Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

104/2017 Grafarholtsvöllur

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 25. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 104/2017, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 30. ágúst 2017 um að aðhafast ekki frekar vegna kvartana um hávaða vegna grassláttar á Grafarholtsvelli Golfklúbbs Reykjavíkur.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. september 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir eignandi, Ólafsgeisla 26, Reykjavík, þá ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 30. ágúst 2017 að aðhafast ekki frekar vegna kvartana hans um hávaða vegna grassláttar á Grafarholtsvelli Golfklúbbs Reykjavíkur. Verður að skilja málatilbúnað kæranda svo að þess sé þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 26. október 2017 og 25. september 2018.

Málavextir: Hinn 15. júlí 2017 kvartaði kærandi til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur yfir hávaða vegna grassláttar á Grafarholtsvelli Golfklúbbs Reykjavíkur, sem byrjað hefði kl. 06:30 á flötum neðan við Ólafsgeisla. Í bréfi heilbrigðiseftirlitsins til kæranda, dags. 30. ágúst 2017, kemur fram að gerð hafi verið mæling á hljóðstigi sem hafi sýnt að hávaði vegna grassláttar færi ekki yfir viðmiðunarmörk eftir kl. 07:00 á morgnana. Verklag golfklúbbsins hafi í samræmi við þær niðurstöður verið að grassláttur á þeim hluta vallarins sem liggi nálægt heimili kæranda hæfist eftir kl. 07:00. Heilbrigðiseftirlitið hefði ekki geta staðfest kvartanir kæranda um hávaða vegna sláttar á golfvellinum og myndi því ekki aðhafast nema frekari gögn kæmu fram sem bentu til að aðstæður hefðu breyst.

Málsrök kæranda:
Kærandi bendir á að hann hafi um árabil kvartað yfir hávaða vegna grassláttar á golfvelli Golfklúbbs Reykjavíkur. Hann vefengi þá mælingu sem Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur vitni til í ákvörðun sinni þar sem starfsmenn golfklúbbsins hafi verið upplýstir um að mæling skyldi fara fram á tilsettum tíma. Erfitt sé fyrir hann að skilja hvernig hægt sé að sinna kvörtunum og athuga réttmæti þeirra þegar atburðurinn hafi átt sér stað. Ekki sé hægt að hafa samband símleiðis við eftirlitið á þeim tíma þegar slátturinn eigi sér stað snemma morguns. Heilbrigðiseftirlitið sinni ekki leiðbeiningarskyldu sinni, sem stofnuninni sé skylt að gera samkvæmt stjórnsýslulögum nr. 37/1993. Meðalhófs hafi ekki verið gætt þar sem einungis sé hlustað á útskýringar forsvarsmanna Golfklúbbs Reykjavíkur um aðstæður og atvik. Á meðan heilbrigðiseftirlitið hvorki beiti né hóti að beita viðurlögum við þessum brotum þá muni þau halda áfram.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur er bent á að ekki hafi verið hægt að staðfesta það ónæði sem kærandi upplifi vegna hávaða vegna sláttar. Kvartanir hafi borist eftir atburðinn og því hafi reynst erfitt að sannreyna þær. Kvörtunum hafi verið sinnt með þeim hætti að gerð hafi verið hljóðmæling. Haft hafi verið samband við forráðamenn Golfklúbbs Reykjavíkur og starfsmenn golfvallarins og þeim gerð grein fyrir kvörtunum og farið yfir hvenær sláttur hafi byrjað. Einnig hafi þeim verið gerð grein fyrir ákvæðum reglugerðar nr. 814/2008 um hávaða og hvaða reglur og mörk giltu um hávaða frá starfseminni. Auk þess hafi verið fundað með forráðamönnum golfklúbbsins vegna málsins. Niðurstöður hljóðmælinga hefðu verið þær að ef sláttur hæfist eftir kl. 07:00 á morgnana á þeim svæðum golfvallarins sem næst séu heimili kæranda færi hávaði ekki yfir mörk reglugerðar. Forráðamenn golfklúbbsins staðhæfi að ekki sé byrjað að slá við það svæði á morgnana heldur sé farið að fyrirmælum heilbrigðiseftirlitsins þannig að sláttur hefjist þar eftir kl. 07:00. Heilbrigðiseftirlitið hafi í skoðun hvort mögulegt sé að fá hljóðmæli sem settur yrði upp við hús kæranda til að vakta yfir lengri tíma hvenær sláttur hefjist og hvort hávaði sé innan marka.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 30. ágúst 2017 að aðhafast ekki frekar vegna kvartana um hávaða vegna grassláttar á Grafarholtsvelli Golfklúbbs Reykjavíkur.

Eftir að kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni gerði Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hljóðmælingu við hús kæranda 6. júlí 2018 í samráði við Golfklúbb Reykjavíkur. Niðurstaða mælinganna var að hljóðstig hefði mælst yfir næturmörkum reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða. Heilbrigðiseftirlitið sendi golfklúbbnum bréf, dags. 13. og 18. sama mánaðar, þar sem gerðar voru þær kröfur að golfklúbburinn myndi virða ákvæði reglugerðarinnar og sláttur hæfist ekki á brautum 4-9 fyrir kl. 07:00 á virkum dögum og kl. 10:00 um helgar. Þá kemur fram í tölvupósti starfsmanns heilbrigðiseftirlitsins til úrskurðarnefndarinnar frá 21. september 2018 að golfklúbburinn hafi boðist til að nota rafmagnssláttuvélar og heilbrigðiseftirlitið boðist til að hljóðmæla vélarnar til að sannreyna hvort þær væru nægilega hljóðlátar til að vera undir næturmörkum. Einnig sé fyrirhugað að setja upp búnað til hljóðmælinga í lengri tíma nálægt húsi kæranda.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Að virtum framgangi málsins eftir að kæra í málinu barst verður ekki séð að kærandi hafi lengur lögvarða hagsmuni af því að tekin verði afstaða til lögmætis þeirrar ákvörðunar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 30. ágúst 2017 að aðhafast ekki frekar. Er enda ljóst að heilbrigðiseftirlitið hefur sannanlega aðhafst frekar í málinu, auk þess sem það er enn í vinnslu af hálfu heilbrigðiseftirlitsins og Golfklúbbs Reykjavíkur. Að teknu tilliti til framangreinds verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við ákvæði fyrrgreindrar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

120/2017 Langholtsvegur

Með

Árið 2018, föstudaginn 26. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 120/2017, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. september 2017 um að synja umsókn um byggingarleyfi vegna endurbyggingar anddyris og byggingar sólskála við hús nr. 138 við Langholtsveg í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. október 2017, er barst nefndinni 11. s.m., kæra lóðarhafar Langholtsvegar 138, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. september 2017 að synja umsókn þeirra um leyfi til að endurbyggja anddyri og byggja sólskála við hús þeirra á nefndri lóð. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að skipulagsyfirvöldum verið gert að endurskoða deiliskipulag og kvaðir fyrir umrætt hús, þannig að kærendum verði gert kleift að viðhalda eigininni og nýta líkt og almenn lög kveði á um.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 10. apríl 2018.

Málavextir: Með umsókn, dags. 28. júní 2017, sóttu kærendur um leyfi til að byggja anddyri úr tré, klætt með stálklæðningu, á norðurhlið hússins að Langholtsvegi 138 og til að byggja sólskála á suðurhlið hússins. Umsóknin var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 18. júlí 2017 en afgreiðslu málsins var frestað. Var erindið tekið fyrir að nýju á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 1. ágúst s.á. og vísað til skipulagsfulltrúa til umsagnar. Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 8. september s.á., var lagst gegn umsóttum breytingum með þeim rökum að fyrirhugaðar framkvæmdir rúmuðust ekki innan skilmála gildandi deiliskipulags þar sem anddyri væri utan skilgreinds byggingarreits og sólskáli næði út fyrir gafl í stað þess að vera inndreginn líkt og gerð væri krafa um í deiliskipulagi. Tók skipulagsfulltrúi fram að breidd sólskálans væri umfram leyfilega breidd samkvæmt kennisniði fyrir sænsk timburhús. Byggingarfulltrúi synjaði síðan umsókn kærenda á fundi sínum 12. september 2017 með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa og var kærendum tilkynnt um þá niðurstöðu með bréfi, dags. 13. s.m. Var sú ákvörðun byggingarfulltrúa staðfest í borgarráði 14. september 2017.

Málsrök kærenda: Kærendur telja framlagðar teikningar rúmast innan byggingarreits og falla vel að húsinu. Forsendur hinnar kærðu ákvörðunar séu að breytingar samræmist ekki deiliskipulagi en í umsögn skipulagsfulltrúa sé vísað í deiliskipulag sem samþykkt hafi verið í borgarráði árið 2010. Stækkun anddyris sé hafnað sem um nýbyggingu væri að ræða en ekki endurgerð og stækkun á húshluta sem fyrir sé. Sjá megi á öllum teikningum, fyrir utan þá sem hafi verið til grundvallar deiliskipulagi, að anddyri hafi verið á húsinu í nærri hálfa öld. Bundin byggingarlína ætti að miðast við húsið með anddyri og tröppum að inngangi. Kominn sé tími á töluvert viðhald og taki tímasetning umsóknar mið af því.

Ákvörðun skipulagsfulltrúa beri vott um vanþekkingu á hverfinu og á umræddu húsi. Ekki verði annað skilið af svörum skipulagssviðs en að á árinu 2010 hafi verið dregin lína milli húsa að norðanverðu, kölluð „bundin byggingarlína“, þar sem undanskilin séu anddyri, tröppur og skyggni á húsunum. Umrætt hverfi hafi byggst upp í lok seinna stríðs og því hafi verið orðin talsvert mótuð byggð í hverfinu árið 2010 með miklum gróðri og blómlegu síbreytilegu mannlífi. Í tímans rás hafi hús og nánasta umhverfi verið aðlöguð að þeim félagslegu þörfum sem fylgi kynslóðum á hverjum tíma. Víða hafi byggingar risið yfir þessa línu, svo sem bílskúrar, stigamannvirki og anddyri. Ekki verði séð að umrædd byggingarlína sé gild forsenda „fínlegrar byggðar“. Rökstuðningur um fínlega byggð sé ekki boðleg stjórnsýsla nema frekari skilgreining liggi fyrir. Jafnframt séu það einkennileg rök að „húskroppar“ séu fínlegri ef þeir hafi ekkert anddyri, sérstaklega þegar fyrir sé viðbygging sem þar hafi verið í næstum hálfa öld. Teikning af henni ætti að vera til í safni skipulagssviðs en hún sé af einhverjum ástæðum ekki skráð hjá embætti byggingarfulltrúa.

Ekki verði betur séð en að umsögn skipulagsfulltrúa miði við að húsið teljist til sænsku timburhúsanna, sem njóti einhvers konar hverfisverndar í deiliskipulagi. Engin rök liggi fyrir því að hús kærenda sé flokkað sem sænskt timburhús, þ.e. innflutt tilbúið hús, enda sé það ekki og hafi aldrei verið sænskt timburhús. Sjarmi hverfisins felist í því að þar séu alls kyns hús með ýmsu sniði og við þau standi ýmsar síðar reistar, enda mörg húsanna byggð af íbúunum sjálfum og hafi tekið breytingum eftir því sem tímarnir og umgjörð mannlífsins breyttist. Fínleiki hverfisins stjórnist ekki af „samræmi“ í norðurútveggjum húsanna. Verulega skökku skjóti við að í samþykktu deiliskipulagi sé heimilt að meira en tvöfalda flatarmál hússins, sé tekið mið af byggingarreit til suðurs og vesturs. Þá verði rök um að viðhalda „fínlegu yfirbragði“ haldlítil.

Synjun á umsókn um byggingarleyfi hafi þær afleiðingar að kærendum sé gert ókleift að halda húsinu við með löglegum hætti.

Málsrök Reykjavíkurborgar:
Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að ljóst sé að fyrirhugaður sólskáli nái út fyrir gafl umrædds húss og brjóti það fyrirkomulag í bága við gildandi deiliskipulag. Samkvæmt skipulaginu verði viðbyggingar að vera inndregnar frá göflum húsa. Breidd sólskálans sé enn fremur umfram leyfilega breidd, sem sé 3,9 m. Fyrirhugað anddyri á norðurhlið sé jafnframt fyrir utan bundna byggingarlínu og því ekki innan heimildar gildandi deiliskipulags. Ekki sé neinu anddyri til að dreifa á upprunalegum uppdráttum að húsinu samþykktum í byggingarnefnd Reykjavíkur 27. febrúar 1947.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk hennar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála, eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Einskorðast valdheimildir úrskurðarnefndarinnar lögum samkvæmt við endurskoðun á lögmæti þeirra ákvarðana sem undir hana verða bornar. Samkvæmt framangreindu er það utan valdsviðs nefndarinnar að leggja fyrir skipulagsyfirvöld að endurskoða deiliskipulag og kvaðir fyrir umrætt hús og verður því ekki tekin afstaða til kröfu kærenda þar að lútandi.

Í gildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er lóðin nr. 138 við Langholtsveg á svæði merktu ÍB27. Um svæðið segir m.a. að það sé fullbyggt og fastmótað og að yfirbragð byggðarinnar sé nokkuð fjölbreytt, en lágreist byggð einkenni það.

Deiliskipulag Vogahverfis tók gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 14. október 2010. Umrædd lóð er á svæði A samkvæmt skipulaginu en í skilmálum þess um svæðið kemur m.a. fram að lóðir séu almennt 550-650 m2, mikið sé um sænsk timburhús og áhersla sé lögð á að halda í fíngert yfirbragð byggðar. Ekki skuli breikka húskroppa en heimilt sé að lengja hús þar sem lóðaraðstæður leyfi eða reisa viðbyggingar sem verði inndregnar frá göflum húss. Bundin byggingarlína sé skáhallt á götu og hús í 3 m fjarlægð frá lóðarmörkum vestan við götu en í 6 m fjarlægð frá lóðarmörkum austan við götu. Samkvæmt uppdrætti gildandi deiliskipulags afmarkast byggingarreitur umræddrar lóðar m.a. af norðurhlið hússins sem á lóðinni stendur.

Í umsókn kærenda var óskað leyfis til byggingar sólskála og viðbyggingar við aðalinngang hússins og að fyrirhugað anddyri yrði byggt við norðurgafl þess og færi því út fyrir skilgreindan byggingarreit í deiliskipulagi. Fyrirhugaður sólskáli nær samkvæmt umsókninni út fyrir vesturgafl hússins og uppfyllir því ekki skilyrði deiliskipulags um að heimilaðar viðbyggingar skuli vera inndregnar frá göflum húsa. Var byggingarleyfisumsókn samkvæmt þessu ekki í samræmi við heimildir gildandi deiliskipulags.

Í byggingarlýsingu teikninga sem fylgdu umsókninni segir m.a. að rifinn verði áður gerður inngangsskáli sem aldrei hafi verið samþykki fyrir og hefur komið fram af hálfu borgaryfirvalda að anddyrið sé ekki á upprunalegum uppdráttum hússins frá árinu 1947. Liggur því ekki fyrir að veitt hafi verið byggingarleyfi fyrir núverandi anddyri hússins.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis m.a. að mannvirkið og notkun þess sé í samræmi við gildandi skipulag á svæðinu. Var byggingarfulltrúa því ekki heimilt að samþykkja byggingarleyfisumsókn kærenda að óbreyttu deiliskipulagi.

Með tilliti til þess sem að framan greinir verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að fella úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. september 2017 um að synja umsókn um byggingarleyfi vegna endurbyggingar anddyris og byggingar sólskála við hús nr. 138 við Langholtsveg í Reykjavík.

21 og 84/2018 Kvosin – Landsímareitur

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 8. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 21/2018, kæra á samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 8. nóvember 2017 um breytingu á deiliskipulagi Kvosarinnar vegna Landsímareits.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. febrúar 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir sóknarnefnd Dómkirkjunnar í Reykjavík, fyrir hönd kirkjunnar, þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 8. nóvember 2017, sem borgarstjórn samþykkti 5. desember s.á., að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kvosarinnar, Landsímareits. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags 11. júní 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir sami aðili „ákvörðun umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkur 22. maí 2018 um byggingarleyfi […] til að byggja í Víkurkirkjugarði nýbyggingu með kjallara við Kirkjustræti“, sbr. umsókn nr. 53964. Verður kæran skilin á þann hátt að kærð sé sú ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. maí 2018 að samþykkja byggingarleyfi vegna endurbyggingar og nýbyggingar að Thorvaldsensstræti 2 og 4 og Aðalstræti 11. Er jafnframt krafist stöðvunar framkvæmda. Verður síðara kærumálið, sem er nr. 84/2018, sameinað máli þessu þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar og sami aðili stendur að kærunum. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 28. júní, 31. ágúst og 11. september 2018.

Málavextir: Hinn 12. janúar 2018 tók gildi breyting á deiliskipulagi Kvosarinnar, Landsímareits, með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda. Samkvæmt auglýsingunni felur breytingin í sér „að borgarlandinu/lóðinni á milli lóðanna Vallarstrætis 4 og Aðalstrætis 7 verði skipt upp á milli þeirra og lóðirnar stækkaðar sem því nemur og leyfilegt verði að fjarlægja viðbyggingu frá árinu 1967 við Landsímahúsið/Thorvaldsensstræti 6 og byggja hana aftur í sömu mynd.“

Byggingarleyfi til niðurrifs friðlýsts samkomusalar á baklóð nr. 2 við Thorvaldsensstræti og niðurrifs viðbyggingar við Landsímahúsið frá 1967 var gefið út 23. febrúar 2018. Hinn 15. maí s.á. samþykkti byggingarfulltrúinn í Reykjavík á afgreiðslufundi sínum umsókn nr. BN053964 um leyfi til að dýpka kjallara og endurbyggja Thorvaldsensstræti 2, til að lyfta þaki Thorvaldsensstrætis 4 og byggja á það Mansardþak með kvistum, til að byggja fjögurra hæða nýbyggingu, til að endurbyggja Aðalstræti 11 með breyttu þaki og til að innrétta í öllum húsunum 145 herbergja hótel í flokki IV með veitingahúsi, kaffihúsi, verslunum og samkomusal á lóð nr. 2 við Thorvaldsensstræti.

Málsrök kæranda:
Af hálfu kæranda er farið fram á að hið samþykkta deiliskipulag og byggingarleyfi verði fellt úr gildi. Víkurgarður sé í umsjá Dómkirkjunnar sem hafi aldrei afsalað sér forræði eða umsjón garðsins. Af þeirri ástæðu sé Dómkirkjunni bæði rétt og skylt að gæta þeirra hagsmuna sem henni séu fengnir m.a. með því að koma í veg fyrir heimildalausa ráðstöfun í landi kirkjugarðsins og vanvirðingu við lögverndaðan helgan reit. Umrædd stækkun og gerð kjallara verði að verulegu leyti í austurhluta hins forna Víkurgarðs ásamt því að aðalinngangi hótelsins sé þannig fyrir komið að þeir sem eigi erindi að hótelinu og frá því verði óhjákvæmilega að fara um Víkurgarð. Ekki verði séð að skipulagsyfirvöld hafi gætt rannsóknarskyldu sinnar og kannað hver hafi forráð á landi hins forna Víkurgarðs. Reykjavíkurborg hafi ekki slíka heimild og því sé löglaust sérhvert það leyfi sem Reykjavíkurborg hafi gefið út til að raska garðinum.

Í 6. gr. laga nr. 36/1993 um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu segi m.a. að ekki megi reisa mannvirki, starfrækja stofnanir eða reka fyrirtæki, sem frá stafi hávaði eða ys í nánd við kirkjugarða. Í 33. gr. komi síðan fram að niðurlagðan kirkjugarð megi ekki nota til neins þess sem óviðeigandi sé að mati prófasts (prófasta). Ekki megi þar jarðrask gera né reisa nein mannvirki. Skipulagsyfirvöld hafi ekki sýnt fram á að fyrir liggi afstaða prófasts þess efnis að bygging hótels og veitingastaðar þar sem útgangur sé út í hjarta Víkurgarðs sé viðeigandi notkun. Hvorki liggi fyrir afstaða ráðuneytisins né samþykki prófasts.

Með framkvæmdunum muni umferð aukast, ásamt því að ófriður verði meiri við núverandi kirkju. Svipmót Kvosarinnar muni breytast og Austurvöllur verði ekki sama griðlandið og áður. Hin óáþreifanlega tilfinning fyrir Kvosinni muni hverfa.

Málsrök Reykjavíkurborgar:
Borgaryfirvöld krefjast þess aðallega að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kærandi uppfylli ekki skilyrði aðildar, sbr. ákvæði 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Samkvæmt ákvæðinu geti þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra eigi nema í undantekningartilvikum. Skýra verði ákvæðið í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild í kærumálum þar sem áskilið sé að kærandi eigi beina og einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem um ræði.

Kærandi, sóknarnefnd Dómkirkjunnar í Reykjavík, sé hvorki eigandi að landi né beinn hagsmunaaðili heldur opinber stofnun. Hafi kærandi því hvorki beina né einstaklingsbundna hagsmuni af úrlausn þeirra krafna sem fram komi í kæru. Undantekningarákvæði í a- til c-lið 3. mgr. 4. gr., um hefðbundin skilyrði fyrir aðild að stjórnsýslumáli, eigi ekki við um kæranda, en engum öðrum lagaákvæðum sé til að dreifa um aðild að kærumálum fyrir úrskurðarnefndinni.

Reykjavíkurborg sé eigandi og hafi umráðarétt yfir lóð gamla kirkjugarðsins, Víkurgarði, og liggi fyrir beinn eignarréttur borgarinnar að henni frá árinu 1792. Jafnframt liggi fyrir að Reykjavíkurborg hafi farið með lóð kirkjugarðsins sem sína eign að minnsta kosti frá niðurlagningu Víkurgarðs árið 1837.

Þá hafi kærufrestur verið liðinn vegna deiliskipulagsbreytingarinnar þegar kæra barst úrskurðarnefndinni 13. febrúar 2018, en auglýsing um breytinguna hafi verið birt í B-deild Stjórnartíðinda 12. janúar 2018. Því hafi kæran borist degi of seint, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Verði málinu ekki vísað frá sé þess krafist að kröfum kæranda verði hafnað.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi gerir kröfu um að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni bæði hvað varði deiliskipulagið og byggingarleyfið. Hvergi sé vikið að því að hin kærða ákvörðun kunni að snerta hagsmuni Dómkirkjunnar sem eiganda fasteignar í nágrenni skipulagssvæðisins, enda sé engum slíkum hagsmunum til að dreifa. Dómkirkjan sé skráð sem opinber aðili og lúti kæran eins og hún sé sett fram í raun að gæslu opinberra hagsmuna. Hafi gæsla slíkra hagsmuna ekki verið talin grundvöllur aðildar að kærumáli til æðra stjórnvalds þrátt fyrir að opinberar stofnanir hafi eftirlitsskyldu og visst forræði á viðkomandi málefnum. Sem dæmi megi nefna úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í kærumálum nr. 53 og 54/1999 og úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í kærumáli nr. 40/2014.

Að auki hafi kærandi í raun ekki það forræði á málefnum Víkurgarðs sem hann byggi málatilbúnað sinn á. Liggi því ekki fyrir að hann eigi neina þá hagsmuni, hvorki opinbera né einstaklega lögvarða hagsmuni að einkarétti, sem hann geti reist aðild sína á.

Verði málinu ekki vísað frá krefjist leyfishafi þess að kröfum kæranda verði hafnað.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi hafnar því að hann hafi ekki lögvarða hagsmuni af efnislegri ákvörðun úrskurðarnefndarinnar til kæruefnisins. Ekki sé ljóst á hverju sú afstaða sé byggð að Reykjavíkurborg hafi eignarrétt eða annars konar yfirráðarétt yfir þeim hluta Víkurgarðs þar sem fyrirhugað sé að gera kjallara. Reykjavíkurborg sé hvorki þinglesinn eigandi þess lands né lóðar og því séu heimildir þær sem leyfishafi telji sig hafa til umrædds hluta kirkjugarðsins marklausar. Víkurgarður hafi ekki verið formlega aflagður og sé hann því undir forræði Dómkirkjunnar lögum samkvæmt. Gagnaðilum tjái ekki að bera fyrir sig gerninga sem séu í andstöðu við forræði Dómkirkjunnar, en réttur kirkjunnar yfir landi/lóð kirkjugarðsins sé óskertur enn í dag. Það sé sóknarnefnd kirkjunnar og kirkjugarðaráð sem ákveði hvernig fara eigi um kirkjugarða sem hætt sé að jarðsetja í. Réttur þessi sé ófrávíkjanlegur og óundanþægur.

Ekki hafi verið leitað leyfis til þeirra ráðstafana sem um sé deilt í samræmi við lög nr. 36/1993 um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu. Því séu allar aðgerðir leyfishafa í garðinum og samþykki Reykjavíkurborgar heimildarlausar og stríði gegn lögum.

Þar sem Dómkirkjan fari með umráð og eignarrétt að landi Víkurgarðs fari ekki milli mála að það sé hlutverk hennar og skylda að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lúti að, þ.e. vernd Víkurgarðs alls, þar með töldum þeim hluta hans sem leyfishafi hyggist nota undir kjallara hótelbyggingarinnar. Sóknarnefnd Dómkirkjunnar geti ekki vikist undan því að gæta hagsmuna kirkjunnar í hvívetna og þar með koma í veg fyrir að kirkjugarðurinn verði misnotaður í andstöðu við lög og helgi garðsins. Vegna þeirra réttinda sem Dómkirkjan hafi yfir Víkurgarði svo og þeirra skyldna sem lög leggi á herðar kirkjunni verði lögvarðir hagsmunir hennar af efnisúrlausn nefndarinnar ekki dregnir í efa.

Auk þeirra hagsmuna sem Dómkirkjan hafi sem eigandi og umráðamaður Víkurgarðs hafi Dómkirkjan einnig grenndarhagsmuni. Dómkirkjan sé staðsett í örskotsfjarlægð frá Víkurgarði og hafi því lögvarða hagsmuni af því hvernig staðið sé að skipulagi og byggingarframkvæmdum í grennd við kirkjuna. Hún hafi framtíðarhagsmuni af því að umferð og umgangur í grennd við kirkjuna aukist ekki frá því sem nú sé. Því stærri sem hótelbyggingin verði því meiri verði umferðin og skarkalinn sem fylgi, en slíkt muni draga úr þeirri friðsemd og ró sem rétt sé að ríki við kirkjuna.

Hugtakið lögvarðir hagsmunir í stjórnsýslurétti sé óljóst og vandmeðfarið. Verði að gæta þess sérstaklega að reglunni sé ekki beitt með þeim hætti að það auðveldi stjórnvöldum að fara sínu fram að geðþótta, án þess að fara að lögum, heldur láti annarlega hagsmuni ráða för.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi tekið þá afstöðu að sóknarnefndin hafi lögvarða hagsmuni af efnisákvörðun í málinu þegar hún hafi tekið efnisafstöðu vegna kröfu sóknarnefndarinnar um stöðvun framkvæmda í málum nr. 21 og 22/2018. Með því hafi úrskurðarnefndin fallist á aðild hagsmunasamtakanna vegna breytinga á deiliskipulaginu.

Þá hafi Reykjavíkurborg viðurkennt aðild kæranda með því að afhenda því öll gögn varðandi afgreiðslu umsóknar leyfishafa vegna byggingarleyfis.

Niðurstaða: Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kemur fram að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir sem eigi lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök hafa þó að tilteknum skilyrðum uppfylltum heimild til að kæra til nefndarinnar nánar tilgreindar ákvarðanir, en kærandi er ekki slík samtök. Í samræmi við aðildarhugtak stjórnsýsluréttarins hefur nefnd 3. mgr. 4. gr. verið túlkuð svo að þeir einir geti talist eiga lögvarða hagsmuni sem eigi einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Þátttaka á lægra stjórnsýslustigi, hverju sem hún hefur falist í, t.a.m. með að fá afhend gögn og koma að athugasemdum við meðferð máls, leiðir hins vegar ein og sér ekki til þess að kæruaðild skapist.

Kærandi byggir aðild sína m.a. á því að Dómkirkjan í Reykjavík hafi eignar- og umráðarétt á landi Víkurgarðs. Undir rekstri málsins fyrir úrskurðarnefndinni hafa orðið breytingar á þinglesnum heimildum hvað varðar kirkjugarðinn. Hinn 15. ágúst 2018 var móttekið til þinglýsingar skjal undirritað af ráðherra Íslands, dags. 21. október 1904. Kunngjörir ráðherra þar að Reykjavíkurkaupstað sé afsöluð lóð kirkjugarðs í Reykjavík er lagður hefði verið niður á árinu 1837. Var skjalið fært inn í þinglýsingarbækur 6. september 2018. Getur sóknarnefnd Dómkirkjunnar því ekki byggt aðild sína á eignar- og umráðarétti yfir Víkurgarði.

Kærandi heldur því einnig fram að þar sem Víkurgarður hafi ekki verið formlega aflagður sé hann enn á forræði sínu. Fjallað er um ákvarðanir um að hætt skuli að grafa í kirkjugarði og um niðurlagningu kirkjugarðs í VIII. kafla laga nr. 36/1993 um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu. Í almennum athugasemdum með frumvarpi því sem varð að nefndum lögum er fjallað um greftrun líka og þróun kirkjugarðalöggjafar og kemur þar fram að fyrstu heillegu lögin um kirkjugarða og viðhald þeirra hafi verið lög frá 8. nóvember 1901, sbr. og reglugerð 16. ágúst 1902. Þá er í athugasemdum með nefndum VIII. kafla laganna vísað til þess að sambærileg heimild og nú er í 32. gr., um að aflagðan kirkjugarð megi fá í hendur hlutaðeigandi sveitarfélagi sem almenningsgarð, hafi áður verið í 7. gr. kirkjugarðslaga 1901, 20.-23. gr. laga nr. 64/1932 og 21.-23. gr. laga nr. 21/1963. Liggur og fyrir að seint á 19. öld fékk landlæknir afnot garðsins og lét hann gera þar skrúðgarð. Í fyrrnefndu skjali ráðherra frá árinu 1904, sem staðfestir eignarhald Reykjavíkurborgar á kirkjugarðinum, kemur enn fremur fram að kirkjugarðurinn hafi verið lagður niður árið 1837. Verður að öllu virtu að leggja til grundvallar að um niðurlagðan kirkjugarð sé í raun að ræða. Samræmist það og t.a.m. því sem m.a. kemur fram í umsögn Minjastofnunar Íslands frá 31. maí 2013, vegna deiliskipulagsbreytingar á þeim tíma, að trúlega hafi verið jarðsett í garðinum frá upphafi kristni en síðast 1838. Verður aðild kæranda því ekki heldur viðurkennd á þeim grundvelli að Víkurgarður hafi ekki verið niðurlagður og sé því á forræði kæranda.

Í VIII. kafla laga nr. 36/1993 er einnig að finna ákvæði um hvernig farið verði með niðurlagðan kirkjugarð. Samkvæmt 1. mgr. 33. gr. laganna er óheimilt að nota niðurlagðan kirkjugarð til nokkurs sem óviðeigandi er að dómi prófasts (prófasta) og má ekki gera þar jarðrask né reisa nein mannvirki. Ráðuneytið getur þó veitt undanþágu frá þessu, að fengnu samþykki kirkjugarðaráðs, en kirkjugarðaráð hefur yfirumsjón með kirkjugörðum landsins, sbr. 1. mgr. 11. gr. laganna. Samkvæmt því ákvæði eiga sæti í ráðinu biskup Íslands eða fulltrúi hans, forstöðumaður Fornleifaverndar ríkisins eða fulltrúi hans, einn fulltrúi tilnefndur af Kirkjugarðasambandi Íslands, einn fulltrúi tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og einn fulltrúi kosinn af kirkjuþingi. Að öðru leyti er í nefndum kafla laganna gert ráð fyrir aðkomu og samráði kirkjugarðsstjórnar í kjölfar niðurlagningar kirkjugarðs, en sóknarnefnd fer jafnan með hlutverk kirkjugarðsstjórnar, sbr. 2. mgr. 8. gr. fyrrnefndra laga. Því er þó ekki svo háttað í Reykjavík þar sem kirkjugarðsstjórn Reykjavíkurprófastsdæma gegnir því hlutverki, eins og fram kemur í nefndum VIII. kafla. Því er ljóst að sóknarnefnd Dómkirkjunnar er ekki réttur aðili til að taka afstöðu til þess hvernig fara eigi með hinn niðurlagða kirkjugarð og verður kæruaðild hennar ekki á því reist.

Að auki byggir kærandi aðild sína á grenndarhagsmunum Dómkirkjunnar. Við mat á því hvort kærandi hafi slíkra hagsmuna að gæta verður að líta til þess að Dómkirkjan er staðsett í ríflega 100 m fjarlægð frá þeim reit þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Er ljóst af staðháttum að hagsmunir kæranda munu ekki skerðast á nokkurn hátt að því er varðar skuggavarp, útsýni eða innsýn. Þá verður ekki séð að með starfrækslu hótels verði slík aukning á umferð eða umgangi í miðborginni að svo veruleg áhrif hafi á hagsmuni kæranda að þeir teljist lögvarðir í skilningi 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Loks hefur bráðabirgðaúrskurður úrskurðarnefndarinnar ekki þýðingu um aðild kæranda, enda fólst í honum eingöngu sú afstaða að ekki væri tilefni til að fallast á þá kröfu kæranda að framkvæmdir yrðu stöðvaðar til bráðabirgða.

Með hliðsjón af öllu því sem að framan er rakið telst kærandi ekki eiga kæruaðild vegna ágreinings um lögmæti hinnar umdeildu deiliskipulagsbreytingar og samþykktar hins kærða byggingarleyfis. Verður máli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

3, 4, 5, 6 og 12/2018 Beiðni um frestun réttaráhrifa

Með

Árið 2018, föstudaginn 5. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Geir Oddsson umhverfis- og auðlindafræðingur.

Fyrir var tekin beiðni félaganna Fjarðalax ehf. og Arctic Sea Farm hf. um að fresta réttaráhrifum úrskurða í málum nr. 3, 4, 5, 6 og 12/2018, sem kveðnir voru upp 27. september og 4. október 2018.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með tölvupósti til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála 29. september 2018 kröfðust frestbeiðendur þess að réttaráhrifum úrskurða í málum nr. 3/2018 og 5/2018 yrði frestað á meðan málin væru til meðferðar fyrir dómstólum. Sama krafa var sett fram vegna ólokinna mála nr. 4 og 6/2018 yrði niðurstaðan sú að starfsleyfi þau sem þar væru kærð yrðu felld úr gildi. Með bréfum, dags. 1. og 2. október s.á., áréttuðu frestbeiðendur kröfu sína og tiltóku að hún ætti einnig við um mál nr. 12/2018. Einnig voru færð fram frekari rök fyrir kröfunni.

Frestur til athugasemda vegna framkominnar beiðni var veittur kærendum í málum nr. 3, 4, 5 og 6/2018, svo og Matvælastofnun og Umhverfisstofnun. Bárust athugasemdir stofnananna 2. október 2018 og athugasemdir kærenda bárust 3. s.m. Frestbeiðendum voru kynntar athugasemdirnar 4. s.m. og bárust frá þeim frekari athugasemdir sama dag.

Málavextir: Á fundi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála 27. september 2018 voru kveðnir upp úrskurðir í málum nr. 3/2018 og 5/2018. Með þeim úrskurðum voru felld úr gildi rekstrarleyfi Matvælastofnunar, sem veitt voru 22. desember 2017 til handa Fjarðalaxi annars vegar og Arctic Sea Farm hins vegar vegna laxeldis í sjókvíum í Patreksfirði og Tálknafirði. Starfsleyfi veitt af Umhverfisstofnun vegna sama eldis voru sömuleiðis felld úr gildi með úrskurðum nefndarinnar kveðnum upp 4. október 2018. Sama dag var vísað frá kröfum kærenda í kærumáli nr. 12/2018.

Málsrök frestbeiðenda:
Frestbeiðendur tiltaka að ákvörðun hafi verið tekin um að bera úrskurði nefndarinnar undir dómstóla og muni þeir fara fram á að málin sæti flýtimeðferð fyrir héraðsdómi, sbr. XIX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Til þess að málshöfðun sé raunhæf og hafi þýðingu fyrir félögin sé sett fram sú krafa að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála úrskurði að réttaráhrifum úrskurða í málum nr. 3, 4, 5, 6 og 12/2018 verði frestað þar til endanleg niðurstaða dómstóla liggi fyrir.

Í greinargerðum til úrskurðarnefndarinnar hafi verið farið ítarlega yfir þá tröllvöxnu hagsmuni sem séu í húfi fyrir félögin og íbúa Vestfjarða í heild sinni. Enginn þurfi að velkjast í vafa um það hvaða afleiðingar það hafi í för með sér fyrir félögin ef rekstrarleyfi og starfsleyfi séu ekki til staðar.

Krafa félaganna sé reist á grundvelli óskráðra meginreglna stjórnsýsluréttar um heimild æðra stjórnvalds til að fresta réttaráhrifum eigin ákvörðunar að eigin frumkvæði eða eftir atvikum að beiðni aðila máls í tilefni af því að ákveðið hafi verið að láta reyna á lögmæta þeirrar stjórnvaldsákvörðunar fyrir dómstólum. Byggi meginreglan á sjónarmiðum um að stjórnarskrárvarinn réttur manna til að bera mál sín undir dómstóla, og þá meðal annars í þeim tilgangi að æskja endurskoðunar dómstóla á lögmæti stjórnvaldsákvörðunar, verði að vera raunhæfur og virkur. Ef ekki nyti við heimildar æðra stjórnvalds til að fresta réttaráhrifum íþyngjandi ákvörðunar, a.m.k. við tilteknar aðstæður, kynni slík niðurstaða að leiða til verulegrar takmörkunar á réttaröryggi borgaranna með því að skerða raunhæfa möguleika aðila stjórnsýslumáls til að láta reyna á lögmæti þeirrar ákvörðunar hjá dómstólum. Telji félögin að þessi sjónarmið eigi við fullum fetum í máli þessu, enda sé þeim lögum samkvæmt óheimilt að starfrækja fiskeldisstöðvar án gildandi rekstrarleyfis. Í því samhengi sé lögð sérstök áhersla á að af líffræðilegum ástæðum verði rekstur fiskeldis ekki stöðvaður án þess að slíkt kalli samhliða á slátrun eða förgun eldisdýra og setji það allar rekstraráætlanir félaganna í uppnám. Slíkt hafi eðli málsins samkvæmt í för með sér gríðarlegt tjón fyrir beiðendur og vegi harkalega að rekstrargrundvelli þeirra. Séu þá ótalin veruleg afleidd áhrif á viðkvæm byggðarlög á Vestfjörðum, en beiðendur séu langstærsti vinnuveitandinn á svæðinu.

Um heimildir sjálfstæðra stjórnsýslunefnda til að fresta réttaráhrifum eigin úrskurða sé m.a. vísað til álits umboðsmanns Alþingis í málum nr. 3298/2001 og 3299/2001. Í álitinu hafi umboðsmaður Alþingis vísað til þess að lagt hafi verið til grundvallar að æðra stjórnvald hefði ólögfesta heimild til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar lægra stjórnvalds, sem nú væri lögfest í 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og að eðli máls samkvæmt ættu sömu sjónarmið við þegar metið væri hvort æðra stjórnvald hefði heimild í ólögfestum tilvikum til að fresta réttaráhrifum eigin ákvarðana. Hafi umboðsmaður talið að þegar æðra stjórnvald hefði í skjóli stöðu sinnar og valdheimilda, og með tilliti til sjónarmiða um réttaröryggi borgaranna, heimildir til endurupptöku máls eða til afturköllunar íþyngjandi ákvörðunar sinnar gæti það jafnframt gert það sem minna væri og frestað réttaráhrifum slíkrar ákvörðunar. Til samanburðar hafi umboðsmaður bent á danskan og norskan rétt. Hafi það verið álit umboðsmanns að gagnstæð niðurstaða kynni að leiða til verulegrar takmörkunar á réttaröryggi borgaranna með því að skerða raunhæfa möguleika aðila til að láta reyna á lögmæti stjórnvaldsákvörðunar hjá dómstólum. Í þessu sambandi hafi umboðsmaður rakið ákvæði stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 um rétt manna til aðgangs að dómstólum meðal annars í því skyni að láta reyna á lögmæti stjórnvaldsákvarðana.

Í dæmaskyni megi nefna grein Þorvalds Heiðars Þorsteinssonar í Tímariti lögfræðinga frá árinu 2014 (2. hefti 64. árgangur). Í greininni segi orðrétt: „Þegar litið er til þeirra sjónarmiða sem reifuð voru í kaflanum hér á undan og m.a. hefur verið byggt á af umboðsmanni Alþingis, um heimild ráðherra sem æðra setts stjórnvalds til að fresta réttaráhrifum eigin ákvarðana, má hins vegar ljóst vera að þau eiga að sumu leyti jafnt við um sjálfstæðar úrskurðarnefndir. Þótt sjálfstæðar úrskurðarnefndir fari ekki með yfirstjórn eða beri ábyrgð á framkvæmd viðkomandi málaflokks hafa þær engu að síður heimild líkt og önnur stjórnvöld til þess að endurupptaka mál og jafnvel afturkalla í kjölfarið úrskurð sinn. Því sýnist rökrétt að þær geti, líkt og ráðherrarnir, gengið skemmra og frestað réttaráhrifum eigin úrskurðar, t.d. í tilefni af málskoti. Sú nálgun er jafnframt í samræmi við almenn réttaröryggissjónarmið og áherslu á rétt borgaranna til þess að geta með raunhæfum hætti borið lögmæti stjórnvaldsákvarðana undir dómstóla. Sérstaklega skal bent á í því sambandi að óeðlilegt er að réttur borgaranna hvað þetta varðar sé mismunandi eftir því hvers konar stjórnvald tók þá ákvörðun sem um ræðir, þ.e. að hagsmunir þeirra séu lakar tryggðir ef endanlegt ákvörðunarvald liggur hjá sjálfstæðri úrskurðarnefnd. Ýmis rök hníga því til þess að sjálfstæðar úrskurðarnefndir hafi til þess heimild, að minnsta kosti í einhverjum tilvikum, á grundvelli óskráðra reglna að fresta réttaráhrifum eigin úrskurðar, t.a.m. í tilefni af málskoti til dómstóla eða kvörtunar til umboðsmanns Alþingis.“

Um þetta efni fjalli Hafsteinn Þór Hauksson, dósent við HÍ, einnig í grein sinni Stjórnsýslukæra sem birtist í Úlfljóti (2. tbl. 68. árg.). Þar segi orðrétt: „Þannig getur sú staða komið upp að æðra stjórnvald telji rétt að fresta réttaráhrifum ákvörðunar sem það hefur tekið til þess að gefa aðila máls færi á að bera mál undir dómstóla […].“

Bent sé á dæmi þess að hin ólögfesta heimild æðra stjórnvalds til að fresta réttaráhrifum eigin ákvarðana hafi verið lögfest. Í 15. gr. laga nr. 30/1992 um yfirskattanefnd sé t.a.m. kveðið á um heimild til að fara þess á leit við yfirskattanefnd að úrskurðir hennar verði ekki látnir hafa fordæmisgildi að svo stöddu. Samskonar heimild um frestun réttaráhrifa sé að finna til handa málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna í 3. mgr. 5. gr. a. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Sambærileg úrræði sé einnig að finna í upplýsingalögum nr. 140/2012, sbr. 24. gr., og lögum um almannatryggingar nr. 100/2007, sbr. 5. mgr. 13. gr.

Í framangreindum álitum umboðsmanns Alþingis leggi hann áherslu á að með tilliti til réttaröryggissjónarmiða mæli það sérstaklega með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar „ef hún er verulega íþyngjandi fyrir aðila máls og veldur honum eða kann að valda honum tjóni.“ Taki umboðsmaður fram að leggja verði til grundvallar að þetta sjónarmið vegi þungt þegar erfitt yrði að ráða bót á tjóninu enda þótt umrædd ákvörðun yrði síðar felld úr gildi og vitni umboðsmaður til fræðimanna hvað það varði.

Sambærileg sjónarmið megi einnig sjá í dómi Hæstaréttar í máli nr. 246/2017. Í málinu hafi legið fyrir úrskurður matsnefndar eignarnámsbóta þar sem eignarnema hafi verið veitt umráð hins eignarnumda. Eignarnámsþolar hafi ekki heimilað umráð og eignarnemi því nýtt sér heimild í lögum um framkvæmd eignarnáms til að leita beinnar aðfarargerðar. Hæstiréttur hafi hafnað kröfu um aðför á þeim grundvelli að ágreiningur um lögmæti eignarnámsins hefði verið borinn undir dómstóla.

Í máli félaganna blasi við umsvifalaus rekstrarstöðvun, sbr. 21. gr. c. laga nr. 71/2008 um fiskeldi. Í ákvæðinu segi um starfsemi án rekstrarleyfis: „Ef fiskeldisstöð er rekin án þess að rekstrarleyfi sé í gildi skal Matvælastofnun stöðva starfsemina. Eftir þörfum ber lögreglu að veita Matvælastofnun liðsinni í því skyni. Matvælastofnun er heimilt að slátra eða farga eldisdýrum, fjarlægja búnað sem notaður hefur verið til starfseminnar og gera aðrar nauðsynlegar ráðstafanir skv. 21. gr. b. á kostnað þess aðila sem rekið hefur fiskeldisstarfsemi án leyfis.“

Félögin byggi á því að framangreind sjónarmið í áliti umboðsmanns og dómi Hæstaréttar eigi við fullum fetum í máli þessu, enda sé ljóst að ef réttaráhrifum hinna umræddu úrskurða verði ekki frestað muni það hafa í för með sér verulegt og óafturkræft tjón fyrir þau og nærliggjandi samfélag. Af þessu tilefni sé talin vera ástæða til að ítreka sjónarmið sem áður hafi verið komið á framfæri við úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála um hagsmuni þeirra og samfélagsins af eldisstarfseminni.

Lögð sé áhersla á að undirbúningi aukinnar framleiðslu á grundvelli leyfisveitinga Matvælastofnunar og Umhverfisstofnunar hafi verið hagað í samræmi við lög og miklu fjármagni varið í hvers kyns rannsóknir, öryggisráðstafanir, kaup á búnaði og öðru sem nauðsynlegt sé til starfseminnar, allt í réttmætu trausti þess að leyfin héldu gildi sínu. Hjá félögunum starfi fjöldi einstaklinga við eldisstarfsemina og sé um að ræða samanlagt hátt í 150 stöðugildi, sem hafi augljósa þýðingu fyrir uppbyggingu og atvinnulíf á viðkvæmu byggðasvæði. Rekstrarstöðvun myndi því ekki einungis hafa áhrif á hagsmuni félaganna og eigendur þess, heldur samfélagsins alls á Vestfjörðum, sem njóti góðs af þeirri atvinnuuppbyggingu sem starfseminni fylgi. Fram komi í sameiginlegri matsskýrslu félaganna, dags. 6. maí 2016, að athuganir bendi til þess að áhrif frá vaxandi fiskeldi á svæðinu muni hafa verulega jákvæð áhrif á hagræna og samfélagslega þætti. Margt bendi til að aukin tiltrú fólks á svæðið og fjölbreyttari atvinnumöguleikar auki og styrki jákvæðu áhrifin og nú þegar hafi starfsemin átt þátt í að snúa við neikvæðri íbúaþróun á svæðinu. Gangi væntingar um ávinning af uppbyggingu í fiskeldi ekki fram megi búast við neikvæðum samfélagslegum áhrifum. Af rekstrarleyfum félaganna leiði afdráttarlaus skylda til að nýta útgefin leyfi, auk þess að tryggja að eigið fé nái ákveðnu lágmarki.

Í bók Páls Hreinssonar, Stjórnsýsluréttur Málsmeðferð, sé farið ítarlega yfir hvaða atriði mæli gegn ógildingu stjórnvaldsákvarðana (bls. 922-926) og segi þar m.a.: „Þegar leyfishafi hefur byrjað að nýta sér leyfin þarf almennt meira til að koma svo ákvörðunin verði ógilt. Þegar langur tími er liðinn frá því að slíkt leyfi var veitt yrði það oft ekki ógilt. Grandleysi leyfishafa um ógildingarannmarkann skiptir þar þó miklu máli þar sem telja verður að réttmætar væntingar grandlauss leyfishafa standi almennt í vegi fyrir því að ógilda leyfi sem hann hefur nýtt sér um langt skeið. […] Loks má nefna tvö sjónarmið sem oft reynir á í skipulags- og byggingarmálum og stundum rekast á, en það eru annars vegar réttarvörslusjónarmið og hins vegar sjónarmið um að komast hjá eyðileggingu verðmæta […].“ Þessi sjónarmið eigi við með sama hætti um röksemdir sem mæli með frestun réttaráhrifa.

Fjarðalax hafi frá árinu 2010 haft leyfi til framleiðslu 3.000 tonna af laxi á ári í Patreksfirði og Tálknafirði. Með hinu nýja rekstrarleyfi hafi samhliða verið fellt úr gildi hið eldra leyfi. Starfsemi félagsins sé því eðli máls samkvæmt í fullum gangi og hafi verið um árabil. Í því samhengi athugist að það taki um ár frá klaki á hrognum þar til seiði verði klár til sjógöngu. Sú kynslóð sem hafi verið útsett í Patreksfirði sé búin að vera í eldi á landi í tæpt ár. Um nokkur þúsund tonn af tilbúnum matfiski sé að ræða í þessu tilviki. Ljóst sé að verði af rekstrarstöðvun sé enginn annar kostur í stöðunni en að farga eða slátra eldisdýrunum, sem séu að svo stöddu langt frá því að vera söluhæf afurð.

Eldisfiskurinn sé stærsta og helsta fjárfesting félagsins og án hans sé rekstrargrundvöllur þess algjörlega brostinn. Fjárfestingar í búnaði hlaupi á hundruðum milljóna króna, en auk þess sé félagið með lán, viðskiptasamninga, ráðningarsamninga og aðrar skuldbindingar sem standa þurfi skil á. Þessar skuldbindingar séu háðar því að daglegur rekstur haldi áfram í sama horfi og að ekki verði verulegar breytingar þar á. Verði rekstur fyrirtækisins í Patreksfirði og Tálknafirði stöðvaður sé ljóst að ráðast þurfi í stórfelldar sparnaðar- og hagræðingaraðgerðir til að forða félaginu frá gjaldþroti, þ.m.t. fjöldauppsagnir. Séu miklar líkur á því að ef stöðva þyrfti starfsemi á grundvelli skorts á rekstrarleyfi til lengri tíma yrði gjaldþrot óhjákvæmilegt.

Eðli málsins samkvæmt geri allar rekstraráætlanir ráð fyrir fullri nýtingu á framleiðsluheimildum. Allar fjárfestingar, framleiðsluáætlanir og fjárfestingaáætlanir félagsins geri þannig ráð fyrir 10.700 tonna ársframleiðslu á grundvelli leyfa Matvælastofnunar og Umhverfisstofnunar. Grundvöllur þessara áætlana byggi á að samþætta eigi nýtingu leyfanna við heimild móðurfyrirtækisins Arnarlax til framleiðslu á 10.000 tonnum árlega í Arnarfirði. Samþættingaráætlun þessara leyfisveitinga felist í því að samræma seiðaútsetningar, hvíldartíma eldissvæða og nýtingu á eldisbúnaði félagsins ásamt vinnu starfsmanna, báta og rekstri á sláturhúsi. Verði rekstur Fjarðalax í Patreksfirði og Tálknafirði stöðvaður, jafnvel þó tímabundið yrði, jafngildi það algjörum forsendubresti á seiðaframleiðslu, nýtingu á tækjum, búnaði, tryggingum og samningum við starfsfólk og verktaka. Slík rekstrarstöðvun myndi umsvifalaust virkja gjaldfellingarheimildir banka og fjármálastofnana, auk þess sem gera megi ráð fyrir að almennir birgjar og þjónustufyrirtæki myndu draga að sér hendur. Forsendur fyrir rekstri félagsins í núverandi mynd yrðu þar með brostnar og rekstri sjálfhætt með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir atvinnulíf og byggð á viðkæmu byggðasvæði.

Frá stofnun árins 2011 hafi seiðaeldisstarfsemi Arctic Sea Farm verið rekin í Norður-Botni í Tálknafirði af dótturfélaginu Arctic Smolt. Á síðustu fjórum árum hafi verið ráðist í miklar fjárfestingar á þessari grunnstoð félagsins með það fyrir augum að styrkja starfsemina á suðurfjörðum Vestfjarða. Í dag vinni yfir 40 fastir starfsmenn hjá fyrirtækinu og áætla megi að annan eins fjölda af óbeinum störfum á Vestfjörðum megi rekja til starfseminnar, s.s. vegna bygginga, uppsetningar tækja, þvottar nóta, rannsókna, eftirlits, flutnings seiða og afurða, framleiðslu o.s.frv. Sé starfsemi félagsins því mikilvægur þáttur í atvinnulífi Vestfjarða, á svæðum þar sem íbúum og störfum hafi fækkað mikið undanfarna áratugi.

Aukin framleiðsla og uppbygging í Patreksfirði og Tálknafirði, sem og annar undirbúningur hjá systurfélögum, þ.m.t. stækkun seiðaeldisstöðvar, hafi verið í undirbúningi í mörg ár og kostað félagið mikla undirbúningsvinnu og fjárútlát. Frestun framleiðslunnar myndi hafa verulega slæm áhrif á félagið og systurfélög þess, sem og stöðugildi hjá fyrirtækjunum. Ef ekki verði fallist á kröfu um frestun réttaráhrifa sé talið ljóst að ráðast þurfi í stórfelldar hagræðingaraðgerðir sem augljóslega muni hafa áhrif á rekstur og nærumhverfi. Ætla megi að afleidd áhrif yrðu jafnframt verulega neikvæð fyrir uppbyggingu starfa og innviða á Vestfjörðum. Íbúar Vestfjarða, sem og sveitarfélög á Vestfjörðum, séu því einnig hagsmunaaðilar sem tengist með bæði beinum og óbeinum hætti uppbyggingu fiskeldis á svæðinu. Rekstrarstöðvun hefði því ekki einungis áhrif á hagsmuni félagsins og eigenda þess heldur samfélagsins alls á Vestfjörðum sem njóti góðs af þeirri atvinnuuppbyggingu sem starfseminni fylgi.

Framleiðsla á þeim seiðum sem áætlað sé að setja út í Patreksfjörð hafi hafist snemma á síðasta ári með kaupum á hrognum, klaki og seiðaeldi. Núverandi staða sé sú að tilbúin séu 600 þúsund seiði sem áætlað sé að setja í sjó. Einnig sé hafinn undirbúningur að kaupum á hrognum og klaki fyrir útsetningu á næsta ári í Tálknafirði. Áætlað verðmæti 600 þúsund sjógönguseiða sé um 100 milljónir króna og áætlað verðmæti þeirra 1,2 milljóna smáseiða sem fyrirhuguð séu næsta ár sé um 200 milljónir króna. Ljóst sé því að ef ekki verði af útsetningu seiða sé um gríðarlegt tjón að ræða fyrir félagið. Stærsta fjárhagslega tapið sé þó fólgið í þeim tekjumissi sem leiði af því að innviðir félagsins séu ekki nýttir til framleiðslu og sölu á endanlegri afurð. Í því samhengi sé lögð áhersla á að á grundvelli hinna kærðu leyfisveitinga hafi á bilinu 10 til 35 verktakar verið að störfum við uppbyggingu á nýrri seiðastöð félagsins. Starfsemi þar eigi að fara fram í þremur seiðahúsum, samtals 12.000 m2, en í hverju húsi verði fjögur sjálfstæð kerfi með hreinsistöðvum. Húsin verði reist í þremur áföngum. Framkvæmdum við fyrstu bygginguna sé lokið og önnur byggingin sé langt á veg komin. Þegar hafi verið varið vel yfir 3,6 milljörðum í þessar framkvæmdir.

Athugasemdir kærenda kærumála nr. 3, 4, 5, og 6/2018:
Kærendur taka fram að engar lagalegar forsendur séu til að verða við kröfu þessari og beri því að hafna beiðninni. Óumdeilt sé að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála teljist vera sjálfstæð úrskurðarnefnd sem falið sé að úrskurða, á grundvelli stjórnsýslukæru, um lögmæti ákvarðana annarra stjórnvalda. Nefndin sé því sjálfstætt stjórnvald sem falli utan almennra yfirstjórnunar- og eftirlitsheimilda ráðherra. Með því hafi hluti af því valdi og ábyrgð sem annars myndi hafa tilheyrt ráðherra samkvæmt stjórnarskrá verið fært nefndinni með lögum, sbr. lög nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í 1. gr. laganna komi fram að nefndin hafi það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála. Hafi löggjafinn þ.a.l. afmarkað hlutverk nefndarinnar sérstaklega í lögum. Í úrskurðarvaldinu felist einungis heimild til að úrskurða um lögmæti tiltekinnar ákvörðunar en ekki til þess að taka nýja efnisákvörðun í máli. Feli úrskurðarvaldið ekki í sér boðvald gagnvart viðkomandi stjórnvaldi. Sé mikilvægt að hafa þetta í huga þegar fyrir liggi meginregla í 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem segi að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Þá veiti 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga einungis heimild til handa æðra settum stjórnvöldum til að fresta réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og megi færa fyrir því rök að sjálfstæðar úrskurðarnefndir teljist ekki vera æðri stjórnvöld í skilningi ákvæðisins og geti því ekki tekið slíka jákvæða ákvörðun sem frestun réttaráhrifa sé og þannig gripið inn í framkvæmd viðkomandi málaflokks sem þær beri að öðru leyti enga ábyrgð á. Hvergi sé í 29. gr. stjórnsýslulaga kveðið á um það hvort stjórnvöld geti frestað réttaráhrifum eigin ákvörðunar ef lögmæti hennar sé borið undir dómstóla. Þá liggi fyrir að í lögum nr. 130/2011 sé hvergi að finna slíka heimild. Telji kærendur því sýnt að það sé meðvituð ákvörðun af hálfu löggjafans að málshöfðun fresti ekki réttaráhrifum úrskurða nefndarinnar. Sé í þessu sambandi vísað til 2. málsliðar 60. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944.

Umrædd fyrirtæki hafi lýst því yfir að þau hafi ákveðið að bera úrskurði nefndarinnar undir dómstóla og muni fara fram á að málin sæti flýtimeðferð fyrir héraðsdómi. Ekkert sé við þá ákvörðun að athuga enda sé það í samræmi við lög. Sú ákvörðun eigi hins vegar ekki að leiða til þess að fallast eigi á beiðni þeirra um að réttaráhrifum greindra úrskurða verði frestað. Mótmælt sé kröfugerð frestbeiðenda á grundvelli óskráðra meginreglna stjórnsýsluréttar um heimild æðra stjórnvalds til að fresta réttaráhrifum eigin ákvarðana eða í tilefni af því að ákveðið hafi verið að láta reyna á lögmæti stjórnvaldsákvörðunar fyrir dómstólum. Fyrirhuguð dómstólaleið og væntanleg flýtimeðferð mæli einmitt gegn frestun réttaráhrifa. Með dómstólaleið sé réttaröryggi borgaranna best tryggt.

Í beiðninni vísi eldisfyrirtækin m.a. til álits umboðsmanns Alþingis í málum nr. 3298/2001 og 3299/2001 um heimild til frestunar réttaráhrifa. Allt önnur staða sé uppi í máli þessu, enda hafi þau mál ekki lotið að sjálfstæðum stjórnsýslunefndum heldur að niðurstöðu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, sem æðra stjórnvalds, er staðfest hefði synjun Útlendingaeftirlitsins á beiðnum tveggja hælisleitenda um hæli á Íslandi. Niðurstaða umboðsmanns sé því einfaldlega sú að ráðherra sem æðra stjórnvald hafi heimild á grundvelli ábyrgðar sinnar og stöðu í stjórnkerfinu til að fresta réttaráhrifum eigin ákvörðunar eða úrskurðar í tilefni af málskoti til dómstóla, ef ástæður standi til þess. Þessa niðurstöðu sé ekki unnt að heimfæra á það álitamál sem sé uppi í þessu máli, þ.e. hvort sjálfstæðar úrskurðarnefndir geti frestað réttaráhrifum eigin úrskurða án þess að hafa til þess sérstaka lagaheimild. Ekki sé unnt að leggja þetta að jöfnu við heimildir ráðherra því úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sem og aðrar sjálfstæðar úrskurðarnefndir, fari ekki, ólíkt ráðherra, með yfirstjórn viðkomandi málaflokks og beri ekki ábyrgð á framkvæmd hans, heldur hafi úrskurðarnefndirnar það lögbundna afmarkaða hlutverk að úrskurða um lögmæti þeirra ákvarðana sem til þeirra séu kærðar, sbr. áðurgreinda 1. gr. laga nr. 130/2011. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála fari því einvörðungu með þær valdheimildir sem henni hafi verið færðar í framangreindum lögum og megi ljóst vera að þær nái ekki til að fresta réttaráhrifum eigin úrskurða. Vænti kærendur þess að sú skipan löggjafans sé virt af hálfu nefndarinnar.

Í beiðninni sé jafnframt bent á það til hliðsjónar að ,,hin ólögfesta heimild æðra stjórnvalds til að fresta réttaráhrifum eigin ákvarðana“ hafi verið lögfest í nokkrum tilvikum og sé í því sambandi bent á nokkur lög í dæmaskyni. Sú tilvísun sé frekar til þess fallin að styrkja málatilbúnað kærenda, enda liggi einfaldlega fyrir að löggjafinn hafi tekið meðvitaða ákvörðun um að það væri ekki heimilt skv. lögum nr. 130/2011. Í umræddum álitum umboðsmanns árétti hann þá meginreglu að málskot til dómstóla fresti ekki réttaráhrifum stjórnvaldsákvörðunar. Enn fremur hafi hann rakið ákvæði stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 um rétt manna til aðgangs að dómstólum, meðal annars í því skyni að láta reyna á lögmæti stjórnvaldsákvarðana.

Einnig sé vísað til skýrslu um störf umboðsmanns Alþingis 2007. Þar segi m.a. að samkvæmt ákvæði í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé réttur aðila til að fá mál tekið til meðferðar á ný annars vegar bundinn við tilvik þar sem ákvörðun hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik og hins vegar þar sem íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hafi byggst á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að ákvörðun hafi verið tekin. Hvorugt þessara skilyrða eigi við í þessu máli. Þá segi umboðsmaður jafnframt í skýrslunni að það kunni að takmarka heimildir stjórnvalda til að endurupptaka mál og gera breytingar á fyrri ákvörðunum þegar uppi séu mismunandi hagsmunir og ágreiningur sé á milli tveggja eða fleiri aðila í því máli sem stjórnvaldið hafi skorið úr um. Fyrir liggi að kærendur séu 10 talsins í málum þessum og því sýnt, hvað sem öðru líði, að það eitt og sér mæli gegn því að fallist sé á beiðni eldisfyrirtækjanna.

Eldisfyrirtækin hafi jafnframt vísað til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 246/2017. Fái kærendur ekki séð hvernig hann eigi við í málinu. Varði hann túlkun á 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989 um skilyrði fyrir beinni aðfarargerð, enda megi enginn vafi vera uppi á þeim rétti sem gerðarbeiðandi telji sig eiga. Ströng túlkun dómstóla á framangreindu ákvæði aðfararlaga geti í engu varðað þann lögfræðilega ágreining sem sé uppi vegna frestbeiðni eldisfyrirtækjanna.

Í beiðni eldisfyrirtækjanna sé jafnframt að finna ýmsar fullyrðingar um að fyrirtækin myndu verða fyrir fjárhagslegu tjóni, þ.e. ef ekki yrði fallist á frestun réttaráhrifa. Sé því mótmælt að hugsanlegt tjón eldisfyrirtækjanna geti orðið svo verulegt eða óafturkræft að leiða eigi til þess að fallast beri á beiðnina. Kærur hafi verið sendar úrskurðarnefndinni einvörðungu fjórum vikum eftir útgáfu rekstrarleyfanna og seiði hjá Fjarðalaxi hafi fyrst verið sett út í byrjun júní 2018 eða fyrir um fjórum mánuðum. Því sé auðvelt með allan flutning slíkra smáseiða, t.d. til aðalathafnasvæðis Fjarðalax/Arnarlax í Arnarfirði. Staðhæfingum um að rekstri Fjarðalax verði sjálfhætt og gjaldþrot óhjákvæmilegt ef rekstrarleyfi falli niður sé því mótmælt sem staðleysu. Slík endalok fyrirtækisins yrðu þá vegna annars en stöðvunar á nýbyrjuðu eldi, sem auðveldlega sé hægt að færa til nálægra eldissvæða fyrirtækisins. Staðhæfingu um 150 starfsmenn hjá Fjarðalaxi sé mótmælt sem alrangri. Við eldið í Patreksfirði starfi aðeins örfáir. Hvað varði væntanlega eldisstarfsemi Arctic Sea Farm á greindum svæðum þá sé staðreyndin sú að ekkert eldi sé byrjað hjá því fyrirtæki og áætlun um fyrstu útsetningu seiða miðist við sumarið 2019. Ógilding rekstrarleyfis þess fyrirtækis hafi því nánast engin áhrif á hagsmuni þess félags. Starfi enginn við fyrirhugað nýtt sjókvíaeldi fyrirtækisins í Patreksfirði eða Tálknafirði.

Þó svo að umrædd fiskeldisfyrirtæki verði fyrir einhverju fjártjóni vegna ógildingar rekstrarleyfanna sé það ekki málefnaleg eða nægjanleg ástæða til þess að fresta réttaráhrifum ógildinga leyfanna. Að gögnum málsins virtum sé einfaldlega sýnt að umrædd fyrirtæki hafi látið undir höfuð leggjast að vanda undirbúning sinn og haga honum í samræmi við lög og reglur. Sé með öllu fráleitt að fyrirtækin geti unnið sér betri rétt af þeim sökum. Það liggi einfaldlega fyrir, m.a. með vísan til framangreinds, gildandi laga og reglna, sem og þeirra kæra er hafi legið fyrir strax um miðjan janúar 2018, að fyrirtækin hafi ekki getað haft lögmætar væntingar til þess að hinar umþrættu leyfisveitingar myndu hljóta framgang. Það hafi verið óvarlegt af þeim að hefjast handa á meðan úrskurðarferli fyrir úrskurðarnefnd og dómstólum stæði yfir og væri það ömurlegt fordæmi ef menn gætu unnið sér betri lagalegan rétt af þeim sökum. Tæki slík niðurstaða út yfir allan þjófabálk.

Eitt af þeim atriðum sem horfa beri til varðandi mat á því hvort ástæða sé til að fresta réttaráhrifum sé mat á því hvort vafi leiki á lögmæti ákvörðunarinnar. Sé þar um þýðingarmikið atriði að ræða. Ef fyrir liggi eða afar sennilegt sé að ekki verði haggað við gildi ákvörðunarinnar hafi það úrslitaáhrif við matið og vegi þyngra heldur en hagsmunir málsaðila. Niðurstöður í kærumálunum séu ítarlegar og vel rökstuddar. Liggi raunar fyrir að mati kærenda að niðurstaða þeirra verði staðfest. Í því ljósi sé raunar þýðingarlaust að fresta réttaráhrifum þeirra og einungis til þess fallið að tefja málið og draga úr framgangi laga nr. 130/2011.

Í beiðni eldisfyrirtækjanna sé sérstaklega vísað til landsbyggðarsjónarmiða til stuðnings sjónarmiðum þeirra, þ.e. að íbúar á Vestfjörðum, sem og sveitafélög, hafi einnig töluverðra hagsmuna að gæta. Í raun séu ríkir almannahagsmunir fyrir því að laxeldi í opnum sjókvíum skjóti ekki frekari rótum, enda verði verðmæti íslenskrar náttúru seint reiknað til verðs, en hún sé svo sannarlega undir í máli þessu. Það séu ekki síður landsbyggðarsjónarmið að baki kærum, sérstaklega að því er varði laxinn. Tekjur af nýtingu íslenskra fallvatna með laxastofnum sé mikilvægur þáttur í að byggð geti haldist í samfélögum sem eigi undir högg að sækja samfara hnignun hefðbundinna landbúnaðargreina. Það séu rúmlega 1800 lögbýli sem hafi tekjur af lax- og silungsveiðihlunnindum. Efnahagsleg velta af þessum náttúrunytjum, miðað við grunn frá Hagfræðideild HÍ, sé um 15-20 milljarðar á ári og skapi um 1200 ársstörf. Skráðir eigendur lögbýlanna séu um 5000 talsins og njóti ríkissjóður þessa í skatttekjum. Eignarrétturinn sé friðhelgur og sé raunveruleg hætta á því að gangi áform fiskeldismanna eftir muni það hafa verulega neikvæð áhrif á veiðihlunnindi á Íslandi og valda stórkostlegu tjóni.

Nú þegar séu farnir að veiðast eldislaxar í ýmsum veiðiám landsins, t.d. í Ísafjarðardjúpi, Steingrímsfirði, Vatnsdalsá og í Eyjafjarðará, og það án þess að tilkynnt hafi verið um sleppitjón. Tugir eða hundruð strokufiska séu á bak við hvern stangveiddan eldislax. Þannig hafi líffræðingur hjá Hafrannsóknastofnun upplýst að eldislaxar þeir sem veiðst hafi á þessu ári gefi aðeins takmarkaða mynd af stöðu mála þar sem eldislaxinn hafi tilhneigingu til að ganga seinna upp í árnar en villti laxinn. Því megi ætla að raunverulegur fjöldi eldislaxa í ám landsins muni ekki koma fram fyrr en stangveiðitímabilinu ljúki. Þeir eldislaxar sem hafi veiðst í ánum séu aðeins toppurinn á ísjakanum. Samkvæmt skýrslum Hafrannsóknastofnunar sýni reynslan bæði hér á landi, sem og annars staðar, að allar veiðiár landsins séu í hættu hvar sem eldið sé staðsett.

Séu 75 laxveiðiár á skrá Landssambands veiðifélaga með samtals 312 laxveiðistangir og heildarveiði um 40.000 laxa. Verðmæti hverrar stangar að meðaltali sé a.m.k. 500 milljónir króna. Samtals verðmæti þessara 75 laxveiðiáa sé þá 156 milljarðar króna og séu þá ótaldar um 150 stangir í ca. 50 minni veiðiám. Þessi náttúruverðmæti séu öll í meiri eða minni hættu vegna strokufisks úr sjókvíaeldi með norskum laxastofni. Þessir beinu hagsmunir séu langtum stærri en sjókvíaeldi norskra auðhringa og risaeldisfyrirtækja, sem sótt hafi í ókeypis og ólögleg afnot af íslenskum fjörðum, að ekki sé minnst á eyðileggingu óspilltrar náttúru landsins, sem ekki verði metin til fjár. Því sé ljóst að yfirfæra megi öll landsbyggðarsjónarmið yfir á málatilbúnað kærenda.

Úrskurðarnefndin sé sjálfstæð í störfum sínum skv. 1. gr. laga nr. 130/2011 og kveði upp úrskurði sem slík skv. 6. mgr. 4. gr. sömu laga. Þá athugist að fimm nefndarmenn hafi kveðið upp greinda úrskurði, sem sýni að málið hafi verið umfangsmikið og fordæmisgefandi, sbr. 3. gr. laganna. Úrskurðirnir séu ítarlegir og lögfræðilega vel rökstuddir. Hér sé enn vísað til 29. gr. stjórnsýslulaga, þar sem segi, að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar og að engin lagaheimild sé til staðar í lögum nr. 130/2011 til frestunar réttaráhrifa úrskurða nefndarinnar. Loks sé vísað til meginreglunnar í 6. gr. þeirra laga, sem segi að úrskurðir nefndarinnar séu fullnaðarúrskurðir á stjórnsýslustigi.

Fjarðalax sé nú orðið starfsleyfislaust á eldissvæðinu við Eyri á Patreksfirði eftir að undanþága umhverfisráðuneytisins frá 5. júní 2018 hafi runnið út 1. október 2018. Sé eldisstarfsemi á því svæði þar af leiðandi óheimil, enda sé starfsleyfi ekki fyrir hendi.

Það fari ekki fram hjá nokkrum aðila þessa máls að óheyrilegur pólitískur þrýstingur sé uppi varðandi kröfu um frestun réttaráhrifa þegar uppkveðinna ógildingarúrskurða úrskurðarnefndarinnar. Þrýstingur sem sé óviðunandi og óboðlegur, enda sé nefndinni ætlað skilgreint hlutverk að lögum. Stjórnvöldum beri að standa vörð um sjálfstæði og virkni úrskurðarnefndarinnar, en ekki beita hana pólitískum þrýstingi. Vísist m.a. til viðtals við sjávarútvegsráðherra á RÚV þar sem fram komi ótrúlegar hótanir um endurskoðun leyfismála frá grunni og að úrskurður nefndarinnar muni hafa áhrif á endurskoðun laga.

Viðbótarathugasemdir frestbeiðenda:
Frestbeiðendur taka fram að þeir hafni þeirri túlkun kærenda að ráða megi af áliti umboðsmanns Alþingis vegna mála nr. 3298/2001 og 3299/2001 að sjálfstæðar úrskurðarnefndir hafi á grundvelli stöðu sinnar í stjórnkerfinu ekki sömu heimildir og ráðherra til slíkrar ákvörðunartöku. Ekkert í tilvitnuðu áliti gefi tilefni til svo þröngrar túlkunar og verði þvert á móti af því ráðið að heimild til frestunar réttaráhrifa eigin ákvarðana standi öllum æðri stjórnvöldum til boða, að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Með hliðsjón af stjórnsýslulegri stöðu úrskurðarnefndarinnar verði að telja óumdeilt að nefndin teljist vera æðra stjórnvald í stjórnsýslulegu tilliti, enda séu úrskurðir nefndarinnar bindandi og endanlegir á stjórnsýslustigi. Sé áréttuð fyrri tilvísun til umfjöllunar í Tímariti lögfræðinga frá árinu 2014.

Hvað varði tilvísun kærenda til skýrslu um störf umboðsmanns Alþingis frá árinu 2007 þá sé hún máli þessu alls óviðkomandi. Umfjöllun umboðsmanns lúti að rétti aðila máls á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og/eða ólögfestra meginreglna til að fá mál tekið til meðferðar að nýju að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Sú aðstaða sé ekki uppi í þessu máli, enda lúti beiðnin að frestun réttaráhrifa tiltekinna úrskurða, ekki endurupptöku þeirra, en á þessu tvennu sé grundvallarmunur. Það hafi því enga þýðingu fyrir beiðnina hvort skilyrðum 24. gr. stjórnsýslulaga sé fullnægt eður ei.

Mótmælt sé fullyrðingum kærenda um að hagsmunir Fjarðalax séu ekki knýjandi því að auðveldlega sé hægt að færa útsett seiði í Patreksfirði og Tálknafirði til nálægra eldissvæða fyrirtækisins, t.d. í Arnarfirði. Slíkar vangaveltur byggi á mikilli vanþekkingu á starfsemi félaganna enda sé ljóst að slíkur flutningur sé ógerlegur eða í öllu falli illmögulegur án þess að slíkt myndi valda samhliða gríðarlegu tjóni á eldisdýrum. Áréttað sé að hið sama eigi við um þau seiði sem þegar séu í eldisstöðvum félaganna og skilgreind séu fyrir eldi á ákveðnum eldisstöðvum, m.a. vegna ákvæða og skilyrða um hvíldartíma og árgangaskipt eldi. Hafi félagið leitað staðfestingar Matvælastofnunar hvað þetta varði og sé svar stofnunarinnar svohljóðandi: „Matvælastofnun telur hugmyndir þess efnis að hægt sé að færa eldisfisk í Patreks- og Tálknafirði til nálægra eldissvæða algjörlega óraunhæfa og andstæð sjónarmiðum um velferð fisksins. Eldisfiskurinn er sem er í kvíum í fjörðunum er kominn í þá stærð að hann er laus í hreistri og því viðkvæmur fyrir flutningi. Komið er fram í október og hitastig farið að lækka og mun lækka enn frekar á næstu vikum sem gerir hann enn viðkvæmari fyrir vikið. Við flutning á fisknum þyrfti að byrja á að þrengja að honum í nót, dæla honum í brunnbát, flytja og dæla síðan aftur á ný, allt með tilheyrandi röskun á velferð og heilsu fisksins. Þá liggur fyrir að fiskurinn er að hluta til smitaður af nýrnaveiki og því ótækt að flytja hann á önnur ósýkt svæði. Stofnunin myndi því leggjast gegn slíkum flutningi sem og að búast mætti við miklum afföllum að óþörfu ef af honum yrði. Þá hafa fyrirtækin þegar framleitt seiði til útsetningar vegna rekstrarleyfa í Patreks- og Tálknafirði. Þau seiði munu ekki rúmast innan annarra leyfa fyrirtækjanna þar sem þau leyfi gera ráð fyrir kynslóða skiptu sjókvíaeldi og einnig hafa verið framleidd seiði sem áætlað er að fari á þau svæði.“

Vegna fullyrðinga kærenda um að ógilding rekstraleyfis Arctic Sea Farm myndi hafa „nánast engin áhrif á hagsmuni þess félags“ sé vísað til þess að fyrirtækið sé með öllu háð lánsfé þar sem ekkert tekjustreymi sé hafið, enda muni slátrun ekki eiga sér stað fyrr en undir lok árs. Gjaldfellingarheimildir lánardrottna setji í uppnám strax þær ádráttarbeiðnir sem félagið sé með í gangi til þess að vera gjaldfært á komandi vikum og mánuðum. Í fiskeldi þurfi undirbúningur að hefjast að minnsta kosti 18-24 mánuðum áður en fiskur sé settur út í kvíar. Að afturkalla leyfi sem veitt hafi verið fyrir 10 mánuðum síðan og eigi að vera fullnýtt á næstu mánuðum sé með öllu óframkvæmanlegt án þess að af því yrði stórkostlegur fjárhagslegur og samfélagslegur skaði. Hafi þurft að hefja undirbúningsferlið strax og leyfin hafi verið veitt. Sé engum vafa undirorpið að ef réttaráhrifum úrskurða nefndarinnar verði ekki frestað muni það leiða til stórkostlegs fjárhags- og samfélagslegs skaða áður en endanleg niðurstaða dómstóla fæst. Frestun réttaráhrifa komi því í veg fyrir stórfellda sóun verðmæta sem felist í tilgangslausri slátrun eldisfisks.

Hvað varði meinta hagsmuni kærenda af beiðni félaganna þá hafni þau því alfarið að lífríki lax- og silungsveiðiáa sé stefnt í hættu ef réttaráhrifum úrskurðanna verði frestað á meðan mál séu rekin fyrir dómstólum. Sé ítrekað það sem fram hafi komið í málatilbúnaði félaganna að hætta á erfðablöndun laxa við Ísland sé sáralítil og staðbundin. Sérfræðingar hafi talið að „genamengun“ taki áratugi og það sama hafi komið fram hjá forstjóra Hafrannsóknastofnunar, þ.e. að til þess að erfðablöndun verði þurfi mikið álag í langan tíma, nokkuð sem sé ekki tilfellið við einstakar slysasleppingar. Því fari víðs fjarri að íslenskum laxi stafi bráð hætta af hugsanlegri genamengun á meðan mál sé rekið fyrir dómstólum um úrskurði nefndarinnar.

Sé jafnframt mikilvægt að líta til þess að fiskeldisstöðvum beri beinlínis skylda til að hefja starfsemi í samræmi við rekstraráætlun sem hafi fylgt umsókn um rekstrarleyfi, ella skuli Matvælastofnun fella rekstrarleyfið úr gildi, sbr. 1. mgr. 15. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi. Félögin hafi því ekki einvörðungu haft réttmætar væntingar til þess að hefja undirbúning og hagnýtingu leyfanna, heldur hafi það verið þeim beinlínis skylt. Meta verði möguleika þeirra á að takmarka tjón sitt í því ljósi.

——-

Svo sem áður hefur komið fram gaf úrskurðarnefndin Matvælastofnun og Umhverfisstofnun kost á að koma að athugasemdum sínum í tilefni af framkominni frestbeiðni. Tóku stofnanirnar undir sjónarmið frestbeiðenda um frestun réttaráhrifa, en að öðru leyti þykir ekki ástæða til að reifa efni athugasemda stofnananna.

——-

Niðurstaða: Að uppfylltum ákveðnum skilyrðum hefur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála heimild til að fresta réttaráhrifum þeirra ákvarðana sem til hennar eru kærðar á meðan málið er til meðferðar hjá nefndinni, sbr. ákvæði 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Ráðherra hefur í 2. mgr. 8. gr. sömu laga heimild til að setja í reglugerð nánari ákvæði um málsmeðferð úrskurðarnefndarinnar. Kemur fram í athugasemdum við lagaákvæðið í frumvarpi því sem varð að nefndum lögum að komið geti til þess að ástæða verði til að útfæra nánar skilyrði fyrir frestun réttaráhrifa og í hvaða tilvikum slíkri heimild yrði beitt. Ekki verður þó ráðið að í nefndum ákvæðum felist ráðagerð þess efnis að frestað verði réttaráhrifum úrskurða úrskurðarnefndarinnar sjálfrar. Í stjórnsýslulögum nr. 37/1993 er sömuleiðis að finna ákvæði sem heimilar æðra stjórnvaldi að fresta réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar meðan kæra er til meðferðar þar sem ástæður mæla með því, sbr. 2. mgr. 29. gr. laganna. Meginreglan, hvort sem litið er til stjórnsýslulaga eða laga nr. 130/2011, er þó sú að kæra á stjórnsýsluákvörðun fresti ekki réttaráhrifum hennar.

Heimild til handa úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála til að fresta réttaráhrifum eigin úrskurða er hvorki að finna í stjórnsýslulögum né sérlögum um úrskurðarnefndina. Beiðni um frestun réttaráhrifa umræddra úrskurða nefndarinnar er á því reist að nefndin hafi til þess heimild samkvæmt ólögfestum meginreglum stjórnsýsluréttarins. Einkum og sér í lagi í þeim tilfellum þar sem hætta sé á því að ella verði málskot til dómstóla ekki raunhæft úrræði.

Með stjórnsýslulögum voru lögfestar ýmsar af reglum stjórnsýsluréttar, en það er þó viðurkennt að lögunum til fyllingar eru óskráðar reglur stjórnsýsluréttarins. Ein þeirra reglna lýtur að heimildum æðra stjórnvalds til að fresta réttaráhrifum eigin ákvörðunar. Í álitum sínum í málum nr. 3298/2001 og 3299/2001 benti umboðsmaður Alþingis á að meginreglan væri sú að málskot til dómstóla frestaði ekki réttaráhrifum stjórnvaldsákvörðunar, sbr. 2. málsl. 60. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, en þar er mælt fyrir um að enginn geti komið sér hjá að hlýða yfirvaldsboði í bráð með því að skjóta málinu til dóms. Umboðsmaður tók jafnframt fram að ákvæðið yrði þó ekki skilið á þann veg að það girti fyrir að stjórnvöld hefðu heimild til að mæla fyrir um frestun réttaráhrifa vegna sérstakra atvika í lögum eða óskráðum meginreglum. Vegna stöðu og valdheimilda æðra stjórnvalds hefði það nokkuð rúmar heimildir til að endurupptaka mál að eigin frumkvæði, teldi það t.d. að niðurstaða þess væri efnislega röng, eða þá jafnvel heimildir til að afturkalla íþyngjandi ákvarðanir sínar í slíkum tilvikum. Taldi umboðsmaður valdheimildir og hlutverk æðra stjórnvalds samkvæmt almennum reglum stjórnsýsluréttar leiða eðlis máls samkvæmt til þess að ef slíkt stjórnvald gæti gert það sem meira væri, þ.e. endurupptekið eða afturkallað ákvarðanir sínar, gæti það í ólögfestum tilvikum gert það sem minna væri, þ.e. frestað réttaráhrifum slíkrar ákvörðunar ef til þess stæðu sérstakar ástæður. Taldi umboðsmaður að ganga yrði út frá því að þegar æðra stjórnvald hefði yfirstjórn mála á tilteknu sviði, og þær heimildir sem þeirri stöðu fylgdi, yrði það að jafnaði talið hafa heimild á grundvelli óskráðra reglna stjórnsýsluréttar um hlutverk og valdheimildir slíkra stjórnvalda til að fresta réttaráhrifum eigin ákvörðunar. Áréttaði umboðsmaður loks að það væri niðurstaða hans að á grundvelli óskráðra reglna stjórnsýsluréttar hefði æðra stjórnvald að jafnaði heimild til að fresta réttaráhrifum eigin ákvarðana í tilefni af því að ákveðið hefði verið að láta reyna á lögmæti umræddrar stjórnvaldsákvörðunar fyrir dómstólum. Var það því niðurstaða umboðsmanns að dóms- og kirkjumálaráðuneytinu hefði ekki verið heimilt að hafna beiðni um frestun réttaráhrifa úrskurðar þess í tilefni af málshöfðun á þeim grundvelli einum að ráðuneytið hefði ekki heimild að lögum til að taka beiðni til efnislegrar meðferðar.

Samkvæmt því sem að framan greinir verður að telja að æðra stjórnvald sem jafnframt fer með yfirstjórn málaflokka, þ.e. ráðherra, hafi heimild til frestunar réttaráhrifa ákvarðana sinna og úrskurða, að öðrum skilyrðum uppfylltum. Vafi leikur hins vegar á heimildum hliðsettra stjórnvalda, s.s. úrskurðarnefnda, til slíkrar frestunar.

Löggjafinn hefur í ýmsum tilvikum tekið afstöðu til þessa álitaefnis með því að lögfesta heimildir til handa slíkum nefndum til að fresta réttaráhrifum eigin úrskurða að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Má þær heimildir m.a. finna í 24. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, 1. mgr. 8. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. og 5. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, 6. mgr. 104. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, 3. mgr. 5. gr. a. í lögum nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna og 15. gr. laga nr. 30/1992 um yfirskattanefnd. Heimildir nefndanna eru ekki bundnar sömu skilyrðum að öllu leyti, en t.a.m. kemur fram í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 96/1998, er breyttu lögum nr. 30/1992, að heimild yfirskattanefndar sé lögð til í framhaldi af áliti umboðsmanns í máli nr. 702/1992. Í því áliti kemur fram að með hliðsjón af því að úrskurðir yfirskattanefndar væru bindandi og fordæmisgefandi gæti skattaframkvæmd raskast bagalega og svo verulega að umboðsmaður mælti með því að tekið yrði til athugunar hvort æskilegt væri að sett yrði í lög heimild til þess að fresta réttaráhrifum úrskurða yfirskattanefndar þar til dómsniðurstaða lægi fyrir. Verður þó hvorki með lögjöfnun né gagnályktun frá heimildarákvæðum annarra kæru- eða úrskurðarnefnda hægt að fullyrða um heimildir úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála til að fresta réttaráhrifum eigin úrskurða. Færa má bæði rök með og á móti því að slíkar heimildir séu til staðar. Skyti það skökku við ef aðilar máls væru verr settir með tilliti til réttaröryggis fari úrskurðarnefnd með úrskurðarvald í stað ráðherra. Á hinn bóginn er sú heimild að fresta réttaráhrifum nátengd því forræði sem stjórnvald hefur á þeim málaflokkum sem undir það heyrir. Í fyrirrúmi hlýtur þó ávallt að vera að tryggja að það úrræði að skjóta fullnaðarúrskurðum á stjórnsýslustigi til dómstóla hafi raunhæfa þýðingu.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sem er hliðsett stjórnvald við ráðherra, lýtur eðli máls samkvæmt ekki yfirstjórn hans og fer ekki heldur með yfirstjórnarvald tiltekinna málaflokka. Hlutverk hennar er hins vegar, sbr. 1. gr. laga nr. 130/2011, að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Úrskurðarnefndin hefur því fyrst og fremst lögmætiseftirlit með höndum. Eftir sem áður fara ráðherrar með yfirstjórn mála, þ.e. umhverfis- og auðlindaráðherra skv. lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. 1. mgr. 43. gr., og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, innan atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, skv. lögum nr. 71/2008 um fiskeldi, sbr. 1. mgr. 4. gr., sbr. og forsetaúrskurð nr. 84/2017 um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, en á grundvelli nefndra laga voru leyfi þau veitt sem felld voru úr gildi með úrskurðum úrskurðarnefndarinnar.

Sýnist ekki vera til að dreifa dæmum þar sem sjálfstæðar kæru- eða úrskurðarnefndir hafa frestað áhrifum úrskurða sinna án þess að hafa til þess heimild í settum lögum. Þá verður ekki fram hjá því litið að löggjafinn hefur ekki lögfest heimild til handa úrskurðarnefndinni til að fresta réttaráhrifum eigin úrskurða. Þótt því sé haldið fram að úrskurðarnefndir hafi ólögfestar heimildir til að fresta réttaráhrifum eigin úrskurða er að mati nefndarinnar óvarlegt að draga svo afdráttarlausa ályktun af fyrirliggjandi álitum umboðsmanns Alþingis sem áður greinir. Þykir því varhugavert að slá því föstu að slík heimild sé til staðar fyrir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, án sérstakrar lagaheimildar, þegar litið er til hlutverks úrskurðarnefndarinnar lögum samkvæmt og sem áður er rakið.

Með vísan til framangreinds verður vísað frá þeirri kröfu frestbeiðenda að fresta réttaráhrifum úrskurða í kærumálum nr. 3, 4, 5, 6 og 12/2018.

Með þá miklu hagsmuni í huga sem hér um ræðir þykir rétt að vekja athygli á að í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 er að finna heimildir til handa ráðherra, ef ríkar ástæður mæla með því og að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar, til að veita tímabundna undanþágu frá kröfu um starfsleyfi. Enn fremur að taki Matvælastofnun ákvörðun um að stöðva starfsemi rekstraraðila skv. 21. gr. c. laga nr. 71/2008 þá er sú stjórnvaldsákvörðun kæranleg til ráðherra skv. 2. mgr. i.f. 4. gr. laganna, sem getur eftir atvikum frestað réttaráhrifum þeirrar ákvörðunar.

Úrskurðarorð:

Vísað er frá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála beiðni um frestun réttaráhrifa úrskurða nefndarinnar í kærumálum nr. 3, 4, 5, 6 og 12/2018.

 

139/2016 Furugrund

Með

Árið 2018, miðvikudaginn 24. október, tók Nanna Magnadóttir, forstöðumaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 139/2016 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011.

Kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 27. september 2016 um að synja umsókn um breytingar á fasteigninni að Furugrund 3, Kópavogi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. október 2016, er barst nefndinni 28. s.m., kærir Magni ehf., þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 27. september 2016 að hafna beiðni um að breyta húsnæði að Furugrund 3, Kópavogi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 1. desember 2016.

Málsatvik og rök: Með bréfi til byggingarfulltrúans í Kópavogi, dags. 13. júní 2016, sótti kærandi um leyfi til þess að breyta fasteigninni að Furugrund 3, Kópavogi og breyta notkun hennar í íbúðarhótel. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 24. s.m. var umsókninni vísað til skipulagsnefndar með vísan til 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Á fundi skipulagsnefndar 27. júní s.á. var samþykkt að grenndarkynna framlagða tillögu með vísan til 44. gr. skipulagslaga. Á fundi skipulagsnefndar 19. september s.á. var tillaga kæranda lögð fram að nýju og henni hafnað með vísan til fjölda athugasemda og ábendinga sem fram hefðu komið í kjölfar grenndarkynningar. Var málinu vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Á fundi bæjarstjórnar 27. september 2016 var afgreiðsla skipulagsnefndar staðfest.

Kærandi telur að málsmeðferð málsins og afgreiðsla fari gegn ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010, laga um mannvirki nr. 160/2010 og almennum reglum stjórnsýsluréttarins, sbr. stjórnsýslulög nr. 37/1993. Með því að kynna umsóknina hafi sveitarfélagið fyrir sitt leyti fallist á tillöguna með fyrirvara um niðurstöðu grenndarkynningar. Sveitarfélaginu hafi áður en til afgreiðslu málsins kom borið að taka efnislega afstöðu til þeirra umsagna og athugasemda sem hafi borist.

Af hálfu bæjaryfirvalda er bent á að ekki sé skylt að taka afstöðu til athugasemda sem berist við grenndarkynningu byggingarleyfisumsókna, líkt og eigi við um breytingu á deiliskipulagi, sbr. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga. Það hafi verið niðurstaða skipulagsnefndar að synja erindinu og hafi sú niðurstaða byggst á því að mikil andstaða hafi verið meðal hagsmunaaðila um breytinguna.

Niðurstaða:
Í máli þessu er deilt um ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 27. september 2016 um að synja umsókn kæranda um leyfi fyrir breytingum og breyttri notkun á fasteigninni að Furugrund 3, Kópavogi.

Ekki er í gildi deiliskipulag fyrir umrætt svæði. Í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kemur fram sú meginregla að gera skuli deiliskipulag fyrir svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Undanþágu frá þeirri skyldu er að finna í ákvæði 1. mgr. 44. gr. laganna. Þar segir að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag hvað varði landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggi ekki fyrir þá geti skipulagsnefnd ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar, enda fari áður fram grenndarkynning. Endanleg ákvörðun um samþykkt byggingaráforma og útgáfu byggingarleyfis er hins vegar á hendi byggingarfulltrúa samkvæmt skýrum ákvæðum laga nr. 160/2010 um mannvirki, sbr. 11. og 13 gr., sbr. og 2. mgr. 9. gr. laganna.

Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu var umsókn kæranda synjað á fundi bæjarstjórnar Kópavogs 27. september 2016. Að þeirri afgreiðslu lokinni bar byggingarfulltrúa að taka byggingarleyfisumsóknina til afgreiðslu. Þar sem byggingarfulltrúi Kópavogsbæjar hefur hvorki tekið ákvörðun um synjun né samþykkt umsóknarinnar liggur ekki fyrir lokaákvörðun í málinu, en skv. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, ekki kærð fyrr en mál hefur verið til lykta leitt.

Þá verður ekki séð að í máli þessu myndi það hafa þýðingu að leggja fyrir byggingarfulltrúa að taka málið til meðferðar og ljúka því þar sem landnotkun þeirrar lóðar sem um ræðir hefur verið breytt í Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024, en breyting þess efnis birtist í B-deild Stjórnartíðinda 16. apríl 2018. Samkvæmt henni hefur VÞ-5, Furugrund 3 þar sem áður var verslun og þjónusta, verið breytt í íbúðarsvæði sem verður hluti af ÍB-2 Digranes. Er með breytingunni gert ráð fyrir að fjölgað verði íbúðum við Furugrund og að á því svæði verði gert ráð fyrir blöndun byggðar þar sem leyfð er verslun og þjónusta á jarðhæð en íbúðir á efri hæðum. Eru því höfuðforsendur skipulagsákvarðana vegna lóðarinnar breyttar frá því að máli þessu var skotið til úrskurðarnefndarinnar. Loks var í tölvupósti 11. október 2018, með vísan til breytts aðalskipulags, skorað á kæranda að færa rök fyrir því hvaða lögvörðu hagsmuni hann hefði af úrlausn kærumálsins og var honum veittur frestur í því skyni til 19. s.m., en kærandi brást ekki við innan frestsins.

Með vísan til framangreinds verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

12/2018 Fjarðalax

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 4. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Geir Oddsson umhverfis- og auðlindafræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 12/2018, kæra á ákvörðunum Matvælastofnunar frá 22. desember 2017 um að veita rekstrarleyfi fyrir annars vegar 6.800 tonna og hins vegar 10.700 tonna ársframleiðslu á laxi í sjókvíum í Patreksfirði og Tálknafirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 22. janúar 2018, kæra A og B, „fyrir hönd okkar undirritaðra, barna og barnabarna og erfingja þeirra“, sem og fyrir hönd Hótel Látrabjargs ehf. og Eignarhaldsfélagsins Fagrahvamms, ákvarðanir Matvælastofnunar frá 22. desember 2017 um að veita rekstrarleyfi fyrir annars vegar 6.800 tonna og hins vegar 10.700 tonna ársframleiðslu á laxi í sjókvíum í Patreksfirði og Tálknafirði. Er þess krafist að ákvarðanirnar verði felldar úr gildi.

Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Við meðferð málsins var aflað upplýsinga um stöðu framkvæmda og lágu jafnframt fyrir úrskurðarnefndinni upplýsingar um sjókvíaeldi það á laxi sem þegar var leyft á sama svæði. Að því virtu var ekki tekið sérstaklega á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Með bréfi, dags. 11. júlí 2018, sem móttekið var með tölvupósti sama dag, barst úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála beiðni leyfishafa um frestun m.a. þessa kærumáls. Var beiðnin á því reist að höfðað hefði verið dómsmál sem að mati leyfishafa væri svo samofið kærumálinu að ljóst væri að efnisleg niðurstaða í dómsmálinu gæti haft úrslitaáhrif um afdrif kærumálsins. Kærendum og leyfisveitendum var veittur kostur á að koma að athugasemdum vegna beiðninnar og nýttu kærendur sér það. Með bréfi, dags. 11. september 2018, synjaði úrskurðarnefndin beiðni um frestun kærumálsins með þeim rökum að niðurstaða í dómsmáli vegna leyfisveitinga fyrir öðru eldi en því sem sætt hefði kæru til úrskurðarnefndarinnar myndi ekki binda hendur nefndarinnar í kærumálinu, þótt niðurstaða dómstóla um lagatúlkun gæti haft áhrif á réttarþróun almennt í málum sem vörðuðu leyfisveitingar vegna fiskeldis í kjölfar mats á umhverfisáhrifum.

Gögn málsins bárust frá Matvælastofnun 26. febrúar 2018.

Málavextir: Hinn 30. september 2015 lögðu Fjarðalax ehf. og Arctic Sea Farm hf. fram frummatsskýrslu um eldi á allt að 19.000 tonnum af laxi og regnbogasilungi í Patreksfirði og Tálknafirði samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Fram kemur í áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum, dags. 23. september 2016, að framkvæmdin og frummatsskýrslan hafi verið auglýst opinberlega 20. október 2015 í Lögbirtingablaðinu, Fréttablaðinu og Morgunblaðinu. Frummatsskýrslan lá frammi til kynningar frá 20. október til 2. desember 2015 á skrifstofum Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar, í Þjóðarbókhlöðu og hjá Skipulagsstofnun. Frummatsskýrslan var einnig aðgengileg á vef Skipulagsstofnunar. Framkvæmdaraðilar héldu fund á Tálknafirði 9. nóvember 2015 til kynningar á framkvæmdinni og umhverfisáhrifum hennar.

Hinn 9. maí 2016 lögðu Fjarðalax og Arctic Sea Farm fram matsskýrslu um framleiðslu á allt að 17.500 tonnum af laxi í Patreksfirði og Tálknafirði og óskuðu eftir áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Álit stofnunarinnar er frá 23. september 2016, eins og áður sagði.

Í niðurstöðukafla álits Skipulagsstofnunar segir svo: „Í samræmi við 11. gr. laga og 24. gr. reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum hefur Skipulagsstofnun farið yfir matsskýrslu [framkvæmdaraðila] sem lögð var fram samkvæmt 10. gr. sömu laga. Skipulagsstofnun telur að matsskýrslan uppfylli skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum.“

Jafnframt var eftirfarandi tekið fram: „Helstu neikvæðu áhrif fyrirhugaðs fiskeldis [framkvæmdaraðila] í Patreksfirði og Tálknafirði munu að mati Skipulagsstofnunar felast í áhrifum á fisksjúkdóma, laxalús, náttúrulega stofna laxfiska og botndýralíf. Þannig felast helstu neikvæðu áhrif framkvæmdanna m.a. í aukinni hættu á að sjúkdómar og laxalús berist frá eldinu í villta laxfiskastofna, einkum sjóbirting, sem dvelur í sjó í Patreksfirði og Tálknafirði hluta úr ári. Þótt far strokulaxa úr eldi fyrir nokkrum árum virðist hafa takmarkast við Patreksfjörð, er líklegt að sú mikla aukning sem er áformuð á framleiðslu í fjörðunum feli í sér meiri hættu á að lax sleppi úr eldiskvíunum og að áhrifa eldisins geti orðið vart utan Patreksfjarðarflóa, með tilheyrandi hættu á að eldislax blandist villtum laxastofnum. Stofnunin telur mikilvægt að tryggt verði að eldisbúnaður sé í samræmi við kröfur viðurkenndra staðla til að draga eins og kostur er úr þessari hættu. Einnig er mikilvægt að vöktun á lífríki hafsbotns á eldissvæðunum verði í samræmi við viðurkennda staðla og mat á burðarþoli verði uppfært í samræmi við vöktun á ástandi sjávar.“

Í niðurstöðukafla í áliti sínu gerði Skipulagsstofnun tillögu um að eftirfarandi skilyrði yrðu sett við leyfisveitingar vegna fiskeldisins:

1.    Viðmið um heimilaðan fjölda laxalúsa á eldisfiski með hliðsjón af áætlaðri hættu á afföllum villtra laxfiska.
2.    Vöktun á laxalús á eldisfiski og sýnataka verði á þeim tíma árs sem aðstæður eru hagstæðar fyrir vöxt laxalúsar.
3.    Niðurstöður vöktunar verði gerðar opinberar.
4.    Viðbragðsáætlun um mótvægisaðgerðir í samræmi við niðurstöður um smitálag frá eldisfiski hverju sinni og áhættu fyrir villta fiskistofna.
5.    Samræmda útsetningu seiða fyrirtækjanna til að lágmarka hættu á því að smit frá eldinu berist milli árgangasvæða.
6.    Eldisbúnaður Fjarðalax og Arctic Sea Farm uppfylli sambærilegar kröfur og settar eru í staðlinum NS 9415:2009 varðandi útbúnað og verklag.
7.    Vöktun á ástandi sjávar í fjörðunum til grundvallar endurskoðuðu burðarþolsmati verði í samræmi við ráðleggingar Hafrannsóknarstofnunar.
8.    Vöktun á uppsöfnun lífræns úrgangs á sjávarbotn undir og við eldiskvíar og áhrifum þess á botndýralíf verði byggt á staðlinum ISO 12878.
9.    Eldi hefjist ekki á ný að lokinni hvíld fyrr en hafsbotn á svæðinu hefur náð ásættanlegu ástandi, samkvæmt viðmiðum Umhverfisstofnunar.

Fjarðalax sótti um rekstrarleyfi til Matvælastofnunar með umsókn, dags. 26. júlí 2016 og Arctic Sea Farm sótti um rekstrarleyfi til sömu stofnunar með umsókn, dags. 23. september. Stofnunin gaf út rekstrarleyfi til handa leyfishöfum 22. desember 2017. Útgáfa leyfanna var auglýst á fréttagátt vefsíðu stofnunarinnar 27. s.m., ásamt tenglum á rekstrarleyfin, álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum og afstöðu Matvælastofnunar til álitsins. Útgáfurnar voru einnig auglýstar í Fréttablaðinu 28. desember 2017. Kæra barst úrskurðarnefndinni 22. janúar 2018, svo sem áður greinir.

Umhverfisstofnun hefur veitt Fjarðalaxi og Arctic Sea Farm starfsleyfi fyrir eldi því sem um ræðir. Hafa þær leyfisveitingar einnig verið kærðar til úrskurðarnefndarinnar og eru þau kærumál nr. 4 og 6/2018.

Skömmu eftir veitingu hins kærða leyfis tilkynntu Arctic Sea Farm og Fjarðalax fyrirhugaða breytingu á staðsetningu eldissvæða fyrirtækjanna í Patreksfirði til Skipulagsstofnunar til ákvörðunar um matsskyldu skv. 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. lið 13.02 í 1. viðauka laganna. Ákvörðun Skipulagsstofnunar þess efnis að framkvæmdin skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum lá fyrir 11. apríl 2018. Hefur sú ákvörðun einnig verið kærð til úrskurðarnefndarinnar og er það kærumál nr. 73/2018. Í júní 2018 lá fyrir ákvörðun Matvælastofnunar um breytingu á rekstrarleyfi Fjarðalax, þar sem hnitum einnar staðsetningar, Eyri í Patreksfirði, var breytt. Fyrirhugað er að breyta einnig rekstrarleyfi Arctic Sea Farm samkvæmt upplýsingum frá stofnuninni. Í september 2018 lágu fyrir ákvarðanir Umhverfisstofnunar um breytingu á starfsleyfum fyrirtækjanna hvað varðaði staðsetningu tveggja eldissvæða í Patreksfirði, annars vegar við Þúfnaeyri og hins vegar við Kvígindisdal.

Leyfi þau sem hér sæta kæru voru felld úr gildi með úrskurðum úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sem kveðnir voru upp 27. september 2018 í kærumálum nr. 3 og 5/2018.

Málsrök kærenda:
Kærendur kveðast vera eigendur og erfingjar að jörðinni Vatnsdal við sunnanverðan Patreksfjörð. Í Vatnsdal sé silungsvatn og á sem renni til sjávar. Sjóbirtingsveiði og aðrar hreinar og náttúrulegar afurðir séu nú helstu hlunnindi jarðarinnar ásamt veiði í á og vatni. Jörðin sé sjávarjörð og liggi að jörðinni Kvígindisdal að austanverðu. Jafnframt séu kærendur eigendur og rekstraraðilar að Hótel Látrabjargi í Örlygshöfn við sunnanverðan Patreksfjörð. Með öðru hinna kærðu rekstrarleyfa sé veitt leyfi til sjókvíaeldis á erfðabreyttum laxi í sjó við Kvígindisdal sem sé í næsta nágrenni við ósa árinnar, þar sem villtur sjóbirtingur gangi upp í Vatnsdalsvatn. Muni villti fiskurinn væntanlega leita í æti sem til falli við fyrirhugað eldi með tilheyrandi smithættu á lús og hættu á blöndun á milli stofna og þar með eyðileggingu villta stofnsins ásamt truflun á eðlilegri göngu hans. Einnig verði villtur sjóbirtingsstofn eyðilagður með tilkomu mengunar frá fæði eldisfisks, sem kunni að innihalda sýklalyf og margvísleg óæskileg efni. Við það eldi sem þegar sé til staðar og til standi að margfalda hafi nú þegar orðið vart við þörungablóma og mengun í sjó.

Kærendum virðist sem leyfin séu veitt á mjög hæpnum grunni og fyrirliggjandi skýrslur opinberra stofnana um málið séu mest í skötulíki og ekki til þess fallnar að gæta hagsmuna annarra en leyfishafa. Ekki sé að sjá að neitt hlutlægt mat á umhverfisáhrifum hafi átt sér stað.
Auk beinnar áhættu vegna mengunar og kynblöndunar sé ein helsta hættan sú að orðspor svæðisins skaðist verulega til framtíðar. Gerist það sé um algert og óafturkræft tjón að ræða. Ferðamenn og heimamenn muni hætta að geta notið óspilltrar og hreinnar náttúru svæðisins og allur Patreksfjörður verði eitt stórt iðnaðarsvæði.

Málsrök Matvælastofnunar: Af hálfu Matvælastofnunar er þess krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði staðfestar. Fiskeldi hafi verið stundað á Íslandi um langt skeið. Þrátt fyrir að löggjafinn og stjórnvöld hafi verið meðvituð um að fiskeldi geti haft í för með sér ákveðna áhættu hafi verið tekin sú pólitíska ákvörðun að leyfa fiskeldi. Til að takmarka þessa áhættu hafi stjórnvöld friðað tiltekin svæði til að vernda villta stofna laxfiska, sbr. auglýsingu nr. 460/2004 um friðunarsvæði, þar sem eldi laxfiska í sjókvíum er óheimilt. Vestfirðir og Austurland falli utan nefndra friðunarsvæða samkvæmt auglýsingunni, þ.m.t. Patreksfjörður og Tálknafjörður. Matvælastofnun sé stjórnvald og starfi á grundvelli laga nr. 80/2005 um Matvælastofnun. Samkvæmt 2. gr. laganna sé lögbundið hlutverk stofnunarinnar að annast framkvæmd stjórnsýslu og eftirlit með ákvæðum laga nr. 71/2008 um fiskeldi og reglugerð nr. 1170/2015 um fiskeldi, þ.m.t. að gefa út rekstrarleyfi vegna fiskeldis.

Leyfishafar hafi lagt sameiginlega fram skýrslu, dags. 6. maí 2016, um mat á umhverfisáhrifum framleiðslu á laxi í Patreksfirði og Tálknafirði – aukning um 14.500 tonn í kynslóðaskiptu eldi. Í skýrslunni sé fjallað um áhrif framkvæmda sem felist í að koma fyrir sjókvíum og öðrum eldisbúnaði, flutningi eldisfisks og síðan áhrif af rekstri sjókvíaeldisins með tilliti til fóðrunar, losunar frá eldinu og framleiðsluferlis. Umhverfisþættir sem teknir hafi verið til skoðunar hafi verið ástand sjávar og strandsvæða, botndýralíf, annað sjávarlíf, fuglar, ásýnd, samfélag og sjávar og strandnýting í Patreksfirði og Tálknafirði. Helstu mótvægisaðgerðir séu taldar felast í vel skilgreindu verklagi og góðum starfsvenjum, reglubundinni hvíld eldissvæða, kynslóðaskiptu eldi og góðri fóðurstýringu. Þá komi fram í skýrslunni að leyfishafar stefni að því að nota sjókvíar í hæsta gæðaflokki til eldisins sem standist kröfur samkvæmt norska staðlinum NS9415 og kröfum sem komi fram í reglugerð nr. 401/2012 um fiskeldi. Í skýrslunni sé fjallað um valkosti, samlegðaráhrif vegna fiskeldis í firðinum á ástand sjávar og strandsvæða á rekstrartíma sjókvíaeldisins og sjúkdómahættu og mögulegrar erfðablöndunar milli eldisfisks og villtra stofna. Þá sé þar gerð grein fyrir helstu mótvægisaðgerðum. Þegar skýrslan hafi verið lögð fram hafi legið fyrir greinargerð Hafrannsóknastofnunar um mat á burðarþoli Patreksfjarðar og Tálknafjarðar. Matið geri ráð fyrir að vegna stærðar fjarðanna og varúðarnálgunar varðandi raunveruleg áhrif eldisins, einkum á botndýralíf og súrefnisstyrk, að hægt sé að leyfa allt að 20.000 tonna eldi í fjörðunum. Matið hafi verið bundið við þær forsendur að heildarlífmassi yrði aldrei meiri en 20.000 tonn og að vöktun á áhrifum eldisins færi fram.

Í kjölfar málsmeðferðar samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum hafi leyfishafar sótt um rekstrarleyfi til Matvælastofnunar fyrir framleiðslu á laxi í Patreksfirði og Tálknafirði skv. III. kafla laga nr. 71/2008. Með umsóknunum hafi fylgt afrit af ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu, upplýsingar um fjármögnun, ábyrgðartrygging, rekstraráætlun og burðarþolsmat. Þá hafi í umsókninni verið upplýst um heimild til afnota sjávar, stærð og staðsetningu eldisstöðvarinnar, eldisbúnað, eldistegundir, árlega framleiðslugetu og framleiðslumagn, eldisaðferðir og eldisstofna, eignaraðild, eigið fé, fagþekkingu umsækjenda og gæðakerfi, sbr. 8. gr. laga nr. 71/2008. Í samræmi við 13. gr. laga nr. 106/2000 hafi Matvælastofnun kynnt sér skýrslu um mat á umhverfisáhrifum og tekið rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.

Fyrir liggi að málsmeðferð við gerð mats á umhverfisáhrifum og meðferð málsins hjá Skipulagsstofnun hafi verið í samræmi við lög nr. 106/2000. Samkvæmt lögunum hafi leyfishöfum borið að vinna skýrslu um mat á umhverfisáhrifum og síðan hafi Skipulagsstofnun borið að gefa rökstutt álit á því hvort skýrslan uppfyllti kröfur laganna. Í álitinu skuli gera grein fyrir helstu forsendum matsins og þeim athugasemdum og umsögnum sem borist hafi við meðferð málsins.

Um áhrif eldisins hafi verið fjallað í mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar og áliti Skipulagsstofnunar, sem og mótvægisaðgerðir vegna áhrifanna. Í áliti Skipulagsstofnunar, sem unnið hafi verið í samræmi við 11. gr. laga nr. 106/2000, hafi komið fram að helstu neikvæðu áhrif eldisins væru áhrif á fisksjúkdóma og sníkjudýr, áhrif vegna slysasleppinga og áhrif á botndýralíf.

Tilgangur málsmeðferðar samkvæmt lögum nr. 106/2000 og lögum nr. 71/2008, ásamt reglugerð nr. 1170/2015, sé að taka mið af þeim sjónarmiðum er varði fiskeldi og áhrif þess á umhverfi. Við mat á umhverfisáhrifum hafi verið fjallað um áhrif eldisins á umhverfið, þ.m.t. súrefnisstyrk sjávar, næringargildi í sjó, botndýralíf, villta laxfiskastofna, svo sem varðandi sjúkdóma, laxalús og erfðablöndun, sem og áhrif á landslag og ásýnd, hagræna og félagslega þætti, siglingaleiðir, innviði, veiðar og önnur störf, ferðaþjónustu og útivist, menningarminjar, verndarsvæði og samlegðaráhrif eldisins.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafar krefjast þess að kæru í málinu verði vísað frá en til vara að öllum kröfum kærenda verði hafnað. Aðild og lögvarðir hagsmunir séu verulega vanreifaðir í kæru. Einnig séu meintir hagsmunir kærenda svo almenns eðlis að þeir uppfylli ekki almenn skilyrði þess að teljast vera lögvarðir. Sé almennt viðurkennt að aðili þurfi að hafa beina og einstaklega hagsmuni umfram það sem almennt gerist. Aðild kærenda sé studd þeim rökum að þeir séu eigendur og erfingjar að jörðinni Vatnsdal við sunnanverðan Patreksfjörð. Sé öllum fullyrðingum kærenda um að fiskeldi muni eyðileggja möguleika á lífrænni ræktun og nýtingu lífrænna afurða í Vatnsdal alfarið vísað á bug. Engin haldbær gögn liggi fyrir í málinu sem styðji það að kærendur muni verða fyrir marktækum áhrifum af starfsemi leyfishafa og hafi þeir ekki átt neina formlega aðild að málinu á stjórnsýslustigi. Hafa beri í huga að mat á umhverfisáhrifum sé langt ferli sem hafi byrjað formlega í nóvember 2013. Á þeim fjórum árum sem ferlið hafi tekið hafi áform leyfishafa um eldi í Patreksfirði og Tálknafirði margsinnis verið auglýst og kynnt opinberlega og kallað eftir athugasemdum. Engar athugasemdir hafi borist frá kærendum í ferlinu öllu. Hin kærðu rekstrarleyfi veiti ekki heimild til sjókvíaeldis á erfðabreyttum laxi. Lax sem til standi að nýta í fyrirhugað fiskeldi í Patreksfirði og Tálknafirði sé kynbættur, ekki erfðabreyttur. Lax sem nú sé alinn á Íslandi hafi verið kynbættur hér frá árinu 1990. Hann sé kallaður Saga-stofn og byggi á norskum stofnum.

Hafnað sé þeirri fullyrðingu að ekkert hlutlægt mat á umhverfisáhrifum hafi átt sér stað. Við allan undirbúning þeirrar framleiðslu sem leyfin heimili hafi verið fylgt þeim lögum og reglum sem við eigi og um starfsemina gildi. Fyrirhugað fiskeldi hafi sætt mati á umhverfisáhrifum í samræmi við fyrirmæli laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Lögin mæli skýrt fyrir um að það sé á ábyrgð framkvæmdaraðila að vinna skýrslu um umhverfisáhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar og starfsemi sem henni fylgi ásamt tillögum um mótvægisaðgerðir, sbr. j-lið 1. mgr. 3. gr. laganna. Þannig sé tryggt að framkvæmdaraðili hafi yfirsýn yfir þá umhverfisþætti sem fylgi framkvæmdinni. Með yfirumsjón og þátttöku Skipulagsstofnunar sé tryggt að hlutlaus og fagleg umfjöllun eigi sér stað. Matsskýrsla hafi verið unnin fyrir hönd og á ábyrgð leyfishafa. Í samræmi við fyrirmæli laga nr. 106/2000 liggi fyrir álit Skipulagsstofnunar á matsskýrslunni, dags. 23. september 2016, þar sem komist sé að þeirri niðurstöðu að skýrslan uppfylli skilyrði laganna og reglugerðar nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum. Í samræmi við fyrirmæli 13. gr. laga nr. 106/2000 hafi Matvælastofnun kynnt sér matsskýrslu framkvæmdarinnar og tekið skýra afstöðu til álits Skipulagsstofnunar, sbr. greinargerð Matvælastofnunar, dags. 22. desember 2017. Framangreind málsmeðferð sé því að fullu í samræmi við fyrirmæli laga nr. 106/2000.

Í matsskýrslu og áliti Skipulagsstofnunar sé fjallað ítarlega um þá þætti er snúi að mengun hafs og stranda og grein gerð fyrir áhrifum framkvæmdarinnar á sjávarlíf, þ.m.t. á villta stofna laxfiska. Þannig hafi sérstaklega verið fjallað um hættu á slysasleppingum, fisksjúkdómum og erfðablöndun. Þá sé gerð grein fyrir helstu áhættuþáttum vegna hvers þessara þátta, mögulegum mótvægisaðgerðum og eftirliti. Við undirbúning hafi leyfishafi kannað vöktunarþætti og mögulegar mótvægisaðgerðir og lagt mat á þær. Þar komi meðal annars fram að helstu mótvægisaðgerðir gegn slysasleppingum og erfðablöndun felist í að vanda til eldisbúnaðar og merkinga á honum, taka mið af áhættuþáttum við staðarval, fylgja ströngustu stöðlum, kynna verklagsreglur fyrir starfsmönnum o.s.frv. Helsta vörn gegn smitsjúkdómum og dreifingu sé bólusetning eldisseiða, kynslóðaskipt eldi, þriggja mánaða hvíld eldissvæða, gott bil á milli eldiskvía og vandað verklag. Þá sé fjallað um lífræn næringarefni og förgun úrgangs.

Í áliti Skipulagsstofnunar hafi verið fjallað um framangreind atriði og lagt hlutlægt mat á þau, auk þess sem fjallað hafi verið um athugasemdir umsagnaraðila og annarra aðila. Að mati Skipulagsstofnunar muni helstu neikvæðu áhrif fyrirhugaðs fiskeldis leyfishafa felast í áhrifum á fisksjúkdóma, laxalús, náttúrulega stofna laxfiska og botndýralíf. Þannig felist helstu neikvæðu áhrif framkvæmdanna m.a. í aukinni hættu á að sjúkdómar og laxalús berist frá eldinu í villta laxfiskastofna, einkum sjóbirting, sem dvelji í sjó í Patreksfirði og Tálknafirði hluta úr ári. Stofnunin hafi talið mikilvægt að tryggt yrði að eldisbúnaður væri í samræmi við kröfur viðurkenndra staðla til að draga eins og kostur sé úr þeirri hættu. Einnig hafi Skipulagsstofnun talið mikilvægt að vöktun á lífríki hafsbotns á eldissvæðunum yrði í samræmi við viðurkennda staðla og að mat á burðarþoli yrði uppfært í samræmi við vöktun á ástandi sjávar. Tekið hafi verið fullt tillit til þessara atriða við hinar kærðu leyfisveitingar.

Hvað varði málatilbúnað kærenda vegna sjúkdómahættu sé rétt að benda á að Ísland sé mjög framarlega á heimsvísu þegar komi að heilbrigði eldisfiska og nánast engin sýklalyf séu notuð í sjókvíaeldi hér á landi. Þess megi enn fremur geta að fyrirætlanir leyfishafa geri ráð fyrir svokölluðu kynslóðaskiptu eldi, sem feli í sér að kvíasvæðin séu hvíld í að lágmarki þrjá mánuði eftir hverja slátrun. Á þeim tíma hreinsi hafstraumar svæðin af áhrifum eldisins. Þannig sé aðeins ein kynslóð eldisfisks á hverju sjókvíaeldissvæði á hverjum tíma. Þetta sé gert til að hindra að sjúkdómar og lús berist á milli kynslóða og til að hreinsa svæðið á náttúrulegan hátt.

——-

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur farið yfir öll gögn og haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Ágreiningur máls þessa snýst um ákvarðanir Matvælastofnunar frá 22. desember 2017 um að veita rekstrarleyfi fyrir annars vegar 6.800 tonna og hins vegar 10.700 tonna ársframleiðslu á laxi í sjókvíum í Patreksfirði og Tálknafirði. Svo sem greinir í málavaxtalýsingu kvað úrskurðarnefndin upp úrskurði 27. september 2018, í kærumálum nr. 3 og 5/2018, þar sem greindar ákvarðanir voru felldar úr gildi. Hvað sem líður meintum skorti kærenda á lögvörðum hagsmunum er ljóst að þar sem hinar kærðu ákvarðanir hafa ekki lengur réttarverkan að lögum hafa kærendur ekki hagsmuni af efnisúrlausn málsins. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist lítillega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

4/2018 Arctic Sea Farm

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 4. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Geir Oddsson umhverfis- og auðlindafræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 4/2018, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 13. desember 2017 um að veita starfsleyfi fyrir 6.800 tonna ársframleiðslu á laxi í sjókvíum í Patreksfirði og Tálknafirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. janúar 2018, er barst nefndinni 17. s.m., kæra Náttúruverndarsamtök Íslands, náttúruverndarsamtökin Laxinn lifi, Akurholt ehf. og Geiteyri ehf., eigendur Haffjarðarár í Hnappadal, eigandi Kirkjubóls í Arnarfirði og veiðiréttarhafi í Fífustaðadal, eigandi Grænuhlíðar í Arnarfirði og veiðiréttarhafi í Bakkadal, Fluga og net ehf., rekstrarfélag Vatnsdalsár á Barðaströnd, eigandi hluta veiðiréttar í Hvannadalsá, Langadalsá og Þverá í innanverðu Ísafjarðardjúpi og Varpland ehf., eigandi hluta veiðiréttar í Langadalsá og Hvannadalsá, og veiðifélag Laxár á Ásum þá ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 13. desember 2017 um veitingu starfsleyfis til handa Arctic Sea Farm fyrir 6.800 tonna ársframleiðslu á laxi í sjókvíum í Patreksfirði og Tálknafirði. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Við meðferð málsins var aflað upplýsinga um stöðu framkvæmda og lágu jafnframt fyrir úrskurðarnefndinni upplýsingar um sjókvíaeldi það á laxi sem þegar var leyft á sama svæði. Að því virtu var ekki tekið sérstaklega á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Gögn málsins bárust frá Umhverfisstofnun 26. mars 2018.

Málavextir: Hinn 30. september 2015 lögðu Fjarðalax ehf. og Arctic Sea Farm hf. fram frummatsskýrslu um eldi á allt að 19.000 tonnum af laxi og regnbogasilungi í Patreksfirði og Tálknafirði samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Fram kemur í áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum, dags. 23. september 2016, að framkvæmdin og frummatsskýrslan hafi verið auglýst opinberlega 20. október 2015 í Lögbirtingablaðinu, Fréttablaðinu og Morgunblaðinu. Frummatsskýrslan lá frammi til kynningar frá 20. október til 2. desember 2015 á skrifstofum Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar, í Þjóðarbókhlöðu og hjá Skipulagsstofnun. Frummatsskýrslan var einnig aðgengileg á vef Skipulagsstofnunar. Framkvæmdaraðilar héldu fund á Tálknafirði 9. nóvember 2015 til kynningar á framkvæmdinni og umhverfisáhrifum hennar.

Hinn 9. maí 2016 lögðu Fjarðalax og Arctic Sea Farm fram matsskýrslu um framleiðslu á allt að 17.500 tonnum af laxi í Patreksfirði og Tálknafirði og óskuðu eftir áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Álit stofnunarinnar er frá 23. september 2016, eins og áður sagði.

Í niðurstöðukafla álits Skipulagsstofnunar segir svo: „Í samræmi við 11. gr. laga og 24. gr. reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum hefur Skipulagsstofnun farið yfir matsskýrslu [framkvæmdaraðila] sem lögð var fram samkvæmt 10. gr. sömu laga. Skipulagsstofnun telur að matsskýrslan uppfylli skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum.“

Jafnframt var eftirfarandi tekið fram: „Helstu neikvæðu áhrif fyrirhugaðs fiskeldis [framkvæmdaraðila] í Patreksfirði og Tálknafirði munu að mati Skipulagsstofnunar felast í áhrifum á fisksjúkdóma, laxalús, náttúrulega stofna laxfiska og botndýralíf. Þannig felast helstu neikvæðu áhrif framkvæmdanna m.a. í aukinni hættu á að sjúkdómar og laxalús berist frá eldinu í villta laxfiskastofna, einkum sjóbirting, sem dvelur í sjó í Patreksfirði og Tálknafirði hluta úr ári. Þótt far strokulaxa úr eldi fyrir nokkrum árum virðist hafa takmarkast við Patreksfjörð, er líklegt að sú mikla aukning sem er áformuð á framleiðslu í fjörðunum feli í sér meiri hættu á að lax sleppi úr eldiskvíunum og að áhrifa eldisins geti orðið vart utan Patreksfjarðarflóa, með tilheyrandi hættu á að eldislax blandist villtum laxastofnum. Stofnunin telur mikilvægt að tryggt verði að eldisbúnaður sé í samræmi við kröfur viðurkenndra staðla til að draga eins og kostur er úr þessari hættu. Einnig er mikilvægt að vöktun á lífríki hafsbotns á eldissvæðunum verði í samræmi við viðurkennda staðla og mat á burðarþoli verði uppfært í samræmi við vöktun á ástandi sjávar.“

Í niðurstöðukafla í áliti sínu gerði Skipulagsstofnun tillögu um að eftirfarandi skilyrði yrðu sett við leyfisveitingar vegna fiskeldisins:

1.    Viðmið um heimilaðan fjölda laxalúsa á eldisfiski með hliðsjón af áætlaðri hættu á afföllum villtra laxfiska.
2.    Vöktun á laxalús á eldisfiski og sýnataka verði á þeim tíma árs sem aðstæður eru hagstæðar fyrir vöxt laxalúsar.
3.    Niðurstöður vöktunar verði gerðar opinberar.
4.    Viðbragðsáætlun um mótvægisaðgerðir í samræmi við niðurstöður um smitálag frá eldisfiski hverju sinni og áhættu fyrir villta fiskistofna.
5.    Samræmda útsetningu seiða fyrirtækjanna til að lágmarka hættu á því að smit frá eldinu berist milli árgangasvæða.
6.    Eldisbúnaður Fjarðalax og Arctic Sea Farm uppfylli sambærilegar kröfur og settar eru í staðlinum NS 9415:2009 varðandi útbúnað og verklag.
7.    Vöktun á ástandi sjávar í fjörðunum til grundvallar endurskoðuðu burðarþolsmati verði í samræmi við ráðleggingar Hafrannsóknarstofnunar.
8.    Vöktun á uppsöfnun lífræns úrgangs á sjávarbotn undir og við eldiskvíar og áhrifum þess á botndýralíf verði byggt á staðlinum ISO 12878.
9.    Eldi hefjist ekki á ný að lokinni hvíld fyrr en hafsbotn á svæðinu hefur náð ásættanlegu ástandi, samkvæmt viðmiðum Umhverfisstofnunar.

Arctic Sea Farm sótti um starfsleyfi til Umhverfisstofnunar með umsókn, dags. 26. september 2016. Stofnunin gaf út starfsleyfi til handa leyfishafa 13. desember 2017. Útgáfa leyfisins var auglýst á vefsíðu stofnunarinnar 27. s.m. ásamt tenglum á starfsleyfið, álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum og afstöðu Umhverfisstofnunar til álitsins. Kæra barst úrskurðarnefndinni 17. janúar 2018, svo sem áður greinir.

Matvælastofnun veitti Arctic Sea Farm rekstrarleyfi fyrir eldi því sem um ræðir, en auk þess veittu Matvælastofnun og Umhverfisstofnun rekstrarleyfi og starfsleyfi vegna eldis Fjarðalax á 10.700 tonna ársframleiðslu á laxi í Patreksfirði og Tálknafirði á grundvelli sama mats á umhverfisáhrifum. Voru þær leyfisveitingar einnig kærðar til úrskurðarnefndarinnar og eru þau kærumál nr. 3, 5, 6 og 12/2018. Með úrskurðum úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sem kveðnir voru upp 27. september 2018 í kærumálum nr. 3 og 5/2018, voru felldar úr gildi ákvarðanir Matvælastofnunar um að veita rekstrarleyfi fyrir eldi fyrirtækjanna tveggja og með úrskurði kveðnum upp fyrr í dag var kröfum kærenda í máli nr. 12/2018 vegna þeirra leyfa vísað frá úrskurðarnefndinni.

Skömmu eftir veitingu hins kærða leyfis tilkynntu Arctic Sea Farm og Fjarðalax fyrirhugaða breytingu á staðsetningu eldissvæða fyrirtækjanna í Patreksfirði til Skipulagsstofnunar til ákvörðunar um matsskyldu skv. 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. lið 13.02 í 1. viðauka laganna. Ákvörðun Skipulagsstofnunar þess efnis að framkvæmdin skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum lá fyrir 11. apríl 2018. Hefur sú ákvörðun einnig verið kærð til úrskurðarnefndarinnar og er það kærumál nr. 73/2018. Í júní 2018 lá fyrir ákvörðun Matvælastofnunar um breytingu á rekstrarleyfi Fjarðalax, þar sem hnitum einnar staðsetningar, Eyri í Patreksfirði, var breytt. Fyrirhugað er að breyta einnig rekstrarleyfi Arctic Sea Farm samkvæmt upplýsingum frá stofnuninni. Í september 2018 lágu fyrir ákvarðanir Umhverfisstofnunar um breytingu á starfsleyfum fyrirtækjanna hvað varðaði staðsetningu tveggja eldissvæða í Patreksfirði, annars vegar við Þúfnaeyri og hins vegar við Kvígindisdal.

Málsrök kærenda: Kærendur kveðast eiga mikilla hagsmuna að gæta, að ekki verði stefnt í hættu lífríki Haffjarðarár, Fífustaðadalsár, Bakkadalsár, Vatnsdalsár á Barðaströnd, Hvannadalsár, Langadalsár, Þverár og Laxár á Ásum. Hættan sé fyrirsjáanleg fyrir hina villtu lax- og silungastofna ánna, m.a. með lúsafári og mengun frá framandi, erlendum og kynbættum eldislaxi, sem enginn mótmæli að muni sleppa í meira eða minna mæli úr fyrirhuguðu sjókvíaeldi í Patreksfirði og Tálknafirði. Víst sé að eldisfiskurðinn muni dreifa sér í veiðiár allt í kringum landið, eins og nýleg reynsla sýni, að ekki sé minnst á lúsafár og sjúkdómasmit og stórfellda saur- og fóðurleyfamengun í nágrenni eldiskvíanna. Byggt sé á því að ýmis konar vanræksla Umhverfisstofnunar og annmarkar á starfsleyfinu og útgáfuferli þess valdi ógildinu leyfisins.

Útgáfa hins kærða rekstrarleyfis hafi verið auglýst á heimasíðu Umhverfisstofnunar 27. desember 2017 og sé því kærufrestur til 27. janúar 2018.

Í 1. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi segi m.a. að tryggja skuli verndun villtra nytjastofna og koma skuli í veg fyrir hugsanleg spjöll á villtum nytjastofnum og lífríki þeirra og tryggja hagsmuni þeirra sem nýti slíka stofna. Í 2. mgr. segi að við framkvæmd laganna skuli þess ávallt gætt að sem minnst röskun verði á vistkerfi villtra fiskstofna og að sjálfbærri nýtingu þeirra sé ekki stefnt í hættu. Í athugasemdum við lagagreinina segi: „Á hinn bóginn er það skýrt og endurspeglast að sínu leyti í markmiðsyfirlýsingu 2. mgr. og fleiri greinum frumvarpsins að vöxtur og viðgangur atvinnugreinarinnar [fiskeldis] má ekki gerast á kostnað viðgangs og nýtingar villtra fiskstofna. Í þessari takmörkun felst í raun að þegar ekki fara saman annars vegar hagsmunir þeirra sem veiðirétt eiga samkvæmt lax- og silungsveiðilögum og hins vegar þeirra sem fjallað er sérstaklega um í frumvarpi þessu víkja hinir síðarnefndu.“ Kærendur byggi á því að Umhverfisstofnun hafi ekki sýnt fram á hvernig útgáfa rekstrarleyfisins samrýmist ákvæði 1. gr. laga nr. 71/2008 og valdi það ógildingu rekstrarleyfisins.

Leyfishafi staðfesti í matsskýrslu sinni að ekki verði komist hjá strokulaxi í opnu sjókvíaeldi og sama niðurstaða sé í umsögn Fiskistofu. Þar segi jafnframt að hættan á því að erfðablöndun verði og geti valdið tjóni sé raunveruleg og hún aukist eftir því sem umfang eldisins verði meira. Vegna fyrirhugaðar framleiðsluaukningar sé því mikilvægt að lagt sé mat á hættuna á erfðablöndun og afleiðingar hennar fyrir villta stofna, í stað þess að afgreiða áhrifin sem „óveruleg og afturkræf“. Miðað við almennt viðurkenndar viðmiðunartölur um strokulaxa, þ.e. einn lax fyrir hvert framleitt tonn, megi reikna með að meðaltali 6.800 strokulöxum úr fyrirhuguðu eldi leyfishafa og að 40-50% þeirra gangi í árvatn. Sé þá ekki miðað við hugsanlegt stórslys. Alkunna sé að líffræðingar og fleiri telji varasamt að leyfa notkun á laxi af norskum uppruna hérlendis vegna þess hve hann sé erfðafræðilega frábrugðinn íslenskum laxastofnum og erfðamengun dragi m.a. úr hæfni villta laxins til að lifa af og fjölga sér og hafi einnig neikvæð áhrif á aðlögunarhæfni og ratvísi, enda sé bannað m.a. í Noregi, Bandaríkjunum og Kanada að nota framandi laxastofna í sjókvíaeldi.

Ljóst sé að Umhverfisstofnun hafi ekki gert sér grein fyrir því að meðferð stofnunarinnar á umsókn leyfishafa sé hluti af umhverfismatsferli og að meðferð umsóknarinnar skuli fara fram samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, eins og þau verði skýrð með hliðsjón af tilskipun 2011/92/ESB, eins og henni hafi verið breytt með tilskipun 2014/52/ESB, sbr. g-lið 2. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar, sem sé hluti af EES-samningnum. Umhverfisstofnun hafi t.d. ekki með beinum hætti afstöðu til stóru spurningarinnar í málinu, hvort rök hafi verið til þess að hafna leyfisumsókninni, a.m.k. að sinni. Stýring mengunar felist m.a. í því að afstýra mengun með því að hafna útgáfu starfsleyfis.

Við útgáfu starfsleyfisins hafi Umhverfisstofnun borið, skv. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000, að kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hennar. Þá skuli leyfisveitandinn birta opinberlega ákvörðun sína um útgáfu leyfisins og niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum. Einnig hafi leyfisveitanda borið að kanna og rökstyðja álit sitt á því hvort fullnægjandi rannsókn og greining lægi fyrir í málinu, þannig að efni rökstuðnings uppfyllti áskilnað 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Það hafi ekki verið gert. Loks hafi ekki verið vikið að því hvort mat á umhverfisáhrifum mismunandi valkosta framkvæmdarinnar hafi farið fram. Af öllu framangreindu sé ljóst að Umhverfisstofnun hafi hvorki tekið afstöðu með ásættanlegum hætti til álits Skipulagsstofnunar né framkvæmdarinnar sem slíkrar.

Samkvæmt 2. málsl. 40. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 geti stjórnvöld ekki afhent eignar- eða afnotarétt að hafsvæði við landið sé ekki fyrir hendi sérstök lagaheimild til hinnar tilteknu ráðstöfunar hafsvæðisins. Hvergi sé í lögum heimild til handa stjórnsýsluhöfum til að stofna til einstaklingsbundinna afnota manna yfir hafsvæðum umhverfis landið. Fyrirhugað athafnasvæði leyfishafa sé utan netlaga og innan landhelgi Íslands. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 73/1990 um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins sé íslenska ríkið eigandi allra auðlinda á, í eða undir hafsbotninum utan netlaga og svo langt til hafs sem fullveldisréttur Íslands nái samkvæmt lögum, alþjóðasamningum eða samningum við einstök ríki. Samkvæmt lagaákvæðinu fylgi eignarrétti ríkisins eignarráð yfir hafinu á sama svæði. Leyfishafi hafi ekki lagt fram skilríki fyrir afnot sín af hafinu eins og lagaskylda sé, skv. 2. mgr. 8. gr. fiskeldislaga nr. 71/2008, sbr. 40. gr. stjórnarskrár. Í umsókn sinni um rekstrarleyfi segi leyfishafi um heimild til afnota lands, vatns og sjávar: „Eldissvæðið í sjó er meira en 200 m frá landi og því utan skipulagslaga.

Hafrannsóknastofnun segi í umsögn sinni, dags. 27. nóvember 2017: „Stærðargráða fyrirhugaðs laxeldis gerir framkvæmdina fordæmalausa á Íslandi […] verður að telja að mikil áhætta sé tekin t.d. vegna laxalúsa og ekki öruggt að mótvægisaðgerðir gegn henni dugi.“ Þessu til viðbótar sé augljóst að samtals 17.500 tonna framleiðsla af erlendum og framandi laxastofni sé stórhættuleg viðbót, hvað erfðamengun varði, við þá framleiðslu sem þegar sé komin af stað á Vestfjörðum, m.a. vegna risavaxinna sammögnunaráhrifa. Varðandi umhverfisáhrif sé ekki aðeins um að ræða óviðráðanlega losun skolps í strandsjó, heldur einnig stórfjölgun strokulaxa, laxalúsar og sjúkdóma. Þetta komi fram í áliti Skipulagsstofnunar, dags. 23. september 2016, þar sem m.a. sé vísað til staðfestingar og greinargerðar Alþjóðahafrannsóknaráðsins. Um nefndar athugasemdir fjalli Umhverfisstofnun ekkert. Sé því ekki hægt að fallast á að hún hafi með ásættanlegum hætti tekið rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum í skilningi 2. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000.

Þá hafi Umhverfisstofnun ekki sinnt þeirri skyldu sinni að rannsaka, fjalla um og bera saman þá aðra valkosti sem til greina komi varðandi framkvæmdina, svo sem notkun geldfisks, eldi á landi, eldi í lokuðum sjókvíum, minna sjókvíaeldi eða svokallaðan núll valkost, sem hefðu í för með sér minni eða enga skaðsemi fyrir náttúruna og eignir annarra aðila, sbr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, 2. mgr. 9. gr. laga nr. 106/2000 og h-lið 1. tl. 2. mgr. 20. gr. reglugerðar nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum. Eigi þetta við um undirbúning útgáfu starfsleyfis, sem sé á ábyrgð Umhverfisstofnunar. Stofnunin nefni ekki hvort mat á umhverfisáhrifum mismunandi valkosta framkvæmdarinnar hafi farið fram með rannsókn, samanburði og umfjöllun. Um afleiðingar þess að vanrækja samanburð valkosta vísist t.d. til dóms Hæstaréttar frá 16. febrúar 2017 í máli nr. 575/2016.

Samkvæmt yfirliti leyfishafa um staðsetningu kvíaþyrpinga sé fjarlægð á milli eldissvæða annars vegar 2,0 km á milli kvía Arctic Sea Farm við Kvígindisdal í Patreksfirði og kvía Fjarðalax við Þúfneyri í Patreksfirði, og hins vegar 2,0 km á milli kvía Arctic Sea Farm við Akravík í Tálknafirði og kvía Fjarðalax við Lágadal í Tálknafirði. Leyfishafi mæli fjarlægð á milli kvíaþyrpinga innan eldissvæðanna. Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 1170/2015 um fiskeldi sé lágmarksfjarlægð á milli eldissvæða ótengdra aðila 5 km og skuli mæla lágmarksfjarlægð frá útmörkum hvers eldissvæðis. Heimild til styttri vegalengda en 5 km sé háð samráði Matvælastofnunar við Hafrannsóknastofnun, skv. 4. gr. áðurnefndrar reglugerðar. Þar sem Hafrannsóknastofnun hafi ekki samþykkt styttingu vegalengda að ósk Matvælastofnunar séu greindar staðsetningar óheimilar. Valdi það óhjákvæmilega ógildingu starfsleyfisins.

Ljóst sé að verði leyft risaeldi með norskum, kynbættum eldisstofni í sjókvíum í Patreksfirði og Tálknafirði séu veiðiár allt í kringum landið í hættu vegna erfðamengunar frá strokufiski, en þó mest á Vestfjörðum og á nærliggjandi laxveiðisvæðum við Breiðafjörð, Faxaflóa og Húnaflóa. Í málsmeðferð Umhverfisstofnunar hafi lögvernduðum eignarréttindum annarra í engu verið sinnt, enda þótt fyrir liggi, einkum frá Noregi, vísindalegar upplýsingar um víðtæka skaðsemi starfsemi sem hér um ræði.

Lítið sé fjallað með raunhæfum hætti í starfsleyfinu um gífurlegt magn úrgangs frá sjókvíaeldinu. Samkvæmt norskum heimildum sé úrgangur í sjó frá 6.800 tonna eldi áætlaður eins og skolpfrárennsli frá 110.000 manna byggð. Sjókvíaeldi séu einu matvælaframleiðslufyrirtæki hér á landi sem sé í framkvæmd leyft að demba óátalið öllum úrgangi óhreinsuðum í sjó.

Umhverfisstofnun hafi ekkert fjallað um áhrif risalaxeldis á búsvæði seiða nytjafiska í fjörðunum. Engar rannsóknir hafi verið gerðar á því atriði. Stofnuninni beri að fara með eftirlit með því að náttúru Íslands sé ekki spillt með athöfnum, framkvæmdum eða rekstri, að svo miklu leyti sem slíkt eftirlit sé ekki falið öðrum með sérstökum lögum, sbr. a-lið 2. mgr. 75. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013, sbr. einnig rannsóknarreglu í 10. gr. stjórnsýslulaga. Stofnunin hafi því eftirlit með því að ekki sé brotið gegn 1. og 2. gr. laga um náttúruvernd, hinni mikilvægu varúðarreglu 9. gr. sem og ákvæði 63. gr. um innflutning og dreifingu á lifandi framandi lífverum. Umhverfisstofnun beri við gerð og útgáfu starfsleyfis ekki aðeins að skoða mengunarþátt sjókvíaeldis í skilningi laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 og fiskeldislaga, heldur beri henni að rannsaka og meta sjálfstætt öll áhrif framkvæmdar á náttúruna. Það hafi ekki verið gert.

Málsrök Umhverfisstofnunar: Af hálfu Umhverfisstofnunar er bent á að til að starfrækja eldi sjávarlífvera þurfi bæði að hafa til þess starfsleyfi frá Umhverfisstofnun og rekstrarleyfi frá Matvælastofnun. Starfsleyfi sé gefið út á grundvelli laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur hafi í för með sér mengun. Þá sé fjallað um aðkomu Umhverfisstofnunar vegna fiskeldis í lögum nr. 71/2008 um fiskeldi, en stjórnsýsla samkvæmt þeim lögum sé í höndum Matvælastofnunar vegna útgáfu rekstrarleyfis og falli undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.

Í starfsleyfum vegna mengandi starfsemi sé einkum fjallað um mögulega mengun frá atvinnurekstri, sett losunarmörk vegna mengunar og verklagsreglur í samræmi við viðkomandi lög og reglugerðir og dregið með því úr áhrifum þeirrar mengunar sem óhjákvæmilega verði vegna mengandi atvinnustarfsemi, með það að markmiði að tryggja mengunarvarnir með sjálfbærni að leiðarljósi. Starfsleyfin séu því almennt gefin út til að dregið verði úr mengun af völdum atvinnurekstrar og setja rekstraraðilum skilyrði og kröfur sem þeir eiga að uppfylla í sínum rekstri.

Auk starfsleyfis verði leyfishafi í fiskeldi að vera með rekstrarleyfi frá Matvælastofnun, sbr. 4. gr. a. í lögum nr. 71/2008. Rekstrarleyfi Matvælastofnunar byggi á öðrum efnisatriðum. Í lögum nr. 71/2008 sé gert ráð fyrir að unnið sé samtímis að afgreiðslu starfsleyfis Umhverfisstofnunar og rekstrarleyfis Matvælastofnunar og skuli leyfin afhent leyfishafa samtímis af Matvælastofnun eftir að Umhverfisstofnun hafi gefið út og afhent Matvælastofnun starfsleyfið. Starfsleyfið sé sjálfstætt leyfi sem byggi á ákvörðun Umhverfisstofnunar. Þegar ákvörðun stofnunarinnar um starfsleyfi sé kærð sé mikilvægt að gera greinarmun á því hvaða atriði falli undir regluverk rekstrarleyfisins annars vegar og starfsleyfisins hins vegar. Gæta verði að valdbærni og valdheimildum stofnana og líta þannig til þeirra laga og reglugerða sem hvor stofnun starfi eftir og þeirra sértæku markmiða og leyfa sem um ræði í regluverkinu.

Starfsleyfið byggist á skilyrðum á grundvelli 8. gr. reglugerðar nr. 785/1999 sem sett sé með stoð í 5. gr. laga nr. 7/1998, sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna. Starfsleyfi Umhverfisstofnunar taki á mengunarþætti eldisins og feli í sér ítarlegar kröfur um takmörkun á mengun, eftirlit og mælingar á starfstíma.

Álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum vegna sameiginlegrar áætlunar Arctic Sea Farm og Fjarðalax hafi verið birt 23. september 2016, þar sem stofnunin telji helstu neikvæðu áhrifin vera vegna sjúkdóma, laxalúsar, áhrifa á náttúrulega stofna laxfiska og á botndýralíf. Umhverfisstofnun og Matvælastofnun hafi fundað 27. nóvember 2017 vegna álits Skipulagsstofnunar og farið yfir niðurstöðuna saman, þar sem um hafi verið að ræða tvo leyfisveitendur sem gefi út leyfi sem séu nauðsynleg til rekstrar og byggi á sama umhverfismati. Stofnanirnar telji mikilvægt að fara yfir niðurstöður matsins þannig að ekkert atriði falli á milli leyfisveitenda og tekin sé afstaða til allra atriða sem fram komi í niðurstöðum umhverfismatsins. Telji Umhverfisstofnun að allar forsendur og niðurstöður matsins hafi komið til skoðunar og að leyfin endurspegli niðurstöðu þess.

Umhverfisstofnun hafi auglýst tillögu að starfsleyfi á tímabilinu frá 5. júlí til 31. ágúst 2017. Auglýsingin hafi verið birt á vefsíðu stofnunarinnar ásamt gögnum sem hafi legið til grundvallar tillögunni. Auglýsingin hafi einnig verið birt í Lögbirtingablaði sama dag, auk þess sem tilkynning um auglýsinguna hafi verið birt í staðarblaðinu Vestfjörðum. Umhverfisstofnun hafi jafnframt tilkynnt um auglýsinguna til tengdra aðila. Fjórar umsagnir hafi borist um starfsleyfistillöguna. Gögn hafi verið aðgengileg hjá sveitarfélögunum Vesturbyggð og Tálknafirði á auglýsingatíma.

Umhverfisstofnun hafi sent Matvælastofnun starfsleyfið eftir ákvörðun um útgáfu þess, sbr. 4. gr. a. í lögum nr. 71/2008, og hafi það verið afhent og birt umsækjanda ásamt rekstrarleyfi. Starfsleyfið hafi öðlast gildi við afhendingu Matvælastofnunar til leyfishafa samhliða rekstrarleyfi og gildi til 13. desember 2033. Við gildistöku starfsleyfisins hafi fallið úr gildi eldra starfsleyfi frá 24. maí 2011. Með starfsleyfinu sé að mati Umhverfisstofnunar dregið úr þeim áhrifum sem mengun vegna eldisins valdi á botni fjarðarins með hvíld svæða á milli kynslóða. Með þeim hætti sé gert ráð fyrir að botninn nái að jafna sig á milli eldislota og gerðar séu mælingar til að meta ástandið. Stofnunin telji að þær varnir og sú vöktun sem tilgreind sé í starfsleyfi sé fullnægjandi til að vinna gegn skaðlegum áhrifum mengunar frá eldinu á annað lífríki fjarðarins.

Í umsögn Umhverfisstofnunar til Skipulagsstofnunar, dags. 10. nóvember 2015, hafi komið fram að helstu neikvæðu áhrif framkvæmdarinnar yrðu áhrif vegna uppsöfnunar úrgangs á hafsbotni undir eldiskvíunum, en að þau áhrif væru afturkræf og svæðin myndu ná sér að mestu eftir hvíld. Stofnunin hafi bent á að með framkvæmdinni væri verið að fullnýta burðarþol fjarðanna samkvæmt burðarþolsmati Hafrannsóknastofnunar. Í því ljósi væri mikilvægt að sannreyna lífrænt álag með vöktun sem endurspeglist í kröfum í vöktunaráætlun og starfsleyfi. Í niðurstöðum Hafrannsóknastofnunar, dags. 16. október 2017, um burðarþol íslenskra fjarða segi um burðarþol Patreksfjarðar og Tálknafjarðar að með tilliti til stærðar fjarðanna og varúðarnálgunar varðandi raunveruleg áhrif eldisins, einkum á botndýralíf og súrefnisstyrk, sé ráðlagt að hægt yrði að leyfa allt að 20.000 tonna eldi í Patreksfirði og Tálknafirði á ári.

Skipulagsstofnun telji að lífrænn úrgangur frá fyrirhuguðu eldi muni safnast upp á botni undir sjókvíum og næsta nágrenni þeirra. Því verði áhrif á ástand sjávar talsvert neikvæð á súrefnisinnihald við botn á takmörkuðu svæði undir eldiskvíum og nokkuð neikvæð á innihald uppleystra næringarefna sjávar á stærra svæði út frá eldiskvíum. Þar af leiði að neikvæð áhrif á botndýralíf verði talsvert neikvæð á takmörkuðu svæði nærri eldisstað, en fjær verði áhrifin nokkuð neikvæð til óveruleg. Áhrifin séu afturkræf ef starfseminni verði hætt og fóðrun ljúki. Í áliti Skipulagsstofnunar segi að við leyfisveitingar þurfi að setja skilyrði um tiltekin atriði til að afla vitneskju um áhrif eldisins á súrefnisbúskap í fjörðunum, styrkja mat á burðarþoli Patreksfjarðar og Tálknafjarðar og til vöktunar á botndýralífi á eldissvæðum. Vöktun á ástandi sjávar í fjörðunum til grundvallar endurskoðuðu burðarþolsmati verði í samræmi við ráðleggingar Hafrannsóknastofnunar. Vöktun á uppsöfnun lífræns úrgangs á sjávarbotn undir og við eldiskvíar og áhrifum þess á botndýralíf verði byggð á staðlinum ISO 12878. Eldi hefjist ekki á ný að lokinni hvíld fyrr en hafsbotn á svæðinu hafi náð ásættanlegu ástandi samkvæmt viðmiðum Umhverfisstofnunar.

Umhverfisstofnun telji að þær kröfur og sú vöktun sem tilgreind séu í starfsleyfi, einkum í þriðja til fimmta kafla, og í vöktunaráætlun séu fullnægjandi til að draga úr neikvæðum áhrifum mengunar frá eldinu á annað lífríki fjarðarins. Stofnunin taki undir þau atriði sem bent sé á, er varði losun lífniðurbrjótanlegs úrgangs og áhrif á nærumhverfið og botndýralíf. Með starfsleyfinu sé dregið úr þeim áhrifum á botn fjarðarins með hvíld svæða á milli kynslóða sem sé að lágmarki sex mánuðir. Með þeim hætti sé gert ráð fyrir að botninn nái að jafna sig á milli eldislota og að gerðar séu mælingar til að meta ástandið. Óskað hafi verið eftir breytingu á vöktunaráætlun sem lögð hafi verið fram í umsókn. Farið hafi verið fram á að mælingar og eftirlit með ástandi sjávar og botns verði í samræmi við staðalinn ISO 12878.

Í 6. gr. laga nr. 7/1998 segi að starfsleyfi skuli veitt starfsemi uppfylli hún þær kröfur sem til hennar séu gerðar samkvæmt lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim, að teknu tilliti til annarrar löggjafar. Í samræmi við lögmætisreglu stjórnsýsluréttar verði Umhverfisstofnun að taka ákvörðun um þau atriði sem falli innan verksviðs og valdheimilda stofnunarinnar.

Samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 megi ekki láta af hendi afnotarétt af fasteignum landsins nema samkvæmt lagaheimild. Ekki verði séð að afmörkuð hafsvæði utan netlaga geti flokkast undir hugtakið fasteign. Lög nr. 41/1979 um landhelgi, aðlægt belti, efnahagslögsögu og landgrunn fjalli um ólífrænar og lífrænar auðlindir á, í eða undir hafsbotninum, annarra en lifandi vera. Einnig sé mælt fyrir um leyfisveitingaferli Orkustofnunar ef um sé að ræða töku eða nýtingu efnis af hafsbotni eða úr honum. Ákvarðanir Orkustofnunar geti verið kærðar sérstaklega og vísist nánar um leyfisveitingaferli Orkustofnunar til þeirrar stofnunar. Samþykkt hafi verið þingsályktun um landsskipulagsstefnu 2013-2024, þar sem m.a. sé fjallað um stefnu um skipulag á haf- og strandsvæðum. Fullyrðing kærenda um eignarráð ríkisins að hafinu, sbr. 1. gr. laga nr. 73/1990 um eignarrétt ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, verði ekki skilin á þann hátt að stofnunum ríkisins sé óheimilt að gefa út starfsleyfi sem byggi á settum lögum, reglugerðum og skipulagsstefnu. Umhverfisstofnun hafni því að ekki séu heimildir til að veita leyfishöfum starfsleyfi til að starfrækja eldi sjávarlífvera á haf- og strandsvæðum við Ísland utan netlaga.

Hvað varði þá skyldu að rannsaka og bera saman valkosti hafi Umhverfisstofnun tekið fullt tillit og afstöðu til niðurstöðu mats á umhverfisáhrifum auk þess að taka tillit til burðarþolsmats Hafrannsóknastofnunar. Jafnframt sé bent á að það sé á ábyrgð leyfishafa að vinna matsskýrslu og Skipulagsstofnunar að fylgja eftir þeim gæðakröfum sem komi fram í lögum nr. 106/2000. Umhverfisstofnun telji að framkvæmdin hafi fengið rétta meðferð samkvæmt lögunum. Þar sé nánar fjallað um staðsetningu eldisins, tengsl við skipulag, áhrif á siglingaleiðir, aðgengi og ferðaþjónustu, samfélag, sjónræn áhrif, minjar o.fl. Í matsskýrslu leyfishafa sé umfjöllun um framkvæmdina og núllkost.

Fjarlægðarmörk komi fram í reglugerð nr. 401/2012 um fiskeldi og eigi við um útgáfu rekstrarleyfa og stjórnsýslu Matvælastofnunar. Að auki segi í 4. gr. reglugerðarinnar að Matvælastofnun geti að höfðu samráði við Hafrannsóknastofnun og að fenginni umsögn sveitarstjórnar heimilað styttri eða lengri fjarlægðir milli eldisstöðva. Umhverfisstofnun taki fram að stofnunin hafi ekki tekið ákvörðun um útgáfu starfsleyfis fyrr en eftir að niðurstaða hafi legið fyrir hjá Matvælastofnun um staðsetningar og fjarlægðarmörk í rekstrarleyfi. Þannig hafi Umhverfisstofnun beðið eftir því að niðurstaða Matvælastofnunar um fjarlægðarmörk lægi fyrir. Um túlkun og framfylgni ákvæða reglugerðar nr. 401/2012 verði að eiga samskipti við Matvælastofnun.

Svæði þar sem óheimilt sé að starfrækja fiskeldi í sjó vegna veiðiréttarhagsmuna séu afmörkuð sérstaklega, sbr. auglýsingu nr. 460/2004 um friðunarsvæði, þar sem eldi laxfiska í sjókvíum er óheimilt. Lög nr. 7/1998 geri ráð fyrir að heimilt sé að veita starfsleyfi fyrir eldi sjávarlífvera. Ekki sé um að ræða aðra svæðisbundna afmörkun sambærilega við afmörkun iðnaðarsvæða í skipulagi sem starfsleyfisútgáfa á landi þurfi að byggjast á. Ekki hafi heldur verið skilgreindur bótaréttur vegna ráðstöfunar hafsvæðis á sama hátt og gert sé í skipulagslögum vegna áhrifa landnotkunarákvarðana skipulags á verðmæti eigna. Lög geri ekki ráð fyrir því að Umhverfisstofnun geri við gerð starfsleyfis ráðstafanir varðandi slíka einkaréttarlega hagsmuni, eins og t.a.m. áhrif starfsemi á verð á veiðiréttindum jarðeigenda og nýtingu hlunninda. Viðfangsefni starfsleyfa fyrir mengandi starfsemi sé einkum að fjalla um mögulega mengun frá atvinnurekstri, setja losunarmörk vegna mengunar og verklagsreglur í samræmi við viðkomandi lög og reglugerðir og draga með því úr áhrifum þeirrar mengunar sem óhjákvæmilega verði vegna mengandi atvinnustarfsemi.

Í 3. kafla hins kærða starfsleyfis séu ákvæði um varnir gegn mengun ytra umhverfis, m.a. um meðhöndlun úrgangs, efnalosun, lífríki, uppsöfnun fóðurleifa, mengandi efni og dauðan fisk. Í 5. kafla sé síðan fjallað um umhverfisvöktun og vöktunaráætlun. Skuli vöktun á uppsöfnun lífræns úrgangs á sjávarbotni undir og við eldiskvíar byggja á staðlinum ISO 12878. Eitt helsta markmið starfsleyfisins sé að taka á losun á lífrænu efni, sem muni vera það sem kærandi eigi við með „úrgangi“. Í gr. 1.2 í starfsleyfinu segi síðan að bendi niðurstöður umhverfisvöktunar, sbr. gr. 5.1, til þess eða hafi Umhverfisstofnun með öðrum hætti upplýsingar um uppsöfnun næringarefna, eða að aðrar óhagstæðar aðstæður í umhverfinu eða náttúrunni hafi komið upp að mati Umhverfisstofnunar, geti hún einhliða frestað því að sett verði út seiði í viðkomandi firði. Telji stofnunin að þær varnir og sú vöktun sem tilgreind séu í starfsleyfi séu fullnægjandi til að vinna gegn skaðlegum áhrifum mengunar frá eldinu á annað lífríki fjarðarins. Bent sé á að á grundvelli niðurstaðna mælinga og umhverfisvöktunar geti stofnunin krafist þess að gerðar verði ráðstafanir til úrbóta ef uppsöfnun verði meiri en búist sé við. Einnig sé unnt að kalla eftir frekari mælingum og endurskoða vöktunaráætlun ef þörf sé talin á.

Að sögn kærenda hafi ekki verið fjallað um áhrif eldisins á búsvæði seiða nytjafiska í fjörðunum. Í niðurstöðu Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum sé m.a. fjallað um burðargetu fjarðanna, áhrif á villta fiskistofna og laxveiðihlunnindi, laxalús og áhrif á lífríki sjávar. Skipulagsstofnun fjalli einnig um áhrif á búsvæði í ám. Hafrannsóknastofnun hafi gefið út mat á burðarþoli fyrir Patreksfjörð og Tálknafjörð sem sé skilgreint sem hámarks lífmassi eldis sem hægt sé að hafa á tilteknu svæði án þess að fara yfir mörk þess álags sem ásættanlegt sé, bæði fyrir eldið, lífríki og umhverfi. Hafrannsóknastofnun geri í mati sínu ráð fyrir að heildarlífmassi eldisins verði ekki meiri en 20 þúsund tonn í fjörðunum.

Umhverfisstofnun hafni því að hún hafi ekki gætt að lagaskyldum sínum samkvæmt náttúruverndarlögum nr. 60/2013 þegar stofnunin hafi tekið ákvörðun um útgáfu starfsleyfis. Þær meginreglur sem skrifaðar hafi verið í I.-II. kafla laganna hafi að geyma leiðarljós sem stjórnvöldum beri að taka almennt mið af við setningu stjórnvaldsfyrirmæla og töku ákvarðana. Að baki séu einnig óskráðar meginreglur umhverfisréttar. Meginreglurnar séu því vegnar inn í það ferli sem fylgi leyfisveitingum stofnunarinnar og byggi á lögum og reglugerðum, m.a. um mat á umhverfisáhrifum, og ferli sem varði starfsleyfi fyrir mengandi atvinnurekstur. Stofnunin vinni samkvæmt vottuðu gæðakerfi, sem ætlað sé að tryggja fagleg vinnubrögð og við gerð ferla séu meginreglur umhverfisréttar hafðar til hliðsjónar. Starfsleyfi fyrir mengandi starfsemi séu gefin út á grundvelli laga nr. 7/1998 en ekki með stoð í lögum um náttúruvernd. Einnig sé litið til annarra réttarheimilda við útgáfu starfsleyfis sem hafi efnislega þýðingu, þ. á m. til laga nr. 106/2000. Helstu meginreglur umhverfisréttarins séu útfærðar í löggjöf um mengunarvarnir í samræmi við þá evrópsku löggjöf sem innleidd sé á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Umhverfisstofnun bendi á að lög nr. 60/2013 feli ekki í sér innleiðingu á slíkum EES-reglum og hafi því verið tilefni til að innleiða meginreglur umhverfisréttarins með sérstökum hætti inn í lög um náttúruvernd.

Athugasemdir leyfishafa:
Leyfishafi mótmælir öllum málatilbúnaði kærenda og kröfum á honum reistum. Um sé að ræða ívilnandi stjórnvaldsákvarðanir sem hafi byggst á lögum og hafi verið teknar að undangengnu ítarlegu mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Hið kærða leyfi myndi grunn að atvinnuréttindum leyfishafa sem séu stjórnarskrárvarin, sbr. 72. og 75. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Leyfin teljist því til eignarréttinda leyfishafa í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 1. gr. 1. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

Fyrirætlanir leyfishafa um framleiðsluaukningu á svæðinu hafi verið í lögbundnu ferli síðan 2013. Ferlið hafi verið opið og hagsmunaaðilar hafi á öllum stigum málsins haft tækifæri til að koma á framfæri athugasemdum. Leyfishafi telji að við meðferð umsókna hans um starfs- og rekstrarleyfi hafi verið gætt allra þeirra skilyrða sem lög kveði á um og vandað hafi verið til verka á öllum stigum málsins.

Því sé mótmælt að útgáfa starfsleyfis stríði gegn 1. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi. Í 1. mgr. ákvæðisins sé kveðið á um að markmið laganna sé að skapa skilyrði til uppbyggingar fiskeldis og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu, stuðla að ábyrgu fiskeldi og tryggja verndun villtra nytjastofna. Skuli í því skyni leitast við að tryggja gæði framleiðslunnar, koma í veg fyrir hugsanleg spjöll á villtum nytjastofnum og lífríki þeirra og tryggja hagsmuni þeirra sem nýti slíka stofna. Til að ná því markmiði skuli tryggt að eldisbúnaður og framkvæmd í sjókvíaeldi standist ströngustu staðla sem gerðir séu fyrir fiskeldismannvirki í sjó. Í 2. mgr. segi að við framkvæmd laganna skuli þess ávallt gætt að sem minnst röskun verði á vistkerfi villtra fiskstofna og að sjálfbærri nýtingu þeirra sé ekki stefnt í hættu. Að mati leyfishafa falli útgáfa hins kærða starfsleyfis vel að framangreindum markmiðum. Allt bendi til að vaxandi fiskeldi á svæðunum muni hafa verulega jákvæð áhrif á samfélagið. Aukin atvinna, verðmætasköpun og margfeldisáhrif af eldinu hafi nú þegar átt þátt í að snúa við neikvæðri íbúaþróun á svæðunum og búast megi við að frekari uppbygging leiði til enn jákvæðari þróunar. Vöktun, verklag og markvissar mótvægisaðgerðir muni draga verulega úr möguleikum á sleppingum og öðrum óæskilegum áhrifum frá starfseminni. Leyfishafi leggi áherslu á að 1. gr. laga nr. 71/2008 sé markmiðsákvæði, en slík ákvæði feli í sér yfirlýst markmið laga, sem ekki sé hægt að byggja á beinan efnislegan rétt. Áhrif markmiðsákvæða séu því óbein, þ.e. þau geti haft þýðingu við túlkun á inntaki annarra réttarheimilda en á þeim verði ekki byggt einum og sér til ógildingar stjórnvaldsákvarðana.

Ljóst sé að Umhverfisstofnun hafi fylgt fyrirmælum 13. gr. laga nr. 106/2000, m.a. með því að taka skýra og rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar í heild sinni. Gögn málsins beri með sér að málsmeðferð Umhverfisstofnunar hafi verið í samræmi við lög og að rannsóknarskylda hafi verið uppfyllt. Að sama skapi hafi verið sett þau skilyrði fyrir starfseminni sem talin hafi verið þörf á, þ.m.t. til að draga úr mögulegum neikvæðum umhverfisáhrifum. Því sé mótmælt að ekki hafi verið tekin afstaða til þess hvort rök hafi verið til að hafna umsókn leyfishafa.

Leyfishafi mótmæli því að ekki hafi verið tekið tillit til stærðar eldis og sammögnunaráhrifa við meðferð leyfisumsókna í Patreksfirði og Tálknafirði. Bent sé á að unnin hafi verið sameiginleg matsskýrsla vegna fyrirætlana leyfishafa og Fjarðalax hf. um samanlagt 14.500 tonna framleiðsluaukningu, sem skiptist á milli fyrirtækjanna. Í matsskýrslu hafi fullt tillit verið tekið til samlegðaráhrifa fimm fyrirtækja sem hafi á þeim tíma haft áform um eldi á laxi og regnbogasilungi á Vestfjörðum. Þá sé sérstaklega tekið fram í áliti Skipulagsstofnunar að fyrirhugaðar framkvæmdir séu hluti af umfangsmiklu áformuðu og starfræktu fiskeldi í eldiskvíum á Vestfjörðum, allt frá Patreksfirði til Ísafjarðardjúps. Bæði matsskýrsla og álit Skipulagsstofnunar hafi legið fyrir þegar ákvörðun hafi verið tekin um leyfið og því ljóst að upplýsingar um samlegðaráhrif hafi verið fyrirliggjandi.

Mótmælt sé staðhæfingu kærenda um að ekki hafi staðið lagaheimild til ráðstöfunar hafsvæðis undir fiskeldi á þeim grundvelli að íslenska ríkið fari með eignarráð yfir hafinu svo langt sem fullveldisréttur Íslands nái. Ákvæði laga nr. 73/1990 um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins séu skýr um að þau taki einungis til auðlinda hafsbotnsins og eigi ekki við eignarrétt ríkisins yfir hafinu á sama svæði, sbr. m.a. 1. og 2. gr. laganna. Það sé því ljóst að gildissvið laganna nái ekki til nýtingar hafsvæðis undir fiskeldi og að þau eigi ekki við í máli þessu. Þá verði ekki séð að afmörkuð svæði utan netlaga geti flokkast sem fasteign. Hafsvæði utan netlaga teljist, ólíkt auðlindum hafsbotnsins, til hafalmenninga sem enginn geti talið til beinna eignarréttinda yfir. Svæðið sem um ræði teljist þó til forráðasvæðis íslenska ríkisins, sbr. lög nr. 41/1979 um landhelgi, aðlægt belti, efnahagslögsögu og landgrunn. Þar komi fram að innan 200 sjómílna efnahagslögsögunnar hafi íslenska ríkið fullveldisrétt að því er varði hagnýtingu auðlinda í hafinu, lífrænna og ólífrænna, svo og aðrar athafnir varðandi efnahagslega nýtingu og rannsóknir innan svæðisins, sbr. 3. og 4. gr. laganna. Ríkið hafi því heimild til að setja lög og reglur sem gildi á svæðinu, þ.m.t. um nýtingu auðlinda.

Í 5. gr. laga nr. 71/2008 segi að ráðherra skuli, ef vistfræðileg eða hagræn rök mæli með því, ákveða samkvæmt lögunum skiptingu fiskeldissvæða meðfram ströndum landsins. Hafi það verið gert með auglýsingu nr. 460/2004 um friðunarsvæði, þar sem eldi laxfiska í sjókvíum sé óheimilt á tilteknum svæðum, en þar á meðal séu ekki Patreksfjörður og Tálknafjörður. Af því leiði að tekin hafi verið ákvörðun um að firðirnir séu á svæði þar sem fiskeldi sé heimilað.

Leyfishafi og Fjarðalax setji fram einn aðalvalkost vegna fyrirhugaðs sjókvíaeldis í Patreksfirði og Tálknafirði. Sú afstaða sé rökstudd í matsskýrslu. Sá málatilbúnaður kærenda að skylt hafi verið að meta umhverfisáhrif annarra valkosta í umhverfismati standist ekki nánari skoðun, sbr. m.a. dóm Hæstaréttar frá 22. október 2009 í máli nr. 22/2009. Í málinu hafi verið skorið úr um að framkvæmdaraðili hafi forræði á því að meta hvaða valkostir komi til álita við mat á umhverfisáhrifum, enda sé það mat byggt á málefnalegum og hlutlægum grunni.

Af matsskýrslu verði glögglega ráðið hvers vegna leyfishafi hafi valið þann valkost sem tekinn hafi verið til skoðunar í mati á umhverfisáhrifum og hafi ekki tekið aðra valkosti til nánari skoðunar. Það sé hlutverk framkvæmdaraðila að skilgreina hvaða valkostir séu tækir með hliðsjón af markmiðum framkvæmdarinnar. Yfirlýst markmið framkvæmdarinnar sé að styrkja núverandi starfsemi á Vestfjörðum og gera rekstur fyrirtækjanna arðbæran og samkeppnishæfan til lengri tíma og þar með efla atvinnulíf og byggð á svæðinu. Áform fyrirtækjanna byggi á því að framleiðslan og afurðir fyrirtækjanna verði umhverfisvænar og framleiddar í sátt við vistkerfi framleiðslusvæða.

Hvergi í lögum sé að finna heimild til að skylda framkvæmdaraðila til að meta umhverfisáhrif framkvæmdarkosta sem ekki séu til þess fallnir að ná þeim lögmætu markmiðum sem að sé stefnt með framkvæmd. Leyfishafi og Fjarðalax hafi byggt ákvarðanir sínar á málefnalegum sjónarmiðum og gögnum, sem styðji val leyfishafa á fyrirhugaðri framleiðsluaukningu í kynslóðaskiptu eldi með svokallaðan Saga eldisstofn. Að mati leyfishafa hafi engir aðrir raunhæfir valkostir verið nefndir til sögunnar, sem náð geti yfirlýstum markmiðum. Gallinn við ófrjóan lax sé sá að hann þurfi sérhæft og dýrt fóður til að bein þroskist eðlilega, afföll aukist og vansköpunartíðni geti verið há. Auk þess sé hætta á að viðbrögð markaða við vörunni verði neikvæð. Það sé viðurkennt að notkun á ófrjóum laxi sé enn í þróun og því ekki raunhæfur kostur, a.m.k. ekki enn sem komið sé. Samskonar sjónarmið eigi við um eldi í lokuðum sjókvíum og umfangsmikið landeldi á laxfiskum. Núllkostur gangi þvert gegn tilgangi og markmiðum framkvæmdar, en í honum felist óbreytt ástand. Það væri bæði óraunhæft og gífurlega íþyngjandi ef talin væri hvíla skylda á leyfishafa til að fjalla um annars konar fiskeldi en það sem hann starfi við og telji mögulegt fyrir sig að starfa við. Þá sé rétt að leggja áherslu á að Skipulagsstofnun hafi með áliti sínu fallist á að leyfishafi hafi metið umhverfisáhrif fyrirhugaðra framkvæmda í samræmi við lög nr. 106/2000. Af hálfu stofnunarinnar hafi ekki verið gerðar athugasemdir við skoðun á möguleikum við framkvæmdina.

Í 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 1170/2015 um fiskeldi sé kveðið á um að lágmarksfjarlægð á milli sjókvíaeldisstöðva ótengdra aðila skuli samkvæmt meginviðmiði vera 5 km miðað við útmörk hvers eldissvæðis sem rekstrarleyfishafa hafi verið úthlutað. Fram komi hins vegar að Matvælastofnun geti að höfðu samráði við Hafrannsóknastofnun og að fenginni umsögn sveitarstjórnar heimilað styttri eða lengri fjarlægðir milli eldisstöðva. Af fyrirliggjandi gögnum megi ráða að Matvælastofnun hafi óskað eftir áliti Hafrannsóknastofnunar vegna fjarlægðarmarka milli eldisstöðva leyfishafa og Fjarðalax í Patreksfirði og Tálknafirði en ekki hafi verið lagst gegn fyrirætlunum um fjarlægðarmörk. Þá komi sérstaklega fram í umsögnum Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps, dags. 10. og 20. nóvember 2017, að sveitarstjórnir geri ekki athugasemdir við að fjarlægðarmörk milli leyfishafa séu skemmri en kveðið sé á um í 4. gr. reglugerðar nr. 1170/2015.

Leyfishafi hafni alfarið öllum málatilbúnaði kærenda um að veiðiár allt í kringum landið séu í hættu vegna erfðamengunar. Bent sé á að eldissvæðin í Patreksfirði og Tálknafirði séu í tæplega 100 km fjarlægð frá ám með villta laxastofna, sem hafi reglulega skráða veiði. Næstu ár í norðri séu innst inni í Ísafjarðardjúpi og í suðri sé Fjarðarhornsá á Barðaströnd næst. Veiðistofninn í þessum ám hafi verið styrktur með seiðasleppingum í mörg ár og í sumum tilfellum í áratugi. Minni laxveiðiár með óreglulega skráða veiði séu í 50-100 km fjarlægð. Samkvæmt rannsóknum skipti fjarlægð milli eldissvæða og laxáa miklu máli um hvort strokulax leiti upp í ár og líkur þess að hann leiti í ár minnki því meiri sem fjarlægðin sé. Þetta sé ein lykilforsenda þess að til greina komi að heimila eldi á laxfiskum á þeim svæðum við landið sem tilgreind séu í auglýsingu nr. 460/2004. Á þeim grunni sé óheimilt að stunda fiskeldi í námunda við þau svæði þar sem helst finnist villtir stofnar laxa og séu stór svæði á Vesturlandi, Norðurlandi og Suðurlandi undanskilin af þeim sökum. Hins vegar falli Vestfirðir utan friðunarsvæða, þ. á m. Patreksfjörður og Tálknafjörður. Það liggi því fyrir mat stjórnvalda á því hvaða svæði þurfi að vernda sérstaklega vegna villtra stofna og sé ljóst að starfsemi leyfishafa fari fram utan þess svæðis. Lög geri ráð fyrir að heimilt sé að veita starfs- og rekstrarleyfi fyrir fiskeldi. Í þeim lögum sé ekki mælt fyrir um ráðstafanir varðandi einkaréttarlega hagsmuni, svo sem áhrif starfsemi á veiðiréttindi jarðeigenda eða nýtingu hlunninda við útgáfu leyfa til fiskeldis.

Því sé hafnað að við meðferð málsins hafi ekkert verið fjallað um magn úrgangs frá fyrirhuguðu sjókvíaeldi. Í matsskýrslu sé fjallað um það magn úrgangs sem áætlað sé að komi frá eldinu miðað við gefna fóðurnýtingu, fóðurmagn og næringarefnainnihald, sbr. kafla 3.6. Jafnframt sé fjallað um förgun úrgangs í kafla 3.7. Skipulagsstofnun hafi talið að við leyfisveitingar þyrfti að setja skilyrði um m.a. vöktun á uppsöfnun lífræns úrgangs á sjávarbotn undir og við eldiskvíar og áhrif þess á botndýralíf. Vöktun á ástandi sjávar, botndýralífi og uppsöfnun lífræns úrgangs sé framkvæmd samkvæmt vöktunaráætlun fyrirtækjanna og heyri undir starfsleyfisskilyrði Umhverfisstofnunar. Leyfishafi sé samkvæmt þeim skyldaður til að vakta losun mengunarefna til viðtaka og dreifingu þeirra ásamt því að meta vistfræðilegar afleiðingar hennar. Í samræmi við fyrirmæli Skipulagsstofnunar sé mælt fyrir um að vöktun á uppsöfnun lífræns úrgangs á sjávarbotni og áhrifum þess á botndýralíf skuli vera samkvæmt staðlinum ISO 12878. Gerð sé krafa um að eldissvæði séu hvíld og geti Umhverfisstofnun með vísan til starfsleyfisskilyrða einhliða frestað útsetningu seiða bendi niðurstöður umhverfisvöktunar til þess að aðstæður í umhverfi eða náttúru séu óhagstæðar, t.a.m. þegar hafsbotn hafi ekki náð ásættanlegu ástandi eftir hvíld. Þá sé í starfsleyfinu sérstaklega kveðið á um skyldu leyfishafa til að vera með viðbragðsáætlun þar sem taka skuli á hugsanlegri hættu á bráðamengun og hvenær tilkynna skuli um mengunaróhöpp.

Því sé hafnað að ekkert tillit hafi verið tekið til áhrifa laxeldis á búsvæði seiða og nytjafiska. Skylda hvíli á fiskeldisfyrirtækjum að framkvæma umhverfisvöktun, þ.e. meta umhverfisáhrif fiskeldisins. Gera megi ráð fyrir því að Hafrannsóknastofnun muni í framtíðinni auka rannsóknir sínar varðandi búsvæði seiða í fjörðum landsins og þá leggja mat á áhrif fiskeldis fyrir þau búsvæði. Í matsskýrslu leyfishafa komi fram að sjúkdómasmit frá eldisfiski geti haft bein áhrif á villta laxfiskastofna. Komi til þess að villtur fiskur sýkist af völdum smits frá eldisfiski séu slík áhrif hins vegar talin afturkræf. Áhrifin verði óveruleg vegna þess að að búsvæði villtra laxfiska séu fjarri eldissvæðum og stærð villtra laxfiskastofna sé áætluð lítil í Patreksfirði og Tálknafirði. Góð staða í sjúkdómamálum hérlendis og bólusetning eldisseiða styrki þessa niðurstöðu. Þá sé því hafnað að umfjöllun skorti um hættu sem stafi af laxalús. Það sé algengur misskilningur að í fiskeldi á Íslandi ríki lúsafár, sem villtum laxastofnum stafi hætta af. Staðreyndin sé sú að laxalús hafi aldrei valdið vandræðum í íslensku sjókvíaeldi. Ástæðan sé fyrst og fremst lágur sjávarhiti yfir vetrartímann, en laxalús berist með villtum fiski í kvíar að vori og þar nái hún að fjölga sér lítillega fram á haust. Með vetri lækki sjávarhitinn og lúsin hverfi úr kvíunum. Kærendur geri engan greinarmun á fiskilús og laxalús, sem séu mjög ólíkar. Vísað sé til fjölda fiskilúsa sem fundist hafi hjá leyfishafa, sem fyrst og fremst hafi áhrif á eldisfiskinn þannig að streita aukist og erfiðara verði að fóðra fiskinn. Oftast sé um tímabundin áhrif að ræða.

——-

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur farið yfir öll gögn og haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða:
Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það skilyrði kæruaðildar að málum fyrir nefndinni að kærandi eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Er það í samræmi við þá meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eiga einstaklingsbundna og verulega lögvarða hagsmuni tengda hinni kæranlegu ákvörðun. Sú undantekning er þó gerð í nefndum lögum að umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök geta að ákveðnum skilyrðum uppfylltum átt kæruaðild án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni. Aðrir kærendur þurfa hins vegar að uppfylla framangreind skilyrði kæruaðildar.

Eins og fram kemur í kæru eru kærendur annars vegar náttúruverndarsamtök, sem fallist er á að uppfylli framangreind skilyrði laga nr. 130/2011 um kæruaðild, og hins vegar einstakir eigendur veiðiréttar í ám, auk veiðifélaga. Þeir kærendur rökstyðja lögvarða hagsmuni sína í málinu með því að þeir eigi allir mikilla hagsmuna að gæta af því að ekki verði stefnt í hættu lífríki viðkomandi veiðiáa og þar með hinum villtu lax- og silungstofnum þeirra, enda sé víst að eldisfiskurinn muni dreifa sér í veiðiár allt í kringum landið, eins og nýleg dæmi sýni.

Laxeldið sem hið kærða starfsleyfi heimilar er í Patreksfirði og Tálknafirði á sunnanverðum Vestfjörðum. Ár þær sem nefndar eru í kæru eru flestar á Vestfjörðum og verður að játa þeim kærendum kæruaðild sem fara með hagsmuni veiðiréttarhafa í þeim ám vegna nándar við fyrirhugað eldi. Laxveiðiáin Haffjarðará er í Hnappadal á Snæfellsnesi og rennur hún til sjávar á sunnanverðu nesinu. Þá er Laxá á Ásum laxveiðiá í Austur-Húnavatnssýslu sem rennur í Húnavatn og síðan um Húnaós í Húnaflóa. Tvær síðarnefndu árnar eru því í mikilli fjarlægð frá umræddu eldi og eru staðhættir þannig að ef til þess kæmi að lax slyppi úr eldiskvíum væru umtalsverðar hindranir því í vegi að hann leitaði í þær ár. Það sýnist þó ekki útilokað, sérstaklega þegar til þess er litið að fyrir liggur staðfesting Hafrannsóknastofnunar á því að veiðst hafi eldislax í Vatnsdalsá, sem fellur til sjávar á sama stað og Laxá á Ásum, en ekkert sjókvíaeldi er þar nærri.

Á sviði umhverfisréttar er oft álitamál hvern telja beri aðila máls. Verður við úrlausn þess atriðis að meta hagsmuni og tengsl kærenda við úrlausn málsins, þ.e. hvort þeir eiga beinna, verulegra, sérstakra og lögvarinna hagsmuna að gæta. Við mat á því hvort viðkomandi hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn kærumáls verður að líta til þess að stjórnsýslukæra er mjög virkt úrræði til að tryggja réttaröryggi borgaranna, en það er meðal markmiða stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. athugasemdir í frumvarpi því sem varð að þeim lögum. Verður því almennt að gæta varfærni við að vísa málum frá á þeim grunni að kærendur skorti lögvarða hagsmuni. Ber þannig að jafnaði ekki að vísa frá málum vegna þess að kæranda skorti lögvarða hagsmuni nema augljóst sé að það hafi ekki raunhæft gildi fyrir lögverndaða hagsmuni hans að fá leyst úr ágreiningi þeim sem stendur að baki kærumálinu. Með vísan til þessa, sem og þeirrar vísindalegu óvissu sem ríkir í kjölfar þess að eldislax hefur veiðst í ám fjarri sjókvíaeldi, telur nefndin ekki stætt á því að útiloka að þeir kærendur sem telja til réttar í Haffjarðará og Laxá á Ásum geti átt lögvarða hagsmuni af úrlausn kæruefnisins sem hér liggur fyrir, þrátt fyrir að veiðiréttindi þeirra séu fjarri laxeldi leyfishafa. Uppfylla þeir því skilyrði kæruaðildar skv. fyrrgreindri 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Samkvæmt framangreindu verða kröfur allra kærenda teknar til efnismeðferðar.

——-

Í máli þessu er deilt um gildi starfsleyfis sem veitt var af Umhverfisstofnun vegna laxeldis í sjókvíum í Patreksfirði og Tálknafirði. Framkvæmdin hefur sætt mati á umhverfisáhrifum skv. lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og er álit Skipulagsstofnunar vegna þess frá 23. september 2016.

Samkvæmt 4. gr. a. í lögum nr. 71/2008 um fiskeldi þarf starfsleyfi Umhverfisstofnunar og rekstrarleyfi Matvælastofnunar til starfrækslu fiskeldisstöðva. Samkvæmt 6. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir skal allur atvinnurekstur, sbr. viðauka I-V, hafa gilt starfsleyfi sem Umhverfisstofnun eða heilbrigðisnefndir gefa út, sbr. þó 8. gr. Fellur eldi sjávar- og ferskvatnslífvera undir viðauka II, sbr. 2. tölul. hans, en skv. 7. gr. laganna gefur Umhverfisstofnun út starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem fellur þar undir. Við veitingu hins kærða starfsleyfis gilti reglugerð nr. 785/1999, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, sem sett var á grundvelli 5. gr. laga nr. 7/1998. Meðal markmiða hennar var að koma í veg fyrir og draga úr mengun af völdum atvinnurekstrar sem getur haft í för með sér mengun, koma á samþættum mengunarvörnum og að samræma kröfur og skilyrði í starfsleyfum, sbr. þágildandi gr. 1.1. Bar stofnuninni að fara að þeim málsmeðferðarreglum sem í reglugerðinni voru tilgreindar, sem og í lögum nr. 7/1998 og stjórnsýslulögum nr. 37/1993. Þá fellur starfsleyfi undir leyfi til framkvæmda í skilningi f-liðar 3. gr. laga nr. 106/2000.

Um útgáfu leyfa vegna matsskyldra framkvæmda fer eftir 13. gr. laga nr. 106/2000 og er meðal frumskilyrða fyrir útgáfu slíks leyfis að fyrir liggi álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, sbr. 1. mgr. ákvæðisins. Samkvæmt 2. mgr. þess skal leyfisveitandi kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar, sem er lögbundið en ekki bindandi. Lögum samkvæmt þarf það álit að fullnægja lágmarksskilyrðum um rökstuðning og efnisinnihald og er það forsenda þess að leyfisveitandi geti tekið ákvörðun um umsókn um leyfisveitingu að álitið fullnægi þeim lagaskilyrðum. Skyldur leyfisveitanda ná því einnig til þess að kanna hvort einhverjir þeir annmarkar séu á áliti Skipulagsstofnunar að á því verði ekki byggt. Lýtur lögmætiseftirlit úrskurðarnefndarinnar að hinu sama, sem og því hvort leyfisveitandi hafi sinnt skyldum sínum með fullnægjandi hætti.

——-

Meginágreiningur kærumáls þessa lýtur að því hvort byggt verði á fyrirliggjandi mati á umhverfisáhrifum sem kærendur halda fram að sé haldið annmörkum þar sem ekki hafi verið fjallað um valkosti framkvæmdarinnar, s.s. notkun geldfisks, eldi á landi, eldi í lokuðum sjókvíum eða minna sjókvíaeldi.

Í 1. gr. laga nr. 106/2000 er gerð grein fyrir markmiðum þeirra. Eiga þau að tryggja að mat á umhverfisáhrifum hafi farið fram áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmd sem kann, vegna staðsetningar, starfsemi sem henni fylgir, eðlis eða umfangs, að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Jafnframt er það markmið laganna að draga eins og kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdar, að stuðla að samvinnu aðila sem hafa hagsmuna að gæta eða láta sig málið varða, sem og að kynna umhverfisáhrif og mótvægisaðgerðir vegna framkvæmda fyrir almenningi og gefa honum kost á að koma að athugasemdum og upplýsingum áður en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir. Til að ná þessum markmiðum mæla lögin fyrir um ákveðna málsmeðferð.

Þannig skal framkvæmdaraðili gera tillögu að matsáætlun til Skipulagsstofnunar og kynna hana umsagnaraðilum og almenningi, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga 106/2000. Skal m.a. lýsa framkvæmdinni og öðrum möguleikum sem til greina koma. Stofnunin skal síðan taka ákvörðun um tillöguna, skv. 2. mgr. sömu lagagreinar, og getur hún fallist á tillögu að matsáætlun með eða án athugasemda eða synjað tillögunni. Að lokinni málsmeðferð skv. áðurnefndri 8. gr. vinnur framkvæmdaraðili frummatsskýrslu á grundvelli samþykktrar matsáætlunar, sbr. 9. gr. laganna. Skal þar m.a. tilgreina þau áhrif sem fyrirhuguð framkvæmd og starfsemin sem henni fylgir kunna að hafa á umhverfi og jafnframt skal ávallt gera grein fyrir helstu möguleikum sem til greina koma og umhverfisáhrifum þeirra og bera saman, sbr. 2. mgr. lagagreinarinnar. Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. skal Skipulagsstofnun meta hvort skýrslan uppfylli kröfur 9. gr. og sé í samræmi við matsáætlun skv. 8. gr., en verði niðurstaðan sú að svo sé ekki er stofnuninni heimilt að hafna því að taka skýrsluna til athugunar. Frummatsskýrslan er kynnt samkvæmt nánari ákvæðum þar um í 10. gr. og er öllum heimilt að gera athugasemdir við hana, sbr. 4. mgr. lagagreinarinnar. Þá leitar Skipulagsstofnun umsagna skv. 5. mgr. ákvæðisins. Stofnunin skal því næst skv. 6. mgr. 10. gr. senda framkvæmdaraðila umsagnir og athugasemdir og skal framkvæmdaraðili gera grein fyrir þeim og taka afstöðu til þeirra í matsskýrslu sem hann vinnur á grundvelli frummatsskýrslu. Að málsmeðferð þessari lokinni skal Skipulagsstofnun skv. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 106/2000 gefa rökstutt álit sitt á því hvort matsskýrslan uppfylli skilyrði þeirra laga og reglugerða settra samkvæmt þeim og að umhverfisáhrifum sé lýst á fullnægjandi hátt. Skal jafnframt í álitinu fjalla um afgreiðslu framkvæmdaraðila á þeim athugasemdum og umsögnum sem bárust við kynningu á frummatsskýrslu.

Eins og áður er rakið er kveðið á um það í 2. mgr. 9. gr. laga nr. 106/2000 að í frummatsskýrslu skuli ávallt gera grein fyrir helstu möguleikum sem til greina komi og umhverfisáhrifum þeirra og bera þá saman. Kemur fram í skýringum við nefnt lagaákvæði í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 106/2000 að helstu breytingar frá gildandi lögum felist í því að lagt sé til í samræmi við ákvæði tilskipunar Evrópusambandsins 97/11/EB að framkvæmdaraðili geri grein fyrir helstu möguleikum sem hann hafi kannað og til greina komi, svo sem varðandi tilhögun og staðsetningu. Þá er tekið fram: „Nýmæli þetta hefur mikla þýðingu því að samanburður á helstu möguleikum er ein helsta forsendan fyrir því að raunveruleg umhverfisáhrif hinnar fyrirhuguðu framkvæmdar séu metin.“

Ný reglugerð nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum tók gildi eftir að vinna við mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar hófst en áður en álit Skipulagsstofnunar lá fyrir. Féll þá brott eldri samnefnd reglugerð nr. 1123/2005, en í þeim atriðum sem hér verða rakin eru reglugerðirnar samhljóða. Segir í 15. gr. gildandi reglugerðar að í tillögu að matsáætlun skuli eftir því sem við á koma fram upplýsingar um mögulega framkvæmdakosti sem til greina komi, m.a. núllkost, þ.e. að aðhafast ekkert, og greina frá umfangi og tilhögun annarra kosta og staðsetningu þeirra, sbr. e-lið 2. tölul. 2. mgr. reglugerðarákvæðisins. Jafnframt er tekið fram í h-lið 1. tölul. 2. mgr. 20. gr. reglugerðarinnar að í frummatsskýrslu skuli, eftir því sem við á, koma fram yfirlit yfir valkosti sem gerð er grein fyrir í frummatsskýrslu, svo sem aðra kosti varðandi tæknilega útfærslu framkvæmdar eða starfsemi, aðra staðarvalkosti eða núllkost, þ.e. að aðhafast ekkert. Enn fremur skulu koma fram upplýsingar um framkvæmdasvæði, svo sem uppdráttur af fyrirhugaðri staðsetningu framkvæmdar og einnig uppdráttur af öðrum staðarvalskostum, sbr. a-lið 2. tölul. nefnds reglugerðarákvæðis. Loks segir í e-lið 3. tölul. 2. mgr. 20. gr. að í mati á umhverfisáhrifum skuli, eftir því sem við á, koma fram samanburður á umhverfisáhrifum þeirra kosta sem kynntir eru og rökstuðningur fyrir vali framkvæmdaraðila að teknu tilliti til umhverfisáhrifa.

Af framangreindum laga- og reglugerðarákvæðum, ásamt athugasemdum í frumvarpi því sem varð að lögum um mat á umhverfisáhrifum, er ljóst að samanburður umhverfisáhrifa þeirra valkosta sem til greina koma er lykilþáttur í mati á umhverfisáhrifum. Hefur verið staðfest í dóma- og úrskurðarframkvæmd að þegar á skorti að lagafyrirmælum þessum sé fylgt eða þau séu sniðgengin geti eftir atvikum verið um ógildingarannmarka að ræða, enda hafi það verulega þýðingu að slíkur samanburður hafi farið fram til að mat á umhverfisáhrifum þjóni markmiðum laga nr. 106/2000.

Í drögum framkvæmdaraðila að matsáætlun kemur fram að fyrirtækin hafi byggt upp lax- og silungseldi á Vestfjörðum og að áform fyrirtækjanna byggi á því að auka framleiðsluna og tryggja jafnframt umhverfisvænt og vistvænt framleiðsluferli. Er í áætluninni m.a. tilgreint hver staðsetning eldisins verði, framleiðsluaðferð tíunduð, tegundir sem aldar verði og af hvaða stofni, hönnun sjókvía, tilhögun flutninga á seiðum, hvaða fóður sé fyrirhugað að nota o.fl. Í kafla um umfang og áherslur umhverfismats segir jafnframt að umhverfisáhrif vegna fiskeldis séu að miklu leyti háð eldisbúnaði, notkun hans og verklagi við framkvæmd og taki framkvæmd og skipulag umhverfismats tillit til þessa. Þá kemur fram í kafla um gögn að í frummatsskýrslu verði lýsing á grunnástandi umhverfis og jafnframt mat og lýsing á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Verði stuðst við tiltæk rannsóknargögn og nýrra gagna aflað eftir þörfum. Er af lestri matsáætlunar ljóst að tilvitnuð gögn eiga við um þá einu tilhögun framkvæmdar sem framkvæmdaraðili leggur til.

Samkvæmt skilgreiningu 3. gr. laga nr. 106/2000 er matsskýrsla skýrsla framkvæmdaraðila um mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar framkvæmdar og starfsemi sem henni fylgir og ber framkvæmdaraðili ábyrgð á gerð skýrslunnar. Fjallað er um kosti til framkvæmdar í 6. kafla matsskýrslu framkvæmdaraðila. Þar segir svo: „Framkvæmdaraðilar setja aðeins fram einn valkost vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar. Sjókvíaeldi í Patreks- og Tálknafirði er mikilvægur hlekkur í uppbyggingu sjókvíaeldis Fjarðalax og Arctic Sea Farm, eins og lýst var í kafla 1. Eini raunhæfi möguleikinn á uppbyggingu sjálfbærs og vistvæns sjókvíaeldis á Vestfjörðum er, að mati fyrirtækjanna, kynslóðaskipt eldi með hvíld svæða. Fyrirtækin hafa undanfarin misseri unnið greiningarvinnu sem miðar að því að finna heppileg eldissvæði sem uppfylla markmið um rekstraröryggi, umhverfisaðstæður, umhverfisáhrif og samfélagslega þætti. Þetta umhverfismat er hluti af þeirri vinnu.“ Enn fremur segir: „Eldissvæðin í Patreksfirði og Tálknafirði eru staðsett þannig að þau valdi sem minnstri röskun á annarri starfsemi eða athöfnum, svo sem siglingaleiðum. Jafnframt var staðsetning þeirra ákvörðuð út frá öldufari og hafstraumum til að tryggja bæði rekstraröryggi og tíð sjóskipti. Nú þegar er heimild fyrir 3.000 tonna laxeldi í Patreks- og Tálknafirði. Fyrirhuguð framleiðsluaukning leiðir af sér tilfærslu og stækkun á athafnasvæðum. Til að lágmarka staðbundin umhverfisáhrif er mikilvægt að eldissvæði séu nægjanlega stór til að rúma tilfærslu á staðsetningum eldiskvía innan þeirra.“ Loks er tiltekið: „Með núll kosti verður ekkert af þeim umtalsverða samfélagslega ávinningi sem áður hefur verið lýst. Á hinn bóginn verða ekki neikvæð áhrif á lífríkið og aðra náttúru með þeim valkosti. Ekki er fjallað sérstaklega um áhrif núllkosts í einstökum köflum í umhverfismatsgreiningunni hér að framan.“ Var þannig ekki fjallað um aðra valkosti en aðalvalkost framkvæmdaraðila í matsskýrslu fyrirtækjanna og fór því ekki fram neinn samanburður á umhverfisáhrifum mismunandi kosta.

Skipulagsstofnun samþykkti matsáætlun framkvæmdaraðila með athugasemdum, en þær athugasemdir lutu ekki að skorti á valkostum framkvæmdarinnar. Stofnunin nýtti ekki heldur þá heimild sem hún hefur skv. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 106/2000 til að hafna því að taka frummatsskýrslu til athugunar, en frá einum kærenda þessa máls kom fram krafa um að svo yrði gert vegna fyrirmæla í 2. mgr. 9. gr. laganna. Þá var í áliti Skipulagsstofnunar fjallað um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar en í engu um samanburð á þeim við umhverfisáhrif annarra valkosta, enda var slíkur samanburður ekki til staðar í matsskýrslu framkvæmdaraðila. Þó var í niðurstöðu álitsins, í umfjöllun um hættu á erfðablöndun, vikið að því að í umræðu í samfélaginu hefði verið bent á þann kost að nýta geldfisk í sjókvíaeldi í því skyni að koma í veg fyrir erfðablöndun. Teldi Skipulagsstofnun mikilvægt að leyfisveitendur og fiskeldisaðilar fylgdust vel með þróun þessarar tækni og beindi því til þessara aðila að skoða þennan kost við leyfisveitingar til fiskeldis í sjó við strendur Íslands. Tók stofnunin fram að ef slíkt eldi væri raunhæft myndi það leysa þann þátt sem helst ylli áhyggjum varðandi umhverfisáhrif laxeldis í sjókvíum hér við land.

Ljóst er að framkvæmdaraðili kaus að leggja einungis einn valkost framkvæmdar fram til mats á umhverfisáhrifum og að við það var ekki gerð athugasemd af hálfu Skipulagsstofnunar. Í trássi við lög var ekki á neinu stigi málsmeðferðarinnar gerð gangskör að því að greina frekari valkosti og bera umhverfisáhrif þeirra saman við umhverfisáhrif aðalvalkosts framkvæmdaraðila. Var því ekki fullnægt þeim áskilnaði 2. mgr. 9. gr. laga nr. 106/2000, eða þeirra annarra laga- og reglugerðarákvæða sem áður hafa verið rakin, að gerð væri grein fyrir helstu möguleikum sem til greina kæmu og umhverfisáhrifum þeirra og þeir séu bornir saman. Kemur þá til skoðunar hverju það varði.

——-

Leyfishafi hefur í athugasemdum sínum til úrskurðarnefndarinnar borið því við að engum öðrum raunhæfum valkostum hafi verið teflt fram sem ná myndu markmiðum framkvæmdarinnar, enda sé viðurkennt að enn sé í þróun notkun á ófrjóum laxi, eldi í lokuðum sjókvíum og umfangsmikið landeldi á laxfiskum. Enn fremur að það væri óraunhæft og íþyngjandi ef hann yrði skyldaður til að fjalla um annars konar fiskeldi en hann starfi við og telji mögulegt fyrir sig að starfa við.

Matsáætlun er í 3. gr. laga nr. 106/2000 skilgreind sem áætlun framkvæmdaraðila, byggð á tillögu hans um hvaða þætti framkvæmdarinnar og umhverfis leggja skuli áherslu á í frummatsskýrslu og um kynningu og samráð við gerð skýrslunnar. Er lögð áhersla á ákveðið forræði framkvæmdaraðila á því hvaða framkvæmdakostir uppfylli markmið framkvæmdar. Hefur það forræði verið viðurkennt í dómaframkvæmd, að því gefnu að mat framkvæmdaraðila sé reist á hlutlægum og málefnalegum grunni. Hins vegar verður ekki af þeim fordæmum ráðið að það forræði sé svo víðtækt að framkvæmdaraðili geti lagt einungis einn kost fram til mats á umhverfisáhrifum. Má í því sambandi vísa til málsatvika í dómi Hæstaréttar í máli nr. 22/2009 þar sem framkvæmdaraðili hafði lagt fram þrjá valkosti en deilt var um hvort fleiri valkostir teldust koma til greina. Orðalag laga nr. 106/2000 um að fjalla beri um þá kosti sem til greina komi verður ekki heldur skilið svo að framkvæmdaraðili geti einskorðað umfjöllun sína við þann kost sem honum hugnast best, heldur hvílir á honum sú ótvíræða skylda að kanna til hlítar þá möguleika sem almennt geta komið til greina, lýsa þeim og umhverfisáhrifum þeirra og bera þá saman. Það að hann hafi ekki reynslu eða þekkingu á öðrum möguleikum en þeim sem hann leggur helst til leysir hann ekki undan þeirri lögbundnu skyldu þótt það kunni að reynast honum dýrt eða erfitt að uppfylla hana. Er í þessu sambandi rétt að benda á að leyfisveiting, líkt og sú sem hér um ræðir, er ívilnandi ákvörðun um að leyfa framkvæmd sem felur í sér ákveðna starfsemi eða nýtingu, sem getur eftir atvikum verið mengandi og gengið á eða takmarkað rétt annarra.

Samkvæmt 1. kafla 1 í matsskýrslu er það markmið framkvæmdaraðila að auka framleiðslu á eldislaxi. Byggja áform þeirra á því að framleiðsla og afurðir fyrirtækjanna verði umhverfisvænar og hafa framkvæmdaraðilar í því skyni lagt upp með ákveðna tilhögun framkvæmdar. Eru sjónarmið framkvæmdaraðila málefnaleg og tilhögun sú sem þeir leggja til er til þess fallin að ná markmiðum framkvæmdarinnar um framleiðsluaukningu. Það skal þó áréttað að greining valkosta þarf að fara fram af hálfu framkvæmdaraðila án þess að þeir séu útilokaðir of snemma í ferlinu, t.a.m. vegna fyrirfram gefinna forsendna eða hugmynda hans, enda færi það beinlínis gegn þeim lögfestu markmiðum mats á umhverfisáhrifum að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdar og hvetja til breiðara samráðs um framkvæmd, sbr. ákvæði b- til d-liða 1. gr. laga nr. 106/2000. Þá sér þess ekki stað í matsáætlun, matsskýrslu eða áliti Skipulagsstofnunar að sérstakar rannsóknir hafi farið fram áður en aðrir valkostir voru slegnir út af borðinu og er í þessum gögnum ekki rökstutt sérstaklega af hverju það var gert. Þó má af áliti Skipulagsstofnunar ráða að hún taki undir með framkvæmdaraðila að enn sem komið er sé eldi með geldfiska ekki raunhæft.

Það er ekki loku fyrir það skotið að einhverjir  þeirra valkosta sem kærendur hafa nefnt komi ekki til greina í skilningi 8. og 9. gr. laga nr. 106/2000. Með hliðsjón af þeim laga- og reglugerðarákvæðum sem áður hafa verið rakin geta mismunandi valkostir t.d. falist í mismunandi staðsetningu, umfangi, tilhögun, tæknilegri útfærslu o.s.frv. Er afar ólíklegt að ekki finnist a.m.k. einn annar valkostur sem hægt er að leggja fram til mats svo framarlega sem framkvæmdaraðili sinnir þeirri skyldu sinni að gera víðtæka könnun á þeim kostum sem til greina geta komið. Verður ekki við það unað í mati á umhverfisáhrifum að einungis séu metin umhverfisáhrif eins valkosts. Fer enda þá ekki fram sá nauðsynlegi samanburður umhverfisáhrifa fleiri kosta sem lögbundin krafa er gerð um, allt í þeim tilgangi að leyfisveitandi geti tekið upplýsta afstöðu að fullrannsökuðu máli til þess að meta hvort eða með hvaða hætti hægt sé að leyfa framkvæmd þannig að skilyrði laga séu uppfyllt. Þar sem ekki hefur verið sýnt fram á í mati á umhverfisáhrifum að enginn annar mögulegur framkvæmdarkostur hafi getað komið til greina í skilningi 2. málsl. 1. mgr. 8. gr. og 4. málsl. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 106/2000 verður að telja það verulegan ágalla á matinu að engum öðrum kosti var lýst að öðru leyti en vísað væri til þess að núllkostur hefði engin áhrif í för með sér.

Að teknu tilliti til nefnds ágalla og markmiða þeirra sem að er stefnt með mati á umhverfisáhrifum gat matsskýrsla framkvæmdaraðila og álit Skipulagsstofnunar á henni ekki verið lögmætur grundvöllur fyrir ákvörðun um veitingu leyfa til framkvæmda, s.s. þess starfsleyfis sem hér er deilt um. Bar Umhverfisstofnun, sem því stjórnvaldi sem hið kærða leyfi veitti, skylda til að tryggja að málið væri nægilega upplýst, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, en í því felst að gæta að því að lögbundið álit Skipulagsstofnunar sé nægilega traustur grundvöllur leyfisveitingar. Var sérstakt tilefni fyrir Umhverfisstofnun að kanna þetta í ljósi þess að við lögbundna meðferð hinnar kærðu leyfisveitingar hjá stofnuninni skv. lögum nr. 7/1998 komu fram athugasemdir frá kærendum þess efnis að stofnunin hefði ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni varðandi samanburð valkosta sem til greina kæmu og var vísað um það atriði til 2. mgr. 9. gr. laga nr. 106/2000 og h-liðar 1. tölul. 2. mgr. 20. gr. reglugerðar nr. 660/2015. Svaraði stofnunin því svo til að hún hefði tekið fullt tillit til mats á umhverfisáhrifum og tekið afstöðu til niðurstaða þess, auk þess að taka tillit til burðarþolsmats Hafrannsóknastofnunar. Benti Umhverfisstofnun jafnframt á að það væri á ábyrgð framkvæmdaraðila að vinna matsskýrslu og Skipulagsstofnunar að fylgja eftir þeim gæðakröfum sem fram kæmu í lögum um mat á umhverfisáhrifum. Í þessu sambandi skal áréttað að ekki einungis hvílir á leyfisveitendum sjálfstæð rannsóknarskylda heldur líka sú skylda að taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar. Svo sem áður greinir þarf það álit að fullnægja lágmarksskilyrðum um rökstuðning og efnisinnihald og ná skyldur leyfisveitanda skv. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 því ekki einvörðungu til þess að taka afstöðu til þeirra efnislegu niðurstaða sem í álitinu felast heldur einnig til þess að kanna hvort aðrir annmarkar geti verið til staðar, s.s. að skort hafi á umfjöllun um valkosti og umhverfisáhrif þeirra og gerður nauðsynlegur samanburður.

Með hliðsjón af framangreindu verður að telja hina kærðu leyfisveitingu slíkum annmörkum háða að varði ógildingu starfsleyfisins.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 13. desember 2017 um veitingu starfsleyfis til handa Arctic Sea Farm fyrir 6.800 tonna ársframleiðslu á laxi í sjókvíum í Patreksfirði og Tálknafirði.

6/2018 Fjarðalax

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 4. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Geir Oddsson umhverfis- og auðlindafræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 6/2018, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 13. desember 2017 um að veita starfsleyfi fyrir 10.700 tonna ársframleiðslu á laxi í sjókvíum í Patreksfirði og Tálknafirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. janúar 2018, er barst nefndinni 19. s.m., kæra Náttúruverndarsamtök Íslands, náttúruverndarsamtökin Laxinn lifi, Akurholt ehf. og Geiteyri ehf., eigendur Haffjarðarár í Hnappadal, eigandi Kirkjubóls í Arnarfirði og veiðiréttarhafi í Fífustaðadal, eigandi Grænuhlíðar í Arnarfirði og veiðiréttarhafi í Bakkadal, Fluga og net ehf., rekstrarfélag Vatnsdalsár á Barðaströnd, eigandi hluta veiðiréttar í Hvannadalsá, Langadalsá og Þverá í innanverðu Ísafjarðardjúpi og Varpland ehf., eigandi hluta veiðiréttar í Langadalsá og Hvannadalsá, og veiðifélag Laxár á Ásum þá ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 13. desember 2017 um veitingu starfsleyfis til handa Fjarðalax fyrir 10.700 tonna ársframleiðslu á laxi í sjókvíum í Patreksfirði og Tálknafirði. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Við meðferð málsins var aflað upplýsinga um stöðu framkvæmda og lágu jafnframt fyrir úrskurðarnefndinni upplýsingar um sjókvíaeldi það á laxi sem þegar var leyft á sama svæði. Að því virtu var ekki tekið sérstaklega á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Með bréfi, dags. 11. júlí 2018, sem móttekið var með tölvupósti sama dag, barst úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála beiðni leyfishafa um frestun m.a. þessa kærumáls. Var beiðnin á því reist að höfðað hefði verið dómsmál sem að mati leyfishafa væri svo samofið kærumálinu að ljóst væri að efnisleg niðurstaða í dómsmálinu gæti haft úrslitaáhrif um afdrif kærumálsins. Kærendum og leyfisveitendum var veittur kostur á að koma að athugasemdum vegna beiðninnar og nýttu kærendur sér það. Með bréfi, dags. 11. september 2018, synjaði úrskurðarnefndin beiðni um frestun kærumálsins með þeim rökum að niðurstaða í dómsmáli vegna leyfisveitinga fyrir öðru eldi en því sem sætt hefði kæru til úrskurðarnefndarinnar myndi ekki binda hendur nefndarinnar í kærumálinu, þótt niðurstaða dómstóla um lagatúlkun gæti haft áhrif á réttarþróun almennt í málum sem vörðuðu leyfisveitingar vegna fiskeldis í kjölfar mats á umhverfisáhrifum.
Gögn málsins bárust frá Umhverfisstofnunar 26. mars 2018.

Málavextir: Hinn 30. september 2015 lögðu Fjarðalax ehf. og Arctic Sea Farm hf. fram frummatsskýrslu um eldi á allt að 19.000 tonnum af laxi og regnbogasilungi í Patreksfirði og Tálknafirði samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Fram kemur í áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum, dags. 23. september 2016, að framkvæmdin og frummatsskýrslan hafi verið auglýst opinberlega 20. október 2015 í Lögbirtingablaðinu, Fréttablaðinu og Morgunblaðinu. Frummatsskýrslan lá frammi til kynningar frá 20. október til 2. desember 2015 á skrifstofum Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar, í Þjóðarbókhlöðu og hjá Skipulagsstofnun. Frummatsskýrslan var einnig aðgengileg á vef Skipulagsstofnunar. Framkvæmdaraðilar héldu fund á Tálknafirði 9. nóvember 2015 til kynningar á framkvæmdinni og umhverfisáhrifum hennar.

Hinn 9. maí 2016 lögðu Fjarðalax og Arctic Sea Farm fram matsskýrslu um framleiðslu á allt að 17.500 tonnum af laxi í Patreksfirði og Tálknafirði og óskuðu eftir áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Álit stofnunarinnar er frá 23. september 2016, eins og áður sagði.

Í niðurstöðukafla álits Skipulagsstofnunar segir svo: „Í samræmi við 11. gr. laga og 24. gr. reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum hefur Skipulagsstofnun farið yfir matsskýrslu [framkvæmdaraðila] sem lögð var fram samkvæmt 10. gr. sömu laga. Skipulagsstofnun telur að matsskýrslan uppfylli skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum.“

Jafnframt var eftirfarandi tekið fram: „Helstu neikvæðu áhrif fyrirhugaðs fiskeldis [framkvæmdaraðila] í Patreksfirði og Tálknafirði munu að mati Skipulagsstofnunar felast í áhrifum á fisksjúkdóma, laxalús, náttúrulega stofna laxfiska og botndýralíf. Þannig felast helstu neikvæðu áhrif framkvæmdanna m.a. í aukinni hættu á að sjúkdómar og laxalús berist frá eldinu í villta laxfiskastofna, einkum sjóbirting, sem dvelur í sjó í Patreksfirði og Tálknafirði hluta úr ári. Þótt far strokulaxa úr eldi fyrir nokkrum árum virðist hafa takmarkast við Patreksfjörð, er líklegt að sú mikla aukning sem er áformuð á framleiðslu í fjörðunum feli í sér meiri hættu á að lax sleppi úr eldiskvíunum og að áhrifa eldisins geti orðið vart utan Patreksfjarðarflóa, með tilheyrandi hættu á að eldislax blandist villtum laxastofnum. Stofnunin telur mikilvægt að tryggt verði að eldisbúnaður sé í samræmi við kröfur viðurkenndra staðla til að draga eins og kostur er úr þessari hættu. Einnig er mikilvægt að vöktun á lífríki hafsbotns á eldissvæðunum verði í samræmi við viðurkennda staðla og mat á burðarþoli verði uppfært í samræmi við vöktun á ástandi sjávar.“

Í niðurstöðukafla í áliti sínu gerði Skipulagsstofnun tillögu um að eftirfarandi skilyrði yrðu sett við leyfisveitingar vegna fiskeldisins:

1.    Viðmið um heimilaðan fjölda laxalúsa á eldisfiski með hliðsjón af áætlaðri hættu á afföllum villtra laxfiska.
2.    Vöktun á laxalús á eldisfiski og sýnataka verði á þeim tíma árs sem aðstæður eru hagstæðar fyrir vöxt laxalúsar.
3.    Niðurstöður vöktunar verði gerðar opinberar.
4.    Viðbragðsáætlun um mótvægisaðgerðir í samræmi við niðurstöður um smitálag frá eldisfiski hverju sinni og áhættu fyrir villta fiskistofna.
5.    Samræmda útsetningu seiða fyrirtækjanna til að lágmarka hættu á því að smit frá eldinu berist milli árgangasvæða.
6.    Eldisbúnaður Fjarðalax og Arctic Sea Farm uppfylli sambærilegar kröfur og settar eru í staðlinum NS 9415:2009 varðandi útbúnað og verklag.
7.    Vöktun á ástandi sjávar í fjörðunum til grundvallar endurskoðuðu burðarþolsmati verði í samræmi við ráðleggingar Hafrannsóknarstofnunar.
8.    Vöktun á uppsöfnun lífræns úrgangs á sjávarbotn undir og við eldiskvíar og áhrifum þess á botndýralíf verði byggt á staðlinum ISO 12878.
9.    Eldi hefjist ekki á ný að lokinni hvíld fyrr en hafsbotn á svæðinu hefur náð ásættanlegu ástandi, samkvæmt viðmiðum Umhverfisstofnunar.

Fjarðalax sótti um starfsleyfi til Umhverfisstofnunar með umsókn, dags. 26. júlí 2016. Stofnunin gaf út starfsleyfi til handa leyfishafa 13. desember 2017. Útgáfa leyfisins var auglýst á vefsíðu stofnunarinnar 27. s.m. ásamt tenglum á starfsleyfið, áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum og afstöðu Umhverfisstofnunar til álitsins. Kæra barst úrskurðarnefndinni 19. janúar 2018, svo sem áður greinir.

Matvælastofnun hefur veitt Fjarðalaxi rekstrarleyfi fyrir eldi því sem um ræðir, en auk þess hafa Matvælastofnun og Umhverfisstofnun veitt rekstrarleyfi og starfsleyfi vegna eldis Arctic Sea Farm á 6.800 tonna ársframleiðslu á laxi í Patreksfirði og Tálknafirði á grundvelli sama mats á umhverfisáhrifum. Hafa þær leyfisveitingar einnig verið kærðar til úrskurðarnefndarinnar og eru þau kærumál nr. 3, 4, 5, og 12/2018. Með úrskurðum úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sem kveðnir voru upp 27. september 2018 í kærumálum nr. 3 og 5/2018, voru felldar úr gildi ákvarðanir Matvælastofnunar um að veita rekstrarleyfi fyrir eldi fyrirtækjanna tveggja og með úrskurði kveðnum upp fyrr í dag var kröfum kærenda í máli nr. 12/2018 vegna þeirra leyfa vísað frá úrskurðarnefndinni.

Skömmu eftir veitingu hins kærða leyfis tilkynntu Arctic Sea Farm og Fjarðalax fyrirhugaða breytingu á staðsetningu eldissvæða fyrirtækjanna í Patreksfirði til Skipulagsstofnunar til ákvörðunar um matsskyldu skv. 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. lið 13.02 í 1. viðauka laganna. Ákvörðun Skipulagsstofnunar þess efnis að framkvæmdin skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum lá fyrir 11. apríl 2018. Hefur sú ákvörðun einnig verið kærð til úrskurðarnefndarinnar og er það kærumál nr. 73/2018. Í júní 2018 lá fyrir ákvörðun Matvælastofnunar um breytingu á rekstrarleyfi Fjarðalax, þar sem hnitum einnar staðsetningar, Eyri í Patreksfirði, var breytt. Fyrirhugað er að breyta einnig rekstrarleyfi Arctic Sea Farm samkvæmt upplýsingum frá stofnuninni. Í september 2018 lágu fyrir ákvarðanir Umhverfisstofnunar um breytingu á starfsleyfum fyrirtækjanna hvað varðaði staðsetningu tveggja eldissvæða í Patreksfirði, annars vegar við Þúfnaeyri og hins vegar við Kvígindisdal.

Málsrök kærenda: Kærendur kveðast eiga mikilla hagsmuna að gæta, að ekki verði stefnt í hættu lífríki Haffjarðarár, Fífustaðadalsár, Bakkadalsár, Vatnsdalsár á Barðaströnd, Hvannadalsár, Langadalsár, Þverár og Laxár á Ásum. Hættan sé fyrirsjáanleg fyrir hina villtu lax- og silungastofna ánna, m.a. með lúsafári og mengun frá framandi, erlendum og kynbættum eldislaxi, sem enginn mótmæli að muni sleppa í meira eða minna mæli úr fyrirhuguðu sjókvíaeldi í Patreksfirði og Tálknafirði. Víst sé að eldisfiskurðinn muni dreifa sér í veiðiár allt í kringum landið, eins og nýleg reynsla sýni, að ekki sé minnst á lúsafár og sjúkdómasmit og stórfellda saur- og fóðurleyfamengun í nágrenni eldiskvíanna. Byggt sé á því að ýmis konar vanræksla Umhverfisstofnunar og annmarkar á starfsleyfinu og útgáfuferli þess valdi ógildinu leyfisins.

Útgáfa hins kærða rekstrarleyfis hafi verið auglýst á heimasíðu Umhverfisstofnunar 27. desember 2017 og sé því kærufrestur til 27. janúar 2018.

Í 1. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi segi m.a. að tryggja skuli verndun villtra nytjastofna og koma skuli í veg fyrir hugsanleg spjöll á villtum nytjastofnum og lífríki þeirra og tryggja hagsmuni þeirra sem nýti slíka stofna. Í 2. mgr. segi að við framkvæmd laganna skuli þess ávallt gætt að sem minnst röskun verði á vistkerfi villtra fiskstofna og að sjálfbærri nýtingu þeirra sé ekki stefnt í hættu. Í athugasemdum við lagagreinina segi: „Á hinn bóginn er það skýrt og endurspeglast að sínu leyti í markmiðsyfirlýsingu 2. mgr. og fleiri greinum frumvarpsins að vöxtur og viðgangur atvinnugreinarinnar [fiskeldis] má ekki gerast á kostnað viðgangs og nýtingar villtra fiskstofna. Í þessari takmörkun felst í raun að þegar ekki fara saman annars vegar hagsmunir þeirra sem veiðirétt eiga samkvæmt lax- og silungsveiðilögum og hins vegar þeirra sem fjallað er sérstaklega um í frumvarpi þessu víkja hinir síðarnefndu.“ Kærendur byggi á því að Umhverfisstofnun hafi ekki sýnt fram á hvernig útgáfa rekstrarleyfisins samrýmist ákvæði 1. gr. laga nr. 71/2008 og valdi það ógildingu rekstrarleyfisins.

Leyfishafi staðfesti í matsskýrslu sinni að ekki verði komist hjá strokulaxi í opnu sjókvíaeldi og sama niðurstaða sé í umsögn Fiskistofu. Þar segi jafnframt að hættan á því að erfðablöndun verði og geti valdið tjóni sé raunveruleg og hún aukist eftir því sem umfang eldisins verði meira. Vegna fyrirhugaðar framleiðsluaukningar sé því mikilvægt að lagt sé mat á hættuna á erfðablöndun og afleiðingar hennar fyrir villta stofna, í stað þess að afgreiða áhrifin sem „óveruleg og afturkræf“. Miðað við almennt viðurkenndar viðmiðunartölur um strokulaxa, þ.e. einn lax fyrir hvert framleitt tonn, megi reikna með að meðaltali 6.800 strokulöxum úr fyrirhuguðu eldi leyfishafa og að 40-50% þeirra gangi í árvatn. Sé þá ekki miðað við hugsanlegt stórslys. Alkunna sé að líffræðingar og fleiri telji varasamt að leyfa notkun á laxi af norskum uppruna hérlendis vegna þess hve hann sé erfðafræðilega frábrugðinn íslenskum laxastofnum og erfðamengun dragi m.a. úr hæfni villta laxins til að lifa af og fjölga sér og hafi einnig neikvæð áhrif á aðlögunarhæfni og ratvísi, enda sé bannað m.a. í Noregi, Bandaríkjunum og Kanada að nota framandi laxastofna í sjókvíaeldi.

Ljóst sé að Umhverfisstofnun hafi ekki gert sér grein fyrir því að meðferð stofnunarinnar á umsókn leyfishafa sé hluti af umhverfismatsferli og að meðferð umsóknarinnar skuli fara fram samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, eins og þau verði skýrð með hliðsjón af tilskipun 2011/92/ESB, eins og henni hafi verið breytt með tilskipun 2014/52/ESB, sbr. g-lið 2. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar, sem sé hluti af EES-samningnum. Umhverfisstofnun hafi t.d. ekki með beinum hætti afstöðu til stóru spurningarinnar í málinu, hvort rök hafi verið til þess að hafna leyfisumsókninni, a.m.k. að sinni. Stýring mengunar felist m.a. í því að afstýra mengun með því að hafna útgáfu starfsleyfis.

Við útgáfu starfsleyfisins hafi Umhverfisstofnun borið, skv. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000, að kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hennar. Þá skuli leyfisveitandinn birta opinberlega ákvörðun sína um útgáfu leyfisins og niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum. Einnig hafi leyfisveitanda borið að kanna og rökstyðja álit sitt á því hvort fullnægjandi rannsókn og greining lægi fyrir í málinu, þannig að efni rökstuðnings uppfyllti áskilnað 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Það hafi ekki verið gert. Loks hafi ekki verið vikið að því hvort mat á umhverfisáhrifum mismunandi valkosta framkvæmdarinnar hafi farið fram. Af öllu framangreindu sé ljóst að Umhverfisstofnun hafi hvorki tekið afstöðu með ásættanlegum hætti til álits Skipulagsstofnunar né framkvæmdarinnar sem slíkrar.

Samkvæmt 2. málsl. 40. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 geti stjórnvöld ekki afhent eignar- eða afnotarétt að hafsvæði við landið sé ekki fyrir hendi sérstök lagaheimild til hinnar tilteknu ráðstöfunar hafsvæðisins. Hvergi sé í lögum heimild til handa stjórnsýsluhöfum til að stofna til einstaklingsbundinna afnota manna yfir hafsvæðum umhverfis landið. Fyrirhugað athafnasvæði leyfishafa sé utan netlaga og innan landhelgi Íslands. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 73/1990 um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins sé íslenska ríkið eigandi allra auðlinda á, í eða undir hafsbotninum utan netlaga og svo langt til hafs sem fullveldisréttur Íslands nái samkvæmt lögum, alþjóðasamningum eða samningum við einstök ríki. Samkvæmt lagaákvæðinu fylgi eignarrétti ríkisins eignarráð yfir hafinu á sama svæði. Leyfishafi hafi ekki lagt fram skilríki fyrir afnot sín af hafinu eins og lagaskylda sé, skv. 2. mgr. 8. gr. fiskeldislaga nr. 71/2008, sbr. 40. gr. stjórnarskrár. Í umsókn sinni um rekstrarleyfi segi leyfishafi um heimild til afnota lands, vatns og sjávar: „Eldissvæðið í sjó er meira en 200 m frá landi og því utan skipulagslaga.

Hafrannsóknarstofnun segi í umsögn sinni, dags. 27. nóvember 2017: „Stærðargráða fyrirhugaðs laxeldis gerir framkvæmdina fordæmalausa á Íslandi […] verður að telja að mikil áhætta sé tekin t.d. vegna laxalúsa og ekki öruggt að mótvægisaðgerðir gegn henni dugi.“ Þessu til viðbótar sé augljóst að samtals 17.500 tonna framleiðsla af erlendum og framandi laxastofni sé stórhættuleg viðbót, hvað erfðamengun varði, við þá framleiðslu sem þegar sé komin af stað á Vestfjörðum, m.a. vegna risavaxinna sammögnunaráhrifa. Varðandi umhverfisáhrif sé ekki aðeins um að ræða óviðráðanlega losun skolps í strandsjó, heldur einnig stórfjölgun stroklaxa, laxalúsar og sjúkdóma. Þetta komi fram í áliti Skipulagsstofnunar, dags. 23. september 2016, þar sem m.a. sé vísað til staðfestingar og greinargerðar Alþjóðahafrannsóknaráðsins. Um nefndar athugasemdir fjalli Umhverfisstofnun ekkert. Sé því ekki hægt að fallast á að hún hafi með ásættanlegum hætti tekið rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum í skilningi 2. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000.

Þá hafi Umhverfisstofnun ekki sinnt þeirri skyldu sinni að rannsaka, fjalla um og bera saman þá aðra valkosti sem til greina komi varðandi framkvæmdina, svo sem notkun geldfisks, eldi á landi, eldi í lokuðum sjókvíum, minna sjókvíaeldi eða svokallaðan núll valkost, sem hefðu í för með sér minni eða enga skaðsemi fyrir náttúruna og eignir annarra aðila, sbr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, 2. mgr. 9. gr. laga nr. 106/2000 og h-lið 1. tl. 2. mgr. 20. gr. reglugerðar nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum. Eigi þetta við um undirbúning útgáfu starfsleyfis, sem sé á ábyrgð Umhverfisstofnunar. Stofnunin nefni ekki hvort mat á umhverfisáhrifum mismunandi valkosta framkvæmdarinnar hafi farið fram með rannsókn, samanburði og umfjöllun. Um afleiðingar þess að vanrækja samanburð valkosta vísist t.d. til dóms Hæstaréttar frá 16. febrúar 2017 í máli nr. 575/2016.

Samkvæmt yfirliti leyfishafa um staðsetningu kvíaþyrpinga sé fjarlægð á milli eldissvæða annars vegar 2,0 km á milli kvía Arctic Sea Farm við Kvígindisdal í Patreksfirði og kvía Fjarðalax við Þúfneyri í Patreksfirði, og hins vegar 2,0 km á milli kvía Arctic Sea Farm við Akravík í Tálknafirði og kvía Fjarðalax við Lágadal í Tálknafirði. Leyfishafi mæli fjarlægð á milli kvíaþyrpinga innan eldissvæðanna. Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 1170/2015 um fiskeldi sé lágmarksfjarlægð á milli eldissvæða ótengdra aðila 5 km og skuli mæla lágmarksfjarlægð frá útmörkum hvers eldissvæðis. Heimild til styttri vegalengda en 5 km sé háð samráði Matvælastofnunar við Hafrannsóknastofnun, skv. 4. gr. áðurnefndrar reglugerðar. Þar sem Hafrannsóknarstofnun hafi ekki samþykkt styttingu vegalengda að ósk Matvælastofnunar séu greindar staðsetningar óheimilar. Valdi það óhjákvæmilega ógildingu starfsleyfisins.

Ljóst sé að verði leyft risaeldi með norskum, kynbættum eldisstofni í sjókvíum í Patreksfirði og Tálknafirði séu veiðiár allt í kringum landið í hættu vegna erfðamengunar frá strokufiski, en þó mest á Vestfjörðum og á nærliggjandi laxveiðisvæðum við Breiðafjörð, Faxaflóa og Húnaflóa. Í málsmeðferð Umhverfisstofnunar hafi lögvernduðum eignarréttindum annarra í engu verið sinnt, enda þótt fyrir liggi, einkum frá Noregi, vísindalegar upplýsingar um víðtæka skaðsemi starfsemi sem hér um ræði.

Lítið sé fjallað með raunhæfum hætti í starfsleyfinu um gífurlegt magn úrgangs frá sjókvíaeldinu. Samkvæmt norskum heimildum sé úrgangur í sjó frá 6.800 tonna eldi áætlaður eins og skolpfrárennsli frá 110.000 manna byggð. Sjókvíaeldi séu einu matvælaframleiðslufyrirtæki hér á landi sem sé í framkvæmd leyft að demba óátalið öllum úrgangi óhreinsuðum í sjó.

Umhverfisstofnun hafi ekkert fjallað um áhrif risalaxeldis á búsvæði seiða nytjafiska í fjörðunum. Engar rannsóknir hafi verið gerðar á því atriði. Stofnuninni beri að fara með eftirlit með því að náttúru Íslands sé ekki spillt með athöfnum, framkvæmdum eða rekstri, að svo miklu leyti sem slíkt eftirlit sé ekki falið öðrum með sérstökum lögum, sbr. a-lið 2. mgr. 75. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013, sbr. einnig rannsóknarreglu í 10. gr. stjórnsýslulaga. Stofnunin hafi því eftirlit með því að ekki sé brotið gegn 1. og 2. gr. laga um náttúruvernd, hinni mikilvægu varúðarreglu 9. gr. sem og ákvæði 63. gr. um innflutning og dreifingu á lifandi framandi lífverum. Umhverfisstofnun beri við gerð og útgáfu starfsleyfis ekki aðeins að skoða mengunarþátt sjókvíaeldis í skilningi laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 og fiskeldislaga, heldur beri henni að rannsaka og meta sjálfstætt öll áhrif framkvæmdar á náttúruna. Það hafi ekki verið gert.

Málsrök Umhverfisstofnunar: Af hálfu Umhverfisstofnunar er bent á að til að starfrækja eldi sjávarlífvera þurfi bæði að hafa til þess starfsleyfi frá Umhverfisstofnun og rekstrarleyfi frá Matvælastofnun. Starfsleyfi sé gefið út á grundvelli laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur hafi í för með sér mengun. Þá sé fjallað um aðkomu Umhverfisstofnunar vegna fiskeldis í lögum nr. 71/2008 um fiskeldi, en stjórnsýsla samkvæmt þeim lögum sé í höndum Matvælastofnunar vegna útgáfu rekstrarleyfis og falli undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.

Í starfsleyfum vegna mengandi starfsemi sé einkum fjallað um mögulega mengun frá atvinnurekstri, sett losunarmörk vegna mengunar og verklagsreglur í samræmi við viðkomandi lög og reglugerðir og draga með því úr áhrifum þeirrar mengunar sem óhjákvæmilega verði vegna mengandi atvinnustarfsemi, með það að markmiði að tryggja mengunarvarnir með sjálfbærni að leiðarljósi. Starfsleyfin séu því almennt gefin út til að dregið verði úr mengun af völdum atvinnurekstrar og setja rekstraraðilum skilyrði og kröfur sem þeir eiga að uppfylla í sínum rekstri.

Auk starfsleyfis verði leyfishafi í fiskeldi að vera með rekstrarleyfi frá Matvælastofnun, sbr. 4. gr. a í lögum nr. 71/2008. Rekstrarleyfi Matvælastofnunar byggi á öðrum efnisatriðum. Í lögum nr. 71/2008 sé gert ráð fyrir að unnið sé samtímis að afgreiðslu starfsleyfis Umhverfisstofnunar og rekstrarleyfis Matvælastofnunar og skuli leyfin afhent leyfishafa samtímis af Matvælastofnun eftir að Umhverfisstofnun hafi gefið út og afhent Matvælastofnun starfsleyfið. Starfsleyfið sé sjálfstætt leyfi sem byggi á ákvörðun Umhverfisstofnunar. Þegar ákvörðun stofnunarinnar um starfsleyfi sé kærð sé mikilvægt að gera greinarmun á því hvaða atriði falli undir regluverk rekstrarleyfisins annars vegar og starfsleyfisins hins vegar. Gæta verði að valdbærni og valdheimildum stofnana og líta þannig til þeirra laga og reglugerða sem hvor stofnun starfi eftir og þeirra sértæku markmiða og leyfa sem um ræði í regluverkinu.

Leyfishafi hafi verið með starfsleyfi fyrir 3.000 tonna ársframleiðslu af laxi í sjókvíaeldi í Patreks- og Tálknafirði og hafi sótt um stækkun í 10.700 tonna ársframleiðslu á laxi. Starfsleyfið byggist á skilyrðum á grundvelli 8. gr. reglugerðar nr. 785/1999 sem sett sé með stoð í 5. gr. laga nr. 7/1998, sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna. Starfsleyfi Umhverfisstofnunar taki á mengunarþætti eldisins og feli í sér ítarlegar kröfur um takmörkun á mengun, eftirlit og mælingar á starfstíma.

Álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum vegna sameiginlegrar áætlunar Arctic Sea Farm og Fjarðalax hafi verið birt 23. september 2016, þar sem stofnunin telji helstu neikvæðu áhrifin vera vegna sjúkdóma, laxalúsar, áhrif á náttúrulega stofna laxfiska og á botndýralíf. Umhverfisstofnun og Matvælastofnun hafi fundað 27. nóvember 2017 vegna álits Skipulagsstofnunar og farið yfir niðurstöðuna saman, þar sem um hafi verið að ræða tvo leyfisveitendur sem gefi út leyfi sem séu nauðsynleg til rekstrar og byggi á sama umhverfismati. Stofnanirnar telji mikilvægt að fara yfir niðurstöður matsins þannig að ekkert atriði falli á milli leyfisveitenda og tekin sé afstaða til allra atriða sem fram komi í niðurstöðum umhverfismatsins. Telji Umhverfisstofnun að allar forsendur og niðurstöður matsins hafi komið til skoðunar og að leyfin endurspegli niðurstöðu þess.

Umhverfisstofnun hafi auglýst tillögu að starfsleyfi á tímabilinu frá 5. júlí til 31. ágúst 2017. Auglýsingin hafi verið birt á vefsíðu stofnunarinnar, ásamt gögnum sem hafi legið til grundvallar tillögunni. Auglýsingin hafi einnig verið birt í Lögbirtingarblaði sama dag, auk þess sem tilkynning um auglýsinguna hafi verið birt í staðarblaðinu Vestfjörðum. Umhverfisstofnun hafi jafnframt tilkynnt um auglýsinguna til tengdra aðila. Fjórar umsagnir hafi borist um starfsleyfistillöguna. Gögn hafi verið aðgengileg hjá sveitarfélögunum Vesturbyggð og Tálknafirði á auglýsingatíma.

Umhverfisstofnun hafi sent Matvælastofnun starfsleyfið eftir ákvörðun um útgáfu þess, sbr. 4. gr. a. í lögum nr. 71/2008, og hafi það verið afhent og birt umsækjanda ásamt rekstrarleyfi samtímis. Starfsleyfið hafi öðlast gildi við afhendingu Matvælastofnunar til rekstraraðila samhliða rekstarleyfi og gildi til 13. desember 2033. Við gildistöku starfsleyfisins hafi fallið úr gildi eldra starfsleyfi frá 24. maí 2011. Með starfsleyfinu sé að mati Umhverfisstofnunar dregið úr þeim áhrifum sem mengun vegna eldisins valdi á botni fjarðarins með hvíld svæða á milli kynslóða. Með þeim hætti sé gert ráð fyrir að botninn nái að jafna sig á milli eldislota og gerðar séu mælingar til að meta ástandið. Stofnunin telji að þær varnir og sú vöktun sem tilgreind sé í starfsleyfi sé fullnægjandi til að vinna gegn skaðlegum áhrifum mengunar frá eldinu á annað lífríki fjarðarins.

Í umsögn Umhverfisstofnunar til Skipulagsstofnunar, dags. 10. nóvember 2015, hafi komið fram að helstu neikvæðu áhrif framkvæmdarinnar yrðu áhrif vegna uppsöfnunar úrgangs á hafsbotni undir eldiskvíunum en að þau áhrif væru afturkræf og svæðin myndu ná sér að mestu eftir hvíld. Stofnunin hafi bent á að með framkvæmdinni væri verið að fullnýta burðarþol fjarðanna samkvæmt burðarþolsmati Hafrannsóknarstofnunar. Í því ljósi væri mikilvægt að sannreyna lífrænt álag með vöktun sem endurspeglist í kröfum í vöktunaráætlun og starfsleyfi. Í niðurstöðum Hafrannsóknarstofnunar, dags. 16. október 2017, um burðarþol íslenskra fjarða segi um burðarþol Patreksfjarðar og Tálknafjarðar að með tilliti til stærðar fjarðanna og varúðarnálgunar varðandi raunveruleg áhrif eldisins einkum á botndýralíf og súrefnisstyrk, sé ráðlagt að hægt yrði að leyfa allt að 20.000 tonna eldi í Patreksfirði og Tálknafirði á ári.

Skipulagsstofnun telji að lífrænn úrgangur frá fyrirhuguðu eldi muni safnast upp á botni undir sjókvíum og næsta nágrenni þeirra. Því verði áhrif á ástand sjávar talsvert neikvæð á súrefnisinnihald við botn á takmörkuðu svæði undir eldiskvíum og nokkuð neikvæð á innihald uppleystra næringarefna sjávar á stærra svæði út frá eldiskvíum. Þar af leiði að neikvæð áhrif á botndýralíf verði talsvert neikvæð á takmörkuðu svæði nærri eldisstað, en fjær verði áhrifin nokkuð neikvæð til óveruleg. Áhrifin séu afturkræf ef starfseminni verði hætt og fóðrun ljúki. Í áliti Skipulagsstofnunar segi að við leyfisveitingar þurfi að setja skilyrði um tiltekin atriði til að afla vitneskju um áhrif eldisins á súrefnisbúskap í fjörðunum, styrkja mat á burðarþoli Patreksfjarðar og Tálknafjarðar og til vöktunar á botndýralífi á eldissvæðum. Vöktun á ástandi sjávar í fjörðunum til grundvallar endurskoðuðu burðarþolsmati verði í samræmi við ráðleggingar Hafrannsóknarstofnunar. Vöktun á uppsöfnun lífræns úrgangs á sjávarbotn undir og við eldiskvíar og áhrifum þess á botndýralíf verði byggð á staðlinum ISO 12878. Eldi hefjist ekki á ný að lokinni hvíld fyrr en hafsbotn á svæðinu hafi náð ásættanlegu ástandi samkvæmt viðmiðum Umhverfisstofnunar.

Umhverfisstofnun telji að þær kröfur og sú vöktun sem tilgreind séu í starfsleyfi, einkum í þriðja til fimmta kafla, og í vöktunaráætlun séu fullnægjandi til að draga úr neikvæðum áhrifum mengunar frá eldinu á annað lífríki fjarðarins. Stofnunin taki undir þau atriði sem bent sé á er varði losun lífniðurbrjótanlegs úrgangs og áhrif á nærumhverfið og botndýralíf. Með starfsleyfinu sé dregið úr þeim áhrifum á botn fjarðarins með hvíld svæða á milli kynslóða sem sé að lágmarki sex mánuðir. Með þeim hætti sé gert ráð fyrir að botninn nái að jafna sig á milli eldislota og að gerðar séu mælingar til að meta ástandið. Óskað hafi verið eftir breytingu á vöktunaráætlun sem lögð hafi verið fram í umsókn. Farið hafi verið fram á að mælingar og eftirlit með ástandi sjávar og botns verði í samræmi við staðalinn ISO 12878.

Í 6. gr. laga nr. 7/1998 segi að starfsleyfi skuli veitt starfsemi uppfylli hún þær kröfur sem til hennar séu gerðar samkvæmt lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim, að teknu tilliti til annarrar löggjafar. Í samræmi við lögmætisreglu stjórnsýsluréttar verði Umhverfisstofnun að taka ákvörðun um þau atriði sem falli innan verksviðs og valdheimilda stofnunarinnar.

Samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 megi ekki láta af hendi afnotarétt af fasteignum landsins nema samkvæmt lagaheimild. Ekki verði séð að afmörkuð hafsvæði utan netlaga geti flokkast undir hugtakið fasteign. Samkvæmt lögum nr. 41/1979 um landhelgi, aðlægt belti, efnahagslögsögu og landgrunn fjalli um ólífrænar og lífrænar auðlindir á, í eða undir hafsbotninum, annarra en lifandi vera. Einnig sé mælt fyrir um leyfisveitingaferli Orkustofnunar ef um sé að ræða töku eða nýtingu efnis af hafsbotni eða úr honum. Ákvarðanir Orkustofnunar geti verið kærðar sérstaklega og vísist nánar um leyfisveitingaferli Orkustofnunar til þeirrar stofnunar. Samþykkt hafi verið þingsályktun um landsskipulagsstefnu 2013-2024, þar sem m.a. sé fjallað um stefnu um skipulag á haf- og strandsvæðum. Fullyrðing kærenda um eignarráð ríkisins að hafinu, sbr. 1. gr. laga nr. 73/1990 um eignarrétt ríkisins að auðlindum hafsbotnsins verði ekki skilin á þann hátt að stofnunum ríkisins sé óheimilt að gefa út starfsleyfi sem byggi á settum lögum, reglugerðum og skipulagsstefnu. Umhverfisstofnun hafni því að ekki séu heimildir til að veita leyfishöfum starfsleyfi til að starfrækja eldi sjávarlífvera á haf- og strandsvæðum við Ísland utan netlaga.

Hvað varði þá skyldu að rannsaka og bera saman valkosti hafi Umhverfisstofnun tekið fullt tillit og afstöðu til niðurstöðu mats á umhverfisáhrifum auk þess að taka tillit til burðarþolsmats Hafrannsóknastofnunar. Jafnframt sé bent á að það sé á ábyrgð leyfishafa að vinna matsskýrslu og Skipulagsstofnunar að fylgja eftir þeim gæðakröfum sem komi fram í lögum um mat á umhverfisáhrifum. Umhverfisstofnun telji að framkvæmdin hafi fengið rétta meðferð samkvæmt lögum nr. 106/2000. Þar sé nánar fjallað um staðsetningu eldisins, tengsl við skipulag, áhrif á siglingaleiðir, aðgengi og ferðaþjónustu, samfélag, sjónræn áhrif, minjar o.fl. Í matsskýrslu leyfishafa sé umfjöllun um framkvæmdina og núllkost.

Fjarlægðarmörk komi fram í reglugerð nr. 401/2012 um fiskeldi og eigi við um útgáfu rekstrarleyfa og stjórnsýslu Matvælastofnunar. Að auki segi í 4. gr. reglugerðarinnar að Matvælastofnun geti að höfðu samráði við Hafrannsóknarstofnun og að fenginni umsögn sveitarstjórnar heimilað styttri eða lengri fjarlægðir milli eldisstöðva. Umhverfisstofnun taki fram að stofnunin hafi ekki tekið ákvörðun um útgáfu starfsleyfis fyrr en eftir að niðurstaða hafi legið fyrir hjá Matvælastofnun um staðsetningar og fjarlægðarmörk í rekstrarleyfi. Þannig hafi Umhverfisstofnun beðið eftir því að niðurstaða Matvælastofnunar um fjarlægðarmörk lægi fyrir. Um túlkun og framfylgni ákvæða reglugerðar nr. 401/2012 verði að eiga samskipti við Matvælastofnun varðandi það.

Svæði þar sem óheimilt sé að starfrækja fiskeldi í sjó vegna veiðiréttarhagsmuna, séu afmörkuð sérstaklega, sbr. auglýsingu nr. 460/2004. Lög nr. 7/1998 geri ráð fyrir að heimilt sé að veita starfsleyfi fyrir eldi sjávarlífvera. Ekki sé um að ræða aðra svæðisbundna afmörkun sambærilega við afmörkun iðnaðarsvæða í skipulagi sem starfsleyfisútgáfa á landi þurfi að byggjast á. Ekki hafi heldur verið skilgreindur bótaréttur vegna ráðstöfunar hafsvæðis á sama hátt og gert sé í skipulagslögum vegna áhrifa landnotkunarákvarðana skipulags á verðmæti eigna. Lög geri ekki ráð fyrir því að Umhverfisstofnun geri við gerð starfsleyfis ráðstafanir varðandi slíka einkaréttarlega hagsmuni, eins og t.a.m. áhrif starfsemi á verð á veiðiréttindum jarðeigenda og nýtingu hlunninda. Viðfangsefni starfsleyfa fyrir mengandi starfsemi sé einkum að fjalla um mögulega mengun frá atvinnurekstri, setja losunarmörk vegna mengunar og verklagsreglur í samræmi við viðkomandi lög og reglugerðir og draga með því úr áhrifum þeirrar mengunar sem óhjákvæmilega verði vegna mengandi atvinnustarfsemi.

Í 3. kafla hins kærða starfsleyfis séu ákvæði um varnir gegn mengun ytra umhverfis, m.a. um meðhöndlun úrgangs, efnalosun, lífríki, uppsöfnun fóðurleifa, mengandi efni og dauðan fisk. Í 5. kafla sé síðan fjallað um umhverfisvöktun og vöktunaráætlun. Skuli vöktun á uppsöfnun lífræns úrgangs á sjávarbotni undir og við eldiskvíar byggja á staðlinum ISO 12878. Eitt helsta markmið starfsleyfisins sé að taka á losun á lífrænu efni, sem muni vera það sem kærandi eigi við með „úrgangi“. Í gr. 1.2 í starfsleyfinu segi síðan að bendi niðurstöður umhverfisvöktunar, sbr. gr. 5.1, til þess eða hafi Umhverfisstofnun með öðrum hætti upplýsingar um uppsöfnun næringarefna eða aðrar óhagstæðar aðstæður í umhverfinu eða náttúrunni hafi komið upp að mati Umhverfisstofnunar geti hún einhliða frestað því að sett verði út seiði í viðkomandi firði. Telji stofnunin að þær varnir og sú vöktun sem tilgreind séu í starfsleyfi séu fullnægjandi til að vinna gegn skaðlegum áhrifum mengunar frá eldinu á annað lífríki fjarðarins. Bent sé á að á grundvelli niðurstaðna mælinga og umhverfisvöktunar geti stofnunin krafist þess að gerðar verði ráðstafanir til úrbóta ef uppsöfnun verði meiri en búist sé við. Einnig sé unnt að kalla eftir frekari mælingum og endurskoða vöktunaráætlun ef þörf sé talin á.

Að sögn kærenda hafi ekki verið fjallað um áhrif eldisins á búsvæði seiða nytjafiska í fjörðunum. Í niðurstöðu Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum sé m.a. fjallað um burðargetu fjarðanna, áhrif á villta fiskistofna og laxveiðihlunnindi, laxalús og áhrif á lífríki sjávar. Skipulagsstofnun fjalli einnig um áhrif á búsvæði í ám. Vert sé að benda á að Hafrannsóknarstofnun hafi gefið út mat á burðarþoli fyrir Patreksfjörð og Tálknafjörð sem sé skilgreint sem hámarks lífmassi eldis sem hægt sé að hafa á tilteknu svæði án þess að fara yfir mörk þess álags sem ásættanlegt sé, bæði fyrir eldið, lífríki og umhverfi. Hafrannsóknarstofnun geri í mati sínu ráð fyrir að heildarlífmassi eldisins verði ekki meiri en 20 þúsund tonn í fjörðunum.

Umhverfisstofnun hafni því að hún hafi ekki gætt að lagaskyldum sínum samkvæmt náttúruverndarlögum nr. 60/2013 þegar stofnunin hafi tekið ákvörðun um útgáfu starfsleyfis. Þær meginreglur sem skrifaðar hafi verið í I.-II. kafla laganna hafi að geyma leiðarljós sem stjórnvöldum beri að taka almennt mið af við setningu stjórnvaldsfyrirmæla og töku ákvarðana. Að baki séu einnig óskráðar meginreglur umhverfisréttar. Meginreglurnar séu því vegnar inn í það ferli sem fylgi leyfisveitingum stofnunarinnar og byggi á lögum og reglugerðum, m.a. um mat á umhverfisáhrifum, og ferli sem varði starfsleyfi fyrir mengandi atvinnurekstur. Stofnunin vinni samkvæmt vottuðu gæðakerfi sem ætlað sé að tryggja fagleg vinnubrögð og við gerð ferla séu meginreglur umhverfisréttar hafðar til hliðsjónar. Starfsleyfi fyrir mengandi starfsemi séu gefin út á grundvelli laga nr. 7/1998 en ekki með stoð í lögum um náttúruvernd. Einnig sé litið til annarra réttarheimilda við útgáfu starfsleyfis sem hafi efnislega þýðingu, þ. á m. til laga nr. 106/2000. Helstu meginreglur umhverfisréttarins séu útfærðar í löggjöf um mengunarvarnir í samræmi við þá evrópsku löggjöf sem innleidd sé á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Umhverfisstofnun bendi á að lög nr. 60/2013 feli ekki í sér innleiðingu á slíkum EES-reglum og hafi því verið tilefni til að innleiða meginreglur umhverfisréttarins með sérstökum hætti inn í lög um náttúruvernd.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi mótmælir öllum málatilbúnaði kærenda og kröfum á honum reistum. Um sé að ræða ívilnandi stjórnvaldsákvarðanir sem hafi byggst á lögum og hafi verið teknar að undangengnu ítarlegu mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Hið kærða leyfi myndi grunn að atvinnuréttindum leyfishafa sem séu stjórnarskrárvarin, sbr. 72. og 75. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Leyfin teljist því til eignarréttinda leyfishafa í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 1. gr. 1. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

Fyrirætlanir leyfishafa um framleiðsluaukningu á svæðinu hafi verið í lögbundnu ferli síðan 2013. Ferlið hafi verið opið og hagsmunaaðilar hafi á öllum stigum málsins haft tækifæri til að koma á framfæri athugasemdum. Leyfishafi telji að við meðferð umsókna hans um starfs- og rekstrarleyfi hafi verið gætt allra þeirra skilyrða sem lög kveði á um og vandað hafi verið til verka á öllum stigum málsins.

Því sé mótmælt að útgáfa starfsleyfis stríði gegn 1. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi. Í 1. mgr. ákvæðisins sé kveðið á um að markmið laganna sé að skapa skilyrði til uppbyggingar fiskeldis og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu, stuðla að ábyrgu fiskeldi og tryggja verndun villtra nytjastofna. Skuli í því skyni leitast við að tryggja gæði framleiðslunnar, koma í veg fyrir hugsanleg spjöll á villtum nytjastofnum og lífríki þeirra og tryggja hagsmuni þeirra sem nýti slíka stofna. Til að ná því markmiði skuli tryggt að eldisbúnaður og framkvæmd í sjókvíaeldi standist ströngustu staðla sem gerðir séu fyrir fiskeldismannvirki í sjó. Í 2. mgr. segi að við framkvæmd laganna skuli þess ávallt gætt að sem minnst röskun verði á vistkerfi villtra fiskstofna og að sjálfbærri nýtingu þeirra sé ekki stefnt í hættu. Að mati leyfishafa falli útgáfa hins kærða starfsleyfis vel að framangreindum markmiðum. Allt bendi til að vaxandi fiskeldi á svæðunum muni hafa verulega jákvæð áhrif á samfélagið. Aukin atvinna, verðmætasköpun og margfeldisáhrif af eldinu hafi nú þegar átt þátt í að snúa við neikvæðri íbúaþróun á svæðunum og búast megi við að frekari uppbygging leiði til enn jákvæðari þróunar. Vöktun, verklag og markvissar mótvægisaðgerðir muni draga verulega úr möguleikum á sleppingum og öðrum óæskilegum áhrifum frá starfseminni. Leyfishafi leggi áherslu á að 1. gr. laga nr. 71/2008 sé markmiðsákvæði, en slík ákvæði feli í sér yfirlýst markmið laga, sem ekki sé hægt að byggja á beinan efnislegan rétt. Áhrif markmiðsákvæða séu því óbein, þ.e. þau geti haft þýðingu við túlkun á inntaki annarra réttarheimilda en á þeim verði ekki byggt einum og sér til ógildingar stjórnvaldsákvarðana.

Ljóst sé að Umhverfisstofnun hafi fylgt fyrirmælum 13. gr. laga nr. 106/2000, m.a. með því að taka skýra og rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar í heild sinni. Gögn málsins beri með sér að málsmeðferð Umhverfisstofnunar hafi verið í samræmi við lög og að rannsóknarskylda hafi verið uppfyllt. Að sama skapi hafi verið sett þau skilyrði fyrir starfseminni sem talin hafi verið þörf á, þ.m.t. til að draga úr mögulegum neikvæðum umhverfisáhrifum. Því sé mótmælt að ekki hafi verið tekin afstaða til þess hvort rök hafi verið til að hafna umsókn leyfishafa.

Leyfishafi mótmæli því að ekki hafi verið tekið tillit til stærðar eldis og sammögnunaráhrifa við meðferð leyfisumsókna í Patreksfirði og Tálknafirði. Bent sé á að unnin hafi verið sameiginleg matsskýrsla vegna fyrirætlana leyfishafa og Arctic Sea Farm um samanlagt 14.500 tonna framleiðsluaukningu, sem skiptist á milli fyrirtækjanna. Í matsskýrslu hafi fullt tillit verið tekið til samlegðaráhrifa fimm fyrirtækja sem hafi á þeim tíma haft áform um eldi á laxi og regnbogasilungi á Vestfjörðum. Þá sé sérstaklega tekið fram í áliti Skipulagsstofnunar að fyrirhugaðar framkvæmdir séu hluti af umfangsmiklu áformuðu og starfræktu fiskeldi í eldiskvíum á Vestfjörðum, allt frá Patreksfirði til Ísafjarðardjúps. Bæði matsskýrsla og álit Skipulagsstofnunar hafi legið fyrir þegar ákvörðun hafi verið tekin um leyfið og því ljóst að upplýsingar um samlegðaráhrif hafi verið fyrirliggjandi.

Mótmælt sé staðhæfingu kærenda um að ekki hafi staðið lagaheimild til ráðstöfunar hafsvæðis undir fiskeldi á þeim grundvelli að íslenska ríkið fari með eignarráð yfir hafinu svo langt sem fullveldisréttur Íslands nái. Ákvæði laga nr. 73/1990 um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins séu skýr um að þau taki einungis til auðlinda hafsbotnsins og eigi ekki við eignarrétt ríkisins yfir hafinu á sama svæði, sbr. m.a. 1. og 2. gr. laganna. Það sé því ljóst að gildissvið laganna nái ekki til nýtingar hafsvæðis undir fiskeldi og að þau eigi ekki við í máli þessu. Þá verði ekki séð að afmörkuð svæði utan netlaga geti flokkast sem fasteign. Hafsvæði utan netlaga teljist, ólíkt auðlindum hafsbotnsins, til hafalmenninga sem enginn geti talið til beinna eignarréttinda yfir. Svæðið sem um ræði teljist þó til forráðasvæðis íslenska ríkisins, sbr. lög nr. 41/1979 um landhelgi, aðlægt belti, efnahagslögsögu og landgrunn. Þar komi fram að innan 200 sjómílna efnahagslögsögunnar hafi íslenska ríkið fullveldisrétt að því er varði hagnýtingu auðlinda í hafinu, lífrænna og ólífrænna, svo og aðrar athafnir varðandi efnahagslega nýtingu og rannsóknir innan svæðisins, sbr. 3. og 4. gr. laganna. Ríkið hafi því heimild til að setja lög og reglur sem gildi á svæðinu, þ.m.t. um nýtingu auðlinda.

Í 5. gr. laga nr. 71/2008 segi að ráðherra skuli, ef vistfræðileg eða hagræn rök mæli með því, ákveða samkvæmt lögunum skiptingu fiskeldissvæða meðfram ströndum landsins. Hafi það verið gert með auglýsingu nr. 460/2004 um friðunarsvæði, þar sem eldi laxfiska í sjókvíum sé óheimilt á tilteknum svæðum, en þar á meðal séu ekki Patreksfjörður og Tálknafjörður. Af því leiði að tekin hafi verið ákvörðun um að firðirnir séu á svæði þar sem fiskeldi sé heimilað.

Leyfishafi og Arctic Sea Farm setji fram einn aðalvalkost vegna fyrirhugaðs sjókvíaeldis í Patreksfirði og Tálknafirði. Sú afstaða sé rökstudd í matsskýrslu. Sá málatilbúnaður kærenda að skylt hafi verið að meta umhverfisáhrif annarra valkosta í umhverfismati standist ekki nánari skoðun, sbr. m.a. dóm Hæstaréttar frá 22. október 2009 í máli nr. 22/2009. Í málinu hafi verið skorið úr um að framkvæmdaraðili hafi forræði á því að meta hvaða valkostir komi til álita við mat á umhverfisáhrifum, enda sé það mat byggt á málefnalegum og hlutlægum grunni.

Af matsskýrslu verði glögglega ráðið hvers vegna leyfishafi hafi valið þann valkost sem tekinn hafi verið til skoðunar í mati á umhverfisáhrifum og hafi ekki tekið aðra valkosti til nánari skoðunar. Það sé hlutverk framkvæmdaraðila að skilgreina hvaða valkostir séu tækir með hliðsjón af markmiðum framkvæmdarinnar. Yfirlýst markmið framkvæmdarinnar sé að styrkja núverandi starfsemi á Vestfjörðum og gera rekstur fyrirtækjanna arðbæran og samkeppnishæfan til lengri tíma og þar með efla atvinnulíf og byggð á svæðinu. Áform fyrirtækjanna byggi á því að framleiðslan og afurðir fyrirtækjanna verði umhverfisvænar og framleiddar í sátt við vistkerfi framleiðslusvæða.

Hvergi í lögum sé að finna heimild til að skylda framkvæmdaraðila til að meta umhverfisáhrif framkvæmdarkosta sem ekki séu til þess fallnir að ná þeim lögmætu markmiðum sem að sé stefnt með framkvæmd. Leyfishafi og Arctic Sea Farm hafi byggt ákvarðanir sínar á málefnalegum sjónarmiðum og gögnum, sem styðji val leyfishafa á fyrirhugaðri framleiðsluaukningu í kynslóðaskiptu eldi með svokallaðan Saga eldisstofn. Að mati leyfishafa hafi engir aðrir raunhæfir valkostir verið nefndir til sögunnar, sem náð geti yfirlýstum markmiðum. Gallinn við ófrjóan lax sé sá að hann þurfi sérhæft og dýrt fóður til að bein þroskist eðlilega, afföll aukist og vansköpunartíðni geti verið há. Auk þess sé hætta á að viðbrögð markaða við vörunni verði neikvæð. Það sé viðurkennt að notkun á ófrjóum laxi sé enn í þróun og því ekki raunhæfur kostur, a.m.k. ekki enn sem komið sé. Samskonar sjónarmið eigi við um eldi í lokuðum sjókvíum og umfangsmikið landeldi á laxfiskum. Núllkostur gangi þvert gegn tilgangi og markmiðum framkvæmdar, en í honum felist óbreytt ástand. Það væri bæði óraunhæft og gífurlega íþyngjandi ef talin væri hvíla skylda á leyfishafa til að fjalla um annars konar fiskeldi en það sem hann starfi við og telji mögulegt fyrir sig að starfa við. Þá sé rétt að leggja áherslu á að Skipulagsstofnun hafi með áliti sínu fallist á að leyfishafi hafi metið umhverfisáhrif fyrirhugaðra framkvæmda í samræmi við lög nr. 106/2000. Af hálfu stofnunarinnar hafi ekki verið gerðar athugasemdir við skoðun á möguleikum við framkvæmdina.

Í 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 1170/2015 um fiskeldi sé kveðið á um að lágmarksfjarlægð á milli sjókvíaeldisstöðva ótengdra aðila skuli samkvæmt meginviðmiði vera 5 km miðað við útmörk hvers eldissvæðis sem rekstrarleyfishafa hafi verið úthlutað. Fram komi hins vegar að Matvælastofnun geti að höfðu samráði við Hafrannsóknastofnun og að fenginni umsögn sveitarstjórnar heimilað styttri eða lengri fjarlægðir milli eldisstöðva. Af fyrirliggjandi gögnum megi ráða að Matvælastofnun hafi óskað eftir áliti Hafrannsóknastofnunar vegna fjarlægðarmarka milli eldisstöðva leyfishafa og Arctic Sea Farm í Patreksfirði og Tálknafirði en ekki hafi verið lagst gegn fyrirætlunum um fjarlægðarmörk. Þá komi sérstaklega fram í umsögnum Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps, dags. 10. og 20. nóvember 2017, að sveitarstjórnir geri ekki athugasemdir við að fjarlægðarmörk milli leyfishafa séu skemmri en kveðið sé á um í 4. gr. reglugerðar nr. 1170/2015.

Leyfishafi hafni alfarið öllum málatilbúnaði kærenda um að veiðiár allt í kringum landið séu í hættu vegna erfðamengunar. Bent sé á að eldissvæðin í Patreksfirði og Tálknafirði séu í tæplega 100 km fjarlægð frá ám með villta laxastofna, sem hafi reglulega skráða veiði. Næstu ár í norðri séu innst inni í Ísafjarðardjúpi og í suðri sé Fjarðarhornsá á Barðaströnd næst. Veiðistofninn í þessum ám hafi verið styrktur með seiðasleppingum í mörg ár og í sumum tilfellum í áratugi. Minni laxveiðiár með óreglulega skráða veiði séu í 50-100 km fjarlægð. Samkvæmt rannsóknum skipti fjarlægð milli eldissvæða og laxáa miklu máli um hvort strokulax leiti upp í ár og líkur þess að hann leiti í ár minnki því meiri sem fjarlægðin sé. Þetta sé ein lykilforsenda þess að til greina komi að heimila eldi á laxfiskum á þeim svæðum við landið sem tilgreind séu í auglýsingu nr. 460/2004. Á þeim grunni sé óheimilt að stunda fiskeldi í námunda við þau svæði þar sem helst finnist villtir stofnar laxa og séu stór svæði á Vesturlandi, Norðurlandi og Suðurlandi undanskilin af þeim sökum. Hins vegar falli Vestfirðir utan friðunarsvæða, þ. á m. Patreksfjörður og Tálknafjörður. Það liggi því fyrir mat stjórnvalda á því hvaða svæði þurfi að vernda sérstaklega vegna villtra stofna og sé ljóst að starfsemi leyfishafa fari fram utan þess svæðis. Lög geri ráð fyrir að heimilt sé að veita starfs- og rekstrarleyfi fyrir fiskeldi. Í þeim lögum sé ekki mælt fyrir um ráðstafanir varðandi einkaréttarlega hagsmuni, svo sem áhrif starfsemi á veiðiréttindi jarðeigenda eða nýtingu hlunninda við útgáfu leyfa til fiskeldis.

Því sé hafnað að við meðferð málsins hafi ekkert verið fjallað um magn úrgangs frá fyrirhuguðu sjókvíaeldi. Í matsskýrslu sé fjallað um það magn úrgangs sem áætlað sé að komi frá eldinu miðað við gefna fóðurnýtingu, fóðurmagn og næringarefnainnihald, sbr. kafla 3.6. Jafnframt sé fjallað um förgun úrgangs í kafla 3.7. Skipulagsstofnun hafi talið að við leyfisveitingar þyrfti að setja skilyrði um m.a. vöktun á uppsöfnun lífræns úrgangs á sjávarbotn undir og við eldiskvíar og áhrif þess á botndýralíf. Vöktun á ástandi sjávar, botndýralífi og uppsöfnun lífræns úrgangs sé framkvæmd samkvæmt vöktunaráætlun fyrirtækjanna og heyri undir starfsleyfisskilyrði Umhverfisstofnunar. Leyfishafi sé samkvæmt þeim skyldaður til að vakta losun mengunarefna til viðtaka og dreifingu þeirra ásamt því að meta vistfræðilegar afleiðingar hennar. Í samræmi við fyrirmæli Skipulagsstofnunar sé mælt fyrir um að vöktun á uppsöfnun lífræns úrgangs á sjávarbotni og áhrifum þess á botndýralíf skuli vera samkvæmt staðlinum ISO 12878. Gerð sé krafa um að eldissvæði séu hvíld og geti Umhverfisstofnun með vísan til starfsleyfisskilyrða einhliða frestað útsetningu seiða bendi niðurstöður umhverfisvöktunar til þess að aðstæður í umhverfi eða náttúru séu óhagstæðar, t.a.m. þegar hafsbotn hafi ekki náð ásættanlegu ástandi eftir hvíld. Þá sé í starfsleyfinu sérstaklega kveðið á um skyldu leyfishafa til að vera með viðbragðsáætlun þar sem taka skuli á hugsanlegri hættu á bráðamengun og hvenær tilkynna skuli um mengunaróhöpp.

Því sé hafnað að ekkert tillit hafi verið tekið til áhrifa laxeldis á búsvæði seiða og nytjafiska. Skylda hvíli á fiskeldisfyrirtækjum að framkvæma umhverfisvöktun, þ.e. meta umhverfisáhrif fiskeldisins. Gera megi ráð fyrir því að Hafrannsóknastofnun muni í framtíðinni auka rannsóknir sínar varðandi búsvæði seiða í fjörðum landsins og þá leggja mat á áhrif fiskeldis fyrir þau búsvæði. Í matsskýrslu leyfishafa komi fram að sjúkdómasmit frá eldisfiski geti haft bein áhrif á villta laxfiskastofna. Komi til þess að villtur fiskur sýkist af völdum smits frá eldisfiski séu slík áhrif hins vegar talin afturkræf. Áhrifin verði óveruleg vegna þess að að búsvæði villtra laxfiska séu fjarri eldissvæðum og stærð villtra laxfiskastofna sé áætluð lítil í Patreksfirði og Tálknafirði. Góð staða í sjúkdómamálum hérlendis og bólusetning eldisseiða styrki þessa niðurstöðu. Þá sé því hafnað að umfjöllun skorti um hættu sem stafi af laxalús.

Það sé algengur misskilningur að í fiskeldi á Íslandi ríki lúsafár, sem villtum laxastofnum stafi hætta af. Staðreyndin sé sú að laxalús hafi aldrei valdið vandræðum í íslensku sjókvíaeldi. Ástæðan sé fyrst og fremst lágur sjávarhiti yfir vetrartímann, en laxalús berist með villtum fiski í kvíar að vori og þar nái hún að fjölga sér lítillega fram á haust. Með vetri lækki sjávarhitinn og lúsin hverfi úr kvíunum. Kærendur geri engan greinarmun á fiskilús og laxalús, sem séu mjög ólíkar. Vísað sé til fjölda fiskilúsa sem fundist hafi hjá leyfishafa, sem fyrst og fremst hafi áhrif á eldisfiskinn þannig að streita aukist og erfiðara verði að fóðra fiskinn. Oftast sé um tímabundin áhrif að ræða.

——-

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur farið yfir öll gögn og haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það skilyrði kæruaðildar að málum fyrir nefndinni að kærandi eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Er það í samræmi við þá meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eiga einstaklingsbundna og verulega lögvarða hagsmuni tengda hinni kæranlegu ákvörðun. Sú undantekning er þó gerð í nefndum lögum að umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök geta að ákveðnum skilyrðum uppfylltum átt kæruaðild án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni. Aðrir kærendur þurfa hins vegar að uppfylla framangreind skilyrði kæruaðildar.

Eins og fram kemur í kæru eru kærendur annars vegar náttúruverndarsamtök, sem fallist er á að uppfylli framangreind skilyrði laga nr. 130/2011 um kæruaðild, og hins vegar einstakir eigendur veiðiréttar í ám, auk veiðifélaga. Þeir kærendur rökstyðja lögvarða hagsmuni sína í málinu með því að þeir eigi allir mikilla hagsmuna að gæta af því að ekki verði stefnt í hættu lífríki viðkomandi veiðiáa og þar með hinum villtu lax- og silungstofnum þeirra, enda sé víst að eldisfiskurinn muni dreifa sér í veiðiár allt í kringum landið, eins og nýleg dæmi sýni.

Laxeldið sem hið kærða starfsleyfi heimilar er í Patreksfirði og Tálknafirði á sunnanverðum Vestfjörðum. Ár þær sem nefndar eru í kæru eru flestar á Vestfjörðum og verður að játa þeim kærendum kæruaðild sem fara með hagsmuni veiðiréttarhafa í þeim ám vegna nándar við fyrirhugað eldi. Laxveiðiáin Haffjarðará er í Hnappadal á Snæfellsnesi og rennur hún til sjávar á sunnanverðu nesinu. Þá er Laxá á Ásum laxveiðiá í Austur-Húnavatnssýslu sem rennur í Húnavatn og síðan um Húnaós í Húnaflóa. Tvær síðarnefndu árnar eru því í mikilli fjarlægð frá umræddu eldi og eru staðhættir þannig að ef til þess kæmi að lax slyppi úr eldiskvíum væru umtalsverðar hindranir því í vegi að hann leitaði í þær ár. Það sýnist þó ekki útilokað, sérstaklega þegar til þess er litið að fyrir liggur staðfesting Hafrannsóknastofnunar á því að veiðst hafi eldislax í Vatnsdalsá, sem fellur til sjávar á sama stað og Laxá á Ásum, en ekkert sjókvíaeldi er þar nærri.

Á sviði umhverfisréttar er oft álitamál hvern telja beri aðila máls. Verður við úrlausn þess atriðis að meta hagsmuni og tengsl kærenda við úrlausn málsins, þ.e. hvort þeir eiga beinna, verulegra, sérstakra og lögvarinna hagsmuna að gæta. Við mat á því hvort viðkomandi hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn kærumáls verður að líta til þess að stjórnsýslukæra er mjög virkt úrræði til að tryggja réttaröryggi borgaranna, en það er meðal markmiða stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. athugasemdir í frumvarpi því sem varð að þeim lögum. Verður því almennt að gæta varfærni við að vísa málum frá á þeim grunni að kærendur skorti lögvarða hagsmuni. Ber þannig að jafnaði ekki að vísa frá málum vegna þess að kæranda skorti lögvarða hagsmuni nema augljóst sé að það hafi ekki raunhæft gildi fyrir lögverndaða hagsmuni hans að fá leyst úr ágreiningi þeim sem stendur að baki kærumálinu. Með vísan til þessa, sem og þeirrar vísindalegu óvissu sem ríkir í kjölfar þess að eldislax hefur veiðst í ám fjarri sjókvíaeldi, telur nefndin ekki stætt á því að útiloka að þeir kærendur sem telja til réttar í Haffjarðará og Laxá á Ásum geti átt lögvarða hagsmuni af úrlausn kæruefnisins sem hér liggur fyrir, þrátt fyrir að veiðiréttindi þeirra séu fjarri laxeldi leyfishafa. Uppfylla þeir því skilyrði kæruaðildar skv. fyrrgreindri 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Samkvæmt framangreindu verða kröfur allra kærenda teknar til efnismeðferðar.

——-

Í máli þessu er deilt um gildi starfsleyfis sem veitt var af Umhverfisstofnun vegna laxeldis í sjókvíum í Patreksfirði og Tálknafirði. Framkvæmdin hefur sætt mati á umhverfisáhrifum skv. lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og er álit Skipulagsstofnunar vegna þess frá 23. september 2016.

Samkvæmt 4. gr. a. í lögum nr. 71/2008 um fiskeldi þarf starfsleyfi Umhverfisstofnunar og rekstrarleyfi Matvælastofnunar til starfrækslu fiskeldisstöðva. Samkvæmt 6. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir skal allur atvinnurekstur, sbr. viðauka I-V, hafa gilt starfsleyfi sem Umhverfisstofnun eða heilbrigðisnefndir gefa út, sbr. þó 8. gr. Fellur eldi sjávar- og ferskvatnslífvera undir viðauka II, sbr. 2. tölul. hans, en skv. 7. gr. laganna gefur Umhverfisstofnun út starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem fellur þar undir. Við veitingu hins kærða starfsleyfis gilti reglugerð nr. 785/1999, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, sem sett var á grundvelli 5. gr. laga nr. 7/1998. Meðal markmiða hennar var að koma í veg fyrir og draga úr mengun af völdum atvinnurekstrar sem getur haft í för með sér mengun, koma á samþættum mengunarvörnum og að samræma kröfur og skilyrði í starfsleyfum, sbr. þágildandi gr. 1.1. Bar stofnuninni að fara að þeim málsmeðferðarreglum sem í reglugerðinni voru tilgreindar, sem og í lögum nr. 7/1998 og stjórnsýslulögum nr. 37/1993. Þá fellur starfsleyfi undir leyfi til framkvæmda í skilningi f-liðar 3. gr. laga nr. 106/2000.

Um útgáfu leyfa vegna matsskyldra framkvæmda fer eftir 13. gr. laga nr. 106/2000 og er meðal frumskilyrða fyrir útgáfu slíks leyfis að fyrir liggi álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, sbr. 1. mgr. ákvæðisins. Samkvæmt 2. mgr. þess skal leyfisveitandi kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar, sem er lögbundið en ekki bindandi. Lögum samkvæmt þarf það álit að fullnægja lágmarksskilyrðum um rökstuðning og efnisinnihald og er það forsenda þess að leyfisveitandi geti tekið ákvörðun um umsókn um leyfisveitingu að álitið fullnægi þeim lagaskilyrðum. Skyldur leyfisveitanda ná því einnig til þess að kanna hvort einhverjir þeir annmarkar séu á áliti Skipulagsstofnunar að á því verði ekki byggt. Lýtur lögmætiseftirlit úrskurðarnefndarinnar að hinu sama, sem og því hvort leyfisveitandi hafi sinnt skyldum sínum með fullnægjandi hætti.

——-

Meginágreiningur kærumáls þessa lýtur að því hvort byggt verði á fyrirliggjandi mati á umhverfisáhrifum sem kærendur halda fram að sé haldið annmörkum þar sem ekki hafi verið fjallað um valkosti framkvæmdarinnar, s.s. notkun geldfisks, eldi á landi, eldi í lokuðum sjókvíum eða minna sjókvíaeldi.

Í 1. gr. laga nr. 106/2000 er gerð grein fyrir markmiðum þeirra. Eiga þau að tryggja að mat á umhverfisáhrifum hafi farið fram áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmd sem kann, vegna staðsetningar, starfsemi sem henni fylgir, eðlis eða umfangs, að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Jafnframt er það markmið laganna að draga eins og kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdar, að stuðla að samvinnu aðila sem hafa hagsmuna að gæta eða láta sig málið varða, sem og að kynna umhverfisáhrif og mótvægisaðgerðir vegna framkvæmda fyrir almenningi og gefa honum kost á að koma að athugasemdum og upplýsingum áður en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir. Til að ná þessum markmiðum mæla lögin fyrir um ákveðna málsmeðferð.

Þannig skal framkvæmdaraðili gera tillögu að matsáætlun til Skipulagsstofnunar og kynna hana umsagnaraðilum og almenningi, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga 106/2000. Skal m.a. lýsa framkvæmdinni og öðrum möguleikum sem til greina koma. Stofnunin skal síðan taka ákvörðun um tillöguna, skv. 2. mgr. sömu lagagreinar, og getur hún fallist á tillögu að matsáætlun með eða án athugasemda eða synjað tillögunni. Að lokinni málsmeðferð skv. áðurnefndri 8. gr. vinnur framkvæmdaraðili frummatsskýrslu á grundvelli samþykktrar matsáætlunar, sbr. 9. gr. laganna. Skal þar m.a. tilgreina þau áhrif sem fyrirhuguð framkvæmd og starfsemin sem henni fylgir kunna að hafa á umhverfi og jafnframt skal ávallt gera grein fyrir helstu möguleikum sem til greina koma og umhverfisáhrifum þeirra og bera saman, sbr. 2. mgr. lagagreinarinnar. Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. skal Skipulagsstofnun meta hvort skýrslan uppfylli kröfur 9. gr. og sé í samræmi við matsáætlun skv. 8. gr., en verði niðurstaðan sú að svo sé ekki er stofnuninni heimilt að hafna því að taka skýrsluna til athugunar. Frummatsskýrslan er kynnt samkvæmt nánari ákvæðum þar um í 10. gr. og er öllum heimilt að gera athugasemdir við hana, sbr. 4. mgr. lagagreinarinnar. Þá leitar Skipulagsstofnun umsagna skv. 5. mgr. ákvæðisins. Stofnunin skal því næst skv. 6. mgr. 10. gr. senda framkvæmdaraðila umsagnir og athugasemdir og skal framkvæmdaraðili gera grein fyrir þeim og taka afstöðu til þeirra í matsskýrslu sem hann vinnur á grundvelli frummatsskýrslu. Að málsmeðferð þessari lokinni skal Skipulagsstofnun skv. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 106/2000 gefa rökstutt álit sitt á því hvort matsskýrslan uppfylli skilyrði þeirra laga og reglugerða settra samkvæmt þeim og að umhverfisáhrifum sé lýst á fullnægjandi hátt. Skal jafnframt í álitinu fjalla um afgreiðslu framkvæmdaraðila á þeim athugasemdum og umsögnum sem bárust við kynningu á frummatsskýrslu.

Eins og áður er rakið er kveðið á um það í 2. mgr. 9. gr. laga nr. 106/2000 að í frummatsskýrslu skuli ávallt gera grein fyrir helstu möguleikum sem til greina komi og umhverfisáhrifum þeirra og bera þá saman. Kemur fram í skýringum við nefnt lagaákvæði í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 106/2000 að helstu breytingar frá gildandi lögum felist í því að lagt sé til í samræmi við ákvæði tilskipunar Evrópusambandsins 97/11/EB að framkvæmdaraðili geri grein fyrir helstu möguleikum sem hann hafi kannað og til greina komi, svo sem varðandi tilhögun og staðsetningu. Þá er tekið fram: „Nýmæli þetta hefur mikla þýðingu því að samanburður á helstu möguleikum er ein helsta forsendan fyrir því að raunveruleg umhverfisáhrif hinnar fyrirhuguðu framkvæmdar séu metin.“

Ný reglugerð nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum tók gildi eftir að vinna við mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar hófst en áður en álit Skipulagsstofnunar lá fyrir. Féll þá brott eldri samnefnd reglugerð nr. 1123/2005, en í þeim atriðum sem hér verða rakin eru reglugerðirnar samhljóða. Segir í 15. gr. gildandi reglugerðar að í tillögu að matsáætlun skuli eftir því sem við á koma fram upplýsingar um mögulega framkvæmdakosti sem til greina komi, m.a. núllkost, þ.e. að aðhafast ekkert, og greina frá umfangi og tilhögun annarra kosta og staðsetningu þeirra, sbr. e-lið 2. tölul. 2. mgr. reglugerðarákvæðisins. Jafnframt er tekið fram í h-lið 1. tölul. 2. mgr. 20. gr. reglugerðarinnar að í frummatsskýrslu skuli, eftir því sem við á, koma fram yfirlit yfir valkosti sem gerð er grein fyrir í frummatsskýrslu, svo sem aðra kosti varðandi tæknilega útfærslu framkvæmdar eða starfsemi, aðra staðarvalkosti eða núllkost, þ.e. að aðhafast ekkert. Enn fremur skulu koma fram upplýsingar um framkvæmdasvæði, svo sem uppdráttur af fyrirhugaðri staðsetningu framkvæmdar og einnig uppdráttur af öðrum staðarvalskostum, sbr. a-lið 2. tölul. nefnds reglugerðarákvæðis. Loks segir í e-lið 3. tölul. 2. mgr. 20. gr. að í mati á umhverfisáhrifum skuli, eftir því sem við á, koma fram samanburður á umhverfisáhrifum þeirra kosta sem kynntir eru og rökstuðningur fyrir vali framkvæmdaraðila að teknu tilliti til umhverfisáhrifa.

Af framangreindum laga- og reglugerðarákvæðum, ásamt athugasemdum í frumvarpi því sem varð að lögum um mat á umhverfisáhrifum, er ljóst að samanburður umhverfisáhrifa þeirra valkosta sem til greina koma er lykilþáttur í mati á umhverfisáhrifum. Hefur verið staðfest í dóma- og úrskurðarframkvæmd að þegar á skorti að lagafyrirmælum þessum sé fylgt eða þau séu sniðgengin geti eftir atvikum verið um ógildingarannmarka að ræða, enda hafi það verulega þýðingu að slíkur samanburður hafi farið fram til að mat á umhverfisáhrifum þjóni markmiðum laga nr. 106/2000.

Í drögum framkvæmdaraðila að matsáætlun kemur fram að fyrirtækin hafi byggt upp lax- og silungseldi á Vestfjörðum og að áform fyrirtækjanna byggi á því að auka framleiðsluna og tryggja jafnframt umhverfisvænt og vistvænt framleiðsluferli. Er í áætluninni m.a. tilgreint hver staðsetning eldisins verði, framleiðsluaðferð tíunduð, tegundir sem aldar verði og af hvaða stofni, hönnun sjókvía, tilhögun flutninga á seiðum, hvaða fóður sé fyrirhugað að nota o.fl. Í kafla um umfang og áherslur umhverfismats segir jafnframt að umhverfisáhrif vegna fiskeldis séu að miklu leyti háð eldisbúnaði, notkun hans og verklagi við framkvæmd og taki framkvæmd og skipulag umhverfismats tillit til þessa. Þá kemur fram í kafla um gögn að í frummatsskýrslu verði lýsing á grunnástandi umhverfis og jafnframt mat og lýsing á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Verði stuðst við tiltæk rannsóknargögn og nýrra gagna aflað eftir þörfum. Er af lestri matsáætlunar ljóst að tilvitnuð gögn eiga við um þá einu tilhögun framkvæmdar sem framkvæmdaraðili leggur til.

Samkvæmt skilgreiningu 3. gr. laga nr. 106/2000 er matsskýrsla skýrsla framkvæmdaraðila um mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar framkvæmdar og starfsemi sem henni fylgir og ber framkvæmdaraðili ábyrgð á gerð skýrslunnar. Fjallað er um kosti til framkvæmdar í 6. kafla matsskýrslu framkvæmdaraðila. Þar segir svo: „Framkvæmdaraðilar setja aðeins fram einn valkost vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar. Sjókvíaeldi í Patreks- og Tálknafirði er mikilvægur hlekkur í uppbyggingu sjókvíaeldis Fjarðalax og Arctic Sea Farm, eins og lýst var í kafla 1. Eini raunhæfi möguleikinn á uppbyggingu sjálfbærs og vistvæns sjókvíaeldis á Vestfjörðum er, að mati fyrirtækjanna, kynslóðaskipt eldi með hvíld svæða. Fyrirtækin hafa undanfarin misseri unnið greiningarvinnu sem miðar að því að finna heppileg eldissvæði sem uppfylla markmið um rekstraröryggi, umhverfisaðstæður, umhverfisáhrif og samfélagslega þætti. Þetta umhverfismat er hluti af þeirri vinnu.“ Enn fremur segir: „Eldissvæðin í Patreksfirði og Tálknafirði eru staðsett þannig að þau valdi sem minnstri röskun á annarri starfsemi eða athöfnum, svo sem siglingaleiðum. Jafnframt var staðsetning þeirra ákvörðuð út frá öldufari og hafstraumum til að tryggja bæði rekstraröryggi og tíð sjóskipti. Nú þegar er heimild fyrir 3.000 tonna laxeldi í Patreks- og Tálknafirði. Fyrirhuguð framleiðsluaukning leiðir af sér tilfærslu og stækkun á athafnasvæðum. Til að lágmarka staðbundin umhverfisáhrif er mikilvægt að eldissvæði séu nægjanlega stór til að rúma tilfærslu á staðsetningum eldiskvía innan þeirra.“ Loks er tiltekið: „Með núll kosti verður ekkert af þeim umtalsverða samfélagslega ávinningi sem áður hefur verið lýst. Á hinn bóginn verða ekki neikvæð áhrif á lífríkið og aðra náttúru með þeim valkosti. Ekki er fjallað sérstaklega um áhrif núllkosts í einstökum köflum í umhverfismatsgreiningunni hér að framan.“ Var þannig ekki fjallað um aðra valkosti en aðalvalkost framkvæmdaraðila í matsskýrslu fyrirtækjanna og fór því ekki fram neinn samanburður á umhverfisáhrifum mismunandi kosta.

Skipulagsstofnun samþykkti matsáætlun framkvæmdaraðila með athugasemdum, en þær athugasemdir lutu ekki að skorti á valkostum framkvæmdarinnar. Stofnunin nýtti ekki heldur þá heimild sem hún hefur skv. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 106/2000 til að hafna því að taka frummatsskýrslu til athugunar, en frá einum kærenda þessa máls kom fram krafa um að svo yrði gert vegna fyrirmæla í 2. mgr. 9. gr. laganna. Þá var í áliti Skipulagsstofnunar fjallað um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar en í engu um samanburð á þeim við umhverfisáhrif annarra valkosta, enda var slíkur samanburður ekki til staðar í matsskýrslu framkvæmdaraðila. Þó var í niðurstöðu álitsins, í umfjöllun um hættu á erfðablöndun, vikið að því að í umræðu í samfélaginu hefði verið bent á þann kost að nýta geldfisk í sjókvíaeldi í því skyni að koma í veg fyrir erfðablöndun. Teldi Skipulagsstofnun mikilvægt að leyfisveitendur og fiskeldisaðilar fylgdust vel með þróun þessarar tækni og beindi því til þessara aðila að skoða þennan kost við leyfisveitingar til fiskeldis í sjó við strendur Íslands. Tók stofnunin fram að ef slíkt eldi væri raunhæft myndi það leysa þann þátt sem helst ylli áhyggjum varðandi umhverfisáhrif laxeldis í sjókvíum hér við land.

Ljóst er að framkvæmdaraðili kaus að leggja einungis einn valkost framkvæmdar fram til mats á umhverfisáhrifum og að við það var ekki gerð athugasemd af hálfu Skipulagsstofnunar. Í trássi við lög var ekki á neinu stigi málsmeðferðarinnar gerð gangskör að því að greina frekari valkosti og bera umhverfisáhrif þeirra saman við umhverfisáhrif aðalvalkosts framkvæmdaraðila. Var því ekki fullnægt þeim áskilnaði 2. mgr. 9. gr. laga nr. 106/2000, eða þeirra annarra laga- og reglugerðarákvæða sem áður hafa verið rakin, að gerð væri grein fyrir helstu möguleikum sem til greina kæmu og umhverfisáhrifum þeirra og þeir séu bornir saman. Kemur þá til skoðunar hverju það varði.

——-

Leyfishafi hefur í athugasemdum sínum til úrskurðarnefndarinnar borið því við að engum öðrum raunhæfum valkostum hafi verið teflt fram sem ná myndu markmiðum framkvæmdarinnar, enda sé viðurkennt að enn sé í þróun notkun á ófrjóum laxi, eldi í lokuðum sjókvíum og umfangsmikið landeldi á laxfiskum. Enn fremur að það væri óraunhæft og íþyngjandi ef hann yrði skyldaður til að fjalla um annars konar fiskeldi en hann starfi við og telji mögulegt fyrir sig að starfa við.

Matsáætlun er í 3. gr. laga nr. 106/2000 skilgreind sem áætlun framkvæmdaraðila, byggð á tillögu hans um hvaða þætti framkvæmdarinnar og umhverfis leggja skuli áherslu á í frummatsskýrslu og um kynningu og samráð við gerð skýrslunnar. Er lögð áhersla á ákveðið forræði framkvæmdaraðila á því hvaða framkvæmdakostir uppfylli markmið framkvæmdar. Hefur það forræði verið viðurkennt í dómaframkvæmd, að því gefnu að mat framkvæmdaraðila sé reist á hlutlægum og málefnalegum grunni. Hins vegar verður ekki af þeim fordæmum ráðið að það forræði sé svo víðtækt að framkvæmdaraðili geti lagt einungis einn kost fram til mats á umhverfisáhrifum. Má í því sambandi vísa til málsatvika í dómi Hæstaréttar í máli nr. 22/2009 þar sem framkvæmdaraðili hafði lagt fram þrjá valkosti en deilt var um hvort fleiri valkostir teldust koma til greina. Orðalag laga nr. 106/2000 um að fjalla beri um þá kosti sem til greina komi verður ekki heldur skilið svo að framkvæmdaraðili geti einskorðað umfjöllun sína við þann kost sem honum hugnast best, heldur hvílir á honum sú ótvíræða skylda að kanna til hlítar þá möguleika sem almennt geta komið til greina, lýsa þeim og umhverfisáhrifum þeirra og bera þá saman. Það að hann hafi ekki reynslu eða þekkingu á öðrum möguleikum en þeim sem hann leggur helst til leysir hann ekki undan þeirri lögbundnu skyldu þótt það kunni að reynast honum dýrt eða erfitt að uppfylla hana. Er í þessu sambandi rétt að benda á að leyfisveiting, líkt og sú sem hér um ræðir, er ívilnandi ákvörðun um að leyfa framkvæmd sem felur í sér ákveðna starfsemi eða nýtingu, sem getur eftir atvikum verið mengandi og gengið á eða takmarkað rétt annarra.

Samkvæmt 1. kafla 1 í matsskýrslu er það markmið framkvæmdaraðila að auka framleiðslu á eldislaxi. Byggja áform þeirra á því að framleiðsla og afurðir fyrirtækjanna verði umhverfisvænar og hafa framkvæmdaraðilar í því skyni lagt upp með ákveðna tilhögun framkvæmdar. Eru sjónarmið framkvæmdaraðila málefnaleg og tilhögun sú sem þeir leggja til er til þess fallin að ná markmiðum framkvæmdarinnar um framleiðsluaukningu. Það skal þó áréttað að greining valkosta þarf að fara fram af hálfu framkvæmdaraðila án þess að þeir séu útilokaðir of snemma í ferlinu, t.a.m. vegna fyrirfram gefinna forsendna eða hugmynda hans, enda færi það beinlínis gegn þeim lögfestu markmiðum mats á umhverfisáhrifum að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdar og hvetja til breiðara samráðs um framkvæmd, sbr. ákvæði b- til d-liða 1. gr. laga nr. 106/2000. Þá sér þess ekki stað í matsáætlun, matsskýrslu eða áliti Skipulagsstofnunar að sérstakar rannsóknir hafi farið fram áður en aðrir valkostir voru slegnir út af borðinu og er í þessum gögnum ekki rökstutt sérstaklega af hverju það var gert. Þó má af áliti Skipulagsstofnunar ráða að hún taki undir með framkvæmdaraðila að enn sem komið er sé eldi með geldfiska ekki raunhæft.

Það er ekki loku fyrir það skotið að einhverjir þeirra valkosta sem kærendur hafa nefnt komi ekki til greina í skilningi 8. og 9. gr. laga nr. 106/2000. Með hliðsjón af þeim laga- og reglugerðarákvæðum sem áður hafa verið rakin geta mismunandi valkostir t.d. falist í mismunandi staðsetningu, umfangi, tilhögun, tæknilegri útfærslu o.s.frv. er afar ólíklegt að ekki finnist a.m.k. einn annar valkostur sem hægt er að leggja fram til mats svo framarlega sem framkvæmdaraðili sinnir þeirri skyldu sinni að gera víðtæka könnun á þeim kostum sem til greina geta komið. Verður ekki við það unað í mati á umhverfisáhrifum að einungis séu metin umhverfisáhrif eins valkosts. Fer enda þá ekki fram sá nauðsynlegi samanburður umhverfisáhrifa fleiri kosta sem lögbundin krafa er gerð um, allt í þeim tilgangi að leyfisveitandi geti tekið upplýsta afstöðu að fullrannsökuðu máli til þess að meta hvort eða með hvaða hætti hægt sé að leyfa framkvæmd þannig að skilyrði laga séu uppfyllt. Þar sem ekki hefur verið sýnt fram á í mati á umhverfisáhrifum að enginn annar mögulegur framkvæmdarkostur hafi getað komið til greina í skilningi 2. málsl. 1. mgr. 8. gr. og 4. málsl. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 106/2000 verður að telja það verulegan ágalla á matinu að engum öðrum kosti var lýst að öðru leyti en vísað væri til þess að núllkostur hefði engin áhrif í för með sér.

Að teknu tilliti til nefnds ágalla og markmiða þeirra sem að er stefnt með mati á umhverfisáhrifum gat matsskýrsla framkvæmdaraðila og álit Skipulagsstofnunar á henni ekki verið lögmætur grundvöllur fyrir ákvörðun um veitingu leyfa til framkvæmda, s.s. þess rekstrarleyfis sem hér er deilt um. Bar Umhverfisstofnun, sem því stjórnvaldi sem hið kærða leyfi veitti, skylda til að tryggja að málið væri nægilega upplýst, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, en í því felst að gæta að því að lögbundið álit Skipulagsstofnunar sé nægilega traustur grundvöllur leyfisveitingar. Var sérstakt tilefni fyrir Umhverfisstofnun að kanna þetta í ljósi þess að við lögbundna meðferð hinnar kærðu leyfisveitingar hjá stofnuninni skv. lögum nr. 7/1998 komu fram athugasemdir frá kærendum þess efnis að stofnunin hefði ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni varðandi samanburð valkosta sem til greina kæmu og var vísað um það atriði til  2. mgr. 9. gr. laga nr. 106/2000 og h-liðar 1. tölul. 2. mgr. 20. gr. reglugerðar nr. 660/2015. Svaraði stofnunin því svo til að hún hefði tekið fullt tillit til mats á umhverfisáhrifum og tekið afstöðu til niðurstaða þess, auk þess að taka tillit til burðarþolsmats Hafrannsóknastofnunar. Benti Umhverfisstofnun jafnframt á að það væri á ábyrgð framkvæmdaraðila að vinna matsskýrslu og Skipulagsstofnunar að fylgja eftir þeim gæðakröfum sem fram kæmu í lögum um mat á umhverfisáhrifum. Í þessu sambandi skal áréttað að ekki einungis hvílir á leyfisveitendum sjálfstæð rannsóknarskylda heldur líka sú skylda að taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar. Svo sem áður greinir þarf það álit að fullnægja lágmarksskilyrðum um rökstuðning og efnisinnihald og ná skyldur leyfisveitanda skv. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 því ekki einvörðungu til þess að taka afstöðu til þeirra efnislegu niðurstaða sem í álitinu felast heldur einnig til þess að kanna hvort aðrir annmarkar geti verið til staðar, s.s. að skort hafi á umfjöllun um valkosti og umhverfisáhrif þeirra og gerður nauðsynlegur samanburður.

Með hliðsjón af framangreindu verður að telja hina kærðu leyfisveitingu slíkum annmörkum háða að varði ógildingu starfsleyfisins.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 13. desember 2017 um veitingu starfsleyfis til handa Fjarðalax fyrir 10.700 tonna ársframleiðslu á laxi í sjókvíum í Patreksfirði og Tálknafirði.

74, 75 og 78/2017 Hafnarstræti

Með

Árið 2018, föstudaginn 28. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 74/2017, kæra á ákvörðun skipulagsstjóra Akureyrarbæjar frá 12. júní 2017 um að veita byggingarleyfi til að breyta tveimur eignarhlutum á 2. hæð fjöleignarhússins að Hafnarstræti 99-101 á Akureyri í gistiskála.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. júlí 2017, er barst nefndinni 6. s.m., kæra Frikkabílar sf., Grensásvegi 14, Reykjavík, þá ákvörðun skipulagsstjóra Akureyrarbæjar frá 12. júní 2017 að veita byggingarleyfi til að breyta tveimur eignarhlutum á 2. hæð Hafnarstrætis 99-101 í gistiskála.

Með bréfum til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. og 12. júlí 2017, sem bárust úrskurðarnefndinni 7. og 13. s.m., kæra félögin ORF ehf., Dalvegi 16d, Kópavogi, og GM Investment ehf., Álfkonuhvarfi 33, Kópavogi, fyrrgreinda ákvörðun skipulagsstjóra Akureyrarbæjar. Þar sem kærumálin varða sömu ákvörðun og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi, verða greind kærumál, sem eru nr. 75/2017 og 78/2017, sameinuð máli þessu. Verður að skilja málatilbúnað kærenda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Akureyrarbæ 16. ágúst 2017.

Málavextir:
Hinn 24. mars 2017 samþykkti staðgengill byggingarfulltrúa Akureyrarbæjar á afgreiðslufundi sínum umsókn um byggingarleyfi fyrir breytingum á eignarhlutum 223-3630 og 223-3629 á 2. hæð Hafnarstrætis 99-101. Fól umsóknin í sér að nefndir eignarhlutar, sem áður hýstu sjónvarpsstöð og tónlistarskóla, yrði breytt í morgunverðarsal og gistiskála. Var umsóknin samþykkt með þeim fyrirvara að þinglýst yrði kvöð á eignarhlutana vegna flóttaleiða og var yfirlýsing þess efnis þinglýst 6. júní 2017 hjá sýslumanninum á Norðurlandi eystra. Hinn 12. júní 2017 var byggingarleyfi fyrir breytingunum gefið út.

Málsrök kærenda: Kærendur, sem eru eigendur séreignarhluta á 1. hæð fjöleignarhússins að Hafnarstræti 99-101, benda á að í hinu kærða byggingarleyfi sé gert ráð fyrir að öll umferð 2. hæðar hússins fari um inngang verslana hússins en ekki stigagang sem gerður hafi verið fyrir hæðina. Þessi breyting hafi ekki verið rædd við eigendur á 1. hæð en samkvæmt lögum þurfi að liggja fyrir samþykki allra eigenda sameignar þegar um stórvægilega breytingu á sameign sé að ræða. Máli sínu til stuðnings vísa kærendur til 19. og 27. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.

Málsrök Akureyrarbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er farið fram á frávísun málsins þar sem kröfur kærenda byggjast eingöngu á ágreiningi um innanhússmál sameignar en ekki sé gerð krafa um ógildingu byggingarleyfis. Í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segi að kæra til nefndarinnar skuli vera skrifleg og undirrituð. Þar skuli koma fram hver sé kærandi, hvaða ákvörðun sé kærð, kröfur kæranda og rök fyrir kæru. Í kærum komi hvorki fram réttir handhafar byggingarleyfis né þær kröfur sem kærendur geri. Ekki liggi ljóst fyrir hvort allir kærendur eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Þá leiki vafi á því hvort GM Investment ehf. hafi kært innan kærufrests skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verði ekki fallist á frávísun sé farið fram á að kröfum kærenda verði hafnað.

Fasteignin Hafnarstræti 99-101 sé með tvö inngönguport. Nyrðra inngönguportið sé í sameign allra en syðra inngönguportið, sem deilt sé um aðgang að í máli þessu, leiði inn á verslunargang á 1. hæð sem sé í sameign sumra, þar á meðal séreignar 223-3630 á 2. hæð. Eignin á 2. hæð sé með beinan og óhindraðan aðgang um stiga niður í sameign sumra á 1. hæð. Syðri útgangurinn sé neyðarútgangur fyrir eignina. Hann megi því ekki vera læstur innan frá. Útganga frá 2. hæð niður í sameign sumra á 1. hæð verði því ætíð að vera möguleg. Þeir sem nýti sér þjónustu gistiskála, sem byggingarleyfið varði, geti því valið um að fara um inngang í syðri eða nyrðri portunum. Bent sé á að ekki komi fram í byggingarleyfinu hvaða inngang gestir gistiaðstöðunnar skuli nota innan fasteignar, enda sé það hinu kærða byggingarleyfi óviðkomandi.

Umrædd fasteign sé í miðbæ Akureyrar og er þar gert ráð fyrir fjölbreytileg atvinnustarfsemi, þ.m.t. umfangsmikilli verslunar-, viðskipta- og þjónustustarfsemi samkvæmt deiliskipulagi miðbæjar sem samþykkt hafi verið í bæjarstjórn Akureyrar 6. maí 2014 og tekið hafi gildi 22. júlí s.á. Við Hafnarstræti séu verslanir, veitinga- og gistihús ásamt opinberri þjónustu og í húsinu að Hafnarstræti 99-101 séu verslanir, gistiaðstaða og opinber þjónusta. Með hinni kærðu ákvörðun hafi ekki verið breytt hagnýtingu viðkomandi séreignarhluta frá því sem gert hafi verið ráð fyrir í upphafi og því ekki þörf á samþykki sameigenda vegna breytinganna skv. 27. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994.

Ágreiningur máls þessa snúist ekki um afnot sameignar heldur um það hvenær og hvort inngangur í sameign sumra á 1. hæð, í syðra porti, eigi að vera opinn eða lokaður að utanverðu á þeim tíma sem verslanir við sameignarganginn séu lokaðar. Þar sem sá inngangur sé neyðarinngangur fyrir 2. hæð, verði hann alltaf að vera opnanlegur að innan. Aðgangsstýringar að utan séu innanhúsmál sem eigendur verði að ráða með sér á húsfundi. Um það geti sveitarfélagið ekki sett skilyrði í byggingarleyfi.

Athugasemdir leyfishafa:
Af hálfu leyfishafa er bent á að sem eigandi tveggja eignarhluta í fasteigninni Hafnarstræti 99-101 hafi hann fengið leyfi til að opna á milli eignarhlutanna og nota sem gistiheimili. Inngangur í annan eignarhlutann verði nýttur sem flóttaleið og inngangur fyrir þá sem nota lyftu og hinn innganginn sem aðalinngangur. Húsnæði leyfishafa sem nota eigi sem gistiheimili séu tveir eignarhlutar. Annar þeirra hafi hýst starfsemi sjónvarpsstöðvarinnar N4 en í hinum hafi verið rekinn 100 nemenda tónlistarskóli. Aðkoma að tónlistarskólanum hafi verið um inngang verslana, líkt og kærendur kalli hann. Gistiheimilið sé með leyfi fyrir 84 gesti á meðan 100 nemendur hafi verið í tónlistarskólanum og því sé ekki um aukinn umgang í sameign að ræða.

Ákvæði 4. mgr. 39. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús kveði á um að sameiginlegar ákvarðanir skuli teknar á sameiginlegum fundi eigenda. Haldinn hafi verið húsfundur 28. nóvember 2016 þar sem teikningar leyfishafa hafi verið lagðar fram til kynningar og umræðu. Ákveðið hafi verið að halda annan fund tíu dögum síðar, þar sem meðeigendur leyfishafa myndu gefa upp afstöðu sína til tillögu um gistiheimili á annarri hæð eignarinnar. Formanni húsfélagsins hafi verið falið að koma teikningum til kærenda og boða til fundar 8. desember 2016, sem hann og hafi gert með ábyrgðarpósti á lögheimili og tölvupósti. Ekki hafi verið þörf á samþykki meðeigenda fyrir umdeildum breytingum á séreign leyfishafa en samráð hafi engu að síður verið haft af tillitssemi við þá

Á húsfundi 8. desember 2016 hafi allir viðstaddir veitt samþykki sitt fyrir því að í eignarhlutum leyfishafa yrði rekið gistiheimili, þó sumir með athugasemd, t.d. um skiptingu sameignarkostnaðar og að notaður yrði inngangur sem kærendur kalla inngang verslana, sem leyfishafa hafi talið sjálfsagt að verða við. Kærendur hafi ekki mætt á fundinn þrátt fyrir boðun og séu þeir bundnir af ákvörðunum sem þar hafi verið teknar þar sem boðað hafi verið til fundarins með lögmætum hætti auk þess sem aðrir meðeigendur myndi svo stóran meirihluta að atkvæði kærenda hefði engu breytt um niðurstöðu tillögu fundarins. Ljóst megi vera að ekki sé um verulega breytingu á sameign að ræða. Tveir inngangar séu í gistiheimili leyfishafa, flótta- og lyftuleið og aðalinngangur sem sé um sameign kærenda, leyfishafa og sportvöruverslunar.

Ákvæði 27. gr. laga um fjöleignarhús um breytta hagnýtingu á séreign eigi ekki við í máli þessu enda meginreglan skv. 26. gr. laganna sú að eigandi hafi einn rétt til umráða og ráðstöfunar yfir séreign sinni. Hin breytta atvinnustarfsemi hafi ekki í för með sér verulega meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur en áður hafi verið og gangi og gerist í sambærilegum húsum. Kærendur hafi ekki fært nein rök fyrir því að breytingin feli í sér röskun á hagsmunum þeirra. Megi í því sambandi einnig vísa til álits kærunefndar húsamála í máli nr. 34/2014 þar sem talið hafi verið að eigandi þyrfti ekki samþykki annarra eigenda fyrir að breyta atvinnuhúsnæði sínu í íbúðarhúsnæði. Verði talið að ákvæði 27. gr. eigi yfir höfuð við ætti 3. mgr. ákvæðisins við um breytinguna, en þar segi að sé um að ræða breytta hagnýtingu sem ekki sé veruleg sé nægilegt að fá samþykki einfalds meirihluta. Slíkt samþykki liggi fyrir í máli þessu þar sem stærstur hluti eigenda hafi samþykkt breytinguna á húsfundi.

Niðurstaða: Útgáfa byggingarleyfis veitir leyfishafa heimild til að hefja framkvæmdir í samræmi við þegar samþykkta umsókn þegar viðbótarskilyrði 13. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 eru uppfyllt, s.s. um frekari hönnunargögn og greiðslu gjalda. Útgáfa byggingarleyfisins ein og sér felur ekki í sér kæranlega stjórnvaldsákvörðun, enda hefur þá þegar verið fallist á efnisinnihald leyfisins með samþykki umsóknar um byggingarleyfi skv. 9. gr. mannvirkjalaga sem felur í sér kæranlega stjórnvaldsákvörðun. Verður því svo litið á að í máli þessu sé kærð sú ákvörðun staðgengils byggingarfulltrúa frá 24. mars 2017 að samþykkja hina kærðu breytingu á notkun séreignarhluta leyfishafa að Hafnarstræti 99-101 á Akureyri.

Kærendur eru eigendur að sameign með leyfishafa á 1. hæð að Hafnarstræti 99-101. Hið umdeilda byggingarleyfi varðar breytingu á séreign leyfishafa á 2. hæð fasteignarinnar sem getur m.a. haft áhrif á umferð í gegnum sameign á 1. hæð. Getur hin kærða ákvörðun snert hagsmuni kærenda, sbr. ákvæði laga um fjöleignarhús nr. 26/1994. Teljast þeir því eiga lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun í skilningi 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Fyrir liggur að ágreiningur máls þessa snýst um lögmæti umdeilds byggingarleyfis. Með hliðsjón af þeirri leiðbeiningar- og rannsóknarskyldu sem á úrskurðarnefndinni hvílir, sbr. 7. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, verður málinu ekki vísað frá úrskurðarnefndinni sökum vanreifunar.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Ekki liggur fyrir að kærendum hafi verið tilkynnt um samþykki byggingaráforma eða útgáfu byggingarleyfisins 12. júní 2017, en fyrr var ekki heimilt að ráðast í hinar umdeildu breytingar, sbr. 5. tl. 3. gr. mannvirkjalaga. Kæra GM Investment ehf., barst úrskurðarnefndinni 13. júlí s.á. Gera verður ráð fyrir að kæranda hafi ekki verið kunnugt um hið kærða byggingarleyfi á sama degi og það var gefið út og barst kæran því innan kærufrests. Verður mál þetta tekið til efnismeðferðar af framangreindum ástæðum.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga er ekki heimilt að breyta notkun mannvirkis nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa og skulu með byggingarleyfisumsókn fylgja nauðsynleg gögn, m.a. samþykki meðeigenda ef þess er þörf samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laganna.

Í 1. mgr. 26. gr. fjöleignarhúsalaga kemur fram að einungis eigandi hafi rétt til umráða og hagnýtingar á séreign sinni með þeim takmörkunum einum sem í lögunum greinir, öðrum lögum eða leiði af óskráðum grenndarreglum, eðli máls eða byggi á löglegum ákvörðunum og samþykktum húsfélags. Í 27. gr. laganna er kveðið á um takmörkun á rétti eiganda til breytingar á hagnýtingu séreignar. Fram kemur í 1. mgr. ákvæðisins að breyting á hagnýtingu séreignar frá því sem verið hefur eða ráð var fyrir gert í upphafi, sem hafi í för með sér verulega meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur eða afnotahafa en áður hafi verið og gengur og gerist í sambærilegum húsum, séu háðar samþykki allra eigenda hússins. Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. getur eigandi ekki sett sig á móti slíkri breytingu ef sýnt er að hún hafi ekki í för með sér neina röskun á lögmætum hagsmunum hans, sbr. 2. mgr. Þá kemur fram í 3. mgr. ákvæðisins að ef breytt hagnýting sé ekki veruleg sé nægilegt að samþykki einfalds meirihluta miðað við fjölda og eignarhluta liggi fyrir.

Samkvæmt Aðalskipulagi Akureyrar 2005-2018 heyrir umrætt svæði undir miðbæ Akureyrar. Í kafla skipulagsins er nefnist „Miðbærinn“ segir svo um stefnu um landnotkun að styrkja skuli stöðu miðbæjar Akureyrar sem hjarta bæjarlífsins og þungamiðju verslunar og þjónustu á Norðurlandi. Í miðbænum verði blönduð byggð íbúða, verslunar, þjónustu og stofnana. Þá kemur fram að húsnæði á efri hæðum í miðbænum, eftir því sem við getur átt, verði nýtt fyrir íbúðir eða skrifstofur og þjónustustarfsemi.

Fasteignaeigendur á tilteknu skipulagssvæði eiga að jafnaði rétt til þess að nota fasteign sína í samræmi við heimildir gildandi skipulags og þurfa að sæta því að aðrir fasteignaeigendur geri slíkt hið sama, að uppfylltum skilyrðum laga og reglna. Eins og að framan er rakið er umrædd fasteign í miðbæ Akureyrar þar sem gert er ráð fyrir fjölbreyttri miðbæjarstarfsemi. Rúmast heimiluð notkun séreignarhluta leyfishafa innan landnotkunar aðalskipulags fyrir umrætt svæði.

Í húsinu að Hafnarstræti 99-101 er rekin fjölþætt starfsemi eins og áður greinir og eru tveir inngangar í húsið, annar í sameign allra og hinn í sameign sumra, þ. á m. leyfishafa og kærenda. Hið kærða byggingarleyfi felur ekki í sér ákvörðun um hvernig aðgangi að séreignarhlutum leyfishafa skuli háttað. Um nýtingu sameignar er fjallað í 1. mgr. 34. gr. fjöleignahúsalaga og kemur þar fram sú meginregla að sameigendur eigi jafnan rétt til nýtingar hennar. Ekki verður séð að breytt hagnýting umræddra séreignarhluta hafi í för með breytingu á notkun sameignar leyfishafa í vil á kostnað annarra sameigenda eða af hljótist aukið ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur hússins.

Með hliðsjón af framangreindu verður ekki talið að kærendur eigi íhlutunarrétt vegna hinnar breyttu notkunar leyfishafa á séreign hans skv. 27. gr. fjöleignarhúsalaganna og var honum því heimilt að breyta hagnýtingu umræddrar séreignar án samþykkis sameigenda, sbr. 2. mgr. nefndrar lagagreinar.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður ekki séð að hið kærða byggingarleyfi sé haldið annmörkum sem raskað geti gildi þess og verður kröfu kærenda um ógildingu þess því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar staðgengils byggingarfulltrúa frá 24. mars 2017 að samþykkja byggingarleyfi til þess að breyta tveimur eignarhlutum á 2. hæð Hafnarstrætis 99-101 í gistiskála.

116/2017 Furugerði

Með

Árið 2018, föstudaginn 28. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 116/2017, kæra vegna ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík um að aðhafast ekki vegna skjólveggjar á lóðarmörkum Furugerðis 5 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. október 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi íbúðar að Furugerði 5, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 5. október 2017 að aðhafast ekki vegna erindis kæranda varðandi skjólvegg á lóðarmörkum Furugerðis 5. Verður að skilja málatilbúnað kæranda svo að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Umsögn Reykjavíkurborgar barst úrskurðarnefndinni 10. október 2017.

Málavextir: Á árunum 2004-2005 mun hafa verið reistur skjólveggur á lóðarmörkum Furugerðis 5 í Reykjavík án þess að gefið hafi verið út byggingarleyfi. Hinn 5. október 2017 sendi kærandi tölvupóst til byggingarfulltrúans í Reykjavík og gerði athugasemdir við að skjólveggurinn hafi verið reistur án tilskilins leyfis. Í svari byggingarfulltrúa við erindi kæranda sama dag kom fram að hann taldi sér ekki heimilt að beita íþyngjandi úrræðum vegna skjólveggjarins.

Málsrök kæranda: Kærandi gerir athugasemd við að reistur hafi verið skjólveggur á lóðarmörkum Furugerðis 5 án leyfis. Vísar kærandi til þágildandi 67. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 um að leita skuli samþykkis byggingarnefndar á gerð og frágangi girðingar ef hún sé hærri en 1,80 m.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Að mati borgaryfirvalda hafi embætti byggingarfulltrúa verið fullkomlega heimilt að afgreiða málið með þeim hætti sem gert var. Fram hafi komið í málinu að skjólveggurinn hafi staðið á lóðinni í fjölda ára án afskipta byggingaryfirvalda auk þess sem allir núverandi eigendur hafi keypt sína eignarhluta eftir að skjólveggnum hafi verið komið fyrir. Ekki sé hægt að sjá að gerðar hafi verið athugasemdir við skjólvegginn fyrr en nú og ekki sé loku fyrir það skotið að hann hafi verið reistur með samþykki aðliggjandi lóðarhafa á sínum tíma. Í öllu falli sé ljóst að þeir sem hagsmuni kunni að hafa að gæta í málinu hafi þannig sýnt af sér tómlæti vegna byggingar og stöðu veggjarins á lóðinni, en eðlilegt hefði verið að hafa uppi kröfu um aðgerðir í málinu á þeim tíma sem skjólveggurinn hafi verið reistur. Hvorki hafi verið sýnt fram á brýna nauðsyn þess að umræddur skjólveggur verði fjarlægður né að almannahagsmunir knýji á um það. Ekki sé hægt að fallast á þá röksemd kæranda að möguleg slysahætti stafi af veggnum. Við ákvörðun vísaði byggingarfulltrúi til meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að hafna því að beita þvingunarúrræðum í tilefni erindis kæranda vegna skjólveggjar á lóðarmörkum Furugerðis 5.

Ef ráðist hefur verið í byggingarskylda framkvæmd án tilskilins leyfis er byggingarfulltrúa heimilt að stöðva framkvæmdir eða krefjast úrbóta að viðlögðum dagsektum samkvæmt 55. og 56. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, sbr. og gr. 2.9.1. og 2.9.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Ákvörðun um beitingu þessara þvingunarúrræða er háð mati stjórnvalds hverju sinni og tekið er fram í athugasemdum við frumvarp það sem varð að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu úrræðanna sé í hverju tilviki metin, m.a. með tilliti til meðalhófs. Umrædd ákvæði gefa sveitarfélögum kost á að bregðast við ef gengið er gegn almannahagsmunum þeim er búa að baki mannvirkjalögum, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að einstaklingum sé tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunarúrræða vegna einstaklingshagsmuna, enda eru þeim tryggð önnur réttarúrræði til þess að verja þá hagsmuni sína. Þótt beiting úrræðanna sé háð mati stjórnvalds þarf ákvörðun þess efnis að vera studd efnislegum rökum, m.a. með hliðsjón af þeim hagsmunum sem búa að baki ákvæðum laga um mannvirki.

Hin kærða ákvörðun var studd þeim rökum að sameigendur lóðar Furugerðis 5 og lóðarhafar aðliggjandi lóða hafi sýnt af sér tómlæti, en ekki sé vitað til þess að núverandi eigendum skjólveggjarins hafi verið kunnugt um skort á leyfi eða samþykki er þeir hafi keypt eignir sínar, ekki væri fyrir hendi brýn nauðsyn á að fjarlægja skjólvegginn og ekki væri loku fyrir það skotið að samþykki nágranna hafi legið fyrir er veggurinn hafi verið reistur. Með hliðsjón af meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins taldi byggingarfulltrúi sér því ekki heimilt að beita íþyngjandi úrræðum. Lágu samkvæmt þessu efnisleg rök að baki hinni kærðu ákvörðun.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 5. október 2017 um að aðhafast ekki vegna skjólveggjar á lóðarmörkum Furugerðis 5.