Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

12/2018 Fjarðalax

Árið 2018, fimmtudaginn 4. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Geir Oddsson umhverfis- og auðlindafræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 12/2018, kæra á ákvörðunum Matvælastofnunar frá 22. desember 2017 um að veita rekstrarleyfi fyrir annars vegar 6.800 tonna og hins vegar 10.700 tonna ársframleiðslu á laxi í sjókvíum í Patreksfirði og Tálknafirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 22. janúar 2018, kæra A og B, „fyrir hönd okkar undirritaðra, barna og barnabarna og erfingja þeirra“, sem og fyrir hönd Hótel Látrabjargs ehf. og Eignarhaldsfélagsins Fagrahvamms, ákvarðanir Matvælastofnunar frá 22. desember 2017 um að veita rekstrarleyfi fyrir annars vegar 6.800 tonna og hins vegar 10.700 tonna ársframleiðslu á laxi í sjókvíum í Patreksfirði og Tálknafirði. Er þess krafist að ákvarðanirnar verði felldar úr gildi.

Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Við meðferð málsins var aflað upplýsinga um stöðu framkvæmda og lágu jafnframt fyrir úrskurðarnefndinni upplýsingar um sjókvíaeldi það á laxi sem þegar var leyft á sama svæði. Að því virtu var ekki tekið sérstaklega á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Með bréfi, dags. 11. júlí 2018, sem móttekið var með tölvupósti sama dag, barst úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála beiðni leyfishafa um frestun m.a. þessa kærumáls. Var beiðnin á því reist að höfðað hefði verið dómsmál sem að mati leyfishafa væri svo samofið kærumálinu að ljóst væri að efnisleg niðurstaða í dómsmálinu gæti haft úrslitaáhrif um afdrif kærumálsins. Kærendum og leyfisveitendum var veittur kostur á að koma að athugasemdum vegna beiðninnar og nýttu kærendur sér það. Með bréfi, dags. 11. september 2018, synjaði úrskurðarnefndin beiðni um frestun kærumálsins með þeim rökum að niðurstaða í dómsmáli vegna leyfisveitinga fyrir öðru eldi en því sem sætt hefði kæru til úrskurðarnefndarinnar myndi ekki binda hendur nefndarinnar í kærumálinu, þótt niðurstaða dómstóla um lagatúlkun gæti haft áhrif á réttarþróun almennt í málum sem vörðuðu leyfisveitingar vegna fiskeldis í kjölfar mats á umhverfisáhrifum.

Gögn málsins bárust frá Matvælastofnun 26. febrúar 2018.

Málavextir: Hinn 30. september 2015 lögðu Fjarðalax ehf. og Arctic Sea Farm hf. fram frummatsskýrslu um eldi á allt að 19.000 tonnum af laxi og regnbogasilungi í Patreksfirði og Tálknafirði samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Fram kemur í áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum, dags. 23. september 2016, að framkvæmdin og frummatsskýrslan hafi verið auglýst opinberlega 20. október 2015 í Lögbirtingablaðinu, Fréttablaðinu og Morgunblaðinu. Frummatsskýrslan lá frammi til kynningar frá 20. október til 2. desember 2015 á skrifstofum Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar, í Þjóðarbókhlöðu og hjá Skipulagsstofnun. Frummatsskýrslan var einnig aðgengileg á vef Skipulagsstofnunar. Framkvæmdaraðilar héldu fund á Tálknafirði 9. nóvember 2015 til kynningar á framkvæmdinni og umhverfisáhrifum hennar.

Hinn 9. maí 2016 lögðu Fjarðalax og Arctic Sea Farm fram matsskýrslu um framleiðslu á allt að 17.500 tonnum af laxi í Patreksfirði og Tálknafirði og óskuðu eftir áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Álit stofnunarinnar er frá 23. september 2016, eins og áður sagði.

Í niðurstöðukafla álits Skipulagsstofnunar segir svo: „Í samræmi við 11. gr. laga og 24. gr. reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum hefur Skipulagsstofnun farið yfir matsskýrslu [framkvæmdaraðila] sem lögð var fram samkvæmt 10. gr. sömu laga. Skipulagsstofnun telur að matsskýrslan uppfylli skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum.“

Jafnframt var eftirfarandi tekið fram: „Helstu neikvæðu áhrif fyrirhugaðs fiskeldis [framkvæmdaraðila] í Patreksfirði og Tálknafirði munu að mati Skipulagsstofnunar felast í áhrifum á fisksjúkdóma, laxalús, náttúrulega stofna laxfiska og botndýralíf. Þannig felast helstu neikvæðu áhrif framkvæmdanna m.a. í aukinni hættu á að sjúkdómar og laxalús berist frá eldinu í villta laxfiskastofna, einkum sjóbirting, sem dvelur í sjó í Patreksfirði og Tálknafirði hluta úr ári. Þótt far strokulaxa úr eldi fyrir nokkrum árum virðist hafa takmarkast við Patreksfjörð, er líklegt að sú mikla aukning sem er áformuð á framleiðslu í fjörðunum feli í sér meiri hættu á að lax sleppi úr eldiskvíunum og að áhrifa eldisins geti orðið vart utan Patreksfjarðarflóa, með tilheyrandi hættu á að eldislax blandist villtum laxastofnum. Stofnunin telur mikilvægt að tryggt verði að eldisbúnaður sé í samræmi við kröfur viðurkenndra staðla til að draga eins og kostur er úr þessari hættu. Einnig er mikilvægt að vöktun á lífríki hafsbotns á eldissvæðunum verði í samræmi við viðurkennda staðla og mat á burðarþoli verði uppfært í samræmi við vöktun á ástandi sjávar.“

Í niðurstöðukafla í áliti sínu gerði Skipulagsstofnun tillögu um að eftirfarandi skilyrði yrðu sett við leyfisveitingar vegna fiskeldisins:

1.    Viðmið um heimilaðan fjölda laxalúsa á eldisfiski með hliðsjón af áætlaðri hættu á afföllum villtra laxfiska.
2.    Vöktun á laxalús á eldisfiski og sýnataka verði á þeim tíma árs sem aðstæður eru hagstæðar fyrir vöxt laxalúsar.
3.    Niðurstöður vöktunar verði gerðar opinberar.
4.    Viðbragðsáætlun um mótvægisaðgerðir í samræmi við niðurstöður um smitálag frá eldisfiski hverju sinni og áhættu fyrir villta fiskistofna.
5.    Samræmda útsetningu seiða fyrirtækjanna til að lágmarka hættu á því að smit frá eldinu berist milli árgangasvæða.
6.    Eldisbúnaður Fjarðalax og Arctic Sea Farm uppfylli sambærilegar kröfur og settar eru í staðlinum NS 9415:2009 varðandi útbúnað og verklag.
7.    Vöktun á ástandi sjávar í fjörðunum til grundvallar endurskoðuðu burðarþolsmati verði í samræmi við ráðleggingar Hafrannsóknarstofnunar.
8.    Vöktun á uppsöfnun lífræns úrgangs á sjávarbotn undir og við eldiskvíar og áhrifum þess á botndýralíf verði byggt á staðlinum ISO 12878.
9.    Eldi hefjist ekki á ný að lokinni hvíld fyrr en hafsbotn á svæðinu hefur náð ásættanlegu ástandi, samkvæmt viðmiðum Umhverfisstofnunar.

Fjarðalax sótti um rekstrarleyfi til Matvælastofnunar með umsókn, dags. 26. júlí 2016 og Arctic Sea Farm sótti um rekstrarleyfi til sömu stofnunar með umsókn, dags. 23. september. Stofnunin gaf út rekstrarleyfi til handa leyfishöfum 22. desember 2017. Útgáfa leyfanna var auglýst á fréttagátt vefsíðu stofnunarinnar 27. s.m., ásamt tenglum á rekstrarleyfin, álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum og afstöðu Matvælastofnunar til álitsins. Útgáfurnar voru einnig auglýstar í Fréttablaðinu 28. desember 2017. Kæra barst úrskurðarnefndinni 22. janúar 2018, svo sem áður greinir.

Umhverfisstofnun hefur veitt Fjarðalaxi og Arctic Sea Farm starfsleyfi fyrir eldi því sem um ræðir. Hafa þær leyfisveitingar einnig verið kærðar til úrskurðarnefndarinnar og eru þau kærumál nr. 4 og 6/2018.

Skömmu eftir veitingu hins kærða leyfis tilkynntu Arctic Sea Farm og Fjarðalax fyrirhugaða breytingu á staðsetningu eldissvæða fyrirtækjanna í Patreksfirði til Skipulagsstofnunar til ákvörðunar um matsskyldu skv. 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. lið 13.02 í 1. viðauka laganna. Ákvörðun Skipulagsstofnunar þess efnis að framkvæmdin skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum lá fyrir 11. apríl 2018. Hefur sú ákvörðun einnig verið kærð til úrskurðarnefndarinnar og er það kærumál nr. 73/2018. Í júní 2018 lá fyrir ákvörðun Matvælastofnunar um breytingu á rekstrarleyfi Fjarðalax, þar sem hnitum einnar staðsetningar, Eyri í Patreksfirði, var breytt. Fyrirhugað er að breyta einnig rekstrarleyfi Arctic Sea Farm samkvæmt upplýsingum frá stofnuninni. Í september 2018 lágu fyrir ákvarðanir Umhverfisstofnunar um breytingu á starfsleyfum fyrirtækjanna hvað varðaði staðsetningu tveggja eldissvæða í Patreksfirði, annars vegar við Þúfnaeyri og hins vegar við Kvígindisdal.

Leyfi þau sem hér sæta kæru voru felld úr gildi með úrskurðum úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sem kveðnir voru upp 27. september 2018 í kærumálum nr. 3 og 5/2018.

Málsrök kærenda:
Kærendur kveðast vera eigendur og erfingjar að jörðinni Vatnsdal við sunnanverðan Patreksfjörð. Í Vatnsdal sé silungsvatn og á sem renni til sjávar. Sjóbirtingsveiði og aðrar hreinar og náttúrulegar afurðir séu nú helstu hlunnindi jarðarinnar ásamt veiði í á og vatni. Jörðin sé sjávarjörð og liggi að jörðinni Kvígindisdal að austanverðu. Jafnframt séu kærendur eigendur og rekstraraðilar að Hótel Látrabjargi í Örlygshöfn við sunnanverðan Patreksfjörð. Með öðru hinna kærðu rekstrarleyfa sé veitt leyfi til sjókvíaeldis á erfðabreyttum laxi í sjó við Kvígindisdal sem sé í næsta nágrenni við ósa árinnar, þar sem villtur sjóbirtingur gangi upp í Vatnsdalsvatn. Muni villti fiskurinn væntanlega leita í æti sem til falli við fyrirhugað eldi með tilheyrandi smithættu á lús og hættu á blöndun á milli stofna og þar með eyðileggingu villta stofnsins ásamt truflun á eðlilegri göngu hans. Einnig verði villtur sjóbirtingsstofn eyðilagður með tilkomu mengunar frá fæði eldisfisks, sem kunni að innihalda sýklalyf og margvísleg óæskileg efni. Við það eldi sem þegar sé til staðar og til standi að margfalda hafi nú þegar orðið vart við þörungablóma og mengun í sjó.

Kærendum virðist sem leyfin séu veitt á mjög hæpnum grunni og fyrirliggjandi skýrslur opinberra stofnana um málið séu mest í skötulíki og ekki til þess fallnar að gæta hagsmuna annarra en leyfishafa. Ekki sé að sjá að neitt hlutlægt mat á umhverfisáhrifum hafi átt sér stað.
Auk beinnar áhættu vegna mengunar og kynblöndunar sé ein helsta hættan sú að orðspor svæðisins skaðist verulega til framtíðar. Gerist það sé um algert og óafturkræft tjón að ræða. Ferðamenn og heimamenn muni hætta að geta notið óspilltrar og hreinnar náttúru svæðisins og allur Patreksfjörður verði eitt stórt iðnaðarsvæði.

Málsrök Matvælastofnunar: Af hálfu Matvælastofnunar er þess krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði staðfestar. Fiskeldi hafi verið stundað á Íslandi um langt skeið. Þrátt fyrir að löggjafinn og stjórnvöld hafi verið meðvituð um að fiskeldi geti haft í för með sér ákveðna áhættu hafi verið tekin sú pólitíska ákvörðun að leyfa fiskeldi. Til að takmarka þessa áhættu hafi stjórnvöld friðað tiltekin svæði til að vernda villta stofna laxfiska, sbr. auglýsingu nr. 460/2004 um friðunarsvæði, þar sem eldi laxfiska í sjókvíum er óheimilt. Vestfirðir og Austurland falli utan nefndra friðunarsvæða samkvæmt auglýsingunni, þ.m.t. Patreksfjörður og Tálknafjörður. Matvælastofnun sé stjórnvald og starfi á grundvelli laga nr. 80/2005 um Matvælastofnun. Samkvæmt 2. gr. laganna sé lögbundið hlutverk stofnunarinnar að annast framkvæmd stjórnsýslu og eftirlit með ákvæðum laga nr. 71/2008 um fiskeldi og reglugerð nr. 1170/2015 um fiskeldi, þ.m.t. að gefa út rekstrarleyfi vegna fiskeldis.

Leyfishafar hafi lagt sameiginlega fram skýrslu, dags. 6. maí 2016, um mat á umhverfisáhrifum framleiðslu á laxi í Patreksfirði og Tálknafirði – aukning um 14.500 tonn í kynslóðaskiptu eldi. Í skýrslunni sé fjallað um áhrif framkvæmda sem felist í að koma fyrir sjókvíum og öðrum eldisbúnaði, flutningi eldisfisks og síðan áhrif af rekstri sjókvíaeldisins með tilliti til fóðrunar, losunar frá eldinu og framleiðsluferlis. Umhverfisþættir sem teknir hafi verið til skoðunar hafi verið ástand sjávar og strandsvæða, botndýralíf, annað sjávarlíf, fuglar, ásýnd, samfélag og sjávar og strandnýting í Patreksfirði og Tálknafirði. Helstu mótvægisaðgerðir séu taldar felast í vel skilgreindu verklagi og góðum starfsvenjum, reglubundinni hvíld eldissvæða, kynslóðaskiptu eldi og góðri fóðurstýringu. Þá komi fram í skýrslunni að leyfishafar stefni að því að nota sjókvíar í hæsta gæðaflokki til eldisins sem standist kröfur samkvæmt norska staðlinum NS9415 og kröfum sem komi fram í reglugerð nr. 401/2012 um fiskeldi. Í skýrslunni sé fjallað um valkosti, samlegðaráhrif vegna fiskeldis í firðinum á ástand sjávar og strandsvæða á rekstrartíma sjókvíaeldisins og sjúkdómahættu og mögulegrar erfðablöndunar milli eldisfisks og villtra stofna. Þá sé þar gerð grein fyrir helstu mótvægisaðgerðum. Þegar skýrslan hafi verið lögð fram hafi legið fyrir greinargerð Hafrannsóknastofnunar um mat á burðarþoli Patreksfjarðar og Tálknafjarðar. Matið geri ráð fyrir að vegna stærðar fjarðanna og varúðarnálgunar varðandi raunveruleg áhrif eldisins, einkum á botndýralíf og súrefnisstyrk, að hægt sé að leyfa allt að 20.000 tonna eldi í fjörðunum. Matið hafi verið bundið við þær forsendur að heildarlífmassi yrði aldrei meiri en 20.000 tonn og að vöktun á áhrifum eldisins færi fram.

Í kjölfar málsmeðferðar samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum hafi leyfishafar sótt um rekstrarleyfi til Matvælastofnunar fyrir framleiðslu á laxi í Patreksfirði og Tálknafirði skv. III. kafla laga nr. 71/2008. Með umsóknunum hafi fylgt afrit af ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu, upplýsingar um fjármögnun, ábyrgðartrygging, rekstraráætlun og burðarþolsmat. Þá hafi í umsókninni verið upplýst um heimild til afnota sjávar, stærð og staðsetningu eldisstöðvarinnar, eldisbúnað, eldistegundir, árlega framleiðslugetu og framleiðslumagn, eldisaðferðir og eldisstofna, eignaraðild, eigið fé, fagþekkingu umsækjenda og gæðakerfi, sbr. 8. gr. laga nr. 71/2008. Í samræmi við 13. gr. laga nr. 106/2000 hafi Matvælastofnun kynnt sér skýrslu um mat á umhverfisáhrifum og tekið rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.

Fyrir liggi að málsmeðferð við gerð mats á umhverfisáhrifum og meðferð málsins hjá Skipulagsstofnun hafi verið í samræmi við lög nr. 106/2000. Samkvæmt lögunum hafi leyfishöfum borið að vinna skýrslu um mat á umhverfisáhrifum og síðan hafi Skipulagsstofnun borið að gefa rökstutt álit á því hvort skýrslan uppfyllti kröfur laganna. Í álitinu skuli gera grein fyrir helstu forsendum matsins og þeim athugasemdum og umsögnum sem borist hafi við meðferð málsins.

Um áhrif eldisins hafi verið fjallað í mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar og áliti Skipulagsstofnunar, sem og mótvægisaðgerðir vegna áhrifanna. Í áliti Skipulagsstofnunar, sem unnið hafi verið í samræmi við 11. gr. laga nr. 106/2000, hafi komið fram að helstu neikvæðu áhrif eldisins væru áhrif á fisksjúkdóma og sníkjudýr, áhrif vegna slysasleppinga og áhrif á botndýralíf.

Tilgangur málsmeðferðar samkvæmt lögum nr. 106/2000 og lögum nr. 71/2008, ásamt reglugerð nr. 1170/2015, sé að taka mið af þeim sjónarmiðum er varði fiskeldi og áhrif þess á umhverfi. Við mat á umhverfisáhrifum hafi verið fjallað um áhrif eldisins á umhverfið, þ.m.t. súrefnisstyrk sjávar, næringargildi í sjó, botndýralíf, villta laxfiskastofna, svo sem varðandi sjúkdóma, laxalús og erfðablöndun, sem og áhrif á landslag og ásýnd, hagræna og félagslega þætti, siglingaleiðir, innviði, veiðar og önnur störf, ferðaþjónustu og útivist, menningarminjar, verndarsvæði og samlegðaráhrif eldisins.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafar krefjast þess að kæru í málinu verði vísað frá en til vara að öllum kröfum kærenda verði hafnað. Aðild og lögvarðir hagsmunir séu verulega vanreifaðir í kæru. Einnig séu meintir hagsmunir kærenda svo almenns eðlis að þeir uppfylli ekki almenn skilyrði þess að teljast vera lögvarðir. Sé almennt viðurkennt að aðili þurfi að hafa beina og einstaklega hagsmuni umfram það sem almennt gerist. Aðild kærenda sé studd þeim rökum að þeir séu eigendur og erfingjar að jörðinni Vatnsdal við sunnanverðan Patreksfjörð. Sé öllum fullyrðingum kærenda um að fiskeldi muni eyðileggja möguleika á lífrænni ræktun og nýtingu lífrænna afurða í Vatnsdal alfarið vísað á bug. Engin haldbær gögn liggi fyrir í málinu sem styðji það að kærendur muni verða fyrir marktækum áhrifum af starfsemi leyfishafa og hafi þeir ekki átt neina formlega aðild að málinu á stjórnsýslustigi. Hafa beri í huga að mat á umhverfisáhrifum sé langt ferli sem hafi byrjað formlega í nóvember 2013. Á þeim fjórum árum sem ferlið hafi tekið hafi áform leyfishafa um eldi í Patreksfirði og Tálknafirði margsinnis verið auglýst og kynnt opinberlega og kallað eftir athugasemdum. Engar athugasemdir hafi borist frá kærendum í ferlinu öllu. Hin kærðu rekstrarleyfi veiti ekki heimild til sjókvíaeldis á erfðabreyttum laxi. Lax sem til standi að nýta í fyrirhugað fiskeldi í Patreksfirði og Tálknafirði sé kynbættur, ekki erfðabreyttur. Lax sem nú sé alinn á Íslandi hafi verið kynbættur hér frá árinu 1990. Hann sé kallaður Saga-stofn og byggi á norskum stofnum.

Hafnað sé þeirri fullyrðingu að ekkert hlutlægt mat á umhverfisáhrifum hafi átt sér stað. Við allan undirbúning þeirrar framleiðslu sem leyfin heimili hafi verið fylgt þeim lögum og reglum sem við eigi og um starfsemina gildi. Fyrirhugað fiskeldi hafi sætt mati á umhverfisáhrifum í samræmi við fyrirmæli laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Lögin mæli skýrt fyrir um að það sé á ábyrgð framkvæmdaraðila að vinna skýrslu um umhverfisáhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar og starfsemi sem henni fylgi ásamt tillögum um mótvægisaðgerðir, sbr. j-lið 1. mgr. 3. gr. laganna. Þannig sé tryggt að framkvæmdaraðili hafi yfirsýn yfir þá umhverfisþætti sem fylgi framkvæmdinni. Með yfirumsjón og þátttöku Skipulagsstofnunar sé tryggt að hlutlaus og fagleg umfjöllun eigi sér stað. Matsskýrsla hafi verið unnin fyrir hönd og á ábyrgð leyfishafa. Í samræmi við fyrirmæli laga nr. 106/2000 liggi fyrir álit Skipulagsstofnunar á matsskýrslunni, dags. 23. september 2016, þar sem komist sé að þeirri niðurstöðu að skýrslan uppfylli skilyrði laganna og reglugerðar nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum. Í samræmi við fyrirmæli 13. gr. laga nr. 106/2000 hafi Matvælastofnun kynnt sér matsskýrslu framkvæmdarinnar og tekið skýra afstöðu til álits Skipulagsstofnunar, sbr. greinargerð Matvælastofnunar, dags. 22. desember 2017. Framangreind málsmeðferð sé því að fullu í samræmi við fyrirmæli laga nr. 106/2000.

Í matsskýrslu og áliti Skipulagsstofnunar sé fjallað ítarlega um þá þætti er snúi að mengun hafs og stranda og grein gerð fyrir áhrifum framkvæmdarinnar á sjávarlíf, þ.m.t. á villta stofna laxfiska. Þannig hafi sérstaklega verið fjallað um hættu á slysasleppingum, fisksjúkdómum og erfðablöndun. Þá sé gerð grein fyrir helstu áhættuþáttum vegna hvers þessara þátta, mögulegum mótvægisaðgerðum og eftirliti. Við undirbúning hafi leyfishafi kannað vöktunarþætti og mögulegar mótvægisaðgerðir og lagt mat á þær. Þar komi meðal annars fram að helstu mótvægisaðgerðir gegn slysasleppingum og erfðablöndun felist í að vanda til eldisbúnaðar og merkinga á honum, taka mið af áhættuþáttum við staðarval, fylgja ströngustu stöðlum, kynna verklagsreglur fyrir starfsmönnum o.s.frv. Helsta vörn gegn smitsjúkdómum og dreifingu sé bólusetning eldisseiða, kynslóðaskipt eldi, þriggja mánaða hvíld eldissvæða, gott bil á milli eldiskvía og vandað verklag. Þá sé fjallað um lífræn næringarefni og förgun úrgangs.

Í áliti Skipulagsstofnunar hafi verið fjallað um framangreind atriði og lagt hlutlægt mat á þau, auk þess sem fjallað hafi verið um athugasemdir umsagnaraðila og annarra aðila. Að mati Skipulagsstofnunar muni helstu neikvæðu áhrif fyrirhugaðs fiskeldis leyfishafa felast í áhrifum á fisksjúkdóma, laxalús, náttúrulega stofna laxfiska og botndýralíf. Þannig felist helstu neikvæðu áhrif framkvæmdanna m.a. í aukinni hættu á að sjúkdómar og laxalús berist frá eldinu í villta laxfiskastofna, einkum sjóbirting, sem dvelji í sjó í Patreksfirði og Tálknafirði hluta úr ári. Stofnunin hafi talið mikilvægt að tryggt yrði að eldisbúnaður væri í samræmi við kröfur viðurkenndra staðla til að draga eins og kostur sé úr þeirri hættu. Einnig hafi Skipulagsstofnun talið mikilvægt að vöktun á lífríki hafsbotns á eldissvæðunum yrði í samræmi við viðurkennda staðla og að mat á burðarþoli yrði uppfært í samræmi við vöktun á ástandi sjávar. Tekið hafi verið fullt tillit til þessara atriða við hinar kærðu leyfisveitingar.

Hvað varði málatilbúnað kærenda vegna sjúkdómahættu sé rétt að benda á að Ísland sé mjög framarlega á heimsvísu þegar komi að heilbrigði eldisfiska og nánast engin sýklalyf séu notuð í sjókvíaeldi hér á landi. Þess megi enn fremur geta að fyrirætlanir leyfishafa geri ráð fyrir svokölluðu kynslóðaskiptu eldi, sem feli í sér að kvíasvæðin séu hvíld í að lágmarki þrjá mánuði eftir hverja slátrun. Á þeim tíma hreinsi hafstraumar svæðin af áhrifum eldisins. Þannig sé aðeins ein kynslóð eldisfisks á hverju sjókvíaeldissvæði á hverjum tíma. Þetta sé gert til að hindra að sjúkdómar og lús berist á milli kynslóða og til að hreinsa svæðið á náttúrulegan hátt.

——-

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur farið yfir öll gögn og haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Ágreiningur máls þessa snýst um ákvarðanir Matvælastofnunar frá 22. desember 2017 um að veita rekstrarleyfi fyrir annars vegar 6.800 tonna og hins vegar 10.700 tonna ársframleiðslu á laxi í sjókvíum í Patreksfirði og Tálknafirði. Svo sem greinir í málavaxtalýsingu kvað úrskurðarnefndin upp úrskurði 27. september 2018, í kærumálum nr. 3 og 5/2018, þar sem greindar ákvarðanir voru felldar úr gildi. Hvað sem líður meintum skorti kærenda á lögvörðum hagsmunum er ljóst að þar sem hinar kærðu ákvarðanir hafa ekki lengur réttarverkan að lögum hafa kærendur ekki hagsmuni af efnisúrlausn málsins. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist lítillega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.