Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

139/2016 Furugrund

Árið 2018, miðvikudaginn 24. október, tók Nanna Magnadóttir, forstöðumaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 139/2016 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011.

Kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 27. september 2016 um að synja umsókn um breytingar á fasteigninni að Furugrund 3, Kópavogi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. október 2016, er barst nefndinni 28. s.m., kærir Magni ehf., þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 27. september 2016 að hafna beiðni um að breyta húsnæði að Furugrund 3, Kópavogi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 1. desember 2016.

Málsatvik og rök: Með bréfi til byggingarfulltrúans í Kópavogi, dags. 13. júní 2016, sótti kærandi um leyfi til þess að breyta fasteigninni að Furugrund 3, Kópavogi og breyta notkun hennar í íbúðarhótel. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 24. s.m. var umsókninni vísað til skipulagsnefndar með vísan til 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Á fundi skipulagsnefndar 27. júní s.á. var samþykkt að grenndarkynna framlagða tillögu með vísan til 44. gr. skipulagslaga. Á fundi skipulagsnefndar 19. september s.á. var tillaga kæranda lögð fram að nýju og henni hafnað með vísan til fjölda athugasemda og ábendinga sem fram hefðu komið í kjölfar grenndarkynningar. Var málinu vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Á fundi bæjarstjórnar 27. september 2016 var afgreiðsla skipulagsnefndar staðfest.

Kærandi telur að málsmeðferð málsins og afgreiðsla fari gegn ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010, laga um mannvirki nr. 160/2010 og almennum reglum stjórnsýsluréttarins, sbr. stjórnsýslulög nr. 37/1993. Með því að kynna umsóknina hafi sveitarfélagið fyrir sitt leyti fallist á tillöguna með fyrirvara um niðurstöðu grenndarkynningar. Sveitarfélaginu hafi áður en til afgreiðslu málsins kom borið að taka efnislega afstöðu til þeirra umsagna og athugasemda sem hafi borist.

Af hálfu bæjaryfirvalda er bent á að ekki sé skylt að taka afstöðu til athugasemda sem berist við grenndarkynningu byggingarleyfisumsókna, líkt og eigi við um breytingu á deiliskipulagi, sbr. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga. Það hafi verið niðurstaða skipulagsnefndar að synja erindinu og hafi sú niðurstaða byggst á því að mikil andstaða hafi verið meðal hagsmunaaðila um breytinguna.

Niðurstaða:
Í máli þessu er deilt um ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 27. september 2016 um að synja umsókn kæranda um leyfi fyrir breytingum og breyttri notkun á fasteigninni að Furugrund 3, Kópavogi.

Ekki er í gildi deiliskipulag fyrir umrætt svæði. Í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kemur fram sú meginregla að gera skuli deiliskipulag fyrir svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Undanþágu frá þeirri skyldu er að finna í ákvæði 1. mgr. 44. gr. laganna. Þar segir að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag hvað varði landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggi ekki fyrir þá geti skipulagsnefnd ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar, enda fari áður fram grenndarkynning. Endanleg ákvörðun um samþykkt byggingaráforma og útgáfu byggingarleyfis er hins vegar á hendi byggingarfulltrúa samkvæmt skýrum ákvæðum laga nr. 160/2010 um mannvirki, sbr. 11. og 13 gr., sbr. og 2. mgr. 9. gr. laganna.

Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu var umsókn kæranda synjað á fundi bæjarstjórnar Kópavogs 27. september 2016. Að þeirri afgreiðslu lokinni bar byggingarfulltrúa að taka byggingarleyfisumsóknina til afgreiðslu. Þar sem byggingarfulltrúi Kópavogsbæjar hefur hvorki tekið ákvörðun um synjun né samþykkt umsóknarinnar liggur ekki fyrir lokaákvörðun í málinu, en skv. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, ekki kærð fyrr en mál hefur verið til lykta leitt.

Þá verður ekki séð að í máli þessu myndi það hafa þýðingu að leggja fyrir byggingarfulltrúa að taka málið til meðferðar og ljúka því þar sem landnotkun þeirrar lóðar sem um ræðir hefur verið breytt í Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024, en breyting þess efnis birtist í B-deild Stjórnartíðinda 16. apríl 2018. Samkvæmt henni hefur VÞ-5, Furugrund 3 þar sem áður var verslun og þjónusta, verið breytt í íbúðarsvæði sem verður hluti af ÍB-2 Digranes. Er með breytingunni gert ráð fyrir að fjölgað verði íbúðum við Furugrund og að á því svæði verði gert ráð fyrir blöndun byggðar þar sem leyfð er verslun og þjónusta á jarðhæð en íbúðir á efri hæðum. Eru því höfuðforsendur skipulagsákvarðana vegna lóðarinnar breyttar frá því að máli þessu var skotið til úrskurðarnefndarinnar. Loks var í tölvupósti 11. október 2018, með vísan til breytts aðalskipulags, skorað á kæranda að færa rök fyrir því hvaða lögvörðu hagsmuni hann hefði af úrlausn kærumálsins og var honum veittur frestur í því skyni til 19. s.m., en kærandi brást ekki við innan frestsins.

Með vísan til framangreinds verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.