Árið 2018, miðvikudaginn 25. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.
Fyrir var tekið mál nr. 77/2016, kæra á ákvörðun heilbrigðisnefndar Suðurlands frá 20. apríl 2016 um að hafna umsókn um starfsleyfi á grundvelli reglugerðar nr. 460/2015 um baðstaði í náttúrunni.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. júlí 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir Laugarvatn Fontana ehf., Hverabraut 1, Laugarvatni, þá ákvörðun heilbrigðisnefndar Suðurlands frá 20. apríl 2016 að hafna umsókn kæranda um starfsleyfi til reksturs náttúrulaugarinnar Bullungu. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir heilbrigðisnefndina að veita kæranda starfsleyfi til reksturs Bullungu sem náttúrulaugar, sbr. reglugerð nr. 460/2015 um baðstaði í náttúrunni.
Gögn málsins bárust frá heilbrigðisnefnd Suðurlands 19. ágúst 2016.
Málavextir: Kærandi rekur sund- og baðstað við Laugarvatn í Bláskógabyggð. Starfsleyfi kæranda var gefið út af Heilbrigðiseftirliti Suðurlands 19. júlí 2011 og er fyrir lítinn sundstað, baðhús og krá/kaffihús. Á árinu 2013 var jarðvarmalauginni Bullungu bætt við starfsemina og ákvað heilbrigðisnefnd Suðurlands að ekki þyrfti að taka upp starfsleyfið vegna þeirrar viðbótar. Laugin er manngerð en vatnið kemur úr heitri laug á svæðinu og er ekki meðhöndlað með efnum eða geislum. Samkvæmt gögnum málsins var gengið út frá því að laugin félli í C flokk skv. 4. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 814/2010 um hollustuhætti á sund- og baðstöðum, en skv. ákvæðinu eru það laugar án hreinsibúnaðar. Vatn er tekið beint úr veitu eftir kælingu niður í a.m.k. 55°C og leitt í laug og þaðan í útrennsli. Stýring á klórmagni og sýrustigi er jafnan ekki með sjálfvirkum hætti. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar er hægt að sækja um heimild til heilbrigðisnefndar um að nota ekki sótthreinsiefni í laugar í C flokki. Leyfi má veita að undangenginni rannsókn á örveruinnihaldi baðvatnsins, sbr. 1. viðauka reglugerðarinnar. Við úttekt á baðstaðnum á vegum heilbrigðiseftirlitsins 15. október 2013 var gerð athugasemd við að ekki hefði verið sótt um undanþágu á grundvelli framangreinds ákvæðis fyrir laugina Bullungu, þar sem ekki væri notað sótthreinsiefni í baðvatnið.
Með tölvupósti, dags. 1. nóvember 2013, var kæranda veittur frestur til 1. febrúar 2014 til að koma á reglubundnu þrifakerfi á óklóruðum potti. Að þeim tíma liðnum væri reiknað með að farið yrði í reglubundnar sýnatökur á baðvatninu í lauginni með tilliti til þess hvort það uppfyllti ákvæði í IV. viðauka reglugerðar nr. 814/2010 um gæði vatns í laugum. Ef niðurstöður yrðu jákvæðar gæti kærandi sótt um leyfi til undanþágu frá því að nota sótthreinsiefni í umrædda laug, sbr. ákvæði 4. gr. reglugerðarinnar. Sýnatökur fóru fram á árunum 2014 og 2015 og skiluðu þær allar niðurstöðu um að gæði vatns í Bullungu væru óviðunandi, sbr. skilyrði í I. og IV. viðauka reglugerðar nr. 814/2010.
Með bréfi til Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, dags. 20. nóvember 2015, óskaði kærandi eftir breytingum á starfsleyfi sínu. Reglugerð nr. 460/2015 um baðstaði í náttúrunni hafði þá tekið gildi og var óskað eftir því í bréfinu að laugin Bullunga yrði skilgreind sem baðstaður í náttúrunni í 1. flokki samkvæmt 4. gr. reglugerðarinnar. Óskaði kærandi jafnframt eftir því að hann fengi útgefið starfsleyfi á grundvelli ákvæða 3. og 4. gr. hinnar nýju reglugerðar til viðbótar við gildandi starfsleyfi.
Með bréfi, dags. 28. apríl 2016, var kæranda kynnt bókun heilbrigðisnefndar Suðurlands frá 20. s.m. varðandi framangreinda umsókn. Þar var bókað: „Umsókn [kæranda] um leyfi til að skilgreina eina laug á svæðinu sem „baðstað í náttúrunni“. Kynnt var skýrsla varðandi niðurstöður sýna úr þessari laug ásamt skýringum og skilgreiningum á annars vegar sund- og baðstað á grundvelli reglugerðar nr. 814/2010 um sund- og baðstaði og hins vegar baðstað í náttúrunni skv. reglugerð nr. 460/2015. Með vísun í ofangreindar reglugerðir leggst nefndin gegn afgreiðslu starfsleyfisins þar sem verið er að blanda saman rekstri sund- og baðstaðar annars vegar og náttúrulaugar hins vegar.“
Með bréfi, dags. 6. júní 2016, tilkynnti heilbrigðiseftirlitið kæranda að heilbrigðisnefnd Suðurlands hefði hafnað umsókn hans um leyfi til reksturs náttúrulaugar inni á baðstað hans. Kærandi kærði framangreinda ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar 4. júlí s.á., eins og áður kom fram.
Málsrök kæranda: Kærandi kveðst byggja á því að ákvörðun heilbrigðisnefndarinnar, sem kynnt hafi verið kæranda með bréfi, dags. 6. júní 2016, hafi verið haldin svo verulegum form- og efnisannmörkum að það beri að ógilda hana og taka nýja ákvörðun í málinu.
Atvinnufrelsið njóti verndar 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar, en í því felist að öllum sé frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósi. Þá megi einvörðungu setja því skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess. Við takmörkun á atvinnufrelsi þurfi samkvæmt þessu að vera til staðar skýr lagaheimild og almannahagsmunir. Markmið laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir sé að búa landsmönnum heilnæm lífsskilyrði og vernda þau gildi sem felist í heilnæmu og ómenguðu umhverfi. Til að stuðla að hollustuvernd sé ráðherra heimilað í 4. gr. laganna að setja í reglugerð almenn ákvæði um eftirlit með atvinnurekstri, þ. á m. sund- og baðstöðum, sem og útgáfu og efni starfsleyfis.
Ráðherra hafi sett tvær reglugerðir um baðstaði þar sem framangreindar takmarkanir á atvinnufrelsi séu útfærðar. Á árinu 2010 hafi tekið gildi reglugerð nr. 814/2010 um hollustuhætti á sund- og baðstöðum, þar sem sund- og baðstöðum sé skipt í flokka. Þá hafi tekið gildi á árinu 2015 reglugerð nr. 460/2015 um baðstaði í náttúrunni. Athygli sé vakin á því að eðlismunur sé á þeim gæðakröfum sem gerðar séu til vatns eftir því hvort það sé talið falla undir hina fyrrgreindu eða síðargreindu reglugerð. Slíkt leiði af eðli máls, enda sé verulegur munur á þeim kröfum sem unnt sé að gera til vatns sem sé meðhöndlað, svo sem með sótthreinsiefnum, og ómeðhöndlaðs vatns í náttúrulaugum.
Kærandi byggi á því að hin kærða ákvörðun heilbrigðisnefndar Suðurlands sé ósamrýmanleg lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins, sem feli í sér að allar ákvarðanir stjórnvalda þurfi að vera á samræmi við lög.
Þegar Bullungu hafi verið bætt við starfsemi kæranda hafi reglugerð nr. 460/2015 ekki tekið gildi. Bullunga hafi verið náttúrulaug í skilningi 14. tölul. 2. gr. reglugerðar nr. 814/2010. Það virðist hafa verið stefna Heilbrigðiseftirlits Suðurlands að fella starfsemi laugarinnar undir C flokk 3. gr. reglugerðar nr. 814/2010, þannig að hægt yrði að viðhafa eftirlit á grundvelli reglugerðarinnar, enda þótt fram komi í 3. mgr. 1. gr. hennar að hún taki ekki til náttúrulauga. Jafnframt sé ljóst að laugin falli ekki undir skilgreiningu C flokks, eins og hún sé fram sett, og ekki heldur undir aðra flokka 3. gr. reglugerðarinnar. Hafi því ekki verið lagaskilyrði til að láta reglugerðina taka til Bullungu og sé staðan sýnilega sú sama í dag.
Þar sem lagalegt tómarúm hafi verið til staðar hvað varðaði náttúrulaugar hafi falist mikil réttarbót í setningu reglugerðar nr. 460/2015, sem tekið hafi gildi 28. apríl 2015. Kærandi telji ljóst að starfsemi hinnar umdeildu laugar falli undir gildissvið reglugerðarinnar og að gæðakröfur sem gerðar séu til vatns í reglugerðinni taki mið af því að eðli slíkra lauga sé annað en þeirra er falli undir reglugerð nr. 814/2010. Eins og áður hafi komið fram telji kærandi að starfsemi laugarinnar falli undir 1. flokk 4. gr. reglugerðar nr. 460/2015. Athygli sé vakin á því að í 4. gr. reglugerðarinnar sé skýrt tekið fram að baðstaðir sem falli undir 1. flokk séu starfsleyfisskyldir. Í 5. gr. reglugerðarinnar sé fjallað um starfsleyfi. Þar segi að þeir sem hyggist starfrækja baðstað í náttúrunni í 1. flokki skuli sækja um starfsleyfi til viðkomandi heilbrigðisnefndar. Kærandi hafi fylgt þeirri lagaskyldu er hann hafi sótt um starfsleyfi á grundvelli reglugerðar nr. 460/2015 vegna Bullungu eftir gildistöku reglugerðarinnar, enda telji hann náttúrulaugina uppfylla allar þær kröfur sem gerðar séu til slíks starfsleyfis.
Sú ákvörðun að synja kæranda um útgáfu starfsleyfis eigi sér ekki stoð í lögum. Svo virðist sem synjunin styðjist eingöngu við þá röksemd að verið sé að blanda saman rekstri sund- og baðstaðar annars vegar og náttúrulaugar hins vegar. Þannig hafi því ekki verið mótmælt að Bullunga sé náttúrulaug í skilningi viðkomandi reglugerða, en svo virðist sem heilbrigðisyfirvöld telji óheimilt að reka náttúrulaug í skilningi reglugerðar nr. 460/2015 og sundlaugar í skilningi reglugerðar nr. 814/2010 á sama svæði. Slíkt standist enga skoðun. Hvergi sé í lögum nr. 7/1998 eða áður tilvitnuðum reglugerðum sé lagt bann við því að gefið sé út starfsleyfi vegna reksturs náttúrulaugar og sundlaugar í skilningi reglugerðanna. Þannig standi því ekkert í vegi að gefið sé út starfsleyfi vegna starfsemi sem falli undir 1. flokk 4. gr. reglugerðar nr. 460/2015 að hluta og að hluta undir reglugerð nr. 814/2010. Slík takmörkun geti ekki stuðst við nokkur málefnaleg rök. Raunar virðist 3. mgr. 5. gr. nr. 460/2015 styðja að unnt sé að fella laugar á sama starfsvæði undir mismunandi reglugerðir og að starfsleyfi taki mið af því. Synjun heilbrigðiseftirlitsins eigi sér ekki lagastoð og feli í sér óhóflega takmörkun á atvinnufrelsi, sem valdi kæranda fjárhagslegu tjóni.
Starfsemi kæranda njóti ákveðinnar sérstöðu þar sem hann sé að öllum líkindum eini aðilinn á landinu sem starfræki baðstað þar sem bæði sé að finna náttúrulegar laugar og laugar sem falli undir ákvæði reglugerðar nr. 814/2010 og hafi starfsemi sína opna baðgestum allt árið um kring. Svo virðist raunar sem heilbrigðisnefndir flokki nú ýmsar laugar, sem séu sambærilegar við Bullungu, sem náttúrulaugar, sbr. lista um náttúrulaugar sem Umhverfisstofnun beri að birta skv. 4. gr. reglugerðar nr. 460/2015. Þannig séu sambærilegar laugar taldar falla undir reglugerðina en á sama tíma þurfi kærandi að sæta því að sú náttúrulaug sem hann starfræki sé talin falla undir reglugerð nr. 814/2010 af heilbrigðisyfirvöldum. Þetta sé í verulegu ósamræmi við jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Starfsemi kæranda sé virðisaukaskattsskyld með sama hætti og rekstur Bláa lónsins og Jarðbaðanna við Mývatn en sæti ekki skattalegri meðferð eins og sundlaug.
Loks sé byggt á því að fyrirliggjandi ákvörðun hafi verið haldin verulegum formannmörkum sem hafi haft áhrif á efni ákvörðunarinnar og eigi að leiða til ógildingar hennar. Annars vegar hafi stjórnvaldinu borið, á grundvelli rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins, að rannsaka hvort starfsemi Bullungu félli undir reglugerð nr. 460/2015 áður en tekin var ákvörðun um að synja um starfsleyfið, en ekki verði séð af gögnum málsins að fullnægjandi rannsókn hafi verið viðhöfð. Hins vegar hafi heilbrigðisyfirvöldum borið, hafi umsókn kæranda verið talið ábótavant, að beina því til kæranda að afla frekari upplýsinga, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga. Hefði stjórnvaldið viðhaft slíka málsmeðferð verði að telja að niðurstaðan hefði orðið sú að starfsleyfi vegna náttúrulaugarinnar á grundvelli reglugerðar nr. 460/2015 hefði verið veitt, enda hafi stjórnvaldinu borið lagaskylda til að veita það að uppfylltum tilteknum skilyrðum.
Málsrök heilbrigðisnefndar Suðurlands: Heilbrigðisnefndin kveður það vera mat sitt að með vísan til niðurlags 5. gr. reglugerðar nr. 460/2015 um baðstaði í náttúrunni falli laug sú sem deilt sé um í málinu undir skilgreiningu C flokks laugar, sbr. reglugerð nr. 814/2010 um hollustuhætti á sund- og baðstöðum. Í reglugerð nr. 814/2010 sé jafnframt heimild til að sækja um undanþágu frá notkun á sótthreinsiefnum, sbr. 3. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar. Laugin falli því ekki undir skilgreiningu náttúrulaugar skv. 3. gr. reglugerðar nr. 460/2015, enda sé hún að öllu leyti manngerð, eins og komi fram í gögnum málsins, og sé m.a. með dælingu baðvatns.
Samkvæmt niðurlagi 5. gr. reglugerðar nr. 460/2015 geti rekstraraðili staðar í 2. flokki, þ.e. þar sem tilfallandi rekstur fari fram, óskað eftir því að laug verði flokkuð sem baðstaður í náttúrunni, en ekki sem C laug skv. reglugerð nr. 814/2010. Það eigi ekki við um laugina Bullungu hjá kæranda, enda sé þar um að ræða baðstað í flokki 1 með mikla aðsókn allt árið og laug í C flokki, eins og komið hafi fram.
Bent sé á að samkvæmt reglugerð nr. 460/2015 sé ekki gert ráð fyrir sótthreinsun baðvatns nema sérstaklega standi á, sbr. 3. mgr. 11. gr. Hins vegar sé sótthreinsun meginreglan skv. reglugerð nr. 814/2010. Varðandi C flokk lauga sé möguleiki á undanþágu frá sótthreinsun að uppfylltum skilyrðum um hreinleika baðvatns, sem skuli staðfestur með sýnatökum, þ.e. 10 sýni, sem skuli standast kröfur í 90% tilvika, sbr. 1. mgr. I. viðauka. Því telji heilbrigðisnefndin það þjóna almannahagsmunum að fram fari sótthreinsun baðvatns í Bullungu eins og í öðrum laugum kæranda.
Kærandi hafi bent á að starfsemi hans sé virðisaukaskattsskyld en lúti ekki skattalegri meðferð eins og sundlaug, sbr. reglugerð nr. 814/2010. Rekstur vínveitingarstaðar eins og þess sem rekinn sé í tengslum við böðin sé háður rekstrarleyfi sem sýslumaður gefi út á grundvelli laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Reksturinn sé þar af leiðandi virðisaukaskattsskyldur og eigi ekkert skylt við rekstur sund- og baðstaðar sem slíks, enda sé ekki heimilt að veita áfengi í laugunum, heldur einungis á veitingastaðnum.
Niðurstaða: Stjórnvaldsákvarðanir samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir sæta kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sbr. þágildandi 31. gr. laganna, nú 65. gr. Einskorðast valdheimildir úrskurðarnefndarinnar við endurskoðun á lögmæti þeirra ákvarðana er undir hana eru bornar. Af þessum sökum tekur nefndin aðeins til úrlausnar kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar en það fellur utan valdheimilda hennar að fjalla um aðrar kröfur kæranda.
Í máli þessu er deilt um synjun heilbrigðisnefndar Suðurlands á umsókn kæranda um starfsleyfi fyrir rekstri náttúrulaugar samkvæmt reglugerð nr. 460/2015 um baðstaði í náttúrunni, en kærandi hefur nú þegar starfsleyfi fyrir rekstri baðstaðar samkvæmt reglugerð nr. 814/2010 um hollustuhætti á sund- og baðstöðum. Hugðist kærandi sameina rekstur náttúrulaugar þeim rekstri sem hann stendur nú þegar fyrir við Laugarvatn.
Hinni kærðu ákvörðun er lýst í málavöxtum og verður af bókun heilbrigðisnefndar ráðið að hún hafi einkum byggst á því að ekki ætti að blanda saman rekstri baðstaðar samkvæmt reglugerð nr. 814/2010 og náttúrulaugar samkvæmt reglugerð nr. 460/2015. Ljóst er samkvæmt gögnum málsins að heilbrigðisnefnd hafði fram að umsókn kæranda litið svo á að hin umdeilda laug væri í C flokki lauga samkvæmt flokkun í 3. gr. reglugerðar nr. 814/2010 og hafði verið unnið að því af hálfu kæranda að reyna að uppfylla skilyrði 3. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar fyrir undanþágu frá þeirri almennu reglu að nota skuli sótthreinsiefni í laugar.
Um hollustuhætti og mengunarvarnir gilda lög nr. 7/1998 og er markmið þeirra að búa landsmönnum heilnæm lífsskilyrði og vernda þau gildi sem felast í heilnæmu og ómenguðu umhverfi, sbr. 1. gr. laganna. Samkvæmt 4. gr. laganna setur ráðherra, til að stuðla að framkvæmd hollustuverndar, í reglugerð almenn ákvæði um eftirlit með atvinnurekstri sem fellur undir greinina, sem og um útgáfu og efni starfsleyfa. Samkvæmt 15. tölul. ákvæðisins fellur undir ákvæðið m.a. rekstur sundstaða, baðhúsa, gufubaðstofa, sólbaðsstofa og almennra baðstaða, baðvatns og þess háttar. Samkvæmt þágildandi 4. gr. a í lögunum skyldu stofnanir, fyrirtæki og önnur starfsemi sem talin væri upp í fylgiskjali III með lögunum hafa gilt starfsleyfi gefið út af heilbrigðisnefnd, en þar voru sundstaðir felldir undir nefnt ákvæði. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. a skyldi starfsleyfi gefið út til tiltekins tíma og samkvæmt 3. mgr. skyldi í starfsleyfi tilgreina rekstraraðila og staðsetningu starfsemi, tegund hennar, skilyrði, gildistíma og endurskoðun starfsleyfis, auk ákvæða um eftirlit, umgengni, hreinlæti, öryggisráðstafanir, sóttvarnir, gæðastjórnun og innra eftirlit eftir því sem við ætti hverju sinni.
Almenn ákvæði um starfsleyfi samkvæmt 4. gr. laga nr. 7/1998 er að finna í III. kafla reglugerðar um hollustuhætti nr. 941/2002, en reglur um starfsleyfi fyrir sund- og baðstaði er að finna í III. kafla reglugerðar nr. 814/2010, þar sem vísað er til reglugerðar nr. 941/2002. Um starfsleyfi fyrir baðstaði í náttúrunni þar sem reglubundinn rekstur fer fram (1. flokkur) eða þar sem tilfallandi rekstur fer fram (2. flokkur) gildir II. kafli reglugerðar nr. 460/2015, en samkvæmt 1. mgr. 5. gr. skulu þeir sem hyggjast starfrækja baðstað í náttúrunni skv. 1. og 2. flokki sækja um starfsleyfi til viðkomandi heilbrigðisnefndar. Gefur heilbrigðisnefnd út starfsleyfi að uppfylltum skilyrðum reglugerðarinnar, reglugerðar nr. 814/2010 og reglugerðar nr. 941/2002, eftir því sem við á, enda samræmist starfsemin skipulagsáætlunum. Samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 460/2015 telst baðstaður í náttúrunni náttúrulaug eða baðströnd sem séu notuð til baða af almenningi og vatn sé ómeðhöndlað af sótthreinsiefnum, geislun eða á annan hátt. Þá er í 3. gr. einnig að finna eftirfarandi skilgreiningu á náttúrulaug: „Laug ásamt bakka hennar, mynduð af náttúrunnar hendi þar sem böð eru stunduð og vatn er ekki meðhöndlað með sótthreinsiefnum, geislun eða á annan hátt. Þó framkvæmdir á náttúrulaug hafi verið gerðar til þess að styrkja stoðir hennar, til dæmis með lítils háttar hleðslu, steypuverki, eða laugin lagfærð með hleðslu á steinum til að stífla eða stýra rennsli á baðvatni og steyptir botnar og hliðar, telst laugin vera náttúrulaug.“ Samkvæmt 1. gr. reglugerðar nr. 814/2010 gildir reglugerðin ekki um sjóböð og náttúrulaugar.
Laug sú sem um ræðir er manngerð að öllu leyti og getur ekki talist falla undir skilgreiningu á náttúrulaug skv. 3. gr. reglugerðar nr. 460/2015 eða 15. tölul. 2. gr. reglugerðar nr. 814/2010. Myndi rekstur hennar því almennt falla undir reglugerð nr. 814/2010. Í 3. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 460/2015 er að finna ákvæði um að rekstraraðili laugar, sem hann óski eftir að verði flokkuð sem baðstaður í náttúrunni en ekki sem C laug samkvæmt reglugerð nr. 814/2010, geti sótt um starfsleyfi til heilbrigðisnefndar fyrir baðstað í náttúrunni í 2. flokki, svo framarlega sem hann tilheyri ekki 1. flokki eða heilbrigðisnefnd meti sem svo að um C laug sé að ræða. Af framangreindu má ráða að óski aðili eftir því að laug, sem heilbrigðisnefnd hefur flokkað sem C laug, verði flokkuð sem baðstaður í náttúrunni sé eingöngu möguleiki á að fá starfsleyfi fyrir rekstri hennar sé hún flokkuð í 2. flokk, það er sem baðstaður þar sem tilfallandi rekstur fer fram. Svo virðist því sem reglugerðin geri ekki ráð fyrir þeim möguleika að fá laug flokkaða sem 1. flokk baðstaðar í náttúrunni í stað laugar í C flokki, eins og umsókn kæranda til heilbrigðisnefndar snerist um. Sú afstaða heilbrigðisnefndar Suðurlands að leggjast gegn starfsleyfisveitingu á þeim forsendum að verið væri að „blanda saman rekstri sund- og baðstaðar annars vegar og náttúrulaugar hins vegar“ var því í samræmi við nefnt ákvæði reglugerðar nr. 460/2015, sem jafnframt stóð því í vegi að fallist yrði á umsókn kæranda.
Með vísan til þess sem að framan er rakið var heilbrigðisnefnd Suðurlands rétt að hafna umsókn kæranda. Þá verður ekki annað séð en að nægar upplýsingar hafi legið fyrir, málsmeðferð hafi verið í samræmi við lög og skilyrðum laga og reglna hafi verið fullnægt að öðru leyti áður en ákvörðun var tekin í málinu. Verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því hafnað.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun heilbrigðisnefndar Suðurlands frá 20. apríl 2016 um að synja umsókn um starfsleyfi á grundvelli reglugerðar nr. 460/2015 um baðstaði í náttúrunni.