri breytingu að vegna athugasemda frá sumarhúsaeigendum væri umhverfisþátturinn loftgæði tekinn með í umhverfismati. Efnistaka færi fram í núverandi námu sem yrði útvíkkuð og dýpkuð. Lagt væri mat á þrjá valkosti. Núll­kost sem fælist í að hætta allri efnistöku nú þegar nema til að ljúka frágangi námunnar. Námuveggir væru mjög brattir og útilokað að gera ummerki efnistökunnar lítt sýnileg og myndi námuopið þá stækka verulega og svæðið breyta um lit og yfirbragð. Vegna lögunar námunnar yrði það heilmikil og flókin fram­kvæmd. Þá mætti búast við aukinni ásókn í aðrar gjallnámur í Seyðishólum eða í grenndinni yrði allri efnistöku hætt. Var og tekið fram að þar sem fyrir lægi „heimild um áframhaldandi efnistöku [væri] þessi kostur ekki skoðaður frekar.“ Valkostur 1 væri aðaltillaga og fælist í 500.000 m3 efnistöku á 15 árum eða um 33.000 m3 á ári. Valkostur 2 væri að halda áfram svipaðri efnistöku og verið hefði eða um 20.000 m3 á ári. Í því myndi felast um 300.000 m3 efnis­taka á 15 árum eða 500.000 m3 á 25 árum, yrðu engin tímamörk sett á þann kost. Gert væri ráð fyrir að frágangur við framkvæmdalok yrði í stíl við frágang vegna valkosts 1 nema námuopið yrði minna um sig. Skoðaðir væru umhverfisþættirnir loftgæði, landslag/sjónræn áhrif, gróður, dýralíf, jarðfræði og jarðmyndanir, umferð og samfélag.

Í umhverfismatsskýrslunni var greint frá því að áhrif áframhaldandi vinnslu gjalls í námunni á jarðmyndanir svæðisins yrðu lítil sem engin umfram það sem orðið væri. Þar sem Seyðishólum hefði þegar verið raskað á óafturkræfan hátt væri talið að 61. gr. laga nr. 60/2013 ætti ekki við. Námuholan myndi stækka aðeins og nýtt yfirborð námuveggjanna koma í ljós sem að öllum líkindum yrði svipað og núverandi veggir. Áhrif á ásýnd Seyðishóla miðað við núverandi ástand væru þó metin frekar neikvæð og óafturkræf. Í stað þess að „flæmast um hólinn með námubarmana“ til að fá náttúrulegan halla væri valið að hafa námuna sem minnst sýnilega og lokafrágang þannig að við hana yrði skilið með bröttum og sýnilegum gjallveggjum sem sýndu gerð efnisins, litadýrð og önnur sérkenni námunnar. Valkostur fram­kvæmdaraðila væri að halda stærð námuops í lágmarki og hafa námuveggi bratta og sýnilega til að sjá mætti þetta áhrifamikla náttúrufyrirbæri innan frá og yrði svæðið gert aðgengilegt fyrir almenning. Ekki væru sjáanleg áhrif af framkvæmdinni á verndarsvæði umhverfis Kerhól nema sjónræn áhrif frá hólnum.

Engin eiginleg vinnsla á efni færi fram í námunni nema efnislosun með vinnuvélum, sigtun á hluta efnis, stundum mölun og síðan mokstur á vörubíla. Þessi vinna væri háð eftirspurn og ekki í gangi alla daga, en með auknu magni myndi vinnslutími lengjast. Sem mótvægi væri búið að taka í notkun nýja vélasamstæðu sem væri afkastameiri og hljóðlátari en eldri vélar og unnt að knýja með rafmagni. Ætlun framkvæmdaraðila væri að fá rafmagnsheimtaug og nota rafmagn sem orkugjafa við vinnsluna sem minnki verulega hávaða. Þá væri gjallið þeirrar gerðar að vinnsla þess væri mun hljóðlátari en vinnsla á venjulegu malarefni. Vandaðar yfir­breiðslur væru á vögnum vörubílanna. Í Seyðishólum væru opnar námurnar E30a og E30b. Námu­op þeirrar námu sem um ræddi, E30b (nú E24), sneri til suðurs og vegna ríkjandi vindáttar væri útilokað að gjallfok úr þeirri námu væri að valda skemmdum á mannvirkjum við „Klausturgötur“ auk þess sem engin sýnileg merki væru um gjallfok í þá átt frá námunni. Þá myndi námuop til austurs nánast ekki breytast við framkvæmdina. Gjallfok í „þessu hverfi“ hlyti því að eiga aðrar or­sakir og ekki væru ætlaðar neinar breytingar frá því sem nú væri. Lögð væri til vöktun með gjallfoki í vondum veðrum á svæði suðvestan við námu. Yrði aukið gjallfok úr námu stað­fest yrðu aðrir möguleikar skoðaðir, svo sem skjólbelti með íslenskum trjám, í samráði við sumar­húsaeigendur og Skógræktina. Áhrifin væru metin óveruleg líkt og áhrif framkvæmdar­innar á umferð. Heildaráhrifin voru metin óveruleg.

Í greinargerð um jarðfræði- og náttúrufars­legar aðstæður sem fylgdi umhverfismatsskýrslunni kom m.a. fram að Seyðishólar væru hluti Grímsnesgosreinar. Grímsnes­gosin hefðu átt sér stað eftir lok ísaldar. Í gosunum hefði tiltölulega mikið magn af kviku þotið hátt í loft upp og tiltölulega mikill hluti þeirrar kviku storknað í loftinu og orðið að gjalli, sem að miklu leyti hafi hlaðist upp í myndarleg gíguppvörp á gosstaðnum. Seyðishólar væru eldvörp og féllu því undir 3. mgr. 61. gr. laga nr. 60/2013. Um þetta atriði er í greinargerðinni ályktað að „Seyðishólum hefur þegar verið raskað á óafturkræfan hátt og þar með fellur þessi klausa í raun um sig sjálfa.“

Framkvæmdin og umhverfismatsskýrslan voru auglýst í Lögbirtingablaðinu og Fréttablaðinu 8. september 2022 og lá skýrslan frammi til kynningar hjá Skipulagsstofnun og á skrifstofu Grímsnes- og Grafningshrepps frá þeim degi til 20. október s.á. Þá var umhverfismatsskýrslan einnig aðgengileg á vef Skipulagsstofnunar. Stofnunin leitaði umsagna Umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar, Grímsnes- og Grafningshrepps og Heilbrigðiseftirlits Suðurlands og bárust umsagnir frá þeim öllum. Í umsögn Umhverfisstofnunar, dags. 27. september 2022, var m.a. bent á að jarðmyndunin nyti sérstakrar verndar 61. gr. laga nr. 60/2013 og væri ekki matsatriði hvort ákvæðið ætti við um Seyðishóla. Þrátt fyrir að svæðinu hefði þegar verið raskað réttlæti það ekki frekara rask. Þá bárust einnig athugasemdir frá almenningi. Hinn 11. nóvember 2022 barst Skipulagsstofnun viðbrögð framkvæmdaraðila við framkomnum um­sögnum.

Álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum vegna efnistökunnar lá fyrir 12. desember 2022. Kom þar m.a. fram að í vettvangsferð stofnunarinnar hefði orðið ljóst að umfang raskaðs svæðis myndi ekki aukast verulega og að frekari efnistaka væri ekki líkleg til að hafa mikil áhrif á ásýnd svæðisins frá því sem nú væri. Í álitinu var vísað til valkosta 1 og 2 og kom fram að í umhverfismatsskýrslu segði að ómögulegt væri að gera ummerki efnistökunnar lítt sýnileg með því að reyna að ná fram náttúrulegum halla því að við þær framkvæmdir myndi námuopið stækka verulega og svæðið breyta um lit og yfirbragð. Væri það valkostur framkvæmdaraðila að halda stærð námuops í lágmarki og hafa námuveggi bratta og sýnilega. Slíkur frágangur byði að mati framkvæmdaraðilans upp á að sjá megi þetta áhrifamikla náttúrufyrirbæri innan frá og svæðið verði áhugavert til skoðunar og myndatöku fyrir almenning, fræðimenn og ljósmyndara. Helstu neikvæðu áhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar fælust í staðbundnum sjónrænum áhrifum sem væru að mestu óafturkræf og líta mætti svo á að áhrif á landslag og ásýnd yrðu nokkuð neikvæð. Var og tekið undir með Náttúrufræðistofnun um að þrátt fyrir það mikla rask sem orðið hefði á svæðinu hefði það hátt verndargildi og að fyrirhugaðri efnistöku lokinni ætti að láta staðar numið og varðveita það sem eftir stæði af gígnum. Um væri að ræða áframhaldandi all umfangsmikla efnistöku úr gjallgígum sem bæru mikil ummerki rasks vegna áratuga efnistöku og að þó búið væri að raska svæðinu réttlætti það ekki fyrirhugaða efnistöku í jarðmyndun sem nyti sérstakrar verndar samkvæmt lögum um náttúruvernd og ljóst að áframhaldandi efnistaka myndi hafa í för með sér frekara varanlegt og óafturkræft rask. Voru áhrif á jarðmyndanir talin staðbundið nokkuð neikvæð. Umhverfis­stofnun hefði í umsögn sinni bent á að við frágang yrði að móta jarðmyndunina og milda þannig ásýnd svæðisins en ekki komið með tillögur um hvernig þeim frágangi ætti að vera háttað. Hefði framkvæmdaraðili bent á að frágangur með þeim hætti að gera brúnir og námuvegg meira aflíðandi leiddi til þess að flatarmál raskaðs svæðis yrði umfangsmeira. Þá var ekki talið líklegt að ónæði vegna efnisvinnslunnar eða efnisflutninga yrði verulegt, hvorki varðandi hávaða né rykmengun, þrátt fyrir að fyrir lægi að ferðum vörubíla gæti fjölgað úr 14 ferðum á dag í 20 ferðir að meðaltali. Búið væri að uppfæra vélar og dregið yrði úr hættu á rykmengun með því að leggja bundið slitlag á veginn að námunni. Benti Skipulagsstofnun á að setja þyrfti skýr skilyrði í framkvæmdaleyfi varðandi frágang og tímamörk efnistöku.

Samkvæmt því sem að framan er rakið var málsmeðferð Skipulagsstofnunar vegna mats á umhverfisáhrifum fullnægjandi þar sem fjallað var um og tekin afstaða til þeirra umhverfisþátta sem almennt fylgja námuvinnslu eins og hér um ræðir og leitað var umsagna viðeigandi aðila.

Lokaliður mats á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 111/2021 felst í því að álit Skipulags­stofnunar á umhverfismatskýrslu er lagt til grundvallar við afgreiðslu umsóknar um leyfi til framkvæmda, sbr. e-lið 1. mgr. 17. gr. laganna. Fjallað er um framkvæmdaleyfi í skipulags­lögum en samkvæmt 4. mgr. 13. gr. laganna skal sveitarstjórn við útgáfu framkvæmdaleyfis fjalla um og taka afstöðu til þess hvort framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir. Jafn­framt skal hún ganga úr skugga um að gætt hafi verið ákvæða laga um náttúruvernd og annarra laga og reglugerða sem við eiga.

Samkvæmt gögnum málsins lagði framkvæmdaraðili fram umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps, sbr. 3. mgr. 13. gr. skipulagslaga. Var umsóknin einnig undirrituð af eiganda námunnar. Umsókninni fylgdi umhverfismatsskýrsla frá 31. ágúst 2022, álit Skipulags­stofnunar um mat á umhverfisáhrifum frá 12. desember s.á. og uppdráttur er sýndi mörk framkvæmda­svæðis og fyrirhugaða mótun námunnar. Ekki verður séð að umsagnir umsagnaraðila við um­hverfismatsskýrsluna hafi verið lagðar fram eða upplýsingar um starfs­leyfi það sem á þeim tíma var í umsóknarferli, sbr. 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Umsagnirnar eru birtar á vefsíðu Skipulags­stofnunar og var jafnframt til þeirra vísað í áliti stofnunarinnar og þá var í grenndarkynningu framkvæmdaleyfis­umsóknarinnar vísað til auglýsingar Heilbrigðiseftirlits Suðurlands um að starfsleyfisskilyrði væru til kynningar. Verður því ekki annað ráðið en að nauðsynleg gögn hafi legið fyrir hjá leyfis­veitanda við töku hinnar kærðu ákvörðunar.

Á fundi sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps 15. mars 2023 var fyrrnefnd umsókn um framkvæmdaleyfi lögð fram og málið afgreitt með svofelldri bókun: „Sveitarstjórn samþykkir samhljóða útgáfu framkvæmdaleyfis á grundvelli 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Sveitar­stjórn setur þau skilyrði að útgáfa leyfisins verði grenndarkynnt eigendum aðliggjandi land­eigna og að álit Skipulagsstofnunar og umhverfismatsskýrsla framkvæmda­aðila verði lögð fram til grundvallar við kynningu málsins. Útgáfa leyfisins skal háð skilyrðum umhverfismats­skýrslu framkvæmdarinnar þar sem m.a. er tekið er til vöktunar og mótvægis­aðgerða.“

Með bréfi, dags. 3. apríl 2023, var framkvæmdaleyfið grenndarkynnt, þ. á m. fyrir kærendum máls þessa. Frestur til að koma að athugasemdum var veittur til 1. maí s.á. Allnokkur fjöldi athugasemda barst á kynningartímanum, m.a. frá kærendum. Umsóknin var tekin fyrir að nýju á fundi sveitarstjórnar 29. júní 2023. Auk umsóknarinnar var lagt fram álit Skipulags­stofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar og umhverfismatsskýrsla. Jafnframt var bókað að lagðar væru fram umsagnir og athugasemdir sem borist hefðu við grenndar­kynningu ásamt greinargerð sem tæki til útgáfu leyfisins og skilyrða í tengslum við útgáfu þess. Samþykkti sveitarstjórn að gera ekki athugasemd við útgáfu framkvæmdaleyfisins á grundvelli 13. gr. skipulagslaga, reglugerðar nr. 772/2012 og laga nr. 111/2021. Kom einnig fram að allar helstu forsendur fyrir útgáfu leyfisins kæmu fram í greinargerð þess og að öllum helstu athuga­semdum væri þar svarað með fullnægjandi hætti og í umhverfismati framkvæmdarinnar. Í kjöl­farið gaf skipulagsfulltrúi út leyfið 10. júlí s.á. og er þar bókun sveitarstjórnar tekin upp. Aug­lýsing um útgáfu leyfisins var birt 13. júlí 2023 í Morgunblaðinu, Dagskránni og Lögbirtinga­blaði svo og á heimasíðum Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita bs. og Grímsnes- og Grafningshrepps. Ekki liggur fyrir hvort kærendum eða öðrum þeim sem athugasemdir gerðu við grenndarkynningu hafi verið kynnt niðurstaðan sérstaklega í samræmi við 2. málsl. 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga eða að Skipulagsstofnun hafi verið tilkynnt um útgáfu þess, sbr. 4. mgr. 27. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Það getur þó ekki haft áhrif á gildi hinnar kærðu ákvörðunar hafi það ekki verið gert.

Grenndarkynnt var fyrir lóðarhöfum í grennd hinnar umdeildu námu en kynningin náði ekki til eigenda Klausturhóla 3 og 8. Hefur einn eigenda Klausturhóla 8 lýst yfir stuðningi við mála­tilbúnað kærenda fyrir úrskurðarnefndinni. Fyrir liggur að umræddar lóðir, þ.e. Klausturhólar 3 og 8 eru í um 600 – 700 m fjarlægð frá námusvæðinu og er afstaða þeirra gagnvart svæðinu slík að ekki er unnt að telja grenndarhagsmuni þeirra skerðast í minna mæli en sumra annarra þeirra sem þó var grenndarkynnt fyrir og hefði því verið rétt að grenndarkynningin næði einnig til þeirra. Verður að telja það annmarka á grenndarkynningu málsins að það hafi ekki verið gert.

Líkt og fram hefur komið var í umhverfismatsferlinu vísað til 61. gr. laga nr. 60/2013. Í 3. mgr. ákvæðisins er kveðið á um að forðast beri að raska þeim vistkerfum og jarðminjum sem talin eru upp í 1. og 2. mgr. þess nema brýna nauðsyn beri til. Í athugasemdum í frumvarpi því er varð að lögunum var vísun í „brýn[a] nauðsyn“ samsvarandi ákvæðis skýrð með þeim hætti að lögð væri áhersla á að einungis mjög ríkir hagsmunir gætu réttlætt röskun og þá fyrst og fremst brýnir almannahagsmunir. Þrátt fyrir þær breytingar sem urðu á frumvarpinu í meðförum þingsins og á lögunum með lögum nr. 109/2015 er framangreind tilvísun um brýna nauðsyn óbreytt. Þá er í málsgreininni einnig kveðið á um að skylt sé að afla framkvæmdaleyfis eða eftir atvikum byggingarleyfis, sbr. skipulagslög og lög um mannvirki, vegna framkvæmda sem hafa í för með sér slíka röskun. Kemur og einnig fram að áður en leyfi sé veitt skuli leyfis­veitandi leita umsagnar Umhverfisstofnunar og viðkomandi náttúruverndarnefndar nema fyrir liggi staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag þar sem umsagnir skv. 1. og 2. mgr. 68. gr. laga nr. 60/2013 liggja fyrir. Er það því á herðum leyfisveitanda að meta hvort brýna nauðsyn beri til að raska þeim vistkerfum og jarðminjum sem verndar njóta skv. 1. og 2. mgr. 61. gr. laganna. Ein af þeim jarðmyndunum sem finna má í upptalningu a. liðar 2. mgr. eru eldvörp en líkt og fram hefur komið teljast Seyðishólar til slíkra jarðmyndana og ekki liggur fyrir að röskuð svæði séu undanskilin þeirri vernd sem ákvæðið veitir. Samkvæmt 4. mgr. 61. gr. skal hins vegar líta til verndarmarkmiða 2. og 3. gr. laganna og jafnframt huga að mikilvægi minjanna og sérstöðu í íslensku og alþjóðlegu samhengi við mat á leyfisumsókn.

Í 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga og 27. gr. laga nr. 111/2021 er fjallað nánar um hvernig líta skuli til álits Skipulagsstofnunar við leyfisveitingu vegna matsskyldrar framkvæmdar. Ber leyfisveitanda að leggja álitið til grundvallar við ákvörðun um útgáfu leyfis og taka saman greinargerð um afgreiðslu þess. Þannig segir í 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga að slíkt skuli gert í samræmi við ákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum en í 3. mgr. 27. gr. laga nr. 111/2021 er kveðið á um að í slíkri greinargerð skuli afgreiðsla leyfis rökstudd þar sem gerð sé grein fyrir samræmi við niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar um umhverfismat framkvæmdarinnar. Einnig kemur fram að hafi Skipulagsstofnun sett skilyrði um mótvægis­aðgerðir eða vöktun skuli það koma fram í leyfinu.

Hin kærða ákvörðun var tekin af sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps á fundi hennar 29. júní 2023 og var þar m.a. bókað: „Að mati sveitarstjórnar koma allar helstu forsendur fyrir útgáfu leyfisins fram innan framlagðrar greinargerðar framkvæmdaleyfisins og öllum helstu athugasemdum er svarað með fullnægjandi hætti innan greinargerðar og umhverfismats framkvæmdarinnar.“ Í inngangi tilvitnaðrar greinargerðar framkvæmdaleyfisins, dags. 22. júní 2023, kemur fram að hún sé unnin í samræmi við 10. og 12. gr. reglugerðar um framkvæmda­leyfi og 3. mgr. 27. gr. laga nr. 111/2021. Í greinargerðinni er fram­kvæmdinni lýst og m.a. greint frá því að hún sé í samræmi við aðalskipulag og að ekki sé í gildi deiliskipulag fyrir svæðið. Þá eru skilyrði fyrir útgáfu leyfisins tilgreind, greint frá umhverfismati framkvæmdar­innar og tekið fram að í umhverfismatsskýrslu hafi verið lagt mat á áhrif framkvæmdarinnar á loft­gæði, landslag/sjónræn áhrif, gróður, dýralíf, jarðfræði og jarðmyndanir, vatnafar, fornminjar, umferð, samfélag og verndarsvæði í grenndinni. Áhrif á gróður, dýralíf, vatnafar og fornminjar væru metin óveruleg eða engin. Þá kom fram að áhrif fram­kvæmdarinnar á loftgæði og ónæði teldust óveruleg að teknu tilliti til mótvægisaðgerða, áhrif á jarðmyndanir og landslag/sjónræn áhrif teldust ekki veruleg að teknu tilliti til flatarmáls­stækkunar námunnar og þess að svæðið væri nú þegar raskað.

Af hinni kærðu ákvörðun eða greinargerð um framkvæmdaleyfið verður ekki ráðið að við ákvörðunar­tökuna hafi verið tekin afstaða til þess af hálfu sveitarstjórnar hvort umsóttar fram­kvæmdir féllu undir gildisvið 61. gr. laga um náttúruvernd þrátt fyrir álit Skipulagsstofnunar í umhverfis­mati hennar og fyrirliggjandi umsögn Umhverfisstofnunar um það álitamál. Þar af leiðandi er í ákvörðuninni ekki fjallað um hvort brýna nauðsyn beri til framkvæmdanna í sam­ræmi við greint lagaákvæði ef við ætti. Eins og áður hefur verið rakið er það hlutverk leyfis­veitanda að taka afstöðu til þessa. Þá verður gerð athugasemd við að í framkvæmdaleyfi sé ekki skýr­lega mælt fyrir um gildistíma leyfisins, sbr. 7. tölulið 12. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi.

Með vísan til framangreinds eru þeir ágallar á málsmeðferð og rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar að fella verður hana úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 29. júní 2023 um að samþykkja útgáfu framkvæmdaleyfis fyrir efnistöku úr námu E24 í Seyðishólum.

135/2023 Kirkjuvegur

Með

Árið 2023, föstudaginn 29. desember, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála:

 Mál nr. 135/2023, kæra á afgreiðslu bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 9. nóvember 2022 um að samþykkja deiliskipulag Vesturbæjar í Hafnarfirði.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. desember 2023, mótteknu sama dag, kæra eigendur, Kirkjuvegi 3, Hafnarfirði, þá ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 9. nóvember 2022 að samþykkja deiliskipulag Vesturbæjar Hafnarfjarðar. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi að því er varðar lóð kærenda að Kirkjuvegi 3A.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarbæ 13. desember 2023.

Málavextir: Hinn 5. október 2021 samþykkti skipulags- og byggingarráð Hafnarfjarðar að auglýsa tillögu að deiliskipulagi Vesturbæjar og samþykkti bæjarstjórn greinda afgreiðslu á fundi 13. s.m. Tillagan var auglýst til kynningar frá 19. október til 30. nóvember 2021 og athugasemdafrestur síðan framlengdur til 9. desember s.á. Málið var tekið fyrir að nýju á fundi skipulags- og byggingarráðs 25. mars 2022 og uppfærð tillaga ásamt greinargerð samþykkt. Samþykkti bæjarstjórn nefnda afgreiðslu á fundi 6. apríl s.á. Í kjölfarið var deiliskipulagið sent til Skipulagsstofnunar til lögboðinnar yfirferðar sem taldi að yfirfara þyrfti og skýra nánar tiltekin atriði. Málið var í frekari vinnslu hjá sveitarfélaginu og á fundi skipulags- og byggingarráðs 3. nóvember 2022 voru uppfærð gögn og minnisblað vegna samantektar verkefnastjóra við athugasemdir Skipulagsstofnunar samþykkt. Jafnframt var málinu vísað til staðfestingar bæjarstjórnar sem á fundi 9. nóvember 2022 samþykkti greinda afgreiðslu. Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins var birt í B-deild Stjórnartíðinda 29. nóvember 2022.

 Málsrök kærenda: Kærendur benda á að þegar deiliskipulag Vesturbæjar Hafnarfjarðar hafi fyrst verið auglýst hafi engar breytingar verið fyrirhugaðar á lóð þeirra. Í greinargerð með uppfærðri tillögu frá febrúar 2022 og mars s.á. komi skýrt fram að engar breytingar séu fyrirhugaðar á lóðinni. Hinn 4. okóber 2023 hafi bæjarlögmaður Hafnarfjarðar haft samband við kærendur og sent þeim skjal með heitinu „tillaga að deiliskipulagi“ og skipulagstöflu þar sem fram hafi komið að lóð kærenda yrði skipt upp í tvær lóðir. Tillagan hafi komið kærendum í opna skjöldu og hafi þeir ítrekað leitað frekari upplýsinga frá bæjarlögmanni á tímabilinu frá 6.–25. s.m. Efnislegt svar hafi borist þeim 6. nóvember 2023 þar sem fullyrt hafi verið að umrædd tillaga hefði tekið gildi og að kærufrestir vegna hennar væru liðnir. Þá hafi kærendum fyrst orðið ljóst að búið væri að taka ákvörðun um skiptingu á lóð þeirra án þess að þeim hafi verið kynnt málið eða gefinn kostur á andmælum.

Hinn 1. desember 2023 hafi lögmaður kærenda sent erindi til bæjarlögmanns þar sem m.a. hafi verið farið fram á að hafist yrði handa við að leiðrétta mistök varðandi lóð þeirra og hafi bæjarlögmaður sent viðkomandi gögn samdægurs og tjáð þeim að bæjarstjóri yrði upplýstur um stöðu mála. Auglýsing í B-deild Stjórnartíðinda 29. nóvember 2022 um deiliskipulagið geti ekki markað upphaf kærufrests gagnvart kærendum þar sem breyting sú er varði lóð þeirra hafi aldrei verið kynnt þeim eða auglýst eftir að upphafleg tillaga að nýju deiliskipulagi hafi verið auglýst sem gerði ekki ráð fyrir breytingum á lóð kærenda. Afsakanlegt verði að telja að kæra í máli þessu hafi ekki borist fyrr og að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er tekið fram að hið kærða deiliskipulag sé nokkuð umfangsmikið og hafi tillagan verið ítarlega kynnt bæjarbúum og öðrum hagsmunaaðilum meðan á vinnu þess hafi staðið. Þó nokkuð af athugasemdum hafi borist á kynningartíma tillögunnar. Skipulagsfulltrúi hafi tekið saman minnisblað vegna þeirra sem samþykkt hafi verið á fundi bæjarstjórnar ásamt uppfærðri tillögu. Skipulagsstofnun hafi samþykkt með bréfi, dags. 24. nóvember 2022, að birt yrði auglýsing um samþykkt deiliskipulagsins. Undirbúningur hinnar kærðu ákvörðunar hafi því verið lögum samkvæmt.

Athugasemdir eiganda Kirkjuvegar 3A: Bent er á að Kirkjuvegur 3 og 3A séu í raun tvö samliggjandi hús á einni lóð, þ.e. timburhús (sem sé nr. 3A) og steinhús (sem sé nr. 3). Umræddur eigandi hafi búið erlendis í um 1 og ½ ár og þegar hann hafi komið til landsins vorið 2021 hafi verið búið að byggja stóran sólpall undir allri suðvesturhlið beggja húsanna. Hvort sem nágrannarnir séu við leik eða störf, að grilla eða í sólbaði blasi þeir nú við þegar horft sé út um gluggann á húsi eigandans. Byrgi sólpallurinn fyrir kjallaraglugga og ókleift sé að sinna viðhaldi utanhúss á kjallara. Þá stafi aukinn eldhætta af sólpalli úr timbri og grillaðstöðu alveg upp við húsið. Vegna framangreinds hafi þurft að skipta lóðinni upp og hafi Hafnarfjarðarbæ samþykkt erindi eiganda þess efnis. Sé kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar vegna deiliskipulagsins liðinn.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur telja að umsögn sveitarfélagsins sé illskiljanleg. Ekki sé gerð athugasemd við málsatvikalýsingu kærenda en hún sé um að sveitarfélagið hafi ekki staðið rétt að umræddri skipulagsbreytingu. Þótt upphafleg tillaga hafi verið auglýst þá hafi breytingin sem lotið hafi að eign kærenda ekki verið það og hún hafi ekki verið kynnt kærendum með neinum hætti. Slík framkvæmd sé augljóslega ekki í samræmi við 8. kafla skipulagslaga nr. 123/2010, einkum 1. mgr. 43. gr. laganna sem kveði á um að fara skuli með breytingu á deiliskipulagi sem nýtt deiliskipulag. Umsögn þess sé því markleysa og sé andmælt sem slíkri.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar.

Hinn 29. nóvember 2022 var birt auglýsing í B-deild Stjórnartíðinda um samþykkt bæjarstjórnar frá 9. s.m. á endurgerðu og nýju deiliskipulagi Vesturbæjar í Hafnarfirði, þ.e. deiliskipulagi því sem kært er í máli þessu. Samkvæmt 2. mgr. 27. gr., sbr. 1. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 tekur kærufrestur að líða degi eftir opinbera birtingu ákvörðunar. Kæra vegna hins umdeilda deiliskipulags barst úrskurðarnefndinni 4. desember 2023 og því ljóst að kærufrestur var þá liðinn.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá skv. 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að hún verði tekin til meðferðar. Í 2. mgr. kemur fram að kæru skuli ekki sinnt ef meira en ár sé liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila, en líta verður svo á að það taki jafnframt til þess þegar ákvörðun sætir opinberri birtingu skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni af framangreindum sökum.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

134/2023 Gauksstaðir

Með

Árið 2023, föstudaginn 29. desember, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 134/2023, kæra á ákvörðun framkvæmda- og skipulagsráðs Suðurnesjabæjar frá 25. október 2023 um að samþykkja fyrirspurn vegna endurbyggingu matshluta 03 á lóðinni Gauksstöðum.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. nóvember 2023, er barst nefndinni 29. s.m., kæra eigendur, Gauksstaðavegi 6, þá ákvörðun framkvæmda- og skipulagsráðs Suðurnesjabær frá 25. október 2023 að samþykkja fyrirspurn um endurbyggingu á matshluta 03 á lóðinni Gauksstöðum. Skilja verður málskot kærenda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Suðurnesjabæ 22. desember 2023.

Málsatvik og rök: Á fundi framkvæmda- og skipulagsráðs Suðurnesjabæjar 20. júlí 2023 var tekin fyrir fyrirspurn vegna endurbyggingar á matshluta 03 á lóðinni Gauksstöðum. Fólu fyrirhugaðar framkvæmdir í sér að fjarlægja geymslu og byggja íbúðarhúsnæði á nýjum stað innan lóðar. Var erindinu synjað þar sem ráðið taldi breytinguna ekki vera lítilsháttar eins og fram kæmi í byggingarlýsingu. Erindið var tekið fyrir að nýju á fundi ráðsins 20. september s.á. en þá höfðu verið gerðar breytingar á byggingaráformunum. Samþykkti ráðið byggingaráformin með fyrirvara um grenndarkynningu án athugasemda, sbr. 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Með bréfi verkefnastjóra umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 25. september 2023, voru áformin grenndarkynnt hagsmunaaðilum og bárust athugasemdir á kynningartíma, þ. á m. frá kærendum. Að kynningu lokinni tók framkvæmda- og skipulagsráð erindið fyrir að nýju á fundi 25. október s.á. og bókaði að athugasemdir hefðu borist þar sem fjölgun íbúða og aukinni umferð væri mótmælt. Taldi ráðið að byggingaráformin væru í samræmi við aðalskipulag og að framkomnar athugasemdir gæfu ekki tilefni til synjunar. Væri erindið því samþykkt. Staðfesti bæjarstjórn greinda afgreiðslu á fundi 1. nóvember s.á.

Kærendur telja að Gauksstaðavegur beri ekki þá aukna umferð sem muni fylgja fyrirhugaðri  byggingu, en um sé að ræða einbreiðan veg án gangstétta. Miðað við staðsetningu muni umferð til og frá Gauksstöðum fara í gegnum innkeyrslu kærenda að Gauksstaðavegi 6. Það sé augljóst að á Gauksstöðum muni verða rekið íbúðarhótel en hvergi hafi verið gert ráð fyrir slíkri starfsemi á svæðinu.

Af hálfu Suðurnesjabæjar er bent á að um sé að ræða metnaðarfulla uppbyggingu á eldra húsnæði á stórri lóð. Ekki liggi fyrir samþykkt deiliskipulag og sé því stuðst við gildandi aðalskipulag, en þar sé lóðin Gauksstaðir á skilgreindu svæði fyrir íbúðarbyggð (ÍB-16). Í Aðalskipulagi Suðunesjabæjar 2022–2034 segi að á íbúðarsvæðum sé svigrúm fyrir heimagistingu og íbúðir til útleigu í tengslum við ferðaþjónustu. Umferðaraukning og það ónæði sem hljótist af fyrirhugaðri byggingu verði ekki meiri en eðlilegt geti talist í þéttbýli.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verða þó ákvarðanir sem ekki binda enda á mál ekki kærðar til æðra stjórnvalds.

Afgreiðsla umsóknar um byggingarleyfi og útgáfu þess er í höndum byggingarfulltrúa samkvæmt ákvæðum laga nr. 160/2010 um mannvirki, sbr. 2. mgr. 9. gr., 11. gr. og 13. gr. laganna. Umrætt svæði hefur ekki verið deiliskipulagt en upphaf máls þessa má rekja til fyrirspurnar lóðarhafa Gauksstaða til bæjaryfirvalda Suðurnesjabæjar vegna tiltekinna byggingaráforma á lóðinni. Samkvæmt framkomnum upplýsingum frá bæjaryfirvöldum hafa byggingaráformin ekki verið samþykkt af byggingarfulltrúa. Hin kærða ákvörðun framkvæmda- og skipulagsráðs um að samþykkja fyrirspurn vegna umræddra byggingaráforma að lokinni grenndarkynningu felur samkvæmt framansögðu ekki í sér lokaákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga heldur er hún liður í málsmeðferð framangreinds erindis sem eftir atvikum lýkur með samþykki byggingarfulltrúa á byggingaráformum. Er því ekki fyrir hendi ákvörðun sem borin verður undir úrskurðarnefndina og verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Bent er á að ljúki málinu með því að byggingarfulltrúi samþykki umdeild byggingaráform byggingaráform er sú ákvörðun eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

128/2023 Hörgá E-9 leyfi Fiskistofu

Með

Árið 2023, fimmtudaginn 21. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Arnór Snæbjörnsson formaður og Geir Oddsson auðlindafræðingur. Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor tók þátt í gegnum fjarfundabúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 128/2023, kæra á ákvörðun Fiskistofu frá 12. september 2022 um að veita leyfi til efnistöku á svæði E-9 í Hörgá í Hörgársveit.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. nóvember 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir Náttúrugrið, þá ákvörðun Fiskistofu frá 12. september 2022 að veita leyfi til efnistöku á svæði E-9 í Hörgá í Hörgársveit. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt var gerð krafa um frestun réttaráhrifa. Þykir málið nægjanlega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Fiskistofu 21. og 29. nóvember 2023.

Málavextir: Hinn 9. febrúar 2022 sótti framkvæmdaraðili, G.V. Gröfur, um leyfi Fiskistofu fyrir 200.000 m3 efnistöku á tveimur afmörkuðum neðri hlutum efnistökusvæðis E-9 í Hörgá. Í umsókninni kom fram að efnistökusvæðið væri samtals tæpir 2 km á lengd og að jafnaði 100 m á breidd. Meðaldýpt efnistöku yrði um 1,0 m. Við meðferð málsins aflaði Fiskistofa umsagnar Hafrannsóknastofnunar og bauð framkvæmdaraðila að koma sjónarmiðum sínum á framfæri vegna hennar. Leitaði Fiskistofa einnig álits Skipulagsstofnunar um hvort áform framkvæmdaraðila færu í bága við umhverfismat vegna efnistöku úr Hörgá frá árinu 2015. Hinn 12. september 2022 veitti Fiskistofa framkvæmdaraðila leyfi til allt að 100.000 m3 efnistöku úr Hörgá á nánar tilgreindum svæðum innan efnistökusvæðis E-9.

 Málsrök kæranda: Kærandi vísar til sömu röksemda og komu fram af hans hálfu í máli úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála nr. 61/2023 og niðurstöðu nefndarinnar í því máli, þar sem fellt var úr gildi leyfi til efnistöku í Hörgá. Um kærufrest bendir kærandi á að hið kærða leyfi hafi ekki legið frammi í málum úrskurðarnefndarinnar nr. 53/2023 og 61/2023 og um það hafi ekki verið fjallað í þeim málum. Fiskistofa hafi ekki auglýst leyfið og það hafi hvergi verið birt. Nánari rök voru færð fyrir kæru í viðbótarathugasemdum kæranda sem eru raktar hér á eftir.

Málsrök Fiskistofu: Af hálfu Fiskistofu er vísað til þess að ákvörðun um veitingu hins kærða leyfis hafi byggst á þeim gögnum sem fylgt hafi umsókn um leyfið, þeim breytingum sem gerðar hafi verið á umsókninni og skýrslu um mat á umhverfisáhrifum. Með umsókninni hafi fylgt upplýsingar um framkvæmdina og yfirlitsmynd af fyrirhuguðu framkvæmdasvæði, umsögn stjórnar Veiðifélags Hörgár og samþykki landeigenda. Einnig hafi legið fyrir umsagnir sérfræðinga í veiðimálum um hugsanleg áhrif framkvæmdarinnar á lífríki veiðivatnsins skv. 2. mgr. 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði. Þá hafi Fiskistofa tekið mið af fyrirliggjandi leyfum við meðferð málsins vegna efnistöku í og við Hörgá. Aflað hafi verið umsagnar Hafrannsóknastofnunar og hafi umsækjanda verið boðið að koma sjónarmiðum sínum á framfæri vegna hennar. Auk þess sem Fiskistofa hafi leitað álits Skipulagsstofnunar sem hafi talið efnistökuna ekki fara í bága við mat á umhverfisáhrifum þegar tekið væri tillit til heildarmagns af efni sem mat á umhverfisáhrifum hafi tekið til.

Hin kærða ákvörðun hafi ekki verið birt opinberlega og ekki hafi verið fjallað um kærufrest í henni. Skipulagsstofnun hafi ekki verið tilkynnt formlega um útgáfu leyfisins.

Málsatvik og málsmeðferð hafi ekki verið að öllu leyti sambærileg í máli þessu og í máli úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála nr. 61/2023 þar sem ákvörðun Fiskistofu vegna annars leyfis hafi verið felld úr gildi. Með hliðsjón af þeim úrskurði megi gera ráð fyrir að hið kærða leyfi teljist leyfi til framkvæmda samkvæmt lögum nr. 106/2000, sbr. 1. ákvæði til bráðabirgða. Af því leiði að Fiskistofu hafi verið skylt við undirbúning leyfisins að byggja á 2. og 3. mgr. 13. gr. þeirra laga um að við útgáfu slíks leyfis skuli leyfisveitandi kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hennar. Þessari skyldu hafi verið mætt með því að aflað hafi verið álits Skipulagsstofnunar sem hafi ekki talið efnistökuna fara í bága við mat á umhverfisáhrifum þegar tekið væri tillit til heildarmagns af efni sem mat á umhverfisáhrifum hafi tekið til.

Að teknu tilliti til áðurnefnds úrskurðar megi jafnframt gera ráð fyrir að við undirbúning og veitingu hins kærða leyfis hafi Fiskistofa átt að taka afstöðu til framkvæmdanna á grundvelli laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála. Samkvæmt þeim sé skylt að vernda yfirborðsvatnshlot og tryggja að ástand þeirra versni ekki. Stefnumörkum um vatnsvernd í vatnaáætlun hafi verið staðfest af ráðherra 6. apríl 2022. Í hinni kærðu ákvörðun sé ekki tekin afstaða til framkvæmdanna m.t.t. vatnsverndar samkvæmt framangreindu. Einnig sé ljóst að það hefði samrýmst vönduðum stjórnsýsluháttum að fá leiðbeiningar frá Umhverfisstofnun um framangreind, enda sé um að ræða framkvæmd sem háð sé leyfi fleiri en eins stjórnvalds og líkur á að starfssvið þeirra skarist hvað þetta varði.

Sérhvert brot á málsmeðferðarreglu leiði ekki sjálfkrafa til þess ákvörðun teljist ógildanleg. Í því samhengi skuli benda á að leyfi til framkvæmdar við ár og vötn kunni að hafa áhrif á fiskigengd, afkomu fiskistofna, aðstæður til veiði eða lífríkis vatns að öðru leyti. Fiskistofu sé m.a. ætlað að leggja mat á áhrif framkvæmda og mótvægisaðgerða á fiskistofna við veitingu leyfis skv. 33. gr. laga nr. 61/2006. Í hinni kærðu ákvörðun séu m.a. sett skilyrði um að efnistakan fari fram utan veiðitíma árinnar, mælt sé fyrir um mótvægisaðgerðir og að efnistakan verði unnin í samráði við fiskifræðing til þess að meta áhrif framkvæmdarinnar á fiskstofna árinnar auk seiðamælinga. Einnig sé bent á álit Skipulagsstofnunar sem aflað hafi verið við meðferð málsins. Framangreindur annmarki um að ekki hafi verið tekin afstaða til framkvæmdanna m.t.t. vatnsverndar skv. lögum nr. 36/2011 hafi ekki áhrif á efni ákvörðunarinnar og því beri að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að í umsögn sjávarútvegs- og auðlindafræðings, dags. 18. febrúar 2022, komi fram að tímasetningar framkvæmda sé mikilvægur þáttur og líkt og við eigi um sumarmánuðina séu september til nóvember mjög óheppilegur tími til framkvæmda í og við hrygningarslóðir. Þá fari hrygning fram og mikilvægt sé að þá sé sem minnst rask. Í umsögninni sé mælst til þess að eina raskið sem verði mögulega heimilað fari fram á tímabilinu frá 1. janúar til 15. maí, þ.e. að framkvæmdir við malartekju fari einungis fram á þeim tíma. Þá sé mælt eindregið með því að komið verði á kerfisbundnum seiðamælingum og stuðst við loftmyndir og gögn úr veiðibókum. Einnig sé vísað til fiskirannsókna Veiðimálastofnunar frá 2008, en þá hafi þéttleiki vorgamalla seiða mælst mikill og sá mesti á vatnasvæðinu öllu í rafveiðistöð staðsettri ofan efnistökusvæðis 9. Í hinni kærðu ákvörðun hafi Fiskistofa ekki tekið neina afstöðu til þessara atriða. Þá séu umsagnir tveggja fiskifræðinga frá mars 2022, sem lagðar hafi verið fram af hálfu framkvæmdaraðila, einhliða skoðanir viðkomandi og hafi ekki neitt gildi í máli sem þessu, auk þess sem þær séu ekki studdar vísindalegum gögnum eða tilvísunum.

Í umsögn Hafrannsóknastofnunar, dags. 4. apríl 2022, komi berlega fram það álit að ekki eigi að heimila efnistöku vegna þess að fyrir henni vanti öll vísindaleg rök. Það hafi einnig verið skilyrði sjálfs umhverfismatsins að efnistöku yrði ekki haldið áfram yfir 20 ára tímabil án þess að áhrifin yrðu metin. Umsögn Hafrannsóknastofnunar sé rökstutt með vísan til rannsókna, m.a. á búsvæðum seiða, stofnstærð út frá veiðitölum, vatnarannsóknum o.fl. Álit stofnunarinnar sé skýrt um að óábyrgt sé að halda áfram efnistöku í Hörgá án frekari rannsókna og nægi það til þess að komast að þeirri niðurstöðu að óheimilt hafi verið að veita leyfi fyrir framkvæmdinni vegna bindandi umhverfismarkmiða laga nr. 36/2011.

Meðal gagna sem vísað sé til í hinni kærðu ákvörðun sé umsögn stjórnar Veiðifélags Hörgár. Hún sé hvorki undirrituð né beri með sér að stafa frá lögmætri ákvörðun stjórnar veiðifélagsins eða að félagsmenn þess hafi komið að ákvörðuninni. Því sé umsögnin þýðingarlaus og fráleitt að byggja ákvörðun á slíku skjali.

Engin yfirsýn yfir það heildarmagn efnis sem tekið hafi verið af öllu svæði E-9, eða hluta þess, virðist hafa legið til grundvallar hinu kærða leyfi.

———-

Leyfishafa var gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum í málinu en hann hefur ekki tjáð sig um málatilbúnað kæranda.

Niðurstaða: Í máli þessu er kærð ákvörðun Fiskistofu frá 12. september 2022 skv. 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði sem verður borin undir úrskurðarnefndina með heimild í 1. mgr. 36. gr. þeirra laga. Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kveðið á um að kærufrestur til nefndarinnar sé almennt einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina eða ætlað brot á þátttökurétti almennings. Sé um að ræða ákvarðanir sem sæta opinberri birtingu telst kærufrestur hins vegar frá birtingu ákvörðunar.

Það er skilyrði kæruaðildar að málum fyrir úrskurðarnefndinni að kærandi eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 teljast  umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtökum eiga lögvarinna hagsmuna að gæta fyrir nefndinni að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Meðal ákvarðana sem slíkum samtökum er heimilt að bera undir nefndina eru ákvarðanir um leyfi vegna framkvæmda samkvæmt lögum nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, sbr. b. lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Lög nr. 111/2021 tóku gildi 1. september 2021, en í 1. ákvæði til bráðabirgða við lögin segir að í þeim tilvikum þegar umhverfismatsferli framkvæmdar sem fellur undir þau lög er lokið við gildistöku laganna skuli ákvæði eldri laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, er lúta að leyfisveitingum vegna framkvæmdarinnar gilda. Ferli umhverfismats vegna heildstæðs mats á efnistöku á að 795.000 m3 úr áreyrum og árfarvegi Hörgár, lauk með áliti Skipulagsstofnunar dags. 4. júní 2015. Verður því að líta til ákvæða laga nr. 106/2000 hvað varðar leyfisveitinguna.

Í þágildandi c-lið 3. gr. laga nr. 106/2000 var hugtakið framkvæmd afmarkað þannig að það næði til hvers konar nýframkvæmdar eða breytingar á eldri framkvæmd og starfsemi sem henni fylgi, sem undir lögin falli. Samkvæmt f-lið greinarinnar töldust leyfi til framkvæmda vera framkvæmdaleyfi og byggingarleyfi samkvæmt skipulagslögum og lögum um mannvirki og önnur leyfi til starfsemi og framkvæmda samkvæmt sérlögum sem um viðkomandi framkvæmd gilda. Í 2. og 3. mgr. 13. gr. laganna var mælt fyrir um undirbúning að útgáfu leyfis á grundvelli matsskýrslu framkvæmdaraðila og álits Skipulagsstofnunar um framkvæmdina. Í 4. mgr. lagagreinarinnar var síðan mælt fyrir um skyldu leyfisveitanda til að birta opinberlega með auglýsingu ákvörðun sína um útgáfu leyfis innan tveggja vikna frá afgreiðslu þess, þar sem tilgreint væri hvar greinargerð um afgreiðslu leyfis væri aðgengileg og tilkynnt væri um kæruheimild og kærufrest þegar það ætti við.

Í áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum allt að 795.000 m3 efnistöku úr áreyrum og árfarvegi Hörgár í Hörgársveit var fjallað um framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi. Þótt leyfið takið aðeins til hluta þeirrar framkvæmdar verður að leggja til grundvallar að leyfisveitanda sé skylt hverju sinni að horfa jafnframt til annarra framkvæmda, sem þegar hafa átt sér stað og eru fyrirhugaðar, svo framarlega sem þær tengist með augljósum hætti. Verður því litið á leyfið sem leyfi til framkvæmda í skilningi laga nr. 106/2000, sbr. gr. 2.01 í 1. viðauka við lögin.

Kærandi nýtur aðildar að máli þessu skv. b. lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, en af gögnum sem nefndin hefur aflað og kynnt sér uppfyllir hann skilyrði þeirrar greinar sem umhverfisverndar- eða útivistar- og hagsmunasamtök. Fyrir liggur að hin kærða ákvörðun var ekki birt opinberlega og var í henni hvorki fjallað um kæruheimild né kærufrest. Af gögnum málsins verður lagt til grundvallar að kæranda varð eða mátti fyrst vera kunnugt um útgáfu hins kærða leyfis í nóvember 2023, en gagnvart kæranda verður lagt til grundvallar að kærufrestur hafi þá byrjað að líða. Verður kæra í máli þessu því tekin til efnismeðferðar.

Í mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar frá 2015 segir að tilgangur framkvæmdarinnar sé að sporna við landbroti af völdum Hörgár með rennslisstýringu árinnar með það að markmiði að verja landbúnaðarland og mannvirki. Grjótvarnir hafi gefið nokkuð góða raun en þær séu mjög kostnaðarsamar. Verði efni ekki fjarlægt úr farvegum megi gera ráð fyrir að þörfin fyrir grjótvarnir muni aukast mikið. Þá geti varnargarðar gert gagn við að beina ánni frá árbökkum, en séu þeir ekki grjótvarðir megi gera ráð fyrir að þeir skolist burt í stórum flóðum. Efnistöku er lýst í matinu og kemur fram að fyrst verði efnistökusvæði afmarkað og sett upp tímabundin höft eða stíflur úr malarefni. Þá verði efni mokað upp úr farvegi eða áreyrum og flutt á haugsetningarsvæði í nægjanlega mikilli fjarlægð frá ánni þannig að ekki verði hætta á að áin sópi haugnum með sér í næsta flóði. Efni verði svo keyrt frá haugsetningarsvæði eftir því sem þörf og aðstæður á markaði kalli á. Þegar sótt hafi verið um framkvæmdaleyfi sé gert ráð fyrir að leita ráðgjafar um ákjósanlegustu aðferðir og afmörkun á hverju einstaka framkvæmdasvæði. Kemur einnig fram að árlega sé áætlað að meta stöðu verkefnisins með tilliti til rennslis árinnar og landbrots og vinna áætlanir um efnistöku næsta tímabils. Fyrirhuguð framkvæmd feli í aðalatriðum í sér efnistöku á efnistökusvæðum á tímabilinu 1. október til 30. apríl ár hvert, flutning efnis frá efnistökusvæði á geymslusvæði og flutning efnis frá geymslusvæði á notkunarstað.

Fram kemur í matsskýrslu að árið 2013 hafi sameignarfélagið Hörgá sf. verið stofnað. Í samþykktum þess hafi verið tekið fram að félagsmenn væru landeigendur að ánni eða fulltrúar þeirra. Félaginu hafi verið ætlað að láta vinna umhverfismat fyrir efnistökuna fyrir hönd landeigenda við Hörgá og þveráa hennar. Skyldi félagið vera framkvæmdaraðili að allri efnistökunni. Ekki væru þó allir landeigendur að Hörgá í félaginu, en það hefði ekki áhrif á efnistöku. Þar sem félagið liti á ána alla og þverár sem eina heild og skipuleggi efnistöku með hagsmuni alls svæðisins að leiðarljósi, væri í umhverfismatinu fjallað um þau efnistökusvæði sem þættu hentug vegna aðstæðna, efnismagns eða efniseiginleika ásamt efnistökusvæðum sem þyki brýnt að taka efni úr til að draga úr landbroti. Í matsskýrslunni var fjallað um efnistökusvæði sem afmörkuð voru í drögum sem þá lágu fyrir að Aðalskipulagi Hörgársveitar 2012–2024 sem: E-2, E-4, E-6, E-7, E-8, E-9, E-10 og E-11.

Í áliti Skipulagsstofnunar um framkvæmdina dags. 4. júlí 2015 var fjallað um tilgang hennar og kom fram að ekki yrði sótt um leyfi fyrir öllum efnistökusvæðunum á sama tíma og væri áætlað að meta stöðu verkefnisins árlega með tilliti til rennslis árinnar og landbrots og vinna áætlanir um efnistöku næsta tímabils. Áætlað væri að hefja skipulagða efnistöku á þeim svæðum í ánni þar sem mest þörf væri á að skapa pláss fyrir flóðvatn í farveginum með það að markmiði að draga úr bakkarofi og þar með þörf fyrir annars konar og mjög kostnaðarsamar bakkavarnir, s.s. grjótvörn. Fjallað var stuttlega um hvert efnistökusvæði um sig í álitinu, m.a. það efnistökusvæði sem veitt var leyfi til að nýta með hinu kærða leyfi.

Rakið var í álitinu að efnistaka gæti haft áhrif á eðli og þróun vatnsfalla. Efnistaka í og við ár sé vandasöm og geti haft áhrif á lífríki í vatni. Botngerð ánna geti breyst og búsvæði laxfiska geti þannig raskast og haft neikvæð áhrif á veiði. Að mati sérfræðinga Veiðimálastofnunar sé óraunhæft að meta áhrif verkefnisins á veiði og lífríki á þessu stigi og almennt geti stofnunin ekki mælt með slíkum verkefnum í ám. Hins vegar væri eðlilegt að stofnunin veitti ráðgjöf með heppilegustu útfærslu efnistöku á hverju framkvæmdasvæði fyrir sig, ef efnistaka á viðkomandi framkvæmdasvæði þætti nauðsynleg og framkvæmdaleyfi hefði verið veitt. Áhrif á veiði væru metin óviss en staðbundin og afturkræf. Áhrif framkvæmdanna á veiði yltu alfarið á því hvernig lífríki ánna reiddi af. Ef tækist að koma í veg fyrir að bú- og hrygningarsvæði ánna spilltust þá yrðu áhrif óveruleg en hætta væri á að inngrip í náttúrulegt ferli árinnar hefði neikvæð áhrif en um það væri nokkur óvissa. Í niðurstöðukafla álitsins var gerð bending um að til að lífríki árinnar yrði fyrir sem minnstum skaða væri nauðsynlegt að ráðfæra sig við fiskifræðinga um tilhögun og áfangaskiptingu á hverju efnistökusvæði.

Í álitinu var lögð áhersla á mikilvægi þess að efnistaka yrði unnin skipulega og yfir lengra tímabil, en fram kom að efnistakan mundi vara í 20 ár. Var í því sambandi talið jákvætt að landeigendur að efnistökusvæðinu hefðu sameinast um efnistökuna, sem ætti að bæta skipulag hennar og lágmarka neikvæð umhverfisáhrif. Meðal mótvægisaðgerða sem ráðgert var að fjallað yrði um við útgáfu hvers framkvæmdaleyfis væru hvernig staðið yrði að efnistökunni með því að ekki yrðu grafnar djúpar gryfjur, aðallega yrði fjarlægt efni ofan af áreyrum og árkeilum og að efnistakan færi fram á fáum afmörkuðum svæðum í einu og væru því staðbundin að hluta. Þá kom fram að ekki yrði unnið að efnistöku á tímabilinu 1. maí til 30. september. Í niðurstöðum álitsins var gerð ábending um að nauðsynlegt væri að í aðalskipulagi Hörgársveitar yrði tekið á efnistöku í Hörgá með heildstæðum hætti og það notað til að leggja línurnar um skipulag efnistöku í og við ána.

Hið kærða leyfi, dags. 12. september 2022, er gefið út á grundvelli 33. gr. laga nr. 61/2006. Í þeirri lagagrein er kveðið á um það að sérhver framkvæmd í eða við veiðivatn, allt að 100 metrum frá bakka, sem áhrif geti haft á fiskigengd þess, afkomu fiskistofna, aðstæður til veiði eða lífríki vatnsins að öðru leyti, sé háð leyfi Fiskistofu. Mælt er fyrir um hvaða gögn skuli fylgja umsókn um slíkt leyfi og er þar m.a. nefnt álit veiðifélags og umsögn sérfræðings á sviði veiðimála um hugsanleg áhrif framkvæmdar á lífríki veiðivatns. Gert er ráð fyrir því að Fiskistofa geti krafist þess að framkvæmdaraðili láti auk þess gera líffræðilega úttekt á veiðivatni. Í skýringum með greininni segir að reglur hennar feli í sér almenna skyldu til að standa þannig að framkvæmd við veiðivatn að ávallt liggi fyrir hver áhrif framkvæmdin kunni að hafa á þá þætti sem ráða afkomu fiskstofna vatnsins. Niðurstaða hinnar líffræðilegu úttektar, sem unnt sé að krefjast, geti leitt til þess að ekki verði fallist á framkvæmdina, þótt sá er hennar óski hafi aflað sér jákvæðra álita annarra umsagnaraðila.

Svo sem áður greinir óskaði framkvæmdaraðili eftir heimild til 200.000 m3 efnistöku á svæði E-9 í Hörgá með umsókn dags. 9. febrúar 2022. Með bréfi, dags. 3. mars 2022, upplýsti Fiskistofa að ekki væru forsendur fyrir því að veita heimild til þeirrar efnistöku að teknu tilliti til umsagnar sérfræðings veiðimála, stöðu bleikjustofna á vatnasvæði Hörgár, fyrirliggjandi umhverfismats og fyrirliggjandi leyfa vegna efnistöku í og við Hörgá. Veitti stofnunin framkvæmdaraðila færi á að koma að andmælum sínum eða öðrum sjónarmiðum sem hann og gerði með bréfi, dags. 21. mars 2022. Með bréfinu breytti hann einnig umsókn sinni á þann veg að aðallega væri sótt um 50.000 m3 efnistöku á hverju ári á árunum 2022, 2023, 2024 og 2025, eða samtals 200.000 m3, en til vara væri sótt um 50.000 m3 efnistöku á hvoru ári á árunum 2022 og 2023, eða samtals 100.000 m3. Með bréfinu fylgdu umsagnir sérfræðinga um áhrif efnistökunnar á fiskistofna í Hörgá þar sem álitið var að áformuð efnistaka væri ekki líkleg til að hafa veruleg áhrif á bleikjustofninn í Hörgá og að hægt væri að standa þannig að henni að áhrifin verði ásættanleg.

Við meðferð hinnar breyttu umsóknar óskaði Fiskistofa umsagnar Hafrannsóknastofnunar. Í umsögn hennar, dags. 4. apríl 2022, var fjallað nánar um ráðgerða efnistöku á grundvelli fyrirliggjandi þekkingar á búsvæðum bleikjuseiða og væntum áhrifum efnistökunnar. Þar var m.a. rakið að bleikjuveiði hefði minnkað verulega í ánni á síðustu árum, sem benti til minni fiskgengdar. Skráð veiði í Hörgá árið 2021 hafi verið innan við tíundi hluti þess sem hún hafi verið árið 1990. Þessi mikla og stöðuga minnkun í bleikjuveiði væri umhugsunarverð. Í ljósi þessa væri ástæða, að áliti stofnunarinnar, til að skoða sérstaklega hvort að takmarka þyrfti veiði og annað mannlegt rask eins og efnistöku umfram það sem nú væri gert. Þegar hrygningastofnar væru í lágmarki, eins og virtist vera með bleikjustofninn í Hörgá, væri viðnámsþol þeirra gagnvart inngripum mun minna en ella og því þyrfti að skoða öll mannleg inngrip með meiri varúð í huga til að koma í veg fyrir að áhrifin verði til lengri tíma. Var niðurstaða stofnunarinnar, á grundvelli ítarlegs rökstuðnings, sú að óábyrgt væri að halda áfram efnistöku í Hörgá án frekari rannsókna á áhrifum hennar á lífríki og þar með talið bleikjustofna.

Þá leitaði Fiskistofa einnig álits Skipulagsstofnunar um það hvort fyrirhuguð efnistaka rúmaðist innan ramma fyrirliggjandi umhverfismats. Í svari stofnunarinnar kom fram það eitt að með tilliti til heildarmagns efnis sem umhverfismatið tæki til færu áform um efnistöku ekki í bága við matið.

Þar sem hið kærða leyfi telst til leyfis til framkvæmda samkvæmt lögum nr. 106/2000 var Fiskistofu skylt við undirbúning leyfisins að byggja á 2. og 3. mgr. 13. gr. þeirra laga þar sem kveðið var á um að við útgáfu slíks leyfis skyldi leyfisveitandi kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hennar. Í fyrrgreindu svari Skipulagsstofnunar til Fiskistofu kemur einungis fram að það magn efnis sem sótt hefði verið um að taka væri innan heimilda umhverfismatsins, en að öðru leyti var engin efnisleg umfjöllun um álit Skipulagsstofnunar né matsskýrslu framkvæmdarinnar við afgreiðslu Fiskistofu á hinu kærða leyfi. Ríkt tilefni var til nánari umfjöllunar um álit Skipulagsstofnunar af hálfu Fiskistofu þar sem í álitinu var fjallað um æskilegt skipulag efnistökunnar og líkleg áhrif hennar á veiði en leitt var að því líkum að tækist að koma í veg fyrir að bú- og hrygningarsvæði ánna spilltust þá yrðu áhrif óveruleg, en hætta væri á að inngrip í náttúrulegt ferli árinnar hefði neikvæð áhrif. Þá var einnig gerð bending um að til að lífríki árinnar yrði fyrir sem minnstum skaða væri nauðsynlegt að ráðfæra sig við fiskifræðinga um tilhögun og áfangaskiptingu á hverju efnistökusvæði.

Í 33. gr. laga nr. 61/2006 er gert ráð fyrir sjálfstæðri gagnaöflun eða rannsókn Fiskistofu og vegnu mati á grundvelli þess. Í lögum er ekki gert ráð fyrir því að matsskýrsla framkvæmdar komi í stað slíkrar rannsóknar, sé henni til að dreifa, en eðlilegt er að í matsskýrslu sé fjallað um áhrif framkvæmda á sömu umhverfisþætti og þá sem Fiskistofa fjallar um við beitingu téðrar lagaheimildar.

Með hinu kærða leyfi féllst Fiskistofa á að framkvæmdaraðili tæki 50.000 m3 af efni árin 2022 og 2023, eða samtals 100.000 m3, af nánar tilgreindum svæðum innan efnistökusvæðis E-9 í Hörgá með eftirfarandi rökstuðningi: „Að teknu tilliti til umsagnar Hafrannsóknastofnunar, mats á umhverfisáhrifum og með vísan til 33. greinar laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði fellst Fiskistofa á að G.V. Gröfur ehf. taki 50.000 m3 af efni árin 2022 og 2023, eða samtals 100.000 m3, af svæðum sem tilgreind eru í umsókn“. Fram kom að efnistakan skyldi fara fram utan veiðitíma árinnar og unnin í samráði við fiskifræðing til að meta áhrif framkvæmdarinnar á fiskstofna árinnar. Þá skyldi fylgja tillögum um mótvægisaðgerðir sem sérfræðingur legði til í umsögn sinni. Seiðamælingar yrðu gerðar á völdum stöðum áður en framkvæmdin hæfist og að henni lokinni. Mælingar yrðu gerðar fyrir ofan, fyrir neðan og á framkvæmdasvæðunum. Fór Fiskistofa fram á að gerð yrði grein fyrir helstu niðurstöðum seiðarannsókna og niðurstöður yrðu síðan teknar saman í skýrslu að lokinni efnistökunni og hún send stofnuninni ekki síðar en 31. mars 2024. Var loks lögð áhersla á að gengið yrði „snyrtilega“ frá svæðinu að framkvæmdum loknum. Gildistími leyfisins var markaður til 31. desember 2023.

Með skilyrðum um úttekt á áhrifum framkvæmdarinnar byggði Fiskistofa á jákvæðri afstöðu Veiðifélags Hörgár auk þess að litið var til umsagnar Hafrannsóknastofnunar en þar var m.a. rakið að ábyrgð á veiðistjórnun sé á hendi veiðiréttarhafa, þótt Fiskistofa hafi lagalega heimild til inngripa. Þegar stofnar séu litlir geti álag orðið til þess að erfðaeiginleikar tapast, líffræðileg fjölbreytni minnki sem og viðnámsþróttur stofna. Stjórn veiðifélaga geti verið í vanda stödd þegar félagsmenn leiti eftir eða hafi hag af efnissölu. Í ljósi þessa erindis, svo sem sagði í umsögninni, væri talið mikilvægt að fá góða rannsókn á áhrifum efnistöku sem vísa megi til sem hlutlægrar niðurstöðu varðandi áhrif efnistöku á lífríki, þ.m.t. fiska.

Í hinni kærðu ákvörðun var vísað til þess mats á umhverfisáhrifum sem hafði farið fram og verður að líta svo á að með því sé einnig vísað til álits Skipulagsstofnunar um matsskýrslu framkvæmdarinnar. Fyrir liggja upplýsingar um samskipti milli Fiskistofu og umsækjanda við meðferð málsins, þar sem vísað var til fyrirliggjandi umhverfismats, sem bera með sér að fjallað hafi verið um þau atriði sem einkum var fjallað um í áliti Skipulagsstofnunar varðandi áhrif efnistökunnar á ástand fiskistofna, m.a. að framkvæmdaaðili mundi ráðfæra sig við fiskifræðinga um tilhögun og áfangaskiptingu á hverju efnistökusvæði, framkvæmdir ættu sér stað utan veiðitíma árinnar og horfa yrði heildrænt á skipulag efnistöku miðað við önnur leyfi sem gefin hefðu verið út. Við meðferð málsins dró framkvæmdaraðili úr fyrirhugaðri efnistöku, að því virðist með hliðsjón af annarri leyfisveitingu til efnistöku í Hörgá, en Fiskistofa hefur staðhæft gagnvart úrskurðarnefndinni að hún hafi tekið tillit til fyrirliggjandi leyfa við undirbúning hins kærða leyfis, sem er í samræmi við bendingar í áliti Skipulagsstofnunar. Með leyfinu voru um leið gerðar kröfur um rannsóknir eða mótvægisaðgerðir, sem er til samræmis við umfjöllun í áliti Skipulagsstofnunar sem og umsögn Hafrannsóknastofnunnar þar sem lögð var áhersla á fyrirfarandi mat á vatnalífi og farvegi. Með vísan til þessa verður að álíta að Fiskistofa hafi fjallað um umsókn um hið kærða leyfi á grundvelli þeirra heimilda sem henni var skylt að byggja á og álitið á grundvelli þeirra að skilyrði væru til leyfisveitingar. Verður því sá ágalli sem er á rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar, þar sem ekki er beinum orðum fjallað um álit Skipulagsstofnunar, eigi látinn varða ógildingu hennar.

—–

Í 3. mgr. 28. gr. laga um stjórn vatnamála nr. 36/2011 er mælt fyrir um að leyfisveitandi skuli við afgreiðslu umsóknar um leyfi til nýtingar vatns og við aðra leyfisveitingu til framkvæmda á grundvelli vatnalaga, laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu og um leyfi á grundvelli skipulagslaga og laga um mannvirki, tryggja að leyfið sé í samræmi við þá stefnumörkun um vatnsvernd sem fram komi í vatnaáætlun. Það má telja óljóst hvort í leyfi Fiskistofu skv. 33. gr. laga nr. 61/2006 felist heimild til að „nýta vatn“ í skilningi greinarinnar. Nær virðist að skilja orðalagið þannig að ætlun löggjafans hafi verið að afstaða yrði tekin til laga nr. 36/2011 við útgáfu þeirra leyfa sem nefnd eru í 3. mgr. 28. gr. þeirra laga, þar á meðal framkvæmdaleyfa samkvæmt skipulagslögum. Hér má einnig benda á 2. málsl. 1. mgr. 33. gr. laga nr. 61/2006, en þar er mælt fyrir um að um byggingarleyfis- og framkvæmdaleyfisskyldar framkvæmdir í veiðivötnum fari einnig samkvæmt skipulagslögum og lögum um mannvirki og reglum settum samkvæmt þeim.

Úrskurðarnefndin vekur athygli á því að í 2. mgr. 7. gr. vatnalaga nr. 15/1923 er kveðið á um að óheimilt sé nema sérstök heimild eða lagaleyfi sé til þess að breyta vatnsbotni, straumstefnu, vatnsmagni eða vatnsflæði, hvort sem það verður að fullu og öllu eða um ákveðinn tíma, svo og að hækka eða lækka vatnsborð. Í 1. mgr. 75. gr. laganna er síðan mælt fyrir um að heimilt sé að fengnu leyfi Orkustofnunar eða eftir atvikum leyfi Fiskistofu skv. V. kafla laga nr. 61/2006, að breyta vatnsfarvegi, víkka hann eða rétta, gera nýjan farveg eða önnur þau mannvirki í vatni eða við það sem nauðsynleg eru í því skyni að verja land eða landsnytjar gegn spjöllum af landbroti eða árennsli vatns og kemur fram að heimilt sé að binda slíkt leyfi skilyrðum sem þykja nauðsynleg vegna almannahagsmuna. Sé Fiskistofu send skrifleg umsókn um framkvæmd í eða við veiðivatn skal sú stofnun þegar í stað senda Orkustofnun afrit af slíkri umsókn. Orkustofnun getur þá, ef hún telur ástæðu til, sett skilyrði fyrir framkvæmdinni í samræmi við 4. mgr. 144. gr. laganna, m.a. ef ætla má að framkvæmdir eða starfsemi geti spillt þeirri nýtingu sem fram fer í eða við vatn eða möguleikum á að nýta vatn síðar. Tekið er fram að slík skilyrði skuli vera í samræmi við markmið laga nr. 15/1923, reglugerðir og vatnaáætlun samkvæmt lögum um stjórn vatnamála. Af gögnum þessa máls verður eigi ráðið að Fiskistofa hafi gætt að þessari skyldu sinni sem telja verður til annmarka á málsmeðferð sem verður þó ekki talinn slíkur að valdi ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Með vísan til alls framangreinds verður hin kærða ákvörðun látin óröskuð. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er ógildingu ákvörðunar Fiskistofu frá 12. september 2022 um að veita leyfi til efnistöku á svæði E-9 í Hörgá í Hörgársveit.

127/2023 Hörgá E-9

Með

Árið 2023, fimmtudaginn 21. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Arnór Snæbjörnsson formaður og Geir Oddsson auðlindafræðingur. Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor tók þátt í gegnum fjarfundabúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 127/2023, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Hörgársveitar frá 31. október 2023 um að samþykkja umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir 56.286 m3 efnistöku á svæði E-9 í Hörgá.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. nóvember 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir Náttúrugrið, þá ákvörðun sveitarstjórnar Hörgársveitar frá 31. október 2023 að samþykkja umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir 56.286 m3 efnistöku á svæði E-9 í Hörgá. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Með bráðabirgðaúrskurði, uppkveðnum 21. nóvember 2023, voru framkvæmdir á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar stöðvaðar að kröfu kæranda á meðan mál þetta væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hörgársveit 13. nóvember 2023.

Málavextir: Hörgá er u.þ.b. 44 km löng dragá sem rennur eftir Hörgárdal í Hörgársveit til sjávar. Stærð vatnasviðs Hörgár og hliðaráa hennar er áætlað um 700 km2. Með úrskurði í máli nefndarinnar nr. 53/2023, sem kveðinn var upp 29. september 2023, voru felld úr gildi þrjú óskyld framkvæmdaleyfi til malartöku í farvegi árinnar sem veitt höfðu verið tilteknum félögum.

Með umsókn um framkvæmdaleyfi, dags. 9. október 2023, var sótt um heimild til 56.286 m3 efnistöku á svæði E-9 í Hörgá. Á fundi skipulags- og umhverfisnefndar Hörgársveitar 30. s.m. var fjallað um umsóknina og í fundargerð gerð grein fyrir þeim gögnum sem lágu fyrir nefndinni. Sveitarstjórn samþykkti umsóknina á fundi 31. s.m. með svohljóðandi rökstuðningi: „Fyrir sveitarstjórn liggur bókun skipulags- og umhverfisnefndar og þau gögn sem þar voru lögð fram. Sveitarstjórn tekur undir rökstuðning skipulags- og umhverfisnefndar. Sveitarstjórn telur að framkvæmdin sem sótt er um sé í samræmi við umhverfismat Environice frá apríl 2015 og leggur það til grundvallar ásamt áliti Skipulagsstofnunar vegna umhverfismatsins, dags. 4. júní 2015. Sveitarstjórn telur að framkvæmdin sé í samræmi við aðalskipulag Hörgársveitar 2012 til 2024 og ákvæði skipulagsins um efnistöku úr Hörgá. Í fyrirliggjandi leyfi Fiskistofu, dags. 12. september 2022, er afstaða tekin til framkvæmdarinnar á grundvelli gildandi leyfa um efnistöku úr Hörgá. Í greinargerð skipulags- og byggingarfulltrúa kemur fram greining á framkvæmdinni á grundvelli laga um stjórn vatnamála nr. 36/2011. Sveitarstjórn telur að framkvæmdin leiði ekki til að vatnshlot Hörgár versni og telur að framkvæmdin sé í samræmi við þá stefnumörkun og markmið um vatnsvernd sem fram kemur í vatnaáætlun fyrir Íslands, sbr. lög um stjórn vatnamála nr. 36/2011. Sveitarstjórn samþykkir greinargerð skipulags- og byggingarfulltrúa, dags. 23. október 2023, vegna framkvæmdarinnar og leggur til grundvallar þau rök sem þar koma fram. Sveitarstjórn samþykkti að framkvæmdaleyfið verði veitt.“ Skipulags- og byggingarfulltrúi gaf út framkvæmdaleyfi sama dag og var útgáfa leyfisins auglýst í Lögbirtingablaði 3. nóvember 2023.

Málsrök kæranda: Að mati kæranda verður ekki séð að sveitarstjórn hafi brugðist við athugasemd í niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í úrskurði í kærumáli nr. 53/2023, sem kveðinn var upp 29. september 2023, um að sveitarstjórn geti verið skylt að líta til efnis- og formreglna laga nr. 60/2013 um náttúruvernd við veitingu framkvæmdaleyfis. Samkvæmt lögunum gegni sveitarstjórnir mikilvægu hlutverki í náttúruvernd, en einnig sé mælt fyrir um í 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að við veitingu framkvæmdaleyfis skuli sveitarstjórn ganga úr skugga um að gætt hafi verið ákvæða laga um náttúruvernd. Ákvæðið sé bæði skýrt og afdráttarlaust. Með hliðsjón af bókun í fundargerð virðist sveitarstjórn ekki hafa gætt þessarar skyldu.

Við setningu stjórnvaldsfyrirmæla og töku ákvarðana sem áhrif hafi á náttúruna skuli stjórnvöld taka mið af meginreglum og sjónarmiðum 8.–11. gr. náttúruverndarlaga, sbr. 7. gr. laganna. Í 8. gr. laganna sé fjallað um vísindalegan grundvöll ákvarðanatöku. Reglan gildi um skipulagsáætlanir og einstaka ákvarðanir, sbr. einnig rannsóknarreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hvorki hafi í Aðalskipulagi Hörgársveitar 2012–2024 né umhverfismati frá 2015 verið lagt mat á áform um efnistöku úr Hörgá í samræmi við áskilnað 8. gr. náttúruverndarlaga. Í hinni kærðu ákvörðun hafi jafnframt ekki verið gengið úr skugga um að skilyrði ákvæðisins séu uppfyllt, ekki sé þar að finna umfjöllun um verndarstöðu og stofnstærð tegunda, útbreiðslu og verndarstöðu vistgerða og vistkerfa, en til þess hafi verið brýnt tilefni. Samkvæmt 10. gr. náttúruverndarlaga sé sveitarstjórn skylt að líta til alls áhrifasvæðis framkvæmdar og heildarálags á það, en það hafi ekki heldur verið gert.

Áður en sveitarstjórn veiti leyfi til efnistöku skuli leita álits náttúruverndarnefndar, sbr. 2. mgr. 13. gr. skipulagslaga. Umsögn náttúruverndarnefndar á umræddri efnistöku hafi ekki legið fyrir vegna samþykkts aðalskipulags og því eigi undanþága samkvæmt ákvæðinu ekki við. Í hinni kærðu ákvörðun komi ekki fram að lögbundin álitsumleitan hafi farið fram. Þótt skipulags- og umhverfisnefnd fari með hlutverk náttúruverndarnefndar samkvæmt erindisbréfi frá 2018 og samþykktum sveitarstjórnar sé ekki óþarft að fjalla um náttúruvernd við töku ákvarðana. Í bókun skipulags- og umhverfisnefndar í fundargerð frá 30. október 2023 komi ekki fram á neinn hátt að hún hafi verið að veita álit skv. 2. mgr. 13. gr. skipulagslaga með afgreiðslu sinni um tillögu til sveitarstjórnar um afgreiðslu málsins. Í greindu lagaákvæði sé einnig að finna skyldu til að leita álits Umhverfisstofnunar um efnistöku, nema umsögn hennar um samþykkt aðalskipulag liggi fyrir. Afstaða stofnunarinnar komi ekki fram í greinargerð gildandi aðalskipulags, en þar segi einungis að stofnunin hafi gert athugasemdir við skógrækt og efnistöku. Ekki hafi verið fjallað um efni athugasemdanna, en fram komi að sveitarfélagið hafi ekki gert breytingar vegna þeirra.

Á vef Umhverfisstofnunar megi finna umsögn hennar við aðalskipulagstillögu gildandi aðalskipulags, dags. 14. janúar 2015. Afstaða stofnunarinnar í umsögninni sé skýr, afdráttarlaus og neikvæð. Sömu sjónarmið hafi komið fram í umsögn stofnunarinnar við frummatsskýrslu umhverfismats framkvæmdarinnar, dags. 27. febrúar s.á. Þar hafi komið fram að ráðagerðir Hörgár sf. um að taka „með skipulegum og ábyrgum hætti“ á efnistökunni væri til bóta. Í kafla um lífríki hafi komið fram að við útgáfu framkvæmdaleyfis ætti að styðjast við álit Veiðimálastofnunar, nú Hafrannsóknastofnunar, og niðurstöður vöktunar á áhrifum efnistöku á bleikju í Hörgá. Þá hafi í umsögn Umhverfisstofnunar vegna breytinga á gildandi aðalskipulagi, dags. 19. mars 2020, ekki verið vikið að efnistöku. Sveitarstjórn hafi borið að fjalla um afstöðu Umhverfisstofnunar í greinargerð aðalskipulags og einnig við töku hinnar kærðu ákvörðunar og gera grein fyrir því hvers vegna ekki hefði verið leitað á ný lögbundins álits stofnunarinnar um efnistökuna í samræmi við áskilnað 2. mgr. 13. gr. skipulagslaga. Koma hefði þurft fram hvers vegna brugðist hafi í engu verið við ítrekuðu áliti stofnunarinnar frá árinu 2015 og hvers vegna ekki hafi verið leitað álits Hafrannsóknastofnunar við afgreiðslu umsóknar.

Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana sé umsækjendum framkvæmdaleyfa skylt að leggja fram greiningu á því hvort forsendur umhverfismats hafi breyst verulega frá umhverfismatsskýrslu og áliti um umhverfismat framkvæmdarinnar. Í hinni kærðu ákvörðun sé ekki vikið að slíkri greiningu. Hér standi svo sérstaklega á að umhverfismat hafi verið gert fyrir níu árum, en samkvæmt efni þess megi veita framkvæmdaleyfi allt til ársins 2035, að því tilskildu að ekki hafi verið farið yfir hámark leyfilegrar efnistöku. Rannsóknarskylda sveitarstjórnar sé rík, líkt og staðfest hafi verið í úrskurðum úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og af dómstólum. Með hliðsjón af 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 7.–8. gr. náttúruverndarlaga hafi sveitarstjórn verið skylt að ganga eftir gögnum um gildi forsendna umhverfismatsins. Með tilskipun 2014/52/ESB, sem breytt hafi tilskipun 2011/92/ESB, hafi slík skylda orðið bindandi fyrir íslensk stjórnvöld. Tilskipun 2000/60/ESB, sem innleidd hafi verið með lögum nr. 36/2011 um stjórn vatnamála, og staðfesting fyrstu vatnaáætlunar 2022 væri næg ástæða til þess að líta svo á að forsendur matsskýrslu og álits Skipulagsstofnunar hefðu breyst verulega. Önnur slík ástæða sé lögfesting meginreglna umhverfisréttar með náttúruverndarlögum fyrir átta árum. Ákvæði beggja lagabálkanna varði líffræðilega fjölbreytni og hin kærða ákvörðun hafi áhrif á hana. Ekki hafi farið fram raunverulegt mat á áhrifum efnistöku úr Hörgá á gæði viðkomandi yfirborðsvatnshlota í samræmi við meginmarkmið laga nr. 36/2011. Þá komi slíkt mat ekki fram í gildandi aðalskipulagi. Engin undaþága liggi fyrir og því séu skilyrði laganna ekki uppfyllt.

Í umsögn Orkustofnunar um frummatsskýrslu, dags. 16. febrúar 2015, komi fram vangaveltur um þörf leyfisveitinga stofnunarinnar á grundvelli vatnalaga nr. 15/1923 og laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Svo virðist sem slík leyfi hafi þurft að liggja fyrir áður en hið kærða framkvæmdaleyfi hafi verið veitt. Hvorki leyfi skv. 1. mgr. 75. gr. vatnalaga né nýtingarleyfi skv. 5. gr. laga nr. 57/1998 hafi legið fyrir. Í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 74/2023, sem kveðinn hafi verið upp 26. október 2023, en þar sé vitnað til eldri úrskurða, sé kveðið á um að við útgáfu framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar verði leyfi annarra leyfisveitenda að liggja fyrir.

Ástæða ógildingar fyrra framkvæmdarleyfis samkvæmt úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 53/2023 hafi verið sú að ekki hafi verið að finna rökstuðning í fundargerð sveitarstjórnar, en slíkan rökstuðning sé ekki heldur að finna í fundargerð sveitarstjórnar frá 31. október 2023. Ekki hafi verið fjallað um samræmi ákvörðunar við meginatriði niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar frá 4. júní 2015 þess efnis að áhrif framkvæmdanna á veiði velti alfarið á því hvernig lífríki ánna reiði af, að áhrif framkvæmdanna á lífríki Hörgár sé háð óvissu og til að lífríki árinnar verði fyrir sem minnstum skaða sé nauðsynlegt að ráðfæra sig við fiskifræðinga um tilhögun og áfangaskiptingu.

Hið kærða framkvæmdaleyfi virðist ekki vera í samræmi við bindandi skilyrði í áliti Skipulagsstofnunar um að leggja skuli fram áætlun um efnistöku í samræmi við þágildandi lög um náttúruvernd nr. 44/1999 áður en framkvæmdaleyfi sé veitt. Þá sé ekki getið slíkrar áætlunar sem fylgigagna leyfis. Í framkvæmdaleyfinu sé ekki getið stærðar efnistökusvæðis, vinnsludýpis og gerðar efnis og því sé leyfið í ósamræmi við áskilnað 2. mgr. 13. gr. skipulagslaga um það sem koma skuli fram í leyfi.

 

Deiliskipulag fyrir framkvæmdirnar liggi ekki fyrir og ekki hafi farið fram grenndarkynning í samræmi við 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga. Þá hafi ekki verið leitað umsagna viðeigandi umsagnaraðila í samræmi við ákvæðið, en um undantekningu sé að ræða sem beri að skýra þröngt. Sveitarstjórn hafi ekki gert grein fyrir því hvers vegna ekki þyrfti að fara fram grenndarkynning og álitsumleitan.

Málsrök Hörgársveitar: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að kæranda skorti lögvarða hagsmuni til aðildar, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og því beri að vísa frá kæru í máli.

 Málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar og framkvæmdaleyfi uppfylli öll lagaskilyrði og engar forsendur séu til þess að fella leyfið úr gildi. Í fundargerðum skipulags- og umhverfisnefndar og sveitarstjórnar komi fram að framkvæmdaleyfið sé gefið út á grundvelli umhverfismats og álits Skipulagsstofnunar frá árinu 2015, röksemda þeirra sem fram komi í greinargerð skipulags- og byggingarfulltrúa og sé í samræmi við þegar tekið efni á efnistökusvæði E-9 í Hörgá. Þá sé efnistakan mikilvægur liður í bakkavörnum en í leysingum raskist farvegur Hörgár og dragi framkvæmdin úr neikvæðum áhrifum þeirra.

Með hinni kærðu ákvörðun hafi verið bætt úr þeim annmörkum sem taldir hafi verið á fyrri leyfisveitingu sem felld var úr gildi með úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 53/2023, uppkveðnum 29. september 2023. Einnig hafi verið gætt að efnis- og formreglum laga um náttúruvernd nr. 60/2013. Fyrir skipulags- og umhverfisnefnd og sveitarstjórn hafi legið ítarleg gögn um framkvæmdina, forsendur hennar og möguleg áhrif hennar á umhverfið og lífríki Hörgár. Um sé að ræða umhverfismat, álit Skipulagsstofnunar, greinargerð skipulags- og byggingarfulltrúa vegna framkvæmdarinnar, dags. 23. október 2023, og leyfi Fiskistofu, dags. 12. september 2022, en það sé m.a. byggt á umsögn fiskifræðings þar sem fjallað sé um möguleg áhrif framkvæmdarinnar á lífríkið. Í greinargerð skipulags- og byggingarfulltrúa sé einnig að finna greiningu á mögulegum áhrifum framkvæmdarinnar á Hörgá og vatnshlot hennar. Skilyrði í náttúruverndarlögum, sbr. einkum 7.–11. gr., hafi því verið uppfyllt. Þá sé tekið fram magn efnis sem eigi að taka og heimilað magn á efnistökusvæði E-9 samkvæmt gildandi aðalskipulagi og umhverfismati, hvar eigi að taka efnið og hvernig það samræmist umhverfismati, áliti Skipulagsstofnunar og aðalskipulagi.

Kærandi hafi ekki sýnt fram á að fjölbreytni náttúrunnar sé í hættu vegna efnistöku úr Hörgá. Helstu áhrifin á lífríkið sé á laxfiska, einkum bleikju, en þeim hafi fækkað í öllum ám á landinu og þar séu ár þar sem efnistaka fari fram engin undantekning. Fækkun sé jafn mikil í öðrum stórum ám í Eyjafirði, t.d. Eyjafjarðará og Fnjóská, en þar sé efnistaka mun minni. Um skynsamlega og hagkvæma nýtingu lands og landsgæða sé að ræða og innan skynsamlegra marka, sbr. m.a. b-lið 1. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og a. lið 2. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Farvegur Hörgár endurnýi sig fljótt og því sé efnistakan sjálfbær og mun sjálfbærari en efnistaka á landi. Séu þessir tveir kostir til efnisöflunar jarðefna bornir saman m.t.t. áhrifa á umhverfið sé ljóst að efnistaka úr Hörgá hafi í för með sér mun minni umhverfisáhrif heldur en efnistaka úr námum uppi á landi. Þar sem áin endurnýi sig sé um að ræða afturkræfar framkvæmdir. Samanborið við efnisvinnslu úr klöpp, þar sem þurfi að sprengja og harpa niður efni með hávaða- og rykmengun og meiri olíunotkun, sé efnistaka úr Hörgá miklu betri kostur. Óhjákvæmilegt sé að líta til þessara sjónarmiða um framburðarefni Hörgár sem endurnýi sig með framburði árinnar. Þá sé tekið tillit til heildarálags og áhrifasvæðisins í heild en umhverfismat, aðalskipulag og önnur gögn fjalli um efnistöku úr Hörgá í heild.

Skipulags- og umhverfisnefnd fari með hlutverk náttúruverndarnefndar í Hörgársveit og því sé umfjöllun hennar um málið á fundi 30. október 2023 nægjanleg. Ljóst megi vera að nefndin hafi verið að starfa eftir skipulagslögum sem og öðrum viðkomandi lögum.

Við gerð aðalskipulags hafi alltaf verið leitað umsagnar Umhverfisstofnunar og slík umsögn hafi alltaf legið fyrir við samþykkt aðalskipulags og breytinga á því. Í umsögnum stofnunarinnar, dags. 14. janúar, 27. september 2019 og 30. mars 2020, hafi verið fjallað um efnistöku úr Hörgá. Umhverfisstofnun leggist ekki gegn efnistökunni í þessum umsögnum. Alltaf hafi verið fylgt umsögnum stofnunarinnar og tekið mið af efni þeirra. Ekki hafi verið talin þörf á frekari umsögn stofnunarinnar vegna hinnar kærðu ákvörðunar, enda hafi umsagnir legið fyrir vegna aðalskipulags þar sem fjallað sé um framkvæmdina.

Greinargerð skipulags- og byggingarfulltrúa, dags. 23. október 2023, sé nægjanleg greining um mögulega breyttar forsendur umhverfismats og feli í sér fullnægjandi rökstuðning ásamt öðrum gögnum sem legið hafi fyrir skipulags- og umhverfisnefnd og sveitarstjórn. Ekki liggi fyrir neinar ástæður sem gefi til kynna að forsendur umhverfismatsins hafi breyst. Reglulega sé fjallað um matið, álit Skipulagsstofnunar og önnur gögn, þ. á m. leyfi Fiskistofu, þegar veitt séu framkvæmdaleyfi. Ekki verði litið svo á að efnistaka sem fari fram m.a. á grundvellli umhverfismatsins kippi forsendum undan matinu.

Endurskoðun umhverfismats heyri undir Skipulagsstofnun og hún hafi ekki ákveðið neina slíka endurskoðun, sbr. 12. gr. þágildandi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Í lögum nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, sbr. 1. tl. ákvæðis til bráðabirgða, sé ekki að finna ákvæði um slíka endurskoðun, en 1. mgr. 27. gr. laganna eigi ekki við um leyfisveitingu þá sem fjallað sé um í máli þessu. Þar sem umfjöllun Skipulagsstofnunar hafi lokið fyrir gildistöku laga nr. 111/2021 geti þau ekki talist gilda í máli þessu, sbr. meginreglu um bann við afturvirkni laga. Telji úrskurðarnefndin að ákvæðið eigi við þá hafi sveitarstjórn allt að einu lagt fram fullnægjandi greiningu og mat, en um það sé vísað til gagna málsins.

Í greinargerð skipulags- og byggingarfulltrúa sé tekin afstaða til framkvæmdarinnar í samræmi við lög nr. 36/2011 um stjórn vatnamála með rökstuddum hætti.

Við útgáfu hins kærða leyfis hafi legið fyrir leyfi Fiskistofu, dags. 12. september 2022, þar sem veitt sé leyfi fyrir framkvæmdinni skv. 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði. Í leyfinu sé byggt á umsögnum annarra aðila, þ. á m. fiskifræðings og Skipulagsstofnunar, og þar komi enn fremur fram að tekið sé mið af öðrum gildandi leyfum vegna efnistöku úr Hörgá. Leyfi Fiskistofu hafi ekki verið fellt úr gildi eða málið tekið upp að nýju og hafi gildistíma til 31. desember 2023 líkt og hið kærða leyfi. Ekki verði betur séð en að leyfi Fiskistofu sé byggt á vandaðri málsmeðferð og umsögnum sérfróðra aðila.

Heimilt hafi verið að gefa út framkvæmdaleyfi þótt leyfi Orkustofnunar skv. 1. mgr. 75. gr. vatnalaga nr. 15/1923 og 6. gr. laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu hafi ekki legið fyrir. Í skipulagslögum sé þess ekki getið að slík leyfi þurfi að liggja fyrir áður en veitt séu framkvæmdaleyfi. Samkvæmt 1. mgr. 75. gr. vatnalaga megi breyta vatnsfarvegi að fengnu leyfi Orkustofnunar eða eftir atvikum leyfi Fiskistofu skv. V. kafla laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði. Í máli þessu liggi fyrir leyfi Fiskistofu og því hafi ekki þurft leyfi Orkustofnunar. Þegar litið sé til hlutverks Orkustofnunar skv. 2. gr. laga nr. 87/2003 um Orkustofnun verði ekki séð að leyfi hennar þurfi að liggja fyrir, eða eigi að vera liður í rannsókn máls, áður en gefin séu út framkvæmdaleyfi vegna efnistöku úr Hörgá. Hlutverk stofnunarinnar sé að mestu bundið við orkumál en framkvæmdaleyfi vegna efnistöku úr Hörgá varði aðeins nýtingu jarðefna og malartekju. Rétt sé að hafa í huga að engir virkjanakostir séu í Hörgá í rammaáætlun, sbr. lög nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun. Með efnistökunni sé ekki verið að breyta farvegi árinnar. Raunveruleg tilfærsla á vatnasviði ár, þar sem farvegi sé varanlega breytt feli í sér breytingu á vatnsfarvegi. Efnistaka úr Hörgá, sem hafi síbreytilegan farveg, falli ekki hér undir. Ekki verði séð hverju fyrrnefnd leyfi Orkustofnunar hefðu bætt við rannsókn málsins eða hvers vegna þau hefðu átt að vera nauðsynleg.

Við ákvörðunartöku hafi verið farið yfir samræmi á milli hinnar kærðu leyfisveitingar og álits Skipulagsstofnunar, dags. 4. júní 2015, bæði munnlega og skriflega. Hvað þetta varði sé vísað til greinargerðar skipulags- og byggingarfulltrúa, dags. 23. október 2023. Einnig hafi legið fyrir leyfi Fiskistofu og umsögn fiskifræðings til hennar, auk annarra gagna sem sýni samræmi milli leyfisveitingar og álits Skipulagsstofnunar.

Í Aðalskipulagi Hörgársveitar 2012–2024 sé ítarlega fjallað um efnistökuna, efnistökusvæði og áætlanir og því hafi grenndarkynningar ekki verið þörf, sbr. lokamálslið 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga. Þá verði ekki séð hverjir hefðu átt að vera umsagnaraðilar. Í reglugerð nr. 772/2012 og skipulagsreglugerð nr. 90/2013 sé ekki sett skylda til grenndarkynningar. Skriflegt samþykki landeigenda á svæðinu hafi fylgt með umsókn um framkvæmdaleyfi en þeim hópi tilheyri eigendur mannvirkja í nágrenni framkvæmdanna sem geti talist hafa grenndarhagsmuni sem framkvæmdin geti haft áhrif á. Áætlun um efnistöku sé ítarlega lýst í aðalskipulagi og sé hún í samræmi við umhverfismat og álit Skipulagsstofnunar. Þegar ákvörðun um útgáfu framkvæmdaleyfis vegna efnistöku úr Hörgá sé tekin liggi ávallt fyrir það magn af efni sem þegar hafi verið tekið á hverju svæði og hversu mikið eigi eftir að taka. Í greinargerð skipulags- og byggingarfulltrúa um hina kærðu ákvörðun komi fram magn efnis sem eigi eftir að taka og hvar það verði tekið sem og hvernig efnistakan samræmist umhverfismati og áliti Skipulagsstofnunar. Fyrrnefnd áætlun um efnistöku úr Hörgá sé fullnægjandi. Í hinu kærða framkvæmdaleyfi komi skýrt fram að um svæði E-9 sé að ræða og að það sé skilgreint í aðalskipulagi. Nánari afmörkun sé í greinargerð skipulags- og byggingarfulltrúa og fyrirliggjandi skýringarmyndum. Á afstöðumynd sé efnistökudýpt skilgreind 1,5 m og sé myndin á meðal fylgigagna umsóknar um framkvæmdarleyfi. Af framkvæmdarleyfinu, umhverfismati og öðrum gögnum megi ráða að um möl sé að ræða.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að í umhverfismati vegna efnistöku úr Hörgá frá 2015 komi fram að lífríki Hörgár sé í mestri hættu og jafnframt háð óvissu. Af hálfu sveitarfélagsins hafi ekki verið bent á neina umfjöllun við meðferð málsins þar sem lög nr. 60/2013 um náttúruvernd hafi komið við sögu en brýn lagaskylda gagnvart þeim felist í 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Alvarlegur annmarki sé að ekki hafi verið metið hvort efnistaka úr Hörgá sé í samræmi við meginreglur náttúruverndarlaga. Í 10. gr. laganna sé regla um vistkerfisnálgun og mat á heildarálagi. Fyrirmynd ákvæðisins sé úr norskri löggjöf og verði að vísa til fordæma þar í landi. Norski umboðsmaðurinn hafi gagnrýnt ákvarðanir stjórnvalda um leyfisveitingar þar sem þessa hafi ekki verið gætt. Sem dæmi megi nefna mál um vegarlagningu um náttúru- og menningarlandslag, mál nr. SOM-2018-1219, en þar hafi staðfesting ráðuneytis á skipulagi verið gagnrýnd þar sem meginreglur umhverfisréttar, sem lögfestar séu í norskri löggjöf, hafi ekki verið teknar til greina og ráðuneytið lagt of mikla áherslu á sjálfsstjórn sveitarfélags gagnvart almannahagsmunum af náttúruvernd, sbr. einnig dóm Borgarting Lagmannsrett í máli LB-2014-40734 um mörk sjálfsstjórnarréttar sveitarfélaga. Nefna megi önnur fordæmi norska umboðsmannsins, svo sem SOM-2011-1327, SOM-2017-1346, SOM-2018-1219 og SOM-2022/3102. Lögfesting meginreglna náttúruverndarlaga, sbr. 7.–11. gr. laganna, væri þýðingarlaus ef stjórnvöld þyrftu ekki að taka mið af þeim. Í frumvarpi því sem varð að lögunum komi fram að slík vanræksla gæti valdið ógildingu ákvörðunar.

Í umsögn Umhverfisstofnunar, dags. 27. september 2019, sé ítarleg ábending um að vatnsformfræðilegar breytingar fylgi efnistöku sem geti haft áhrif á líffræðilega og eðlisefnafræðilega gæðaþætti skv. lögum nr. 36/2011 um stjórn vatnamála og þar með vistfræðilegt ástand. Sveitarstjórn hafi hunsað þessa athugasemd algerlega. Í umsögn sveitarfélagsins í máli þessu sé vísað til þess að sýnt hafi verið fram á vistfræðilegt ástand rýrni ekki við efnistöku úr Hörgá. Umhverfisstofnun veiti leiðbeiningar um hvernig eigi að gera þetta og tafla í greinargerð skipulagsfulltrúa, dags. 23. október 2023, sé fjarri því að uppfylla kröfur um hvernig sýna skuli fram á að bindandi umhverfismarkmið náist eða til staðar sé undanþága, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 3/2023. Mjög ríkar sönnunarkröfur hvíli á sveitarfélaginu í þessu tilviki þar sem í umhverfismati komi fram sterkar vísbendingar og vegna þess hvers eðlis framkvæmdin sé í heild og um gríðarlegt magn efnis sé um að ræða. Í leyfi Fiskistofu, dags. 12. september 2022, komi fram að Hafrannsóknastofnun hafi bent á bága stöðu bleikjustofna og minnkaða bleikjuveiði og vari við svo mikilli efnistöku úr Hörgá.

Hvað varði leyfi Orkustofnunar megi benda á fjölda fordæma úrskurðarnefndarinnar þar sem komist sé að gagnstæðri niðurstöðu við sömu aðstæður við það sem fram komi í umsögn sveitarfélagsins, sjá mál nr. 115/2012, 25/2016, 58/2022 og 74/2023. Samkvæmt fordæmunum sé um ógildingarannmarka að ræða.

Ítrekað sé að í greinargerð skipulagsfulltrúa, dags. 23. október 2023, og leyfi Fiskistofu sé ekki sýnt fram á samræmi hinnar kærðu ákvörðunar við álit Skipulagsstofnunar. Þá hafi ekkert álit fiskifræðings eða annars sérfræðings verið lagt fram í málinu.

———-

Leyfishafa var gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum í málinu en hann hefur ekki tjáð sig um málatilbúnað kæranda.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun sveitarstjórnar Hörgársveitar frá 31. október 2023 um að samþykkja umsókn fyrir 56.286 m3 efnistöku á svæði E-9 í Hörgá.

Það er skilyrði kæruaðildar að málum fyrir úrskurðarnefndinni að kærandi eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 teljast  umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtökum eiga lögvarinna hagsmuna að gæta fyrir nefndinni að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Meðal ákvarðana sem slíkum samtökum er heimilt að bera undir nefndina eru ákvarðanir um leyfi vegna framkvæmda samkvæmt lögum nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, sbr. b. lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Lög nr. 111/2021 tóku gildi 1. september 2021, en í 1. ákvæði til bráðabirgða við lögin segir að í þeim tilvikum þegar umhverfismatsferli framkvæmdar sem fellur undir þau lög er lokið við gildistöku laganna skuli ákvæði eldri laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, er lúta að leyfisveitingum vegna framkvæmdarinnar gilda og verður með því að líta til ákvæða þeirra laga í máli þessu, en ferli umhverfismats vegna heildstæðs mats á efnistöku á 795.000 m3 úr áreyrum og árfarvegi Hörgár, lauk með áliti Skipulagsstofnunar, dags. 4. júní 2015.

Í áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum allt að 795.000 m3 efnistöku úr áreyrum og árfarvegi Hörgár í Hörgársveit var fjallað um framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi. Þótt leyfið sem fjallað er um í máli þessu taki aðeins til hluta þeirrar framkvæmdar sem um var fjallað í ferli umhverfismatsins sem lauk árið 2015, verður að líta svo á að leyfisveitanda sé skylt hverju sinni að horfa jafnframt til annarra framkvæmda, sem þegar hafa átt sér stað og eru fyrirhugaðar, svo framarlega sem þær tengist með augljósum hætti. Verður því litið á leyfið sem leyfi til framkvæmda í skilningi laga nr. 106/2000, sbr. gr. 2.01 í 1. viðauka við lögin.

Kærandi nýtur aðildar að máli þessu skv. b. lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, en af gögnum sem nefndin hefur aflað og kynnt sér uppfyllir hann skilyrði þeirrar greinar sem umhverfisverndar- eða útivistar- og hagsmunasamtök. Verður kæra í máli þessu því tekin til efnismeðferðar.

Í mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar frá 2015 segir að tilgangur framkvæmdarinnar sé að sporna við landbroti af völdum Hörgár með rennslisstýringu árinnar með það að markmiði að verja landbúnaðarland og mannvirki. Grjótvarnir hefðu gefið nokkuð góða raun en þær séu mjög kostnaðarsamar. Verði efni ekki fjarlægt úr farvegum megi gera ráð fyrir að þörfin fyrir grjótvarnir aukist mikið. Þá geti varnargarðar gert gagn við að beina ánni frá árbökkum, en séu þeir ekki grjótvarðir megi gera ráð fyrir að þeir geti skolast burt í stórum flóðum. Efnistöku er lýst í matinu og kemur fram að fyrst verði efnistökusvæði afmarkað og sett upp tímabundin höft eða stíflur úr malarefni. Þá verði efni mokað upp úr farvegi eða áreyrum og flutt á haugsetningarsvæði í nægjanlega mikilli fjarlægð frá ánni þannig að ekki verði hætta á að áin sópi haugnum með sér í næsta flóði. Efni verði svo ekið frá haugsetningarsvæði eftir því sem þörf og aðstæður á markaði kalli á. Þegar sótt hafi verið um framkvæmdaleyfi hafi verið gert ráð fyrir að leita ráðgjafar Veiðimálastofnunar, nú Hafrannsóknastofnunar, um ákjósanlegustu aðferðir og afmörkun á hverju einstaka framkvæmdasvæði. Kemur einnig fram að árlega sé áætlað að meta stöðu verkefnisins með tilliti til rennslis árinnar og landbrots og vinna áætlanir um efnistöku næsta tímabils. Fyrirhuguð framkvæmd feli í aðalatriðum í sér efnistöku á efnistökusvæðum á tímabilinu 1. október til 30. apríl ár hvert, flutning efnis frá efnistökusvæði á geymslusvæði og flutning efnis frá geymslusvæði á notkunarstað.

Fram kemur í matsskýrslu að árið 2013 hafi sameignarfélagið Hörgá sf. verið stofnað. Í samþykktum þess var tekið fram að félagsmenn væru landeigendur að ánni eða fulltrúar þeirra. Félaginu var ætlað að láta vinna umhverfismat fyrir efnistökuna fyrir hönd landeigenda við Hörgá og þveráa hennar. Skyldi félagið vera framkvæmdaraðili að allri efnistökunni. Ekki væru þó allir landeigendur að Hörgá í félaginu, en það hefði ekki áhrif á efnistöku. Þar sem félagið liti á ána alla og þverár sem eina heild og skipuleggi efnistöku með hagsmuni alls svæðisins að leiðarljósi, væri í umhverfismatinu fjallað um þau efnistökusvæði sem þættu hentug vegna aðstæðna, efnismagns eða efniseiginleika ásamt efnistökusvæðum sem þyki brýnt að taka efni úr til að draga úr landbroti. Í matsskýrslunni var að finna lýsingu á efnistökusvæðum sem tilgreind voru í drögum sem þá lágu fyrir að Aðalskipulagi Hörgársveitar 2012–2024, og höfðu svæðin tiltekna auðkenningu, þ.e. E-2, E-4, E-6, E-7, E-8, E-9, E-10 og E-11.

Fram kom í matsskýrslunni að nær ógerlegt væri að áætla hvar vinnsla hæfist og óraunhæft að ætla að fastsetja alla efnistöku næstu 20 árin. Ekki væri áætlað að umfangsmikil efnistaka ætti sér stað á hverju svæði, utan svæðis E-9 en þar væri gert ráð fyrir að hægt væri að vinna allt að 400.000 m3 af efni. Á hverju ári breyti áin sér og jafnvel oftar og því ætlaði framkvæmdaraðili að meta ástand árinnar á hverju ári, yfir sumartímann þegar vatnsborð væri hæst eða við flóð. Að því loknu yrði gerð tillaga um efnisvinnslu næsta tímabils, sem hæfist að hausti. Alltaf yrði hætta á landbroti höfð að leiðarljósi og svæðum forgangsraðið þannig að minnka mætti hættu á tjóni á mannvirkjum og ræktunarlandi.

Í áliti Skipulagsstofnunar um framkvæmdina dags. 4. júlí 2015 kom fram að tilgangur framkvæmdarinnar væri að sporna við landbroti af völdum Hörgár. Ekki yrði sótt um framkvæmdaleyfi fyrir öllum efnistökusvæðunum á sama tíma og væri áætlað að meta stöðu verkefnisins árlega með tilliti til rennslis árinnar og landbrots og vinna áætlanir um efnistöku næsta tímabils. Áætlað væri að hefja skipulagða efnistöku á þeim svæðum í ánni þar sem mest þörf væri á að skapa pláss fyrir flóðvatn í farveginum með það að markmiði að draga úr bakkarofi og þar með þörf fyrir annars konar og mjög kostnaðarsamar bakkavarnir, s.s. grjótvörn. Fjallað var stuttlega um hvert efnistökusvæði um sig í álitinu, m.a. það efnistökusvæði sem veitt var leyfi til að nýta með hinu kærða leyfi.

Rakið var í álitinu að efnistaka gæti haft áhrif á eðli og þróun vatnsfalla. Efnistaka í og við ár sé vandasöm og geti haft áhrif á lífríki í vatni. Botngerð ánna geti breyst og búsvæði laxfiska geti þannig raskast og haft neikvæð áhrif á veiði. Að mati sérfræðinga Veiðimálastofnunar sé óraunhæft að meta áhrif verkefnisins á veiði og lífríki á þessu stigi og almennt geti stofnunin ekki mælt með slíkum verkefnum í ám. Á hinn bóginn væri eðlilegt að stofnunin veitti ráðgjöf um heppilegustu útfærslu efnistöku á hverju framkvæmdasvæði fyrir sig, ef efnistaka á viðkomandi framkvæmdasvæði þætti nauðsynleg og framkvæmdaleyfi hefði verið veitt. Áhrif á veiði væru metin óviss, en staðbundin og afturkræf. Áhrif framkvæmdanna á veiði yltu alfarið á því hvernig lífríki ánna reiddi af. Ef tækist að koma í veg fyrir að bú- og hrygningarsvæði ánna spilltust þá yrðu áhrif óveruleg, en hætta væri á að inngrip í náttúrulegt ferli árinnar hefði neikvæð áhrif, þótt um það atriði væri nokkur óvissa. Í niðurstöðukafla álitsins var gerð bending um að til þess að lífríki árinnar yrði fyrir sem minnstum skaða væri nauðsynlegt að ráðfæra sig við fiskifræðinga um tilhögun og áfangaskiptingu á hverju efnistökusvæði.

Í álitinu var lögð áhersla á mikilvægi þess að efnistaka yrði unnin skipulega og yfir lengra tímabil, en fram kom að efnistakan mundi vara í 20 ár. Var í því sambandi talið jákvætt að landeigendur að efnistökusvæðinu hefðu sameinast um efnistökuna, sem ætti að bæta skipulag hennar og lágmarka neikvæð umhverfisáhrif. Meðal mótvægisaðgerða sem ráðgert var að fjallað yrði um við útgáfu hvers framkvæmdaleyfis væru hvernig staðið yrði að efnistökunni með því að ekki yrðu grafnar djúpar gryfjur, aðallega yrði fjarlægt efni ofan af áreyrum og árkeilum og að efnistakan færi fram á fáum afmörkuðum svæðum í einu og væru því staðbundin að hluta. Þá kom fram að ekki yrði unnið að efnistöku á tímabilinu 1. maí til 30. september. Skipulagsstofnun tók fram að áhrif framkvæmdanna á lífríki Hörgár væri háð óvissu og til að lífríki árinnar yrði fyrir sem minnstum skaða yrði að eiga gott samráð við fiskifræðinga um boðað árlegt mat á tilhögun og áfangaskiptingu. Í niðurstöðum álitsins var gerð ábending um að nauðsynlegt væri að í aðalskipulagi Hörgársveitar yrði tekið á efnistöku í Hörgá með heildstæðum hætti og það notað til að leggja línurnar um skipulag efnistöku í og við ána.

Mælt er fyrir um í 1. mgr. 14. gr. skipulagslaga og þágildandi 1. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 að óheimilt sé að gefa út leyfi til framkvæmda fyrr en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir eða ákvörðun um að framkvæmd sé ekki matsskyld. Í 2. mgr. beggja lagagreinanna er svo fjallað nánar um hvernig líta skuli til álits Skipulagsstofnunar við leyfisveitingu vegna matsskyldrar framkvæmdar. Áður voru þau lagaákvæði samhljóða um að við slíka leyfisveitingu bæri leyfisveitanda að kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hennar. Með breytingalögum nr. 96/2019 var skipulagslögum og lögum nr. 106/2000 breytt og í stað þess að taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar segir nú í greindum lagaákvæðum að leyfisveitanda beri að leggja álitið til grundvallar við ákvörðun um útgáfu leyfis. Jafnframt kváðu breytingalögin á um það nýmæli að leyfisveitandi skuli taka saman greinargerð um afgreiðslu leyfis. Þannig segir í 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga að slíkt skuli gert í samræmi við ákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum, en í þágildandi 3. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 er kveðið á um að í slíkri greinargerð skuli gera grein fyrir samræmi milli leyfis og niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar og rökstyðja sérstaklega ef í leyfinu sé vikið frá niðurstöðu álits. Einnig skuli leyfisveitandi taka afstöðu til tengdra leyfisveitinga þegar tilefni sé til ef um það sé fjallað í áliti Skipulagsstofnunar.

Þá er í 18. gr. breytingalaga nr. 96/2019 að finna lagaskilareglu er mælir fyrir um að matsskyldar framkvæmdir skuli hlíta málsmeðferð samkvæmt eldri ákvæðum laga nr. 106/2000 ef tillaga að matsáætlun hefur borist Skipulagsstofnun fyrir gildistöku laga nr. 96/2019, svo sem raunin er hér. Samkvæmt þágildandi 2. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 bar því sveitarstjórn að taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar. Sambærilegt lagaskilaákvæði er á hinn bóginn ekki að finna í tengslum við áðurgreinda breytingu á skipulagslögum og bar því að leggja álit Skipulagsstofnunar til grundvallar leyfisveitingu samkvæmt orðalagi 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga, sem gilti við samþykkt hinna kærðu framkvæmdaleyfa. Það verður þó ekki séð að breytt orðalag hafi haft í för með sér efnisbreytingu að máli skipti við úrlausn þessa máls, svo fremi að báðum ákvæðum sé fullnægt þannig að rökstudd afstaða sé tekin til álits Skipulagsstofnunar og það jafnframt lagt til grundvallar leyfisveitingu. Þá er einnig ljóst að þrátt fyrir að sveitarstjórn hafi ekki verið skylt samkvæmt þágildandi lögum nr. 106/2000 að taka saman greinargerð um afgreiðslu leyfis þá var henni það skylt samkvæmt gildandi skipulagslögum.

Að framangreindu virtu er skýrt að skv. 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga bar sveitarstjórn Hörgársveitar að kynna sér matsskýrslu um framkvæmdina, leggja álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hennar til grundvallar og taka saman greinargerð um afgreiðslu leyfis í samræmi við ákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum. Jafnframt er ljóst að samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 bar sveitarstjórn að taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar. Telja verður lögbundnar skyldur sveitarstjórnar, vegna framkvæmdar sem hefur sætt mati á umhverfisáhrifum, vera mikilvægan þátt í málsmeðferð leyfisveitingarinnar og til þess fallnar að stuðla að því að fyrrnefnt markmið b-liðar 1. gr. skipulagslaga verði náð, sem og markmið laga um mat á umhverfisáhrifum sem talin eru upp í 1. gr. þeirra laga. Er og ljóst að sveitarstjórn ber að sinna þeim skyldum óháð því hvenær mat á umhverfisáhrifum fór fram eða hvort leyfi hafi áður verið veitt fyrir hluta framkvæmdar.

Við útgáfu leyfis til framkvæmdar sem undirgengist hefur mat á umhverfisáhrifum eru skyldur sveitarstjórnar sem leyfisveitanda ríkar. Ber sveitarstjórn að fylgja þeim málsmeðferðarreglum sem mælt er fyrir um í skipulagslögum og lögum nr. 106/2000 og sjá til þess að skilyrði þeirra laga séu uppfyllt. Enn fremur ber sveitarstjórn að fylgja þeim markmiðum laganna sem tíundið eru í 1. gr. þeirra beggja, þar á meðal að stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða, tryggja vernd landslags, náttúru og menningarverðmæta og koma í veg fyrir umhverfisspjöll og ofnýtingu, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi, sbr. b-lið 1. gr. skipulagslaga. Jafnframt getur sveitarstjórn við leyfisveitinguna verið skylt að líta til efnis- og formreglna annarra laga, þ.m.t. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Þá er sveitarstjórn sem endranær bundin af ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og óskráðum meginreglum stjórnsýsluréttar.

Í áliti Skipulagsstofnunar er lögð áhersla á hlutverk sveitarfélagsins við stjórnun efnistöku í Hörgá með þeim heimildum sem felast í gerð aðalskipulags. Er þar greint frá og fjallað um áform Hörgár sf. að meta árlega stöðu verkefnisins með tilliti til landbrots og vinna áætlanir um efnistöku næsta tímabils. Fjallað er um efnistöku úr Hörgá og þverám hennar í kafla um efnistöku- og efnislosunarsvæði. Þar segir: „Efnistaka verður skipulögð á afmörkuðum stöðum hverju sinni. Við efnistöku skal setja ströng skilyrði til varnar umhverfisspjöllum s.s. um viðhald vinnuvéla og meðferð olíu og spilliefna til að koma í veg fyrir mengun frá framkvæmdasvæðinu.“ Gerðar voru breytingar á aðalskipulaginu með ákvörðun sveitarstjórnar frá 5. febrúar 2021 og tóku þær gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 19. s.m. Með þeim var fellt brott skilyrði um að efnistaka yrði einungis á einum efnistökustað í einu. Kom fram í greinargerð með breytingunni að erfitt hafi verið að framfylgja því þar sem landeigendur efnistökusvæða teldu jafnræðis ekki gætt væri þeim synjað um framkvæmdaleyfi vegna þess að efnistaka stæði yfir á öðrum stað í ánni, en einnig vegna þess að ekki væri hafið yfir vafa hvernig túlka bæri orðalag ákvæðisins.

Eftir breytingu aðalskipulagsins segir: „Við veitingu framkvæmdaleyfis til efnistöku í Hörgá og þverám hennar (efnistökusvæði E2, E4, E6, E7, E8, E9, E10 og E11) skal liggja fyrir umsögn Fiskistofu um framkvæmdina þar sem tillit er tekið til annarra gildandi framkvæmdaleyfa vegna efnistöku í Hörgá.“ Þá var einnig bætt við ákvæði um að við efnistöku úr Hörgá og þverám hennar skuli þannig gengið frá efnislager á geymslusvæðum á bökkum ánna að ekki skolist efni úr þeim aftur í árnar við háa vatnsstöðu í þeim. Samkvæmt aðalskipulaginu er heimiluð 400.000 m3 efnistaka á svæði E-9.

Sú leið sem farin var í aðalskipulagi sveitarfélagsins, eins og því var breytt árið 2021, var að leggja í hendur Fiskistofu að gefa umsögn um heildaráhrif efnistöku. Sú leið var hvorki reifuð í matsskýrslu framkvæmdarinnar né heldur áliti Skipulagsstofnunar. Álíta verður að leyfisveitandi beri ábyrgð á því að sú málsmeðferð tryggi nægilega þau markmið um heildræna stjórnun efnistöku sem fjallað er um í áliti Skipulagsstofnunar um matsskýrslu framkvæmdarinnar. Til þess er þá einnig að líta að sveitarfélagið hefur lýst því yfir gagnvart úrskurðarnefndinni að það hafi tekið að sér að axla þær skyldur sem Hörgá sf. voru ætlaðar og lýst var í matsskýrslu.

Úrskurðarnefndin leitaði viðhorfa Fiskistofu til þess hlutverks sem stofnuninni er ætlað samkvæmt aðalskipulaginu og upplýsinga um hvort umsagnar hafi verið leitað af hálfu sveitarfélagsins eða framkvæmdaraðila vegna þeirrar efnistöku úr Hörgá sem um er fjallað í máli þessu. Sem svar við þessu barst úrskurðarnefndinni umsögn Fiskistofu um téða aðalskipulagsbreytingu, dags. 5. desember 2019. Þar kemur m.a. fram að sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar hafi almennt varað við því að taka efni úr virkum farvegi straumvatna, einkum þeim sem fóstri fiska. Þó kunni að koma upp aðstæður þar sem þörf sé á því að gera lagfæringar, s.s. bakkavarnir. Um ætlað hlutverk stofnunarinnar samkvæmt framansögðu kom fram að framkvæmdir við veiðivötn, t.d. efnistaka, væru háðar leyfi Fiskistofu skv. 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði. Því sæi stofnunin ekki þörf á því að hún veitti umsögn til sveitarfélagsins vegna umfjöllunar þess um umsókn um framkvæmdaleyfi. Vitanlega gæti sveitarfélagið hins vegar ákveðið að hafa leyfi Fiskistofu sem forsendu fyrir útgáfu framkvæmdaleyfis, þótt leyfin væru sjálfstæð og óháð hvoru öðru í raun.

Í greindri umsögn Fiskistofu sagði enn fremur að við útgáfu leyfa vegna framkvæmda við veiðivötn liti Fiskistofa til hugsanlegra áhrifa framkvæmda á afkomu fiskstofna og aðstöðu til veiði. Þá benti stofnunin á að umfangsmikil efnistaka kynni að snerta margvíslega aðra hagsmuni og varaði stofnunin við því að einskorða skilyrði fyrir framkvæmdaleyfi jákvæðri niðurstöðu af hálfu Fiskistofu.

—–

Á fundi sveitarstjórnar Hörgársveitar 31. október 2023 lá fyrir greinargerð skipulagsfulltrúa, dags. 23. október 2023, vegna efnistöku á svæði E-9 í Hörgá. Þar er gerð grein fyrir umsókn um framkvæmdaleyfi og fyrirliggjandi gögnum, s.s. leyfi Fiskistofu, dags. 12. september 2022, samþykki landeigenda, umsögn veiðifélags, framkvæmdaáætlun, uppdráttur af framkvæmdasvæði og umsögn sérfræðings í veiðimálum vegna framkvæmdarinnar, dags. 18. febrúar 2022. Fram kemur að verkferlislýsing og viðbragðsáætlun sé sú sama og með fyrra leyfi á sama svæði. Um heimildir er vísað til matsskýrslu umhverfismats, dags. apríl 2015, álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum, dags. 4. júní 2015, Aðalskipulags Hörgársveitar 2012–2024, leyfi Fiskistofu vegna 100.000 m3 efnistöku á svæði E-9, dags. 12. september 2022, Vatnaáætlunar Íslands 2022–2027 og vatnavefsjár. Þá kemur fram að forsendur framkvæmdaleyfisins séu gildandi aðalskipulag og umhverfismat frá 2015. Samkvæmt aðalskipulaginu sé heimilað efnismagn 400.000 m3 á umræddu svæði og áður tekið efni sé 272.714 m3. Vísað er til sértækra skilmála aðalskipulagsins um efnistöku í Hörgá og samkvæmt þeim skuli liggja fyrir umsögn Fiskistofu um framkvæmdina þar sem tillit sé tekið til annarra gildandi framkvæmdaleyfa vegna efnistöku í Hörgá og við efnistöku úr Hörgá og þverám hennar skuli þannig gengið frá efnislager á geymslusvæðum á bökkum ánna að ekki skolist efni úr þeim aftur út í árnar við háa vatnsstöðu í þeim.

Í greinargerðinni er fjallað um umhverfismat framkvæmdarinnar en þar segir að markmið hennar sé markviss árfarvegastjórnun með það að markmiði að vernda mannvirki og mikilvægt landbúnaðarland. Gerð er grein fyrir leiðum sem fjallað er um í umhverfismatinu til að ná því markmiði. Um álit Skipulagsstofnunar vegna umhverfismatsins kemur fram að nauðsynlegt sé að tekið verði á efnistöku í Hörgá með heildstæðum hætti í aðalskipulagi sveitarfélagsins, áríðandi sé að ekki skapist hætta á að vatnsból spillist og nauðsynlegt sé að ráðfæra sig við fiskifræðinga um tilhögun og áfangaskiptingu. Þá er vísað til þess að fyrir hendi sé leyfi Fiskistofu skv. 33. gr. laga nr. 61/2006 vegna framkvæmdarinnar. Jafnframt að leyfisveitandi skuli tryggja að leyfið sé í samræmi við þá stefnumörkun um vatnsvernd sem fram komi í vatnaáætlun í samræmi við lög nr. 36/2011 um stjórn vatnamála.

Í greinargerðinni er undirkafli með heitinu „Greining“. Þar segir að umfang framkvæmdar samræmist skilmálum aðalskipulags um svæði E-9 og skipulag framkvæmdasvæðis samkvæmt uppdrætti sé einnig í samræmi við aðalskipulag. Fyrir hendi sé verklag við áfyllingu, frágang áfyllingarsvæðis og viðbragðsáætlun vegna slyss. Í aðalskipulagi Hörgársveitar sé gerð grein fyrir umfangi og efnistökumagni. Sveitarfélagið stýri efnistöku sem umhverfismat nái til með heildstæðum hætti í gegnum leyfisveitingar á grundvelli þessara skipulagsákvæða. Framkvæmdin fari fram innan skilgreinds framkvæmdasvæðis og samræmist umhverfismati og aðalskipulagi varðandi magn efnis og umfang. Einnig segir að framkvæmdaleyfi sem veitt hafi verið til efnistöku úr Hörgá séu að jafnaði gefin út til eins til tveggja ára í senn.

Fram kemur þessu næst að útgáfa nýrra framkvæmdaleyfa miðist við árangur og reynslu af fyrri áföngum efnistökunnar. Fyrir hendi sé leyfi Fiskistofu til framkvæmda í veiðivatni, sbr. 33. gr. laga nr. 61/2006. Í leyfisbréfi hennar sé gerð grein fyrir þeim „fiskihagsmunum“ sem framkvæmdin snerti og skilmálum sem hún sé háð vegna þeirra. Fram komi í leyfisbréfinu að tillit hafi verið tekið til „fyrirliggjandi leyfa til efnistöku í og við Hörgá“ við leyfisveitinguna.  Úrskurðarnefndin bendir á að leyfi Fiskistofu skv. 33. gr. laga nr. 61/2006 er óháð því framkvæmdaleyfi sem er til umfjöllunar í máli þessu, en um leið er rétt athugað að meðal forsendna í rökstuðningi þess leyfis var tilvísun til annarra leyfa til efnistöku í Hörgá. Engu að síður verður ekki hjá því litið að skyldur leyfisveitanda eru ríkar samkvæmt þágildandi 13. gr. laga nr. 106/2000 og að leyfi Fiskistofu varðar aðeins einn þátt framkvæmda. Hefði sveitarfélaginu því verið rétt að fjalla nánar um það hvernig tryggð væru þau markmið um heildræna stjórnun efnistöku úr Hörgá sem fjallað var um í áliti Skipulagsstofnunar.

Að lokum er í greinargerð skipulagsfulltrúa dregin saman sú niðurstaða að framkvæmdin sé í samræmi við gildandi aðalskipulag, matsskýrslu frá apríl 2015 og álit Skipulagsstofnunar, dags. 4. júní 2015 sem og í samræmi við þá stefnumörkun um vatnsvernd sem komi fram í vatnaáætlun. Heilt yfir litið er rökstuðningur hinnar kærðu ákvörðunar takmarkaður þar sem ekki er fjallað markvisst um álit Skipulagsstofnunar né þær efnisreglur laga sem eru af þýðingu fyrir hina kærðu ákvörðun. Úrskurðarnefndin lætur þó vera að kveða úr um hvort annmarkar þessir, einir og sér, séu svo verulegir að varði ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar með vísan til þess sem hér fer á eftir.

—–

Samkvæmt 3. mgr. 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 getur sveitarstjórn bundið framkvæmdaleyfi þeim skilyrðum er fram kunna að koma í áliti Skipulagsstofnunar að svo miklu leyti sem aðrir sem veita leyfi til framkvæmda samkvæmt sérlögum hafa ekki tekið afstöðu til þeirra. Jafnframt er sveitarstjórn heimilt að binda framkvæmd skilyrðum sem sett eru í samræmi við gildandi skipulagsáætlanir sveitarfélagsins. Nánari fyrirmæli um samþykki og útgáfu framkvæmdaleyfa eru í reglugerð nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Þar kemur fram í 5. tl. 2. mgr. 7. gr. að umsókn um framkvæmdaleyfi skuli fylgja fyrirliggjandi samþykki og/eða leyfi annarra leyfisveitenda sem framkvæmdin kann að vera háð samkvæmt öðrum lögum, ásamt upplýsingum um önnur leyfi sem framkvæmdaraðili er með í umsóknarferli eða hyggst sækja um. Þegar lög gera með þessum hætti ráð fyrir því að ákvörðun stjórnvalds sé háð því að fyrir liggi ákvörðun annars stjórnvalds leiðir af 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 rík skylda fyrir fyrrnefnda stjórnvaldið að afla með forsvaranlegum hætti nægilegra upplýsinga um hvort ákvörðun hins síðarnefnda stjórnvalds liggi fyrir og þá hvers efnis hún er.

Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að skipulagslögum var fjallað sérstaklega um fyrirmæli þau sem komu fram í 3. mgr. 14. gr. laganna og rakið að skilyrði sem fram komi í áliti Skipulagsstofnunar geti m.a. varðað mótvægisaðgerðir og samráð við tiltekna aðila. Sveitarstjórn sé heimilt en ekki skylt að taka upp slík skilyrði. Þetta væri þó háð því að önnur stjórnvöld, sem veiti leyfi til framkvæmdanna, hafi ekki tekið afstöðu til þessara skilyrða. Þegar svo standi á beri sveitarstjórn ekki að taka upp slík skilyrði, enda sé það í höndum annarra leyfisveitenda að fjalla um þau. Af þessum skýringargögnum má greina það viðhorf löggjafans að fyrirmælum 3. mgr. 14. gr. skipulagslaga hafi verið ætlað að tryggja að áður en til samþykktar framkvæmdaleyfis kæmi, lægi fyrir efnisleg afstaða annarra leyfisveitenda sem framkvæmd væri háð samkvæmt sérlögum sem um viðkomandi framkvæmd gildi. Sama ályktun verður dregin af sambærilegum ákvæðum í 4. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 772/2012.

Í 2. mgr. 7. gr. vatnalaga nr. 15/1923 er kveðið á um að óheimilt sé nema sérstök heimild eða lagaleyfi sé til þess að breyta vatnsbotni, straumstefnu, vatnsmagni eða vatnsflæði, hvort sem það verður að fullu og öllu eða um ákveðinn tíma, svo og að hækka eða lækka vatnsborð. Í 1. mgr. 75. gr. laganna er síðan mælt fyrir um að heimilt sé að fengnu leyfi Orkustofnunar eða eftir atvikum leyfi Fiskistofu skv. V. kafla laga nr. 61/2006, að breyta vatnsfarvegi, víkka hann eða rétta, gera nýjan farveg eða önnur þau mannvirki í vatni eða við það sem nauðsynleg eru í því skyni að verja land eða landsnytjar gegn spjöllum af landbroti eða árennsli vatns og kemur fram að heimilt sé að binda slíkt leyfi skilyrðum sem þykja nauðsynleg vegna almannahagsmuna. Sé Fiskistofu send skrifleg umsókn um framkvæmd í eða við veiðivatn skal sú stofnun þegar í stað senda Orkustofnun afrit af slíkri umsókn. Orkustofnun, sem fer með stjórnsýslu vatnamála, sbr. 143. gr. vatnalaga nr. 15/1923, getur þá, ef hún telur ástæðu til, sett skilyrði fyrir framkvæmdinni í samræmi við 4. mgr. 144. gr. laganna, m.a. ef ætla má að framkvæmdir eða starfsemi geti spillt þeirri nýtingu sem fram fer í eða við vatn eða möguleikum á að nýta vatn síðar. Tekið er fram að slík skilyrði skuli vera í samræmi við markmið laga nr. 15/1923, reglugerðir og vatnaáætlun samkvæmt lögum um stjórn vatnamála.

Af framanröktum viðhorfum Hörgársveitar er sýnt að Orkustofnun hafi ekki fjallað um hina kærðu framkvæmd. Til þess virðist þó fullt tilefni þar sem megintilgangur framkvæmdarinnar samkvæmt matsskýrslu er að sporna við landbroti af völdum Hörgár með rennslisstýringu árinnar með það að markmiði að verja landbúnaðarland og mannvirki, en í matsskýrslu er enn fremur rakið að á svæði E-9 sé talið mikilvægt að lækka árfarveginn með efnistöku og minnka álag á Hringveginn með því að beina ánni fjær veginum. Í þessu ljósi verður að telja til verulegs annmarka á leyfisveitingu að ekki liggur fyrir afstaða Orkustofnunar til hennar, en athuga má að með umsögn Orkustofnunar til Skipulagsstofnunar, sem vísað var til í áliti Skipulagsstofnunar um hina kærðu framkvæmd var, svo sem kærendur hafa bent á, fjallað um tilvísaða lagastaði og þörf á því að aflað yrði leyfis stofnunarinnar til framkvæmdarinnar. Má einnig benda á sem þar er rakið að til kann að vera að dreifa skyldu til öflunar nýtingarleyfis til efnistöku skv. 6. gr. laga nr. 57/1998, sbr. þó 8. gr. laganna, en um þetta vísast nánar til leiðbeininga sem vænta má hjá Orkustofnun.

—–

Í 3. mgr. 28. gr. laga um stjórn vatnamála nr. 36/2011 er mælt fyrir um að leyfisveitandi skuli við afgreiðslu umsóknar um leyfi til nýtingar vatns og við aðra leyfisveitingu til framkvæmda á grundvelli vatnalaga, laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu og um leyfi á grundvelli skipulagslaga og laga um mannvirki, tryggja að leyfið sé í samræmi við þá stefnumörkun um vatnsvernd sem fram komi í vatnaáætlun. Sambærileg skylda virðist hvíla á Orkustofnun samkvæmt tilvísaðri 4. mgr. 144. gr. vatnalaga nr. 15/1923. Til þess er þá að líta sem rakið er í téðri greinargerð skipulagsfulltrúa, dags. 23. október 2023, vegna efnistöku á svæði E-9 í Hörgá, að samkvæmt umsókn muni efnistaka fara fram á þremur svæðum innan þess og nái svæðið í heild til um 5,3 km kafla árfarvegarins. Í framhaldi þessa er í greinargerðinni vísað til Vatnaáætlunar Íslands 2022–2027 og rakið að þar komi fram markmið varðandi ástand vatnshlota. Í framhaldi er sett fram mat á áhrifum framkvæmdarinnar á ástand viðkomandi vatnshlots, sem þó er ekki auðkennt, þannig að áhrif á botnþörunga séu hverfandi, áhrif á hryggleysingja séu engin og engin áhrif verði á eðlisefnafræði og staðhæft að því muni ástandi vatnshlotsins ekki hraka við fyrirhugaða framkvæmd.

Umfjöllun þessi vekur spurningar um þær kröfur sem verði gerðar til leyfisveitingarstjórnvalds um rökstuðning fyrir því að framkvæmdir á borð við þær sem hér eru til umfjöllunar, feli eigi í sér hnignun vatnsgæða sem fari í bága við meginreglur laga um stjórn vatnamála. Úrskurðarnefndin bendir á að í 2. mgr. 11. gr. laga nr. 36/2011 segi að mat á yfirborðsvatnshloti skuli byggjast á fyrirliggjandi gögnum hverju sinni og taka fyrir hverja vatnshlotsgerð mið af skilgreindum líffræðilegum gæðaþáttum auk vatnsformfræðilegra og efna- og eðlisefnafræðilegra þátta eftir því sem við eigi. Einnig kunna að skipta máli ákvæði reglugerðar nr. 535/2011 um flokkun vatnshlota, eiginleika þeirra, álagsgreiningu og vöktun og aðgerðir samkvæmt vatnaáætlun og fylgiáætlun hennar. Því er beint til Hörgársveitar, komi fram að nýju sambærileg leyfisumsókn og um er fjallað í máli þessu, að leita leiðbeininga Umhverfisstofnunar um með hvaða hætti tryggt verði að leyfi samrýmist framangreindum lögum og þeirri stefnumörkun um vatnsvernd sem fram komi í vatnaáætlun.

—–

Með vísan til alls framangreinds verður að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi. 

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Hörgársveitar frá 31. október 2023 um að samþykkja umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir 56.286 m3 efnistöku á svæði E-9 í Hörgá.

63/2023 Tangabryggja

Með

Árið 2023, föstudaginn 22. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor tók þátt í fundinum í gegnum fjarfundabúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 63/2023, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 25. apríl 2023 um að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna Tangabryggju 13–15 í Reykjavík.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. maí 2023, er barst nefndinni 17. s.m., kærir húsfélag Tangabryggju 13–15 þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 25. apríl 2023 að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna Tangabryggju 13–15. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt er þess krafist að byggingarfulltrúa verði gert að endurtaka lokaúttekt samkvæmt skoðunarlista, sbr. gr. 3.5.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, eftir að verktaki ljúki við bygginguna að fullu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 28. og 29. júní 2023.

Málavextir: Árið 2016 var sótt um byggingarleyfi til að byggja fimm hæða fjölbýlishús með 63 íbúðum á lóðinni nr. 18–24 við Tangabryggju sem síðar var breytt í Tangabryggju 13–15. Byggingarfulltrúi gaf út vottorð um lokaúttekt 21. júní 2019, en sú ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Með úrskurði uppkveðnum 28. maí 2020 í máli nr. 54/2019 var ákvörðun byggingarfulltrúa felld úr gildi með vísan til þess að þáttum sem vörðuðu aðgengi skyldi ávallt vera lokið við gerð lokaúttektar, sbr. 4. mgr. 36. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, en að mati nefndarinnar voru tiltekin skilyrði byggingarreglugerðar nr. 112/2012 um bílastæði hreyfihamlaðra ekki uppfyllt.

Hinn 21. október 2020 gaf byggingarfulltrúi út nýtt vottorð um lokaúttekt og kærði kærandi þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar með kröfu um ógildingu hennar. Var þeirri kröfu hafnað með úrskurði í máli nr. 134/2020, uppkveðnum 6. maí 2021, en að virtri kvörtun kæranda til umboðsmanns Alþingis og fyrirspurnum umboðsmanns til nefndarinnar vegna kvörtunarinnar ákvað úrskurðarnefndin að endurupptaka málið að eigin frumkvæði. Í kjölfarið óskaði nefndin eftir áliti Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar vegna tiltekinna atriða. Úrskurður var kveðinn upp að nýju 4. maí 2022 þar sem úrskurðarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að við útgáfu lokaúttektarvottorðs hefði fyrirkomulag loftræsingar mannvirkisins ekki uppfyllt skilyrði byggingarreglugerðar, en þar að auki komst meirihluti nefndarinnar að þeirri niðurstöðu að fyrirkomulag bílastæða fyrir hreyfihamlaða hefði heldur ekki uppfyllt skilyrði byggingar­reglugerðar. Voru þeir annmarkar taldir leiða til ógildingar ákvörðunar byggingarfulltrúa.

Í kjölfar úrskurðarins lagði byggingaraðili fram byggingarleyfisumsókn með nýjum aðal­uppdráttum og óskaði eftir því að byggingarlýsingu um loftræsingu og skilyrðum um snjóbræðslu fyrir bílastæði fyrir hreyfihamlaða yrði breytt. Hinn 21. mars 2023 samþykkti byggingarfulltrúi umsóknina. Lokaúttekt fór fram að nýju 21. apríl s.á. og var hún staðfest með útgáfu vottorðs 25. s.m.

 Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að takmarkaðar úrbætur hafi verið gerðar eftir að tvö vottorð um lokaúttekt Tangabryggju 13–15 hafi verið felld úr gildi og uppfylli fjölbýlishúsið enn ekki ákvæði byggingarreglugerðar nr. 112/2012.

 Í húsinu sé með ýmsum hætti ekki uppfyllt skilyrði byggingarreglugerðar um aðgengi fyrir alla. Fjögur bílastæði fyrir hreyfihamlaða, sem staðsett séu í bílgeymslu, séu þinglýst eign fjögurra íbúða. Aðgengi frá þeim stæðum að íbúðum sé um fimm eldvarnardyr sem ekki hafi sjálfvirkan opnunarbúnað og því ekki á færi einstaklinga í hjólastól að fara þar um, sbr. gr. 6.4.2. í byggingarreglugerð. Skábraut að bílgeymslu sé brattari en 1:20 eins og gerð sé krafa um í 1. mgr. gr. 6.4.11, en samkvæmt ákvæðinu skuli skábrautir að jafnaði ekki vera brattari en 1:20 . Aðeins einu stæði fyrir hreyfihamlaða hafi verið bætt við á lóð fjölbýlishússins eftir fyrri úrskurði úrskurðarnefndarinnar. Eigendur þriggja íbúða í fjölbýlishúsinu séu handhafar bílastæðamerkis fyrir hreyfihamlaða, en enginn þeirra eigi eitt af þeim fjórum bílastæðum fyrir hreyfihamlaða sem eru í bílgeymslu. Þeir þurfi því að deila þessu eina stæði á lóð fjölbýlishússins, en skv. töflu 6.01. í gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð eigi fjölbýlishúsið að hafa að lágmarki fjögur stæði fyrir hreyfihamlaða íbúa og gesti.

Flóttaleiðir í kjallara séu ekki færar hreyfihömluðum og uppfylli ekki skilyrði gr. 9.5.3. og 9.5.4. í byggingarreglugerð. Flótti hreyfihamlaðra úr bílgeymslu sé ómögulegur samkvæmt merktum flóttaleiðum. Snúningsrými sé ekki til staðar fyrir framan hurð í bílgeymslu þannig að einstaklingur í hjólastól hafi ekki tök á að fara út um þær dyr. Í vagna- og hjólageymslu Tangabryggju 15 séu aðeins tvö björgunarop sem þurfi að fara upp neyðarstiga til að komast út um. Ekki séu merktar flóttaleiðir úr hjólageymslunni í annað brunahólf.

Handlista skorti á óupphitaðri og óupplýstri gönguleið að bílastæðum utanhúss sem og á gönguleið á skábraut sem liggi að bílageymslu, en skv. gr. 6.5.1. í byggingarreglugerð skuli handrið vera á öllum svölum bygginga, stigum, tröppum, pöllum, skábrautum og annars staðar þar sem hætta sé á falli. Byggingaraðili hafi ekki talið þörf á handriði á skábrautinni þar sem fallhætta sé ekki til staðar, en skábrautin sé samt sem áður brött eða 15° samkvæmt hönnunargögnum. Þá sé aðgengi fyrir blinda og sjónskerta ekki í samræmi við fyrirmæli gr. 6.2.2. í byggingarreglugerð. Fyrir framan hús sé óupphituð gönguleið frá inngöngum að ruslageymslu, en á þeirri leið sé ómerkt þrep. Gönguleið frá ruslageymslu að bílastæðum utanhúss annars vegar og að merktri gönguleið niður skábraut að bílageymslu hins vegar þveri akstursleið að og frá bílgeymslu. Þar ætti því að merkja sérstaklega með áherslumerkingu, enda ekki sjálfgefið að ökumaður og gangandi vegfarendur verði varir við hvorn annan þar sem skábraut sé við enda ruslageymslu. Blindir og sjónskertir séu því í sérstakri hættu.

Útsog úr eldhúsum íbúða og af gangi sé ekki til staðar. Þar af leiðandi séu ekki eðlileg loftskipti á þessum stöðum, sbr. gr. 10.2.5. í byggingarreglugerð. Á uppdráttum komi fram að öll gluggalaus eða lokuð rými verði loftræst. Matarlykt leiði nú um íbúðir og fram á ganga. Loftræsing á baðherbergjum og þvottahúsum virðist ekki fullnægjandi. Óformlegar mælingar fagaðila sýni mun minni loftskipti en reglugerð kveði á um, en skv. gr. 10.2.5. ættu loftskipti á baðherbergi að vera að lágmarki 15 l/s og 20 l/s í þvottahúsi. Vísað sé til álits Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og minnisblaðs verkfræðistofunnar Mannvits í enduruppteknu máli nr. 134/2020, en auk þess sé óskað eftir því að óháður aðili verði fenginn til að meta gæði þeirrar loftræsingar sem sé til staðar á baðherbergjum og þvottahúsum.

Sorpgeymsla sé án læstra dyra, en í hönnunargögnum sé gert ráð fyrir hurð. Gólf í sorp­geymslunni sé ómeðhöndlað sem torveldi þrif, en skv. gr. 6.12.7. í byggingarreglugerð skuli sorpgeymslur þannig frágengnar að auðvelt sé að þrífa þær. Þá vanti loftræsingu í sorpgeymslu svo hægt sé að læsa henni, sbr. gr. 6.12.7.

Bílgeymsla sé án einangrunar sem kalli á leka og myglu. Útbreiddur leki sé á öllum veggjum í bílgeymslu og í kverkum við holplötur. Borið hafi á myglu í innsta þriðjungi lofts og molnað hafi úr holplötum í lofti á nokkrum stöðum. Sprungur og skemmdir séu taldar vera vegna frostskemmda. Byggingaraðili hafi tvívegis þrifið upp myglu úr lofti, en þrátt fyrir það sé loft enn myglað. Varðandi þetta atriði sé vísað til gr. 8.1.1., 8.2.1., 6.3.2. og 6.11.5. í byggingarreglugerð

Viðvarandi músagangur hafi verið á svölum íbúða frá því að fyrstu íbúar hafi flutt inn árið 2019 og hafi byggingaraðila ekki enn tekist að binda enda á hann, en skv. gr. 10.1.1. og 10.7.1. í byggingarreglugerð eigi byggingar að vera þannig frágengnar að meindýr eigi ekki að komast inn í bygginguna, einstaka hluta hennar eða undir klæðningu. Samkvæmt gr. 6.3.1. og 6.3.2. eigi ytra byrði bygginga að standast það álag umhverfisþátta sem búast megi við. Útidyr beggja stigaganga standist samt ekki veðurálag og við úrkomu leki mikið inn. Byggingaraðili hafi sett niðurfall í anddyri Tangabryggju 13 til að takmarka tjón, en hafi ekki bætt úr hönnunargalla. Rafmagnstöflur séu ólæstar í sameiginlegu rými, sem á aðaluppdrætti sé skilgreint sem vagna- og hjólageymsla/tæknirými. Þar sé óhindrað aðgengi fyrir börn og fullorðna sem geti valdið slysum og tjóni fyrir íbúa hússins og brjóti því í bága við gr. 6.12.1. í byggingarreglugerð. Bílastæði á lóð fjölbýlishússins séu óupplýst ásamt hluta gangstígs, en það sé í andstöðu við gr. 6.2.2. og skapi hættu fyrir íbúa sem eigi þar leið um í skammdeginu. Byggingarfulltrúi hafi svarað athugum þar að lútandi á þá leið að hann telji lýsingu fullnægjandi og að lýsing sé í samræmi við hönnunargögn/lóðarblað, en meta eigi þau atriði eftir byggingarreglugerð.

Hefði skoðunarhandbók og skoðunarlistum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar verið fylgt við lokaúttekt hefði komið til úrbóta varðandi fyrrnefnd efnisatriði. Ekki sé hægt að gefa út lokaúttektarvottorð þegar þáttum varðandi aðgengi, hollustuhætti og öryggismál séu ekki uppfyllt. Þá hafi byggingarfulltrúi virt að vettugi úrskurð úrskurðarnefndarinnar með því að krefja byggingaraðila ekki um úrbætur.

Gerð sé athugasemd við að byggingarfulltrúi taki skýrslu byggingaraðila um átaksmælingar hurða í kjallara gilda. Óskað sé eftir því að álit Öryrkjabandalags Íslands, sem lagt hafi verið fram í enduruppteknu máli nr. 134/2020, verði haft til hliðsjónar og óháður aðili fenginn til að átaksmæla dyrnar. Mælingar kæranda á hurðum í kjallara séu ekki í samræmi við mælingar sem tilgreindar séu í skoðunarskýrslu. Til að uppfylla 6. gr. reglugerðar nr. 723/2017 um eldvarnir og eldvarnareftirlit þurfi brunahurðir að hafa nægjanlegan þunga til að tryggja að hurð læsist og þétti þegar hún falli að. Eðlilega sé erfitt að uppfylla bæði skilyrði um að hurð sé nægjanlega létt fyrir alla að opna en jafnframt nægilega þung til að læsast. Einnig sé bent á álit Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar þar sem fram hafi komið að aðalaumferðarleið væri „allar leiðir í sameign, frá bílastæði, inn/út um aðalinngang, inn á og eftir gangi, að íbúðum, að geymslum, m.a. bílageymslum, og inn/út um aðra innganga.“

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld vísa til þess að meðferð málsins hafi að öllu leyti verið í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar nr. 112/2012, laga nr. 160/2010 um mannvirki og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í kjölfar úrskurðar nefndarinnar í enduruppteknu máli nr. 134/2020 hafi byggingaraðili sótt um og fengið samþykkt byggingarleyfi vegna lagfæringa á þeim atriðum sem hafi leitt til ógildingar fyrra lokaúttektarvottorðs. Samþykkt hafi verið skilyrði um snjóbræðslu framan við húsið og í bílastæði fyrir hreyfihamlaða auk þess sem uppfærður hafi verið texti varðandi loftræsingu. Með þeirri breytingu teljist skilyrði byggingarreglugerðar um bílastæði fyrir hreyfihamlaða vera uppfyllt, en sú túlkun úrskurðarnefndarinnar að ekki megi setja bílastæði fyrir hreyfihamlaða í bílgeymslu sé ekki í samræmi við byggingarreglugerð. Til að gangast við kröfum úrskurðarnefndarinnar hafi byggingaraðili sótt um að setja bílastæði fyrir hreyfihamlaða í borgarlandi, en fengið synjun frá skrifstofu samgöngustjóra þar sem ekki hafi verið pláss í götunni til að fjölga bílastæðum fyrir hreyfihamlaða.

Ekki sé fallist á túlkun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar á ákvæðum byggingarreglugerðar varðandi loftræsingu fyrir íbúðarhús sem fram komi í áliti stofnunarinnar í tengslum við endurupptekið kærumál nr. 134/2020. Því til stuðnings sé vitnað í minnisblað verkfræði­stofunnar Teknik, dags. 6. desember 2021. Til stuðnings þeirri afstöðu Húsnæðis- og mannvirkjastofnun að útsog frá eldhúsum megi ekki berast í önnur rými sé vísað til gr. 10.2.3. í byggingarreglugerð um að nota skuli staðbundið útsog þar sem mengandi vinnsla fari fram. Bent sé á að eldhús í íbúðarhúsum flokkist ekki sem mengandi starfsemi innan bygginga heldur eigi greinin við um atvinnustarfsemi eins og tilvitnun í reglugerð Vinnueftirlits ríkisins beri með sér. Skýrt sé skv. gr. 10.2.5. að beita megi náttúrulegri loftræsingu til að skapa útsog úr rými. Í viðmiðunarreglum fyrir þá grein sé tilgreint hvaða loftskipti skulu vera möguleg að lágmarki, óháð gerð loftræsingar, en ekki sé gerð krafa um að þau loftskipti séu ávallt til staðar. Hvað varði þá afstöðu stofnunarinnar að opnanlegt gluggafag uppfylli ekki kröfur til útsogs náttúrulegrar loftræsingar, sbr. gr. 14.9.1. í byggingarreglugerð, þá tilgreini ákvæðið ekki meginreglur heldur almennar kröfur. Því sé ákvæði hennar ekki ófrávíkjanlegt sé sýnt fram á það að kröfur séu uppfylltar með öðrum hætti en segi í reglugerðinni.

Samkvæmt gr. 10.2.3. í byggingarreglugerð megi blanda útsogslofti við ferskloft ef tryggt sé að það mengi ekki ferskloft þess rýmis sem loftræst sé. Túlka megi greinina á þann veg að ef útsog frá eldhúsum sé hreinsað á fullnægjandi hátt þá megi blanda því aftur við ferskt loft í rýminu. Slíkri hreinsun sé t.d. hægt að ná fram með útsogsháfum staðsettum ofan við eldavélar útbúnum með kolasíum til lofthreinsunar. Bent sé á ákveðna mótsögn í byggingarreglugerð þegar komi að loftræsingu íbúða í fjölbýlishúsum. Ef fylgt sé viðmiðmunarkröfum um útsog í gr. 10.2.5. fyrir ákveðnar útfærslur af íbúðum geti skapast mun hærri loftskipti en viðmið í reglugerð og leiðbeinandi stöðum tilgreini og mæli með. Upphitunarkerfi þurfi að hita ferskt útiloft sem dregið sé inn í íbúðina á móti útsogi úr rýmum. Horfa þurfi heildstætt á byggingarreglugerð en ekki sértæka kafla, viðmunarreglur og greinar um loftræsingu, svo sem um innivist og orkunotkun. Út frá framangreindri umfjöllun hafi texti í byggingarlýsingu varðandi loftræsingu verið uppfærður og samþykktur af byggingarfulltrúa.

Við lokaúttekt hafi sérstaklega verið skoðað hvort frágangur eldvarnarhurða í aðalumferðarleið frá bílgeymslu að lyftum í kjallara uppfylli skilyrði laga um mannvirki og byggingar­reglugerðar og hafi svo verið. Umfjöllun þar um sé að finna í niðurstöðu vottorðs lokaúttektar. Að lokum sé bent á að úrskurðarnefndin hafi áður tekið afstöðu til annarra atriða í kærumálum nr. 54/2019 og 134/2020 og verði ekki fjallað efnislega um þau atriði.

 Málsrök byggingaraðila: Af hálfu byggingaraðila er bent á að mannvirkið uppfylli allar viðeigandi kröfur laga um mannvirki nr. 160/2010 og byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Byggt hafi verið í samræmi við hönnunargögn líkt og útgáfa lokaúttektarvottorðs staðfesti, sbr. 1. mgr. 36. gr. laga nr. 160/2010. Auk framangreinds lúti stór hluta athugasemda kæranda, s.s. varðandi sorpgeymslur, tæknirými, lýsingar á bílastæðum, músagang o.fl., að atriðum sem myndu teljast minniháttar frávik. Hefðu þau í mesta lagi geta orðið til þess að byggingarfulltrúi hefði gefið út vottorð með athugasemdum skv. 4. mgr. 36. gr. mannvirkjalaga og 2. mgr. gr. 3.9.4. í byggingarreglugerð.

Byggingaraðili taki undir túlkun úrskurðarnefndarinnar í enduruppteknu máli nr. 134/2020 á b-lið 5. mgr. gr. 6.4.2. í byggingarreglugerð, þ.e. að ekki sé gerð krafa um að inngangs- og útidyr í aðalumferðarleiðum séu með sjálfvirkum opnunarbúnaði heldur einungis að vel sé hægt að koma slíkum búnaði fyrir. Sama eigi við hvað varði skábraut fyrir hjólastóla. Í úrskurðinum hafi nefndin vísað til samþykktra teikninga þar sem sjá megi að skábraut í bílgeymslu að inngangsdyrum sé styttri en 3 m og að halli sé 8,3% sem sé í samræmi við viðmiðunarreglu 2. mgr. gr. 6.4.11. í byggingarreglugerð. Að því marki sem röksemdir kæranda taki hugsanlega til gangstígs að inngangsdyrum bílageymslu utanhúss sé á það bent að sá gangstígur hafi hvorki verið hannaður né byggður sem skábraut fyrir hjólastóla. Þá hafi úrskurðarnefndin tekið afstöðu til röksemda kæranda um sorpgeymslur, tæknirými og lýsingar og merkingar á gönguleiðum.

Í kjölfar úrskurðar nefndarinnar í enduruppteknu máli nr. 134/2020 hafi byggingaraðili komið fyrir snjóbræðslu í bílastæðið fyrir hreyfihamlaða og sé það atriði því núna í samræmi við þann úrskurð. Í sama úrskurði hafi nefndin gert athugasemd við að byggingarfulltrúi hefði ekki, á grundvelli rannsóknarskyldu sinnar, tekið sjálfur til nánari skoðunar hvort að breytingar byggingaraðila „hefðu leitt til þess að umræddar hurðir uppfylltu þar með ekki þær kröfur sem gerðar eru samkvæmt byggingarreglugerð til slíkra hurða vegna brunavarna.“ Byggingaraðili hafi framkvæmt mælingar bæði fyrir og við úttekt mannvirkisins en mælingar við úttekt hafi farið fram í viðurvist byggingarfulltrúa. Í kjölfar úttektarinnar hafi byggingaraðili sent uppfærða skýrslu um átaksmælingar til byggingarfulltrúa. Dyr séu því í samræmi við gr. 6.4.3. og hafi byggingarfulltrúi sinnt rannsóknarskyldu sinni.

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar í enduruppteknu máli nr. 134/2020 um að skilyrði 9. mgr. gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð hafi ekki verið uppfyllt feli það í sér að koma þurfi fyrir þremur sérmerktum bílastæðum fyrir hreyfihamlaða til viðbótar þeim sem fyrir séu. Í kjölfar úrskurðarins hafi byggingaraðili kannað hvort mögulegt væri að koma fyrir bílastæðum fyrir hreyfihamlaða í borgarlandi. Svör borgarinnar hafi verið á þá leið að ekkert svigrúm væri í borgarlandi og þyrfti þetta því að vera í höndum lóðarhafa. Byggingaraðili bendi á að hann sé ekki lóðarhafi og hafi engar heimildir yfir bílastæðum á lóð eða í bílageymslu. Þau stæði sem séu á lóð Tangabryggju 13–15 séu of langt frá aðalinngöngum mannvirkjanna til að þau geti uppfyllt skilyrði um stæði fyrir hreyfihamlaða, sbr. 1. mgr. gr. 6.2.4. Byggingaraðili standi því frammi fyrir ómöguleika upp á sitt eindæmi til að bregðast við úrskurði nefndarinnar varðandi stæði fyrir hreyfihamlaða. Í ljósi þess sé tilefni fyrir úrskurðarnefndina að endurskoða afstöðu sína í málinu að því er varði réttaráhrif umrædds annmarka. Í því samhengi skipti máli að ákvæði mannvirkjalaga og byggingarreglugerðar um lokaúttektir séu reist á því að hægt sé að bregðast við athugasemdum sem fram komi við lokaúttekt, sbr. m.a. gr. 3.9.3. í byggingar­reglugerð. Hvorki eftirlitsaðilar né úrskurðarnefndin í málum nr. 54/2019 og 134/2020 hafi túlkað gr. 6.2.4. með þeim hætti sem hafi verið gerð í enduruppteknu máli nr. 134/2020, en þar að auki hafi nefndin klofnað í afstöðu sinni. Byggingaraðili telji rétt að nefndin taki sjálfstætt til skoðunar hvaða leiðir séu færar til að koma fyrir þremur bílastæðum fyrir hreyfihamlaða á lóðinni. Ef niðurstaðan sé sú að ekkert sé hægt að gera sé óhjákvæmilegt að ákvörðun byggingarfulltrúa haldi gildi sínu.

Í úrskurði nefndarinnar í enduruppteknu máli nr. 134/2020 hafi nefndin komist að þeirri niðurstöðu að fyrirkomulag loftræsingar í eldhúsum íbúða Tangabryggju 13–15 sé í andstöðu við 1. tölulið. 1. mgr. gr. 10.2.5. í byggingarreglugerð. Í kjölfar úrskurðarins hafi verið sótt um leyfi til að breyta aðaluppdráttum og skýra betur loftræsingu og forsendur loftræsihönnunar. Í samþykktum aðaluppdráttum komi nú fram að eldhús séu loftræst með opnanlegum gluggafögum og ferskloftsventlum í útveggjum og sé því útsog úr eldhúsum íbúða ekki dregið í gegnum önnur rými. Það geti þó verið óhjákvæmilegt að ferskloft úr alrými/eldhúsi dragist að útsogsbúnaði baðherbergis/þvottaherbergis, en það þýði ekki að útsog sé dregið í gegnum önnur rými. Loftræsing eldhús fjölbýlishússins að Tangabryggju 13–15 sé í fullu samræmi við viðeigandi ákvæði byggingarreglugerðar, líkt og staðfest hafi verið í fyrirliggjandi minnisblaði verkfræðistofunnar Teknik og greinargerð loftræsihönnuðar. Þá sé bent á að bað- og þvottaherbergi séu loftræst með vélrænu útsogi sem uppfylli viðmiðunarreglur gr. 10.2.5. en ekki hafi verið gerðar athugasemdir við þetta atriði í úrskurði nefndarinnar.

Í úrskurði nefndarinnar í enduruppteknu máli nr. 134/2020 hafi nefndin lagt til grundvallar að skilyrði 3. töluliður 1. mgr. gr. 10.2.5. í byggingarreglugerð um ferskloft í svefnherbergi sé ekki uppfyllt. Var alfarið byggt á fyrirliggjandi áliti Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem byggði á minnisblaði verkfræðistofunnar Mannvits. Í því minnisblaði hafi verið tekið fram að til að hægt væri að uppfylla kröfur ákvæðisins þyrfti „að lágmarki einn ferskloftsventil í hvert svefnherbergi til viðbótar við ferskloftsventilinn í alrýminu.“ Sá sem hafi ritað það minnisblað hafi staðfest við byggingaraðila að álit hans væri rangt. Í tölvubréfi hafi hann m.a. sagt að hann túlki ákvæðið á þá leið að 7 l/s á einstakling „sé þá í raun bara stærðun á opnanlega glugganum, þ.e. hversu mikið loftmagn hann getur flutt.“ Að mati byggingaraðila sé einsýnt að opnanlegt gluggafag í svefnherberginu sé fullnægjandi til þess að tryggja loftræsingu skv. 3. mgr. gr. 10.2.5. og að stærðin sé nægjanleg til að afkasta 7 l/s á hvern einstakling í herberginu.

Fyrirkomulag flóttaleiða í bílgeymslu Tangabryggju 13–15 sé að öllu leyti í samræmi við kröfur kafla 9.5. í byggingarreglugerð, líkt og ráða megi af samþykktum aðaluppdráttum. Við ákvörðun flóttaleiðanna hafi verið tekið tillit til algildrar hönnunar. Báðar flóttaleiðirnar frá bílageymslu leiði til öruggs staðar undir beru lofti á jörðu niðri í samræmi við 1. mgr. gr. 9.5.3. Ekki verði séð að hreyfihamlaðir myndu eiga í erfiðleikum með að loka hurðum vegna skorts á snúningsrými. Þá skuli á það bent að úr bílageymslu liggi önnur leið upp skrábraut inn í brunastúku. Brunahönnuður mannvirkisins hafi útfært allar flóttaleiðir og undirritað auk þess aðaluppdrætti. Þá hafi Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins bs. samþykkt brunahönnunina og aðaluppdrætti.

Hvað varði meintan skort á handlistum á gönguleiðum utanhúss sé bent á að af orðalagi gr. 6.5.1. í byggingarreglugerð megi ráða að tilvist fallhættu sé ráðandi um það hvort setja skuli upp handrið. Að mati byggingaraðila sé engin fallhætta á gönguleið utanhúss frá anddyri að bílastæðum og verði vart séð hvar skuli koma handriðum fyrir á þeirri leið. Þá hafi byggingaraðila tekið sérstaklega til skoðunar hvort fallhætta væri fyrir hendi á gangstíg að inngangsdyrum bílageymslu utanhúss, en hafi ekki talið svo vera.

Allar merkingar fyrir blinda og sjónskerta séu í samræmi við kröfur í gr. 6.2.2. í byggingar­reglugerð. Í 4. mgr. greinarinnar segi að „huga skuli“ að merkingu fyrir blinda og sjónskerta við afmörkun gönguleiða, t.d. með litbrigðum og/eða með breytingu á gerð yfirborðsefnis, og fullnægjandi frágangi vegna umferðar hjólastóla. Byggingaraðili bendi á að yfirborðsefni fyrir framan aðalinngang sé ekki hið sama og á gönguleið að ruslageymslu. Þá sé einnig annað yfirborðsefni fyrir framan inngang að ruslageymslu. Jafnframt séu gulmerkingar á köntum milli umferðargötu og gönguleiðar. Ekki verði því annað séð en að hugað hafi verið að merkingum fyrir blinda og sjónskerta í samræmi við framangreint. Engin þrep séu á gönguleiðum að inngöngum fjölbýlishússins. Þá sé gönguleið frá inngöngum að ruslageymslu upphituð þannig að aðgengi sé gott fyrir alla þá sem eigi leið um. Hvað varði það sjónarmið kæranda að gönguleið þveri akstursleið til og frá bílageymslu þá sé bent á að umrædd gönguleið sé sérstaklega merkt með hvítum merkingum og annað yfirborðsefni sé rétt áður en gengið sé út á akstursleiðina.

Það sé rangt hjá kæranda að bílgeymslan sé óeinangruð, en um þetta megi m.a. vísa til samþykktra aðaluppdrátta þar sem fram komi að ofan á þakplötu bílgeymslunnar sé lagður „tjörupappi/vatnseinangrandi lag“. Kærandi hafi vakið sérstaka athygli á þeim annmörkum sem hann hafi talið vera fyrir hendi að þessu leyti í aðdraganda lokaúttektarinnar, en byggingar­fulltrúi hafi ekki gert athugasemdir þar um við lokaúttekt. Ekkert liggi fyrir sem hnekki því mati byggingarfulltrúa. Engan veginn verði séð að ætluð vandamál í bílgeymslu séu á ábyrgð byggingaraðila. Þar að auki falli það hvorki undir hlutverk byggingarfulltrúa né úrskurðar­nefndarinnar að taka afstöðu til slíks álitamáls, enda um að ræða hugsanlegan einkaréttarlegan ágreining sem kalli á sönnunarfærslu. Að því er varði múrbrot það sem kærandi minnist á verði ekki annað ráðið en að það hafi verið einangrað tilvik þar sem brotnað hefði úr kanti á forsteyptri einingu í loftinu. Að lokum sé bent á að það sé að sjálfsögðu á ábyrgð kæranda að sinna viðhaldi á mannvirkinu, en lokið hafi verið við byggingu þess á árinu 2019.

Varðandi ætlaðan músagang þá sé mannvirkið að öllu leyti í samræmi við gr. 10.1.1., 10.5.5. og 10.7.1. í byggingarreglugerð. Byggingaraðili hafi reynt að bregðast við ábendingum kæranda þessu tengdu og lokað öllum mögulegum stöðum þar sem mýs gætu komist inn. Í kjölfar nýrra ábendinga frá kæranda hafi byggingaraðili farið aftur yfir alla neðri brún klæðningar og lokað öllum mögulegum leiðum með músaneti. Starfsmaður byggingaraðila hafi bent kæranda á að mýs gætu komist inn í byggingar með ýmsum leiðum sem væru byggingaraðila óviðkomandi. Fyrir lokaúttekt hafi kærandi vakið athygli á þessum annmörkum, en byggingarfulltrúi hafi ekki gert athugasemdir við úttekt. Ekkert liggi fyrir í málinu sem hnekki því mati byggingarfulltrúa.

Í kæru málsins sé rakið að útidyr beggja stigaganga standist ekki veðurálag og séu í ósamræmi við gr. 6.3.1. og 6.3.2. í byggingarreglugerð. Í þeim ákvæðum sé hvergi talað um eiginleika útidyrahurða. Það sé gert í gr. 6.2.4. án þess að gerðar séu sérstakar kröfur varðandi veðurálag. Ekkert bendi þó til þess að umræddar hurðir séu í ósamræmi við ákvæði byggingarreglugerðar. Kærandi hafi komið að athugasemdum um þetta atriði á framfæri við byggingarfulltrúa en við lokaúttekt hafi hann ekki gert athugasemdir að þessu leyti. Liggi ekkert fyrir sem hnekki því mati. Benda megi á að kæranda og byggingaraðila beri engan veginn saman um ætlaðan annmarka. Byggingaraðili hafi bent kæranda á að það væri á ábyrgð kæranda sem húsfélags að sinna eðlilegu viðhaldi, en byggingaraðili hafi þó ákveðið, umfram skyldu, að reyna að grípa til aðgerða til að minnka vatnsálag á hurðina og koma fyrir niðurfalli. Engin gögn styðji þá staðhæfingu kæranda að hurðir séu haldnar hönnunargalla, auk þess sem það falli hvorki undir hlutverk byggingarfulltrúa né nefndarinnar að taka afstöðu til slíks álitamáls.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að í íbúðum fjölbýlishússins séu venjulegir eldhúsháfar en ekki útsogsháfar eins og borgaryfirvöld haldi fram í umsögn sinni, en kvörtun kæranda snúi að skorti á vélrænu útsogi í eldhúsum íbúðanna. Byggingarfulltrúi hafi í kjölfar úrskurðar í enduruppteknu máli nr. 134/2020 samþykkt breyting á texta á aðaluppdráttum til að aðlaga byggingarlýsingu að þeim annmörkum sem séu á húsinu. Um óeðlileg vinnubrögð sé að ræða þar sem byggingarfulltrúa beri að sjá til þess að húsið uppfylli skilyrði byggingarreglugerðar. Frekari skýring á loftræsingu og forsendum hennar bæti ekki þá loftræsingu sem eigi að vera til staðar, en skýrt sé skv. 1. mgr. gr. 10.2.5. að útsog eigi að vera til staðar úr eldhúsi. Borgaryfirvöld vísi til þess að túlka megi þau orð gr. 10.2.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2020 að „loftskipti skuli vera möguleg að lágmarki“ sem svo að þau þurfi ekki að vera ávallt til staðar heldur eingöngu að mögulegt sé að ná þeim. Um skrumskælingu á ákvæðinu sé að ræða, en það að eitthvað sé mögulegt að lágmarki þýði að frjálst sé að hafa loftskiptin meiri en þessi lágmarkskrafa tiltaki, en að öllu jöfnu sé hún ekki minni. Það sé ekki fullnægjandi að ná lágmarksloftskiptum einu sinni á ári eða einu sinni í mánuði.

Bent sé á að í enduruppteknu máli nr. 134/2020 hafi úrskurðarnefndin byggt niðurstöðu sína á áliti Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem hafi svo byggt álit sitt á minnisblaði verkfræðistofunnar Mannvits. Í því minnisblaði hafi verið tekið fram að til að hægt væri að uppfylla kröfu 3. mgr. gr. 10.2.5., um að magn fersklofts sem berist til svefnherbergja skuli aldrei vera minna en 7 l/s á hvern einstakling, þurfi ferskloftsventil í hvert herbergi. Í tölvubréfi starfsmanns þeirrar verkfræðistofu frá 23. september 2022 sé nú tekið fram að krafan um 7 l/s hafi með stærð opnanlegs fags glugga að gera og að „menn geta reiknað út flæði um glugga eftir skynsamlegum forsendum um vind og hitastig.“ Opnanlegt fag glugga takmarkist af öryggislæsingu, en flæði um glugga sé háð því að vindur sé hæfilega mikill svo gluggi geti verið opinn en nægjanleg mikill til að inn um hann flæði loft. Það sé því rétt samkvæmt upphaflegu áliti verkfræðistofunnar að ekki sé hægt að tryggja fullnægjandi loftun nema með ferskloftsventlum. Hið breytta álit verkfræðistofunnar veki athygli, en svo virðist sem byggingaraðili hafi fundað með fulltrúum verkfræðistofunnar til að ræða minnisblað þeirra fyrir Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Síðar sé sent tölvubréf þar sem skipt sé um skoðun. Það ferli sem nú hafi átt sér stað sé óeðlilegt og rýri áreiðanleika og trú á stjórnsýsluna. Ef hagsmunaaðilar geti haft beint samband við álitsgjafa og breytt áliti þeirra hljóti að vera erfitt að fá hlutlaust og áreiðanlegt álit á ágreiningsmálum.

Þótt úrskurðarnefndin hafi tekið afstöðu til málsraka kæranda varðandi sorpgeymslu í máli nr. 134/2020 þá hafi úrskurðurinn verið felldur úr gildi með endurupptöku málsins. Því hafi ekki verið tekin formleg afstaða til umkvörtunarefnisins. Það sama eigi við um málsrök kæranda varðandi lýsingu á gönguleið. Einni sé bent á að í hjóla- og vagnageymslu sé ekki aðeins um rafmagnstöflur að ræða heldur einnig loftræsi- og rekstrarbúnað fjölbýlishússins.

Ítrekað séu þau málsrök kæranda að hreyfihamlaðir eigi í erfiðleikum með að loka hurðum vegna skorts á snúningsrými. Það sé augljóst að opnunargeiri hurðar við hlið skábrautar taki allan hluta stéttar og því sé ekki til staðar snúningsrými þegar loka þurfi hurð á eftir hreyfihömluðum einstaklingi. Neyðarútgangur í enda bílageymslu hafi hins vegar meira snúningsrými og hurð geti lokast á eftir hjólastól, en sú hurð sé þó mun þyngri en 45N og ekki á færi allra að opna hana. Byggingaraðili taki einnig fram að hreyfihamlaðir geti farið upp skábraut inn í brunastúku en sú leið sé þó ekki merkt sem flóttaleið og telji því ekki sem önnur af tveimur flóttaleiðum sem sé fær hreyfihömluðum. Þá sé flóttaleiðin um stigagang ekki fær hreyfihömluðum þar sem snúningsrými skorti einnig. Það sé ámælisvert að Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hafi samþykkt brunahönnun fjölbýlishússins.

Í athugasemdum byggingaraðila sé tekið fram að gul merking sé á köntum milli umferðargötu og gönguleiðar. Sú merking hafi þó ekki verið fyrir hendi við lok byggingar fjölbýlishússins heldur hafi stjórn húsfélagsins gert hana. Þá haldi byggingaraðili því fram að engin þrep séu á gönguleið að inngöngum hússins og að gönguleið sé upphituð þannig að aðgengi sé gott. Þegar horft sé frá inngangi Tangabryggju 15 sé augljóst að þrep sé á gönguleið í átt að ruslageymslu. Eins og yfirlitsmynd fyrir snjóbræðslu beri með sér þá sé sú leið sem sé án þreps óupphituð.

Hvað varði einangrun bílageymslunnar þá sé sjáanlegur munur á þeim hluta sem sé aðeins klæddur með tjörupappa og þeim sem hafi torf að auki. Augljóst sé að byggingarfulltrúi hafi ekki tekið húsið út samkvæmt skoðunarhandbók þar sem ummerki leka séu mjög víða í bílageymslu og augljós öllum þeim sem fari þar um. Vandamál með múrbrot sé ekki einangrað tilvik eins og byggingaraðili haldi fram. Samskipti kæranda og byggingaraðila vegna vankanta á bílageymslu, m.a. vegna leka og myglu, hafi verið óslitin frá árinu 2019. Húsið hafi verið selt sem viðhaldslítið og því sé óeðlilegt að kenna skorti á eðlilegu viðhaldi um. Hvað varði þá athugasemd byggingaraðila að álitamál um leka og myglu eigi að reka fyrir dómstólum þá sé bent á að húsnæðiseigendur eigi að geta treyst því að lágmarkskröfum byggingarreglugerðar sé fylgt við lokaúttekt. Þá hafi hönnuður hafi vanmetið það veðurálag sem hurðin þurfi að þola og því beri byggingaraðila að leysa þann hönnunargalla. Það sé að sjálfsögðu hlutverk byggingarfulltrúa að hafa eftirlit með því að hurðir leki ekki áður en vottorð um lokaúttekt sé gefið út.

Álit Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar: Með bréfi úrskurðarnefndarinnar til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 29. september 2023, var þess farið á leit að stofnun léti í ljós álit sitt á þremur atriðum varðandi hina kærðu ákvörðun í máli þessu. Varðaði fyrsta atriðið það hvort stofnunin teldi að útsog frá eldhúsum íbúða fjölbýlishússins að Tangabryggju 13–15 væri dregið í gegnum önnur rými í skilningi meginreglu 1. tölul. 1. mgr. gr. 10.2.5. í byggingar­reglugerð nr. 112/2012. Í öðru lagi óskaði nefndin eftir því að ef álit stofnunarinnar væri það að útsog frá eldhúsum íbúða væri dregið í gegnum önnur rými, hvort stofnunin teldi að vélrænt útsog í eldhúsum íbúða væri nauðsynlegt til þess að uppfylla greint skilyrði í byggingar­reglugerð og eftir atvikum skilyrði viðmiðunarreglna 2. mgr. sömu greinar byggingar­reglugerðar. Ef svo væri var þess jafnframt óskað að stofnun gæfi álit sitt á því hvort slíkt fyrirkomulag gæti gengið gegn öðrum markmiðum byggingarreglugerðar. Þriðja og síðasta atriðið laut að því hvort svefnherbergi í fjölbýlishúsinu að Tangabryggju 13–15 uppfylltu skilyrði 3. tölul. 1. mgr. gr. 10.2.5. í byggingarreglugerð um að magn fersklofts sem bærust til svefnherbergis skuli aldrei vera minna en 7 l/s á hvern einstakling meðan herbergið sé í notkun. Ef svo væri óskaði nefndin þess janframt að stofnun gæfi álit sitt á því hvort þörf væri á ferskloftsventli í hvert svefnherbergi til að uppfylla umrætt skilyrði.

Hinn 7. nóvember 2023 veitti Húsnæðis- og mannvirkjastofnun úrskurðarnefndinni álit sitt sem byggt var á minnisblaði sérfræðings hjá stofnuninni. Í svari stofnunarinnar við fyrrgreint fyrsta atriði kom fram að það væri álit hennar að loft frá eldhúsum íbúða fjölbýlishússins að Tangabryggju 13–15 væri dregið í gegnum önnur rými í skilningi meginreglu 1. tölul. 1. mgr. gr. 10.2.5. í byggingarreglugerð. Hvað annað atriðið varðaði þá var það álit stofnunarinnar að vélrænt útsog væri ekki nauðsynleg en þó æskilegt til að tryggja viðunandi loftgæði og tryggja að loft frá eldhúsum dragist ekki í gegnum önnur rými íbúða. Ef ekki væri vélrænt útsog þyrfti að tryggja að náttúrulegt útsog fari upp fyrir efstu klæðningu þaks. Jafnvel þótt það væri nauðsynlegt eða krafa þá væri það álit stofnunarinnar að slíkt fyrirkomulag myndi ekki ganga gegn öðrum markmiðum byggingarreglugerðar. Að lokum var það álit stofnunarinnar að „loftmagn til svefnherbergja [væri] ekki uppfyllt, m.t.t. 7 l/s á hvern einstakling, án þess að fara yfir 89 mm opnunarkröfu gefna í gr. 12.2.3. í byggingarreglugerð.“ Ein lausn af mörgum til að leiðrétta eða uppfylla þá kröfu væri að setja loftunarventil út fyrir klæðningu hússins, en ekki inn í loftunarbil klæðningarinnar eins og sé í dag. Þá vísaði stofnunin til niðurstöðu úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 78/2013.

Úrskurðarnefndin gaf aðilum máls færi á að koma að athugasemdum vegna álits Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Kærandi gerir athugasemd við að álitsbeiðni nefndarinnar hafi ekki lotið að loftræsingu á stigagöngum en byggingaraðili mótmælir framkomnu áliti með vísan til þeirra gagna og sjónarmiða sem fram hafi verið færð á fyrri stigum málsins. Borgaryfirvöld telja niðurstöðu álitsins ekki á rökum reistar á grunni byggingarreglugerðar vegna loftræsingu. Hönnun loftræsingarinnar sé ekki frábrugðin loftræsingu í öðrum sambærilegum húsum sem hönnuð hafi verið og byggð á svipuðum tíma. Varðandi útsog frá eldhúsum íbúða fjölbýlihússins að Tangabryggju 13–15 þá sé útsog dregið í gegnum þvottahús og baðherbergi. Kolasía í eldhúsháfi minnki óhreinindi í lofti það mikið að það geti ekki talist meira mengandi en loft í þvottahúsi eða baðherbergi og því sé í lagi að draga loftið í gegnum þessi rými þar sem um litlar íbúðir sé að ræða. Ekki sé þörf á beinu vélrænu útsogi. Vélrænt útsog frá þvottahúsi og baðherherbergi með loftskipti upp á 35 l/s myndi undirþrýsting í íbúðum og dragi ferskloft inn um opnanleg fög og um rifur undir innihurðum. Mörg eldhús séu staðsett við útvegg í alrýmum og séu því að hluta náttúrulega loftræst í gegnum opnanleg fög og loftventil í útvegg. Nægur undirþrýstingur sé í íbúðunum til að draga 7 l/s ferskloft inn í svefnherbergi um opnanleg fög. Því sé ekki þörf á ferskloftsventlum í svefnherbergjum. Núverandi fyrirkomulag loftræsingar sé fullnægjandi miðað við samþykkta aðaluppdrætti og kröfur byggingar­reglugerðar eins og þær hafi verið á sínum tíma.

 —–

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

 Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 25. apríl 2023 að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna Tangabryggju 13–15.

Meðal markmiða laga nr. 160/2010 um mannvirki er að vernda líf og heilsu manna, eignir og umhverfi með því að tryggja faglegan undirbúning mannvirkjagerðar og virkt eftirlit með því að kröfum um öryggi mannvirkja og heilnæmi sé fullnægt, sbr. a-lið 1. gr. laganna. Jafnframt er það markmið þeirra að tryggja aðgengi fyrir alla, sbr. e-lið sömu lagagreinar. Í því skyni mæla lögin fyrir um lögbundið eftirlit byggingarfulltrúa með mannvirkjagerð, sbr. 2. og 3. mgr. 16. gr. þeirra laga, en hluti af því eftirliti felur í sér framkvæmd lokaúttektar og útgáfu vottorðs. Samkvæmt 3. mgr. 36. gr. laganna skal við lokaúttekt gera úttekt á því hvort mannvirkið upp­fylli ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafa verið samkvæmt þeim og hvort byggt hafi verið í samræmi við samþykkt hönnunargögn. Þá er mælt fyrir um í 4. mgr. lagagreinarinnar að ef mannvirkið uppfylli ekki að öllu leyti ákvæði laganna og reglugerða sem sett hafi verið samkvæmt þeim þá geti útgefandi byggingarleyfis gefið út vottorð um lokaúttektina með athugasemdum. Þáttum sem varði aðgengi skuli þó ávallt hafa verið lokið við gerð lokaúttektar. Segir jafnframt í 5. mgr. sömu lagagreinar að eftirlitsaðili geti fyrirskipað lokun mannvirkis komi í ljós við lokaúttekt að mannvirki uppfylli ekki öryggis- eða hollustukröfur og lagt fyrir eiganda þess að bæta úr, en lokaúttektarvottorð skuli þá ekki gefið út fyrr en það hafi verið gert.

—–

Ágreiningsefni málsins hefur áður komið til kasta úrskurðarnefndarinnar eins og rakið er í málavöxtum. Í máli þessu færir kærandi fram ýmis rök og sjónarmið sem hann hefur áður fært fram fyrir úrskurðarnefndina vegna atriða sem hann telur að uppfylli ekki skilyrði byggingar­reglugerðar nr. 112/2012, s.s. um sjálfvirkan opnunarbúnað hurða, halla skábrautar, loftræsingu á stigagangi, sorpskýli, tæknirými og lýsingu á gönguleiðum. Úrskurðarnefndin hefur í fyrri málum tekið þá afstöðu til þeirra álitaefna að þau raski ekki gildi umdeilds úttektarvottorðs og þykja ekki rök til þess að breyta þeirri afstöðu.

  —–

Í 6. kafla byggingarreglugerðar er fjallað um aðkomu, umferðarleiðir og innri rými mannvirkja. Í markmiðsákvæði gr. 6.1.1. segir að ávallt skuli leitast við að beita algildri hönnun þannig að byggingar og lóðir þeirra séu aðgengilegar öllum án sérstakrar aðstoðar, sbr. 4. mgr. Samkvæmt 1. mgr. gr. 6.1.2. skal með algildri hönnun tryggt að fólki sé ekki mismunað um aðgengi og almenna notkun bygginga á grundvelli fötlunar, skerðinga eða veikinda og að það geti með öruggum hætti komist inn og út úr byggingum, jafnvel við óvenjulegar aðstæður, t.d. í eldsvoða.

Í gr. 6.2.2. í byggingarreglugerð er fjallað um aðkomuleiðir og umferðarsvæði innan lóðar. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins skal aðkoma á lóð að byggingu vera skýrt afmörkuð og þannig staðsett að hún sé greiðfær og greinileg þeim sem að henni koma og henti fyrirhugaðri umferð. Þá segir í 3. mgr. ákvæðisins að almennt skuli gæta þess að ekki séu þrep í gönguleiðum að inngangi bygginga. Hæðarmun skuli jafna þannig að allir þeir sem ætla megi að fari að inngangi byggingar komist auðveldlega um. Fyrir liggur í máli þessu að eitt þrep er á upphitaðri gönguleið frá inngangsdyrum fjölbýlihússins að Tangabryggju 13–15 að sorpgeymslu, bíl­geymslu og bílastæðum, en hins vegar er ekkert þrep á óupphitaðri gönguleið. Með hliðsjón af því verður að líta svo á að leiðin sé ekki greiðfær hjólastólanotendum og öðru hreyfihömluðu fólki í þeim aðstæðum þegar nota þarf hina upphituðu gönguleið. Að því virtu verður að telja að skilyrði greinds reglugerðarákvæðis sé ekki uppfyllt.

Samkvæmt 1. mgr. gr. 6.5.1. í byggingarreglugerð skal handrið vera á öllum svölum bygginga, stigum, tröppum, pöllum, skábrautum og annars staðar þar sem hætta er á falli. Verður að túlka ákvæðið á þá leið að sú krafa sé gerð að á tilteknu stöðum skuli vera handrið, þ. á m. á skábrautum, en að á öðrum stöðum beri við mat á því hvort koma eigi handriði fyrir að líta til þess hvort fallhætta sé til staðar. Í samræmi við þá túlkun verður að líta svo á að handrið eigi að vera til staðar á gangbraut skábrautar sem liggur frá bílgeymslu hússins. Aftur á móti verður ekki talið að handrið skuli vera meðfram gönguleið frá inngangsdyrum fjölbýlishússins að bílastæðum utanhúss þar sem ekki verður séð að sérstök fallhætta sé þar fyrir hendi.

—–

Fjallað er um varnir gegn eldsvoða í 9. kafla byggingarreglugerðar. Í undirkafla 9.5 er síðan fjallað um rýmingu við eldsvoða. Í markmiðsákvæði gr. 9.5.1. segir að flóttaleiðir í byggingum skuli þannig skipulagðar og frágengnar að allir geti bjargast út af eigin rammleik eða fyrir tilstilli annarra á tilgreindum flóttatíma, brjótist eldur út eða annað hættuástand skapast. Samkvæmt 2. mgr. gr. 9.5.2. skulu flóttaleiðir vera „einfaldar, auðrataðar og greiðfærar svo að fólk verði ekki innlyksa í skotum og endum ganga.“ Í 8. mgr. sömu greinar er kveðið á um að við ákvörðun flóttaleiða skuli tekið tillit til krafna um algilda hönnun. Þá er í gr. 9.5.3. fjallað um aðgengi að flóttaleiðum og samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. gildir eftirfarandi meginregla:

Úr öllum íbúðum og notkunareiningum skulu vera a.m.k. tvær flóttaleiðir, sem eru óháðar hvor annarri, til öruggs staðar undir beru lofti á jörðu niðri, sbr. þó 9.5.4. gr. Heimilt er að slíkur öruggur staður sé einnig á sérútbúnum svölum eða þaki byggingar sem er aðgengilegt björgunarliði, enda sé slík aðstaða sérstaklega brunahönnuð til slíkra nota. Með óháðum flóttaleiðum er átt við tvær eða fleiri flóttaleiðir sem eru þannig aðskildar að eldur og reykur geti ekki teppt þær báðar/allar þ.e. svalir og sjálfstætt stigahús eða tvö sjálfstæð stigahús sem gengið er í beint úr hverri íbúð.

Í  gr. 9.5.4. í byggingarreglugerð er að finna undantekningu frá kröfu gr. 9.5.3. um tvær flótta-leiðir frá íbúðum og notkunareiningum. Hinn 9. október 2020 var með reglugerð nr. 977/2020 gerð breyting á ákvæðinu, en í ljósi þess að aðaluppdrættir fjölbýlishússins voru fyrst samþykktir árið 2017 verður við úrlausn þessa máls litið til orðalags hennar fyrir þá breytingu. Svohljóðandi var 1. mgr. ákvæðisins:

Ef sérstökum erfiðleikum er háð að uppfylla kröfur 1. tölul. 1. mgr. 9.5.3. gr. um tvær flóttaleiðir frá rými, getur leyfisveitandi í undantekningartilvikum heimilað, að fenginni jákvæðri umsögn slökkviliðs, að ein flóttaleið sé frá rými eða notkunar­einingu í notkunarflokki 1 og 2 þegar slíkt hefur ekki í för með sér sérstaka hættu og um er að ræða lítið rými sem ætlað er fyrir takmarkaðan fjölda fólks. Flóttaleiðin skal liggja beint út á öruggan stað undir beru lofti á jörðu niðri eða að gangi sem er sjálf­stætt brunahólf og liggur í gagnstæðar áttir að tveimur óháðum útgöngum.

Fjallað er um notkunarflokka mannvirkja í gr. 9.1.3. í byggingarreglugerð og samkvæmt því ákvæði tilheyra sameiginlegar bílgeymslur fjölbýlishúsa notkunarflokki 1.

Af aðaluppdráttum fjölbýlishússins að Tangabryggju 13–15 verður ráðið að tvær flóttaleiðir séu úr bílgeymslu hússins og leiða þær báðar að öruggum stað undir beru lofti á jörðu niðri. Ekki verður talið að skortur á snúningsrými fyrir framan dyr geri hjólastólanotendum ókleift að nota leiðirnar. Verður ekki annað séð en að skilyrði gr. 9.5.3. í byggingarreglugerð um flóttaleiðir úr bílgeymslu séu uppfyllt. Frá vagna- og hjólageymslu má finna tvær flóttaleiðir til sjálfstæðra brunahólfa sem liggja í gagnstæðar áttir að tveimur óháðum útgöngum. Eru því uppfyllt skilyrði undantekningarheimildar gr. 9.5.4. vegna flóttaleiða frá vagna- og hjóla­geymslu. Þá verður að öðru leyti ekki ráðið að brunahönnun fjölbýlishússins sé áfátt að teknu tilliti til þeirra krafna sem gerðar eru í byggingarreglugerð.

—–

Í máli þessu gerir kærandi athugasemd við að skilyrði gr. 10.7.1. í byggingarreglugerð, þess efnis að byggingar séu þannig frágengnar að meindýr komist ekki inn í bygginguna, sé ekki uppfyllt þar sem músagangur hafi verið viðvarandi á svölum fjölbýlishússins frá því fyrstu íbúar hafi flutt inn í það árið 2019. Einnig gerir hann athugasemd við myglu og múrbrot í bílgeymslu og hvað það varðar er vísað til gr. 6.3.2. um hjúp bygginga og gr. 6.11.5. um álagsþol bílgeymsla. Þá telur kærandi að útidyr fjölbýlihússins uppfylli ekki skilyrði gr. 6.3.1. og 6.3.2. um ytra form og hjúp mannvirkja þar sem báðar útidyrnar standist ekki veðurálag og leki. Í máli þessu liggja fyrir samskipti aðila málsins varðandi framangreind atriði, en af þeim verður ráðið að ágreiningur sé á milli þeirra um hvort annmarkarnir eigi rætur sínar að rekja til hönnunar og frágangs mannvirkisins þegar það var reist eða síðar tilkominna atvika. Að teknu tilliti til gagna málsins og með hliðsjón af því að meira en fjögur ár eru liðin frá því að fjölbýlishúsið var reist og tekið í notkun telur úrskurðarnefndin ekki tilefni til að gera athugasemd við þá niðurstöðu byggingarfulltrúa að gefa út lokaúttektarvottorð án athugasemda um greind atriði.

—–

Í enduruppteknu máli nr. 134/2020, þar sem felld var úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa frá 21. október 2020 um að gefa út vottorð um lokaúttekt, var rakið að í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndarinnar í kærumáli nr. 54/2019 hafi byggingaraðili mælt átak á hurðum í kjallara hússins og lagfært stillingar á hurðapumpum svo skilyrði 4. mgr. gr. 6.4.3. í byggingarreglugerð væru uppfyllt. Gerði úrskurðarnefndin athugasemd við að byggingarfulltrúa hafi ekki á grund­velli rannsóknarskyldu sinnar, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, tekið sjálfur til nánari skoðunar hvort „fyrrgreindar breytingar hefðu leitt til þess að umræddar hurðir uppfylltu þar með ekki þær kröfur sem gerðar eru samkvæmt byggingarreglugerð til slíkra hurða vegna brunavarna.“ Í máli þessu hefur byggingaraðili lagt fram niðurstöður mælinga á hurðapumpum í kjallara fjölbýlishússins sem gerðar voru 18. apríl 2023 og mun byggingarfulltrúi hafa verið viðstaddur þá mælingu, en niðurstöður þeirra voru þær að hurðirnar uppfylltu skilyrði nefndrar gr. 6.4.3. Að teknu tilliti til þess verður að leggja til grundvallar að byggingarfulltrúa hafi upp­fyllt rannsóknarskyldu sína við mat á því hvort skilyrði byggingarreglugerðar um brunavarnir að þessu leyti væru uppfylltar.

Meirihluti úrskurðarnefndarinnar í enduruppteknu máli nr. 134/2020 komst að þeirri niðurstöðu að skilyrði 9. mgr. gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð fyrir fækkun bílastæða á lóð fyrir hreyfi­hamlaða á lóðinni að Tangabryggju 13–15 hefði ekki verið uppfyllt við úttekt mannvirkisins í október 2020. Byggðist sú niðurstaða á því að gestkomandi hefði ekki aðgang að bílastæðum fyrir hreyfihamlaða sem staðsett eru í sameiginlegri bílgeymslu fjölbýlihússins. Við mat á því hverju það varði verður ekki hjá því litið að til þess að uppfylla greint skilyrði þarf að koma þremur öðrum bílastæðum fyrir hreyfihamlaða á lóð fjölbýlishússins, en í málinu liggur fyrir sú afstaða Reykjavíkur­borgar að ekkert svigrúm sé í borgarlandi til að koma fyrir frekari bíla­stæðum hreyfi­hamlaða. Þá verður það ekki talið raunhæf lausn að opna sameiginlegu bíl­geymslu fyrir almenning þegar litið er til þess að þau bílastæði hreyfihamlaðra sem þar má finna eru þinglýst eign tiltekinna íbúa hússins, en þar að auki er það hvorki á forræði byggingar­aðila né borgaryfirvalda að koma slíkri opnun í kring. Eins og atvikum í máli þessu er háttað verður því að líta svo á að greindur annmarki hafi ekki áhrif á gildi hins kærða lokaúttektar­vottorðs.

Þá var það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar í enduruppteknu máli nr. 134/2020 að útsog úr eldhúsum íbúða fjölbýlishússins væri dregið í gegnum önnur rými, en í þeim væri ekki að finna sérstakt útsog. Taldi nefndin það fyrirkomulag vera í andstöðu við meginreglu 1. töluliðar 1. mgr. gr. 10.2.5. í byggingarreglugerð. Einnig komst nefndin að þeirri niðurstöðu að svefn­herbergi í fjölbýlihússinu uppfylltu ekki skilyrði meginreglu 3. töluliðar 1. mgr. gr. 10.2.5. um að magn fersklofts sem berist til svefnherbergis skuli aldrei vera minna en 7 l/s á hvern einstakling meðan herbergið sé í notkun. Byggðust þær niðurstöður á áliti Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá 1. nóvember 2021. Ekki hafa verið gerðar neinar breytingar á fyrirkomulagi loftræsingar í húsinu í kjölfar úrskurðarins, en aftur á móti hefur byggingaraðili lagt fram og fengið samþykkta hjá byggingarfulltrúa nýja aðaluppdrætti með breyttri lýsingu á loft­ræsingu mannvirkisins.

Eins og fram hefur komið taldi úrskurðarnefndin við meðferð þessa kærumáls tilefni til að leita á ný til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar vegna umrædds álitaefnis. Skilaði stofnunin umbeðnu áliti sínu 7. nóvember 2023. Í því kom fram sú skoðun stofnunarinnar að loft frá eldhúsum íbúða fjölbýlishússins væri dregið í gegnum önnur rými í skilningi meginreglu 1. tölul. 1. mgr. gr. 10.2.5. í byggingarreglugerð. Vélrænt útsog væri æskilegt en ekki nauðsynlegt til að tryggja viðunandi loftgæði og tryggja að loft frá eldhúsum dragist ekki í gegnum önnur rými íbúða. Ef ekki væri vélrænt útsog þyrfti að tryggja að náttúrulegt útsog fari upp fyrir efstu klæðningu þaks. Þá var það einnig skoðun stofnunarinnar að „loftmagn til svefnherbergja [væri] ekki uppfyllt, m.t.t. 7 l/s á hvern einstakling, án þess að fara yfir 89 mm opnunarkröfu gefna í gr. 12.2.3. í byggingarreglugerð.“

Að teknu tilliti til þess hlutverks sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun gegnir þegar kemur að byggingareftirliti, sbr. 5., 17. og 18. gr. laga nr. 160/2010, svo og þar sem ekki liggja fyrir neinir bersýnilegir annmarkar á fyrirliggjandi áliti stofnunarinnar, telur úrskurðarnefndin rétt að leggja álitið til grundvallar við úrlausn málsins. Verður því litið svo á að útsog úr eldhúshúsum íbúða fjölbýlishússins að Tangabryggju 13–15 sé dregið í gegnum önnur rými en það fyrirkomulag gengur gegn meginreglu 1. töluliðar 1. mgr. gr. 10.2.5. í byggingarreglugerð. Þá verður einnig að líta svo á að ekki sé uppfyllt meginregla 3. tölul. 1. mgr. gr. 10.2.5. um að magn fersklofts sem berist til svefnherbergis skuli aldrei vera minna en 7 l/s á hvern einstakling á meðan herbergið sé í notkun.

—–

Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið voru nokkrir annmarkar á frágangi umræddrar fasteignar við lokaúttekt hennar, en vottorð um þá úttekt var þó gefið út án athugasemda. Við mat á því hverju það varði ber að líta til þess að skv. 1. málslið 4. mgr. 36. gr. laga nr. 160/2010 getur útgefandi byggingarleyfis gefið út vottorð um lokaúttekt með athugasemdum ef mann­virki er ekki fullgert við lokaúttekt, það uppfyllir ekki að öllu leyti ákvæði nefndra laga eða reglugerða sem settar hafi verið samkvæmt þeim eða er ekki að öllu leyti í samræmi við samþykkt hönnunargögn. Hins vegar er sérstaklega tekið fram í 2. málslið 4. mgr. að þáttum sem varði aðgengi skuli þó ávallt hafa verið lokið við gerð lokaúttektar. Þá segir í 5. mgr. sömu lagagreinar að komi í ljós við lokaúttekt að mannvirki uppfylli ekki öryggis- eða hollustukröfur geti eftirlitsaðili fyrirskipað lokun mannvirkis og lagt fyrir eiganda þess að bæta úr og skal þá lokaúttektarvottorð ekki gefið út fyrr en það hefur verið gert. Af því leiðir að einvörðungu kemur til álita að gefa út vottorð um lokaúttekt án athugasemda ef mannvirki uppfyllir að öllu leyti kröfur byggingarreglugerðar, en því var ekki til að dreifa í ljósi framangreinds við lokaúttekt Tangabryggju 13–15. Við mat á þýðingu fyrrgreindra annmarka verður og að hafa í huga að þeir varða aðgengi og öryggis- eða hollustukröfur, sbr. 4. og 5. mgr. nefndrar 36. gr. laga um mannvirki, en samkvæmt kafla 5.3. í viðauka II með byggingarreglugerð, sem fjallar um flokkun athugasemda vegna lokaúttekta og réttaráhrif, leiða slíkir annmarkar að jafnaði til synjunar úttektar og kröfu um að hún verði endurtekin.

Með hliðsjón af framangreindu verður ekki hjá því komist að fella hið kærða lokaúttektar­vottorð úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 25. apríl 2023 um að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna Tangabryggju 13–15.

131/2023 Hamrabrekkur

Með

Árið 2023, föstudaginn 22. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur. Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor tók þátt í gegnum fjarfundabúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 131/2023, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar frá 25. september 2023 um að fjarlægja beri tvö smáhýsi á suðurenda lóðarinnar Hamra-brekkum 11.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. nóvember 2023, er barst nefndinni 22. s.m. kærir eigandi Hamrabrekkna 11 Mosfellsbæ þá ákvörðun byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar frá 25. september 2023 að fjarlægja beri tvö smáhýsi sem standa á suðurenda lóðarinnar Hamrabrekkna 11. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að réttaráhrifum ákvörðunarinnar verði frestað á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Mosfellsbæ 8. desember 2023.

Málavextir: Hinn 20. júní 2023 sendi eigandi lóðarinnar Hamrabrekkna 10, Mosfellsbæ, sveitarfélaginu erindi þess efnis að lóðinni Hamrabrekkum 11 hefði verið raskað og hún hækkuð. Verið væri að byggja smáhýsi sem eigandi lóðarinnar Hamrabrekkna 10 taldi skerða útsýni sitt auk þess sem þau væru of há og fyrir utan byggingarreit. Erindinu var svarað 21. s.m. og kom þar fram sú afstaða bæjaryfirvalda að svæðið hefði verið skoðað og að viðkomandi mannvirki væri ekki byggingarleyfisskylt.

Eigandi Hamrabrekkna 10 fór fram á að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála tæki afstöðu til þess hvort bygging tveggja kofa á lóðinni Hamrabrekkum 11 væri háð byggingarleyfi með vísan til 4. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Með úrskurði nefndarinnar í máli nr. 77/2023, uppkveðnum 19. júlí 2023, var komist að þeirri niðurstöðu að hin umdeildu smáhýsi væru byggingarleyfisskyld þar sem ekki væri í gildi deiliskipulag fyrir það svæði sem þau stæðu á, en í 1. mgr. gr. 2.3.5. byggingarreglugerðar væri samræmi við deiliskipulag gert að skilyrði fyrir þeim undanþágum frá skyldu til öflunar byggingarheimildar og byggingarleyfis sem þar væru taldar upp.

Í kjölfar úrskurðarins sótti kærandi í máli þessu um byggingarleyfi hinn 27. júlí 2023 vegna tveggja 15 m2 geymslna á lóðinni Hamrabrekkum 11. Byggingarfulltrúi Mosfellsbæjar sendi kæranda tölvupóst 14. ágúst s.á. þar sem fram kom að samanlagt byggingarmagn á lóðinni væri 130 m2 og því væri ekki hægt að samþykkja frekari byggingar á henni.

Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 25. september 2023, var skorað á kæranda að fjarlægja tvö smáhýsi á suðurenda lóðarinnar Hamrabrekkna 11 og var honum veittur frestur til 22. október 2023 til að ljúka því verki. Jafnframt var vakin athygli á heimildum byggingarfulltrúa skv. 55. og 56. gr. laga nr. 160/2010 til að stöðva framkvæmdir og að knýja á um úrbætur, en byggingarfulltrúi gæti látið fjarlægja húsin á kostnað eiganda þeirra yrði kærandi ekki við framangreindri áskorun. Þá gæti byggingarfulltrúi lagt á dagsektir til að knýja á um að umrædd mannvirki yrðu fjarlægð. Kæranda var síðar veittur viðbótarfrestur til 22. nóvember 2023 til að fjarlægja smáhýsin.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er bent á að brotið hafi verið gegn leiðbeiningar-, rannsóknar- og andmælareglunni, sbr. 7., 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem kærandi hafi ekki fengið að tjá sig um hina kærðu ákvörðun áður en hún hafi verið tekin. Þá hafi verið brotið gegn jafnræðisreglunni, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga, þar sem fjölmörg smáhýsi séu á svæðinu.

Málsrök Mosfellsbæjar: Af hálfu Mosfellsbæjar er því hafnað að brotið hafi verið gegn 7., 10., 11. og 13. gr. stjórnsýslulaga. Kærandi hafi fengið allar nauðsynlegar upplýsingar til að gæta hagsmuna sinna þegar litið sé til atvika málsins og að allar upplýsingar hafi legið fyrir svo taka mætti hina kærðu ákvörðun. Þá hafi ekki verið skylt að veita kæranda andmælarétt þar sem grundvöllur málsins hafi byggst á úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 77/2023. Það sé máli þessu óviðkomandi að smáhýsi séu á öðrum lóðum í sveitarfélaginu.

———-

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin nánar hér, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki segir að sé ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar ábótavant, af því stafi hætta eða það teljist skaðlegt heilsu að mati byggingarfulltrúa eða Mannvirkjastofnunar eða ekki sé gengið frá því samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum og byggingarlýsingu, skuli gera eiganda eða umráðamanni þess aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt sé. Í 2. mgr. 56. gr. sömu laga er mælt fyrir um að Mannvirkjastofnun og byggingarfulltrúa sé heimilt að leggja á dagsektir til þess að knýja menn til þeirra aðgerða. Ákvarðanir byggingar-fulltrúa um beitingu þvingunarúrræða skv. 55. og 56. gr. mannvirkjalaga eru kæranlegar til úrskurðarnefndarinnar samkvæmt 59. gr. laganna. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verða ákvarðanir sem ekki binda enda á mál ekki bornar undir kærustjórnvald fyrr en málið hefur verið til lykta leitt.

Tilefni máls þessa er bréf byggingarfulltrúa til kæranda með áskorun um úrbætur vegna mannvirkja á lóð hans innan tiltekins frests. Er þar jafnframt bent á heimildir byggingarfulltrúa skv. 55. og 56. gr. laga nr. 160/2010 til að stöðva framkvæmdir og knýja á um úrbætur, svo sem með því að láta fjarlægja húsin á kostnað eiganda þeirra, verði kærandi ekki við áskorun byggingarfulltrúa. Ekki verður talið að bréfið feli í sér lokaákvörðun sem skotið verði til úrskurðarnefndarinnar heldur einungis áskorun sem felur í sér tilmæli til kæranda og tilkynningu um að til álita komi að beita þvingunarúrræðum laga um mannvirki verði kærandi ekki við áskoruninni. Verður því að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

133/2023 Eyrartún

Með

Árið 2023, föstudaginn 22. desember, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 133/2023, kæra á afgreiðslu skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar frá 26. október 2023 vegna erindis kæranda um leikvöll á Eyrartúni á Ísafirði.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. nóvember 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir íbúi, Túngötu 12, Ísafirði, þá ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar frá 26. október 2023 að gefa ekki út framkvæmdaleyfi fyrir leikvöll á Eyrartúni. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Í málinu er jafnframt gerð krafa um að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Ísafjarðarbæ 12. desember 2023.

Málavextir: Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar 22. desember 2022 var tekið fyrir mál vegna fyrirhugaðs leikvallar á Eyrartúni á Ísafirði þar sem m.a. var ráðgert að koma fyrir aparólu nálægt lóðarmörkum Túngötu 12. Var samþykkt að kynna uppdrætti leikvallarins fyrir íbúum bæjarins á heimasíðu þess og óska eftir ábendingum frá almenningi. Að lokinni kynningu voru gerðar breytingar á uppdráttunum með tilliti til innkominna athugasemda og þeir lagðir fyrir nefndina á fundi hennar 9. mars 2023. Samþykkti nefndin að fela starfsmanni að leggja inn pöntun á tækjum og bjóða framkvæmdina út í samræmi við fjárhagsáætlun. Á fundi bæjarráðs 11. september s.á. heimilaði ráðið útboð framkvæmdarinnar.

Með bréfi kæranda til sveitarfélagsins, dags. 20. september 2023, voru gerðar athugasemdir við samþykkt útboð á þeim grundvelli að fyrirhuguð staðsetning aparólu væri í ósamræmi við gildandi deiliskipulag. Var sveitarfélaginu tilkynnt að framkvæmdin yrði kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála „ætli bæjaryfirvöld að halda áformum sínum til streitu.“ Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar 26. október s.á. var lagt fram minnisblað sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs, dags. 24. s.m., þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að framkvæmdin væri í samræmi við skipulagsáætlanir sveitarfélagsins og væri ekki framkvæmdaleyfisskyld. Fól skipulags- og mannvirkjanefnd starfsmanni sviðsins að svara kæranda í samræmi við umræður á fundinum og minnisblað sviðsstjóra. Þá færði nefndin til bókar að framkvæmdin væri ekki háð framkvæmdaleyfi með vísan til 5. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi.

Málsrök kæranda: Kærandi telur framkvæmdina ekki vera í samræmi við skipulagsáætlanir Ísafjarðarbæjar, sbr. 1. mgr. 12. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Svæðið þar sem leikvöllurinn sé fyrirhugaður nái yfir tvo skipulagsreiti. Eyrartúnið sjálft sé í aðalskipulagi skilgreint sem opið svæði til sérstakra nota en svæðið í kringum safnahúsið (Þ12) sé skipulagt undir þjónustustofnanir. Á deiliskipulagsuppdrætti sjáist vel að hluti leiksvæðisins sé utan þess reits sem skilgreindur sé sem leiksvæði/almenningsgarður.

Bent sé á að í úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 103/2018 hafi nefndin talið framkvæmd vegna boltavallar vera framkvæmdaleyfisskylda m.a. með hliðsjón af áhrif vallarins á næsta umhverfi. Fyrir liggi að leikvöllurinn á Eyrartúni muni hafa veruleg grenndaráhrif á íbúa Túngötu 12, sérstaklega hvað varði hljóðvist og innsýn. Með hliðsjón af því og þar sem um sé að ræða mikla breytingu á ásýnd svæðisins sé framkvæmdin leyfisskyld. Horfa verði á svæðið í heild sinni en nú sé þegar kominn ærslabelgur á Eyrartún. Samkvæmt uppdrætti sé ráðgert að fara í frekari framkvæmdir sem ekki séu hluti af núverandi útboði. Ekki sé boðlegt að búta framkvæmdirnar niður í því skyni að horfa á hvern og einn verkþátt sem óverulegan.

Málsrök Ísafjarðarbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að lóðin Túngata 10, þar sem leikvöllurinn sé fyrirhugaður, sé staðsett innan svæðis sem skilgreint sé sem þjónustusvæði í Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008–2020 og leiksvæði barna rúmist innan þess landnotkunarflokks. Framkvæmdin sé þess eðlis að hún hafi óveruleg áhrif á umhverfið. Þá sé hún ekki hluti af ítarlegri upptalningu framkvæmdaleyfisskyldra framkvæmda í 5. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að í lok sumars 2018 hafi Ísafjarðarbær ákveðið að setja niður ærslabelg á Eyrartúni. Upphaflega hafi staðið til að staðsetja ærslabelginn fjær lóðarmörkum Túngötu 12 heldur en nú standi til að staðsetja aparóluna. Eftir mótmæli íbúa hafi verið ákveðið að færa ærslabelginn til en um það megi lesa í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála máli nr. 98/2021. Með hliðsjón af jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins verði að teljast ótækt af Ísafjarðarbæ að hafna með öllu ítrekuðum athugasemdum eigenda Túngötu 12 um staðsetningu aparólunnar.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í 8. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er að finna heimild til að skjóta máli til úrskurðarnefndarinnar leiki vafi á því hvort framkvæmdir séu háðar ákvæðum um framkvæmdaleyfi. Sú heimild er bundin við umsækjanda um framkvæmdaleyfi og hlutaðeigandi sveitarstjórn og kemur því ekki til álita að taka kærumálið til efnislegrar meðferðar á grundvelli þess lagaákvæðis.

Samkvæmt 52. gr. skipulagslaga sæta stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli þeirra laga kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Svo sem að framan greinir lagði kærandi fram erindi til Ísafjarðarbæjar hinn 20. september 2023 þar sem gerðar voru athugasemdir við fyrirhuguð framkvæmdaáform um leikvöll á Eyrartúni. Taldi kærandi framkvæmdina ekki vera í samræmi við deiliskipulag svæðisins auk þess sem sveitarfélaginu var tilkynnt um að til stæði að kæra framkvæmdina til úrskurðarnefndarinnar. Var erindið afgreitt af skipulags- og mannvirkjanefnd með þeim hætti að fela starfsmanni að svara kæranda í samræmi við framlagt minnisblað og færa til bókar að nefndin teldi framkvæmdina ekki leyfisskylda. Ekki er hægt að líta svo á að nefnd afgreiðsla feli í sér stjórnvaldsákvörðun tekna á grundvelli skipulagslaga sem kæranleg sé til úrskurðarnefndarinnar. Þá hafa önnur lög ekki að geyma heimild til málskots til nefndarinnar vegna afgreiðslunnar. Verður samkvæmt því að vísa kærumáli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Það skal þó á það bent að í 53. gr. skipulagslaga er mælt fyrir um þvingunarúrræði sem byggingarfulltrúi getur beitt ef framkvæmdaleyfisskyld framkvæmd er hafin án þess að framkvæmdaleyfi sé fengið fyrir henni. Unnt er að beina erindi til skipulagsfulltrúa um beitingu þvingunarúrræða á þeim grundvelli en synji hann þeirri beiðni er eftir atvikum hægt að kæra þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.